Heit sturta vekur þakklæti mitt

Ég fór í langa og heita sturtu í gær eftir að hafa farið út í frostið sem hefur verið ráðandi á okkar ylhýra að undanförnu, og þar sem ég fann hvernig hitinn smá saman yfirtók kuldann í kroppnum þá fór ég að hugsa um það hversu margt hægt er að þakka fyrir þrátt fyrir allt og allt, og Guð einn veit að ég hef þurft að seilast frekar djúpt þessa dagana til að finna það sem þakka ber.

Þetta ár er búið að vera mér erfitt á margan hátt en á sama tíma mjög gleðilegt og gjöfult þannig að mig langar að einbeita mér frekar að því sem ég get þakkað fyrir á þessum árstíma gleðinnar og friðarins en að leggjast í volæði og væl.

Næsta ár verður örugglega miklu betra heilsufarslega séð og ég vonandi farin að valhoppa á nýrri mjaðmakúlu í vor laus við stöðuga verki og vanlíðan og hver veit nema ég nái loksins að fara erlendis í draumaferðina mína til Ítalíu í sumar!

En hvað um það, ég veit að þrátt fyrir Covid, sjúkrahúslegu vegna lungnabólgu, sársaukans vegna ónýtrar mjaðmakúlu og óútskýrða þreytu, þá hef ég ýmislegt til að þakka fyrir og tel að við getum öll fundið eitthvað sem við getum þakkað fyrir þrátt fyrir erfiðar aðstæður lífsins en ekki vegna þess að allt sé svo frábært. Og svo sannarlega hvet ég okkur öll til að finna okkar þakkarefni og staglast á þeim þegar okkur finnst myrkrið í sálu okkar töluvert líkt myrkrinu úti á þessum árstíma.

Og svona til að gefa ykkur hugmynd um þau þakkarefni sem ég fór að hugsa um þegar ég tók þessa löngu góðu sturtu mína þá voru þau meðal annarra þessi(endilega finndu þín eigin í leiðinni):

1. Ég er svo þakklát fyrir það að geta farið í heita langa sturtu án þess að hafa áhyggjur af því að geta ekki borgað hitaveitureikninginn eins og megin þorri Evrópu hefur áhyggjur af í dag.

2. Ég er svo þakklát fyrir að börnin mín, tengdabörn og barnabörn eru heil og ósködduð og geti öll átt gott og gjöfult líf.

3. Ég er svo þakklát fyrir íbúðina mína og ofnana sem ég get skrúfað í botn í frostinu - þökk sé okkar dásamlegu auðlind og grænni orku.

4. Ég er svo þakklát fyrir heilbrigðiskerfi (þó seinvirkt sé) sem bara ætlar að splæsa á mig nýrri mjaðmakúlu svo ég nái fyrri styrk og heilsu.

5. Ég er svo afskaplega þakklát fyrir þá sem eru í lífi mínu og gefa mér styrk hvern dag með kærleika sínum og atlæti og þar er ég nú bara ansi heppin með að eiga marga góða að þó að nokkrir séu nú framar öðrum þar - þeir vita hverjir þeir eru wink.

6. Ég er svo þakklát fyrir að landið okkar býr ekki við stríðsátök ennþá og þar af leiðandi þarf ég ekki að horfa á eftir mínum kærustu aðilum fara í stríð til að verja land og þjóð gegn brjálæðingum sem einhverra hluta vegna fá að vera við völd í heiminum.

7. Ég er svo þakklát fyrir það að eiga líkama sem þrátt fyrir lasleika aðlagar sig að aðstæðunum og gerir sitt besta til að mér líði sem best og hjarta sem slær fyrir mig í gegnum allt og allt.

8. Úbbs, ég má ekki gleyma því að vera þakklát fyrir að hafa fengið að vakna í morgun og að fá einn dag í viðbót hér, það eru forréttindi sem gleymist gjarnan að þakka fyrir held ég - ég er a.m.k sek þar og tel sjálfsagt að ég verði hér til eilífðar.

9. Ég er svo afar þakklát fyrir að búa í landi þar sem við hugum að hvort öðru þegar ógæfa dynur yfir og erum til staðar þegar menn eða náttúruöflin skaða byggð og ból.

10. Að lokum er ég einnig svo þakklát fyrir að hafa fengið mörg erfið verkefni til að takast á við því að úrvinnsla þeirra hafa gert mig að þeirri konu sem ég er í dag, konu sem hefur þurft að læra að dansa í óörygginu vitandi að allt - já ég held sveim mér þá allt, samverki mér til góðs að lokum með einhverjum hætti.

Og til að enda þennan pistil um sjálfstal í sturtunni á  sömu þakkarnótum þá er ég svo þakklát fyrir að fá að halda jól einu sinni enn - og svo krossa ég putta og bið að ég fái að upplifa og fagna þeim friðarboðskap og kærleika sem þau boða okkur í einhver ár enn.

Finnum það sem við getum þakkað fyrir því að það vex og dafnar nákvæmlega eins og vanþakklætið vex eins og arfi ef við dettum þangað. Höldum í vonina, brosið okkar og jákvæðni þrátt fyrir að margt mætti betur fara og breytast í okkar annars ágæta þjóðfélagi og í lífi okkar margra.

Gleðileg jól elskurnar mínar allar og mættu þau færa þér sem þessar línur lest glimmer, gleði, góða heilsu ásamt dass af hlátri og kæti.

Þar til næst,

Ykkar Linda

P.S -  Munum eftir náunga okkar, sérstaklega ef hann er einmanna og einn <3

Linda Baldvinsdóttir

Lifecoach og Samskiptaráðgjafi

linda@manngildi.is    


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þakkið þeim Þakkið, þeim sem hæstur er,

þakkið, honum heiður ber.

Já, þakkið því að hann gaf Jesú Krist, sinn son.

Og nú, lát hinn veika játa styrk,

lát hinn snauða ríkdóm sjá,

vegna þess, sem Drottinn Guð hefur gjört.

Þakkið. ...

Give thanks with a grateful heart, (youtube)

give thanks to the Holy One

give thanks, because he has given

Jesus Christ, his Son.

And now let the weak say I am strong,

let the poor say I am rich,

because of what the Lord has done for us

Give thanks&#133;

https://www.youtube.com/watch?v=Bk_7wUR2Wdg

Guðmundur Örn Ragnarsson (IP-tala skráð) 17.12.2022 kl. 00:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Linda Baldvinsdóttir

Höfundur

Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ..._s4i6862_2
  • ...0eaf470d6_2
  • ...98009927331
  • pistill mynd
  • 15608665 10210640975833107 554134899 o

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband