21.9.2025 | 12:32
Ertu í þóknunarhlutverki?
Mörg okkar þjást í hljóði og láta engan vita af því að þeu eru á barmi taugaáfalls vegna þess þóknunarhlutverks þau eru í og því miður þá eru sum sambönd undirlögð af því hlutverki. En hver eru atriðin sem geta sagt okkur hvort að við séum í þessu hlutverki?
Jú það eru atriði eins og þessi.
Ertu ein eða einn af þeim sem leggur þig svo fram við að þóknast öðrum að þú gleymir því að þú sért til og eigir rétt á því að hafa þínar eigin langanir og þarfir og að sinna þeim?
Ertu sá sem allir treysta á að geri allt sem gera þarf svo að enginn annar þarf að gera eitt né neitt?
Ertu sá eða sú sem segir alltaf já þó að nei-ið öskri innra með þér?
Ertu sá eða sú sem ert alltaf sammála skoðunum annarra svo að þeim líki við þig?
Ertu sá eða sú sem allir koma með áhyggjur sínar og vandamál til, og þú segir ekki neitt þó að þig langi mest til að segja að þú getir ekki tekið við þessu né gert eitthvað í því?
Er álagið að gera útaf við þig og ertu sá eða sú sem átt erfitt með að finna lífi þínu tilgang og ert við það að gefast upp?
Það eru margir sem lifa lífi sínu í þóknunarhlutverki.
Þeir reyna að lesa í þarfir og væntingar annarra og þeir ganga svo langt í því að gleðja og þóknast að þeir missa smám saman tengsl við eigin þarfir, skoðanir og mörk og forðast árekstra af öllu tagi.
Og þó að þeir virðist stundum vera svo ósköp vingjarnlegir eða óeigingjarnir þá felst undir niðri oft djúp þreyta, ótti og ósýnileg byrði.
Hvers vegna lenda sumir í þessu hlutverki?
Æskureynsla og uppeldismynstur
Margir sem lenda í þóknunarhlutverki hafa alist upp í aðstæðum þar sem samþykki foreldra eða umönnunaraðila var háð hegðun barnsins. Barnið lærði snemma að róa ástand, gleðja eða þóknast til að forðast skömm, refsingu og eða afskiptaleysi.
Ótti við höfnun eða átök
Þegar ótti við að missa tengsl eða að lenda í ágreiningi er oft auðveldara að laga sig að öðrum en að standa með sjálfum sér. Þannig verður þóknunin leið til að halda friðinn jafnvel á kostnað eigin sannleika og tilveru.
Skortur á heilbrigðum mörkum
Sumir hafa aldrei lært að greina á milli sinna eigin þarfa og annarra. Þeir finna fyrir ábyrgð á tilfinningum fólksins í kringum sig og telja að það sé þeirra hlutverk að halda öllum ánægðum.
Samfélagslegar væntingar
í samfélagi okkar er þeim hrósað sem eru sanngjarnir, góðir og ósérhlífnir. Sérstaklega hafa því miður konur oft verið aldar upp til að þóknast, hlýða og setja aðra fram fyrir sjálfa sig.
Afleiðingar þess að vera í stöðugu þóknunarhlutverki
Uppsöfnuð gremja og ósýnilegur pirringur.
Skortur á sjálfstrausti og eigin sannfæringu.
Líkamleg einkenni eins og streita, kvíði, depurð, heilsukvíði, svefntruflanir eða kulnun ásamt fíknum af ýmsum toga geta orðið.
Erfiðleikar í nánum samböndum þar sem þóknunin kemur í veg fyrir heiðarleika og náin tengsl.
Hér fyrir neðan finnurðu gátlista sem gæti aðstoðað þig við að átta þig á þínu þóknunarhlutverki og aðferðir sem gætu gagnast þér á leiðinni að því að koma þér frá því.
Ég á erfitt með að segja nei, jafnvel þegar ég er þreytt/ur eða hef ekki tíma.
Ég óttast að ef ég segi skoðun mína gæti einhver orðið ósáttur eða hafnað mér.
Ég finn stundum að ég veit ekki alveg hver ég er eða hvað ég vil, því ég hugsa meira um þarfir annarra.
Ég reyni stöðugt að halda friðinn og forðast árekstra.
Ég finn að sjálfsmat mitt er háð því hvort aðrir eru ánægðir með mig.
Ég finn oft gremju eða þreytu eftir að hafa samþykkt eitthvað sem ég vildi í raun ekki gera.
Ég finn til ábyrgðar fyrir tilfinningum annarra (ég verð að láta þeim líða vel).
Afleiðingar sem þú gætir verið að upplifa:
Ég finn fyrir einkennum kulnununar eða mikilli þreytu.
Ég er óörugg/ur í nánum samböndum því ég tjái mig ekki af hreinskilni.
Ég á erfitt með að setja eigin þarfir í forgang.
Ég finn stundum að fólk nýtir sér það að ég er alltaf til í að hjálpa.
Skref sem hjálpa þér að stíga út úr hlutverkinu:
Æfa mig í að segja nei við litlum atriðum og fylgja því eftir.
Skrifa niður eigin þarfir og gildi til að kynnast sjálfum mér betur.
Spyrja mig: Geri ég þetta af því að mig langi til þess eða af ótta við viðbrögð annarra?
Æfa mig í að þola smá óþægindi þegar einhver er ósammála mér.
Sækja stuðning í fræðslu, samtölum eða ráðgjöf til að styrkja sjálfsmyndina.
Byggja upp sjálfsást og sjálfstraust og finna eigin gildi og sannfæringu eða skoðun.
Æfa mig í heiðarlegum samskiptum þar sem ég tjái mig án þess að bera ábyrgð á tilfinningum annarra.
En fyrst af öllu er að átta sig á stöðunni og taka fyrsta skrefið það opnar leið að heilbrigðari samskiptum og sterkari tengingu við sjálfan sig - og það er þess virði upp á hamingju okkar og vellíðan að gera!
Þar til næst elskurnar,
xoxo ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
Lífsmarkþjálfi og samskiptaráðgjafi
linda@manngildi.is
Um bloggið
Linda Baldvinsdóttir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.9.): 30
- Sl. sólarhring: 30
- Sl. viku: 32
- Frá upphafi: 10731
Annað
- Innlit í dag: 21
- Innlit sl. viku: 23
- Gestir í dag: 20
- IP-tölur í dag: 20
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning