11.11.2024 | 15:37
Mótþrói við lífið
Ég veit ekki með þig sem þetta lest en ég á það til að fara í mótþróa við lífið þegar erfið verkefni banka uppá hjá mér í lífinu og ég gleymi hreinlega að huga að sjálfri mér og því hvað væri best fyrir mig að gera við það sem var sett í fang mér hverju sinni.
Þessi mótþrói lýsir sér oft með því að ég verð reið út í lífið og fer að refsa því með því að hugsa ver um mig en ella og ég dett í vanþakklæti og fýlu útí Guð og líklega menn einnig þó að ég viti að það þýðir líklega lítið.
Mótþrói gagnvart lífinu, eða viðnámið sem við finnum gagnvart því að fylgja straumi lífsins, er oft flókin blanda tilfinninga, minninga og viðbragða sem byggja á fyrri reynslu okkar persónuleika og aðstæðum. Þessi viðbrögð koma stundum fram í formi ótta, kvíða, reiði eða sjálfsóöryggis.
Það sem gerist hjá okkur er að sjálfstalið okkar verður á frekar sjálfsvorkunnarlegum nótum og við hreinlega leyfum okkur að gefast upp og hætta að reyna að fá út úr lífinu það sem okkur langar til að það gefi okkur.
Við höfum flest tilhneigingu til að forðast eða fresta því að takast á við erfiðu verkefni lífsins vegna þess að þau vekja upp óþægilegar tilfinningar eins og óttann við mistök eða afneitun og mótþróinn verður því einhverskonar konar varnarviðbragð við því óöryggi sem við teljum að gæti skaðað sjálfsmynd okkar eða tilfinningalegt jafnvægi.
Margir upplifa breytingar sem ógnvekjandi ástand og flest finnum við fyrir því á stundum eins og þegar við verðum svo vanaföst að við getum ekki einu sinni hugsað okkur að setjast á annan stól við eldhúsborðið en þann sem við sitjum alltaf í :) Þessi innri ótti við breytingar og eins við það að gera mistök getur leitt til þess að við reynum að forðast áskoranir, óttumst framtíðina og höldum í gamlar en öruggar venjur. Þegar við leyfum þessum ótta að stjórna okkur lokar hann fyrir möguleikana á vexti okkar og velgengni í lífinu sjálfu og það er lítið smart.
Sjálfsmyndin okkar gegnir einnig mikilvægu hlutverki í því að við förum í mótþróa við lífið.
Við höfum sterka tilhneigingu til að vernda sjálfsmynd okkar hvort sem hún er jákvæð eða neikvæð. Til dæmis, ef við höfum sterka trú á að við séum "ekki nógu góð" eða "ekki fær um að ná árangri," sköpum við mótþróa gagnvart þeim breytingum eða tækifærum sem ögra þessari neikvæðu sjálfsmynd. Þessi mótstaða getur þannig fest okkur í sjálfsköpuðum takmörkunum, þar sem við verjum rótgrónar hugmyndir um okkur sjálf jafnvel þó þær séu hamlandi og hafi slæm áhrif á lífsskilyrði okkar.
Mistök og óttinn við að gera þau er oft undirliggjandi orsök mótþróa. Þetta getur verið hluti af okkar innri röddu sem segir okkur að mistök séu óásættanleg eða að þau hafi alvarlegar afleiðingar fyrir sjálfsvirðingu okkar. Þessi ótti við mistök getur leitt til þess að við forðumst áskoranir, óttumst um framtíðina og höldum í gamlar öruggar venjur sama hvað þær kosta okkur. Þegar við leyfum þessum ótta að stjórna okkur, verður mótþróinn sterkur þáttur í lífi okkar og hann lokar fyrir möguleikana á þróun okkar og vexti til góðs.
Okkar innri mótþrói getur einnig tengst þeim stöðuga samanburði við aðra sem margir upplifa. Við verðum oft óánægð þegar við berum okkur saman við árangur annarra og finnum fyrir vanmáttarkennd. Þetta getur aukið mótþróa gagnvart því að taka skref fram á við og við finnum fyrir því að við missum trú á eigin getu og hæfileika. Samanburðurinn skapar þannig tilfinningu fyrir að vera of smár eða ekki nægilega góður, sem endurspeglast í sjálfseyðandi hegðun og hugsanamynstri.
Upplifanir úr fortíðinni, þar á meðal uppeldisáhrif og fyrri sambandstengsl geta haft djúpstæð áhrif á hvernig við bregðumst við nýjum aðstæðum og áskorunum. Ef við höfum alist upp við að fá neikvæða endurgjöf eða að uppeldið hafi verið mjög strangt getum við átt erfitt með að trúa á eigin getu og orðið mjög móttækileg fyrir ótta og eigum því erfiðara með að takast á við nýjar áskoranir og frestum því eins lengi og stætt er.
En hvernig getum við sagt mótþróanum stríð á hendur og sigrað hann?
Jú í þessu tilfelli eins og flestum öðrum er sjálfsþekkingin til allra hluta nytsamleg og við þurfum að athuga hvaðan við komum. Hvers vegna er vanafestan svona mikilvæg fyrir okkur og afhverju eigum við erfitt með að axla ábyrgð og koma okkur úr sporunum. Hvers vegna upplifi ég mótþróa þegar lífið gengur ekki upp að einhverju leiti og er ég full/ur af afbrýðisemi gagnvart þeim sem vel gengur í lífinu eða er ég of mikið eða lítið af einhverju?
Þannig að í þessu tilfelli er hugsunin og álit okkar á eigin getu það fyrsta sem þarf að huga að eins og ávalt.
Dagbókarskrif geta hjálpað mikið í sjálfsþekkingarleitinni og jákvætt sjálfstal er hrein nauðsyn til að koma sér út úr hjólförunum.
Sjálfsástin er einnig mikilvægur þáttur í lausnarferli mótþróans og við þurfum svo sannarlega að hætta að einblína á mistök okkar eða gallana. Fögnum litlum sigrum og viðurkennum eigin framfarir í stað þess að horfa á aðra og klöppum okkur á öxlina þegar illa gengur og segjum okkur að þetta gangi bara betur næst.
Við höfum vald yfir eigin hugsun, viðhorfum og viðbrögðum og ættum aldrei að gleyma því. Svo veljum vel hugsanir okkar og viðhorfin gagnvart okkur sjálfum og þar með líklega viðbrögðum okkar við áreiti lífsins.
Þakklæti, slökun og núvitund eru allt góðar leiðir á leið okkar að lausn á mótþróanum og eins og alltaf er best að byrja á því að byggja upp sjálfstraust okkar og opna okkur fyrir nýrri reynslu.
Og eins og alltaf er ég einungis einni tímapöntun í burtu ef þú vilt vinna með þitt sjálfstraust og sjálfsþekkingu.
Þar til næst elskurnar,
Ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
Lífsmarkþjálfi og samskiptaráðgjafi.
linda@manngildi.is
Þar til næst elskurnar,
Um bloggið
Linda Baldvinsdóttir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.