29.7.2019 | 14:02
Nú er það sumarblús hinnar einhleypu konu
Sumarið er tíminn söng Bubbi svo fallega hér um árið, og svo sannarlega er þessi árstími yndislegur, bjartur, fagur og elskuverður.
Við hinsvegar erum nokkuð mörg sem erum ekki með maka við hlið okkar og finnum okkur sérlega ein oft á þessum árstíma. Það er ekki talað mikið um þetta og líklega eru það færri sem gera sér grein fyrir því hversu einmannalegt sumarið getur verið fyrir okkur, því að við eigum öll að vera svo glöð þegar sólin skín og grasið er grænt.
Svo að ég tali bara fyrir mig sjálfa þá er það mér erfitt að vera sífellt að biðja um að fá að fylgja með þeim pöruðu vinum sem eru að fara erlendis eða í ferðalög innanlands, grillandi og hafandi það huggulegt í heitum pottum í garðinum, og því fer ég sjaldan orðið eitthvað á sumrin. Ég sem var eins og landafjandi um allar trissur hér áður fyrr og naut sumarsins og gleðinnar sem fylgdi því að grilla um helgar og eiga rómantísk sumarkvöld með hvítvín á kantinum, ferðast og upplifa með öðrum aðila, leiðast í gönguferðum eftir sjávarlínunni, og fara í afslappaða ísrúnta er nú farin að kvíða að sumu leiti þessarar annars uppáhalds árstíðar minnar. Að ég tali nú ekki um Ágústkvöldin með allri þeirri undursamlegu fegurð sem getur verið þegar dimma tekur á ný með tilheyrandi kertaljósum og rómantík.
Ég vona að þetta hljómi ekki eins og einhver sjálfsvorkunnarpistill því að það á alls ekki að vera þannig, kannski örlítil oggu poggu angurværð sem greip mig þarna, en hinsvegar veit ég um svo marga sem hreinlega kvíða einmannaleikanum sem fylgir því að vera einn á þessum árstíma og ég er stundum ein af þeim.
Við vitum öll að það er hægt að eiga fullt af áhugamálum sem stunda má án partners. En gönguferðirnar, golfið,hjólatúrarnir, ræktin og hvað þetta heitir allt saman kemur þó ekki í stað þess sem ég taldi upp hér að ofan hvað sem spekúlantarnir segja annars um það.
Manninum hefur ekki um aldir verið áskapað að vera einn að þvælast á þessari jörðu og við leitum flest yfir holt og hæðir að einhverjum heillandi aðila sem er til í að deila á nánum grunni lífinu með okkur. Þetta sjáum við t.d á samskiptamiðlum af ýmsu tagi, á börum og útihátíðum svo eitthvað sé nefnt.
Ég sjálf er mjög heppin að eiga marga vini sem ég reyni að hóa reglulega í til að gera eitthvað skemmtilegt með, en yfir sumartímann eru þeir yfirleitt bara mjög uppteknir með sínum mökum og fjölskyldum eins og eðlilegt er, og því er minna um hittinga þá en yfir vetrartímann. Og þegar þau eru úti um allar trissur þá hugsa ég oft um það hvað það væri nú indælt að finna draumaprinsinn og gera eitthvað skemmtilegt með honum.
Ég veit að eymd er oft valkostur og þó að ég sé hjartanlega ósammála því að við ættum helst að njóta þess að vera í eigin félagsskap allar stundir eins og sumir vilja halda fram að gefi okkur hina fullkomnu hamingju, þá er ég einnig þannig að ég vel ég að njóta ákveðinna þátta með me -myself and I og finnst t.d frábært að vera ein í göngutúrunum með Spotify í eyrunum og dagdrauma í kollinum.
Eins er ég alltaf á leiðinni í golfið, veiðina og fleira sem ég veit að gæti gefið mér félagsskap og gleði, en þar sem ég er ekki á forstjóralaunum læt ég það sitja á hakanum!
Þeir sem eru ekki á bankastjóralaunum láta sér nægja að mæta í ræktina og fara í sund því að það er þó mannfólk þar, líf og fjör.
Sá punktur sem þessi pistill átti nú aðallega að innihalda í þetta sinn er sá að hversu mikið sem við teljum okkur trú um að við getum farið ein og óstudd í gegnum lífið og að við þurfum engan við hlið okkar til að gera lífið skemmtilegra þá er það einfaldlega bara alls ekki eins skemmtilegt og að hafa góðan partner við hlið sér að mínu mati - punktur!
Ef sá aðili er einnig almennilegur og heilbrigður þá hafa rannsóknir sýnt að fólk lifir mun lengur sem er í góðri sambúð og er almennt ánægðara þó munur sé á milli kynja þar skilst mér. Karlarnir lifa víst mun lengur en konurnar sem eru giftar þeim las ég um daginn samkvæmt einhverri rannsókn, og ég er alveg til í að fórna nokkrum árum fyrir rétta eintakið af prince charming!.
Til að ljúka nú þessum eymdar sumarblús mínum þá skrifaði ég hann til að opna aðeins á umræðuna sem helst má ekki tala um, eða þá umræðu að þessir einhleypu eru einfaldlega ekki alltaf í gleði og glaumi eða baðandi sig upp úr nýju grænu grasi, og sumir tímar eru þeim einfaldlega erfiðari en aðrir og jólin og sumarið eru þar verstir að ég tel.
Svo ef að þú ert heppinn með þinn maka þá máttu vita að þó að þú fáir hundleið á honum stundum þá er grasið ekkert grænna hinu megin og sumrin frekar döpur - svo vertu bara heima hjá þér og dekraðu við þann sem þú hefur!
Og ef ég get aðstoðað þig við lífsins verkefni þá er ég einungis einni tímapöntun í burtu. x
xoxo
Ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
Markþjálfi,Samskiptaþjálfi,TRM áfallafræði
linda@manngildi.is
Um bloggið
Linda Baldvinsdóttir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.