31.12.2019 | 11:57
Nýtt ár - nýtt upphaf
Nú árið er liðið í aldanna skaut og aldrei það kemur til baka eða eins og stóð á jólakortinu sem dóttir mín sendi mér "Glad this fucking year is over, Merry Christmas"
Gæti ekki verið meira sammála því sem þarna stóð hvað þetta ár varðar og er afar glöð að kveðja ár sem hefur einkennst af dansi byrjana, endaloka, lífs og dauða í mínu lífi.
Árið reyndist mér erfitt á margan hátt og margt sem skildi mig eftir vonsvikna,dapra og trúlausari á mennina og eins á kerfið okkar og þjóðfélag. Líklega er það þó þannig að tannhjól tímans þarf að smyrja reglulega með blóði,svita og tárum svo að það snúist af stað inn í góða tíma og mitt hjól og þjóðarinnar allrar er vonandi orðið vel smurt fyrir glimmerstundir næsta árs.
Ég er engu að síður þakklát fyrir ýmislegt sem gerðist á árinu 2019 og líklega er ég þakklátust fyrir að árið hafi opnað augu mín fyrir mörgu sem ég gerði mér ekki grein fyrir áður, segi eins og Maya Angelou sagði, "þegar lífið er erfitt og þú er við það að bugast segðu þá takk" og ég segi bara takk fyrir mig og alla þá kennslu sem ég fékk þetta árið.
Hjarta mitt stækkaði um tvö númer þegar ég fékk tvo litla ömmustráka sem fæddust á fyrstu mánuðum ársins og fyrir þá er ég svo sannarlega þakklát. Svo er ég svo óendanlega þakklát þeim sem studdu mig það hálfa ár sem rændi mig allri orku og fyllti mig sorg. Sannkallaðir vinir sem gáfu vinnu sína og jafnvel fjármuni til að styrkja mig og létta mér þessa göngu, lögðu á sig ferðalög utan af landi til að mæta til kirkju þegar móðir mín var jarðsett, útbjuggu blómaskreytingar,veitingar og fleira. Barmafullt hjarta af þakklæti á ég til þeirra.
Börnin mín stóðu sig eins og hetjur á erfiðleikastundunum og hafa sjaldan gert mig jafn stolta vegna þess undraefnis sem þau eru gerð úr, og svo eiga þau þennan undurfagra kærleika sem þau sýndu í miklu magni, stoltmamma.is.
það kemur einhvernvegin svo innilega í ljós á svona tíma hverjir eru til staðar og hverjir láta sig hverfa þegar gleðin yfirgefur húsið,og það kemur líka vel í ljós hverjir gera bara það sem gera þarf og það segir einhver spekingurinn að sé hið fullkomna form samkenndar.
Þegar heilbrigðiskerfið brást illilega og ekki var pláss fyrir hrædda gamla dauðvona konu þar (minnir á gistihúsið í Betlehem) tóku dóttir mín og tengdasonur móður mína inn á heimili sitt og fórnuðu þannig hluta af fæðingarorlofinu sínu -þar sönnuðu þau fyrir mér mikilvægi "þorpsins" en ekki kerfisins.
Við andlát mömmu fékk ég svo nýtt og ábyrgðafullt hlutverk sem höfuð fjölskyldunnar og mun gera mitt besta til að sinna því vel.
Í dag geri ég mér betur grein fyrir því að afkomendur mínir eru samfélagið sem ég mun ætíð hafa í fyrsta sæti, enda það hlutverk sem almættið gaf mér og bað mig um að sinna af alúð. Þar á eftir koma vinirnir því að mikilvægt er að sinna þeim einnig vel.
Á þessum tímamótum lífs og dauða fann ég svo sterkt fyrir því hversu stutt er á milli heima og ég gat nánast snert á eilífðinni, skynjaði vel hvernig þessi þunna hula á milli heima varð að engu, en gerði mér á sama tíma grein fyrir því hversu dýrmæt þessi gjöf lífsins anda er, og hversu vel við ættum að huga að þeirri gjöf, (hver andardráttur er þannig til áminningar um gildi lífsins).
Þetta tímabil fékk mig einnig til að hugsa um hvað það væri sem raunverulega skipti einhverju í stóra samhenginu og fann að eins og áður verð ég að velja þar í fyrsta sæti gefandi og góð samskipti og velti því fyrir mér hvort við séum að gera okkur nægjanlega vel grein fyrir því að við erum öll eitt, þín velgengni og hamingja byggist á mér og mín á þér, eða upplifum við okkur kannski enn í dag sem aðskilin frá heildinni?
Þar held ég raunar að stóra blekkingin okkar liggi, vísindin og trúarrit segja okkur að við séum ofin úr sama efni og alheimur allur eða efnisleysinu (orku - anda). Erum semsagt eitt í einni veröld, ekkert sem getur skilið okkur frá, greinar á sama stofni og allt sem við gerum okkar minnstu bræðrum hefur sínar afleiðingar á heildina og þar með á okkur sjálf. Þetta hafa allir mestu meistarar heimsins sagt okkur frá örófi alda og flest höfum við heyrt um lögmál sáningar og uppskeru eða karmað. Hvet okkur á þessu nýja ári að hugsa svolítið um þetta.
Ég hef áður talað um að við erum ekki að gera góða hluti með upplausn fjölskyldunnar og samfélagi þar sem allir búa einir án afskipta þorpsins og ég held satt besta að segja að við þurfum jafnvel að hafa meiri áhyggjur af þeirri þróun en menguninni sem hlýst af flugferðum okkar og gætum hugað að því að hafa jafn hátt um það og loftslagsmálin.
Og ég hef einnig talað um að við ættum að lifa því lífi sem við finnum í hjarta okkar að okkur var ætlað og ættum ekki að láta stjórnsemi þeirra sem vilja hafa okkur eins og strengjabrúður í boxi hafa áhrif á þau hlutverk okkar. Hvert og eitt okkar skiptir máli og við ættum að huga að heildinni með því sem við finnum í hjarta okkar að er okkar hlutverk í lífinu, það er alltaf farsælast. Hugsum einnig betur um gamla fólkið okkar og börnin, þau þarfnast ástar, umhyggju, staðfestu, öryggis og hlutverka frá heildinni.
Ég trúi að það sé mikilvægt fyrir okkur að leika okkur og að gleðjast, því að þetta líf líður svo ógnarhratt svo sköpum glimmerstundir.
Ég trúi að það sé nauðsynlegt að tengjast náttúrunni og anda henni að sér til að skilja eðli lífsins. Að horfa á og upplifa náttúruna gefur okkur tengingu við allt sem er og hvergi hef ég betur séð mátt skilyrðislauss kærleika en þar. Allt lifir þar í jafnvægi og einingu óhæð öllu en þó svo háð öllu á sama tíma, allt hefur sitt sértaka hlutverk og þar verður td allt grænna og gróðursælla eftir erfiðleikatímabil eldgosa og flóða.
Við gætum lært ýmislegt af þeim kærleika og samstöðu sem þar er sýnileg í stað þess að eyða tíma okkar í útásetningar,aðgreiningu og stjórnsemi sem virðist vera okkur samt svo tamt að nota frekar þó að það síðan aðgreini okkur þannig að við náum ekki fram þeim málum sem við þó viljum svo gjarnan fá fram sem heild.
Núna lengist dagurinn um nokkrar mínútur frá degi til dags og við fögnum ljósinu sem færir okkur nær sumri. Gleymum ekki að við erum ljós í heiminum og þurfum að vernda það ljós og þann anda sem við fengum í vöggugjöf.
Það þýðir að við þurfum stundum að ganga í burtu frá þeim sem vilja slökkva það ljós svo vöndum val okkar á þeim sem við umgöngumst og gerum að áhrifavöldum í lífum okkar.
Heitum okkur því á þessu nýja ári að njóta þess að fá að vera hér, að elska eins og enginn sé morgundagurinn, að gefa og þiggja, að hrósa, að hlusta og þakka fyrir allt það góða sem okkur gefst, þökkum einnig fyrir lærdóm tímabilanna sem okkur finnast ekki svo góð en breyta okkur þó og þroska.
Á þessu herrans ári 2020 ætla ég að hugsa vel um það líf sem mér var gefið til anda sálar og líkama og ég ætla að elska og upplifa kærleika. Ég ætla að lifa lífinu á minn hátt en ekki láta að stjórn annarra þar. Ég ætla að blessa og þakka, færa lífinu lof fyrir hvern dag sem ég fæ og vonandi næ ég að fagna því að fylla sex áratugi hér á þessari dásamlegu jörð okkar í lok ársins.
Óska ykkur öllum farsældar,heilsu,hamingju,ástar og glimmerstunda í bunkum árið 2020 og mættu allar ykkar óskir rætast.
Hjarta mitt er barmafullt af þakklæti og kærleika til ykkar lesendur góðir. Takk fyrir samfylgd ársins 2019.
Segjum takk við árið 2020 hvað sem það kann að færa okkur,
Xoxo
Ykkar Linda
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.12.2019 | 15:00
Jólahugleiðing
Á þessum tíma árs fer hugur minn aftur í tímann og ég ylja mér við minningar frá jólum barnsæskunnar og eins þegar ég var sjálf með fjölskyldu sem ég útbjó jólin fyrir.
Aldrei hafa þó kviknað jafn margar minningar hjá mér og fyrir þessi jól og bernskan stendur mér ljóslifandi fyrir augum með öllum þeim jóladásemdum sem barnshugurinn upplifði enda eru þetta fyrstu jólin þar sem ég hef hvorki mömmu eða pabba með mér þar. Ljúfsár sorgin og söknuðurinn færir mér minningar sem ég hafði ekki hugsað um árum saman og mér þykir afar vænt um þær allar.
Baksturinn fyrir jólin er mér hugstæður því að hann gaf okkur mömmu svo mikinn tíma saman þó að mér fyndist ekki alltaf gaman að þurfa að smyrja kreminu á mömmukökurnar og draumadísirnar, merkilegt hvað þær minningar gefa mér þó mikið í dag.
Lyktin af rauðkálinu sem mamma sauð alltaf á Þorláksmessu og ég gerði síðan einnig sjálf eftir að ég stofnaði heimili, skötulyktin sem mér fannst svo hræðileg en þeim foreldrum mínum þótti nauðsynlegur þáttur jólanna. Silfurpússning, skápaþrif og önnur stærri þrif voru einnig partur af jólaundirbúningnum og í dag minnist ég þeirra með væntumþykju þó að ég hafi nú ekki alltaf verið hrifin af stússinu í mömmu fyrir þessi blessuðu jól, hélt þó síðan sjálf í þessar hefðir á mínu heimili börnunum mínum til jafnvel enn meiri ama en mér forðum.
Ég man líka eftir þessum örfáu ljósaseríum sem til voru, svolítið örðuvísi þá en í dag þar sem allt flóir í jólaljósum,og ég minnist sérlega forláta seríu sem var blómum skreytt og dugði í marga áratugi með reglulegum peruskiptingum. Eins man ég þegar ég fékk að kaupa mér mína eigin ljósaseríu í herbergið mitt, seríu sem ég átti alveg ein þegar ég var líklega tíu eða ellefu ára! - það voru ótrúleg verðmætt fyrir stelpuskottið.
Jólaskreytingarnar voru aldrei settar upp fyrr en 22 eða 23 desember og jólatréð var ekki skreytt fyrr en að öllu stússi var lokið á Þorlákinum og ég man hvað ég naut þess að skreyta það og eins alla þá pakka sem gefnir voru. Stjarnan sett síðust á toppinn á trénu og þá gátu jólin komið. Dásamlegir tímar að minnast.
Sama rútína var hjá mér þegar börnin mín ólust upp og þá var líklega enn meira stúss og enn meira um að vera, fleiri smákökusortir bakaðar og þrifin enn umfangsmeiri. þessi aðventutími og þær fallegu tilfinningar sem hann skapaði í hjarta mér eru mér þó svo ómetanlegar.Að geta sótt í þær á þessum tíma aðventunnar er svo gott, því að eins og við vitum mörg þá er þessi tími líka svo óskaplega erfiður fyrir svo allt of marga.
Þeir sem hafa misst ástvini, heilsu, atvinnu eða hafa skilið við maka sinn á árinu eða eru einir án fjölskyldu vita að þessi tími getur verið svo sársaukafullur og angurvær.
Fyrir þá sem hafa gengið í gegnum missi af öllu tagi á árinu eru jólin oft ákaflega erfið og fyrir þá sem hafa lítið á milli handanna er þessi tími einnig oft mjjög fyrirkvíðanlegur.
Við höfum farið svo yfir strikið sem ríkmannleg þjóð og kaupæðið hefur gert það að verkum að þeir sem lítið hafa finna sig svo vanmáttuga gagnvart öllum krásunum sem ætlast er til að hægt sé að veita í mat og gjöfum. Þeir vita að þeir geta með engum hætti boðið börnum sínum allar þær rándýru gjafir sem auglýstar eru af kappi á þessum árstíma og sporin eru þung að sækja sér þá hjálp sem er í boði til að hægt sé að veita þó eitthvað.
Þeir sem búa einir og hafa fáa eða enga í kringum sig eiga einnig oft erfitt á þessum tíma því að einmannaleikinn verður aldrei eins raunverulegur og á þessum dimma tíma gleðinnar og samverunnar hér á landi.
Ég hef sjálf fundið fyrir einmannaleika og sorg á þessum árstíma og finn mig stundum vanmáttuga fjárhagslega,langar svo oft að gefa meira en ég get, og í ár finn ég einnig fyrir sorg vegna missis á árinu.
Mig langar í lokin að fá deila með ykkur hvað hefur reynst mér sjálfri best á þessum árstíma þegar einmannaleikinn og aðrar ekki svo góðar tilfinningar herja á hvað mest, og langar að fá að deila þeim ráðum með ykkur ef þau gætu gagnast einhverjum á erfiðri aðventu.
Hér koma þessi ráð mín svo:
- Að fara í minningabankann og þakka fyrir það fallega sem þar má finna er svo dýrmætt, því að það er ekki sjálfsagt að eiga góðar og fallegar minningar.
- Að gera skemmtilega hluti með þeim sem okkur þykir vænt um, hluti sem kosta ekki hálfan handlegginn.
- Jólatréð á Austurvelli er alltaf þess virði að skoða og baða sig í birtu þess, að ganga niður Laugaveginn með öllum þeim asa sem þar má finna, baka smákökur og fylla húsið af kökuilmi, skreyta piparkökur og hlusta á jólalögin, fara á skauta eða baka vöfflur og búa til kakó með fjölskyldu og vinum.
- Bjóða í jólapálínuboð er alltaf gaman og gefur okkur ómetanlega samveru.
- Að föndra eitthvað skemmtilegt fyrir jólin.
- Að fara á kaffihús með vinum, tónleika og rápa í messur sem fullar eru af söng á þessum árstíma og fara svo heim og pakka inn jólagjöfum.
- Að hlusta á jólatónlist og kveikja á kertum ásamt því að hugleiða á það góða sem er í lífi okkar og heiminum öllum.
- Að húsvitja og skoða jólin hjá þeim sem í kringum okkur eru og smakka smákökurnar þeirra.
- Að senda kærleiksríkar kveðjur til fólks - jafnvel fólks sem þú þekkir lítið, við vitum aldrei hversu mikið það getur gefið þeim sem þiggur.
- Að leyfa okkur að finna í hjartanu þær fallegu tilfinningar sem fylgja jólunum og gleðjast með þeim sem glaðir eru, syrgja með syrgjendum og styðja þá sem þurfa stuðning á svo margan hátt er partur af þessum tíma og aldrei er of mikið gefið af sjálfum sér. Og svo að lokum -
- Að minnast látinna ástvina með því að eiga stund með þeim í kirkjugarðinum, helst með öllum þeim sem þeim tilheyrðu bara til að þakka fyrir þann tíma sem við fengum með þessum dýrmætu englum sem nú vaka yfir okkur.
Þetta eru örfá ráð sem gætu mögulega gert aðventuna ánægjulega þrátt fyrir erfiðar aðstæður en ekki vegna þess að aðstæðurnar séu svo glimrandi góðar.
Þau hafa gagnast mér í gegnum árin - en stundum þarf ég að hafa fyrir því að fara eftir þeim sjálf og það tekur mig smá tíma að koma mér í þennan gír, en þegar ég kemst þangað virkar þetta nægjanlega vel fyrir mig til að ég finni fyrir anda jólanna og ég vona að þessi litlu ráð geti hjálpað þér að finna jólandann þrátt fyrir en ekki vegna.
Ykkur sem eruð ein án fjölskyldu og vina hvet ég til að taka þátt í starfi stofnana sem gefa gleði og styrk þeim sem þurfa á að halda. Stofnanir eins og t.d Samhjálp, Rauði Krossinn og kirkjustarfið í hverfinu þínu þurfa liðsinnis þíns við á þessum tíma til að gleðja þá sem minna mega sín, og það er fátt sem gefur okkur meira af góðum tilfinningum en það að gefa af okkur.
Og til ykkar sem hafið misst part af ykkar lífi eða kæra ástvini á árinu sendi ég mína samkennd og hugheilar samúðarkveðjur,og bið ykkur blessunar og styrks á göngu ykkar með sorginni og öðrum þeim erfiðu tilfinningum sem þið eruð að upplifa.
Minningarnar lifa og gleðja okkur í sorginni og ef ég tala nú bara fyrir mig þá er ljúfsárt að horfa á þær góðu sem safnast hafa saman í gegnum árin og þakka fyrir þær - með því móti finn ég kærleiksríkan anda hátíðarinnar og friðinn sem sá andi gefur.
Að endingu óska ég ykkur öllum gleðilegrar jólahátíðar og bið að hátíð ljóssins færi okkur frið sinn,gleði og kærleiksríka einingu.
xoxo
Ykkar Linda
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.12.2019 | 20:58
Við erum kynslóðin sem klúðraði
Í dag ætla ég að fá að tjá mig aðeins og líklega röfla svolítið eins og mín er von og vísa. Þú þarft ekki að vera sammála mér í þessum efnum en ég held að það væri hollt fyrir okkur að skoða það góða sem gömlu leiðirnar gáfu okkur þrátt fyrir allt.
Það er nú bara þannig að á mínum frábæra aldri hef ég uppgötvað margt varðandi lífið sem mig langar að deila með ykkur, og kannski er von mín sú að ég geti haft áhrif til góðs með skrifum mínum, og kannski er það sú löngun mín að breyta heiminum í átt til vellíðunar sem fær mig til að tjá mig.
En hér kemur þetta röfl:
Lífið hefur kennt mér að það sem skiptir mestu máli hér á jörðu er kærleikurinn, vonin í erfiðum aðstæðum og trúin á að allt sé okkur mögulegt. Að hafa velvild að leiðarljósi, að styðja samferðamenn okkar á leiðinni um lífið, að eiga samhenta fjölskyldu og það að vilja öðrum að ná velgengni og árangri ásamt góðum samskiptum. Þetta er það sem ég tel geta orðið okkur mannkyni sem heild til farsældar.
Því miður finnst mér ég oft upplifa að þessum þáttum sé gefinn allt of lítill gaumur í okkar annars þokkalega ágæta þjóðfélagi og aðrir forgengilegri hlutir látnir í fyrirrúm og jafnvel stundum gert góðlátlegt grín að þeim sem láta sig varða andlega líðan og kærleiksríka nálgun lífsins.
Ég ætla að halda því hér fram að það var mín kynslóð og sú sem á undan mér var sem sundraði fjölskyldueiningunni og bjó þar með til án vitundar vonandi einmannaleika barna, einhleypra, gamalmenna og útbrunninna foreldra. Við settum gömul og góð gildi út fyrir mengið þannig að sú kynslóð sem nú vex úr grasi fær takmarkaða lífssýn og reynslu þeirra sem eldri eru og fara á mis við svo margt sem fæst með því að umgangast þá sem eldri eru í leik og störfum.
Við konurnar sem fóru af stað í kvenréttindabaráttuna sem var svo sem löngu tímabær ef við horfum til menntunar og jafnlaunastefnu leit á það sem lítils virði að ganga með og fæða börn að ég tali nú ekki um að vera vera "bara"húsmóðir" og uppalandi (sem er erfiðasta starf sem ég hef tekið að mér),og slepptu því þar með að fara fram á að það yrði metið til launa og þeirrar virðingar sem það svo sannarlega átti skilið.
Hvað fengum við svo í staðinn? Börn með allskonar kvíðatengdar greiningar frá frumbernsku, foreldra í kulnun, afa og ömmur sem hafa ekki tilgang fyrri kynslóða og kvíða því að verða einir, veikir og umhugsunarlausir í ellinni. Semsagt allar kynslóðir meira og minna einmanna kúrandi ofan í símana sína til að finna sér einhver samskipti og fyrirmyndir og því miður allt of margir sem velja svo fjarveru frá raunveruleikanum með því að mynda með sér ýmiskonar fíknir sem draga úr vanlíðaninni og deyfa.
Hinir fullorðnu og hamingjusamlega skildu, þessir sömu og ætluðu sér að finna hamingjuna þar sem fullkomleikinn hlyti að bíða þeirra eru hræddir við ástina, skuldbindinguna, og kúldrast því einir og enginn hefur tíma til að líta inn til þeirra eftir að vinnudegi lýkur. Uppkomin börnin dottin meira eða minna úr sambandi við þá vegna annríkis og skemmtana.
Ég segi bara til hamingju við! Stórkostlegur árangur græðgiskynslóðarinnar sem telur allt í merkjavörum, peningalegri velgengni, titlum og veraldarvafstri.
Við erum líka kynslóðin sem gáfum börnum okkar tvenn eða fleiri heimili og í sumum tilfellum marga foreldra, afa og ömmur, og töldum börnunum okkar trú um að það sem skipti máli væri að klifra metorðastigann og huga einungis að tengslum sem við gátum nýtt okkur við framapotið.
Við tókum í burtu samstöðu og einingu fjölskyldunnar og til hvers?
Hefur staða konunnar batnað svo mikið? Er hún að fá sömu laun, sömu tækifæri, titla og stöður og karlmenn? Ekki hef ég orðið svo mikið vör við það ef ég á að vera hreinskilin. Hins vegar hef ég séð konur sem hafa lent illilega í kulnun vegna þess að vinna hefur aukist mjög mikið hjá þeim. Þær hika margar við að taka að sér háu stöðurnar í þau fáu skipti sem þeim bjóðast þær vegna álagsins sem þær búa við á heimilinu og í vinnu og geta hreinlega ekki meir.
Ég hitti því miður allt of oft ofkeyrðar mæður (ekki bara einstæðar)sem eru að reyna að standa sig á öllum vígstöðvum en geta bara hreinlega ekki staðið undir öllum þeim hlutverkum sem þeim er úthlutað í dag, en þora ekki fyrir sitt litla líf að viðurkenna að þær séu ekki að valda fullkomnunni, og ég held satt að segja að kvennabaráttan hafi því miður haft í för með sér aukna vinnu, fleiri hlutverk með tilheyrandi álagi fyrir konur sem leitt hafi af sér streitu, kvíða og aðra fylgikvilla.
Börn dagsins í dag kvarta yfir samskiptaleysi og áhugaleysi foreldra og allt glysið, glaumurinn og photoshoppaðu samfélagsmiðlarnir eru eðli málsins samkvæmt ekki að svala þörf þeirra fyrir það sem gefur lífinu gildi sitt nema síður sé.
Hvenær ætlum við að vakna og hætta að lifa í Hollýwoodgerðri fullkomnunarmynd? hvenær mun myndast tími fyrir það fallega sem lærist og fæst með nánu sambandi foreldris, barns og stórfjölskyldunnar? Hvar eru samskiptin, matarboðin, steikin á sunnudagsmorgnum og sunnudagskaffi stórfjölskyldunnar og svo margt sem áður kenndi okkur allt um einingu, öryggi, náin og gefandi samskipti? Og hvers vegna erum við á þessum stað? Hvað varð til þess að við konur afsöluðum okkur réttinum á því að vera með börnum okkar og kenna þeim á lífið? Hvers vegna báðum við ekki um að móðurstarfið yrði metið eins og hvert annað starf? Því báðum við bara um fleiri barnaheimili, lengri skóla, frístund að skóla loknum og lengri vinnudag fyrir börnin okkar?
Ég veit að þessi orð mín munu valda smá fjaðrafoki því að ég tel að mín kynslóð og sú feminiska barátta sem þar komst í hámæli hafi gert fátt til að tryggja það að foreldrar hefðu val um menntun og starf versus rétt á launum frá þjóðfélaginu til að tryggja öryggi og tíma fyrir uppeldi barna sinna innan veggja heimilisins.
Við gleymdum því að náttúran sjálf er vitur og vissi frá upphafi að það þarf einingu og heilbrigði fjölskyldunnar ásamt nánd og kærleika til að byggja upp öruggan hamingjusaman einstakling! Einstakling sem á skjól á heimili sínu þegar hann er að taka skrefin sín í samskiptum og er að kynnast hinni spennandi en stundum grimmu veröld. Eins og þetta er í dag þurfa börnin bara að læra að bjarga sér sjálf í frumskóginum og takast á við tilfinningar sínar innan um ókunnuga aðila sem auðvitað eru þó að gera sitt besta til að barninu líði vel og reyna að styðja það á allan þann hátt sem þau geta - en þau eru ekki mamma og pabbi eða afi og amma, stórfjölskyldan né þorpið.
Ekki heyra það sem ég er ekki að segja.
Margt gott gerðist með kvennabaráttunni á sínum tíma og við værum sennilega ekki með me too umræður og fleira ef hennar hefði ekki notið við, en það gerðist líka margt sem ekki var svo gott. Það versta sem gerðist að mínu mati var að við konur litum okkur svo smáum augum að við gleymdum því að valið okkar stóð um að verja þá sérstöðu sem það gefur okkur að ganga með og fæða barn og veita þeim menntun í samskiptum. Að gefa þeim öryggi og kærleika sem enginn annar er færari um að gefa, og gera þau þannig tilbúin fyrir það líf sem bíður þeirra á fullorðinsárunum ásamt því hlutverki að erfa jörðina og stýra farsæld hennar.
Við gleymdum því einnig að þegar barn er fætt inn í þennan heim á það rétt á foreldrum sínum - ekki bara þegar um forræðisdeilur er að ræða heldur einnig þegar það er í heiminn borið. Hvers vegna tölum við aldrei um það?
Og hvers vegna upplifi ég eins og að börnin okkar hafi bara engin réttindi ófædd eða fædd, skýtur það ekki skökku við barnasáttmála og verndun barna?
Og ég spyr, hvað hefur áunnist og hvað hefur tapast? Hverjir græða og hverjir tapa á þessu tiltölulega nýja fyrirkomulagi?
Svar mitt er einfalt - það er mín skoðun að við létum frá okkur mennskuna fyrir hlaup á iðnaðarhjóli mammons og fengum í staðinn glamúr, glaum og brotinn heim.
Þar til næst elskurnar
xoxo
Ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
Markþjálfi/Samskiptaráðgjafi/TRM áfallafræði
linda@manngildi.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Linda Baldvinsdóttir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (20.8.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 44
- Frá upphafi: 10682
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 42
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar