9.11.2020 | 20:44
Hver heldurðu að vilji þig?
Ég veit ekki með þig en ég hef í gegnum tíðina oft verið minn versti óvinur og líklega talað sjálfa mig meira niður en ég gæti hugsað mér að gera gagnvart öðrum.
Ég er sú sem er yfirleitt alltaf góð í að byggja þá upp sem þess þarfnast. Verið til í að náða og gefa færi á mistökum af öllum toga, en öðru máli hefur svo gegnt um sjálfa mig oft á tíðum. Ég vona þó að ég hafi batnað með árunum en gæti þó trúað að ég detti stundum í þennan brunn enn þann dag í dag.
En hvað er svo niðurrífandi sjálfstal?
Í fyrsta lagi er niðurrífandi sjálfstal eitthvað á þessa leið:
1. "geturðu aldrei gert neitt rétt manneskja" sem ætti líklega að vera eitthvað líkt þessu hér:
"Ég geri alltaf mitt besta og það er nóg"
2. "þú munt klúðra þessu!
Hvað segir mér að ég sé að fara að klúðra þessu? og hvað segir mér að ég geti bara alveg gert þetta?
3. "Þú hefðir átt að"
Ég gerði það sem ég taldi réttast og hafði ekki aðrar lausnir eða þekkingu á þessum tíma.
4. "Ég er viss um að mér mistekst aftur"
Ég er alveg viss um að mér takist þetta þó að ég þurfi nokkrar tilraunir til að ná þessu.
5. "Þetta er of erfitt fyrir mig"
Ég mun leita eftir þeirri aðstoð sem ég þarf ef mér reynist þetta erfitt og ná árangri.
6. "Ég klára aldrei það sem ég byrja á"
Ég mun yfirstíga ótta minn og hætta að vera hrædd við þá dóma sem ég fæ kannski þegar ég hef lokið verkefnunum og ég treysti því að ég skili af mér góðu verki- og ætla að gera þetta strax.
7. "Þetta er allt mér að kenna"
Þarf ég að finna sökudólga eða þarf ég að leita lausna og lagfæringa á ástandi því skapaðist?
8. "Þú ert allt of feit, mjó eða ekki nógu falleg/ur"
Ég er dýrmæt manneskja og ég ætla að sættast við og elska mig nákvæmlega á þeim stað sem ég er og eins og ég er.
9. "Þú ert ekki nógu gáfuð"
Við erum öll gáfuð en kannski bara á misjöfnum sviðum, svo hvert er þitt gáfnasvið?
10. "Hver heldurðu að vilji þig"
Spurningin er frekar - Vilt þú þig? Segir þetta ekki töluvert mikið um álit þitt á þér frekar en eitthvað annað? Við getum varla ætlast til að aðrir vilji okkur ef við viljum okkur ekki. Þannig að verkefnið er að elska okkur sjálf og virða og senda þá orku síðan út í heiminn.
11. "Afhverju heldurðu að þú eigir gott skilið"
Breyttu þessu í að við eigum öll gott skilið og þurfum ekki að horfa á annað en veröldina sjálfa til að sjá að þar var allt skapað handa okkur öllum og Lífið sjálft þráir að dekra við okkur með öllum hætti um leið og við leyfum það og finnum okkur verðug.
12. "Nú gengur vel, nú hlýtur eitthvað slæmt að gerast"
Það virðist stundum vera þannig að við eigum frekar von á því slæma en því góða og þegar vel gengur erum við næstum því viss um að nú hljóti eitthvað að gerast til að skemma það í stað þess að njóta velgengninnar þegar hún birtist. Þú átt skilið það góða,fagra og dásamlega svo njóttu góðu stundanna og talaðu um hversu lukkan leikur við þig alla daga.
13. "Fólki líkar ekki vel við mig"
Ég þori næstum því að fullyrða að mörgum líkar vel við þig og þeir fáu sem kannski kunna ekki vel við þig eru bara alls ekki mikilvægir þínu lífi og þú ættir ekki að gefa þeim neinn gaum. Það getur ekki öllum líkað vel við okkur frekar en að okkur líki við alla sem á vegi okkar verða, svo hættu bara að hugsa um það. Sýndu heiminum bara þinn einstaka og flotta persónuleika og dreifðu sjálfstraustinu eins og glimmeri í kringum þig hvar sem þú stígur niður fæti þínum.
14. "Ég hef ekki nein úrræði"
Það er alltaf til ein lausn í viðbót þegar þú heldur að þú sért búinn með þær allar, ekki gleyma því, alltaf ein i viðbót.
15. "Ég hef engan stuðning til að framkvæma þetta"
Sá stuðningur sem þú sýnir sjálfum þér er alltaf sá mikilvægasti, og þeir sem hafa náð lengst í lífinu sama á hvaða sviði það er koma oft úr stuðningslausu umhverfi og erfiðum aðstæðum. Svo ekki gefast upp, hafðu samband við þá sem þú heldur að gætu aðstoðað þig á leiðinni. Það versta sem gæti gerst er að þú fengir "NEI" en það besta gæti verið að þú fengir "JÁ" svo hverju hefurðu að tapa?
Þetta eru örfá atriði sem ég hef heyrt frá umhverfinu og viðskiptavinum í gegnum árin og líklega hef ég sagt eitthvað af þessu við sjálfa mig og með því takmarkað verulega lífsgæði mín og framför - því að orðin okkar og hugsanir eru afar máttugar til sköpunar á lífinu.
Svo breyttu til og líttu bara í spegilinn á morgnana og segðu þér að þú sért falleg manneskja og eigir allt gott skilið. Segðu svo við þennan sama spegil að þú sért einstök og dýrmæt mannvera og að þú ætlir alltaf að vera besti vinur þinn. Bættu svo við að þú getir gert og lært allt sem þú vilt vegna þess að þú sért fullkomin nákvæmlega eins og þú ert (það þýðir ekki að þú viljir ekki gera breytingar)og segðu þér svo að þú ætlir að elska þig á þeim stað sem þú ert hverju sinni. Mundu svo að þakka fyrir lífið og lán þess og þakkaðu líkama þínum fyrir að bera þig alla daga þangað sem þú ferð. Og að endingu í guðs bænum fyrirgefðu þér eða náðaðu þig fyrir mistökin þín og gefðu þér þann sannleika að þú varst líklega að gera þitt besta á hverjum tíma fyrir sig en kunnir kannski ekki aðrar aðferðir eða hafðir ekki aðrar lausnir inn í aðstæðurnar.
Talaðu svo við þig á kærleiksríkan hátt og byggðu þig upp með öllu því fallegasta sem þú kannt og með þeim orðum sem þú gefur öðrum sem leita til þín á erfiðum stundum eða þegar þú talar við blómin þín.
Þar til næst elskurnar er ég bara einni tímapöntun í burtu,
xoxo ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
Lífsmarkþjálfi og samskiptaráðgjafi
linda@manngildi.is
Um bloggið
Linda Baldvinsdóttir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.