8 leiðir til að takast á við erfiðar tilfinningar og aðstæður

Flest lendum við í áföllum eða á erfiðum stöðum í lífinu og fæst sleppum við alveg við þannig tímabil. Mismunandi er þó hversu mikil áhrif þau hafa á andlega og líkamlega heilsu okkar eftir umfangi þeirra og hversu ógnvekjandi okkur finnast atburðirnir eða aðstæðurnar. 

Við getum aldrei ákveðið hversu stórt eða lítið áfallið er hjá hverjum og einum því að það fer algjörlega eftir því hversu mörg áföll einstaklingarnir hafa upplifað á lífsleiðinni og eins fer það eftir persónugerð hvers og eins ásamt mörgu öðru, svo ákveðum ekki fyrir aðra hvað sé stórt eða lítið áfall fyrir þá, sýnum upplifunum hvers og eins aðeins skilning. 

Áætlað er að um 3,6% heimsins á hverjum tíma sé haldinn áfallastreitu eða líklega um 290 milljónir þá á heimsvísu í dag ef ég hef reiknað dæmið rétt.

Þannig að við getum séð á þessum tölum að áföll eru algeng í lífi okkar og við búum langt frá því öryggi sem við viljum þó svo gjarnan skapa okkur, halda í eða leitum stöðugt að. 

En hvernig getum við minnkað áhrif áfalla á líf okkar?

Það er auðvitað engin ein leið sem dugar á alla og því erfitt að gefa hina einu sönnu uppskrift að því hvað dugar best, þó má segja að það sem kemur sér vel er að efla hjá okkur þrautseigjuna eða iðka þær aðferðir sem byggja hana.

Ég held þó að við Íslendingar séum nokkuð góð í þrautseigjunni og stundum of góð í því ef eitthvað er þar sem við erum vön náttúruhamförum af ýmsu tagi og svei mér ef við erum ekki með eitthvað þrautseigjugen í erfðamengi okkar svona samfélagslega séð, þarf samt að spyrja Kára nánar út í þetta. 

Til að efla þrautseigju okkar þurfum við fyrst af öllu að viðurkenna þá staðreynd að þjáning er hluti af lífinu og vita að einnig við getum orðið fyrir áföllum.

Og í stað þess að spyrja "hvers vegna ég" ættum við kannski frekar að spyrja "hvers vegna ekki ég".

Áföll lífsins eru mjög fjarri glamúrlífinu á Instagram þar sem allt er svo flott og æðislegt og engin áföll eða vondar tilfinningar í boði, bara gloss, brjóstapúðar, ferðalög, flott hús, heilbrigð börn, allsnægtir og merkjavörur. 

Það reiknar held ég enginn með áföllum á borð við þær aðstæður sem við stöndum frammi fyrir í dag þar sem allt í einu skellur á plága sem okkur hefði líklega ekki órað fyrir að gæti orðið í okkar tíð, og við verðum hrædd um líf okkar og þeirra sem okkur þykir vænt um ásamt því að heimsmyndin okkar er orðin allt önnur en hún var - glamúrinn farinn og við erum óörugg. 

Það sem við getum nýtt okkur inni í svona ógnvekjandi aðstæðum er að beita aðferðum sem ætluð eru til að minnka áfallaviðbrögð okkar og koma okkur sem næst hlutlausri tilfinningu.

Kannski er byrjunin sú að skoða stöðuna í rökrænu ljósi og einbeita okkur svo að þeim atriðum sem við getum breytt og sleppt síðan tökunum og sætt okkur við þá hluti sem við fáum ekki breytt eins og segir í æðruleysisbæninni góðu.

Það sem gerist hjá okkur við áföll og breyttar aðstæður sem setja okkur út af laginu er að flóttaviðbrögð okkar kvikna (Streituviðbrögð)og við eigum erfiðara með að einbeita okkur að því sem við höfum og eigum en sjáum frekar aðsteðjandi ógnina sem okkur finnst á stundum algjörlega umlykja okkur.

Þeir sem hafa eflt þrautseigju sína eru þó betri í að fókusa á það góða í aðstæðunum og þeir hafa okkar alíslenska máltæki líklega að leiðarljósi í einni eða annarri mynd eða "þetta reddast" viðhorf sem oft er gert grín að en er kannski merki um þá þrautseigju sem við höfum byggt upp hér í okkar menningu. 

Að vera þakklátur og hjálpsamur á tímum þar sem okkur finnst við hafa fátt til að þakka fyrir hjálpar okkur að sjá það góða í aðstæðunum og fátt er það sem slekkur meira á streitunni okkar en það að hjálpa náunganum og hvetja hann.  

Það er einnig mjög gott að spyrja sig hvort að þær tilfinningar sem eru ríkjandi hjá okkur á hverri stund séu að hjálpa okkur eða skaða. Spurningar eins og "ætla ég að leyfa þessari veiru að taka það skemmtilega frá mér eins og samskipti við fjölskyldu og vini eða ætla ég að finna leiðir sem hægt er að fara í þeim málum þrátt fyrir aðstæðurnar?"

Leitum lausna við vanmætti okkar í stað þess að leyfa okkur að fara niður í kjallara þó að allar tilfinningar séu hinsvegar leyfilegar í smá stund a.m.k. 

Það tekur tíma að byggja upp þrautseigjuna og það er enginn fæddur með hana öðruvísi en að hafa fengið hana í arf í gegnum genin eins og ég sagði áðan en hef ekki hugmynd um hvort svo sé þannig að við þurfum að æfa okkur og læra að taka stjórn á tilfinningum okkar ásamt því að leita aðstoðar á göngunni hjá fagaðilum eða þeim sem þú treystir til að aðstoða þig þar.

Ef þú heldur að þú náir þér aldrei frá því áfalli sem þú hefur orðið fyrir þá get ég sagt þér að meirihluti okkar lærir þrautseigju við það að komast í gegnum hvern skaflinn á fætur öðrum og við förum í gegnum atburði sem okkur þótti óhugsandi að við gætum komist í gegnum með því að lifa einn dag í einu og taka eitt skref í einu. Oft skilur þessi leið í gegnum skaflana okkur meira að segja eftir á nýjum stað þar sem við erum bara nokkuð ánægð með okkur og hefðum ekki viljað hafa hlutina með neinum öðrum hætti þrátt fyrir erfiðleikana.

Það er þó mun erfiðara í framkvæmd en á blaði að efla þrautseigjuna þegar við förum í gegnum áföll og sorg en það er þó það sem gerir okkur mesta og besta gagnið að lokum. 

Hér fyrir neðan eru nokkrar aðferðir af mörgum sem þú getur nýtt þér til að ná stjórn inni í aðstæðunum og þau virka alveg ágætlega ef þú nærð að draga andann og einbeita þér vel.

1. Taktu eftir því hvernig þér líður í líkamanum og vertu meðvitaður um það hvar spennan er. Ekki gera neitt annað en að taka eftir því hvernig þér líður og reyna að slaka á þeim vöðvum sem þú finnur að eru spenntir. Gott er að byrja á því að finna fyrir fótum sínum á gólfinu og leiða svo meðvitundina upp eftir líkamanum og taka eftir líðan, hjartslætti, andadrætti og öðrum merkjum sem líkaminn gefur frá sér og leiðrétta jafn óðum spennuna.

2. Skoðaðu hvort tilfinningarnar eru óþægilegar, hlutlausar eða þægilegar (góðar)og skrifaðu niður upplifun þína af þessu ferðalagi um líkamann.

3. Venjulega er tilfinningaskalinn okkar þegar okkur líður vel að sveiflast frá ca 3-7 á skalanum 0-10 en í lægðum getur hann farið niður í 0 og í stressinu upp í 10. Metum hverju sinni hvernig okkur líður og reynum að halda tilfinningunum okkar í kringum fimmuna með því að veita andardrætti okkar athygli ásamt því að slaka á stífum vöðvum. Ef þú finnur fyrir óbærilegri spennu leiddu þá hugann að stað á líkamanum sem þú finnur enga spennu og einbeittu þér um stund að honum og færðu þig svo aftur til baka og endurtaktu eftir þörfum.

4.Eins geturðu leitt hugann frá streitunni og vanlíðaninni með því að t.d telja alla rauðu, gulu, grænu litina sem eru í umhverfinu þínu (allir litir duga)eða teldu afturábak frá 10 niður í 1. Vatnsglas getur líka náð tilfinningunum niður um stund eða brotið hugsanaferlið upp.

5.Leitaðu að þeim auðlindum sem þú býrð yfir í formi fjölskyldu, vina, áhugamála og þess sem hefur gefið þér næringu í gegnum lífið. Einnig skaltu skoða hvaða gildi og lífsskoðanir hafa gefið þér þá persónueiginleika sem fylla þig stolti og einbeittu huganum að þessum atriðum og sæktu í þau til að lyfta anda þínum - þetta er form af þakklæti nægjusemi/rósemi, en þakklætið er eitt sterkasta vopnið sem við eigum í fórum okkar þegar kemur að því að feta sig áfram veginn í átt til friðar og sáttar.

6.Leyfðu einnig ímyndunaraflinu að búa til fallegar myndir af framtíðinni því að ímyndunaraflið eigum við alein og engin framtíðarmynd er rétt eða röng þar. Þannig að skapaðu þar þína undraveröld og happy stað og dveldu þar (í smáatriðum!) og þakkaðu fyrir að þú munt sjá þetta rætast einn daginn.

7.Til að minna sig á allt það góða sem við höfum og viljum sjá í framtíð okkar er frábært að skrifa hvatningasetningar á spegilinn á baðinu með töflutússi eða setja gula miða út um allt og vera síðan dugleg að lesa það sem við skrifum. Finnum það góða sem við getum fókusað á.

8.Finndu síðan allt það sem gleður þig að gera og vera ásamt öllu því sem fær þig til að brosa og hlæja. Og já það má líka hlæja á erfiðum og sorglegum stundum. Gleðin er það afl sem gefur okkur kraftinn til verka og aðstoðar okkur við að færast áfram veginn þrátt fyrir aðstæður lífsins.

Allt er þetta gert til að setja tilfinningarnar okkar sem næst fimmunni á skalanum og dvelja í jákvæðni hvort sem er um að ræða gagnvart lífinu, okkur sjálfum og þeim sem við umgöngumst þegar við erum í aðstæðum sem við fáum ekki breytt.

Vona að þessi pistill verði til að hjálpa þér eitthvað á þessum tímum þegar streitan er við völd og þér finnst þú ekki ráða við tilfinningarnar þínar.

Þar til næst elskurnar

xoxo

Ykkar Linda

 

Linda Baldvinsdóttir

Markþjálfi/Samskiptaráðgjafi/TRM 1 og 2 áfallafræði

linda@manngildi.is

 

 

 

 

 


Þessir fordæmalausu tímar

Þessir tímar sem við lifum á hafa tekið okkur út úr asa þeim sem við höfum lifað við og þeir krefjast þess af okkur að við förum inn á við í sjálfsskoðun og hvernig við getum betur lifað lífinu. Þetta er tími til þess að slaka á og anda djúpt inn í aðstæðunum. Skoða innviðina og sjá hvað við finnum þar. Erum við að glata frá okkur einhverju sem skiptir okkur verulegu máli og þá á ég ekki við veraldlegu hlutina heldur tengingu okkar við okkur sjálf og þá sem í nærumhverfi okkar eru?

Höfum við látið frá okkur gildi sem þó gáfu okkur meiri ró og öryggi en þær aðstæður sem við búum við í dag? Þurfum við kannski að kollvarpa lífi okkar þegar við horfum á þessa breyttu heimsmynd sem ekkert okkar veit í dag hvernig verður?

Hvaða gildi viltu innleiða og hvað þarftu inn í þitt líf? Hvet þig til að skoða það á þessum tímum.

Að teygja sig til annarra á þessum tíma er einnig bráðhollt og gott – þetta eru tímar sem tengjast í tvær áttir, til kærleika og ótta. Reynum að hafa fókusinn okkar meira á kærleikann en óttann og finnum nýjar leiðir sem gagnast betur því innihaldi sem við viljum finna í lífinu. Óttinn þessi óvinur okkar allra er það afl sem leiðir okkur til tortímingar og jafnvel einangrunar. Við þorum ekki að teygja okkur til fólks og þorum ekki að stíga skrefin inn í óttann okkar, þorum ekki að sækja fram, höfnum okkar vegna skorts á sjálfstrausti og svo framvegis, þorum jafnvel ekki að rétta út hjálparhönd því að við erum hætt að kunna að tilheyra hjörðinni. 

En sem betur fer sé ég að þessir tímar munu leiða til góðs í þessum efnum þegar ég sé alla þá sem eru að gefa af sér til þjóðarinnar, þá sem víkja úr vegi bæði til að vernda sjálfa sig og eins náunga sinn og stjórnmálaöflin eru komin í sama lið til að bjarga landinu okkar – er það ekki dásamleg tilbreyting?

Ég held að á komandi tíma munum við sjá sambönd fara í sundur sem ekki eru að hafa góð áhrif á líf okkar, ég sé líka sambönd myndast og önnur sem munu læknast og verða nánari en fyrir Covid faraldurinn. Ég held einnig að vinátta og samkennd muni styrkjast eða fara í sundur ef ekki er pláss fyrir hana í nýrri gildismynd okkar. Og allt held ég að þetta muni verða vegna þess að við munum sjá lífið og tilveruna í skírara ljósi og vita hvaða orkusviði við viljum tilheyra og hvað er ekki að passa okkur þar.

Ég hlakka til þessara tíma sem krefja okkur til þess að vakna til okkar sjálfra og skoða okkur innan frá og út í stað utan frá og inn í allt of langan tíma. Við höfum öll fundið undanfarin ár að við leitum eftir ró, allskonar andleg iðkun hefur verið vinsæl sem aldrei fyrr vegna þess að við finnum að við höfum látið hana frá okkur fyrir hluti sem skipta minna máli og við mæðumst í of mörgu.

Sá myndband frá indverskri konu að nafni Vandana Shiva þar sem hún talaði um að loksins fengjum við að sjá að við getum ekki lifað í þeirri heimsku sem viðgengist hefur. Hún segir að við þurfum að öðlast þekkingu á því sem skiptir máli og að læra að lifa í sátt við móður jörðu, þurfum að læra að annast og elska og að deila með okkur. Hún segir einnig að það verði konurnar sem muni kenna okkur hvernig það er að vera human eða manneskja. Hún segir að fórnarkostnaðurinn við okkar glæsilíf hafi verið mikill og hafi kostað meðal annars dráp á ungum stúlkum í þrælaverksmiðjum í Bangladesh og víðar og að við þetta verði ekki unað lengur. Ráð hennar til yngri kynslóðarinnar er að við þurfum að læra að vinna með höndum okkar og sál í tengingu, það sé æðsta form þróunar mannsins. Einnig segir hún að lítið hafi verið gert úr mæðrum sem elduðu handa börnum sínum en það segir hún að ef ekki hefði verið fyrir eldamennsku móðurinnar þá værir þú einfaldlega ekki hér. Margt sem hún sagði í þessu myndbandi og ég gæti skrifað um hér, en að mínu viti er mikill sannleikur falinn í orðum hennar. 

Í dag sjáum við hvaða stéttir skipta raunverulega öllu máli og merkilegt nokk eru það störfin sem við höfum gert sem minnst úr en þurfum nú sem mest á að halda. Allir þeir sem starfa í umönnun eða við að aðstoða einstaklinga með einum eða öðrum hætti eru nú orðnir hetjurnar okkar sem er vel – ég vona bara að það skili sér í betri launum og framfærslu til þeirra sem þakkarvott okkar fyrir óeigingjarnt starf í þágu þjóðarinnar.

En eitt er víst að veröldin eins og við höfum þekkt hana mun breytast á komandi tímum og ég segi eins og Dröfn Vilhjálmsdóttir segir í pistli sínum á Vísi „ Mér líður dálítið eins og að jörðin hafi verið að senda okkur öll inn í herbergi og skellt hurðinni reiðilega á eftir okkur með orðunum; “verið hér í nokkra mánuði og hugsið nú um hvað þið hafið gert ... og skammist ykkar!”

Tek heilshugar undir þessi orð hennar og er ekki hissa á því að við séum rassskellt fyrir ofgnóttir, eigingirni og veraldavafstur og það sem einkennt hefur tímana síðustu tvo áratugina.

Við létum frá okkur fjölskyldumynstrið okkar, vöfflukaffið á sunnudögum, spariklæðnaðinn á helgideginum, kurteisi og umönnun, kennslu eldri kynslóðarinnar til hinnar yngri, börn hættu að annast og virða foreldra sína að miklu leiti og gáfu þeim ekki tíma sinn, kærleikur flestra  fór einnig niður um nokkrar gráður í átt að frosti - og ég held að við séum öll sek um eitthvað af þessu.

Þetta munum við þó allt þurfa að skoða og læra að meta það sem móðir jörð hefur fram að færa og lifa í þakklæti anda okkar til alls þess sem skapað er og dregur andann.

Okkur líður líklega mörgum ef ekki flestum svolítið skringilega inni í þessum aðstæðum sem við erum í núna, svolítið eins og við séum í skammarkróknum og eigum að finna út úr því hvernig okkur líður og finna betri leiðir. Læra að treysta lífinu og fara með æðruleysisbænina sem aldrei fyrr.

Því að þetta er tími núvitundar og andans. Þessi kynslóð hefur ekki þurft að gera sér grein fyrir því að við erum andi sál og líkami en nú er tíminn kominn.

Látum kærleikann verða leiðarljósið okkar á þessari leið, setjum fókusinn okkar á það og munum að allur heimurinn er eitt samfélag.

Nýtum þennan tíma til að  hætta að aðgreina og dæma þá hluta heimsins sem við þekkum ekki, umvefjum frekar þá hluta og reynum að skilja þá og sýnum virðingu – þannig búum við til fallegt og réttlátt heimskerfi og tækifærið til þess er núna og við getum öll lagt okkar af mörkum.

Þar til næst elskurnar 

Xoxo -stay safe

Ykkar Linda

Markþjálfi/Samskiptaráðgjafi/TRM áfallafræði 1 og 2.

linda@manngildi.is


Fyrr en varir birtir að nýju

Óttinn þessi skelfilegi óvinur okkar mannanna er við völd þessa dagana og við finnum öll fyrir áhrifum hans á líf okkar, störf og samskipti.

Mín hvatning til okkar er að láta þennan óvin ekki stela frá okkur þeim stundum sem við getum átt mitt í þessari óvissu til að gleðjast saman innan leyfilegra takmarkana og vera ekki hrædd við það. Það eru ýmsar leiðir til að hittast rafrænt og símleiðis og erum við mjög heppin að þetta skuli þó koma upp á tímum internetsins og þráðlausra samskipta um heim allan.

Ef eitthvað verður til að létta tímana sem nú eru er það að nýta gleðina eins og Ítalir gera núna, þeir syngja af lífs og sálarkröftum til að létta lund hvers annars frá svölum sínum. Þeir tóku einnig upp uppskriftina sem við höfum svo oft nýtt hér á Fróni eða "þetta reddast" sem er að mínu mati það stórkostlegasta sem við eigum í ótryggum heimi og fer nú sigurför um Ítalíu og vonandi fer það jafn víða og húið okkar fræga.

Ef við göngum út á það að við getum ekki stjórnað útkomunni út úr þessu þá er ekkert annað að gera en að leyfa ekki óttanum að ríkja og njóta þess að vera til. Kannski þurfum við að taka til okkar það sem ég sá á fésbókinni; "Njótum þess að fá loksins tækifæri á því að gera ekki neitt, horfa á TV og bjarga heiminum með því móti".

Samlandar mínir hafa svo sannarlega sýnt það að undanförnu að við eigum gott og hæfileikaríkt listafólk sem nú keppist við að gleðja okkur með ýmsum uppákomum og áður óþekktir einstaklingar stíga einnig fram á sviðið með ýmsu móti og ég er svo óskaplega þakklát öllum sem það gera. Þetta er það sem við getum gert - að nýta hæfileika okkar og kunnáttu samlöndum okkar til gleði og jafnvel gæfu ef því er að skipta, og það er svo fallegt og svo gott.

Mitt framlag er að gefa okkur leiðir sem við getum skoðað og nýtt okkur til að minnka ótta okkar og vonandi til að gefa honum heilbrigt vægi í þessum aðstæðum.

En hér koma svo mínar aðferðir til að minnka vægi óttans:

1. Ef þú finnur fyrir kvíða og óróleika stoppaðu þá allt sem þú ert að gera og spurðu sjálfan þig hvort að það séu réttmæt rök fyrir ótta þínum og ef ekki finndu þá rökin gegn óttanum.

Ef við tökum sem dæmi þá getum við notað sem rök lága prósentutölu þeirra sem veikjast af þessari veiru og enn færri sem veikjast illa en um 95% tilfella virðast vera með mjög væg einkenni. Við eigum einnig gott teymi heilbrigðisstarfsmanna sem er búið að undirbúa sig vel hvað varðar lyf og annað sem til þarf og hafa búið sig undir verstu hugsanlegu útkomu fyrir þá fáu sem munu veikjast alvarlega. Þessi rök ættu að geta tekið mesta óttann frá okkur og lesum ekki allt sem við sjáum á netinu eða öðrum miðlum, það eykur á óttann okkar og margt af því er hvort sem er tóm tjara.

2. Láttu ekkert taka frá þér gleðina og haltu fast í hana. Horfðu á eitthvað sem fær þig til að hlæja, hafðu samband við skemmtilegt fólk og hugaðu að fjölskyldu þinni það skiptir öllu. Sendu út falleg skilaboð sem gleðja þig og aðra ef þig langar að gefa öðrum góða tilfinningu og ef það er leyfilegt og innan marka farðu þá og hittu fólk sem þig langar til að hitta yfir góðri máltíð eða kaffisopa. Maður er manns gaman ef sprittbrúsinn og handsápan er með í för.

3. Mundu að tilfinningar þínar kvikna útfrá hugsunum þínum svo passaðu þig á því að hafa þær eins jákvæðar og fullar þakklætis og hægt er að hafa þær. Í einangrun eða sóttkví er Nelson Mandela frábær fyrirmynd en hann sagði að kannski væri hægt að loka hann inni í fangelsinu en að hann væri sá eini sem stjórnaði hugsunum sínum. Þessi orð eru ótrúlega sönn og við höfum svo miklu meira um tilfinningar okkar að segja en við höldum oft. Hugsanaferlið okkar fer þannig fram að við tökum við ytra áreiti og við áreitið kviknar samtal okkar við okkur sjálf og við það sjálfstal tengjum við tilfinningar og framkvæmum síðan útfrá þeim.  

4. Reyndu að búa til stóru framtíðarmyndina í huga þér og gerðu hana eins fallega og þú mögulega getur og settu hana svo niður á blað þar sem þú getur horft á hana og minnt þig á að allt verður gott um síðir - þetta er tímabundið ástand og ljósið sigrar alltaf myrkrið að lokum. 

5 Slepptu tökunum - og tökum einn dag í einu. Förum að ráði Víðis sem sagði okkur að taka einn klukkutíma á dag þar sem við værum ekki að tala um veiruna og ég ætla að bæta því við að við ættum að einsetja okkur að leyfa hugsuninni um það versta sem í koll okkar kemur að fá ekki lengra dvalarleyfi en í ca 5 mínútur. - tökum tímann og teljum svo 5.4.3.2.1 og svo stopp! Allar tilfinningar þarf svo sannarlega að viðurkenna en svo þurfum við að passa uppá að þær nái ekki yfirhöndinni og veiki okkur. 

Það sem ég geri þegar ég finn að ég verð óttaslegin og er í mínum vanmætti er að fara inn í daginn og biðja um vernd fyrir mig og mína og eins bið ég um blessun til handa löndum heimsins og íbúum hans og ákveð svo að treysta. Það er það sem ég get lagt af mörkum og bara vonað síðan að á mínar bænir sé hlustað í alheimi.

Þetta eru nokkur ráð frá mér til þín sem ég vona að gagnist ykkur á þessum fordómalausu Covid tímum og ég minni okkur öll á að við erum í þessu saman.

Við getum og ættum svo sannarlega að þakka þeim sem í framlínunni starfa í okkar þágu og ég hvet okkur öll til að gera allt sem við getum til að hlíta þeirra ráðum, biðja svo fyrir blessun og vernd og halda áfram á þeirri braut sem mér sýnist við vera komin inn á, eða að sýna allar okkar fallegustu hliðar. Svo sýnist mér við líka vera komin í þann gír að "pay it forward" sé að skjóta rótum hér og við ættum endilega að taka það upp öll sem eitt til frambúðar.

Þannig trúi ég að við komumst best frá þessum erfiða og myrka tíma í mannkynssögu okkar. En ljósið mun sigra að lokum, það gerir það alltaf krakkar mínir.

Heill og heilsa fylgi okkur öllum elskurnar,

xoxo

Ykkar Linda

Linda Baldvinsdóttir

Markþjálfi/Samskiptaráðgjafi/TRM áfallafræði 1 og 2

linda@manngildi.is  

 


Líður þér vel í samskiptum þínum við fólk eða er meðvirknin að ganga frá þér?

Enn og aftur langar mig að tala um meðvirkni þar sem þetta er landlægt og líklega útbreiddara en veiran sem við flest óttumst í dag.

Meðvirkni er sjúklegt ástand sem við þurfum svo sannarlega að huga að skoða og lagfæra ef það er fyrir hendi í lífi okkar og er að hafa áhrif til ills þar. 

Að virka vel með öðrum er nauðsynlegt í öllum almennum samskiptum og allt gott um það að segja að við séum góð og kærleiksrík við hvert annað og leitum lausna inn í samskiptum, en við þurfum að skoða hvort við erum að virka með fólki eða hvort við erum í meðvirkni með þeim og það er að ýmsu að hyggja þar.

Að virka með öðrum gefur okkur góða tilfinningar og vellíðan og er áreynslulaus tilfinning sem færir okkur yl, en meðvirknin gefur okkur togstreitu tilfinningu sem fær okkur til að tipla endalaust og botnlaust í og kringum aðra aðila,(stundum bara einn)og fær okkur á staði sem við erum ekki sátt við okkur á. 

Við þolum of mikið af slæmri eða illri framkomu, leyfum óréttmætar hafnanir og ummæli og stöndum ekki föst á okkar tilverurétti né okkar lífsgildum.

Hjá meðvirknisamtökum er talað um að meðvirknin skiptist í nokkra flokka og eru þeir td. Afneitun, lítið eða lélegt sjálfstraust, ákveðin fylgimynstur í lífinu, stjórnunarmynstur og forðunarmynstur.

  • Afneitunin getur meðal annars falist í því að meðvirkir eiga erfitt með að segja hvernig þeim líður og þeir gera lítið úr eða neita fyrir raunverulegar tilfinningar sínar. Þeir líta á sig sem kærleiksríkar verur sem eru helgaðar vellíðan annarra og þeir fela tilfinningar sínar á bak við leiðir eins og húmor, reiði, pirring eða með því að loka sig af. Gjarnan draga þeir að sér einstaklinga sem eru ekki tilfinningalega til staðar fyrir þá.

 

  • Lítið eða lélegt sjálfsöryggi getur birst í því að meðvirkir eiga erfitt með að taka ákvarðanir og dæma allt sem þeir segja og gera sem ekki nægjanlega gott. Eiga erfitt með að taka hrósi og telja að skoðanir og gildismat annarra sé rétthærra sínu eigin og eiga erfitt með að setja mörk. Þeir eiga það einnig til að leita að öryggi hjá öðrum og mynda með sér lært hjálparleysi.

 

  • Fylgimynstrin eru oft þau að þeir meðvirku eru sauðtryggir og hanga í skaðlegum aðstæðum allt of lengi og gera málamiðlanir gegn gildum sínum og líðan til að forðast höfnun og reiði. Þeir eru oft hræddir við að segja frá sínum skoðunum, trú og tilfinningum. Þeir gefa frá sér sannleikann sinn til að forðast breytingar á lífi sínu. Stundum geta þeir verið hvatvísir í ákvörðunum.

 

  • Stjórnunarmynstrin geta meðal annars birst í því að þeir verða ófærir um að bera ábyrgð á sér. Þeir verða pirraðir ef aðrir hugsa ekki eða líður á annan hátt en þeim þóknast að þeim líði. Þeir verða oft pirraðir þegar fólk hlýðir þeim ekki og þurfa að finna fyrir því að aðrir þarfnist þeirra til að geta verið í samskiptum við þá. Þeir nota ásökun og skömm til að ná sínum þörfum fram og refsa þeim sem mæta þeim ekki. Nota kærleiksríka frasa til að ná stjórn á öðrum og beita refsingum og reiði til að stjórna útkomum. Eins eiga þeir til að ausa gjöfum til þeirra sem þeir vilja hafa áhrif á og neita yfirleitt samvinnu, málamiðlunum og samningum.

 

  • Forðunarmynstrin birtast oft í því að hinir meðvirku forðast tilfinningalega, líkamlega og kynferðislega nánd til að halda fjarlægð og halda sig þar með frá nánd í samböndum. Þeir nota óbein samskipti til að rugga nú ekki bátnum og þeir bæla niður tilfinningar sínar til að forðast berskjöldun. Þeir halda að með því að sýna tilfinningar sínar séu þeir að sýna veikleika og leyfa gjarnan fíknum að fjarlægja sig frá nánd í samskiptum. 

Þetta eru nokkur af þeim mynstrum og atriðum sem meðvirkir upplifa og ég hvet þig til að skoða lesandi góður hvort að eitthvað af þessum atriðum eigi við þig og gera þá það sem þarf að gera til að leiðrétta þig og skapa heilbrigðara líf fyrir þig í framhaldinu, það svoleiðis marg borgar sig.

Og eins og ætíð er ég bara einni tímapöntun í burtu ef þú telur að ég geti aðstoðað þig við þín lífsins verkefni.

xoxo

Ykkar Linda

Linda Baldvinsdóttir

Markþjálfi/samskiptaráðgjafi/TRM áfallafræði

linda@manngildi.is


Ó þú sára höfnun

Að finna sig ekki viðurkenndan í samfélaginu eða þeirra sem ættu að elska mann mest sker hjartað á þann hátt sem ekkert annað getur gert.

Að finna að við erum ekki nægjanlega góð eða merkileg fyrir þá sem við afhendum hjarta okkar á silfurfati er sárt, og við finnum hvernig hjarta okkar merst við flóðbylgju höfnunarinnar. 

Höfnunin getur komið frá hverjum sem er, samfélaginu, vinnustaðnum, fjölskyldu, vinum og maka svo fátt eitt sé nefnt, og hvergi er sárara að fá höfnunina en frá þeim sem við bindumst kærleiksböndum með einum eða öðrum hætti.

Þeir sem fundu fyrir höfnun eða voru ekki vissir um sinn sess á unga aldri eru líklega allt sitt líf að leita samþykkis þeirra sem þeir tengjast í lífinu. Við hverja óhjákvæmilega höfnun sem þeir mæta á lífsins leið harðnar líklega hjarta þeirra eða særist meir og meir eða þar til að þeir gefa ekki lengur færi á því að láta særa sig aftur.

Og þá eru þeir komnir á þann stað að hafna þörf sinni fyrir kærleika og umhyggju.

Það er mjög algengt hjá okkur sem ein hafa verið í einhvern tíma að hafa gengið í gegnum nokkrar hafnanir frá hinu kyninu. Hafnanir sem hafa gert það að verkum að sum okkar hafa bara hætt að taka áhættuna á því að elska, og ég held að oft sé það þessi innri ótti við höfnunina sem ráði þar mestu.

Við finnum okkur nefnilega margar flóttaleiðir til að forðast það að líða illa í hjarta okkar. 

  • Aðal flóttaleið okkar í svona aðstæðum og öllum öðrum samskiptum er líklega sú að gefa ekki færi á sér og hætta ekki á höfnunina sem gæti orðið að staðreynd við það eitt að tengjast öðrum aðila á nánum grunni. Því erum við yfirleitt fljót að taka til fótanna þegar okkur finnst samböndin vera orðin of náin.
  • Önnur flóttaleið sem líklegt er að við nýtum okkur er að loka bara hjarta okkar og hleypa engum þar inn, herðast og verða bitur.

Báðar þessar aðferðir eru alveg glataðar og skerða lífsgæði okkar til muna!

  • Í fyrsta lagi þá er það einfaldlega þannig að lífið býður ekki uppá það að allir vilji okkur eða að öllum líki vel við okkur.

Við fáum höfnun - ekkert við því að gera og það segir ekkert um okkur og við ættum aldrei að láta það skilgreina okkur með nokkrum hætti. Sem dæmi skerðir það ekki fegurð né mannkosti Brad Pitt þó að ég veldi frekar að fara á deit með George Clooney en honum! Hann er kannski einfaldlega bara ekki mín týpa hann Brad!

  • Í öðru lagi er það þannig að Þegar við erum í leit að nánum samböndum er það nokkuð ljóst að við þurfum að kyssa nokkuð marga froska áður en við finnum prinsinn eða prinsessuna. Erum við tilbúin til þess að láta nokkrar hafnanir eða froska sem neituðu að verða að prinsum/prinsessum eyðileggja leit okkar að hamingjustundum lífsins í fylgd með réttum aðila? -Aðila sem ber virðingu,kærleika og ást til okkar? Erum við tilbúin að vera ein og yfirgefin um alla tíð vegna nokkurra einstaklinga sem voru ekki að sjá að værum að passa þeim?  

Ef ég tek dæmi af öðrum vettvangi en ástarmálunum þá væri ég hrædd um að heimurinn hefði orðið fátækari ef þeir sem hafa gefið okkur magnaðar sögur og upplifanir hefðu gefist upp á leiðinni vegna hafnana samfélagsins, samstarfsmanna og vina.

  • Vitið þið hversu margir bókaútgefendur höfnuðu sögunni um Harry Potter? Nei þeir voru hvorki fleiri né færri en 12 sem höfðu ekki áhuga á þessari ævintýralegu sögu um ungan galdrastrák þar til að einhver útgefandinn sá eitthvað sem var þess vert að gefa út og allir vita í dag að sú saga fór sigurför um allan heim og skilað ófáum aurum til skapara síns. 

 

  • KFC hefði ekki orðið að veruleika ef Colonel Sanders hefði gefist upp á því að koma uppskriftinni sinni á framfæri en hann ferðaðist um öll Bandaríkin til að skapa sér tækifæri með þessari einu uppskrift, og við vitum flest hvernig sú uppskrift hefur glatt marga maga um víða veröld, þar þurfti þrautsegju og ákveðni fullorðins manns sem neitaði að gefast upp.

 

  • Charles Darwin var orðinn fimmtugur þegar hann loksins fékk viðurkenningu á sínum störfum og kenningum og mér þætti reyndar gaman að vita hversu margar hafnanir hann fékk á leið sinni og hversu margir töldu hann vitfirrtan.

Svona gæti ég haldið áfram að telja upp aðila sem stóðu upp aftur og aftur þrátt fyrir hafnanir og náðu að lokum árangri. 

Þannig að við skulum ekki gefast upp og ekki láta nokkrar hafnanir á leiðinni skilgreina okkur sem persónur eða gerendur í lífinu.

Ég veit að þegar ég hafna þá hafna ég vegna þess að manneskjan, verkefnið, starfið einfaldlega passar mér ekki og segir ekkert annað um það en það að þetta hentar ekki lífi mínu og lífsmynstri - punktur.

Þó að þetta hljómi allt svo einfalt þýðir það ekki að okkur geti ekki liðið illa ef okkur er hafnað af einni eða annarri ástæðu. Við erum víst mannleg og við viljum ekki fá höfnunina því að hún fær okkur stundum til að efast um verðleika okkar, og hver vill þurfa að efast um þá?

Ég veit virði mitt í dag og veit að ég á aðeins skilið það allra besta og ekkert minna en það. Ef mér verður hafnað þá var þessum aðila, vinnustað eða vinskap ekki ætlaður staður í mínu lífi - en ég held hinsvegar göngunni áfram og skapa mér ný tækifæri.

Því að eins og ég held og trúi þá koma aðilar/aðstæður inn í líf okkar með ákveðnum tilgangi fyrir líf okkar (Líka þeir sem hafna okkur). Sumir færa okkur að gjöf erfiða en góða kennslu, aðrir stoppa stutt við og skilja mismikinn lærdóm eftir, og svo eru það demantarnir sem eru með okkur sama hvað á gengur - í gegnum súrt og sætt kenna þeir okkur allt um það góða og göfuga sem finna má í þessu lífi.

Þannig að þökkum fyrir þá sem höfnuðu okkur elskurnar, þeir komu örugglega með dýrmætustu kennsluna og sýndu okkur óöryggi okkar og kenndu okkur fleira gagnlegt sem við þurftum að læra, breyta og bæta.

Munum bara að loka aldrei hjarta okkar - það er einfaldlega ekki í boði að mínu mati ef við viljum eiga farsælt og gjöfult líf.

Því að það sem gefur lífinu gildi sitt er einmitt það að gefa og þiggja ást, vináttu og öll þau kærleiksríku samskipti sem okkur bjóðast á hverjum tíma í lífi okkar og er það sem skapar minningar til að ylja sér við.

Og ég get lofað ykkur því að Þetta gerist ekki í lokuðu hjarta krakkar mínir, heldur í galopnu og tilbúnu hjarta sem er til í að láta streyma frá sér allt það fallega sem þar býr.

Fátt er það sem ég get skilgreint sem meiri fátækt en þá að glata eiginleikanum til þess að geta sýnt það sem býr innst í verund okkar og að fá ekki upplifað gleðina sem fæst með því að gera sig berskjaldaðan og einfaldlega að elska af öllu hjarta.

Elskum, gefum og njótum alla daga í gleði og þakklæti fyrir þá sem ekki höfnuðu okkur og eru til staðar, og ég segi nú bara að lokum eins og hún Oprah vinkona mín.

“Ég vil ekki lengur einhvern sem ekki vill mig.” 

Það sem mér er ætlað í ástum, vináttu og störfum mun koma til mín á réttum tíma og á réttri stundu og ég mun kannast við það í hjarta mínu þegar það birtist.

 

Eins og ætíð er ég bara einni tímapöntun í burtu ef þú þarft aðstoð mína í lífsins verkefnum.

xoxo

Ykkar Linda

Linda Baldvinsdóttir

Samskiptaráðgjafi/Markþjálfi/TRM áfallafræði

linda@manngildi.is

 

 


Ertu meðvirkur í sambandinu þínu?

Ég veit fátt verra en meðvirkni innan parasambanda og kannski í öllum samskiptum manna á milli. Því ákvað ég að setja niður nokkra punkta sem ég hef verið minnt á og hef upplifað sjálf í mínu meðvirknibrölti í gegnum tíðina og ákvað að safna saman nokkrum punktum úr ýmsum áttum sem hjálpuðu mér á sínum tíma við að komast frá þeim stað. Það eru mun fleiri atriði sem hægt væri að tína til, en ég ætla að láta þessi örfáu atriði duga að þessu sinni.

Þú gætir auðveldlega verið meðvirkur í sambandinu þínu og verið í óheilbrigðum samskiptum innan þess ef þú:

  • Ert óhamingjusamur í sambandinu en hræðist hinn valkostinn sem er að fara út úr sambandinu og hefja nýtt líf.
  • Upplifir þig sífellt vera að ganga á eggjaskurni til að styggja ekki maka þinn.
  • Vanrækir þínar eigin þarfir fyrir þeirra þarfir.
  • Vanrækir vini þína og fjölskyldu til að geðjast maka þínum.
  • Sækist eftir samþykki maka þíns.
  • Gagnrýnir þig í gegnum linsu makans og hunsar þitt eigið innsæi.
  • Fórnar miklu til að geðjast maka þínum án þess að það sé nokkuð metið né endurgoldið.
  • Kýst frekar að búa við þetta ófremdarástand í stað þess að vera einn.
  • Bítur í tungu þína og bælir niður þínar eigin tilfinningar (veist kannski ekki heldur hvernig þér líður - þekkir ekki eigin tilfinningar) til þess eins að halda friðinn.
  • Finnur þig ábyrgan fyrir óæskilegri hegðun maka þíns og tekur jafnvel á þig sök vegna einhvers sem makinn gerir af sér.
  • Ferð í vörn þegar aðrir tala um það sem er að gerast í sambandinu þínu.
  • Reynir að bjarga makanum frá sjálfum sér.
  • Finnur til samviskubits þegar þú stendur upp fyrir þér og þínum.
  • Heldur að þú eigir þessa meðferð skilið (jafnvel vegna fyrri mistaka í lífinu)
  • Trúir að enginn annar/önnur vilji þig.
  • Þegar þú lætur blekkjast af samviskubitinu sem sett er á þig þegar maki þinn segir við þig að hann geti ekki lifað án þín, þannig að þú kemur þér ekki út úr sambandinu. (ofbeldishringurinn í sumum tilfellum).
  • Þegar þú rökræðir við manneskju sem er ýmist í hlutverki Dr Jekyll eða Mr Hyde en veist að það mun ekki þýða vegna þess að það gilda engin venjuleg rök þar.
  • Þegar þú veist að þú munt ekki fá lagfæringar á þeim atriðum sem þú sækist eftir vegna þess að það var aldrei inn í mynd hins aðilans sem þó telur þér trú um að svo sé á meðan verið er að hala þér aftur inn í sambandið þegar þú vilt út.
  • Þú lendir á einum af 4 hestamönnum Gottmans eða útásetningum, fyrirlitningu, vörn og steinveggjum/þögn, og þú lætur það viðgangast.
  • Þegar þú setur upp þau mörk sem þú vilt fyrir þitt líf en stendur ekki við þau.

Þetta eru örfá af mörgum atriðum sem geta bent í áttina til meðvirkni þinnar innan sambands og samskipta, og ef þú finnur að þessi atriði eiga við þig taktu þau þá alvarlega og fáðu aðstoð við að vinna á þeim.

Og að lokum gildir gamla máltækið alltaf vel sem segir “betra er autt rúm en illa skipað”


Meðvirkni er dauðans alvara og Lífið er allt of stutt til að verja því með þeim sem bera ekki virðingu fyrir þér eða koma ekki vel fram. Yfirgefðu slíkar aðstæður því það opnast alltaf aðrar dyr, en passaðu uppá að þær dyr innihaldi það sem þú vilt fá inn í líf þitt.

Og ef þú þarft á minni aðstoð að við að takast á við þín lífsins málefni og kannski meðvirkni þá er ég aðeins einni tímapöntun í burtu eins og alltaf.

Þar til næst elskurnar,

xoxo

ykkar Linda

 

Linda Baldvinsdóttir

Markþjálfi/Samskiptaráðgjafi/TRM áfallafræði

linda@manngildi.is

 

 

 


Og verðlaunin hljóta...

Að undanförnu hef ég séð allskonar myndbönd frá verðlaunaafhendingum í hinum ýmsu flokkum og allt gott um það að segja, en hér í þessum litla pistli langar mig að nefna þá sem standa fremstir á mínum verðlaunapalli þegar ég lít yfir svið lífsins.

Flokkarnir eru eftirfarandi og eru veitt verðlaun fyrir eftirtalin atriði;

  • Að fara framúr rúminu á hverjum degi og halda lífinu áfram eftir missi ástvinar.
  • Að taka hverjum degi eins og hann kemur fyrir þrátt fyrir erfið veikindi, jafnvel erfiðar aðgerðir og lyfjagjafir tengdar þeim.
  • Að halda áfram með lífið eftir skilnað - það á einnig við um börnin sem þannig missa öryggi sitt og lífið eins og þau þekkja það.
  • Að horfast í augu við atvinnumissi og eignamissi en gefast þó ekki upp.
  • Að sinna þeim sem veikir eru andlega og eða líkamlega (starfsfólk heilbrigðiskerfisins fær extra verðlaun fyrir alúð sína og þrautseigju þrátt fyrir léleg laun og aðstöðu).
  • Að sinna börnum landsins og kenna þeim á lífið.(foreldrar, ömmur og afar, kennarar á öllum stigum og þorpið allt)
  • Að mæta í skólann eða vinnuna þrátt fyrir ofbeldi sem felst í athugasemdum um útlit, persónu eða getu(Einelti).
  • Að þola einmannaleika og félagslega einangrun sem okkar nútímasamfélag býður stundum uppá.
  • Að taka líf sitt í gegn á hinum ýmsu sviðum og umbreyta því til hins betra.
  • Að bíta á jaxlinn og biðja um hjálp eða aðstoð þegar þess er þörf.
  • Að standa með sér og leyfa ekki annað en góða framkomu gagnvart sér.
  • Að halda áfram af þrautseigju að koma þekkingu og færni á framfæri þrátt fyrir mörg nei á leiðinni.
  • Að sinna og halda saman stórfjölskyldunni.
  • Að létta þeim lífið sem erfitt eiga með því að útvega það sem vantar.
  • Að láta sér annt um jörðina og samfélag okkar allra og sitja ekki aðgerðalaus hjá.
  • Að fara gegn fjöldanum eða pöpulismanum og segja það sem segja þarf til að samfélag okkar verði betra.
  • Að vera óöruggur og veikur aldraður einbúi sem fær ekki inni á stofnun þrátt fyrir eindreginn vilja þar að lútandi en gera þó sitt besta til að lifa af og bjarga sér.
  • Að samþykkja einstaklinga þó að þeir eigi sér ólíkan menningargrunn,lífssýn og sögu, og fyrir að mæta þeim á jöfnum grunni.
  • Að leggja líf sitt og limi í hættu til að bjarga öðrum.
  • Að takast á við ellikerlingu og dauðann af æðruleysi.
  • Að vera góð manneskja og sýna vinsemd og virðingu.
  • Að....

Þetta eru þeir einstaklingar sem á mínum verðlaunapalli standa og fá virtual Linduverðlaunin í ár og öll hin árin einnig.

Öllum öðrum hvunndagshetjum þessa lands (ég er nefnilega örugglega að gleyma einhverjum) óska ég einnig innilega til hamingju, þið eruð allan tímann tilnefndir sigurvegarar og standið í fremstu röð manna í mínum huga.

Takk fyrir ómetanlegt framlag ykkar og kennslu.

xoxo

Ykkar Linda

Linda Baldvinsdóttir

Markþjálfi, Samskiptaráðgjafi, TRM áfallafræði

linda@manngildi.is

 

 

 

 


Nokkur atriði sem einkenna þá sem alast upp án kærleika

Það er sagt að við séum á aðal mótunarskeiði okkar frá fæðingu til 6 - 8 ára aldurs og að skilgreiningar okkar á okkur og umhverfi okkar verði til þar. Í raun getum við talað um að forritun eigi sér stað á þeim tíma og án nokkurrar gagnrýni tökum við inn á þessum árum þær skilgreiningar sem mótaðar eru þar af foreldrum okkar og samfélagi og erum að eiga við þær alla ævina ef ekkert er að gert í þeim málum.

Það eru nokkrar skilgreiningar til á því sem við er að eiga hjá þeim sem hafa alist upp í vanvirkum aðstæðum eða kærleiksleysi og ætla ég að telja upp nokkrar þeirra hér en grein þessi er byggð á upplýsingum frá Peg Streep sem hefur skrifað bækur um þessi málefni en þekktust þeirra er líklega Daughter Detox: Recovering from an Unloving Mother and Reclaiming Your Life and The Daughter Detox Question & Answer Book.

  • Skortur á sjálfstrausti.

Sá sem elst upp við ástleysi eða hafa alist upp í vanvirkum aðstæðum upplifa sig oft ekki eiga rétt á kærleika og athygli. Þau börn sem í slíkum aðstæðum lenda upplifa sig allt of oft vera týnda barnið sem ekki er hlustað á eða lítið talað við fyrir utan beinar skipanir og útásetningar. Alla ævina eru þessir einstaklingar að sanna fyrir heiminum og líklega sjálfum sér að þeir eigi tilverurétt og leita því samþykkis annarra fyrir því. En líklega er þó alltaf lítil rödd í höfði þeirra sem segir við þau " hvað ert þú eiginlega að vilja upp á dekk"?

Oft upplifir sá sem kærleikann skorti að það sé engu að treysta og trúa í raun ekki á skilyrðislausa vináttu eða kærleika og eiga erfitt með náin samskipti og það að setja mörk inn í þau. Þessir einstaklingar þurfa stöðuglega að fá vitneskju um að þeir geti treyst á þig og að þú sért ekki að fara neitt, þeir trúa því vart að þú viljir vera vinur þeirra í raun og veru. 

  • Eiga erfitt með að setja heilbrigð mörk í samskipti sín

Allt of oft reyna þessir aðilar að geðjast foreldrum sínum og þeim sem þeir eru í samskiptum við vegna tilfinningalegrar fjarveru foreldranna í æsku. Þeir hræðast oft tilfinningalega nánd og verða því oftar en ekki í hlutverki þess sem hafnar eða þess sem er of hræddur til að mynda tengsl (skuldbindingafóbía). Vegna þóknunarmynsturs sem þeir flækjast í vegna þarfar sinnar á því að geðjast þeim sem þeir eru í samskiptum við eiga þeir erfitt með að setja heilbrigð mörk sem byggja upp tilfinningaleg og stöðug samskipti. Oft finnst þessum sömu aðilum þeir verða að þjónustufólki fyrir aðra, geri of mikið fyrir þá og verða síðan mjög óánægðir með að fá ekki þakkir og aðdáun fyrir allt sem þeir gera. Einnig geta þessir aðilar verið mjög viðkvæmir og háðir td maka sínum og láta sjálfa sig víkja með tilheyrandi markaleysi.

  • Eiga erfitt með að meta sjálfa sig á réttan hátt

Oft var skortur á viðurkenningu og hrósi í uppeldinu hjá þessum aðilum en hins vegar fengu þeir nóg af skömmum og útásetningum, voru semsagt aldrei nægjanlega góðir. Það getur orðið til þess að þeir reyna sjaldan til fulls að ná í það sem þeir vilja heldur hopa frá því þar sem það gefur auðvitað augaleið að þeir eru ekki nægjanlega góðir til að eiga það skilið. Þetta viðhorf getur orðið svo rótgróið að það hamlar allri framför og því að sækja drauma sína.

Hræðslan við að lenda í óæskilegu sambandi verður hvatning til forðunar í stað þess að sækja fram og treysta á að sambönd og samskipti geti orðið í lagi. Á yfirborðinu lítur út fyrir að þessir aðilar vilji td finna sér maka en undir niðri er það alls ekki raunin því að forðunin er allsráðandi þar. Hræðslan við sársauka verður allri löngun yfirsterkari. 

  • Viðkvæmni

Þeir sem fengu ekki kærleika í æsku gætu verið viðkvæmir fyrir gagnrýni og útásetningum og eiga erfitt með að beita réttum viðbrögðum á þeim stundum. Þessir aðilar eiga það til að ofhugsa hlutina og velta þeim fyrir sér í langan tíma og jafnvel minnsta athugasemd í vinnu eða einkalífi getur valdið þeim andvökunóttum. 

  • Leita að mömmu eða pabba í samskiptum sínum

Mynstrin sem við myndum í æsku eru ótrúlega sterk og þó að okkur hafi ekki liðið vel í kærleiksleysinu þá leitum við uppi fólk sem sýnir okkur nákvæmlega það sama og við vorum alin upp við og það á reyndar við um okkur öll, líka þá sem fengu kærleika. En þar sem óheilbrigðið hefur mótað einstaklinginn þá því miður er stórhættulegt fyrir hann að festa sig við mynstur sem honum finnast svo þægilega kunnugleg (finnst eins og ég hafi alltaf þekkt hann/hana) þannig að ef þér finnst eins og þið hafið alltaf þekkst þá skaltu stoppa við og spyrja þig hvort að það geti verið að þú sért að kannast við gömul vond mynstur eða gömul góð mynstur í fari viðkomandi. 

Munum bara elskurnar að fátt er svo rótgróið að vonlaust sé að breyta því, þannig að ef þú upplifir þig á þessum stöðum eða með þær skilgreiningar sem ég tala um hér þá er ekkert annað en að fá aðstoð við að skoða hvernig breyta má þeim til hins betra. Just go for it!

Og ef ég get aðstoðað þig á leiðinni þá er ég bara einni tímapöntun í burtu.

xoxo

Ykkar Linda

Linda Baldvinsdóttir

Markþjálfi, Samskiptaráðgjafi, TRM áfallafræði 1 og 2.

linda@manngildi.is


Nýtt ár - nýtt upphaf

Nú árið er liðið í aldanna skaut og aldrei það kemur til baka“ eða eins og stóð á jólakortinu sem dóttir mín sendi mér "Glad this fucking year is over, Merry Christmas" 

Gæti ekki verið meira sammála því sem þarna stóð hvað þetta ár varðar og er afar glöð að kveðja ár sem hefur einkennst af dansi byrjana, endaloka, lífs og dauða í mínu lífi. 

Árið reyndist mér erfitt á margan hátt og margt sem skildi mig eftir vonsvikna,dapra og trúlausari á mennina og eins á kerfið okkar og þjóðfélag. Líklega er það þó þannig að tannhjól tímans þarf að smyrja reglulega með blóði,svita og tárum svo að það snúist af stað inn í góða tíma og mitt hjól og þjóðarinnar allrar er vonandi orðið vel smurt fyrir glimmerstundir næsta árs. 

Ég er engu að síður þakklát fyrir ýmislegt sem gerðist á árinu 2019 og líklega er ég þakklátust fyrir að árið hafi opnað augu mín fyrir mörgu sem ég gerði mér ekki grein fyrir áður, segi eins og Maya Angelou sagði, "þegar lífið er erfitt og þú er við það að bugast segðu þá takk" og ég segi bara takk fyrir mig og alla þá kennslu sem ég fékk þetta árið.

Hjarta mitt stækkaði um tvö númer þegar ég fékk tvo litla ömmustráka sem fæddust á fyrstu mánuðum ársins og fyrir þá er ég svo sannarlega þakklát. Svo er ég svo óendanlega þakklát þeim sem studdu mig það hálfa ár sem rændi mig allri orku og fyllti mig sorg. Sannkallaðir vinir sem gáfu vinnu sína og jafnvel fjármuni til að styrkja mig og létta mér þessa göngu, lögðu á sig ferðalög utan af landi til að mæta til kirkju þegar móðir mín var jarðsett, útbjuggu blómaskreytingar,veitingar og fleira. Barmafullt hjarta af þakklæti á ég til þeirra.

Börnin mín stóðu sig eins og hetjur á erfiðleikastundunum og hafa sjaldan gert mig jafn stolta vegna þess undraefnis sem þau eru gerð úr, og svo eiga þau þennan undurfagra kærleika sem þau sýndu í miklu magni, stoltmamma.is.

það kemur einhvernvegin svo innilega í ljós á svona tíma hverjir eru til staðar og hverjir láta sig hverfa þegar gleðin yfirgefur húsið,og það kemur líka vel í ljós hverjir gera bara það sem gera þarf og það segir einhver spekingurinn að sé hið fullkomna form samkenndar.

Þegar heilbrigðiskerfið brást illilega og ekki var pláss fyrir hrædda gamla dauðvona konu þar (minnir á gistihúsið í Betlehem) tóku dóttir mín og tengdasonur móður mína inn á heimili sitt og fórnuðu þannig hluta af fæðingarorlofinu sínu -þar sönnuðu þau fyrir mér mikilvægi "þorpsins" en ekki kerfisins.

Við andlát mömmu fékk ég svo nýtt og ábyrgðafullt hlutverk sem höfuð fjölskyldunnar og mun gera mitt besta til að sinna því vel. 

Í dag geri ég mér betur grein fyrir því að afkomendur mínir eru samfélagið sem ég mun ætíð hafa í fyrsta sæti, enda það hlutverk sem almættið gaf mér og bað mig um að sinna af alúð. Þar á eftir koma vinirnir því að mikilvægt er að sinna þeim einnig vel.

Á þessum tímamótum lífs og dauða fann ég svo sterkt fyrir því hversu stutt er á milli heima og ég gat nánast snert á eilífðinni, skynjaði vel hvernig þessi þunna hula á milli heima varð að engu, en gerði mér á sama tíma grein fyrir því hversu dýrmæt þessi gjöf  lífsins anda er, og hversu vel við ættum að huga að þeirri gjöf, (hver andardráttur er þannig til áminningar um gildi lífsins).

Þetta tímabil fékk mig einnig til að hugsa um hvað það væri sem raunverulega skipti einhverju í stóra samhenginu og fann að eins og áður verð ég að velja þar í fyrsta sæti gefandi og góð samskipti og velti því fyrir mér hvort við séum að gera okkur nægjanlega vel grein fyrir því að við erum öll eitt, þín velgengni og hamingja byggist á mér og mín á þér, eða upplifum við okkur kannski enn í dag sem aðskilin frá heildinni?

Þar held ég raunar að stóra blekkingin okkar liggi, vísindin og trúarrit segja okkur að við séum ofin úr sama efni og alheimur allur eða efnisleysinu (orku - anda). Erum semsagt eitt í einni veröld, ekkert sem getur skilið okkur frá, greinar á sama stofni og allt sem við gerum okkar minnstu bræðrum hefur sínar afleiðingar á heildina og þar með á okkur sjálf. Þetta hafa allir mestu meistarar heimsins sagt okkur frá örófi alda og flest höfum við heyrt um lögmál sáningar og uppskeru eða karmað. Hvet okkur á þessu nýja ári að hugsa svolítið um þetta.

Ég hef áður talað um að við erum ekki að gera góða hluti með upplausn fjölskyldunnar og samfélagi þar sem allir búa einir án afskipta þorpsins og ég held satt besta að segja að við þurfum jafnvel að hafa meiri áhyggjur af þeirri þróun en menguninni sem hlýst af flugferðum okkar og gætum hugað að því að hafa jafn hátt um það og loftslagsmálin.

Og ég hef einnig talað um að við ættum að lifa því lífi sem við finnum í hjarta okkar að okkur var ætlað og ættum ekki að láta stjórnsemi þeirra sem vilja hafa okkur eins og strengjabrúður í boxi hafa áhrif á þau hlutverk okkar. Hvert og eitt okkar skiptir máli og við ættum að huga að heildinni með því sem við finnum í hjarta okkar að er okkar hlutverk í lífinu, það er alltaf farsælast. Hugsum einnig betur um gamla fólkið okkar og börnin, þau þarfnast ástar, umhyggju, staðfestu, öryggis og hlutverka frá heildinni. 

Ég trúi að það sé mikilvægt fyrir okkur að leika okkur og að gleðjast, því að þetta líf líður svo ógnarhratt svo sköpum glimmerstundir.

Ég trúi að það sé nauðsynlegt að tengjast náttúrunni og anda henni að sér til að skilja eðli lífsins. Að horfa á og upplifa náttúruna gefur okkur tengingu við allt sem er og hvergi hef ég betur séð mátt skilyrðislauss kærleika en þar. Allt lifir þar í jafnvægi og einingu óhæð öllu en þó svo háð öllu á sama tíma, allt hefur sitt sértaka hlutverk og þar verður td allt grænna og gróðursælla eftir erfiðleikatímabil eldgosa og flóða.

Við gætum lært ýmislegt af þeim kærleika og samstöðu sem þar er sýnileg í stað þess að eyða tíma okkar í útásetningar,aðgreiningu og stjórnsemi sem virðist vera okkur samt svo tamt að nota frekar þó að það síðan aðgreini okkur þannig að við náum ekki fram þeim málum sem við þó viljum svo gjarnan fá fram sem heild.

Núna lengist dagurinn um nokkrar mínútur frá degi til dags og við fögnum ljósinu sem færir okkur nær sumri. Gleymum ekki að við erum ljós í heiminum og þurfum að vernda það ljós og þann anda sem við fengum í vöggugjöf.

Það þýðir að við þurfum stundum að ganga í burtu frá þeim sem vilja slökkva það ljós svo vöndum val okkar á þeim sem við umgöngumst og gerum að áhrifavöldum í lífum okkar. 

Heitum okkur því á þessu nýja ári að njóta þess að fá að vera hér, að elska eins og enginn sé morgundagurinn, að gefa og þiggja, að hrósa, að hlusta og þakka fyrir allt það góða sem okkur gefst, þökkum einnig fyrir lærdóm tímabilanna sem okkur finnast ekki svo góð en breyta okkur þó og þroska.

Á þessu herrans ári 2020 ætla ég að hugsa vel um það líf sem mér var gefið til anda sálar og líkama og ég ætla að elska og upplifa kærleika. Ég ætla að lifa lífinu á minn hátt en ekki láta að stjórn annarra þar. Ég ætla að blessa og þakka, færa lífinu lof fyrir hvern dag sem ég fæ og vonandi næ ég að fagna því að fylla sex áratugi hér á þessari dásamlegu jörð okkar í lok ársins.

Óska ykkur öllum farsældar,heilsu,hamingju,ástar og glimmerstunda í bunkum árið 2020 og mættu allar ykkar óskir rætast. 

Hjarta mitt er barmafullt af þakklæti og kærleika til ykkar lesendur góðir. Takk fyrir samfylgd ársins 2019.

Segjum takk við árið 2020 hvað sem það kann að færa okkur,

Xoxo

Ykkar Linda

 


Jólahugleiðing

Á þessum tíma árs fer hugur minn aftur í tímann og ég ylja mér við minningar frá jólum barnsæskunnar og eins þegar ég var sjálf með fjölskyldu sem ég útbjó jólin fyrir.

Aldrei hafa þó kviknað jafn margar minningar hjá mér og fyrir þessi jól og bernskan stendur mér ljóslifandi fyrir augum með öllum þeim jóladásemdum sem barnshugurinn upplifði enda eru þetta fyrstu jólin þar sem ég hef hvorki mömmu eða pabba með mér þar. Ljúfsár sorgin og söknuðurinn færir mér minningar sem ég hafði ekki hugsað um árum saman og mér þykir afar vænt um þær allar. 

Baksturinn fyrir jólin er mér hugstæður því að hann gaf okkur mömmu svo mikinn tíma saman þó að mér fyndist ekki alltaf gaman að þurfa að smyrja kreminu á mömmukökurnar og draumadísirnar, merkilegt hvað þær minningar gefa mér þó mikið í dag.

Lyktin af rauðkálinu sem mamma sauð alltaf á Þorláksmessu og ég gerði síðan einnig sjálf eftir að ég stofnaði heimili, skötulyktin sem mér fannst svo hræðileg en þeim foreldrum mínum þótti nauðsynlegur þáttur jólanna. Silfurpússning, skápaþrif og önnur stærri þrif voru einnig partur af jólaundirbúningnum og í dag minnist ég þeirra með væntumþykju þó að ég hafi nú ekki alltaf verið hrifin af stússinu í mömmu fyrir þessi blessuðu jól, hélt þó síðan sjálf í þessar hefðir á mínu heimili börnunum mínum til jafnvel enn meiri ama en mér forðum. 

Ég man líka eftir þessum örfáu ljósaseríum sem til voru, svolítið örðuvísi þá en í dag þar sem allt flóir í jólaljósum,og ég minnist sérlega forláta seríu sem var blómum skreytt og dugði í marga áratugi með reglulegum peruskiptingum. Eins man ég þegar ég fékk að kaupa mér mína eigin ljósaseríu í herbergið mitt, seríu sem ég átti alveg ein þegar ég var líklega tíu eða ellefu ára! - það voru ótrúleg verðmætt fyrir stelpuskottið.

Jólaskreytingarnar voru aldrei settar upp fyrr en 22 eða 23 desember og jólatréð var ekki skreytt fyrr en að öllu stússi var lokið á Þorlákinum og ég man hvað ég naut þess að skreyta það og eins alla þá pakka sem gefnir voru. Stjarnan sett síðust á toppinn á trénu og þá gátu jólin komið. Dásamlegir tímar að minnast.

Sama rútína var hjá mér þegar börnin mín ólust upp og þá var líklega enn meira stúss og enn meira um að vera, fleiri smákökusortir bakaðar og þrifin enn umfangsmeiri. þessi aðventutími og þær fallegu tilfinningar sem hann skapaði í hjarta mér eru mér þó svo ómetanlegar.Að geta sótt í þær á þessum tíma aðventunnar er svo gott, því að eins og við vitum mörg þá er þessi tími líka svo óskaplega erfiður fyrir svo allt of marga.

Þeir sem hafa misst ástvini, heilsu, atvinnu eða hafa skilið við maka sinn á árinu eða eru einir án fjölskyldu vita að þessi tími getur verið svo sársaukafullur og angurvær. 

Fyrir þá sem hafa gengið í gegnum missi af öllu tagi á árinu eru jólin oft ákaflega erfið og fyrir þá sem hafa lítið á milli handanna er þessi tími einnig oft mjjög fyrirkvíðanlegur.

Við höfum farið svo yfir strikið sem ríkmannleg þjóð og kaupæðið hefur gert það að verkum að þeir sem lítið hafa finna sig svo vanmáttuga gagnvart öllum krásunum sem ætlast er til að hægt sé að veita í mat og gjöfum. Þeir vita að þeir geta með engum hætti boðið börnum sínum allar þær rándýru gjafir sem auglýstar eru af kappi á þessum árstíma og sporin eru þung að sækja sér þá hjálp sem er í boði til að hægt sé að veita þó eitthvað. 

Þeir sem búa einir og hafa fáa eða enga í kringum sig eiga einnig oft erfitt á þessum tíma því að einmannaleikinn verður aldrei eins raunverulegur og á þessum dimma tíma gleðinnar og samverunnar hér á landi. 

Ég hef sjálf fundið fyrir einmannaleika og sorg á þessum árstíma og finn mig stundum vanmáttuga fjárhagslega,langar svo oft að gefa meira en ég get, og í ár finn ég einnig fyrir sorg vegna missis á árinu.

Mig langar í lokin að fá deila með ykkur hvað hefur reynst mér sjálfri best á þessum árstíma þegar einmannaleikinn og aðrar ekki svo góðar tilfinningar herja á hvað mest, og langar að fá að deila þeim ráðum með ykkur ef þau gætu gagnast einhverjum á erfiðri aðventu.

Hér koma þessi ráð mín svo:

  1. Að fara í minningabankann og þakka fyrir það fallega sem þar má finna er svo dýrmætt, því að það er ekki sjálfsagt að eiga góðar og fallegar minningar.
  2. Að gera skemmtilega hluti með þeim sem okkur þykir vænt um, hluti sem kosta ekki hálfan  handlegginn.
  3. Jólatréð á Austurvelli er alltaf þess virði að skoða og baða sig í birtu þess, að ganga niður Laugaveginn með öllum þeim asa sem þar má finna, baka smákökur og fylla húsið af kökuilmi, skreyta piparkökur og hlusta á jólalögin, fara á skauta eða baka vöfflur og búa til kakó með fjölskyldu og vinum.
  4. Bjóða í jólapálínuboð er alltaf gaman og gefur okkur ómetanlega samveru.
  5. Að föndra eitthvað skemmtilegt fyrir jólin.
  6. Að fara á kaffihús með vinum, tónleika og rápa í messur sem fullar eru af söng á þessum árstíma og fara svo heim og pakka inn jólagjöfum.
  7. Að hlusta á jólatónlist og kveikja á kertum ásamt því að hugleiða á það góða sem er í lífi okkar og heiminum öllum.
  8. Að húsvitja og skoða jólin hjá þeim sem í kringum okkur eru og smakka smákökurnar þeirra.
  9. Að senda kærleiksríkar kveðjur til fólks - jafnvel fólks sem þú þekkir lítið, við vitum aldrei hversu mikið það getur gefið þeim sem þiggur.
  10. Að leyfa okkur að finna í hjartanu þær fallegu tilfinningar sem fylgja jólunum og gleðjast með þeim sem glaðir eru, syrgja með syrgjendum og styðja þá sem þurfa stuðning á svo margan hátt er partur af þessum tíma og aldrei er of mikið gefið af sjálfum sér. Og svo að lokum -
  11. Að minnast látinna ástvina með því að eiga stund með þeim í kirkjugarðinum, helst með öllum þeim sem þeim tilheyrðu bara til að þakka fyrir þann tíma sem við fengum með þessum dýrmætu englum sem nú vaka yfir okkur.

Þetta eru örfá ráð sem gætu mögulega gert aðventuna ánægjulega þrátt fyrir erfiðar aðstæður en ekki vegna þess að aðstæðurnar séu svo glimrandi góðar.

Þau hafa gagnast mér í gegnum árin - en stundum þarf ég að hafa fyrir því að fara eftir þeim sjálf og það tekur mig smá tíma að koma mér í þennan gír, en þegar ég kemst þangað virkar þetta nægjanlega vel fyrir mig til að ég finni fyrir anda jólanna og ég vona að þessi litlu ráð geti hjálpað þér að finna jólandann þrátt fyrir en ekki vegna.

Ykkur sem eruð ein án fjölskyldu og vina hvet ég til að taka þátt í starfi stofnana sem gefa gleði og styrk þeim sem þurfa á að halda. Stofnanir eins og t.d Samhjálp, Rauði Krossinn og kirkjustarfið í hverfinu þínu þurfa liðsinnis þíns við á þessum tíma til að gleðja þá sem minna mega sín, og það er fátt sem gefur okkur meira af góðum tilfinningum en það að gefa af okkur.

Og til ykkar sem hafið misst part af ykkar lífi eða kæra ástvini á árinu sendi ég mína samkennd og hugheilar samúðarkveðjur,og bið ykkur blessunar og styrks á göngu ykkar með sorginni og öðrum þeim erfiðu tilfinningum sem þið eruð að upplifa.

Minningarnar lifa og gleðja okkur í sorginni og ef ég tala nú bara fyrir mig þá er ljúfsárt að horfa á þær góðu sem safnast hafa saman í gegnum árin og þakka fyrir þær - með því móti finn ég kærleiksríkan anda hátíðarinnar og friðinn sem sá andi gefur.

Að endingu óska ég ykkur öllum gleðilegrar jólahátíðar og bið að hátíð ljóssins færi okkur frið sinn,gleði og kærleiksríka einingu.

xoxo

Ykkar Linda

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Linda Baldvinsdóttir

Höfundur

Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • ..._s4i6862_2
  • ...0eaf470d6_2
  • ...98009927331
  • pistill mynd
  • 15608665 10210640975833107 554134899 o

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband