28.5.2015 | 23:54
Hugleiðingar Lindu: Speki Bangsimons
Bangsimon og hans vinir eru ótrúleg uppspretta visku. Visku sem er samt svo afar einföld í sjálfri sér.
Kærleikurinn streymir fram í einföldum setningum sem þó gefa svo mikið. Hér í lokin fylgir listi af setningum Bangsimon og félaga hans sem ég þýddi af netinu.
Bara ef lífið gæti verið svona einfalt og fallegt eins og í ævintýrunum :)
Og kannski væri það þannig ef við leyfðum okkur að skoða það frá því sjónarhorni. Ef við gætum hugsað okkur að sleppa öllum merkimiðum á fólk og aðstæður lífsins.
Ef allt sem við upplifðum og fengjum til úrlausnar væri liður í að fullmóta hina stóru mynd eilífðarinnar og ef við tryðum því að allt samverkaði okkur hvort sem er til góðs á endanum, held ég að við ættum að geta sleppt merkingunum auðveldlega.
Ef við gætum svo bara óskað öllum góðs í öllum aðstæðum þar að auki, reydnum síðan jafnvel að sjá að allir sem snert hafa líf okkar með góðum eða slæmum hætti höfðu og hafa hlutverki að gegna í að búa til okkar fullkomnu fallegu heildarmynd væri lífið svo miklu léttara og táradalirnir sem við færum í gegnum mun færri.
Yndisleg tilhugsun að ná þessum stað. Ekki vænti ég þess að það sé auðvelt, þekki sjálfa mig að minnsta kosti það vel að ég veit að það er það ekki þannig fyrir mig. En held samt að það sé þess virði að gera tilraun með þetta.
Brostnar vonir, biturleiki og hatur yrðu líklega á bak og burtu í lífum okkar ef við næðum þessu, jákvæðnin og kærleikurinn streymdi líklega frekar frá okkur í allar áttir og jákvæðnin væri yfirflæðandi með tilheyrandi boðefnaframleiðslu sem gerir öll þunglyndis og kvíðalyf ónauðsynleg.
Ég velti því líka fyrir mér hvernig heimurinn allur væri öðruvísi ef við gætum litið á lífið í gegnum þessi gleraugu.
Væru styrjaldir og valdagræðgi enn til staðar? væri ill meðferð enn til staðar á samferðafólki okkar? Væri til hungur, fíknir, fangelsi, gerendur,fórnarlömb?
Leyfum okkur að velta þessu aðeins fyrir okkur...
Mín skoðun er sú að ekkert af þessu væri til.
Ég trúi því hins vegar að það yrði loksins til paradís á jörðu og að allir yrðu sáttir og glaðir eins og í ævintýrunum.
Kannski er þetta barnalegt viðhorf hjá mér og rökhyggjuleysið algjört, en ég trúi því samt af einlægni hjarta míns að þetta gæti verið með þessum hætti, og dæmi mig svo hver sem vill.
Held að það gerði okkur ekkert annað en gott að taka stundum þessi ævintýri og sakleysið sem þar finnst okkur til fyrirmyndar.
Skoðum aðeins lífsspeki Bangsimons og félaga hans aðeins hér í lokin :)
1. Grislingur: "Hvernig stafar þú ást"? Bangsimon: "Þú stafar hana ekki, þú finnur hana".
2. "Þú ert hugrakkari en þú heldur. Sterkari en þú lítur út fyrir að vera, og gáfaðari en þú heldur".
3."Þau atriði sem gera mig öðruvísi eru þau atriði sem gera mig að mér"
4. "Ef að persónan sem þú ert að tala við virðist ekki vera að hlusta sýndu þá þolinmæði. Það gæti einfaldlega verið að hún væri með kusk í eyranu"
5. "Ef sá dagur kemur einhverntíman að við getum ekki verið saman, haltu mér þá samt í hjarta þínu, og ég mun dvelja þar um eilífð"
6. "Um leið og ég sá þig vissi ég að ég væri að fara að upplifa ævintýri"!
7 "Stundum eru það litlu atriðin sem taka mesta rýmið í hjartanu"
8. "Sumu fólki þykir of vænt um aðra. Ég held að það kallist ást"
9."Árnar vita þetta: Það liggur ekkert á, við náum þangað einn daginn"
10."Ef þú lifir í hundrað ár vil ég lifa í hundrað ár mínus einn dag, svo að ég þurfi aldrei að lifa án þín"
11. "Illgresin eru líka blóm, þegar þú ferð að skoða þau"
13. "Þú getur ekki staðið úti í horni í skóginum og beðið eftir því að aðrir nálgist þig. Stundum þarft þú líka að fara til þeirra".
14. Lofaðu mér því að gleyma mér aldrei, því að ef ég héldi að þú gleymdir mér færi ég aldrei í burtu"
15. "Smá tillitsemi, smá umhugsun um aðra, breytir öllu".
16. "Dagur án vinar er eins og pottur sem inniheldur ekki dropa af hunangi"
17. "Ástin kallar á að þú takir nokkur skref til baka, jafnvel mörg. Til að rýma fyrir veg hamingjunnar fyrir þá persónu sem þú elskar"
18. "Dagur sem ég ver með þér er minn uppáhaldsdagur. Þannig að í dag er minn uppáhaldsdagur.
19. "Hversu heppinn er ég að eiga eitthvað sem gerir það svo erfitt að kveðja og segja bless"
Með þessum orðum A.A.Milner segi ég bless í bili, bið ykkur blessunar og glimmerstunda alla daga lífs ykkar. Þakka öllum sem hafa snert við lífi mínu á góðan og slæman hátt, þið eruð dýrmæt í samhengi stóru myndarinnar minnar.
Þar til næst
xoxo
Ykkar Linda
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.5.2015 | 19:28
Hugleiðingar Lindu: þekking og viska
Oft finnst mér við vera á svolitlum villigötum hvað varðar lífið og tilveruna almennt, og gefum stundum of mikið vægi því sem skiptir minna máli en margt annað.
Þekking og kunnátta eru á meðal þeirra atriða sem ég tel að hafi fengið of mikið vægi í heiminum á kostnað viskunnar.
Ekki heyra það sem ég er ekki að segja, þekking er æðisleg í alla staði, rannsóknir eru góðar og nýtar til ýmissa verka, og menntun nauðsynleg.
En þekkingin. ef við notum hana ekki viskulega getur valdið meiri skaða en gæfu. Þegar þú veist en framkvæmir ekki samkvæmt þekkingu þinni í þinum málum ertu ekki að nýta þér visku þekkingarinnar.
Rannsóknir eru góðar en geta þó aldrei gefið fulla og heila mynd af neinu nema þeim spurningum sem teknar eru fyrir í þessum tilteknu rannsóknum. Enda sjáum við að það sem var óhollt og eitrað í gær er orðið að súperfæðu í dag, samanber beikonið góða og fleira.
En rannsóknir hafa líka bætt verulega heilbrigðiskerfið okkar og fleiri hliðar lífsins, svo ekki heyra það sem ég er ekki að segja. Þekking er góð, en hún er ekki allt.
Innsæinu okkar og tilfinningum hefur verið gefið of lítið pláss í heimi þekkingarinnar. Það sem við höfum ekki getað sannað með rannsóknum álítum við vera rugl og bull, en mín trú er sú að við eigum bara eftir að finna upp tæki og tól sem geta sannað tilvist þekkingar hjartans og sálarinnar. Trú á Guð. að draumar geti táknað eitthvað og það "að hafa eitthvað á tilfinningunni" er álitið rugl í klikkuðum kerlingum sem hafa ekkert betra við tíma sinn að gera af mörgum, allt of mörgum reyndar, og vísindahyggja okkar blindar sýn á þessa hluti tilverunnar.
Ég reyndar elska vísindin, því að vísindin eru alltaf að færast nær því að sjá það að þekking okkar er í raun í molum, og að það er mjög margt sem við skiljum bara alls ekki. Þau hafa sýnt okkur fram á ótrúlegan alheim sem virðist þenjast út og vera í stöðugri sköpun og þróun, þau hafa sýnt okkur fram á tilvist atóma, frumna og fl.. Þau hafa fundið vírusa og bakteríur, og ekki bara það heldur fundið upp lækningu við mörgum sjúkdómum sem fyrir ekki svo löngu síðan urðu mörgum að aldurtila. Vísindin hafa líka komist að því að trúin flytur fjöll samanber placibo áhrifin alþekktu.
Vísindin eru í stöðugri spennandi þróun sem vera ber, og munu líklega komast á þann stað að vita að ekki aðeins er líkami, andi og sál tengdur órjúfanlegum böndum heldur erum við öll tengd hvort öðru og Guði sjálfum. Ég las merkilega grein um það hvernig frumbyggjar Ástralíu flytja fréttir á milli sín huglægt og einnig grein sem fjallaði um að núna væru vísindin að uppgötva að hjartað væri líklega stöð tilfinninganna en ekki heilinn, og þriðja greinin talar mikið um orkuna á milli frumnanna sem virðist vera aflið sem stjórnar starseminni..Hvaða afl skildi það nú geta verið ;) Ég horfði á myndband um þekkingu versus visku sem fangaði huga minn, og gaf ég mér leyfi til að þýða það sem þar kom fram.
"Þekking er að safna gögnum og rannsaka upplýsingar, viskunnar er að greina, skilja og nýta sér gögnin.
þekking er að vita hvað hlutirnir eru, en viskunnar að vita þýðingu þeirra.
þekkingin er ein vídd, en viskan margar.
þekkingin er textinn, en viskan er innihald textans.
þekkingin leitar að púslbrotunum, en viskan er sú sem raðar þeim saman.
þekkingin er lærð og er í stöðugri þróun, en viskan er upplifunin og staðfæringin.
þegar þú leitar að þekkingunni spyrðu spurninga eins og "eru þessar upplýsingar gildar?
en viskan segir, "ég vissi þetta allan tímann"
þekking er án tilfinningatengsla, viskan er hinsvegar full af ástríðu og tilfinningum.
þekkingin talar, en viskan hlustar.
þekkingin efast um spurninguna, en viskan um spyrjandann,
þeir segja að þekking sé vald, en ég segi, viskan er kærleikur
þekking örvar hugann, en viskan hjarta okkar og sál ( tekið og þýtt frá "seeds of wisdom")
Eins og sést á píramídanum hér fyrir neðan eru það gögnin og upplýsingarnar sem koma fyrstar, síðan skilningurinn og að lokum viskan sem nýtir sér þekkinguna til gangs fyrir mannkynið.
Ég vona að þessi ræða mín hvetji okkur öll til að nýta okkur viskuna betur með þekkingunni í framtíðinni, sleppum hrokanum og munum að við höfum aðeins fundið sannleika, en ekki allan sannleikann. Eigum víst langt í land með það að hafa öll púslin í þeirri leit :)
xoxo
Ykkar Linda
4.5.2015 | 14:25
Hugleiðingar Lindu: Sköpum okkur líf í gleði og hamingju
Ég sá myndband á youtube um daginn sem fjallaði um hamingjuna.
Þar var sagt að hamingjan fælist í hundruðum augnablika sem við þyrftum að njóta og mynda þannig heildarmynd góðs lífs. Það tel ég vera afar mikilvægt, því að lífinu er bara lifað með einni stund í einu, og það er eina stundin sem við eigum. Hvað morgundagurinn ber í skauti sér er einfaldlega ekki vitað, né heldur hvort við eigum hann yfir höfuð.
Þessi lífsmynd sem við byggjum smá saman upp, samanstendur af árangrinum sem við höfum náð í lífinu, samskiptum okkar við aðra, og allri lífsreynslunni sem við berum í bakpokanum okkar.
Það sem mér þótti hinsvegar áhugavert í myndbandinu var nálgunin sem þar var sett fram. Þar var sagt að hamingjan fælist helst í því að lifa góðu, fallegu og innihaldsríku lífi þar sem þrír þættir skipa öndvegið.
Þeir þættir eru, sköpun, samskipti og samhygð.
Mikið er ég sammála þessu, því að þessir þættir ef þeir eru í jafnvægi, gefa okkur virði okkar og gleði.
Sköpunin kemur okkur í blússandi flæði þar sem við gleymum yfirleitt stund og stað, og við dveljum í gleði ímyndarheims okkar. Að búa til gleðistundir með sjálfum sér og öðrum er ómetanlegt, og skilur eftir sig dýrmætar sætar minningar, hlátur og gleði (taktu myndir)
Samskiptin eða sambönd þau sem við eigum við maka, börn, vini og samstarfsfélaga veita okkur fullnægju og næringu ef þau eru góð, en óhamingju ef þau eru slæm.
Eins ef við eigum ekki góð og heilbrigð samskipti við aðra erum við einmanna og ófullnægð, og okkur finnst lífið þá afar snautlegt og lítils virði oft á tíðum.
Svo erum við líka 30 sinnum líklegri til að hlæja í félagsskap með öðrum en ein, og hláturinn lengir víst lífið :)
Síðast en ekki síst býr hamingjan helst í hjarta sem er fullt af hlýju og umhyggju fyrir sjálfum sér og öðrum, og merkilegt nokk, koma bestu stundir lífsins frá þeirri athöfn að gefa af sér. Og það er svo sannarlega margt sem við getum gefið af okkur. Peninga, tíma, hlustun, umhyggju, kærleika og uppbyggingu svo eitthvað sé nefnt.
En það dýrmætasta sem við getum þó gefið öðrum að mínu mati er að gefa þeim tækifæri á því að uppgötva og finna virði sitt og sérstöðu hér í heimi.
Bjútíið við það að gefa af sér með þessum hætti er að við fáum það svo margfalt til baka í boðefnaflæði sem býr til hamingju, gleði og hækkar sjálfsmat okkar um mörg prósent. Vel þess virði ekki satt? :)
En helsti óvinurinn sem heldur okkur frá þessu öllu er óttinn...
Óttinn við höfnun,óttinn við skort, og óttinn við tap af einhverju tagi. En tökum skrefin inn í óttann okkar, það er mikils virði og er í raun það sem byggir helst upp góða sjálfsmynd. Svo látum óttann ekki halda okkur frá því besta sem lífið hefur að bjóða.
Verum bara góð hvert við annað, og finnum hvernig hamingjan fer af stað og streymir um æðar okkar. Byggjum hvert annað upp með fallegum orðum og gjörðum, því að við erum svo nauðsynleg hvert öðru, en gleymum því gjarnan í streitusamfélagi nútímans...
Ást og friður
xoxo
Ykkar Linda
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Linda Baldvinsdóttir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (12.9.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar