5.9.2019 | 12:20
Við eigum bara þetta eina líf
Það er staðreynd sem fæst okkar virðast þó stundum gera okkur grein fyrir ef við horfum á hvernig þessu eina lífi er varið í streitu og kapphlaup við eitthvað sem mun á dánarbeði okkar ekki skipta okkur neinu máli.
Dauðir hlutir, steinsteypa, yfirvinna og allt það sem við streðum sem mest við að eignast og hafa skipta okkur litlu þegar á stóru myndina er litið.
Ég hef með árunum komist að því að það sem skiptir mig máli á þessari göngu eða flugferð er að njóta lífsins í gleði og sátt þrátt fyrir aðstæður - en ekki vegna þess að aðstæðurnar séu svo góðar, og að dvelja sem oftast í hjarta mér í því þakklæti sem ég finn þar.
Einnig hef ég ákveðið að vera aðeins þar sem mér líður vel og gera aðeins það sem mér líður vel með að gera og vera, eða bara ég sjálf með öllum mínum kostum og göllum.
Það er ekkert annað í boði ef ég ætla að uppgötva að fullu hver ég er án skilgreininga annarra á tilvist minni og athöfnum. Hvað aðrir hugsa eða halda um mig er bara einfaldlega ekki mitt mál, því að í stóra samhenginu þá hefur það ekkert að segja um mína tilvist og lífsgöngu ef ég læt það ekki snerta mig eða komast undir skinnið á mér.
Eleanor Roosevelt sagði einu sinni að enginn gæti sett þig niður eða sært þig án samþykkis þíns, og ég hef komist að því að það er töluvert til í þessum orðum hennar.
Þetta eina líf sem við fáum úthlutað er einnig mjög stutt! Svo stutt að stundum finnst mér ég vera á þotuhraða eða hraðspólun í gegnum það.
Það var fyrir svo ógnarstuttu að ég eignaðist mitt fyrsta barn td - en það eru þó tæp 40 ár síðan, lengri tími en ég get gert mér vonir um að eiga eftir hér á hótel jörðu, og þegar við uppgötvum að það er minna eftir af þessu eina lífi en meira þá förum við virkilega að hugsa um hvað það er sem við viljum hafa inni í þeim tíma sem eftir er.
Að eiga bara eitt líf er töluvert stórt mál og þegar við náum utan um þá hugsun að fullu ætti það (og gerir það líklega)að færa okkur að því marki að vilja og velja aðeins það besta sem hægt er að fá inn í það.
Við stöndum frammi fyrir hlaðborði lífsins og ættum líklega alltaf að vera að velja af því það sem er okkur hollt og gott, en gerum það allt of sjaldan með tilheyrandi þjáningu og niðurbroti ásamt sorg og harmi.
En hvað er það sem gerir það að verkum að við veljum ekki það góða fyrir líf okkar?
Jú allt of oft held ég að okkur finnist við ekki eiga það góða nægjanlega mikið skilið og oft held ég að skilgreiningar okkar og annarra á okkur setji okkur á staði sem eru okkur óhollir. Við hlustum allt of oft á þá sem ekki vilja okkur vel, og við upplifum okkur sem ekki nóg eða of mikið af einhverju og finnum okkur vanmáttug gegn lífinu og samferðamönnum okkar.
Fíknir eru t.d að mínu mati flótti frá okkur sjálfum og aðstæðum í lífinu sem við eigum erfitt með að höndla, og flest finnum við okkur víst leið til að lifa af í óvinveittu óuppbyggjandi umhverfi og aðþrengdum aðstæðum.
En ef við gætum bara séð að drive -through leiðirnar eða þessar fljótförnu leiðir leiða okkur oftar á staði sem reynast til lengri tíma vera okkur hættulegar til anda, sálar og líkama þá værum við líklega að velja af hlaðborðinu betri og hollari rétti (leiðir)
Svo ég hvet okkur til að hafa í huga að gefa okkur virði okkar sjálf, velja aðeins það besta fyrir líf okkar hverju sinni, vera og dvelja aðeins þar sem okkur líður vel, koma okkur frá aðstæðum sem eru okkar skaðlegar með einum eða öðrum hætti, og skoða af alvöru sama á hvaða aldursskeiði við erum hvað það er sem við viljum hafa í minningabankanum okkar þegar þessu eina lífi sem við eigum garenterað líkur.
Set hér að lokum nokkur viskukorn sem ég hef birt á fésbókarsíðunni Manngildi í gegnum árin ef það gæti gagnast einhverjum:
Við eigum alltaf nýja byrjun í núinu og ættum svo sannarlega að nýta okkur það til að skapa okkur þá framtíð sem við þráum að sjá.
Ertu á þeim stað að þú vitir hvaða stefnu þú átt að marka þér, eða ertu á þeim stað þar sem þú lætur hverjum degi nægja sína þjáningu ? Ég hvet þig til að skoða hver þú vilt vera og markaðu þér stefnu samkvæmt því.
Stundum eigum við erfitt með að skilja lífið og þau verkefni sem það færir okkur, en samþykki okkar er samt eina svarið við því öllu. Ef við samþykkjum ekki lífið eins og það er hverju sinni finnum við fyrir togstreitu sem þreytir okkur og dregur úr okkur mátt Sleppum tökum og leyfum lífinu að hafa sinn gang.
Lífið er sífellt að koma með nýjar áskoranir til okkar í formi brotinna tilfinninga og særinda, en á þeim stað höfum við vald til að velja tilfinningar sem gera okkur að sterkari, betri og þroskaðri einstaklingum. Veljum kæru vinir að vaxa í andstreyminu.
Við erum stundum treg að skoða málin út frá mörgum sjónarhornum og það gefur okkur því skakka mynd af því sem er. Opnum hugann og víkkum út sýn okkar áður en við ákveðum skoðanir okkar og viðhorf til málanna.
Það eru ótrúlegustu dyr sem opnast þegar við förum að trúa á mátt okkar og getu, og líf okkar getur tekið ótrúlegum breytingum á stuttum tíma.
Það eru fólgnir galdrar í því að vænta góðra breytinga og hluta.
Ekki hlusta á þá sem segja þér að eitthvað sé ekki framkvæmanlegt, gerðu tilraunir á tilraunir ofan og sjáðu til, það mun skila sér í árangri að lokum ef trúin á það er til staðar hjá þér.
Við erum svo oft að leita að hamingjunni sem fylgir fullkomnuninni og þess vegna er svo erfitt að upplifa hana hamingjan er fólgin í því smáa og hversdagslega.
Við upplifum sorg, kvíða, depurð, höfnun og margs konar aðrar óþægilegar tilfinningar á einum eða öðrum tímapunktum í lífinu, en getum þó valið að njóta gleði lífsins þrátt fyrir þær aðstæður.
Þar til næst elskurnar
xoxo
ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
Markþjálfi/Samskiptaráðgjafi/TRM áfallafræði
Tímapantanir á linda@manngildi.is
Um bloggið
Linda Baldvinsdóttir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.