Að vera í sambandi við giftan aðila hefur marga ókosti og hefur veruleg áhrif á geðheilsu þína, sjálfsálit, almenna vellíðan og þú ert að fara að verða fyrir vonbrigðum hvernig sem á þetta samband er litið.
Hversu óánægður sem sá gifti segist vera í hjónabandinu sínu er það alveg deginum ljósara að ef hann vildi vera með þér þá færi hann einfaldlega út úr sambandi sínu og væri með þér, og ekki telja þér trú um annað - það fer ekki vel með þig.
Hér á eftir tel ég upp nokkur atriði sem vonandi fá þig til að hugsa um velferð þína og hvað þú átt allt betra skilið, því að það er alveg víst að við eigum öll skilið að eiga gott og heilbrigt samband sem gefur okkur þá næringu sem við þörfnumst.
En hvað eiga svo þessi sambönd við gifta aðila sameiginlegt?
1. Það verður alltaf einhver óvissa í huga þér og rauð flögg sem segja þér að þetta sé nú kannski ekki málið þegar til lengri tíma er litið (Við vitum að fæstir yfirgefa makann til að vera með ástarviðhenginu sínu)og þú ferð í togstreitu við gifta aðilann til að ná fram því sem þú í raun ert að leita eftir en án árangurs.
2. Það skortir traust inn í þetta samband og þú veltir því líklega fyrir þér hvað aðilinn er að gera og með hverjum hann er í tíma og ótíma, og þú fyllist vantrausti þegar símtölum þínum og skilaboðum er ekki svarað vegna þess að enginn má vita af þér og sambandi þínu við aðilann.
3. Þú færð afgangana eða smá brauðmola en ert ekki í forgangi þegar kemur að tíma, viðveru, stundum sorgar og gleði. Þú skipuleggur ekki jólin, páskana, sumarfríið og afmælið með þessum aðila og þið farið ekki í matarklúbbana saman eða veislurnar hjá vinunum, og í raun ef þú tækir saman tímann sem þið eigið saman þá eru það ekki margar klukkustundir eða dagar í hverjum mánuði.
4. Þú munt verða mjög oft í uppnámi og finnast þú lítils virði og vanvirtur þar sem þörfum þínum fyrir félagsskap, athygli, nánd og tíma er ekki sinnt eins og gerist í eðlilegum samböndum og streita verður hlutskipti þitt.
5. Þið munuð ekki tilheyra vinahópi né fjölskyldu hvers annars og lygar verða partur af lífi ykkar beggja.
6. Þið gerið ekki framtíðarplön saman og líklegt er að þið vitið bæði að það er fyrningardagsetning á sambandi ykkar þar sem það er ein af grunnstoðum sambanda að mynda framtíðarsýn þegar fullt traust og skuldbindingin er til staðar ásamt vináttu og ást. Ef ein af þessum grunnstoðum er ekki fyrir hendi þá er ekki verið að horfa til framtíðar - svo ekki telja þér trú um eitthvað annað.
7. Þegar sambandið endar þá verður það sárt fyrir þig því að þú gerir þér grein fyrir því að þú varst kannski ekki nógu mikils virði í hjarta aðilans og að annar aðili var tekinn fram fyrir þig, þannig að ástin var kannski ekki eins mikil og traust og þú hélst. Þannig að í flestum tilfellum ert það þú sem tapar á þessu sambandi.
8. Þitt hlutskipti verður eilíf bið eftir símtölum og samveru og það tekur á taugarnar. Kvíði og óróleiki verður hlutskipti þitt oftar en ekki og ekki líklegt að mikill skilningur verði á tilfinningum þínum frá gifta aðilanum þar sem hann er í flestum tilfellum aðeins að leika sér aðeins, og þú fellur fyrir fallegum orðum og yfirdrifnum lýsingarorðum á ágæti þínu sem gefa þó lítið þegar til langs tíma er litið.
9. Þegar sambandinu lýkur muntu sjá að þú varst að gefa dýrmætan tíma þinn og orku og munt líklega sjá eftir því að hafa farið þessa leið. Það verður líklega einnig þú sem situr uppi með sárt ennið og með helling af töpuðum tíma sem þú hefðir getað varið í það að byggja upp heilbrigt samband með aðila sem væri tilbúinn í alvöruna og uppbygginguna sem er nauðsynleg ef byggja á gott samband.
10. Að lokum - þú og þið eruð að særa ekki bara ykkur sjálf heldur marga aðra sem tengjast þessum gifta aðila og þar ber fyrst að nefna maka hans og börn og í sumum tilfellum heilu fjölskyldurnar, og þú verður alltaf sökudólgurinn sem situr uppi með laskað mannorð og hjartasár.
Svo ekki eyða þínu stutta og dýrmæta lífi ásamt geðheilsu þinni í að reyna að byggja upp samband með ónýtu byggingarefni. Gakktu í burtu frá sambandi sem er ekki að gefa þér það sem þú þarfnast og farðu inn í fallegri tíma og meira nærandi sambönd, og síðast en ekki síst - líttu aldrei með söknuði til baka.
Þar til næst elskurnar og eins og alltaf er ég bara einni tímapöntun í burtu ef þú þarfnast aðstoðar við þín lífsins verkefni.
xoxo
Ykkar Linda
Lifecoach,samskiptráðgjafi,TRM áfallafræði 1 og 2.
linda@manngildi.is
tel:8557007
Um bloggið
Linda Baldvinsdóttir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.