21.1.2020 | 22:48
Og verðlaunin hljóta...
Að undanförnu hef ég séð allskonar myndbönd frá verðlaunaafhendingum í hinum ýmsu flokkum og allt gott um það að segja, en hér í þessum litla pistli langar mig að nefna þá sem standa fremstir á mínum verðlaunapalli þegar ég lít yfir svið lífsins.
Flokkarnir eru eftirfarandi og eru veitt verðlaun fyrir eftirtalin atriði;
- Að fara framúr rúminu á hverjum degi og halda lífinu áfram eftir missi ástvinar.
- Að taka hverjum degi eins og hann kemur fyrir þrátt fyrir erfið veikindi, jafnvel erfiðar aðgerðir og lyfjagjafir tengdar þeim.
- Að halda áfram með lífið eftir skilnað - það á einnig við um börnin sem þannig missa öryggi sitt og lífið eins og þau þekkja það.
- Að horfast í augu við atvinnumissi og eignamissi en gefast þó ekki upp.
- Að sinna þeim sem veikir eru andlega og eða líkamlega (starfsfólk heilbrigðiskerfisins fær extra verðlaun fyrir alúð sína og þrautseigju þrátt fyrir léleg laun og aðstöðu).
- Að sinna börnum landsins og kenna þeim á lífið.(foreldrar, ömmur og afar, kennarar á öllum stigum og þorpið allt)
- Að mæta í skólann eða vinnuna þrátt fyrir ofbeldi sem felst í athugasemdum um útlit, persónu eða getu(Einelti).
- Að þola einmannaleika og félagslega einangrun sem okkar nútímasamfélag býður stundum uppá.
- Að taka líf sitt í gegn á hinum ýmsu sviðum og umbreyta því til hins betra.
- Að bíta á jaxlinn og biðja um hjálp eða aðstoð þegar þess er þörf.
- Að standa með sér og leyfa ekki annað en góða framkomu gagnvart sér.
- Að halda áfram af þrautseigju að koma þekkingu og færni á framfæri þrátt fyrir mörg nei á leiðinni.
- Að sinna og halda saman stórfjölskyldunni.
- Að létta þeim lífið sem erfitt eiga með því að útvega það sem vantar.
- Að láta sér annt um jörðina og samfélag okkar allra og sitja ekki aðgerðalaus hjá.
- Að fara gegn fjöldanum eða pöpulismanum og segja það sem segja þarf til að samfélag okkar verði betra.
- Að vera óöruggur og veikur aldraður einbúi sem fær ekki inni á stofnun þrátt fyrir eindreginn vilja þar að lútandi en gera þó sitt besta til að lifa af og bjarga sér.
- Að samþykkja einstaklinga þó að þeir eigi sér ólíkan menningargrunn,lífssýn og sögu, og fyrir að mæta þeim á jöfnum grunni.
- Að leggja líf sitt og limi í hættu til að bjarga öðrum.
- Að takast á við ellikerlingu og dauðann af æðruleysi.
- Að vera góð manneskja og sýna vinsemd og virðingu.
- Að....
Þetta eru þeir einstaklingar sem á mínum verðlaunapalli standa og fá virtual Linduverðlaunin í ár og öll hin árin einnig.
Öllum öðrum hvunndagshetjum þessa lands (ég er nefnilega örugglega að gleyma einhverjum) óska ég einnig innilega til hamingju, þið eruð allan tímann tilnefndir sigurvegarar og standið í fremstu röð manna í mínum huga.
Takk fyrir ómetanlegt framlag ykkar og kennslu.
xoxo
Ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
Markþjálfi, Samskiptaráðgjafi, TRM áfallafræði
linda@manngildi.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.1.2020 | 11:41
Nokkur atriði sem einkenna þá sem alast upp án kærleika
Það er sagt að við séum á aðal mótunarskeiði okkar frá fæðingu til 6 - 8 ára aldurs og að skilgreiningar okkar á okkur og umhverfi okkar verði til þar. Í raun getum við talað um að forritun eigi sér stað á þeim tíma og án nokkurrar gagnrýni tökum við inn á þessum árum þær skilgreiningar sem mótaðar eru þar af foreldrum okkar og samfélagi og erum að eiga við þær alla ævina ef ekkert er að gert í þeim málum.
Það eru nokkrar skilgreiningar til á því sem við er að eiga hjá þeim sem hafa alist upp í vanvirkum aðstæðum eða kærleiksleysi og ætla ég að telja upp nokkrar þeirra hér en grein þessi er byggð á upplýsingum frá Peg Streep sem hefur skrifað bækur um þessi málefni en þekktust þeirra er líklega Daughter Detox: Recovering from an Unloving Mother and Reclaiming Your Life and The Daughter Detox Question & Answer Book.
- Skortur á sjálfstrausti.
Sá sem elst upp við ástleysi eða hafa alist upp í vanvirkum aðstæðum upplifa sig oft ekki eiga rétt á kærleika og athygli. Þau börn sem í slíkum aðstæðum lenda upplifa sig allt of oft vera týnda barnið sem ekki er hlustað á eða lítið talað við fyrir utan beinar skipanir og útásetningar. Alla ævina eru þessir einstaklingar að sanna fyrir heiminum og líklega sjálfum sér að þeir eigi tilverurétt og leita því samþykkis annarra fyrir því. En líklega er þó alltaf lítil rödd í höfði þeirra sem segir við þau " hvað ert þú eiginlega að vilja upp á dekk"?
- Skortur á trausti.
Oft upplifir sá sem kærleikann skorti að það sé engu að treysta og trúa í raun ekki á skilyrðislausa vináttu eða kærleika og eiga erfitt með náin samskipti og það að setja mörk inn í þau. Þessir einstaklingar þurfa stöðuglega að fá vitneskju um að þeir geti treyst á þig og að þú sért ekki að fara neitt, þeir trúa því vart að þú viljir vera vinur þeirra í raun og veru.
- Eiga erfitt með að setja heilbrigð mörk í samskipti sín
Allt of oft reyna þessir aðilar að geðjast foreldrum sínum og þeim sem þeir eru í samskiptum við vegna tilfinningalegrar fjarveru foreldranna í æsku. Þeir hræðast oft tilfinningalega nánd og verða því oftar en ekki í hlutverki þess sem hafnar eða þess sem er of hræddur til að mynda tengsl (skuldbindingafóbía). Vegna þóknunarmynsturs sem þeir flækjast í vegna þarfar sinnar á því að geðjast þeim sem þeir eru í samskiptum við eiga þeir erfitt með að setja heilbrigð mörk sem byggja upp tilfinningaleg og stöðug samskipti. Oft finnst þessum sömu aðilum þeir verða að þjónustufólki fyrir aðra, geri of mikið fyrir þá og verða síðan mjög óánægðir með að fá ekki þakkir og aðdáun fyrir allt sem þeir gera. Einnig geta þessir aðilar verið mjög viðkvæmir og háðir td maka sínum og láta sjálfa sig víkja með tilheyrandi markaleysi.
- Eiga erfitt með að meta sjálfa sig á réttan hátt
Oft var skortur á viðurkenningu og hrósi í uppeldinu hjá þessum aðilum en hins vegar fengu þeir nóg af skömmum og útásetningum, voru semsagt aldrei nægjanlega góðir. Það getur orðið til þess að þeir reyna sjaldan til fulls að ná í það sem þeir vilja heldur hopa frá því þar sem það gefur auðvitað augaleið að þeir eru ekki nægjanlega góðir til að eiga það skilið. Þetta viðhorf getur orðið svo rótgróið að það hamlar allri framför og því að sækja drauma sína.
- Mastera forðun í samskiptum
Hræðslan við að lenda í óæskilegu sambandi verður hvatning til forðunar í stað þess að sækja fram og treysta á að sambönd og samskipti geti orðið í lagi. Á yfirborðinu lítur út fyrir að þessir aðilar vilji td finna sér maka en undir niðri er það alls ekki raunin því að forðunin er allsráðandi þar. Hræðslan við sársauka verður allri löngun yfirsterkari.
- Viðkvæmni
Þeir sem fengu ekki kærleika í æsku gætu verið viðkvæmir fyrir gagnrýni og útásetningum og eiga erfitt með að beita réttum viðbrögðum á þeim stundum. Þessir aðilar eiga það til að ofhugsa hlutina og velta þeim fyrir sér í langan tíma og jafnvel minnsta athugasemd í vinnu eða einkalífi getur valdið þeim andvökunóttum.
- Leita að mömmu eða pabba í samskiptum sínum
Mynstrin sem við myndum í æsku eru ótrúlega sterk og þó að okkur hafi ekki liðið vel í kærleiksleysinu þá leitum við uppi fólk sem sýnir okkur nákvæmlega það sama og við vorum alin upp við og það á reyndar við um okkur öll, líka þá sem fengu kærleika. En þar sem óheilbrigðið hefur mótað einstaklinginn þá því miður er stórhættulegt fyrir hann að festa sig við mynstur sem honum finnast svo þægilega kunnugleg (finnst eins og ég hafi alltaf þekkt hann/hana) þannig að ef þér finnst eins og þið hafið alltaf þekkst þá skaltu stoppa við og spyrja þig hvort að það geti verið að þú sért að kannast við gömul vond mynstur eða gömul góð mynstur í fari viðkomandi.
Munum bara elskurnar að fátt er svo rótgróið að vonlaust sé að breyta því, þannig að ef þú upplifir þig á þessum stöðum eða með þær skilgreiningar sem ég tala um hér þá er ekkert annað en að fá aðstoð við að skoða hvernig breyta má þeim til hins betra. Just go for it!
Og ef ég get aðstoðað þig á leiðinni þá er ég bara einni tímapöntun í burtu.
xoxo
Ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
Markþjálfi, Samskiptaráðgjafi, TRM áfallafræði 1 og 2.
linda@manngildi.is
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.12.2019 | 11:57
Nýtt ár - nýtt upphaf
Nú árið er liðið í aldanna skaut og aldrei það kemur til baka eða eins og stóð á jólakortinu sem dóttir mín sendi mér "Glad this fucking year is over, Merry Christmas"
Gæti ekki verið meira sammála því sem þarna stóð hvað þetta ár varðar og er afar glöð að kveðja ár sem hefur einkennst af dansi byrjana, endaloka, lífs og dauða í mínu lífi.
Árið reyndist mér erfitt á margan hátt og margt sem skildi mig eftir vonsvikna,dapra og trúlausari á mennina og eins á kerfið okkar og þjóðfélag. Líklega er það þó þannig að tannhjól tímans þarf að smyrja reglulega með blóði,svita og tárum svo að það snúist af stað inn í góða tíma og mitt hjól og þjóðarinnar allrar er vonandi orðið vel smurt fyrir glimmerstundir næsta árs.
Ég er engu að síður þakklát fyrir ýmislegt sem gerðist á árinu 2019 og líklega er ég þakklátust fyrir að árið hafi opnað augu mín fyrir mörgu sem ég gerði mér ekki grein fyrir áður, segi eins og Maya Angelou sagði, "þegar lífið er erfitt og þú er við það að bugast segðu þá takk" og ég segi bara takk fyrir mig og alla þá kennslu sem ég fékk þetta árið.
Hjarta mitt stækkaði um tvö númer þegar ég fékk tvo litla ömmustráka sem fæddust á fyrstu mánuðum ársins og fyrir þá er ég svo sannarlega þakklát. Svo er ég svo óendanlega þakklát þeim sem studdu mig það hálfa ár sem rændi mig allri orku og fyllti mig sorg. Sannkallaðir vinir sem gáfu vinnu sína og jafnvel fjármuni til að styrkja mig og létta mér þessa göngu, lögðu á sig ferðalög utan af landi til að mæta til kirkju þegar móðir mín var jarðsett, útbjuggu blómaskreytingar,veitingar og fleira. Barmafullt hjarta af þakklæti á ég til þeirra.
Börnin mín stóðu sig eins og hetjur á erfiðleikastundunum og hafa sjaldan gert mig jafn stolta vegna þess undraefnis sem þau eru gerð úr, og svo eiga þau þennan undurfagra kærleika sem þau sýndu í miklu magni, stoltmamma.is.
það kemur einhvernvegin svo innilega í ljós á svona tíma hverjir eru til staðar og hverjir láta sig hverfa þegar gleðin yfirgefur húsið,og það kemur líka vel í ljós hverjir gera bara það sem gera þarf og það segir einhver spekingurinn að sé hið fullkomna form samkenndar.
Þegar heilbrigðiskerfið brást illilega og ekki var pláss fyrir hrædda gamla dauðvona konu þar (minnir á gistihúsið í Betlehem) tóku dóttir mín og tengdasonur móður mína inn á heimili sitt og fórnuðu þannig hluta af fæðingarorlofinu sínu -þar sönnuðu þau fyrir mér mikilvægi "þorpsins" en ekki kerfisins.
Við andlát mömmu fékk ég svo nýtt og ábyrgðafullt hlutverk sem höfuð fjölskyldunnar og mun gera mitt besta til að sinna því vel.
Í dag geri ég mér betur grein fyrir því að afkomendur mínir eru samfélagið sem ég mun ætíð hafa í fyrsta sæti, enda það hlutverk sem almættið gaf mér og bað mig um að sinna af alúð. Þar á eftir koma vinirnir því að mikilvægt er að sinna þeim einnig vel.
Á þessum tímamótum lífs og dauða fann ég svo sterkt fyrir því hversu stutt er á milli heima og ég gat nánast snert á eilífðinni, skynjaði vel hvernig þessi þunna hula á milli heima varð að engu, en gerði mér á sama tíma grein fyrir því hversu dýrmæt þessi gjöf lífsins anda er, og hversu vel við ættum að huga að þeirri gjöf, (hver andardráttur er þannig til áminningar um gildi lífsins).
Þetta tímabil fékk mig einnig til að hugsa um hvað það væri sem raunverulega skipti einhverju í stóra samhenginu og fann að eins og áður verð ég að velja þar í fyrsta sæti gefandi og góð samskipti og velti því fyrir mér hvort við séum að gera okkur nægjanlega vel grein fyrir því að við erum öll eitt, þín velgengni og hamingja byggist á mér og mín á þér, eða upplifum við okkur kannski enn í dag sem aðskilin frá heildinni?
Þar held ég raunar að stóra blekkingin okkar liggi, vísindin og trúarrit segja okkur að við séum ofin úr sama efni og alheimur allur eða efnisleysinu (orku - anda). Erum semsagt eitt í einni veröld, ekkert sem getur skilið okkur frá, greinar á sama stofni og allt sem við gerum okkar minnstu bræðrum hefur sínar afleiðingar á heildina og þar með á okkur sjálf. Þetta hafa allir mestu meistarar heimsins sagt okkur frá örófi alda og flest höfum við heyrt um lögmál sáningar og uppskeru eða karmað. Hvet okkur á þessu nýja ári að hugsa svolítið um þetta.
Ég hef áður talað um að við erum ekki að gera góða hluti með upplausn fjölskyldunnar og samfélagi þar sem allir búa einir án afskipta þorpsins og ég held satt besta að segja að við þurfum jafnvel að hafa meiri áhyggjur af þeirri þróun en menguninni sem hlýst af flugferðum okkar og gætum hugað að því að hafa jafn hátt um það og loftslagsmálin.
Og ég hef einnig talað um að við ættum að lifa því lífi sem við finnum í hjarta okkar að okkur var ætlað og ættum ekki að láta stjórnsemi þeirra sem vilja hafa okkur eins og strengjabrúður í boxi hafa áhrif á þau hlutverk okkar. Hvert og eitt okkar skiptir máli og við ættum að huga að heildinni með því sem við finnum í hjarta okkar að er okkar hlutverk í lífinu, það er alltaf farsælast. Hugsum einnig betur um gamla fólkið okkar og börnin, þau þarfnast ástar, umhyggju, staðfestu, öryggis og hlutverka frá heildinni.
Ég trúi að það sé mikilvægt fyrir okkur að leika okkur og að gleðjast, því að þetta líf líður svo ógnarhratt svo sköpum glimmerstundir.
Ég trúi að það sé nauðsynlegt að tengjast náttúrunni og anda henni að sér til að skilja eðli lífsins. Að horfa á og upplifa náttúruna gefur okkur tengingu við allt sem er og hvergi hef ég betur séð mátt skilyrðislauss kærleika en þar. Allt lifir þar í jafnvægi og einingu óhæð öllu en þó svo háð öllu á sama tíma, allt hefur sitt sértaka hlutverk og þar verður td allt grænna og gróðursælla eftir erfiðleikatímabil eldgosa og flóða.
Við gætum lært ýmislegt af þeim kærleika og samstöðu sem þar er sýnileg í stað þess að eyða tíma okkar í útásetningar,aðgreiningu og stjórnsemi sem virðist vera okkur samt svo tamt að nota frekar þó að það síðan aðgreini okkur þannig að við náum ekki fram þeim málum sem við þó viljum svo gjarnan fá fram sem heild.
Núna lengist dagurinn um nokkrar mínútur frá degi til dags og við fögnum ljósinu sem færir okkur nær sumri. Gleymum ekki að við erum ljós í heiminum og þurfum að vernda það ljós og þann anda sem við fengum í vöggugjöf.
Það þýðir að við þurfum stundum að ganga í burtu frá þeim sem vilja slökkva það ljós svo vöndum val okkar á þeim sem við umgöngumst og gerum að áhrifavöldum í lífum okkar.
Heitum okkur því á þessu nýja ári að njóta þess að fá að vera hér, að elska eins og enginn sé morgundagurinn, að gefa og þiggja, að hrósa, að hlusta og þakka fyrir allt það góða sem okkur gefst, þökkum einnig fyrir lærdóm tímabilanna sem okkur finnast ekki svo góð en breyta okkur þó og þroska.
Á þessu herrans ári 2020 ætla ég að hugsa vel um það líf sem mér var gefið til anda sálar og líkama og ég ætla að elska og upplifa kærleika. Ég ætla að lifa lífinu á minn hátt en ekki láta að stjórn annarra þar. Ég ætla að blessa og þakka, færa lífinu lof fyrir hvern dag sem ég fæ og vonandi næ ég að fagna því að fylla sex áratugi hér á þessari dásamlegu jörð okkar í lok ársins.
Óska ykkur öllum farsældar,heilsu,hamingju,ástar og glimmerstunda í bunkum árið 2020 og mættu allar ykkar óskir rætast.
Hjarta mitt er barmafullt af þakklæti og kærleika til ykkar lesendur góðir. Takk fyrir samfylgd ársins 2019.
Segjum takk við árið 2020 hvað sem það kann að færa okkur,
Xoxo
Ykkar Linda
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.12.2019 | 15:00
Jólahugleiðing
Á þessum tíma árs fer hugur minn aftur í tímann og ég ylja mér við minningar frá jólum barnsæskunnar og eins þegar ég var sjálf með fjölskyldu sem ég útbjó jólin fyrir.
Aldrei hafa þó kviknað jafn margar minningar hjá mér og fyrir þessi jól og bernskan stendur mér ljóslifandi fyrir augum með öllum þeim jóladásemdum sem barnshugurinn upplifði enda eru þetta fyrstu jólin þar sem ég hef hvorki mömmu eða pabba með mér þar. Ljúfsár sorgin og söknuðurinn færir mér minningar sem ég hafði ekki hugsað um árum saman og mér þykir afar vænt um þær allar.
Baksturinn fyrir jólin er mér hugstæður því að hann gaf okkur mömmu svo mikinn tíma saman þó að mér fyndist ekki alltaf gaman að þurfa að smyrja kreminu á mömmukökurnar og draumadísirnar, merkilegt hvað þær minningar gefa mér þó mikið í dag.
Lyktin af rauðkálinu sem mamma sauð alltaf á Þorláksmessu og ég gerði síðan einnig sjálf eftir að ég stofnaði heimili, skötulyktin sem mér fannst svo hræðileg en þeim foreldrum mínum þótti nauðsynlegur þáttur jólanna. Silfurpússning, skápaþrif og önnur stærri þrif voru einnig partur af jólaundirbúningnum og í dag minnist ég þeirra með væntumþykju þó að ég hafi nú ekki alltaf verið hrifin af stússinu í mömmu fyrir þessi blessuðu jól, hélt þó síðan sjálf í þessar hefðir á mínu heimili börnunum mínum til jafnvel enn meiri ama en mér forðum.
Ég man líka eftir þessum örfáu ljósaseríum sem til voru, svolítið örðuvísi þá en í dag þar sem allt flóir í jólaljósum,og ég minnist sérlega forláta seríu sem var blómum skreytt og dugði í marga áratugi með reglulegum peruskiptingum. Eins man ég þegar ég fékk að kaupa mér mína eigin ljósaseríu í herbergið mitt, seríu sem ég átti alveg ein þegar ég var líklega tíu eða ellefu ára! - það voru ótrúleg verðmætt fyrir stelpuskottið.
Jólaskreytingarnar voru aldrei settar upp fyrr en 22 eða 23 desember og jólatréð var ekki skreytt fyrr en að öllu stússi var lokið á Þorlákinum og ég man hvað ég naut þess að skreyta það og eins alla þá pakka sem gefnir voru. Stjarnan sett síðust á toppinn á trénu og þá gátu jólin komið. Dásamlegir tímar að minnast.
Sama rútína var hjá mér þegar börnin mín ólust upp og þá var líklega enn meira stúss og enn meira um að vera, fleiri smákökusortir bakaðar og þrifin enn umfangsmeiri. þessi aðventutími og þær fallegu tilfinningar sem hann skapaði í hjarta mér eru mér þó svo ómetanlegar.Að geta sótt í þær á þessum tíma aðventunnar er svo gott, því að eins og við vitum mörg þá er þessi tími líka svo óskaplega erfiður fyrir svo allt of marga.
Þeir sem hafa misst ástvini, heilsu, atvinnu eða hafa skilið við maka sinn á árinu eða eru einir án fjölskyldu vita að þessi tími getur verið svo sársaukafullur og angurvær.
Fyrir þá sem hafa gengið í gegnum missi af öllu tagi á árinu eru jólin oft ákaflega erfið og fyrir þá sem hafa lítið á milli handanna er þessi tími einnig oft mjjög fyrirkvíðanlegur.
Við höfum farið svo yfir strikið sem ríkmannleg þjóð og kaupæðið hefur gert það að verkum að þeir sem lítið hafa finna sig svo vanmáttuga gagnvart öllum krásunum sem ætlast er til að hægt sé að veita í mat og gjöfum. Þeir vita að þeir geta með engum hætti boðið börnum sínum allar þær rándýru gjafir sem auglýstar eru af kappi á þessum árstíma og sporin eru þung að sækja sér þá hjálp sem er í boði til að hægt sé að veita þó eitthvað.
Þeir sem búa einir og hafa fáa eða enga í kringum sig eiga einnig oft erfitt á þessum tíma því að einmannaleikinn verður aldrei eins raunverulegur og á þessum dimma tíma gleðinnar og samverunnar hér á landi.
Ég hef sjálf fundið fyrir einmannaleika og sorg á þessum árstíma og finn mig stundum vanmáttuga fjárhagslega,langar svo oft að gefa meira en ég get, og í ár finn ég einnig fyrir sorg vegna missis á árinu.
Mig langar í lokin að fá deila með ykkur hvað hefur reynst mér sjálfri best á þessum árstíma þegar einmannaleikinn og aðrar ekki svo góðar tilfinningar herja á hvað mest, og langar að fá að deila þeim ráðum með ykkur ef þau gætu gagnast einhverjum á erfiðri aðventu.
Hér koma þessi ráð mín svo:
- Að fara í minningabankann og þakka fyrir það fallega sem þar má finna er svo dýrmætt, því að það er ekki sjálfsagt að eiga góðar og fallegar minningar.
- Að gera skemmtilega hluti með þeim sem okkur þykir vænt um, hluti sem kosta ekki hálfan handlegginn.
- Jólatréð á Austurvelli er alltaf þess virði að skoða og baða sig í birtu þess, að ganga niður Laugaveginn með öllum þeim asa sem þar má finna, baka smákökur og fylla húsið af kökuilmi, skreyta piparkökur og hlusta á jólalögin, fara á skauta eða baka vöfflur og búa til kakó með fjölskyldu og vinum.
- Bjóða í jólapálínuboð er alltaf gaman og gefur okkur ómetanlega samveru.
- Að föndra eitthvað skemmtilegt fyrir jólin.
- Að fara á kaffihús með vinum, tónleika og rápa í messur sem fullar eru af söng á þessum árstíma og fara svo heim og pakka inn jólagjöfum.
- Að hlusta á jólatónlist og kveikja á kertum ásamt því að hugleiða á það góða sem er í lífi okkar og heiminum öllum.
- Að húsvitja og skoða jólin hjá þeim sem í kringum okkur eru og smakka smákökurnar þeirra.
- Að senda kærleiksríkar kveðjur til fólks - jafnvel fólks sem þú þekkir lítið, við vitum aldrei hversu mikið það getur gefið þeim sem þiggur.
- Að leyfa okkur að finna í hjartanu þær fallegu tilfinningar sem fylgja jólunum og gleðjast með þeim sem glaðir eru, syrgja með syrgjendum og styðja þá sem þurfa stuðning á svo margan hátt er partur af þessum tíma og aldrei er of mikið gefið af sjálfum sér. Og svo að lokum -
- Að minnast látinna ástvina með því að eiga stund með þeim í kirkjugarðinum, helst með öllum þeim sem þeim tilheyrðu bara til að þakka fyrir þann tíma sem við fengum með þessum dýrmætu englum sem nú vaka yfir okkur.
Þetta eru örfá ráð sem gætu mögulega gert aðventuna ánægjulega þrátt fyrir erfiðar aðstæður en ekki vegna þess að aðstæðurnar séu svo glimrandi góðar.
Þau hafa gagnast mér í gegnum árin - en stundum þarf ég að hafa fyrir því að fara eftir þeim sjálf og það tekur mig smá tíma að koma mér í þennan gír, en þegar ég kemst þangað virkar þetta nægjanlega vel fyrir mig til að ég finni fyrir anda jólanna og ég vona að þessi litlu ráð geti hjálpað þér að finna jólandann þrátt fyrir en ekki vegna.
Ykkur sem eruð ein án fjölskyldu og vina hvet ég til að taka þátt í starfi stofnana sem gefa gleði og styrk þeim sem þurfa á að halda. Stofnanir eins og t.d Samhjálp, Rauði Krossinn og kirkjustarfið í hverfinu þínu þurfa liðsinnis þíns við á þessum tíma til að gleðja þá sem minna mega sín, og það er fátt sem gefur okkur meira af góðum tilfinningum en það að gefa af okkur.
Og til ykkar sem hafið misst part af ykkar lífi eða kæra ástvini á árinu sendi ég mína samkennd og hugheilar samúðarkveðjur,og bið ykkur blessunar og styrks á göngu ykkar með sorginni og öðrum þeim erfiðu tilfinningum sem þið eruð að upplifa.
Minningarnar lifa og gleðja okkur í sorginni og ef ég tala nú bara fyrir mig þá er ljúfsárt að horfa á þær góðu sem safnast hafa saman í gegnum árin og þakka fyrir þær - með því móti finn ég kærleiksríkan anda hátíðarinnar og friðinn sem sá andi gefur.
Að endingu óska ég ykkur öllum gleðilegrar jólahátíðar og bið að hátíð ljóssins færi okkur frið sinn,gleði og kærleiksríka einingu.
xoxo
Ykkar Linda
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.12.2019 | 20:58
Við erum kynslóðin sem klúðraði
Í dag ætla ég að fá að tjá mig aðeins og líklega röfla svolítið eins og mín er von og vísa. Þú þarft ekki að vera sammála mér í þessum efnum en ég held að það væri hollt fyrir okkur að skoða það góða sem gömlu leiðirnar gáfu okkur þrátt fyrir allt.
Það er nú bara þannig að á mínum frábæra aldri hef ég uppgötvað margt varðandi lífið sem mig langar að deila með ykkur, og kannski er von mín sú að ég geti haft áhrif til góðs með skrifum mínum, og kannski er það sú löngun mín að breyta heiminum í átt til vellíðunar sem fær mig til að tjá mig.
En hér kemur þetta röfl:
Lífið hefur kennt mér að það sem skiptir mestu máli hér á jörðu er kærleikurinn, vonin í erfiðum aðstæðum og trúin á að allt sé okkur mögulegt. Að hafa velvild að leiðarljósi, að styðja samferðamenn okkar á leiðinni um lífið, að eiga samhenta fjölskyldu og það að vilja öðrum að ná velgengni og árangri ásamt góðum samskiptum. Þetta er það sem ég tel geta orðið okkur mannkyni sem heild til farsældar.
Því miður finnst mér ég oft upplifa að þessum þáttum sé gefinn allt of lítill gaumur í okkar annars þokkalega ágæta þjóðfélagi og aðrir forgengilegri hlutir látnir í fyrirrúm og jafnvel stundum gert góðlátlegt grín að þeim sem láta sig varða andlega líðan og kærleiksríka nálgun lífsins.
Ég ætla að halda því hér fram að það var mín kynslóð og sú sem á undan mér var sem sundraði fjölskyldueiningunni og bjó þar með til án vitundar vonandi einmannaleika barna, einhleypra, gamalmenna og útbrunninna foreldra. Við settum gömul og góð gildi út fyrir mengið þannig að sú kynslóð sem nú vex úr grasi fær takmarkaða lífssýn og reynslu þeirra sem eldri eru og fara á mis við svo margt sem fæst með því að umgangast þá sem eldri eru í leik og störfum.
Við konurnar sem fóru af stað í kvenréttindabaráttuna sem var svo sem löngu tímabær ef við horfum til menntunar og jafnlaunastefnu leit á það sem lítils virði að ganga með og fæða börn að ég tali nú ekki um að vera vera "bara"húsmóðir" og uppalandi (sem er erfiðasta starf sem ég hef tekið að mér),og slepptu því þar með að fara fram á að það yrði metið til launa og þeirrar virðingar sem það svo sannarlega átti skilið.
Hvað fengum við svo í staðinn? Börn með allskonar kvíðatengdar greiningar frá frumbernsku, foreldra í kulnun, afa og ömmur sem hafa ekki tilgang fyrri kynslóða og kvíða því að verða einir, veikir og umhugsunarlausir í ellinni. Semsagt allar kynslóðir meira og minna einmanna kúrandi ofan í símana sína til að finna sér einhver samskipti og fyrirmyndir og því miður allt of margir sem velja svo fjarveru frá raunveruleikanum með því að mynda með sér ýmiskonar fíknir sem draga úr vanlíðaninni og deyfa.
Hinir fullorðnu og hamingjusamlega skildu, þessir sömu og ætluðu sér að finna hamingjuna þar sem fullkomleikinn hlyti að bíða þeirra eru hræddir við ástina, skuldbindinguna, og kúldrast því einir og enginn hefur tíma til að líta inn til þeirra eftir að vinnudegi lýkur. Uppkomin börnin dottin meira eða minna úr sambandi við þá vegna annríkis og skemmtana.
Ég segi bara til hamingju við! Stórkostlegur árangur græðgiskynslóðarinnar sem telur allt í merkjavörum, peningalegri velgengni, titlum og veraldarvafstri.
Við erum líka kynslóðin sem gáfum börnum okkar tvenn eða fleiri heimili og í sumum tilfellum marga foreldra, afa og ömmur, og töldum börnunum okkar trú um að það sem skipti máli væri að klifra metorðastigann og huga einungis að tengslum sem við gátum nýtt okkur við framapotið.
Við tókum í burtu samstöðu og einingu fjölskyldunnar og til hvers?
Hefur staða konunnar batnað svo mikið? Er hún að fá sömu laun, sömu tækifæri, titla og stöður og karlmenn? Ekki hef ég orðið svo mikið vör við það ef ég á að vera hreinskilin. Hins vegar hef ég séð konur sem hafa lent illilega í kulnun vegna þess að vinna hefur aukist mjög mikið hjá þeim. Þær hika margar við að taka að sér háu stöðurnar í þau fáu skipti sem þeim bjóðast þær vegna álagsins sem þær búa við á heimilinu og í vinnu og geta hreinlega ekki meir.
Ég hitti því miður allt of oft ofkeyrðar mæður (ekki bara einstæðar)sem eru að reyna að standa sig á öllum vígstöðvum en geta bara hreinlega ekki staðið undir öllum þeim hlutverkum sem þeim er úthlutað í dag, en þora ekki fyrir sitt litla líf að viðurkenna að þær séu ekki að valda fullkomnunni, og ég held satt að segja að kvennabaráttan hafi því miður haft í för með sér aukna vinnu, fleiri hlutverk með tilheyrandi álagi fyrir konur sem leitt hafi af sér streitu, kvíða og aðra fylgikvilla.
Börn dagsins í dag kvarta yfir samskiptaleysi og áhugaleysi foreldra og allt glysið, glaumurinn og photoshoppaðu samfélagsmiðlarnir eru eðli málsins samkvæmt ekki að svala þörf þeirra fyrir það sem gefur lífinu gildi sitt nema síður sé.
Hvenær ætlum við að vakna og hætta að lifa í Hollýwoodgerðri fullkomnunarmynd? hvenær mun myndast tími fyrir það fallega sem lærist og fæst með nánu sambandi foreldris, barns og stórfjölskyldunnar? Hvar eru samskiptin, matarboðin, steikin á sunnudagsmorgnum og sunnudagskaffi stórfjölskyldunnar og svo margt sem áður kenndi okkur allt um einingu, öryggi, náin og gefandi samskipti? Og hvers vegna erum við á þessum stað? Hvað varð til þess að við konur afsöluðum okkur réttinum á því að vera með börnum okkar og kenna þeim á lífið? Hvers vegna báðum við ekki um að móðurstarfið yrði metið eins og hvert annað starf? Því báðum við bara um fleiri barnaheimili, lengri skóla, frístund að skóla loknum og lengri vinnudag fyrir börnin okkar?
Ég veit að þessi orð mín munu valda smá fjaðrafoki því að ég tel að mín kynslóð og sú feminiska barátta sem þar komst í hámæli hafi gert fátt til að tryggja það að foreldrar hefðu val um menntun og starf versus rétt á launum frá þjóðfélaginu til að tryggja öryggi og tíma fyrir uppeldi barna sinna innan veggja heimilisins.
Við gleymdum því að náttúran sjálf er vitur og vissi frá upphafi að það þarf einingu og heilbrigði fjölskyldunnar ásamt nánd og kærleika til að byggja upp öruggan hamingjusaman einstakling! Einstakling sem á skjól á heimili sínu þegar hann er að taka skrefin sín í samskiptum og er að kynnast hinni spennandi en stundum grimmu veröld. Eins og þetta er í dag þurfa börnin bara að læra að bjarga sér sjálf í frumskóginum og takast á við tilfinningar sínar innan um ókunnuga aðila sem auðvitað eru þó að gera sitt besta til að barninu líði vel og reyna að styðja það á allan þann hátt sem þau geta - en þau eru ekki mamma og pabbi eða afi og amma, stórfjölskyldan né þorpið.
Ekki heyra það sem ég er ekki að segja.
Margt gott gerðist með kvennabaráttunni á sínum tíma og við værum sennilega ekki með me too umræður og fleira ef hennar hefði ekki notið við, en það gerðist líka margt sem ekki var svo gott. Það versta sem gerðist að mínu mati var að við konur litum okkur svo smáum augum að við gleymdum því að valið okkar stóð um að verja þá sérstöðu sem það gefur okkur að ganga með og fæða barn og veita þeim menntun í samskiptum. Að gefa þeim öryggi og kærleika sem enginn annar er færari um að gefa, og gera þau þannig tilbúin fyrir það líf sem bíður þeirra á fullorðinsárunum ásamt því hlutverki að erfa jörðina og stýra farsæld hennar.
Við gleymdum því einnig að þegar barn er fætt inn í þennan heim á það rétt á foreldrum sínum - ekki bara þegar um forræðisdeilur er að ræða heldur einnig þegar það er í heiminn borið. Hvers vegna tölum við aldrei um það?
Og hvers vegna upplifi ég eins og að börnin okkar hafi bara engin réttindi ófædd eða fædd, skýtur það ekki skökku við barnasáttmála og verndun barna?
Og ég spyr, hvað hefur áunnist og hvað hefur tapast? Hverjir græða og hverjir tapa á þessu tiltölulega nýja fyrirkomulagi?
Svar mitt er einfalt - það er mín skoðun að við létum frá okkur mennskuna fyrir hlaup á iðnaðarhjóli mammons og fengum í staðinn glamúr, glaum og brotinn heim.
Þar til næst elskurnar
xoxo
Ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
Markþjálfi/Samskiptaráðgjafi/TRM áfallafræði
linda@manngildi.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.11.2019 | 16:29
Hefurðu heyrt um froskinn sem breyttist í prins?
Ég sá mynd sem Hugleikur Dagsson hafði teiknað af konu sem stóð yfir manni sem lá í götunni útúrdrukkinn með sprautunálar og flöskur allt í kring um sig, og yfir honum stóð kona í hvítum kirtli sem sagði, "Ég get bjargað honum"
Því miður er það þannig að bæði konur og menn eru oft að eiga við manneskjur sem vonlaust er að muni breytast og láti af sinni eyðileggjandi framkomu en einhverra hluta vegna erum við sum að gefa þeim séns eftir séns á því að breyta sér, líklega er þetta eitthvað skylt Stokkhólmsheilkenninu fræga þar sem við virðumst geta endalaust afsakað skaðandi framkomu og fundið það góða við manneskjur sem sýna af sér mannvonsku, lygar, ofbeldi og svo margt annað sem almennilegt fólk einfaldlega gerir bara ekki.
Í stað þess að standa vörð um okkur sjálf erum við að standa vörð um fullorðna einstaklinga sem svo sannarlega velja í flestum tilfellum að vera eins og þeir eru (nema þar sem alvarlegir geðbrestir valda þessu), því að það er nú svo merkilegt að við sem fullorðnir einstaklingar veljum framkomu okkar og framkvæmdir.
Við afsökum okkur þó með ýmsum hætti eins og með uppeldisaðstæðum til að fegra okkar framkomu en þó er það nú samt einu sinni þannig að við erum að velja öllum stundum - frá morgni til kvölds erum við að velja hugsanir okkar, framkomu og framkvæmdir og höfum í raun enga afsökun nema þá að við séum haldin einhverjum sjúkdómum eins og ég áður sagði sem ræna okkur valfrelsinu.
En nú ætla ég að tala aðeins um okkur konur (en líklega á þetta ekki síður við um menn).
Við konur virðumst ekkert hafa vitkast í gegnum aldirnar og engin furða að til séu ævintýri sem tala um froska sem breytast í prinsa, því að það er það sem við höldum oft að gerist, eða það að froskurinn sem kemur illa fram og sinnir okkur ekki geti breyst við það eitt að koma með fyrirgefningabeiðni númer? hmmm
Ekkert er þó fjarri lagi ef ég tala um fullorðna menn sem hafa haft nokkuð marga áratugi til að lagfæra sig og læra að koma vel fram, og það eru bara alls ekki miklar líkur á því að menn skipti um ham á fullorðinsárunum ef svo má segja. Þeir geta agað sig og breytt venjum, en þú breytir persónuleikanum sjálfum ekki svo glatt né gildunum sem liggja að baki honum.
Wayne Dyer orðar þetta svo skemmtilega þegar hann sagði "þegar þú kreistir appelsínu þá er appelsínusafinn það eina sem kemur frá henni og það er bara ekki nokkur leið að fá neitt annað vegna þess að það er sá safi sem býr innra með henni".
Eins er það með okkur mannfólkið þegar á okkur reynir eða þegar við stöndum frammi fyrir verkefnum lífsins (erum kreist) þá kemur í ljós hvað býr innra með okkur og því miður í flestum þeim tilfellum þar sem við konur erum að gefa froskunum sénsa á því að laga sig erum við búnar að sjá þeirra innri safa oft og mörgum sinnum - en trúum enn að við getum fengið eitthvað annað frá þeim.
Eins og ég sagði áðan þá minnir þetta helst á Stokkhólmsheilkennið fræga eða þar sem fórnarlambið fer að finna afsakanir fyrir gerandann (Eftir mannrán) og jafnvel bregst illa við þeim sem vilja þeim vel og segja sannleikann um hversu illa sé verið að koma fram við viðkomandi.
En kannski er þetta svona bullandi meðvirkni eða þjóðfélagslegt uppeldi kvenna, hver veit. Það eina sem ég veit er að fólk er eins og það er og við getum ekki breytt einum eða neinum nema okkur sjálfum í ÖLLUM tilfellum svo hættum í Guðsbænum að reyna það því það tekur frá okkur orku, styrk, sjálfsvirði, sjálfstraust og styttir líf okkar og lífsgæði.
Froskarnir breytast einfaldlega sjaldan í prinsa - við getum gleymt því! Það er aðeins í ævintýrunum sem það gerist, og mér þykir leitt að segja ykkur það - en prinsar í froskalíki,Súpermannslíki eða hvað það nú heitir allt saman eru bara til í ævintýrunum en ekki hinum raunverulega heimi og þeir munu bara verða eins og þeir voru skapaðir líkt og við hin - svo gleymdu því að þinn froskur eigi eftir að breytast í prinsinn á hvíta hestinum, það mun líklega bara alls ekki gerast! (Og svo eru ekki til hvítir hestar, bara gráir) Eini sénsinn á breytingu er sá að froskurinn sé búinn að koma auga á sína bresti fyrir alvöru, taki fullkomlega ábyrgð á þeim, fái sér síðan aðstoð við að lagfæra þá og það tekur sko langan tíma og æfingu!
Heilinn okkar er orðinn fullmótaður að mestu og við búin að aðskilja okkur frá uppeldisaðilum svona flest í kringum 25 ára aldurinn, og þá erum við einnig búin að velja okkur lífsveg okkar á svo margan hátt. Einnig erum við búin að byggja upp heimsmynd okkar á svo stóran hátt, mynd sem við framkvæmum svo útfrá (gildi og markmið). Vanlíðan okkar í lífinu er svo líklega að flestu leiti sprottin út frá brotum á þeirri heimsmynd því að við viljum halda í hana óbrotna með öllum þeim ráðum sem við kunnum. Þess vegna er svo erfitt fyrir einhvern að koma og segja okkur að okkar mynd sé kannski bjöguð og skökk þegar við reynum af fremsta megni að láta sem hún sé heil og flekklaus.
En hvað sem öllum heimsmyndum viðvíkur þá skulum við hafa í huga að eina heimsmyndin og eina hegðunarmynstrið sem við getum lagað og breytt er okkar eigið í öllum tilfellum.
Svo förum inn í samböndin okkar með þá fullvissu að það er aðeins í ævintýrunum sem froskarnir breytast í prinsa við koss frá okkur, og veljum bara vel þá sem við tökum með inn í líf okkar og heimsmynd.
þar til næst elskurnar.
xoxo Ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
einstaklings og parasamtöl
Markþjálfi, samskiptaráðgjafi, TRM áfallafræði 1 og 2.
linda@manngildi.is
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.11.2019 | 15:18
Þegar kvíðinn heltekur okkur
Um daginn fann ég aftur fyrir gamalli tilfinningu sem ég er nú kannski ekki allt of sátt við að finna fyrir, og hún hreinlega lamaði mig um tíma. Ef ég hefði ekki kunnað aðferðirnar sem hægt er að grípa til í þeim aðstæðum þá er hreinlega ekkert víst að ég væri komin á betri stað, og kannski bara verri ef eitthvað væri.
Þess vegna ákvað ég að deila með ykkur aðferðum þeim sem ég nota sjálf í þessum aðstæðum, því að ég veit að það eru svo margir sem finna fyrir þessari leiðindatilfinningu og vita ekki hvernig þeir geta losnað undan henni.
Það var orðið ansi langt síðan að þessi lamandi tilfinning hafði hertekið mig (ég er ekki að tala um þessa venjulegu kvíðahnúta eða streituhnúta sem við fáum við ákveðin tækifæri eins og við það að fara á svið eða út fyrir þægindarammann) þannig að ég þurfti smá tíma til að ná í skottið á sjálfri mér og nýta þær aðferðir sem ég þó kann, en það náðist.
En hér kemur aðferð ala Linda við að tækla kvíðann sinn.
Fyrst er mjög nauðsynlegt að athuga hvort að við erum í fight and flight stellingum þegar kvíðinn hellist yfir. Erum við td með kreppta hnefa, tær, hertan maga, axlir upp að haus og fleira sem sem segir okkur að við séum í flóttastellingum. Byrjum svo á því að losa um magavöðvann og réttum úr fingrum og tám, setjum axlir niður og drögum djúpt andann.
Næst er að samþykkja tilfinninguna (getur verið erfitt) því að hún er bara ein af öllum þeim tilfinningum sem við getum upplifað og er hvorki betri né verri en allar hinar þannig séð, fer allt eftir því hvaða merkingu við gefum henni. Ég hef hinsvegar valið að segja þegar ég finn fyrir henni "aha, þarna ertu greyið mitt- þú mátt alveg koma en ég ætla að láta þig fara og setja aðra skemmtilegri tilfinningu inn í staðinn" - því að ég trúi því að allt sem við förum í mótþróa gegn eða stöndum á móti hefur tilhneigingu til að vaxa og dafna jafnt og það góða sem við einbeitum okkur að.
Síðan eru aðferðir sem ég nota eins og þær að skoða tilfinninguna vel og leika mér aðeins með hana áður en ég hreinlega fer inn í hana og stroka hana út með ímynduðu stóru strokleðri (lol - veit að þetta hljómar kjánalega - en virkar þó)
Svo getum við tekið okkur niður í smá norm með því að taka athyglina frá tilfinningunni eins og með því að telja allt sem er í herberginu sem við erum stödd í og velja okkur liti sem við ætlum að telja, virkar oft til að ná stjórn í aðstæðunum.
Hugsun mína þarf ég einnig að taka í gegn þegar ég er á þessum stað og skoða hvað það er sem er að valda kvíðanum mínum ef ég þá næ því að gera það (þarna þarf stundum aðstoð fagaðila). Það geta verið ýmsar ástæður fyrir kvíðanum og stundum kemur hann vegna ofurálags eins og var í mínu tilfelli og þá er oft erfitt að hertaka hugsanir sínar, en þó er það hægt (það er allt hægt ef við viljum það).
Svo er gott að skoða hvað gengur vel í lífinu, hvað er ég þakklát fyrir, hvað er það versta sem gæti gerst og hvað er það besta sem gæti gerst. Hverju breyti ég með áhyggjum mínum eða þarf ég bara að sætta mig við að ég fái engu breytt, og svo er að hugsa í lausnum en ekki að dvelja í ómöguleikavíddunum.
Að einfalda lífið er einnig gott að gera þegar staðan er þessi og fækka skylduverkum og álagspunktum ef hægt er.
Hreyfing, svefn, hugleiðsla og holl fæða er einnig nauðsynlegur partur af því að ná sér á strik og gönguferðir eru möst að mínu mati. Eins þarf þarmaflóran að fá að vera í lagi og bætiefnainntaka góð. Svo er auðvitað nauðsynlegt að láta dekra sig með nuddi eða öðrum heilandi aðferðum með reglulegu millibili og helst sem oftast.
Að hitta fólk, og að vera í návist þeirra sem ég elska er einnig stór þáttur í vellíðan minni. Og fyrir mig er það algjörlega nauðsynlegt að gleðjast, hlæja og gera það sem er skemmtilegt því að það gefur mér orku.
Ég veit vel að þegar við erum á stað kvíðans er erfitt að hitta fólk og það er svo sannarlega ekki það sem við viljum helst þegar okkur líður sem verst af kvíðanum, því að okkur þykir best á þessum stundum að draga okkur frá og sitja sem fastast ein úti í horni með okkar vondu skaðandi hugsanir.
Það er hinsvegar alveg bannað!
Fjölskyldan og vinirnir skilja alveg ef ég þarf að fara út í horn vegna vanlíðunar og vilja bara vera til staðar fyrir mig, og fólk hefur meiri skilning á kvíða en við gerum okkur oft grein fyrir.
Kvíða sem við ráðum illa við ætti alltaf að meðhöndla, og það er til fullt af hjálparlyfjum sem geta hjálpað á meðan verið er að ná tökum á ástandinu eða þar til að stjórn á hugsununum, tilfinningunum og framkvæmdum næst.
Og þegar öllu er á botninn hvolft þá eru það hugsanir okkar sem helst viðhalda ástandinu þannig að það er mjög nauðsynlegt að komast frá þeim hugsunum sem skaða okkur og setja inn aðrar og betri eða þær sem þjóna vellíðan okkar í lífinu.
Ég vona að þetta pár mitt hjálpi einhverjum til að sjá að kvíða er hægt að hafa hemil á ef réttum aðferðum er beitt eins og með allar aðrar tilfinningar sem við upplifum. En það er engin drive through lausn til - þetta er ferli sem þarf sinn heilunartíma.
Ég bendi þó á að lokum að þú ættir ekki að hika við að leita þér aðstoðar hjá fagfólki ef þessi blessaða leiðindatilfinning hertekur líf þitt og talaðu endilega við lækninn þinn, hann er fyrsti aðilinn sem getur aðstoðað þig og bent þér á farsælar leiðir til endurreisnar og betri líðanar.
Og eins og ávallt er ég einungis einni tímapöntun í burtu ef þú telur að ég geti aðstoðað þig á þinni lífsins leið.
xoxo
Ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
Markjálfi/Samskiptaráðgjafi/TRM áfallafræði.
linda@manngildi.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.10.2019 | 17:43
Ég segi bara allskonar
Við sleppum víst fæst við það að fá áföll í lífinu þó misjafnt sé hver þau eru og hversu mörg, en eitt er þó víst að ekkert okkar sleppur alveg við þau.
Um daginn missti ég mömmu mína eftir nokkurra mánaða hetjubaráttu hennar við alvarleg veikindi. Það var eitt af nokkrum verkefnum sem ég hef fengið til að glíma við á skömmum tíma og líklega einnig það sárasta.
Sorgarferli mitt og fjölskyldu minnar hófst um leið og við fengum þær fréttir að mamma ætti einungis fáa mánuði eftir ólifaða og það sorgarferli mun líklega taka sinn eigin tíma til heilunar.
Að eiga vini og fjölskyldu sem koma í heimsókn, hringja, finna uppá einhverju skemmtilegu að gera og létta manni lífið á alla vegu er bráðhollt og í raun nauðsynlegt hverri manneskju að eiga sem stendur í tilfinningalegum stórræðum. Í erfiðleikunum kemst maður líka yfirleitt að því hverjir eru til staðar þrátt fyrir að gleðin gisti ekki hús manns og á þannig stundum er einnig yndislegt að finna allan þann samhug og hjálpsemi sem einkennir fjölskyldu og vini.
Það sem gerist í svona sorgarferli er svo ótal margt þannig að þegar ég hef verið spurð að því hvað ég segi þá svara ég gjarnan "ég segi bara allskonar", því að það er bara þannig sem ég upplifi þetta.
Fyrst eftir að við fengum þessi tíðindi varð þessi hugsun eitthvað svo óraunveruleg og erfitt að halda utan um hana, og líklega hugsaði ég þetta bara sem enn eitt verkefnið til að tækla. Ekki grunaði mig þó hversu margar hugsanir og allskonar tilfinningar færu að bærast um innra með mér.
Hugsunin um að gera þennan stutta tíma eins ánægjulegan og hægt væri væri varð allsráðandi þannig að lítill tími gafst til að skoða sínar tilfinningalegu hliðar þó svo að við værum sem betur fer öll óhrædd við að tala um það sem framundan var.
Ekki hefði ég heldur getað staðið af mér þetta erfiða verkefni án þess að fegurð fjölskyldubandanna og vináttunnar hefði verið til staðar, og merkilegt hvað sýndur kærleikur getur gefið manni mikinn styrk. Það voru svo margir sem komu til aðstoðar með margvíslegum hætti og sáu til þess að ég og börnin mín upplifiðum okkur langt frá því að vera ein. Fegurð kærleiksríkra hjartna verður að ljúfri og þakklátri minningu eftir svona upplifun.
Eftir jarðarförina sem var svo falleg og einlæg í söng og tali skall áfallið yfir mig og ég fór hreinlega alveg á hvolf tilfinningalega.
Það gerðist þegar mér fannst ekkert sjálfsagðara en að hringja til mömmu svona til að segja henni hversu gaman hefði verið að hitta ættingjana í erfidrykkjunni! þar uppgötvaði ég að mitt síðasta símtal við mömmu var orðinn blákaldur veruleiki og ég gerði mér grein fyrir því að ég átti aldrei eftir að heyra röddina hennar aftur.
Það var eins og steinn hefði verið settur á brjóst mér og raunveruleikinn helltist yfir mig.
Ég gerði mér einnig grein fyrir því á þeirri stundu að ákveðinn partur af mér og mínu lífi hafði horfið og verður aldrei endurvakinn.
Óraunveruleikinn, dofinn, söknuðurinn og raunveruleiki eigin dauðleika varð mér einhvernvegin svo ógnar ljós á þessari stundu og lífið tók á sig annan lit.
Það er eitthvað svo mikið tabú í okkar þjóðfélagi að tala um og viðurkenna staðreynd dauðans sem er þó það eina sem við vitum fyrir víst að við eigum fyrir höndum í þessu lífi. En þarna gerði ég mér skíra grein fyrir því að lífið er svo ógnar stutt og viðkvæmt og að í raun getum við ekki leyft okkur að sóa einni einustu mínútu í eitthvað sem skiptir okkur ekki máli og við eigum að tala oftar um dauðann og merkingu hans fyrir líf okkar.
Þessi viðkvæmi vefur lífsins er svo vanmetinn hjá okkur oft á tíðum og við höldum alltaf að við höfum nægan tíma til að sinna og umgangast þá sem okkur eru kærir. En þarna fann ég fyrir öllum mínútunum sem ég hefði getað varið með mömmu en gerði ekki - og ég fylltist eftirsjá.
Það sem mig langar helst að skilja eftir með þessu tilfinningapári mínu er þó aðallega sú staðreynd að sorgin tekur á sig allskonar myndir. Myndir eins og tómleika, eftirsjá, kvíða, reiði, vonbrigði, söknuð, minningar, breytt líf, þakklæti og svo margt og margt. Og það eina sem við getum gert er að horfast í augu við allar þær tilfinningar sem kvikna og skoða þær síðan með mildum augum kærleikans til okkar sjálfra og þeirra sem farnir eru - og takast svo á við lífið einn dag í einu.
Notum tímann vel sem okkur er gefinn elskurnar og sóum honum ekki í einskisverða hluti sem engu máli skipta þegar litið er á stóru myndina og lífið í heild sinni.
Ég hef a.m.k tekið þá ákvörðun fyrir mig að elska lífið sem aldrei fyrr og vera þakklát fyrir hvern dag sem ég fæ að njóta þeirra sem í mínum kærleikshring eru.
Og eins skrítið og það nú er þá er ég þakklát dauðanum á vissan hátt fyrir að gefa mér áminninguna og hvatninguna sem felst í því að vita hversu tíminn er stuttur og einnig er hann svo ógnarfljótur að líða - og svo þakka ég honum fyrir að gera mér ljósa grein fyrir verðmæti mínútnanna sem er ómetanlegt og verður ekki í krónum talið.
Þannig að nú stefni ég sem aldrei fyrr á það að gera lífið að ævintýri að svo miklu leiti sem mér er fært, og ég ætla að leyfa mér að elska þá sem mér eru kærir sem aldrei fyrr, og strá glimmeri og gleði í kringum mig eins og snjódrífu hvar sem ég kem.
Því að lífið er núna.
xoxo
Ykkar Linda
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.9.2019 | 20:37
Er skilnaður endilega lausnin?
Við sem höfum gengið í gegnum skilnað vitum mörg að lífið verður svo sem ekkert baðað rósum að skilnaði loknum, líklega í fáum tilvikum rómantísk og rauð ástarsaga sem bíður okkar flestra, en margra bíður hins vegar erfið leið þar sem rósirnar hafa svo sannarlega þyrna og því væri heillaráð að hugsa sig svolítið um áður en tiltölulega heillegum samböndum er kastað á glæ.
Ég er ekki að segja að skilnaðir geti ekki átt rétt á sér, því að svo sannarlega eiga þeir margir að eiga sér stað. Þar sem ofbeldi og aðrar mannskemmandi aðstæður er um að ræða er rétt að fara sem lengst í burtu og það hratt og vernda þannig okkur sjálf og þá sem við eigum að vernda þar að auki ef einhverjir eru.
Ég held að ég sé orðin nægjanlega fullorðin samt til að leyfa mér að segja að oft á tíðum eru þó skilnaðir byggðir á litlu tilefni og ég hef horft upp á mörg annars ágæt sambönd fara í vaskinn án nokkurrar ástæðu annarrar en þeirrar að leitin að nýjungum, rómantík og jafnvel gráa fiðringnum tekur völd í huga aðilanna, og í augnablikinu finnst þeim að þau hljóti að eiga eitthvað allt annað og betra skilið - og þau fara í sundur - skilja.
Þá fyrst byrjar nú ballið...
Þegar búið er að tilkynna börnum og fjölskyldu um ákvörðun parsins kemur oft í ljós að fjölskylda og vinir fara að skipta sér í fylkingar með eða á móti og það sem áður var svo gott verður nú að vígvelli og baráttu um hverjum á að taka afstöðu með.
Síðan kemur að praktísku atriðunum.
Hvað með húsið og bílinn? Bankabókina, skuldirnar? Hver fær að vera í húsinu og hver ætlar að kaupa hinn út, eða er kannski bara best að selja? Staðreyndin er að breyting verður á lífinu hjá öllum aðilum og misjafnt er hversu vel gengur að aðlagast.
Hvernig á að skipta börnunum á milli sín? Börnin verða því miður oft á milli í deilum foreldranna og þurfa oftar en ekki í dag að eiga tvenn jafnvel mjög svo ólík heimili með tilheyrandi streitu fyrir þau og dansi á milli ólíkra reglna og lífsgilda.
Hvernig er með umgengni barna á jólum og páskum? Fá báðir foreldrar börnin sín á þessum hátíðum eða er annað foreldrið með alla dagana?
Hvað verður þegar nýr maki kemur til sögunnar hjá öðru hvoru þeirra? Hafa börnin þá einhverjar skyldur gagnvart þeim aðila sem inn í líf þeirra kemur nú eða barna þess aðila?
Ferðalög? Eru börnin tekin með í ferðalögin og er samkomulag um það á milli skilnaðaraðilanna hvernig því skal háttað?
Og hvað með þegar farið er í aðrar sambúðir, hvernig er þessu þá háttað? Mátt þú taka þín börn með í ferðalag án þess að taka börn makans eða eiga allir að koma með?
Sumarfrí? Hvernig á að skipta sumarfríinu á milli foreldranna og eru aðilar tilbúnir til að mæta hvort öðru þar?
Hvað með meðlag? Er annar aðilinn með meira fé á milli handanna og er hann tilbúinn til að styrkja hitt foreldrið svo að barnið/börnin hafi svipaðan lifistandard og það hafði þegar mamma og pabbi voru saman?
Hvað með afmælin, ferminguna, útskriftirnar? Eru þær í sitthvoru lagi eða á barnið/börnin rétt á því að allir séu saman á þessum stundum og er það yfirhöfuð mögulegt?
Hvað með barnabörnin þegar þau svo koma? Gefum við saman árituðu Biblíuna í fermingunni eða gefum við sitthvora?
Og svo er það þetta með einmannaleikann á kvöldin og um helgar, vinskapinn, aðstoðina á erfiðum tímum, ferðafélagann, þann sem upplifði með þér lífið og veröldina og svo framvegis. Skipti það allt í einu minna máli en að byrja allt upp á nýtt með einhverjum öðrum aðila?
Þetta eru örfá af þeim atriðum sem margir standa frammi fyrir þegar að skilnaði og nýjum samböndum kemur, en gleymist stundum að horfa í þegar makinn er farinn að fara í taugarnar á þér.
En ég held að í mjög mörgum tilfellum sé hægt að snúa til baka og finna neistann sem áður var og kveikja þar bál að nýju í stað þess að setja svona marga aðila inn í breytingar sem eru öllum erfiðar. Það virðast einnig vera þannig að sirka 2 árum eftir skilnað hefðu mjög margir bara viljað hafa verið í gamla leiðinlega sambandinu sínu þar sem einhleypingslífið var ekkert svo spennandi eftir allt. Og svo er það einnig þannig að þú tekur alla gallana þína með þér inn í framtíðina og það gæti hreinlega klikkað að nýr aðili samþykki þá með brosi á vör og þá hefst sami hringurinn og endar í öðrum skilnaði!
Þetta eru mínar skoðanir og þú gætir átt allt öðruvísi skoðun á þessu og ég virði það fullkomlega, en fiðringurinn sem við leitum svo mörg að er oftast nær stundarfyrirbrigði og endist einungis jafn lengi og boðefnið sem kveikti hann, og þá tekur dapur raunveruleikinn við með öllum þeim verkefnum sem bíða þeirra sem í samband fara. Og þá er nú eins fallegt að vera búin að skoða vel hversu margt þið eigið sameiginlegt af lífsgildum og hvort að stefnan ykkar og ætlun í lífinu sé sú sama, þ.e. ef byggja á upp samband sem viðheldur neista og fiðringi til langs tíma.
Svo skoðum hvort hægt sé að laga til og breyta í gamla sambandinu þó að makinn sé eitthvað leiðinlegur og lítið smart, og hvernig væri amk að gefa því séns að það sé hægt að ná í gamlan og gleymdan fiðring áður en svona stór og afdrifarík ákvörðun er tekin elskurnar?
það borgar sig þegar til framtíðar er litið og verkefnanna sem bíða eftir skilnað - og trúðu mér ef þú leitar að einhverjum betri hinu megin við hæðina þá skal ég trúa þér fyrir leyndarmáli - það eru miklu fleiri froskar en prinsar og prinsessur þarna úti og neistinn til þeirra fljótur að slokkna hvort sem er þegar þér tekst ekki að breyta froskinum í prins/prinsessu. Home sweet home er stundum bara best (þó ekki alltaf)
Og ef þú ert í vafa með þitt líf og þín skref þá er ég einungis einni tímapöntun í burtu.
xoxo
Ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
Markþjálfi/Samskiptaráðgjafi/TRM áfallafræði
linda@manngildi.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.9.2019 | 12:20
Við eigum bara þetta eina líf
Það er staðreynd sem fæst okkar virðast þó stundum gera okkur grein fyrir ef við horfum á hvernig þessu eina lífi er varið í streitu og kapphlaup við eitthvað sem mun á dánarbeði okkar ekki skipta okkur neinu máli.
Dauðir hlutir, steinsteypa, yfirvinna og allt það sem við streðum sem mest við að eignast og hafa skipta okkur litlu þegar á stóru myndina er litið.
Ég hef með árunum komist að því að það sem skiptir mig máli á þessari göngu eða flugferð er að njóta lífsins í gleði og sátt þrátt fyrir aðstæður - en ekki vegna þess að aðstæðurnar séu svo góðar, og að dvelja sem oftast í hjarta mér í því þakklæti sem ég finn þar.
Einnig hef ég ákveðið að vera aðeins þar sem mér líður vel og gera aðeins það sem mér líður vel með að gera og vera, eða bara ég sjálf með öllum mínum kostum og göllum.
Það er ekkert annað í boði ef ég ætla að uppgötva að fullu hver ég er án skilgreininga annarra á tilvist minni og athöfnum. Hvað aðrir hugsa eða halda um mig er bara einfaldlega ekki mitt mál, því að í stóra samhenginu þá hefur það ekkert að segja um mína tilvist og lífsgöngu ef ég læt það ekki snerta mig eða komast undir skinnið á mér.
Eleanor Roosevelt sagði einu sinni að enginn gæti sett þig niður eða sært þig án samþykkis þíns, og ég hef komist að því að það er töluvert til í þessum orðum hennar.
Þetta eina líf sem við fáum úthlutað er einnig mjög stutt! Svo stutt að stundum finnst mér ég vera á þotuhraða eða hraðspólun í gegnum það.
Það var fyrir svo ógnarstuttu að ég eignaðist mitt fyrsta barn td - en það eru þó tæp 40 ár síðan, lengri tími en ég get gert mér vonir um að eiga eftir hér á hótel jörðu, og þegar við uppgötvum að það er minna eftir af þessu eina lífi en meira þá förum við virkilega að hugsa um hvað það er sem við viljum hafa inni í þeim tíma sem eftir er.
Að eiga bara eitt líf er töluvert stórt mál og þegar við náum utan um þá hugsun að fullu ætti það (og gerir það líklega)að færa okkur að því marki að vilja og velja aðeins það besta sem hægt er að fá inn í það.
Við stöndum frammi fyrir hlaðborði lífsins og ættum líklega alltaf að vera að velja af því það sem er okkur hollt og gott, en gerum það allt of sjaldan með tilheyrandi þjáningu og niðurbroti ásamt sorg og harmi.
En hvað er það sem gerir það að verkum að við veljum ekki það góða fyrir líf okkar?
Jú allt of oft held ég að okkur finnist við ekki eiga það góða nægjanlega mikið skilið og oft held ég að skilgreiningar okkar og annarra á okkur setji okkur á staði sem eru okkur óhollir. Við hlustum allt of oft á þá sem ekki vilja okkur vel, og við upplifum okkur sem ekki nóg eða of mikið af einhverju og finnum okkur vanmáttug gegn lífinu og samferðamönnum okkar.
Fíknir eru t.d að mínu mati flótti frá okkur sjálfum og aðstæðum í lífinu sem við eigum erfitt með að höndla, og flest finnum við okkur víst leið til að lifa af í óvinveittu óuppbyggjandi umhverfi og aðþrengdum aðstæðum.
En ef við gætum bara séð að drive -through leiðirnar eða þessar fljótförnu leiðir leiða okkur oftar á staði sem reynast til lengri tíma vera okkur hættulegar til anda, sálar og líkama þá værum við líklega að velja af hlaðborðinu betri og hollari rétti (leiðir)
Svo ég hvet okkur til að hafa í huga að gefa okkur virði okkar sjálf, velja aðeins það besta fyrir líf okkar hverju sinni, vera og dvelja aðeins þar sem okkur líður vel, koma okkur frá aðstæðum sem eru okkar skaðlegar með einum eða öðrum hætti, og skoða af alvöru sama á hvaða aldursskeiði við erum hvað það er sem við viljum hafa í minningabankanum okkar þegar þessu eina lífi sem við eigum garenterað líkur.
Set hér að lokum nokkur viskukorn sem ég hef birt á fésbókarsíðunni Manngildi í gegnum árin ef það gæti gagnast einhverjum:
Við eigum alltaf nýja byrjun í núinu og ættum svo sannarlega að nýta okkur það til að skapa okkur þá framtíð sem við þráum að sjá.
Ertu á þeim stað að þú vitir hvaða stefnu þú átt að marka þér, eða ertu á þeim stað þar sem þú lætur hverjum degi nægja sína þjáningu ? Ég hvet þig til að skoða hver þú vilt vera og markaðu þér stefnu samkvæmt því.
Stundum eigum við erfitt með að skilja lífið og þau verkefni sem það færir okkur, en samþykki okkar er samt eina svarið við því öllu. Ef við samþykkjum ekki lífið eins og það er hverju sinni finnum við fyrir togstreitu sem þreytir okkur og dregur úr okkur mátt Sleppum tökum og leyfum lífinu að hafa sinn gang.
Lífið er sífellt að koma með nýjar áskoranir til okkar í formi brotinna tilfinninga og særinda, en á þeim stað höfum við vald til að velja tilfinningar sem gera okkur að sterkari, betri og þroskaðri einstaklingum. Veljum kæru vinir að vaxa í andstreyminu.
Við erum stundum treg að skoða málin út frá mörgum sjónarhornum og það gefur okkur því skakka mynd af því sem er. Opnum hugann og víkkum út sýn okkar áður en við ákveðum skoðanir okkar og viðhorf til málanna.
Það eru ótrúlegustu dyr sem opnast þegar við förum að trúa á mátt okkar og getu, og líf okkar getur tekið ótrúlegum breytingum á stuttum tíma.
Það eru fólgnir galdrar í því að vænta góðra breytinga og hluta.
Ekki hlusta á þá sem segja þér að eitthvað sé ekki framkvæmanlegt, gerðu tilraunir á tilraunir ofan og sjáðu til, það mun skila sér í árangri að lokum ef trúin á það er til staðar hjá þér.
Við erum svo oft að leita að hamingjunni sem fylgir fullkomnuninni og þess vegna er svo erfitt að upplifa hana hamingjan er fólgin í því smáa og hversdagslega.
Við upplifum sorg, kvíða, depurð, höfnun og margs konar aðrar óþægilegar tilfinningar á einum eða öðrum tímapunktum í lífinu, en getum þó valið að njóta gleði lífsins þrátt fyrir þær aðstæður.
Þar til næst elskurnar
xoxo
ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
Markþjálfi/Samskiptaráðgjafi/TRM áfallafræði
Tímapantanir á linda@manngildi.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Linda Baldvinsdóttir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (14.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 24
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 21
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar