7.6.2022 | 23:18
Úr öskunni rís Fönixinn
Stundum þurfum við að vera grimm til að vera góð og þá er sama hvort við erum að tala um að vera grimm við okkur sjálf eða aðra þegar þannig ber undir.
Margir ruglast á samkennd og meðvirkni og kannski ekkert skrýtið þar sem þetta tvennt er nánast það sama í grunninn eða kærleikur og samúð, og það verður erfitt að setja mörk og vera á bremsunni þegar þær tilfinningar eru við völd.
Munurinn á þessu tvennu er þó sá að sá sem hefur samkenndina veit að stundum þarf að sýna sjálfum sér og öðrum hörku og aga til að hleypa að því sem betra er fyrir okkur inn í lífið á meðan sá meðvirki vill taka á sig allt sem gera þarf og verður í leiðinni yfirkeyrði miskunnsami Samverjinn. Samverjarnir eiga það nefnilega til að gera of mikið fyrir þá sem eru í erfiðleikum eða koma þeim upp með allt of mikið af rugli og vitleysu einungis í nafni kærleikans og eða samkenndar en oft og iðulega án árangursins sem þeir vilja svo gjarnan ná og sjá.
Við mennirnir erum sérkennilega samansett og það er eins og við þurfum að fá nokkra skammta af mótlæti til að læra og þroskast og því er samkenndin eða réttara sagt meðvirknin alls ekki það sem við þurfum að fá þegar þroskaskeiðin okkar birtast í formi erfiðleika og umbreytinga sem krefja okkur þess að við endurfæðumst til nýrrar þekkingar, uppljómunar og til nýrra leiða í lífinu.
Okkur var aldrei lofað að gangan hér á jörðu yrði átakalaus og án hindrana en við látum stundum eins og að það sé þannig og neitum að taka við lærdómnum sem í ögun lífsins felst og það er draumastaða miskunnsama Samverjans sem tekur það þá bara að sér.
Ekkert er þó mikilvægara fyrir okkur til að efla raunverulega samkennd okkar og til að við lærum að greina á milli meðvirkni og samkenndar en það að horfast í augu við óttann okkar og vanmátt og sigrast á hvorutveggja og taka þannig við lærdómi og þekkingu þess sem hefur farið í gegnum eldinn og getur í raun þá fyrst stutt þann sem stendur frammi fyrir svipuðu verkefni.
Ég hugsa að við höfum flest heyrt orðið "þroskaþjófur" en það er einmitt manneskjan sem tekur frá þér ábyrgðina og þroskann sem felst í því að horfast í augu við lífið og sjálfan þig í öllum birtingamyndum. Við þekkjum einnig flest dæmi um manneskjur sem streða við að halda öðrum á floti með því að taka ábyrðina af þeim sem í flestum tilfellum veldur einungis þjáningu þess sem ábyrgðina missir, því að fyrr eða seinna kemur næsta verkefni og þá hafa þessir aðilar ekki kjarkinn eða þekkinguna sem fæst með æfingunni til að takast á við verkefnið og þar með missa þeir einnig af sjálfsvirðingunni sem fæst með því að sigrast á því sem í fang okkar kemur.
Með ábyrgðaleysinu fer líka ákvörðunarvaldið og við feykjumst um eins og lauf í vindi og látum aðra um að stjórna lífi okkar og líður best ef við getum bara látið lítið fara fyrir okkur og höfum fá orð um að taka ábyrgðina eða nýta ákvarðanafrelsið sem okkur var gefið í vöggugjöf. Þannig verðum við að leikbrúðum í dúkkuleikhúsi þeirra sem um stjórnartaumana halda en missum því miður af okkar eigin draumum, vonum og væntingum til lífsins í leiðinni.
Náttúran og sagnamenn/konur aldanna hafa verið dugleg við að sýna okkur ágóðann sem fæst af erfiði og ábyrgð þegar tekist er á af einurð við erfiðleikana/verkefnin og fjöldinn er til af táknrænum sögnum um upprisu og endurnýjun sem hefur haft betri tíð og aukinn þroska í för með sér.
Líklega er sagan um Jesú á krossinum frægust ásamt sögnunum um fuglinn Fönix.
Fönixinn var stór, fallegur sagnafugl sem var sagður getað lifað í 500 ár. Þegar fuglinn fann að tími var komin á það að hann skyldi deyja þá flaug hann til Egyptalands, bjó þar til hreiður og lagði eld að því. Úr öskunni átti svo að rísa nýr Fönix.Fönixinn er nefndur bæði í grískri og rómverskri goðafræði og í báðum þessara trúarbragða var guð sólarinnar táknaður með eldfuglinum Fönix.
Þessi saga minnir mig á þau tímabil þar sem við breytumst og sjáum lífið frá öðru sjónarhorni og þurfum að ganga í gegnum eld og brennistein til að skapa okkur nýtt og fallegt líf úr leyfunum af því gamla.
Svo má ekki gleyma því hvernig náttúran gefur okkur einnig sömu fyrirmyndina eins og t.d.með tilvist og lífi Ameríska arnarins en saga hans er góð táknræn mynd fyrir okkur þegar við stöndum frammi fyrir erfiðum og oft sársaukafullum ákvörðunum fyrir líf okkar.
Sagan um örninn sem getur getur lifað í allt að 70 ár er mjög merkileg fyrir margra hluta sakir, en til að ná þessum 70 árum þarf örninn að taka mjög svo erfiða ákvörðun á 40. aldursári en þá geta langir og sveigjanlegir goggar arnarins ekki lengur gripið bráðina sem hann veiðir sér til matar því að goggurinn verður bitlaus og hann nær ekki að hreinsa fjaðrir sínar með honum sem veldur því að hann á erfitt með flug. Þannig að á þessum tímapunkti hefur hann aðeins um tvo valkosti að velja - að deyja, eða fara í gegnum sársaukafullt breytingaferli sem felst í því að hann þarf að slá goggnum við stein þar til hann hefur náð að rífa hann af sér. Eftir það sársaukamikla ferli þarf hann að bíða eftir því að nýr goggur vaxi og þá fyrst getur hann hreinsað fjaðrir sínar og hafið sig til flugs á ný.
Þetta ferli tekur 150 daga eða 5 mánuði en hann fær í staðinn að lifa í ca 30 ár til viðbótar.
Þetta lífshlaup arnarins finnst mér góð líking við líf okkar mannanna. Því að það er erfitt að standa upp eftir áföll og erfiðleika og fara á fætur hvern morgun staðráðinn í því að gera daginn góðan þrátt fyrir aðstæðurnar sem í lífinu eru þegar þær eru erfiðar og það getur verið langt, einmannalegt og sársaukafullt ferli.
Þeir sem farið hafa í gegnum heilsubrest,skilnað, missi og fleira vita vel hvað ég er að tala um. Að hefja lífið að nýju er eins og reyna að smíða eitthvað gott úr sársaukanum og taka ákvörðun um að gera það sem þarf til þess að gera lífið gott á ný, einn dag í einu.
Í því ferli þurfum við ekki á "þroskaþjófum" að halda heldur samkennd sem segir "þú getur þetta" og "ég stend með þér í þeim ákvörðunum sem þú tekur" "náðu í draumana þína" og "ég er hérna" því að okkur þykir öllum gott að hafa hendi til að grípa í stöku sinnum þegar á móti blæs.
*Örninn er einnig góð kennslustund í ómeðvirkri samkennd sem þekkir erfiðleika lífsins og á nægjanlega ást til unga sinna til að treysta þeim fyrir því að tækla lífið á eigin vegum. Semsagt þegar kominn er tími á að ungarnir fari úr hreiðrinu stingur örninn inn á við oddhvössu greinunum sem stóðu áður út úr hreiðrinu svo að það fari nú afar illa um ungana, svo illa að þeir vilja helst yfirgefa hreiðrið og fljúga sjálfir út í hinn stóra ógnvænlega en þó dásamlega heim.
Og til að kenna þeim að fljúga og bjarga sér hendir örninn þeim út af bjargbrúninni (arnarhreiðrin eru á hæstu tindunum)og gripur þá ekki fyrr en þeir eru um það bil að snerta jörðina. Þetta gerir hann aftur og aftur þar til þeir hafa lært að fljúga sjálfir.
Dásamlegur tær kærleikur þarna á ferð. Kærleikur sem veit að stundum þarf samkenndin að hafa birtingamynd hörkunnar og jafnvel grimmdar til að hún skili því besta fyrir þann sem við elskum og viljum aðeins það besta fyrir.
En til að enda þennan pistil þá segi ég bara að lokum,
gangi þér vel lesandi góður við að tækla lífsverkefni þín og að njóta ávaxtanna sem fæðast af erfiði þínu. Ávaxta sem verða líklega í formi styrks, hugrekkis,aukins sjálfstrausts og gleði þess sem veit að þetta erfiði var allt þess virði að lokum.
Ef að ég get verið þér innan handar í þínum lífsins verkefnum þá er ég eins og alltaf aðeins einni tímapöntun í burtu frá þér.
Þar til næst elskurnar,
xoxo Ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
Lifecoach og samskiptaráðgjafi.
linda@manngildi.is
Bloggar | Breytt 8.6.2022 kl. 10:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.4.2022 | 15:52
Hvað er orðið þitt?
Ég horfði á myndina Eat pray love með Julíu Roberts um daginn í hundraðasta skiptið líklega og að þessu sinni tók ég eftir því þegar hún var spurð að því hvað "orðið" hennar væri og hún svaraði því til eftir smá umhugsun að hún væri rithöfundur. Sá sem spurði hana sagðist þó ekki vera að spyrja hana hvað hún gerði heldur hver hún væri, og myndin snýst að mörgu leiti um leit hennar að því orði sem hún gæti notað um sig og sinn innsta kjarna.
Þetta vakti mig til umhugsunar um það hvernig við skilgreinum okkur sjálf svona venjulega og hversu oft við skilgreinum annað fólk út frá starfstitli þeirra og hversu rangt þetta er í raun og veru. Er það það sem skiptir máli? Eða skiptir meira máli að vita hver kjarninn er í manneskjunni?
Starf okkar og ytri umgerð segir afar lítið um líðan okkar að innan og hvort að við séum holl eða óholl fyrir okkur sjálf og þá aðra í leiðinni.
Að lifa innan frá og út hlýtur að vera okkur kappsmál því að aðeins þannig erum við heil og lifum þar með af heilindum gagnvart okkur sjálfum og öðrum.
Hvernig eigum við að finna lífsfarveg okkar og þá gleði sem fylgir því að finna hann ef við leyfum okkur ekki að kafa eftir því hver við erum þegar búið að strippa okkur af titlum, menntun og öðru því sem heimurinn hefur kennt okkur að skilgreina okkur út frá?
Ef við leitum ekki að uppruna "orðinu" okkar þá verðum við alltaf eins og strengjabrúður annarra og látum stjórnast af því sem stjórnendur brúðunnar vilja. Útfrá þannig ástandi leyfum við öðrum að fara yfir mörkin okkar og missum sjálfstraustið, gleðina og að standa með okkur, því hvernig getum við staðið með einhverju sem við vitum ekki einu sinni að erum við eða "orðið" okkar eða okkar innsti kjarni?
Það er mikið talað um ofbeldi í dag og hluti af því að við látum slíka meðferð viðgangast gagnvart okkur sjálfum og í samfélagi okkar er vegna þess að við teljum okkur ekki eiga betra skilið en þá meðferð sem okkur er boðið uppá hverju sinni og gerum hluti sem eru gagnstæð ómeðvituðum gildum okkar allt til að fá skilgreininguna frá heiminum og öðru fólki að þú sért verðug/ur og elskuð/aður eða allt þar til við lærum að þekkja "orðið" okkar og förum að verja okkur (gildin okkar) útfrá okkur en ekki til að dansa fyrir aðra jafnvel í óheilbrigði þeirra og stjórnsemi.
Þegar við erum ómeðvituð um "orðið" okkar þá erum við einnig á sífelldum flótta frá okkur sjálfum og förum t.d að hlaupa á milli sambanda og hellum okkur út í þau til að vera nú einhverjum eitthvað (einhverjum öðrum en okkur sjálfum). Við förum að drekka meira áfengi, taka lyf sem deyfa líðan okkar, borðum á okkur sjúkdóma, festumst í allskonar fíknum sem við missum tök á, vinnum yfir okkur og hættum að bera ábyrgð á líðan okkar og lífi. Allt verður öðrum að kenna því að við náum ekki að skoða okkur hið innra því að þar gætum við rekist á brotin okkar og þurft að fara að takast á við þau og finna "orðið" okkar.
Við lifum einnig í fjarlægð frá okkur með því að vera of jákvæð eða of neikvæð og leyfum því ekki þekkingu á raunverulegri líðan og tilfinningum okkar því að það er svo gott að leita út fyrir okkur sjálf þarna einnig. Öfgar semsagt á flestum sviðum sem öll eru aðeins til eins og það er að fela sjálfan sig fyrir sjálfum sér! Það verður ekki fyrr en að skapandi hugsun eða ný hugsun verður til útfrá þekkingu á þínu innsta eðli sem þetta breytist.
Ætlum við að lifa tilgangsríku lífi þar sem við erum þekkjum okkur sjálf eða ætlum við að reka stjórnlaust í gegnum það? Okkar er alltaf valið og útkoman í lífi okkar byggist á því að við vitum hver við erum og hvert við ætlum okkur að fara og til þess þarf ný hugsun að verða til, nýtt viðhorf og þekking á þér.
Það krefst hugrekkis að leita að orðinu sínu og það er ekki alltaf auðvelt að finna það (prófaðu bara) en svo sannarlega er sú þekkingarleit áhrifarík og til umbreytingar ef þú leyfir þínu innsta eðli að taka yfir yfirborðsskilgreiningu heimsins á því hver og hvað þú átt að vera og gera til að heimurinn samþykki þig.
Þegar orðið er fundið þá veistu að þú þarft ekkert að óttast eða vera með áhyggjur af einu eða neinu því að hæfileiki þinn til að skapa líf þitt á þann veg sem þú vilt að það verði verður helst falinn í því að þú treystir á þekkingu þína um þig og lífið til að færa þig nær þeirri leið sem þitt einlæga sjálf vill fara með þig. Er það í sjálfu sér ekki dásamleg tilhugsun? Og voila, andi þinn mun fylgja þínum óskum nákvæmlega eins og andinn í Alladín lampanum. Það þurfti að strjúka þeim lampa og vita af andanum innra með honum væri þarna til að uppfylla óskirnar (trúa því að hann væri þarna) og síðan þurfti að vita hvaða leið eða óskir þyrfti að uppfylla áður en að hægt væri að afgreiða þær. (Sjá the secret)
Eins er það með andann innra með okkur og leiðina okkar. Við þurfum að trúa á hana, taka skrefin, vita hver við erum og hvað við viljum áður en að andi okkar fer og nær í það fyrir okkur eða eins og andinn í Alladín sagði "Óskin þín er fyrirskipun til mín" (Your wish is my command).
Allt virðist eitthvað svo erfitt áður en við lærum það og það er eins með að það að finna orðið okkar, leiðin hræðir okkur stundum, en eins og allt sem við lærum hefur lærdómsferlið tilhneigingu til að verða að ósjálfráðri þekkingu sem við þurfum eftir smá tíma ekkert að hugsa um við bara kunnum þetta.
Ég veit með mig að ég hélt sem lítil stelpa að ég gæti aldrei lært að reima skóna mína en það tókst og í dag er það mjög lítið mál. Ég óttaðist einnig að ég gæti aldrei lært almennilega á bíl en í dag gæti ég líklega málað mig, talað í símann og borðað morgunmatinn á sama tíma og ég keyri á milli staða (mæli samt ekki með því)!
Það að án sjálfsþekkingar og að vera strengjabrúða alla tíð getur varla hljómað spennandi þannig að ég held að sú spurning sem mestu máli skiptir fyrir þig og mig í dag hlýtur að vera - "hvað er "orðið" mitt?" og hvað ætla ég að gera við það þegar ég hef uppgötvað hvað það er?
Og ef þig vantar aðstoð við að finna þitt "orð" þá er ég bara einni tímapöntun í burtu.
Þar til næst elskurnar
xoxo
Ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
Lifecoach og samskiptaráðgjafi
linda@manngildi.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.4.2022 | 14:26
Er súkkulaðið betra en kynlífið eftir miðjan aldur?
Við vinkonurnar áttum gott spjall um daginn og meðal annarra skemmtilegra málefna töluðum við um kynlöngun og breytingar á henni eftir að ákveðnum aldri er náð eða þeim aldri að vera "hundleiðinlegar sextugar gerandameðvirkar kerlingar" eins og við erum stundum kallaðar af yngri kynsystrum okkar í dag.
Í samræðum okkar vinkvennanna rifjuðum við upp sögur af þeim konum sem við ólumst upp með og ég man eftir samræðum á milli þeirra kvenna sem í mínu lífi voru þar sem rætt var um það hversu dásamlegt það yrði að geta farið að neita eiginmönnunum um kynlíf eftir að fimmtugsaldrinum væri náð og þær þá orðnar lausar við þessa "skyldu" sem þær dæstu mikið yfir. Þarna var ég ung kona að byrja lífið og fannst þær nú ekki beint smart þar sem kynlífið var mjög stór partur af minni tilveru á þeim tíma og ég átti nú ekki von á því að breyting yrði þar á frekar en aðrar ungar konur halda.
En er það virkilega þannig að við konur og kannski karlar líka verðum hálf dauð hvað varðar kynlöngun eftir ákveðinn aldur og ef svo er, hvers vegna þá?
Ég varð forvitin eftir þessar samræður okkar vinkvennanna og fór að kynna mér hvort eitthvað væri til í því að við værum frekar til í súkkulaði og Netflix en gott og gefandi kynlíf þegar vissum virðulegum aldri væri náð og viti menn, það eru ýmsar hormónatengdar ástæður fyrir því að súkkulaðið verður kynþokkafyllra en fallegur gullfallegur maður með sixpack þegar ákveðnum aldri er náð.
Það sem ég komst að við grúskið mitt fer hér á eftir og vonandi verður það til þess að meiri sátt myndist hjá þeim sem finna fyrir doða í þessum málum og þeim sem þurfa að hafa fyrir því að koma sér í gírinn annað slagið til að halda mökunum góðum.
Á ákveðnum aldri verða all miklar hormónabreytingar hjá okkur sem hafa mikil áhrif á kynlöngun og kynlífið en fram að þessum tíma sá náttúran sjálf um að halda okkur við efnið eða þar til við erum nánast að verða óhæf til að fjölga mannkyninu.
Þegar slaknar á okkur hvað kynlöngunina varðar þá fara aðrir hlutir að skipa okkur meira máli. Hlutir eins og góður matur, góður félagsskapur, áhugamál, friður og ró taka meira og meira rými í lífi okkar þó að við seem betur fer gjóum nú stundum ennþá daðrandi augum á hitt kynið.
En að ástæðunum:
Ef ég byrja á körlunum þá fara þeir svo sannarlega á sitt breytingaskeið og karlhormónarnir sem sjá um ris hjá körlum fer lækkandi. Ekki er þó vitað hversu mikið magn af karlhormónum þurfi að vera til staðar til að viðhalda eðlilegu risi og það veldur sérfræðingum svolitlum vandkvæðum að vita það ekki. Sumir karlar með lítið magn af testosterone karlhormónum eru í fullu fjöri á meðan aðrir með mikið af þeim eiga í erfiðleikum með að ná fullri reisn en þar geta komið til ýmsar ástæður eins og líkamlegt og andlegt ástand viðkomandi.
Í kringum fimmtugt eru líklega flest börn farin að heiman og menn og konur kannski aldrei fjörugri þar sem vitað er að lítil hætta er á þungun (ef konurnar eru komnar á breytingaskeiðið og blæðingar hættar) En á sama tíma eru kvenhormónarnir að minnka í líkamanum hjá konum sem aftur hefur áhrif á kynlöngunina og allskonar vandamál geta komið upp. Þurrkur í leggöngum, svitaköst, kvíði, aukin þyngd og svefnvandamál eru ekki líkleg til að auka á kynlöngunina og þó að andinn sé viljugur þá er líkaminn það kannski ekki þegar líðanin er ekki góð.
Samkvæmt John Hopkins stofnuninni tilkynna ca þriðjungur kvenna á breytingaskeiðinu um vandkvæði í kynlífinu. Kvartanirnar eru allt frá því að þær hafi bara ekki áhuga á kynlífi yfir í að þær fái ekki lengur fullnægingar. Að auki geta bæst við hinir ýmsu líkamlegu kvillar og veikindi sem fólk á þessum aldri finnur fyrir sem geta einnig dregið úr kynlönguninni.
Annað sem oft gerist á þessu aldursskeiði er að samlífið verður ekki eins ánægjulegt og það var áður vegna þessara vandamála eins og t.d. þurrks í leggöngum hjá konum og ristruflunum hjá körlum og þetta skilar sér líklega í þeim tölum sem sýna að 50 prósent kvenna á sextugsaldrinum stundar enn kynmök en á sjötugsaldrinum eru það aðeins um 27 prósent sem enn eru til í tuskið.
Ég á nú bágt með að trúa þessum tölum þar sem ég þekki nú nokkuð margar á þessum aldri sem enn eru í fullu fjöri, en kannski eru íslensku valkyrjurnar bara bestar í heimi í þessu eins og öllu öðru.
Eða leitum við kannski frekar leiða til að gera kynlífið ánægjulegra á þessu aldursskeiði en konur í öðrum löndum? Eða eigum kannski meiri nánd með mökum okkar, kaupum okkur kynlífstæki, Viagra og sleipiefni og nýtum allt það sem nútímatæknin býður uppá?
Hvað veit ég, en hitt veit ég að í flestum tilfellum má finna leiðir til að gera kynlíf ánægjulegt og þá er sama á hvaða aldri þú ert.
Sumum pörum finnst svo bara allt í lagi að þau séu ekki jafn fjörug og áður eftir fimmtugt, en njóta þess í stað betur að vera saman, hlæja saman og kúra uppi í sófa með kertaljós og músík á fóninum eða kjósa að taka góða göngutúra úti í náttúrunni fram yfir það að eiga mök. Og það má.
Svo eru það pörin sem vilja eiga gott og gjöfult kynlíf allt sitt líf og vita að það þarf að finna nýjar leiðir til að það geti orðið eftir ákveðinn aldur.
Þau gera sér grein fyrir að með aldrinum breytast hormónakerfin þannig að það verður erfiðara að ná fullnægingu þar sem blóðflæðið hefur breyst og nær ekki jafn auðveldlega til örvunarsvæðanna. Þannig að þau vita að það þarf lengri forleik og örvun á þau svæði þar sem dregið hefur úr blóðflæðinu til að fullnæging geti átt sér stað.
Að hafa góða orku, eiga góðan svefn, hreyfa sig og borða vel er lykillinn að góðu kynlífi eftir breytingaskeið beggja kynja þannig að við þessar hundleiðinlegu sextugu gerendameðvirku konur (og líklega jafn hundleiðinlegir karlar) höfum fullt af lausnum sem geta fært okkur gott kynlíf og ekki síður gott líf þegar tekið er tillit til þess að við höfum náð ákveðnum þroska og lítum lífið kannski öðrum augum en við gerðum fyrir einhverjum áratugum síðan.
En líklega höfðu þessar konur sem ég hlustaði á sem ung kona haft fullkomlega gildar ástæður fyrir því að hlakka til að setjast í helgan stein og losna undan þurrum leggöngum með tilheyrandi sársauka við samfarirnar. Það var kannski engin furða að karlinn væri litinn illu augnaráði ef hann vogaði sér að hrófla við þeim því að ekki voru miklar upplýsingar um málefnið á netinu á þeim tíma og líklega lítið um sleipiefni og kynlífstæki.
þannig að þær undu sér bara vel við sjónvarpið og súkkulaðið og hleyptu engum að sér nema þá í nokkurra metra fjarlægð og misstu þar með af því sem hefði getað orðið ánægjulegra kynlíf en þegar þær voru ungar með húsið fullt af börnum.
Að lokum langar mig að segja við okkur öll, njótum bara lífsins dag hvern og sættum okkur við að breyting í lífinu er líklega það eina sem er öruggt að muni eiga sér stað og já í þessum málum eins og mörgum öðrum, og við þurfum bara að læra að dansa nýja dansa eftir því hvernig takturinn í músíkinni breytist.
Þar til næst elskurnar mínar þá er ég bara einni tímapöntun í burtu ef þið þarfnist aðstoðar minnar við ykkar lífsins málefni.
Xoxo
Ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
Lifecoach og samskiptaráðgjafi
linda@manngildi
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.3.2022 | 21:40
Kannast þú við yfirfærslu á tilfinningum (projection)
Það er svolítið merkilegt hversu algengt það er að við metum aðra útfrá okkur sjálfum bæði hvað varðar tilfinningar okkar viðhorf og framkvæmdir, og svo færum við það allt saman yfir á aðila sem hafa ekki hugmynd um hvaðan á þá stendur veðrið og undrast hvaðan þessar samsæriskenningar gegn þeim spretta. Ég held að ef við erum heiðarleg við okkur sjálf þá verðum við að viðurkenna að í einn eða annan tíma beitum við þessum aðferðum sem þó skaða og forða okkur frá því að horfast í augu við okkar eigin annmarka.
Ég upplifði fyrir ekki svo löngu svona yfirfærslu á tilfinningum í nokkur skipti frá manneskju sem ég hafði nýlega kynnst og það vakti forvitni mína og áhuga á málefninu þannig að ég fór að kynna mér betur hvernig á þessu gæti staðið.
Komst að því að þetta fyrirbæri hefur verið rannsakað talsvert og er í raun svolítið merkilegt fyrir þær sakir að á bak við svona yfirfærslur geta legið nokkrar mismunandi ástæður.
Ein skýringin er sú að yfirfærslan (projection) sé aðeins vörn egósins sem ver sig þannig með því að neita tilvist sinni í sjálfum sér og rekur eiginleika sína þannig til annarra. Til dæmis, þar sem einelti á sér stað gæti verið að varnarleysi þess sem eineltinu beitir sé sett yfir á þann sem fyrir eineltinu verður og hann sakaður um hvatir eða tilfinningar sem gerandinn sjálfur býr yfir en ekki fórnarlambið.
Freud taldi að í yfirfærslu væri brugðist við hugsunum, hvötum, löngunum og tilfinningum sem ekki væri hægt að sætta sig við sem sínar eigin og þær þannig yfirfærðar á annan aðila. Semsagt því sem sjálfið okkar hafnar að hafa í eigin fari er sett yfir á aðra.
Þetta finnst mér alveg getað passað þar sem ég veit að við sjáum ekki í fari annarra það sem við þekkjum ekki sjálf í okkar eigin fari hvort sem við erum að gera okkur grein fyrir því eða ekki. (Hvernig á ég að þekkja eitthvað í öðrum ef ég veit ekki hvað það er sem ég upplifi eða sé)
Þessir varnarhættir okkar hafa tilhneigingu til að koma fram hjá okkur þegar við eigum í tilvistarkreppu eða krísu í lífinu en er oftar að finna í narsissistískum persónum eða hjá þeim sem eru með jaðarpersónuleika.
Carl Jung taldi að óviðunandi hlutar persónuleikans sem táknað er með Shadow archetype væru sérstaklega líklegir til að valda yfirfærslum, bæði í smáum stíl og stórum.
Sálfræðileg yfirfærsla var ein af þeim læknisfræðilegum skýringum sem notaðar voru til að skýra hegðun barna við Salem árið 1692 og sagnfræðingurinn John Demos fullyrðir að einkenni táninganna sem þjáðust þar hafi stafað af yfirfærslu á bældri árásargirni (merkileg saga sem þú ættir að gúggla ef þú þekkir hana ekki)
Semsagt til að einfalda þetta þá er það gjarnan þannig að ásakanir eins og um persónu þína,galla þína, ásökun um framhjáhöld og fleira eru yfirfærðar á þig, þannig að það sem þú gerir ásakar þú aðra um og ef þú ert ásakaður um ósanngirni þá snýrðu því við á hinn aðilann og sleppir þar með að taka ábyrgð á samviskubiti þínu og tilvist.
Í jákvæðara ljósi getur sjúklingur td stundum varpað tilfinningum vonar sinnar á meðferðaraðilann, trúarleiðtogann eða Guð svo dæmi séu tekin, og ætlast sjúklingurinn þá til að viðkomandi aðilar leysi úr málefnum hans.
Í daglegu lífi og í samböndum manna á milli verður yfirfærsla töluvert algeng og veldur oft misskilningi og togstreitu.
Í samböndum þar sem mikið er um andlegt ofbeldi t.d. er makinn oft ásakaður um hluti sem tilheyra hinum aðilanum eins og ef að eiginkonunni finnst vinnufélagi sinn mjög kynþokkafullur t.d þá ræðst hún á manninn sinn ef að hann minnist á vinnufélaga sinn af gagnstæðu kyni og ásakar hann um að vera hrifinn af viðkomandi og færir þannig sínar eigin hugsanir/tilfinningar yfir á hann.
Maður sem að efast um sína karlmennsku hæðist oft að öðrum mönnum og segir þá hegða sér eins og konur.
Narsisstar beita yfirfærslum mjög gjarnan og þá er það yfirleitt þannig að sjálfstraust þeirra byggist á því hvernig aðrir sjá þá, og þeir neita því gjarnan fyrir neikvæða eiginleika sína og persónuleikabresti ásamt því að viðurkenna ekki mistök eða það sem þeim verður á í lífinu. Þetta er varnaryfirfærsla (projection)og hún getur orðið á köflum mjög hávær og árásargjörn.
Síðan getum við skoðað okkur sjálf og séð dæmi um það hvenær við beitum yfirfærslum þegar við tölum um aðra eins og þegar við segjum
Hann/hún hatar mig! sem oftar en ekki byggist á því að okkur einfaldlega líkar ekki við eitthvað í fari þess sem um er rætt en gerum okkur ekki grein fyrir því en yfirfærum okkar eigin tilfinningar yfir á hinn aðilann.
Guð minn góður hvað hún er feit/ljót og drusluleg ! Það er frekar algengt að við konur verðum hálfgerð hex þegar við tölum um aðrar konur og oft vegna þess að við finnum fyrir minnimáttarkennd gagnvart þeim sem er ekkert annað en yfirfærsla.
Mjög oft finnum við fyrir spennu og kvíða í kringum fólk sem er yfirleitt byggt á því hvernig við lítum á okkur sjálf og vanlíðan okkar er oftast sprottin af lélegri sjálfsmynd okkar en vörnin okkar er að við skellum skuldinni á aðra.
Ef ég get þetta þá getur hann/hún það einnig.
þó að þetta eigi að hvetja okkur til dáða í flestum kringumstæðum eins og í auglýsingum þar sem aðilar ná ótrúlegum árangri á hinum ýmsu sviðum og enda auglýsinguna yfirleitt á því að segja " Ef ég get þetta þá getur þú það líka" Þarna er ekki verið að gera greinamun á getu einstaklingsins heldur verið að koma frá sjálfum sér og eigin getu eingöngu. Svona aðstæður þar sem geta og hugsun annarra er ekki á þínu færi geta valdið þér vanlíðan.
Foreldrar beita oft yfirfærslu í formi þess að vija að börnin sín mennti sig vegna þess að þeir gátu það ekki, nái árangri í lífinu vegna þess að þeim öðlaðist það ekki, vilja að þeir verði læknar, lögfræðingar eða hvað það nú er vegna þess að þeir vildu ná þessum árangri sjálfir. Þeir ýta börnunum út í hvað sem er án þess að huga að því að börnin þeirra eru einstaklingar með sinn eigin vilja og eigin getu óháð vilja foreldranna, og því verða vonbrigðin oft mikil hjá bæði foreldrinu og barninu þegar illa tekst til í þessum efnum.
En hvað er svo aðal vandamálið við yfirfærsluna? Er hún ekki bara góð þar sem hún forðar okkur oft frá sársauka okkar og við gefum okkur pásu með því að setja okkar óöryggi og varnarmekkanisma yfir á aðra eða hvað, er þetta svona einfalt og jákvætt?
Gallinn á yfirfærslunni getur í sumum tilfellum haft frekar neikvæðar afleiðingar og kallað á frekar narsisska eiginleika. Eiginleika eins og að okkur finnist við vera yfir aðra hafin þar sem við sjáum bara alls enga galla í okkur, það eru bara hinir sem eru meingallaðir.
Í öðru lagi verður yfirfærslan stundum til þess að við ætlumst til of mikils af öðrum og sjáum varla það góða í fari þeirra vegna þess að við erum of upptekin af því að fylgjast með göllunum.
Í þriðja lagi þá veldur yfirfærlsan því að við horfumst ekki í augu við okkar tilfinningar, og á meðan við neitum fyrir þær þá yfirstígum við þær ekki heldur gröfum þær niður í skúffu sem er aldrei gott að gera. Það mun því miður koma sá tími að þú þarft að opna þá skúffu með tilheyrandi erfiðleikum.
En hvað er til ráða ef við finnum okkur á þessum stöðum yfirfærslunnar og tilfinningaflóttans?
Kannski er verkefnið helst fólgið í meðvitund um tilfinningar okkar og hvenær okkar eigin varnarviðbrögð fara í gang í kringum aðra einstaklinga og aðstæður lífsins.
Oft er gott að spegla uppgötvanir sínar með fagaðila og fá aðstoð til að sjá hvar skóinn kreppir hjá okkur, og lagt okkur svo fram við að innleiða nýja hegðun og meðvitund um hvenær við beitum yfirfærslunni. (Hvað þú segir um aðra og hvað þú hugsar um aðra)
Ég vona að þessi samantekt hjálpi lesendum mínum til að átta sig á eigin yfirfærslum og verði jafnvel til þess að þeir skoði sjálfa sig hvað málefnið varðar því að ekki er gott að loka sig inni í skápum og skúffum þegar kemur að tilfinningum okkar.
En jákvæða yfirfærslan mín að þessu sinni er að kveðja ykkur með því að segja ykkur hversu einstök, frábær og æðisleg þið eruð öll ;)
Og ef þú þarft speglun á þína yfirfærslu þá er ég einungis einni tímapöntun í burtu frá þér.
Þar til næst elskurnar
xoxo
Ykkar Linda
linda@manngildi.is
tel:855-7007
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Að vera í sambandi við giftan aðila hefur marga ókosti og hefur veruleg áhrif á geðheilsu þína, sjálfsálit, almenna vellíðan og þú ert að fara að verða fyrir vonbrigðum hvernig sem á þetta samband er litið.
Hversu óánægður sem sá gifti segist vera í hjónabandinu sínu er það alveg deginum ljósara að ef hann vildi vera með þér þá færi hann einfaldlega út úr sambandi sínu og væri með þér, og ekki telja þér trú um annað - það fer ekki vel með þig.
Hér á eftir tel ég upp nokkur atriði sem vonandi fá þig til að hugsa um velferð þína og hvað þú átt allt betra skilið, því að það er alveg víst að við eigum öll skilið að eiga gott og heilbrigt samband sem gefur okkur þá næringu sem við þörfnumst.
En hvað eiga svo þessi sambönd við gifta aðila sameiginlegt?
1. Það verður alltaf einhver óvissa í huga þér og rauð flögg sem segja þér að þetta sé nú kannski ekki málið þegar til lengri tíma er litið (Við vitum að fæstir yfirgefa makann til að vera með ástarviðhenginu sínu)og þú ferð í togstreitu við gifta aðilann til að ná fram því sem þú í raun ert að leita eftir en án árangurs.
2. Það skortir traust inn í þetta samband og þú veltir því líklega fyrir þér hvað aðilinn er að gera og með hverjum hann er í tíma og ótíma, og þú fyllist vantrausti þegar símtölum þínum og skilaboðum er ekki svarað vegna þess að enginn má vita af þér og sambandi þínu við aðilann.
3. Þú færð afgangana eða smá brauðmola en ert ekki í forgangi þegar kemur að tíma, viðveru, stundum sorgar og gleði. Þú skipuleggur ekki jólin, páskana, sumarfríið og afmælið með þessum aðila og þið farið ekki í matarklúbbana saman eða veislurnar hjá vinunum, og í raun ef þú tækir saman tímann sem þið eigið saman þá eru það ekki margar klukkustundir eða dagar í hverjum mánuði.
4. Þú munt verða mjög oft í uppnámi og finnast þú lítils virði og vanvirtur þar sem þörfum þínum fyrir félagsskap, athygli, nánd og tíma er ekki sinnt eins og gerist í eðlilegum samböndum og streita verður hlutskipti þitt.
5. Þið munuð ekki tilheyra vinahópi né fjölskyldu hvers annars og lygar verða partur af lífi ykkar beggja.
6. Þið gerið ekki framtíðarplön saman og líklegt er að þið vitið bæði að það er fyrningardagsetning á sambandi ykkar þar sem það er ein af grunnstoðum sambanda að mynda framtíðarsýn þegar fullt traust og skuldbindingin er til staðar ásamt vináttu og ást. Ef ein af þessum grunnstoðum er ekki fyrir hendi þá er ekki verið að horfa til framtíðar - svo ekki telja þér trú um eitthvað annað.
7. Þegar sambandið endar þá verður það sárt fyrir þig því að þú gerir þér grein fyrir því að þú varst kannski ekki nógu mikils virði í hjarta aðilans og að annar aðili var tekinn fram fyrir þig, þannig að ástin var kannski ekki eins mikil og traust og þú hélst. Þannig að í flestum tilfellum ert það þú sem tapar á þessu sambandi.
8. Þitt hlutskipti verður eilíf bið eftir símtölum og samveru og það tekur á taugarnar. Kvíði og óróleiki verður hlutskipti þitt oftar en ekki og ekki líklegt að mikill skilningur verði á tilfinningum þínum frá gifta aðilanum þar sem hann er í flestum tilfellum aðeins að leika sér aðeins, og þú fellur fyrir fallegum orðum og yfirdrifnum lýsingarorðum á ágæti þínu sem gefa þó lítið þegar til langs tíma er litið.
9. Þegar sambandinu lýkur muntu sjá að þú varst að gefa dýrmætan tíma þinn og orku og munt líklega sjá eftir því að hafa farið þessa leið. Það verður líklega einnig þú sem situr uppi með sárt ennið og með helling af töpuðum tíma sem þú hefðir getað varið í það að byggja upp heilbrigt samband með aðila sem væri tilbúinn í alvöruna og uppbygginguna sem er nauðsynleg ef byggja á gott samband.
10. Að lokum - þú og þið eruð að særa ekki bara ykkur sjálf heldur marga aðra sem tengjast þessum gifta aðila og þar ber fyrst að nefna maka hans og börn og í sumum tilfellum heilu fjölskyldurnar, og þú verður alltaf sökudólgurinn sem situr uppi með laskað mannorð og hjartasár.
Svo ekki eyða þínu stutta og dýrmæta lífi ásamt geðheilsu þinni í að reyna að byggja upp samband með ónýtu byggingarefni. Gakktu í burtu frá sambandi sem er ekki að gefa þér það sem þú þarfnast og farðu inn í fallegri tíma og meira nærandi sambönd, og síðast en ekki síst - líttu aldrei með söknuði til baka.
Þar til næst elskurnar og eins og alltaf er ég bara einni tímapöntun í burtu ef þú þarfnast aðstoðar við þín lífsins verkefni.
xoxo
Ykkar Linda
Lifecoach,samskiptráðgjafi,TRM áfallafræði 1 og 2.
linda@manngildi.is
tel:8557007
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.2.2022 | 14:18
Er kynlífs og klámfíkn að eyðileggja kynlífið?
Aðal umræðuefnið í dag er nauðgunarmenningin, framkoma karla við konur og virðingaleysið sem konum hefur verið sýnd í gegnum tíðina, og það verður ekki liðið lengur segja konur dagsins í dag.
Ég skrifaði pistil fyrir all mörgum árum um klám og kynlífsfíkn og finnst kominn tími á endurbirtingu hans ásamt dassi af lagfæringum á honum vegna þjóðfélagsumræðunnar, og fannst ágætt að skoða eitthvað af þeim ástæðum sem geta verið fyrir henni að mínu mati og kalla ég til nokkra rannsóknaraðila á félagslegri mótun einstaklinga mér til halds og trausts í þessum pistli.
Klám og kynlífsfíkn er ört vaxandi í okkar þjóðfélagi ásamt netfíkninni og þessar þrjár fíknir eru líklega þær fíknir sem við þurfum mest að eiga við í framtíðinni ef ég hef rétt fyrir mér.
Unga kynslóðin er kölluð klámkynslóðin og það með réttu. Klám flæðir yfir internetið og ef þú gúgglar orðið sex koma upp óteljandi möguleikar á skömmum tíma(Um það bil 3.880.000.000 niðurstöður (0,47 sekúndur) og aðgangur ungmenna að þessu efni er allt of greiður því miður.
Ég á t.d. ömmudreng á fermingaraldri sem segir að það sé sko ekkert mál að komast inn á þessar síður og hann segir að jafnvel poppi upp gluggar með slíku efni þegar verið er að leita að einhverju allt öðru á netinu.
Klámsíður og síður eins og Only Fans (sem er nýjasta síðan á markaðnum þar sem þú getur gerst áskrifandi að klámi hjá þeim sem selja það á lokuðum reikningum sínum þar) eru illa til þess fallnar að mínu mati að efla og bæta virðingu kynjanna fyrir hvort öðru nema síður sé, og þær eru einnig til marks um hætturnar sem leynast í notkun internetsins.
Það versta og sorglegasta við klámið er auðvitað það að efnið sem ungmennin okkar sjá gefa þeim kolranga mynd af raunveruleikanum í kynlífi flestra sem það stunda.
Ekki bætir það svo úr þegar kynlífsfræðsla í skólum er byggð upp á því að við getum prófað allt, hversu hættulegt sem það er samanber umræðuna að undanförnu.
Ég reikna ekki með að í þeim kennslustundum sé vitnað í rannsóknir þar sem sýnt er fram á að t.d endaþarmsmök geti valdið bakteríum í legi kvenna og valdið í sumum tilfellum ófrjósemi hjá konum, og kvensjúkdómalæknar hafa töluverðar áhyggjur af þessari stöðu mála veit ég, en nei nei betra er greinilega talið að kenna þeim réttu aðferðirnar við að stunda mök af þessu tagi.
Mér skilst nefnilega á umræðunni að unglingar þurfi víst að prófa allt og þá er betra að samþykkja allt frekar en að segja einfaldlega að eitthvað sé bannað og eða skaðlegt fyrir þau. Líklega er það vegna þess að við erum upptekin af því að vera vinir barnanna okkar í uppvextinum í stað þess að kenna þeim að bera virðingu fyrir lífi sínu og líkama og setja þeim mörk sem þau innleiða síðan inn í sína tilveru. (Vináttan kemur svo þegar þau fullorðnast)
Nýjasta dæmið sem ekki má setja útá hefur með kyrkingar í kynlífi að gera. Aðferð sem er mjög vinsæl hjá morðingjum þegar þeir murka lífið úr fórnalömbum sínum og hefur hingað til talist stórhættuleg athöfn, en nei endilega kennum blessuðum börnunum hvernig við getum verið örugg þegar við prófum að kyrkja aðra manneskju í kynlífsathöfnum í stað þess að segja bara "svona gerum við ekki krakkar mínir því að það er stórhættulegt og getur valdið dauða!"
Það er talað um að samþykki ætti að vera fyrir því sem gert er sem er gott og vel, en þá langar mig að nefna að það hefur verið talað um það í umræðunni að valdamunur geti verið ástæða fyrir ýmsu af því sem birst hefur á síðum fjölmiðla að undanförnu,og því skildi það ekki einnig geta átt við í tilfelli unga fólksins og "samþykkisins" sem þau veita?
Vinsæli strákurinn í boltanum, hljómsveitinni, samfélagsmiðlastjarnan og svo framvegis sem stelpan/strákurinn á erfitt með að segja nei við vegna "valdamismunar" getur alveg átt við unglinga jafnt sem hálf-fullorðið eða fullorðið fólk. Vandamálið er þó að unglingarnir okkar eru ekki komnir með fullan þroska og heili þeirra ekki fullmótaður þannig að kannski geta þau ekki tekið ákvarðanir byggðar á rökrænu framtíðarsamþykki við athöfnunum, og þar þurfum við að vera búin að segja þeim hvað er hættulegt eða skaðlegt fyrir sjálfsmynd þeirra, líf og limi.
Þessar tvær kynlífsaðferðir sem ég nefndi hér að framan eru afleiður af klámáhorfi sem kallar alltaf á eitthvað meira, eitthvað sífellt grófara á meðan nándin og ástin er látin mæta afgangi.
Fyrir nokkrum árum kom til mín ung stúlka sem sagði við mig í einum af okkar tímum "Linda hvers vegna er ekki verið að kenna okkur það sem þú ert að kenna í stað þess að kenna okkur hvernig við eigum að stunda endaþarmsmök?" Og ég segi eins og hún, já hvers vegna ekki, og hvers vegna má ekki segja að eitthvað sé hættulegt og utan við það sem er ásættanlegt í kynlífi krakka sem eru í mótun?
Mér er nokk sama hvað FULLORÐNIR einstaklingar gera í sínu kynlífi svo framarlega sem samþykki er fyrir því frá viðkomandi aðilum, en mér er ekki sama þegar þeir sömu og fordæma nauðgunarmenninguna láti svona frá sér í kennslustofum unglinga eða barna sem ættu að stíga sín fyrstu spor á kynlífsbrautinni á heilbrigðan fallegan, sakleysislegan hátt, en ekki með að prófa eitthvað sem telst til ofbeldis eða getur valdið skaða á kynfærum þeirra. Með svona kennslu erum við að normalisera það sem skaðlegt er.
Hvar ætlum við að stöðvast í kennslu barnanna sem gætu haft langanir til að prófa eitt og annað á leið sinni að þroska?
Kennum við þeim næst hvernig á sprauta sig með fíkniefnum vegna þess að þau munu hvort sem er kannski prófa það og þar af leiðandi nauðsynlegt fyrir þau að vita hvernig það er gert? Eða dettum við í það með þeim til að kenna þeim hvernig á að drekka áfengi? Kennum við þeim að reykja gras og tóbak þannig að þau brenni sig ekki á vankunnáttu í þessum málum? Kaupum við handa þeim byssur í stað þess að banna þeim að fara inn í hættuleg hverfi stórborga?
Nei ég vona að við áttum okkur á því að það að setja heilbrigð boð og bönn er gert til að verja börnin okkar frá því sem gæti skaðað þau til frambúðar og við þurfum ekki að vera í meðvirkni með öllum straumum og stefnum sem þau mæta á leið sinni til þroska.
Ég veit að þessi pistill minn mun vekja upp hörð viðbrögð hjá sumum en það verður þá bara að hafa það, ég nenni ekki að vera lengur í meðvirkni með þessari umræðu sem mun fátt gott leiða af sér!
En snúum okkur núna að klám og kynlífsfíkninni sem við munum sjá aukast töluvert á komandi tímum (Ég þori að fullyrða það):
Öll fíkn þróast smá saman og það gerir klám og kynlífsfíknin einnig. Kynlíf kallar fram örvun, slökun og vímu sem er ávanabindandi, en telst ekki fíkn fyrr en að hugurinn er fullur af órum flesta ef ekki alla daga og er farin að valda einstaklingnum andlegri/líkamlegri vanlíðan ásamt því að raska daglegu lífi þeirra verulega.
Klámfíknin byrjar oft sakleysislega. Forvitni sem smá saman eykst þar til að hún verður að einhverju sem þarf að prófa sig áfram með, sífellt grófara klám og meira af því. Hugurinn er meira og minna fullur af hugsunum um kynlíf í öllum þess myndum, grófari og grófari eftir því sem fíknin vex og að lokum veldur hún verulegum vandamálum í einkalífinu, atvinnulífinu og sálarlífinu.
Samkvæmt grein sem ég fann á doktor.is er kynlífsfíkninni skipt niður í 11 flokka sem eru eftirfarandi.
- Kynórar.
- Daðurkynlíf.
- Kynlíf með ókunnugum.
- Borgað fyrir kynlíf.
- Sala á kynlífi.
- Gægjukynlíf.
- Sýnikynlíf.
- Kynferðisleg áreitni/ nauðgun.
- Kvalalosti.
- Munalosti.
- Kynlíf með börnum.
Samkvæmt þessari sömu grein beita fáir fíklar sér aðeins að einum flokki. Flestir eru með blöndu af þremur til fjórum flokkum og sumir allt upp í sex eða sjö. Fíklar eiga sér þó alltaf uppáhaldshegðun eða blöndu af hegðun. (Tilvitnun í grein lýkur).
Mér hefur þótt forvitnilegt að skoða samspil á milli glæpa eins og nauðgana og annarra glæpa í tengslum við klámáhorf eftir að ég sá síðasta viðtalið sem tekið var við fjöldamorðingjann Ted Bundy. https://www.youtube.com/watch?v=08dpnn0cd10&t=6s en Þar lýsir hann því vel hvernig hans kynlífsfíkn þróaðist og hvernig hann þurfti alltaf meira, djarfara og hættulegra kynlíf sem endaði með að ekkert gaf honum sama kikk og það að drepa manneskju á meðan á samförum stóð - það varð toppurinn og það eina sem gaf honum almennilegt kikk í kynlífinu!
Í grein á forerunner.com sem ég vitna lauslega í hér að neðan finn ég sláandi tölur svo ekki sé meira sagt ásamt niðurstöðum úr rannsóknum sem gerðar hafa verið um þetta efni .
Í könnun sem gerð var á 4.367 körlum í Belgíu, Danmörku og Bretlandi og kynnt var árið 2020 á sýndarþingi European Association of Urology kom í ljós að þeir karlmenn sem sögðust horfa á klám í 70 mínutur eða meira vikulega áttu ekki eins ánægjulegt kynlíf með maka sínum og voru líklegri til að eiga við risvandamál að eiga en þeir sem minna klámáhorf stunduðu.
Tvær viðamiklar rannsóknir sem gerðar voru um áhrif kláms á hegðun manna sýna einnig að eftir því sem klámið er grófara og ofbeldisfyllra hefur það meiri áhrif á mannlega hegðun.
Sálfræðingurinn Edward Donnerstein sem starfar við Háskólann í Wisconsin komst að þeirri niðurstöðu í sinni rannsókn að ekki þurfti að sýna klámfengið efni í langan tíma eða oft til að breyta hegðun til hins verra hjá þeim sem tóku þátt í rannsókn hans.
Karlar virtust verða ofbeldisfyllri gagnvart konum, fundu minna fyrir tilfinningum gagnvart þeim sem áttu um sárt að binda vegna nauðgana og voru afar fljótir að tileinka sér mýtur um orsök nauðgana.
Dr. Dolf Zimmerman og Dr. Jennings Bryant sýndu fram á með rannsóknum sínum að klámfengið efni hafði alvarlegar afleiðingar á viðhorf manna um almenna kynhegðun og þá gagnvart kvenfólki sérstaklega. Þeir fundu einnig út að klámáhorf hafði þau áhrif, að fólki fannst nauðgun ekki eins stór glæpur og okkur flestum finnst. Þessir rannsóknaraðilar fundu einnig út að mikið klámáhorf eykur löngun í áhorf á sífellt grófara klám og eða ofbeldiskynlíf.
Victor Cline rannsakandi við háskólann í Utah hefur skjalfest í sínum rannsóknum hvernig klámfíkn þróast frá einu stigi á annað, hvernig sífelld löngun í grófara klám og ofbeldi eykst og endar gjarnan með því að ekki er nóg að horfa á klámið heldur þarf að prófa sig áfram með það í raunveruleikanum.
Charles Keating of Citizens for Decency Through Law hefur sýnt fram á alvarlegar og sláandi tölur hvað varðar þá sem hafa beitt börn misnotkun en 77 prósent af þeim sem misnotað hafa drengi og 87 prósent af þeim sem misnotað hafa stúlkur viðurkenna að þeir hafi verið að framkvæma athafnir sem þeir hafa séð við áhorf á klám. Sláandi prósentur hér á ferð!
Að lokum ætla ég að taka dæmi frá Bandaríkjunum þar sem félagsfræðingarnir Murray Straus og Larry Baron starfandi við háskólann í New Hampshire komust að þeirri niðurstöðu, að tölfræðin sýndi ótvírætt fram á að nauðganir voru hæstar í þeim ríkjum þar sem klámblöð og annað klámefni seldist mest.
Í Bandaríkjunum einum er áætluð ársvelta klámbransans aðeins 12 billjónir dollara, ekki léleg velta það! og því engin undra hversu mikið klámefni finnst á markaðnum.
Allt eru þetta sláandi tölur og staðreyndir sem segja mér að það er full ástæða fyrir okkur öll að vera vel á verði og standa vörð um það að verja börn okkar með öllum hætti frá klámáhorfi, kyrkingum og endaþarmsmökum áður en þau hafa vit á að velja fyrir framtíð sína.
Klám og kynlífsfíkn eru erfiðir sjúkdómar við að eiga vegna þess að kynlöngunin er ein sterkasta hvöt mannsins og því ber okkur að taka málin föstum tökum strax í dag ef við ætlum að vernda komandi kynslóðir frá þeim hörmungum sem kynlífsfíknin veldur, og eins ef við viljum breyta virðingastuðli í framkomu og orðum komandi kynslóða gagnvart báðum kynjum.
Fyrir þá sem nú þegar hafa lent í klóm fíknarinnar eru til samtök eins og SLAA sem hjálpað hafa mörgum að ná tökum á sinni fíkn. Á síðu þeirra er að finna gagnlegar upplýsingar og fróðleik ásamt fundaskrá. http://www.slaa.is/
Kynlíf er fallegt og gott í sinni fegurstu mynd og tengir tvær mannverur kærleikans böndum eða böndum einingarinnar, trausts og opinna tilfinninga, og við ættum að halda í það sakleysi sem þar finnst með öllum ráðum þegar við erum að tala um börn og unglinga í stað samþykkis á öllum fjandanum sem er að eyðileggja helbrigð mörk þeirra.
Kjóstu aðeins það besta og láttu engan gera neitt við þig í kynlífi sem þér þykir ekki þægilegt og eða fallegt fyrir þig sem persónu eru skilaboð mín til unga fólksins og á sama tíma biðla ég til þeirra sem ala þau upp og bið þau að muna að það er allt í lagi að segja að eitthvað sé bannað eða hættulegt.
Þar til næst elskurnar,
xoxo
Ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
Lifecoach, samskiptaráðgjafi, pararáðgjafi, Trm þrautsegjuþjálfi.
linda@manngildi.is
Heimildir hjá Forerunner.com:
1 Pornography and Violence Against Women, 1980.
2 Pornography, Sexual Callousness, and the Trivialization of Rape, Journal of
Communication, 1982.
3 The Effect of Erotica Featuring Sadomasochism and Bestiality of Motivated Inter-
Male Aggressions, Personality and Social Psychology Bulletin, 1981. 4 Rape and
Marriage, 1982.
5 Where Do You Draw the Line? 1974.
6 Legitimate Violence and Rape: A Test of the Cultural Spillover Theory, 1985.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.1.2022 | 11:53
Viltu efla heilindi þín á þessu ári?
Gleðilegt ár elskurnar og takk fyrir gömlu góðu árin.
Á nýju ári verðum við vonandi betri og betri sem manneskjur og veljum vonandi að verða heilsteyptari karakterar en við teljum okkur vera í dag, og þá er nú soldið gott að vita hvaða eiginleika þeir hafa sem bera af í þessum efnum.
Sitt sýnist líklega hverjum um þau atriði sem á eftir koma og telja líklega að fáir nái á þann stað að vera alltaf fullkomnir í heilindunum og það er líklega rétt að svo sé ekki.
Þó virðast flestir vera sammála um að eftirfarandi listi einkenni þá sem hafa æft sig vel eftir því sem ég komst best að með grúski mínu á netinu.
- Þeir lifa í núinu og samþykkja það eins og það er.
- Þeir vita styrkleika sína en einnig veikleikana.
- Þeir eru samkvæmir sjálfum sér og standa með gildum sínum og þurfa ekki samþykki samfélagsins til þegar kemur að ákvarðanatöku hvað varðar líf þeirra.
- Þeir eru ábyrgðafullir og finna ekki stöðugar afsakanir fyrir því sem þeir gera rangt eða þegar þeir standa ekki við orð sín heldur standa fyrir gjörðum sínum og taka afleiðingum þeim sem kunna að fylgja ef einhverjar eru.
- Þeir setja sér markmið og vinna af heilindum við að ná þeim og þeir vita að velgengni getur tekið tíma og þrautseigju.
- Þú getur treyst því að þeir séu til staðar ef þeir á annað borð taka eitthvað að sér og þeir klára það einnig.
- Þeir hafa tilgang, eru með gildin sín á hreinu og lifa lífinu eins og þeir telja best að lifa því og kæra sig kollótta um álit annarra á sér.
- Þeir velta yfirleitt fyrir sér afleiðingum af gjörðum sínum áður en þeir framkvæma og meta hvort það sé samkvæmt gildum þeirra og lífsviðhorfum.
- Þeir vita að þeir einir hafa stjórn á lífi sínu og þeir vita að þeir geta ekki stjórnað öðrum og þeir vita að smæstu gjörðir skapa framtíð þeirra. þeirra innra sjálfstal skoðar langtímaáhrif gjörða þeirra og þeir bregðast við samkvæmt því.
- Þeir eru góðhjartaðir og koma fallega fram við aðra.Þeir eru fyrirgefandi, skilningsríkir, eiga mikla samkennd með öðrum og eiga yfirleitt mjög góð samskipti og sambönd við þá sem í umhverfi þeirra eru.
- Þeir eru hugrakkir og láta ekki óttann yfirbuga sig þó að þeir finni svo sannarlega til hans eins og við flest gerum heldur taka þeir skrefin sem taka þarf í áttina að því sem þeir ætla sér að ná hverju sinni.
- Þeir æfa sig í heilindum og hafa góða og fágaða siðferðiskennd sem stýrir gjörðum þeirra til heilla í aðstæðum. Þeir framkvæma það sem þeir telja vera rétt að gera sama hversu erfitt það er og alveg sama hvort að einhver er til að vitna um það eða ekki þá gera þeir það sem þeir telja vera siðferðislega rétt hverju sinni.
- Þeir gera það sem þeir geta til að standa með þeim sem beittir eru órétti og hvetja aðra til að gera slíkt hið sama.
- Þú getur treyst þeim og þú getur treyst því að þeir hlusta virkilega á þig og það sem þú segir þeim er geymt hjá þeim.
- Þeir búa yfir mikilli visku og vita að þeir geta alltaf bætt við sig þekkingu og að þeir hafa ekki allan sannleikann í hendi sér heldur aðeins brot af honum. Þeir umfaðma alla óháð trúarbrögðum þeirra, menningu eða litarhætti. Þeir sjá stóru mynd lífsins og mannsins og þeir sjá jafnvel margar hliðar á hverju málefni, þeir vita að lífið tekur á sig margar myndir og að jafnvel er ekkert til sem heitir rétt eða rangt heldur aðeins mismunandi trúargildi og forritun sem mótar okkur öll sem eitt á hverjum tíma.
- Þeir eru ekki dómharðir og vita að maðurinn þróast og breytist í gegnum lífsreynslu og upplifanir og vita að allt sem mætir manninum mótar hann og samverkar honum til góðs með einhverjum hætti að lokum, hvort sem það er til þroska eða eflingar á einn eða annan hátt.
- Þeir eru jákvæðir og vona alltaf það besta því að þeir vita að eftir öll él birtir upp að nýju og þeir halda í vonina um betri tíð. Að vera jákvæður þýðir ekkert endilega að vera alltaf með bros á vör og kátur, heldur að að láta neikvæðnina ekki ná svo sterkum tökum á sér að þeir gefist upp.Þeir tala sig til og hvetja sig til dáða, leita aðstoðar og finna lausnir við vandamálunum.
- Þeir eru sjálfstæðir og fara ekki eftir fjöldans skoðun. Þeir eru ekki meðvirkir í samskiptum sínum og ætlast ekki til þess að aðrir bjargi lífi þeirra.Þeir hafa sterka sjálfmynd og setja sterk mörk fyrir líf sitt. Þeir eru afar hvetjandi og vilja lyfta öðrum upp.
- Þeir fara ekki í vörn þegar þeir eru gagnrýndir og vita að oft er það í gegnum hana sem þeir vaxa mest.
- Þeir eru þeir fullir sjálfstrausts og treysta sér til að mæta áskorunum lífsins af auðmýkt og fullvissu um að þeir nái að tækla það sem þeir standa frammi fyrir.
- Þeir eru vinamargir vegna eiginleika sinna og ef þeir hafa náttúrulegan sjarma til að bera að auki þá sækja aðrir í félagsskap þeirra og geta svo sannarlega grætt á því að þekkja þá vegna þess að þessir aðilar eru alls ekki hrokafullir þó að einhverjir kunni að sjá þá þannig vegna sterku sjálfsmyndarinnar, heldur eru þeir hvetjandi, nærandi og styrkjandi fyrir alla þá sem þeim fá að kynnast.
Svo nú er komið að okkur að efla alla þessa eiginleika í fari okkar á þessu dásamlega ári 2022 elskurnar og líklega verðum við orðin stútfull af góðmennsku, fyrirgefningaríku hugarfari og visku í lok ársins.
En eins og ætíð er ég aðeins einni tímapöntun í burtu frá þér ef þú þarft aðstoð mína á þessu ári til að efla þig,leysa úr vandamálum og finna lausnir sem breyta lífi þínu og hugsun.
Þar til næst elskurnar mínar allar,
xoxo
Ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
Lífsmarkþjálfi, Samskiptaráðgjafi, TRM seigluþjálfi
linda@manngildi.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.12.2021 | 23:31
Gleðileg jól elskurnar
Þar sem ég sit í stofunni minni og horfi á jólatréð sem ég ætlaði varla að nenna að setja upp, þá finn ég hversu miklu máli jólin skipta þrátt fyrir Covid, Omricon eða hvað það nú er sem spillir lífinu.
Ljúfar minningar frá æskunni og jólum fortíðarinnar, ilmur af bakstri, rauðkálsgerð og hangikjöti kveikir á einhverri sérstakri tilfinningu í hjarta mér. Tilfinningu sem ég vil helst líkja við tengingu við Guð eða kannski bara allt sem er, hrein og tær kærleikstifinning sem breiðir úr sér og vex.
Ég veit að víruskvikindið er búið að valda okkur erfiðleikum annað árið í röð og geðheilsa margra er að versna til muna. Og líklega er alls ekki komið í ljós hversu mikill sá skaði er um allan heim og þar erum við ekki undanskilin þrátt fyrir ágætis gengi okkar miðað við margar aðrar þjóðir.
Þrátt fyrir allt lífsins amstur þá samt koma jólin.
Og hvernig sem andlega ástandið er hjá okkur og kannski einmannaleikinn sérstaklega sár á þessum árstíma, sorgin yfir missi ástvina okkar ásamt viðkvæmni okkar vegna gamalla og góðra minninga fær einnig sína vængi, þá held ég að við flest finnum fyrir þessum anda jólanna djúpt inni í hjarta okkar og vonin fæðist fram að nýju með hækkandi sól. Lítil ljóstýra sem kviknar í andanum og boðar okkur eitthvað gott, eitthvað betra - og kannski verður næsta ár svo miklu betra og fullt af hamingju og jafnvel veirulaust.
Þessi von er afl sem við skulum ekki vanmeta, því að hún er aflið sem fær okkur til að rísa á fætur og tækla daginn þrátt fyrir áskoranir og sorgir lífsins.
Vonin er ljósið sem fæðir fram hugmyndir og lausnir sem myrkrið fær ekki slökkt, og kannski er það engin tilviljun að jólastjarnan bjarta eða Betlehemsstjarnan sé táknmynd jólanna. Hún boðar okkur birtu, frelsi og von og er oft nefnd vonarstjarnan.
Tökum á móti því ljósi sem stjarnan boðar okkur og fæðumst til nýrrar vonar og umföðmum mátt kærleikans á þessum fallega tíma sem færir okkur nær hvort öðru hvað sem öllum vírusum líður og þeirri vanlíðan sem óöryggið færir inn í okkar daglega líf á þessum skrýtnu tímum.
Eigið kærleiksrík gleðileg jól elskurnar og megi friður hátíðarinnar kveikja ljós í ykkar hjörtum og efla von ykkar um farsælt komandi ár. Mætti það verða hlutskipti okkar allra að eiga gleðilegt veirulaust ár 2022.
Jóla og nýjárs kærleikskveðja,
xoxo
ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
Lifecoach, samskiptaráðgjafi, TRM áfallaþrautsegju þjálfi.
linda@manngildi.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.12.2021 | 16:54
Fullorðnir taka einnig líf sitt
Úfff, ég fékk vondar fréttir um daginn og ekki í fyrsta sinn sem ég fæ fréttir af þessum toga. Kannski er það samt ekki svo óskiljanlegar þegar við skoðum hvað er að gerast í okkar fyrirmyndar þjóðfélagi og kannski víða um hinn vestræna heim.
Ég hef stundum skrifað um þetta fyrirmyndarþjóðfélag áður og ætla að halda því áfram svo lengi sem einhver nennir að lesa párið mitt. En að fá fréttir af því að einhver sem ég þekki sé svo einmanna og út í horni að honum langi ekki til að lifa lengur snertir við samkennd minni.
Í þessum pistli ætla ég að fjalla um þá sem búa einir og komnir eru yfir miðjan aldur hvort sem það er vegna þess að þeir fundu ekki rétt viðhengi eða vegna skilnaðar/ missis maka.
Á aðventunni fer þeim fjölgandi sem finna fyrir einmannaleika og sorg og aldrei er eins mikilvægt að standa vörð um þá sem við vitum að þannig er um statt.
Við lifum í ungdóms og para-þjóðfélagi þar sem að gert er ráð fyrir því að allir eigi vini og fjölskyldu til að verja tíma sínum með þegar frídagar eru, en því fer fjarri að þannig sé það hjá öllum og þeir eru margir sem sitja einir á jólum og áramótum.
Í okkar fyrirmyndarþjóðfélagi er það sorgleg staðreynd að margir af þeim sem komnir eru af léttasta skeiði er orðið slétt sama um líf sitt og þeir finna lítinn tilgang með veru sinni hér vegna einmannaleika og fjöldi einmanna fólks í heiminum öllum hefur margfaldast á liðnum áratugum .
Við gerum okkur kannski ekki grein fyrir því að þeir sem einmanna eru láta dagana sína líða við vinnu (þeir sem eru svo heppnir að einhver vilji hafa þá í vinnu eftir fimmtugt) og um helgar detta þeir bara í það eða hamast upp um fjöll og firnindi til að gleyma því að tilvera þeirra er snauð af því sem við þráum flest eða samveru við annað fólk.
Að lokum gefast þessir aðilar upp og sjá ekki aðra leið en að drekka til að gleyma eða gleypa of mikið af svefntöflum til að sofa þetta líf af sér.
Allt of algengt - en merkilegt nokk þá man ég ekki eftir því að um þetta sé mikið talað.
Við heyrum af sjálfsvígum ungra karlmanna sem eru í tilvistarkreppu, en við heyrum ekki um eldri borgara sem finna ekki tilgang með lífi sínu en reyna þó að láta eins og ekkert sé og fáir sem sjá að þeir eru bara ekki að meika lífið og tilveruna.
Þeir eru fráskildir, misskildir einmanna og jafnvel eignalitlir. Þeir hafa gefist upp á makaleitinni og sætta sig við að þeir verði einir ævina á enda, sætta sig við að sjónvarpið, samfélagsmiðlarnir og síminn verði aðal félagsskapurinn þeirra.
Á þessum miðlum virðist allt svo glansandi flott og það veldur þeim aðeins meiri vanlíðan að sjá allt það fullkomna sem þar sést.
Börnin þeirra hringja ekki vegna þess að það er svo mikið að gera í lífsbaráttunni og þau koma ekki nema boðin á jólum og páskum. (Stundum hefur jafnvel gleymist að bjóða foreldrunum í mat á jólunum -já það gerist!)
Veislurnar þar sem allir sitja paraðir eins í brúðkaupum og öðrum stórveislum verða að kvöl og pínu hjá mörgum þeirra sem einir eru og þeim finnst eins og þeim hafi mistekist að uppfylla kröfur samfélagsins með því að hafa ekki viðhengi til að skreyta sig með.
Í matarklúbbunum eru þeir ekki velkomin einir því að þeir gætu krækt í maka einhvers, í paraferðalögum eru þeir ekki gjaldgengir í mörgum tilfellum(ég er reyndar svo heppið stelpuskott að ég á vini sem hugsa ekki svona)og það er margt annað sem þeim er haldið fyrir utan með.
Allt þetta verður til þess að einstaklingar finna sig ekki tilheyra í þessu normal samfélagi og þeir finna sig ekki hafa tilgangi að gegna sem er er frumþörf allra manna hvar sem þeir búa á jarðarkringlunni, og þegar þannig er komið þá er lífið orðið harla lítils virði.
Það er nefnilega þannig að það eru þrír þættir sem eru taldir skapa hamingju okkar, en þeir þættir eru að tilheyra, vera elskuð og fá að reyna á vitsmuni okkar og getu.
En gleymum því að það sé hægt að tilheyra þegar þú ert kominn yfir miðjan aldur í mörgum tilfellum!
Þú ert hreinlega strikaður út úr samfélagi manna löngu áður en þú kemst á ellilífeyrinn og ekki er litið á umsóknirnar þegar sótt er um starf óháð menntun. Það tryggir vissan ósýnileika í samfélaginu þar sem það þarf að hugsa um hverja krónu sem kemur í budduna og þá er lítill afgangur til að stunda áhugamál eða annað sem gefur sýnileika og reisn.
Og hver mun svosem sakna þín ef þú gleypir bara svolítið of mikið af pillum og kemst upp að gullna hliðinu þar sem sælan býr?
Eða verður þér kannski ekki heldur hleypt þar inn vegna þess að þú átt ekki maka eða ert kominn yfir miðjan aldur? Hver veit - ég veit hinsvegar að þeir sem komnir eru yfir miðjan aldur eiga erfitt uppdráttar á vinnumarkaði, makamarkaði og eru heppnir ef þeir fá símtal um helgar, svo til hvers að lifa ef engin er til að vitna um líf þitt og taka þátt í því?
Aldursfordómar eru staðreynd og þeir eru ekkert betri en aðrir fordómar og kannski vantar mee-too byltingu þeirra sem gerðu þetta þjóðfélag ríkt en fá ekki að njóta afrakstursins og fá ekki að starfa eða njóta tilgangs en lifa við hálfgert einelti einhliða staðnaðs menntasamfélags og ungdómsupphafningar.
Opnum augu okkar elskurnar, það eru einstaklingar sem þjást sökum þess að þeir fá ekki að tilheyra ásamt því að fá að deila því sem lífið hefur kennt þeim (vantar samfélag þorpsins), og allt of margir af þeim þjást með brosi á vör en þrá ekkert heitara en að þessu fari að ljúka hérna megin því að þeir skipta ekki máli lengur!
Ekki gera ekki neitt lesandi góður, þetta er mál okkar allra!
Splæstu í símtal eða borðhald núna á aðventunni og láttu þá sem eru einir og einmanna finna að líf þeirra sé ekki til einskis og að þeir tilheyri ennþá samfélagi manna. Virtu reynslu þeirra og leyfðu þeim að finna að reynsla þeirra skiptir máli. Þeir eiga ekki að þurfa að finna tugi áhugamála til að fylla tómið í hjartanu en ættu hinsvegar að upplifa samkennd okkar, samfélag við afkomendur sína og vera gjaldgengir í samfélagi manna.
Fullorðnir eru líka fórnarlömb sjálfsvíga, og þannig má það ekki vera í siðmenntuðu þjóðfélagi!
Sýnum virðingu þeim sem gáfu okkur ríkt þjóðfélag og gáfu okkur einnig lífið!
(Og kannski er þjóðfélagið orðið einum of ríkt ef við höfum gleymt því sem raunverulegu máli skiptir, eða þorpið sem þarf til að okkur geti liðið vel!)
gleðilega aðventu elskurnar,
xoxo
Ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
Lifecoach, Samskiptaráðgjafi, Pararáðgjafi, TRM áfallaþjálfun
linda@manngildi.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.11.2021 | 13:05
Umhyggja á óvissutímum
Á síðustu misserum höfum við Íslendingar svo sannarlega sýnt og sannað að við erum stórasta þjóð í heimi þegar kemur að því að sýna umhyggju gagnvart okkar samlöndunum á erfiðum tímum.
Við höfum sungið fyrir þá eldri sem einangruð eru, við höfum sungið fyrir hvert annað og við höfum sungið fyrir þá sem veikir eru. Við höfum dansað,djókað,farið út í búð fyrir nágranna okkar og við höfum þvegið okkur og sprittað allt í nafni umhyggjunnar.
Hversu fagurt er þetta ekki?
Þetta sýnir svo vel okkar þjóðareinkenni þegar á bjátar, þar erum við sem einn maður að vinna að heill allra með umhyggju, samkennd og hæfileikum okkar á hinum ýmsu sviðum.
Við höfum gefið gjafir eins og hugleiðslur, leikfimi, Jóga, dans, námskeið, fría tíma í allskonar aðstoð og við gerum það af svo miklum kærleika að ég eiginlega kemst bara við og fyllist svo miklu stolti af okkar landsmönnum.
Núna virðist eins og bylgja númer eitthvað af Covid sé að skella á okkur eða Delta 2 afbrigðið og við erum orðin örþreytt á óörygginu, einangruninni og öllu því sem fylgir þessu ástandi en getum þó ekki gefist upp fyrir því.
Þegar við stöndum frammi fyrir aðstæðum sem þessum þá held ég að það sé gott fyrir okkur að hafa í huga að umhyggja og umhugsun um náunga okkar virðast vera þeir þættir sem bæta helst geð okkar og hamingju samkvæmt öllum rannsóknum sem ég hef rekist á.
Umhyggjan minnkar streitu og hættu á sjúkdómum á sama tíma svo nýtum okkur allt það fallega sem við eigum í hjarta okkar til að gera þessa tíma bærilega í stað þess að ráðast gegn hvort öðru og pirrast ógurlega. Engu að síður er það staðreynd að við erum á stað undirliggjani kvíða þó að við gerum okkur ekki endilega grein fyrir því og verðum þar af leiðandi uppstökk og þráðurinn verður oft styttri. Álag er einnig á mörgum og streitan nærri svo að við þurfum að passa okkur svolítið og skoða líðan okkar.
Munum að við erum mannlegar verur sem þurfum þessa nánd og umhyggju, faðmlög og vináttu við hvert annað og það er auðvelt að gleyma því að sinna því gagnvart þeim sem standa hjarta okkar nærri með einhverjum hætti.
En hvað getum við gert fyrir hvert annað til að létta þessa tíma þar sem nándin þarf að víkja og við erum orðin þreytt á sífelldum breytingum til og frá og vitum ekkert hvað morgundagurinn ber í skauti sér?
Í fyrsta lagi ættum við að huga að þeim sem í innsta hring okkar eru og muna eftir þeim alla daga, ekki bara á Sunnudögum, páskum og jólum.
Í öðru lagi ættum við að hafa þá í huga sem búa einir eða hafa lítinn eða engan félagslegan stuðning, tökum bara upp símann og hringjum í þá.
Í þriðja lagi þá getum við haft online hittinga af ýmsum toga, saumaklúbb, og t.d hef ég nokkrum sinnum farið í leiki með barnabörnunum á netinu og átt þannig samfélag við þau þegar ég hef ekki viljað taka sénsinn á því að hitta þau vegna veikinda öðru hvoru megin.
Í fjórða lagi getum við sent óvæntar gjafir eins og blóm og súkkulaði til þeirra sem við vitum að eru einmanna eða í sóttkví og glatt þannig hjarta þeirra.
Í fimmta lagi þá getum við sent textaskilaboð til þeirra sem okkur þykir vænt um þar sem við segjum eitthvað krúttlegt og sætt við þá í byrjun dagsins, það léttir daginn hjá mörgum að fá þannig skilaboð.
Í sjötta lagi þá ættum við að nota ímyndunaraflið okkar til að finna upp það sem ætti að vera í sjöunda lagi hér fyrir neðan.
Finnum allt sem gleður og hjálpar styður okkur í leiðinni til gleðilegra lífs og sáttar við okkur sjálf og samferðafólkið okkar.
Svo tæklum þessa nýju stöðu okkar með æðruleysið að vopni og kærleikann að leiðarljósi elskurnar, það skilar alltaf góðum árangri að lokum ásamt því að við fáum betra sjálfstraust og heilsu í bónus.
Með kærleikskveðju og fullri trú á okkur íslendingum í þessari herferð við Delta 2 eins og öll hin afbrigðin og verum dugleg að deila þessu og öllu því sem við finnum jákvætt og uppbyggjandi á netinu svo að umhyggjan dreifi sér sem víðast um landið og miðin.
Kærleikskveðja,
Linda
Linda Baldvinsdóttir
Lifecoach, Samskiptaráðgjafi og TRM þjálfi.
Linda@manngildi.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Linda Baldvinsdóttir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar