26.5.2020 | 13:03
Ástin og þakklætið eru lyklarnir að kraftaverkum lífsins
Að undanf0rnu hef ég verið að endurlesa og hlusta á það sem vekur gleðina í brjósti mínu og hefur reynst mér best við að koma mér á stað möguleikavíddarinnar kærleikans og gleðinnar, og mig langar að deila með ykkur í dag því sem hefur reynst mér vel til þess.
Við lifum á afar skrítnum tímum og margt sem gengur á í veröldinni og stundum líður okkur ekkert allt of vel með það en ég tel að það séu mörg falin tækifæri í þessari stöðu engu að síður.
Við höfum frá því í febrúar verið að eiga við áður óþekktan vágest sem líklega mun hafa áhrif á efnahag okkar og samfélag til lengri tíma bæði til góðs og ills.
Þrátt fyrir það getum við átt góða og gefandi tíma og í raun nýtt þetta tækifæri til að leyfa mýkri og fallegri hliðum okkar að blómstra samfélagi okkar til góðs. Vonandi tökum við upp umhyggjusamari daglegri framkomu og skiptum henni út fyrir þá hörku sem einkennt hefur þann veraldarheim sem við höfum byggt hingað til og hefur tekið svo mikið frá okkur af því besta sem lífið getur gefið að mínu mati.
En mér til mikillar gleði hef ég heyrt fólk tala um að það ætli að slaka meira á og njóta betur þess sem lífið hefur að gefa í framtíðinni og það er skref í rétta átt. Annað skref í þá átt hefur mér fundist hversu fallegt hjartalag við eigum til náunga okkar á erfiðum tímum og það gladdi hjarta mitt að sjá að við höfum ekki glatað þeim fallega þjóðlega eiginleika.
Gerum það að rútínu og lífsstíl okkar að láta umhyggjuna og kærleikann tala, ekki bara þegar erfiðleikar steðja að, heldur einnig þegar góðir tímar eru - því að það er fullt af fólki sem hefur það ekki svo gott sama hvernig árar í þjóðfélaginu.
En hér koma þau atriði sem hafa reynst mér vel á leið minni og kippa mér til baka á góða staðinn minn:
- Í fyrsta lagi þarf alltaf kærleika og ást til að færa okkur það sem við þráum innst í okkar hjarta. Með því að gefa kærleikanum rými í hugsun, tilfinningum og framkvæmdum okkar og með því að opna fyrir flæði alheimsins geta kraftaverkin svo sannarlega látið sjá sig. Með kærleikanum breytum við orkunni okkar og verðum færari um að taka við því fallega sem lífið hefur upp á að bjóða og eins verðum við færari um að gefa. Með kærleikanum fylgir hamingjan óhjákvæmilega, því að ef við fyllum brjóst okkar af ást til lífsins og okkar sjálfra og dreifum síðan til þeirra sem settir eru í veg okkar fyllum við okkur af hamingjutilfinningunni, og ef við sjáum svo það fallega við allt sem er í þessum heimi eykst hamingja okkar enn meira. Þetta er mjög svo einfalt. Við þurfum ekki að leita lengra en til okkar sjálfra til að finna hamingjuna þó svo að sannarlega auki góð samskipti á hana ef hjartað er barmafullt af kærleika fyrir.
- Í öðru lagi er það þakklætið sem styður við hamingju okkar og er vel þess virði að iðka. Þakklætið sprettur svo sannarlega frá ástinni eða kærleikanum og ástin vex með þakklætinu, þetta tvennt verður varla aðskilið. Að þakka fyrir það sem nú þegar er í lífi okkar geymir leyndardóm og lögmál flæðis. Að þakka fyrir líkamann og hans störf í okkar þágu er eitthvað sem gott er að byrja daginn á og eins ættum við að vera dugleg við að sjá það sem við höfum nú þegar í lífi okkar og þakka fyrir það. Að þakka fyrir þá vináttu og ást sem við upplifum í og með hverri manneskju sem við hittum er uppspretta gleðinnar og alls hins góða sem hún gefur. Að gleðjast vegna alls þess smáa sem er kannski ekki svo smátt þegar allt kemur til alls er einnig ótrúlega gefandi. Okkur hér á Íslandi finnast sjálfsögð mannréttindi að hafa húsnæði,rennandi vatn, fjármuni, störf og klæði en það er svo sannarlega skortur á öllu þessu víða um heim. Svo þökkum fyrir að vera forréttindafólk á svo margan hátt.
- í þriðja lagi ættum við að láta okkur líða vel og leyfa engu að koma í veg fyrir það. Þegar við elskum og lifum í þakklæti gefur það ekki rými fyrir illt tal um náungann og við leyfum ekki neikvæðni að ríkja lengi í senn í lífi okkar. Við getum ekki verið í umhverfi þar sem ljót framkoma og meiðandi orð fá að dvelja vegna þess að það fer gegn okkar ástríka hugarfari og líðan. Stundum er jafnvel spurning um að við gefum okkur og þeim sem í neikvæðninni dvelja frí frá okkur því að sú orka gagnast hvorki okkur né þeim. Við getum ekki leyft þeim sem vilja meiða okkur að slökkva ljós okkar kærleika og hamingju og það er alls ekki gott fyrir þá að fá að ala á sinni meiðandi framkomu.
- Í fjórða lagi vertu glaður og leiktu þér. Lífið er stutt og okkur er ætlað að njóta veru okkar hér í stað þess að lifa í alvarleika og ofurábyrgð á gangi heimsins. Gefðu sjálfum þér þá gleði að senda ást til allra sem verða á vegi þínum sama hvort það er í verslunum veitingastöðum eða bara þeim sem þú mætir á vegi þínum. Allt slíkt gefur okkur sjálfum gleði þess sem veit að hann gefur án þess að af því sé vitað. Gefum af fjármunum okkar til þeirra sem við mætum og sjáum að þurfa smá aðstoð þó að það séu ekki stórar upphæðir. Allt þetta fyllir okkur hamingjuorku. Að skapa gleðistundir með ættingjum og vinum er í mínum huga eitt það besta sem ég veit fyrir mig til að kveikja gleði mína, og þegar ég fer í göngutúr finnst mér gott að taka eftir öllu því fagra í náttúrunni og skoða hvernig hún starfar í fullkominni einingu sem ég vildi svo gjarnan geta séð okkur mannkynið gera einnig. Að gefa bros, uppbyggjandi orð og hvatningu af kærleika getur breytt deginum hjá þeim sem það þiggja og gefur þér gleði þess sem veit og gerir sér grein fyrir að við erum öll saman í þessum heimi og getum gefið þeirri tengingu ástríka merkingu.
- Í fimmta lagi elskaðu þig af öllu hjarta og bjóddu þér bara uppá það besta sem lífið getur gefið að þínu mati. Sæktu það síðan með því að taka þau skref sem þú þarft til þess. Kynntu þér allt það sem getur fært þig nær tilgangi þínum jafnvægi og friði. Hugleiddu dag hvern hvort þú lifir í kærleika (ljósi) eða gagnstæðri tilfinningu (myrkri) og leiðréttu kompásinn jafnóðum yfir í kærleiksríkari tilvist ef þú kemst að því að þú ert að festast á myrku hliðinni. Allur skortur sprettur frá okkar innra sjálfstali og viðhorfum svo búum frekar við ríkidæmi ljóssins innra með okkur og breytum heiminum og hans neikvæðni einn dag í einu, einni manneskju í einu og byrjum á okkur sjálfum.
Sendi ykkur ást og umhyggju ásamt nokkrum rafrænum faðmlögum og óska ykkur kærleiksríks hugarfars ykkur til heilla og langar að benda ykkur á umhyggjuherferð sem er mér kær og nefnist #kind20 á facebook þar sem við fáum tækifæri á því að taka þátt í að dreifa umhyggju með öllum heiminum.
Og eins og ætíð er ég einni tímapöntun í burtu frá ykkur ef þið teljið að ég geti aðstoðað ykkur á ykkar lífsins leið.
Þar til næst xoxo
Ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
Lifecoach/Samskiptaráðgjafi/TRM áfallafræði 1 og 2.
linda@manngildi.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.5.2020 | 11:15
Persónur og leikendur
Í ævintýrunum er það þannig að fólk er ýmist gott eða vont, annað hvort mjög traust eða undirförult, umhyggjusamt eða eigingjarnt og kannski er það einnig þannig í lífinu sjálfu.
Ég er líklega eins og Rauðhetta litla sem treysti allt og öllum þar til annað kemur í ljós en þannig vill ég líka hafa það. Ég hef séð fleiri samskipti brotna vegna vantrausts en trausts og hvatningin sem felst í traustinu er einnig það sem ég vil gefa mannkyninu. Og það er mitt karma sem ég skapa með þeim hætti, aðrir sjá um að skapa sitt.
En aftur að ævintýrunum.
Í ævintýrunum eru persónurnar ýmist litlir ljósberar sem telja sig ekki vera þess megnugir að framkvæma hetjudáðirnar en vaxa þó inni í aðstæðunum og sigrast á hindrunum og standa uppi sem hetjur, svo eru riddararnir sem ryðjast fram til bjargar heiminum og ég er svo stálheppin að ég þekki báðar þessara persónugerða.
Í dag eru það ljósberarnir eða heilbrigðisstarfsmennirnir sem hafa heldur betur vaxið í aðstæðunum og eru í dag aðal hetjurnar okkar. Svo koma næstir allir þeir sem vilja sýna kærleika sinn með aðstoð sinni við náungann með því að aðstoða við innkaup, skemmtun, vellíðan og fleira. Og að lokum eru það riddararnir á fákum sínum sem vilja bjarga heiminum með sínum réttlætis og góðmennskusverðum sem fá til fylgdar við sig heilan her af þeim sem heillast af hugsjónum þeirra og hugrekki.
Hversu dásamlegt er það að þekkja allar þessar gerðir manna og sem betur fer höfum við séð að þeir eru fleiri sem hafa þetta fallega hjartalag en við þorðum að vona í þessum allsnægtaheimi merkjavörunnar og egósins.
En hvernig getum við svo orðið þessar hetjur ævintýranna?
Jú ég held að við höfum gott af því að skoða þá möguleika sem felast í dyggðum eins og flest ævintýri heimsins byggjast á. Dyggðum sem í raun detta aldrei úr tísku eða finna amk alltaf sinn farveg til baka inn í siðmenningu okkar vegna þess að okkur líður einfaldlega best þegar við ástundum þær.
Skoðum þessar dyggðir aðeins og mátum okkur inn í þær. Skoðum hvort að við gætum hugsanlega bætt okkur með einhverjum hætti og gert líf okkar fyllra og í leiðinni skapað fegurð fyrir okkar nánustu og umhverfi okkar.
- Viska - að leita sér þekkingar á lífinu sjálfu og að geta sýnt skilning og sleppt fordómum og kreddum af ýmsum toga. Að elska fólk einfaldlega vegna þess að það tilheyrir mannkyninu.
- Hófstilling - að stilla öllu í hóf og feta þannig milliveginn sem leyfir engu að ná tökum á okkur hvort sem er í mat, drykk eða öðru sem veldur skaða í lífi okkar.
- Hreysti (hugrekki) Að standa fyrir því sem við teljum rétt, að sækja það góða þrátt fyrir að það sé ekki vænlegt til vinsælda og sækja fram til betri heims.
- Réttlæti - Að gefa öllum færi á því að fá réttláta framkomu og að vilja réttlæti fyrir alla íbúa jarðarinnar og kannski fyrir jörðina sjálfa. Að dæma rétta dóma í stað þess að hlusta á múgæsinginn.
- Trú - Að trúa á það æðsta í sjálfum sér og í alheimi og að trúa því að við getum sótt fram og að lífið hafi einnig verið búið til fyrir okkur. Og einnig að trúa því að við höfum rétt á því að biðja um og fá það fallega inn í líf okkar.
- Von - Að halda í vonina í gegnum alla dimmu dalina og að gefast aldrei upp því að það að ganga um með vonina í hjartanu mun alltaf skila sér að lokum.
- Kærleikur - Kærleikurinn er æðstur og hann er misjafn að eðli, en er þó alltaf velviljaður og treystir ásamt því að vinna viljandi engum mein. Kærleikurinn er æðstur dyggðanna.
- hreinskilni- er ómetanlegur eiginleiki í vinskap og samskiptum almennt ef hún er byggð á kærleika og velvilja til þeirra sem hreinskilni þína fá.
- dugnaður - að starfa af einurð og að gefa af sjálfum sér krafta sína og tíma til þjóðfélagsins okkar er það sem skapar grunn að góðu og velmegandi þjóðfélagi og stolti hvers manns, og eins og pabbi minn sagði alltaf "latur maður lítið kaup" en það voru einkunnarorð nokkuð margra af hans kynslóð. Kynslóð sem kom okkur á þann velmegunarstað sem Ísland er í dag og það var dugnaðurinn og ósérhlífnin sem það skapaði.
- heilsa - að hugsa um heilsu sína líkamlega, andlega og sálarlega er nauðsynlegt fyrir gott og heilbrigt líf og aldrei of mikið gert af því að borða rétt, hugsa rétt, hreyfa sig, vera í núinu, fara í hugleiðslu og tengjast móður jörðu úti í náttúrunni og Guði sínum og tengslunum við hann.
- heiðarleika - Mætti okkur öllum auðnast að geta sýnt heiðarleika í öllum okkar athöfnum og losna þannig við sektarkenndina sem kremur sál okkar ásamt því að við finnum að óheiðarleikinn minnkar okkur um nokkur númer. Sannleikurinn er sagna bestur, ekki bara stundum heldur alltaf!
- jákvæðni- Að sjálfsögðu eru allar tilfinningar leyfilegar, en jákvæðnin hefur áhrif a´boðefnin okkar og gefur okkur kjark og styrk inn í daglegu lífi okkar og bætir öll samskipti. Jákvæð persóna gefur ljós til annarra.
- traust - Að treysta lífinu og fólkinu í kringum okkur er að mínu mati kostur þó að það geti snúist stundum upp í andhverfu sína, en treystum lífinu fyrir okkur. Við erum þar sem við erum vegna þess að því var treystandi fyrir því að sjá okkur farborða, annars værum við líklega ekki hér - ekki satt?
- vináttu/fjölskyldu - Að sinna vináttunni og fjölskyldu sinni er það hlutverk sem ætti aldrei að vera í seinni sætum hjá okkur heldur í forgangi því að hvað væri lífið án vina eða fjölskyldunnar. Svo gerum okkar besta til að sinna þessum tengslum af alúð því að það munu koma tímar í þínu lífi þar sem þú vilt gleðjast með þeim sem þér þykir vænt um og það munu einnig koma tímar þar sem þú þarft á stuðningi þeirra að halda í lífi og starfi og þeir sem þú hefur sinnt munu þá verða þar.
Svo núna erum við búin að skoða nokkrar dyggðir sem flest ef ekki öll ævintýri heimsins fjalla um og núna höfum við tækifæri á því að búa til okkar eigið ævintýri, svo hvaða persóna vilt þú verða og hvað þarftu að gera/breyta til að ná þangað?
Eins og alltaf er ég bara einni tímapöntun í burtu ef þú þarft mína aðstoð á leið þinni en þar til næst elskurnar mínar.
xoxo
Ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
Markþjálfi/Samskiptaráðgjafi/TRM áfallafræði 1 og 2.
linda@manngildi.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Linda Baldvinsdóttir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (16.8.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 98
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 93
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar