Andlegt ofbeldi er lífshættulegt

Fyrr á árinu var ég í viðtali á rás 2 þar sem ég tjáði mig m.a. um upplifun mína af því að vera andlegu ofbeldissambandi um árabil. Í kjölfarið fannst mér tilvalið að skrifa smá pistil um þennan ljóta rússíbana sem andlegt ofbeldissamband er og er þessi pistill að miklu leiti skrifaður út frá minni eigin reynslu og upplifun og reyndar einnig byggður á námskeiði sem við Thoeodor Birgisson fjölskylduráðgjafi vorum með í Lausninni á sínum tíma.

Ég var allt of lengi inni í þessum rússíbana sem andlegt ofbeldissamband er og þurfti langan tíma til að vinna mig út úr sambandinu og frá þeim sárum sem til urðu á leiðinni(og kannski næ ég aldrei að vinna úr þeim til fulls). Hvert skref sem tekið var út úr sambandinu var skrefið sem færði mig nær frelsi mínu þó svo að ég sneri til baka í nokkur skipti þar sem ég var ekki orðin nægjanlega sterk til að fara frá því. Munið elskurnar að ef einhver í kringum ykkur fer mörgum sinnum inn og út úr sambandi af þessum toga þá er hvert skref sem tekið er út úr aðstæðunum skref sem færir þann aðila nær frelsinu. Svo ekki dæma vertu heldur til staðar - alltaf.

Mig langar að taka það fram að líklega beitum við öll einhvern tíman andlegu ofbeldi og líklega eru flestir sem slíku ofbeldi beita aðeins án kunnáttu í góðum samskiptum en ekki vondir menn og konur, Þeir einfaldlega hafa ekki góð áhrif á þá sem í nánasta umhverfi þeirra eru og þeir kunna ekki að lagfæra það með betri samskiptaleiðum.

En það eru einnig til menn og konur sem beita ofbeldi með markvissum hætti til að ná valdi á öðrum einstaklingum. 

Oft eru þeir aðilar haldnir siðblindu,mikilli eigingirni og eiga erfitt með að finna fyrir samkennd með öðrum og hafa litla sem enga sektarkennd yfir því sem þeir gera. Þeir eru oft mjög sjarmerandi og eiga auðvelt með að ná öðrum á sitt band. Þeir eiga mjög erfitt með að setja sig í spor annarra og í þeirra huga eru þeir númer 1,2 og 3, allir aðrir skipta minna máli. Þeir ljúga og lofa öllu mögulegu en standa sjaldnast við það sem þeir lofa. 

En hvort sem það var ætlun eða ekki ætlun sem átti við í mínu tilfelli þá urðu til sár sem erfitt var að vinna úr.

Líkamlegu afleiðingarnar voru ekki mar og brot en hinsvegar hefur andlegt ofbeldi áhrif á líkamlegt ástand og hjá mér voru þær t.d mikill kvíði, streita og svimi sem helltist yfir mig í tíma og ótíma, hjartsláttatruflanir og endurteknar sýkingar (flensur), öndunarörðugleikar, svefnleysi og fleira.

Fyrstu hegðunareinkenni mín í sambandinu voru auðvitað meðvirknitengd því að ég fór að tipla á tánum og hegða mér eftir skapi gerandans hverju sinni. Ég reyndi að lyfta andrúmsloftinu upp ef það var þungt nú eða lét mig hverfa hljóðlega í stað þess að krefjast þess að mér væri sýnd almennileg virðingaverð framkoma sem við eigum auðvita alltaf að ætlast til að fá!

En ég var bara góða,trygga og trúa stelpan sem hélt greinilega að ég gæti nú heldur betur verið bjargvættur mannsins ef ekki heimsins alls, og meðvirkni mín fékk þessa líka fínu vængi sem fóru á flug og flugu hátt ásamt því að ég trúði á að froskurinn gæti breyst í prins með öllum þeim kærleika sem ég hafði að gefa. 

Ég kveið oft fyrir því að koma heim því að ég vissi ekki hvað biði mín þar. Var það gott skap og allt með eðlilegum hætti eða var það þögn, fýla og reiði sem beið mín eða eitthvað annað verra, það gat ég ekki vitað fyrr en ég opnaði hurðina og gekk inn.

Meðvirkni mín fékk eins og ég áður sagði vængi og ekkert þótti mér sjálfsagðara í því ástandi en að mér liði flesta daga eins og allt sem ég gerði eða gerði ekki væri ekki nóg og að ég einfaldlega gæti ekki nálgast þarfir og ósagðar óskir gerandans. Mér leið oft eins og krakka sem stöðugt væri verið að skamma fyrir eitthvað, og ég í meðvirkni minni reyndi að aðlaga mig að nýjum og nýjum kröfum aðeins til þess eins að þurfa að mæta enn öðrum.

Ég átti auðvitað einnig að geta lesið hugsanir hans og vitað hvers hann þarfnaðist hverju sinni - en ekki hvað. Ég veit hinsvegar í dag og vissi svo sem allan tímann innst inni að ef ég hefði þann hæfileika að geta lesið hugsanir fólks væri ég orðin forrík og þyrfti aldrei að vinna handtak það sem eftir væri ævinnar þar sem allir væru tilbúnir að borga mér fyrir að segja ekki frá því sem ég sæi í hugarfylgsnum þeirra :)

En að öllu gamni slepptu:

Í svona sambandi eruð þið ekki vinir eða teymi - þið eruð á orrustuvelli þar sem annar aðilinn mun alltaf vinna með einum eða örðum hætti, engar samræður, málamiðlanir eða lausnir eru til í stöðunni og sá sem tapar ert alltaf þú.

Það sem þú segir er oftast misskilið, því snúið á hvolf og ég tala nú ekki um þegar þú vilt ræða um að sambandið sé ekki á góðum stað, sú ósvífni er yfirleitt túlkuð sem persónuleg árás og þér talin trú um að þín upplifun sé kolröng og ekki þess verð að ræða hana frekar. Og ef þér dettur í hug að ræða hlutina aftur eða frekar þá er vinsælasta leiðin sem notuð er sú að taka þagnarbindindi á þig nú eða að hóta skilnaði og jafnvel framkvæma hann (í nokkra daga, vikur og jafnvel mánuði) og kippa þannig öryggistilfinningu þinni í burtu. Svo eftir það tímabil taka við einhverskonar samningaviðræður um að taka saman á ný vegna þess að lífið yrði auðvitað einskisvert án þín og sambandsins og allt yrði svo miklu betra og öllu fögru lofað hvað framtíðina varðaði. 

Mín persónulega barátta tengdist helst óþoli hans á umgengni minni við börnin mín, vini og fjölskyldu, sem voru að hans mati ekki þess verð að vera í kringum og ég var stöðugt að semja um umgengnisrétt minn gagnvart þessum aðilum. En hvað sem öllum samningsviðræðum viðkom tók hann oftar en ekki á mig þagnarbindindi og sendi mér ill augnaráð til að halda mér nú á mottunni og sá til þess í leiðinni að þær stundir sem ég átti með mínum nánustu yrðu það erfiðar bæði fyrir mig og þau að þeim langaði einfaldlega bara ekki að koma til mín og smá saman drógu þau auðvita úr komum sínum. Að lokum lokum leiddi þetta til þess að ég stóð meira og minna uppi ein með sjálfri mér og honum.

Og Guð hjálpi mér ef ég upplifði gleðistundir í mínu lífi, hann sá alveg hjálparlaust um að eyðileggja þær með ýmsu móti og hafði afar fjörugt ímyndunarafl í þeim efnum eins og með því að fara í fýlu og hefna sín daginn eftir að hann sá að ég hafði haft það gaman eða taka upp á öðrum hefndaraðgerðum eins og þeirri að mæta undir annarlegum áhrifum við hin ýmsu virðulegu tilefni.

En einangrun frá vinum, fjölskyldu og stuðningsneti þínu ásamt stjórn á fjármunum eru einmitt oftast fyrstu skrefin sem gerandi í andlegu ofbeldi notar til að ná stjórn og þá ert þú ofkors orðin einkaeign hans/hennar og kemst illa í burtu þar sem fjármunir og tengslanet þitt er ekki lengur til staðar.

Það var fylgst með öllu sem ég og aðrir á heimilinu gerðu, og það var leitað að sönnunargögnum um að við værum að gera eitthvað á bak við hann því að margur heldur mig sig. Leitað var í skúffum og skápum og í raun voru engin persónuleg mörk okkar virt.

Flest sem þú segir í svona samböndum er mistúlkað og snúið á versta veg og þér er sagt að þú sjáir ekki það sem þú sérð og heyrir ekki það sem þú heyrir, sem að lokum verður til þess að þú ferð að efast um þinn eigin raunveruleika(sem við þó eigum aldrei að gera)

Þú ferð einnig að skoða hvort og hvaða þátt þú áttir í því að hlutirnir fóru eins og þeir fóru, hvað þú hefðir sagt eða gert sem hefði getað komið umræðunni á þetta plan. Þú finnur ekki í hjarta þér að það hafi verið þannig, en ert á svo veikum stað að það hlýtur að vera að hann hafi eitthvað fyrir sér í þessu efni þar sem þú færir aldrei að ásaka aðra manneskju með þeim hætti sem þú ert ásökuð um.

Rök gilda ekki í svona umhverfi - gleymdu því alveg.

Rökleysa, feluleikur, stjórnun og óvild er hinsvegar til staðar í ríkum mæli sem samt er svo erfitt að horfast í augu við því að það getur jú enginn verið að ætla sér að koma svona fram eða hvað? 

Ofbeldishringur eða Controlhringur er ríkjandi í svona samböndum og er fyrsti hluti hringsins sá að það verður til spennuþrungið ástand sem fljótlega fer yfir í næsta hluta hringsins eða þegar ofbeldinu er beitt með einhverjum hætti - hætti sem setur þig mjög oft í þær stellingar að þú hugsar "nú fer ég út úr þessu"

Gerandinn skynjar í þeim tilfellum að þú ert búin að fá nóg og þá grípur hann til þess ráðs að veiða þig aftur í netið sitt með algjörlega frábæru tímabili sem er þriðji og síðasti hluti hringsins (kallast oft honeymoon tímabilið) þar sem þú ert sú fallegasta, besta og frábærasta manneskja sem gengið hefur á þessari jörðu! Þessu tímabili fylgir einnig svo frábært gleði og spennuástand sem jafnframt er í mörgum tilfellum fyllt af yfirdrifnum óheilbrigðum ástríðum og vegna þeirra hættir þú við að fara eða ferð aftur til ofbeldismannsins vegna þess að þetta tímabil er einfaldlega svo gott og einstakt á meðan það varir.

Sjálfstraustið og sjálfsvirðingin hverfur smásaman við þessar óeðlilegu aðstæður og kvíði, þunglyndi, örvænting og almenn vanlíðan verður hluti af þínu daglega lífi og þú bíður eftir því að stutta honeymoon tímabilið láti sjá sig á ný.

Það eru nokkur atriði sem eru til staðar í ríkum mæli í samböndum sem eru ekki af réttum toga og John Gottman kallar þá hestamennina fjóra. Þessir riddarar (eða ekki) eru eftirtaldir að hans sögn: 

Hinir fjóru hestamenn.

  1. Útásetningar.Sumar aðferðir útásetninga geta verið uppbyggjandi en það sem átt er við hér er þegar neikvæður dómur og fullyrðingar eru bornar fram á yfirdrifinn máta. Það sem gæti bent þér á að þú sért að nota þennan hestamann er ef þú segir td “aldrei” eða “alltaf” – “þú hugsar aldrei um neitt nema sjálfan þig” – “þú ert alltaf svo þrjósk/ur “ "það verður aldrei neitt úr neinu hjá þér"
  1. Fyrirlitning er alvarlegra form hinna fjögurra hestamanna þar sem útásetningarnar verða að hæðni og spotti eða þar sem þú kemur fram við maka þinn af virðingaleysi, hæðni, fyrirlitningu og fl. Það getur innifalið í sér andstyggilega fyndni á kostnað hins, það að ranghvolfa augunum, uppnefna og svo framvegis. Fyrirlitningin vex með tímanum þegar fókusað er á það sem ekki er gott við makann en þess í stað fundnir allir gallar hans.
  1. Vörn.Vörn kemur vegna þess að þér finnst vera ráðist á þig eða þú gagnrýndur of hart. Og oft er vörninni einnig beitt til að forðast að taka ábyrgð eða til að setja allt yfir á maka þinn. Ef þú heyrir þig segja Ég gerði ekkert rangt, eða þegar þú ferð að ásaka maka þinn eftir að hann kemur fram með umræðuefni eða umkvartanir sem þér líkar ekki, spurðu þig þá hvort þetta sé málið. Jafnvel þó að maki þinn geri mistök þýðir það ekki að þú sért frír frá ábyrgð eða hefðir ekki getað brugðist við á annan hátt.Vandamálið við vörnina er að hún segir maka þínum að þú sért ekki að hlusta hann eða takir ekki alvarlega þær umkvartanir sem hann hefur. Og þannig verða til ný ágreiningsefni sem valdið geta nýjum ágreiningi. 
  1. Að byggja steinvegg.Að setja upp steinvegg á milli þín og maka þíns með því að draga þig í hlé, loka á og fjarlægja þig frá maka þínum þýðir að þú ert að byggja steinveggi. T.d þegar þagnarmeðferð er beitt eða þegar farið er út án þess að láta vita hvert verið er að fara. Steinveggirnir eru stundum settir upp þegar hinum þremur hestamönnunum hefur verið otað fram og ástandið er orðið yfirþyrmandi. Að byggja steinveggi er hættulegasta aðferðin af þeim öllum vegna þess að makinn upplifir sig yfirgefinn og að sér sé hafnað.

Meðvirkni er lífshættuleg en bara ekki mikið talað um þann part hennar og oft lítið gert úr því sjúklega ástandi sem meðvirknin getur skapað. Orðið sjálft er talið klisjukennt og jafnvel hlegið að því, en ég get lofað þér því að meðvirkt líf í andlegu ofbeldissambandi og víðar svo sem en bara þar er oft lífshættulegt fyrir þína andlegu og líkamlegu heilsu.

Þegar ég var í mínu ofbeldis sambandi greip ég hverja einustu pest sem gekk á landinu og jafnvel víðar, en eftir skilnaðinn fékk ég í tvígang símtal frá heimilislækni mínum á Reykjavíkursvæðinu sem fór að undra sig á því hvera vegna ég kæmi aldrei til hans - sem var einfaldlega vegna þess að ónæmiskerfi mitt tók stakkaskiptum við það eitt að ég var ekki undir þessu sífellda andlega álagi og leitaði mér aðstoðar varðandi mína meðvirkni og það sjúklega ástand og líf sem hún skapaði mér.

Ég geri mér grein fyrir því að við þurfum að vera meðvirk öðrum (virka með) á heilbrigðan máta, en sá máti sem skapar þetta veika ástand á bara ekkert skylt með því, svo gerum stóran greinamun á þessu tvennu, því að annað ástandið skapar falleg gefandi samskipti þar sem mörk okkar og persóna er virt á meðan hitt ástandið getur orðið okkur og þeim sem við elskum lífshættulegt. 

Ég er á góðum og fallegum stað í dag og stend með sjálfri mér sama hvað það kann að kosta mig og veit að ég á bara allt gott skilið, hef þurft að læra mikið og í raun var allt sem ég lærði í mínu fagi fyrst og fremst gert til að bæta mig og mína líðan. Aukaafurðin af því námi er að ég tel að ég sé færari um að hjálpa öðrum að komast á fallega staði í sínu lífi og ekkert gefur mér meira en einmitt það að aðstoða mína samferðamenn til að skapa sér það góða og fagra í lífinu, og mætti mér auðnast sá heiður í ríkum mæli - þá er tilgangi mínum náð.

Nokkur ráð að lokum.

Það er fáránlegt þegar einhver reynir að segja þér hver þú ert, hvernig þér líður, hvað þú ert að hugsa, hvað þú ætlar þér eða hvað þú upplifir, svo ekki hlusta, lokaðu eyrunum fyrir því og hafðu áhyggjur af þeim sem slíkt gerir.

Jafningjasamræður sem hafa það að markmiði að ná fram sameiginlegri niðurstöðu ættu aldrei að fylla þig ótta, skömm, óreiðu eða halda þér í óvissu um virðingu og hlustun á það sem þú hefur að segja.

Og hvernig svo sem við svo svörum fyrir okkur þá munum að við eigum öll skilið fallega og virðingaverða framkomu alltaf- og við eigum skilið að hlustað sé á okkar sjónarmið og tilfinningar af kurteisi og án reiði og uppþota.

Að síðustu langar mig að skilja eftir setningu sem við ættum að hafa í huga á hverjum og einum stað í lífi okkar en það er setningin "Vertu einungis þar sem þér líður vel og hvergi annarstaðar".

Við skulum ekki gleyma þessu undir nokkrum kringumstæðum elskurnar - og ef ég get aðstoðað þig sem þetta lest við að auðga líf þitt eða takast á við verkefni þess þá endilega hafðu samband, ég er bara einni tímapöntun í burtu frá þér.

xoxo

Ykkar Linda

Linda Baldvinsdóttir

Samskiptaráðgjafi/markþjálfi

linda@manngildi.is

 

  

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Linda Baldvinsdóttir

Höfundur

Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • ..._s4i6862_2
  • ...0eaf470d6_2
  • ...98009927331
  • pistill mynd
  • 15608665 10210640975833107 554134899 o

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 35
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 28
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband