Hvað er orðið þitt?

Ég horfði á myndina Eat pray love með Julíu Roberts um daginn í hundraðasta skiptið líklega og að þessu sinni tók ég eftir því þegar hún var spurð að því hvað "orðið" hennar væri og hún svaraði því til eftir smá umhugsun að hún væri rithöfundur. Sá sem spurði hana sagðist þó ekki vera að spyrja hana hvað hún gerði heldur hver hún væri, og myndin snýst að mörgu leiti um leit hennar að því orði sem hún gæti notað um sig og sinn innsta kjarna.

Þetta vakti mig til umhugsunar um það hvernig við skilgreinum okkur sjálf svona venjulega og hversu oft við skilgreinum annað fólk út frá starfstitli þeirra og hversu rangt þetta er í raun og veru. Er það það sem skiptir máli? Eða skiptir meira máli að vita hver kjarninn er í manneskjunni?

Starf okkar og ytri umgerð segir afar lítið um líðan okkar að innan og hvort að við séum holl eða óholl fyrir okkur sjálf og þá aðra í leiðinni.

Að lifa innan frá og út hlýtur að vera okkur kappsmál því að aðeins þannig erum við heil og lifum þar með af heilindum gagnvart okkur sjálfum og öðrum. 

Hvernig eigum við að finna lífsfarveg okkar og þá gleði sem fylgir því að finna hann ef við leyfum okkur ekki að kafa eftir því hver við erum þegar búið að strippa okkur af titlum, menntun og öðru því sem heimurinn hefur kennt okkur að skilgreina okkur út frá?

Ef við leitum ekki að uppruna "orðinu" okkar þá verðum við alltaf eins og strengjabrúður annarra og látum stjórnast af því sem stjórnendur brúðunnar vilja. Útfrá þannig ástandi leyfum við öðrum að fara yfir mörkin okkar og missum sjálfstraustið, gleðina og að standa með okkur, því hvernig getum við staðið með einhverju sem við vitum ekki einu sinni að erum við eða "orðið" okkar eða okkar innsti kjarni?

Það er mikið talað um ofbeldi í dag og hluti af því að við látum slíka meðferð viðgangast gagnvart okkur sjálfum og í samfélagi okkar er vegna þess að við teljum okkur ekki eiga betra skilið en þá meðferð sem okkur er boðið uppá hverju sinni og gerum hluti sem eru gagnstæð ómeðvituðum gildum okkar allt til að fá skilgreininguna frá heiminum og öðru fólki að þú sért verðug/ur og elskuð/aður eða allt þar til við lærum að þekkja "orðið" okkar og förum að verja okkur (gildin okkar) útfrá okkur en ekki til að dansa fyrir aðra jafnvel í óheilbrigði þeirra og stjórnsemi. 

Þegar við erum ómeðvituð um "orðið" okkar þá erum við einnig á sífelldum flótta frá okkur sjálfum og förum t.d að hlaupa á milli sambanda og hellum okkur út í þau til að vera nú einhverjum eitthvað (einhverjum öðrum en okkur sjálfum). Við förum að drekka meira áfengi, taka lyf sem deyfa líðan okkar, borðum á okkur sjúkdóma, festumst í allskonar fíknum sem við missum tök á, vinnum yfir okkur og hættum að bera ábyrgð á líðan okkar og lífi. Allt verður öðrum að kenna því að við náum ekki að skoða okkur hið innra því að þar gætum við rekist á brotin okkar og þurft að fara að takast á við þau og finna "orðið" okkar. 

Við lifum einnig í fjarlægð frá okkur með því að vera of jákvæð eða of neikvæð og leyfum því ekki þekkingu á raunverulegri líðan og tilfinningum okkar því að það er svo gott að leita út fyrir okkur sjálf þarna einnig. Öfgar semsagt á flestum sviðum sem öll eru aðeins til eins og það er að fela sjálfan sig fyrir sjálfum sér! Það verður ekki fyrr en að skapandi hugsun eða ný hugsun verður til útfrá þekkingu á þínu innsta eðli sem þetta breytist.

Ætlum við að lifa tilgangsríku lífi þar sem við erum þekkjum okkur sjálf eða ætlum við að reka stjórnlaust í gegnum það? Okkar er alltaf valið og útkoman í lífi okkar byggist á því að við vitum hver við erum og hvert við ætlum okkur að fara og til þess þarf ný hugsun að verða til, nýtt viðhorf og þekking á þér. 

Það krefst hugrekkis að leita að orðinu sínu og það er ekki alltaf auðvelt að finna það (prófaðu bara) en svo sannarlega er sú þekkingarleit áhrifarík og til umbreytingar ef þú leyfir þínu innsta eðli að taka yfir yfirborðsskilgreiningu heimsins á því hver og hvað þú átt að vera og gera til að heimurinn samþykki þig.

Þegar orðið er fundið þá veistu að þú þarft ekkert að óttast eða vera með áhyggjur af einu eða neinu því að hæfileiki þinn til að skapa líf þitt á þann veg sem þú vilt að það verði verður helst falinn í því að þú treystir á þekkingu þína um þig og lífið til að færa þig nær þeirri leið sem þitt einlæga sjálf vill fara með þig. Er það í sjálfu sér ekki dásamleg tilhugsun? Og voila, andi þinn mun fylgja þínum óskum nákvæmlega eins og andinn í  Alladín lampanum. Það þurfti að strjúka þeim lampa og vita af andanum innra með honum væri þarna til að uppfylla óskirnar (trúa því að hann væri þarna) og síðan þurfti að vita hvaða leið eða óskir þyrfti að uppfylla áður en að hægt væri að afgreiða þær. (Sjá the secret)

Eins er það með andann innra með okkur og leiðina okkar. Við þurfum að trúa á hana, taka skrefin, vita hver við erum og hvað við viljum áður en að andi okkar fer og nær í það fyrir okkur eða eins og andinn í Alladín sagði "Óskin þín er fyrirskipun til mín" (Your wish is my command).

Allt virðist eitthvað svo erfitt áður en við lærum það og það er eins með að það að finna orðið okkar, leiðin hræðir okkur stundum, en eins og allt sem við lærum hefur lærdómsferlið tilhneigingu til að verða að ósjálfráðri þekkingu sem við þurfum eftir smá tíma ekkert að hugsa um við bara kunnum þetta.

Ég veit með mig að ég hélt sem lítil stelpa að ég gæti aldrei lært að reima skóna mína en það tókst og í dag er það mjög lítið mál. Ég óttaðist einnig að ég gæti aldrei lært almennilega á bíl en í dag gæti ég líklega málað mig, talað í símann og borðað morgunmatinn á sama tíma og ég keyri á milli staða (mæli samt ekki með því)!

Það að án sjálfsþekkingar og að vera strengjabrúða alla tíð getur varla hljómað spennandi þannig að ég held að sú spurning sem mestu máli skiptir fyrir þig og mig í dag hlýtur að vera - "hvað er "orðið" mitt?" og hvað ætla ég að gera við það þegar ég hef uppgötvað hvað það er?

Og ef þig vantar aðstoð við að finna þitt "orð" þá er ég bara einni tímapöntun í burtu.

 

Þar til næst elskurnar 

xoxo

Ykkar Linda

Linda Baldvinsdóttir

Lifecoach og samskiptaráðgjafi

linda@manngildi.is

 

 

 


Er súkkulaðið betra en kynlífið eftir miðjan aldur?

Við vinkonurnar áttum gott spjall um daginn og meðal annarra skemmtilegra málefna töluðum við um kynlöngun og breytingar á henni eftir að ákveðnum aldri er náð eða þeim aldri að vera "hundleiðinlegar sextugar gerandameðvirkar kerlingar" eins og við erum stundum kallaðar af yngri kynsystrum okkar í dag. 

Í samræðum okkar vinkvennanna rifjuðum við upp sögur af þeim konum sem við ólumst upp með og ég man eftir samræðum á milli þeirra kvenna sem í mínu lífi voru þar sem rætt var um það hversu dásamlegt það yrði að geta farið að neita eiginmönnunum um kynlíf eftir að fimmtugsaldrinum væri náð og þær þá orðnar lausar við þessa "skyldu" sem þær dæstu mikið yfir. Þarna var ég ung kona að byrja lífið og fannst þær nú ekki beint smart þar sem kynlífið var mjög stór partur af minni tilveru á þeim tíma og ég átti nú ekki von á því að breyting yrði þar á frekar en aðrar ungar konur halda.

En er það virkilega þannig að við konur og kannski karlar líka verðum hálf dauð hvað varðar kynlöngun eftir ákveðinn aldur og ef svo er, hvers vegna þá?

Ég varð forvitin eftir þessar samræður okkar vinkvennanna og fór að kynna mér hvort eitthvað væri til í því að við værum frekar til í súkkulaði og Netflix en gott og gefandi kynlíf þegar vissum virðulegum aldri væri náð og viti menn, það eru ýmsar hormónatengdar ástæður fyrir því að súkkulaðið verður kynþokkafyllra en fallegur gullfallegur maður með sixpack þegar ákveðnum aldri er náð.

Það sem ég komst að við grúskið mitt fer hér á eftir og vonandi verður það til þess að meiri sátt myndist hjá þeim sem finna fyrir doða í þessum málum og þeim sem þurfa að hafa fyrir því að koma sér í gírinn annað slagið til að halda mökunum góðum.

Á ákveðnum aldri verða all miklar hormónabreytingar hjá okkur sem hafa mikil áhrif á kynlöngun og kynlífið en fram að þessum tíma sá náttúran sjálf um að halda okkur við efnið eða þar til við erum nánast að verða óhæf til að fjölga mannkyninu. 

Þegar slaknar á okkur hvað kynlöngunina varðar þá fara aðrir hlutir að skipa okkur meira máli. Hlutir eins og góður matur, góður félagsskapur, áhugamál, friður og ró taka meira og meira rými í lífi okkar þó að við seem betur fer gjóum nú stundum ennþá daðrandi augum á hitt kynið.

En að ástæðunum:

Ef ég byrja á körlunum þá fara þeir svo sannarlega á sitt breytingaskeið og karlhormónarnir sem sjá um ris hjá körlum fer lækkandi. Ekki er þó vitað hversu mikið magn af karlhormónum þurfi að vera til staðar til að viðhalda eðlilegu risi og það veldur sérfræðingum svolitlum vandkvæðum að vita það ekki. Sumir karlar með lítið magn af testosterone karlhormónum eru í fullu fjöri á meðan aðrir með mikið af þeim eiga í erfiðleikum með að ná fullri reisn en þar geta komið til ýmsar ástæður eins og líkamlegt og andlegt ástand viðkomandi.  

Í kringum fimmtugt eru líklega flest börn farin að heiman og menn og konur kannski aldrei fjörugri þar sem vitað er að lítil hætta er á þungun (ef konurnar eru komnar á breytingaskeiðið og blæðingar hættar) En á sama tíma eru kvenhormónarnir að minnka í líkamanum hjá konum sem aftur hefur áhrif á kynlöngunina og allskonar vandamál geta komið upp. Þurrkur í leggöngum, svitaköst, kvíði, aukin þyngd og svefnvandamál eru ekki líkleg til að auka á kynlöngunina og þó að andinn sé viljugur þá er líkaminn það kannski ekki þegar líðanin er ekki góð.

Samkvæmt John Hopkins stofnuninni tilkynna ca þriðjungur kvenna á breytingaskeiðinu um vandkvæði  í kynlífinu. Kvartanirnar eru allt frá því að þær hafi bara ekki áhuga á kynlífi yfir í að þær fái ekki lengur fullnægingar. Að auki geta bæst við hinir ýmsu líkamlegu kvillar og veikindi sem fólk á þessum aldri finnur fyrir sem geta einnig dregið úr kynlönguninni.

Annað sem oft gerist á þessu aldursskeiði er að samlífið verður ekki eins ánægjulegt og það var áður vegna þessara vandamála eins og t.d. þurrks í leggöngum hjá konum og ristruflunum hjá körlum og þetta skilar sér líklega í þeim tölum sem sýna að 50 prósent kvenna á sextugsaldrinum stundar enn kynmök en á sjötugsaldrinum eru það aðeins um 27 prósent sem enn eru til í tuskið.

Ég á nú bágt með að trúa þessum tölum þar sem ég þekki nú nokkuð margar á þessum aldri sem enn eru í fullu fjöri, en kannski eru íslensku valkyrjurnar bara bestar í heimi í þessu eins og öllu öðru.

Eða leitum við kannski frekar leiða til að gera kynlífið ánægjulegra á þessu aldursskeiði en konur í öðrum löndum? Eða eigum kannski meiri nánd með mökum okkar, kaupum okkur kynlífstæki, Viagra og sleipiefni og nýtum allt það sem nútímatæknin býður uppá?

Hvað veit ég, en hitt veit ég að í flestum tilfellum má finna leiðir til að gera kynlíf ánægjulegt og þá er sama á hvaða aldri þú ert.

Sumum pörum finnst svo bara allt í lagi að þau séu ekki jafn fjörug og áður eftir fimmtugt, en njóta þess í stað betur að vera saman, hlæja saman og kúra uppi í sófa með kertaljós og músík á fóninum eða kjósa að taka góða göngutúra úti í náttúrunni fram yfir það að eiga mök. Og það má.

Svo eru það pörin sem vilja eiga gott og gjöfult kynlíf allt sitt líf og vita að það þarf að finna nýjar leiðir til að það geti orðið eftir ákveðinn aldur.

Þau gera sér grein fyrir að með aldrinum breytast hormónakerfin þannig að það verður erfiðara að ná fullnægingu þar sem blóðflæðið hefur breyst og nær ekki jafn auðveldlega til örvunarsvæðanna. Þannig að þau vita að það þarf lengri forleik og örvun á þau svæði þar sem dregið hefur úr blóðflæðinu til að fullnæging geti átt sér stað.

Að hafa góða orku, eiga góðan svefn, hreyfa sig og borða vel er lykillinn að góðu kynlífi eftir breytingaskeið beggja kynja þannig að við þessar hundleiðinlegu sextugu gerendameðvirku konur (og líklega jafn hundleiðinlegir karlar) höfum fullt af lausnum sem geta fært okkur gott kynlíf og ekki síður gott líf þegar tekið er tillit til þess að við höfum náð ákveðnum þroska og lítum lífið kannski öðrum augum en við gerðum fyrir einhverjum áratugum síðan.

En líklega höfðu þessar konur sem ég hlustaði á sem ung kona haft fullkomlega gildar ástæður fyrir því að hlakka til að setjast í helgan stein og losna undan þurrum leggöngum með tilheyrandi sársauka við samfarirnar. Það var kannski engin furða að karlinn væri litinn illu augnaráði ef hann vogaði sér að hrófla við þeim því að ekki voru miklar upplýsingar um málefnið á netinu á þeim tíma og líklega lítið um sleipiefni og kynlífstæki. 

þannig að þær undu sér bara vel við sjónvarpið og súkkulaðið og hleyptu engum að sér nema þá  í nokkurra metra fjarlægð og misstu þar með af því sem hefði getað orðið ánægjulegra kynlíf en þegar þær voru ungar með húsið fullt af börnum.

Að lokum langar mig að segja við okkur öll, njótum bara lífsins dag hvern og sættum okkur við að breyting í lífinu er líklega það eina sem er öruggt að muni eiga sér stað og já í þessum málum eins og mörgum öðrum, og við þurfum bara að læra að dansa nýja dansa eftir því hvernig takturinn í músíkinni breytist.

Þar til næst elskurnar mínar þá er ég bara einni tímapöntun í burtu ef þið þarfnist aðstoðar minnar við ykkar lífsins málefni.

Xoxo

Ykkar Linda

Linda Baldvinsdóttir

Lifecoach og samskiptaráðgjafi

linda@manngildi

 

 


Um bloggið

Linda Baldvinsdóttir

Höfundur

Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Apríl 2022
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ..._s4i6862_2
  • ...0eaf470d6_2
  • ...98009927331
  • pistill mynd
  • 15608665 10210640975833107 554134899 o

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.7.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband