Er sambandið þitt í hættu?

Í dag virðist mér það hafa aukist mikið að pör fari út að skemmta sér í sitt hvoru lagi og meira að segja ferðist sjaldan saman, heldur geri þetta allt saman með vinum og vinkonum og ég spyr mig hvers vegna hefur þetta breytst svona? Hver er ástæðan?

Er verið að leita eftir  saklausu frelsi eða er ástæðan sú að það er verið að skapa ómeðvitaða fjarlægð hvort frá öðru eða kannski tékka á því hvort eitthvað bitastæðara sé þarna úti?

„Ég ætla bara að fara út með stelpunum um helgina“ eða „ég ætla að fara á strákakvöld“ og það er ekkert mál eða?

Í fyrstu hljómar þetta allt svo eðlilega og auðvitað eigum við að geta haft okkar eigið líf og notið þess að gera hluti með vinum okkar – líka þegar við erum í sambandi. Fótboltaferðir, golfferðir, stelpuferðir allt er þetta í fínu lagi og eins að hittast í happy hour eða saumaklúbbnum, bókaklúbbnum eða hvað sem er svo sem.

En um djammið gildir svolítið annað lögmál og það eru ákveðnar hættur sem við þurfum að sjá skýrt hvað það varðar sérstaklega ef við viljum skapa djúpt og traust samband sem endist. Því að okkar dásamlega mannlega eðli og  ósýnilegu veiðitilburðirnir eru til staðar hvað sem við höldum annars fram um það.

Það er hluti af mannlegu eðli að leita eftir tengingu, samþykki, kynferðislegri spennu og viðurkenningu jafnvel þó við séum í föstu sambandi.

Við sjáum það í augnasambandi sem og líkamsstöðu sem við notum, eins hvernig við klæðum okkur og hvað við segjum (og segjum ekki) í félagslegum aðstæðum. Þegar við förum út á rólegu kvöldi með vinum þá er alls ekki óalgengt að einhver í hópnum sé að leita eftir spennu og því að fá áhuga frá hinu kyninu hvort sem það er meðvitað eða ekki.

Þegar við erum ein án makans þá opnast smá gluggi sem hægt er að nota til að daðra og kannski gera eitthvað meira sem var kannski alls ekki ætlunin í byrjun kvöldsins. Það gerist ekkert endilega vegna þess að við séum óheiðarleg eða tilbúin til að svíkja maka okkar heldur vegna þess að við erum mannleg.

Þegar ástin er fersk þá er það nú yfirleitt þannig að við viljum bara vera saman í flestu sem við gerum. Og flest okkar þegar við erum í  nýju í ástarsambandi eða þegar tengingin er sterk viljum vera með makanum helst öllum stundum og skapa minningar með honum. Við viljum hlæja saman, dansa saman, ferðast saman og prófa allskonar hluti saman og skapa þannig minningar sem bara við eigum saman.

En ef það fer að verða normið að gera nánast allt í sitt hvoru lagi hvað segir það þá um tenginguna og viljann til að byggja upp gott samband?

Er það raunverulegt frelsi sem við erum að leita eftir þegar við hittum vinina eða erum við að halda hvoru öðru í fjarlægð til að leita að nýjum fiskimiðum?

Það sem við gleymum stundum er að sambandið okkar er val okkar á hverjum degi og er alls ekki sjálfsagt að það sé til staðar til lengdar ef það er í síðustu sætum okkar og ef við snúum okkur ítrekað frá því  í stað þess að nálgast það meira og meira  þá óhjákvæmilega slokknar neistinn hægt og rólega.

Við verðum móttækileg fyrir áhrifum frá spennandi einstaklingum líka þegar við ætlum okkur það ekki ef við erum ekki í einhverjum af fyrstu sætum makans.

Fallegt augnatillit eða hrós frá ókunnugum getur hrært í okkur, sérstaklega ef við erum ekki að fá næga tengingu, nánd eða viðurkenningu heima fyrir. Við verðum ekki ónæm fyrir veiðitilburðum annarra bara af því að við erum í sambandi.  

Svo ég spyr, ertu að hætta sambandinu þínu með og er það orðið nánast aðeins á góðum vinanótum? Eruð þið að fjarlægjast hægt og rólega og er spennan farin? Deitin nánast horfin? Eruð þið hætt að senda eitthvað fallegt til hvers annars? Hvað með gjafir?

Ég hef því miður of oft séð annars ágæt sambönd fara í vaskinn vegna þess að traustið er brotið á djamminu og endað er uppi í rúmi með einhverjum sem alls ekki var ætlunin að enda með í byrjun kvöldsins, og ég veit að td jólaglögg í fyrirtækjum landsins var góður vettvangur fyrir það að fá athyglina sem okkur skorti heima og að endingu sáu fyrirtækin sig knúin til að hætta með þessi jólaboð því að hætta var á því að skilnaður yrði fyrir hátíðirnar vegna hegðunar fólks í makalausu glögginu.

Ástin þarf bæði rými og næringu. Hún þolir alveg að fólk geri hluti í sitt hvoru lagi annað slagið ef tengingin er sterk, sambandið traust og ræktað dags daglega en þegar það er orðið þannig að flest er gert með vinunum en ekki makanum þá er eitthvað þar sem þarf að skoðast vel.

En ef við látum frelsisþránna verða að undankomu frá nánd, trausti og samskiptum – þá erum við ekki að byggja upp samband sem byggt er á kletti (trausti) heldur erum við að byggja það á sandi og fyrsta aldan sem á því sambandshúsi brotnar mun verða til þess að sambandið endar á einhvern hátt sem ekki endilega var ætlunin að gerðist að djamminu loknu.

 

Þar til næst elskurnar,

XOXO

Ykkar Linda

Linda Baldvinsdottir

Lífsmarkþjálfi og samskiptaráðgjafi

linda@manngildi.is

 


Hvað er raunveruleg karlmennska?

Raunveruleg karlmennska er hugtak sem hefur þróast í gegnum tíðina og hefur mismunandi merkingu fyrir mismunandi fólk og samfélög en í dag er litið á hana sem samansafn af eiginleikum og hegðun sem ekki tengist einungis líkamlegum styrk heldur einnig tilfinningalegu jafnvægi, ábyrgð og virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum.

Ef ég gæti gefið uppskrift af því sem nútíminn kallar karlmennsku þá liti hann líklega einhvernvegin svona út:

Að hafa sjálfstraust og trú á eigin getu og að vera óhræddur við að takast á við áskoranir af ýmsu tagi. Að bera ábyrgð á eigin gjörðum og lífi, að sýna virðingu fyrir öðrum óháð kyni, kynþætti, trúarbrögðum eða félagslegri stöðu.

Að sýna tilfinningalegan heiðarleika og geta tjáð tilfinningar sínar opinskátt á fallegan máta. Að geta sett sig í spor annarra og sýna samúð þeim sem þjást. Að vera heiðarlegur við sjálfan sig og aðra.

Að vera stuðningur við vini og fjölskyldu í verki en ekki bara orði og í raun er raunveruleg karlmennska fólgin í því að vera góður réttlátur og traustur maður, en ég held að  þetta eigi svo sem við raunverulega fallega manneskju hvort sem hún er kona, karl eða hvernig sem við skilgreinum okkur - við erum öll menn og sömu gildi ættu að vera höfð í heiðri hvaða kyni sem við tilheyrum.

Því miður finnst mér orðið allt of lítið vera eftir af þeim tilfinningalega heiðarleika sem ég tala um hér að ofan og eins finnst mér virðing við konur vera á undanhaldi ef ég lít á samskipti kynjanna á netinu og eins á ummælum á netinu. 

Að senda typpamyndir á netinu og fara í kynferðislegan daðursleik strax í byrjun samtala á td Tinder segir mér að virðingin fyrir þeim sem spjallað er við er engin, og tilfinningalega virðinguna er sömuleiðis hvergi að finna. Og ég bara spyr mig hvort að þetta væri framkoma sem þessir sömu menn vildu að dætur þeirra fengju þegar þær fara að slá sér upp?

Á minni löngu ævi er ég fyrir löngu búin að læra að karlmenn koma fram við þig á virðingaverðan hátt þegar þeir hafa raunverulegan áhuga á því að kynnast þér og þeir segja mér margir að ef áhuginn er lítill þá nenni þeir ekki að tala við eða gefa af tíma sínum til þess aðila, en hinsvegar ef áhuginn er til staðar þá fær konan engan frið fyrir símtölum og skilaboðum allan daginn og enginn er eins mikill herramaður og maður sem er hrifinn.

Svo hverju getum við búist við að maður sem hefur til að bera raunverulega karlmennsku og er hrifinn komi fram í ástarsambandi? 

Jú hann sýnir konunni virðingu í orðum og gjörðum, bæði í einkalífi og opinberlega.

Hann reynir ekki að niðurlægja konuna eða stjórna henni heldur kemur fram við hana sem jafningja.

Hann leggur sig fram við að kynnast henni betur og spyr um áhugamál hennar og líðan og hvernig dagurinn hennar hafi verið.

Hann man eftir smáatriðunum sem hún deilir með honum og tekur tillit til þeirra í samskiptum sínum við hana.

Hann tekur þátt í lífi hennar á einlægan hátt, bæði með því að styðja hana í hennar verkefnum og með því að deila sínum eigin áskorunum með henni.

Hann er hreinskilinn og vill ekki leika leiki eða villa um fyrir henni.

Hann gerir það sem hann segir að hann muni gera og hann stendur við orð sín.

Hann er opinn um tilfinningar sínar og áhuga, en gefur henni jafnframt svigrúm til að þróa sambandið á sínum hraða.

Hann vill tryggja að henni líði vel og sé örugg í kringum hann án þess að reyna að stjórna henni.

Hann styður hana í því sem hún vill gera í lífinu frekar en að reyna að breyta henni eða stýra.

Hann spyr hana hvernig henni líði og tekur mark á svörum hennar.

Hann virðir mörk hennar bæði andlega og líkamlega, og ýtir ekki á hana til að gera eitthvað sem hún er ekki tilbúin í.

Hann lætur hana ekki efast um áhuga sinn með óljósum skilaboðum eða skorti á viðveru.

Almennt séð kemur maður sem er hrifinn af sinni elsku fram við hana með virðingu, einlægni, og með stöðugleikann að vopni.

Hann vill auðvitað að hún viti að hún sé mikilvæg og tjáir sig reglulega um það.

- og strákar mínir, allt þetta sýnir raunverulega karlmennsku!

þar til næst elskurnar

Xoxo

ykkar Linda

Linda Baldvinsdóttir

Lífsmarkþjálfi og Samskiptaráðgjafi 

Tímapantanir:linda@manngildi og á Noona.is

 

 

 

 


Að forðast lífið

Stundum held ég að öryggisþörf okkar sé þess valdandi að við missum af öllu því sem gæti gefið okkur ævintýri lífsins og gleðina sem því fylgir.

Í lífinu er hreinlega ekkert til sem heitir öryggi því að allt er hverfult í lífi hér á jörðu. Við búum við allskonar aðstæður á mismunandi tímum sögunnar og við hér á Íslandi búum stöðuglega við ógnir eins og þær sem Grindvíkingar gengu í gegnum fyrir rúmu ári síðan. Ég man daginn þegar gosið hófst í Eyjum og allir þurftu að yfirgefa heimili sín og Eyjuna sjálfa með lítið annað en fötin sem þeir stóðu í og kannski einstaka myndaalbúm sem þeir gripu með sér. 

Í Grindavík átti enginn von á því að það skjálftarnir sem þeir upplifðu hefðu grafið bæinn í sundur undir því sem sést á yfirborðinu og ekki datt þeim líklega í hug að þeir þyrftu að taka sig upp og þvælast hingað og þangað eða finna sér nýjan samastað til framtíðar, samfélagið og allt sem því fylgir farið veg allrar veraldar. 

Snjóflóð og aurskriður hafa svo sannarlega sett mark sitt á okkar þjóðfélag og breytt þeim talsvert og mínar æskuslóðir fóru hreinlega veg allrar veraldar í aurskriðu á Seyðisfirði fyrir stuttu síðan. Húsið sem ég bjó í, vinnustaðurinn hans pabba og fjárhúsin þar sem ég varð vitni að sauðburði þegar ég var lítil stúlka. Hús fjárbóndans sem vakti mig upp til að sjá lamb fæðast fór einnig í skriðunni og litla búðin þar sem ég elskaði að skoða þegar ég var yngri fór einnig.

Fjármálahrunið er nú ekki langt frá okkur í tíma og rúmi og hrun af því tagi eru þekkt í gegnum söguna. Aflabrestur og atvinnuleysið því tengt er heldur ekki svo fjarlægt okkur og ófáir þurft að flytja sig frá bæjum sínum vegna þess.

Covid breytti heimi okkar nú heldur betur og jafnvel Eyjafjallajökull með sínu eldgosi lokaði veröldinni um tíma. 

Vinkona mín ein sem hugsaði mikið um fjárhagslegt öryggi sitt og flestar hennar ákvarðanir teknar til tillits þess að hún ætlaði að hafa það gott á efri árum sínum dó áður en hún gat notið þess að sjá árangur öryggissöfnunar sinnar,og svona gæti ég líklega haldið áfram en ég held að þið áttið ykkur á því sem ég er að reyna að koma á framfæri. 

Við ættum að gefa okkur þá gjöf að læra að dansa í óörygginu í þessu stutta og brothætta lífi okkar og aðlaga okkur að því að lífið geti breyst á einu augnabliki því að það einfaldlega þannig að það eina sem er öruggt í þessu lífi er að það er ekki til neitt sem heitir öryggi og það eina sem við eigum víst er að við deyjum!

Draumar þínar rætast með þeim skrefum sem þú tekur í núinu og núið er allt sem við höfum þegar allt kemur til alls, svo nýtum það til hins ýtrasta elskurnar.

Ekki missa af lífinu sem ólgar og flæðir endalaust, náðu í kjarkinn þinn, gleðstu,njóttu, leiktu þér og leyfðu þér að flæða með lífinu mitt í öllu óörygginu - því það gefur lífi þínu líf.

Þar til næst elskurnar,

xoxo

ykkar Linda

Linda Baldvinsdóttir 

Lífsmarkþjálfi og Samskiptaráðgjafi 

linda@manngildi.is


Finndu regnbogann og rammaðu hann inn

Þetta er setning frá konu sem ekki er lengur á meðal okkar, en þetta eru orð sem við ættum svo sannarlega að hafa í huga ef við viljum auka á hamingjustundir okkar í lífinu.

Hamingjan kemur eins og regnboginn í fögrum augnablikum en ekki í löngum tímabilum þó að okkur finnist það stundum, en ef við pælum í því þá vitum við að það er augnablikið sem skapar tilfinninguna um  hamingjuna en á sama tíma ýtti undir vellíðan okkar í framhaldinu ef við römmum hana inn. 

Augnablikin sem gefa okkur hamingjuna eru eins og regnboginn að því leiti að þau gefa okkur sömu tilfinningu og þegar við sjáum fallegan regnboga, við fyllumst tilfinningu fegurðarinnar, reynum jafnvel að komast undir regnbogann til að óska okkur hamingjuríkrar framtíðar og svo römmum við minninguna inn í minningabankann okkar.   

Núna í byrjun ársins erum við mörg að taka okkur í gegn andlega og líkamlega og ætlum okkur að ná af okkur jólasukk kílóunum, losa okkur við vonlausa makann og byrja nýtt tímabil heilsu og hamingju.

Að sjálfsögðu er nýr dagur og nýtt ár alltaf gjöf okkar og tækifæri á því að byrja á því sem við viljum breyta en hvað svo með framhaldið?

Erum við að búa til nýjan lífsstíl og nýtt líf eða er þetta bara fljótfærnisleg lausn sem á að kippa öllu í lag og veita okkur hina fullkomnu varanlegu hamingju og fullkomna líf?

Að mínu viti þurfum við að vera tilbúin til að finna úthugsaðar varanlegar lausnir í öllum tilfellum ef við viljum sjá breytingu á lífinu og þær lausnir taka tíma og fyrirhöfn. 

Það tekur 21 til 60 daga fyrir heilann okkar að mynda nýja venju, og svo þurfum við að halda henni reglulega við, þannig að kúrar og kúrsar eru ekki málið ef við viljum varanlega breytingu á einhverju sviði lífsins.

Breyting tekur tíma og að læra að hugsa á annan hátt tekur tíma, og spurningin er hver og hvernig vilt þú vera- og ná svo í það.

Erum við stundum að fórna td makanum í janúar án þess að huga að framhaldinu og þeim lífsstíl sem þeir sem einhleypu lifa, og ætlum við að ná af okkur aukakílóunum í hvelli og sukka síðan aftur?

Sælan sem við leitum að fæst ekki alltaf með því að taka kúrsa eða losa sig við makann heldur fæst hún með því að við breytum okkur sjálfum innan frá og út.

Sumir segja að það sé ekki hægt að kenna gömlum hundi að sitja (mynda nýjar venjur) en ég segi klárlega að þessi gamli hundur getur svo sannarlega breytt sér ef hann vill það og sýnir sjálfum sér þolinmæði á leiðinni að breytingunni. 

Ef þú ert ekki í sátt við þig í dag eins og þú ert á einhvern hátt þá þarftu að gera samkomulag við þig um að ná að verða sú eða sá sem þú vilt verða sama hvaða vinnu þú þarf að leggja á þig til þess að láta það verða að veruleika í stað þess að leita að enn einni skyndilausninni.

Við vitum flest að hugsunin er til alls fyrst þegar kemur að því að breyta venjum,framkomu, meðvirkni,samböndum, samskiptum, árangri og öllu öðru sem þarfnast breytinga og því þurfum við að virkja hana vel í breytingaferli okkar. 

Við virkum nefnilega þannig að hugsun okkar er til alls fyrst og hún kveikir á tilfinningum okkar sem svo verða að framkvæmdum okkar, og ef við ætlum okkur hlutina þá eru okkur engin takmörk sett ef við bara höfum fókus okkar og meðvitund á því að virkja hugsunina okkur til góðs.

Ég er stödd úti í Liverpool þegar ég skrifa þennan pistil og er að bjóða tíma í lífsþjálfun hjá verðlaunaðri líkamsræktarstöð sem heitir Limetless lifestyle wellness center. Mér finnst þessi stöð alveg frábær vegna þess að þar er talað um að það verði að finna út heildrænu ræturnar að vandamálunum áður en haldið er af stað í ræktinni sem mér finnst alveg brilliant hugmynd. því að það er þannig sem ég vil að þeir sem til mín koma í lífsmarkþjálfun vinni, eða út frá rótunum en ekki ástandi laufblaðsins. 

Ef við ætlum að finna okkar eigin regnboga og ramma hann inn þá er alveg á hreinu að það sem við ættum að keppa að er að finna okkar rætur og eigin innri frið ásamt því að finna styrk okkar og ást til okkar sjálfra.

En til þess að svo sé hægt ættum við að skoða vel hvað er ekki eins og við vildum helst hafa það og hvers vegna.

Við ættum að leita vel að skemmd á rótum þess sem við gerum og erum, eins og td. ef við erum meðvirk með einhverjum skoðum þá hvaðan það mynstur kemur.

Oft er rótin að því sú að við lærðum í æsku að halda frið, þóknast einhverjum í umhverfi okkar og við fengum hrós ef við vorum dugleg, kurteis og svo framvegis og það mótaði síðan framkvæmdir okkar.

Þannig að rótin að vanlíðan okkar liggur oft dýpra en við höldum og oft þurfum við að leita að samskiptamynstrum þeim sem við kynntumst í æsku til að finna hvar rætur okkar samskipta liggja.

Ef við gerum okkur grein fyrir rótum þess að okkur gengur ekki vel að ná jafnvægi á einhverjum hlutum lífsins þá er hálfur sigurinn unninn, og þegar við höfum fundið blessaðar ræturnar þá fyrst geta breytingar okkar orðið án allra takmarkana -  og það er það sem ég vil endilega að þið áttið ykkur á. 

Við getum tekið törn eftir törn í því að bæta okkur og líf okkar en farið svo í sama farið aftur, en það að halda stöðuglega áfram er það sem gefur okkur sigurinn að lokum því að þá höfum við byggt upp seigluna nauðsynlegu og styrkinn innra með okkur en það eru aðalefni árangurs á öllum sviðum lífsins.

Gleðilegt árangursár þó seint sé elskurnar, og þar til næst munið þá að ég er einungis einni tímapöntun í burtu. Saman getum við skoðað ræturnar þínar og fundið leiðina að því að ramma inn regnbogastundirnar í þínu lífi, og á síðunni minni manngildi á facebook má finna mörg frí verkefni sem geta komið þér af stað í áttina að breytingunni.

xoxo ykkar Linda

Linda Baldvinsdóttir

Lífsmarkþjáfi og samskiptaráðgjafi

linda@manngildi.is 

 

 


Hvað inniheldur óskalistinn þinn?

Nú er jólahátíðin rétt handan við hornið og mesti höfuðverkur minn fyrir öll jól núorðið er að vita hvað ég á að gefa hverjum og einum í jólagjöf þar sem mér finnst allir eiga allt.

Þegar ég er sjálf spurð um óskir mínar get sagt með sanni að í dag þrái ég mest að fá í jólagjöf samveru með mínum nánustu ásamt ást þeirra og umhyggju, og það væri meira en nægjanlegt- en er samt þakklát fyrir gjafmildi þeirra og umhugsun sem bíður mín í formi fallegra innpakkaðra pakka undir skreyttu jólatré.

Ég er spyr iðulega mína nánustu um óskir þeirra fyrir jólin og eins hlusta ég allt árið eftir merkjum um hvað það er sem þeim vantar, og stundum næ ég að slá í gegn með því sem í pökkunum frá mér leynist.

Allt árið er ég þó að gefa þeim það sem ég held að mestu máli skipti fyrir þau en það er að segja þeim hversu mikið ég elska þau og auðvitað að knúsa þau í hvert skipti sem við hittumst (unga fólkinu líklega til mikils ama),en það eru þær gjafir sem ég held að muni lifa lengst í minni þeirra.  

En flestir eiga  líklega í fórum sér óskalista fyrir jólin sem fullur er af allskonar glingri og skemmtun, draumum, vonum og jafnvel hlutum sem við teljum að gætu gert okkur hamingjusöm, - en er hægt er að pakka inn því sem við raunverulega þráum að fá í jólagjöf svona ef við leitum lengst inn í hjarta okkar?

Eru það raunverulega nýjustu tækin, flottustu fötin og húsgögnin sem við viljum, eða óskum við okkur einhvers sem engin leið er að pakka inn í skrautlegan jólapappír?

Við setjum kannski efnislega hluti á listann okkar þegar við erum spurð hvers við óskum að fá í jólagjöf, en ef við erum hreinskilin við okkur sjálf þá held ég að óskir okkar séu aðeins andlegri en það sem finna má í hillum verslana.

Kannski viljum við heldur fá tengingu við fjölskyldu og vini en fallega innpakkaða hluti í jólagjöf og kannski viljum við fá tíma til að njóta lífsins, eiga góða heilsu og eiga frið í hjarta okkar frekar en að fá fallegan vasa eða nýjan síma.

Ég tel að verðmætustu gjafirnar séu fólgnar í því að fá  tíma og óskipta athygli einhvers sem við elskum, samtöl án truflana og augnablik þar sem nærumst saman í gleði.

Í aðdraganda jólanna er ein gjöf sem við ættum helst að gefa en hún er sú að taka frá tíma til að fyrirgefa, hvort sem það er að fyrirgefa öðrum eða okkur sjálfum- því að fyrirgefningin hefur töframátt fyrir huga okkar, sál og hjarta og hún sameinar fjölskyldur, vini og gefur okkur frið.

Tenging er okkur einnig mikilvæg og hefur sterk áhrif á hamingjustig okkar, ekki síst á hátíðum, og því væri það dásamlegt ef við gætum styrkt sambönd okkar við aðra, ræktað kærleikann og gefið umhyggju okkar án þess að ætlast til að fá eitthvað í staðinn.

Eins þurfum við að gefa okkur sjálfum leyfi til að hvílast, njóta og finna gleðina sem fæst með þakklæti og með því að meta einfaldari hliðar tilverunnar eins og fallegu jólabirtunnar og gleði í augum barna.

En hvernig sem óskir okkar eru vona ég svo sannarlega í það minnsta að listinn okkar þetta árið sé fylltur löngun til að gefa og taka á móti þeim gjöfum sem gera lífið innihaldsríkara, gjöfum eins og brosum, knúsum, kossum, samkennd og kærleika því að það eru gjafir sem verulegu máli skipta fyrir gæði lífs okkar.

Nýtum tímann og hugsum út fyrir rammann því að við getum gert svo margt gott á þessum árstíma.

Við getum td stutt við góðgerðarsamtök í nafni einhvers sem við elskum.

Við getum boðið upp á tíma og hjálp til þeirra sem þurfa á aðstoð að halda og við getum búið til handgerðar gjafir sem sýna að okkur er annt um þann sem þær fær.

Við getum einnig gefið loforð um að eiga gæðastundir saman með þeim sem einmana eru og tekið með þeim  göngutúra, splæst í kaffi eða bara eiga stutt samtal við þá.

Við getum sett í umslag falleg orð til þeirra sem þættu vænt um að fá slíkt og við getum styrkt sambönd okkar og kíkt oftar á þá sem við elskum.

Hvað sem við gefum og gerum, höfum í huga það sem við vitum öll innst inni að skiptir öllu máli, en það er að láta engan vera einan á jólahátíðinni – því það á enginn að borða einn.

Og að lokum,

Hvernig væri að við spyrðum okkar nánustu að því hvers þeir þörfnuðust mest frá okkur sem ekki væri hægt að setja í umbúðir með slaufu á, og reyndum síðan af fremsta megni að verða við þeim óskum?

Því þegar allt kemur til alls er stærsta og mesta gjöfin sem við getum gefið og þegið kærleikur, fyrirgefning, hlýja og einlæg tenging við okkur sjálf og aðra.

Elskum í orðum og gjörðum og látum þessa hátíð ljóss og friðar lifa í kærleiksríku hjarta okkar og framkomu við náungann elskulegustu mín.

Sendi ykkur öllum mínar fallegustu óskir um Gleðilega jólahátíð og mikla farsæld og óteljandi blessanir á komandi ári.

Xoxo

Ykkar Linda

 

Linda Baldvinsdóttir

Lífsmarkþjálfi og samskiptaráðgjafi

linda@manngildi.is


Kjóstu þig

Núna eru nýafstaðnar kosningar á okkar fallega landi elds og ísa og vonandi að ró fari að komast á í þjóðfélaginu svo að við getum notið aðventunnar og hátíðarinnar sem framundan er.

Í aðdraganda kosninganna spáum við og spekúlerum í stefnu flokkanna og hverju hver og einn stjórnmálamaður stendur fyrir, og sitt sýnist hverjum um ágæti hvers flokks fyrir sig.

Okkar eigin gildi eru í raun það sem við erum að kjósa og við viljum að þeir sem við gáfum atkvæði okkar starfi samkvæmt þeim.

En hvað með okkur sjálf, erum við það ánægð með stefnu okkar í lífinu að við værum tilbúin til að setja X við okkur sjálf og gefa okkur þannig atkvæði?

Skoðum aðeins hvað fylgir því að við ákveðum að kjósa okkur sjálf í lífinu.

Að kjósa sjálfan sig í lífinu kallar á dýpri sýn á val okkar og sjálfsvirðingu hverju sinni og að framkvæma samkvæmt þeirri sýn sem innra með okkur finnst.

Það er semsagt samtal við sjálfið, þar sem við krefjumst skýrleika um það hver við erum, hvað við viljum og hvaða stefnu við ætlum að taka í hverju málefni fyrir sig og í raun snýst það um rætur okkar, viðhorf og hvernig við skiljum okkur sjálf í samhengi við aðra og heiminn allan.

Að velja sig krefst meðvitundar um hvað það er sem hefur áhrif á ákvarðanir okkar.

Er ákvörðun okkar byggð á ótta við að valda vonbrigðum, eða á löngun okkar til að vaxa og þróast?

Þarfir okkar og langanir spretta oft upp úr ómeðvituðum mynstrum sem við höfum alið með okkur frá barnæsku, eins og td löngun til að fá samþykki frá öðrum eða hræðslu við höfnun (að vera ekki nóg).

Þegar við kjósum okkur sjálf þurfum við að stíga út úr þessum mynstrum, horfa í spegilinn og spyrja: Er þetta val mitt núna byggt á kærleika eða á ótta?

Að velja sig þýðir einnig að við tökum fulla ábyrgð á afleiðingunum sem kunna að verða af þeim ákvörðunum eða vali sem við tökum í lífinu.

Það getur verið ansi erfitt á köflum sérstaklega þegar við þurfum að horfast í augu við mistök eða áskoranir sem eru afleiðingar af vali okkar, en það að taka þessa ábyrgð styrkir þó sjálfsmynd okkar og gefur okkur sjálfstraust inn í framtíðina, því við lærum og þroskumst af þeim verkefnum sem við tökumst á við.

Við þurfum að átta okkur á því að aðrir bera ekki ábyrgð á nokkurn hátt á hamingju okkar því að við sjálf höfum lykilinn að því hvernig við mótum líf okkar hverju sinni og sjálfsástin gengur út úr aðstæðum sem eru henni skaðlegar og ræna hana gleði.

Sjálfsástin er undirstaða alls þess sem við veljum og hún er ekki bara tilfinning heldur birtist hún í athöfnum okkar og vali. Hún birtist í því hvernig við hugsum um okkur dags daglega og hvernig við setjum okkur mörk eða leyfum öðrum að koma fram við okkur.

Sjálfsástin hvílir sig þegar hún þarf á hvíld að halda og hún segir nei við verkefnum sem eru á skjön við hennar þarfir og getu hverju sinni. Hún veit einnig að hún er verðug ástar, virðingar og tíma sama hvað öðrum kann að finnast um það.

Til að fullkomna val okkar á okkur sjálfum er mikilvægt að fara inn á við og stunda hugleiðslu, dagbókarskrif eða að dvelja í kyrrð til að hlaða batteríin og til að hjálpa okkur við að hlusta á okkar innri rödd sem oft verður hljóðlát í ys og þys daglegs lífs.

Þessi rödd sem leiðir okkur alltaf nær kjarnanum ef við bara hlustum, þar sem við getum spurt okkur spurninga og fengið svör. Spurningar eins og ; Hver er ég án allra titla og væntinga? Og hvað kallar hjarta mitt á í raun og veru? Hvað er rétt fyrir mitt líf núna? Og svo framvegis.

Þegar við kjósum/veljum okkur sjálf verður það sjáanlegt í hegðun okkar og framkomu.  Í samskiptum förum við að tala af meira öryggi, krefjumst virðingar og sýnum öðrum virðingu án þess að fórna okkur sjálfum.

Við hættum að líta á líkama okkar sem sjálfsagðan hlut en förum þess í stað að hlusta á hann sem okkar besta vin í gegnum lífið. Við sýnum honum virðingu okkar með því að veita honum góða næringu, hreyfingu og hvíld, og ekkert er of gott fyrir hann. Við verðum einnig meðvitaðri um það hvernig við stjórnum streitu og spennu daglegs amsturs.

Við veljum frið í stað átaka þegar þess er kostur og við sækjum í gleði lífsins og þakklæti fyrir það góða sem það gefur okkur.

Að kjósa sjálfan sig er ekki eitthvað sem við gerum einu sinni, við þurfum að velja okkur aftur og aftur, alla daga en ekki á fjögurra ára fresti eins og í kosningum þeim sem nú eru ný afstaðnar.

Við veljum á hverjum morgni að fara inn í daginn með sjálfsmildi, skilning og virðingu að leiðarljósi sama hvað gengur á, og því oftar sem við kjósum okkur sjálf því dýpri verður sjálfsást okkar og lífið fer að spegla hana í öllum þáttum þess.

Mundu að þú ert leiðtoginn eða skaparinn í eigin lífi og situr uppi með val þitt og afleiðingar þess alla daga svo mundu að kjósa rétt fyrir þig í smáu sem stóru, því þannig skrifar þú söguna sem þú vilt lifa.

Og eins og ætíð er ég bara einni tímapöntun í burtu frá þér ef þú þarft aðstoð við stefnumótun lífs þíns.

Þar til næst elskurnar

Xoxo

Ykkar Linda

Linda Baldvinsdóttir

Lífsmarkþjálfi/Samskiptaráðgjafi

linda@manngildi.is



Mótþrói við lífið

Ég veit ekki með þig sem þetta lest en ég á það til að fara í mótþróa við lífið þegar erfið verkefni banka uppá hjá mér í lífinu og ég gleymi hreinlega að huga að sjálfri mér og því hvað væri best fyrir mig að gera við það sem var sett í fang mér hverju sinni.

Þessi mótþrói lýsir sér oft með því að ég verð reið út í lífið og fer að refsa því með því að hugsa ver um mig en ella og ég dett í vanþakklæti og fýlu útí Guð og líklega menn einnig þó að ég viti að það þýðir líklega lítið.

Mótþrói gagnvart lífinu, eða viðnámið sem við finnum gagnvart því að fylgja straumi lífsins, er oft flókin blanda tilfinninga, minninga og viðbragða sem byggja á fyrri reynslu okkar persónuleika og aðstæðum. Þessi viðbrögð koma stundum fram í formi ótta, kvíða, reiði eða sjálfsóöryggis. 

Það sem gerist hjá okkur er að sjálfstalið okkar verður á frekar sjálfsvorkunnarlegum nótum og við hreinlega leyfum okkur að gefast upp og hætta að reyna að fá út úr lífinu það sem okkur langar til að það gefi okkur. 

Við höfum flest tilhneigingu til að forðast eða fresta því að takast á við erfiðu verkefni lífsins vegna þess að þau vekja upp óþægilegar tilfinningar eins og óttann við mistök eða afneitun og mótþróinn verður því einhverskonar konar varnarviðbragð við því óöryggi sem við teljum að gæti skaðað sjálfsmynd okkar eða tilfinningalegt jafnvægi.

Margir upplifa breytingar sem ógnvekjandi ástand og flest finnum við fyrir því á stundum eins og þegar við verðum svo vanaföst að við getum ekki einu sinni hugsað okkur að setjast á annan stól við eldhúsborðið en þann sem við sitjum alltaf í :) Þessi innri ótti við breytingar og eins við það að gera mistök getur leitt til þess að við reynum að forðast áskoranir, óttumst framtíðina og höldum í gamlar en öruggar venjur. Þegar við leyfum þessum ótta að stjórna okkur lokar hann fyrir möguleikana á vexti okkar og velgengni í lífinu sjálfu og það er lítið smart.

Sjálfsmyndin okkar gegnir einnig mikilvægu hlutverki í því að við förum í mótþróa við lífið.

Við höfum sterka tilhneigingu til að vernda sjálfsmynd okkar hvort sem hún er jákvæð eða neikvæð. Til dæmis, ef við höfum sterka trú á að við séum "ekki nógu góð" eða "ekki fær um að ná árangri," sköpum við mótþróa gagnvart þeim breytingum eða tækifærum sem ögra þessari neikvæðu sjálfsmynd. Þessi mótstaða getur þannig fest okkur í sjálfsköpuðum takmörkunum, þar sem við verjum rótgrónar hugmyndir um okkur sjálf jafnvel þó þær séu hamlandi og hafi slæm áhrif á lífsskilyrði okkar.

Mistök og óttinn við að gera þau er oft undirliggjandi orsök mótþróa. Þetta getur verið hluti af okkar innri röddu sem segir okkur að mistök séu óásættanleg eða að þau hafi alvarlegar afleiðingar fyrir sjálfsvirðingu okkar. Þessi ótti við mistök getur leitt til þess að við forðumst áskoranir, óttumst um framtíðina og höldum í gamlar öruggar venjur sama hvað þær kosta okkur. Þegar við leyfum þessum ótta að stjórna okkur, verður mótþróinn sterkur þáttur í lífi okkar og hann lokar fyrir möguleikana á þróun okkar og vexti til góðs.

Okkar innri mótþrói getur einnig tengst þeim stöðuga samanburði við aðra sem margir upplifa. Við verðum oft óánægð þegar við berum okkur saman við árangur annarra og finnum fyrir vanmáttarkennd. Þetta getur aukið mótþróa gagnvart því að taka skref fram á við og við finnum fyrir því að við missum trú á eigin getu og hæfileika. Samanburðurinn skapar þannig tilfinningu fyrir að vera „of smár“ eða „ekki nægilega góður,“ sem endurspeglast í sjálfseyðandi hegðun og hugsanamynstri.

Upplifanir úr fortíðinni, þar á meðal uppeldisáhrif og fyrri sambandstengsl geta haft djúpstæð áhrif á hvernig við bregðumst við nýjum aðstæðum og áskorunum. Ef við höfum alist upp við að fá neikvæða endurgjöf eða að uppeldið hafi verið mjög strangt getum við átt erfitt með að trúa á eigin getu og orðið mjög móttækileg fyrir ótta og eigum því erfiðara með að takast á við nýjar áskoranir og frestum því eins lengi og stætt er.

En hvernig getum við sagt mótþróanum stríð á hendur og sigrað hann?

Jú í þessu tilfelli eins og flestum öðrum er sjálfsþekkingin til allra hluta nytsamleg og við þurfum að athuga hvaðan við komum. Hvers vegna er vanafestan svona mikilvæg fyrir okkur og afhverju eigum við erfitt með að axla ábyrgð og koma okkur úr sporunum. Hvers vegna upplifi ég mótþróa þegar lífið gengur ekki upp að einhverju leiti og er ég full/ur af afbrýðisemi gagnvart þeim sem vel gengur í lífinu eða er ég of mikið eða lítið af einhverju?

Þannig að í þessu tilfelli er hugsunin og álit okkar á eigin getu það fyrsta sem þarf að huga að eins og ávalt. 

Dagbókarskrif geta hjálpað mikið í sjálfsþekkingarleitinni og jákvætt sjálfstal er hrein nauðsyn til að koma sér út úr hjólförunum.

Sjálfsástin er einnig mikilvægur þáttur í lausnarferli mótþróans og við þurfum svo sannarlega að hætta að einblína á mistök okkar eða gallana. Fögnum litlum sigrum og viðurkennum eigin framfarir í stað þess að horfa á aðra og klöppum okkur á öxlina þegar illa gengur og segjum okkur að þetta gangi bara betur næst.

Við höfum vald yfir eigin hugsun, viðhorfum og viðbrögðum og ættum aldrei að gleyma því. Svo veljum vel hugsanir okkar og viðhorfin gagnvart okkur sjálfum og þar með líklega viðbrögðum okkar við áreiti lífsins.

Þakklæti, slökun og núvitund eru allt góðar leiðir á leið okkar að lausn á mótþróanum og eins og alltaf er best að byrja á því að byggja upp sjálfstraust okkar og opna okkur fyrir nýrri reynslu.

Og eins og alltaf er ég einungis einni tímapöntun í burtu ef þú vilt vinna með þitt sjálfstraust og sjálfsþekkingu.

Þar til næst elskurnar,

Ykkar Linda

Linda Baldvinsdóttir

Lífsmarkþjálfi og samskiptaráðgjafi.

linda@manngildi.is

Þar til næst elskurnar,


Er von fyrir sambönd sem myndast eftir fimmtugt?

Ég hef oft velt því fyrir mér hvort að það sé erfiðara fyrir þá sem komnir eru yfir miðjan aldur að mynda ástarsamband sem endist um ókomin ár, því að ég heyri mikið talað um hversu erfitt það sé að mynda sambönd á þessum gasalega virðingaverða aldri.  

Mín skoðun er samt sú að það ætti jafnvel að geta verið auðveldara að sumu leiti ef vel er að gáð.

Á miðjum aldri (50-60 ára)erum við komin með lífsreynslu og horfum á ást og sambönd með öðrum hætti en við gerðum þegar við vorum um tvítugt.

Við erum full mótaðar manneskjur og vitum yfirleitt hvað það er sem við viljum sem ætti að auðvelda farsældar leiðina og valda því að færri árekstrar ættu að eiga sér stað, það er að segja ef þroski okkar og samskiptahæfni hefur vaxið í samræmi við aldurinn.

Yfirleitt er það nú þannig að tilfinningalegur þroski okkar stóreflst með árunum og það eitt útaf fyrir sig hefur mjög mikil árhrif á það hvernig sambönd ganga.  

Fyrri reynsla, bæði jákvæð og neikvæð gefur af sér meiri samkennd, skilning og þolinmæði beggja aðila sem svo sannarlega er þörf á þegar tveir aðilar úr ólíku umhverfi koma saman og mynda samband. Par sem býr yfir tilfinningagreind bjóða yfirleitt upp á betri samskipti og leysa átök með samtali og samkennd í stað togstreitu og rifrilda.

Einstaklingar á miðjum aldri  eru yfirleitt búnir að fara í gegnum nokkur tímabil sjálfsleitar og uppgötvunar og eru í flestum tilfellum búnir að móta sig bæði persónulega og atvinnulega sem gefur þeim betri sýn á hvað þeir vilja fá út úr sambandi og ekki síst hvað þeir geta gefið sjálfir inn í sambandið þannig að sambandið eflist og dafni, en ég held að við höfum fæst hugsað út í okkar eigin persónulegan þroska þegar við vorum yngri og líklega aldrei hugað að því að elska okkur sjálf á réttan hátt heldur.

Á miðjum aldri er parið líklega farið að huga betur að heilsu sinni og jafnvel setja hana í forgang, og eiga oft sameiginleg áhugamál eins og ræktina, golfið, skíðin, gönguferðir, matarvenjur og heimilislífið og fjölskylduna  og ef þeir velja sér að njóta lífsins með svipuðum hætti þá færir það parið betur saman og tryggir þeim á sama tíma betri heilsu.

Svo eru það blessuð fjármálin sem eru nú oft orsök skilnaða sérstaklega hjá unga fólkinu. En á miðjum aldri erum við yfirleitt orðin færari um að stjórna fjármálum okkar og búum oftast nær við meiri stöðugleika í fjármálunum sem aftur tekur í burtu áhyggjurnar og togstreituna sem peningamálin geta skapað.

Hinsvegar þarf það að vera á hreinu þegar parið ákveður að fara í sambúð hvernig fjármálum á milli þeirra verði hagað, og hvort fjármálin verði sameiginleg eða kannski algerlega aðskilin. 

Lífsgildin eru yfirleitt á hreinu hjá þeim sem eldri eru og því ætti að vera auðvelt að athuga hvort þau passi saman (mjög mikilvægt að svo sé)

Í næst síðasta lagi þá hafa einstaklingar á þessum aldri oftar en ekki með meira frelsi og sjálfstæði en þeir sem yngri eru ásamt því að sveigjanleiki í starfi er oft orðinn meiri.  Börnin eru einnig orðin fullorðin í flestum tilfellum og flogin að heiman, eða amk orðin fleyg.

Þetta gefur parinu tækifæri á því að stunda oftar sameiginleg áhugamál, ástríður og langanir, og auðveldara verður að nýta sér frelsið til að kveikja á ástríðunum á öllum frjálsum stundum sem gefast, og búa þannig til ævintýraríkt líf saman.

Í síðasta lagi þá er ákveðin fegurð fólgin í því að fá að eldast saman og fá að telja gráu hárin og hrukkurnar á hvort öðru, ásamt því að það er líklegt að með árunum aukist sameiginlegur reynsluheimur parsins á tímum góðra og einnig erfiðra verkefna, en allt getur þetta skapað aukna virðingu, þakklæti og aukin tengsl parsins.

Þannig að ég tel að seinni sambönd ættu semsagt að hafa jafnvel meiri möguleika en þau fyrri ef við kjósum að velja maka samkvæmt sameiginlegum lífsgildum ásamt dassi af ást og umburðarlyndi sem við höfum ofkors öðlast í ómældu magni á langri göngu okkar um lendur móður jarðar.

Þar til næst elskurnar,

Xoxo

Ykkar Linda

 

Linda Baldvinsdóttir

Lífsmarkþjálfi/Samskiptaráðgjafi

linda@manngildi.is

 


Ertu búin á því?

Venjulegur dagur hjá mæðrum og feðrum dagsins í dag er kannski ekki svo venjulegur þegar allt kemur til alls.

Vísitölufjölskyldan inniheldur mömmu, pabba og tvö börn sem líklega eru á leikskóla og í skóla og það er nóg að gera frá morgni til kvölds.

Dagurinn byrjar yfirleitt snemma með morgunmat, nestispökkun, að láta börnin klæðast,bursta og greiða áður en haldið er af stað með þau á sitthvorn staðinn áður en mætt er til vinnu.

Síðan er unnið til fjögur eða fimm og þá eru börnin sótt sem tekur sinn tíma í umferðinni hér á höfuðborgarsvæðinu amk. Þá er eftir að skutla í tómstundirnar fram og til baka, fara í búðina, elda mat, láta barnið/börnin læra, baða sig og koma þeim síðan í háttinn. Eftir það þarf að ganga frá í eldhúsinu, setja í þvottavélar og þurrkara og þá eru tómstundir, félagsstarf plús ræktin eftir hjá foreldrunum og þá spyr ég, hvaða tími er eftir fyrir parasambandið og ræktun sambands við börnin?

Úff ég verð bara þreytt á því að skrifa þetta hvað þá ef ég væri í þessari aðstöðu!

Það er ekki skrýtið þó að barneignum hafi fækkað töluvert á landinu okkar og sumir treysti sér ekki til að samræma starfsframa og móður/föður hlutverkið.

Unga fólkið okkar er að sligast úr streitu og kulnunareinkenni finnast æ oftar hjá þeim, og við erum að tala um UNGT fólk en ekki þreytt gamalmenni sem eru búnir að gefa allan sinn starfsaldur við erfiðisstörf.

Ég heyrði af ungri móður sem gjörsamlega bugaðist og trúði einni vinkonu sinni fyrir því að hún væri búin á því en gæti ekki viðurkennt það því að þá hélt hún að öllum þætti hún algjör lúser, og ég held að ungar konur og menn tali ekki um kulnunina sína vegna þess að það passar ekki inn í glansmyndirnar á Instagram þar sem allir líta vel út og lífið er svo dásamlega einfalt þó að það finnist engin stund til að slaka á!

Ég skrifaði um kulnun og átta átta aðferðina sem er einfaldlega sú að skipta niður sólarhringnum í þrjú tímabil. Tímabil starfs, hvíldar og tómstunda.

En í þeim pistli skrifaði ég einnig um vannærðan anda, en það er andi sem gefur sér ekki andrými til þess að vera til og njóta augnablikanna í gleði og jafnvægi,og gerir sér jafnvel alls ekki grein fyrir því að hann fái ekki rétta næringu.

Ef ég ætti að setja það í eitthvert samhengi þá er það svipað og þegar við erum vannærð á líkama okkar (anorexía t.d)en tökum ekki eftir einkennunum fyrr en of seint og lítum okkur skökkum augum.

En hverju þurfa þessar ungu önnum köfnu mæður og feður að taka eftir þegar kemur að einkennum kulnunar eða útbruna?

Það eru ýmis teikn sem þú getur skoðað með sjálfum þér til að athuga hvort að þú sért að verða búinn á því andlega séð og margt að finna um það á netinu ef þú leitar. 

Það er til nokkuð góður listi yfir einkenni burnouts eða kulnunar eins og við viljum kalla það og höfum við lengst af tengt við störf okkar en ekki persónulega lífið.

Hinsvegar benda nýjustu rannsóknir til þess að kulnunin sé af samþættum toga og líklegt mynstur er álag í starfi, álag á heimili, áföll og streita vegna fjármála eða vegna ástands í fjölskyldu.

Hér eru nokkur einkenni kulnunar sem hafa ber í huga og ef þú kannast við eftirfarandi þá þarf að finna lausnir á með því ástandi:

Líkamleg einkenni:

  1. Þreyta: Stöðug og djúp þreyta sem hverfur ekki þrátt fyrir svefn og hvíld.
  2. Svefnvandamál: Erfitt er að sofna eða viðhalda svefni, eða þá að viðkomandi sofnar en vaknar þreytt.
  3. Verkir: Höfuðverkur, vöðvaverkir og önnur líkamleg óþægindi.
  4. Niðurbrot ónæmiskerfisins: Aukin veikindi, eins og kvef og sýkingar.

Andleg og tilfinningaleg einkenni:

  1. Kvíði: Aukinn kvíði, þar með talið áhyggjur og óróleiki sem getur tengst foreldrahlutverkinu.
  2. Þunglyndi: Þunglyndiseinkenni, svo sem vonleysi, skortur á áhuga og gleði.
  3. Pirringur: Aukin pirringur og reiði sem getur beinist að fjölskyldunni eða að þér sjálfri.
  4. Einbeitingarskortur: Erfiðleikar við að einbeita sér, taka ákvarðanir og skipuleggja sig.
  5. Tilfinningaleg doði: Minnkuð tengsl við eigin tilfinningar, fjölskyldu og vini, þar með talið börnin.

Félagsleg einkenni:

  1. Einangrun: Vilji til að draga sig í hlé frá félagslegum tengslum.
  2. Skortur á ánægju: Getur upplifað daglega athafnir sem leiðinlegar eða tilgangslausar.

Hegðunareinkenni:

  1. Ofnotkun áfengis eða annarra róandi efna: Til að reyna að takast á við streitu.
  2. Minnkað sjálfsálit: Efasemdir um eigin getu sem móðir og manneskja, þar sem hún upplifir að hún standi ekki undir væntingum samfélagsins.

 Mikilvægt er að leita sér aðstoðar ef þessi einkenni eiga við, svo sem með því að tala við fagaðila eða leita stuðnings frá fjölskyldu og vinum.

En það eru til leiðir til lagfæringar á ástandinu og sumar af þeim eru t.d þessar:

Endurskoða forgangsröðun

  • Einbeita sér að því mikilvægasta: Að læra að segja „nei“ við verkefnum eða skuldbindingum sem ekki eru nauðsynlegar til að létta á álagi.
  • Aðlaga væntingar: Setja raunhæf markmið og væntingar til sjálfrar sín, og sætta sig við að þurfa ekki að vera fullkomin í öllu.

Sjálfsumönnun

  • Hreyfing: Regluleg hreyfing, jafnvel göngutúrar eða jóga sem geta aukið orkuna og bætt andlega líðan.
  • Svefn: Að skapa góð svefnrútínu og tryggja sér nægilega hvíld er lykilatriði.
  • Næring: Góð næring hjálpar við að viðhalda orku og heilbrigði. Reyna að borða reglulega og velja næringarríkan mat.
  • Slökunartækni: Læra og æfa slökunartækni eins og djúpöndun, hugleiðslu eða núvitund.

Endurnýja tengsl

  • Tengsl við barnið: Reyna að skapa jákvæðar og nærandi stundir með barninu til að styrkja tilfinningaleg tengsl og gleði í foreldrahlutverkinu.
  • Félagslegur stuðningur: Að halda tengslum við vini og fjölskyldu, jafnvel þótt það sé aðeins með stuttum heimsóknum eða samtölum.

Taka sér tíma fyrir sig sjálfa

  • Eiga stundir án barna: Það er mikilvægt fyrir foreldri að fá tækifæri til að vera eitt með sjálfu sér, hvort sem það er að ltil þess að lesa bók, fara í bað eða stunda áhugamálin.
  • Leyfi og hvíld: Ef mögulegt er, þá er gott að taka sér tíma frá daglegu amstri, hvort sem það er að taka sér frá vinnu eða einfaldlega stutt hlé frá daglegum verkefnum.

Skipulag og tímaáætlun

  • Skipuleggja daginn: Að gera tímaplan sem inniheldur bæði tíma fyrir verkefni og hvíld. Það getur hjálpað við að sjá dagskrána skýra og raðað niður verkefnum eftir mikilvægi (Borða fílinn einn bita í einu).
  • Deila ábyrgð: Leyfa öðrum að taka þátt í daglegum verkefnum og barnauppeldi ef hægt er. Það getur létt mikið á álaginu.

Taka lítil, stöðug skref

  • Setja sér lítil skref: Byrja á að taka smá skref í átt út úr kulnuninni, eins og að bæta aðeins við svefninn eða stunda reglulega hreyfingu. Smáar breytingar geta leitt til stórra umbóta með tímanum.

Það er mikilvægt að muna að bataferli úr kulnun getur tekið tíma. Að sýna ferlinu þolinmæði og leita aðstoðar þegar þörf er á getur verið lykilatriði á leiðinni að góðu jafnvægi í lífinu.

Það er nú einu sinni þannig að við erum ekki ofurmenni og getum varla haldið uppi kröfum samtímans um fullkomnun í lífi, starfi og útliti þannig að best af öllu er að finna hver er ég og fyrir hverju vill ég standa í heilbrigði en ekki til að uppfylla staðla sem eru að eyðileggja líf mitt.

Ef ég get aðstoðað þig við þín lífsins málefni þá er ég einungis einni tímapöntun í burtu og ég hvet þig sem kannast við þig í aðstæðunum hér að ofan til þess að bjóða þér aðeins upp á það besta og bæta lífsgæði þín og heilsu helst strax í dag.

Þar til næst elskurnar.

xoxo

Ykkar Linda

 

linda Baldvinsdóttir

Lífsmarkþjálfi, Samskiptaráðgjafi

linda@manngildi.is

 

 

Er lífsmarkþjálfun það sem þú þarft á að halda?

Stundum hefur mér fundist að þeir sem vilji sjá breytingu á lífi sínu haldi að það sé nóg að horfa á video, fara á helgarnámskeið eða hlusta á einn og einn fyrirlestur til að lífið stökkbreytist til hins betra, en raunin er svo sannarlega önnur.

Það er ekki spurning um það að með öllu þessu getur fólk fengið tímabundinn innblástur og hvatningu, og ég hvet þig alltaf til þess að fara á námskeið eða hlusta á góða fyrirlestra en varanlegar breytingar krefjast oft frekari stuðnings og ekki síst sjálfsaga. 

Video og fyrirlestrar geta kveikt á eldmóði okkar og við finnum fyrir góðum jákvæðum tilfinningum og svo sannarlega tökum við oft fyrstu skrefin eftir að hafa horft á eða lært aðferðir sem ýta okkur af stað. Til að varanlegur árangur geti hins vegar orðið þurfum við flest á því að halda að hafa stuðningskerfi í kringum okkur og þar kemur lífsmarkþjálfi, jafningi eða stuðningshópur sér vel.

Til að sjá lífið breytast kostar það okkur yfirleitt breytta hegðun, hugsun og eða framkvæmd, skuldbindingu, þrautsegju og stöðuga æfingu sem því miður mörg okkar hafa ekki þolinmæði í og gefumst þá upp áður en við sjáum breytinguna verða að veruleika því það tekur tíma að breyta vana okkar og hugsuninni sem er yfirleitt lykillinn að öllu ásamt því að yfirstíga á köflum erfiðar áskoranir á leiðinni.

Þegar ég fæ nýja viðskiptavini þá fer fyrsti tíminn yfirleitt í það að hlusta á hvaðan fólk er að koma og skoða hvaða markkmið, gildi og áskoranir viðkomandi stendur frammi fyrir og útfrá þeim atriðum er farið af stað í ferli sem tekur yfirleitt langan tíma. Ég segi langan tíma því að á okkar tímum viljum við að allt gerist mjög hratt (skyndibitaleiðin) en við höfum haft jafnvel áratugi að mynda venjur, samskipti og framkvæmdir og það tekur tíma að breyta þeim.

Að læra að setja markmið á öllum sviðum lífsins kostar að þú þarft að opna augun og sjá skírt fyrir þér hvernig og hvenær þú vilt sjá markmið þín verða að veruleika. Ég tek það fram að markmið geta falist í mörgu eins og því td að hætta að reykja, stofna fyrirtæki, hætta að vera meðvirkur, bæta samskipti, koma sér frá ofbeldissamböndum og svo framvegis.

Nú þegar sýnin er skír þá er hægt að fara að setja áætlun sem hentar hverjum og einum. Oft eru hindranir og áskoranir á veginum sem tefja förina að markmiðinu en þá er lífsmarkþjálfinn þinn þarna til að ýta þér aftur á rétta braut og aðstoða þig við að hrinda frá öllu því sem tefur þig.

Í lífsmarkþjálfun munt þú þróa nýja hæfni eða bæta við þá sem þegar er til staðar og þú munt læra hluti eins og tímastjórnun, samskipti, leiðtogahæfni og streitustjórnun svo eitthvað sé nefnt.

Lífsmarkþjálfinn þinn mun halda þér ábyrgum og fara reglulega yfir framvindu þína, ræða það sem gengur vel og eins það sem gengur ekki jafn vel og stilla framvinduna samkvæmt því. 

Það sem skiptir mjög miklu máli er speglun og endurgjöf, að fara yfir það sem þú hefur nú þegar lært og að styrkja jákvæðar breytingar á leiðinni ásamt því að bera kennsl á þau atriði og svæði sem bæta þarf.

Að fá persónulegan stuðning, speglun og hvatningu á leiðinni aðstoðar þig við að efla þrautsegjuna og þú færð að upplifa ánægjuna af hverjum litlum sigri sem fæst td með jákvæðum staðhæfingum, sjónrænum ímyndunum og hvatningaviðtölum frá þeim sem styðja þig.

Þú getur dvalið í trúnaði því að lífsmarkþjálfinn þinn er bundinn trúnaði við þig og öll þau verkefni sem gerð eru á milli tímanna eða í tímum eru aðeins á milli þín og hans. Að geta opnað á tilfinningar og vankanta sína í öryggi er heilandi í sjálfu sér og trúnaður er forsenda þess að hægt sé að kafa svo djúpt.

Í gegnum árin hef ég séð líf margra sem hafa verið í tímum hjá mér taka stökkbreytingum og ég hef séð sjálfstraust, sjálfsást og kjark verða til. 

Ég hef séð manneskjur sem þora að horfast í augu við þau verkefni sem þau standa frammi fyrir í lífinu og ég hef séð þau finna lausnir sem eru umbreytandi fyrir þær.

Ég hef séð manneskjur takast á við sorg, erfiðar aðstæður í hjónaböndum, uppeldi, fjölskyldumálefnum og ná tökum á líðan sinni frá kvíða og öðrum vondum tilfinningum, og ég er þakklát fyrir að hafa fengið að vera hluti af þeim breytingum sem ég hef séð hjá aðilum sem virkilega leggja sig fram við að sigra áskoranir lífsins og innra sjálfsins.

Svo ef þú stendur á stað sem þarfnast lausnar þá skaltu ekki hika við að leita þér aðstoðar og að fá lífsmarkþjálfa í lið með þér við að skapa nýtt í þínu lífi.

Ég vona að þessi litli pistill hafi sagt þér aðeins til um það hvað lífsmarkþjálfun er, og ef ég get aðstoðað þig á þinni leið þá er ég bara einu maili eða símtali í burtu frá þér :)

Þar til næst elskurnar

xoxo

Ykkar Linda

Linda Baldvinsdóttir

Lífsmarkþjálfi, samskiptaráðgjafi.

Linda@manngildi.is

 

 


Næsta síða »

Um bloggið

Linda Baldvinsdóttir

Höfundur

Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • ..._s4i6862_2
  • ...0eaf470d6_2
  • ...98009927331
  • pistill mynd
  • 15608665 10210640975833107 554134899 o

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 83
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 73
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband