Ertu að kikna undan ábyrgð?

Er óunnin fortíðin kannski að trufla þig? Ef svo er þá er þessi pistill fyrir þig.

Það sem við upplifum í æsku, lifir með okkur fram á fullorðinsár og þó að við gleymum einstökum atburðum eða lærum að gera grín að fortíðinni og gera lítið úr henni, þá geymir líkaminn söguna og hugurinn þróar með sér varnir og hjartað man alltaf.

Áföll í æsku eru ekki alltaf meðvituð eða sýnileg en þau geta verið tengd höfnun, skömm eða óöryggi.

Það að vera ekki séður eða heyrður, þurfa að þroskast allt of fljótt og taka of mikla ábyrgð, að búa við óstöðugt eða andlega kalt umhverfi, að alast upp við óheilbrigð samskiptamynstur, ofbeldi, misnotkun eða hreinlega skort á tengslum eru nokkrar af þeim ástæðum sem valda okkur erfiðleikum á fullorðinsárum okkar.

Og þessi áföll fylgja okkur eins og skuggi sem breytir lögun sinni en fer hvergi. Oft eru þessi áföll ómeðvituð en hafa samt áhrif á sjálfsmynd okkar, samskipti, starfsval, markmið og hvernig við elskum og treystum.

Margir sem upplifað hafa óörugga tengslamyndun í æsku eiga erfitt með að treysta öðrum. Þeir eru allt of oft með ofurábyrgð á allt og öllu, eða fara í hina áttina og forðast hreinega náin tengsl. Þeir þrá nánd  eins og við öll gerum en þeir óttast hana á sama tíma.

Ómeðvitað velja þeir sér oft maka sem speglar gömul samskiptamynstur eins og fjarlægð, stjórnsemi eða óstöðugleika.

Ef þú ólst upp við að þurfa að þóknast öðrum til að fá athygli, getur sjálfsmat þitt byggst á frammistöðu og samþykki annarra og þú veist ekki hvernig á að meta sjálfan þig nema í gegnum augu og hrós annarra. Skömm og sektarkennd fylgja þér oft þó að þú vitir vel að þú hafðir enga stjórn á áföllum eða skökkum samskiptum sem barn.

Langvarandi streita í æsku getur aukið líkur á því að þú fáir kvíða eða þunglyndi og orsakar jafnvel svefnvanda ásamt langvinnum líkamlegum kvillum eins og vefjagigt og meltingarvandamálum. Taugakerfið þróar einnig með sér ofurnæmi sem hefur áhrif á viðbrögð þín við álagi.

Við lærum snemma hvað er „öruggt“ í umhverfi okkar og þess vegna getur fólk sem hefur alist upp í óheilbrigðu umhverfi ósjálfrátt dregist að aðstæðum eða fólki sem endurspeglar fyrri reynslu. Þannig viðhöldum við ómeðvitað áfallamynstrinu áfram í gegnum lífið.

Er þá einhver von um lækningu fyrir þá sem hafa orðið fyrir áföllum í æsku?

Við vitum ósköp vel að við getum ekki breytt fortíðinni en við getum lært að skilja hana og sú meðvitund breytir öllu.

Þegar við förum að sjá mynstrin, átta okkur á hvers vegna við bregðumst við á ákveðinn hátt, þá eignumst við val um betra líf.

Með sjálfsvinnu, samtölum, samkennd og viðurkenningu getum við farið að byggja upp ný og betri tengsl bæði við okkur sjálf og aðra.

Það er ekkert endilega auðvelt eða fljótgert, en vissulega framkvæmanlegt.

Það þarf hugrekki til að horfast í augu við það sem var, viðurkenna það og byrja þannig okkar persónulega lækningaferi, því að með afneitun á fortíðinni erum við einnig að afneita lækningunni í nútíðinni.

Barnið sem þú varst lifir innra með þér með öll sár fortíðarinnar, og það þarf hlýju þína skilning og öryggi.

Meðvitund, hugleiðsla og samtal við barn fortíðarinnar er öflug leið til lækningar á gömlu sárunum ásamt því að æra að elska okkur sjálf nægjanlega mikið til að viðhalda ekki lærðum skökkum fortíðar mynstrum.

Með því að opna á nýjar leiðir og skapa heilbrigð tengsl, setja mörk, rækta sjálfsást og sækja stuðning, opnast nýr veruleiki og svo öflugar breytingar verða á lífi þínu sem þú átt jafnvel erfitt með að trúa að séu raunverulegar í fyrstu.

Það sem gerðist í æsku þinni útskýrir margt, en það skilgreinir þig ekki til eilífðar.

Þú ert stærri og dásamlegri persóna en summan er af öllum áföllunum þínum.

Og þó að sárin þín séu raunveruleg og hafi haft afleiðingar fyrir líf þitt þá er það kraftaverk hvers manns að geta lært að breyta sársauka í styrk, sjálfsvinnu í frelsi, og minningum í þroska.

Því þegar við förum að sjá eigin sögu með augum skilnings og samkenndar þá förum við að skrifa nýjan kafla í lífi okkar og það er svo sannarlega þess virði.

„Að eiga söguna okkar og elska okkur sjálf í gegnum það ferli er það hugrakkasta sem við munum nokkurn tímann gera.“)Bréne Brown

Og ef þú þarft á minni aðstoð að halda á þinni leið þá er ég einungis einni tímapöntun í burtu frá þér.

Þar til næst elskurnar

xoxo

Ykkar Linda

Linda Baldvinsdóttir

Lífsmarkþjálfi/Samskiptaráðgjafi

linda@manngildi.is

 


Bloggfærslur 17. júlí 2025

Um bloggið

Linda Baldvinsdóttir

Höfundur

Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • ..._s4i6862_2
  • ...0eaf470d6_2
  • ...98009927331
  • pistill mynd
  • 15608665 10210640975833107 554134899 o

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.7.): 21
  • Sl. sólarhring: 21
  • Sl. viku: 22
  • Frá upphafi: 10563

Annað

  • Innlit í dag: 20
  • Innlit sl. viku: 21
  • Gestir í dag: 20
  • IP-tölur í dag: 19

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband