Hugleiðingar Lindu: Systur stöndum saman!

systurMér var boðið að tala á kvennaráðstefnu um daginn og ákvað í framhaldi af því að birta eitthvað af því sem ég talaði um þar í pistli hér. Reyndar er eitthvað af því sem er skrifað hér tekið úr pistli sem ég skrifaði í fyrra en hefur nú fengið framhald sitt hér.

 

 

 

 

 

 

Ég ætla að byrja á orðum sem ég sá á netinu.

Systur eru Þær:

sem fá fötin okkar  lánuð,

stela makeupinu frá okkur,

geyma leyndarmálin okkar ,

eru stundum svarnir óvinir okkar en oftast samt okkar bestu vinir .

Blaðra endalaust um allt og ekkert tímunum saman,

Þær eru flottar, sætar, stjórnsamar, kjánalegar, pirraðar

rífast stundum yfir engu,

upplifa draumana saman og styðja hvor aðra í að ná þeim,

þær geta verið algjör hausverkur, óþolandi, prinsessur.

en,

ég elska þær, sakna þeirra, stríði þeim, knúsa þær, hugsa til þeirra því að  þær eru fjölskylda mín og þær skipta mig afar miklu máli,

Hvar væri ég án þeirra?

 

Ég hef svo sannarlega fengið að kynnast því hversu dýrmætt það er að eiga sér systur en samt á ég engin blóðsystkini :)

Ég ólst upp úti á landi og þó að ég væri einkabarn var ég umkringd systradætrum mömmu og þær voru kannski fyrstu systurnar sem ég átti.

Ég  tók við fötunum af þeim þegar þau voru orðin of lítil á þær, ég lærði að verða skvísa af þeim og ég lærði líka ýmsa ósiði af þeim. Að standa úti í sjoppu með einni þeirra á táningsárunum púandi síkarettur og alveg örugglega með augnskugga upp um allt var eitt af því sem ekki var svo smart að læra,en mér þótti ógnar vænt um þær og við áttum yndisleg samskipti og vináttu í hinum ýmsu aðstæðum. 

En ég hef fengið að  kynnast fleiri systrum á lífsleiðinni og tel það svo sannarlega vera mín forréttindi að hafa átt margar og góðar systur í vinkonum mínum og öðrum konum sem ég hef kynnst, því að það hafa verið þær sem hafa stutt mig, annast og lyft mér upp þegar ég hef legið í dalnum og lífið hefur verið ósanngjarnt og vont að mínu mati. Á þeim stundum hafa það verið systur mínar sem hafa lagt það á sig að gefa mér tíma, þær hafa myndað múra í kringum mig, stutt mig, beðið fyrir mér, annast mig og gefið mér orð til uppbyggingar þegar ég er á hnjánum og á ekki von á því að lífið hafi uppá neitt að bjóða. Þær hafa fært mér súpuna þegar ég hef legið veik, barist fyrir mig þegar óvinir hafa ásótt mig og þegar ég er einmanna er ekkert betra en símtal eða heimsókn frá einhverri af mínum systrum.

Engin okkar kemur með manual með sér hingað og allar gerum við mistök á þessari leið...En það veit Guð að þær systur sem ég hef fengið að kynnast eiga flestar svo fallegan og dýrmætan kærleikskjarna sem þær eru í flestum tilfellum óhræddar við að deila með öðrum og eru bara svo stórkostlegar og sterkar að mínu mati.

Ég hreinlega elska það að geta hjálpað systrum mínum að finna lífsfarveg sem þær vilja ganga, að breyta gömlum og úreltum gildum til að ná á draumastaðina sem þær svo sannarlega eiga skilið að fá að ná í gefur mér gleði og ánægju, og að hjálpa konum að rísa upp frá stað veikleikans til staðs styrkleika í lífum sínum veitir mér sérstaka ánægju verð ég að segja.

Ég hef sem betur fer fengið mörg tækifæri til þess að sjá systur mínar vakna til vitundar um virði sitt og séð þær fara frá skömm til sjálfsvirðingar. Ég hef líka séð systur mínar vaxa frá vondum samböndum og verða sterkari en nokkru sinni fyrr. Ég hef séð þær sömu systur verða öðrum til blessunar, hvatningar og stuðnings eftir það, og fátt gleður mitt markþjálfahjarta meira en það.

 

En í  fyrra fékk ég svo upphringingu sem gaf orðinu systir allt aðra og dýpri þýðingu en ég hefði getað ímyndað mér að þetta orð gæti haft…

Þessi upphringing var frá æskuvinkonu minni sem er búin að vera með mér á þessari vegferð í tæp 50 ár núna eða frá því að við byrjuðum í skóla. Þetta símtal hljómaði eitthvað á þessa leið...Hæ elskan, ætlaði bara að láta þig vita hvað kom út úr læknisrannsókninni sem ég fór í...þeir fundu æxli í nýranu´á mér og það á að fjarlægja það í næstu viku…

Svo sannarlega ekki símtalið sem mig langaði að fá, og ekki þær fréttir sem þessi systir mín hefði átt að fá að mínu mati. Þessi yndislega vera sem var búin að fá svo mörg lífsverkefni upp í hendurnar átti bara skilið glimmer og gleði lífsins það sem eftir væri, og það átti svo sannarlega að vera löng ævi sem framundan væri.

Við áttum eftir að gera svo margt saman og það allt rann fram í huga minn á þessari stundu og mér fannst Guð ekki sanngjarn ákkúrat þarna.

En eins og alltaf hef ég séð að allt, ekki bara sumt samverkar okkur til góðs og einnig í þessum aðstæðum gerðist það.

Þetta varð wakeup call bæði fyrir hana og fyrir mig.

Og sem betur fer virðist hún ætla að sleppa vel eða ég krossa amk putta og vona að hún fái áframhaldandi fallegar fréttir úr rannsóknum þeim sem hún fer í ...en lærdómurinn sem þetta færði okkur er líklega ómetanlegur...Við lærðum hvað orðið systir táknaði…

Við gátum í fyrsta sinn grátið saman og sagt hvorri annarri hversu heitt við elskuðum hvor aðra þó að við hefðum svosem grátið saman við hin ýmsu tækifæri þá grétum við þarna vegna þess að að við vissum hversu dýrmæta og fallega vináttu við áttum, og eins höfðum við ekki talað mikið um það hversu mikið við mátum hvor aðra og hversu mikla virðingu við bárum fyrir hvor annarri,hversu mikils virði öll þessi ár hefðu verið fyrir okkur báðar.

En þarna fundum við að við höfðum staðið vörð um hvor aðra öll þessi ár og verið til staðar.

Mér þótti svo vænt um þegar hún í eitt skiptið eftir að við höfðum opnað okkur svona djúpt sagði við mig orð sem fengu hjarta mitt til að falla saman af auðmýkt...en þá sagði hún. ”ég horfði á þig tala upp á sviði um daginn og ég fann hvað ég varð ofboðslega stolt af þér og hversu heitt ég elskaði þig” þessum orðum mun ég seint gleyma vegna þess að þau glöddu mig svo afar mikið, þau voru svo einlæg að ég gat ekki annað en fundið fyrir auðmýkt þess sem veit að hann er umvafinn kærleika...Þannig kærleika geta líklega einungis systur sem farið hafa saman langa vegferð gefið hver annarri.

Við höfðum brallað margt saman þegar við vorum yngri, og við eigum óteljandi margar minningar frá misgáfuðum stundum. Vorum í skóla saman, unnum saman í fiskinum öll unglingsárin, hörkuduglegar báðar tvær. Fermdumst saman, hlógum þessi lifandis ósköp í þeirri athöfn og urðum foreldrum okkar líklega til skammar. Fórum saman í útilegurnar í Atlavík, Reykjavíkurferðirnar og vorum saman öllum stundum. Rifumst og töluðumst ekki við í einhverja daga, en alltaf fundum við lausn á þeim málum. Eignuðumst börn og mann á svipuðum tíma og vorum saman í saumaklúbb. Ekki hefur þetta breyst eftir að við fullorðnuðumst, við eigum ennþá þessa  fallegu vináttu sem ekkert fær haggað.

Ég var viðstödd tvær fæðingar hjá henni, var skírnarvottur barna hennar, en fylgdi því miður elsta barni hennar til grafar, einnig þar vorum við saman og tókumst á við það í sameiningu.

Ég var einnig við hlið hennar þegar hún tók þá ákvörðun að fyrirgefa manni þeim sem varð valdur að dauða sonar hennar og þar kom best í ljós hvaða karakter þessi fallega og yndislega systir bjó yfir.

Ég gleymi ekki orðum hennar þegar hún sagði við mig eftir að hafa tekið utan um mann þennan “ Það var svo gott að finna hvað hann átti til blítt faðmlag” voru þau orð. Orðið fyrirgefning fékk algjörlega nýja merkingu í mínum huga eftir þessa stund.

Við höfum einfaldlega gengið í gegnum þetta líf saman í einingu og kærleika og erum í dag eins og gömul hjón. Við getum setið saman heilu kvöldstundirnar án þess að segja orð, nærveran okkur einfaldlega nægjanleg. Hún veit mín leyndarmál og ég hennar, hún veit oft hvernig mér líður án þess að ég þurfi að segja orð, og ég veit líka ef eitthvað er ekki eins og það á að vera hjá henni. Hún veit hvað mér þykir gott að borða góðan mat og dekrar mig oft þar. Hún veit líka að vöðvabólgan er oft að drepa mig, og hún nuddar háls minn og herðar og þekkir öll mín aumustu svæði án þess að ég þurfi að segja henni hvar þau eru.  Ég veit líka hvernig ég gleð hana mest og best og veit að fátt gleður hana meira en að fá að vita að hún sé mér afar kær og að ég muni aldrei yfirgefa vináttu okkar sama hvert lífið leiðir mig.

Hún hefur verið vitni að mínu lífi og ég að hennar. Vinátta sem mun aldrei slitna og verður til staðar í gleði okkar og sorg.

Sorgin sem ég fann fyrir þegar ég fékk þetta símtal var einmitt vegna þess að það er svo sárt að vera minntur á að þeir sem við höfum haft sem vitni að lífum okkar og við höfum elskað, verða kannski ekki alltaf til staðar til að vitna það. Dauðleiki okkar sjálfra verður einnig svo raunverulegur á þessum stundum.

Að gleðjast saman, gráta saman, vera saman, standa saman og mynda einingakeðju þegar stormurinn geisar  og vefja með öllu þessu keðju minninga sem verður svo dýrmæt að ekkert fær hana rofið, ekki einu sinni dauðinn sjálfur er gjörsamlega ómetanlegt að mínu mati.

Ég hugsa að það séu margir sem eiga auðvelt með að skilja hvað ég er að tala um og finni jafnvel hryggð í hjarta sínu við orð mín.

En við getum svo sannarlega glaðst ef við eignumst þó ekki sé nema eina slíka systur á lífsveginum því að þetta er dýrmæt lífsgjöf sem ber að meta með gleðina að mælistiku.

Systrasamband  er dýrmætara en flest annað.  Og það er kærleikur ykkar til hverrar annarrar  sem gefur lífinu svo sannarlega að miklum hluta gildi sitt og virði.

Ég óska ykkur elsku systur gleði, glimmers og brilliant stunda þar sem þið finnið lífstilgang ykkar og ykkar einstaka hlutverk, ykkur og öðrum til gagns og hamingju.

xoxo

Ykkar Linda

linda@manngildi.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Linda Baldvinsdóttir

Höfundur

Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • ..._s4i6862_2
  • ...0eaf470d6_2
  • ...98009927331
  • pistill mynd
  • 15608665 10210640975833107 554134899 o

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband