28.2.2019 | 13:53
Ég hugsa og þess vegna er ég.
Það er ekkert mikilvægara en það að læra að stjórna hugsunum sínum inni í aðstæðum og skapa þannig karakter okkar, vellíðan og lífið í leiðinni, og ég get ekki annað en sagt við ykkur ef þið viljið gefa ykkur eina gjöf gætið þá vel að hugsun ykkar og gætið þess að hugsunin skapi það sem gott er og fallegt fyrir líf ykkar. Munið líka að hugsunin kveikir á eða dregur úr boðefnaflæði í heilanum og þar með hefur hugsunin áhrif á líkamlega líðan okkar sem og þá andlegu.
Að sögn rannsakenda eru flestir þeir sjúkdómar sem við erum að fást við í dag eða um 75-80 prósent þeirra sem virðast stafa af röngum hugsanahætti okkar og tilfinningum sem valda skaða í líkama okkar. Það sem við hugsum um hefur semsagt áhrif á okkur bæði líkamlega og andlega, og í raun vekur tilfinning eins og ótti yfir 1400 þekkt líkamleg viðbrögð og boðefni í líkama okkar las ég um daginn og þar með einnig áhrif á meira en þrjátíu mismunandi tegundir hormóna. Sel þetta ekki dýrara en ég keypti þetta en skuggalegt er það ef satt reynist!
Samkvæmt tölum frá rannsóknastofu taugamyndunardeildar háskólans í Suður Californiu er talið að allt að 48.6 hugsanir fari um kollinn okkar á hverri mínútu sem þýðir að allt að 70,000 hugsanir fara í gegn um huga okkar daglega og þar af er talið að allt að 98 % þeirra hugsana séu neikvæðar eða ósjálfráðar og endurteknar. Ekkert smá magn hugsana sem fer um kollinn okkar alla daga!
Heilinn okkar þessi undrasmíði er okkar aðal hjálpartæki í lífinu og hlutverk hans er að verja okkur fyrir öllu því sem talist getur hættulegt lífi okkar og limum með einum eða öðrum hætti og halda okkur á öruggu vellíðanarleiðinni, og því er ekki undarlegt að megnið af okkar hugsunum verði af neikvæðum eða óttablöndnum toga svo að heilinn vinni nú sitt verk af kostgæfni og verji okkur sem best fyrir öllum þessum aðsteðjandi hættum, bæði þeim sem hættulegar eru andlegri heilsu okkar sem og þeirri líkamlegu.
Það tekur þó heilann u.þ.b 25 ár að þroskast að fullu og skýrir það kannski ýmislegt sem gekk á þegar við vorum yngri!
Þeir sem þjást af kvíða og þunglyndi t.d.gera sér oft ekki grein fyrir því hversu margar neikvæðar hugsanir fara um koll þeirra dag hvern og því síður gera þeir sér grein fyrir því að þeir geta haft áhrif á líðan sína með því að breyta hugsunum sínum með markvissum hætti sem er ekki nema von þar sem sjálfvirkar hugsanir eru líklega fyrirferðamestar og valda truflun.
Hugsanir eins og ég get ekki, kann ekki, þetta er ekki hægt og ég er ekki nóg fyrir þetta, hafa meiri áhrif en við gerum okkur stundum grein fyrir þar sem við trúum yfirleitt hugsunum okkar og lítum á þær sem sannleikann sjálfan í allri sinni mynd. Hugsanir hinsvegar hafa afar mismunandi merkingar hjá hverjum og einum, og einstaklingar geta upplifað sömu hugsanir og atburði með misjöfnum hætti allt eftir merkingu orðanna í reynslubanka þeirra, tilfinningalífi og lífssögu.
Það er talið að það taki okkur um 63 daga að skapa nýja venjubraut í heila okkar og er það gert með því að æfa sig á nýjum hugsunum sem leysa þær gömlu af hólmi og þannig verður smá saman til ný sýn og ný viðhorf, en þó að það taki 63 daga að mynda þessar nýju brautir þýðir það ekki að við séum bara komin með þetta elskurnar því að alveg eins og með líkamlegu ræktina þurfum við sífellt að vera að viðhalda þessum nýju brautum (vöðvum).
Nasa geimvísindastofnun Bandaríkjanna gerði áhugaverða tilraun á geimfaraefnum sínum hér um árið, en sú tilraun fólst í því að geimfaraefnin voru látin ganga með gleraugu sem sneru heiminum á hvolf í heila 30 sólarhringa dag og nótt. En það skemmtilega gerðist að eftir þessa 30 sólarhringa var heilinn búinn að snúa myndinni við og rétta heiminn af hjá þeim ef svo má að orði komast og ný sýn orðin til hjá þeim. Stórkostlegt tæki þessi heili okkar og hvernig hann lætur að stjórn eins og afar fullkomin tölva.
Þessi tilraun sýnir að heilinn okkar er fær um að breyta sýn okkar og fókusar á að búa til þá mynd sem við viljum sjá. Þetta er gott að hafa í huga þegar við erum að vinna úr gömlum rótgrónum mynstrum sem hamla okkur í lífinu ,- Við getum semsagt vanið okkur af því sem við gátum vanið okkur á En til þess að breyta hugsanamynstrum þurfum við þó markvisst að velja hugsanir okkar, taka þær föstum tökum og stýra þeim í ákveðnar uppbyggjandi og valdeflandi áttir.
Í NLP fræðunum er sagt að til að breyta hugsunum þurfi fyrst af öllu að koma til viðhorfsbreyting sem verður til vegna nýrrar reynslu og skynjunar,og síðan tekur við ákveðið lærdómsferli sem líkja má við það að læra að keyra bíl.
- Í upphafi erum við ómeðvituð um vankunnáttu okkar en höldum samt af stað.
- Næsta stig verður síðan til þegar við setjumst undir stýri og uppgötvum að við hreinlega kunnum ekkert á útbúnað bílsins.
- Þriðja stigið er síðan það að við lærum á útbúnaðinn og æfum okkur reglubundið.
- Fjórða og síðasta stigið er síðan þegar við erum farin að keyra bílinn án þess að þurfa að hugsa nokkuð um hvað við erum að gera, við bara keyrum. Við ferðumst semsagt frá ómeðvitaðri vankunnáttu yfir í meðvitaða vankunnáttu, og þaðan fórum við yfir í meðvitaða þekkingu og að lokum yfir í ómeðvitaða þekkingu.
Úfff eruð þið að skilja mig ?
Um bloggið
Linda Baldvinsdóttir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.