22.12.2021 | 23:31
Gleðileg jól elskurnar
Þar sem ég sit í stofunni minni og horfi á jólatréð sem ég ætlaði varla að nenna að setja upp, þá finn ég hversu miklu máli jólin skipta þrátt fyrir Covid, Omricon eða hvað það nú er sem spillir lífinu.
Ljúfar minningar frá æskunni og jólum fortíðarinnar, ilmur af bakstri, rauðkálsgerð og hangikjöti kveikir á einhverri sérstakri tilfinningu í hjarta mér. Tilfinningu sem ég vil helst líkja við tengingu við Guð eða kannski bara allt sem er, hrein og tær kærleikstifinning sem breiðir úr sér og vex.
Ég veit að víruskvikindið er búið að valda okkur erfiðleikum annað árið í röð og geðheilsa margra er að versna til muna. Og líklega er alls ekki komið í ljós hversu mikill sá skaði er um allan heim og þar erum við ekki undanskilin þrátt fyrir ágætis gengi okkar miðað við margar aðrar þjóðir.
Þrátt fyrir allt lífsins amstur þá samt koma jólin.
Og hvernig sem andlega ástandið er hjá okkur og kannski einmannaleikinn sérstaklega sár á þessum árstíma, sorgin yfir missi ástvina okkar ásamt viðkvæmni okkar vegna gamalla og góðra minninga fær einnig sína vængi, þá held ég að við flest finnum fyrir þessum anda jólanna djúpt inni í hjarta okkar og vonin fæðist fram að nýju með hækkandi sól. Lítil ljóstýra sem kviknar í andanum og boðar okkur eitthvað gott, eitthvað betra - og kannski verður næsta ár svo miklu betra og fullt af hamingju og jafnvel veirulaust.
Þessi von er afl sem við skulum ekki vanmeta, því að hún er aflið sem fær okkur til að rísa á fætur og tækla daginn þrátt fyrir áskoranir og sorgir lífsins.
Vonin er ljósið sem fæðir fram hugmyndir og lausnir sem myrkrið fær ekki slökkt, og kannski er það engin tilviljun að jólastjarnan bjarta eða Betlehemsstjarnan sé táknmynd jólanna. Hún boðar okkur birtu, frelsi og von og er oft nefnd vonarstjarnan.
Tökum á móti því ljósi sem stjarnan boðar okkur og fæðumst til nýrrar vonar og umföðmum mátt kærleikans á þessum fallega tíma sem færir okkur nær hvort öðru hvað sem öllum vírusum líður og þeirri vanlíðan sem óöryggið færir inn í okkar daglega líf á þessum skrýtnu tímum.
Eigið kærleiksrík gleðileg jól elskurnar og megi friður hátíðarinnar kveikja ljós í ykkar hjörtum og efla von ykkar um farsælt komandi ár. Mætti það verða hlutskipti okkar allra að eiga gleðilegt veirulaust ár 2022.
Jóla og nýjárs kærleikskveðja,
xoxo
ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
Lifecoach, samskiptaráðgjafi, TRM áfallaþrautsegju þjálfi.
linda@manngildi.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.12.2021 | 16:54
Fullorðnir taka einnig líf sitt
Úfff, ég fékk vondar fréttir um daginn og ekki í fyrsta sinn sem ég fæ fréttir af þessum toga. Kannski er það samt ekki svo óskiljanlegar þegar við skoðum hvað er að gerast í okkar fyrirmyndar þjóðfélagi og kannski víða um hinn vestræna heim.
Ég hef stundum skrifað um þetta fyrirmyndarþjóðfélag áður og ætla að halda því áfram svo lengi sem einhver nennir að lesa párið mitt. En að fá fréttir af því að einhver sem ég þekki sé svo einmanna og út í horni að honum langi ekki til að lifa lengur snertir við samkennd minni.
Í þessum pistli ætla ég að fjalla um þá sem búa einir og komnir eru yfir miðjan aldur hvort sem það er vegna þess að þeir fundu ekki rétt viðhengi eða vegna skilnaðar/ missis maka.
Á aðventunni fer þeim fjölgandi sem finna fyrir einmannaleika og sorg og aldrei er eins mikilvægt að standa vörð um þá sem við vitum að þannig er um statt.
Við lifum í ungdóms og para-þjóðfélagi þar sem að gert er ráð fyrir því að allir eigi vini og fjölskyldu til að verja tíma sínum með þegar frídagar eru, en því fer fjarri að þannig sé það hjá öllum og þeir eru margir sem sitja einir á jólum og áramótum.
Í okkar fyrirmyndarþjóðfélagi er það sorgleg staðreynd að margir af þeim sem komnir eru af léttasta skeiði er orðið slétt sama um líf sitt og þeir finna lítinn tilgang með veru sinni hér vegna einmannaleika og fjöldi einmanna fólks í heiminum öllum hefur margfaldast á liðnum áratugum .
Við gerum okkur kannski ekki grein fyrir því að þeir sem einmanna eru láta dagana sína líða við vinnu (þeir sem eru svo heppnir að einhver vilji hafa þá í vinnu eftir fimmtugt) og um helgar detta þeir bara í það eða hamast upp um fjöll og firnindi til að gleyma því að tilvera þeirra er snauð af því sem við þráum flest eða samveru við annað fólk.
Að lokum gefast þessir aðilar upp og sjá ekki aðra leið en að drekka til að gleyma eða gleypa of mikið af svefntöflum til að sofa þetta líf af sér.
Allt of algengt - en merkilegt nokk þá man ég ekki eftir því að um þetta sé mikið talað.
Við heyrum af sjálfsvígum ungra karlmanna sem eru í tilvistarkreppu, en við heyrum ekki um eldri borgara sem finna ekki tilgang með lífi sínu en reyna þó að láta eins og ekkert sé og fáir sem sjá að þeir eru bara ekki að meika lífið og tilveruna.
Þeir eru fráskildir, misskildir einmanna og jafnvel eignalitlir. Þeir hafa gefist upp á makaleitinni og sætta sig við að þeir verði einir ævina á enda, sætta sig við að sjónvarpið, samfélagsmiðlarnir og síminn verði aðal félagsskapurinn þeirra.
Á þessum miðlum virðist allt svo glansandi flott og það veldur þeim aðeins meiri vanlíðan að sjá allt það fullkomna sem þar sést.
Börnin þeirra hringja ekki vegna þess að það er svo mikið að gera í lífsbaráttunni og þau koma ekki nema boðin á jólum og páskum. (Stundum hefur jafnvel gleymist að bjóða foreldrunum í mat á jólunum -já það gerist!)
Veislurnar þar sem allir sitja paraðir eins í brúðkaupum og öðrum stórveislum verða að kvöl og pínu hjá mörgum þeirra sem einir eru og þeim finnst eins og þeim hafi mistekist að uppfylla kröfur samfélagsins með því að hafa ekki viðhengi til að skreyta sig með.
Í matarklúbbunum eru þeir ekki velkomin einir því að þeir gætu krækt í maka einhvers, í paraferðalögum eru þeir ekki gjaldgengir í mörgum tilfellum(ég er reyndar svo heppið stelpuskott að ég á vini sem hugsa ekki svona)og það er margt annað sem þeim er haldið fyrir utan með.
Allt þetta verður til þess að einstaklingar finna sig ekki tilheyra í þessu normal samfélagi og þeir finna sig ekki hafa tilgangi að gegna sem er er frumþörf allra manna hvar sem þeir búa á jarðarkringlunni, og þegar þannig er komið þá er lífið orðið harla lítils virði.
Það er nefnilega þannig að það eru þrír þættir sem eru taldir skapa hamingju okkar, en þeir þættir eru að tilheyra, vera elskuð og fá að reyna á vitsmuni okkar og getu.
En gleymum því að það sé hægt að tilheyra þegar þú ert kominn yfir miðjan aldur í mörgum tilfellum!
Þú ert hreinlega strikaður út úr samfélagi manna löngu áður en þú kemst á ellilífeyrinn og ekki er litið á umsóknirnar þegar sótt er um starf óháð menntun. Það tryggir vissan ósýnileika í samfélaginu þar sem það þarf að hugsa um hverja krónu sem kemur í budduna og þá er lítill afgangur til að stunda áhugamál eða annað sem gefur sýnileika og reisn.
Og hver mun svosem sakna þín ef þú gleypir bara svolítið of mikið af pillum og kemst upp að gullna hliðinu þar sem sælan býr?
Eða verður þér kannski ekki heldur hleypt þar inn vegna þess að þú átt ekki maka eða ert kominn yfir miðjan aldur? Hver veit - ég veit hinsvegar að þeir sem komnir eru yfir miðjan aldur eiga erfitt uppdráttar á vinnumarkaði, makamarkaði og eru heppnir ef þeir fá símtal um helgar, svo til hvers að lifa ef engin er til að vitna um líf þitt og taka þátt í því?
Aldursfordómar eru staðreynd og þeir eru ekkert betri en aðrir fordómar og kannski vantar mee-too byltingu þeirra sem gerðu þetta þjóðfélag ríkt en fá ekki að njóta afrakstursins og fá ekki að starfa eða njóta tilgangs en lifa við hálfgert einelti einhliða staðnaðs menntasamfélags og ungdómsupphafningar.
Opnum augu okkar elskurnar, það eru einstaklingar sem þjást sökum þess að þeir fá ekki að tilheyra ásamt því að fá að deila því sem lífið hefur kennt þeim (vantar samfélag þorpsins), og allt of margir af þeim þjást með brosi á vör en þrá ekkert heitara en að þessu fari að ljúka hérna megin því að þeir skipta ekki máli lengur!
Ekki gera ekki neitt lesandi góður, þetta er mál okkar allra!
Splæstu í símtal eða borðhald núna á aðventunni og láttu þá sem eru einir og einmanna finna að líf þeirra sé ekki til einskis og að þeir tilheyri ennþá samfélagi manna. Virtu reynslu þeirra og leyfðu þeim að finna að reynsla þeirra skiptir máli. Þeir eiga ekki að þurfa að finna tugi áhugamála til að fylla tómið í hjartanu en ættu hinsvegar að upplifa samkennd okkar, samfélag við afkomendur sína og vera gjaldgengir í samfélagi manna.
Fullorðnir eru líka fórnarlömb sjálfsvíga, og þannig má það ekki vera í siðmenntuðu þjóðfélagi!
Sýnum virðingu þeim sem gáfu okkur ríkt þjóðfélag og gáfu okkur einnig lífið!
(Og kannski er þjóðfélagið orðið einum of ríkt ef við höfum gleymt því sem raunverulegu máli skiptir, eða þorpið sem þarf til að okkur geti liðið vel!)
gleðilega aðventu elskurnar,
xoxo
Ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
Lifecoach, Samskiptaráðgjafi, Pararáðgjafi, TRM áfallaþjálfun
linda@manngildi.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Linda Baldvinsdóttir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (28.7.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar