21.12.2017 | 12:07
Uppkrift jólanna
Núna þegar hátíð ljóss og friðar gengur í garð þá finnst mér eðlilegt að velta því aðeins fyrir mér persónuleika og gildum afmælisbarnsins sem höldum þessa hátíð vegna. Uppskrift hans er uppskrift að lífi sem er uppfullt af kærleika og öðrum góðum innihaldsefnum. Uppskrift sem lifað hefur í rúm 2000 ár og trónir á metsölulistum um allan heim ennþá, geri aðrar sjálfshjálparbækur og lífsuppskriftir betur!
En það er vegna þessarar uppskriftar sem við gleðjumst og fögnum þessa hátíðardaga og hér á norðurhjara veraldar fögnum við í leiðinni hækkandi sól. Og svei mér þá ef við ættum ekki flest að geta verið sammála um að þessi uppskrift er bara ótrúlega góð og falleg sama hvar við stöndum trúarlega séð.
Ef við færum bara eftir helmingnum af þessari kennslu afmælisbarnsins þá er ég viss um að líf okkar tæki stórkostlegum breytingum og líklega værum við hamingjusöm með frið í hjörtum okkar alla daga.
En hver er svo þessi kennsla eða uppskrift að góðu lífi?
Afmælisbarnið kenndi okkur að mæta fólki á þeim stað sem það er. Hann mætti öllum sem vildu við hann tala, en á þessum tíma var það bara alls ekki sjálfsagt. Það var ekki til siðs að karlmaður talaði við konur, hvað þá að eiga þær að vinum eins og hann átti, og ekki þótti það viðeigandi að Gyðingur talaði við td Samverja og aðra þjóðflokka. En það að mæta fólki á þeim stað sem það er statt hverju sinni gefur okkur alveg ótrúlega gott tækifæri á því að ná til þeirra samskiptalega séð og aðstoða þar sem aðstoðar er þörf. Að líta upp eða niður á fólk gerir okkur einungis ógagn og setur okkur á stað hroka og yfirlætis eða á stað niðurlægingar sem er síst skárra.
Jesú kenndi okkur að mínu mati að við þurfum að vilja það góða og finnast við eiga það skilið til að fá það. Hann sagði að við þyrftum að vilja sleppa því að vera fórnarlömb lífsins ef við vildum taka við þeirri lækningu sem í boði væri. Hann gekk um og læknaði en spurði þá sem hann læknaði hvort þeir vildu verða heilir.
Merkileg spurning í sjálfu sér en þó svo skiljanleg þegar við vitum í dag að til að breyta lífinu með einhverjum hætti þurfum við alltaf að vilja breytinguna og í raun þrá hana af öllu hjarta. Eins þurfum við að vera tilbúin til að taka þau skref sem nauðsynleg eru til að breytingin (lækningin)geti átt sér stað.
Afmælisbarnið boðaði kvenréttindi og jafnrétti á tímum þar sem það var alveg fráleit hugmynd. Með því að eiga konur að vinum og með því að tala yfir höfuð við konur sýndi hann heiminum að konur væru jafnréttháar körlum á tímum sem litið var á þær sem einskisverðar.
Dæmið ekki voru hans orð og hann sýndi það í verki að hann var ekki kominn til að dæma heiminn heldur til að boða náð og miskunn. Konan sem átti að grýta en sem hann varði gegn þeim sem æðstir voru í samfélaginu lagalega séð segja okkur að dómar í garð náungans eiga ekki að fyrirfinnast hjá okkur þar sem við vitum ekki hvers vegna fólk bregst við eins og það bregst við. Við þekkjum ekki innsta kjarna hvers manns og vitum ekki alla hans sögu sem í raun rænir okkur öllum rétti til dóms. Og svo erum við öll bara svo ófullkomin og breysk að við höfum ekki efni á því að dæma einn eða neinn, ættum heldur að líta í okkar eigin barm.
Jesú var líklega upphafsmaður að þjónandi forustu sem flestir telja bestu stjórnunartækni dagsins í dag og allir keppast við að innleiða í fyrirtæki sín. Hann sagði með þunga að við þyrftum að þjóna hvert öðru í kærleika og setja okkur til jafns við alla hver svo sem við værum, há jafnt sem lág, stjórnendur sem undirmenn. Og ef við skoðum innst í okkar hjarta þá er fátt sem gefur okkur meiri sálarró og gleði en það að aðstoða og hjálpa öðrum og dvelja í samvistum við þá á jafningjagrunni eða aðstoða þá við að ná í drauma sína og fljúga hátt.
Hann kenndi okkur að að vera í einlægni og að verða eins og börnin sem enga stimpla setja á lífið eða samferðamenn sína. Það eru oft skilgreiningar okkar (sem við trúum auðvitað að séu stóri sannleikurinn) sem gera það að við sjáum ekki gimsteinana sem glóa allt um kring bæði í lífinu sjálfu og þeim sem ganga lífsveginn með okkur.
Að hugsa vel um musteri okkar, heilsu og að festast ekki í hroka og eigingirni var einnig hluti af hans kennslu. Eins og ég a.m.k skil hann þegar hann talar um musterið þá finnst mér hann vera að tala um það að við eigum að hugsa vel um líkama okkar og láta ekkert í okkar lífsháttum verða til þess að eyðileggja það. Eins finnst mér hann tala um að við eigum að dvelja í sambandi við okkar andlegu hlið og sinna þeirri hlið af alúð. Sá sem lifir einungis í líkamanum en ekki andanum og sálinni lendir að mínu mati í eigingirnis ástandi sem engum er til heilla og leiðir jafnvel til tjóns á svo margan hátt í lífi viðkomandi.
Það sem var svo töff við Jesú var að hann lét almenningsálitið aldrei trufla sig og ofsóknirnar á hendur honum stöðvuðu hann aldrei í því að gera það sem hann kom til að gera. Það kennir okkur að láta ekki álit annarra trufla tilgang okkar heldur að halda ótrauð áfram í átt að draumum okkar og innsta tilgangi lífs okkar sama hvaða úrtöluraddir hljóma í kringum okkur. Hann sagði einnig að við gætum allt ef við bara gætum trúað því, jafnvel fært heilu fjöllin (og hver kannast ekki við að þurfa að færa heilu fjöllin þó ekki sé nema andlega séð) og þar er ég svo sannarlega sammála honum. Ég hef séð fólk breyta lifi sínu og snúa því um 360 gráður með því einu að breyta trúarkerfum sínum um lífið og sig sjálft ásamt því að ryðja burt hindrunum hugans.
Þegar hann bauð konunni við brunninn lífsins vatn þá sýndi hann fordómaleysi sitt að fullu því að konan var búin að eiga marga menn og var með manni sem var ekki hennar ásamt því að hún var Samverji sem Gyðingar voru nú ekki hrifnir af á þessum tíma. En þarna kenndi hann okkur ekki bara fordómaleysi að mínu mati heldur einnig það að þeir sem standa höllum fæti eða lifa ekki samkvæmt stöðlum samfélagsins eiga samt sem áður fullan rétt á góðu og gefandi lífi, lífi í fullri gnægð.
Jesú grét og komst við í nokkrum frásögnum Nýja testamentisins og sýndi okkur þannig hversu mikilvægt það er að hafa samúð og að sýna samhug með þeim sem bágt eiga og syrgja. Það er einmitt fátt sem gerir mannlífið fallegra en samhugur manna á milli að mínu mati og á þeim stað skín ljós hans og kærleikur skærast frá okkur.
Hann kenndi okkur að fyrirgefa og ekki bara sumt heldur allt. Það síðasta sem hann bað um var að Guð fyrirgæfi þeim sem krossfestu hann. Hin fullkomna fyrirgefning að mínu mati og sýnir að það er hægt að fyrirgefa allt. Mín eigin reynsla hefur kennt mér að ég leysi ekki síst sjálfa mig þegar ég fyrirgef það sem á minn hluta hefur verið gert og eins gefur fyrirgefningin mér nýja og skilningsríkari sýn á það sem hefur verið gert á minn hluta. Fyrirgefningin gefur mér þó alltaf fyrst og fremst frið í mitt eigið hjarta og leysir mig undan reiðinni og biturleikanum sem eitrar í bókstaflegri merkingu lífið.
Jesú kunni að njóta lífsins og gleðjast þann stutta tíma sem líf hans varði. Hann mátti þola það að vera kallaður vínsvelgur og átvagl vegna þess að hann kunni að njóta þess að eiga samfélag við þá sem hann mætti í lífinu og eiga skemmtilegar stundir með þeim. En hann lét álit annarra ekki hafa áhrif á sig þar frekar en fyrri daginn og leyfði þessu umtali bara að hafa sinn gang vitandi að það er tími til að gleðjast og það er tími til að hryggjast á þessu stutta ferðalagi okkar hér. Njótum á meðan við höfum færi á því elskurnar - gleðin er það sem getur haldið í okkur lífinu andlega séð þegar áföll lífsins á okkur dynja og gleðistundir með þeim sem við eigum vináttu og kærleika hjá er það sem gefur lífinu litadýrð sína.
Jesú kenndi okkur svo sannarlega hversu mikilvægt það er að halda í gildi okkar og láta þau ekki af hendi sama hvað í boði er. Hann vissi að freistingar biðu okkar á hverju horni. Freistingar sem gefa oft skammvinna gleði eða deyfingu en bíta okkur þó að lokum. Þegar við göngum gegn gildum okkar og lífssýn hefur það því miður oft alvarlegar afleiðingar fyrir líf okkar og tilveru alla. Svo stöndum á okkar fallegu gildum og látum ekki rödd heimsins ginna okkur til lags við ljóta skemmandi hluti sem minnka okkur eða ræna okkur því góða, fagra og fullkomna.
Afmælisbarnið kenndi okkur að annast þá sem eldri eru og sýna þeim virðingu okkar. Eitt af því síðasta sem hann gerði hér á jörðu var að biðja lærisvein sinn um að annast móður sína og að verða henni sem sonur. Beiðni sem sýndi mikla umhyggju fyrir afkomu hennar og þeirra beggja reyndar. Þannig var Jesú, umhyggjan og kærleikurinn uppmálaður allt til síðustu stundar. Hann var einnig óspar á það að gefa hvort sem það var matur, drykkur, lækningar eða uppbyggjandi viska. Hann lét sig ekki muna um það að fæða nokkur þúsundir manna með nokkrum brauðum og fiski, nú og svo er hann jú líka þekktur fyrir það að breyta vatni í vín til að gleðja gesti í brúðkaupi nokkru (og við vitnum oft í þessa sögu) og vakti það geysilega lukku sem vera bar. Hann sagði okkur einnig að þegar við tækjum á móti og önnuðumst aðra værum við að gleðja guðdóminn sjálfan. Þar höfum við það!
Innihald alls þess sem ég hef skrifað hér að framan er í raun Kærleikurinn sjálfur í allri sinni mynd. Og það er kærleikurinn sem hann sagði að okkur bæri að starfa í til alls og allra.
Ef kærleikur okkar, sem ég trúi að búi innra með okkur öllum fengi að dafna og skína inn í dimma veröldina trúi ég því að við gætum lýst hana upp og gert hana að fallegum stað sem við svo sannarlega þráum öll að þessi heimur sé.
Hugarfar okkar, trú og gildi eru þau öfl sem skapa líf sem gleður okkur og aðra og með því að lifa í kærleika sköpum við ljóstýru sem lýsir inn í myrkan og oft dapran grimman heim.
Við erum einnig andi sál og líkami og þetta þrennt þarf að vera í jafnvægi ef friður jólanna á að setjast að í hjörtum okkar og verða viðvarandi þar.
Og mikið er ég nú viss um að afmælisbarn jólanna yrði nú glatt ef að ljós okkar sjálfra væru fyrirferðameiri en öll þau fallegu ljós sem nú lýsa upp bæi og torg í tilefni afmælis hans.
Skínum skært elskurnar og eigum gleðilega hamingjuríka jólahátíð fulla af friði og kærleika í anda þess sem við nú minnumst.
xoxo
Ykkar Linda
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.12.2017 | 15:11
Aðventustress
Rakst á þennan gamla pistil sem ég skrifaði fyrir nokkrum árum en á þó fullt erindi til okkar í dag að mínu mati og því ákvað ég að setja hann nánast óbreyttan hér inn með von um að Trölli nái ekki að stela jólunum ykkar. Í hans stað vona ég að hinn sanni kærleiksandi jólanna fylli hjörtu ykkar og þeirra sem þið elskið.
En hér kemur þessi gamli pistill.
Uppskrift að hamingju
2 sléttfullir bollar af gleði
1 hjartafylli af kærleika
2 handfylli af örlæti
dash af dillandi hlátri
1 höfuðfylli af skilningi og samhyggð
Vætið örlátlega með góðvild, látið helling af trú og einlægni og hrærið vel.
Breiðið svo yfir þetta með heilli mannsævi.
Berðu á borð fyrir alla sem ganga með þér í þessari jarðvist.
Á aðventu
Hvernig væri á þessari aðventu að við tækjum þessa uppskrift fram yfir sörurnar og piparkökurnar, og leyfðum okkur að njóta alls þess dýrmæta sem mannlífið og aðventa jólanna hefur uppá að bjóða
Gönguferðir innan um jólaljós, kanil og eplalykt, snjókorn á tungu, gleði, hlátur, faðmlög og upplifun á tærri fallegri ást til þeirra sem skipta okkur máli ættu að vera þeir hlutir sem við hefðum helst á dagskránni á þessum yndislega tíma (og ofkors alla aðra daga) í stað þeirra hluta sem við gjarnan setjum í öndvegi.
Flott en dösuð húsmóðir
Ég var áður fyrr ein af þessum brjálæðislega flottu húsmæðrum sem sá um að ekkert væri óhreint á heimili mínu fyrir jólin silfrið var pússað, gluggar þvegnir, og Guð forðaði mér iðulega frá því að skáparnir, ísskápurinn og ofninn urðu ekki útundan í þessari árlegu hreingerningu
Húsgögnin voru hreinsuð, teppin þvegin, rúmföt og allt annað straujað, jólafötin jafnvel saumuð á börnin, jólagjafir keyptar og eða föndraðar, og auðvitað pælt í þeim öllum útfrá þörf eða löngun þeirra sem áttu að fá pakkana, svo var skrifað á amk 60 jólakort, 20 tegundir af bökuðum smákökum var ofkors algjör nauðsyn , rauðkálið var soðið uppá danskan máta, heimalagaður ís algjört möst, fromange og stríðstertur í bunkum bakaðar
Húsið var skreytt í hólf og gólf á síðustu metrunum og þessi flotta húsmóðir gjörsamlega búin á því úttauguð og grátgjörn á Þorláksmessunni. En börnin voru auðvitað komin þá í tandurhreint rúmið í nýju náttfötunum sínum sæl á koddanum og biðin eftir síðasta jólasveininum Kertasníki hófst hann fékk auðvitað tilheyrandi bréf og kerti í skóinní staðinn fyrir dýrindispakkana sem hann iðulega skildi eftir en þessi dasaða húsmóðir beið bara eftir því að þessari elskuðu og yndislegu hátíð lyki og aumur hversdagsleikinn tæki við.
Ef ég gæti snúið til baka
Börnin mín hlæja mikið af þessum tíma en fengu kannski samt nett ógeð á þessum stressaða jólaundirbúningi þar sem lítið rúm var fyrir æðruleysi, kærleika, ró, gleði, hlátur og samveru og mikið skil ég það vel í dag hvað þetta fór í taugarnar á þeim En jólin þeirra skyldu verða fullkomin og flott hvað sem það kostaði! Ný föt, klipping, náttföt, nærföt og allt til alls var það sem ég vildi fyrir börnin mín ekkert minna dugði fyrir þessa elskuðu einstaklinga En kostnaðurinn var kannski of mikill gleðina og yfirvegaðan kærleikann vantaði
En lítið vissi ég um það hvað allir þessir hlutir sem ég lét í öndvegi skipta litlu máli í undirbúninginum, eða hversu mikið ég í raun eyðilagði gleði og kærleiksþel jólanna með þessari fullkomnunaráráttu minni Og ef ég gæti snúið til baka þá yrðu jól barnanna minna öðruvísi, þvi get ég lofað ykkur
Þau fengju að upplifa kærleika minn og gleðina yfir því að frelsari minn fæddist hér í þennan heim það yrði hlátur í stað prirrings gleði við að skapa jólin í sameiningu hvort sem skítur væri í gluggum eða skápum heimilisins jólaljósin og kertin gera allt fallegt hvort sem er.
Börnin fundu að eitthvað vantaði
En var ekkert gert sem gleði gat gefið í öllum þessum látum? Jú jú, það var farið niður í bæ þegar jólaljósin voru tendruð á Austurvellinum og kakó drukkið á eftir með rjómavöfflum, en lítil ánægja fylgdi því fyrir mig og líklega börnin mín einnig þar sem svo mikið var eftir að gera og enginn tími fyrir svona óþarfa.. auðvitað hafa börnin mín fundið að það var eitthvað sem vantaði mamma var ekkert sérstaklega glöð og kát í undirbúningi þessarar gleðihátíðar .
Það var líka farinn Laugavegs, Blómavalsrúntur og fl , en eins og með annað vantaði alveg æðruleysið og gleðina inn í uppskriftina
Þessi hátíð ljóss og gleði getur orðið að sannkallaðri martröð fyrir alla þegar við ætlum að gera hana svo fullkomna að við gleymum uppskriftinni að hamingjunni og kærleikanum
Sem færir mig aftur að byrjunarreitnum og að ráði mínu til mín og til þín sem þetta lest er:
Njótum samvistanna við þá sem okkur eru kærir, kaupum frekar smákökurnar úti í búð eða fækkum tegundunum og njótum þess að vera bara til
Leikum okkur, skoðum öll undrin sem eru fyrir augum okkar allstaðar, fallegu ljósin, glingrið, finnum matarilminn, gleðina og kærleikann í loftinu, leyfum okkur að upplifa það að opna hjarta okkar fyrir því góða sem í lífinu býr og þökkum fyrir það sem við höfum í kringum okkur elskum og njótum hverrar mínútu.
Við vitum ekki hversu lengi við fáum að njóta samvista við þá sem okkur eru kærir, svo nýtum tímann vel.
Með jólaljósagleðikveðjum til þín og þinnar fjölskyldu, með innilega kærleiksríkri ósk um gleðilega og fallega aðventu.
Þar til næst elskurnar
Ykkar Linda xoxo
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.12.2017 | 12:17
Sjáðu hvað þú lést mig gera
Orðin okkar og hugsanir hafa þann eiginleika að skapa tilveru okkar að miklu leiti og oft er sagt að líf og dauði sé á tungunnar valdi. Ég er um margt sammála þessu og tel að heimspeki og trúarrit hafi flest ef ekki öll kennt okkur þetta.
Þess vegna veit að ég hversu auðvelt það er fyrir átrúnaðargoð barna okkar að koma inn ranghugmyndum og rangri nálgun til lífsins á framfæri við þau í gegnum lagatexta m.a.og langar mig að tala aðeins um það í þessum pistli mínum.
Sem betur fer gera þó flestir textahöfundar sér grein fyrir ábyrgð sinni í þessum efnum en greinilega á máltækið "betur má ef duga skal" við þegar kemur að þessu.
Textar eins og "look what you MADE me do" eða sjáðu hvað þú lést mig gera og "the role you MADE me play" finnast mér td ekki smart skilaboð til barna okkar og unglinga.
Úttöluð orð þar sem þú tekur ekki ábyrgð á sjálfri þér heldur er það einhverjum öðrum að kenna ef þú gerir eitthvað, og svo er það einhver annar sem skaffar þér þitt hlutverk í lífinu.
Eins varð nú femínistinn í mér fyrir áfalli þegar einn textinn fjallaði um hvort að stelpan væri orðin nægjanlega sexý fyrir strákinn.
Ég verð að viðurkenna að ég hefði haldið að kvennabaráttan væri komin á hærra plan, að við værum komnar frá því að hlutverk okkar kvenna væri nánast eingöngu falið í því að vera nógu flottar og sexý fyrir mennina í lífi okkar, heldur hélt ég að gáfur okkar og skynsemi væri orðin meira metin eftir að meirihluti þeirra sem Háskólana sækja eru konur - en nei ég hef greinilega ekki haft rétt fyrir mér þar!
Eins og áður var er í dag allt vaðandi í staðalímyndum sem segja okkur alla daga að við séum ekki nóg af einhverju eða of mikið af einhverju - a.m.k erum við ekki eins og við ættum að vera í fullkominni Hollywood veröld, og við hlustum raunverulega á þetta og reynum að aðlaga okkur að einu í dag og öðru á morgun í stað þess að vera bara við eins og við erum og vera ánægð með það.
Kannski er ég bara hrikalega gamaldags en mér finnst ekki sniðugt að fyrirmyndir barna okkar séu tengdar óraunhæfum staðalímyndum eða textum sem fjalla um það sem hreinlega er ekki til að auka gæði lífsins hjá einum né neinum en er samt látið líta þannig út.
Lagatextar eins og þeir sem fjalla um eiturlyf og vellíðan þeirra en ekki afleiðingar,ábyrgðaleysi þar sem þú ert alltaf viljalaust fórnarlamb,sjálfsvíg sem góða lausn frá þunglyndi,niðrandi orðbragð, vanvirðing og hlutgerðing á konum- þar sem þær gerðar að kynlífsleikföngum er bara eitthvað sem mætti hreinlega setja "blíbb" á eins og gert var við ljótt orðbragð í sjónvarpinu hér áður fyrr og er kannski gert sumstaðar enn.
Ég er amma nokkurra barna á viðkvæmu mótandi aldursstigi og ég fæ hroll við tilhugsunina um að barnabörnin mín í sinni félagslegu mótun fái skilaboð af þessu tagi í gegnum átrúnaðargoð sín, og ég ætla ekki einu sinni að byrja að tala um hversu mötuð þau eru í gegnum ofbeldisfulla tölvuleiki þar sem dráp eru sjálfsögð til stigagjafar og sigurs og hvernig sjálfsmynd þeirra á að vera samkvæmt tískuritunum sem þau fletta sem segja þeim hvernig þau eiga að vera svo að þau séu nú "pro" eins og litli níu ára ömmuguttinn minn skilgreinir það að vera nægjanlega flottur fyrir veröldina .
Það þarf heilt þorp til að ala upp barn og ég trúi því að það sé á ábyrgð okkar allra að gæta að því hvað börnin okkar fái að hlusta á og horfa þar sem það getur valdið þeim verulegum skaða að fá skakka og villandi mynd af raunveruleikanum og því hvernig eðlilegt er að við umgöngumst hvert annað í orðum og gjörðum.
Tökum höndum saman og kennum börnum okkar að taka ábyrgð og segjum þeim að það geti enginn látið þau gera eitthvað - að ég tali nú ekki um til hefndar þó að komið hafi verið illa fram við þau. Segjum þeim að við berum alltaf sjálf ábyrgð á slíkum gjörningum sem og öllu öðru sem við tökum ákvarðanir um í lífinu.
Segjum þeim einnig að það sé einfaldlega ekki málið að deyfa sig fyrir verkefnum og vanlíðan lífsins með notkun efna, það skerði einungis sjálfsvirðingu og sjálfstraust allra með tilheyrandi hnignun á lífsgæðum þeirra og skertum möguleikum til að eiga fallegt og gott líf.
Og við stelpurnar okkar ættum við svo sannarlega að segja að þær þurfi aldrei að gera sig "nægjanlega sexý" fyrir karlmenn né nokkurn annan til að vera samþykktar, því að þær eru bara hrikalega flottar eins og þær eru og þurfa engu við að bæta.
Auðvitað veit ég að við erum að kenna börnunum okkar allt það fallega og góða nú þegar en þegar ég heyri unglingsömmustelpurnar mínar spila uppáhalds tónlistina sína fer bara um mig stundum, og aldrei er góð vísa of oft kveðin held ég.
Stundum þurfum við bara að muna eftir því að standa saman sem heilt þorp þegar framtíðarkynslóðin á í hlut og kenna það sem gæti t.d útrýmt herferðum eins og "me too" herferðinni vegna þess að við værum bara svo svakalega siðmenntuð á öllum sviðum og allir kæmu fallega fram við hvert annað.
Verum bara öll vakandi elskurnar fyrir áhrifavöldunum í lífi kynslóðarinnar sem er að vaxa úr grasi og stöndum saman að því að vernda þau og vísa þeim veginn til lífs og góðrar líðanar.
xoxo
Ykkar Linda
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.11.2017 | 10:25
Ertu að gera útaf við þig?
Í dag hafa allir svo mikið að gera og hafa úr svo miklu að velja að hvíld og slökun verður að algjöru aukaatriði í daglegu lífi okkar.
Við vinnum allt of langan vinnudag oft á tíðum og þegar við ljúkum deginum hömumst við í ræktinni( förum jafnvel í hádeginu) hendumst síðan í búðir eftir að hafa náð í börnin í leikskólann - skólann - íþróttirnar - píanótímana eða hvað svo sem tekur við eftir venjulegan vinnudag allra, förum heim og eldum - sjáum um heimalærdóminn og náum svo að draga andann þegar við erum búin að koma öllum í háttinn, eða hvað?
Nei oft er það ekki þannig heldur taka félagsmálin og áhugamálin við eða einfaldlega það að setjast yfir nýjustu þáttaröðina sem við erum að horfa á. Og allt þetta verður til þess að við náum ekki nægum svefni segja sérfræðingarnir. Dagskráin okkar er allt of full og líkami okkar nær ekki að endurhlaða orkubirgðir sínar nægjanlega lengi, þannig að við náum verr að sinna verkefnum hvers dags og erum þreytt!
Þetta gengur ekki hjá okkur krakkar, við þurfum að gæta jafnvægis í lífinu og hugsa um langtímaafleiðingar þess að hvílast ekki nægjanlega vel.
Það er alltaf verið að segja okkur frá afleiðingum streitutengdra sjúkdóma og eins er okkur sagt að streita hafi mjög vond áhrif á hjarta okkar og æðakerfi. Þessi varnaðarorð fjúka þó í gegn hjá okkur og við hlustum ekkert á þau fyrr en að allt er orðið um seinan og við erum komin í burnout ástand (kulnun) þá loksins neyðumst við til að endurskoða forgangsröðina okkar.
Það er á þessum stað sem við förum að stunda andlega rækt að einhverju tagi, tökum göngutúra í náttúrunni og förum að gæta að matarræði okkar og svefnvenjum. Eins áttum við okkur þarna á því að neikvæðar fréttir eða yfir höfuð það að kveikja ekki á sjónvarpinu er bráðsnjallt.
En því ekki að taka bara á þessu strax? Það er alveg í boði að bíða ekki eftir fallinu eða kulnuninni.
Þegar við rænum okkur svefni þá erum við að ræna okkur andlegri og líkamlegri vellíðan en gefum streitu, kvíða og annarri vondri líðan aukið rými í tilveru okkar.
Og trúið mér - líkami okkar öskrar á hvíldina sem hann þarfnast svo sárlega, en við einfaldlega hlustum ekki fyrr en allt of seint vegna þess að lífið er bara svo uppfullt af allskyns skemmtilegheitum og við megum bara alls ekki missa af neinu.
Hvar finnum við þá þann aukatíma sem við þörfnumst til að mæta öllum þessum kröfum okkar? Jú við minnkum hvíldartímann okkar!
En það eru dóminóáhrif sem skapast í lífi okkar ef við förum á stað streitunnar og syndir feðranna bitna yfirleitt á börnunum á þann hátt að þau fara oft í fótspor okkar hvað varðar lífsstílinn okkar. Það er ekki nóg með að við sjálf verðum kvíðin, streitufull og hvað það nú er, heldur verða börnin okkar líka þessu ástandi að bráð þegar þau detta inn í okkar hraða lífsstíl.
Börn dagsins í dag eru kvíðnari en nokkru sinni fyrr sýna rannsóknir, en eiga þó meira og gera meira en nokkru sinni áður. Þau hafa flest sem þau þarfnast en vantar þó það sem skiptir máli að mínu mati, stundir í ró og næði þar sem þau læra að dvelja án alls - eru bara viðstödd það sem ekkert er. Á stað þar sem engin stundatafla fyllir vökustundir þeirra.
Þessar elskur byrja í fullri vinnu nokkurra mánaða gömul hjá dagmömmum. Svo tekur leikskólinn við og að lokum löng skólagangan, og alltaf bætist við í stundatöflu þeirra. Allskonar áhugamál og æfingar taka við að fullum vinnudegi þeirra, og þau rétt eins og við detta síðan inn í heim tölvunnar eða sjónvarpsins útkeyrð og illa hvíld.
Og ég bara spyr, hvernig ætlum við að snúa þessari þróun við?
Við getum einfaldlega ekki haldið svona áfram lengi - það mun ekki skila góðu lífi fyrir neitt okkar né fyrir þjóðfélagið í heild sinni að mínu mati.
Pössum okkur á því elskurnar að lenda ekki harkalega á erfiðum stöðum hraðans - hugsum vel um okkur og lærum að njóta þess að vera til án þess að vera alltaf eitthvað að gera.
Ég held að friður og sálarró skili okkur farsælla og gleðiríkara lífi en hraðinn, og okkur mun líklega öllum líða mun betur með það að lifa innan frá og út í stað þess að lifa utan frá og inn flestar stundir.
Þannig að ég ætla að enda þennan pistil minn með því að segja - Sofðu rótt í ALLA nótt og mætti dagurinn á morgun verða þér dagur endurnýjaðrar orku og gleði.
xoxo
Ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
Samskiptaráðgjafi/Markþjálfi
linda@manngildi.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.11.2017 | 19:54
Að komast undir regnbogann
Ég heyrði skemmtilega frásögn í afmæli um daginn þar sem verið var að tala um regnbogann og að hann væri ekki til í rauninni, að hann væri ekkert annað en tálsýn sem við sjáum þó öll. Þessi frásögn minnti mig á það þegar ég var ung að árum og sá blessaðan regnbogann þá reyndi ég alltaf að komast undir hann því.Það áttu nefnilega að rætast allar óskir þess sem undir hann komst - en auðvitað náði ég aldrei þessu takmarki mínu einfaldlega vegna þess að regnboginn er í rauninni ekki til.
En þessi saga fékk mig til að hugsa um þá drauma sem við göngum með í kollinum og sumir upplifa sem hreina tálsýn, óraunhæfa og ekki líklega til að geta ræst.
En afhverju datt mér regnboginn í hug varðandi drauma okkar? Jú vegna þess að við látum engan segja okkur að við sjáum ekki regnbogann og því síður að hann sé ekki til vegna þess að fyrir okkur er hann mjög svo raunverulegur ekki satt?
Eins ætti það að vera með drauma okkar og þær fyrirætlanir sem við göngum með í kollinum okkar, það ætti enginn að geta haft áhrif á sýn okkar og trú á að þeir geti ræst, og við ættum að nota öll þau ráð sem við getum fundið til að láta þá rætast og sleppa því að hlusta á þá sem vilja telja okkur trú um að þeir séu ekkert annað en fögur tálsýn.
Ég veit ekki með ykkur, en ég veit að flest það sem ég hef séð í kolli mínum og fundið í hjarta mínu að mig langi til að framkvæma verður að veruleika fyrr eða síðar, og ég stefni að því að framkalla sem flestar af þeim sýnum sem ég sé fyrir mér í kolli mínum og fá þær inn í raunveruleikaheim minn, og ég get fullvissað ykkur um að það er auðveldara að komast undir regnboga drauma okkar en hinn eina sanna regnboga.
Að vísu krefst draumasýn okkar þess af okkur að okkur finnist við eiga skilið að hún rætist, að við séum verðug, og einnig krefst hún þess að við göngum fram í trú og trausti á að allt sé mögulegt og ekkert ómögulegt. Og þannig ættum við að taka fram hvern regnbogann á fætur öðrum og gera okkar besta til að allir fái þeir sitt líf í raunheimum.
Mig langar í þessum litla pistli mínum að gefa þér nokkur ráð, ráð sem flestir sem hafa látið drauma sína rætast vita að mikill sannleikur leynist í. Ég vona svo innilega að þessi ráð gagnist þér vel á leið þinni undir regnbogann.
Og ef þig vantar aðstoð á leiðinni þá er ekkert annað að gera en að panta tíma hjá mér og fá aðstoð við að ná þangað En hér koma ráðin:
Ráð númer 1.
Taktu smá skref hvern einasta dag inn í drauminn þinn.
Ráð númer 2.
Hafðu samband við þá sem þú heldur að geti aðstoðað þig með ýmsu móti á leiðinni - því að enginn gerir alla hluti einn og óstuddur.
Ráð númer 3.
Mundu að Ljósaperan var fundin upp eftir að Edison hafði gert þúsundir mistaka.
Ráð númer 4.
Þeir fiska sem róa - svo vertu iðinn við að leita leiða og lausna.
Ráð númer 5.
Ekki fresta því sem þú getur gert í dag til morguns.
Ráð númer 6.
Mundu eftir máltækinu "Í funa skal járn hita" leiðin verður oft erfið og þig langar mest að gefast upp - en mundu þá eftir því að þú mótast og þroskast betur inn í drauminn þinn í erfiðustu aðstæðunum.
Ráð númer 7.
Taktu ábyrgð á mistökunum þínum og gerðu betur næst (ekki kenna öðrum um)
Ráð númer 8.
Þolinmæðin, æðruleysið og töggur (Grit) er aðal innihaldsefni velgengni þinnar.
Ráð númer 9.
Þegar einar dyr lokast opnast aðrar - trúðu og treystu því að lífið sjái þér fyrir velgengni.
Ráð númer 10.
Róm var ekki byggð á einum degi og draumar þínir rætast líklega ekki heldur á einum degi. Þeir munu taka skýrari og skýrari mynd með hverju því skrefi sem þú tekur til að láta þá rætast. Skrefin sem tekin eru inn í óttan en ekki vegna fjarveru frá honum eru oft erfið, en sigurinn þegar hann næst er líka miklu sætari fyrir vikið.
Ég vona svo sannarlega að þú sem þetta lest sért með kollinn þinn fullan af regnbogum sem þú ert staðráðinn í að verði sýnilegir í hinum ytra heimi, og vona að þessi örfáu ráð gagnist þér vel á leið þinni.
En hvað sem þú gerir við litlu regnbogana þína þá bið ég þig um að "ekki gera ekki neitt" í það minnsta.
Þú ert dýrmætur einstaklingur með einstaka hæfileika og einstaka sögu og átt skilið að fá að upplifa alla liti regnbogans og meira til - ekki gleyma því...
xoxo
Ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
Samskiptaráðgjafi/Markþjálfi
linda@manngildi.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.10.2017 | 18:34
Fegurð reynslunnar
Þegar Japanir gera við sprungur í gömlum leirkerum þá fylla þeir þær með gulli eða silfri þar sem þeir álíta sem svo að reynsla kersins geri það mun fallegra en þegar það var nýtt og ónotað og að það eigi skilið að fá eðalmálma setta í sárin sín.
Þetta finnst mér falleg lýsing á því hversu dýrmæt og falleg reynsla okkar er, og hversu mikils virði hún er í raun, því að við verðum "fallegri" eftir því sem við vöxum að visku og árum.
Hvað á ég við þegar ég segi fallegri?
jú við verðum fallegri eftir því sem við áttum okkur betur á því hversu mikils virði það er að láta af fordómum okkar, blaðri um náungann en taka þess í stað upp virðinguna sem allir eiga skilið að fá sama hvar í þjóðfélagsstiganum þeir standa, skilninginn á aðstæðum og hverfulleika lífsins, þekkinguna á því að saga okkar og tilgangur er ólík og við þekkjum einnig mannlega breiskleika betur og höfum meiri þolinmæði með þeim.
Í raun færir reynslan okkur auðmýkt og meiri gleði yfir dásemdum lífsins og því smáa sem skiptir svo óendanlega miklu máli. Einnig færir hún okkur skilning á verðmætum á borð við sjálfsögðum en fallegum orðum til náungans, hvernig eitt bros getur dimmu í dagsljós breitt, góðrar og velviljaðrar framkomu sem stundum skiptir sköpum hvað varðar líf og dauða andlega og líkamlega séð, og einnig færir reynslan okkur vitneskjuna um það hversu stutt lífið er og hversu nauðsynlegt það er að dansa hvern einasta dag í gleði eins og hann væri þinn síðasti.
Sú reynsla sem við öðlumst á lífsleiðinni getur þó oft verið sár og erfið og á köflum finnst okkur kannski eins og lífið hafi úthlutað okkur rýru gleðihlutskipti, en þegar við lítum yfir farinn veg þá voru það einmitt sprungurnar í lífi okkar sem gerðu persónu okkar að því sem við erum í dag og svo sannarlega eru sprungur okkar fylltar eðalmálmum sem við vonandi notum til að auðga og þjóna inn í líf náunga okkar.
En erum við hér á okkar litla yndislega auðuga landi yfirleitt að meta reynslu og visku?
Nei því miður finnst mér oft vanta upp á það.
Við erum þjóð æskudýrkunar, forgengilegra hluta og hamingjuleitar, og erum svo afskaplega upptekin af því að allir verði að vera svo unglegir og smart, hlaðnir háskólagráðum og með merkjavöruhúsin drekkhlaðin velmegun á allan máta, en gleymum svo oft andlegu verðmætunum sem þar þurfa að finnast og skipta kannski öllu máli þegar öllu er á botninn hvolft.
Sem dæmi um hversu lítils við metum reynslu umfram gráður ýmiskonar þá vann ég fyrir mörgum árum með nokkrum klárum strákum sem líklega væru ekki hátt skrifaðir menntalega séð en gátu gert við og hannað nánast allt sem snerti flókinn vélabúnað sem þeir unnu við.
Ég man þegar verkfræðingarnir sem voru að hanna ýmiskonar flókinn vélbúnað þurftu oftar en ekki að fá þekkingu og reynslu lánaða frá einum þessara manna, manni sem ég efast um að hafi nokkurntíman lokið grunnskóla en var nú samt það klár að hann skákaði sprenglærðum verkfræðingu í gerð flókins búnaðar.
Þarna var það reynslan sem var að verki, en líklega var þessi maður ekki hálfdrættingur á við verkfræðingana í launum sem sýnir hversu skakka mynd við höfum oft á þekkingu og mati á henni. Háskólagráður eru góðar en það er einnig almenn þekking og reynsla af lífinu og að mínu viti þurfum við aðeins að fara að víkka út sjóndeildarhring okkar hvað þetta varðar og meta fólk eftir verðleikum þess og reynslu en ekki einungis gráðum, og þurfum að sjá að menntun leynist víðar en í okkar æðri menntastofnunum.
Ég hef unnið með fólki að árangri og betra lífi í langan tíma og ég segi það satt að líf mitt og reynsla hafa verið bestu tækin mín til aðstoðar þar. Vissulega var aðferðafræðin sem ég lærði mikilvæg og góð sem stuðningur, en ég tel að reynslan mín af lífinu og verkefnum þess sé nú samt það sem gerir mig hæfasta til að vinna með þau verkfæri sem lærdómurinn færði mér.
En nóg um þetta.
Það sem mig langar að koma að svona að lokum er að við ættum að virða þá sem ganga um með gullfylltar sprungur lífsins, hlusta á reynslu þeirra og taka visku þeirra inn í hjarta okkar.
Gömlu göturnar eru stundum ekki síðri en þær nýju, og reynsla kynslóðanna oft vel til þess fallin að nýta þegar nýjar slóðir eru troðnar.
xoxo
Ykkar Linda
Samskiptaráðgjafi/markþjálfi
linda@manngildi.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.10.2017 | 13:27
Orðum fylgir ábyrgð
Ekkert okkar vill láta tala illa um sig, ljúga upp á sig eða hlusta á fúkyrði sögð um sig hvort sem er í litlum eða stórum hópum, hvað þá í fjölmiðlum ekki satt?
Ég var stödd á ráðstefnu um daginn þar sem fjallað var um ábyrgð fjölmiðla og fleira gott og þar heyrði ég m.a.setningu sem mér fannst alveg stórmerkileg. Þessi setning fékk mig til að hugsa um hversu mikla ábyrgð við höfum í samskiptum okkar við hvert annað og ekki síst á samskiptamiðlum.
Setningin sem mér fannst svona stórmerkileg og fékk mig til að rita þennan pistil er tekin úr bók eftir jon Ronson og er svona
" snjókornið finnur ekki fyrir ábyrgð á snjóflóðinu"
Mjög merkileg setning að mínu mati og segir svo margt um það hversu grunlaus við erum um skaðsemi orða okkar og kjaftagangs um náunga okkar.
Hugsum við nokkuð almennt út í þetta þegar við tölum um persónur á netinu eða annarstaðar? Eða hugsum við út í sálarlíf þeirra sem fyrir orðum okkar verða, eða særindin sem þeir sjálfir, aðstandendur þeirra og vinir verða fyrir?
Ég held ekki. Eins og umræðan á netinu er því miður oft í dag get ég bara ekki ályktað það vegna þess að ég veit að við flest viljum vera öllum góð.
Í kommentakerfum og víða eru menn oft hreinlega teknir af lífi með ljótum niðurlægjandi orðum og í raun hýddir opinberlega án þess að geta borið hönd fyrir höfuð sér ef almúginn eða fjölmiðlar hafa ákveðið annað. Og allt of oft er það þannig að þeir fá ekki að verja sig fyrir lygunum og dónaskapnum sem þarna viðgengst, skelfilega ljótt hvernig við mennirnir missum okkur oft á tíðum að mínu mati.
Finnst mér þetta sýna oft skort á dómgreind okkar, fallegu hjartalagi og yfirvegaðum hugsanahætti og því miður erum við svo allt of mörg sek um þetta.
Hér áður fyrr tíðkuðust opinberar hýðingar sem voru lagðar af vegna þess að þær voru taldar afar skaðlegar sálarlífi þess sem undir slíka refsingu gekkst, og ég svo sannarlega trúi því að þeir sem þurfa að lesa niðrandi hatursfull ummæli og eða lygar um sig á samfélagsmiðlunum án þess að hafa til glæpsamlegra saka unnið, gangi um með vantraust gagnvart mannkyninu og sár sem aldrei gróa almennilega. Þeir sem standa nærri þessum aðilum eiga einnig oft erfitt með kvíða og aðra kvilla vegna þessa, en það hugsum við sjaldan út í á okkar litla landi þar sem allir þekkja alla.
Ein skaðleg rödd sem fær trúnað almennings getur valdið snjóflóði sem erfitt er að moka sig uppúr, svo höfum það í huga áður en við skrifum í kommentakerfi blaðanna, eða næst þegar við ætlum að tala illa um náunga okkar eða ætla honum eitthvað sem engin sönnun er fyrir.
Ég hef sjálf orðið fyrir því að fá ummæli um mig sem hafa bæði sært mig, valdið mér reiði og öðrum tilfinningum sem mér finnst ekki gott að hafa og get því gert mér grein fyrir þvi hversu erfitt er að takast á við þessi málefni. Sem betur fer er það þó þannig að ég hef frekar þykkan skráp og læt þetta ekki mikið á mig fá oftast nær, en það er ég.
Aðrir verða kannski fyrir mun meiri skakkaföllum en ég þekki og ganga í gegnum hreina aftöku á mannorði og persónu sinni opinberlega án þess að hafa unnið til þess með nokkrum hætti og margir þeirra fá aldrei uppreisn æru sinnar.
Margir þeirra sem fyrir slíku verða draga sig algjörlega í hlé frá félagslífi og einangrast frá öðru fólki. Depurð, kvíði, vantraust og jafnvel þunglyndi sækja á þá ásamt margri annarri andlegri og félagslegri vanlíðan, og þeir verða einnig oft fyrir vinamissi, skilnuðum, glötuðum atvinnutækifærum og fjárhagslegu öryggi svo fátt eitt sé nefnt.
Gætum okkar á orðum okkar elskurnar (ég veit að við getum flest gert betur þarna) því að líf og dauði er á tungunnar og takkaborðsins valdi, og flest erum við sek um að hafa ekki vandað okkur nægjanlega þegar að þessum málum kemur.
En við getum alltaf gert betur, og í dag er nýr dagur sem vert er að helga því að finna það góða sem hægt er að segja um og við fólk, hvort sem er í einkalífinu eða á opinberum vettvangi og okkur líður bara svo miklu betur þegar við dveljum á þeim stað í orðræðunni okkar.
Höldum í sjálfsvirðingu okkar, fallegu framkomuna og fordómaleysi okkar - ekki síst núna þegar kosningar eru framundan og skoðanaskiptin hækka blóðþrýsting okkar upp úr öllu valdi.
x- þið
Ykkar
Linda
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.9.2017 | 10:12
Er sambandið þitt í hættu?
Flest viljum við eiga falleg og góð sambönd og erum tilbúin til að leggja heilmikið á okkur til að gera þau eins dásamleg og hægt er.
Stundum er þó eins og okkur takist ekki að ná þessu takmarki okkar þrátt fyrir góðan vilja, og því eru skilnaðir kannski eins tíðir og raun ber vitni um.
En hvað þarf til að sambönd geti átt sér farsælt líf í gleði fyrir báða aðila?
Eftir því sem ég hef lesið og kynnt mér að frátöldu því sem ég veit af eigin reynslu þá er það þannig að við þurfum að vera dugleg að skoða og bæta samböndin okkar dag frá degi og líta aldrei á það sem sjálfsagðan hlut að hafa manneskju við hlið okkar sem elskar okkur og vill lifa lífinu með okkur.
Og ef við skoðum grunnstoðir sambanda þá eru nokkur atriði sem skipta meira máli en mörg önnur og mig langar að benda á nokkur þeirra hér. En munum að ástartungumálin eru nokkur og ekki víst að báðir aðilar falli inn í sama flokk þar. Yfirleitt er talað um að þessi ástartungumál séu fimm talsins, gjafir, snerting, þjónusta,orð og gæðastundir, og afar mismunandi hvað af þessu á við maka okkar. Hvet alla til að kynna sér ástartungumál maka síns og sjá hvað af þessu gleður hann mest, held að það gæti forðað mörgum skilnaðinum (hægt er að finna próf á netinu sem hjálpa ykkur að finna ykkar tungumál).
Traust, vinátta, skuldbinding,samræður og tilfinningaleg viðtaka eru grunnstoðir þess að sambönd virki eðlilega, og í heilbrigðum samböndum er ástin tjáð reglulega frá báðum aðilum með ýmsum hætti.
Auðvitað eru táningaformin misjöfn en í flestum tilfellum er ástin tjáð með tíðum faðmlögum,innilegum orðum, nánd í kynlífi og fl. Eins reyna pörin yfirleitt að finna sér sameiginleg markmið og áhugamál sem þau geta sinnt í sameiningu og þau taka þátt í lífi hvers annars í gleði þess og sorg.
Báðir aðilar geta oftast sett sig í spor hins og séð hlutina frá hans eða hennar sjónarmiði og þeir ræða málin þar til lausn er fundin. Þeim tekst vel að greiða úr flækjum og erfiðleikum sambandsins og finna málamiðlun sem leysir úr flækjum sambandsins.
Þeir hvetja hvern annan til að vaxa og dafna, og standa við hlið hvors annars í blíðu og stríðu.
Þeir veita hvor öðrum frelsi og virða mörk hvors annars. Þeir eru verndandi á sambandið og tala fallega og af stolti um hinn aðilann.
Báðir aðilar sambandsins gera sér grein fyrir því að það þarf að næra sambandið með ýmsu móti svo að það dafni vel og þeir framkvæma það sem til þarf til að gera sambandið sterkara og sterkara með hverju nærandi augnabliki sem þeir setja inn í það.
Gott ráð til að viðhalda rómantíkinni er td að hafa sérstök deitkvöld einu sinni í mánuði eða oftar og svo eru óvæntar gjafir og uppákomur yfirleitt vinsælar ásamt mörgu öðru sem gleðja annan aðilann eða báða.
En þegar samböndin eru komin á þann stað að þau gleðja ekki heldur valda vanlíðan eru eftirtalin atriði allt of oft til staðar:
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.9.2017 | 15:58
Til hamingju með lífið!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.8.2017 | 15:52
Játning
Tímamót geta verið ansi töff og tekið á þrátt fyrir að mörg þeirra séu af gleðiríkum toga.
Ég þekki það sjálf hvernig óttinn læðist að mér þegar ég tek stórar ákvarðanir fyrir líf mitt, og nú nýverið hafa þær verið ansi margar og erfiðar.
Ég uppgötvaði reyndar mér til mikillar furðu að flest stór og mikil tímamót hjá mér virðast lenda á ártali sem endar á sjö, eða þannig hefur það verið frá því 1967. Merkilega skemmtilegt!
En eftir því sem að árunum fjölgar þá finn ég að breytingar sem áður reyndust mér mjög auðveldar taka meira á mig en ég vil í raun viðurkenna. Og ég sem hélt að ég væri þessi sveigjanlega og út úr boxinu manneskja (tel mig reyndar ennþá vera það) en komst semsagt að því að ég er búin að búa mér til hin ýmsu bakgrunns öpp sem erfitt er að eyða.
Bara það eitt að selja litlu íbúðina mína í Grafarvogi og flytja mig í annað bæjarfélag (Kópavog) reyndist mér á sama tíma bæði spennandi og örgrandi verkefni. Ég fann hvernig ég sveiflaðist á milli gleði og ótta við það nýja sem tæki við. Svo þegar ég var búin að koma mér fyrir á nýja staðnum uppgötvaði ég að þetta var svo sannarlega löngu tímabært skref þó svo að ég hugsi enn um litlu kompuna mína með væntumþykju og virðingu fyrir það skjól sem hún veitti mér.
En að aðeins öðru:
Það er einu sinni þannig að þær breytingar sem við viljum fá inn í líf okkar krefjast þess að við rýmum til fyrir þeim.
Stundum þurfum við að flytja okkur um set eins og ég gerði í mínu tilfelli, og stundum þurfum við að henda fatnaði eða losa okkur við gamlar minningar og myndir. Hvað svo sem við gerum ættum við að fullvissa okkur um að við séum búin að loka öllum dyrum sem eyðilagt geta fyrir okkur nýju spennandi dyrnar sem bíða þess eins að fá að opnast fyrir okkur.
Það var ekki nóg með að ég flytti mig um set íbúðarlega séð heldur tók ég þá ákvörðun á sama tíma að deila lífi mínu með annarri manneskju eftir að hafa verið ein um árabil og það krafðist þess að ég tæki til í mínu lífi og henti út gömlum gatslitnum minningum og myndum (Held að það hafi farið 50 ruslapokar á haugana fyrir utan öll húsgögnin sem ég gaf).
Og í öllu þessu róti fór ég nú fyrst að finna fyrir öllum mínum fínu og flottu niðurgröfnu öppunum sem keyrðu í bakgrunninum og lifðu þar sjálfstæðu lífi án nokkurrar vitneskju minnar þar um.
Fyrsta appið sem ég fann var ofurviðkvæma sjálfstæðisappið mitt.
Ég var orðin vön því að gera hlutina á minn hátt og þegar mér datt í hug, og enginn sem tók ákvarðanir fyrir mitt líf nema ég sjálf.
En núna þurfti ég semsagt að fara að taka tillit til annarrar persónu og hans lífs, og það mun líklega taka mig tíma að venjast því til fullnustu. Það góða er þó að við höfum öll mál uppi á borðum hjá okkur til úrlausnar en þöggum þau ekki niður. (Sem er reyndar atriði sem ég held að sé nauðsynlegt öllum pörum ef vel á að takast til)
Annað app sem ég fann fyrir og kom mér satt best að segja verulega á óvart að væri til staðar hjá félagsverunni mér var einveru appið.
Það app sagði mér að ég þyrfti stundum á einveru að halda, ég af öllum! Það að vera stöðugt með annan aðila í kringum mig og fá ekki einveruna sem ég var nú ekki alltaf svo hrifin af þegar ég var ein varð mér skyndilega bráðnauðsynleg. En það er eins með þetta atriði eins og önnur sem upp á borð okkar koma- við bara ræðum þetta og finnum lausnir sem duga okkur báðum vel.
Þriðja appið sem keyrir víst í bakgrunni mínum eru úrelt tilfinningaviðbrögð.
Ég semsagt fann að ég þarf að passa mig á því að gamlar tilfinningar, vonbrigði og viðbrögð séu ekki yfirfærðar yfir í nýtt samband og það er sko stundum svolítið ósjálfrátt og erfitt. Ég held að okkur mörgum hætti til að taka gömlu sambandsöppin okkar inn í þau nýju, og væntum þess þá stundum að nýji makinn bregðist við aðstæðum með svipuðum hætti og sá gamli gerði, og þá skilur nýji makinn ekki nokkurn skapaðan hlut í því hvers vegna orð, viðbrögð eða annað er túlkað á allt annan hátt en hann ætlaði. Úr þessu gettur síðan orðið ein stór flækja ef ekki er gripið inní samskiptin með skynsömum hætti og málin rædd.
Fjórða appið sem ég var nú að vona að kæmi lítið við sögu hjá mér kemur nú samt annað slagið uppá yfirborðið á þessum tímamótum og það hefur með traust að gera.
Ég semsagt uppgötvaði að ég sem hélt að ég væri svo opin og full trausts á mannkynið í heild sinni fann að það var nú ekki alveg aldeilis þannig.
Ég verð að játa að gömul sár og ör lúra innra með mér í gömlu gatslitnu appi, sem skríður upp á yfirborðið af og til án nokkurra gjörða eða tilefnis frá þeim aðila sem fyrir því verður. Ég veit svosem að það tekur tíma að byggja upp traust á milli aðila og ég veit einnig að traust er ein af grunnstoðum sambanda svo að þetta app vona ég að verði ekki fyrirferðamikið.
En nú fer þessum tímamótajátningum mínum að ljúka í bili a.m.k.
Og stefna mín til framtíðar er sú að ég ætla að halda áfram að gera mitt besta til að byggja upp mitt nýja fallega og gleðiríka líf í einingu og sátt, ryðja í leiðinni út öllum þeim öppum sem ég finn að hindra mig og skella síðan inn nýjum og nútímalegum öppum sem færa mig að lífi sem ég treysti á að verði "happily ever after líf".
Og til að trúa ykkur nú fyrir því hvers vegna ég ákvað að opna svona inn á líf mitt og tilfinningar, þá sá ég á þessari leið minni að þarna var ýmislegt sem ég held að aðrir hafi nú þegar tekist á við eða eigi eftir að gera það, og eins var ástæðan sú að ég gerði mér ljósa grein fyrir því að:
"Sjálfskoðun í nýjum aðstæðum og uppgötvun á tilfinningum og viðbrögðum sem ekki lengur þjóna tilgangi í lífi okkar er það sem færir okkur áfram í þekkingu á því hver við erum. Og á sama tíma gefur það okkur tækifæri á því að breyta yfir í jákvæðari hugsanir og framkvæmdir sem gagnast okkur betur þegar við viljum skapa eða breyta lífi okkar til hins betra".
Og til þess að ljúka nú þessum játningum mínum að þessu sinni ætla ég einnig að játa að ég fann ekki bara gömul gatslitin öpp á leið minni. Nei ég fann einnig afar mörg falleg, gefandi, jákvæð, kærleiksrík og dásamleg öpp sem ég er afar þakklát fyrir að fá tækifæri á að deila með mínum nýja yndislega lífsförunauti sem gefur mér alla daga eitthvað til að gleðjast yfir.
Kærleikur og knús til ykkar elskurnar,
xoxo
ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
Samskiptaráðgjafi/Markþjálfi
manngildi.is
linda@manngildi.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Linda Baldvinsdóttir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.4.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar