Glimmerárið mitt 2017

Þar sem nýtt ár gengur senn í garð og við kveðjum það gamla, ætla ég að hleypa ykkur elskurnar aðeins inn í líf mitt og gera árið mitt upp hér með ykkur. 

Ég er afar þakklát fyrir þetta ár sem kenndi mér svo marga nýja hluti um mig sjálfa, lífið og tilveruna í heild sinni og sneri lífi mínu líklega alveg við um 360 gráður ef ég er alveg heiðarleg við sjálfa mig.

En Guð minn góður hvað það var kominn tími á allar þessar breytingar og mikið er ég þakklát og glöð fyrir að vera tekin ssvona líka hressilega út úr þægindahring mínum. Ég fann svo sannarlega hversu nauðsynlegt það er að fara út úr þessum hring reglulega því að stöðnunin sem verður þegar við lokumst inni í honum er í raun ekkert annað en andlegur dauði, og þar getur enginn vöxtur átt sér stað. 

Árið byrjaði með því að við Hanna vinkona skutum upp rakettum og í mínu tilfelli a.m.k lét ég fylgja með þeim ákveðnar óskir fyrir þetta nýja ár 2017 og sendi þær til úrlausnar hjá alheiminum og vænti auðvitað fljótrar og góðrar afgreiðslu á þeim þar.

Og viti menn, ekki var langt liðið á þetta nýja ár þegar bænheyrslurnar byrjuðu að banka uppá mér til mikillar furðu og ánægju. 

Og þetta ár hefur svo sannarlega verið ár breytinga og uppfylltra óska hingað til í mínu lífi eins og merkilegt nokk öll þau ár sem enda á tölunni sjö.

Strax í febrúarbyrjun urðu stór og mikil kaflaskil í mínu lífi því að þá hitti ég núverandi sambýlismann minn við heldur óvenjulegar aðstæður að okkur finnst báðum svona eftir á og eftir það varð ekki snúið aftur til hins frjálsa og einhleypa lífs.

Við tóku dagar ástar og tilhugalífs. Dagar sem voru fullir af spennu, samtölum, skilaboðum, samveru og aðlögunar að öðrum aðila sem enn stendur yfir þegar þessar línur eru ritaðar. Og þó að ástin sé dásamleg þá kennir hún okkur oft lexíur um okkur sjálf sem ekki alltaf er auðvelt að viðurkenna eða horfast í augu við. Eins kennir hún okkur hversu gott það er að gleðja aðra mannveru með ýmsum hætti (kostar okkur oft að láta af okkar eigingirni) og ég er alla daga að uppgötva hversu heppin ég er með það að örlagadísirnar tóku völdin þennan febrúardag og ég fékk að kynnast þessum yndislega manni.

Þessi dásamlegi maður vill allt fyrir mig og mína gera og kom svo sannarlega með lækningu  inn í líf mitt til anda sálar og líkama og svo gerir hann alla daga betri með nærveru sinni og sínu fallega, umhyggjusama góða hjarta. Og ég vona bara svo sannarlega að lífið haldi áfram að leika svona við okkur og færi okkur mörg góð og falleg ár saman.

En breytingar lífsins urðu fleiri en á ástarsviðinu á þessu herrans ári.

Í byrjun sumars urðu önnur kaflaskil þar sem ég ákvað að selja gamla Fordinn minn sem var búinn að kosta mig álíka mikið og gullsleginn Bens (vegna láns sem var náttlega alveg brilliant að taka á sínum tíma í jenum og svissneskum frönkum!) og ég keypti mér þessa líka fínu og flottu Mazda bifreið í hans stað sem þýtur nú með mig glaða og ánægða út um allar trissur.

Og ekki var nú nóg með að ég skipti út tíu ára gömlum Fordinum heldur ákvað ég einnig að selja litla sæta kotið mitt sem haldið hafði svo fallega utan um mig og veitt mér skjól síðasta áratuginn, en nú hugðist ég semsagt leggja undir mig nýtt landsvæði en þakka á sama tíma því gamla fyrir allt það góða sem það geymir og gaf mér. 

Þessi sala vafðist þó töluvert fyrir mér og tók mig töluvert út fyrir huggulega þægindaboxið mitt og hristi upp í tilveru minni. Ég fékk þó það verð sem ég vildi fá fyrir þennan gullmola minn og þá var ekkert annað að gera en að fara út úr boxinu eina ferðina enn og halda af stað í íbúðaleit. Nýja parið ákvað á sama tíma að láta bara vaða og rugla saman reitum sínum og héldu af stað í þessa íbúðarleit saman.

Það var skoðað spáð og spekúlerað þar til við fundum það sem við höfðum verið að leita að. Enduðum afar glöð og ánægð á því að kaupa okkur íbúð í Kópavogi, nánar tiltekið í 203 Kópavogi. Þannig að í byrjun Ágústmánaðar var lífið búið að taka mig langt frá þeim stað sem ég var á þegar ég skaut rakettunni góðu upp á áramótunum. Ég var ekki bara búin að hitta manninn í lífi mínu heldur búin að selja og kaupa, bæði bíl og íbúð á nýju landssvæði. Það var heldur betur búið að snúa tilveru minni við á skömmum tíma og þannig finnst mér það oft vera með hringrás lífsins.

Og breytingarnar héldu áfram hverjar á fætur annarri þetta árið, kannski þó heldur fyrirferðaminni en þær sem ég taldi hér upp að framan en engu að síður flestar gleðilegar og góðar. Og mér sýnist að árið 2018 færi fleiri breytingar því að nú í byrjun mars 2018 á ég von á fjórða barnabarninu mínu mér til mikillar ánægju og gleði. 

Að ég sé að opinbera líf mitt og segja ykkur frá gangi þess þetta árið í þessum áramótaannáli mínum er kannski helst til komið vegna þess að ég veit að stundum finnst okkur eins og veröldin standi í stað og ekkert gott eða nýtt bíði okkar. Stundum finnst okkur að við séum bara týnd í veröld þar sem allir eiga vinningsmiða nema við.

Og einnig leyfi ég ykkur að vera þátttakendur í mínu lífi til að benda ykkur á hversu auðveldlega við gleymum því þegar við erum á vondum stað að það eru hæðir og lægðir í lífinu, tímar til að gleðjast og tímar þar sem lífið er ekki svo gott. Ég trúi þó að allt hafi þetta tilgang til góðs fyrir okkur með einhverjum hætti sem við þó skiljum ekki endilega alltaf.

Og endilega ef þú þekkir einhverja sem þyrftu að sjá hversu hratt og óvænt lifið getur tekið fallega og góða stefnu þá hvet ég þig til að deila þessum pistli til þeirra með kveðju frá mér. 

Við ættum heldur ekki að gleyma því að á erfiðu tímabilunum í lífum okkar eru tækifærin til vaxtar alveg ótrúlega mörg því að í myrkrinu er það sem fræið spírar og fæðist fram, og það er í myrkrinu sem við vöxum að visku og þekkingu. (en ég veit þó hversu mannleg við erum og það er auðveldara að skrifa þetta en að fara eftir því)

Það er á stað vaxtarins og sjálfsþekkingarinnaar sem við verðum oft umburðalyndari og missum þörf okkar til að dæma allt og alla og uppgötvum að það eru litlu andartök gleðinnar sem mynda og vefja kaðal hamingju okkar. Það er einnig í myrkrinu sem við uppgötvum þörf okkar fyrir aðstoð og skilning annarra, kærleika og samstöðu samfélagsins og skiljum hversu mikilvægt það er að við sýnum öðrum slíkt hið sama á þeirra erfiðu og dimmu stundum. 

Bölvum því ekki myrku stundunum, fögnum heldur verkefnum lífsins og ljósinu sem smá saman kveikir á öllu því fegursta sem mannlífið inniheldur í sálu okkar. Ljósið mun ávallt sigra myrkrið og skína inn í líf okkar að nýju og andadráttur lífsins mun halda áfram sinni hringrás myrkurs og ljóss, svo þökkum sama hvoru megin á kúrfunni við erum hverju sinni.  

Þetta ár var minn tími til að gleðjast og fagna og fyrir það er ég afar þakklát. Þakklát vegna þess að ég kann betur að meta og þakka fyrir það góða sem mér er úthlutað eftir að hafa kynnst því dimma sem lífið hefur einnig uppá að bjóða. Þannig að ég fer með barmafullt hjarta af þakklæti inn í árið 2018 og vona að það ár verði mér og þeim sem ég elska jafn gjöfult og gott og árið 2017 var.

Og ykkur mín kæru, óska ég alls hins besta og fegursta sem þetta líf hefur upp á að bjóða og vona svo innilega í hjarta mínu að árið strjúki ykkur fallega og strái yfir ykkur mörgum glimmerstundum á dag allt árið á enda. 

Takk fyrir að vera þið eins og þið eruð - dýrmæt og einstök, og takk fyrir lesturinn ykkar á þessum litlu hugleiðingum mínum á þessu ári. 

Guð geymi ykkur

xoxo

Ykkar Linda

Linda Baldvinsdóttir

Samskiptaráðgjafi/Markþjálfi

linda@manngildi.is

 

 

 


Uppkrift jólanna

Núna þegar hátíð ljóss og friðar gengur í garð þá finnst mér eðlilegt að velta því aðeins fyrir mér persónuleika og gildum afmælisbarnsins sem höldum þessa hátíð vegna. Uppskrift hans er uppskrift að lífi sem er uppfullt af kærleika og öðrum góðum innihaldsefnum. Uppskrift sem lifað hefur í rúm 2000 ár og trónir á metsölulistum um allan heim ennþá, geri aðrar sjálfshjálparbækur og lífsuppskriftir betur!

En það er vegna þessarar uppskriftar sem við gleðjumst og fögnum þessa hátíðardaga og hér á norðurhjara veraldar fögnum við í leiðinni hækkandi sól. Og svei mér þá ef við ættum ekki flest að geta verið sammála um að þessi uppskrift er bara ótrúlega góð og falleg sama hvar við stöndum trúarlega séð.

Ef við færum bara eftir helmingnum af þessari kennslu afmælisbarnsins þá er ég viss um að líf okkar tæki stórkostlegum breytingum og líklega værum við hamingjusöm með frið í hjörtum okkar alla daga.

En hver er svo þessi kennsla eða uppskrift að góðu lífi?

Afmælisbarnið kenndi okkur að mæta fólki á þeim stað sem það er. Hann mætti öllum sem vildu við hann tala, en á þessum tíma var það bara alls ekki sjálfsagt. Það var ekki til siðs að karlmaður talaði við konur, hvað þá að eiga þær að vinum eins og hann átti, og ekki þótti það viðeigandi að Gyðingur talaði við td Samverja og aðra þjóðflokka. En það að mæta fólki á þeim stað sem það er statt hverju sinni gefur okkur alveg ótrúlega gott tækifæri á því að ná til þeirra samskiptalega séð og aðstoða þar sem aðstoðar er þörf. Að líta upp eða niður á fólk gerir okkur einungis ógagn og setur okkur á stað hroka og yfirlætis eða á stað niðurlægingar sem er síst skárra. 

Jesú kenndi okkur að mínu mati að við þurfum að vilja það góða og finnast við eiga það skilið til að fá það. Hann sagði að við þyrftum að vilja sleppa því að vera fórnarlömb lífsins ef við vildum taka við þeirri lækningu sem í boði væri. Hann gekk um og læknaði en spurði þá sem hann læknaði hvort þeir vildu verða heilir.

Merkileg spurning í sjálfu sér en þó svo skiljanleg þegar við vitum í dag að til að breyta lífinu með einhverjum hætti þurfum við alltaf að vilja breytinguna og í raun þrá hana af öllu hjarta. Eins þurfum við að vera tilbúin til að taka þau skref sem nauðsynleg eru til að breytingin (lækningin)geti átt sér stað.

Afmælisbarnið boðaði kvenréttindi og jafnrétti á tímum þar sem það var alveg fráleit hugmynd. Með því að eiga konur að vinum og með því að tala yfir höfuð við konur sýndi hann heiminum að konur væru jafnréttháar körlum á tímum sem litið var á þær sem einskisverðar.

Dæmið ekki voru hans orð og hann sýndi það í verki að hann var ekki kominn til að dæma heiminn heldur til að boða náð og miskunn. Konan sem átti að grýta en sem hann varði gegn þeim sem æðstir voru í samfélaginu lagalega séð segja okkur að dómar í garð náungans eiga ekki að fyrirfinnast hjá okkur þar sem við vitum ekki hvers vegna fólk bregst við eins og það bregst við. Við þekkjum ekki innsta kjarna hvers manns og vitum ekki alla hans sögu sem í raun rænir okkur öllum rétti til dóms. Og svo erum við öll bara svo ófullkomin og breysk að við höfum ekki efni á því að dæma einn eða neinn, ættum heldur að líta í okkar eigin barm.

Jesú var líklega upphafsmaður að þjónandi forustu sem flestir telja bestu stjórnunartækni dagsins í dag og allir keppast við að innleiða í fyrirtæki sín. Hann sagði með þunga að við þyrftum að þjóna hvert öðru í kærleika og setja okkur til jafns við alla hver svo sem við værum, há jafnt sem lág, stjórnendur sem undirmenn. Og ef við skoðum innst í okkar hjarta þá er fátt sem gefur okkur meiri sálarró og gleði en það að aðstoða og hjálpa öðrum og dvelja í samvistum við þá á jafningjagrunni eða aðstoða þá við að ná í drauma sína og fljúga hátt.

Hann kenndi okkur að að vera í einlægni og að verða eins og börnin sem enga stimpla setja á lífið eða samferðamenn sína. Það eru oft skilgreiningar okkar (sem við trúum auðvitað að séu stóri sannleikurinn) sem gera það að við sjáum ekki gimsteinana sem glóa allt um kring bæði í lífinu sjálfu og þeim sem ganga lífsveginn með okkur.

Að hugsa vel um musteri okkar, heilsu og að festast ekki í hroka og eigingirni var einnig hluti af hans kennslu. Eins og ég a.m.k skil hann þegar hann talar um musterið þá finnst mér hann vera að tala um það að við eigum að hugsa vel um líkama okkar og láta ekkert í okkar lífsháttum verða til þess að eyðileggja það. Eins finnst mér hann tala um að við eigum að dvelja í sambandi við okkar andlegu hlið og sinna þeirri hlið af alúð. Sá sem lifir einungis í líkamanum en ekki andanum og sálinni lendir að mínu mati í eigingirnis ástandi sem engum er til heilla og leiðir jafnvel til tjóns á svo margan hátt í lífi viðkomandi.

Það sem var svo töff við Jesú var að hann lét almenningsálitið aldrei trufla sig og ofsóknirnar á hendur honum stöðvuðu hann aldrei í því að gera það sem hann kom til að gera. Það kennir okkur að láta ekki álit annarra trufla tilgang okkar heldur að halda ótrauð áfram í átt að draumum okkar og innsta tilgangi lífs okkar sama hvaða úrtöluraddir hljóma í kringum okkur. Hann sagði einnig að við gætum allt ef við bara gætum trúað því, jafnvel fært heilu fjöllin (og hver kannast ekki við að þurfa að færa heilu fjöllin þó ekki sé nema andlega séð) og þar er ég svo sannarlega sammála honum. Ég hef séð fólk breyta lifi sínu og snúa því um 360 gráður með því einu að breyta trúarkerfum sínum um lífið og sig sjálft ásamt því að ryðja burt hindrunum hugans.

Þegar hann bauð konunni við brunninn lífsins vatn þá sýndi hann fordómaleysi sitt að fullu því að konan var búin að eiga marga menn og var með manni sem var ekki hennar ásamt því að hún var Samverji sem Gyðingar voru nú ekki hrifnir af á þessum tíma. En þarna kenndi hann okkur ekki bara fordómaleysi að mínu mati heldur einnig það að þeir sem standa höllum fæti eða lifa ekki samkvæmt stöðlum samfélagsins eiga samt sem áður fullan rétt á góðu og gefandi lífi, lífi í fullri gnægð. 

Jesú grét og komst við í nokkrum frásögnum Nýja testamentisins og sýndi okkur þannig hversu mikilvægt það er að hafa samúð og að sýna samhug með þeim sem bágt eiga og syrgja. Það er einmitt fátt sem gerir mannlífið fallegra en samhugur manna á milli að mínu mati og á þeim stað skín ljós hans og kærleikur skærast frá okkur.

Hann kenndi okkur að fyrirgefa og ekki bara sumt heldur allt. Það síðasta sem hann bað um var að  Guð fyrirgæfi þeim sem krossfestu hann. Hin fullkomna fyrirgefning að mínu mati og sýnir að það er hægt að fyrirgefa allt. Mín eigin reynsla hefur kennt mér að ég leysi ekki síst sjálfa mig þegar ég fyrirgef það sem á minn hluta hefur verið gert og eins gefur fyrirgefningin mér nýja og skilningsríkari sýn á það sem hefur verið gert á minn hluta. Fyrirgefningin gefur mér þó alltaf fyrst og fremst frið í mitt eigið hjarta og leysir mig undan reiðinni og biturleikanum sem eitrar í bókstaflegri merkingu lífið.

Jesú kunni að njóta lífsins og gleðjast þann stutta tíma sem líf hans varði. Hann mátti þola það að vera kallaður vínsvelgur og átvagl vegna þess að hann kunni að njóta þess að eiga samfélag við þá sem hann mætti í lífinu og eiga skemmtilegar stundir með þeim. En hann lét álit annarra ekki hafa áhrif á sig þar frekar en fyrri daginn og leyfði þessu umtali bara að hafa sinn gang vitandi að það er tími til að gleðjast og það er tími til að hryggjast á þessu stutta ferðalagi okkar hér. Njótum á meðan við höfum færi á því elskurnar - gleðin er það sem getur haldið í okkur lífinu andlega séð þegar áföll lífsins á okkur dynja og gleðistundir með þeim sem við eigum vináttu og kærleika hjá er það sem gefur lífinu litadýrð sína.

Jesú kenndi okkur svo sannarlega hversu mikilvægt það er að halda í gildi okkar og láta þau ekki af hendi sama hvað í boði er. Hann vissi að freistingar biðu okkar á hverju horni. Freistingar sem gefa oft skammvinna gleði eða deyfingu en bíta okkur þó að lokum. Þegar við göngum gegn gildum okkar og lífssýn hefur það því miður oft alvarlegar afleiðingar fyrir líf okkar og tilveru alla. Svo stöndum á okkar fallegu gildum og látum ekki rödd heimsins ginna okkur til lags við ljóta skemmandi hluti sem minnka okkur eða ræna okkur því góða, fagra og fullkomna.

Afmælisbarnið kenndi okkur að annast þá sem eldri eru og sýna þeim virðingu okkar. Eitt af því síðasta sem hann gerði hér á jörðu var að biðja lærisvein sinn um að annast móður sína og að verða henni sem sonur. Beiðni sem sýndi mikla umhyggju fyrir afkomu hennar og þeirra beggja reyndar. Þannig var Jesú, umhyggjan og kærleikurinn uppmálaður allt til síðustu stundar. Hann var einnig óspar á það að gefa hvort sem það var matur, drykkur, lækningar eða uppbyggjandi viska. Hann lét sig ekki muna um það að fæða nokkur þúsundir manna með nokkrum brauðum og fiski, nú og svo er hann jú líka þekktur fyrir það að breyta vatni í vín til að gleðja gesti í brúðkaupi nokkru (og við vitnum oft í þessa sögu) og vakti það geysilega lukku sem vera bar. Hann sagði okkur einnig að þegar við tækjum á móti og önnuðumst aðra værum við að gleðja guðdóminn sjálfan. Þar höfum við það!

Innihald alls þess sem ég hef skrifað hér að framan er í raun Kærleikurinn sjálfur í allri sinni mynd. Og það er kærleikurinn sem hann sagði að okkur bæri að starfa í til alls og allra.

Ef kærleikur okkar, sem ég trúi að búi innra með okkur öllum fengi að dafna og skína inn í dimma veröldina trúi ég því að við gætum lýst hana upp og gert hana að fallegum stað sem við svo sannarlega þráum öll að þessi heimur sé. 

Hugarfar okkar, trú og gildi eru þau öfl sem skapa líf sem gleður okkur og aðra og með því að lifa í kærleika sköpum við ljóstýru sem lýsir inn í myrkan og oft dapran grimman heim.

Við erum einnig andi sál og líkami og þetta þrennt þarf að vera í jafnvægi ef friður jólanna á að setjast að í hjörtum okkar og verða viðvarandi þar.

Og mikið er ég nú viss um að afmælisbarn jólanna yrði nú glatt ef að ljós okkar sjálfra væru fyrirferðameiri en öll þau fallegu ljós sem nú lýsa upp bæi og torg í tilefni afmælis hans.

Skínum skært elskurnar og eigum gleðilega hamingjuríka jólahátíð fulla af friði og kærleika í anda þess sem við nú minnumst. 

xoxo

Ykkar Linda

 

 

 


Aðventustress

Rakst á þennan gamla pistil sem ég skrifaði fyrir nokkrum árum en á þó fullt erindi til okkar í dag að mínu mati og því ákvað ég að setja hann nánast óbreyttan hér inn með von um að Trölli nái ekki að stela jólunum ykkar. Í hans stað vona ég að hinn sanni kærleiksandi jólanna fylli hjörtu ykkar og þeirra sem þið elskið.

 

En hér kemur þessi gamli pistill.

Uppskrift að hamingju

2 sléttfullir bollar af gleði
1  hjartafylli af kærleika
2 handfylli af örlæti
dash af dillandi hlátri
1 höfuðfylli af skilningi og samhyggð

Vætið örlátlega með góðvild, látið helling af trú og einlægni og hrærið vel. 
Breiðið svo yfir þetta með heilli mannsævi. 
Berðu á borð fyrir alla sem ganga með þér í þessari jarðvist.

Á aðventu

Hvernig væri á þessari aðventu að við tækjum þessa uppskrift fram yfir sörurnar og piparkökurnar, og leyfðum okkur að njóta alls þess dýrmæta sem mannlífið og aðventa jólanna hefur uppá að bjóða…

Gönguferðir innan um jólaljós, kanil og eplalykt, snjókorn á tungu, gleði, hlátur, faðmlög og upplifun á  tærri fallegri ást til þeirra sem skipta okkur máli ættu að vera þeir hlutir sem við hefðum helst á dagskránni á þessum yndislega tíma (og ofkors alla aðra daga) í stað þeirra hluta sem við gjarnan setjum í öndvegi.

Flott en dösuð húsmóðir

Ég var áður fyrr ein af þessum brjálæðislega flottu húsmæðrum sem sá um að ekkert væri óhreint á heimili mínu fyrir jólin… silfrið var pússað, gluggar þvegnir, og Guð forðaði mér iðulega frá því að skáparnir, ísskápurinn og ofninn urðu ekki útundan í þessari árlegu hreingerningu…

Húsgögnin voru hreinsuð, teppin þvegin, rúmföt og allt annað straujað, jólafötin jafnvel saumuð á börnin, jólagjafir keyptar og eða föndraðar, og auðvitað pælt í þeim öllum útfrá þörf eða löngun þeirra sem áttu að fá pakkana, svo var skrifað á amk 60 jólakort, 20 tegundir af  bökuðum smákökum var ofkors algjör nauðsyn , rauðkálið var soðið uppá danskan máta, heimalagaður ís algjört möst, fromange og stríðstertur í bunkum bakaðar…

Húsið var skreytt í hólf og gólf á síðustu metrunum og þessi flotta húsmóðir gjörsamlega búin á því úttauguð og grátgjörn á Þorláksmessunni. En börnin voru auðvitað komin þá í tandurhreint rúmið í nýju náttfötunum sínum sæl á koddanum… og biðin eftir síðasta jólasveininum Kertasníki hófst…hann fékk auðvitað tilheyrandi bréf og kerti í skóinní staðinn fyrir dýrindispakkana sem hann iðulega skildi eftir… en þessi dasaða húsmóðir beið bara eftir því að þessari elskuðu og yndislegu hátíð lyki og aumur hversdagsleikinn tæki við. 

Ef ég gæti snúið til baka…

Börnin mín hlæja mikið af þessum tíma en fengu kannski samt nett ógeð á þessum stressaða jólaundirbúningi þar sem lítið rúm var fyrir æðruleysi, kærleika, ró, gleði, hlátur og samveru… og mikið skil ég það vel í dag hvað þetta fór í taugarnar á þeim… En jólin þeirra skyldu verða fullkomin og flott hvað sem það kostaði! Ný föt, klipping, náttföt, nærföt og allt til alls var það sem ég vildi fyrir börnin mín…ekkert minna dugði fyrir þessa elskuðu einstaklinga… En kostnaðurinn var kannski of mikill… gleðina og yfirvegaðan kærleikann vantaði…

En lítið vissi ég um það hvað allir þessir hlutir sem ég lét í öndvegi skipta litlu máli í undirbúninginum, eða hversu mikið ég í raun eyðilagði gleði og kærleiksþel jólanna með þessari fullkomnunaráráttu minni… Og ef ég gæti snúið til baka þá yrðu jól barnanna minna öðruvísi, þvi get ég lofað ykkur…

Þau fengju að upplifa kærleika minn og gleðina yfir því að frelsari minn fæddist hér í þennan heim… það yrði hlátur í stað prirrings… gleði við að skapa jólin í sameiningu hvort sem skítur væri í gluggum eða skápum heimilisins… jólaljósin og kertin gera allt fallegt hvort sem er.

Börnin fundu að eitthvað vantaði

En var ekkert gert sem gleði gat gefið í öllum þessum látum? Jú jú, það var farið niður í bæ þegar jólaljósin voru tendruð á Austurvellinum og kakó drukkið á eftir með rjómavöfflum, en lítil ánægja fylgdi því fyrir mig og líklega börnin mín einnig þar sem svo mikið var eftir að gera og enginn tími fyrir svona óþarfa.. auðvitað hafa börnin mín fundið að það var eitthvað sem vantaði… mamma var ekkert sérstaklega glöð og kát í undirbúningi þessarar gleðihátíðar….

Það var líka farinn Laugavegs, Blómavalsrúntur og fl , en eins og með annað vantaði alveg æðruleysið og gleðina inn í uppskriftina…

Þessi hátíð ljóss og gleði getur orðið að sannkallaðri martröð fyrir alla þegar við ætlum að gera hana svo fullkomna að við gleymum uppskriftinni að hamingjunni og kærleikanum…

Sem færir mig aftur að byrjunarreitnum… og að ráði mínu til mín og til þín sem þetta lest er:

Njótum samvistanna við þá sem okkur eru kærir, kaupum frekar smákökurnar úti í búð eða fækkum tegundunum og njótum þess að vera bara til…

Leikum okkur, skoðum öll undrin sem eru fyrir augum okkar allstaðar, fallegu ljósin, glingrið, finnum matarilminn, gleðina og kærleikann í loftinu, leyfum okkur að upplifa það að opna hjarta okkar fyrir því góða sem í lífinu býr og þökkum fyrir það sem við höfum í kringum okkur… elskum og njótum hverrar mínútu.

 

Við vitum ekki hversu lengi við fáum að njóta samvista við þá sem okkur eru kærir, svo nýtum tímann vel.

Með jólaljósagleðikveðjum til þín og þinnar fjölskyldu, með innilega kærleiksríkri ósk um gleðilega og fallega aðventu.

Þar til næst elskurnar
Ykkar Linda xoxo


Sjáðu hvað þú lést mig gera

Orðin okkar og hugsanir hafa þann eiginleika að skapa tilveru okkar að miklu leiti og oft er sagt að líf og dauði sé á tungunnar valdi. Ég er um margt sammála þessu og tel að heimspeki og trúarrit hafi flest ef ekki öll kennt okkur þetta. 

Þess vegna veit að ég hversu auðvelt það er fyrir átrúnaðargoð barna okkar að koma inn ranghugmyndum og rangri nálgun til lífsins á framfæri við þau í gegnum lagatexta m.a.og  langar mig að tala aðeins um það í þessum pistli mínum.

Sem betur fer gera þó flestir textahöfundar sér grein fyrir ábyrgð sinni í þessum efnum en greinilega á máltækið "betur má ef duga skal" við þegar kemur að þessu.

Textar eins og "look what you MADE me do" eða sjáðu hvað þú lést mig gera og "the role you MADE me play" finnast mér td ekki smart skilaboð til barna okkar og unglinga.

Úttöluð orð þar sem þú tekur ekki ábyrgð á sjálfri þér heldur er það einhverjum öðrum að kenna ef þú gerir eitthvað, og svo er það einhver annar sem skaffar þér þitt hlutverk í lífinu.

Eins varð nú femínistinn í mér fyrir áfalli þegar einn textinn fjallaði um hvort að stelpan væri orðin nægjanlega sexý fyrir strákinn. 

Ég verð að viðurkenna að ég hefði haldið að kvennabaráttan væri komin á hærra plan, að við værum komnar frá því að hlutverk okkar kvenna væri nánast eingöngu falið í því að vera nógu flottar og sexý fyrir mennina í lífi okkar, heldur hélt ég að gáfur okkar og skynsemi væri orðin meira metin eftir að meirihluti þeirra sem Háskólana sækja eru konur - en nei ég hef greinilega ekki haft rétt fyrir mér þar!

Eins og áður var er í dag allt vaðandi í staðalímyndum sem segja okkur alla daga að við séum ekki nóg af einhverju eða of mikið af einhverju - a.m.k erum við ekki eins og við ættum að vera í fullkominni Hollywood veröld, og við hlustum raunverulega á þetta og reynum að aðlaga okkur að einu í dag og öðru á morgun í stað þess að vera bara við eins og við erum og vera ánægð með það.

Kannski er ég bara hrikalega gamaldags en mér finnst ekki sniðugt að fyrirmyndir barna okkar séu tengdar óraunhæfum staðalímyndum eða textum sem fjalla um það sem hreinlega er ekki til að auka gæði lífsins hjá einum né neinum en er samt látið líta þannig út.

Lagatextar eins og þeir sem fjalla um eiturlyf og vellíðan þeirra en ekki afleiðingar,ábyrgðaleysi þar sem þú ert alltaf viljalaust fórnarlamb,sjálfsvíg sem góða lausn frá þunglyndi,niðrandi orðbragð, vanvirðing og hlutgerðing á  konum- þar sem þær gerðar að kynlífsleikföngum er bara eitthvað sem mætti hreinlega setja "blíbb" á eins og gert var við ljótt orðbragð í sjónvarpinu hér áður fyrr og er kannski gert sumstaðar enn. 

Ég er amma nokkurra barna á viðkvæmu mótandi aldursstigi og ég fæ hroll við tilhugsunina um að barnabörnin mín í sinni félagslegu mótun fái skilaboð af þessu tagi í gegnum átrúnaðargoð sín, og ég ætla ekki einu sinni að byrja að tala um hversu mötuð þau eru í gegnum ofbeldisfulla tölvuleiki þar sem dráp eru sjálfsögð til stigagjafar og sigurs og hvernig sjálfsmynd þeirra á að vera samkvæmt tískuritunum sem þau fletta sem segja þeim hvernig þau eiga að vera svo að þau séu nú "pro" eins og litli níu ára ömmuguttinn minn skilgreinir það að vera nægjanlega flottur fyrir veröldina . 

Það þarf heilt þorp til að ala upp barn og ég trúi því að það sé á ábyrgð okkar allra að gæta að því hvað börnin okkar fái að hlusta á og horfa þar sem það getur valdið þeim verulegum skaða að fá skakka og villandi mynd af raunveruleikanum og því hvernig eðlilegt er að við umgöngumst hvert annað í orðum og gjörðum. 

Tökum höndum saman og kennum börnum okkar að taka ábyrgð og segjum þeim að það geti enginn látið þau gera eitthvað - að ég tali nú ekki um til hefndar þó að komið hafi verið illa fram við þau. Segjum þeim að við berum alltaf sjálf ábyrgð á slíkum gjörningum sem og öllu öðru sem við tökum ákvarðanir um í lífinu.

Segjum þeim einnig að það sé einfaldlega ekki málið að deyfa sig fyrir verkefnum og vanlíðan lífsins með notkun efna, það skerði einungis sjálfsvirðingu og sjálfstraust allra með tilheyrandi hnignun á lífsgæðum þeirra og skertum möguleikum til að eiga fallegt og gott líf.

Og við stelpurnar okkar ættum við svo sannarlega að segja að þær þurfi aldrei að gera sig "nægjanlega sexý" fyrir karlmenn né nokkurn annan til að vera samþykktar, því að þær eru bara hrikalega flottar eins og þær eru og þurfa engu við að bæta.

Auðvitað veit ég að við erum að kenna börnunum okkar allt það fallega og góða nú þegar en þegar ég heyri unglingsömmustelpurnar mínar spila uppáhalds tónlistina sína fer bara um mig stundum, og aldrei er góð vísa of oft kveðin held ég.

Stundum þurfum við bara að muna eftir því að standa saman sem heilt þorp þegar framtíðarkynslóðin á í hlut og kenna það sem gæti t.d útrýmt herferðum eins og "me too" herferðinni vegna þess að við værum bara svo svakalega siðmenntuð á öllum sviðum og allir kæmu fallega fram við hvert annað.

Verum bara öll vakandi elskurnar fyrir áhrifavöldunum í lífi kynslóðarinnar sem er að vaxa úr grasi og stöndum saman að því að vernda þau og vísa þeim veginn til lífs og góðrar líðanar. 

xoxo

Ykkar Linda 


Um bloggið

Linda Baldvinsdóttir

Höfundur

Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Des. 2017
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • ..._s4i6862_2
  • ...0eaf470d6_2
  • ...98009927331
  • pistill mynd
  • 15608665 10210640975833107 554134899 o

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 23
  • Sl. sólarhring: 23
  • Sl. viku: 27
  • Frá upphafi: 9244

Annað

  • Innlit í dag: 23
  • Innlit sl. viku: 27
  • Gestir í dag: 23
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband