Hvernig eyðileggjum við vellíðan komandi kynslóða?

Ég rakst á myndband á netinu þar sem móðir spurði gervigreindina eftirfarandi spurningar og mér fannst áhugavert  að heyra svörin í ljósi þess sem er að gerast hjá börnunum okkar í dag, og ég verð að segja að ég er bara mjög sammála um flest sem hún sagði. 

Spurningin sem gervigreindin fékk var „hvað myndi djöfullinn gera ef hann vildi eyðileggja hugi næstu kynslóðar“ og svarið sem hún gaf var,

 “Ef ég væri djöfullinn og ætlaði að eyðileggja hugi næstu kynslóðar, myndi ég gera það með því að:”

  1. Fylla skilningarvit þeirra af truflunum. Veita þeim stöðuga örvun í gegnum skjái, endalausa skemmtun/leiki og stutt myndbönd sem drepa einbeitingu þeirra og hæfileikann til að hugsa af dýpt.
  2. Rjúfa tengsl þeirra við náttúru og raunveruleg mannleg samskipti. Skipta út útiveru og innihaldsríkum samtölum fyrir sýndarheima og yfirborðsleg tengsl.
  3. Kynda undir samanburð í stað tengsla. Fæða þau stöðugt með óraunhæfum glansmyndum af lífi annarra til að kveikja öfund, óöryggi og falska sjálfsmynd.
  4. Gera lítið úr tilfinningagreind og samkennd. Mála viðkvæmni sem veikleika svo að börn og ungmenni eigi erfiðara með að skilja tilfinningar sínar og tengjast öðrum af dýpt.
  5. Venja þau á tafarlausa umbun. Varna þess að þau læri þolinmæði og seiglu með því að dásama “augnabliks árangur” og skjótar lausnir (Drive through).
  6. Rjúfa tengsl við fjölskyldu og leiðbeinendur. Passa upp á að þau fái ekki viskuna sem flyst á milli kynslóða með því að minnka gæði samveru með foreldrum, öfum, ömmum og leiðbeinendum.
  7. Gera nám að sókn í einkunnir en ekki þekkingarleit. Einblína sem sagt á einkunnir, próf og árangur í stað forvitni, sköpunar og líflegrar námsfýsnar.
  8. Dreifa ótta og vonleysi. Mála framtíðina myrka og valdalausa svo að það sé tryggt að börnin missi von og hætti að reyna að breyta framtíðinni til góðs.
  9. Eyðileggja gagnrýna hugsun. Skipta út spurningum og ígrundun fyrir forritun og endurtekningu sem ýtir undir það að einstaklingar hætti að hugsa sjálfstætt.
  10. Þagga niður í sálinni. Gera börnin of upptekin, kvíðin eða of dofin til að þau geti heyrt innri rödd sína eða ímyndað sér líf með tilgangi. – (endir á gervigreindarlistanum)

Ég veit ekki með ykkur en fyrir mér hljómar þetta nákvæmlega eins og þetta er í dag.

Börnin okkar eru farin úr umsjá foreldranna allt of stóran hluta úr deginum jafnvel áður en þau hætta á bleyju eða geta talað, og eru komin inn á staði þar sem þau verða fyrir stöðugu áreiti sem auðvitað eykur kortisólið  ( stresshormónið) í líkamanum sem svo kyndir undir hegðunarvanda og skapsveiflur, svo skiljum við ekki neitt í neinu með hvað er að gerast!

Börnin okkar eru kvíðin  sem aldrei fyrr og sjálfstraust þeirra hefur líklega aldrei verið minna en það er í dag. Þau eru hrædd með loftslags vá og stríðsógnum og því að ef þau standi sig ekki í skóla þá verði ekkert úr þeim og lífið verði þeim svo erfitt.

Merkilega nokk þá hefur fortíðin sýnt okkur að þeir sem hafa náð árangri í lífinu hafa jafnvel gert það með sjálfstæðri hugsun og hugmyndaflugi og jafnvel komið úr umhverfi þar sem engin var menntunin, en þeir voru “streetsmart” og það dugði. Að auki er því spáð að 70% af þeim störum sem við störfum við í dag verði annað hvort farin eða verði mjög breytt þannig að leyfum nýrri kynslóð að finna sína hillu með sköpunargáfu sinni frekar en stýrðri úreltri mötun kerfis sem krefst þess að allir séu eins.

En ég verð að segja að ég hef áhyggjur af tilfinningalegri velferð barna nútímans og því umhverfi sem við höfum skapað á ekkert svo löngum tíma.

Tengsl barna við fjölskylduna hafa minnkað og þau sjá jafnvel ömmur og afa ekki svo mánuðum skiptir og ná því ekki að læra af reynslu og þekkingu þeirra sem elska þau líklega mest fyrir utan foreldrana og vilja þeim það allra besta, og ömmur og afar þekkja einnig lífið, sigra og ósigra og geta miðlað af mörgu sem kæmi afleggjurunum vel á leið sinni um lífið – algjör synd hvernig þetta er!

Aldrei áður hafa fleiri börn glímt við kvíða, ADHD-einkenni, pirring, félagslega einangrun og innri tómleika. Það er ekki vegna þess að þau séu svona ómöguleg,  þau eru einfaldlega að bregðast við umhverfi sem er of hratt, of yfirþyrmandi, of stýrt og of fjarlægt. Að vera í stórum hópi barna á leikskólum 8 tíma á dag alla virka daga vikunnar getur valdið oförvun í taugakerfi þeirra og skapað einmanakennd þrátt fyrir félagslega nálægð, og aðal þörf þeirra verður að aðlagast frekar en að finna út einstaklingseðli sitt og bara vera það sjálft. Það skortir ssemsagt algjörlega rými fyrir kyrrð, tengsl og einstaklingsathygli.

Börnin missa af göngutúrum fjölskyldunnar í náttúrunni því að aðal skemmtun helganna er að vera í enn meira áreiti með heimsóknum í verslunarmiðstöðvar og borða í  Ikea um helgar með skjáinn fyrir framan sig í stað samræðna við fólkið sitt,  og tengingamyndunin verður þar af leiðandi lítil. Rannsóknir sýna að foreldrar tala að meðaltali 9 mínútur á dag í beinum samtölum við börn sín, og feður oft minna en mæður. Mesta orkan fer í hagnýtar skipanir  en lítið rými er fyrir spjall, hlustun, hlátur, tilfinningar og samveru.

Öll þurfa þau að skara fram úr í einkunnum, útliti, outfitti og því að eiga alla skapaða hluti í stað þess að  ímyndunarafl þeirra sé virkjað með leik í náttúrunni þar sem þau þurfa að beita sínum frjóa huga til að skapa ævintýrin.

Þau eru sett í allskonar tómstundir í stað þess að fara með þau í göngutúr við sjóinn þar sem hægt er að kenna þeim nöfn á fjörðum, fjöllum og öðrum kennileitum, fuglahljóð, heiti á jurtum og öðru því sem kennir þeim að þekkja móður jörðu , að ég tali nú ekki um að þau fái súrefni og orku frá henni á sama tíma.

Náttúran og það sem þar er að finna er það sem gefur okkur frið í hjarta okkar, og göngutúr gerir meira fyrir börnin okkar en margt annað sem þau eru að fást við.

Ganga getur orðið að einhverskonar núvitund og getur kveikt á sjálfstæðri hugsun þeirra og ímyndunarafli sem þau þurfa svo innilega á að halda.

Meiri ró, meira að láta sér leiðast og fleiri skyldur inni á heimilinu og gagnvart þeim sem eldri eru í fjölskyldunni gerir þeim gott og kennir þeim samkennd, ábyrgð, þolinmæði, seiglu og margt annað sem þau þurfa á að halda í lífinu sjálfu.

Ef við látum allt eftir þeim og látum þau ekkert hafa fyrir lífinu þá rænum við þau sjálfsbjargarviðleitninni og sjálfstæðinu og þau verða óörugg, kvíðin og jafnvel hrædd við lífið, og geta átt erfitt þegar að heiman er farið.

Samfélagsmiðlar eru frábærir á sinn hátt en þeir eru of duglegir við að segja okkur öllum að við séum ekki nóg. Ekki nógu falleg, ekki nógu dugleg, ekki nógu rík, eigum ekki nóg af hinu og þessu, og við þurfum að skara fram úr á allan hátt og allt þarf að vera upp á hundrað prósent.

Við sem erum orðin fullorðin tökum þetta kannski ekki mjög alvarlega, en óþroskaðir unglingar trúa þessu öllu eins og stafi á bók og upplifa sig oft á tíðum gjörsamlega vonlausa á allan hátt.

Unga fólkið okkar er varla talandi á móðurmálið í dag en þau kunna svo sannarlega ensku frá því að þau fara að tala vegna þess að þau horfa á enskt barnaefni frá því að þau geta setið sjálf fyrir framan skjáinn ef ekki fyrr.

Amma mín kenndi mér að skoða himininn og nota ímyndunaraflið til að sjá myndir út úr skýjum , hún kenndi mér bænir og ég átti alltaf góðar samræður við báðar ömmur mínar um fortíðina, forfeðurna, andleg málefni , gildin í lífinu og margt annað sem enn situr í mér, og hjá þeim lærði ég mest um samskipti og fegurð þeirra, en þetta var auðvitað þegar það þótti sjálfsagt að foreldrar byggju hjá börnum sínum á efri árum þeirra eða í nágrenni við þau, og áður en að ömmurnar og afarnir urðu of uppteknir við að vinna langt fram á áttræðisaldurinn, og áður en golfið og félagslíf þeirra varð of ríkt til þess að þeir hefðu tíma til að sinna því hlutverki sem svo miklu máli skiptir að sinna .(Er sjálf stundum sek þarna)

Auðvitað veit ég að allt það sem ég hef sagt hér að framan er ekki algilt sem betur fer, en því miður samt allt of mikið til í því. Vöknum elskurnar og skoðum hvar við getum gert betur.

Við erum hjarðdýr í eðli okkar og þurfum öll á hjörð okkar að halda og það er stundum sagt að það þurfi heilt þorp til að ala upp barn og þar er ég svo sannarlega sammála. Og ég held að börn hafi yfirleitt mjög gott af því að umgangast bæði ömmur, afa og stórfjölskyldu sína með reglulegum hittingum og samveru.

En nú er kannski komið nóg af rausinu í mér að þessu sinni, en ég held að það sé tímabært að við skoðum hvað við erum að gera og hverju við þurfum að breyta til að öllum, ungum sem gömlum geti liðið vel í sjálfum sér.

Og svona að lokum langar mig til að hvetja okkur  öll til að auka umgengni við fólkið okkar og hafa td vikulega hittinga þar sem allir koma saman og jafnvel borða saman (allir geta lagt eitthvað til á borðið)

Over and out,

Þar til næst elskurnar,

Ykkar Linda 

 

Linda Baldvinsdóttir’

Lífsmarkþjálfi og samskiptaráðgjafi


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Hver er summan af sex og fjórtán?
Nota HTML-ham

Um bloggið

Linda Baldvinsdóttir

Höfundur

Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • ..._s4i6862_2
  • ...0eaf470d6_2
  • ...98009927331
  • pistill mynd
  • 15608665 10210640975833107 554134899 o

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.5.): 31
  • Sl. sólarhring: 31
  • Sl. viku: 34
  • Frá upphafi: 10464

Annað

  • Innlit í dag: 31
  • Innlit sl. viku: 33
  • Gestir í dag: 31
  • IP-tölur í dag: 31

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband