17.2.2020 | 21:20
Ó þú sára höfnun
Að finna sig ekki viðurkenndan í samfélaginu eða þeirra sem ættu að elska mann mest sker hjartað á þann hátt sem ekkert annað getur gert.
Að finna að við erum ekki nægjanlega góð eða merkileg fyrir þá sem við afhendum hjarta okkar á silfurfati er sárt, og við finnum hvernig hjarta okkar merst við flóðbylgju höfnunarinnar.
Höfnunin getur komið frá hverjum sem er, samfélaginu, vinnustaðnum, fjölskyldu, vinum og maka svo fátt eitt sé nefnt, og hvergi er sárara að fá höfnunina en frá þeim sem við bindumst kærleiksböndum með einum eða öðrum hætti.
Þeir sem fundu fyrir höfnun eða voru ekki vissir um sinn sess á unga aldri eru líklega allt sitt líf að leita samþykkis þeirra sem þeir tengjast í lífinu. Við hverja óhjákvæmilega höfnun sem þeir mæta á lífsins leið harðnar líklega hjarta þeirra eða særist meir og meir eða þar til að þeir gefa ekki lengur færi á því að láta særa sig aftur.
Og þá eru þeir komnir á þann stað að hafna þörf sinni fyrir kærleika og umhyggju.
Það er mjög algengt hjá okkur sem ein hafa verið í einhvern tíma að hafa gengið í gegnum nokkrar hafnanir frá hinu kyninu. Hafnanir sem hafa gert það að verkum að sum okkar hafa bara hætt að taka áhættuna á því að elska, og ég held að oft sé það þessi innri ótti við höfnunina sem ráði þar mestu.
Við finnum okkur nefnilega margar flóttaleiðir til að forðast það að líða illa í hjarta okkar.
- Aðal flóttaleið okkar í svona aðstæðum og öllum öðrum samskiptum er líklega sú að gefa ekki færi á sér og hætta ekki á höfnunina sem gæti orðið að staðreynd við það eitt að tengjast öðrum aðila á nánum grunni. Því erum við yfirleitt fljót að taka til fótanna þegar okkur finnst samböndin vera orðin of náin.
- Önnur flóttaleið sem líklegt er að við nýtum okkur er að loka bara hjarta okkar og hleypa engum þar inn, herðast og verða bitur.
Báðar þessar aðferðir eru alveg glataðar og skerða lífsgæði okkar til muna!
- Í fyrsta lagi þá er það einfaldlega þannig að lífið býður ekki uppá það að allir vilji okkur eða að öllum líki vel við okkur.
Við fáum höfnun - ekkert við því að gera og það segir ekkert um okkur og við ættum aldrei að láta það skilgreina okkur með nokkrum hætti. Sem dæmi skerðir það ekki fegurð né mannkosti Brad Pitt þó að ég veldi frekar að fara á deit með George Clooney en honum! Hann er kannski einfaldlega bara ekki mín týpa hann Brad!
- Í öðru lagi er það þannig að Þegar við erum í leit að nánum samböndum er það nokkuð ljóst að við þurfum að kyssa nokkuð marga froska áður en við finnum prinsinn eða prinsessuna. Erum við tilbúin til þess að láta nokkrar hafnanir eða froska sem neituðu að verða að prinsum/prinsessum eyðileggja leit okkar að hamingjustundum lífsins í fylgd með réttum aðila? -Aðila sem ber virðingu,kærleika og ást til okkar? Erum við tilbúin að vera ein og yfirgefin um alla tíð vegna nokkurra einstaklinga sem voru ekki að sjá að værum að passa þeim?
Ef ég tek dæmi af öðrum vettvangi en ástarmálunum þá væri ég hrædd um að heimurinn hefði orðið fátækari ef þeir sem hafa gefið okkur magnaðar sögur og upplifanir hefðu gefist upp á leiðinni vegna hafnana samfélagsins, samstarfsmanna og vina.
- Vitið þið hversu margir bókaútgefendur höfnuðu sögunni um Harry Potter? Nei þeir voru hvorki fleiri né færri en 12 sem höfðu ekki áhuga á þessari ævintýralegu sögu um ungan galdrastrák þar til að einhver útgefandinn sá eitthvað sem var þess vert að gefa út og allir vita í dag að sú saga fór sigurför um allan heim og skilað ófáum aurum til skapara síns.
- KFC hefði ekki orðið að veruleika ef Colonel Sanders hefði gefist upp á því að koma uppskriftinni sinni á framfæri en hann ferðaðist um öll Bandaríkin til að skapa sér tækifæri með þessari einu uppskrift, og við vitum flest hvernig sú uppskrift hefur glatt marga maga um víða veröld, þar þurfti þrautsegju og ákveðni fullorðins manns sem neitaði að gefast upp.
- Charles Darwin var orðinn fimmtugur þegar hann loksins fékk viðurkenningu á sínum störfum og kenningum og mér þætti reyndar gaman að vita hversu margar hafnanir hann fékk á leið sinni og hversu margir töldu hann vitfirrtan.
Svona gæti ég haldið áfram að telja upp aðila sem stóðu upp aftur og aftur þrátt fyrir hafnanir og náðu að lokum árangri.
Þannig að við skulum ekki gefast upp og ekki láta nokkrar hafnanir á leiðinni skilgreina okkur sem persónur eða gerendur í lífinu.
Ég veit að þegar ég hafna þá hafna ég vegna þess að manneskjan, verkefnið, starfið einfaldlega passar mér ekki og segir ekkert annað um það en það að þetta hentar ekki lífi mínu og lífsmynstri - punktur.
Þó að þetta hljómi allt svo einfalt þýðir það ekki að okkur geti ekki liðið illa ef okkur er hafnað af einni eða annarri ástæðu. Við erum víst mannleg og við viljum ekki fá höfnunina því að hún fær okkur stundum til að efast um verðleika okkar, og hver vill þurfa að efast um þá?
Ég veit virði mitt í dag og veit að ég á aðeins skilið það allra besta og ekkert minna en það. Ef mér verður hafnað þá var þessum aðila, vinnustað eða vinskap ekki ætlaður staður í mínu lífi - en ég held hinsvegar göngunni áfram og skapa mér ný tækifæri.
Því að eins og ég held og trúi þá koma aðilar/aðstæður inn í líf okkar með ákveðnum tilgangi fyrir líf okkar (Líka þeir sem hafna okkur). Sumir færa okkur að gjöf erfiða en góða kennslu, aðrir stoppa stutt við og skilja mismikinn lærdóm eftir, og svo eru það demantarnir sem eru með okkur sama hvað á gengur - í gegnum súrt og sætt kenna þeir okkur allt um það góða og göfuga sem finna má í þessu lífi.
Þannig að þökkum fyrir þá sem höfnuðu okkur elskurnar, þeir komu örugglega með dýrmætustu kennsluna og sýndu okkur óöryggi okkar og kenndu okkur fleira gagnlegt sem við þurftum að læra, breyta og bæta.
Munum bara að loka aldrei hjarta okkar - það er einfaldlega ekki í boði að mínu mati ef við viljum eiga farsælt og gjöfult líf.
Því að það sem gefur lífinu gildi sitt er einmitt það að gefa og þiggja ást, vináttu og öll þau kærleiksríku samskipti sem okkur bjóðast á hverjum tíma í lífi okkar og er það sem skapar minningar til að ylja sér við.
Og ég get lofað ykkur því að Þetta gerist ekki í lokuðu hjarta krakkar mínir, heldur í galopnu og tilbúnu hjarta sem er til í að láta streyma frá sér allt það fallega sem þar býr.
Fátt er það sem ég get skilgreint sem meiri fátækt en þá að glata eiginleikanum til þess að geta sýnt það sem býr innst í verund okkar og að fá ekki upplifað gleðina sem fæst með því að gera sig berskjaldaðan og einfaldlega að elska af öllu hjarta.
Elskum, gefum og njótum alla daga í gleði og þakklæti fyrir þá sem ekki höfnuðu okkur og eru til staðar, og ég segi nú bara að lokum eins og hún Oprah vinkona mín.
Ég vil ekki lengur einhvern sem ekki vill mig.
Það sem mér er ætlað í ástum, vináttu og störfum mun koma til mín á réttum tíma og á réttri stundu og ég mun kannast við það í hjarta mínu þegar það birtist.
Eins og ætíð er ég bara einni tímapöntun í burtu ef þú þarft aðstoð mína í lífsins verkefnum.
xoxo
Ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
Samskiptaráðgjafi/Markþjálfi/TRM áfallafræði
linda@manngildi.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.2.2020 | 13:34
Ertu meðvirkur í sambandinu þínu?
Ég veit fátt verra en meðvirkni innan parasambanda og kannski í öllum samskiptum manna á milli. Því ákvað ég að setja niður nokkra punkta sem ég hef verið minnt á og hef upplifað sjálf í mínu meðvirknibrölti í gegnum tíðina og ákvað að safna saman nokkrum punktum úr ýmsum áttum sem hjálpuðu mér á sínum tíma við að komast frá þeim stað. Það eru mun fleiri atriði sem hægt væri að tína til, en ég ætla að láta þessi örfáu atriði duga að þessu sinni.
Þú gætir auðveldlega verið meðvirkur í sambandinu þínu og verið í óheilbrigðum samskiptum innan þess ef þú:
- Ert óhamingjusamur í sambandinu en hræðist hinn valkostinn sem er að fara út úr sambandinu og hefja nýtt líf.
- Upplifir þig sífellt vera að ganga á eggjaskurni til að styggja ekki maka þinn.
- Vanrækir þínar eigin þarfir fyrir þeirra þarfir.
- Vanrækir vini þína og fjölskyldu til að geðjast maka þínum.
- Sækist eftir samþykki maka þíns.
- Gagnrýnir þig í gegnum linsu makans og hunsar þitt eigið innsæi.
- Fórnar miklu til að geðjast maka þínum án þess að það sé nokkuð metið né endurgoldið.
- Kýst frekar að búa við þetta ófremdarástand í stað þess að vera einn.
- Bítur í tungu þína og bælir niður þínar eigin tilfinningar (veist kannski ekki heldur hvernig þér líður - þekkir ekki eigin tilfinningar) til þess eins að halda friðinn.
- Finnur þig ábyrgan fyrir óæskilegri hegðun maka þíns og tekur jafnvel á þig sök vegna einhvers sem makinn gerir af sér.
- Ferð í vörn þegar aðrir tala um það sem er að gerast í sambandinu þínu.
- Reynir að bjarga makanum frá sjálfum sér.
- Finnur til samviskubits þegar þú stendur upp fyrir þér og þínum.
- Heldur að þú eigir þessa meðferð skilið (jafnvel vegna fyrri mistaka í lífinu)
- Trúir að enginn annar/önnur vilji þig.
- Þegar þú lætur blekkjast af samviskubitinu sem sett er á þig þegar maki þinn segir við þig að hann geti ekki lifað án þín, þannig að þú kemur þér ekki út úr sambandinu. (ofbeldishringurinn í sumum tilfellum).
- Þegar þú rökræðir við manneskju sem er ýmist í hlutverki Dr Jekyll eða Mr Hyde en veist að það mun ekki þýða vegna þess að það gilda engin venjuleg rök þar.
- Þegar þú veist að þú munt ekki fá lagfæringar á þeim atriðum sem þú sækist eftir vegna þess að það var aldrei inn í mynd hins aðilans sem þó telur þér trú um að svo sé á meðan verið er að hala þér aftur inn í sambandið þegar þú vilt út.
- Þú lendir á einum af 4 hestamönnum Gottmans eða útásetningum, fyrirlitningu, vörn og steinveggjum/þögn, og þú lætur það viðgangast.
- Þegar þú setur upp þau mörk sem þú vilt fyrir þitt líf en stendur ekki við þau.
Þetta eru örfá af mörgum atriðum sem geta bent í áttina til meðvirkni þinnar innan sambands og samskipta, og ef þú finnur að þessi atriði eiga við þig taktu þau þá alvarlega og fáðu aðstoð við að vinna á þeim.
Og að lokum gildir gamla máltækið alltaf vel sem segir betra er autt rúm en illa skipað
Meðvirkni er dauðans alvara og Lífið er allt of stutt til að verja því með þeim sem bera ekki virðingu fyrir þér eða koma ekki vel fram. Yfirgefðu slíkar aðstæður því það opnast alltaf aðrar dyr, en passaðu uppá að þær dyr innihaldi það sem þú vilt fá inn í líf þitt.
Og ef þú þarft á minni aðstoð að við að takast á við þín lífsins málefni og kannski meðvirkni þá er ég aðeins einni tímapöntun í burtu eins og alltaf.
Þar til næst elskurnar,
xoxo
ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
Markþjálfi/Samskiptaráðgjafi/TRM áfallafræði
linda@manngildi.is
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Linda Baldvinsdóttir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (17.8.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 96
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 91
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar