Eru græn flögg í þínu sambandi?

 

Ég rakst á grein um daginn þar sem talað var um grænu flöggin sem við ættum að vera að leita að þegar við hittum nýtt tilvonandi viðhengi (maka) sem passa á inn í líf okkar og mér fannst þetta svolítið sniðugt sérstaklega í ljósi þess að ég hef skrifað þó nokkra pistla um rauðu flöggin  Sjá hér en ekki þau grænu þar til nú að ég ætla að bæta úr því.

Grænu flöggin eru semsagt þau atriði sem við ættum að leita að í fari tilvonandi viðhengis ef við viljum að sambandið eigi sér langa lífdaga og ef við erum heilshugar í makaleit okkar, því að þessi grænu flögg tengjast gjarnan góðum gildum sem eru djúpt grafin í undirmeðvitund viðkomandi.

"Lík börn leika best" er gamalt íslenskt máltæki sem líklega á sér rætur í þeirri hugmyndafræði að ef lífsgildi okkar fara illa saman þá verður leiðin heldur grýtt  og margar hindranir sem þarf að yfirstíga. Þó er ekkert endilega allt ómögulegt við það að aðilar séu ólíkir ef þeir bæta hvorn annan upp og þróast saman í sambandinu til góðs fyrir báða aðila.

Svo við ættum kannski ekki að gleyma okkur alveg í exelskjalinu og gömlum málsháttum heldur gefa rómantíkinni og öllum þeim góðu tilfinningum og boðefnum sem þar fá að blómstra sitt tækifæri. Það er nú einu sinni þannig að ef við erum ástfangin þá viljum við gjarnan gera breytingar í lífi okkar og færa ástinni fórnir af ýmsum toga, Tökum jafnvel upp venjur og siði sem okkur hefði líklega aldrei dottið til hugar að við yrðum ánægð með, þannig að þetta er eins og með dagatalið okkar -fyrir og eftir Krist -fyrir og eftir sambandið við.....

En hver eru svo þessi grænu flögg sem eru svo góð ef þau eru til staðar?

1 flagg. Samskipti eru góð og hafa gott flæði. Heiðarleiki og virk hlustun er til staðar ásamt því að þér finnist þú geta verið óheft/ur og frjáls og bara þú í þeim samskiptum. Að finna að þú getir tjáð tilfinningar þínar óhikað og að unnið sé sameiginlega í yfirvegun að því að lagfæra það sem uppá kemur er einnig sterkt grænt flagg. Eins og við vitum þá kemur alltaf upp ágreiningur jafnvel í bestu samböndunum og þá verður þessi nálgun mikilvægur þáttur í að leysa úr honum. 

2 flagg. Vinátta og traust er til staðar og að þú finnir að þú getur treyst aðilanum en efast ekki um orð hans og tilgang. Fullkomið traust byggist upp með tímanum þegar orð og gjörðir fara saman, en það er einnig fljótt að fara ef misbrestur verður á þessu tvennu.

3 flagg.  Virðing fyrir persónulegum mörkum, skoðunum og lífsviðhorfum hvors annars er til staðar ásamt virðingu fyrir persónueiginleikum hvors annars. Hæðni og virðingalaus framkoma eða orð gagnvart persónu þinni er aldrei í lagi. Þú getur farið í málefnið (hegðunina) en ekki manninn stendur einhverstaðar á góðum stað og það á við í nánum samskiptum jafnt sem annarstaðar.

4 flagg. Eitt mikilvægasta uppbyggingarefni sambanda er að vera til staðar í blíðu og stríðu, og það er sterkt grænt flagg ef samkennd og stuðningur er til staðar, því að ef að maki þinn peppar þig ekki upp og styður þegar vel eða illa gengur þá er klárt mál að sambandið er ekki á góðum stað.

Hinsvegar það að fá einlæga umhyggju, stuðning og hvatningu frá hugsanlegum maka segir mér að hann sé vel þess virði að halda í og ekki skemmir ef hann er fús til að bora í veggi, negla nagla eða fara út með ruslið (þetta er mjög mikilvægur punktur fyrir mig persónulega)😊

5 flagg. Lífsmarkmið eru sameiginleg, áhugamál og væntingar til lífsins einnig þó að auðvitað þurfi aðilarnir að eiga eitthvað áhugamál eða tíma útaf fyrir sig. Að stunda sameiginlegt áhugamál og vinna að markmiðum til framtíðar eflir nánd og tengsl og hvað er betra en það?

6 flagg. Það er auðvelt fyrir ykkur að finna málamiðlanir og segja fyrirgefðu þegar það á við, því að það er óhjákvæmilegt að komast hjá því að eitthvað komi uppá í samböndum þar sem tveir aðilar koma saman úr ólíkum áttum. Ef ágreiningur verður að rifrildi og eða litast af togstreitu þá erum við farin að tala um einhvern allt annan lit en grænan, og ættum að hugsa okkur vel um áður en lengra verður haldið með sambandið.

Græni liturinn er ágætis áttaviti fyrir okkur og hann er mjög mikilvægur þegar byggja á upp gott langlíft samband, en það er annar þáttur segir okkur kannski meira um möguleika sambandsins en allt annað þegar til lengri tíma er litið, en það eru lífsgildin okkar.

Hvað eru svo lífsgildi?

Í fyrsta lagi þá erum við að tala um svokölluð grunngildi, eða gildi eins og siðferði, trú og leiðir sem viðkomandi vill fara í lífinu (Heimsmyndin), eða með öðrum orðum þá erum við að tala um lífsstílinn sem við viljum hafa í lífi okkar og er rituð í grunnmyndina sem við búum okkur til af lífinu þegar það er orðið fullkomið (Trúarkerfi).

Þegar lífsgildin fara saman í parasambandi þá myndast ákveðinn sameiginlegur skilningur, samkennd og vinátta, og þau atriði ásamt trausti og vellíðan mynda það öryggi sem við leitum víst flest að.

Lífsgildi okkar má finna í viðhorfi okkar til allra þátta lífsins, og er mikilvægt að huga að því hvernig þau viðhorf okkar fara saman þegar við ætlum okkur í samband sem á að endast.

Hvernig við hugsum um fjármál og eignir, andleg málefni og líkamleg, heilsutengd efni og viðhorf til vímugjafanotkun eru t.d nokkur af þeim sem líta ber á, ásamt mörgum öðrum og fer allt eftir því hvaða lífsgildi skipta þig máli.

Ekki síst ættum við nú samt að skoða hvernig gildi við höfum þegar kemur að fjölskylduböndum. Viljum við vera í góðu sambandi við vini og fjölskyldu, viljum við bæði eignast börn og verða foreldrar og ef svo höfum við þá svipuð viðhorf til uppeldis barnanna?  Að hafa svipaða sýn hvað þetta varðar forðar okkur frá spennu í sambandinu og einmannakenndinni sem fólk talar um að fylgi þegar togstreitan verður til þess aðilarnir fjarlægast hvorn annan.

Að lokum þá er gott að vita afstöðu aðilanna til persónufrelsis í sambandinu og eins hvort að þeir séu tilbúnir til að styðja við atriði eins og menntun, trúarskoðanir og sjálfseflingu af ýmsum toga hjá báðum aðilum sambandsins.

Ef lífsgildin smella saman og atriði eins og slatti af kærleika, vináttu, daðri og ástríðu eru þar einnig til staðar, þá held ég að það sé komið grænt ljós á sambandsumleitanirnar, ég tala nú ekki um ef aðilinn uppyllir atriði exelskjalsins(grænu flöggin) og ef hann hefur til að bera sjarma og húmor – það er nefnilega svo gott að geta hlegið saman.

Að endingu þá má kannski segja að máltækið "Allt er vænt sem vel er grænt" eigi ágætlega við í þessum efnum og saman má byggja upp frá grænum flöggum og lífsgildum heimsmynd sem fegrar lífið og gefur því hamingju sína.

Eins og alltaf er ég bara einni tímapöntun í burtu elskurnar ef að þið þurfið á lífsþjálfun eða samskiptaráðgjöf að halda í þessum málum sem og öðrum.

Þar til næst elskurnar

Ykkar Linda

Linda Baldvinsdóttir Lífsþjálfi, samskiptaráðgjafi

linda@manngildi.is


Gerum þetta ár betra

Um áramót lít ég til baka og skoða með sjálfri mér hvað ég hafi getað lært af árinu sem nú er horfið í aldanna skaut og eins lít ég fram á veginn og hugsa hvernig ég gæti bætt líf mitt og þá í leiðinni þeirra sem mér þykir vænt um.

Þetta ár hefur verið nokkuð lærdómsríkt fyrir mig persónulega þar sem ég hef þurft að viðurkenna mig að einhverju leiti sigraða vegna ónýtrar mjaðmakúlu sem tók frá mér töluvert af lífsgæðum mínum og orku. Það stendur þó allt til bóta þar sem ég fékk liðskipti í byrjun október, og verður þessi stelpa vonandi komin á fulla ferð með vorinu og fylgi ég líklega sólinni á norðurhjaranum hvað þau bataskref varðar, einn dag í einu, seiglan og þolinmæðin víst það eina sem í boði er.

Kannski hafa veikindi mín gert mig svartsýnni en áður en þó held ég ekki því að staðreyndirnar á heimsvísu tala sínu máli.

Heimurinn allur hefur mér fundist vera fárveikur og hálf lamaður af völdum náttúrunnar og stríðsátaka þetta ár og ill öfl virðast ráða örlögum allt of margra.

Efnahagskerfi þjóða sem byggja velsæld sína að hluta á því að framleiða hergögn sjá sér líklega ekki annað fært en að minnka birgðirnar öðru hvoru með tilheyrandi mannvonsku og siðleysi því sem þessar þjóðir virðast hafa að leiðarljósi. Tvískinnungur heimsins er alger. Við leitum leiða til að lækna sjúkdóma og græða sár á sama tíma og við erum að  myrða þúsundir barna og fullorðinna sem ættu að búa við frið. Vei þeim sem þessu valda segi ég og meina.

Að það skuli viðgangast á okkar tímum svo stuttu eftir seinni heimstyrjöldina með öllum sínum hörmungum og lærdómi er með ólíkindum, og sannar líklega það sem Albert Einstein sagði svo réttilega hér um árið eða „ það er tvennt sem er óumbreytanlegt, annað er alheimurinn sjálfur og hitt er heimska mannsins, en ég er ekki alveg sannfærður um hið fyrra“

Og það virðist vera svo að heimskir illgjarnir menn fá frið til að framkvæma ódæðisverk sín án truflunar frá heiminum sem er auðvitað til vansa fyrir okkur sem mannkyn!

Þó að náttúruöflin hafi sýnt vald sitt sem eru líklega ekkert annað en mótmæli móður jarðar yfir hegðun barna hennar þá hefur lítið verið hlustað á hana. Maðurinn virðist aldrei ætla að læra að hann er ekki við völd í alheimi og að það eru afleiðingar af framkvæmdum okkar, eins og sagan hefur svo sem sýnt okkur margsinnis og sýnir enn.

Illmælgi og stjórnunartilburðir lítilla hópa hafa verið áberandi hérlendis og erlendis og virðast þeir fá að vaða uppi þrátt fyrir að meirihlutinn sé algjörlega á öndverðum meiði, en þegir eins og ætíð í gegnum söguna. Öfgar eru aldrei til heilla og að þegja með þeim leiðir ekkert gott af sér.

Ég hef verið afar sátt og stolt af því að hafa fengið það hlutverk að vera kona, móðir og amma en nú er ég allt í einu orðin SÍS kona, leghafi og stórforeldri og það særir mig meira en margt annað.(þurfti að fletta upp merkingunni SÍS)  

Í mínum huga og vísindanna er það einfaldlega þannig að það eru tvö kyn, karl og kona en mér gæti ekki verið meira sama ef einhver upplifir sig með öðrum hætti og virði það algjörlega en heimta sömu virðingu á móti. Það að vera kvenkyn þýðir að við höfum leg og æxlunarfæri sem veitir okkur þau forréttindi að fá að ganga með og fæða af okkur framtíðarkynslóðirnar.

Það veit enginn nema sá sem reynt hefur hversu dásamlegt það er að heyra barnið sitt segja mamma í fyrsta sinn eftir allt erfiði meðgöngunnar, fæðingarinnar og brjóstagjafar. Og enn meiri verðlaun eru það að heyra kallað amma í fyrsta sinn frá afkomendum barna minna og ég mun aldrei samþykkja að litlir hópar sem hrópa hátt fái að breyta því með nokkrum hætti. Finnst ég reyndar beitt ofbeldi með því að ætla að fara að breyta þessu. En nóg um þetta,

Ég  hef alvarlegri áhyggjur af mínum afkomendum og lífi þeirra og lífsgæðum í heimi sem fer síversnandi en því hvað annað fólk vill kalla mig. Í heimi þar sem kærleikurinn virðist víkja fyrir illmælgi eyðileggingu og stjórnun að ég tali ekki um vaxandi ofbeldi og stríðsvá sem nú vofir yfir allri Evrópu, þar sem hið illa virðist fá að breiða úr sér og vaxa eins og arfi án þess að fátt sé að gert.

Ég las grein  Björns Hjálmarssonar, geðlæknis á barna- og unglingageðdeild Landspítala og fannst hann hafa margt af viti að segja og ef ég gæti gefið þessari grein nafn þá bæri hún nafnið „sundrung þorpsins“. Því að það tekur heilt þorp að ala upp barn.

Það er ekki eðlileg þróun að unglingarnir okkar séu í stórum stíl á þunglyndis og kvíðalyfjum og það er ekki eðlilegt fyrir börn að vera innan um ókunnuga allan daginn frá fyrstu mánuðum lífs þeirra. Ég fyllist hryggð þegar ég sé foreldra mótmæla skorti á leikskólaplássi fyrir eins árs börn sín (ég veit að því miður eiga þeir ekki annarra kosta völ í þeirri samfélagsgerð sem við búum við) en mikið þætti mér vænt um að sjá þess í stað að mótmælin sneru að því óréttlæti að börn þeirra séu sett innan um ókunnugt fólk og hávaðann sem fylgir leikskólum í 8 tíma á dag frá eins árs aldri!

Opnum augun, þetta er ekki í lagi!

Hvað erum við að gera börnunum, komandi kynslóð? Hver ætlar að taka upp hanskann fyrir ómálga börnin?

Börn eiga rétt á umönnun foreldra sinna og fjölskyldu á meðan þau eru að læra á lífið, og varla kostar það mikið meira en að halda uppi mönnuðum leikskólum að borga foreldrunum laun fyrir að ala börn sem fá þá að kynnast almennilegu heimilislífi og kærleiksríku umhverfi foreldra sinna.

Við lifum í neyslusamfélagi og verðleggjum líf okkar með inneign á bankabókum, steinsteypu, merkjavörum og öðru glingri en ekki samkvæmt því sem raunverulega skiptir flesta ef ekki alla menn mestu máli, eða umhyggja og samvera.

Á gamlárskvöldinu horfði ég á fjölskyldu mína sitja að gnægtaborði sem hæft hefði í konunglegri veislu og það gladdi mig óumræðanlega að sjá að þau voru öll glöð og hamingjusöm, og ég fann í hjarta mér að þetta væri það eina sem að lokum skiptir máli í lífinu. Stundir þar sem engan vantar við matarborðið, þar sem gleðin og samveran ríkir, og allt þetta smáa sem felst í fallegum samskiptunum. Virðing og samvinna, bros, gleði og kærleikur sem sýndur er með faðmlögum, orðum, hlustun, hjálpsemi og leik er líklega það fallegasta við mannlífið.

Hjarta mitt fylltist yfirflæðandi þakklæti og auðmýkt þar sem ég horfði yfir hópinn minn og sú tilfinning er dýrmætara en allt sem maðurinn getur framleitt eða keypt.

Svo sannarlega er þessi stund og þakklætið sem streymdi um æðar mínar þar eitthvað sem ég ætla að huga betur að á þessu nýja ári, og ég ætla sjaldnar að falla fyrir gylliboðum neyslusamfélagsins en einbeita mér að einingu í samskiptum.

Því miður er það þannig í heiminum í dag að einmannaleiki, kvíði og tilgangsleysi hefur vaxið óhugnanlega mikið samkvæmt öllum rannsóknum og verst er ástandið hjá gamla og unga fólkinu okkar og það er eitthvað sem við getum ekki horft framhjá. (upplausn þorpsins)

Á þessu nýja ári held ég að það væri ekki vitlaust að við færum að  spyrja okkur í alvöru að því hvernig við gætum mögulega lagfært þetta ástand sem við höfum skapað.

Það er nauðsynlegt að kafa svolítið og íhuga hvað við getum gert varðandi andlega heilsu barna okkar og hverju þarf að breyta í samfélaginu ef við höfum framtíð þeirra að leiðarljósi.

Hvernig getum við gefið ungum og gömlum tilgang í líf sitt?

Hvernig getum við útrýmt einmannaleikanum?

Hvernig getum við staðið betur saman sem fjölskylda, heild?

Hvernig getum við látið visku þeirra sem eldri eru ná eyrum ungdómsins?

Hvernig getum við bætt almenna líðan og hamingju heildarinnar?

Hvernig getum við lækkað kulnunartölur?

Hvernig getum við virkjað styrkleika einstaklinga í skólakerfi okkar?

Hvernig getum við orðið þjóð hamingjunnar? (Ekki bara í könnunum heldur í raunveruleikanum)

Þetta eru bara örfáar spurningar sem við getum leitað svara við og kannski fundið lausnir við, og kannski  þurfum við einfaldlega að skella á öðrum þjóðfundi til að leita að góðum lausnum og framkvæmdaleiðum.

Hvert og eitt okkar ættum einnig að spyrja okkur þessara sömu spurninga,og mín trú er sú að ef að þessi litla þjóð tæki sig saman er ég nánast viss um að við gætum byggt þjóð sem er í einingu (ekki bara þegar hörmungar dynja yfir). Þjóð þar sem þegnarnir finna fyrir friði, gleði, umhyggju og hamingju, og það er víst það sem við eigum öll sameiginlegt eða að leitast við að vera elskuð, að fá að tilheyra og að fá að hafa tilgang og markmið til að stefna að.

Að lokum óska ég ykkur öllum árs friðar gleði og hamingju, árs þar sem við verðum vonandi laus við Gróuna og móðgunina yfir öllu og engu sem hefur fengið vængi og vægi undanfarin ár, árs þar sem við getum sjálf faðmað börnin okkar og kennt þeim að lesa, árs þar sem kaupæði okkar minnkar og flóttinn frá raunveruleikanum hjaðnar, árs þar sem hjarta okkar vex og dafnar, árs þar sem við getum fundið þakklætið streyma um æðar okkar í stað stressins sem flesta sjúkdóma nærir.

Þannig að lærdómurinn sem ég fékk á liðnu ári er að hversu ótrúlegt sem það má virðast þá er það þannig að illskan og heimskan virðast stjórna heiminum sem aldrei fyrr, en ég ætla ekki láta það trufla minn kærleika til manna og málefna. Og það sem ég ætla að taka með mér inn í nýja árið og reyna að mastera þar er meiri eining, kærleikur og þakklæti fyrir það sem líðandi stund færir mér því að núið er það eina sem við eigum.

Ég óska ykkur gleðilegs og heillaríks árs 2024 elskurnar, og eins og alltaf er ég bara einni tímapöntun í burtu ef þú vilt taka til í þínu lífi.

Þar til næst

Ykkar Linda xx

 

Linda Baldvinsdóttir

Lífsþjálfi/Markþjálfi og samskiptaráðgjafi

linda@manngildi.is


Um bloggið

Linda Baldvinsdóttir

Höfundur

Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Jan. 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30 31      

Nýjustu myndir

  • ..._s4i6862_2
  • ...0eaf470d6_2
  • ...98009927331
  • pistill mynd
  • 15608665 10210640975833107 554134899 o

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 64
  • Frá upphafi: 9346

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 63
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband