Feimni

Hvernig yfirstígur maður feimni er spurning sem ég hef oft þurft að svara en á kannski fá svör við önnur en þau sem ég sjálf hef þurft að finna fyrir mig og langar að deila með ykkur hér.

Ég er ekki týpan sem virðist vera feimin, hef alltaf haldið þessum fronti sem segir að ég sé það ekki - en trúið mér, ég er og hef alltaf verið feimin, hef einungis lært að yfirstíga feimnina með ýmsum hætti sérstaklega á síðasta áratug eða svo. Ég nýti mér þann styrk sem ég hef öðlast á leið minni til sjálfsþekkingar í hinum ýmsu aðstæðum í dag.

Ég er hinsvegar afar félagslynd og hef alltaf verið og hreinlega elska að vera í góðum hópi eða að kynnast nýju fólki og á auðvelt með það í dag.

Hér áður fyrr var ég svo feimin að ef ég lenti í að vera innan um ókunna aðila átti ég til að blaðra án afláts og út í eitt þar sem þögnin var svo hrikalega erfið að mér fannst, svo skammaðist ég mín fyrir blaðrið og fannst ég hafa orðið sjálfri mér til minnkunar. Kannski á ég enn til þessa flóttaleið í aðstæðum en ég get þó sagt að það er bara brotabrot af því sem áður var.embarassed

Ef ég var á námskeiðum eða einhverju slíku þar sem ég þurfti að kynna mig með nafni og ég tala nú ekki um ef ég þurfti að segja frá sjálfri mér að einhverju leiti þá fann ég fyrir bankandi hjarta og kvíðatengdri vanlíðan löngu áður en það kom að mér að tala og fann svo fyrir ótrúlegum létti þegar það var over and done with.

Ég átti einnig mjög erfitt með að tjá mig um skoðanir mínar á opinberum vettvangi eins og  t.d. á foreldrafundum í sal skólans sem börnin mín sóttu og alveg var sama hversu mikið mig langaði að tjá mig um hin ýmsu málefni þá steinhélt ég mér saman en skammaði mig svo reglulega fyrir aumingjadóminn eftir á.

Að tala fyrir framan hóp af fólki var bara algjörlega ógerlegt fyrir mig og ég man eftir fyrsta verkefninu mínu þar sem ég þurfti að tala yfir ca 20 manna hópi. Ég skalf á beinunum, fékk svimatilfinningu og það hefði líklega liðið yfir mig ef ég hefði ekki haft standandi tússtöflu fyrir framan mig til að styðja mig við! 

En þegar þarna var komið sá ég að þessa feimni yrði ég að yfirvinna til að ég gæti náð þangað sem ég vildi fara og ég tók ákvörðun.

Ákvörðun mín fólst helst í því að ég ætlaði að taka að mér hvert einasta verkefni sem byði uppá það að ég þyrfti að tala innan um fólk og hópa, því ég skildi sigrast á ótta mínum og eins vann ég vel með mína meðvirkni sem var töluverð á þeim tíma!

Ég byrjaði svo sem smátt að yfirvinna feimni mína, byrjaði kannski með því að ég þakkaði fyrir mig í matarboðum og hrósaði gestgjöfunum með því að standa upp og horfast í augu við þá sem við borðið voru, og einnig fór ég markvisst að þegja þegar ég fann þörf mína til að rjúfa þagnir þar sem minni hópar eða einstaklingar áttu í hlut.

Ég fór síðan að vera með námskeið fyrir 10-15 manns og fann að ég gat vel gert það, og fann oft fyrir sigurtilfinningunni sem fylgdi í kjölfarið. Þannig hélt ég áfram að æfa mig á hinum ýmsu námskeiðum sem urðu síðan að fyrirlestrum og fleiru. Ég hef meira að segja staðið fyrir framan nokkur hundruð manns sem veislustjóri og sungið með Ragga Bjarna og hafði rosalega gaman af og í raun ákaflega stolt af því augnabliki :)

Smátt og smátt á þessu æfingatímabili mínu fór ég að sjá sigrana mína og mér fór að líða betur með það að standa upp og tala fyrir framan hópa og í dag held ég að ég sé orðin alveg ágæt þó að streitan segi alltaf til sín fyrstu mínúturnar, en þar held ég að margir séu :)

Ég held semsagt þegar öllu er á botninn hvolft að til þess að sigrast á feimni dugi fátt annað en æfingar og það að stíga inn í óttann sem heldur okkur í feimnisböndunum, því hvað væri það versta svo sem sem gæti gerst í aðstæðunum?

Síðan er að æfa sig með ýmsum hætti (fake it until you become it) og vera meðvitaður um að það eru litlu sigrarnir sem byggja okkur upp í stærri sigra og áður en við vitum af er nánast öll feimni farin af okkur, sjálfsmynd okkar orðin sterkari og við tilbúin að sigra heiminn.

Og ef þú þarft aðstoð mína við að yfirstíga þína feimni þá er ég einungis einni tímapöntun í burtu.

Þar til næst elskurnar,

xoxo

Ykkar Linda

Linda Baldvinsdóttir

Samskiptaráðgjafi/Markþjálfi

linda@manngildi.is

 


Við ráðum uppskerunni

Veistu, stundum held ég að við gleymum hversu miklu við stjórnum í lífi okkar með ómerkilegasta vali okkar, en setjum okkur svo miklu heldur í þá stöðu að vera fórnarlömb kringumstæðnanna þar sem við ráðum svo litlu og dveljum í vanmætti okkar.

Við getum ekki ráðið hvaða verkefni koma inn í líf okkar en við getum svo sannarlega ákveðið hvernig við ætlum að taka á þeim og vinna með þau.

Við höfum vald til að breyta svo mörgu í okkar lífi, við þurfum bara að verða meðvituð um það og taka skrefin sem færa okkur inn í aðstæður þær sem við kjósum frekar en þær sem nú eru.

Við getum td ákveðið skoðanir okkar og viðhorf og við getum breytt þeim þegar okkur sýnist svo.

Við getum stjórnað miklu hvað varðar heilsu okkar og lífsstíl ef við bara nennum að taka það í gegn.

Við getum breytt hugsunum okkar og valið að vera í möguleikunum en ekki í afsökununum, verið í jákvæðni en ekki neikvæðni, valið að tala fallega um og inn í líf annarra, að byggja okkur sjálf og aðra upp frekar en að tala um veikleika og ómöguleika allra.

Við getum valið að sjá lífið sem fallegt og gott, að landið okkar sé frábær staður og allir séu okkur velviljaðir, nú eða við getum séð allt ómögulegt við þetta allt saman. Það er hugsunin okkar um það sem við erum að sjá og fást við hverju sinni sem öllu ræður þegar allt kemur til alls!

Við getum valið félagsskap okkar og starfsvettvang þó að ekki getum við valið okkur fjölskyldu, en við hinsvegar berum ekki skyldu til að umgangast þá sem hafa vond áhrif á okkur hvort sem er inni í fjölskyldunni eða annarstaðar.

Við getum valið að gefast aldrei upp og standa upp aftur og aftur og verða nær takmarki okkar í hvert eitt sinn sem við gerum það þó að stundum þurfum við að taka tvö skref aftur á bak og eitt fram, þá skiptir það ekki öllu máli - heldur það að við stóðum upp sem að lokum mun skila sér til okkar í formi góðrar uppskeru.

Við getum valið að vera kurteis, velviljuð, kærleiksrík og góðhjörtuð eða ekki, verst hvað margir velja að vera það ekki.

Við getum valið að setja fókusinn okkar á allt annan stað en hann er í dag og látið hugsanir okkar, tifinningar og heilann hjálpa okkur við að ná þangað.

Við getum valið að standa með okkur sjálfum á virðingaverðan hátt og setja framkomu annarra mörk.

Við getum valið að eiga góð samskipti og að koma tilfinningum okkar og viðhorfum á framfæri án æsings og pirrings.

Við getum valið að fyrirgefa þó ekki sé nema fyrir okkur sjálf.

Og að lokum getum við ákveðið að vera þakklát sama hvað, þar liggur eitthvert lögmál, því að þeir sem þakka fá yfirleitt enn meira til að þakka fyrir. 

Ég hlustaði ræðu sem vinkonu mín í ræðu hélt um daginn þar sem hún talaði um það hvernig líf okkar kaflaskiptist og hvernig þeir kaflar sem við göngum í gegnum væru eins og þegar við göngum í gegnum hlið, eða frá einum stað til annars.

Í Biblíunni (sem hún vitnaði í) og í fleiri góðum bókmenntum er gjarnan talað um að við þurfum að ganga í gegnum perluhliðin og er þá átt við að við förum í gegnum hlið til að ná frá einum stað á annan í lífinu, og það sem er svo merkilegt við þessa frásögn er að þessi hlið eru skreytt dýrindis perlum.  

Mér þótti þetta merkilegt vegna þess að ég veit hvernig perlur verða til, en þær verða til við að það fer sandkorn inn í skelina sem veldur ostrunni miklum óþægindum og núningi, en engu að síður verður til dýrmæt perla mitt í óþægindunum, og þannig finnst mér það einnig oft vera í okkar lífi.  Við göngum í gegnum erfið verkefni og öðlumst á leiðinni dýrmæta reynslu sem nýtist vel á leið okkar inn í næsta kafla lífs okkar.

Munum bara að reynslan sem við fáum í öllum núningi lífsins verður okkur alltaf dýrmæt og gjöful með einhverjum hætti að lokum þó að erfið geti hún oft verið.

En elsku við - gleymum aldrei að það erum við sjálf sem sitjum við stjórnvölinn með vali okkar hverju sinni, í smáu sem stóru og við ráðum alltaf framkomu okkar, hegðun og flestu öðru sem inn í daglegu lífi okkar er, og það er gott að hafa í huga að lögmál sáningar og uppskeru er að störfum í okkar lífi öllum stundum.

Við  ráðum nefnilega svolítið miklu um það hvort uppskeran okkar verður góð eða slæm, það fer allt eftir því sem sáð er, og síðan umhugsuninni, kærleikanum og alúðinni sem við veitum því sæði síðan á vaxtatímanum.

Og ef þú þarft hjálp við að leysa úr þínum lífsins verkefnum þá er ég eins og alltaf bara einni tímapöntun í burtu :)

xoxo

Ykkar Linda

 

Linda Baldvinsdóttir

Samskiptaráðgjafi/Markþjálfi

linda@manngildi.is


Átt þú skilið að eiga gott líf?

Það er í raun ómögulegt fyrir manneskjuna að finna sjálfa sig á þessum tímum árangurs, gerviútlits, raunveruleikaþátta og fyrirmynda sem snúast helst og nánast eingöngu um hvernig má ná veraldlegum árangri og betra útliti að mínu mati.

Sem aldrei fyrr eru unglingar mataðir alla daga á því hvernig þeir "eigi að vera" í stað þess að vera mataðir á eigin styrkleikum og verðleikum og svo skiljum við ekkert í því hvers vegna börnin okkar eru kvíðin og óhamingjusöm sem aldrei fyrr þó að ekkert skorti. 

Fræðsluna um lífið og gjafir þess skortir að mínu mati og viska þeirra sem eldri eru og lífsreyndari kemst allt of sjaldan til skila til þeirra sem á þurfa að halda vegna þess að samverustundir fjölskyldunnar verða alltaf færri og færri og gæði þeirra fara því miður einnig oft minnkandi því að dagskráin er svo þétt.

Að hlusta á visku fyrri tíma er ekki í tísku á þessari tölvuöld og það hryggir mig að við skulum vera tilbúin til þess að láta heiminn fara svona með okkur.

Ég sjálf þarf að skoða mig í þessu samhengi og gera betur, en ég er þó meðvitaðri um mig og hvað það er sem gefur raunverulega hamingju í dag en ég var hér áður fyrr.

Við þekkjum örugglega flest einhvern sem hefur lent í "burnout" ástandi sem því miður er allt of algengt í dag og skrifast nánast eingöngu á það að ekki er hægt að sinna öllum kröfum nútímans og okkar sjálfra svo að vel sé.

Ég þekki a.m.k. vel til þessa málaflokks og veit hversu mikilvægt það er að finna jafnvægi inn í þessar aðstæður svo að hægt sé að njóta lífsins með ró í hjarta. Jafnvægi þarf að myndast á milli starfa, fræðslu og hvíldar, að sinna sjálfum sér og sinna öðrum með ró en ekki í ójafnvægi.

Margir leita í hugleiðslu, núvitund og aðra þætti sem eiga að núllstilla lífið, en finna þó ekki frið og hugarró. Hversvegna ætli svo sé?

Að mínu mati (sem þarf þó ekki að endurspegla skoðun fjöldans) er það vegna þess að við erum í sífelldu kapphlaupi við að uppfylla standarda heimsins og þeir eru einfaldlega að bera okkur ofurliði!

Einfalt...

Og ef við leyfum okkur að skoða þetta hlutlaust þá hljótum við að sjá að við sjálf og börnin okkar eru án eðlilegs frítíma og gæðastunda.

Börnin okkar eru í flestum tilfellum komin í hendurnar á ókunnu fólki á fyrsta aldursárinu og þar byrjar það sem ég kýs að kalla þrælahaldið. Full vinna frá heimilinu og að vinnudegi loknum (sama hvort að við erum að tala um dagmömmur, leikskóla, skóla) taka við íþróttir eða aðrar tómstundir því að allir þurfa að skara framúr á einhverjum sviðum. Og að loknum vinnudegi hjá foreldrunum tekur við búðarferð, matartiltekt, þrif, heimalærdómur barnanna og uppeldið sjálft, og í sumum tilfellum bíður bara meiri vinna eftir þeim sem ekki var hægt að klára deginum til. 

Hvenær var það sem við hættum að meta hlutverkið foreldri? Hvers vegna í ósköpunum finnst okkur það minna virði en önnur störf þjóðfélagsins? Hvenær ætlum við að sjá að komandi kynslóð og kennslan til hennar er það sem ætti að leggja alla áherslu á? Hvenær ætlum við að fara að launa foreldrum fyrir þetta starf og hvetja þá til þess að sinna því á fullum launum og bónusum?  

Ég veit að sumum finnst ég hörð og óvægin þarna og það má vel vera að svo sé, en ég sé hversu mikil vöntun er á athygli, umönnun og gæðastundum hjá börnunum okkar í dag og ég held að við hreinlega verðum að fara að snúa þessari öfugþróun við og leita að gömlu góðu götunum í þessu sambandi. Að fara að finna jafnvægið á milli vinnu, eignamyndunar og barnanna sem eru þegar allt kemur til alls einu raunverulegu fjársjóðirnir okkar. 

Hamingjuna er ekki að finna í útbólgnum bankabókum eða virðingaverðum starfstitlum, verðlaunagripum né öðru veraldardóti, það hljótum við að vera búin að uppgötva fyrir löngu síðan. Og þó að gaman sé þegar þetta allt er einnig til staðar eru verðmætin okkar falin í öðru og mikilvægara.

Að vernda hjarta okkar líkama og sál og að gefa okkur rými fyrir þá hluta tilverunnar sem skapar okkur vellíðan og jafnvel þekkingu á okkur sjálfum og því hver við raunverulega erum, persónuleika okkar, gildum og því hvernig við lifum samkvæmt okkar gildum er það sem ég tel að heimurinn þarfnist nú meir en nokkru sinni fyrr. 

Tökum þetta í gegn hjá okkur og hættum að lifa samkvæmt stöðlum raunveruleikaþátta nútímans, verum VIÐ eins og við erum og stoppum þessa vitleysu. Hættum að gera gæðastundirnar sem við þó gefum okkur árangurstengdar með því að ganga 10 þúsund skref í göngutúrnum, eða að keppast við kílómetratalninguna og kaloríumælinguna á hlaupabrettinu í ræktinni.

Njótum þess heldur að fara með okkar nánustu í göngur sem sýna okkur fegurðina, viskuna og kraftinn sem í náttúrunni býr, og upplifum þau undur sem eru allt um kring ef við bara gefum okkur tíma til að líta upp úr tímaskipulaginu okkar.

Förum kannski aðeins aftur á bak og finnum okkur sjónvarpslaus kvöld, kertaljós, spil og spjall, gönguferðir þar sem samvista við náttúruna er notið, sækjum okkur kraft í hana og þökkum fyrir það að fá að vera hér og njóta - og drögum svo bara andann í ró inn og út.

Og ef þig vantar aðstoð við að fá jafnvægi á þitt líf er ég bara einni tímapöntun í burtu :)  

Þar til næst elskurnar

xoxo

Ykkar Linda 

Linda Baldvinsdóttir

Samskiptaráðgjafi/markþjálfi

linda@manngildi.is

 


Um bloggið

Linda Baldvinsdóttir

Höfundur

Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Maí 2018
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • ..._s4i6862_2
  • ...0eaf470d6_2
  • ...98009927331
  • pistill mynd
  • 15608665 10210640975833107 554134899 o

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.5.): 22
  • Sl. sólarhring: 36
  • Sl. viku: 78
  • Frá upphafi: 9325

Annað

  • Innlit í dag: 22
  • Innlit sl. viku: 77
  • Gestir í dag: 21
  • IP-tölur í dag: 21

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband