15.5.2020 | 11:15
Persónur og leikendur
Í ævintýrunum er það þannig að fólk er ýmist gott eða vont, annað hvort mjög traust eða undirförult, umhyggjusamt eða eigingjarnt og kannski er það einnig þannig í lífinu sjálfu.
Ég er líklega eins og Rauðhetta litla sem treysti allt og öllum þar til annað kemur í ljós en þannig vill ég líka hafa það. Ég hef séð fleiri samskipti brotna vegna vantrausts en trausts og hvatningin sem felst í traustinu er einnig það sem ég vil gefa mannkyninu. Og það er mitt karma sem ég skapa með þeim hætti, aðrir sjá um að skapa sitt.
En aftur að ævintýrunum.
Í ævintýrunum eru persónurnar ýmist litlir ljósberar sem telja sig ekki vera þess megnugir að framkvæma hetjudáðirnar en vaxa þó inni í aðstæðunum og sigrast á hindrunum og standa uppi sem hetjur, svo eru riddararnir sem ryðjast fram til bjargar heiminum og ég er svo stálheppin að ég þekki báðar þessara persónugerða.
Í dag eru það ljósberarnir eða heilbrigðisstarfsmennirnir sem hafa heldur betur vaxið í aðstæðunum og eru í dag aðal hetjurnar okkar. Svo koma næstir allir þeir sem vilja sýna kærleika sinn með aðstoð sinni við náungann með því að aðstoða við innkaup, skemmtun, vellíðan og fleira. Og að lokum eru það riddararnir á fákum sínum sem vilja bjarga heiminum með sínum réttlætis og góðmennskusverðum sem fá til fylgdar við sig heilan her af þeim sem heillast af hugsjónum þeirra og hugrekki.
Hversu dásamlegt er það að þekkja allar þessar gerðir manna og sem betur fer höfum við séð að þeir eru fleiri sem hafa þetta fallega hjartalag en við þorðum að vona í þessum allsnægtaheimi merkjavörunnar og egósins.
En hvernig getum við svo orðið þessar hetjur ævintýranna?
Jú ég held að við höfum gott af því að skoða þá möguleika sem felast í dyggðum eins og flest ævintýri heimsins byggjast á. Dyggðum sem í raun detta aldrei úr tísku eða finna amk alltaf sinn farveg til baka inn í siðmenningu okkar vegna þess að okkur líður einfaldlega best þegar við ástundum þær.
Skoðum þessar dyggðir aðeins og mátum okkur inn í þær. Skoðum hvort að við gætum hugsanlega bætt okkur með einhverjum hætti og gert líf okkar fyllra og í leiðinni skapað fegurð fyrir okkar nánustu og umhverfi okkar.
- Viska - að leita sér þekkingar á lífinu sjálfu og að geta sýnt skilning og sleppt fordómum og kreddum af ýmsum toga. Að elska fólk einfaldlega vegna þess að það tilheyrir mannkyninu.
- Hófstilling - að stilla öllu í hóf og feta þannig milliveginn sem leyfir engu að ná tökum á okkur hvort sem er í mat, drykk eða öðru sem veldur skaða í lífi okkar.
- Hreysti (hugrekki) Að standa fyrir því sem við teljum rétt, að sækja það góða þrátt fyrir að það sé ekki vænlegt til vinsælda og sækja fram til betri heims.
- Réttlæti - Að gefa öllum færi á því að fá réttláta framkomu og að vilja réttlæti fyrir alla íbúa jarðarinnar og kannski fyrir jörðina sjálfa. Að dæma rétta dóma í stað þess að hlusta á múgæsinginn.
- Trú - Að trúa á það æðsta í sjálfum sér og í alheimi og að trúa því að við getum sótt fram og að lífið hafi einnig verið búið til fyrir okkur. Og einnig að trúa því að við höfum rétt á því að biðja um og fá það fallega inn í líf okkar.
- Von - Að halda í vonina í gegnum alla dimmu dalina og að gefast aldrei upp því að það að ganga um með vonina í hjartanu mun alltaf skila sér að lokum.
- Kærleikur - Kærleikurinn er æðstur og hann er misjafn að eðli, en er þó alltaf velviljaður og treystir ásamt því að vinna viljandi engum mein. Kærleikurinn er æðstur dyggðanna.
- hreinskilni- er ómetanlegur eiginleiki í vinskap og samskiptum almennt ef hún er byggð á kærleika og velvilja til þeirra sem hreinskilni þína fá.
- dugnaður - að starfa af einurð og að gefa af sjálfum sér krafta sína og tíma til þjóðfélagsins okkar er það sem skapar grunn að góðu og velmegandi þjóðfélagi og stolti hvers manns, og eins og pabbi minn sagði alltaf "latur maður lítið kaup" en það voru einkunnarorð nokkuð margra af hans kynslóð. Kynslóð sem kom okkur á þann velmegunarstað sem Ísland er í dag og það var dugnaðurinn og ósérhlífnin sem það skapaði.
- heilsa - að hugsa um heilsu sína líkamlega, andlega og sálarlega er nauðsynlegt fyrir gott og heilbrigt líf og aldrei of mikið gert af því að borða rétt, hugsa rétt, hreyfa sig, vera í núinu, fara í hugleiðslu og tengjast móður jörðu úti í náttúrunni og Guði sínum og tengslunum við hann.
- heiðarleika - Mætti okkur öllum auðnast að geta sýnt heiðarleika í öllum okkar athöfnum og losna þannig við sektarkenndina sem kremur sál okkar ásamt því að við finnum að óheiðarleikinn minnkar okkur um nokkur númer. Sannleikurinn er sagna bestur, ekki bara stundum heldur alltaf!
- jákvæðni- Að sjálfsögðu eru allar tilfinningar leyfilegar, en jákvæðnin hefur áhrif a´boðefnin okkar og gefur okkur kjark og styrk inn í daglegu lífi okkar og bætir öll samskipti. Jákvæð persóna gefur ljós til annarra.
- traust - Að treysta lífinu og fólkinu í kringum okkur er að mínu mati kostur þó að það geti snúist stundum upp í andhverfu sína, en treystum lífinu fyrir okkur. Við erum þar sem við erum vegna þess að því var treystandi fyrir því að sjá okkur farborða, annars værum við líklega ekki hér - ekki satt?
- vináttu/fjölskyldu - Að sinna vináttunni og fjölskyldu sinni er það hlutverk sem ætti aldrei að vera í seinni sætum hjá okkur heldur í forgangi því að hvað væri lífið án vina eða fjölskyldunnar. Svo gerum okkar besta til að sinna þessum tengslum af alúð því að það munu koma tímar í þínu lífi þar sem þú vilt gleðjast með þeim sem þér þykir vænt um og það munu einnig koma tímar þar sem þú þarft á stuðningi þeirra að halda í lífi og starfi og þeir sem þú hefur sinnt munu þá verða þar.
Svo núna erum við búin að skoða nokkrar dyggðir sem flest ef ekki öll ævintýri heimsins fjalla um og núna höfum við tækifæri á því að búa til okkar eigið ævintýri, svo hvaða persóna vilt þú verða og hvað þarftu að gera/breyta til að ná þangað?
Eins og alltaf er ég bara einni tímapöntun í burtu ef þú þarft mína aðstoð á leið þinni en þar til næst elskurnar mínar.
xoxo
Ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
Markþjálfi/Samskiptaráðgjafi/TRM áfallafræði 1 og 2.
linda@manngildi.is
Um bloggið
Linda Baldvinsdóttir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.