Viltu losna við streituna?

Ég eins og við flest leita annað slagið að sjálfri mér upp á nýtt þegar ég týnist í aðstæðum lífsins og ég hef komist að því að mér gengur það best ef ég næ að aðlaga mig aðstæðunum sem eru -  en ekki væntingum mínum og skilyrtum óskuðum kringumstæðum. 

Það er ekki eins og það sé það auðveldasta sem við gerum og oft er það einnig þannig að við erum með svo fastmótaðar hugmyndir um það hvernig allt á að vera að við eigum erfitt með að sleppa tökunum á því.

Sama hversu erfitt sem mér þykir þetta þó vera þarf ég að gæta að hjarta mínu, lífi, byrja næsta kafla og sleppa tökum á þeim aðstæðum sem eru og sætta mig við það sem er - og læra síðan að elska það og gera eins og sagt er - að búa til sætan sítrónudrykk þegar mér eru réttar sítrónurnar í lífinu.

En þegar ég segi sætta mig við, þá á ég ekki við að við eigum að sætta okkur við aðstæður sem eru okkur skaðlegar með einum eða öðrum hætti, né er ég að segja að þú eigir ekki að sækjast eftir því að fá þörfum þínum mætt. Það sem ég er hinsvegar að tala um er að sætta sig við þá atburði eða aðstæður í lífinu sem við fáum ekki breytt með neinum hætti.

Og í leit minni að því að aðlaga mig að mínum nýju aðstæðum í lífinu fór ég á áhugavert Qigong námskeið um daginn þar sem ég lærði að anda með tilgangi. Þessi aðferð er mörg þúsund ára gömul og er notuð víða um heim í dag til fyrirbyggingar og jafnvel lækninga í sumum tilfellum og því fannst mér rétt að draga vinkonu mína með mér á námskeið til að kynnast þessu að eigin raun.

Mér þótti mjög áhugavert að finna að það eitt að anda rétt gaf mér meiri meðvitund um líkama minn og hvar ég þarf að liðka hann og sveigja, merkilegt að okkur skuli ekki vera kenndar aðferðir sem þessar strax á barnsaldri svo að koma megi í veg fyrir að við festumst í stirðleika og bólgum þeim sem fylgja með því einu að anda og sveigja sig á einfaldan máta!

Á þessu sama námskeiði fannst mér einnig mjög athyglivert að læra að þar sem orkan flæðir ekki frjáls þá vilja menn meina að hugur okkar verði óstöðugur, dómgreindarleysi geti átt sér stað,jafnvel siðblinda,einræna,tilfinningaleysi,höfnun, sérhygli og ótti. Vanvirkni geti einnig fylgt, hjálparleysi og að lokum veikindi. Merkileg fræði sem vert er að hafa í huga þegar að við ætlum að breyta heilsunni okkar til hins betra.

Og í leit minni að einhverju gagnlegu og nýju fann ég einnig fyrirlestur sem gaf mér leiðsögn sem ég ætla að nýta mér og ég vona að þú getir einnig nýtt þér. 

Sá fyrirlestur var á TED (sem er í uppáhaldi hjá mér) en þar sem steig á stokk í þessu tilfelli rithöfundur bókarinnar "The Dolphin Way" (eða leið höfrunganna) Dr. Shimi Kang þar sem hún talar um hvaða upplýsingar náttúran gefur okkur hvað varðar aðlögun og streitulosun eða það sem við mennirnir getum nýtt okkur úr náttúrunni til að minnka streitu og kulnun og þótti mér þetta afar áhugavert svo ekki sé meira sagt.

Það sem gerist þegar við erum uppfull af streitu þá hættum við að sofa vel, við gleymum hlátrinum okkar og leikgleði og við hættum að lokum að vera félagslega tengd, en þetta eru einmitt þeir þættir sem við þurfum að passa uppá ef við ætlum að ná aðlögun að erfiðum eða nýjum aðstæðum nú eða koma okkur út úr kulnun ýmiskonar. Dr.Khan kallar þessa aðferð náttúrunnar P.O.D eða play, others, and downtime. 

Ef við skoðum þessa streitunálgun hennar Dr Shimi Kang þá byggir hún hana á rannsóknum sem hún gerði á náttúrunni og þeim lífverum sem jörðina byggja og fann út að þær tegundir sem aðlöguðu sig að aðstæðum lifðu af á meðan aðrar sem ekki gátu aðlagað sig gáfu eftir og dóu út.

En höfrungarnir urðu til þess að hún fór að skoða hvað það væri sem gæfi þeim lífsgleðina og jafnvægið sem virtist einkenna þá og fann út að það voru þættir sem þeir pössuðu uppá  að væru í jafnvægi og þeir þættir voru þeir að þeir léku sér á hverjum degi, hvíldu sig vel og voru síðan hluti af stóru félagsneti og þeir pössuðu upp á að jafnvægi væri á öllum þessum þáttum á daglegum basis.

Sjúkdómar þeir sem við eigum við að etja í dag eru margir streitutengdir og því fór ég að hugsa hvort að það gæti verið vegna þess að við erum ekki að sinna því að hafa jafnvægi í lífi okkar? Ég get svosem ekki fullyrt neitt um það en ég veit þó að þegar ég hef verið undir álagi þá er mér hættara við að fá flensur, gigtarköst,astma og fleira sem herjar frekar á mig á þeim stundum þar sem ég hugsa minnst um mig og jafnvægi mitt.

Og ég veit að til að ég geti aðlagað mig nýjum aðstæðum og haft jafnvægi á þessum þáttum höfrunganna þarf ég að skilja gömlu aðstæðurnar eftir og allt sem þeim tilheyrir, finna jafnvel nýjar og spennandi leiðir og afla mér nýrrar þekkingar sem gagnast mér á leið minni til jafnvægis og hamingju, ásamt því að nota þær gömlu sem ég á í farteskinu. Aðferðir eins  og þær að tala út jákvæðar aðstæður inn í líf mitt, fyrirgefa, næra mig vel til anda sálar og líkama og treysta lífinu fyrir mér og mínum aðstæðum og sleppa síðan tökunum.

Með allt þetta í farteskinu mun allt fara vel hjá okkur öllum elskurnar og streita,ótti og aðrar óuppbyggjandi tilfinningar munu víkja fyrir spennandi og óvæntum skemmtilegum uppákomum.

Njótum þess að hafa leik, samskipti og hvíld í jafnvægi alla daga og við erum í góðum málum :) 

Og ef þig vantar mína aðstoð við lífsins málefni þá er ég aðeins einni tímapöntun í burtu.

xoxo

Ykkar Linda

linda@manngildi.is


Brotnir draumar (sambandsslit)

Það er sagt að um 50% hjónabanda endi með skilnaði og að seinni hjónabönd endi oftar en þau fyrri eða í allt að 60 % tilfella þannig að það eru margir sem ganga í gegnum skilnaði og það jafnvel oftar en einu sinni og oftar en tvisvar á ævinni, og eru þá ekki sambandsslitin sem verða eftir 1-3 ár tekin með inn í þessa tölu.

Að fara í gegnum ferli af þessum toga getur tekið á og því getur fylgt mikil sorg, höfnun, brotnir draumar og margt annað ófyrirséð. 

Ég fór nú nýverið sjálf í gegnum þennan rússíbana sem sambandsslit eða sambúðarslit eru, og er enn að einhverju leiti þar og verð sjálfsagt í einhvern tíma enn.

Það er þannig að þegar þú ferð í gegnum slíkt þá finnst sumu fólki í kringum þig að þetta sé lítið mál, mátt bara vera fegin að þessu lauk, allir sáu nú að þetta hefði ekki gengið (nema þú) og alltaf má jú fá annað skip og annað föruneyti, og þér er bara sagt að fara á Tinder, fara á djammið og komast bara yfir þetta eins og ekkert sé! 

En er þetta svona einfalt?

Kannski í einhverjum tilfellum þar sem samband hefur staðið stutt og engin tenging farin að myndast, en ég held að þetta sé flestum erfitt a.m.k þar sem aðilarnir eru komnir í sambúð og farnir að kynnast fjölskyldu og vinum hins aðilans og sambandið komið á alvarlegt stig. Þetta er langt í frá auðvelt og það á yfirleitt við um báða aðilana sem að slitunum koma (á líka við um þá sem báðu um skilnaðinn).

Ég hef líklega ekki verið sú lánsamasta á þessu sambandssviði mínu og litlar líkur eru á því að ég fái að fagna silfur eða gullbrúðkaupi á minni ævi (Náði þó 20 árum) og að sumu leiti viðurkenni ég að mér finnst það sorgleg staðreynd. Þetta var nú svo sannarlega ekki það sem ég sá fyrir mér þegar ég var ung með hjartað fullt af draumum. Þá sá ég mig fyrir mér með einum manni ævina á enda, að við yrðum hamingjusöm með börnunum okkar og barnabörnum þar til dauðinn aðskildi okkur.

En það er ekki alltaf dauðinn sem aðskilur heldur svo margt annað sem hvarflaði ekki að mér þegar rauða ástarsagan dansaði í huga mér þar sem ég var með prinsinum eina og sanna. 

Og þegar raunin verður sú að sú rauða stenst ekki, verða eftir aum sár sem taka sinn tíma að gróa og við tekur ferli sem engum finnst gott að fara í gegnum.

Í því ferli koma fram svo margar tilfinningar sem þú hreinlega kannt lítið á svona oftast nær og þær geta verið mjög sárar og jafnvel mjög bitrar.

Sorgin sem þú upplifir ásamt vonbrigðunum yfir því að þetta hafi ekki gengið upp setur svip á líf þitt. Allir brotnu draumarnir sem aldrei fá að rætast draga úr þér mátt og þig langar mest að skríða inn í skel og dvelja þar í einhvern tíma til að sleikja sárin þín.

Í mínu tilfelli núna var engin skel til að skríða inn í um tíma en ég hafði þó ótrúlega góðan stuðning frá börnunum mínum og vinum sem héldu utan um mig á versta kaflanum eða þar til ég komst á minn eigin stað /skel. Vinanetið mitt var duglegt að veita mér stuðning á þeim tíma og ég er svo þakklát að eiga svona góða, yndislega trausta og gefandi vini. 

Ég grét mikið og oft (sem er mjög ólíkt mér) og græt stundum enn við ólíklegustu tækifæri. Er meyr með afbrigðum og ekkert má segja við mig þá finn ég hvernig tárin ætla að trilla niður kinnar mínar. Jafnvel fallegar stundir og orð verða til þess að ég græt fögrum tárum. 

Ég veit að þetta er eðlilegt þegar sorgin bankar uppá og líf okkar breytist, þannig að ég skoða þessar tilfinningar, leyfi tárunum að renna, samþykki líðan mína og gef sjálfri mér kærleika og leyfi til að upplifa þetta allt saman því að ég veit að það er eina leiðin til bata.

Núna er ég flutt í nýju skelina mína og búin að gera hana að notalegu heimili fyrir mig með hjálp góðra vina og þar get ég skriðið inn og leyft mér að líða bara eins og mér sýnist að líða í hvert og eitt sinn sem er svo gott og hreinlega nauðsynlegt að geta gert þegar þegar stormar geysa í tilfinningalífi okkar. 

En þegar skelin var nú loksins tilbúin og mér fór að líða eins og ég ætti þar heima fór einmannakenndin að gera vart við sig, og síðan fullvissan um að ég yrði bara ein það sem eftir væri. En líklega er það vegna þess að ég fann og finn að ég er bara alls ekki tilbúin til að fara að gefa af mér eitt eða neitt til neins nema sjálfrar mín og þeirra sem eru í mínum kærleikshring eins og börnunum mínum, barnabörnum og vinum, og líklega gæti ég ekki heldur þegið eitt né neitt heldur frá neinum öðrum en þessum sömu aðilum.

Ég geri þó máttlausar tilraunir til þess að "halda áfram göngunni" og fór t.d. inn á Tinder :) Þangað hef ég stöku sinnum farið inn til að skoða eins og maður gerir almennt við vörulista þegar manni leiðist, en finn þar þó fátt (en það er bara ég - þetta er örugglega æðislegt fyrir alla aðra)og enginn af þeim sem sett hefur upp skrautfjaðrir gagnvart mér hefur náð að opna skelina mína, ekki einu sinni smárifu þar sem mér finnst ég bara hreinlega vera dofin fyrir þessu öllu saman ákkúrat núna. Ég veit þó að þetta eru allt saman eðlileg viðbrögð við sorginni og ég þarf tíma til að leyfa henni að hafa sinn gang áður en ég er fær um að halda áfram. 

En á sama tíma og þessar miklu tilfinningar eru í gangi er ég að byggja undir stoðir mínar á öðrum sviðum og ná í gleði mína ásamt því að auka við félagsnetið mitt, því að ég veit að það er fátt sem er eins mikilvægt og það að búa til gleðistundir í erfiðum aðstæðum til að létta gönguna og ná í fyrri styrk.

Í þessari uppbyggingu er einnig ótrúlega nauðsynlegt að næra líkama og sál  og uppfylla þarfir þær sem við kunnum að hafa með kærleikann og umhyggjuna til "me myself and I" að leiðarljósi og það hef ég lagt mig fram við að gera eins of framast hefur verið kostur á.   

Eins er ég búin að vera í mikilli sjálfsskoðun sem fylgir yfirleitt kaflaskilum af þessu tagi og ég skoða mig og mínar tilfinningar reglulega með aðstoð míns fagaðila sem ég held að allir sem fara í gegnum skipsbrot af þessu tagi ættu að gera ef komast á frá þessu á eins góðan hátt og hægt er. 

Það er alltaf gott og hollt að endurskoða líf sitt þegar stór kaflaskipti eiga sér stað, og sjaldan er eins mikilvægt og þá að skoða hvað það er sem við viljum fá og hafa inni í lífi okkar í framtíðinni og hvernig eigi síðan að ná í það.

Við ættum að spyrja okkur spurninga eins og;

Hvað er það sem ég tel að gæti aukið við lífsgæði mín í framtíðinni? læra meira? skipta um starfsvettvang? íverustað? kynnast nýju fólki? taka upp ný áhugamál? fara að framkvæma drauma sem ég var búin að setja til hliðar? 

Allar þessar spurningar hafa a.m.k vaknað hjá mér að undanförnu og trúið mér, þegar ég fer af stað þá verða yfirleitt breytingar því að ég er vön að sækja drauma mína og taka skrefin í áttina að þeim. Ég trúi því staðfastlega að skrefin sem við tökum í átt að draumum okkar verði okkur til lækningar á leiðinni og flýti fyrir því að við náum upp gleðiorkunni og fyrri framkvæmdastyrk. 

En eins og ég sagði áðan þá á ég yndislegan stuðningshóp sem stendur þétt að baki mér, leyfir mér að tala, leyfir mér að vera í öllum tilfinningum mínum hvort sem það er reiðin, biturðin, gráturinn, hláturinn, ég fæ bara að vera ég í kringum þennan hóp, svo förum við út að borða eða út á lífið aðeins og opnum kannski eina rauðvínsflösku og hlæjum saman - þannig býr þessi hópur til gleðistundirnar fyrir mig og ég fyrir þau. Einn vinur hefur þó staðið uppúr á þessum tíma hvað framkvæmdir og aðstoð við að koma skelinni minni í lag og ég verð að fá að segja pent takk Arnar minn fyrir alla hjálpina, hún verður ekki metin til fjár!

En hvers vegna er ég að opinbera mig, líf mitt og mínar tifinningar hér? er það ekki alveg út í hött að manneskja sem er að aðstoða aðra við að ná lífi sínu á betri staði geri það? Þarf sá aðili ekki að vera með allt á hreinu og hafa líf sitt í fullkomnu standi og jafnvægi? 

Svar mitt við þessu er afskaplega einfalt.

Ég trúi því að við fáum öll okkar verkefni til úrlausnar og gerum okkar mistök sama hvaða stétt eða stöðu við tilheyrum, og það er í fínu lagi að dvelja í varnarleysi sínu eða berskjöldun og opinbera það ef það gæti orðið til aðstoðar einhverjum samferðamanni mínum.

Það er allt of sjaldan talað um hvernig það er að fara í gegnum svona ferli og hvaða tolla það tekur, og fáir sem sýna því samúð og tillit. Einmitt þess vegna er svo gott að segja þeim sem eru á þessum stað með tilfinningar sínar lokaðar inni að þau eru alls ekki ein.

Eins tel ég að þessi reynsla geri mig hæfari til að skilja og aðstoða þá sem standa í þessum sporum því að það jafnast fátt á við að tala við aðila sem hefur gengið í þínum sporum.

Og ég lofa að segja ekki að alltaf megi fá annað skip og annað föruneyti, gæti reyndar trúað að ég segði við þau að einnig þetta muni líða hjá, og eins að við verðum bara að lifa hvern dag þar til við lifnum á ný.

Og það munum við öll gera sem göngum í gegnum sorgarferli af einhverju tagi, við munum lifna og við munum dafna að nýju og við sem fórum í gegnum sambandsslit munum að öllum líkindum bara koma vitrari til leiks næst og munum því setja fókusinn á að finna aðila sem hentar lífi okkar, gildum og persónuleika.  

En munum bara elskurnar að þeir sem eru að fara í gegnum sambandsslit og sambúðarslit (skilnaði) eru að ganga í gegnum sorg rétt eins og þeir sem ganga í gegnum breytingar á öðrum sviðum lífsins eins og við dauðsföll, atvinnumissi,eftirlaunaaldur, þegar börnin fara að heiman og fleira og fleira sem við skiljum stundum ekki hversu erfitt getur verið fyrir viðkomandi að ganga í gegnum.

Þannig að verum svolítið dugleg að sinna og gleðja þessa einstaklinga sem standa á kaflaskiptum í lífinu og aðstoðum þá við að finna aftur líf og von um græna haga í brjósti sínu.

Og eins og ég sagði hér fyrr og oft áður, þá elska ég að aðstoða þig við lífsins verkefnin og er aðeins einni tímapöntun í burtu frá þér.

xoxo

Ykkar Linda

 

Linda Baldvinsdóttir

Samskiptaráðgjafi/markþjálfi

linda@manngildi.is


Um bloggið

Linda Baldvinsdóttir

Höfundur

Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Sept. 2018
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30            

Nýjustu myndir

  • ..._s4i6862_2
  • ...0eaf470d6_2
  • ...98009927331
  • pistill mynd
  • 15608665 10210640975833107 554134899 o

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband