8 leiðir til að takast á við erfiðar tilfinningar og aðstæður

Flest lendum við í áföllum eða á erfiðum stöðum í lífinu og fæst sleppum við alveg við þannig tímabil. Mismunandi er þó hversu mikil áhrif þau hafa á andlega og líkamlega heilsu okkar eftir umfangi þeirra og hversu ógnvekjandi okkur finnast atburðirnir eða aðstæðurnar. 

Við getum aldrei ákveðið hversu stórt eða lítið áfallið er hjá hverjum og einum því að það fer algjörlega eftir því hversu mörg áföll einstaklingarnir hafa upplifað á lífsleiðinni og eins fer það eftir persónugerð hvers og eins ásamt mörgu öðru, svo ákveðum ekki fyrir aðra hvað sé stórt eða lítið áfall fyrir þá, sýnum upplifunum hvers og eins aðeins skilning. 

Áætlað er að um 3,6% heimsins á hverjum tíma sé haldinn áfallastreitu eða líklega um 290 milljónir þá á heimsvísu í dag ef ég hef reiknað dæmið rétt.

Þannig að við getum séð á þessum tölum að áföll eru algeng í lífi okkar og við búum langt frá því öryggi sem við viljum þó svo gjarnan skapa okkur, halda í eða leitum stöðugt að. 

En hvernig getum við minnkað áhrif áfalla á líf okkar?

Það er auðvitað engin ein leið sem dugar á alla og því erfitt að gefa hina einu sönnu uppskrift að því hvað dugar best, þó má segja að það sem kemur sér vel er að efla hjá okkur þrautseigjuna eða iðka þær aðferðir sem byggja hana.

Ég held þó að við Íslendingar séum nokkuð góð í þrautseigjunni og stundum of góð í því ef eitthvað er þar sem við erum vön náttúruhamförum af ýmsu tagi og svei mér ef við erum ekki með eitthvað þrautseigjugen í erfðamengi okkar svona samfélagslega séð, þarf samt að spyrja Kára nánar út í þetta. 

Til að efla þrautseigju okkar þurfum við fyrst af öllu að viðurkenna þá staðreynd að þjáning er hluti af lífinu og vita að einnig við getum orðið fyrir áföllum.

Og í stað þess að spyrja "hvers vegna ég" ættum við kannski frekar að spyrja "hvers vegna ekki ég".

Áföll lífsins eru mjög fjarri glamúrlífinu á Instagram þar sem allt er svo flott og æðislegt og engin áföll eða vondar tilfinningar í boði, bara gloss, brjóstapúðar, ferðalög, flott hús, heilbrigð börn, allsnægtir og merkjavörur. 

Það reiknar held ég enginn með áföllum á borð við þær aðstæður sem við stöndum frammi fyrir í dag þar sem allt í einu skellur á plága sem okkur hefði líklega ekki órað fyrir að gæti orðið í okkar tíð, og við verðum hrædd um líf okkar og þeirra sem okkur þykir vænt um ásamt því að heimsmyndin okkar er orðin allt önnur en hún var - glamúrinn farinn og við erum óörugg. 

Það sem við getum nýtt okkur inni í svona ógnvekjandi aðstæðum er að beita aðferðum sem ætluð eru til að minnka áfallaviðbrögð okkar og koma okkur sem næst hlutlausri tilfinningu.

Kannski er byrjunin sú að skoða stöðuna í rökrænu ljósi og einbeita okkur svo að þeim atriðum sem við getum breytt og sleppt síðan tökunum og sætt okkur við þá hluti sem við fáum ekki breytt eins og segir í æðruleysisbæninni góðu.

Það sem gerist hjá okkur við áföll og breyttar aðstæður sem setja okkur út af laginu er að flóttaviðbrögð okkar kvikna (Streituviðbrögð)og við eigum erfiðara með að einbeita okkur að því sem við höfum og eigum en sjáum frekar aðsteðjandi ógnina sem okkur finnst á stundum algjörlega umlykja okkur.

Þeir sem hafa eflt þrautseigju sína eru þó betri í að fókusa á það góða í aðstæðunum og þeir hafa okkar alíslenska máltæki líklega að leiðarljósi í einni eða annarri mynd eða "þetta reddast" viðhorf sem oft er gert grín að en er kannski merki um þá þrautseigju sem við höfum byggt upp hér í okkar menningu. 

Að vera þakklátur og hjálpsamur á tímum þar sem okkur finnst við hafa fátt til að þakka fyrir hjálpar okkur að sjá það góða í aðstæðunum og fátt er það sem slekkur meira á streitunni okkar en það að hjálpa náunganum og hvetja hann.  

Það er einnig mjög gott að spyrja sig hvort að þær tilfinningar sem eru ríkjandi hjá okkur á hverri stund séu að hjálpa okkur eða skaða. Spurningar eins og "ætla ég að leyfa þessari veiru að taka það skemmtilega frá mér eins og samskipti við fjölskyldu og vini eða ætla ég að finna leiðir sem hægt er að fara í þeim málum þrátt fyrir aðstæðurnar?"

Leitum lausna við vanmætti okkar í stað þess að leyfa okkur að fara niður í kjallara þó að allar tilfinningar séu hinsvegar leyfilegar í smá stund a.m.k. 

Það tekur tíma að byggja upp þrautseigjuna og það er enginn fæddur með hana öðruvísi en að hafa fengið hana í arf í gegnum genin eins og ég sagði áðan en hef ekki hugmynd um hvort svo sé þannig að við þurfum að æfa okkur og læra að taka stjórn á tilfinningum okkar ásamt því að leita aðstoðar á göngunni hjá fagaðilum eða þeim sem þú treystir til að aðstoða þig þar.

Ef þú heldur að þú náir þér aldrei frá því áfalli sem þú hefur orðið fyrir þá get ég sagt þér að meirihluti okkar lærir þrautseigju við það að komast í gegnum hvern skaflinn á fætur öðrum og við förum í gegnum atburði sem okkur þótti óhugsandi að við gætum komist í gegnum með því að lifa einn dag í einu og taka eitt skref í einu. Oft skilur þessi leið í gegnum skaflana okkur meira að segja eftir á nýjum stað þar sem við erum bara nokkuð ánægð með okkur og hefðum ekki viljað hafa hlutina með neinum öðrum hætti þrátt fyrir erfiðleikana.

Það er þó mun erfiðara í framkvæmd en á blaði að efla þrautseigjuna þegar við förum í gegnum áföll og sorg en það er þó það sem gerir okkur mesta og besta gagnið að lokum. 

Hér fyrir neðan eru nokkrar aðferðir af mörgum sem þú getur nýtt þér til að ná stjórn inni í aðstæðunum og þau virka alveg ágætlega ef þú nærð að draga andann og einbeita þér vel.

1. Taktu eftir því hvernig þér líður í líkamanum og vertu meðvitaður um það hvar spennan er. Ekki gera neitt annað en að taka eftir því hvernig þér líður og reyna að slaka á þeim vöðvum sem þú finnur að eru spenntir. Gott er að byrja á því að finna fyrir fótum sínum á gólfinu og leiða svo meðvitundina upp eftir líkamanum og taka eftir líðan, hjartslætti, andadrætti og öðrum merkjum sem líkaminn gefur frá sér og leiðrétta jafn óðum spennuna.

2. Skoðaðu hvort tilfinningarnar eru óþægilegar, hlutlausar eða þægilegar (góðar)og skrifaðu niður upplifun þína af þessu ferðalagi um líkamann.

3. Venjulega er tilfinningaskalinn okkar þegar okkur líður vel að sveiflast frá ca 3-7 á skalanum 0-10 en í lægðum getur hann farið niður í 0 og í stressinu upp í 10. Metum hverju sinni hvernig okkur líður og reynum að halda tilfinningunum okkar í kringum fimmuna með því að veita andardrætti okkar athygli ásamt því að slaka á stífum vöðvum. Ef þú finnur fyrir óbærilegri spennu leiddu þá hugann að stað á líkamanum sem þú finnur enga spennu og einbeittu þér um stund að honum og færðu þig svo aftur til baka og endurtaktu eftir þörfum.

4.Eins geturðu leitt hugann frá streitunni og vanlíðaninni með því að t.d telja alla rauðu, gulu, grænu litina sem eru í umhverfinu þínu (allir litir duga)eða teldu afturábak frá 10 niður í 1. Vatnsglas getur líka náð tilfinningunum niður um stund eða brotið hugsanaferlið upp.

5.Leitaðu að þeim auðlindum sem þú býrð yfir í formi fjölskyldu, vina, áhugamála og þess sem hefur gefið þér næringu í gegnum lífið. Einnig skaltu skoða hvaða gildi og lífsskoðanir hafa gefið þér þá persónueiginleika sem fylla þig stolti og einbeittu huganum að þessum atriðum og sæktu í þau til að lyfta anda þínum - þetta er form af þakklæti nægjusemi/rósemi, en þakklætið er eitt sterkasta vopnið sem við eigum í fórum okkar þegar kemur að því að feta sig áfram veginn í átt til friðar og sáttar.

6.Leyfðu einnig ímyndunaraflinu að búa til fallegar myndir af framtíðinni því að ímyndunaraflið eigum við alein og engin framtíðarmynd er rétt eða röng þar. Þannig að skapaðu þar þína undraveröld og happy stað og dveldu þar (í smáatriðum!) og þakkaðu fyrir að þú munt sjá þetta rætast einn daginn.

7.Til að minna sig á allt það góða sem við höfum og viljum sjá í framtíð okkar er frábært að skrifa hvatningasetningar á spegilinn á baðinu með töflutússi eða setja gula miða út um allt og vera síðan dugleg að lesa það sem við skrifum. Finnum það góða sem við getum fókusað á.

8.Finndu síðan allt það sem gleður þig að gera og vera ásamt öllu því sem fær þig til að brosa og hlæja. Og já það má líka hlæja á erfiðum og sorglegum stundum. Gleðin er það afl sem gefur okkur kraftinn til verka og aðstoðar okkur við að færast áfram veginn þrátt fyrir aðstæður lífsins.

Allt er þetta gert til að setja tilfinningarnar okkar sem næst fimmunni á skalanum og dvelja í jákvæðni hvort sem er um að ræða gagnvart lífinu, okkur sjálfum og þeim sem við umgöngumst þegar við erum í aðstæðum sem við fáum ekki breytt.

Vona að þessi pistill verði til að hjálpa þér eitthvað á þessum tímum þegar streitan er við völd og þér finnst þú ekki ráða við tilfinningarnar þínar.

Þar til næst elskurnar

xoxo

Ykkar Linda

 

Linda Baldvinsdóttir

Markþjálfi/Samskiptaráðgjafi/TRM 1 og 2 áfallafræði

linda@manngildi.is

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Linda Baldvinsdóttir

Höfundur

Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ..._s4i6862_2
  • ...0eaf470d6_2
  • ...98009927331
  • pistill mynd
  • 15608665 10210640975833107 554134899 o

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband