18.5.2016 | 21:15
Hugleiðingar Lindu: Systur stöndum saman!
Mér var boðið að tala á kvennaráðstefnu um daginn og ákvað í framhaldi af því að birta eitthvað af því sem ég talaði um þar í pistli hér. Reyndar er eitthvað af því sem er skrifað hér tekið úr pistli sem ég skrifaði í fyrra en hefur nú fengið framhald sitt hér.
Ég ætla að byrja á orðum sem ég sá á netinu.
Systur eru Þær:
sem fá fötin okkar lánuð,
stela makeupinu frá okkur,
geyma leyndarmálin okkar ,
eru stundum svarnir óvinir okkar en oftast samt okkar bestu vinir .
Blaðra endalaust um allt og ekkert tímunum saman,
Þær eru flottar, sætar, stjórnsamar, kjánalegar, pirraðar
rífast stundum yfir engu,
upplifa draumana saman og styðja hvor aðra í að ná þeim,
þær geta verið algjör hausverkur, óþolandi, prinsessur.
en,
ég elska þær, sakna þeirra, stríði þeim, knúsa þær, hugsa til þeirra því að þær eru fjölskylda mín og þær skipta mig afar miklu máli,
Hvar væri ég án þeirra?
Ég hef svo sannarlega fengið að kynnast því hversu dýrmætt það er að eiga sér systur en samt á ég engin blóðsystkini :)
Ég ólst upp úti á landi og þó að ég væri einkabarn var ég umkringd systradætrum mömmu og þær voru kannski fyrstu systurnar sem ég átti.
Ég tók við fötunum af þeim þegar þau voru orðin of lítil á þær, ég lærði að verða skvísa af þeim og ég lærði líka ýmsa ósiði af þeim. Að standa úti í sjoppu með einni þeirra á táningsárunum púandi síkarettur og alveg örugglega með augnskugga upp um allt var eitt af því sem ekki var svo smart að læra,en mér þótti ógnar vænt um þær og við áttum yndisleg samskipti og vináttu í hinum ýmsu aðstæðum.
En ég hef fengið að kynnast fleiri systrum á lífsleiðinni og tel það svo sannarlega vera mín forréttindi að hafa átt margar og góðar systur í vinkonum mínum og öðrum konum sem ég hef kynnst, því að það hafa verið þær sem hafa stutt mig, annast og lyft mér upp þegar ég hef legið í dalnum og lífið hefur verið ósanngjarnt og vont að mínu mati. Á þeim stundum hafa það verið systur mínar sem hafa lagt það á sig að gefa mér tíma, þær hafa myndað múra í kringum mig, stutt mig, beðið fyrir mér, annast mig og gefið mér orð til uppbyggingar þegar ég er á hnjánum og á ekki von á því að lífið hafi uppá neitt að bjóða. Þær hafa fært mér súpuna þegar ég hef legið veik, barist fyrir mig þegar óvinir hafa ásótt mig og þegar ég er einmanna er ekkert betra en símtal eða heimsókn frá einhverri af mínum systrum.
Engin okkar kemur með manual með sér hingað og allar gerum við mistök á þessari leið...En það veit Guð að þær systur sem ég hef fengið að kynnast eiga flestar svo fallegan og dýrmætan kærleikskjarna sem þær eru í flestum tilfellum óhræddar við að deila með öðrum og eru bara svo stórkostlegar og sterkar að mínu mati.
Ég hreinlega elska það að geta hjálpað systrum mínum að finna lífsfarveg sem þær vilja ganga, að breyta gömlum og úreltum gildum til að ná á draumastaðina sem þær svo sannarlega eiga skilið að fá að ná í gefur mér gleði og ánægju, og að hjálpa konum að rísa upp frá stað veikleikans til staðs styrkleika í lífum sínum veitir mér sérstaka ánægju verð ég að segja.
Ég hef sem betur fer fengið mörg tækifæri til þess að sjá systur mínar vakna til vitundar um virði sitt og séð þær fara frá skömm til sjálfsvirðingar. Ég hef líka séð systur mínar vaxa frá vondum samböndum og verða sterkari en nokkru sinni fyrr. Ég hef séð þær sömu systur verða öðrum til blessunar, hvatningar og stuðnings eftir það, og fátt gleður mitt markþjálfahjarta meira en það.
En í fyrra fékk ég svo upphringingu sem gaf orðinu systir allt aðra og dýpri þýðingu en ég hefði getað ímyndað mér að þetta orð gæti haft
Þessi upphringing var frá æskuvinkonu minni sem er búin að vera með mér á þessari vegferð í tæp 50 ár núna eða frá því að við byrjuðum í skóla. Þetta símtal hljómaði eitthvað á þessa leið...Hæ elskan, ætlaði bara að láta þig vita hvað kom út úr læknisrannsókninni sem ég fór í...þeir fundu æxli í nýranu´á mér og það á að fjarlægja það í næstu viku
Svo sannarlega ekki símtalið sem mig langaði að fá, og ekki þær fréttir sem þessi systir mín hefði átt að fá að mínu mati. Þessi yndislega vera sem var búin að fá svo mörg lífsverkefni upp í hendurnar átti bara skilið glimmer og gleði lífsins það sem eftir væri, og það átti svo sannarlega að vera löng ævi sem framundan væri.
Við áttum eftir að gera svo margt saman og það allt rann fram í huga minn á þessari stundu og mér fannst Guð ekki sanngjarn ákkúrat þarna.
En eins og alltaf hef ég séð að allt, ekki bara sumt samverkar okkur til góðs og einnig í þessum aðstæðum gerðist það.
Þetta varð wakeup call bæði fyrir hana og fyrir mig.
Og sem betur fer virðist hún ætla að sleppa vel eða ég krossa amk putta og vona að hún fái áframhaldandi fallegar fréttir úr rannsóknum þeim sem hún fer í ...en lærdómurinn sem þetta færði okkur er líklega ómetanlegur...Við lærðum hvað orðið systir táknaði
Við gátum í fyrsta sinn grátið saman og sagt hvorri annarri hversu heitt við elskuðum hvor aðra þó að við hefðum svosem grátið saman við hin ýmsu tækifæri þá grétum við þarna vegna þess að að við vissum hversu dýrmæta og fallega vináttu við áttum, og eins höfðum við ekki talað mikið um það hversu mikið við mátum hvor aðra og hversu mikla virðingu við bárum fyrir hvor annarri,hversu mikils virði öll þessi ár hefðu verið fyrir okkur báðar.
En þarna fundum við að við höfðum staðið vörð um hvor aðra öll þessi ár og verið til staðar.
Mér þótti svo vænt um þegar hún í eitt skiptið eftir að við höfðum opnað okkur svona djúpt sagði við mig orð sem fengu hjarta mitt til að falla saman af auðmýkt...en þá sagði hún. ég horfði á þig tala upp á sviði um daginn og ég fann hvað ég varð ofboðslega stolt af þér og hversu heitt ég elskaði þig þessum orðum mun ég seint gleyma vegna þess að þau glöddu mig svo afar mikið, þau voru svo einlæg að ég gat ekki annað en fundið fyrir auðmýkt þess sem veit að hann er umvafinn kærleika...Þannig kærleika geta líklega einungis systur sem farið hafa saman langa vegferð gefið hver annarri.
Við höfðum brallað margt saman þegar við vorum yngri, og við eigum óteljandi margar minningar frá misgáfuðum stundum. Vorum í skóla saman, unnum saman í fiskinum öll unglingsárin, hörkuduglegar báðar tvær. Fermdumst saman, hlógum þessi lifandis ósköp í þeirri athöfn og urðum foreldrum okkar líklega til skammar. Fórum saman í útilegurnar í Atlavík, Reykjavíkurferðirnar og vorum saman öllum stundum. Rifumst og töluðumst ekki við í einhverja daga, en alltaf fundum við lausn á þeim málum. Eignuðumst börn og mann á svipuðum tíma og vorum saman í saumaklúbb. Ekki hefur þetta breyst eftir að við fullorðnuðumst, við eigum ennþá þessa fallegu vináttu sem ekkert fær haggað.
Ég var viðstödd tvær fæðingar hjá henni, var skírnarvottur barna hennar, en fylgdi því miður elsta barni hennar til grafar, einnig þar vorum við saman og tókumst á við það í sameiningu.
Ég var einnig við hlið hennar þegar hún tók þá ákvörðun að fyrirgefa manni þeim sem varð valdur að dauða sonar hennar og þar kom best í ljós hvaða karakter þessi fallega og yndislega systir bjó yfir.
Ég gleymi ekki orðum hennar þegar hún sagði við mig eftir að hafa tekið utan um mann þennan Það var svo gott að finna hvað hann átti til blítt faðmlag voru þau orð. Orðið fyrirgefning fékk algjörlega nýja merkingu í mínum huga eftir þessa stund.
Við höfum einfaldlega gengið í gegnum þetta líf saman í einingu og kærleika og erum í dag eins og gömul hjón. Við getum setið saman heilu kvöldstundirnar án þess að segja orð, nærveran okkur einfaldlega nægjanleg. Hún veit mín leyndarmál og ég hennar, hún veit oft hvernig mér líður án þess að ég þurfi að segja orð, og ég veit líka ef eitthvað er ekki eins og það á að vera hjá henni. Hún veit hvað mér þykir gott að borða góðan mat og dekrar mig oft þar. Hún veit líka að vöðvabólgan er oft að drepa mig, og hún nuddar háls minn og herðar og þekkir öll mín aumustu svæði án þess að ég þurfi að segja henni hvar þau eru. Ég veit líka hvernig ég gleð hana mest og best og veit að fátt gleður hana meira en að fá að vita að hún sé mér afar kær og að ég muni aldrei yfirgefa vináttu okkar sama hvert lífið leiðir mig.
Hún hefur verið vitni að mínu lífi og ég að hennar. Vinátta sem mun aldrei slitna og verður til staðar í gleði okkar og sorg.
Sorgin sem ég fann fyrir þegar ég fékk þetta símtal var einmitt vegna þess að það er svo sárt að vera minntur á að þeir sem við höfum haft sem vitni að lífum okkar og við höfum elskað, verða kannski ekki alltaf til staðar til að vitna það. Dauðleiki okkar sjálfra verður einnig svo raunverulegur á þessum stundum.
Að gleðjast saman, gráta saman, vera saman, standa saman og mynda einingakeðju þegar stormurinn geisar og vefja með öllu þessu keðju minninga sem verður svo dýrmæt að ekkert fær hana rofið, ekki einu sinni dauðinn sjálfur er gjörsamlega ómetanlegt að mínu mati.
Ég hugsa að það séu margir sem eiga auðvelt með að skilja hvað ég er að tala um og finni jafnvel hryggð í hjarta sínu við orð mín.
En við getum svo sannarlega glaðst ef við eignumst þó ekki sé nema eina slíka systur á lífsveginum því að þetta er dýrmæt lífsgjöf sem ber að meta með gleðina að mælistiku.
Systrasamband er dýrmætara en flest annað. Og það er kærleikur ykkar til hverrar annarrar sem gefur lífinu svo sannarlega að miklum hluta gildi sitt og virði.
Ég óska ykkur elsku systur gleði, glimmers og brilliant stunda þar sem þið finnið lífstilgang ykkar og ykkar einstaka hlutverk, ykkur og öðrum til gagns og hamingju.
xoxo
Ykkar Linda
linda@manngildi.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.5.2016 | 15:21
Hugleiðingar Lindu: Afhverju var Jón Gnarr með varalitinn?
Í viðtalinu Hryðjuverkamaður í karlaveldinu sem birtist í tímaritinu "Byltíngur" tímariti heimspekinema við Háskóla Íslands, talar Jón Gnarr um upplifun sína af því að vera karlmaður með mjög kvenlægan heila, og á vissan hátt kelling í karlmannslíkama.
Mér fannst þetta viðtal afar áhugavert, hugleiddi það um stund og ákvað að það ætti kannski vel heima hér í pistlunum mínum, þó að þetta séu ekki mínar eigin hugleiðingar þá fékk ég í raun nýja sýn á Jón Gnarr verð ég að segja, þannig að ég fór af stað og fékk góðfúslegt leyfi til að taka valda kafla úr viðtalinu til að birta. Ekki er nóg með að Jón Gnarr sé í liði með okkur konum í okkar endalausu baráttu við karlaveldið og æskudýrkun þjóðfélagsins heldur telur hann einnig að góð samskipti séu það sem mestu máli skiptir í dag, og ein af hans uppáhaldsmanneskjum er sjálf Oprah Winfrey sem er einnig í miklum metum hjá mér.
En snúum okkur að viðtalsbrotunum (ekki kannski alltaf það orðaleg sem ég nota hér í mínu bloggi, en svona erum við misjöfn):)
Ég lít út eins og þeir, segir Jón. Ég er með typpi eins og þeir og ég labba frjálst á meðal þeirra. Ég get smeygt mér inn á milli þeirra, því ég er einn af þeim. Og þeir kinka kolli, eins og dyraverðirnir, skilurðu? Og afþví að ég hef karlmannsrödd, þá hlusta þeir þegar ég tala, sem þeir myndu ekki gera ef ég væri kona. Svo fer ég og kem mér fyrir einhvers staðar á stað sem þeim finnst merkilegur og ég afhelga hann. Ég nota sjálfan mig sem persónugerving karlmennsku, eða hins karllæga valds, sem mér finnst ofsalega gaman. Georg Bjarnfreðarson er persónugervingur karlægs valds og ég ridiculea það. Maður gerir það aldrei betur en með því að kvengera það, því að niðurlægingin getur ekki orðið meiri. Þú getur verið vitlaus og þú getur ekki vitað hluti og svona, sem mér finnst ógeðslega gaman. Ég sit sem borgarstjóri í Reykjavík og ef ég er spurður að einhverju og ég veit það ekki, viðurkenni ég það. Það er ekki bara ég, einstaklingurinn, sem er að viðurkenna það. Ég er fulltrúi karlaveldisins. Það fer ekki eins í taugarnar á konum. Konum finnst það bara sætt, eða flestum konum finnst þetta bara krúttlegt, að sjá menn viðurkenna að þeir skilji ekki allt og viti ekki allt. Þær eru bara vanari hinu. En þeir sem munu hrökkva við eru hinir, skilurðu? Hvernig getur þetta gerst? Hverju breytir þetta fyrir mig? Hættir fólk nú að taka mark á mér? og alls konar svona. En þegar þú tekur það síðan upp að klæða þig í kvenmannsföt og actually verða, líkamnast sem kona, þá fullkomnar þú niðurlæginguna. Þannig lýsir Jón ástæðum þess að hann mætti oft varalitaður á borgarstjórnarfundi, stundum naglalakkaður líka, þegar hann var borgarstjóri, en útskýrir síðan að persónulegri ástæður hafi einnig búið þar að baki.
Og þetta er líka svolítið tengt mér, svona persónulega, afþví að mamma mín dó bara rétt eftir að ég varð borgarstjóri, segir Jón. Hún dó bara á jólunum, fyrstu jólunum. Og það sem ég vildi fá eftir mömmu mína var öskubakkinn hennar og varaliturinn hennar. Þannig að ég hafði engan tíma til að, þú veist, einhvern veginn sygrja mömmu mína, nema bara on the side á meðan maður var að búa til fjárhagsáætlun eða mæta á einhverja leiðinlega fundi með einhverjum íþróttafélögum eða láta eitthvað fólk öskra á sig. Þannig að ég syrgði mömmu bara, eða tók bara mómentin mín inni á klósetti eða bara lítið breik heima áður en ég fór að sofa. Ég bara tók þetta út í smá skömmtum. Ég fann líka fyrir því að það voru ákveðin öfl sem vildu nota þetta gegn mér. Jón útskýrir að ákveðnir aðilar úr hópi andstæðinga hans hafi ætlað sér að nýta tækifærið til að brjóta hann niður kerfisbundið. Og á tímabili þá notaði ég varalitinn hennar mömmu, segir Jón. Ég mætti á fundi, sem sagt, með íþróttafélögum og svona. Líka til að mótmæla að þið eruð að taka frá mér að fá að syrgja mömmu mína. Þannig að ég var að reagera gegn því.
Jón segir samfélagið þjakað af karllægum hugsunarhætti. Konur og allt sem samfélagið tengir því kvenlæga er vanvirt. Þegar kona talar á fundi, segir Jón, dettur hlustun niður um 50-60%. Jón tekur tískuna sem dæmi. Afþví að hún er kvenlæg er tískan álitin ómerkileg, en í raun og veru er tískan merkileg og getur jafnvel bjargað mannslífum. Máli sínu til stuðnings vitnar Jón í sögu úr dagbók bresks hermanns frá því í seinni heimsstyrjöldinni. Það varð misskilningur og það kom flutningabíll með varaliti í staðinn fyrir mat, segir Jón. Þetta er úr dagbók hermanns, bresks hermanns, sem var þarna. Fyrstu viðbrögð voru vonbrigði hermannanna að sjá að það hefðu orðið einhver mistök. En viðbrögð fanganna, sérstaklega kvenfanganna, voru gleði, og þær hlupu til og náðu í varalit. Varalitur var ekki bara, sem sagt, eitthvað til að punta sig. Konurnar blóðguðu sig og báru á varirnar til að sýna að þær væru hraustar og gætu unnið og færu ekki í gasklefann. Skilurðu? Það gefur varalit allt í einu nýja, merkilega merkingu. Þær nudduðu blóði á varirnar, þannig að: Sko, ég er hraust, það þarf enginn að drepa mig. Hann lýsir þessu fallega, hvernig þær öðlast mennskuna sína aftur í gegnum þá.
Já tískan getur greinilega stundum bjargað mannslífum og svo sannarlega veit ég að við finnum oft mennskuna okkar í gegnum hana og speglum oft þá persónueiginleika með tískunni sem við viljum svo gjarnan að fólk sjái að við höfum til að bera. Mér leið eins og að við konur ættum kannski okkar dyggasta bandamann í Jóni Gnarr þegar ég las þessi orð hans hér á undan.
En aftur að viðtalinu og tali um tísku og Oprah Winfrey:
Jón segir samfélagið eiga í einkennilegu sambandi við tískuna: Við lítum niður á það sem er kvenlegt. Svo skömmust við okkur fyrir það. Þannig að við snobbum fyrir því í staðinn. Sérstaklega ef það hefur náð að establishera sig og það er líka ekki alveg alslæmt. Það er líka hluti af einhverju svona heilunarferli. Sjálfur segist Jón bera mikla virðingu fyrir tískunni og gengur svo langt að segja að tískan hafi breytt sér. Hann heldur mikið upp á fatahönnuðinum Vivienne Westwood sem honum finnst meiri pönkari heldur en John Lyndon og söngvararnir í Sex Pistols. Jóns Gnarr segir að draumakvöldverðurinn sinn væri með Vivienne Westwood og Oprah Winfrey, sem er sú manneskja sem hann langar mest að hitta af öllum. Ég held að ég myndi næstum því fara að grenja, ég yrði svo stoltur, segir Jón. Því að Oprah Winfrey er kona í landi sem er andsnúið konum, svört í landi sem er andsnúið svörtum, feit í landi sem fyrirlítur feitt fólk og hún er samt sú sem hún er. Hún fer í gegnum allt sitt. Hún fer í gegnum fátækt, ofbeldi og mismunun, en hún kemst heil í gegnum það. Mér finnst það bara stórkostlegt. Þannig að ég ber mikla virðingu fyrir henni og ég myndi til dæmis vilja að hún yrði forseti Bandaríkjanna, segir hann. Honum finnst það virðingarleysi sem Oprah Winfrey er stundum sýnt gott dæmi um kvenfyrirlitningu samfélagsins."
Að lokum ætla ég að enda þessi innihaldsríku viðtalsbrot með orðum Jóns Gnarr varðandi samskipti og mikilvægi þeirra:
"Að vera sterkur skiptir ekki eins miklu máli lengur. Nú skiptir meira máli að vera klár og það sem skiptir mestu er að vera klár í samskiptum. Það er það sem konur hafa svo gjarnan fram yfir menn.
Þarna get ég ekki verið meira sammála Jóni Gnarr, klárlega eru samskipti það sem mestu máli skipta í því alþjóðlega umhverfi og fjölmenningasamfélagi sem við búum við í dag. Við þurfum að kunna að mæta öllum á jafningjagrunni án fordóma og hverskonar fyrirdæminga. Náungakærleikurinn líklega sjaldan eins mikilvægur og einmitt í dag.
Knús í ykkar hús með von um að þið hafið haft gaman af því að kynnast Jóni Gnarr á örlítið annan hátt en áður, eða kannski er það bara ég sem var að því :)
xoxo
Ykkar Linda
(Viðtalið Hryðjuverkamaður í karlaveldinu í heild má lesa hér: https://issuu.com/byltingur
Ps.Myndinni hér að ofan nappaði ég af facebooksíðu Jóns.
Bloggar | Breytt 12.5.2016 kl. 13:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.5.2016 | 15:01
Hugleiðingar Lindu: Minningar
Það er með einhverjum hætti þannig að þegar maður eldist fara minningar og myndir að skipta meira máli en margt annað. (Tek það fram að ég er samt bara á miðjum aldri og finnst ég ekki vera deginum eldri en 25)
Fjölskylda mín og vinir eru dugleg að segja mér að ég sé myndaóð og setji allt of margar myndir inn á fésbókina og á fleiri staði, en ég brosi bara út í annað og segi fátt, held mínu striki og myndirnar hrannast upp.
Málið er að ég hef upplifað á erfiðum köflum í lífi mínu að gleyma hinum og þessum minningum sem mér þykir afar sárt að hafa misst af harða diskinum mínum en þá koma myndirnar sér svo sannarlega vel.
Um daginn var ég að leita að ákveðinni mynd á fésbókinni og varð hugsað til þess á meðan ég fletti niður myndasíðuna mína að á dauðastund hefur fólk talað um að líf þess renni framhjá á örskotsstundu og þarna fannst mér ég skilja hvað átt er við þar.
Þarna leiftruðu fyrir framan mig gamlar og góðar minningar frá misgáfuðum stundum lífsins. Þarna var einnig misjafnlega innrætt og fallegt fólk sem allt hafði þó á einum eða öðrum tímapunkti snert við lífi mínu og mótað það með mér.
Allir sem inn í mitt líf hafa komið hafa kennt mér lexíur sem ég hef þurft að læra og allt hefur á endanum samverkað mér til góðs, þannig að þegar ég horfi eftir stíg minninganna get þakkað þeim hverjum og einum fyrir að hafa ofið með mér manneskjuna mig.
Þegar ég get þakkað fyrir hvern og einn sem snert hefur við lífi mínu kemst ég frá því að festast í neti reiði, biturleika og óuppgerðra tilfinninga sem ekkert gott gera mér, Hinsvegar gerir það mér gott að hugsa til þess að allir séu settir í minn veg með góðan tilgang fyrir líf mitt þegar heildarmynd jarðvistar minnar verður skoðuð á efsta degi.
En aftur að þessum blessuðu minningum og myndum...
Ég gat semsagt ekki annað en hlegið þegar ég skoðaði þessar blessuðu myndir á fésbókinni. Þarna voru misgáfaðar minningar festar á filmu og jafnvel gamlir kærastar og allskonar vinir sem höfðu gegnt miklu hlutverki í mínu lífi á einum eða öðrum tímapunkti spruttu þarna fram og kveiktu á hinum ýmsu tilfinningum hjá mér. Sumar tilfinningarnar voru afar ánægjulegar á meðan aðrar voru tengdar söknuði eða jafnvel sorg. En allar höfðu þær haft tilgang í að móta mitt líf og mig sem karakter.
Ég uppgötvaði á þessari myndaflettinga stundu að líklega er ekkert dýrmætara til en gamlar myndir og minningarnar sem þeim tengjast. Er afar þakklátt stelpuskott fyrir það að vera haldin þessu myndaæði og ætla að halda ótrauð áfram við myndasmíðina.
Og hver veit nema að mínir afkomendur hafi bara gaman af því að skoða lífsveg minn í framtíðinni :)
Ég hvet okkur öll til að varðveita minningarnar okkar og þakka fyrir þær hverja og eina, og þökkum einnig fyrir það fólk sem tengdist okkur böndum á einum eða öðrum tímapunkti í lífum okkar.
Gleðjumst bara yfir þeim góðu og slæmu lexíum sem gerðu okkur svona gasalega frábær, einstök og full af visku og þekkingu, en biðjum þeim blessunar sem við getum ekki enn sætt okkur við að hafi sært okkur eða gefið okkur bitrar lexíur.
Við breytum víst ekki neinu í fortíðinni því miður, en við getum svo sannarlega skapað okkur framtíð þar sem fortíðin er skilin eftir alein, gleymd og eða í fullri sátt, þar sem hún skemmir ekki flottu drauma framtíðarbygginguna okkar og við getum lifað happily ever after svona næstum því kannski :)
Knús í ykkar hús elskurnar,
xoxo
Ykkar Linda
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Linda Baldvinsdóttir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (10.9.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar