29.3.2015 | 12:49
Hugleiðingar Lindu: Sunnudagspæling
Ég sit hér uppi í rúmi og við hlið mér er eitt af mínum yndum, Teddinn minn.
Eitt af þremur barnabörnum sem Guð gaf mér og ég elska hvert og eitt þeirra af öllu hjarta mínu. Kraftaverk eru þau hvert og eitt. Dýrmæt og einstök.
En þar sem ömmustrákurinn minn liggur við hlið mér verður mér hugsað til þess hversu breyttir tímarnir eru í dag. Fjölskylduböndin eru á undanhaldi og lítill tími er til að sinna því sem kannski skiptir mestu máli þegar allt kemur til alls. Ég finn hvernig tárin ætla að brjótast fram þegar ég hugsa um hverju við erum að missa af.
Ömmur og afar dagsins í dag eru oft svo hrikalega upptekin við vinnu, félagslíf og fleira,(þar er ég engin undantekning) að lítill afgangstími er fyrir fjölskylduna. Börnin oftast farin að heiman, vinahópurinn mikilvægur hjá þeim sem engan maka eiga amk, og helmingi erfiðara er að sjá sér fyrir nauðþurftum en oft áður.
Fjölskylduböndin hafa víða veikst. Minna er um gæðastundir.
Ekki eru foreldrarnir í betri málum en ömmur og afar þessa lands hvað þetta varðar. Þeir eru á fullu alla daga, koma dauðþreyttir hein eftir vinnu og eða nám. Lítill tími til heimsókna, kaffiboða, matarboða, spilakvölda og svo fr.
Afleiðingin af þessum önnum öllum er sú að það er oftast sest fyrir framan sjónvarpið, tölvuna og eða símana þegar heim er komið. Dottið inn í heim óraunveruleikans, doðans.
En það er svo ótal margt sem við glötum þegar við gleymum að sinna hvert öðru, og það getum við ekki fengið til baka. Þetta lífsmunstur mun ekki veita okkar hamingju þegar til lengri tíma er litið. Miklu frekar að við fyllumst sorg yfir glötuðu tækifærunum til að búa til fallegar og góðar minningar.
Í dag eru mjög margir einmanna, afskiptir og jafnvel svo afskiptir að það uppgötvast ekki fyrr en eftir einhvern tíma ef þeir deyja Drottni sínum.
Sorglegt...
En getum við breytt þessu? Já, að mínu mati er það auðvelt ef við bara viljum hafa það auðvelt. Finnum gömlu göturnar, hendum ekki því gamla og góða fyrir það sem minna máli skiptir.
Í stað þess að kveikja á sjónvarpinu og eða tölvunni þegar við komum heim, tölum þá saman. Spilum, föndrum, eldum saman, hringjum í ættingja okkar eða vini.
Sýnum þeim sem okkur þykir vænt um athygli og umhyggju. Lærum að þekkja hvert annað.
Eigum gæðastundir sem gefa lífinu gleði, samskipti sem sýna að okkur þyki vænt um hvert annað. Og síðast en ekki síst, hlustum á væntingar, vonir og drauma þeirra sem í kærleikshring okkar eru.
Elskum, önnumst, hlustum.
Eigið góðan og fallegan sunnudag í faðmi þeirra sem ykkur þykir vænt um elskurnar.
Þar til næst.
xoxo
Ykkar Linda
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.3.2015 | 00:50
Hugleiðingar Lindu: Er öllu lokið eftir 45 ára aldurinn?
Ég las nú nýverið grein hér á mbl um rannsókn sem gerð var um atvinnumöguleika þeirra sem voru komnir yfir fertugt að mig minnir.
Út úr þeirri rannsókn kom að konur ættu helst að sækja um bætur eftir fjörutíu og fimm ára aldurinn, þar sem þær væru ekki teknar gildar á vinnumarkaðnum. Karlarnir áttu víst aðeins meiri möguleika þar, eða til 55 ára aldurs!
En ég hef ekki nokkra trú á því að við hér á landi séum á sama stað með þetta og nágrannar okkar í UK. (skýrsla þessi var gerð á vegum eftirlauna -og vinnumáladeildar breska ríkisins)
Í skýrslunni kom fram að fjölmiðlar eiga stóran þátt í því að búa til þetta aldurseinelti, og það þykir mér afar leitt að heyra. Ef einhverjir þurfa á fullþroskuðum viskufullum einstaklingum að halda, þá eru það einmitt fjölmiðlar á þessum síðustu og bestu/verstu tímum.
Ég bara fann hvernig ég gerði uppreisn í huga mér þegar ég las þessa grein, og réttlát reiðin (að mér fannst) tók öll völd.
Síðan kom hugsunin, "ekki nema von að allt sé á heljarþröm í heiminum"!
Því að það er fyrst á þessu aldursskeiði sem bæði kynin eru komin með ákveðinn þroska. Þroska og ákveðna þekkingu á hinum ýmsu mannlegu þáttum sem gagnast vel þegar stórar og merkilegar ákvarðanir eru teknar.
Hvatvísi sú og það netta kæruleysi sem einkenndi okkur flest fram að fertugu er á hröðu undanhaldi, og við hefur nú tekið yfirveguð ábyrgðarkennd í flestum tilfellum.
Eins er fólk yfir fjörutíu og fimm , að ég tali nú ekki yfir fimmtugu, yfirleitt bestu starfskraftarnir.
Þeir fimmtugu mæta oftast mjög vel til vinnu, börnin ekki fyrirstaða, enda flest farin að heiman. Og svo eru þeir yfirleitt á besta hugsanlega sköpunartímabili lífs síns.
Ég tala nú bara fyrir sjálfa mig þegar ég segi að það var ekki fyrr en eftir að ég varð fimmtug sem ég fór að blómstra.
Hef gert meira á þessum tæpum fimm árum sem síðan hafa liðið en öll fimmtíu árin þar á undan.
Ég veit hver ég er í dag, hvert ég stefni, hvað ég vill í lífinu og veit að lífið er ekki svona alvarlegt eins og ég hélt að það væri. Er nákvæmlega sama hvað fólki finnst um minn lífsstíl, er nokk sama um fræga fólkið, en er forvitin um allt og ekkert sem viðkemur lífinu sjálfu, sköpuninni og dauðanum.
Kynni mér vel málavexti áður en ég felli dóma þegar kjaftsögurnar koma inn á borð til mín (og finnst ég bara mjög sjaldan þurfa að fella dóma, á nóg með mig og mitt líf) Veit að við erum öll hér á okkar eigin ferðalagi og ekkert ferðalag er eins.
Vona svo að þessi heimur verði kannski örlítið betri vegna veru minnar hér, þ.e. ef ég vanda mig vel.
Geri mér samt á sama tíma vel grein fyrir því að ég er bara manneskja sem á eftir að gera helling af misgáfuðum vitleysum. Næ reyndar líklega aldrei að verða fullkomin þrátt fyrir mikinn og einbeittan vilja til þess.
Ég geri mér grein fyrir því að það mikilvægasta í lífinu er að við séum samstíga sem mannkyn á ferðalaginu. Geri mér líka grein fyrir því að við ættum að vinna saman í heilbrigði, kærleika, virðingu, umburðalyndi og góðum samskiptum. Og að við ættum að gera okkar besta hverju sinni svo að enginn skaðist af veru okkar hér.
Og við þurfum að skilja að það sem við gerum okkar minnsta bróður erum við að gera okkur sjálfum.
Erfið ganga, en þó svo létt ef við bara beitum visku okkar inn í aðstæður.
En það er nú þannig með viskuna að hún kemur í allt of fáum tilfellum af miklum krafti fyrr en eftir fertugt, því að viskan er ekkert annað en samansafn af lexíum þeim sem við getum einungis fengið í gegnum reynslu og hita lífsins (kolamolinn verður ekki að demanti nema vegna mikils þrýstings í langan tíma).
Og ég neita að trúa því að atvinnurekendur Íslands séu á sama stað og nágrannar okkar í Bretlandi hvað varðar ráðningu, eða ekki ráðningu á þessu flotta viskumikla fólki. Er alveg viss um að þeir gera sér grein fyrir því að við sem erum komin yfir hálfa öld í aldri, erum yfirleitt viskumiklir topp starfskraftar sem enginn ætti að láta framhjá sér fara.
Og í raun ef eitthvað er, bara eins og gott rauðvín...verðum bara betri með hverju reynsluárinu sem líður.
Usss...45 hvað...Lífið er rétt að byrja hér!
Ég ætla bara rétt að vona að ég sé rétt að byrja starfsferilinn minn amk og verði ekki fyrir aldurseinelti því sem viðgengst í Bretlandi!
Stefni bara áfram á að verða komin á toppinn með alla mína starfstengdu drauma uppfyllta þegar eftirlaunaaldurinn skellur á. (eftir svona ca 20 ár)
Þannig að ef þú atvinnurekandi góður vilt fá góðan starskraft, sendu mér þá bara línu. Ég skoða vel öll tilboð sem gætu gefið lífi mínu gleði, spennu og nýja skemmtilega hluti til að kljást við, og get bent þér á nokkra hæfileikaríka starfskrafta á mínum aldri sem að þú yrðir ekki svikinn af að fá til liðs við þitt fyrirtæki
Þar til næst elskurnar,
xoxo
Ykkar Linda
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.3.2015 | 23:24
Hugleiðingar Lindu: Gallar okkar og kostir
Að undanförnu hef ég verið að skoða þá lesti sem mest áberandi eru í fari okkar mannanna og eins dyggðirnar sem prýða okkur, og eru svo miklu skemmtilegra umfjöllunarefni.
Mér sýnist á öllu að það sé margt sem ég, og líklega við flest eigum eftir að sniðla af okkur. En það þurfum við líklega að gera til að ná fullkomnum friði og sátt við okkur sjálf.
Það er stundum talað um hinar "sjö dauðasyndir" sem Marteinn Lúther taldi vera birtingmyndir lasta okkar, en þær eru að hans mati, hroki, öfund, reiði, leti, ágirnd, ofát og munúðlífi.
En á móti voru "höfðudyggðir mannsins" einnig sjö talsins eða viska, hófstilling, hugrekki, réttlæti, von, trú og kærleikur.
Til gamans má geta að árið 2000 gerði Gallup könnun á því hvað Íslendingum þyki vænst um í eigin fari og annarra. Í Tímariti Máls og menningar (2. tbl. 2000) eru niðurstöður hennar túlkaðar svo að nýju íslensku höfuðdyggðirnar séu: Hreinskilni, dugnaður, heilsa, heiðarleiki, jákvæðni, traust, fjölskyldu- og vináttubönd.
Þegar við sjáum upptalninguna á þessum göllum og kostum, sýnist mér að þeir lestir sem taldir eru upp séu þeir sem varna okkur helst frá góðu og gjöfulu lífi.
Hrokafull manneskja á mjög erfitt í samskiptum og getur í raun aldrei byggt upp falleg samskipti í kringum sig vegna þess að skoðanir og gildi annarra skipta hrokann litlu máli.
Öfundin á erfitt með að samgleðjast velgengni annarra, og étur okkur smá saman upp með gremjunni og reiðinni sem fylgir henni. Það eyðileggur síðan að við getum átt heilbrigð og gjöful samskipti við þá sem við öfundumst útí.
Reiðin étur okkur líka upp, og hatursfull manneskja á hvorki til frið við sjálfa sig né samferðamenn sína, og finnur seint leið fyrirgefningarinnar sem nauðsynleg er til að eiga frið í sálinni.
Letin er afar eyðileggjandi afl og gerir það líklega að verkum að lífsins veraldlegu gæði öðlumst við ekki. En það versta við letina er að við fáum sjaldan að finna fyrir sigurtilfinningunni sem fylgir dugnaðinum og því að sigra áskoranir lífsins. Tap á sjálfsmynd fylgir oft, ásamt sjúkdómum eins og kvíða og þunglyndi.
Ágirndin í fjármuni hefur oft gert menn að öpumn eins og máltækið segir, og ég vil bæta við að hún hefur margsinnis eyðilagt fjölskyldur, samskipti og sálarfrið þess sem haldinn er ágirnd þessari og öðrum ágirndum.
Öll vitum við hvað ofátið hefur í för með sér, og við pössum bara einfaldlega ekki í kjólinn fyrir jólin :) En alvarlegri birtingamynd ofátsins er léleg heilsa og ótímabær dauði.
Munúðarlífið getur svo víst kostað okkur ýmislegt, og margir hafa þurft að leita sér lækninga og leiða til að koma sér út úr þeim vítahringjum sem fylgt geta líferni af þessu tagi. Það er oft erfitt að rata hinn gullna meðalveg og því ættum við að vera vakandi fyrir því að láta ekkert ná tökum á okkur sem eyðilagt getur gleði og hamingju lífsins.
En tölum núna um kostina, það er svo miklu skemmtilegra...
Viska er orð sem er í algjöru uppáhaldi hjá mér og fátt veit ég skemmtilegra en að leita hennar hvar sem hana er að finna.
Viskan í sinni fegurstu mynd gerir lífið betra, fordómalausara, kærleiksríkara, fyrirgefandi, uppbyggjandi og samhygðarfullt.
Og í raun má segja að allar þær dyggðir sem taldar voru upp hjá Lúther rúmist innan viskuhugtaksins.
Án hófstillingar, hugrekkis, réttlætis, vonar, trúar og kærleika er engin viska.
Þegar viskan er við völd í okkur sjálfum og heiminum erum við nægjusöm og þurfum ekki alla þá hluti sem við höldum stundum í einfeldni okkar að geti fyllt tómarúm hjartna okkar.
Við verðum einnig hugrökk í því að vernda okkur sjálf, lífið og aðra. Viljum heilbrigð samskipti (það krefst oft hugrekkis) og viljum aðeins það besta sem lífið hefur uppá að bjóða í heilbrigði og heiðarleika.
Við verðum einnig jafnréttissinnuð og sjáum alla sem jafningja okkar. Viljum sjá aðra njóta sannmælis, velgengni og gleðjumst með öðrum.
Við verðum full af von til lífsins og trúar á það góða í heiminum, og trúum því að ljósið sigri að lokum myrkrið sem umlykur veröldina.
Og með því að halda í alla þá visku sem við getum aflað, getum við smá saman sigrað lesti okkar. Getum þannig lifað jákvæðu og sigrandi lífi, okkur sjálfum og öðrum til gagns. Þannig gerum við heiminn að örlítið betri íverustað fyrir okkur öll.
Ég hvet okkur öll til að finna hvaða lesti við þurfum að takast á við í lífi okkar og vinna að því að losa okkur við þá að miklu eða öllu leiti .
Einnig vil ég hvetja okkur til að efla þá kosti sem við eigum til í hjarta okkar og afla okkur síðan visku varðandi gönguna á vegi lífsins.
Og ég lofa því að við munum uppskera betra og gjöfulla líf ef við gerum þetta.
Stefnum öll á að eiga líf sem sýnir bestu útgáfuna af okkur sjálfum, og blómstrum sem aldrei fyrr!
Þar til næst elskurnar
Xoxo
Ykkar Linda
---
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.3.2015 | 20:03
Hugleiðingar Lindu: Eitruð samskipti
Lífið er allt of dýrmætt til að við bjóðum okkur uppá það að vera í félagsskap við neikvætt og eyðileggjandi fólk. Ég fann á netinu lýsingu á þessum týpum sem við ættum að takmarka eins mikið og við getum umgengni við, og studdist við þá lýsingu að litlu leiti (crosswalk.com).
Það er nauðsynlegt að halda sig frá eftirfarandi einkennum í fari fólks ef við viljum halda geðheilsu okkar í lagi, ég tala nú ekki um í þessari veðráttu sem búin er að vera hér í vetur! :)
Kannski erum við líka pínulítið að sjá okkur sjálf í þessari upptalningu sem ég ætla að setja hér fyrir neðan, og ef svo er...tjaa...er þá ekki kominn tíl að sniðla sig til og líta á björtu hliðar lífsins once again?
En hér koma lýsingar á nokkrum týpum sem við ættum að halda okkur frá ef við mögulega getum það.
Sá stjórnsami - :Þessi er snillingur í því að stjórna og stýra með takkaýtingum og poti. Hann vill stjórna öllum í kringum sig. Þessi fylgist með þér eins og hrægammur og bíður eftir því að finna hjá þér mistök eða galla. Það fer allt í gegnum smásjá hjá honum, allt niður í smæstu atriði. Hann á erfitt með að sleppa tökunum, þannig að hann þarf að setja þig í sínar helgreipar og neitar að sleppa. Líklega muntu kafna fyrir rest ef þú kemur þér ekki í burtu, því að þessi mun aldrei láta af stjórnun sinni.
Árásarmaðurinn- Þessi er mjög þurfandi karakter og hann tekur það út á þér og veröldinni í kringum sig. Í gegnum eigin reynslu og innra samtal varðandi sársauka fortíðarinnar, hefur hann orðið reiður, grimmur og andstyggilegur við þá sem hann segjist elska mest. Þessi þarf á hjálp að halda frá sérfræðingum. Farðu í burtu úr svona aðstæðum í öllum tilfellum- við eigum ekki að vera í kringum fólk sem meiðir okkur.
Hinn uppstökki Þú ert alltaf á nálum í kringum þennan aðila. Þú veist aldrei við hverju er að búast af honum. Þessi brestur í bræði og reiðiköst án fyrirvara og hann er oft mjög pirraður á allt og öllum í kringum sig. Yfirleitt eru falin sálræn vandamál sem takast þarf á við hjá þessum. Hann er gjarn á að kasta hlutum, sparka í hluti eða garga og kalla fólk ljótum nöfnum. Bræðiköst hans geta hrætt aðra, og hann lætur oft eins og tveggja ára börn láta. Algjörlega óásættanleg framkoma.
Sá meinfýsni - Þessi getur verið afar móðgandi og meiðandi í hegðun sinni. Markmið hans er að ná yfirhöndinni,að sigra. Tilgangur hans er alltaf að láta sjálfan sig líta vel út en fórnarlambið líta illa út. Hann hefur líka ákveðin einkenni hins stjórnsama. Hann notar særandi orð, hótar barsmíðum, hann lýgur og notar óttann sem sitt stjórntæki eða vopn. En aðalatriði hans er að ná öðrum undir sig til að upphefja sjálfan sig, og mun gera það sem gera þarf til að ná því takmarki sínu.
Fíkillinn Þessi er háður fíkniefnum eða neikvæðum lífsmynstrum sem hafa mikil eyðileggjandi áhrif á hann sjálfan og alla þá sem í kringum hann eru. Hann þarfnast hjálpar frá fagaðilum! Hann þarf á fólki að halda inn í líf sitt sem talar sannleikann við hann, og hann þarf aðila sem næra ekki fíkn hans með nokkrum hætti.Mynstur hans er ekki með nokkrum hætti á ábyrgð þinni, eða að þú með einhverjum hætti hafir getað valdið ástandinu. Ef þú ert í samskiptum við einhvern í þessum sporum, hvettu hann þá til að leita sér hjálpar strax!
Sá neikvæði Þessi hefur sjaldan eitthvað jákvætt að segja um lífið og tilveruna. Hann lítur á allt í gegnum neikvæðnisgleraugun, og er sko ekki í vandræðum með að segja þér afhverju það er þannig. Sólin gæti verið of heit, eða rigningin of mikil. Ríkisstjórnin ómöguleg, og ekki lifandi á þessu landi. Hann sér sjaldan það góða sem hann hefur í lífinu, og þakkar fyrir fátt. Þetta er ávani sem hann hefur vanið sig á, og kvart og kvein, ásamt áhyggjum yfir allt og öllu, er hans samskiptamunstur. Hann gerir sér ekki einu sinni grein fyrir því hvernig hann er að eitra umhverfi sitt með neikvæðninni, og því síður gerir hann sér grein fyrir afleiðingunum á hans eigið líf. Þetta er orkusuguan sem ber að forðast. Því að lífið er þannig að við getum alltaf valið að sjá það góða frekar en það illa, ef við bara leitum eftir því.
Ásakandinn Þessi kennir öllum um nema sjálfum sér. Það er allt þér að kenna eða þeim sem eru í umgengni við hann. Ef að dagurinn hans er eyðilagður er það þér að kenna, amk alls ekki honum sjálfum. Ef hann stendur ekki sína plikt, þá er það öðrum að kenna en honum sjálfum. Ef hann mætir of seint, týnir einhverju, fellur á prófi, eða hvað það nú er, þá er það allt öðrum að kenna. Það getur enginn lifað sigrandi lífi í kringum þennan aðila. Hans markmið er að setja þig á lágan stall í sínum eilífa ásökunarleik.
Slúðrarinn Þessi er alltaf talandi, og venjulega er það um einhvern annan en hann sjálfan. Hann hefur mikla þörf fyrir að vita alla skapaða hluti, og að segja næsta manni frá því sem hann heyrir með krydduðu ívafi. Hann getur verið meiðandi í orðum, og mjög grimmur í hjarta sínu gagnvart tilfinningum annarra. Hann nærist á lygum, ýkjum, og hálfum sannleika. Honum líður best ef hann getur horft á galla náungans, því að með því móti þarf hann ekki að líta á sitt eigið líf og eigin tilfinningaflækjur.
Sá hrokafulli Þessi aðili er mjög stoltur, sjálfmiðaður og alltaf - alltaf hefur hann rétt fyrir sér! Hann vill ekki fá á sig stimpil heimskunnar, en er fljótur að setja þann stimpil á aðra. Hann sækir í þá sem eru veikari til að geta litið betur út við hliðina á þeim. Hann er mjög fljótur til að dæma aðra og bjóða uppá skoðun sína á mönnum og málefnum, og er oft ruddalegur við þá sem eru í lægri stöðum en hann sjálfur er í. Hans hlutverk í lífinu er að vera yfir allt og alla hafinn á allan hátt.
Fórnarlambið Ekki ruglast á aðila sem virkilega hefur orðið fórnarlamb glæps eða erfiðrar lifsreynslu, og þess sem hefur það að lífsstíl að vera fórnarlömb allra aðstæðna. Hann hefur lært hjálparleysi að takmarki lífs síns. Þessum aðila finnst fólk vera að notfæra sér hann, hann er mjög þurfandi, sífellt að kvarta yfir því að aðrir séu ekki nógu góðir við hann, eða að öllum sé sama um hann. Hann sér sig sem fórnarlamb og ef þú hlustar á hann og sýnir samhygð, gætir þú orðið næsta manneskja sem kom ekki nógu vel fram við hann. Hann finnur alltaf eitthvað eða einhvern til að viðhalda fórnarlambshlutverki sínu.
En hvað er til ráða?
Finndu eitrið í samskiptunum og ef að það er í þér sjálfum, leitaðu þér þá hjálpar við að laga það. Ef það er í öðrum, bentu þá á vandamálið og á möguleikann að kannski þurfi að leita aðstoðar við að leysa það.
En sýndu sjálfum þér og öðrum kærleika í úrvinnslunni. En kærleikurinn getur svo sannarlega stundum ,verið fólginn í því að fara út úr skaðlegum aðstæðum eða að setja ákveðin mörk í samskiptum.
Og ef þú ert í aðstæðum sem eru skaðlegar, komdu þér alltaf í burtu frá þeim, ekki bíða eftir líkamlega ofbeldinu, því að það gæti orðið þér dýrkeypt!
Munum bara að kærleikurinn á ekki að meiða okkur, og að sterkasti áttaviti okkar í samskiptum er sá að vita, að hjarta okkar segir okkur alltaf satt.
Sársauki er aldrei eðlilegt ástand!
Þar til næst elskurnar,
xoxo
Ykkar Linda
Um bloggið
Linda Baldvinsdóttir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (12.9.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar