6.4.2015 | 16:01
Hugleiðingar Lindu: Örlagasaga
Lengi hefur mig langað að skrifa sögu ömmu minnar og afa eins og ég þekki hana. Saga þeirra er sérstök og dramatísk ástarsaga, saga sem mér þykir svo falleg.
Falleg vegna þess að hún er ekki þessi einfalda saga þar sem þau hittast, eiga börn og buru og lifa hamingjusöm til æviloka.
Sagan þeirra fékk ekki góðan endi, en líf þeirra saman skilur þó eftir sig stóran ættboga sem ber ást þeirra vitni.
Ung varð amma vinnukona manns sem var miklu eldri en hún. Þetta var algengt í þann tíma og þótti ekkert sérstakt tiltökumál. Ekki leið þó á löngu þar til að hún varð ófrísk eftir hann. Tvö fyrstu börn sín átti hún með þessum manni, dreng og stúlku.
Hann reyndist henni afar góður og var að sögn föður míns mikið gæðablóð.
En svo gripu örlögin inn í og hún hitti afa minn, og ekkert varð eins og fyrr.
Afi var af góðum ættum og dugnaðarforkur mikill, sjómaður að atvinnu. Auk þess þandi hann fiðlu á dansleikjum og hefur þar án efa heillað ófáar konurnar. Hann afi minn þótti glæsimenni og heimsborgari að sjá. Gjarnan glerfínn í jakkafötum og vesti með vasaúr. Heldri maður með montprik og hvað eina. Hávaxinn ,svipsterkur, hláturmildur og karlmenni mikið. Gleðimaður talsverður og óábyrgur um margt.
Honum þótti sopinn góður og þegar hann undir lok ævinnar bjó á elliheimili var fátt sem gerði honum meiri gleði en peli endrum og sinnum. Fluggáfaður var hann eins og hann átti kyn til. Móðir hans sjálfmenntuð tungumálamanneskja en það var fátítt á þessum tímum. Afi sjálfur með frönskuna á takteinum reiprennandi enda túlkaði hann seinna fyrir frönsku sjómennina sem rak til austfjarða.Tungumálið nam hann reyndar af þeim hinum sömu sjómönnunum. Hann afi var félagslyndur og skemmtilegur maður og kallaði mig aldrei neitt annað en, Lindubarnið sitt. Litríkur karakter sem engan undraði að amma hafi fallið fyrir.
Amma þótti yndisleg kona sem góð var við menn og málleysingja. Hún var hæglát enhörkudugleg og gáfuð góð kona. Hún var heiðarleg, einlæg kona sem átti kærleika handa öllum.Pabbi sagði mér oft frá hennar milda og blíða eðli. Hversu góð hún var bæði honum sjálfum og vinum hans líka. Hún amma mín var sko þekkt fyrir mannkosti sína.
Þá að ástar og örlagasögunni.
Daginn sem þau fundust fyrst kviknaði ást í brjóstum þeirra. Logandi ástarbál sem þau hvorki gátu né vildu slökkva þrátt fyrir vonlausa stöðuna. Hún einstæð kona með tvö börn, og hann sonur hreppstjórans.
Ekkert gat stöðvað tilfinningar þeirra og þau eignuðust algera ást. Þaðan varð þeirra fyrsta barn til. Ég get vel ímyndað mér skelfingu hennar og vanlíðan. Hún sem ekkert aumt mátti sjá og vildi lifa lífinu fallega og rétt. Sú skömm að koma með enn eitt barnið utan hjónabands í veröld fulla af dómhörku hlýtur að hafa verið yfirþyrmandi.
Að þremur árum liðnum fæddist elsku pabbi minn, annar ávöxtur þessa óviðeigandi sambands. Amma var þarna orðin einstæð móðir með fjögur börn utan hjónabands.
Afa skorti kannski manndóm til að rísa gegn fjölskyldu sinni. Að rugga bátnum var ekki hans tebolli. Hann fékk ekki leyfi til að giftast ástinni sinni, hún þótti ekki nógu fín fyrir heppstjórasoninn. En ástarbálið varð ekki slökkt. Þau elskuðu hvort annað heitt og létu kjaftasögur og önnur óþægindi ekki trufla sig.
Ást þeirra var svo sterk að afi gifti sig aldrei úr því hann fékk ekki ástina sína. Hann elskaði ömmu allt til dauða.
Raunir ömmu voru miklar. Hún fékk ekki manninn sem hún elskaði, ást þeirra var skömm. Ofan á þessa óhamingju missti hún einkadóttur sína. Fallega stúlku með sítt og mikið ljóst hár, allra hugljúfi. Barnaveiki tók hana kornunga og varð það harmdauði þeirra sem henni kynntust. Hún skildi eftir lokk úr hári sínu á koddanum þegar hún skildi við. Sá lokkur var fjársjóður alla tíð.
Sorg ömmu var mikil og sár. Kannski upplifði hún þetta sem gjaldið fyrir leiðina sem lífið hafði valið henni. En harm sinn bar hún ávallt í hljóði.
Þeir sem búa í litlum samfélögum þekkja slúðrið og amma fór ekki varhluta þar.Ég hef sannfrétt það frá þeim sem hana þekktu að enginn gat lagt henni ömmu minni til slæmt orð. Þrátt fyrir að þessi tími fordæmdi aðstæður hennar og barna hennar fóru mannkostir hennar ekki einu sinni framhjá slúðurberunum.
Ömmu kynntist ég því miður ekki en nýt þess að heyra sögur sögur af eðliskostum hennar og gæsku.
Amma lést svo þegar pabbi minn var aðeins fimm ára drenghnokki.
Hún fékk lungnabólgu en á þeim tíma voru engin lyf við lungnabólgu komin til sögunnar Amma var bara þrjátíu og átta ára gömul þegar hún sofnaði. Pabbi sat við sóttarsæng móður sinnar þar til að hún kvaddi hann og sagði honum að fara til systur hennar og bróður og vera þar.
Fimm ára drengur skildi lítið hvað um var að vera. Hann gleymdi þó móður sinni aldrei enda átti hann minningar um hana sem ég veit að honum þótti vænt um. Hann sagði mér af því þegar hann var að sandskúra gólfin fyrir hana, og hvernig hún launaði honum það. Hann deildi minningum sínum um hana með mér. Þau áttu einstaklega fallegan kærleika og ég þykist viss um að söknuður pabba yfirgaf hann og bræður hans aldrei alveg.
Við dauða mömmu sinnar fóru drengirnir hver í sína átt. Albróðir pabba fór yfir í næsta fjörð til ættingja afa og var þar til dauðadags, en hálfbróðir þeirra fór fljótlega til sjós í millilandasiglingar.
Varla hefur það verið afa mínum auðvelt verandi sjómaður að sinna börnunum og þess vegna þurfti hann að treysta á móðursystkini þeirra og frændfólk sitt með umönnun þeirra. Ég veit að það olli afa miklum sársauka hversu lítið hann gat verið með strákunum sínum, og grét hann einu sinni í fangi pabba vegna þess.
Afi varð níræður. Hann var mikill gleðimaður og heimsborgari allt til enda. Og þegar afi fékk sér í tánna talaði hann um ástina í lífi sínu. Enginn vafi er í mínum huga að þau voru hjarta og sál hvors annars. Hún var hans og hann hennar.....
Tungumálakunnátta afa varð svo til þess að Vigdís Finnbogadóttir gerði sér ferð að hitta hann á elliheimilið í þeim erindagjörðum einum að tala við hann frönsku. Þetta þótti fréttnæmt á þeim tíma. Snillingurinn Jónas Árnason samdi lag um afa og vini hans. Þetta lag þekkja trúlega margir. Lagið heitir Riggarobb og ég er talsvert upp með mér af því tilefni.
Ég geri mér grein fyrir að ég þekki bara örfá brot þessarar gullfallegu örlagasögu og ekki alveg öruggt að þau hafi upplifað þann ævintýraljóma yfir lífinu sem afkomandinn hún Linda sér af þeim brotum sem hún þekkir.
Líklega er saga þeirra lituð af sárum tilfinningum, brostnum hjörtum og orðum sem hafa stundum meitt. Og kannski gjörðum sem hafa valdið vanlíðan. Og varla hafa þau sloppið við lægðirnar umfram annað fólk.
En ekkert breytir því að þau völdu að elska hvort annað, "þrátt fyrir" en ekki "vegna". Það er það sem mér finnst svo fallegt og einstakt.
Ég trúi þvi að í dag séu amma mín og afi sameinuð á öðrum og betri stað. Þar eru drengirnir þeirra líka. Ég vel að hugsa mér að ást þeirra sé enn til staðar, að þau fái að notið þess að elska hvort annað sem aldrei fyrr. Ég sé fyrir mér sameinaða fjölskyldu. Pabba og bræður hans ásamt fallegu hárprúðu systur þeirra. Ég heyri næstum hlátur þeirra og gleði í bland við kærleiksríkar samræður ömmu minnar og afa....
Það sem þessi örlagaríka fjölskyldusaga hefur kennt mér er að standa með sjálfri mér og mínu lífi og hafa ekki áhyggjur af áliti annarra. Hún kennir mér líka að ástin er sterkasta afl undir sólinni.
Þegar ástin kallar þá mun ég fylgja henni, óháð því hverjar afleiðingar það kann að hafa á aðra hluti lífsins sem standa fyrir utan ástina.
Þegar ég sit og skrifa þetta finn ég að ég verð ömmu og afa ævinlega þakklát fyrir þeirra vitnisburð . Vitnisburð um ódauðlega ást og mannlegan breiskleika.
Þar til næst elskurnar
xoxo
Ykkar Linda
Bloggar | Breytt 10.4.2015 kl. 21:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.4.2015 | 14:40
Hugleiðingar Lindu: Að hafa vitni að lífi sínu.
Í gær fékk ég þær fréttir að æskuvinkona mín sem er mér afar hjartkær hefði greinst með æxli í nýra. Hún fer undir hnífinn á næstu dögum þar sem nýrað verður fjarlægt.
Mér brá hrikalega,fann bara fyrir doða fyrst, en svo helltist sorgartilfinningin yfir mig og tárin læddust niður kinnarnar.
Lífið minnir okkur svo ótal oft á það hversu hverfult og skammvinnt það er, og þetta var vissulega ein af þeim aðvörunum.
Ég vona svo sannarlega að Guð verði góður og gefi þessari elskuðu vinkonu minni fullan bata á sínu meini. Að hún geti lifað hamingjusöm til hundrað ára aldurs, og ætla ég svo sannarlega að biðja Hann um bænheyrslu þar. Hún er mér svo dýrmæt þessi vinkona og í raun get ég ekki hugsað lífið án þess að vita af henni í kringum mig.
En þessar fréttir fengu mig til að hugsa um hversu mikils virði það er að hafa vini og ættingja í kringum sig sem eru vitni að lífi manns.
Ég og vinkona mín höfum gengið í gegnum lífið saman. Kynntumst þegar við vorum að byrja í skóla, og höfum verið góðar vinkonur síðan.
Brölluðum margt saman þegar við vorum yngri, og eigum óteljandi margar minningar frá misgáfuðum stundum. Vorum í skóla saman, unnum saman í fiskinum öll unglingsárin, hörkuduglegar báðar tvær. Fermdumst saman, hlógum þessi lifandis ósköp í þeirri athöfn og urðum foreldrum okkar líklega til skammar. Fórum saman í útilegurnar í Atlavík, Reykjavíkurferðirnar og vorum saman öllum stundum. Rifumst og töluðumst ekki við í einhverja daga, en alltaf fundum við lausn á þeim málum. Ekki hefur þetta breyst eftir að við fullorðnuðumst, eigum ennþá fallega vináttu sem ekkert fær haggað.
Ég var viðstödd tvær fæðingar hjá henni, var skírnarvottur barna hennar, og fylgdi því miður öðru þessara barna hennar til grafar með henni. Við höfum grátið saman, hlegið saman, setið saman heilu kvöldstundirnar án þess að segja orð, nærveran okkur nægjanleg. Hún veit mín leyndarmál og ég hennar, hún veit oft hvernig mér líður án þess að ég þurfi að segja orð, og ég veit líka ef eitthvað er ekki eins og það á að vera hjá henni. Hún veit hvað mér þykir gott að borða góðan mat og dekrar mig oft þar. Hún veit líka að vöðvabólgan er oft að drepa mig, og hún nuddar háls minn og herðar og þekkir öll mín aumustu svæði án þess að ég þurfi að segja henni hvar þau eru.
Hún hefur verið vitni að mínu lífi og ég að hennar. Vinátta sem mun aldrei slitna og við erum til staðar fyrir hvor aðra í gleði og sorg.
Sorgin sem ég fann fyrir er einmitt vegna þess að það er svo sárt að vera minntur á að þeir sem við höfum haft sem vitni að lífum okkar og við höfum elskað verða kannski ekki alltaf til staðar til að vitna það. Dauðleiki okkar sjálfra verður einnig svo raunverulegur á þessum stundum.
Einmannaleiki okkar tíma stafar því miður allt of oft af því að við höfum fáa eða engan til að verða vitni að lífi okkar. Við erum fráskilin og jafnvel margfráskilin, börnin þurfa að skipta sér á milli foreldra, og minna verður um gæðastundir þar. Jafnvel á mínum virðulega aldri eru barnabörnin einnig lítið í kringum okkur vegna skilnaða foreldra þeirra, eða tímaleysis og anna nútímans.
Þannig að vitnin að lífi okkar eru fá, speglunin lítil sem engin hjá mörgum. Ég held að það sé það sem gerir lífið vonlausara og gleðisnauðara hjá svo allt of mörgum í dag.
Það væri yndislegt að sjá breytingu á þessu, að við færum að gefa okkur tíma til að verða vitni að stórum sem litlum stundum í lífum hvers annars. Að gleðjast saman, gráta saman, vera saman og vefja þannig kaðal minninga sem verður svo dýrmætur að ekkert fær hann rofið, ekki einu sinni dauðleikinn sjálfur.
Ég þakka þessari vinkonu minni og öllum þeim öðrum sem ég hef haft sem vitni að lífi mínu fyrir að vefja kaðal minninga með mér, það er dýrmætara en allt annað. Kærleikur ykkar er það sem gefur lífi mínu gildi sitt.
Njótið samverustunda við þá sem þið elskið elskurnar og vefjið sterkan kaðal á meðan dagur er.
Þar til næst elskurnar,
Ykkar Linda
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Linda Baldvinsdóttir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (12.9.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar