16.8.2021 | 17:38
Að missa lífsviljann
Hvernig stendur á því að svo margir í þjóðfélagi okkar og reyndar víða um heim finna sig á svo einmannalegum og vonlausum stað að þeir sjá sér einungis fært að taka sitt eigið líf vegna vanlíðunar?
Hvað erum við að gera rangt?
Hvaða hlutverk höfum við tekið í burtu sem áður gáfu þessum aðilum tilgang sinn?
Eru fjölskylduböndin okkar orðin svo léleg að við finnum okkur óþörf í samskiptum við börn okkar afkomendur og vini? Eða er einmannaleikinn og hlutverkaskorturinn orðinn svo nístandi að okkur langar kannski ekki til að lifa lengur?
Núna að undanförnu hef ég heyrt af allt of mörgum tilfellum af þessum toga til að segja ekki eitthvað og vekja athygli á þessari sorglegu staðreynd sem virðist vera að festa sig í sessi um víða veröld þannig að sum lönd sjá sér ekki annað fært en að hafa sérstaka ráðherra sem fara með þessi málefni. Hér heima hefur þessum tilfellum tilgangsleysis og einmannaleika fjölgað mjög mikið og sjálfsvígum fer einnig fjölgandi þannig að við ættum kannski að fara að horfa til þess að bæta við einum ráðherra hér sem færi með þessi málefni. ÉG veit að ég má sjálf taka til mín margt af því sem ég skrifa hér og er svosem ekki stolt af því að viðurkenna það, en það að viðurkenna vandann er þó fyrsta skrefið í áttina að því að lagfæra ástandið.
Hvað er það sem veldur þessu?
Eru börnin okkar orðin of upptekin af sjálfum sér til að huga vel að þeim sem gáfu þeim lífið fyrir utan á þeim stundum þar sem þeir þurfa pössun eða öðrum greiðum að halda? eða er þeim kannski bara orðið sama? Og hefur kærleikurinn manna á milli almennt kólnað?
Hvar eru ömmurnar sem voru settar í öndvegi og sáu um matargerð og bakstur ásamt fræðslu afkomendanna? Núna eru þær önnum kafnar við starfsferilinn og tómstundirnar ásamt félagsstörfunum sem taka drjúgan tíma, og enginn hefur tíma fyrir einn né neinn og almáttugur minn hvað við erum að tapa miklu með því að fórna því sem merkilegra er fyrir það sem skiptir litlu sem engu máli þegar allt kemur til alls.
Hvernig er með samband afanna við barnabörnin? eru þeir að kenna þeim að smíða, laga hluti og hvernig á að annast um fjölskyldumeðlimina eða draga björg í bú? Nei ég held að sömu atriði eigi við hjá þeim eins og hjá ömmunum, allt of uppteknir við hjómið eitt.
Því miður held ég að samskiptin og alúðin sem var hér áður sé svolítið að hverfa frá okkur og eftir sitja kynslóðir sem sjá bara engan tilgang með tilveru sinni hér. Og sjúkdómar eins og þunglyndi og kvíði ásamt mörgum öðrum nútímagreiningum verða allsráðandi án þess að uppruninn sé kannaður niður í kjölinn.
Streitan vex, einangrun vex, kærleikurinn kólnar og hver verður sjálfum sér næstur. Hjónaböndin verða einnota, metnaðargirnin allsráðandi og enginn er maður með mönnum öðruvísi en að vera í svo og svo stóru húsi með dýra flotta jeppann í hlaðinu, við erum með útbrunna einstaklinga og vandræðabörn sem falla ekki inn í rammana sem amerísku bíómyndirnar eru fyrirmyndirnar að. Við leitum ekki að rót vandans sem er líklegast falin í því að frumþörfum okkar er ekki mætt, en þær eru samkvæmt niðurstöðum frá félagsvísindakonunni Bréne Brown það að tilheyra, að vera elskaður og að þora að gera sig berskjaldaðan, því að það er einungis í berskjölduninni sem við sýnum okkur sjálf eins og við erum og frá þeim stað gefum við ást okkar umhyggju og kærleika, og þorum að taka áhættur.
Það tekur ekki langan tíma að hafa samband eða að kikka í heimsókn til foreldra eða barna ef þeir búa á sama stað og í dag er það ekki einu sinni erfitt að vera í sambandi hvar sem er í heiminum þar sem flestir hafa aðgang að interneti og myndavél og geta átt í samskiptum þaðan þegar annað er ekki í boði. Þannig að sambandsleysið og tilgangsleysið sem þeir sem eru einmanna upplifa er einungis hægt að skrifa á okkur sem gefum okkur ekki tíma til að sinna þeim sem í kringum okkur eru.
Svo breytum þessu og gerum betur - við getum það svo auðveldlega ef bara viljinn og umhugsunin um náungann er til staðar - það á enginn að finna sig afskiptan eða að hafa ekki tilgangi að gegna í lífinu.
Ég ætla að enda þennan pistil á nokkrum tilvitnunum í orð Bréne Brown og vona svo sannarlega að þau veki okkur til umhugsunar og viðbragða við þeirri ógn sem er ekki síður hættuleg en faraldurinn sem við glímum við í dag.
Það á enginn að upplifa sig án kærleika, umhyggju og tilgangs.
Bréne Brown tilvitnanir:
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.7.2021 | 14:03
Elskar hann þig?
Ég ákvað að skrifa soldið sumarlegan pistil í anda rauðu ástarsagnanna eða svona elskar hann mig eða elskar hann mig ekki pælingar, þó með pínulitlum undirtóni alvörunnar.
Það eru nokkur atriði sem flestir virðast vera sammála um að séu til staðar þegar karlmaður er fallinn fyrir þér, og já það er munur á kynjunum þegar að þessu kemur þó að við eigum stundum erfitt með að viðurkenna það.
Í fyrsta lagi þá hlustar hann virkilega á þig og heyrir það er sem þú ert að segja (Við konur erum miklu betri í því svona venjulega). Eins og við vitum flest þá er það þannig að við flest hlustum til þess eins að bregðast við og svara til baka, en þannig er það ekki þegar maðurinn er ástfanginn af þér - þá bara hlustar hann til að heyra betur hver þú ert, hverju þú stendur fyrir og hvernig þér líður.
Í öðru lagi þá er honum svo sannarlega sama hvernig þú lítur út (þó að hann tárist þegar þú ert komin í litla svarta kjólinn með rauða varalitinn), í hans augum ertu bara falleg hvort sem það er snemma morguns og þú með úfið hárið eða þegar þú ert tilhöfð. Hann bara elskar þig eins og þú ert!
Í þriðja lagi þá hleypir hann þér að sér tilfinningalega og opnar á ýmislegt sem hann gerir ekki gagnvart öðrum og gerir þig þannig að trúnaðarvini sínum. Þannig gefur hann þér færi á því að geta sært hann (sem þú auðvitað gerir ekki) og ég get sagt þér það að menn eiga ekkert allt of auðvelt með að opna inn að hjartarótum og berskjalda tilfinningar sínar þannig að þú getur verið viss um að honum er alvara með þig þegar hann gerir slíkt.
Í fjórða lagi þá er ekkert sem veitir honum meiri ánægju en að sjá þig hamingjusama og hann teygir sig langt í fórnarhlutverkinu til að svo megi verða. Fátt sem gleður hann meira en brosið þitt og hamingjusvipur á andliti þínu. Það verður einhverskonar skylda hans að sjá til þess að þú hafir það í lífinu sem veitir þér ánægju og ef hann veit að þér þykir eitthvað skemmtilegt eða fallegt þá leggur hann sig í líma við að skaffa þér það ef það er á hans færi að geta það. Og fátt gerir manninn óhamingjusamari en það að finna sig vanmáttugan á þessu sviði.
Í fimmta lagi þá hefur hann áhuga á því að kynnast þeim sem þér þykir vænt um og tekur þá inn í sinn kærleikshring einungis til að þér geti liðið betur og finnir þig örugga. Þannig að Nonni mágur verður allt í einu besti vinur hans og mamma þín bakar bestu kleinur í heimi og auðvitað heimsækir hann ættingja þína í tíma og ótíma til að gera þig ánægða.
Í sjötta lagi þá er það alveg á hreinu að hann mun berjast fyrir því að halda þér og mun ekki láta þig sleppa frá sér án baráttu. Hann getur ekki hugsað sér lífið án þín og því mun hann gera allt sem í hans valdi stendur til að lagfæra það sem þarf að lagfæra svo að hann geti haldið þér og í raun gerir hvað sem er til þess að missa þig ekki. (Stundum verður þetta að þráhyggju og hann situr um þig og fylgist með þér sem er lítið rómantískt og frekar óhugnanlegt)
Í sjöunda lagi þá vill hann veita þér öryggi, það eru flestir karlmenn þannig að þeir vilja að konan sín og fjölskylda búi við öryggi og ekki þykir honum verra að þú finnir öryggi í faðmi hans (Stór og sterkur). Þó að konur í dag séu flestar færar um að skaffa sér sitt eigið öryggi er það manninum samt mikilvægt að leggja sitt af mörkum til að konan finni sig örugga og fyrir honum er það ein af ástartjáningum hans.
Í áttunda lagi þá finnst honum þú æðisleg og finnst allt sem þú gerir svo frábært. Hann montar sig af þér hvar sem er og vill helst sýna öllum heiminum hversu mikils virði þú ert honum og hversu æðisleg þú ert. Stundum getur það þó gengið út í öfgar og þú ert sett á stall sem þú getur svo auðveldlega dottið ofan af, en njóttu þess bara samt á meðan það varir.(Algjör óþarfi að njóta ekki sólarstundanna þegar þær gefast)
Í níunda lagi þá vill hann vita veg þinn sem mestan og vill lyfta þér upp og sjá til þess að draumar þínir rætist. Hann mun hvetja þig til að teygja þig umfram þá getu sem þú telur þig hafa og hvetja þig alla leið. Hann mun aðstoða þig með öllum tiltækum ráðum sem hann veit um eða finnur og trúðu mér hann mun leita! Hann mun einnig nýta tengslanet sitt fyrir þig þó að hann eigi erfitt með að gera það fyrir sjálfan sig.
Og í tíunda lagi þá er bara gott að elska eins og Bubbi söng svo fallega um hér um árið og það er svo fallegt að njóta ástar annars aðila. Ég vona svo sannarlega að við öll fáum að finna hversu gott það er á einum eða öðrum tímapunkti ævinnar, og ef þú ert svo heppin að eiga kærasta/mann sem þessi atriði passa við þá hvet ég þig til að halda því eintaki þétt að þér. Því að trúðu mér þú rekst ekki á ást af þessum toga á hverjum áratugi eða öld ef því er að skipta.
Eins og alltaf er ég einungis einni tímapöntun í burtu frá þér ef þú þarft á mér að halda.
Xoxo
Ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
Lifeccoach, samskiptaráðgjafi , TRM áfallafræði 1 og 2
linda@manngildi.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.5.2021 | 12:56
Hefurðu heyrt um tilfinningalegt sifjaspell?
Ég rakst á þetta hugtak "Tilfinningalegt sifjaspell eða "covert incest" stundum einnig kallað "emotional incest"og eða "surrogate mother syndrome"í grein á netinu og fór að kynna mér málefnið á hinum ýmsu stöðum. Þetta form af sifjaspellum er alls ekki kynferðislegt þó að það sé ekki langt frá því að hafa sömu áhrif á þolandann og getur í sumum tilfellum leitt einnig til þess að hin kynferðislegu myndist í kjölfarið. En Það sem einkennir tilfinningalegt sifjaspell er semsagt samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér skilgreind þannig að mörkin verða mjög óskýr á milli þess fullorðna og barnsins og koma líklega til með að valda sálrænum erfiðleikum síðar á ævinni hjá barninu, erfiðleikum sem eru jafnvel ekki ósvipuð og þegar kynferðislegt sifjaspell á í hlut. Fyrir þá sem ekki vita hvað sifjaspell er þá könnumst við líklega flest við að þar sé átt við kynferðislegt samband á milli systkina, föður og dóttur eða móður og sonar, en það tilfinningalega er án þessa kynferðislegu tilburða þó að í sumum tilfellum þróist það í þá átt eins og ég sagði hér að framan.
Foreldrið í tilfinningalega sifjaspellunum kemur semsagt fram við barnið sitt eins og það væri fullorðinn aðili og eða jafnvel maki þess, gerir barnið þannig að trúnaðarvini sínum og jafnvel ábyrgðaraðila á sér. Þarna held ég að margir sem hafa alist upp við vanvirkar aðstæður staldri við og kannist við að hafa þurft að taka ábyrgð allt of snemma á lífsleiðinni.
Eins og í svo mörgum tilvikum þar sem börn koma úr erfiðum uppeldisaðstæðum geta þau átt í erfiðleikum á fullorðinsárum en gera sér ekki grein fyrir hvers vegna svo er. Algengt er þó að þessi börn muni eiga í erfiðleikum við að viðhalda viðeigandi mörkum og kunni alls ekki á þau, glími við átraskanir, ýmiskonar sjálfsskaðandi sjúkdóma, sé fullt af óánægju í samböndum sínum og glími við vímuefnaneyslu svo fátt eitt sé nefnt.
Nokkur algeng einkenni á tilfinningalegu sifjaspelli:
- Þegar foreldrið biður barnið um ráð varðandi málefni sín eins og td þegar um hjónabandserfiðleika er að ræða og ræðir jafnvel kynferðislegar tilfinningar og athafnir ásamt fleiri atriðum sem betur væru rædd við annan fullorðinn aðila sem hefur þroska til að gefa ráð. Þarna geta orðið til mjög óskýr mörk í huga barnsins og það ber það markaleysi áfram fram á fullorðinsárin. Þarna er hlutverkunum snúið við og barnið ber óbeint ábyrgð á þeim fullorðna sem er langt frá því að teljast eðlilegt. dæmi um óskýr mörk eru einnig þegar mörk barnsins eru ekki virt og farið í persónuleg gögn þeirra án þess að til þess sé rík ástæða.
- Viðurkenningaþörf. Foreldrarnir sækja sér stöðuglega viðurkenningu á persónu sinni útliti og framkvæmdum frá barni sínu jafnt í einrúmi sem og á almannafæri og ef þeim líður illa eða eru reiðir er það hlutverk barnsins að koma því í lag.
- Er besti vinur barnsins. Þegar foreldri er besti vinur barns síns koma oft upp markaleysi í samskiptunum og aginn og kennsla hins fullorðna á lífið verður óljós og ómarkviss. Að eiga foreldri sem ekki er fært um eða tilbúið til að vera sá fullorðni í aðstæðunum en setur hinsvegar ábyrgðina yfir á óþroskað barnið hamlar eðlilegum þroskastigum þess og tekur jafnvel frá þeim æskuna og gleðina sem ætti að fylgja því að fá að þroskast með eðlilegum hætti.
- Meðferðaraðila-hlutverkið. Að setja barn í bílstjórasætið vegna tilfinningalegrar kreppu eða sambands hins fullorðinna rænir þau eðlilegri félagsmótun. Seinna á ævinni getur barninu fundist best að sjá um tilfinningalegar þarfir einhvers annars en þeirra eigin og líður best þannig. Í sumum tilfellum getur verið erfitt fyrir fullorðið barnið að eiga endingagott og stabílt rómantískt samband og vita sínar eigin þarfir þar, og oft er það þannig að foreldrið gerir sitt ýtrasta til þess að eyðileggja sambönd barnsins síns á fullorðinsárum. Þetta á sérstaklega við þar sem óljós mörk eru á hlutverkaskiptunum og þar sem foreldrið fer jafnvel á "date" með barni sínu og talar um útlit þess og þokka á svipaðan hátt og gert er í rómantísku sambandi ásamt því að ætlast til dekurs og athafna sem hæfa einungis í makasamböndum.
Tilfinningalegt sifjaspell er líklegast til að eiga sér stað þegar foreldri er einmana og finnur sig ekki hafa annan fullorðinn einstakling til að ræða málefni sín við. Nýskildir foreldrar og þeir sem misst hafa maka sinn geta fundið ákaflega fyrir fjarveru maka síns og sett börnin sín í hlutverk hans á ýmsan hátt og ætlast til þess að börnin fullnægi þörf foreldrisins fyrir nánd og félagsskap. Þar með fá börnin nýjar skyldur og hlutverk sem alls ekki hæfa aldri þeirra né eru viðeigandi (sama hvaða aldur við erum að tala um, jafnvel á fullorðinsárum.)
Mér fannst ótrúlega áhugavert að lesa um þetta hugtak sem ég hafði aldrei heyrt talað um áður og sýnist á öllu því sem ég hef lesið að þetta geti þróast upp í að verða að persónuleikaröskun sem er mjög alvarlegt mál. Ekki fann ég tölfræði hvað varðar prósentur og fjölda tilfella þar sem talið er að börn séu að lenda í þessum aðstæðum, en tel þó sjálf að það verði töluverður fjöldi sem kannist við margt sem hér kemur fram og hvet ég þá til að leita sér aðstoðar hjá sérfræðingum og ráðgjöfum til að hægt sé að kortleggja stöðuna og fá aðstoð við lækningu og lausn.
En hér eru nokkur ráð af mörgum sem ég rakst á í þessu grúski mínu sem geta gagnast þér í leitinni að bata ef þú hefur orðið fyrir tilfinningalegu sifjaspelli:
- Settu upp sterk mörk - það er mjög mikilvægt að þú sýnir fram á þín einstaklingsmörk og haldir þeim þó að líklegt sé að þú hafir það sterkt í eðli þínu að þóknast öðrum alla jafna.
- Byggðu upp stuðningskerfi heilbrigðra einstaklinga í kringum þig - því heilbrigðari sem samböndin í kringum þig eru, því auðveldara verður fyrir þig að sjá hvað er heilbrigt og hvað er óheilbrigt í samskiptum.
- Farðu til meðferðaraðila eða taktu þátt í stuðningshópi - að fá samþykki og staðfestingu á upplifun þinni og reynslu færir þig langt í bata þínum.
- Farðu út úr aðstæðunum ef þú getur - þú berð ekki ábyrgð á foreldri þínu og ef þú getur yfirgefið aðstæðurnar með öruggum hættigætirðu viljað íhuga þann kost.
- Það verður sársaukafullt og erfitt að skoða sögu þína en það er þess virði að leggja sig fram við það - foreldri þitt mun kannski aldrei skilja sársaukann sem þú upplifðir, en þú getur og átt skilið að finna sterkara jafnvægi í samböndum þínum í framtíð þinni.
Ég vona að þetta grúsk mitt hafi gagnast einhverjum í sjálfsþekkingarleit sinni og að minnsta kosti var margt þarna sem vakti minn áhuga og jók þekkingu mína.
Eins og alltaf er ég bara einni tímapöntun í burtu frá þér ef þig vantar aðstoð við þín lífsins málefni, og þar til næst elskurnar,
xoxo
Ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
Lifecoach, samskiptaráðgjafi og TRM áfallafræði 1 og 2.
linda@manngildi.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.4.2021 | 16:50
Ertu týpan sem narssistar laðast að?
Hverskonar týpur eru það sem þeir sem eru haldnir mikilli narsistískum tendensum, og ert þú í þeim hópi?
Í fyrsta lagi virðast það vera aðilar sem hafa áhrif og völd sem þeir narsistisku heillast að. Þeir sem eiga farsælan feril eða eru fremstir í flokki í sínum áhugamálum, eru gæddir miklum hæfileikum hafa gott tengslanet og eða eiga valdamikla fjölskyldu.
Þeir leitast eftir þeim sem upphefja þá og dást að þeim og kveikja á tilfinningum sem gefur nasistanum aukabúst þannig að honum líði vel með sjálfan sig. Ekki er það verra ef viðkomandi er það vel þekktur eða vel kynntur að hann geti stækkað narsisstann með því einu að umgangast þannig manneskju.
Svo eru það týpurnar sem þekkja ekki eigin tilfinningar (þeir sem eru meðvirkir) og eru þá líklegri til að horfa framhjá göllum narsistanna og eru ólíklegri til að yfirgefa þá.
Það er einnig algengt að þeir setji ástarviðhengið á stall þar sem það trónir án allra galla og dvelur í fullkomnum í augum þeirra þar til þeir verða fyrir miklum vonbrigðum þegar þeir sjá að auðvitað er þessi manneskja jafn brokkgeng og við erum öll.
Ef við setjum þær týpur sem narsistarnir virðast laðast helst að sögn þeirra sérfræðinga sem hafa kynnt sér þetta málefni í þaula og setjum upp lista fyrir þær þá eru það eftirfarandi týpur sem tróna efstar þar.
- Sterkar valdamiklar konur/menn eða A týpurnar sem eru með allt á hreinu eru ögrandi verkefni fyrir þá, og það er fátt sem veitir narsistanum meiri ánægju en það að geta brotið smátt og smátt niður sterka einstaklinga.
- Konur/menn með mikla samkennd (Empath). Narsistarnir þarfnast einhvers sem getur annast um þá og veitt þeim allan þann líkamlega og tilfinningalega stuðning sem þeir þarfnast (en gleymdu því að þú fáir þann stuðning á móti) og það lúkkar líka vel út í frá fyrir þá að hafa kærleiksríka ásýnd makans sér til stuðnings.
- Konur/menn með lágt sjálfsmat. Þessum aðilum er auðvelt að stjórna og móta þá í það far sem hentar narsistanum best og þarna er einnig auðvelt að taka út reiðiköstin sem þeir fá þegar hlutirnir ganga ekki alveg upp eftir þeirra höfði. Þarna geta þeir láta ljót orð falla án þess að eiga það á hættu að aðilinn fari. Sá sem hefur lágt sjálfsmat dvelur lengur í aðstæðum sem eru honum skaðlegar oft vegna þess að þeir telja að möguleikar þeirra á því að fá betra samband séu ekki miklar, sem aftur hefur áhrif á ákvarðanatöku þeirra um sambandið og framtíð þess.
- Trygglyndar konur/menn. Trygglyndið er narsistanum nauðsynlegt (frá makanum en ekkert sérstaklega frá þeim sjálfum) því að þeir vita innst inni að þeir eru ekki þeir auðveldustu í sambúð með þá skapgerð sem þeir hafa. Brjáluð reiðiköstin, lygarnar og þvættingurinn sem makinn þarf að upplifa eru þessleg að það þarf mjög svo tryggan einstakling til að halda út samband með þeim, og trygglyndið sem þannig samband krefst er öllum óheilbrigt og skaðlegt að hafa.
- Þeir sem eiga erfitt með að setja mörk fyrir líf sitt og standa með sjálfum sér. Narsistarnir skilja ekki mörk og reglur einstaklinga né þjóðfélagsins í heild og finnst að þeirra eigin reglur eigi að gilda fyrir alla. Þannig að ef þú átt erfitt með að setja mörk þá finnst þeim bara frábært að setja mörkin eða markaleysið fyrir þig og stjórna með því tilveru þinni og tilfinningum.
- Þeir sem bera af í glæsileika. Þetta snýst allt um að lúkka vel í augunum á öðrum sjáðu til, og eftir því sem þú ert glæsilegri þeim betur líta þeir út í samfélaginu með þig sér við hlið.
- Þeir sem eru á framabraut og eða eru sýnilegir í þjóðfélaginu og eru með réttu tengingarnar eru á topplista þeirra. Fátt er það sem gleður narsistann meira en það að hafa völd og þekkja rétta fólkið sem getur svo ýtt þeim upp á þann virðingasess sem þeir telja sig svo sannarlega eiga tilkall til óháð getu og hæfileikum.
- Konur/menn sem eiga erfið samskipti við föður/móður. Þarna er auðvelt að koma sterk/ur inn sem umönnunaraðilinn eða sá sterki sem er þarna fyrir hinn aðilann og bjargar honum (hetjan) og þarna myndast óheilbrigð þurfandi tengsl (attachment) sem erfitt er að slíta, en þau tengsl geta leitt af sér mikla vanlíðan og óheilbrigði fyrir þann sem verður háður narsistanum með þessum hætti.
- Þeir sem redda alltaf öllu. Þeir sem geta séð narsistanum fyrir öllum hans þörfum sögðum og ósögðum og leggja sig í líma við að gera lífið eins þægilegt fyrir hann og unnt er hafa mikið aðdráttarafl fyrir hann. Þrátt fyrir ofurvissu hans um mikilvægi sitt er hann oft of lítill í sér til að ganga í málin sjálfur og að taka ábyrgð sem reddarinn sér honum auðvitað einnig fyrir að taka, og kemur honum þannig undan hinum ýmsu axasköftum sem honum verða á.
- Ef þú ert trúaður einstaklingur eða hefur mjög sterk lífsgildi og háan móralskan stuðul. Ef þú trúir því að þú eigir að fyrirgefa og gefa fólki annað tækifæri þá mun narsistinn nota það óspart, og ef þú sérð það góða í fólki mun hann nota það gegn þér. Þegar þú ætlar að láta hann bera ábyrgð á hegðun sinni eða orðum mun hann snúa því að þér og nota setningar úr þínum móralska grunni sem vopn gegn þér, og þannig snúa öllu á hvolf þar til þú veist ekkert hvaðan á þig stendur veðrið.
Það er afar mikilvægt að skilja þá stöðu sem við erum í hverju sinni í samskiptum okkar og samböndum og að vera ábyrg fyrir vellíðan okkar og vali hverju sinni. Ef þú kemst í kynni við aðila sem kveikir á rauðum ljósum hjá þér eða þegar allar bjöllur fara að klingja hátt hjá þér þá skaltu taka mark á því og koma þér sem lengst í burtu áður en að það verður þér til tjóns.
Því það að fara í samband við manneskju sem er ein persóna þessa stundina en önnur þá næstu, og að lifa í óöruggum aðstæðum alla daga gangandi á eggjaskurn sem má ekki brotna er lífshættulegt ástand og enginn ætti að bjóða sér upp á þannig líf.
Eins er nauðsynlegt að leita sér aðstoðar við að komast frá slíkum aðstæðum þar sem þær eru mjög skaðandi og áfallatengdar og það er mikið til að hæfu fólki sem hefði ánægju af því að aðstoða þig við uppbyggingu frá slíkum aðstæðum.
Ekki gera ekki neitt ef þú finnur þig í neti narsisita því að líf þitt og lífsgæði liggja við.
Og eins og alltaf er ég einungis einni tímapöntun í burtu ef þú þarft á mér að halda.
Þar til næst elskurnar,
Xoxo ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
Lifecoach, samskiptaráðgjafi, TRM áfallafræði 1 og 2.
linda@manngildi.is
Bloggar | Breytt 28.6.2021 kl. 14:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.4.2021 | 15:53
Veistu hver þú ert?
"Maður þekktu sjálfan þig" er setning sem finna má í musterinu í Delfi og líklega flestir hafa heyrt, en hvað þýðir sú setning í raun?
Fyrir það fyrst þá held ég að við séum svo tengd raunheimi okkar að við þekkjum líklega eingöngu lítillega þann heim sem innra með okkur býr og gerum okkur kannski allt of litla grein fyrir því hver við raunverulega erum.
Samt erum við höfundar að okkar eigin lífs sögu og erum afar einstök því að það er bara til eitt eintak af hverju og einu okkar, og það er svo sannarlega þess virði að kanna hver við raunverulega erum.
Erum við að gera okkur grein fyrir sérstöðunni sem við höfum og þeim mætti sem fylgir því?
Nei því miður þá fer stór partur lífs okkar í að elta hvernig aðrir eru og hvað öðrum finnst og við sleppum því að skoða hvað það er sem við sjálf raunverulega viljum fyrir okkar líf.
Ég veit ekki hversu oft ég hef þurft að heyra setninguna "ég veit ekki hvað þessum eða hinum fyndist um þetta eða hvað þessi eða hinn segði" frá þeim sem til mín koma og vilja breyta lífi sínu. Sorgleg staðreynd því að ef við hugsum um hvernig hinar einingarnar vilja hafa hlutina förum við alltaf lengra og lengra frá sjálfum okkur og verðum að strengjabrúðum stefnu og strauma sem aðrir velja fyrir okkur.
Samkvæmt skilgreiningunni á orðinu sjálfsþekking er hún sú að vita styrkleika sína, þekkja gildin sín, tilfinningar og hvað drífur okkur áfram ásamt því að vita hvernig persóna við erum sem leiðir okkur til skilnings og að skilgreiningu okkar á persónunni "ég".
En hvað getum við gert til að færast nær okkur sjálfum og verða að okkar eigin súperhetjum sem semja sína eigin sögu?
1. Taktu gott styrkleikapróf eins og frá Authentic Happiness, það segir þér margt um þig.
2. Það eru mörg góð persónuleikapróf á netinu og ég bendi t.d á Meyers Bryggs 16 persónuleikana.
3. Skoðaðu gildin þín og hvort að þú sért að lifa samkvæmt þínum 5 efstu gildum, og ef ekki skoðaðu þá hvernig þú getur betur lifað samkvæmt þeim.
4. Veistu nákvæmlega hvernig þér líður eða líður þér bara vel eða illa? Að geta gefið tilfinningum sínum rétt nafn getur breytt heilmiklu um þekkingu þína á tilfinningaflóru þinni.
5. Hvað drífur þig áfram í lífinu og hvað finnst þér hvetjandi að gera? Hvað ert þú t.d að gera þegar þú gleymir stund og stað? Elskar þú áskoranir og markmið?
6. Hvernig persóna ert þú? Ertu dul eða opin? Einfari eða félagsvera? Góður vinur, starfskraftur og foreldri? Skiptir nánd þig máli og hvernig skoðanir hefur þú? Allt þetta mótar þig og gerir þig að þinni eigin súperhetju það er ef þú sækir aðeins það sem þú vilt og lokar augum og eyrum fyrir því sem heimurinn vill að þú sért.
7. Fáðu nú 5 vini þína til að skrifa þér nokkur orð um það hvernig þeir sjá þig því að það getur bæði glatt þig og eflt til dáða og opnað augu þín fyrir því sem þú sýnir heiminum af þér eins og þú raunverulega ert.
8. Hugleiddu og hlustaðu á þína innri rödd og iðkaðu þitt andlega líf.
Innihald súperhetjunnar er alltaf að sækja fram gegn öllum mannlegum lögmálum og viðteknum venjum samfélagsins og hún kærir sig kollótta um það hvað aðrir segja um hana.
Og ekki má gleyma að allar súperhetjur kvikmyndanna starfa alltaf út frá æðsta gildi mannsins eða hjálpsemi og kærleika.
Súperhetjan þekkir hvaða eiginleikum hún býr yfir og hvar mörk hennar liggja, og hún er upplýst um tilgang sinn og virði.
Svo ég hvet þig kæri lesandi til að fara í fjársjóðsleit og læra að þekkja þig betur og betur þar til þú ert orðinn upplýstur um hversu stórkostlega margbrotinn einstaklingur þú ert og sæktu svo það líf sem hentar þér og aðeins þér - óháð áliti annarra.
Þar til næst,
xoxo Ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
Markþjálfi(Lifecoach)/Samskiptaráðgjafi
linda@manngildi.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.3.2021 | 11:52
Erum við fórnarlömb óttans?
Ég sá svo frábæra textamynd á netinu um daginn þar sem segir ef ég snara því yfir á okkar einstaka tungumál íslenskuna "því sem þú breytir ekki ertu að velja, lestu þetta aftur" og ég las þetta aftur og aftur og varð hugsi.
Því með því að breyta ekki aðstöðu okkar eða lífi með einhverjum hætti erum við í raun að velja að hafa ástandið óbreytt ekki satt? Og hvað verður þá um fórnarlambshlutverkið sem við svo gjarnan setjum okkur í?
Neyðumst við þá ekki til þess að láta af því hlutverki þegar við vitum að með því að velja ekki hið nýja og höldum áfram að kvarta og kveina erum við að afsala okkur valfrelsi því sem Guð gaf okkur í vöggugjöf vegna þess að hugur okkar býr til hindranir og við dveljum í ómöguleikavíddum hans?
Þegar við kvörtum yfir vinnunni,makanum,vinunum eða öðrum aðstæðum lífsins án þess að breyta lífinu með einhverjum hætti þá erum við í raun að velja að vera innan um óbreytt ástand eða fólk og veljum að vera óvalfær eins og Guðni Gunnarsson gæti vel orðað það.
Því að það er mikil ábyrgð fólgin í því að velja og við forðumst það val eins og heitan eldinn því að það gæit kostað okkur það að við gætum þurft að fara út úr þægindaramma okkar og gera eitthvað í málunum.
Hvers vegna veljum við það sem er okkur minna virði og veldur okkur óhamingju í stað þess að taka af skarið og velja að breyta því sem þarf að breyta til að geta átt það líf sem er meira virði? Hvað er það sem við óttumst?
Að mínu mati er svarið að finna í því að við óttumst að það nýja gæti mögulega klikkað og orðið að einhverju öðru en við ætluðum því að verða.
Nýja vinnan gæti orðið leiðinlegri, vinnufélagarnir ómögulegir, að losa sig við makann gæti minnkað tekjur og fjölskyldumynstrið yrði breytt. Einmannaleikinn gæti þjakað og ekkert víst að nýr maki fáist og svo framvegis. Allt þrælútpælt í átt til óttans og mistakanna sem við óttumst stundum meira en dauðann sjálfan. Og svo óttumst við hvað annað fólk hefði að segja um okkur ef við stigjum út úr skorðunum sem þeim finnst að við ættum að vera í.
Við förum nefnilega svo oft í það hlutverk að sjá framtíðina í dimmu ljósi þegar við ætlum okkur að breyta lífinu og erum eins og gamla frænkan sem dregur úr okkur kjarkinn þegar við ætlum að elta draumana okkar ef ekki bara óvinveittari okkur sjálfum en hún gæti orðið.
Ég hvet okkur hinsvegar til að elta draumana, hætta að kvarta og gera eitthvað í málunum. Festumst ekki í því að vera fórnarlömb kringumstæðanna - just do it eins og Nike segir (mikið vit í þeim orðum), og það er klárt að ekkert breytist nema við séum fær um að velja betri aðstæður án ótta.
Síðan er ekkert annað að gera en að vera eins og sannur Víkingur og bera bara ábyrgð á því að taka hin nýju skref í trúartrausti þess sem veit hvort sem er að allt mun verða til góðs með einum eða öðrum hætti að lokum, sem veit að það er ekkert að óttast annað en óttann sjálfan - og svo er bara alls ekkert víst að þetta klikki hjá okkur.
Og hver veit, þessi nýju skref sem færa þig frá hlutverki fórnarlambsins í það að vera valfær fyrir þitt líf verða kannski til þess að opna á nýjar víddir og heima sem gefa þér hamingju gleði og drifkraft inn í sólríka bjarta framtíð. Er það ekki betri hugsun en sú að um ókomin munir þú sitja óánægður við eldhúsborðið með löngun í það nýja en kemur þér ekki úr sporunum til að sækja það?
Við þig segi ég . Leyfðu þér að lifa á meðan lífið varir því að það er svo stutt - svo ósköp stutt.
Og ef þú telur að ég geti aðstoðað þig við þín nýju skref þá er ég einungis einni tímapöntun í burtu.
Þar til næst elskurnar
xoxo ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
Lifecoach, samskiptaráðgjafi, TRM áfallafræði 1 og 2.
linda@manngildi.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.2.2021 | 14:40
Ástin er eins og gott kaffi
Í þessum mánuði hafa verið tveir dagar sem tileinkaðir eru konunni ástinni og elskendum, og ég verð að viðurkenna að ég verð bara hálf döpur á þessum dögum sem segja mér ekkert annað en það að ég hafi ekki einhvern við hlið mér sem dekrar mig og annast.
En ekki heyra það sem ég er ekki að segja, mér finnst alveg frábært að fólk sé hamingjusamt og geti haldið uppá þessa daga með þeim sem þeir elska og ég samgleðst þeim svo innilega og af heilu hjarta.
En við hin þekkjum vel þessa einmannatilfinningu sem læðist inn eins og austfjarðarþokan sjálf gerði í mínum heimabæ og við finnum þessa köldu hendi einmannaleikans grípa í okkur og herða að og það er vont.
Hvað er það svo sem gerir það að við upplifum þessa köldu tilfinningu "einmannaleikann" á þessum dögum?
Líklega eru til margar skýringar á því en sú sem mér finnst líklegust er að frá upphafi var okkur ætlað að vera í samfélagi og fá þörf okkar fyrir ást og umhyggju þaðan, eða kannski erum við alltaf að leita að upprunalega alheims kærleikanum sem við köllum hinum ýmsu nöfnum en ég kýs að kalla Guð.
Hver veit, en eitt er víst að það eru ákveðnir dagar sem fara verr í mig og líklega mörg okkar sem búum ein.
En hvað er til ráða á þannig dögum?
Eigum við bara að draga sængina upp fyrir höku og gráta úr okkur augun yfir væminni rómantískri bíómynd og vorkenna okkur?
Nei alls ekki að mínu mati. Lífið í allri sinni dýrð hefur upp á svo margt annað fallegt að bjóða og allt vex og dafnar sem við veitum athygli og það dásamlega er að við getum ráðið hverju við veitum þá athygli. Veljum að horfa á það sem við höfum eins og vini og fjölskyldu en ekki að því sem okkur skortir þó að það geti stundum verið smá snúið og ekki auðvelt á köflum.
En hvað breytist svo þegar við finnum þann eina/einu sönnu og einmannaleiki okkar hverfur(eða þannig)?
Jú samkvæmt grein sem ég las einhverstaðar á netinu fyrir ekki svo löngu síðan er það þannig að við fyllumst víst bjartsýni á lífið og tilveruna, verðum félagslyndari og frjálslegri á margan hátt sem líklega skrifast á það að oxytocin framleiðslan fer á fullt með tilheyrandi seytlandi hamingjutilfinningu.
Með sálufélaganum finnum við líka að okkur er óhætt að slaka á og við verðum rólegri, leyfum okkur kannski að vera meira berskjölduð og opin. Eins finnum við hvernig nándin verður meiri og við viljum svo gjarnan deila öllu með þessum sálufélaga sem við elskum að gera bókstaflega allt með.
Það er ýmislegt sem gerist í heila okkar við það að hitta sálufélagann og boðefni eins og dópamín, adrenalín og norepinephrine leika stórt hlutverk í því að binda okkur kirfilega saman ásamt því að serótonín upptaka í heila verður minni.
Við verðum brosmildari og mun þægilegri í umgengni ásamt því að við verðum duglegri að framkvæma eitt og annað í hinu daglega lífi og verðum mun lausnarmiðaðri í allri nálgun.
Spekingarnir segja að við förum í gegnum þrjú stig á ástarleið okkar. Í fyrsta lagi fyllumst við losta og á stigi tvö er það víst aðdráttaraflið sem öllu ræður og þriðja stigið gerir okkur háð hvort öðru segja þeir þannig að í eiginlegri eða óeiginlegri merkingu verður ástin okkar eiturlyf eða eins og segir í góðum texta "You're like a coffee, you're a drug I'm addicted to your love" eða á okkar ylhýra "Þú ert eins og kaffi, þú ert eiturlyf og ég er háð/ur ást þinni" (Hljómar mun betur á enskunni)
En hvað svo sem hæft er í því sem ég hef lesið og þykist vita, þá er það þannig að á dögum sem tileinkaðir eru ástinni finnum við einnig fyrir því hversu mikilvægur partur af lífinu það er að elska og að vera elskaður og er faktíst séð held ég að það sé það eina sem verulegu máli skiptir fyrir flest okkar í þessu lífi.
Í dag er því stundum haldið fram að við ættum að vera okkur sjálfum nægjanleg, elska okkur sjálf og ættum ekki að þurfa á mannlegri nánd eða sambands við annan einstakling að halda.
Ég held að ég verði þó að mótmæla þessu hástöfum og halda því fram að þeir sem slíkt segja hafi ekki upplifað að vera aleinir jafnvel svo árum skipti.
Svo er nokkuð algengt að við hreinlega lokum á tilfinningar okkar og þarfir, teljum okkur trú um að við þörfnumst einskis vegna ótta okkar við að gera mistök á kærleikans sviði.
Gefumst samt ekki upp og gefum Amor fleiri tækifæri, það er ekkert víst að skotið hans klikki næst.
En áður en að þessir dýrðarinnar rómantísku dagar skella á okkur að nýju vona ég að Amor hafi skotið okkur öll með ástarörvum í hjartað og að við sitjum sæl og glöð með boðefnabombu í heilanum á rómantískum stað - fyrir löngu búin að gleyma því hversu einmannalegir þessir rómantísku dagar geta verið.
Með ástarkveðjur til ykkar lesendur góðir,
xoxo
Ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
Lifecoach Markþjálfi), samskiptaráðgjafi TRM áfallafræði 1 og 2
linda@manngildi.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.2.2021 | 20:45
Getur þú samþykkt alla menn óháð skoðunum þeirra?
Hefur þú heyrt söguna af mönnunum sem bundið var fyrir augun á og þeir látnir standa sitthvoru megin við fíl nokkurn? Annar hélt um ranann en hinn var aftan við fílinn og hélt um halann. Þegar þeir voru beðnir um að lýsa því sem þeir upplifðu lýstu þeir að sjálfsögðu sitt hvorum hlutnum þar sem þeir upplifðu fílinn frá sitthvorum endanum en engu að síður var þetta sami fíllinn.
Er það ekki þannig í lífinu sjálfu þegar við upplifum menn og málefni? Við sjáum þau yfirleitt frá sitthvoru sjónarhorninu allt eftir viðhorfi okkar, menningu og trú.
Börn sem rífast, hjón sem skilja, vinir sem verða ósáttir og jafnvel þeir sem ganga í gegnum sömu atburði eða upplifun í lífinu sjá hlutina á ólíkan máta og margar hliðar geta verið á hverju máli fyrir sig, ekki bara tvær.
Við erum kannski ekki að gera okkur grein fyrir því að í sumum tilfellum erum við ekki endilega að koma frá atburðunum sjálfum heldur jafnvel frá gömlu og ógrónu sárunum okkar innrættum viðhorfum og skiljum orð og framkvæmdir á misjafnan hátt.
Algengt er að við ætlumst til að aðrir líti hlutina sömu augum og við sjálf. Við þekkjum flest aðila sem ætlast til að allir hafi sömu skoðanir og þeir ásamt og þeir ættu að hafa sömu gildi og viðhorf til lífsins alls og allir sem ekki eru sammála þeim eru orðnir að svörnum óvinum þeirra. Eiginlega húmorískt ef ég hugsa um það.
Það sem við erum að eiga við í öllum aðstæðum lífsins er forritun sem hófst við komu okkar hingað á jörðina og veldur þessu ásamt svo mörgu öðru.
Við hefjumst handa strax við fæðingu (og jafnvel fyrr segja sumir) við að mynda viðbrögð okkar við aðstæðum og meta hvað við þurfum að gera til að komast af og skilja heiminn. Við lærum að þegar við grátum nógu hátt sem ungabörn þá er komið með fæðuna til okkar og okkur sýnd allskonar umhyggja sem við nýtum okkur óspart til að fá það sem við viljum á meðan við getum ekki nýtt okkur afl tungumálsins. Við myndum svo okkar fyrstu tengsl á sama tíma við þá sem annast okkur og þau tengsl hafa mikil áhrif á mótun viðhorfa okkar og skilnings á veröldinni.
Á sama tíma hefst innræting þjóðfélagins alls og í okkar tilfelli erum við fædd inn í vestrænt velferðar og lýðræðisríki sem hefur Kristni að þjóðtrú. Við erum hvít, vel menntuð þjóð sem höfum kvenréttindi og loftslagsmál í öndvegi og teljum okkur til stórþjóða þó að hér á landi séu aðeins um 370 þúsund manns. Við erum semsagt stórasta þjóð í heimi í eigin augum og teljum að allt reddist alltaf. Við eigum stóra og mikla sögu sem finna má í fornritum okkar og eigum merkt tungumál sem við varðveitum vel. Allt mótar þetta viðhorf okkar og menningarvitund ásamt auðvitað mörgum öðrum þáttum.
En gæti verið að við gætum lært eitthvað nýtt og spennandi af öðrum menningarsamfélögum, trúarhópum og gætum við jafnvel lært eitthvað af þriðja heims ríkjum hvað varðar gleði, nægjusemi og fleira? Gæti verið að víðsýni okkar efldist við það að kynna okkur önnur samfélög og menningu og gæti vitund kærleika okkar til alls heimsins aukist ef við leyfðum okkur að sleppa "vitneskju" okkar um aðrar þjóðir? Getur verið að það séu þessi forrit samfélagsgerðarinnar hér sem og annarstaðar í heiminum varni því að við náum árangri sem ein heild í heimi hér og verði til þess að við náum ekki á stað friðar sátta og samlyndis?
Eru önnur menningarsamfélög jafn rétthá í okkar vitund og getum við gengið veginn með öllum þeim sem þessa jörð byggja? Getum við búið í sátt með svörtum, hvítum, bláum, gulum og brúnum? Getum við skoðað aðra menningu, trúarbrögð og heimspekirit án þess að fyllast tortryggni ótta og fordómum? Getum við tekið þessa forrituðu stimpla okkar í burtu og séð okkur sem eitt mannkyn, þar sem við öll höldum á brotum sannleikans um lífið og tilveruna og getum við séð að ef við settum þessi brot öll saman yrði til fallegt mosaik listaverk þar sem allir fletir flæða án þess að taka pláss frá hver öðrum?
Ég er nú svo bjartsýn og einföld að ég tel að við gætum þetta ef við bara sæjum að öll erum við allt og allir - semsagt ég er þú og þú ert ég.
Þegar ég næ tökum á þeirri hugsun hvers vegna ætti ég þá að vilja skaða þig hæða og fordæma? Og hvers vegna ætti ég ekki að njóta þess að kynnast þér og þínum heimi? Því ætti ég ekki að henda öllum stimplum og njóta þess einfaldlega að kynnast heiminum í öllum hans fallegu og ólíku litbrigðum?
Höft kærleikans eru semsagt að mínu mati þeir stimplar sem við fáum í vöggugjöf og móta viðhorf okkar til manna og málefna og segja okkur hvað sé í lagi og hvað ekki.
Við gerum líklega fáar eða engar athugasemdir við þá stimpla og fáum okkur ekki til að henda þeim út sem væri þó líklegasta leiðin til myndunar friðar, sáttar og hamingju á meðal allra manna.
Svo þú sem ert ég, og ert að lesa þessa ruglingslegu visku mína - leyfðu þér að skoða þetta aðeins og sjáðu hvort að þessi orð fái samþykki þinnar innri raddar og ef svo er hentu þá út þeim stimplum sem móta fordóma þína og njóttu þess að vera til án þeirra. Lífið verður svo miklu skemmtilegra - lofa því!
Kærleikur, knús og friður til okkar allra hvort sem við erum hvít eða svört, trúuð eða ótrúuð, konur eða karlar, ung eða gömul, vestræn eða austræn.
xoxo
Ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
Lifecoach og samskiptaráðgjafi
linda@manngildi.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.1.2021 | 15:04
Er daður á netinu framhjáhald?
Ég ákvað að það væri full þörf á því að taka þennan gamla pistil minn fram núna þar sem við notum samfélagsmiðlana sem aldrei fyrr og hafi einhverntíman verið þörf fyrir þennan pistil þá er það líklega núna.
Þeir sem þekkja mig vita að Facebook er í miklu uppáhaldi hjá mér og sumum finnst nú nóg um samskipti mín á þeim miðli.
Þó að ég sé mikill aðdáandi þessarar síðu þá sé ég nú samt að hún getur haft hliðar sem eru ekki svo skemmtilegar né góðar.
Það eru að verða nokkuð mörg dæmin þar sem ég hef persónulega heyrt um framhjáhöld á Facebook eða hvaða nafni við viljum nefna það þegar makinn er farinn að daðra við persónu á netinu, persónu sem jafnvel er ekki með skráða tilvist þegar upp er staðið.
Hvort sem persónan er raunveruleg eða ekki, þá er þetta netheimadaður eitthvað sem er að setja mörg annars mjög góð sambönd í hættu.
Það er svo auðvelt í dag að koma sér í samskipti við fólk af báðum kynjum ef viljinn er fyrir hendi og hefur líklega aldrei verið jafn auðvelt að krækja sér í daður og dufl eins og það er í dag.
Í netdaðrinu fara af stað samskipti með spjalli sem fljótlega eru komin á mjög grá svæði og stundum farin út í erótísk samtöl sem veita kynferðislega örvun annars eða beggja aðila og geta hæglega orðið að einhverju meiru.
Í mínum huga er það kristaltært, daður og erótík á netinu hjá þeim sem í samböndum eru flokkast í mínum kolli undir framhjáhald og ekkert annað. Óræðar setningar, pot , tvíræð hrós og fleiri samskipti við hitt kynið sem ekki geta komið fyrir sjónir makans eru aldrei ásættanleg eða í lagi hvort sem þau eiga sér stað á milli bæjarhluta landshluta eða landa. Framhjáhald heitir það hvað sem við annars viljum kalla það.
Það eru of mörg sambönd í dag sem lituð eru af vantrausti og ójafnvægi vegna rafrænna samskipta makans við annan aðila en makann og skiljanlega fer traustið veg allrar veraldar þegar upp um svona samskipti kemst. Og auðvitað er þetta eitthvað sem alls ekki á að eiga sér stað.
Traustið er grunnurinn að góðu sambandi og er það mikilvægasta sem samband tveggja einstaklinga byggist á, þar er ekki rúm fyrir þriðja aðila. Ef traustið er einu sinni brotið er oft erfitt að vinna það að nýju og grunnurinn að sambandinu þar með farinn veg allrar veraldar.
En hvað veldur því að okkur finnast þessi samskipti í dag saklaus og í raun ekki vera neitt til að vera að gera veður útaf?
Ég held stundum að við séum farin að svæfa siðferðiskennd okkar all verulega og séum farin að vinna okkur sjálfum og lífi okkar tjón með því að líta á margt sem lífið í dag býður uppá sem saklaust og kannski bara normalt sem það er alls ekki þegar upp er staðið.
Í þessum efnum eins og svo mörgum öðrum getur sáning af þessum toga aldrei gefið þá uppskeru sem við óskum eftir að fá út úr samböndum okkar og í raun eyðileggja svona samskipti eingöngu uppskeruna og minnka þar með lífsgæði okkar og vellíðan.
Hjónabönd í rúst og fjölskyldur sundrast. Það sem búið var að byggja upp farið vegna einhvers sem kannski skipti engu máli eða var nánast ekki neitt nema tilfallandi spenna og kikk inn í hversdagslífið.
En hvað með þá einhleypu og netdaðrið ?
Þar virðist vera mjög algengt að spjallað sé við marga aðila í einu svona rétt til að vera on the safe side á meðan verið er að mynda nýtt samband við einn ákveðinn aðila og Það þarf að hafa nokkra aðra aðila til vara ef myndun á þessu nýja sambandi bregst. Það mun aldrei vera til góðs fyrir sambandið því get ég lofað.
Þarna að traustið er farið áður en að sambandið getur myndað þau bönd sem nauðsynleg eru til að tvær mannverur séu tilbúnar að gefa af sér og þiggja - sambandið getur því aldrei byggst upp á réttum forsendum að mínu mati.
Ég veit að margir munu ekki vera sammála mér í þessum efnum sem er í lagi eins og fyrri daginn. Og má vera að ég sé nokkuð dómhörð í þessum efnum en sú dómharka mín byggist á því að hafa fengið of oft að heyra af málum þessum og afleiðingum þeim sem þau hafa haft.
Klámið kemur reyndar jafn sterkt inn og daðrið þegar kemur að því að það hrikti í stoðum sambanda, og er í raun oft fylgifiskur þessa netdaðurs sem á sér auðvitað stað víðar en á Facebook.
Við höfum stefnumótasíður af ýmsum gerðum og þeir sem á annað borð vilja og nenna að standa í framhjáhöldum af þessum toga nota líklega flesta þessa miðla til jafns við facebook. Ef við googlum orðið sex koma upp 3.620.000.000 niðurstöður á 0,55 sekúndumþannig að netið er gósenland fyrir þá sem vilja finna sér klám erótískt spjall og allt það sem hugurinn girnist hverju sinni til að upplifa spennu af þessu tagi.
En framhjáhald er þetta allt saman og ekkert af því saklaust eða í lagi. Skemmandi og eyðandi eru þau ef upp um þau kemst, og jafnvel þó að ekki komist upp um þau þá eru þau skemmandi fyrir einstaklingana sem í þeim standa. Siðferðiskenndin slævist og samviskubit ásamt sjálfsfyrirlitningu eru afleiðingin fyrir þann sem þetta stundar og það er held ég eitthvað sem enginn vill í raun uppskera fyrir líf sitt.
Gróðinn eða uppskeran er semsagt léleg fyrir þá sem ætluðu sér spennu og vellíðan með Facebook framhjáhaldinu.
Svo vöndum okkur þegar við erum í traustu og góðu sambandi og þegar við erum að mynda nýtt samband. Skoðum vel hvað það er sem við viljum uppskera í lífi okkar og sáum i samræmi við það í þessum efnum sem öðrum.
Gömlu og góðu gildin eiga enn rétt á sér og lögmál eins og það að aðgát skuli hafa í nærveru sálar einnig.
Veljum að nota netmiðlana til uppbyggingar á heilbrigðum og fallegum samskiptum okkur sjálfum til góðs sem og öðrum, en sleppum að næra og vökva arfann sem fljótur er að yfirtaka það góða í garðinum okkar.
Þar til næst elskurnar.
Xoxo
Ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
Lífsmarkþjálfi og samskiptaráðgjafi
linda@manngildi.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Linda Baldvinsdóttir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (10.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 76
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 76
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar