Er sambandið þitt í hættu?

Flest viljum við eiga falleg og góð sambönd og erum tilbúin til að leggja heilmikið á okkur til að gera þau eins dásamleg og hægt er.

Stundum er þó eins og okkur takist ekki að ná þessu takmarki okkar þrátt fyrir góðan vilja, og því eru skilnaðir kannski eins tíðir og raun ber vitni um.

En hvað þarf til að sambönd geti átt sér farsælt líf í gleði fyrir báða aðila?

Eftir því sem ég hef lesið og kynnt mér að frátöldu því sem ég veit af eigin reynslu þá er það þannig að við þurfum að vera dugleg að skoða og bæta samböndin okkar dag frá degi og líta aldrei á það sem sjálfsagðan hlut að hafa manneskju við hlið okkar sem elskar okkur og vill lifa lífinu með okkur. 

Og ef við skoðum grunnstoðir sambanda þá eru nokkur atriði sem skipta meira máli en mörg önnur og mig langar að benda á nokkur þeirra hér. En munum að ástartungumálin eru nokkur og ekki víst að báðir aðilar falli inn í sama flokk þar. Yfirleitt er talað um að þessi ástartungumál séu fimm talsins, gjafir, snerting, þjónusta,orð og gæðastundir, og afar mismunandi hvað af þessu á við maka okkar.  Hvet alla til að kynna sér ástartungumál maka síns og sjá hvað af þessu gleður hann mest, held að það gæti forðað mörgum skilnaðinum (hægt er að finna próf á netinu sem hjálpa ykkur að finna ykkar tungumál).

Traust, vinátta, skuldbinding,samræður og tilfinningaleg viðtaka eru grunnstoðir þess að sambönd virki eðlilega, og í heilbrigðum samböndum er ástin tjáð reglulega frá báðum aðilum með ýmsum hætti.

Auðvitað eru táningaformin misjöfn en í flestum tilfellum er ástin tjáð með tíðum faðmlögum,innilegum orðum, nánd í kynlífi og fl. Eins reyna pörin yfirleitt að finna sér sameiginleg markmið og áhugamál sem þau geta sinnt í sameiningu og þau taka þátt í lífi hvers annars í gleði þess og sorg.

Báðir aðilar geta oftast sett sig í spor hins og séð hlutina frá hans eða hennar sjónarmiði og þeir ræða málin þar til lausn er fundin. Þeim tekst vel að greiða úr flækjum og erfiðleikum sambandsins og finna málamiðlun sem leysir úr flækjum sambandsins.

Þeir hvetja hvern annan til að vaxa og dafna, og standa við hlið hvors annars í blíðu og stríðu.

Þeir veita hvor öðrum frelsi og virða mörk hvors annars. Þeir eru verndandi á sambandið og tala fallega og af stolti um hinn aðilann.

Báðir aðilar sambandsins gera sér grein fyrir því að það þarf að næra sambandið með ýmsu móti svo að það dafni vel og þeir framkvæma það sem til þarf til að gera sambandið sterkara og sterkara með hverju nærandi augnabliki sem þeir setja inn í það.

Gott ráð til að viðhalda rómantíkinni er td að hafa sérstök deitkvöld einu sinni í mánuði eða oftar og svo eru óvæntar gjafir og uppákomur yfirleitt vinsælar ásamt mörgu öðru sem gleðja annan aðilann eða báða. 

En þegar samböndin eru komin á þann stað að þau gleðja ekki heldur valda vanlíðan eru eftirtalin atriði allt of oft til staðar:
 
Samræðurnar eru fylltar hæðni, biturleika og neikvæðni.
 
Útásetningar og neikvæðni varðandi persónuleika makans eru tíðar og jafnvel fullar fyrirlitningar. Allt of oft er gripið til varna og reiðiköst notuð, og allt of algengt er að aðilarnir kenni hvort öðru um að allt sé í ólagi í sambandinu.
 
 
jafnvel virðist stundum vera eins og aðilar sambandsins séu í sitthvoru liðinu og ætli sér að vinna stríðið með góðu eða illu í stað þess að horfa á sig sem samherja sem leita í sameiningu að lausn. Oft verða smáatriði að stórmálum þegar sambandið er komið á þetta stig og ástaratlotin minnka smá saman eða hverfa að mestu eða öllu úr sambandinu. Vanliðan er algeng og líkamleg einkenni fara að láta bera á sér með tilheyrandi kvíðatengdum tilfinningum og depurð. Sjaldan takast tilraunir sem gerðar eru til að laga sambandið eða sem ætlað er að draga úr spennu, og ekki finnast lausnir og málamiðlanir.
 
Ef þú kannast við eitthvað af þessum erfiðu atriðum hér að ofan þá er spurning um að fara að skoða málin af festu og finna rétta aðstoð svo að hægt sé að skipta þessum leiðindum út fyrir betri og næringarríkari nálgun ef mögulegt er.
 
Og það er hægt að gera svo margt til að næra sambandið, og með ákveðni er hægt að bæta inn í sambandið dag hvern litlum atriðum sem geta svo sannarlega gert kraftaverk.
 
Atriðum eins og að:
 
Sýna oftar væntumþykju, aðdáun, atlot, vera óspar/spör á ástarorð, senda falleg skilaboð eða skrifa falleg orð á blað. Snúa að makanum í stað þess að snúa frá honum, hlusta á makann án þess að grípa stöðugt til varna og fara í mótþróa. Leysa síðan í vinsemd úr vandamálunum með því að leita leiða til að bæta ástandið, gera fallega og skemmtilega (óvænta) hluti saman og byggja þannig upp framtíð þar sem tilfinningaleg opnun, faðmlög, jákvæðni, kossar og velvild ráða ríkjum og...
Voila - uppskeran gæti komið verulega á óvart og hver veit nema þið gætuð bara lifað happily ever after <3
 
Stundum þarf þó að fá þriðja aðila (Ráðgjafa)inn í málin þegar þau eru komin á erfiðan stað og ég hvet pör eindregið til þess að leita aðstoðar fyrr en seinna. Rannsóknir sýna nefnilega að pör eru að koma í ráðgjöf þegar allt er orðið um seinan, og ef ég man rétt þá að meðaltali um 6 árum of seint - Svo ekki bíða og ekki gera ekki neitt
 
Það er yfirleitt ekkert grænna grasið hinu megin við hólinn, og líklega tækjum við hvort sem er skapgerðabrestina okkar og alla sætu gallana með inn í næsta samband og þyrftum þá hvort sem er að vinna úr þeim þar.
 
Miklu betra að gera þetta bara núna, það er ekki eftir neinu að bíða!
 
xoxo
Ykkar Linda
 
Linda Baldvinsdóttir
Samskiptaráðgjafi/Markþjálfi 

 





Til hamingju með lífið!

Það er svo margt sem stuðlar að hamingju og óhamingju okkar, en eftirtalin atriði ákvað ég að setja hér inn sem mína útgáfu af því sem stuðlar að daglegri hamingju og vellíðan okkar. Líklega er mín uppskrift ekkert ólík öðrum hamingjuuppskriftum en aldrei er góð vísa of oft kveðin svo hér kemur mín hamingjuútgáfa...
 
Lífið er of sutt og dýrmætt til að eyða því í að vera óhamingjusamur. Að vera fúll út í einhvern eða eitthvað er sóun á hamingju og vellíðan. Svo væri kannski ráð að muna að allir eru líklega að gera sitt besta hverju sinni, hvort sem það er nægjanlega gott eða ekki.
 
Notaðu hvert tækifæri sem þú finnur til að hlæja eins mikið og þú mögulega getur, og búðu til gleðistundir með þeim sem þér þykir vænt um.
 
Segðu fyrirgefðu þegar það á við, það stækkar þig bara sem persónu og gefur þér aukna sjálfsvirðingu, við erum því miður víst ekki fullkomin og höfum jafnvel stundum rangt fyrir okkur og þá er gott að segja bara fyrirgefðu.
 
Slepptu tökum á því sem þú getur ekki breytt en breyttu því sem þú getur breytt eins og segir í gömlu æðruleysisbæninni. Og í guðanna bænum ekki eyða lífinu í áhyggjur af morgundeginum því áhyggjurnar ræna okkur gleðinni og styrknum sem nauðsynlegur er inn í þau viðfangsefni sem ollu okkur áhyggjunum í upphafi.
 
Elskaðu alltaf djúpt og innlega, faðmaðu og kysstu oft, hrósaðu og byggðu alla sem þú hittir á lífsveginum upp til góðra verka, og fyrirgefðu mannlega breyskleika í fari annarra fljótt, eins fljótt og þú vilt að aðrir fyrirgefi þér þína.
 
Taktu áhættur og gefðu allt sem þú hefur að gefa, því aðeins þannig nærðu árangri í lífinu eða lærir af ef árangur næst ekki. 
 
Ekki sjá eftir neinu í lífinu, það samverkar hvort sem er allt til góðs að lokum með einum eða öðrum hætti, og þú gerir bara betur næst.
 
Við komumst því miður ekki hjá því að það blási um okkur í lífinu því að lífið er eins og íslenska veðrið. Sól í dag, rok og rigning á morgun og snjór þriðja daginn, þannig að njóttu þess þegar vel gengur og þakkaðu fallega fyrir það. Mundu samt að allt tekur enda og við þurfum víst að taka því slæma með hinu góða.
 
Brostu breiðast þegar þú hefur minnstu ástæðuna til þess, því að heilinn þinn hjálpar þér að komast í gott skap með því framleiða góð boðefni við brosið þitt þar sem hann skilur ekki mun á raunveruleikanum og óraunveruleikanum, hann bara bregst við brosinu.
 
Fyllstu alltaf þakklæti fyrir allt sem þú hefur.
Þakklætið hefur tilhneigingu til að vaxa og eftir því sem við þökkum oftar fyrir það sem við höfum fáum við meira til að þakka fyrir, eitthvert lögmál þarna á ferð.
Og merkilegt nokk, öll spekirit sem ég hef lesið leggja áherslu á að það fallega sem til okkar kemur tengist þakklátum huga. Svo þökkum fyrirfram fyrir það sem við viljum sjá og fá inn í líf okkar.
 
Fyrirgefðu alltaf þín vegna (til að frelsa þig) en ekki vegna þess aðila sem á þér braut, en ekki gefa þeim sem meiða þig tækifæri á því að endurtaka sama ljóta leikinn gegn þér, forðaðu þér sem lengst í burtu frá öllu slíku.
 
Fordómar eru vondir fyrir alla og koma engu góðu til leiðar í veröldinni svo reynum að sleppa þeim.
Ekkert okkar vill vera fordæmt fyrir það eitt að vera þau sem við erum. Hvort sem við erum hvít, svört, kristin, ótrúuð, samkynhneigð, gagnkynhneigð, grönn, feit, ung, gömul, íslensk eða útlend, rík eða fátæk - VIRÐING er það sem við vorum kölluð til að sýna sjálfum okkur og öllum hinum sem við ferðumst með hér á jörðu . Munum að saga okkar allra er ólík og við sjáum ekki inn í hjörtu annarra, sem er þó eina færa leiðin svo að við getum dæmt réttlátlega.
 
Pössum orðin okkar, því að orð meiða stundum og notkun okkar á þeim getur einnig valdið misskilningi. Notum falleg uppbyggjandi orð og komum fallega fram við alla (okkur sjálf þar á meðal), byggjum upp, leysum úr misskilningi en rífum ekki hvert annað niður. 
 
Lærðu af verkefnum þeim sem þú færð til að kljást við í lífinu, en sjáðu aldrei eftir einu einasta andartaki lífs þíns. Njóttu þess að vera hér og nú og á lífi. Gerðu þitt besta alla daga og sæktu bara allt það sem þig langar til að upplifa í lífinu, þakkaðu svo pent fyrir daginn að kvöldi og svífðu inn í svefninn með ró í hjarta vitandi að þú gerðir allt þitt besta í öllum kringumstæðum - og það er alltaf nægjanlegt.
 
 
xoxo
Ykkar Linda
 
 

Um bloggið

Linda Baldvinsdóttir

Höfundur

Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Sept. 2017
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ..._s4i6862_2
  • ...0eaf470d6_2
  • ...98009927331
  • pistill mynd
  • 15608665 10210640975833107 554134899 o

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband