Þessir fordæmalausu tímar

Þessir tímar sem við lifum á hafa tekið okkur út úr asa þeim sem við höfum lifað við og þeir krefjast þess af okkur að við förum inn á við í sjálfsskoðun og hvernig við getum betur lifað lífinu. Þetta er tími til þess að slaka á og anda djúpt inn í aðstæðunum. Skoða innviðina og sjá hvað við finnum þar. Erum við að glata frá okkur einhverju sem skiptir okkur verulegu máli og þá á ég ekki við veraldlegu hlutina heldur tengingu okkar við okkur sjálf og þá sem í nærumhverfi okkar eru?

Höfum við látið frá okkur gildi sem þó gáfu okkur meiri ró og öryggi en þær aðstæður sem við búum við í dag? Þurfum við kannski að kollvarpa lífi okkar þegar við horfum á þessa breyttu heimsmynd sem ekkert okkar veit í dag hvernig verður?

Hvaða gildi viltu innleiða og hvað þarftu inn í þitt líf? Hvet þig til að skoða það á þessum tímum.

Að teygja sig til annarra á þessum tíma er einnig bráðhollt og gott – þetta eru tímar sem tengjast í tvær áttir, til kærleika og ótta. Reynum að hafa fókusinn okkar meira á kærleikann en óttann og finnum nýjar leiðir sem gagnast betur því innihaldi sem við viljum finna í lífinu. Óttinn þessi óvinur okkar allra er það afl sem leiðir okkur til tortímingar og jafnvel einangrunar. Við þorum ekki að teygja okkur til fólks og þorum ekki að stíga skrefin inn í óttann okkar, þorum ekki að sækja fram, höfnum okkar vegna skorts á sjálfstrausti og svo framvegis, þorum jafnvel ekki að rétta út hjálparhönd því að við erum hætt að kunna að tilheyra hjörðinni. 

En sem betur fer sé ég að þessir tímar munu leiða til góðs í þessum efnum þegar ég sé alla þá sem eru að gefa af sér til þjóðarinnar, þá sem víkja úr vegi bæði til að vernda sjálfa sig og eins náunga sinn og stjórnmálaöflin eru komin í sama lið til að bjarga landinu okkar – er það ekki dásamleg tilbreyting?

Ég held að á komandi tíma munum við sjá sambönd fara í sundur sem ekki eru að hafa góð áhrif á líf okkar, ég sé líka sambönd myndast og önnur sem munu læknast og verða nánari en fyrir Covid faraldurinn. Ég held einnig að vinátta og samkennd muni styrkjast eða fara í sundur ef ekki er pláss fyrir hana í nýrri gildismynd okkar. Og allt held ég að þetta muni verða vegna þess að við munum sjá lífið og tilveruna í skírara ljósi og vita hvaða orkusviði við viljum tilheyra og hvað er ekki að passa okkur þar.

Ég hlakka til þessara tíma sem krefja okkur til þess að vakna til okkar sjálfra og skoða okkur innan frá og út í stað utan frá og inn í allt of langan tíma. Við höfum öll fundið undanfarin ár að við leitum eftir ró, allskonar andleg iðkun hefur verið vinsæl sem aldrei fyrr vegna þess að við finnum að við höfum látið hana frá okkur fyrir hluti sem skipta minna máli og við mæðumst í of mörgu.

Sá myndband frá indverskri konu að nafni Vandana Shiva þar sem hún talaði um að loksins fengjum við að sjá að við getum ekki lifað í þeirri heimsku sem viðgengist hefur. Hún segir að við þurfum að öðlast þekkingu á því sem skiptir máli og að læra að lifa í sátt við móður jörðu, þurfum að læra að annast og elska og að deila með okkur. Hún segir einnig að það verði konurnar sem muni kenna okkur hvernig það er að vera human eða manneskja. Hún segir að fórnarkostnaðurinn við okkar glæsilíf hafi verið mikill og hafi kostað meðal annars dráp á ungum stúlkum í þrælaverksmiðjum í Bangladesh og víðar og að við þetta verði ekki unað lengur. Ráð hennar til yngri kynslóðarinnar er að við þurfum að læra að vinna með höndum okkar og sál í tengingu, það sé æðsta form þróunar mannsins. Einnig segir hún að lítið hafi verið gert úr mæðrum sem elduðu handa börnum sínum en það segir hún að ef ekki hefði verið fyrir eldamennsku móðurinnar þá værir þú einfaldlega ekki hér. Margt sem hún sagði í þessu myndbandi og ég gæti skrifað um hér, en að mínu viti er mikill sannleikur falinn í orðum hennar. 

Í dag sjáum við hvaða stéttir skipta raunverulega öllu máli og merkilegt nokk eru það störfin sem við höfum gert sem minnst úr en þurfum nú sem mest á að halda. Allir þeir sem starfa í umönnun eða við að aðstoða einstaklinga með einum eða öðrum hætti eru nú orðnir hetjurnar okkar sem er vel – ég vona bara að það skili sér í betri launum og framfærslu til þeirra sem þakkarvott okkar fyrir óeigingjarnt starf í þágu þjóðarinnar.

En eitt er víst að veröldin eins og við höfum þekkt hana mun breytast á komandi tímum og ég segi eins og Dröfn Vilhjálmsdóttir segir í pistli sínum á Vísi „ Mér líður dálítið eins og að jörðin hafi verið að senda okkur öll inn í herbergi og skellt hurðinni reiðilega á eftir okkur með orðunum; “verið hér í nokkra mánuði og hugsið nú um hvað þið hafið gert ... og skammist ykkar!”

Tek heilshugar undir þessi orð hennar og er ekki hissa á því að við séum rassskellt fyrir ofgnóttir, eigingirni og veraldavafstur og það sem einkennt hefur tímana síðustu tvo áratugina.

Við létum frá okkur fjölskyldumynstrið okkar, vöfflukaffið á sunnudögum, spariklæðnaðinn á helgideginum, kurteisi og umönnun, kennslu eldri kynslóðarinnar til hinnar yngri, börn hættu að annast og virða foreldra sína að miklu leiti og gáfu þeim ekki tíma sinn, kærleikur flestra  fór einnig niður um nokkrar gráður í átt að frosti - og ég held að við séum öll sek um eitthvað af þessu.

Þetta munum við þó allt þurfa að skoða og læra að meta það sem móðir jörð hefur fram að færa og lifa í þakklæti anda okkar til alls þess sem skapað er og dregur andann.

Okkur líður líklega mörgum ef ekki flestum svolítið skringilega inni í þessum aðstæðum sem við erum í núna, svolítið eins og við séum í skammarkróknum og eigum að finna út úr því hvernig okkur líður og finna betri leiðir. Læra að treysta lífinu og fara með æðruleysisbænina sem aldrei fyrr.

Því að þetta er tími núvitundar og andans. Þessi kynslóð hefur ekki þurft að gera sér grein fyrir því að við erum andi sál og líkami en nú er tíminn kominn.

Látum kærleikann verða leiðarljósið okkar á þessari leið, setjum fókusinn okkar á það og munum að allur heimurinn er eitt samfélag.

Nýtum þennan tíma til að  hætta að aðgreina og dæma þá hluta heimsins sem við þekkum ekki, umvefjum frekar þá hluta og reynum að skilja þá og sýnum virðingu – þannig búum við til fallegt og réttlátt heimskerfi og tækifærið til þess er núna og við getum öll lagt okkar af mörkum.

Þar til næst elskurnar 

Xoxo -stay safe

Ykkar Linda

Markþjálfi/Samskiptaráðgjafi/TRM áfallafræði 1 og 2.

linda@manngildi.is


Fyrr en varir birtir að nýju

Óttinn þessi skelfilegi óvinur okkar mannanna er við völd þessa dagana og við finnum öll fyrir áhrifum hans á líf okkar, störf og samskipti.

Mín hvatning til okkar er að láta þennan óvin ekki stela frá okkur þeim stundum sem við getum átt mitt í þessari óvissu til að gleðjast saman innan leyfilegra takmarkana og vera ekki hrædd við það. Það eru ýmsar leiðir til að hittast rafrænt og símleiðis og erum við mjög heppin að þetta skuli þó koma upp á tímum internetsins og þráðlausra samskipta um heim allan.

Ef eitthvað verður til að létta tímana sem nú eru er það að nýta gleðina eins og Ítalir gera núna, þeir syngja af lífs og sálarkröftum til að létta lund hvers annars frá svölum sínum. Þeir tóku einnig upp uppskriftina sem við höfum svo oft nýtt hér á Fróni eða "þetta reddast" sem er að mínu mati það stórkostlegasta sem við eigum í ótryggum heimi og fer nú sigurför um Ítalíu og vonandi fer það jafn víða og húið okkar fræga.

Ef við göngum út á það að við getum ekki stjórnað útkomunni út úr þessu þá er ekkert annað að gera en að leyfa ekki óttanum að ríkja og njóta þess að vera til. Kannski þurfum við að taka til okkar það sem ég sá á fésbókinni; "Njótum þess að fá loksins tækifæri á því að gera ekki neitt, horfa á TV og bjarga heiminum með því móti".

Samlandar mínir hafa svo sannarlega sýnt það að undanförnu að við eigum gott og hæfileikaríkt listafólk sem nú keppist við að gleðja okkur með ýmsum uppákomum og áður óþekktir einstaklingar stíga einnig fram á sviðið með ýmsu móti og ég er svo óskaplega þakklát öllum sem það gera. Þetta er það sem við getum gert - að nýta hæfileika okkar og kunnáttu samlöndum okkar til gleði og jafnvel gæfu ef því er að skipta, og það er svo fallegt og svo gott.

Mitt framlag er að gefa okkur leiðir sem við getum skoðað og nýtt okkur til að minnka ótta okkar og vonandi til að gefa honum heilbrigt vægi í þessum aðstæðum.

En hér koma svo mínar aðferðir til að minnka vægi óttans:

1. Ef þú finnur fyrir kvíða og óróleika stoppaðu þá allt sem þú ert að gera og spurðu sjálfan þig hvort að það séu réttmæt rök fyrir ótta þínum og ef ekki finndu þá rökin gegn óttanum.

Ef við tökum sem dæmi þá getum við notað sem rök lága prósentutölu þeirra sem veikjast af þessari veiru og enn færri sem veikjast illa en um 95% tilfella virðast vera með mjög væg einkenni. Við eigum einnig gott teymi heilbrigðisstarfsmanna sem er búið að undirbúa sig vel hvað varðar lyf og annað sem til þarf og hafa búið sig undir verstu hugsanlegu útkomu fyrir þá fáu sem munu veikjast alvarlega. Þessi rök ættu að geta tekið mesta óttann frá okkur og lesum ekki allt sem við sjáum á netinu eða öðrum miðlum, það eykur á óttann okkar og margt af því er hvort sem er tóm tjara.

2. Láttu ekkert taka frá þér gleðina og haltu fast í hana. Horfðu á eitthvað sem fær þig til að hlæja, hafðu samband við skemmtilegt fólk og hugaðu að fjölskyldu þinni það skiptir öllu. Sendu út falleg skilaboð sem gleðja þig og aðra ef þig langar að gefa öðrum góða tilfinningu og ef það er leyfilegt og innan marka farðu þá og hittu fólk sem þig langar til að hitta yfir góðri máltíð eða kaffisopa. Maður er manns gaman ef sprittbrúsinn og handsápan er með í för.

3. Mundu að tilfinningar þínar kvikna útfrá hugsunum þínum svo passaðu þig á því að hafa þær eins jákvæðar og fullar þakklætis og hægt er að hafa þær. Í einangrun eða sóttkví er Nelson Mandela frábær fyrirmynd en hann sagði að kannski væri hægt að loka hann inni í fangelsinu en að hann væri sá eini sem stjórnaði hugsunum sínum. Þessi orð eru ótrúlega sönn og við höfum svo miklu meira um tilfinningar okkar að segja en við höldum oft. Hugsanaferlið okkar fer þannig fram að við tökum við ytra áreiti og við áreitið kviknar samtal okkar við okkur sjálf og við það sjálfstal tengjum við tilfinningar og framkvæmum síðan útfrá þeim.  

4. Reyndu að búa til stóru framtíðarmyndina í huga þér og gerðu hana eins fallega og þú mögulega getur og settu hana svo niður á blað þar sem þú getur horft á hana og minnt þig á að allt verður gott um síðir - þetta er tímabundið ástand og ljósið sigrar alltaf myrkrið að lokum. 

5 Slepptu tökunum - og tökum einn dag í einu. Förum að ráði Víðis sem sagði okkur að taka einn klukkutíma á dag þar sem við værum ekki að tala um veiruna og ég ætla að bæta því við að við ættum að einsetja okkur að leyfa hugsuninni um það versta sem í koll okkar kemur að fá ekki lengra dvalarleyfi en í ca 5 mínútur. - tökum tímann og teljum svo 5.4.3.2.1 og svo stopp! Allar tilfinningar þarf svo sannarlega að viðurkenna en svo þurfum við að passa uppá að þær nái ekki yfirhöndinni og veiki okkur. 

Það sem ég geri þegar ég finn að ég verð óttaslegin og er í mínum vanmætti er að fara inn í daginn og biðja um vernd fyrir mig og mína og eins bið ég um blessun til handa löndum heimsins og íbúum hans og ákveð svo að treysta. Það er það sem ég get lagt af mörkum og bara vonað síðan að á mínar bænir sé hlustað í alheimi.

Þetta eru nokkur ráð frá mér til þín sem ég vona að gagnist ykkur á þessum fordómalausu Covid tímum og ég minni okkur öll á að við erum í þessu saman.

Við getum og ættum svo sannarlega að þakka þeim sem í framlínunni starfa í okkar þágu og ég hvet okkur öll til að gera allt sem við getum til að hlíta þeirra ráðum, biðja svo fyrir blessun og vernd og halda áfram á þeirri braut sem mér sýnist við vera komin inn á, eða að sýna allar okkar fallegustu hliðar. Svo sýnist mér við líka vera komin í þann gír að "pay it forward" sé að skjóta rótum hér og við ættum endilega að taka það upp öll sem eitt til frambúðar.

Þannig trúi ég að við komumst best frá þessum erfiða og myrka tíma í mannkynssögu okkar. En ljósið mun sigra að lokum, það gerir það alltaf krakkar mínir.

Heill og heilsa fylgi okkur öllum elskurnar,

xoxo

Ykkar Linda

Linda Baldvinsdóttir

Markþjálfi/Samskiptaráðgjafi/TRM áfallafræði 1 og 2

linda@manngildi.is  

 


Líður þér vel í samskiptum þínum við fólk eða er meðvirknin að ganga frá þér?

Enn og aftur langar mig að tala um meðvirkni þar sem þetta er landlægt og líklega útbreiddara en veiran sem við flest óttumst í dag.

Meðvirkni er sjúklegt ástand sem við þurfum svo sannarlega að huga að skoða og lagfæra ef það er fyrir hendi í lífi okkar og er að hafa áhrif til ills þar. 

Að virka vel með öðrum er nauðsynlegt í öllum almennum samskiptum og allt gott um það að segja að við séum góð og kærleiksrík við hvert annað og leitum lausna inn í samskiptum, en við þurfum að skoða hvort við erum að virka með fólki eða hvort við erum í meðvirkni með þeim og það er að ýmsu að hyggja þar.

Að virka með öðrum gefur okkur góða tilfinningar og vellíðan og er áreynslulaus tilfinning sem færir okkur yl, en meðvirknin gefur okkur togstreitu tilfinningu sem fær okkur til að tipla endalaust og botnlaust í og kringum aðra aðila,(stundum bara einn)og fær okkur á staði sem við erum ekki sátt við okkur á. 

Við þolum of mikið af slæmri eða illri framkomu, leyfum óréttmætar hafnanir og ummæli og stöndum ekki föst á okkar tilverurétti né okkar lífsgildum.

Hjá meðvirknisamtökum er talað um að meðvirknin skiptist í nokkra flokka og eru þeir td. Afneitun, lítið eða lélegt sjálfstraust, ákveðin fylgimynstur í lífinu, stjórnunarmynstur og forðunarmynstur.

  • Afneitunin getur meðal annars falist í því að meðvirkir eiga erfitt með að segja hvernig þeim líður og þeir gera lítið úr eða neita fyrir raunverulegar tilfinningar sínar. Þeir líta á sig sem kærleiksríkar verur sem eru helgaðar vellíðan annarra og þeir fela tilfinningar sínar á bak við leiðir eins og húmor, reiði, pirring eða með því að loka sig af. Gjarnan draga þeir að sér einstaklinga sem eru ekki tilfinningalega til staðar fyrir þá.

 

  • Lítið eða lélegt sjálfsöryggi getur birst í því að meðvirkir eiga erfitt með að taka ákvarðanir og dæma allt sem þeir segja og gera sem ekki nægjanlega gott. Eiga erfitt með að taka hrósi og telja að skoðanir og gildismat annarra sé rétthærra sínu eigin og eiga erfitt með að setja mörk. Þeir eiga það einnig til að leita að öryggi hjá öðrum og mynda með sér lært hjálparleysi.

 

  • Fylgimynstrin eru oft þau að þeir meðvirku eru sauðtryggir og hanga í skaðlegum aðstæðum allt of lengi og gera málamiðlanir gegn gildum sínum og líðan til að forðast höfnun og reiði. Þeir eru oft hræddir við að segja frá sínum skoðunum, trú og tilfinningum. Þeir gefa frá sér sannleikann sinn til að forðast breytingar á lífi sínu. Stundum geta þeir verið hvatvísir í ákvörðunum.

 

  • Stjórnunarmynstrin geta meðal annars birst í því að þeir verða ófærir um að bera ábyrgð á sér. Þeir verða pirraðir ef aðrir hugsa ekki eða líður á annan hátt en þeim þóknast að þeim líði. Þeir verða oft pirraðir þegar fólk hlýðir þeim ekki og þurfa að finna fyrir því að aðrir þarfnist þeirra til að geta verið í samskiptum við þá. Þeir nota ásökun og skömm til að ná sínum þörfum fram og refsa þeim sem mæta þeim ekki. Nota kærleiksríka frasa til að ná stjórn á öðrum og beita refsingum og reiði til að stjórna útkomum. Eins eiga þeir til að ausa gjöfum til þeirra sem þeir vilja hafa áhrif á og neita yfirleitt samvinnu, málamiðlunum og samningum.

 

  • Forðunarmynstrin birtast oft í því að hinir meðvirku forðast tilfinningalega, líkamlega og kynferðislega nánd til að halda fjarlægð og halda sig þar með frá nánd í samböndum. Þeir nota óbein samskipti til að rugga nú ekki bátnum og þeir bæla niður tilfinningar sínar til að forðast berskjöldun. Þeir halda að með því að sýna tilfinningar sínar séu þeir að sýna veikleika og leyfa gjarnan fíknum að fjarlægja sig frá nánd í samskiptum. 

Þetta eru nokkur af þeim mynstrum og atriðum sem meðvirkir upplifa og ég hvet þig til að skoða lesandi góður hvort að eitthvað af þessum atriðum eigi við þig og gera þá það sem þarf að gera til að leiðrétta þig og skapa heilbrigðara líf fyrir þig í framhaldinu, það svoleiðis marg borgar sig.

Og eins og ætíð er ég bara einni tímapöntun í burtu ef þú telur að ég geti aðstoðað þig við þín lífsins verkefni.

xoxo

Ykkar Linda

Linda Baldvinsdóttir

Markþjálfi/samskiptaráðgjafi/TRM áfallafræði

linda@manngildi.is


Um bloggið

Linda Baldvinsdóttir

Höfundur

Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Mars 2020
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • ..._s4i6862_2
  • ...0eaf470d6_2
  • ...98009927331
  • pistill mynd
  • 15608665 10210640975833107 554134899 o

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.8.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 96
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 91
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband