26.5.2020 | 13:03
Ástin og þakklætið eru lyklarnir að kraftaverkum lífsins
Að undanf0rnu hef ég verið að endurlesa og hlusta á það sem vekur gleðina í brjósti mínu og hefur reynst mér best við að koma mér á stað möguleikavíddarinnar kærleikans og gleðinnar, og mig langar að deila með ykkur í dag því sem hefur reynst mér vel til þess.
Við lifum á afar skrítnum tímum og margt sem gengur á í veröldinni og stundum líður okkur ekkert allt of vel með það en ég tel að það séu mörg falin tækifæri í þessari stöðu engu að síður.
Við höfum frá því í febrúar verið að eiga við áður óþekktan vágest sem líklega mun hafa áhrif á efnahag okkar og samfélag til lengri tíma bæði til góðs og ills.
Þrátt fyrir það getum við átt góða og gefandi tíma og í raun nýtt þetta tækifæri til að leyfa mýkri og fallegri hliðum okkar að blómstra samfélagi okkar til góðs. Vonandi tökum við upp umhyggjusamari daglegri framkomu og skiptum henni út fyrir þá hörku sem einkennt hefur þann veraldarheim sem við höfum byggt hingað til og hefur tekið svo mikið frá okkur af því besta sem lífið getur gefið að mínu mati.
En mér til mikillar gleði hef ég heyrt fólk tala um að það ætli að slaka meira á og njóta betur þess sem lífið hefur að gefa í framtíðinni og það er skref í rétta átt. Annað skref í þá átt hefur mér fundist hversu fallegt hjartalag við eigum til náunga okkar á erfiðum tímum og það gladdi hjarta mitt að sjá að við höfum ekki glatað þeim fallega þjóðlega eiginleika.
Gerum það að rútínu og lífsstíl okkar að láta umhyggjuna og kærleikann tala, ekki bara þegar erfiðleikar steðja að, heldur einnig þegar góðir tímar eru - því að það er fullt af fólki sem hefur það ekki svo gott sama hvernig árar í þjóðfélaginu.
En hér koma þau atriði sem hafa reynst mér vel á leið minni og kippa mér til baka á góða staðinn minn:
- Í fyrsta lagi þarf alltaf kærleika og ást til að færa okkur það sem við þráum innst í okkar hjarta. Með því að gefa kærleikanum rými í hugsun, tilfinningum og framkvæmdum okkar og með því að opna fyrir flæði alheimsins geta kraftaverkin svo sannarlega látið sjá sig. Með kærleikanum breytum við orkunni okkar og verðum færari um að taka við því fallega sem lífið hefur upp á að bjóða og eins verðum við færari um að gefa. Með kærleikanum fylgir hamingjan óhjákvæmilega, því að ef við fyllum brjóst okkar af ást til lífsins og okkar sjálfra og dreifum síðan til þeirra sem settir eru í veg okkar fyllum við okkur af hamingjutilfinningunni, og ef við sjáum svo það fallega við allt sem er í þessum heimi eykst hamingja okkar enn meira. Þetta er mjög svo einfalt. Við þurfum ekki að leita lengra en til okkar sjálfra til að finna hamingjuna þó svo að sannarlega auki góð samskipti á hana ef hjartað er barmafullt af kærleika fyrir.
- Í öðru lagi er það þakklætið sem styður við hamingju okkar og er vel þess virði að iðka. Þakklætið sprettur svo sannarlega frá ástinni eða kærleikanum og ástin vex með þakklætinu, þetta tvennt verður varla aðskilið. Að þakka fyrir það sem nú þegar er í lífi okkar geymir leyndardóm og lögmál flæðis. Að þakka fyrir líkamann og hans störf í okkar þágu er eitthvað sem gott er að byrja daginn á og eins ættum við að vera dugleg við að sjá það sem við höfum nú þegar í lífi okkar og þakka fyrir það. Að þakka fyrir þá vináttu og ást sem við upplifum í og með hverri manneskju sem við hittum er uppspretta gleðinnar og alls hins góða sem hún gefur. Að gleðjast vegna alls þess smáa sem er kannski ekki svo smátt þegar allt kemur til alls er einnig ótrúlega gefandi. Okkur hér á Íslandi finnast sjálfsögð mannréttindi að hafa húsnæði,rennandi vatn, fjármuni, störf og klæði en það er svo sannarlega skortur á öllu þessu víða um heim. Svo þökkum fyrir að vera forréttindafólk á svo margan hátt.
- í þriðja lagi ættum við að láta okkur líða vel og leyfa engu að koma í veg fyrir það. Þegar við elskum og lifum í þakklæti gefur það ekki rými fyrir illt tal um náungann og við leyfum ekki neikvæðni að ríkja lengi í senn í lífi okkar. Við getum ekki verið í umhverfi þar sem ljót framkoma og meiðandi orð fá að dvelja vegna þess að það fer gegn okkar ástríka hugarfari og líðan. Stundum er jafnvel spurning um að við gefum okkur og þeim sem í neikvæðninni dvelja frí frá okkur því að sú orka gagnast hvorki okkur né þeim. Við getum ekki leyft þeim sem vilja meiða okkur að slökkva ljós okkar kærleika og hamingju og það er alls ekki gott fyrir þá að fá að ala á sinni meiðandi framkomu.
- Í fjórða lagi vertu glaður og leiktu þér. Lífið er stutt og okkur er ætlað að njóta veru okkar hér í stað þess að lifa í alvarleika og ofurábyrgð á gangi heimsins. Gefðu sjálfum þér þá gleði að senda ást til allra sem verða á vegi þínum sama hvort það er í verslunum veitingastöðum eða bara þeim sem þú mætir á vegi þínum. Allt slíkt gefur okkur sjálfum gleði þess sem veit að hann gefur án þess að af því sé vitað. Gefum af fjármunum okkar til þeirra sem við mætum og sjáum að þurfa smá aðstoð þó að það séu ekki stórar upphæðir. Allt þetta fyllir okkur hamingjuorku. Að skapa gleðistundir með ættingjum og vinum er í mínum huga eitt það besta sem ég veit fyrir mig til að kveikja gleði mína, og þegar ég fer í göngutúr finnst mér gott að taka eftir öllu því fagra í náttúrunni og skoða hvernig hún starfar í fullkominni einingu sem ég vildi svo gjarnan geta séð okkur mannkynið gera einnig. Að gefa bros, uppbyggjandi orð og hvatningu af kærleika getur breytt deginum hjá þeim sem það þiggja og gefur þér gleði þess sem veit og gerir sér grein fyrir að við erum öll saman í þessum heimi og getum gefið þeirri tengingu ástríka merkingu.
- Í fimmta lagi elskaðu þig af öllu hjarta og bjóddu þér bara uppá það besta sem lífið getur gefið að þínu mati. Sæktu það síðan með því að taka þau skref sem þú þarft til þess. Kynntu þér allt það sem getur fært þig nær tilgangi þínum jafnvægi og friði. Hugleiddu dag hvern hvort þú lifir í kærleika (ljósi) eða gagnstæðri tilfinningu (myrkri) og leiðréttu kompásinn jafnóðum yfir í kærleiksríkari tilvist ef þú kemst að því að þú ert að festast á myrku hliðinni. Allur skortur sprettur frá okkar innra sjálfstali og viðhorfum svo búum frekar við ríkidæmi ljóssins innra með okkur og breytum heiminum og hans neikvæðni einn dag í einu, einni manneskju í einu og byrjum á okkur sjálfum.
Sendi ykkur ást og umhyggju ásamt nokkrum rafrænum faðmlögum og óska ykkur kærleiksríks hugarfars ykkur til heilla og langar að benda ykkur á umhyggjuherferð sem er mér kær og nefnist #kind20 á facebook þar sem við fáum tækifæri á því að taka þátt í að dreifa umhyggju með öllum heiminum.
Og eins og ætíð er ég einni tímapöntun í burtu frá ykkur ef þið teljið að ég geti aðstoðað ykkur á ykkar lífsins leið.
Þar til næst xoxo
Ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
Lifecoach/Samskiptaráðgjafi/TRM áfallafræði 1 og 2.
linda@manngildi.is
Um bloggið
Linda Baldvinsdóttir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.