Kannast þú við yfirfærslu á tilfinningum (projection)

Það er svolítið merkilegt hversu algengt það er að við metum aðra útfrá okkur sjálfum bæði hvað varðar tilfinningar okkar viðhorf og framkvæmdir, og svo færum við það allt saman yfir á aðila sem hafa ekki hugmynd um hvaðan á þá stendur veðrið og undrast hvaðan þessar samsæriskenningar gegn þeim spretta. Ég held að ef við erum heiðarleg við okkur sjálf þá verðum við að viðurkenna að í einn eða annan tíma beitum við þessum aðferðum sem þó skaða og forða okkur frá því að horfast í augu við okkar eigin annmarka.

Ég upplifði fyrir ekki svo löngu svona yfirfærslu á tilfinningum í nokkur skipti frá manneskju sem ég hafði nýlega kynnst og það vakti forvitni mína og áhuga á málefninu þannig að ég fór að kynna mér betur hvernig á þessu gæti staðið.

Komst að því að þetta fyrirbæri hefur verið rannsakað talsvert og er í raun svolítið merkilegt fyrir þær sakir að á bak við svona yfirfærslur geta legið nokkrar mismunandi ástæður. 

Ein skýringin er sú að yfirfærslan (projection) sé aðeins vörn egósins sem ver sig þannig með því að neita tilvist sinni í sjálfum sér og rekur eiginleika sína þannig til annarra. Til dæmis, þar sem einelti á sér stað gæti verið að varnarleysi þess sem eineltinu beitir sé sett yfir á þann sem fyrir eineltinu verður og hann sakaður um hvatir eða tilfinningar sem gerandinn sjálfur býr yfir en ekki fórnarlambið. 

Freud taldi að í yfirfærslu væri brugðist við hugsunum, hvötum, löngunum og tilfinningum sem ekki væri hægt að sætta sig við sem sínar eigin og þær þannig yfirfærðar á annan aðila. Semsagt því sem sjálfið okkar hafnar að hafa í eigin fari er sett yfir á aðra.

Þetta finnst mér alveg getað passað þar sem ég veit að við sjáum ekki í fari annarra það sem við þekkjum ekki sjálf í okkar eigin fari hvort sem við erum að gera okkur grein fyrir því eða ekki. (Hvernig á ég að þekkja eitthvað í öðrum ef ég veit ekki hvað það er sem ég upplifi eða sé)

Þessir varnarhættir okkar hafa tilhneigingu til að koma fram hjá okkur þegar við eigum í tilvistarkreppu eða krísu í lífinu en er oftar að finna í narsissistískum persónum eða hjá þeim sem eru með jaðarpersónuleika.

Carl Jung taldi að óviðunandi hlutar persónuleikans sem táknað er með Shadow archetype væru sérstaklega líklegir til að valda yfirfærslum, bæði í smáum stíl og stórum. 

Sálfræðileg yfirfærsla var ein af þeim læknisfræðilegum skýringum sem notaðar voru til að skýra hegðun barna við Salem árið 1692 og sagnfræðingurinn John Demos fullyrðir að einkenni  táninganna sem þjáðust þar hafi stafað af yfirfærslu á bældri árásargirni (merkileg saga sem þú ættir að gúggla ef þú þekkir hana ekki)

Semsagt til að einfalda þetta þá er það gjarnan þannig að ásakanir eins og um persónu þína,galla þína, ásökun um framhjáhöld og fleira eru yfirfærðar á þig, þannig að það sem  þú gerir ásakar þú aðra um og ef þú ert ásakaður um ósanngirni þá snýrðu því við á hinn aðilann og sleppir þar með að taka ábyrgð á samviskubiti þínu og tilvist.

Í jákvæðara ljósi getur sjúklingur td stundum varpað tilfinningum vonar sinnar á meðferðaraðilann, trúarleiðtogann eða Guð svo dæmi séu tekin, og ætlast sjúklingurinn þá til að viðkomandi aðilar leysi úr málefnum hans.

Í daglegu lífi og í samböndum manna á milli verður yfirfærsla töluvert algeng og veldur oft misskilningi og togstreitu. 

Í samböndum þar sem mikið er um andlegt ofbeldi t.d. er makinn oft ásakaður um hluti sem tilheyra hinum aðilanum eins og ef að eiginkonunni finnst vinnufélagi sinn mjög kynþokkafullur t.d þá ræðst hún á manninn sinn ef að hann minnist á vinnufélaga sinn af gagnstæðu kyni og ásakar hann um að vera hrifinn af viðkomandi og færir þannig sínar eigin hugsanir/tilfinningar yfir á hann.

Maður sem að efast um sína karlmennsku hæðist oft að öðrum mönnum og segir þá hegða sér eins og konur.

Narsisstar beita yfirfærslum mjög gjarnan og þá er það yfirleitt þannig að sjálfstraust þeirra byggist á því hvernig aðrir sjá þá, og þeir neita því gjarnan fyrir neikvæða eiginleika sína og persónuleikabresti ásamt því að viðurkenna ekki mistök eða það sem þeim verður á í lífinu. Þetta er varnaryfirfærsla (projection)og hún getur orðið á köflum mjög hávær og árásargjörn.

 Síðan getum við skoðað okkur sjálf og séð dæmi um það hvenær við beitum yfirfærslum þegar við tölum um aðra eins og þegar við segjum

 “Hann/hún hatar mig!” sem oftar en ekki byggist á því að okkur einfaldlega líkar ekki við eitthvað í fari þess sem um er rætt en gerum okkur ekki grein fyrir því en yfirfærum okkar eigin tilfinningar yfir á hinn aðilann.

“Guð minn góður hvað hún er feit/ljót og drusluleg !” Það er frekar algengt að við konur verðum hálfgerð hex þegar við tölum um aðrar konur og oft vegna þess að við finnum fyrir minnimáttarkennd gagnvart þeim sem er ekkert annað en yfirfærsla.

Mjög oft finnum við fyrir spennu og kvíða í kringum fólk sem er yfirleitt byggt á því hvernig við lítum á okkur sjálf og vanlíðan okkar er oftast sprottin af lélegri sjálfsmynd okkar en vörnin okkar er að við skellum skuldinni á aðra.

 “Ef ég get þetta þá getur hann/hún það einnig.”
þó að þetta eigi að hvetja okkur til dáða í flestum kringumstæðum eins og í auglýsingum þar sem aðilar ná ótrúlegum árangri á hinum ýmsu sviðum og enda auglýsinguna yfirleitt á því að segja " Ef ég get þetta þá getur þú það líka" Þarna er ekki verið að gera greinamun á getu einstaklingsins heldur verið að koma frá sjálfum sér og eigin getu eingöngu. Svona aðstæður þar sem geta og hugsun annarra er ekki á þínu færi geta valdið þér vanlíðan. 

Foreldrar beita oft yfirfærslu í formi þess að vija að börnin sín mennti sig vegna þess að þeir gátu það ekki, nái árangri í lífinu vegna þess að þeim öðlaðist það ekki, vilja að þeir verði læknar, lögfræðingar eða hvað það nú er vegna þess að þeir vildu ná þessum árangri  sjálfir. Þeir ýta börnunum út í hvað sem er án þess að huga að því að börnin þeirra eru einstaklingar með sinn eigin vilja og eigin getu óháð vilja foreldranna, og því verða vonbrigðin oft mikil hjá bæði foreldrinu og barninu þegar illa tekst til í þessum efnum.

En hvað er svo aðal vandamálið við yfirfærsluna? Er hún ekki bara góð þar sem hún forðar okkur oft frá sársauka okkar og við gefum okkur pásu með því að setja okkar óöryggi og varnarmekkanisma yfir á aðra eða hvað, er þetta svona einfalt og jákvætt?

Gallinn á yfirfærslunni getur í sumum tilfellum haft frekar neikvæðar afleiðingar og kallað á frekar narsisska eiginleika. Eiginleika eins og að okkur finnist við vera yfir aðra hafin þar sem við sjáum bara alls enga galla í okkur, það eru bara hinir sem eru meingallaðir.

Í öðru lagi verður yfirfærslan stundum til þess að við ætlumst til of mikils af öðrum og sjáum varla það góða í fari þeirra vegna þess að við erum of upptekin af því að fylgjast með göllunum.

Í þriðja lagi þá veldur yfirfærlsan því að við horfumst ekki í augu við okkar tilfinningar, og á meðan við neitum fyrir þær þá yfirstígum við þær ekki heldur gröfum þær niður í skúffu sem er aldrei gott að gera. Það mun því miður koma sá tími að þú þarft að opna þá skúffu með tilheyrandi erfiðleikum.

En hvað er til ráða ef við finnum okkur á þessum stöðum yfirfærslunnar og tilfinningaflóttans?

Kannski er verkefnið helst fólgið í meðvitund um tilfinningar okkar og hvenær okkar eigin varnarviðbrögð fara í gang í kringum aðra einstaklinga og aðstæður lífsins.

Oft er gott að spegla uppgötvanir sínar með fagaðila og fá aðstoð til að sjá hvar skóinn kreppir hjá okkur, og lagt okkur svo fram við að innleiða nýja hegðun og meðvitund um hvenær við beitum yfirfærslunni. (Hvað þú segir um aðra og hvað þú hugsar um aðra)

Ég vona að þessi samantekt hjálpi lesendum mínum til að átta sig á eigin yfirfærslum og verði jafnvel til þess að þeir skoði sjálfa sig hvað málefnið varðar því að ekki er gott að loka sig inni í skápum og skúffum þegar kemur að tilfinningum okkar.

En jákvæða yfirfærslan mín að þessu sinni er að kveðja ykkur með því að segja ykkur hversu einstök, frábær og æðisleg þið eruð öll ;)

Og ef þú þarft speglun á þína yfirfærslu þá er ég einungis einni tímapöntun í burtu frá þér.

Þar til næst elskurnar

xoxo

Ykkar Linda

linda@manngildi.is

tel:855-7007 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Yfirvarp ;)

Guðjón E. Hreinberg, 30.3.2022 kl. 11:40

2 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Afsakaðu afskiptasemina - transference er yfirfærsla og projection er yfirvarp/yfirvörpun.

Flott færsla og nauðsynlegt umræðuefni.

Guðjón E. Hreinberg, 30.3.2022 kl. 11:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Linda Baldvinsdóttir

Höfundur

Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ..._s4i6862_2
  • ...0eaf470d6_2
  • ...98009927331
  • pistill mynd
  • 15608665 10210640975833107 554134899 o

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband