Brýrnar 6 í Feneyjum

Í Feneyjum má finna 6 tignarlegar brýr sem höggnar eru út sem hendur sem vefjast saman með fingrunum og táknar hvert og eitt handartak einn af eftirtöldum kostum eða mannlegum verðmætum svo sem visku,von,kærleika,hjálp,trú og vináttu.

Brýrnar sem eru 15 metra háar og 20 metra langar eru hannaðar af Lorenzo Quinn nokkrum sem er sonur Anhony Quinn leikara sem frægastur er líklega hér fyrir hlutverk sitt í kvikmyndinni Zorba og Lawrence of Arabia.

Sagan segir að Lorenzo hafi ætlað höndunum að tákna vilja mannsins til að yfirstíga það sem aðgreinir okkur á allan hátt í lífinu, aðgreiningar eins og þær landfræðilegu, menningarlegu, hugmyndafræðilegu og tilfinningalegu. 

Samkvæmt því sem Lorenzo Quinn segir sköpum við allt með höndum okkar, bæði gott og illt. Ánægjulegar snertingar og pyntingar eru framkvæmdar með höndum okkar, við föðmum börnin okkar með þeim og og berjumst við óvini okkar með sverði í hönd. Með höndunum sköpum við heimssögu okkar sem mun lifa þvert á öll landamæri og hindranir segir hann og ég tek heilshugar undir þetta. 

Mér fannst þessar brýr svo fallegar og táknríkar og í raun finnst mér nauðsynlegt að minna reglulega á þessi gildi sem þær tákna og ekki síst í dag þar sem ég tel þá tíma sem við lifum afar viðsjárverða hvað varðar upplausn í mannlegum samskiptum og velvild okkar hvers til annars er orðin á töluvert lágu plani.

Við virðumst vera að glata þeim gildum sem hendurnar tákna og þau hreinlega virðast hörfa jafn hratt og jöklarnir okkar þó að ég svo innilega voni að ég hafi kolrangt fyrir mér þar og að við höldum í þau löngu eftir að jöklarnir hafi bráðnað niður. 

Þegar ég horfi til baka á mína æsku og síðan daginn í dag þá sé ég að við höfum hent út svo mörgu góðu, þar með talið viskunni sem finna má í mörgum góðum bókum, heimspekiritum og trúarritum en ekki síst hjá þeim sem lifað hafa tímana tvo eða fleiri og hafa lært af lífinu sjálfu sem er líklega besti háskólinn.

Í dag eru þeir sem komnir eru yfir fimmtugt ekkert taldir svo töff og lítið á þá hlustað, helst taldir hafa misst hæfileikann til að aðlagast og læra nýja hluti og því ekki til margra hluta nýtir. En trúið mér, það er ekkert sem er mikilvægara fyrir ungmennin okkar en það að fá að hlusta á afa og ömmu og fá þar skilning og þekkingu á mannlegu eðli, vonbrigðum, sorg og mistökum lífsins ásamt því að þar fá þau skilyrðislausu ástina sem við ættum öll að fá að kynnast á lífsleið okkar. Viskuna finnum við líklega ekki í skólum ekki einu sinni góðum skólum, heldur í gegnum reynsluna og í gegnum sögur af lífi sem hefur verið lifað.

Ef við skoðum vonina þá á hún undir högg að sækja því að hún er tekin frá okkur í gegnum upplýsingaflæði frétta sem boða okkur ekkert annað en ljótleika lífsins þar sem hann selur meira en þær fréttir sem vonina færa. Vonin er þó það sem heldur í okkur lífinu þegar við göngum í gegnum slæma tíma, sorg, veikindi, atvinnumissi, blankheit og hvað það er nú sem hrjáir okkur hverju sinni. Vonin og trúin eru náskyldar að mínu mati og mikilvægt að kenna ungviðinu að halda í hvorutveggja í lífsins ólgusjó. 

Kærleikurinn er heldur betur að kólna hjá okkur flestum og við gefum okkur sjaldan tíma til að sinna því sem mikilvægast er eða það að sinna þeim sem eru í kærleikshring okkar og tíminn sem við látum hlaupa frá okkur í hitt og þetta sem skiptir engu máli í stóra samhenginu er allt of mikill.

Ég veit að ég hef líklega skrifað um þetta allt saman áður en í þetta sinn finnst mér ég verða að leggja áherslu á að koma fram með þetta vegna þess að ég sé ummerki allt í kringum mig hvað gerist ef við vanrækjum þessa hlið. Það er margt sem tapast af innri hamingju okkar með þessu kapphlaupi við vindinn sjálfan og græðgisheiminn. Það er alveg skelfilegt til þess að hugsa að aldrei hefur verið meira um einmannaleika og vanlíðan hjá stórum hópum og hamingjusamasta þjóðin (við) gleypir kvíða og þunglyndislyf sem aldrei fyrr, og enn bætist í flóru lyfjanna sem boðið er uppá og nú í formi ofskynjunarlyfja sem eiga að lækna öll okkar innri gömlu sár og vonandi munu rannsóknir sýna það þegar þar að kemur en þangað til finnst mér þetta vera enn eitt afbrigðið af snákaolíunni sem hefur komið fram með reglulegu millibili en reynist síðan ekki standa undir væntingum.

Það sem við virðumst ekki skilja er að hamingja okkar felst í kærleiksríkum tengingum heildarinnar og einstaklinganna innan hennar. Þær eru þó nokkrar rannsóknirnar sem gerðar hafa verið á þessu eins og t.d rannsókn sem gerð var á sjúkrahúsi fyrir nýbura. Rannsókn þessi var fram­kvæmd á 125 nýburum við barna­spítal­ann Nati­onwi­de í Ohio ríki í Banda­ríkj­un­um og í ljós kom að fyrsta snert­ing­in sem börn­ upp­lifa er lík­leg til að skilja eft­ir var­an­leg áhrif á það hvernig heili þeirra þrosk­ast hvorki meira né minna.Því meira af kærleiksríkum snert­ingum því betra fyrir börnin og heilastarfsemi þeirra.

Eins hefur komið fram í öðrum rannsóknum að lífslíkur munaðarlausra barna fóru eftir því hversu mikla umhyggju þeir fengu og þau döfnuðu best sem mestar snertingarnar fengu. Eitt faðmlag á dag kemur skapinu í lag var eitt slagorðið sem notað var hér um árið og það er nokkuð mikið til í því. Notum tímann sem við höfum til að sinna tengslunum okkar því að á morgun getur það verið orðið of seint, gleymum því ekki elskurnar.

Hjálpin er eitthvað sem við hugsum kannski ekki mikið um nema þegar safnanir fara fram á öldum ljósvakans eða rétt fyrir jólin, en hjálpin sem við gefum og þiggjum dags daglega er stór partur af því að innri líðan okkar sé góð. Að vera til staðar og aðstoða án þess að starfa í meðvirkni er eitt það dásamlegasta sem við getum gefið samferðamönnum okkar. Sá sem þiggur er einnig að gefa okkur góða gjöf, eða þá gjöf sem leyfir þér sem gefanda að upplifa þína eigin góðmennsku og aukaafurðin er hversu góð tengsl myndast á milli þeirra sem hjálpina veita og þeirra sem hana þiggja. Því að hjálpin felst í því að við tökum höndum saman um vellíðan hvers annars í kærleika og er afar mikilvæg í öllum mannlegum samskiptum og tengslum. Enginn er eyland og við þörfnumst aðstoðar hvers annars og megum aldrei gleyma því að veita hana né þiggja þegar þörf er á. 

Trúin er vanmetið afl og þá er ég ekki að tala um trúarbrögðin sem virðast gera fátt annað en að aðgreina okkur hvert frá öðru satt best að segja, heldur er ég að tala um trúna sem færir okkur á fætur á hverjum degi hvaða Guði sem við tilheyrum í heiminum.

Trúin á sannleikann, trúin á manninn og góðmennskuþel hans, trúin á að bráðum komi betri tíð, trúin á að við getum öll verið eitt en ekki aðskilin, trúin á að einn daginn muni stríð tilheyra sögubókunum en ekki veruleika nútímans, trúin á að allir megi vera eins og þeir eru án þess að þurfa að fara í sérstaka réttindabaráttu til þess, trúin á að ástin sigri, trúin á að við getum treyst á orð hvers annars, trúin á að hið góða sigri alltaf að lokum, trúin á að allt fari vel og samverki okkur til góðs, trúin á hið eilífa, trúin á það að elska náunga sinn og sjálfan sig sé leiðin til hamingjunnar, trúin á lækningu, trúin á töfra og kraftaverk og trúna á að til sé afl sem við köllum Guð almætti eða alheim sem sé hér til að vaka yfir okkur og aðstoða ásamt því að bera okkur inn í heim alsælunnar að þessu lífi loknu. Svona get ég lengi talið upp trúarskoðanir okkar. Þessi upptalning ætti þó að gefa okkur hugmynd um hversu mikilvægt er að halda í trú á lífið í allri sinni mynd og kannski er ekki úr vegi að þakka fyrir það að eiga hvern dag sem við fáum að upplifa lífið í allri sinni töfrandi mynd andstæðnanna.

En svona að lokum þá er ekki úr vegi að skrifa um brúnna sem táknar vináttuna.

Vinir eru í mörgum tilfellum ekki tilheyrandi fjölskyldu okkar en eru þó stundum nánari okkur en nokkur fjölskyldumeðlimur. Vináttan sem árin mynda gera þó vini að fjölskyldu og svo ég tali nú bara fyrir mig þá væri líf mitt ekki samt ef ég ætti ekki alla þá góðu vini sem í mínu lífi eru og hafa verið í gegnum árin. Svo sannarlega tel ég þá til fjölskyldu minnar. 

Eins og gengur og gerist þá fara vinir úr lífi okkar og aðrir koma í stað þeirra en svo eru það þessir sem eru þarna áratugum saman og ekkert virðast geta slitið í sundur þá vináttu. Þessir vinir eru til staðar jafnt til að fagna með þér þegar vel gengur og þegar stormarnir geysa. 

Ég tel það fjársjóð minn að hafa góða vini í kringum mig sem hafa sýnt mér kærleika sinn á svo margan hátt að ég get ekki einu sinni talið upp öll þau skipti þar sem hjarta mitt hefur fundið til þakklætis gagnvart þeim.

Þegar erfiðast hefur verið að fara á fætur hafa þeir verið til staðar með því að draga mig út í eitthvað skemmtilegt og þegar sorgin hefur bankað á dyrnar þá eru það þeir sem redda krönsum og erfidrykkjum ásamt því að heimsækja mig og eða hringja daglega. Dýrmætara en hægt er að þakka fyrir. Að eiga trúnaðarvini sem hægt er að segja alla hluti við og vita að það verði ekki borið á torg er á við marga sálfræðitíma, og að eiga vini sem skilja mann, meta og vilja vera í návist við okkur er Guðsgjöf að mínu mati. Allir ættu að eiga nokkra slíka vini og ekki síst að vera slíkir vinir, það gefur lífinu lit sinn og jafnvel tilgang sinn oft á tíðum. 

Ég upplifi að eftir því sem ég verð eldri og börnin og barnabörnin eru upptekin við eitthvað annað en mömmu og ömmu þá verða vinirnir alltaf dýrmætari partur af tilverunni, og það verður alltaf meira gaman hjá okkur eftir því sem árin færast yfir. Dásamlegt alveg hreint og jafnast á við súper fjölvítamín!

Að lokum mín elskuðu þá langar mig til að biðja okkur öll um að skoða hvar við gætum þurft að taka til hjá okkur sjálfum til að heiðra þessi gildi sem brýrnar 6 í Feneyjum boða, 

viskuna - vonina - kærleikann - hjálpina - trúna- og vináttuna.

Og eins og ætíð er ég bara einni tímapöntun í burtu ef þú þarfnast aðstoðar minnar við þín lífsins málefni.

Þar til næst elskurnar,

xoxo Ykkar Linda

Linda Baldvinsdóttir

Lifecoach, samskiptaráðgjafi

linda@manngildi.is

 

 

 


Er það gott eða slæmt?

Stjórnsemi er eitthvað sem við öll eigum í fórum okkar en misjafnt er þó hvernig við notum okkur hana. Á meðan einn hrópar hátt til að ná sínu fram eru aðrir sem nota mildari aðferðir og eða jafnvel fýlustjórnun til að ná sínu fram.

Í þessum pistli ætla ég að fjalla um það sem við fáum stjórnað og ekki stjórnað ásamt því að tala um sáttina og núið. 

Fyrst af öllu ber að segja að það er það ekki á okkar færi að stjórna og breyta annarri manneskju, það er ekki á okkar færi að breyta neinu nema að manneskjan sjálf ákveði að það sé í lagi að við stjórnumst í ákveðnum málefnum sem viðkoma lífi hennar.

Annað sem ég verð mjög oft vör við í þjóðfélagi okkar og þjóðfélagsumræðu í dag er að það er er ekki rými fyrir mismunandi skoðanir á málefnum, þeir rétttrúuðu hrópa hátt á þá sem voga sér að vera á móti þeirra viðhorfum og að mínu mati skortir þá þroska til að virða mismunandi skoðanir og viðhorf.

Ef við höldum að það sé á færi okkar að stjórna skoðunum, hugsunum og framkvæmdum fólks þá erum við einfaldlega í hrópandi stjórnsemi. Ég hef séð það að undanförnu að okkar annars ágæta þjóð hleypur í meðvirkni og þorir ekki fyrir sitt litla að fara gegn pöpulismanum og rétttrúnaði þeim sem tíðkast í dag. Það sem hefst hinsvegar við slíka stjórnsemi er að það verður til fasískt ástand ekki ósvipað því sem gerðist á tímum Nasista. Ástand þar sem allur lýðurinn var orðinn heilaþveginn af hatri gegn gyðingum og allir vita hvað það hafði í för með sér, og ég trúi því ekki að það sé það sem viljum að gerist hér. 

Það er þannig að við getum ekki stjórnað því hvað öðrum finnst um okkur, viðhorf okkar né heimsmynd, og svona almennt getum við ekki haft stjórn á framkvæmdum, hugsunum og viðhorfum annarra til manna og málefna án þess að beygja þá undir stjórn okkar eins og mér finnst allt of mikið vera reynt að gera af í dag.

Annað sem við fáum ekki stjórnað er fortíðin eða framtíðin og það er einfaldlega þannig að dásamlega núið í allri sinni mynd er það eina sem er í boði,augnablik fyrir augnablik sem er líka alltaf best því að það sem er og hamingjan sjálf búa í núinu. 

Það sem ég get þó haft áhrif á og stjórnað eru hugsanir mínar, tilfinningar og framkvæmdir ásamt því að setja mér og öðrum mörk. 

Ég hef einnig vald til að velja hvernig ég tala við sjálfa mig og hvernig ég tekst á við lífið. Ég get sett mér raunhæf og kannski stundum svolítið óraunhæf markmið og staðið við að vinna að þeim, þó að ég geti ekki ráðið útkomunni að fullu (lífið grípur stundum fram í ætlanir mínar).

Ég get valið að elska mig á þeim stað sem ég er á hverju sinni óháð því sem þjóðfélagið segir mér að ég eigi að vera, og í raun held ég að sá staður sé forsenda alls þess sem við viljum að gangi vel í lífi okkar.

Að elska sjálfan sig til fulls þýðir að við elskum líka annmarka okkar og sættumst við þá. Við sættumst einnig við tilfinningar okkar á hverjum tíma og það er einmitt í sáttinni við allar tilfinningar okkar sem við náum að leysa okkur úr viðjum sumra þeirra og umfaðma aðrar.

Að elska það sem er eða lífið eins og það er hverju sinni er einnig afar mikilvægt. Og það að hætta að skilgreina eitthvað sem gott eða slæmt sem hendir okkur á leið okkar um lífið er til lítils og það að bera fortíðina á bakinu mun alltaf þvælast fyrir núinu og framtíðinni. 

Mér finnst alltaf góð sagan um kínverska bóndann eftir Alan Watts, en þar er á ferðinni maður sem gerir sér grein fyrir því að allt er eins og það á að vera og dvelur í fullri sátt við lífið eins og það kemur fyrir hverju sinni og finnur ekki hjá sér hvöt til stjórnunar á umhverfi sínu og útkomum þess.

Hér er þessi frábæra saga:

Einu sinni var kínverskur bóndi sem átti hest sem strauk að heiman frá honum. Um kvöldið komu allir nágrannar hans til að veita honum hluttekningu sína vegna þessa. Þeir sögðu við hann: „Okkur þykir svo afar leitt að heyra að hesturinn þinn hafi strokið, það er mjög vont fyrir þig."

Bóndinn svaraði þeim með þessu eina orði "Kannski."

Daginn eftir kom hesturinn heim og var með sjö villta hesta með sér. Um kvöldið komu allir nágrannarnir og sögðu: „Æ, þetta var gæfuríkt fyrir þig. Hvílíkt kraftaverk,núna átt nú átta hesta!“

Aftur svaraði bóndinn aðeins: „Kannski.

Daginn eftir reyndi sonur hans að sitja einn villta hestinn en kastaðist af baki og fótbrotnaði. Nágrannarnir sögðu þá: "Æi elsku þú við bóndann, þetta var slæmt,"

Og bóndinn svaraði eins og fyrr: "Kannski."

Daginn eftir komu hermenn til þorpsins til að kalla menn í herinn en höfnuðu syni bóndans vegna fótbrotsins. Aftur komu allir nágrannarnir og sögðu: "Er þetta ekki frábær heppni?"

Og aftur sagði bóndinn: "Kannski."

Allt ferli náttúrunnar er samþætt ferli sem er gríðarlega flókið og það er í raun ómögulegt að segja til um hvort eitthvað sem gerist í því ferli sé gott eða slæmt - því þú veist aldrei hver verður afleiðing ógæfunnar; og þú veist aldrei hvaða afleiðingar gæfan hefur.

— Góð saga.

Annars svo að ég haldi áfram að tala um stjórnsemina þá held ég að flestar gerðir hennar komi frá stað óttans um að öryggi okkar og vellíðan sé í hættu og við erum sífellt að reyna að ná stjórn á aðstæðum sem gætu ógnað því öryggi á einhvern hátt.

Eins kallar léleg eða sködduð sjálfsmynd yfirleitt á viðurkenningu samfélagsins alls og þá reynir hún yfirleitt af öllum mætti að stjórna skoðunum og viðbrögðum í hina einu ríkisréttu átt og ekkert rými er gefið fyrir öðrum skoðunum eða viðhorfum.(Ótti við höfnun á sjálfinu) 

Ég hef nú þá trú að þegar við erum komin til fulls í okkur sjálf og með sjálfsmynd okkar í lagi þá er hún bara rétt fyrir okkur, og við þurfum ekki samþykki annarra fyrir því hver og hvernig við eru. 

Þegar við höfum náð á þennan fullkomna stað sáttarinnar og kærleikans til okkar sjálfra þá höfum við heldur ekki lengur þörf á því að skilgreina okkur með einhverjum hætti.

Deilur um skilgreiningar á hinu og þessu eins og litarhætti, trú og kyni yrðu óþarfar því að við höfum ekki þörf fyrir skilgreiningu þjóðfélagsins á okkur heldur dugar okkar eigin sátt við sjálfið okkar, gildi og sálu okkur algerlega.

Byrjum á upphafinu elskurnar sem er alltaf fólgið í því að elska okkur þar sem við erum og þá er allt annað leikur einn. Og ef ég get aðstoðað þig þá er ég eins og ávallt aðeins einni tímapöntun í burtu frá þér.

Þar til næst

ykkar Linda

linda@manngildi.is

Lifecoach og samskiptaráðgjafi

 

 


18 samviskuspurningar á nýju ári

Ég er búin að rekast á þó nokkra pistla að undanförnu þar sem farið er yfir gamla árið og margir eru þeir sem ætla sér að framkvæma eitthvað mun meira og merkilegra á þessu nýbyrjaða ári en því síðasta.

Það sem mér finnst þó stundum vanta í umræðuna um áramótaheitin er hinsvegar hver er ég? og hver ætla ég að vera sem manneskja á þessu ári? Ætla ég að vaxa og verða betri í því að vera ég eins og ég raunverulega er?

Flest okkar velta þessu lítið fyrir sér og margir hrista örugglega hausinn núna yfir þessari spurningu. Er ég ekki bara nóg eins og ég er hugsa þeir og get ég verið eitthvað annað en ég er - er það ekki verið að segja okkur stöðugt að við séum nóg eins og við erum? 

Jú auðvitað erum við nóg eins og við erum, en erum við að vera það sannasta sem við erum í kjarna okkar?

Mér finnst stundum vanta töluvert uppá að við vitum hver við erum, og eins hvað við erum að gera okkur. Hvað er það sem fær okkur til að tikka?. Pælum við í því hvað við þurfum að opna fyrir til að lifa til full sem við sjálf? Gerum við okkur grein fyrir því þegar við yfirgefum okkur sjálf til að þóknast og falla inn í hópinn?

Og svo að ég spyrji okkur öll nokkurra samviskuspurninga sem gætu vakið okkur til betri vitundar;

1. Er sjálfstraustið að skína af þér þannig að enginn kemst hjá því að taka eftir þér? eða ferðu út í horn eða læðist með veggjum og lætur lítið á þér bera?

Ég tel að við eigum öll skilið að fá að skína og leyfa okkur að vera eins og við viljum vera og það að fara út í horn segir mér að þér finnist þú ekki vera jafningi hinna sem á svæðinu eru á einhvern hátt - og þá vantar uppá sjálfsmyndina og það hvet ég þig til að laga.

2. Veistu hvað þú vilt fá út úr lífinu? Alveg viss?

Margir halda að það sem þjóðfélagið segir okkur að vera sé málið, menntun, maki, hús og bíll sé toppurinn á tilverunni, og ferðirnar til Tene sé bónusinn. Auðvitað eru margir sem kjósa sér einmitt þetta en svo eru aðrir sem hugsa á annan hátt. Þeir þurfa oft að hafa mikið fyrir því að fá samþykki til að vera þeir sjálfir og gera það sem hjarta þeirra segir þeim (margir frumkvöðlar þekkja þetta vel) Ég hvet þó alla til að fara út úr þjóðfélagsboxinu ef þeir hafa þörf á því og bara missa heyrnina þegar gagnrýnisraddirnar hljóma allt um kring.

3. Veistu hversu mögnuð manneskja þú ert og megnug í raun ?

Veistu að enginn er með sama fingrafar og þú eða lithimnu augans og á þessu tvennu má þekkja hvern einasta einstakling í heiminum þrátt fyrir að við séum orðin 8 milljarðar. Það hlýtur að segja okkur að allir hafi sinn eigin tilgang hér á jörðu og hafi persónuleika sem á að leyfa sér að skína þrátt fyrir þessa leiðinda tilhneigingu okkar til hjarðhegðunarinnar. "Það sem gerir mig öðruvísi er það sem gerir mig að mér" (Grísli).

4. Nærðu í það sem þú ætlar þér að fá í lífinu eða leyfirðu lífinu bara að gefa þér brauðmolana sem falla af borðum annarra?

Þetta er allt of algengt að mínu mati og mér fannst alveg frábær setning frá Jóga birni eða" Ef þú veist ekki hvert þú ert að fara þá endar þú bara einhverstaðar". Það er allt of algengt að við nýtum okkur ekki að vera við sjálf og fara okkar eigin leiðir sem eru þó alltaf þær leiðir sem skila okkur mestu og færa okkur þá innri gleði sem við leitum flest ef ekki öll eftir. 

5. Ertu það viss um hver þú ert og hvað það er sem þú hefur uppá að bjóða til að geta þolað nokkur nei áður en þú færð já?

Það þekkja það flestir sem hafa stigið út fyrir rammann sinn eða eru að sækja það sem þeir vilja að það eru nokkur nei á leiðinni að árangrinum. Það þekktu nokkrir frægir aðilar vel. Aðilar eins og Oprah, Katy Perry, Jim Carry, J.K.Rowling, Steven King,Bill Gates svo einhverjir séu nefndir fengu nokkra skelli og við vitum flest að þessir aðilar náðu fyrir rest því sem þeir ætluðu sér, og flestir þekkja þessi nöfn vel hvar sem er í heiminum. Svo ekki gefast upp á leið þinni og láttu ekkert taka frá þér ástríðuna sem þú hafðir í byrjun leiðarinnar. Draumar geta svo vel ræst.

6. Vita þeir sem umgangast þig nákvæmlega hver þú ert vegna þess að þú kemur til dyranna eins og þú ert klædd/ur hverju sinni?

Ertu traustur vinur og segirðu það sem í brjósti þér býr með virðingu þó fyrir tilfinningum annarra, og ertu alltaf þú sama hvort þú ert í kringum aðra en þá sem eru í innsta hring þínum? Ef ekki skoðaðu þá hvers vegna svo er. Við ákveðum á nokkrum sekúndum hvernig okkur líkar við fólk þegar við hittum það og við finnum hvort fólk er einlægt eða er að þykjast vera einhver annar en það er svo það borgar sig að skoða þessar spurningar vel.

7 Leyfirðu þér að vera kynvera?

Ef að þú ert kona  sem þetta lest leyfir þú þér að vera í þeim kvenleika sem þig virkilega langar til að vera í, og leyfir þú þér að vera sexý þegar þig langar til þess? Tekurðu frumkvæði í kynlífinu þegar þig langar í það?

Já við þurfum einnig að skoða kynlíf okkar! 

Við konur höfum í gegnum tíðina verið feimnar við að viðurkenna kyneðli okkar og ræða um það en það er þó að breytast sem betur fer. Við vorum bara góðu stelpurnar sem dreymdu um þennan fullkomna mann úr rauðu ástarsögunum, allt þar til fimmtíu gráir skuggar voru gefnir út og við opinberuðum áhuga okkar á kynlífi með því að kaupa þá bók í milljóna tali. Ég held líka að bæði kynin hafi meiri áhuga á aðilum sem vita hvað þeir vilja og þora að láta það í ljós.

8. Lifirðu samkvæmt gildum þínum eða sveiflast þú fram og aftur þar einungis til að þóknast öðrum og til þess að falla betur í hópinn?

Skoðaðu gildin þín vel því að þau segja þér hver kjarni þinn er og sýna þér þá heimsmynd sem þú hefur í huga þér. Til að nefna nokkur algeng gildi þá geta þau verið eitt af eftirtöldu; Þegar þú ætlar ekki að drekka í flotta drykkjupartýinu í vinnunni vegna þess að það hentar ekki þínum persónugildum, eða þegar þú vilt vera vegan vegna þess að þú elskar dýr. Þegar þú tekur svari þeirra sem minna mega sín eins og í einelti vegna þess að gildi þitt er að koma fram við náungann eins og sjálfan þig og svo framvegis.

9 Leyfir þú þeim sem þú umgengst að vera þeir sjálfir eða vilt þú stjórna lífi þeirra og framkvæmdum?

Algengt er að þeir sem líta ekki inn á við eða starfa í meðvirknigírnum reyni að stjórna og breyta öðrum en sjálfum sér þannig að ef þú finnur þörf á því að breyta heiminum í kringum þig en ekki þér sjálfri/sjálfum þá farðu inn á við og skoðaðu hvað þú ert ekki að horfast í augu við þar.

10 Ertu að umgangast fólk sem er hollt fyrir þig eða ertu með aðila í kringum þig sem draga úr lífsgæðum þínum með einhverjum hætti?

Öll mikilmenni heimssögunnar hafa haft vit á því að velja sér vini og samstarfsmenn vel því að þeir vita að á því byggist velgengni þeirra. Sumir segja að þú getir dæmt manneskjur eftir þeim 5 aðilum sem þeir umgangast mest og kannski er það bara rétt. Af þessu er mikilvægt að spyrja sig um gæði þeirra sem við erum í mikilli umgengni við ef við viljum hafa líf okkar eðal og fullt af glimmeri. 

11. Tekurðu fulla ábyrgð á orðum þínum og gjörðum, alltaf?

Eitt af því sem gerir okkur að heilum manneskjum er það að við tökum ábyrgð á orðum okkar og gjörðum ásamt því að við erum manneskjur til þess að biðjast afsökunar á því sem miður fer. Algengt er að við förum að réttlæta hegðun okkar og orð en með því að gera það sleppum við lærdómnum sem fæst með því að horfast í augu við okkur sjálf og galla okkar. Við notum stundum gaslýsingar og passiva agressiva vörn eins og þá að segja að hlutirnir séu öðruvísi en hinn aðilinn veit að þeir raunverulega eru, og eins að hann hafi heyrt eða séð eitthvað vitlaust sem hann veit að er ekki rétt. Með því að nota slíka tækni erum við bæði virðingalaus gagnvart þeim sem fyrir okkur verða og eins lokum við á eins og fyrr sagði á lærdóminn sem felst í því að skoða sig á djúpan hátt. 

12. Ertu hreinskiptinn og segir þitt?

Eða finnst þér betra að hvísla úti í horni um náungann eins og okkur flestum er allt of tamt að gera. Við höfum margt að segja t.d um stjórnmálamenn og menn í valdastöðum en fá okkar þora að segja það sem þeir meina í návist þeirra þó að hinsvegar sé afar auðvelt að setja ummæli við fréttir á samfélagsmiðlum. Þeir sem eru vissir um réttmæti sitt til tjáningar og hafa sjálfstraustið í lagi hika ekki við að segja sitt augliti til auglitis og fólk veit hvar það hefur þá aðila.

13. Kemurðu fram við aðra eins og þú vilt að komið sé fram við þig?

Gefurðu hlustun, sýnir virðingu og fegurð í framkomu þinni allri og vandar líf þitt á flestan hátt eða þann hátt sem þér finnst sæma þínum gildum? Er gildi þitt kærleikurinn og vinsemd? Tekurðu þátt í umræðum um annað fólk og hefur gaman af því eða gengur þú í burtu frá því vegna þess að það gerir þér ekki gott að tala um aðra? Allt eru þetta gildi sem eiga heima hjá okkur ef við viljum eiga líf sem bætir heiminn, svo hugsaðu vel um svörin þín þarna. Allar breytingar heimsins byrja hjá okkur sjálfum. 

14. Leyfir þú þér að fara á dýptina í samræðum eða lokar þú á það vegna þess að það er of erfitt að horfast í augu við raunverulega tilfinningu þína eða skoðanir?

Sumir eiga mjög erfitt með að opna sig og finnst þeir jafnvel ekki nógu skarpir til að orð þeirra og skoðanir séu einhvers virði. En það eins og svo margt annað byggist á góðri sjálfsmynd eða í þessu tilfelli lélegri sjálfsmynd og jafnvel skort á trausti til náungans. Ekki að við eigum svosem að vera að opna okkur upp á gátt við hvern sem er, en að opna sig við þá sem eiga skilið að þekkja okkur á nánum grunni er nauðsynlegt ef við viljum verða gjörþekkt og elskuð eins og við raunverulega erum.  

15. Stendur þú með þér eða ferðu út í horn þegar þú verður fyrir ásökunum eða öðrum leiðindum?

Sá meðvirki fer út í horn og lætur allt yfir sig ganga á meðan þeir sem vita virði sitt standa með sér og vita að þeir eru þess virði að fá virðingu í orðum og framkomu. Sá meðvirki vill ekki rugga bátnum eða vill halda hinum góðum á sinn eigin kostnað sem er grátlegt hreinlega. Þannig að ég segi eins og slagorðið hér um árið "stattu með þér stelpa" og bæti við það orðinu "strákar" Því að ef að þú stendur ekki með þér þá gerir það enginn annar.

16. Gefurðu þér klapp á öxlina þegar þú stendur þig vel og máttu gera mistök án þess að þú rakkir þig niður fyrir þau?

Hérna held ég að margir renni aðeins á rassinn því að enginn er eins dómharður við okkur og við sjálf. Við skömmum okkur fyrir minnstu mistök í stað þess að gefa okkur klapp á öxlina og fullvissum okkur að þetta gangi bara betur næst. Eins finnst okkur það vera mont að vera ánægð með verk okkar sem ég tel nú bara vera sjálfsmynd sem er í lagi. Mont er annað en að vita hvers við erum megnug og hvað við erum að gera gott, svo gerum greinarmun á þessu tvennu.

17. Kanntu að segja nei?

Ef þú ert sífellt að segja já við einhverju sem þú finnur innra með þér að ætti að vera stórt NEI þá ertu ekki þú í þeim tilfellum. Með þessu er ég ekki að segja að við gerum ekki eitthvað fyrir náunga okkar þegar eitthvað mikilvægt er í gangi og þegar okkur langar að gera einhverjum greiða þrátt fyrir að við nennum því ekki svo mikið á þeirri stundu. Þegar við hinsvegar segjum já og erum í pirringi yfir því, jafnvel sýnum þeim  pirringinn sem við erum að gera greiðann þá erum við ekki í góðum málum. Segðu já þegar þú meinar já og finnur engan pirring yfir því og nei þegar þú meinar nei. Það bætir held ég öll samskipti eins og alltaf þegar þú ert bara þú og kemur frá hjarta þínu. 

18. Skiptir það þig máli hvað öðrum finnst um þig og framkvæmdir þínar,útlit, eigur og fjölskyldu?

Þetta er eitthvað sem við sjáum um allt þjóðfélagið. Munið þið eftir því þegar allir þurftu fótanuddtækið eða Ittala glösin? Núna er það Airfryer og leirstellið sem ég man ekki hvað heitir, og þannig erum við. Hjarðdýr sem vilja lúkka vel og viljum sýna að við séum nú bara ansi góð þegar á allt er litið. Samfélagsmiðlarnir sýna glanslífið okkar en ekki brotnu fjölskyldurnar, hjónaböndin sem eru í maski, erfiðu börnin okkar eða gardínubyttuna í fjölskyldunni því að það lítur ekki nógu vel út á miðlunum. Þetta er líklega til komið vegna þess að álit annarra skiptir okkur meira máli en það að við séum við, og því þurfum við að breyta elskurnar ef við viljum vera það sem við raunverulega erum innst inn við hjartaræturnar.

Hvet okkur öll til að svara þessum spurningum af heiðarleika svo að við getum bætt okkur sjálf og lífið í heild. 

Gleðilegt ár elskurnar mínar allar og takk fyrir það gamla, mætti það nýja færa okkur allt það besta og þar með bestu útgáfuna af okkur sjálfum. Og ef þig vantar aðstoð við leitina að þér þá er ég bara einni tímapöntun í burtu. 

xoxo

Ykkar Linda 

Linda Baldvinsdóttir

Lifecoach og samskiptaráðgjafi

linda@manngildi.is

 

 


Heit sturta vekur þakklæti mitt

Ég fór í langa og heita sturtu í gær eftir að hafa farið út í frostið sem hefur verið ráðandi á okkar ylhýra að undanförnu, og þar sem ég fann hvernig hitinn smá saman yfirtók kuldann í kroppnum þá fór ég að hugsa um það hversu margt hægt er að þakka fyrir þrátt fyrir allt og allt, og Guð einn veit að ég hef þurft að seilast frekar djúpt þessa dagana til að finna það sem þakka ber.

Þetta ár er búið að vera mér erfitt á margan hátt en á sama tíma mjög gleðilegt og gjöfult þannig að mig langar að einbeita mér frekar að því sem ég get þakkað fyrir á þessum árstíma gleðinnar og friðarins en að leggjast í volæði og væl.

Næsta ár verður örugglega miklu betra heilsufarslega séð og ég vonandi farin að valhoppa á nýrri mjaðmakúlu í vor laus við stöðuga verki og vanlíðan og hver veit nema ég nái loksins að fara erlendis í draumaferðina mína til Ítalíu í sumar!

En hvað um það, ég veit að þrátt fyrir Covid, sjúkrahúslegu vegna lungnabólgu, sársaukans vegna ónýtrar mjaðmakúlu og óútskýrða þreytu, þá hef ég ýmislegt til að þakka fyrir og tel að við getum öll fundið eitthvað sem við getum þakkað fyrir þrátt fyrir erfiðar aðstæður lífsins en ekki vegna þess að allt sé svo frábært. Og svo sannarlega hvet ég okkur öll til að finna okkar þakkarefni og staglast á þeim þegar okkur finnst myrkrið í sálu okkar töluvert líkt myrkrinu úti á þessum árstíma.

Og svona til að gefa ykkur hugmynd um þau þakkarefni sem ég fór að hugsa um þegar ég tók þessa löngu góðu sturtu mína þá voru þau meðal annarra þessi(endilega finndu þín eigin í leiðinni):

1. Ég er svo þakklát fyrir það að geta farið í heita langa sturtu án þess að hafa áhyggjur af því að geta ekki borgað hitaveitureikninginn eins og megin þorri Evrópu hefur áhyggjur af í dag.

2. Ég er svo þakklát fyrir að börnin mín, tengdabörn og barnabörn eru heil og ósködduð og geti öll átt gott og gjöfult líf.

3. Ég er svo þakklát fyrir íbúðina mína og ofnana sem ég get skrúfað í botn í frostinu - þökk sé okkar dásamlegu auðlind og grænni orku.

4. Ég er svo þakklát fyrir heilbrigðiskerfi (þó seinvirkt sé) sem bara ætlar að splæsa á mig nýrri mjaðmakúlu svo ég nái fyrri styrk og heilsu.

5. Ég er svo afskaplega þakklát fyrir þá sem eru í lífi mínu og gefa mér styrk hvern dag með kærleika sínum og atlæti og þar er ég nú bara ansi heppin með að eiga marga góða að þó að nokkrir séu nú framar öðrum þar - þeir vita hverjir þeir eru wink.

6. Ég er svo þakklát fyrir að landið okkar býr ekki við stríðsátök ennþá og þar af leiðandi þarf ég ekki að horfa á eftir mínum kærustu aðilum fara í stríð til að verja land og þjóð gegn brjálæðingum sem einhverra hluta vegna fá að vera við völd í heiminum.

7. Ég er svo þakklát fyrir það að eiga líkama sem þrátt fyrir lasleika aðlagar sig að aðstæðunum og gerir sitt besta til að mér líði sem best og hjarta sem slær fyrir mig í gegnum allt og allt.

8. Úbbs, ég má ekki gleyma því að vera þakklát fyrir að hafa fengið að vakna í morgun og að fá einn dag í viðbót hér, það eru forréttindi sem gleymist gjarnan að þakka fyrir held ég - ég er a.m.k sek þar og tel sjálfsagt að ég verði hér til eilífðar.

9. Ég er svo afar þakklát fyrir að búa í landi þar sem við hugum að hvort öðru þegar ógæfa dynur yfir og erum til staðar þegar menn eða náttúruöflin skaða byggð og ból.

10. Að lokum er ég einnig svo þakklát fyrir að hafa fengið mörg erfið verkefni til að takast á við því að úrvinnsla þeirra hafa gert mig að þeirri konu sem ég er í dag, konu sem hefur þurft að læra að dansa í óörygginu vitandi að allt - já ég held sveim mér þá allt, samverki mér til góðs að lokum með einhverjum hætti.

Og til að enda þennan pistil um sjálfstal í sturtunni á  sömu þakkarnótum þá er ég svo þakklát fyrir að fá að halda jól einu sinni enn - og svo krossa ég putta og bið að ég fái að upplifa og fagna þeim friðarboðskap og kærleika sem þau boða okkur í einhver ár enn.

Finnum það sem við getum þakkað fyrir því að það vex og dafnar nákvæmlega eins og vanþakklætið vex eins og arfi ef við dettum þangað. Höldum í vonina, brosið okkar og jákvæðni þrátt fyrir að margt mætti betur fara og breytast í okkar annars ágæta þjóðfélagi og í lífi okkar margra.

Gleðileg jól elskurnar mínar allar og mættu þau færa þér sem þessar línur lest glimmer, gleði, góða heilsu ásamt dass af hlátri og kæti.

Þar til næst,

Ykkar Linda

P.S -  Munum eftir náunga okkar, sérstaklega ef hann er einmanna og einn <3

Linda Baldvinsdóttir

Lifecoach og Samskiptaráðgjafi

linda@manngildi.is    


Ertu í forðun, kvíða eða kannski bara öruggur í samböndum þínum?

Mannleg hegðun hefur alltaf heillað mig og vakið hjá mér forvitni um það hvers vegna við gerum það sem við gerum og erum það sem við erum, og eru tengslamyndanir eitt af þeim áhugaverðu efnum sem í mannlegum samskiptum og samböndum er að finna, og verður umfjöllunarefni mitt í þessum pistli.

Í raun má segja að við séum alltaf að leita ómeðvitað eftir svörum við eftirfarandi í samskiptum okkar og samböndum og lengd sambandanna og skuldbinding byggist líklega á því hvort við fáum já svar við þeim. Þessar spurningar eru

  1. Verður þú til staðar fyrir mig ef ég þarfnast þín?
  2. Er ég nóg fyrir þig?

En er alltaf auðvelt að fá svör við þessum spurningum?

Nei það er misjafnt og fer líklega að mestu eftir þeim tengslastílum (attachment styles) sem við höfum.

Þeir sem treystu á að þeir fengju aðstoð og umönnun í öllum aðstæðum og voru nógu góðir eins og þeir voru í æsku mynda opin tengsl sem fylgja þeim jafnan inn í framtíðina, en  þeir sem voru afræktir og ekki nægjanlegir fyrir umönnunaraðila sína fara oft inn í sína eigin skel og eiga erfitt með að tjá tilfinningar sínar og líðan, og vita stundum ekki einu sinni hvernig þeim líður.

Í forvitni minni  fór ég að grúska aðeins og fann nokkrar greinar sem skilgreina tengslastíl okkar og ég ætla að gefa ykkur hugmynd um það sem ég fann þar. Eins set ég hér í lokin hlekk á próf sem gaman væri fyrir ykkur að taka til að fá smá hugmynd um það hvaða stíl þið hafið í ykkar samböndum og samskiptum. Ég tók prófið og niðurstaðan kom mér satt að segja á óvart, þannig að endilega tékkið á þessu.

Samkvæmt rannsókn sem DR.Philip Shaver og Dr.Cindy Hazan gerðu á þessu efni komust þau að því að þær fjórar gerðir tengslastíla(mér finnst þetta vont orð) sem talað er um þá eru u.þ.b 60% okkar með örugga tengingu en 20% eru í forðun og önnur 20% eru með kvíða.

En hverjar eru þessar fjórar gerðir tengslastíla og hver er þinn still?

 

Örugg tengsl -

Börn sem eru alin upp við öryggi vita að þegar þau hafa farið út til að kanna heiminn á eigin vegum geta þau alltaf snúið heim og fundið öryggið þar. Þau eru elskuð og vafin umhyggju sama hvað. Sama mynstur mun þá líklega fylgja þeim inn í sambönd þeirra á fullorðinsárum eða á meðan þau finna sig örugg og tengd mun sambandið líklegast einkennast af trausti og frelsi beggja aðila sambandsins.

Öruggt samband er yfirleitt heiðarlegt opið og frelsisgefandi. Öruggir fullorðnir aðilar veita stuðning þegar maki þeirra finnur fyrir vanlíðan. Þeir fara líka til maka síns til að fá huggun og stuðning þegar þeir sjálfir eru í vandræðum eða líður illa og samband þeirra hefur tilhneigingu til að vera heiðarlegt og fyllt jafnvægi á milli aðilanna.

Þessi lýsing uppfyllir eftirfarndi orð spekingsins Kahlil Gibran  þar sem hann talar um hjónabandið í bók sinni Spámaðurinn- “En verið þó sjálfstæð í einingu ykkar, og látið vinda himinsins leika milli ykkar. Elskið hvort annað, en látið ástina ekki verða að fjötrum. Látið hana heldur verða síkvikan sæ milli ykkar sálarstranda. Fyllið hvort annars bikar, en drekkið ekki af sömu skál. Gefið hvort öðru brauð ykkar, en borðið ekki af sama hleifi. Syngið og dansið saman og verið glöð, en leyfið hvort öðru að vera einu, eins og strengir fiðlunnar eru einir, þótt þeir leiki sama lag. Gefið hvort öðru hjarta ykkar, en setjið það ekki í fangelsi. Og standið saman, en ekki of nærri hvort öðru. Því að það er bil á milli musterissúlnanna og eikin og  vaxa ekki hvort í annars skugga."

 

Kvíðatengsl –

Þeir sem tilheyra þessari tengslamyndunargerð eiga það til að mynda fantasíusambönd og í stað þess að finna raunverulega ást og traust í sambandi sínu finna þeir sífellt fyrir tilfinngahungri sem makinn á þá að uppfylla og þar með afsala þeir sér ábyrgð á sjálfum sér og sinni tilfinningalegu tilveru. Þrátt fyrir að þeir séu að leita að öryggistilfinningunni með því að hengja sig á maka sinn þá eru þeir á sama tíma að gera ýmislegt til að hrinda makanum í burtu. Þegar þessir einstaklingar upplifa sig óörugga í sambandi sínu þá geta þeir hreinlega límt sig á makann og orðið mjög ósjálfstæðir, og í sumum tilfellum sett makann í hálfgert fangelsi tortryggni og óöryggis því að allar sjálfstæðar framkvæmdir makans gefa óörugga aðilanum staðfestingu á því að makinn sé að fara eða elski hann ekki lengur.  Kvíðinn semsagt hefur tekur völdin með tilheyrandi afleiðingum fyrir sambandið.

 

Forðun -

Þeir sem tilheyra þessum stíl hafa tilhneigingu til að vera mjög fjarlægir tilfinningalega séð í samböndum sínum og leita oft í einangrun og mjög oft reynist erfitt fyrir þá að fara út úr tilfinningaskel sinni. Þessir aðilar eiga oft erfitt með að skuldbinda sig, virka mjög sjálfstæðir og öryggir en eiga mjög erfitt með nánd. Oft finnst þeim eins og að aðrir vilji stjórna þeim eða setja þá inn í boxin sín og þeim líður eins og þeir séu ofsóttir í þannig aðstæðum. Í könnunum skora þeir sem tilheyra forðunarstílnum hátt á sjálfstrausts-skalanum en mjög lágt á tilfinningatjáningar-skalanum og eiga erfitt með að sýna hlýju og nánd. Þeir eiga einnig erfitt með að treysta á aðra jafnvel þegar þeir ættu svo sannarlega að leyfa sér það.

 

Forðunar/áhyggjufullur tengslastíll -

Að þurfa ekki á neinum að halda er blekking sem margir lifa við og í dag er það í tísku að segja að það ætti að nægja okkur að vera ein með sjálfum okkur. En það er nú bara þannig að sérhver mannvera þarf tengingu við aðrar mannverur og enginn er í raun eyland. Engu að síður er það þó þannig að þessi tengslastíll hefur tilhneigingu til að vera sjálfum sér nógur og bæði afneitar mikilvægi ástvina og losnar auðveldlega frá þeim ef þess þarf. Þeir eru með sterkar andlega varnir og hafa getu til að loka á tilfinningar jafn auðveldlega eins og þegar við slökkvum á ljósrofunum heima hjá okkur. Jafnvel í heitum tilfinningalegum aðstæðum geta þeir slökkt á tilfinningum sínum og bregðast ekki við. Ef maki þeirra hótar að yfirgefa þá munu þeir líklega segja að þeim sé alveg sama og setja upp pókerface þeirra sem hafa þann hæfileika að slökkva á óþægilegum tilfinningunum. Þeir eru mikið einir og oft einmanna og hafa tilhneigingu til að festast í ofbeldis eða vanvirkum samböndum. Yfirleitt eru aðrir þættir sem tilheyra þó samhliða þessum tengslastíl, þættir eins og fíkn eða þunglyndi svo eitthvað sé nefnt.

Líklega skorum við flest eitthvað í flestum ef ekki öllum flokkum en kannski mis mikið þó svo endilega tékkaðu á því hvar þú skorar.. 

Hér er hlekkur á sjálfsprófið það því að það er alltaf svo gott að sjá sjálfan sig í réttu ljósi (Maður þekktu sjálfan þig – "Meginregla Sókratesar og áletrun yfir hofinu í Delfi.")

https://www.yourpersonality.net/attachment/

 

Þar til næst elskurnar hvet ég okkur öll sama hvaða tengslastíl við tilheyrum að vera góð við hvert annað og leyfum aðventunni að opna hjörtu okkar og samkennd og sýnum hana í orði og á borði.

Eins og alltaf er ég svo bara einni tímapöntun í burtu frá þér.

Xoxo

Ykkar Linda

 

Linda Baldvinsdóttir

Lifecoach, samskiptaráðgjafi

linda@manngildi.is


Gerir þú þér upp fullnægingu?

Hafið þið einhverntíman hugsað út í það hvernig kynlífið ykkar tengist stöðu ykkar í þjóðfélaginu?

Dr Karen Gurney klínískur sálfræðingur sem aðallega fæst við kynlífsvísindi og við að aðstoða pör í vanda á því sviði talaði um hversu langt við konur værum raunverulega komnar í jafnréttinu þegar kæmi að svefnherberginu í fyrirlestri á Ted.com. Dr Gurney er einnig höfundur að bókinni MindTheGap. 

Fyrirlesturinn var mjög áhugaverður og margt sem þar kom fram sem ég held að vert sé að velta fyrir sér og ræða um.

Samkvæmt því sem Dr. Karen segir þá er karlaveldið og þóknunarhlutverk okkar kvenna enn til staðar í dag og langur vegur virðist í að við náum að  brjóta þetta bil á milli kynjanna þegar um kynlíf er að ræða amk.

Hér á landi eru þó konur eins og Gerður í Blush sem hvetja konur til að gera ekki þarfir sínar að feimnismáli og mér finnst það frábært innlegg í jafnréttisbaráttu kynjanna og á hún hrós skilið fyrir það.

Þjóðfélagið er duglegt við að segja okkur hvernig við eigum að líta út, hegða okkur og hvað við þurfum að gera til að vera sexý og ég held að við hlustum allt of mikið á þá formúlu.

Samfélagsmiðlarnir eru mjög duglegir við að búa til veröld sem fæstir ná að lifa eftir og því upplifa sig margir sem ekki nóg af einhverju, og við konur sem erum svo duglegar við að setja út á okkur og finnast okkur skorta eitthvað megum bara ekki við þessu glamúrdóti öllu saman sem þolir hvorki hrukkur né smá aukaspik.

Ég man ekki eftir því að hafa fengið konur til mín sem eru fullkomlega ánægðar með útlit sitt eða persónu á einhvern hátt, en flestir karlmenn sem til mín hafa komið halda að þeir séu með þetta og þurfi sko ekki að breyta neinu í útliti eða framkomu sinni. Er þetta ekki einnig sprottið frá karlaveldinu sem við héldum að væri útdautt eða frá samfélagsmiðlum sem stöðugt sýna konum hvernig þær eigi að líta út en láta karlmennina í friði?

En aftur að efni fyrirlestursins á Ted.

Mikil breyting hefur orðið á fimm árum í umræðu um kynlíf og þarfir kvenna og karla en allt of lítið hefur samt breyst í svefnherberginu þar sem konur finna sig enn feimnar við að bera fram þarfir sínar.

Konur í hárri stöðu með sjálfstraustið í lagi segjast oft ekki geta með einhverjum hætti beitt sér af heiðarleika í svefnhverberginu og finna sig í þóknunarhlutverki þar, og rannsóknir sýna að karlmenn fari oft fullnægðari frá borði en konur og að konur upplifi sig oft sem ekki "nóg" í svefnherberginu.

Rannsóknir sýna einnig að þó að lítill eða enginn munur sé á milli tíðni fullnæginga hjá kynjunum þegar að sjálfsfróun kemur breikkar bilið mikið þegar bólfélagi bætist við.

Í daglegu tali er talað um að fullnæging kvenna sé flókið fyrirbæri og að það taki langan tíma fyrir konur að fá fullnægingar,  en rannsóknir sýna svart á hvítu að þar sem sjálfsfróun á sér stað tekur það jafn langan tíma fyrir konur og karla að ná fullnægingu.

Konur finna sig feimnar við að láta þarfir sínar í ljós og fara inn í sig  þegar þeim tekst ekki að fá fullnægingu með bólfélaganum og taka því uppá að gera sér upp fullnægingu til að þóknast honum og sumar verða bara ansi góðar í því að sögn Dr.Karenar. Hún hvetur konur þó til að láta af þykjustunni og einfaldlega segja  bólfélaganum hverjar þarfir þeirra eru í stað þess að fara í þóknunarhlutverkið og eða í það að vilja ekki særa tilfinningar hans (karlmennskan gæti beðið hnekki við það að geta ekki fullnægt konunni).

Enn virðast  konur jafnt sem karlar ekki gera sér grein fyrir því að konur þurfa í flestum tilfellum örvun á sníp til að fullnæging eigi sér stað og ekki er nægjanlegt í flestum tilfellum að karlmaðurinn „tengi sig“ til þess að fullnæging náist .

Mér fannst það ansi áhugavert að heyra að í 95% tilfella fá konur fullnægingu við sjálfsfróun en sú tala datt niður í 65% þegar þær stunduðu kynlíf með öðrum aðila, og það féll enn frekar niður eða í 18% þegar um skyndikynni var að ræða.

Karlmennirnir héldu sinni tölu nokkuð óskertri eða flöktandi þetta frá 95% niður í 85% og þá skipti engu máli hvort um sjálfsfróun,skyndikynni eða fast samband var að ræða. Eins er munurinn ekki svona mikill þegar um samkynhneigð pör er að ræða (konur),þar er kynlífið að sýna svipaða prósentutölu og hjá körlunum.

Konur hvað erum við að gera með því að stunda kynlíf með ókunnugum aðila þegar við fáum ekkert annað út úr því en það að vera í þóknunarhlutverki gagnvart honum?

Og hvernig stendur á því að það skipti meira máli að karlmaðurinn sé fullnægður en konan?

Eru þetta ekki leifar af gamla karlaveldinu og þóknunarhlutverki konunnar?

Við tölum fjálglega um jafnrétti kynjanna á þessu sviði sem og öðrum en þegar að raunveruleikanum hvað kynlífsmálefnin varðar kemur þá erum við enn að láta þarfir kvenna víkja fyrir þörfum karla og því hvort þeim langi í okkur greinilega. „18% stelpur“ – þetta er eins og lottóvinningur að fá fullnægingu við skyndikynni! Förum nú frekar heim og leikum okkur með okkur sjálfum, þar erum við þó 95% öruggar á því að fá fullnægingu.

Gott kynlíf inniheldur auðvitað margt annað en fullnægingar, og atriði eins og nánd, hlátur, kossar og fleira skipta ekki síður máli, en samt sem áður verður það að vera ákvörðun okkar kvenna hvort við látum af hendi fullnægingu okkar vegna feimni okkar eða til að þóknast karlmanninum og tilfinningum hans,og sú ákvörðun ætti að vera vel ákvörðuð í hvert sinn.

Jæja, það er ekki oft sem ég skrifa um kynlíf en mér fannst þessi fyrirlestur bara það áhugaverður og tölurnar sem sýna svart á hvítu hversu stutt við erum komnar þarna varð til þess að ég ákvað að skrifa um kynlíf sem er jú partur af lífinu og vellíðan okkar.

Þar til næst elskurnar,

Xoxo

ykkar Linda

Linda Baldvinsdóttir

Lífsmarkþjálfi og samskiptaráðgjafi

linda@manngildi.is


Neikvæð jákvæðni

Þessi stelpa sem þessar línur skrifar er líklega þekktari fyrir að tala fyrir jákvæðni svona dags daglega í stað þess að hvetja til þess að nota hana af varúð. og eins er hún kannski þekktari fyrir því að tala fyrir því að líta á erfiðleika sem tímabundna og yfirstíganlega. Hún viðurkennir þó að jákvæðnin getur farið yfir öll mörk og gert það að verkum að við horfumst hvorki í augu við raunveruleikann né tilfinningar okkar sem er hið versta mál.

Þetta er eins og með matinn sem við borðum, við viljum hafa mismunandi bragð af honum- sætt, súrt og allt þar á milli, og þannig ættum við að hafa það með tilfinningarnar sem okkur eru gefnar því þær eru allar mikilvægar í mismunandi aðstæðum lífsins. Jákvæðni og bjartsýni er mjög hjálpleg tilfinning í stormum lífsins en kannski þurfum við fyrst að fara í djúpu dalina þar sem við tökum út vöxt í gegnum allt tilfinningalitrófið áður en við komumst þangað. (þeir sem hafa farið í gegnum sorgarferli lífsins þekkja þetta litróf vel.)

Vinir og ættingjar vilja svo oft verða okkur til aðstoðar á erfiðum tímum en eru kannski ekki alveg tilbúnir til að heyra okkur raunverulega eða kunna illa að takast á við erfiðar tilfinningar lífsins og nota þá allskonar hjálparsetningar til að koma okkur á jákvæðari staði svo að þeim líði nú aðeins betur. Oftast er útkoman þó sú að sá sem situr í tilfinningauppnáminu finnst hann hvorki heyrður, séður né fá kærleiksríka samkennd.

Eins erum við ekki almennt meðvituð um það að tilfinningar eru eins og nokkurskonar gagnasafn sem færir okkur upplýsingar um raunverulega líðan okkar á hverjum tíma og við ættum svo sannarlega aldrei að hunsa þær með því að filtera þær með jákvæðninni ef hún á ekki rétt á sér í aðstæðunum, eða er til að breiða yfir sársauka sem betur væri tekist á við og unnið úr.

Við áttum okkur heldur ekki á því hvað sumar af þeim setningum sem við gerumst víst flest ef ekki öll sek um að nota í góðum styðjandi tilgangi geta haft áhrif í öfuga átt, og flokkast stundum hreinlega undir gaslýsingu.

Tilgangurinn er kannski góður en í leiðinni er verið að skauta yfir raunveruleika þess sem á upplifunina svo það væri gott fyrir okkur að sleppa þessum setningum eða skipta þeim út fyrir setningar eins og ég skil þig, ég heyri þig og hvernig get ég aðstoðað þig?

Hér eru nokkrar af þeim setningum sem eru algengar í notkun í þessum jákvæðnileik  okkar og setningar eins og þessar ættu kannski stundum að notast með varúð:

  • Þegar einar dyr lokast þá opnast aðrar.
  • Alltaf má fá annað skip og annað föruneyti
  • Það er nóg af fiskum í sjónum.
  • Öll él birta upp um síðir.
  • Ekki vera svona neikvæð/ur.
  • Hugsaðu um það sem gleður þig!
  • Þetta gæti verið verra.
  • Öllum verða á mistök.
  • Hey bara jákvæða strauma takk!
  • Ef ég get þetta þá getur þú þetta!
  • Reyndu að vera hamingjusöm/samur.
  • Þú ættir að vera þakklát/ur fyrir það sem þú hefur.
  • Engar afsakanir, bara rífa sig í gang.
  • Lífið er of stutt til að eyða því í leiðindi!
  • Þú kemst yfir þetta!
  • Það eru margir sem hafa það miklu verra en þú og hafa gengið í gegnum verri hluti.

Hvað af þessum setningum eru hjálplegar þegar við stöndum frammi fyrir td atvinnumissi, barnsmissi, makamissi, skilnaði, óvelkominni breytingu á lífinu, veikindum, erfiðleikum í hjónabandi og svo framvegis?

Líklega eiga þessar setningar kannski stundum við og svo ég tali aðeins fyrir mig nota ég sumar af þessum í ákveðnum aðstæðum, en mitt mat er þó að í erfiðum aðstæðum lífsins geri þær stundum meira ógagn en gagn.

Ef við viljum vera til staðar fyrir okkur sjálf og aðra á tímum þar sem okkur finnst erfitt að halda í jákvæðnina ættum við kannski að byrja á því að viðurkenna og skoða tilfinningarnar nákvæmlega eins og þær eru á hverjum tíma án þess að skilgreina þær sem góðar eða slæmar – bara viðurkenna þær.

Við getum einnig gefið okkur sjálfum og öðrum þá fullvissu að við séum til staðar í gegnum súrt og sætt (ekki bara sætt) til að opna á kærleiksríkt rými sem leyfir úrvinnslu á þeim tilfinningum sem eru til staðar hverju sinni og veita síðan samkennd og kærleika ( það má líka sýna sjálfum sér samkennd og umhyggju).

Að opna á það rými sýnir að við viljum þekkja persónuna í öllu sínu veldi en ekki einungis jákvæðu eiginleika hennar eða þegar hún er á góðu tímabilum lífsins (Er hress og kát).

Ef ég ætti að gefa uppskrift að því besta sem við getum fært fram til þeirra sem eru í erfiðri tilfinningavinnslu er að nota töframeðalið hlustun. Að hlusta og hlusta og að vera til staðar án þess að hafa alltaf skoðun á því hvernig ætti að takast á við hlutina eða hvernig líðanin ætti að vera að okkar mati er dýrmætasta gjöfin sem við getum gefið í þessum aðstæðum og kannski á öllum tímum og tíðum.

Stundum er lífið bara þannig að við þurfum bara að fá að lifa einn dag í einu þar til við lifnum á ný, og höfum náð í jákvæðni okkar og jafnvægi og þar kemur hlustunin að góðu gagni (og okkur ber að virða þetta ferli).

Munum að allar tilfinningar eru leyfilegar og nauðsynlegar og allar gefa þær upplýsingar um okkur og raunverulega líðan okkar svo stöldrum við og hlustum í dagsins önn og lærum að þekkja okkur sjálf og aðra betur.

Eins og alltaf er ég svo bara einni tímapöntun í burtu frá þér ef þú þarft á minni aðstoð að halda við verkefni lífsins.

Þar til næst elskurnar verum góð við hvert annað

Xoxo

Ykkar Linda

 

Linda Baldvinsdóttir

Lifecoach og samskiptaráðgjafi

linda@manngildi.is


Það eru vampírur á meðal okkar

 Veistu Það eru til vampírur í dag, meira að segja undirförlar ofbeldisfullar vampírur  sem sjúga allt það góða sem við höfum að gefa og þær skilja okkur síðan eftir með brostnar vonir, svikin loforð, hjartasár og laskaða áfallatengda sjálfsmynd og færa sig án samvisku yfir að næsta fórnarlambi sem eins fer fyrir.

Þetta er ekki endilega fólkið sem þú sérð smánað í fjölmiðlum því að þeir skilja eftir fá sönnunargögn um ofbeldi sitt. Þeir leynast í myrkri inni á heimilum sínum, vinnustöðum, skólum, sjúkrahúsum og í raun allstaðar, sama hvaða stétt eða stöðu þeir gegna og þeir eru af báðum kynjum (eða öllum).

Þessar vampírur hafa það að áhugamáli að beita andlegri kúgun, niðurlægingu, lygum og öðrum skemmtilegheitum til að ná því sem þeir þurfa frá fórnarlambinu en þeim er ekki treystandi til að bera ábyrgð eða að standa við orð sín og skuldbindingar. Þeim leiðist það óskaplega þegar ætlast er til af þeim að þeir séu fullorðnir ábyrgir einstaklingar og kæra sig lítt um að vera sett mörk sama á hvaða sviði það er.

Þeir eru framhjáhaldsseggir (bæði kyn),framapotarar og tækifærissinnar sem  taka allt sem þeir þurfa að fá frá fórnarlambinu áður en þeir hverfa á brott til þess næsta.

Þeir eru blekkingameistarar og ná sínu fram með sjarma sem er eins vel útfærður og vel skrifað handrit og þetta sama handrit er endurtekið við hvert og eitt fórnarlamb til að ná taki á þeim af stakri snilld.

Vampírunum er sama um tilfinningar annarra og líf ef þeir bara fá það sem þeir vilja fá. Þeir eru tilfinningamelludólgar í byrjun kynna og nota gjarnan upphafningu á fórnarlambinu sem fyrstu beitunni en að lokum er fórnarlambið skilið eftir lífvana með laskaða sjálfmynd í óraunverulegri tilveru sem þeim er sagt að sé raunveruleikinn, Þar er fórnarlambið sá sem er vampíran og vampíran fórnarlambið, og þar sem svo oft er búið að segja fórnarlambinu að raunveruleiki þeirra sé ekki sannur fer fórnarlambið jafnvel að trúa því að það sé vampíran.

Vampírurnar eru venjulega fluggáfaðar en óþroskaðar tilfinningalega og ná stjórn á þegnum sínum  með sálfræðilegum klækjum sem jafnvel Pútín og Hitler yrðu ánægðir með í pyntingaklefum sínum.

Áföllin sem þeir skilja eftir sig eru jafnvel oft það slæm að erfitt getur reynst að vinna úr þeim nema með mikilli aðstoð.  

Vinsælar pyntingaraðferðir vampíranna eru útilokun, hunsun og niðurlæging (jafnvel opinberleg) reiðiköst, útásetningar, hótanir,gaslýsingar,sköpun á traumaböndum og jafnvel kynferðisleg kúgun.(þar sem það á við)

Það er erfitt fyrir fólk að koma sér í burtu frá vampírunum sem venjulega eru búnar að ná stjórn á fórnarlambi sínu og halda því í heljargreipum ýmiskonar og ef um parasamband er að ræða þá er erfitt fyrir makann að koma sér í burtu vegna þess að áfallið og nauðgunin á tilfinningunum er orðin of mikil og fórnarlambið lamað af þreytu og heilaþoku, ófært um í raun að taka svo ákveðna afstöðu. Að lifa við ýmist aðdáun og upphafningu og hinsvegar það að þú þú það ógeðslegasta sem hefur fæðst hér á jörðu gerir hvern mann sturlaðan að lokum og það er líklega tilgangur vampíranna frá upphafi ofbeldisins.

Þetta eru mennirnir og konurnar sem ég tel vera nánast þær hættulegustu skepnur sem við getum komist tæri við, en engin mee too herferð er í gangi gagnvart þeim því að þær kunna að leynast í myrkrinu.

Vampírurnar eru af báðum kynjum en nota þó mismunandi aðferðir við blóðtökuna.

Þegar upp kemst um  blekkingarmeistarana verða þeir yfirleitt mjög reiðir og pirraðir út í þann sem fann út raunveruleikann um þá, því að þeir eru ósnertanlegir snillingar í eigin huga og þú ert ómerkilegur þegn þeirra. Og hvað hefur þrællinn að gera upp á dekk og sjá í gegnum þessa viðkvæmu brothættu tilbúnu eða fölsku sjálfsmynd þeirra!.

Falska barnalega upphafna sjálfsmyndin er byggð á þeirra óþroska og upphafningu og særðu  stolti þess einstaka sem á tilkall til alls þess sem hann vill en innst inni er þó vitund um óþolandi ófullkomleikann og því leita þeir í upphafningu og metorð, titla og viðurkenningar til að bæta sér upp ómótaðan barnalegan persónuleikann. Eins leita þeir að fórnarlömbum sem eiga fallegt hjarta og skína skært í heiminum og stundum eru þessi fallegu hjörtu á viðkvæmum stað í lífi sínu og taka betur á móti sjarmanum sem þeim er færður á silfurbakka. Vampírurnar þurfa ljós og hjarta annarra ásamt velgengni þeirra,stöðu og stétt vegna þess að í þeim er myrkrið allsráðandi og þeir þrá ekkert heitar en að eiga þetta ljós og það líf sem þú hefur skapað þér í heilindum, en þeir vita að þeir eignast það ekki og því vilja þeir slökkva ljósið og særa hjartað þitt. Döpur örlög það.

Eftir áföllin sem skapast af völdum vampíranna verður aldrei aftur snúið til baka í gamla lífið  því að sá sem verður fyrir þeim og lifir það af verður að nýrri manneskju sem er reynslunni ríkari, varkárari og hugsar sig um áður en hún gefur af sér með sömu gleði og hún gerði áður sem er gott að mörgu leiti, því að það að treysta um of getur farið illa með það líf sem við viljum skapa (traust á að vera áunnið)  

En hinsvegar eftir að hafa lifað af árásir vampíranna er hægt að hefjast handa og skapa smátt og smátt líf sem sýnir sterka og þá þroskaðu reynslumiklu veru sem skín í veröldinni sem aldrei fyrr og gefur af sér allt það fallega sem einungis er á færi þeirra sem hafa farið til heljar og til baka.

Kærleikurinn er nefnilega alltaf svartur eða hvítur – en ekki grár.

Ástin er alltaf það sem gefur af sér virðingaverðar kærleiksríkar athafnir og skilning á því að traust er áunnið en ekki gefið.

Ástarsambönd fórnarlambanna  eru hinsvegar oft svo brotin að gráa svæðið er orðið að normi og væntingarnar til hins góða í mönnum og lífinu orðnar litlar, og heimurinn þar sem öryggið býr orðinn afar lítill ferkantaður kassi sem gott er að loka sig af í – því að það er of sárt að opna sig gagnvart lífinu og mögulegum vampírum sem kannski leynast í myrkrinu og bíða eftir því að geta heillað sitt næsta fórnarlamb.

Fátt er þó það sem veitir meiri lækningu inn í þessar aðstæður en það að leyfa sér að lifa á eigin forsendum í gleði og hamingju, setja mörk fyrir framkomu annarra og njóta þess að vera sigurvegari yfir aðstæðunum en ekki fórnarlambið sem er hlutverkið sem vampírurnar elska að sjá þig festast í.

Ég hvet okkur öll til þess að vera á varðbergi í umhverfi okkar og þar sem ofbeldi er beitt að vera sá eða sú sem lætur það ekki viðgangast án mótbára, því það eru ekki allar vampírur frægar og ríkar – heldur eru þær allt um kring - munum það.

Og eins og alltaf er ég aðeins einni tímapöntun í burtu frá þér ef þú þarft á aðstoð minni að halda við þín lífsins málefni.

Þar til næst elskurnar

Xoxo

Ykkar Linda

Linda Baldvinsdóttir

Lifecoach og samskiptaráðgjafi

linda@manngildi.is

 


Ódýrasta yngingarlyfið

Fred Rogers sagði eitt sinn að það væru þrjár leiðir að hinum fullkomna árangri, en þær væru 

1.Sýndu umhyggju

2.Sýndu umhyggju

3.Sýndu umhyggju

Ekki er ég viss um að hann hafi gert sér grein fyrir því að hann var einnig að gefa uppskriftina að góðri heilsu og langlífi en það virðist þó vera raunin.

Rannsókn sem gerð var á kanínum árið 1978 vöktu áhuga Dr Kelli Harding prófessor í geðlækningum við háskólann Columbiu og sá áhugi varð til þess að hún leitaði víða fanga við að sannreyna niðurstöðu hennar.

Í framhaldi af grúski hennar á rannsóknum sem innihéldu sömu byltingarkenndu uppgötvanirnar varðandi mátt góðvildar eða umhyggju skrifaði hún bókina „The Rabbit effect: Live longer, happier and healthier“ en bókin var gefin út árið 2019.

Nokkrar aðrar rannsóknir hafa verið gerðar í framhaldi þeirrar fyrstu og reyndar margar rannsóknir gerðar sem sýna ótvírætt ávinninginn af góðvildinni eða umhyggjuseminni á líðan okkar og líf. Og allar virðast þær styðja við þá niðurstöðu að eitt fullkomnasta „lyf“ sem til er bæði við heilsufarskvillum og öldrun er hin einfalda góðmennska eða umhyggja. Einfalt og ódýrt og eitthvað sem við öll eigum til í fórum okkar svo því ekki að nota það?

Rannsóknin sem gerð var 1978 fór þannig fram að skoðuð voru tengsl hás kólesteróls og hjartaheilsu hjá kanínum sem fengu feitt ruslfæði sem stuðlar að kransæðastíflu og hjartaáföllum svona almennt séð og voru tveir kanínuhópar látnir gæða sér á því.  

Annar hópurinn virtist vera ónæmur fyrir óheilnæmi fæðunnar eða réttara sagt hafði fæðið ekki áhrif á hjartaheilsu annars hópsins á þann hátt sem búist var við, og olli það undrun þeirra sem stóðu að rannsókninni.

Farið var að kanna hver munurinn á hópunum væri og atlætinu sem þeir fengju, og kom fljótt í ljós að sá sem annaðist þennan "ónæma" hóp  var duglegur  að tala við kanínurnar, klappa þeim og gefa sig að þeim með ýmsum hætti sem virtist leiða til þess að fæðið hafði ekki sömu áhrif á þær og hinn kanínuhópinn.

Gerð var önnur rannsókn til að sannprófa þessa kenningu og gaf hún svipaða niðurstöðu sem vakti Dr Harding til umhugsunar og áralangrar rannsóknar á mætti umhyggjunnar eins og áður sagði. Og eins og hún sagði í einu af mörgum viðtölum sem tekin voru við hana, "þá fékk hún sjokk, því að flest okkar þegar við hugsum um heilsuna, hugsum um áhrif mataræðis, hreyfingar, svefns og einstaka ferð til læknis til að tékka á blóðhagnum. En það er í raun alveg sláandi að við skulum ekki hafa breytt þeim gildum vegna þess að það eru óteljandi vísbendingar til sem sýna að í raun er líklega stærsti þátturinn í heilsu okkar félagslegu samböndin okkar" segir þessi prófessor í geðlækningum.

Svo að dæmi sé tekið er krónískur einmannaleikinn jafn skaðlegur og sá ósiður að reykja 15 síkarettur daglega - svo látum engan vera einmanna í kringum okkur.

Chapel Hill háskólinn í Norður Karólínu gerði einnig rannsókn á áhrifum umhyggju eða góðmennsku og komst að þeirri niðurstöðu að ekki einungis hefur hún áhrif á heilsu okkar heldur hefur hún einnig áhrif á það hversu hratt við eldumst. Þannig að kannski er umhyggjan einnig besta yngingarmeðalið?

Allar þessar rannsóknir segja okkur þó aðeins það sem vitað hefur verið í þúsundir ára. Ófáar heimspekibækur og trúarrit leggja áherslu á það að koma fram við náungann í kærleika.

Þetta með að elska náungann eins og sjálfan sig er þannig sennilega eitthvað sem almættið virkilega meinti af fullri alvöru.

Að senda frá sér jákvæða strauma og að halda vel í samböndin okkar hvort sem það er parasambandið, fjölskyldusamböndin, vina og vinnufélagasambönd er það mikilvægasta sem ætti að vera í dagbókinni okkar.

Öll umhyggja gefin og þegin stuðlar að vellíðan og velsæld náungans á öllum sviðum hvort sem við erum að tala um hjartaheilsu eða andlega heilsu. Umhyggjan, faðmlögin og fallegu uppbyggjandi orðin er byggingarefnið sem veitir lífinu líf sitt, og ekki veitir okkur af ofurskammti af því í okkar neikvæða, streitufulla einmanna þjóðfélagi dagsins í dag.

Ég veit að þegar ég lít á mitt líf þá eru það einmitt þær stundir þar sem ég hef gefið og þegið umhyggju sem skipta mig meira máli en öll heimsins auðævi, og að finna ósvikna velvild og stuðning er ómetanlegt. Að tilheyra í hópi annarra og heyra að ég skipti máli og hafi tilgang gefur mér næringu sem ekkert annað getur gefið mér.

Ég lít aldrei betur út og líður aldrei eins vel og þegar ég finn mig elskaða, og ég held að það eigi við um okkur flest ef ekki okkur öll.

Og hver vill ekki líta vel út og finna hvernig líkaminn fyllist af orku og gleði þeirri sem aðeins fæst í góðum og gefandi samskiptum?

Hættum að tala um allskonar matarkúra og æfingar, velgengni og stöðuhækkanir, tölum frekar um þann mátt sem við höfum í hjarta okkar og gefum hann til okkar sjálfra og annarra og hver veit nema við breytum heiminum með því móti.

Hinar aðferðirnar hafa ekki skilað okkur neinu nema sviðinni jörð og óhamingjusömum heimi – og einni tegundinni enn af matar og yngingarkúrum.

Ánægð manneskja hugsar vel um sig og elskuð mannvera gefur af sér til allra sem á vegi hennar verða, og er það  ekki sá mikilvægasti hámarksárangur sem nokkur manneskja getur vænst að ná í lífinu?

Svo ef þú vilt ná hámarksheilsu og lúkka vel þá skaltu hafa þessi þrjú atriði í huga

1. Sýndu umhyggju

2. Sýndu umhyggju

3. Sýndu umhyggju

Og lífið fær nýjan lit og hámarks árangur lífsins er þinn.

Þar til næst elskurnar mínar munið að þið eruð einstakar og dýrmætar mannverur sem eigið bara það besta skilið og ekki tommu minna! (og svo vitið þið að ég er aðeins einni tímapönun í burtu ef þið þurfið á minni aðstoð að halda)

Xoxo

Ykkar Linda

Linda Baldvinsdóttir

Lifecoach og samskiptaráðgjafi

Linda@manngildi.is

 

23 atriði sem segja þér hvort honum sé alvara með samband ykkar

Jæja þá ætla ég að skrifa pistil til allra sem telja sig hafa fundið ástina en eru kannski ekki alveg með það á hreinu hvernig ástfangnir menn sem ætla sér að eiga líf sitt með þér hegða sér í sambandinu (og nú ætla ég að tala frekar til kvenna þó að karlmenn geti amk tekið eitthvað af þessu til að meta gæði sambandsins sem þeir eiga.

Konur og menn eru svolítið ólík í nálgun sinni í sambandsefnum og því er svo nauðsynlegt fyrir okkur konur að komast að því hvort maðurinn sé heill og sé raunverulega okkar ekki satt?

Svo ég fór á veraldravefinn og safnaði saman upplýsingum sem segja okkur svolítið um það hvernig menn sem eru ábyrgir og flottir hegða sér í sambandi sínu við okkur konurnar og merkilegt nokk þá er sama hvort ég leita upplýsinga hjá rannsóknaraðilum eða öðrum sem skrifað hafa um þetta málefni þá hafa þeir komist að svipuðum niðurstöðum og ég sjálf eftir að hafa unnið með einstaklingum og pörum að ástarmálum þeirra (og svo hef ég nú einnig smá reynslu frá mínu eigin persónulega lífi)

Svo nú hefst upptalningin á þeim atriðum sem virðast einkenna raunverulegt ástarsamband þar sem karlmaðurinn er heill í athöfnum sínum og ætlar sér að eiga gott og gefandi samband með þessari gyðju sem hann var svo ákaflega heppninn að finna.

  • Heiðarleiki skiptir hann miklu máli og þú efast aldrei um að hann segi satt og rétt frá hlutum því að þú getur nánast snert á heiðarleikanum, og þú þarf sjaldan eða aldrei að efast um tilfinningar hans því að hann kemur því þannig fyrir að þú ferð aldrei að sofa án þess að vita hversu mikils virði þú ert honum.
  • Hann vinnur að því að mynda traust og nánd ásamt því að hann gefur sig allan í sambandið. Hann veit einnig að traust er áunnið en ekki gefið og leggur sig fram við að sýna fram á að hann sé traustsins verður (ekki bara í byrjun sambandsins)
  • Hann er tilbúinn til að binda sig þessari gyðju sem hann hefur fundið.
  • Hann opnar sig tilfinningalega og felur ekkert. Hann talar um tilfinningar sínar langanir og ótta og ef eitthvað kemur uppá í sambandinu þá vill hann ræða hlutina án ásakana og setninga eins og “hvað með þig” og “þú þú þú” gerir, segir eða hvað það nú er hverju sinni, og hann er alltaf málefnalegur í nálgun sinni. Samræðurnar enda yfirleitt með samkomulagi og í góðu þó að stundum geti kannski hitnað í kolunum í byrjun.
  • Skoðanaskipti eru leyfð og skoðanir þínar eru virtar þó að þær séu á skjön við hans eigin og þú upplifir alltaf að þér sé óhætt að tjá þig heiðarlega og einlæglega.
  • Þér líður vel í návist hans og veist að hann mun grípa þig ef þú þarft á öryggi eða vernd að halda.
  • Hann mun forðast að særa tilfinningar þínar og gerir allt sem í hans valdi stendur til að þér líði vel í sambandinu.
  • Hann tekur ábyrgð á hegðun sinni og viðurkennir mistök sín, biðst fyrirgefningar og sér til þess að þau endurtaki sig ekki.
  • Hann á áhugamál utan sambandsins og á yfirleitt nokkra góða vini sem hann ver tíma með og hann hvetur þig til þess sama.
  • Hann virðir þig sem einstakling og leyfir þér að vera þú en styður þig í því sem þú vilt framkvæma í lífinu og ekkert mál er fyrir þig að elta drauma þína því að hann er þar þér við hlið og eflir þig til dáða.
  • Hann er hjálpsamur og hann kann að forgangsraða (og þú ert númer 1 flesta daga ásamt fjölskyldu ykkar)
  • Hann ber virðingu fyrir tíma þínum og er sjaldan of seinn til að hitta þig. Hann hringir þegar hann segist ætla að hringja og hann stendur við orð sín.
  • Hann er ekki yfirmáta afbrýðisamur þó að hann vilji eiga sína konu einn og hann reynir ekki að stjórna þér né stýra í átt að því sem hann vill.
  • Hann skellir ekki á þig símanum til að taka önnur símtöl og hann lætur þig ekki bíða endalaust eftir því að hann hringi til baka ef svo illilega vill til að hann skelli á þig ef að læknirinn hans hringir eða eitthvað slíkt.
  • Ef honum er alvara með samband ykkar þá talar hann alltaf um framtíð ykkar saman og þú þarft ekki að hafa áhyggjur af því að hann ætli sér ekki að vera með þér í framtíðinni.
  • Hann ver miklum tíma með þér og lætur ekki annir dagsins stoppa sig frá því að hafa samband við þig með einhverjum hætti því að þú ert í forgangi hjá honum.
  • Þú óttast aldrei að hann muni skaða þig eða börnin ykkar ef einhver eru því að það er afar langt frá hans hugsun og framkvæmd.
  • Þegar þarf að taka ákvörðun þá gerir hann það fumlaust og af ábyrgð og hann fórnar því sem fórna þarf fyrir ykkar samband og hamingju þess, og hann gerir allt til þess að samband ykkar þrífist hamingjusamlega.
  • Hann er góður hlustandi og þó að karlmenn eigi erfitt með að hlusta án þess að ætla sér að finna lausnir fyrir þig þá gerir hann sitt besta til að heyra þig raunverulega.
  • Hann man hvernig þú vilt hafa kaffið þitt og hvað þér þykir fallegt og hvað gleður þig.
  • Hann mun ferðast um hálfan hnöttinn ef þú þarfnast hans og ekkert mun stoppa hann frá því að koma til þín þegar þú kallar eftir því.
  • Hann er ekki afbrýðisamur út í vinkonurnar þínar og finnst bara frábært að þú eigir tíma með þeim.
  • Og að lokum þá saknar hann þín alltaf þegar hann er ekki í nálægð við þig og enginn er eins glaður og hann þegar þú kemur aftur til hans.

 

Það er nú víst ekki eins og þessir menn vaxi á trjánum og hægt sé að grípa þá af næstu grein en þó má finna þá ef vel er leitað, og þessir menn eru þeir einu sem ættu að fá að komast inn í hjarta okkar því að hjarta okkar er dýrmætt og við verðum að passa það vel.

Og ef þig vantar aðstoð við málefni lífsins þá er ég aðeins einni tímapöntun í burtu frá þér.

Þar til næst elskurnar,

xoxo ykkar Linda

 

Linda Baldvinsdóttir Lifecoach og samskiptaráðgjafi

linda@manngildi.is


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Linda Baldvinsdóttir

Höfundur

Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ..._s4i6862_2
  • ...0eaf470d6_2
  • ...98009927331
  • pistill mynd
  • 15608665 10210640975833107 554134899 o

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband