Fyrr en varir birtir að nýju

Óttinn þessi skelfilegi óvinur okkar mannanna er við völd þessa dagana og við finnum öll fyrir áhrifum hans á líf okkar, störf og samskipti.

Mín hvatning til okkar er að láta þennan óvin ekki stela frá okkur þeim stundum sem við getum átt mitt í þessari óvissu til að gleðjast saman innan leyfilegra takmarkana og vera ekki hrædd við það. Það eru ýmsar leiðir til að hittast rafrænt og símleiðis og erum við mjög heppin að þetta skuli þó koma upp á tímum internetsins og þráðlausra samskipta um heim allan.

Ef eitthvað verður til að létta tímana sem nú eru er það að nýta gleðina eins og Ítalir gera núna, þeir syngja af lífs og sálarkröftum til að létta lund hvers annars frá svölum sínum. Þeir tóku einnig upp uppskriftina sem við höfum svo oft nýtt hér á Fróni eða "þetta reddast" sem er að mínu mati það stórkostlegasta sem við eigum í ótryggum heimi og fer nú sigurför um Ítalíu og vonandi fer það jafn víða og húið okkar fræga.

Ef við göngum út á það að við getum ekki stjórnað útkomunni út úr þessu þá er ekkert annað að gera en að leyfa ekki óttanum að ríkja og njóta þess að vera til. Kannski þurfum við að taka til okkar það sem ég sá á fésbókinni; "Njótum þess að fá loksins tækifæri á því að gera ekki neitt, horfa á TV og bjarga heiminum með því móti".

Samlandar mínir hafa svo sannarlega sýnt það að undanförnu að við eigum gott og hæfileikaríkt listafólk sem nú keppist við að gleðja okkur með ýmsum uppákomum og áður óþekktir einstaklingar stíga einnig fram á sviðið með ýmsu móti og ég er svo óskaplega þakklát öllum sem það gera. Þetta er það sem við getum gert - að nýta hæfileika okkar og kunnáttu samlöndum okkar til gleði og jafnvel gæfu ef því er að skipta, og það er svo fallegt og svo gott.

Mitt framlag er að gefa okkur leiðir sem við getum skoðað og nýtt okkur til að minnka ótta okkar og vonandi til að gefa honum heilbrigt vægi í þessum aðstæðum.

En hér koma svo mínar aðferðir til að minnka vægi óttans:

1. Ef þú finnur fyrir kvíða og óróleika stoppaðu þá allt sem þú ert að gera og spurðu sjálfan þig hvort að það séu réttmæt rök fyrir ótta þínum og ef ekki finndu þá rökin gegn óttanum.

Ef við tökum sem dæmi þá getum við notað sem rök lága prósentutölu þeirra sem veikjast af þessari veiru og enn færri sem veikjast illa en um 95% tilfella virðast vera með mjög væg einkenni. Við eigum einnig gott teymi heilbrigðisstarfsmanna sem er búið að undirbúa sig vel hvað varðar lyf og annað sem til þarf og hafa búið sig undir verstu hugsanlegu útkomu fyrir þá fáu sem munu veikjast alvarlega. Þessi rök ættu að geta tekið mesta óttann frá okkur og lesum ekki allt sem við sjáum á netinu eða öðrum miðlum, það eykur á óttann okkar og margt af því er hvort sem er tóm tjara.

2. Láttu ekkert taka frá þér gleðina og haltu fast í hana. Horfðu á eitthvað sem fær þig til að hlæja, hafðu samband við skemmtilegt fólk og hugaðu að fjölskyldu þinni það skiptir öllu. Sendu út falleg skilaboð sem gleðja þig og aðra ef þig langar að gefa öðrum góða tilfinningu og ef það er leyfilegt og innan marka farðu þá og hittu fólk sem þig langar til að hitta yfir góðri máltíð eða kaffisopa. Maður er manns gaman ef sprittbrúsinn og handsápan er með í för.

3. Mundu að tilfinningar þínar kvikna útfrá hugsunum þínum svo passaðu þig á því að hafa þær eins jákvæðar og fullar þakklætis og hægt er að hafa þær. Í einangrun eða sóttkví er Nelson Mandela frábær fyrirmynd en hann sagði að kannski væri hægt að loka hann inni í fangelsinu en að hann væri sá eini sem stjórnaði hugsunum sínum. Þessi orð eru ótrúlega sönn og við höfum svo miklu meira um tilfinningar okkar að segja en við höldum oft. Hugsanaferlið okkar fer þannig fram að við tökum við ytra áreiti og við áreitið kviknar samtal okkar við okkur sjálf og við það sjálfstal tengjum við tilfinningar og framkvæmum síðan útfrá þeim.  

4. Reyndu að búa til stóru framtíðarmyndina í huga þér og gerðu hana eins fallega og þú mögulega getur og settu hana svo niður á blað þar sem þú getur horft á hana og minnt þig á að allt verður gott um síðir - þetta er tímabundið ástand og ljósið sigrar alltaf myrkrið að lokum. 

5 Slepptu tökunum - og tökum einn dag í einu. Förum að ráði Víðis sem sagði okkur að taka einn klukkutíma á dag þar sem við værum ekki að tala um veiruna og ég ætla að bæta því við að við ættum að einsetja okkur að leyfa hugsuninni um það versta sem í koll okkar kemur að fá ekki lengra dvalarleyfi en í ca 5 mínútur. - tökum tímann og teljum svo 5.4.3.2.1 og svo stopp! Allar tilfinningar þarf svo sannarlega að viðurkenna en svo þurfum við að passa uppá að þær nái ekki yfirhöndinni og veiki okkur. 

Það sem ég geri þegar ég finn að ég verð óttaslegin og er í mínum vanmætti er að fara inn í daginn og biðja um vernd fyrir mig og mína og eins bið ég um blessun til handa löndum heimsins og íbúum hans og ákveð svo að treysta. Það er það sem ég get lagt af mörkum og bara vonað síðan að á mínar bænir sé hlustað í alheimi.

Þetta eru nokkur ráð frá mér til þín sem ég vona að gagnist ykkur á þessum fordómalausu Covid tímum og ég minni okkur öll á að við erum í þessu saman.

Við getum og ættum svo sannarlega að þakka þeim sem í framlínunni starfa í okkar þágu og ég hvet okkur öll til að gera allt sem við getum til að hlíta þeirra ráðum, biðja svo fyrir blessun og vernd og halda áfram á þeirri braut sem mér sýnist við vera komin inn á, eða að sýna allar okkar fallegustu hliðar. Svo sýnist mér við líka vera komin í þann gír að "pay it forward" sé að skjóta rótum hér og við ættum endilega að taka það upp öll sem eitt til frambúðar.

Þannig trúi ég að við komumst best frá þessum erfiða og myrka tíma í mannkynssögu okkar. En ljósið mun sigra að lokum, það gerir það alltaf krakkar mínir.

Heill og heilsa fylgi okkur öllum elskurnar,

xoxo

Ykkar Linda

Linda Baldvinsdóttir

Markþjálfi/Samskiptaráðgjafi/TRM áfallafræði 1 og 2

linda@manngildi.is  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Linda Baldvinsdóttir

Höfundur

Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ..._s4i6862_2
  • ...0eaf470d6_2
  • ...98009927331
  • pistill mynd
  • 15608665 10210640975833107 554134899 o

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband