Gleðileg jól elskurnar

Þar sem ég sit í stofunni minni og horfi á jólatréð sem ég ætlaði varla að nenna að setja upp, þá finn ég hversu miklu máli jólin skipta þrátt fyrir Covid, Omricon eða hvað það nú er sem spillir lífinu. 

Ljúfar minningar frá æskunni og jólum fortíðarinnar, ilmur af bakstri, rauðkálsgerð og hangikjöti kveikir á einhverri sérstakri tilfinningu í hjarta mér. Tilfinningu sem ég vil helst líkja við tengingu við Guð eða kannski bara allt sem er, hrein og tær kærleikstifinning sem breiðir úr sér og vex.

Ég veit að víruskvikindið er búið að valda okkur erfiðleikum annað árið í röð og geðheilsa margra er að versna til muna. Og líklega er alls ekki komið í ljós hversu mikill sá skaði er um allan heim og þar erum við ekki undanskilin þrátt fyrir ágætis gengi okkar miðað við margar aðrar þjóðir.

Þrátt fyrir allt lífsins amstur þá samt koma jólin.

Og hvernig sem andlega ástandið er hjá okkur og kannski einmannaleikinn sérstaklega sár á þessum árstíma, sorgin yfir missi ástvina okkar ásamt viðkvæmni okkar vegna gamalla og góðra minninga fær einnig sína vængi, þá held ég að við flest finnum fyrir þessum anda jólanna djúpt inni í hjarta okkar og vonin fæðist fram að nýju með hækkandi sól. Lítil ljóstýra sem kviknar í andanum og boðar okkur eitthvað gott, eitthvað betra - og kannski verður næsta ár svo miklu betra og fullt af hamingju og jafnvel veirulaust. 

Þessi von er afl sem við skulum ekki vanmeta, því að hún er aflið sem fær okkur til að rísa á fætur og tækla daginn þrátt fyrir áskoranir og sorgir lífsins.

Vonin er ljósið sem fæðir fram hugmyndir og lausnir sem myrkrið fær ekki slökkt, og kannski er það engin tilviljun að jólastjarnan bjarta eða Betlehemsstjarnan sé táknmynd jólanna. Hún boðar okkur birtu, frelsi og von og er oft nefnd vonarstjarnan.

Tökum á móti því ljósi sem stjarnan boðar okkur og fæðumst til nýrrar vonar og umföðmum mátt kærleikans á þessum fallega tíma sem færir okkur nær hvort öðru hvað sem öllum vírusum líður og þeirri vanlíðan sem óöryggið færir inn í okkar daglega líf á þessum skrýtnu tímum.

Eigið kærleiksrík gleðileg jól elskurnar og megi friður hátíðarinnar kveikja ljós í ykkar hjörtum og efla von ykkar um farsælt komandi ár. Mætti það verða hlutskipti okkar allra að eiga gleðilegt veirulaust ár 2022.

Jóla og nýjárs kærleikskveðja,

xoxo 

ykkar Linda

 

Linda Baldvinsdóttir

Lifecoach, samskiptaráðgjafi, TRM áfallaþrautsegju þjálfi.

linda@manngildi.is

 


Fullorðnir taka einnig líf sitt

Úfff, ég fékk vondar fréttir um daginn og ekki í fyrsta sinn sem ég fæ fréttir af þessum toga.  Kannski er það samt ekki svo óskiljanlegar þegar við skoðum hvað er að gerast í okkar fyrirmyndar þjóðfélagi og kannski víða um hinn vestræna heim.

Ég hef stundum skrifað um þetta fyrirmyndarþjóðfélag áður og ætla að halda því áfram svo lengi sem einhver nennir að lesa párið mitt. En að fá fréttir af því að einhver sem ég þekki sé svo einmanna og út í horni að honum langi ekki til að lifa lengur snertir við samkennd minni.

Í þessum pistli ætla ég að fjalla um þá sem búa einir og komnir eru yfir miðjan aldur hvort sem það er vegna þess að þeir fundu ekki rétt viðhengi eða vegna skilnaðar/ missis maka.

Á aðventunni fer þeim fjölgandi sem finna fyrir einmannaleika og sorg og aldrei er eins mikilvægt að standa vörð um þá sem við vitum að þannig er um statt.

Við lifum í ungdóms og para-þjóðfélagi þar sem að gert er ráð fyrir því að allir eigi vini og fjölskyldu til að verja tíma sínum með þegar frídagar eru, en því fer fjarri að þannig sé það hjá öllum og þeir eru margir sem sitja einir á jólum og áramótum.

Í okkar fyrirmyndarþjóðfélagi er það sorgleg staðreynd að margir af þeim sem komnir eru af léttasta skeiði er orðið slétt sama um líf sitt og þeir finna lítinn tilgang með veru sinni hér vegna einmannaleika og fjöldi einmanna fólks í heiminum öllum hefur margfaldast á liðnum áratugum .

Við gerum okkur kannski ekki grein fyrir því að þeir sem einmanna eru láta dagana sína líða við vinnu (þeir sem eru svo heppnir að einhver vilji hafa þá í vinnu eftir fimmtugt) og um helgar detta þeir bara í það eða hamast upp um fjöll og firnindi til að gleyma því að tilvera þeirra er snauð af því sem við þráum flest eða samveru við annað fólk.

Að lokum gefast þessir aðilar upp og sjá ekki aðra leið en að drekka til að gleyma eða gleypa of mikið af svefntöflum til að sofa þetta líf af sér.

Allt of algengt - en merkilegt nokk þá man ég ekki eftir því að um þetta sé mikið talað. 

Við heyrum af sjálfsvígum ungra karlmanna sem eru í tilvistarkreppu, en við heyrum ekki um eldri borgara sem finna ekki tilgang með lífi sínu en reyna þó að láta eins og ekkert sé og fáir sem sjá að þeir eru bara ekki að meika lífið og tilveruna.

Þeir eru fráskildir, misskildir  einmanna og jafnvel eignalitlir. Þeir hafa gefist upp á makaleitinni og sætta sig við að þeir verði einir ævina á enda, sætta sig við að sjónvarpið, samfélagsmiðlarnir og síminn verði aðal félagsskapurinn þeirra.

Á þessum miðlum virðist allt svo glansandi flott og það veldur þeim aðeins meiri vanlíðan að sjá allt það fullkomna sem þar sést.

Börnin þeirra hringja ekki vegna þess að það er svo mikið að gera í lífsbaráttunni og þau koma ekki nema boðin á jólum og páskum. (Stundum hefur jafnvel gleymist að bjóða foreldrunum í mat á jólunum -já það gerist!)

Veislurnar þar sem allir sitja paraðir eins í brúðkaupum og öðrum stórveislum verða að kvöl og pínu hjá mörgum þeirra sem einir eru og þeim finnst eins og þeim hafi mistekist að uppfylla kröfur samfélagsins með því að hafa ekki viðhengi til að skreyta sig með. 

Í matarklúbbunum eru þeir ekki velkomin einir því að þeir gætu krækt í maka einhvers, í paraferðalögum eru þeir ekki gjaldgengir í mörgum tilfellum(ég er reyndar svo heppið stelpuskott að ég á vini sem hugsa ekki svona)og það er margt annað sem þeim er haldið fyrir utan með.

Allt þetta verður til þess að einstaklingar finna sig ekki tilheyra í þessu normal samfélagi og þeir finna sig ekki hafa tilgangi að gegna sem er er frumþörf allra manna hvar sem þeir búa á jarðarkringlunni, og þegar þannig er komið þá er lífið orðið harla lítils virði.

Það er nefnilega þannig að það eru þrír þættir sem eru taldir skapa hamingju okkar, en þeir þættir eru að tilheyra, vera elskuð og fá að reyna á vitsmuni okkar og getu.

En gleymum því að það sé hægt að tilheyra þegar þú ert kominn yfir miðjan aldur í mörgum tilfellum!

Þú ert hreinlega strikaður út úr samfélagi manna löngu áður en þú kemst á ellilífeyrinn og ekki er litið á umsóknirnar þegar sótt er um starf óháð menntun. Það tryggir vissan ósýnileika í samfélaginu þar sem það þarf að hugsa um hverja krónu sem kemur í budduna og þá er lítill afgangur til að stunda áhugamál eða annað sem gefur sýnileika og reisn. 

Og hver mun svosem sakna þín ef þú gleypir bara svolítið of mikið af pillum og kemst upp að gullna hliðinu þar sem sælan býr?

Eða verður þér kannski ekki heldur hleypt þar inn vegna þess að þú átt ekki maka eða ert kominn yfir miðjan aldur? Hver veit -  ég veit hinsvegar að þeir sem komnir eru yfir miðjan aldur eiga erfitt uppdráttar á vinnumarkaði, makamarkaði og eru heppnir ef þeir fá símtal um helgar, svo til hvers að lifa ef engin er til að vitna um líf þitt og taka þátt í því?

Aldursfordómar eru staðreynd og þeir eru ekkert betri en aðrir fordómar og kannski vantar mee-too byltingu þeirra sem gerðu þetta þjóðfélag ríkt en fá ekki að njóta afrakstursins og fá ekki að starfa eða njóta tilgangs en lifa við hálfgert einelti einhliða staðnaðs menntasamfélags og ungdómsupphafningar.

Opnum augu okkar elskurnar, það eru einstaklingar sem þjást sökum þess að þeir fá ekki að tilheyra ásamt því að fá að deila því sem lífið hefur kennt þeim (vantar samfélag þorpsins), og allt of margir af þeim þjást með brosi á vör en þrá ekkert heitara en að þessu fari að ljúka hérna megin því að þeir skipta ekki máli lengur!

Ekki gera ekki neitt lesandi góður, þetta er mál okkar allra!

Splæstu í símtal eða borðhald núna á aðventunni og láttu þá sem eru einir og einmanna finna að líf þeirra sé ekki til einskis og að þeir tilheyri ennþá samfélagi manna. Virtu reynslu þeirra og leyfðu þeim að finna að reynsla þeirra skiptir máli. Þeir eiga ekki að þurfa að finna tugi áhugamála til að fylla tómið í hjartanu en ættu hinsvegar að upplifa samkennd okkar, samfélag við afkomendur sína og vera gjaldgengir í samfélagi manna. 

Fullorðnir eru líka fórnarlömb sjálfsvíga, og þannig má það ekki vera í siðmenntuðu þjóðfélagi!

Sýnum virðingu þeim sem gáfu okkur ríkt þjóðfélag og gáfu okkur einnig lífið!

(Og kannski er þjóðfélagið orðið einum of ríkt ef við höfum gleymt því sem raunverulegu máli skiptir, eða þorpið sem þarf til að okkur geti liðið vel!)

gleðilega aðventu elskurnar,

xoxo

Ykkar Linda

 

Linda Baldvinsdóttir

Lifecoach, Samskiptaráðgjafi, Pararáðgjafi, TRM áfallaþjálfun

linda@manngildi.is

 


Umhyggja á óvissutímum

Á síðustu misserum höfum við Íslendingar svo sannarlega sýnt og sannað að við erum stórasta þjóð í heimi þegar kemur að því að sýna umhyggju gagnvart okkar samlöndunum á erfiðum tímum.

Við höfum sungið fyrir þá eldri sem einangruð eru, við höfum sungið fyrir hvert annað og við höfum sungið fyrir þá sem veikir eru. Við höfum dansað,djókað,farið út í búð fyrir nágranna okkar og við höfum þvegið okkur og sprittað allt í nafni umhyggjunnar. 

Hversu fagurt er þetta ekki?

Þetta sýnir svo vel okkar þjóðareinkenni þegar á bjátar, þar erum við sem einn maður að vinna að heill allra með umhyggju, samkennd og hæfileikum okkar á hinum ýmsu sviðum.

Við höfum gefið gjafir eins og hugleiðslur, leikfimi, Jóga, dans, námskeið, fría tíma í allskonar aðstoð og við gerum það af svo miklum kærleika að ég eiginlega kemst bara við og fyllist svo miklu stolti af okkar landsmönnum. 

 

Núna virðist eins og bylgja númer eitthvað af Covid sé að skella á okkur eða Delta 2 afbrigðið og við erum orðin örþreytt á óörygginu, einangruninni og öllu því sem fylgir þessu ástandi en getum þó ekki gefist upp fyrir því.

Þegar við stöndum frammi fyrir aðstæðum sem þessum þá held ég að það sé gott fyrir okkur að hafa í huga að umhyggja og umhugsun um náunga okkar virðast vera þeir þættir  sem bæta helst geð okkar og hamingju samkvæmt öllum rannsóknum sem ég hef rekist á.

Umhyggjan minnkar streitu og hættu á sjúkdómum á sama tíma svo nýtum okkur allt það fallega sem við eigum í hjarta okkar til að gera þessa tíma bærilega í stað þess að ráðast gegn hvort öðru og pirrast ógurlega. Engu að síður er það staðreynd að við erum á stað undirliggjani kvíða þó að við gerum okkur ekki endilega grein fyrir því og verðum þar af leiðandi uppstökk og þráðurinn verður oft styttri. Álag er einnig á mörgum og streitan nærri svo að við þurfum að passa okkur svolítið og skoða líðan okkar.

Munum að við erum mannlegar verur sem þurfum þessa nánd og umhyggju, faðmlög og vináttu við hvert annað og það er auðvelt að gleyma því að sinna því gagnvart þeim sem standa hjarta okkar nærri með einhverjum hætti.

En hvað getum við gert fyrir hvert annað til að létta þessa tíma þar sem nándin þarf að víkja og við erum orðin þreytt á sífelldum breytingum til og frá og vitum ekkert hvað morgundagurinn ber í skauti sér? 

 

Í fyrsta lagi ættum við að huga að þeim sem í innsta hring okkar eru og muna eftir þeim alla daga, ekki bara á Sunnudögum, páskum og jólum.

Í öðru lagi ættum við að hafa þá í huga sem búa einir eða hafa lítinn eða engan félagslegan stuðning, tökum bara upp símann og hringjum í þá.

Í þriðja lagi þá getum við haft online hittinga af ýmsum toga, saumaklúbb,  og t.d hef ég nokkrum sinnum farið í leiki með barnabörnunum á netinu og átt þannig samfélag við þau þegar ég hef ekki viljað taka sénsinn á því að hitta þau vegna veikinda öðru hvoru megin.

Í fjórða lagi getum við sent óvæntar gjafir eins og blóm og súkkulaði til þeirra sem við vitum að eru einmanna eða í sóttkví og glatt þannig hjarta þeirra.

Í fimmta lagi þá getum við sent textaskilaboð til þeirra sem okkur þykir vænt um þar sem við segjum eitthvað krúttlegt og sætt við þá í byrjun dagsins, það léttir daginn hjá mörgum að fá þannig skilaboð.

Í sjötta lagi þá ættum við að nota ímyndunaraflið okkar til að finna upp það sem ætti að vera í sjöunda lagi hér fyrir neðan.

Finnum allt sem gleður og hjálpar styður okkur í leiðinni til gleðilegra lífs og sáttar við okkur sjálf og samferðafólkið okkar.

Svo tæklum þessa nýju stöðu okkar með æðruleysið að vopni og kærleikann að leiðarljósi elskurnar, það skilar alltaf góðum árangri að lokum ásamt því að við fáum  betra sjálfstraust og heilsu í bónus.

Með kærleikskveðju og fullri trú á okkur íslendingum í þessari herferð við Delta 2 eins og öll hin afbrigðin og verum dugleg að deila þessu og öllu því sem við finnum jákvætt og uppbyggjandi á netinu svo að umhyggjan dreifi sér sem víðast um landið og miðin.

Kærleikskveðja,

Linda

 

Linda Baldvinsdóttir

Lifecoach, Samskiptaráðgjafi og TRM þjálfi.

Linda@manngildi.is


Lífið er svo stutt og brothætt

Ég fór að velta því fyrir mér hversvegna við notum svo stóran part af lífi okkar mörg hver í það að vera reið og pirruð eða að hafa skoðanir á hinu og þessu sem við fáum hvort eð er ekki breytt.

Hvernig við sóum kærleiksstundum og gleðistundum sem við gætum átt bara til að halda í það að við séum sannleikann eða að okkar viðhorf séu það rétta hverju sinni. Það er þó þannig að í öllum tilvikum að hver og einn hefur sinn sannleika og sitt rétta og ranga viðhorf og ekkert af því er endilega það rétta í stöðunni þar sem margar hliðar eru á hverju máli.

En ég ætla að setja hér nokkrar af þeim setningum sem komu í huga minn þegar ég fór í þessar heimspekilegu vangaveltur um daginn.

  • Hvers vegna hugsum við ekki um hversu stutt lífið er og hversu brothætt það er á sama tíma?
  • Hvers vegna hugsum við ekki út í það að fólkið okkar gæti verið tekið út úr lífi okkar í dag eða á morgun, og hvers vegna höldum við að við höfum allan tímann í veröldinni til að vera í samvistum við hvert annað? - Lífið er svo stutt og brothætt
  • Hvers vegna hugsum við ekki um það góða í fari fólks í stað þess að hugsa um það slæma sem það hefur í fari sínu, því að öll höfum við okkar kosti og galla? - Lífið er svo stutt og brothætt
  • Hversvegna sóum við orku okkar í að vera reið í fjölmiðlum eða í samræðum í stað þess að nýta þá orku sem í það fer til að breyta þeim kerfum sem þarf að breyta í þjóðfélaginu eða finna lausnir og koma þeim á rétta staði? - Lífið er svo stutt og brothætt
  • Hvers vegna höfum við skoðun á því hvernig náunginn ver lífi sínu, eignum eða athöfnum í stað þess að skoða okkar eigin tilvist? - Lífið er svo stutt og brothætt
  • Hvers vegna verjum við mörgum dögum eða vikum í að vera pirruð út í einhvern og sóa þar með dýrmætum tíma sem við gætum átt saman? - Lífið er svo stutt og brothætt
  • Hvers vegna heimsækjum við ekki þann sem við vitum að á bágt eða hringjum í hann? - Lífið er svo stutt og brothætt
  • Hvers vegna segjum við ekki falleg uppbyggjandi orð við þá sem eiga stað í hjarta okkar núna strax í dag? - Lífið er svo stutt og brothætt
  • Hvers vegna bökum við ekki pönnsur og færum þeim sem við vitum að eru einmanna og þurfa á hlýju að halda? - Lífið er svo stutt og brothætt
  • Hvers vegna framkvæmum við ekki það sem okkur langar að framkvæma hvað sem öðrum kann að finnast um það - Lífið er svo stutt og brothætt
  • Hvers vegna stimplum við atburði og aðstæður þannig að eitt sé gott en annað vont þegar að við flest gerum okkur grein fyrir því að þetta er allt að samverka til góðs með einum eða örðum hætti fyrr eða seinna? - Lífið er svo stutt og brothætt
  • Hvers vegna hugsum við ekki betur um heilsu okkar, matarræði og hreyfingu þegar við horfum uppá að hún er eitt það dýrmætasta sem við eigum? - Lífið er svo stutt og brothætt
  • Hvers vegna notum við ekki daginn í dag til að búa okkur til gleðistundir? - Lífið er svo stutt og brothætt
  • Hvers vegna opnum við ekki hjarta okkar fyrir ástinni og kærleika samferðamanna okkar? - Lífið er svo stutt og brothætt
  • Hvers vegna ferðumst við ekki til þeirra staða sem okkur langar að heimsækja á meðan við erum hér á jörðu, þó að það sé aðeins í draumheimum okkar? - Lífið er svo stutt og brothætt
  • Hvers vegna leyfum við fólki sem tekur frá okkur orku og gleði að vera inni í lífi okkar? - Lífið er svo stutt og brothætt
  • Hvers vegna leyfum við framkomu sem setur okkur niður eða gerir lítið úr okkur? - Lífið er svo stutt og brothætt
  • Hvers vegna finnst okkur við ekki nóg af einhverju eða of mikið af einhverju og hvers vegna eigum við ekki allt það besta skilið? - Lífið er svo stutt og brothætt
  • Hvers vegna segjum við ekki fyrirgefðu þegar við ættum að gera það? - Lífið er svo stutt og brothætt
  • Hvers vegna leyfum við misskilningi að eiga sér stað án þess að ræða það við viðkomandi aðila? - Lífið er svo stutt og brothætt
  • Hvers vegna leyfum við okkur ekki að elska þá dýrmætu sköpun sem við erum? (þú ert eina eintakið af þér) - Lífið er svo stutt og brothætt
  • Hvers vegna umvefjum við okkur ekki og huggum þegar hjarta okkar er sárt í stað þess að harka af okkur og æða áfram? - Lífið er svo stutt og brothætt
  • Hvers vegna höldum við í biturleika okkar í stað þess að sjá að allir sem inn í líf okkar komu gáfu okkur kennslustundir og fyrir þær ber að þakka? - Lífið er svo stutt og brothætt
  • Hvers vegna gefum við starfsþrek okkar umfram getu og orku og gefumst ekki upp fyrr en að líkaminn segir stopp? - Lífið er svo stutt og brothætt 
  • Hvers vegna erum við ekki okkar bestu vinir, alltaf? - Lífið er svo stutt og brothætt

Og að lokum, hvers vegna njótum við ekki þeirrar dásemdar sem lífið er og þökkum fyrir allt það sem við höfum alla daga og lítum það jákvæðum þakklátum augum?

Því að lífið er svo stutt, svo allt of stutt til að sóa því í leiðindi af öllum toga.

 

Kærleikskveðja til ykkar elskurnar og eins og ætíð er ég aðeins einni tímapöntun í burtu ef þú telur að ég geti aðstoðað þig á lífsveginum,

xoxo ykkar Linda 

Linda Baldvinsdóttir

Lifecoach, Samskiptaráðgjafi, pararáðgjafi, TRM áfalla þrautseigjuþjálfi.

linda@manngildi.is

 

 

 

Óttastu að fara í samband?

Þegar við erum orðin svona nokkuð þroskuð og lífsreynd, kannski fráskilin og misskilin eða höfum orðið fyrir sorgum eins og ástarsorg og missi maka þá er oft erfitt að gefa hjarta sitt fullkomlega og tengjast öðrum á svo nánum grunni eins og ástarsambönd eru.

Að mínu viti er þetta fullkomlega eðlilegt því að þeir sem hafa farið í gegnum þau atriði sem ég nefndi hér að framan vita hversu sárt það er ef að sambandið gengur ekki upp einhverra hluta vegna. 

Það er einnig að mörgu að hyggja þegar í ástarsamband er komið og það fyrsta sem upp í huga minn kemur er traustið sem getur tekið soddan óratíma að byggja upp þegar við erum búin að upplifa lífið. En traust og skuldbinding er það sem byggir upp sambandið ásamt vináttunni og ástinni og þess vegna er það svolítið erfiðara að gefa hjarta sitt eftir áföll á þessu sviði.

Að skuldbinda sig svo einni manneskju þegar þú hefur kannski verið ein eða einn á báti í mörg ár og ráðið þér algjörlega getur vafist fyrir okkur mörgum. Ekki vegna þess að við þráum það ekki, heldur vegna þess að það koma inn í það atriði eins og höfnun, hræðsla eða ótti við að sambandið haldist ekki.

Svo er það fjölskyldan sem flestir eiga fyrir þegar þeir eru komnir yfir miðjan aldur, börn barnabörn, fyrrum makar, tengdamömmur og tengdapabbar ásamt kannski mökum barnanna þinna og þegar svo er vandast málið heldur betur.

Hvað ef börnunum þínum líkar ekki við nýja makann? Er þá hætta á því að þú missir fjölskyldu þína eða mun hún komast til vits hvað það varðar og samþykkja val þitt eða muntu neita þér um sambandið til að halda í fjölskylduna?

Munu fyrrverandi makar verða á bakinu á þér eða verða allar fyrrum Tinderkærusturnar og kærastarnir á línunni um helgar þó að þú sért kominn í samband? Allt þetta getur haft áhrif á varnarviðbrögð þín framkvæmdir og opnun hjarta þíns.

Oft breytist líf þitt mikið þegar þú kemur inn í nýja fjölskyldu og það er ekkert ólíklegt að þið komið úr ólíku umhverfi sem þið þurfið að aðlaga ykkur að - og það getur tekið á. Þínar venjur versus mínar venjur geta orðið að deilumálum eða valdið kvíða og óróleika. Jólahald ólíkt, tyllidagar og veisluhald ólíkt og svo framvegis. Allt þetta getur haft áhrif og verður til þess að þú lokar kannski hjartanu meira en að þú opnir það af einskærri hræðslu við að mistakast að aðlagast öðrum aðila.

Svo eru það vinirnir. Þeir hafa oft meiri áhrif hreinlega heldur en fyrrum og núverandi fjölskyldur og makar. Vinahóparnir eiga það nefnilega til að skilja útundan því að þeir kunnu kannski bara svo vel við fyrrum makann eða þig þegar þú varst einhleyp/ur þannig að þeir hleypa nýja makanum ekki inn á sitt yfirráðasvæði og það særir djúpt þegar svo er. Og það er bara svolítið ljótt að gera svona krakkar.

Við viljum öll að val okkar á ástarviðhengjunum sé samþykkt og við viljum hafa leyfi til að skapa okkur hamingju á okkar hátt, svo tökum öllum bara opnum örmum á meðan þetta eru ekki stórglæpamenn og morðingjar.

Í dag er það talið sjálfsagt að vera í fjarbúð og hittast um helgar og á tyllidögum, ferðast og eiga sameiginleg áhugamál. Ég get vel skilið að það geti hentað í einhvern tíma til að hægt sé að forðast ágreininginn og hræðsluna sem ég talaði um hér að framan. Þegar til lengdar lætur tel ég þó að það sem við þörfunumst mest sé einmitt að vera í nándinni og samskiptunum sem gefa þessa einstöku tengingu sem gott samband ásamt friði og góðs heimilis geta gefið.

Svo verum ekki hrædd við ástina elsku bestu og opnum hjarta okkar fyrir henni og komum okkur úr varnargírnum - það er ekkert víst að þetta klikki hjá okkur.

En að fara einn í gegnum lífið án þess að hafa vitni að því skapar mörgum einstaklingnum einmannakennd og tilgangsleysi. 

Svo farðu af stað með opið hjarta og slökktu á flight and fight viðbrögðunum þínum, gefðu þér séns á því að hitta manneskju og kynnast henni á rólegan hátt og sjáðu hvort að hjarta þitt opnast ekki smátt og smátt, og hver veit - kannski fyllist það af ást og vellíðan eftir því sem þú opnar það meir og meir. Farðu af stað!

Þar til næst elskurnar

Ykkar Linda

Linda Baldvinsdóttir

Lifecoach með einstaklings og paratíma, Samskiptaráðgjafi og TRM 1 og 2

Linda@manngildi.is 


Hvernig færðu makann til að yfirgefa þig - 8 ráð

Við erum svo oft að skoða hvaða leiðir við ættum að fara til að láta sambönd okkar ganga upp en ég held að það geti verið okkur meinhollt að skoða stundum hvað við erum að gera sem gæti orðið banabiti sambandsins.

Ég ætla hér að koma með nokkur ráð til þín sem gætu gagnast mjög vel ef ætlun þín er að ljúka sambandinu eða hjónabandinu og ég sá einhverstaðar að 11 Desember er víst algengasti dagur skilnaða svo að líklega er talan 11 og lukkan sem við hana tengd tilkomin vegna þessa. (og þú hefur enn nokkra mánuði til athafna). 

Hér koma svo þessi 8 atriði:

  1. Rannsóknir hafa sýnt að númer eitt á sambandsslitalistanum eru framhjáhöld. Svo ef að þér liggur á að losna úr þínu sambandi þá er þetta nokkuð örugg leið til að losna hratt úr aðstæðunum. 
  2. Ekki hlusta á maka þinn og hans þarfir og óskir því að ef þú gerir það áttu það einungis á hættu að hann verði öruggur með sambandið og þig, og fari að líða aðeins of kósý þar. Það er stórhættulegt því að vellíðan og traust er kannski það lím sem heldur flestum samböndum gangandi.
  3. Ekki ræða það sem veldur þér gremju og pirringi eða það sem veldur því að þú vilt út úr sambandinu því að samskipti og lausnarmiðuð nálgun þar gæti leitt til þess að sambandið entist lengur en þú kærðir þig um.
  4. Sýndu hegðun eins og þá að hafa aldrei tíma fyrir makann og svaraðu ekki símtölum hans ásamt því að vera upptekinn öllum stundum með öðru fólki, vinnunni þinni og áhugamálum.
  5. Passaðu upp á það að lofa aldrei almennilega skuldbindingu og komdu með einhverjar ómerkilegar ástæður fyrir því afhverju þú vilt ekki eða getur ekki skuldbundið þig almennilega sambandinu og sjáðu hvort makinn/kæró flýr ekki af hólmi. Flestum tekst vel til með þetta trix nema þar sem hinn aðilinn er haldinn þráhyggju og sækir bara harðar að. Ef svo er þá er ekkert annað en að fara fram á nálgunarbann og leita að næsta hugsanlegu viðhengi sem lætur sér nægja skuldbindingalaust samband.
  6. Dreptu makann úr leiðindum með framkvæmdaleysi og ekki vera til í að framkvæma neitt annað en að fikta við sjónvarpsfjarstýringuna og flakka á milli stöðva. Með tímanum fer hinn aðilinn að leita út fyrir sambandið að skemmtilegheitum og þá er orðið stutt í slitin, þannig að ef þú vilt leitast eftir því að draga slitin aðeins á langinn þá er þetta lausnin.
  7. Vertu egoisti fram í fingurgóma og passaðu upp á að sambandið sé allt á þínum forsendum en ekki makans. Þú ákveður hvenær farið er út að borða, hvenær er ferðast, hvenær er farið í heimsóknir, hvenær þú "mátt" fá vini í heimsókn og svo framvegis. Svo ef þú bætir dassi af alvarlegri gerðinni af andlegu ofbeldi þá held ég að þetta gæti virkað vel, sérstaklega á sjálfstæðar konur sem láta illa að stjórn og eru fljótar að koma sér frá slíkum aðstæðum.
  8. Að lokum er rétt að taka það fram að við eigum öll okkar ástartungumál sem virka best til að halda okkur í samböndum þannig að ef þú veist að snerting, orð, gjafir, þjónusta eða gæðastundir eru ástartungumál makans þá er mjög einfalt að stroka bara út nándina, tjáninguna, gerast nískupúki, nenna ekki að gera neitt fyrir hinn aðilann og eins og áður er nefnt, ekki gefa þér tíma til að sinna sambandinu og þá held ég að þetta muni takast hjá þér að lokum.

Gangi þér vel með að ljúka sambandinu þínu ef það er ætlun þín, en ef þig langar að gefa því framhaldslíf og gera það betra, þá einfaldlega snýrðu við þeim ráðum sem hér eru gefin, gerist uppreisnargjarn/gjörn og ferð þvert á það sem ég hef skrifað hér (Sem ég vona svosem að þú gerir).

Eins og alltaf ef þú þarft aðstoð við lífsins málefni þá er ég bara einni tímapöntun í burtu.

Þar til næst elskurnar,

xoxo ykkar Linda

 

Linda Baldvinsdóttir

Markþjálfi, samskiptaráðgjafi og TRM áfallanám 1 og 2.

linda@manngildi.is 

 

 


Að missa lífsviljann

Hvernig stendur á því að svo margir í þjóðfélagi okkar og reyndar víða um heim finna sig á svo einmannalegum og vonlausum stað að þeir sjá sér einungis fært að taka sitt eigið líf vegna vanlíðunar?

Hvað erum við að gera rangt? 

Hvaða hlutverk höfum við tekið í burtu sem áður gáfu þessum aðilum tilgang sinn?

Eru fjölskylduböndin okkar orðin svo léleg að við finnum okkur óþörf í samskiptum við börn okkar afkomendur og vini? Eða er einmannaleikinn og hlutverkaskorturinn orðinn svo nístandi að okkur langar kannski ekki til að lifa lengur?

Núna að undanförnu hef ég heyrt af allt of mörgum tilfellum af þessum toga til að segja ekki eitthvað og vekja athygli á þessari sorglegu staðreynd sem virðist vera að festa sig í sessi um víða veröld þannig að sum lönd sjá sér ekki annað fært en að hafa sérstaka ráðherra sem fara með þessi málefni. Hér heima hefur þessum tilfellum tilgangsleysis og einmannaleika fjölgað mjög mikið og sjálfsvígum fer einnig fjölgandi þannig að við ættum kannski að fara að horfa til þess að bæta við einum ráðherra hér sem færi með þessi málefni. ÉG veit að ég má sjálf taka til mín margt af því sem ég skrifa hér og er svosem ekki stolt af því að viðurkenna það, en það að viðurkenna vandann er þó fyrsta skrefið í áttina að því að lagfæra ástandið.

Hvað er það sem veldur þessu?

Eru börnin okkar orðin of upptekin af sjálfum sér til að huga vel að þeim sem gáfu þeim lífið fyrir utan á þeim stundum þar sem þeir þurfa pössun eða öðrum greiðum að halda? eða er þeim kannski bara orðið sama? Og hefur kærleikurinn manna á milli almennt kólnað?

Hvar eru ömmurnar sem voru settar í öndvegi og sáu um matargerð og bakstur ásamt fræðslu afkomendanna?  Núna eru þær önnum kafnar við starfsferilinn og tómstundirnar ásamt félagsstörfunum sem taka drjúgan tíma, og enginn hefur tíma fyrir einn né neinn og almáttugur minn hvað við erum að tapa miklu með því að fórna því sem merkilegra er fyrir það sem skiptir litlu sem engu máli þegar allt kemur til alls. 

Hvernig er með samband afanna við barnabörnin? eru þeir að kenna þeim að smíða, laga hluti og hvernig á að annast um fjölskyldumeðlimina eða draga björg í bú? Nei ég held að sömu atriði eigi við hjá þeim eins og hjá ömmunum, allt of uppteknir við hjómið eitt.

Því miður held ég að samskiptin og alúðin sem var hér áður sé svolítið að hverfa frá okkur og eftir sitja kynslóðir sem sjá bara engan tilgang með tilveru sinni hér. Og sjúkdómar eins og þunglyndi og kvíði ásamt mörgum öðrum nútímagreiningum verða allsráðandi án þess að uppruninn sé kannaður niður í kjölinn.

Streitan vex, einangrun vex, kærleikurinn kólnar og hver verður sjálfum sér næstur. Hjónaböndin verða einnota, metnaðargirnin allsráðandi og enginn er maður með mönnum öðruvísi en að vera í svo og svo stóru húsi með dýra flotta jeppann í hlaðinu, við erum með útbrunna einstaklinga og vandræðabörn sem falla ekki inn í rammana sem amerísku bíómyndirnar eru fyrirmyndirnar að.  Við leitum ekki að rót vandans sem er líklegast falin í því að frumþörfum  okkar er ekki mætt, en þær eru samkvæmt niðurstöðum frá félagsvísindakonunni Bréne Brown það að tilheyra, að vera elskaður og að þora að gera sig berskjaldaðan, því að það er einungis í berskjölduninni sem við sýnum okkur sjálf eins og við erum og frá þeim stað gefum við ást okkar umhyggju og kærleika, og þorum að taka áhættur.

Það tekur ekki langan tíma að hafa samband eða að kikka í heimsókn til foreldra eða barna ef þeir búa á sama stað og í dag er það ekki einu sinni erfitt að vera í sambandi hvar sem er í heiminum þar sem flestir hafa aðgang að interneti og myndavél og geta átt í samskiptum þaðan þegar annað er ekki í boði. Þannig að sambandsleysið og tilgangsleysið sem þeir sem eru einmanna upplifa er einungis hægt að skrifa á okkur sem gefum okkur ekki tíma til að sinna þeim sem í kringum okkur eru.

Svo breytum þessu og gerum betur - við getum það svo auðveldlega ef bara viljinn og umhugsunin um náungann er til staðar - það á enginn að finna sig afskiptan eða að hafa ekki tilgangi að gegna í lífinu.

Ég ætla að enda þennan pistil á nokkrum tilvitnunum í orð Bréne Brown og vona svo sannarlega að þau veki okkur til umhugsunar og viðbragða við þeirri ógn sem er ekki síður hættuleg en faraldurinn sem við glímum við í dag. 

Það á enginn að upplifa sig án kærleika, umhyggju og tilgangs.

Bréne Brown tilvitnanir: 

"Þeir sem finna sig elskuverða, sem elska og upplifa að þeir tilheyri einfaldlega 
trúa því að þeir séu verðugir þess að vera elskaðir og að tilheyra.“ „Við þurfum ekki að gera allt saman ein. Okkur var aldrei ætlað það. “ „Vanmetið aldrei þann kraft sem felst í því að við séum séð.“

Þar til næst elskurnar,
xoxo
Ykkar Linda

Linda Baldvinsdóttir
Lifecoach, samskiptaráðgjafi og TRM ráðgjafi
linda@manngildi.is
 
 
 
 
 
 

 

 

 

 


Elskar hann þig?

Ég ákvað að skrifa soldið sumarlegan pistil í anda rauðu ástarsagnanna eða svona elskar hann mig eða elskar hann mig ekki pælingar, þó með pínulitlum undirtóni alvörunnar. 

Það eru nokkur atriði sem flestir virðast vera sammála um að séu til staðar þegar karlmaður er fallinn fyrir þér, og já það er munur á kynjunum þegar að þessu kemur þó að við eigum stundum erfitt með að viðurkenna það.

 

Í fyrsta lagi þá hlustar hann virkilega á þig og heyrir það er sem þú ert að segja (Við konur erum miklu betri í því svona venjulega). Eins og við vitum flest þá er það þannig að við flest hlustum til þess eins að bregðast við og svara til baka, en þannig er það ekki þegar maðurinn er ástfanginn af þér - þá bara hlustar hann til að heyra betur hver þú ert, hverju þú stendur fyrir og hvernig þér líður.

 

Í öðru lagi þá er honum svo sannarlega sama hvernig þú lítur út (þó að hann tárist þegar þú ert komin í litla svarta kjólinn með rauða varalitinn), í hans augum ertu bara falleg hvort sem það er snemma morguns og þú með úfið hárið eða þegar þú ert tilhöfð. Hann bara elskar þig eins og þú ert!

 

Í þriðja lagi þá hleypir hann þér að sér tilfinningalega og opnar á ýmislegt sem hann gerir ekki gagnvart öðrum og gerir þig þannig að trúnaðarvini sínum. Þannig gefur hann þér færi á því að geta sært hann (sem þú auðvitað gerir ekki) og ég get sagt þér það að menn eiga ekkert allt of auðvelt með að opna inn að hjartarótum og berskjalda tilfinningar sínar þannig að þú getur verið viss um að honum er alvara með þig þegar hann gerir slíkt.

 

Í fjórða lagi þá er ekkert sem veitir honum meiri ánægju en að sjá þig hamingjusama og hann teygir sig langt í fórnarhlutverkinu til að svo megi verða. Fátt sem gleður hann meira en brosið þitt og hamingjusvipur á andliti þínu. Það verður einhverskonar skylda hans að sjá til þess að þú hafir það í lífinu sem veitir þér ánægju og ef hann veit að þér þykir eitthvað skemmtilegt eða fallegt þá leggur hann sig í líma við að skaffa þér það ef það er á hans færi að geta það. Og fátt gerir manninn óhamingjusamari en það að finna sig vanmáttugan á þessu sviði.

 

Í fimmta lagi þá hefur hann áhuga á því að kynnast þeim sem þér þykir vænt um og tekur þá inn í sinn kærleikshring einungis til að þér geti liðið betur og finnir þig örugga. Þannig að Nonni mágur verður allt í einu besti vinur hans og mamma þín bakar bestu kleinur í heimi og auðvitað heimsækir hann ættingja þína í tíma og ótíma til að gera þig ánægða.

 

Í sjötta lagi þá er það alveg á hreinu að hann mun berjast fyrir því að halda þér og mun ekki láta þig sleppa frá sér án baráttu. Hann getur ekki hugsað sér lífið án þín og því mun hann gera allt sem í hans valdi stendur til að lagfæra það sem þarf að lagfæra svo að hann geti haldið þér og í raun gerir hvað sem er til þess að missa þig ekki. (Stundum verður þetta að þráhyggju og hann situr um þig og fylgist með þér sem er lítið rómantískt og frekar óhugnanlegt)

 

Í sjöunda lagi þá vill hann veita þér öryggi, það eru flestir karlmenn þannig að þeir vilja að konan sín og fjölskylda búi við öryggi og ekki þykir honum verra að þú finnir öryggi í faðmi hans (Stór og sterkur). Þó að konur í dag séu flestar færar um að skaffa sér sitt eigið öryggi er það manninum samt mikilvægt að leggja sitt af mörkum til að konan finni sig örugga og fyrir honum er það ein af ástartjáningum hans.

 

Í áttunda lagi þá finnst honum þú æðisleg og finnst allt sem þú gerir svo frábært. Hann montar sig af þér hvar sem er og vill helst sýna öllum heiminum hversu mikils virði þú ert honum og hversu æðisleg þú ert. Stundum getur það þó gengið út í öfgar og þú ert sett á stall sem þú getur svo auðveldlega dottið ofan af, en njóttu þess bara samt á meðan það varir.(Algjör óþarfi að njóta ekki sólarstundanna þegar þær gefast)

 

Í níunda lagi þá vill hann vita veg þinn sem mestan og vill lyfta þér upp og sjá til þess að draumar þínir rætist. Hann mun hvetja þig til að teygja þig umfram þá getu sem þú telur þig hafa og hvetja þig alla leið. Hann mun aðstoða þig með öllum tiltækum ráðum sem hann veit um eða finnur og trúðu mér hann mun leita! Hann mun einnig nýta tengslanet sitt fyrir þig þó að hann eigi erfitt með að gera það fyrir sjálfan sig. 

 

Og í tíunda lagi þá er bara gott að elska eins og Bubbi söng svo fallega um hér um árið og það er svo fallegt að njóta ástar annars aðila. Ég vona svo sannarlega að við öll fáum að finna hversu gott það er á einum eða öðrum tímapunkti ævinnar, og ef þú ert svo heppin að eiga kærasta/mann sem þessi atriði passa við þá hvet ég þig til að halda því eintaki þétt að þér. Því að trúðu mér þú rekst ekki á ást af þessum toga á hverjum áratugi eða öld ef því er að skipta.

Eins og alltaf er ég einungis einni tímapöntun í burtu frá þér ef þú þarft á mér að halda.

 

Xoxo

Ykkar Linda

 

Linda Baldvinsdóttir

Lifeccoach, samskiptaráðgjafi , TRM áfallafræði 1 og 2

linda@manngildi.is

 


Konur beita líka ofbeldi í samböndum

 
 
 
 



 
 
 
 

Hefurðu heyrt um tilfinningalegt sifjaspell?

Ég rakst á þetta hugtak "Tilfinningalegt sifjaspell eða "covert incest" stundum einnig kallað "emotional incest"og eða "surrogate mother syndrome"í grein á netinu og fór að kynna mér málefnið á hinum ýmsu stöðum. Þetta form af sifjaspellum er alls ekki kynferðislegt þó að það sé ekki langt frá því að hafa sömu áhrif á þolandann og getur í sumum tilfellum leitt einnig til þess að hin kynferðislegu myndist í kjölfarið. En Það sem einkennir tilfinningalegt sifjaspell er semsagt samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér skilgreind þannig að mörkin verða mjög óskýr á milli þess fullorðna og barnsins og koma líklega til með að valda sálrænum erfiðleikum síðar á ævinni hjá barninu, erfiðleikum sem eru jafnvel ekki ósvipuð og þegar kynferðislegt sifjaspell á í hlut. Fyrir þá sem ekki vita hvað sifjaspell er þá könnumst við líklega flest við að þar sé átt við kynferðislegt samband á milli systkina, föður og dóttur eða móður og sonar, en það tilfinningalega er án þessa kynferðislegu tilburða þó að í sumum tilfellum þróist það í þá átt eins og ég sagði hér að framan.

Foreldrið í tilfinningalega sifjaspellunum kemur semsagt fram við barnið sitt eins og það væri fullorðinn aðili og eða jafnvel maki þess, gerir barnið þannig að trúnaðarvini sínum og jafnvel ábyrgðaraðila á sér. Þarna held ég að margir sem hafa alist upp við vanvirkar aðstæður staldri við og kannist við að hafa þurft að taka ábyrgð allt of snemma á lífsleiðinni. 

Eins og í svo mörgum tilvikum þar sem börn koma úr erfiðum uppeldisaðstæðum geta þau átt í erfiðleikum á fullorðinsárum en gera sér ekki grein fyrir hvers vegna svo er. Algengt er þó að þessi börn muni eiga í erfiðleikum við að viðhalda viðeigandi mörkum og kunni alls ekki á þau, glími við átraskanir, ýmiskonar sjálfsskaðandi sjúkdóma, sé fullt af óánægju í samböndum sínum og glími við vímuefnaneyslu svo fátt eitt sé nefnt. 

Nokkur algeng einkenni á tilfinningalegu sifjaspelli:

  • Þegar foreldrið biður barnið um ráð varðandi málefni sín eins og td þegar um hjónabandserfiðleika er að ræða og ræðir jafnvel kynferðislegar tilfinningar og athafnir ásamt fleiri atriðum sem betur væru rædd við annan fullorðinn aðila sem hefur þroska til að gefa ráð. Þarna geta orðið til mjög óskýr mörk í huga barnsins og það ber það markaleysi áfram fram á fullorðinsárin. Þarna er hlutverkunum snúið við og barnið ber óbeint ábyrgð á þeim fullorðna sem er langt frá því að teljast eðlilegt. dæmi um óskýr mörk eru einnig þegar mörk barnsins eru ekki virt og farið í persónuleg gögn þeirra án þess að til þess sé rík ástæða. 
  • Viðurkenningaþörf. Foreldrarnir sækja sér stöðuglega viðurkenningu á persónu sinni útliti og framkvæmdum frá barni sínu jafnt í einrúmi sem og á almannafæri og ef þeim líður illa eða eru reiðir er það hlutverk barnsins að koma því í lag.
  • Er besti vinur barnsins. Þegar foreldri er besti vinur barns síns koma oft upp markaleysi í samskiptunum og aginn og kennsla hins fullorðna á lífið verður óljós og ómarkviss. Að eiga foreldri sem ekki er fært um eða tilbúið til að vera sá fullorðni í aðstæðunum en setur hinsvegar ábyrgðina yfir á óþroskað barnið hamlar eðlilegum þroskastigum þess og tekur jafnvel frá þeim æskuna og gleðina sem ætti að fylgja því að fá að þroskast með eðlilegum hætti.   
  • Meðferðaraðila-hlutverkið. Að setja barn í bílstjórasætið vegna tilfinningalegrar kreppu eða sambands hins fullorðinna rænir þau eðlilegri félagsmótun. Seinna á ævinni getur barninu fundist best að sjá um tilfinningalegar þarfir einhvers annars en þeirra eigin og líður best þannig. Í sumum tilfellum getur verið erfitt fyrir fullorðið barnið að eiga endingagott og stabílt rómantískt samband og vita sínar eigin þarfir þar, og oft er það þannig að foreldrið gerir sitt ýtrasta til þess að eyðileggja sambönd barnsins síns á fullorðinsárum. Þetta á sérstaklega við þar sem óljós mörk eru á hlutverkaskiptunum og þar sem foreldrið fer jafnvel á "date" með barni sínu og talar um útlit þess og þokka á svipaðan hátt og gert er í rómantísku sambandi ásamt því að ætlast til dekurs og athafna sem hæfa einungis í makasamböndum. 

Tilfinningalegt sifjaspell er líklegast til að eiga sér stað þegar foreldri er einmana og finnur sig ekki hafa annan fullorðinn einstakling til að ræða málefni sín við. Nýskildir foreldrar og þeir sem misst hafa maka sinn geta fundið ákaflega fyrir fjarveru maka síns og sett börnin sín í hlutverk hans á ýmsan hátt og ætlast til þess að börnin fullnægi þörf foreldrisins fyrir nánd og félagsskap. Þar með fá börnin nýjar skyldur og hlutverk sem alls ekki hæfa aldri þeirra né eru viðeigandi (sama hvaða aldur við erum að tala um, jafnvel á fullorðinsárum.)

Mér fannst ótrúlega áhugavert að lesa um þetta hugtak sem ég hafði aldrei heyrt talað um áður og sýnist á öllu því sem ég hef lesið að þetta geti þróast upp í að verða að persónuleikaröskun sem er mjög alvarlegt mál. Ekki fann ég tölfræði hvað varðar prósentur og fjölda tilfella þar sem talið er að börn séu að lenda í þessum aðstæðum, en tel þó sjálf að það verði töluverður fjöldi sem kannist við margt sem hér kemur fram og hvet ég þá til að leita sér aðstoðar hjá sérfræðingum og ráðgjöfum til að hægt sé að kortleggja stöðuna og fá aðstoð við lækningu og lausn.

En hér eru nokkur ráð af mörgum sem ég rakst á í þessu grúski mínu sem geta gagnast þér í leitinni að bata ef þú hefur orðið fyrir tilfinningalegu sifjaspelli:

  • Settu upp sterk mörk - það er mjög mikilvægt að þú sýnir fram á þín einstaklingsmörk og haldir þeim þó að líklegt sé að þú hafir það sterkt í eðli þínu að þóknast öðrum alla jafna.
  • Byggðu upp stuðningskerfi heilbrigðra einstaklinga í kringum þig - því heilbrigðari sem samböndin í kringum þig eru, því auðveldara verður fyrir þig að sjá hvað er heilbrigt og hvað er óheilbrigt í samskiptum.
  • Farðu til meðferðaraðila eða taktu þátt í stuðningshópi - að fá samþykki og staðfestingu á upplifun þinni og reynslu færir þig langt í bata þínum.
  • Farðu út úr aðstæðunum ef þú getur - þú berð ekki ábyrgð á foreldri þínu og ef þú getur yfirgefið aðstæðurnar með öruggum hættigætirðu viljað íhuga þann kost.
  • Það verður sársaukafullt og erfitt að skoða sögu þína en það er þess virði að leggja sig fram við það - foreldri þitt mun kannski aldrei skilja sársaukann sem þú upplifðir, en þú getur og átt skilið að finna sterkara jafnvægi í samböndum þínum í framtíð þinni.

Ég vona að þetta grúsk mitt hafi gagnast einhverjum í sjálfsþekkingarleit sinni og að minnsta kosti var margt þarna sem vakti minn áhuga og jók þekkingu mína.

Eins og alltaf er ég bara einni tímapöntun í burtu frá þér ef þig vantar aðstoð við þín lífsins málefni, og þar til næst elskurnar,

xoxo 

Ykkar Linda

Linda Baldvinsdóttir

Lifecoach, samskiptaráðgjafi og TRM áfallafræði 1 og 2.

linda@manngildi.is 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Linda Baldvinsdóttir

Höfundur

Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ..._s4i6862_2
  • ...0eaf470d6_2
  • ...98009927331
  • pistill mynd
  • 15608665 10210640975833107 554134899 o

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 24
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband