21.12.2018 | 11:32
Jóla og áramótapistill 2018
Þetta er búið að vera skrýtið uppgjörsár hjá mér og margt sem hefur farið um kollinn á mér og breyst í hugsun minni þetta tímabil og þó kannski mest síðustu mánuði.
Það hafa komið yndislegar og gefandi stundir þetta árið og einnig nokkrar erfiðar, en þó stendur gleðin og samheldni þeirra sem eru í kringum mig uppúr þegar ég horfi um öxl.
Byrjum á því að tala um það sem ekki er svo skemmtilegt en þó svo nauðsynlegt að fá upp í hendurnar til að við tökum út þroska og breytumst, og ég rétt eins og plöntur náttúrunnar þroskast helst í myrkrinu og á köldum stundum og þar finn ég nýja farvegi,breytur og lausnir. Ég hef grátið og fundið til í hjarta mér, fyllst depurð, vonleysi, tilgangsleysi og öðrum tilfinningum sem setja mig á stað vanmáttar, en hef risið upp og tæklað lífið að nýju og þakka stöðuglega fyrir að eiga þau verkfæri sem allur lærdómurinn minn og gott fólk á leiðinni hefur fært mér upp í hendurnar til að nota við þessháttar aðstæður. Fátt sem ég næ ekki að tækla með þeim.
Gleðin hinsvegar yfirskyggir sorgir mínar og sút, og í byrjun ársins kom nú ein af aðal gjöfum mínum þetta árið þegar ég eignast lítinn yndislegan ömmustrák í mars og svo öllum að óvörum eru tveir aðrir ömmustrákar á leiðinni á nýju ári þannig að það verður komið hálft fótboltalið til mín á vori komandi ef Guð lofar. Mikil blessun sem ég upplifi með þessum afleggjurum mínum og ég er Guði svo þakklát fyrir þær bænheyrslur sem hann veitti mér og mínum þetta árið.
Það er ekki sjálfsagt mál að eignast barn, það þekkja þeir sem reynt hafa um langt skeið og þeir vita einnig hversu mikil blessun það er að fá tækifærið á því að sá draumur rætist og því finnst mér fjölskylda mín hafa verið afar blessuð og ég er himinlifandi glöð og djúpt þakklæti rennur um æðar mér.
En hugsanir mínar hafa fengið vængi síðustu mánuði eins og Konráð Adolphson kallar bók sína sem hann gaf út á árinu og ég mæli með að sem flestir eigi í bókasafni sínu, og þær hugsanir sem flogið hafa um minn koll hafa flogið hátt og í nýjar áttir.
Fyrstu vængjuðu hugsanir mínar sneru að því að ég tók ákvörðun um að ég verði bara þar sem mér líður vel í lífinu og hvergi annarstaðar. Lífið er of stutt til að eyða því í að láta sér líða illa. Ég tók einnig ákvörðun um að vera ekki lengur sú sem stend ekki með mér og ætla að mastera það fag betur á ári komandi.
Ég leyfi ekki fólki að meiða mig lengur og ég set mörk fyrir velferð mína eins og ég væri að hugsa um lítið barn sem mér bæri að vernda með öllum tiltækum ráðum og mér hefur tekist vel upp þar að mestu leiti, en eins og ég sagði -þá mastera ég það betur á næsta ári.
Ég sé því miður allt of mikið af einstaklingum sem vaða eld og brennistein fyrir aðra en gleyma að standa vörð um þá manneskju sem þeir áttu helst að standa vörð um eða þá sjálfa og ég ætla ekki lengur að vera ein af þeim.
Ég á helling af kærleika, vinsemd og virðingu til handa þeim sem sýna mér slíkt hið sama, en þá sem meiða get ég valið að eiga fyrirgefningu til í fjarlægðinni.
Traust mitt þarf að vera áunnið en ekki gefið, og þá sem ég umgengst þarf að velja vel. Þeir þurfa að vera velviljaðir, heilir í gegn og góðhjartaðir til að fá að tilheyra mínum hring í framtíðinni og ég vona svo sannarlega að þú lesandi góður sért sammála mér um að þú eigir slíkt hið sama skilið.
Ókurteisi, niðurtal,vanmat,stjórnun, mannvonska og aðrir meiðandi brestir mannkynsins eru það sem ég ætla að sneiða frá eins vel og mér framast er unnt á ári komandi sem þýðir örugglega að ég þarf að reita arfann enn betur en nú þegar er orðið. Ég ætla a.m.k að standa mig vel í því að velja einungis það fólk sem fallega kemur fram við mig og ég við það á móti.
Það verður semsagt settur einhverskonar Chanel - verðmiði á mig árið 2019, veit að sumt af því sem ég nefni hljómar hart og eins og að ég sé bitur, sem ég ákvað hinsvegar á árinu að verða ekki og hef valið að sjá það góða úr samskiptum mínum við alla þá sem hafa sýnt mér slæmar hliðar sínar (uppgötvaði mátt þess á árinu) og þannig hef ég frelsað mig. Það er þó ákveðin skynsemi í því að hleypa ekki fólki of nærri sér fyrr en það hefur sýnt að því sé treystandi og að það sé gegnumheilt.
En það er svosem ekki eins og mér hafi verið gerðir einhverjir stórkostlegir hlutir á árinu, megið ekki skilja það þannig, bara enn eitt uppljómunarárið.
Ég er afar þakklát fyrir að þessi sýn opnaðist mér og eins og ætíð þegar við fáum nýjar lexíur upp í hendurnar eða prófsteina þá ber að þakka þeim sem tóku á sig það hlutverk að kenna þær og það geri ég af heilum huga og veit að það er oft erfiðara að vera sá sem kennir lexíurnar en sá sem lærir þær.
Ég naut lífsins vel á árinu þrátt fyrir prófsteinana, eignaðist nýja og fallega íbúð í stað þeirrar gömlu og töluvert nálægt sjónum sem ég elska og fallega Gufunesinu mínu. Ég er alsæl með hversu vel tókst að taka þá íbúð í gegn og gera hana fallega með litlum tilkostnaði. Íbúðin var í mikilli niðurníðslu þegar ég fékk hana í hendurnar en með hjálp góðra vina tókst vel til að bæta úr því og er ég þeim sem hjálpuðu mér afar þakklát fyrir velvildina og kærleikann (Arnar þú ert perla).
Mér finnst eins og lífið sé rétt að byrja hér og mér líður eins og ég sé að flytja að heiman í fyrsta sinn með nánast ekkert af mínu fortíðardóti og ekkert er í geymslu sem þarf að henda, svolítið skrýtin tilfinning - en þó frelsandi og gefur fyrirheit um eitthvað ferskt og nýtt sem ég hlakka til að taka þátt í.
Mikið hefur verið um ferðalög á árinu hjá mér og hef ég ferðast til Bretlands, Spánar og Tenerife þetta árið og er það meira en ég hef gert lengi, og fleiri staðir bíða eftir mér fljótlega á nýju ári.
Vinir mínir (get ekki hætt að dásama þá) hafa leikið stórt, mikið og fallegt hlutverk hjá mér eins og venjulega og hafa staðið eins og klettadrangar upp úr sjó við hlið mér og auðveldað mér lífið með hjálpsemi, heimsóknum, aðstoð og helling af skemmtilegum uppákomum sem hafa gefið af sér hlátur og gleði og er ég afar þakklát þeim öllum með tölu og almættinu fyrir að senda mér þessar dásemdir allar!
Ég fór í nám í áfallafræðum sem gaf mér alveg ótrúlega mikið verð ég að segja, og ég skil svo miklu betur hvernig hægt er að vinna sig frá því sem taugalíkami okkar geymir og hversu mikilvægt það er að halda sig á fallegum og góðum stöðum í stað þess að dvelja lengi á stöðum sem valda okkur uppnámi og eða depurð og setja líkama okkar í hættu.
Þannig að þetta var ár kaflaskipta og nýrra uppgötvana hjá mér og samkvæmt stjörnuspekinni (og ekki lýgur hún) er nú hafinn nýr 12 ára kafli í mínu lífi og ég fagna upphafi hans og bíð spennt eftir öllu því skemmtilega og eins öllum þeim verkefnum sem sá kafli færir mér.
Og eins og venjulega geri ég upp árið mitt með ykkur elskurnar algjörlega berskjölduð og gef ykkur innsýn inn í líf og tilfinningar venjulegrar konu sem á sínar góðu og slæmu stundir eins og við eigum öll á einum tímapunkti eða öðrum og vonast til með því að aðstoða einhverja í leiðinni með þessu pári.
Ég þakka ætíð fyrir allan lærdóm sem ég get dregið af hverju ári fyrir sig og nú held ég af stað inn í þetta nýja 12 ára tímabil og er ákveðin í því að njóta þess með öllum þeim gleðistundum sem þau færa mér og eins tek ég við sorginni og þeim sáru tilfinningum sem það færir mér til úrlausnar, og veit að líklega að lokum hefði ég ekki viljað vera án nokkurrar stundar, hvorki þeirra góðu né hinna vondu - og ég veit að þær munu allar samverka mér til góðs um síðir þó ekki sé víst að það verði fyrr en ég tek strætó 101 til nýrra og grösugri staða himnanna.
Segi að lokum við ykkur Gleðilega hátíð og heillaríkt komandi ár elskurnar, og megi almættið eins og þú skilur það blessa þig, varðveita, gefa þér þroska og margfalda gæði lífs þíns. Mætti Það einnig gefa þér góða yfirsýn ásamt því að opna fyrir meðvitund, nýjar uppgötvanir,visku og ævintýri.
Takk fyrir samfylgdina á árinu.
p.s. eins og ávallt er ég bara einni tímapöntun í burtu ef þú þarfnast aðstoðar minnar á nýju ári.
Xoxo
Ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
TRM áfallafræði, LET samskiptafræði og Markþjálfun.
Linda@manngildi.is
Um bloggið
Linda Baldvinsdóttir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.