Samvera er gulli betri

Kannski var ég að búa til nýjan málshátt en ef svo er þá vantaði hann inn í flóru málsháttanna hvort sem er :) (samvera er gulli betri)

Þessir síðustu dagar hafa einkennst af samveru með vinum og fjölskyldu og ekkert kvöld helgarinnar hefur liðið þar sem við skötuhjúin höfum setið ein til borðs. Mikið verð ég að viðurkenna hversu dásamlegt mér finnst að finna fyrir þessum erli inni á heimilinu.

Í mörg ár bjó ég ein og ég fann að bæði börnin mín og vinir voru ekki neitt sérlega spennt fyrir því að koma í heimsókn án þess að vera sérstaklega boðin í mat eða kaffi þar sem líklega var ekki mikill fjölskyldubragur á þessu heimili hjá mér.

Ekkert var til í ísskápnum svona á venjulegum degi hjá mömmunni og ekki oft til aukapeningur til að vera með matarboð og slíkt þannig að kannski kann ég betur að meta að eiga heimili aftur en þeir sem hafa ekki þurft að sakna þess. Að eiga heimili þar sem fólk er velkomið og þar sem ísskápurinn er fullur af ýmsu góðgæti og allir velkomnir að athuga hvað til sé þar er hreinlega ómetanlegt að  mínu mati.

Merkilegt hvað það getur verið mikill munur á því að búa einn eða að búa með öðrum aðila sem aðstoðar við að skapa þessa dýrmætu fjölskyldustemningu!

Í dag fór ég með mömmu upp í kirkjugarð að setja blóm á leiðið hjá pabba sem er svosem ekki í frásögur færandi en minnti mig þó óneitanlega á hversu brothætt og óútreiknanlegt lífið getur verið og hversu mikilvægt það er að sinna sínum á meðan enn er tími til þess. Mamma kíkti svo í heimsókn til okkar eftir leiðisheimsóknina og ekki leið á löngu þar til yngsta dóttir mín og hennar maður ásamt báðum ömmustrákunum mínum birtust ömmunni til mikillar ánægju, krónprinsinn sjálfur 9 ára  og hinn prinsinn eins og hálfs mánaða gamall sáu mér fyrir því sem fylgir því að gefa og þiggja og öllum þeim fallegu tilfinningum sem því fylgir.

Þegar ég leit yfir þetta fjölskyldu svið fann ég fyrir svo miklu þakklæti í hjarta mér. Að fá að hugga, faðma, knúsa og spjalla við þá sem standa hjarta mínu næst er eitthvað sem gefur mér þessa líðan um tilgang og fyllir mig kærleika.

Ég held að stundum séum við að tapa dýrmætum samskiptum eins og þeim sem ég hef notið núna um helgina vegna þess að aðrir hlutir eins og sjónvarp, tölvur, vinna og fleira ganga fyrir hjá okkur en þar sem við leggjum ekki rækt við vini, fjölskyldu eða maka deyja samskiptin út að lokum og verða að engu. Guð forði okkur öllum frá því hlutskipti!

Bara það að eiga gæðastund með búðarrápi og pizzumáltíð með þeim sem skipta máli eins og við skötuhjúin gerðum um helgina er eitthvað sem lifir með okkur og gefur meiri tilgang en spjall á messenger eða öðrum spjallrásum að mínu mati amk og eykur gæði lífs okkar eins og ég minntist á hér fyrr.

En aftur að ánægju minni með síðustu daga og erilinn sem fylgdi þeim.

Vinkona mín sem kom í mat til okkar ásamt sínum manni og börnum sagði einmitt eftir að við höfðum átt yndislega kvöldstund, að ef eitthvað væri kirkja (sem þýðir samfélag) væri það svona samverustund og er ég henni innilega sammála um það. Að vera í návist hvers annars þó ekki sé til annars en þess að fá speglun á okkur, persónuleika okkar og virði frá þeim sem við erum í umgengni við er gleðin sem glæðir allt annað gott og fagurt.

Hugsum aðeins út í þetta elskurnar og ræktum þá sem eru okkur mikils virði, finnum það góða sem í hverjum manni býr og gleðjumst saman. Ræktum garðinn okkar vel og mætum hvert öðru þar sem þarfir okkar liggja, en munum þó alltaf eftir því að dass af samveru og samskiptum er æskilegt innihald í hverri og einni uppskrift.

þar til næst elskurnar

xoxo Ykkar Linda

Og ef þú þarft aðstoð með þín málefni þá er ég bara einni tímapöntun í burtu :)

Linda Baldvinsdóttir

Samskiptaráðgjafi/markþjálfi

linda@manngildi.is

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Linda Baldvinsdóttir

Höfundur

Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • ..._s4i6862_2
  • ...0eaf470d6_2
  • ...98009927331
  • pistill mynd
  • 15608665 10210640975833107 554134899 o

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband