Hláturinn lengir lífið

Ég uppgötvaði um daginn að líklega hef ég aldrei skrifað pistil sem fjallar eingöngu um jákvæðni eða máttinn sem felst í því að halda hugarfari sínu sem mest þar ásamt því að hlæja dátt oft á dag.

Það er yndislegt að vera jákvæður og skemmtilegur alla daga, en ég held að það sé nánast ómögulegt nema að við séum með fulla meðvitund öllum stundum sem við einfaldlega erum ekki og því læðast að okkur neikvæðu púkarnir sem sitja á öxl okkar og pikka þar og pota. Við höfum nú samt sem betur fer þann möguleika að auka meðvitundarstig okkar um nokkrar gráður dag hvern í þágu heilsu okkar og lífsgleði ef við bara ákveðum það.

Svo hvað er hægt að gera til að bæta meðvitund okkar?

Ég held að það sé varla til mjög nákvæm uppskrift þar um,  en sú uppskrift byggist líklega á dassi af hinu og þessu og allt eftir smekk hvers og eins og aðstæðum í lífinu.

Það er þó forvitnilegt að skoða hvað hinir ýmsu fræðimenn hafa að segja um hugtakið jákvæðni og nauðsyn þess að iðka hana.

Þessir fræðimenn virðast flestir vera sammála um að þeir sem eru hamingjusamir, lífsglaðir og jákvæðir verði síður veikir en þeir sem eru meira neikvæðir svona til að byrja með. Eins segja þeir að þegar jákvæðu einstaklingarnir verði veikir upplifa þeir einnig færri og mildari einkenni en hinir neikvæðu.

Og ef við byrjum á því að skoða hvað hægt er að gera til að halda sig sem mest á hinni jákvæðu hlið lífsins þá held ég að ég verði að byrja á því að tala um hláturinn og mátt hans. Þeir sem eru glaðir og hlæja reglulega lifa lengur og eru hraustari, þeir eiga betri samskipti við sjálfa sig og aðra og þeir taka betri ákvarðanir en þeir sem iðka sjaldan brosvöðvana.

Hláturinn er líklega einnig besta lækning heimsins þar sem hann er okkar náttúrulega prosak, hann linar kvalir okkar, lækkar blóðþrýsting, bætir svefn, virkjar ónæmiskerfið og framleiðir gleðiboðefnið endorfín. Þannig að það er nokkuð ljóst að heilinn okkar og líkami virkar betur þegar við hlæjum.

Við notum venjulega meira vinstra heilahvel okkar segja þeir en þegar við hlæjum notum við hægra heilahvel og við verðum svo miklu meira skapandi.

Hláturinn færir okkur einnig nær hvert öðru í samskiptum og hverjum finnst ekki yndislegt að fá bros frá náunganum og hláturinn er reyndar eina smitið sem ég er til í að smitast af þessa dagana. Hláturinn hefur einnig ómótstæðilegt aðdráttarafl og við sækjum meira í fólk sem fyllt er hlátri og gleðiorku. 

Ynglingahormóna framleiðslan eykst 87% við hlátur segja þeir, ekki amalegt það. Einnig vilja þeir meina að við hlátur aukist framleiðsla á frumum sem eyða bakteríum, veirum og jafnvel krabbameinsfrumum og minnið okkar helst töluvert lengur. Ef allt þetta reynist satt þá ættum við að taka okkur tíma á hverjum degi bara til að hlæja okkur máttlaus ekki satt?

Það sem við getum síðan gert sjálf inn á harða diskinn okkar er að setja fókus okkar á þá hluti eða atburði í kringum okkur sem eru jákvæðir skemmtilegir og uppbyggilegir, ásamt því að þakka fyrir allt sem við höfum í lífi okkar nú þegar og veitir okkur gleði og hamingju.   

Allt sem við veitum athygli vex og dafnar og ég veit að þegar ég hef td verið ófrísk þá sé ég allar ófrísku konurnar í kringum mig og eins þegar ég hef keypt mér nýjan bíl þá finnst mér hreinlega allir vera á þannig bílum í umhverfi mínu.

Heilinn finnur þannig fyrir mig í umhverfinu allt það sem ég beini athygli minni að - svo notum þann mátt okkur til heilla elskurnar. 

Ég ákvað fyrir löngu síðan að horfa sjaldan á fréttir. Fyrir mig var það bara holl og góð ákvörðun því að í flestum tilfellum er þar fókusað á allt það sem miður fer í heiminum og fáar jákvæðar fréttir sem heyrast og sjást.

Ráðlegg reyndar flestum að prófa þetta og sjá hvort að jákvæðnin gagnvart lífinu og þjóðfélaginu eykst ekki eftir því sem lengra líður á milli áhorfs á fréttatímana.

Svona að lokum þá er það fátt sem gleður okkur meira eða gerir okkur jákvæðari en það að gefa af hjarta okkar til annarra svo verum dugleg við að gefa allt sem við getum til náunga okkar. Gefum þeim bros okkar og hlátur, hvatningu eða öxl til að gráta á. Hlustum á þá og veitum þeim aðstoð okkar umhyggju og kærleika, og dreifum þessu út um allt í kringum okkur, Guð einn veit að heimurinn þarfnast þess að við berum öll ábyrgð á náunga okkar.

En þar til næst elskurnar, glimmerkveðja, koss og faðmlag til ykkar allra - og ef þið þurfið á mér að halda við málefni lífs ykkar þá er ég einungis einni tímapöntun í burtu.

xoxo

Ykkar Linda

 

Linda Baldvinsdóttir

Lifecoach, samskiptaráðgjafi, Trm áfallafræði

linda@manngildi.is


Frelsandi að vera óháður útkomum

Eitt það dásamlegasta sem ég hef uppgötvað á minni göngu í lífinu er að læra að sleppa tökunum og vera óháð útkomum í lífinu, leyfa semsagt öllu að hafa sinn gang eða vera eins og því var ætlað að vera eða þróast hverju sinni.

Hér áður var ég mjög háð því að setja mér háleit markmið og fannst ég verða að ná þeim, en í dag hef ég fyrir löngu komist að því að lífið tekur mig á hina ýmsu staði sem ég ætlaði því svo sannarlega ekki að fara á meðan ég var að rembast við að ná þeim markmiðum sem ég hafði sett mér.

Það er einhvernvegin þannig eins og John Lennon sagði í einu laga sinna að lífið er það sem hendir þig þegar þú ert upptekinn við að gera önnur plön.

En þvílíkt dásemdarfrelsi sem það getur verið að sleppa tökum á útkomum.

Það frelsar með þeim hætti að við þorum að taka fleiri áhættur og að láta bara lífið rætast án þess að það þurfi að heppnast á allan hátt eða að hafa einhvern sérstakan endapunkt. Að hafa bara gaman að ferðalaginu á meðan á því stendur þess í stað. Hversu dásamlegt er það ekki?

 

Að framkvæma það sem hjarta okkar segir okkur að framkvæma án þess að vera háður útkomum gerir það að verkum að við höldum jafnvægi og förum ekki í reiptog við lífið þegar við sjáum að útkoman ætlar ekki að verða sú sem við vildum að hún væri, og þessi togstreita sem veldur okkur kvölum verður fjarri lífi okkar.

Við erum svo gjörn á að ætla okkur að þvinga lífið inn í okkar ramma eða í þær áttir sem við viljum að það fari og tökum þannig í leiðinni frelsið frá okkur sjálfum, öðru fólki og lífinu sjálfu. Hinn frjálsi vilji okkar mannanna og lífsins þannig að engu gerður. 

Stundum viljum við einfaldlega fá eitthvað sem okkur var einfaldlega aldrei ætlað og við förum af stað í að finna alla mögulegar leiðir til að ná því fram með tilheyrandi vanlíðan, sorg og öðrum vondum tilfinningum fyrir okkur sjálf og sóum þannig þessu stutta lífi okkar í að berjast við vindmillur að hætti Don Quixote.

Að trúa því að það sem mér sé ætlað komi til mín og verði þar, að trúa því að lífið leiði mig á þær brautir sem mér eru ætlaðar og að allt samverki til góðs með einhverjum hætti sem ég sé kannski ekki núna er frelsandi,og ef eitthvað er mikilvægt að hafa í huga í þessu lífi þá er það að frelsið er einfaldlega yndislegt og nauðsynlegt hverjum manni að halda fast í.

Við verðum að gefa öðrum frelsi til að vera þeir sjálfir og framkvæma samkvæmt sjálfum sér og eins þurfum við að geta haldið í það að vera við sjálf og sleppa þannig tökum á aðstæðum og fólki sem við ráðum hvort eð ekkert við vegna áætlana þeirra sjálfra og lífsins fyrir þá. 

Ég veit að fyrir suma er þetta óskiljanlegt með öllu, en ég vildi endilega deila þessu með ykkur hér þar sem að þetta ráð er það sem kemur mér í gegnum flestar ef ekki allar aðstæður lífsins í dag og kemur mér á fæturna í hvert sinn sem eitthvað hendir sem mér hugnast illa og ég hef litla eða enga stjórn á.

Enda þennan stutta pistil minn á tilvitnun í C.S. Lewis sem er full af visku að mínu mati og er þess verð að hugsa um.

"Hvers vegna gaf Guð þeim þá frjálsan vilja? Vegna þess að frjáls vilji, þó að hann geri hið illa mögulegt, er einnig það eina sem gerir alla þá ást umhyggju og gleði sem vert er að eignast mögulega" C.S. Lewis

Og eins og alltaf ef ykkur vantar aðstoð við lífsins málefni þá er ég einungis einni tímapöntun í burtu.

Þar til næst elskurnar

xoxo

Ykkar Linda

Linda Baldvinsdóttir

Lifecoach, samskiptaráðgjafi, TRM áfallafræði 1 og 2.

Linda@manngildi.is

 

 


Ertu einmanna?

Í dag er það þekkt að eitt af okkar aðal samfélagslega meini er einmannaleiki í allskonar myndum og líklega erum við mörg að finna það á eigin skinni í dag hvernig það var að vera einn og einmanna í faraldri þeim sem nú geisar um allan heim.

Þessum pistli er þó ekki ætlað að leysa nema kannski að hluta til einmannaleikann sem fylgir hömlum þeim sem gilda í heiminum í dag heldur er honum ætlað að fjalla almennt um þann faraldur sem fer mjög illa með marga í dag og kannski langar mig að miðla nokkrum lausnum inn í þær aðstæður og eins spurningum sem við getum mátað okkur inní.

Á forsíðu Harvard Business Review lýsti fyrrum yfirlæknirinn Vivek Murthy því yfir að allur heimurinn væri að þjást vegna einmannaleikafaraldurs dagsins í dag. 

í nýlegri skýrslu frá Cigna er einnig lögð áhersla á það hversu víðfeðmur þessi faraldur er.

Í raun finnst mér ekkert skrýtið við þetta þar sem við erum verur sem þurfum á nánd og samskiptum að halda og finnum það líklega aldrei eins vel eins og á þessum Covit tímum sem við lifum nú og í þeirri breyttu heimsmynd sem er að myndast. Við erum yfirleitt allt of mikið ein eða erum í samskiptum sem eru að mestu vinnutengd og skortir nánd.

Fullorðið fólk, unglingar og börn eru einmanna sem aldrei fyrr. Fjölskyldumynstrin hafa einnig breyst mjög mikið á stuttum tíma. Foreldrarnir búa ekki heima hjá börnum sínum eftir að þeirra starfsævi lýkur eins og áður var (enda yfirleitt um marga foreldra að ræða í dag) og börnin og unglingarnir koma yfirleitt ekki heim að loknum skóla í nýbakaða súkkulaðitertu eða brauð með osti og sultu eins og áður var. Í þá daga komu vinirnir stundum með heim úr skólanum í drekkutíma og leik. Það var yfirleitt einhver heima til að taka á móti okkur og ef ekki þá var stutt í að hann kæmi heim. Þessi mynd er mjög breytt frá því sem ég átti að venjast í mínum uppvexti og er nú ekki langt síðan að ég var yngri en ég er í dag :) 

Í könnun frá UCLA sem var lögð fyrir töluverðan fjölda bandaríkjamanna kom fram að liðlega helmingur þátttakenda var fyrir ofan viðmiðunarmörk þau sem sett voru á heilbrigð tengsl, og því miður var var meirihluti þeirra sem mældust svona ofarlega á skalanum fæddir á tímabilinu 1997 til 2012. Sláandi niðurstöður og ættu að segja okkur að við erum að gera eitthvað sem er ekki til heilla og ættum að leiðrétta stefnuna sem fyrst.

Við erum margskilin og misskilin, margar mömmur og pabbar, afar og ömmur, búum ein og höfum ekki stuðning þorpsins (hjarðarinnar) sem ég hef lagt mikla áherslu á að tala um í pistlum mínum.

Við sjáum núna á þessum alvarlega Covit tíma (þó að við höfum hingað til sloppið bærilega þar) hversu miklu máli það skiptir að við stöndum saman og hugum að hag samlanda okkar og fjölskyldustunda og ættum að innleiða þá stefnu að þessu loknu, bæði úti í samfélaginu og eins í einkalífinu.

Það skiptir miklu máli þegar þú býrð einn að fá símtöl, matarboð, falleg orð, samskipti á netinu og umhugsun þegar tímarnir eru ekki svo góðir eða þegar veikindi steðja að svo að fátt eitt sé nefnt, og öll viljum við að við séum einhverjum kær og að við séum í huga þeirra sem skipta okkur máli. Flest getum við gert betur þarna.

Að vera Palli einn í heiminum er líklega aumasta hlutskipti okkar hjarðdýranna að ég tali nú ekki um þá sem eru félagslyndir og eiga erfitt með að vera ekki í samskiptum við fólk.

Í dag er mikið talað um að við þurfum að leita inn á við en ekki út á við og það er margt til í því þegar við horfum á streituna sem er í þjóðfélagi okkar. Að þurfa að vera sífellt að uppfylla kröfur tekur okkur alltaf frá því sem skiptir mestu máli. Það endar einnig yfirleitt með því að við hættum að þekkja okkur sjálf og endum í kulnun. Þannig að auðvitað höfum við gott af því að hugleiða og dvelja í anda okkar og einveru um stund en það má þó öllu ofgera.

Við erum andlegar samskiptaverur og það sem meira er, við erum öll tengd hvort öðru á einhvern hátt sem við eigum oft erfitt með að skilgreina. Við þurfum á hverju öðru að halda þó að við þurfum auðvitað að dvelja í einveru stundum.

Það hefur verið talað niður að við höfum þörf fyrir nánd við aðrar manneskjur og tel ég að það sé einfaldlega vegna þess að við erum stundum eins og strúturinn. Við stingum bara höfðinu í sandinn og finnum mjög smart lausnir við ómögulegum aðstæðum og látum eins og allt sé í fínu lagi. Er það ekki svipað og gert var í sögunni um nýju fötin keisarans.

Lausnin sem við fundum og fannst við mjög töff að hafa komið með gagnvart þessari mannlegu þörf á félagsskap var að gera það að skammaryrði þegar einhver segist vera einmanna og að hann þurfi á öðrum að halda. Og þegar fólk viðurkennir að vilja nánd við aðrar mannverur þá ætlar allt um koll að keyra. Þegar við semsagt viðurkennum þá staðreynd og opnum okkur er reynt að segja okkur að við séum einfaldlega ekki nægjanlega andleg og ekki í tengingu við okkar æðra sjálf eða ekki í jafnvægi.

Því fer hinsvegar fjarri, við erum einmitt í tengingu við þarfir okkar þegar við viðurkennum skort okkar á samskiptum og nánd. Við erum hjarðdýr og þau ferðast um í hópum en ekki ein samkvæmt þeirri skilgreiningu sem ég lærði a.m.k í skóla og þurfum þar af leiðandi þessi samskipti jafnt og við þörfnumst matar og húsaskjóls ásamt því að fá að vera ein stundum.

Ég ætla að gefa ykkur smá hugmynd um hvaða spurningar voru notaðar í könnuninni sem ég talaði um hér að ofan og vona að þú þurfir ekki að setja tékk við neinni þeirra og að þú sért í góðum málum þegar kemur að því að tengslum. En hér eru punktar:

  • Mig skortir félagsskap.
  • Það er enginn sem ég get snúið mér til.
  • Mér líður eins og ég sé ein/n.
  • Ég er ekki lengur í nánd við aðrar mannverur.
  • Ég á ekki samleið með öðrum hvað varðar áhugasvið mín og get ekki deilt hugmyndum mínum með öðrum.
  • Mér finnst ég verða útundan.
  • Félagsleg sambönd mín eru yfirborðsleg.
  • Enginn þekkir mig virkilega vel.
  • Mér finnst ég vera einangraður frá öðrum.
  • Ég er óánægður með að vera svona til baka í samskiptum.
  • Ég er einmanna þrátt fyrir að vera í kringum fólk vegna þess að mér finnst það vera í kringum mig en ekki með mér.

Þetta eru aðeins dæmi úr þessari könnun en geta þó gefið þér hugmynd um stöðu þína. Og ef þú kannast við atriðin sem nefnd eru þá væri ráð að leita aðstoðar við að breyta stöðunni.

En þá að leiðum til að sigrast á einmannaleikanum:

  • Hugsanir okkar leiða okkur stundum í ógöngur og verða til þess að við fáum svona rörasýn á aðstæður okkar og það á við þegar við upplifum okkur mjög einmanna. Við ættum hinsvegar að gera allt til að velja hugsanir sem þjóna okkur og finna lausnir á vandamálunum. Ein leiðin sem við getum notað er að ákveða að finna 6 atriði sem gætu breytt félagslegri stöðu þinni til hins betra.
  • Hafðu samband við aðila sem þú telur að hafi sömu áhugamál og þú og bjóddu þeim að taka þátt í klúbbi með þér. T.d bókaklúbbi, kampavínsklúbbi, matarklúbbi, prjónaklúbbi, eða hvað sem þér dettur í hug. Í dag er meira að segja hægt að hafa þetta allt á netinu!.
  • Það er hægt að hella sér út í golfið eða fara þar sem það fólk er sem okkur langar að kynnast.
  • Að fara á námskeið er líka hægt að gera og kynnast nýju fólki þar.
  • En svo kemur að aðal vandamálinu en það er að láta ekki þau samskipti sem þú myndar deyja út vegna þess að þú vilt ekki vera að ónáða fólk eða gefur þér einfaldlega ekki tíma til að sinna tengslum. En ég get sagt þér smá leyndarmál - svona venjulega vill fólk láta trufla sig og er þakklátt fyrir að það sé munað eftir þeim! 
  • Finndu þér stað þar sem þar sem þú getur gefið af þér - það er ekkert betra í einmannaleikanum en að gefa öðrum kærleika, samkennd, vináttu og virðingu.
  • Það sem þú getur svo gert fyrir þig og bara fyrir þig er að fara á kaffihús og skoða mannlífið, fara út að borða á flottum veitingastað og borða það sem þig langar í. Lesa góða bók, elda góðan mat og kaupa þér gott vín með matnum, fara í nudd og annað dekur eða leggjast í góða seríu á Netflix með popp og kók á kantinum.
  • Hvað sem þú gerir til að minnka einmannaleikann láttu það vera eitthvað sem gefur þér gleði og hamingju.
  • Að lokum ætla ég að gefa ykkur gott ráð sem einn vinur minn kenndi mér en það er að bjóða manneskju sem þig langar að kynnast í hádegismat og bjóða svo nýrri áhugaverðri manneskju alla mánuði ársins þannig að eftir árið verðir þú búinn að kynnast 12 nýjum manneskjum og jafnvel eignast vini fyrir lífstíð, ekki slæmt það.

En þegar allt kemur til alls þá er því miður einmannaleikinn oft valinn af okkur sjálfum og framtaksleysi og ótti okkar við að nálgast aðra er líklega versti óvinurinn þar ásamt því að samkennd og kærleikur hefur kólnað ískyggilega hratt á þessum glansmyndatímum. 

Ég hvet okkur til að stíga inn í óttann og segja þessu framkvæmdaleysi okkar stríð á hendur og gefumst ekki upp þó að allt gangi ekki alveg upp hjá okkur í fyrstu tilraun - gerum bara fleiri og fleiri tilraunir og það er bara ekkert víst að þær klikki allar saman!

Þar til næst dýrmætu þið, -

(og ef þið haldið að þið getið nýtt mína aðstoð við að leysa úr lífsins verkefnum þá er ég eins og alltaf bara einni tímapöntun í burtu).

xoxo

Ykkar Linda

 

Linda Baldvinsdóttir

Leiðtogamarkþjálfi/Samskiptaráðgjafi/TRM áfallafræði 1 og 2.

linda@manngildi.is

 

Ástin og þakklætið eru lyklarnir að kraftaverkum lífsins

Að undanf0rnu hef ég verið að endurlesa og hlusta á það sem vekur gleðina í brjósti mínu og hefur reynst mér best við að koma mér á stað möguleikavíddarinnar kærleikans og gleðinnar, og mig langar að deila með ykkur í dag því sem hefur reynst mér vel til þess. 

Við lifum á afar skrítnum tímum og margt sem gengur á í veröldinni og stundum líður okkur ekkert allt of vel með það en ég tel að það séu mörg falin tækifæri í þessari stöðu engu að síður.

Við höfum frá því í febrúar verið að eiga við áður óþekktan vágest sem líklega mun hafa áhrif á efnahag okkar og samfélag til lengri tíma bæði til góðs og ills.

Þrátt fyrir það getum við átt góða og gefandi tíma og í raun nýtt þetta tækifæri til að leyfa mýkri og fallegri hliðum okkar að blómstra samfélagi okkar til góðs. Vonandi tökum við upp umhyggjusamari daglegri framkomu og skiptum henni út fyrir þá hörku sem einkennt hefur þann veraldarheim sem við höfum byggt hingað til og hefur tekið svo mikið frá okkur af því besta sem lífið getur gefið að mínu mati.

En mér til mikillar gleði hef ég heyrt fólk tala um að það ætli að slaka meira á og njóta betur þess sem lífið hefur að gefa í framtíðinni og það er skref í rétta átt. Annað skref í þá átt hefur mér fundist hversu fallegt hjartalag við eigum til náunga okkar á erfiðum tímum og það gladdi hjarta mitt að sjá að við höfum ekki glatað þeim fallega þjóðlega eiginleika.

Gerum það að rútínu og lífsstíl okkar að láta umhyggjuna og kærleikann tala, ekki bara þegar erfiðleikar steðja að, heldur einnig þegar góðir tímar eru - því að það er fullt af fólki sem hefur það ekki svo gott sama hvernig árar í þjóðfélaginu.

En hér koma þau atriði sem hafa reynst mér vel á leið minni og kippa mér til baka á góða staðinn minn:

  • Í fyrsta lagi þarf alltaf kærleika og ást til að færa okkur það sem við þráum innst í okkar hjarta. Með því að gefa kærleikanum rými í hugsun, tilfinningum og framkvæmdum okkar og með því að opna fyrir flæði alheimsins geta kraftaverkin svo sannarlega látið sjá sig. Með kærleikanum breytum við orkunni okkar og verðum færari um að taka við því fallega sem lífið hefur upp á að bjóða og eins verðum við færari um að gefa. Með kærleikanum fylgir hamingjan óhjákvæmilega, því að ef við fyllum brjóst okkar af ást til lífsins og okkar sjálfra og dreifum síðan til þeirra sem settir eru í veg okkar fyllum við okkur af hamingjutilfinningunni, og ef við sjáum svo það fallega við allt sem er í þessum heimi eykst hamingja okkar enn meira. Þetta er mjög svo einfalt. Við þurfum ekki að leita lengra en til okkar sjálfra til að finna hamingjuna þó svo að sannarlega auki góð samskipti á hana ef hjartað er barmafullt af kærleika fyrir.

 

  • Í öðru lagi er það þakklætið sem styður við hamingju okkar og er vel þess virði að iðka. Þakklætið sprettur svo sannarlega frá ástinni eða kærleikanum og ástin vex með þakklætinu, þetta tvennt verður varla aðskilið. Að þakka fyrir það sem nú þegar er í lífi okkar geymir leyndardóm og lögmál flæðis. Að þakka fyrir líkamann og hans störf í okkar þágu er eitthvað sem gott er að byrja daginn á og eins ættum við að vera dugleg við að sjá það sem við höfum nú þegar í lífi okkar og þakka fyrir það. Að þakka fyrir þá vináttu og ást sem við upplifum í og með hverri manneskju sem við hittum er uppspretta gleðinnar og alls hins góða sem hún gefur. Að gleðjast vegna alls þess smáa sem er kannski ekki svo smátt þegar allt kemur til alls er einnig ótrúlega gefandi. Okkur hér á Íslandi finnast sjálfsögð mannréttindi að hafa húsnæði,rennandi vatn, fjármuni, störf og klæði en það er svo sannarlega skortur á öllu þessu víða um heim. Svo þökkum fyrir að vera forréttindafólk á svo margan hátt.

 

  • í þriðja lagi ættum við að láta okkur líða vel og leyfa engu að koma í veg fyrir það. Þegar við elskum og lifum í þakklæti gefur það ekki rými fyrir illt tal um náungann og við leyfum ekki neikvæðni að ríkja lengi í senn í lífi okkar. Við getum ekki verið í umhverfi þar sem ljót framkoma og meiðandi orð fá að dvelja vegna þess að það fer gegn okkar ástríka hugarfari og líðan. Stundum er jafnvel spurning um að við gefum okkur og þeim sem í neikvæðninni dvelja frí frá okkur því að sú orka gagnast hvorki okkur né þeim. Við getum ekki leyft þeim sem vilja meiða okkur að slökkva ljós okkar kærleika og hamingju og það er alls ekki gott fyrir þá að fá að ala á sinni meiðandi framkomu.

 

  • Í fjórða lagi vertu glaður og leiktu þér. Lífið er stutt og okkur er ætlað að njóta veru okkar hér í stað þess að lifa í alvarleika og ofurábyrgð á gangi heimsins.    Gefðu sjálfum þér þá gleði að senda ást til allra sem verða á vegi þínum sama hvort það er í verslunum veitingastöðum eða bara þeim sem þú mætir á vegi þínum. Allt slíkt gefur okkur sjálfum gleði þess sem veit að hann gefur án þess að af því sé vitað. Gefum af fjármunum okkar til þeirra sem við mætum og sjáum að þurfa smá aðstoð þó að það séu ekki stórar upphæðir. Allt þetta fyllir okkur hamingjuorku. Að skapa gleðistundir með ættingjum og vinum er í mínum huga eitt það besta sem ég veit fyrir mig til að kveikja gleði mína, og þegar ég fer í göngutúr finnst mér gott að taka eftir öllu því fagra í náttúrunni og skoða hvernig hún starfar í fullkominni einingu sem ég vildi svo gjarnan geta séð okkur mannkynið gera einnig. Að gefa bros, uppbyggjandi orð og hvatningu af kærleika getur breytt deginum hjá þeim sem það þiggja og gefur þér gleði þess sem veit og gerir sér grein fyrir að við erum öll saman í þessum heimi og getum gefið þeirri tengingu ástríka merkingu. 

 

  • Í fimmta lagi elskaðu þig af öllu hjarta og bjóddu þér bara uppá það besta sem lífið getur gefið að þínu mati. Sæktu það síðan með því að taka þau skref sem þú þarft til þess. Kynntu þér allt það sem getur fært þig nær tilgangi þínum jafnvægi og friði. Hugleiddu dag hvern hvort þú lifir í kærleika (ljósi) eða gagnstæðri tilfinningu (myrkri) og leiðréttu kompásinn jafnóðum yfir í kærleiksríkari tilvist ef þú kemst að því að þú ert að festast á myrku hliðinni.  Allur skortur sprettur frá okkar innra sjálfstali og viðhorfum svo búum frekar við ríkidæmi ljóssins innra með okkur og breytum heiminum og hans neikvæðni einn dag í einu, einni manneskju í einu og byrjum á okkur sjálfum.

Sendi ykkur ást og umhyggju ásamt nokkrum rafrænum faðmlögum og óska ykkur kærleiksríks hugarfars ykkur til heilla og langar að benda ykkur á umhyggjuherferð sem er mér kær og nefnist #kind20 á facebook þar sem við fáum tækifæri á því að taka þátt í að dreifa umhyggju með öllum heiminum.

Og eins og ætíð er ég einni tímapöntun í burtu frá ykkur ef þið teljið að ég geti aðstoðað ykkur á ykkar lífsins leið.

Þar til næst xoxo

Ykkar Linda

 

Linda Baldvinsdóttir

Lifecoach/Samskiptaráðgjafi/TRM áfallafræði 1 og 2.

linda@manngildi.is 

 


Persónur og leikendur

Í ævintýrunum er það þannig að fólk er ýmist gott eða vont, annað hvort mjög traust eða undirförult, umhyggjusamt eða eigingjarnt og kannski er það einnig þannig í lífinu sjálfu.

Ég er líklega eins og Rauðhetta litla sem treysti allt og öllum þar til annað kemur í ljós en þannig vill ég líka hafa það. Ég hef séð fleiri samskipti brotna vegna vantrausts en trausts og hvatningin sem felst í traustinu er einnig það sem ég vil gefa mannkyninu. Og það er mitt karma sem ég skapa með þeim hætti, aðrir sjá um að skapa sitt.

En aftur að ævintýrunum. 

Í ævintýrunum eru persónurnar ýmist litlir ljósberar sem telja sig ekki vera þess megnugir að framkvæma hetjudáðirnar en vaxa þó inni í aðstæðunum og sigrast á hindrunum og standa uppi sem hetjur, svo eru riddararnir sem ryðjast fram til bjargar heiminum og ég er svo stálheppin að ég þekki báðar þessara persónugerða.

Í dag eru það ljósberarnir eða heilbrigðisstarfsmennirnir sem hafa heldur betur vaxið í aðstæðunum og eru í dag aðal hetjurnar okkar. Svo koma næstir allir þeir sem vilja sýna kærleika sinn með aðstoð sinni við náungann með því að aðstoða við innkaup, skemmtun, vellíðan og fleira. Og að lokum eru það riddararnir á fákum sínum sem vilja bjarga heiminum með sínum réttlætis og góðmennskusverðum sem fá til fylgdar við sig heilan her af þeim sem heillast af hugsjónum þeirra og hugrekki.

Hversu dásamlegt er það að þekkja allar þessar gerðir manna og sem betur fer höfum við séð að þeir eru fleiri sem hafa þetta fallega hjartalag en við þorðum að vona í þessum allsnægtaheimi merkjavörunnar og egósins.

En hvernig getum við svo orðið þessar hetjur ævintýranna? 

Jú ég held að við höfum gott af því að skoða þá möguleika sem felast í dyggðum eins og flest ævintýri heimsins byggjast á. Dyggðum sem í raun detta aldrei úr tísku eða finna amk alltaf sinn farveg til baka inn í siðmenningu okkar vegna þess að okkur líður einfaldlega best þegar við ástundum þær.

Skoðum þessar dyggðir aðeins og mátum okkur inn í þær. Skoðum hvort að við gætum hugsanlega bætt okkur með einhverjum hætti og gert líf okkar fyllra og í leiðinni skapað fegurð fyrir okkar nánustu og umhverfi okkar.

 

  1. Viska - að leita sér þekkingar á lífinu sjálfu og að geta sýnt skilning og sleppt fordómum og kreddum af ýmsum toga. Að elska fólk einfaldlega vegna þess að það tilheyrir mannkyninu.
  2. Hófstilling - að stilla öllu í hóf og feta þannig milliveginn sem leyfir engu að ná tökum á okkur hvort sem er í mat, drykk eða öðru sem veldur skaða í lífi okkar.
  3. Hreysti (hugrekki) Að standa fyrir því sem við teljum rétt, að sækja það góða þrátt fyrir að það sé ekki vænlegt til vinsælda og sækja fram til betri heims.
  4. Réttlæti - Að gefa öllum færi á því að fá réttláta framkomu og að vilja réttlæti fyrir alla íbúa jarðarinnar og kannski fyrir jörðina sjálfa. Að dæma rétta dóma í stað þess að hlusta á múgæsinginn.
  5. Trú - Að trúa á það æðsta í sjálfum sér og í alheimi og að trúa því að við getum sótt fram og að lífið hafi einnig verið búið til fyrir okkur. Og einnig að trúa því að við höfum rétt á því að biðja um og fá það fallega inn í líf okkar.
  6. Von - Að halda í vonina í gegnum alla dimmu dalina og að gefast aldrei upp því að það að ganga um með vonina í hjartanu mun alltaf skila sér að lokum.
  7. Kærleikur - Kærleikurinn er æðstur og hann er misjafn að eðli, en er þó alltaf velviljaður og treystir ásamt því að vinna viljandi engum mein. Kærleikurinn er æðstur dyggðanna.
  8. hreinskilni- er ómetanlegur eiginleiki í vinskap og samskiptum almennt ef hún er byggð á kærleika og velvilja til þeirra sem hreinskilni þína fá.
  9. dugnaður - að starfa af einurð og að gefa af sjálfum sér krafta sína og tíma til þjóðfélagsins okkar er það sem skapar grunn að góðu og velmegandi þjóðfélagi og stolti hvers manns, og eins og pabbi minn sagði alltaf "latur maður lítið kaup" en það voru einkunnarorð nokkuð margra af hans kynslóð. Kynslóð sem kom okkur á þann velmegunarstað sem Ísland er í dag og það var dugnaðurinn og ósérhlífnin sem það skapaði.
  10. heilsa - að hugsa um heilsu sína líkamlega, andlega og sálarlega er nauðsynlegt fyrir gott og heilbrigt líf og aldrei of mikið gert af því að borða rétt, hugsa rétt, hreyfa sig, vera í núinu, fara í hugleiðslu og tengjast móður jörðu úti í náttúrunni og Guði sínum og tengslunum við hann. 
  11. heiðarleika - Mætti okkur öllum auðnast að geta sýnt heiðarleika í öllum okkar athöfnum og losna þannig við sektarkenndina sem kremur sál okkar ásamt því að við finnum að óheiðarleikinn minnkar okkur um nokkur númer. Sannleikurinn er sagna bestur, ekki bara stundum heldur alltaf!
  12. jákvæðni- Að sjálfsögðu eru allar tilfinningar leyfilegar, en jákvæðnin hefur áhrif a´boðefnin okkar og gefur okkur kjark og styrk inn í daglegu lífi okkar og bætir öll samskipti. Jákvæð persóna gefur ljós til annarra.
  13. traust - Að treysta lífinu og fólkinu í kringum okkur er að mínu mati kostur þó að það geti snúist stundum upp í andhverfu sína, en treystum lífinu fyrir okkur. Við erum þar sem við erum vegna þess að því var treystandi fyrir því að sjá okkur farborða, annars værum við líklega ekki hér - ekki satt?
  14. vináttu/fjölskyldu - Að sinna vináttunni og fjölskyldu sinni er það hlutverk sem ætti aldrei að vera í seinni sætum hjá okkur heldur í forgangi því að hvað væri lífið án vina eða fjölskyldunnar. Svo gerum okkar besta til að sinna þessum tengslum af alúð því að það munu koma tímar í þínu lífi þar sem þú vilt gleðjast með þeim sem þér þykir vænt um og það munu einnig koma tímar þar sem þú þarft á stuðningi þeirra að halda í lífi og starfi og þeir sem þú hefur sinnt munu þá verða þar.

Svo núna erum við búin að skoða nokkrar dyggðir sem flest ef ekki öll ævintýri heimsins fjalla um og núna höfum við tækifæri á því að búa til okkar eigið ævintýri, svo hvaða persóna vilt þú verða og hvað þarftu að gera/breyta til að ná þangað?

Eins og alltaf er ég bara einni tímapöntun í burtu ef þú þarft mína aðstoð á leið þinni en þar til næst elskurnar mínar.

xoxo

Ykkar Linda

Linda Baldvinsdóttir

Markþjálfi/Samskiptaráðgjafi/TRM áfallafræði 1 og 2.

linda@manngildi.is

 

 

 

 

 

 

 


Að vaxa til ástar

Góður vinur minn í London sagði við mig um daginn þegar við vorum að tala um lífsins málefni "Why dont we rise in love instead of falling in love" eða í lauslegri þýðingu: "hvers vegna vöxum við ekki upp til ástar í stað þess að falla fyrir henni" og mér fannst þessi setning mjög áhugaverð og hún fékk mig til að hugsa dýpra um okkar skilgreiningar á samböndum.

Já hvernig stendur á því að þau orð sem við notum varðandi ástina eru frelsisskerðandi í stað þess að innihalda vöxt?

Við tölum svo oft um að verða ástfangin og um það að falla fyrir einhverjum, en ef við skoðum þau hugtök nánar þá eru þau full af vanmætti og undirgefni. Að falla er að fara niður í hálfgerðan vanmátt og kannski að bugta sig og beygja til að falla hinum aðilanum í geð með einhverjum hætti og veikja sig. Að verða ástfanginn er einnig í raun neikvæð merking eða það að vera fangaður sem er allt annað en fallegt þar sem það tekur frá manni frelsið. Þó má kannski sjá eitthvað gott við þetta eins og allt, t.d það að í þessu ástandi eins og við skilgreinum það förum að taka meira tillit til annarrar manneskju en okkar sjálfra og ekki held ég að það veiti af því svosem, en samt ekki gott að fara í vanmátt og að gefa eftir of mikið eftir af sínu eigin frelsi .

En ef við skoðum þetta svo enn betur þá hljótum við að sjá að mörg ástarsambönd dagsins í dag uppfylla þetta frelsisleysi eða föngun og eins undirgefnina og meðvirknina sem felst í því að gefa sjálfan sig eftir og verða að þeirri manneskju sem hinn aðilinn vill að þú sért í stað þess að standa í þínum eigin mætti og að mæta hinum aðilanum á jafningjagrunni sem ég tel að þurfi til að byggja sterkan grunn.

Rómantískar ástarsögur sem fylla huga okkar á unglingsárunum fjalla einmitt oft um fjarlæga fráhrindandi karlmenn sem ná að fanga ástir góðhjartaðrar ungrar konu sem þó stundum gerir uppreisn gegn afskiptaleysi mannsins og þá fjarlægir hann sig. Kemur síðan til baka tvíefldur vegna þess að gyðjan náði að fanga hann aftur til sín með góðmennsku sinni og því að hann gat ekki gleymt henni. Ég er alveg viss um að nú hlæja nokkrir aðdáendur Rauðu ástarsagnanna. :) 

Hvernig myndast annars sambönd dagsins í dag svona venjulega og er það eitthvað sem fellur okkur í geð svona í raun?

Er það ekki svolítið þannig að við förum á Tinder eða næsta bar, sjáum þar álitlegt viðhengi og hendum svo þessum sem lúkka ekki nægjanlega vel, förum kannski á eitt kaffideit eða happy hour og ákveðum á einni klukkustund hvort að aðilinn henti okkur eða ekki?

Við erum instant kynslóð sem viljum að allt gangi upp einn tveir og þrír og þar á meðal ástarsamböndin okkar sem eiga að ganga snurðulaust og vera bara smart. Enginn tími fyrir að kynnast vel eða að leyfa sér að vaxa með annarri mannveru þar til að kviknað hefur á kærleikstilfinningunni sem tekur síðan sambandið frá þeim stað í átt til vaxtar og grósku.

Það er þó það sem ég tel heillavænlegast til árangurs, eða það að huga að kynnum með sama hætti og ef við værum að koma litlum blómaafleggjara til lífs. Þegar búið er að velja afleggjara sem er vænlegur þá þarf að sýna þolinmæði og leyfa honum að spíra í rólegheitunum. Þegar það ferli hefur svo átt sér stað er þessum litla græðlingi komið fyrir í nælingaríkri moldu og síðan er vökvað reglulega. Ef vel tekst til þá verður þessi litli afleggjari að stærðarinnar plöntu sem mun gleðja hjarta okkar en allt tekur þetta þó sinn tíma.

Þessi blómauppskrift held ég að sé vænleg til eftirbreytni þegar við erum í makaleitinni. Að leyfa sér að vaxa til ástar með því að sjá fyrst hvort að þetta samband sé vænlegt til velsældar og hvort að virðingin og vináttan haldist í hendur ásamt dassi af nánd og sameiginlegum lífsviðhorfum er byrjunin.  Næsta skref væri síðan að hlúa vel að hvort öðru, lyfta upp og hvetja og sjá hvort að ástin fari ekki að skjóta föstum rótum í þeim jarðvegi. Afraksturinn fer svo eftir því hversu dugleg við erum að næra og vökva sambandið þar til við erum orðin að þéttum runna, rótvöxnum og sterkum. 

Mín uppskrift að þeirri næringu sem ég tel að þurfi til að byggja upp traust og blómlegt samband er traust, vinátta, tryggð, skuldbinding, virðing, hvatning, gleði og húmor, sameiginleg lífsgildi og auðvitað fullt af nánd og tilfinningum sem fá að vaxa í skjóli og umhyggju. 

Gefum okkur tíma og notum innsæið okkar þegar kemur að ástinni og hættum kannski að verða fangin nú eða að falla fyrir henni.

Vöxum frekar upp til ástar og nærum ástina í þolinmæði og í þeirri fullvissu að það sem á að verða mun verða, og ef að grunnurinn er réttur þá er allt mögulegt og kraftaverkin geta gerst.

Munum bara að kærleikurinn þarfnast tíma og alúðar.

Þar til næst elskurnar, heilsa, friður og ást til ykkar - og ef þið þurfið á mér að halda þá er ég eins og ætíð aðeins einni tímapöntun í burtu.

xoxo

Ykkar Linda

 

Linda Baldvinsdóttir

Markþjálfi/Samskiptaráðgjafi/TRM 1 og 2.

linda@manngildi.s


8 leiðir til að takast á við erfiðar tilfinningar og aðstæður

Flest lendum við í áföllum eða á erfiðum stöðum í lífinu og fæst sleppum við alveg við þannig tímabil. Mismunandi er þó hversu mikil áhrif þau hafa á andlega og líkamlega heilsu okkar eftir umfangi þeirra og hversu ógnvekjandi okkur finnast atburðirnir eða aðstæðurnar. 

Við getum aldrei ákveðið hversu stórt eða lítið áfallið er hjá hverjum og einum því að það fer algjörlega eftir því hversu mörg áföll einstaklingarnir hafa upplifað á lífsleiðinni og eins fer það eftir persónugerð hvers og eins ásamt mörgu öðru, svo ákveðum ekki fyrir aðra hvað sé stórt eða lítið áfall fyrir þá, sýnum upplifunum hvers og eins aðeins skilning. 

Áætlað er að um 3,6% heimsins á hverjum tíma sé haldinn áfallastreitu eða líklega um 290 milljónir þá á heimsvísu í dag ef ég hef reiknað dæmið rétt.

Þannig að við getum séð á þessum tölum að áföll eru algeng í lífi okkar og við búum langt frá því öryggi sem við viljum þó svo gjarnan skapa okkur, halda í eða leitum stöðugt að. 

En hvernig getum við minnkað áhrif áfalla á líf okkar?

Það er auðvitað engin ein leið sem dugar á alla og því erfitt að gefa hina einu sönnu uppskrift að því hvað dugar best, þó má segja að það sem kemur sér vel er að efla hjá okkur þrautseigjuna eða iðka þær aðferðir sem byggja hana.

Ég held þó að við Íslendingar séum nokkuð góð í þrautseigjunni og stundum of góð í því ef eitthvað er þar sem við erum vön náttúruhamförum af ýmsu tagi og svei mér ef við erum ekki með eitthvað þrautseigjugen í erfðamengi okkar svona samfélagslega séð, þarf samt að spyrja Kára nánar út í þetta. 

Til að efla þrautseigju okkar þurfum við fyrst af öllu að viðurkenna þá staðreynd að þjáning er hluti af lífinu og vita að einnig við getum orðið fyrir áföllum.

Og í stað þess að spyrja "hvers vegna ég" ættum við kannski frekar að spyrja "hvers vegna ekki ég".

Áföll lífsins eru mjög fjarri glamúrlífinu á Instagram þar sem allt er svo flott og æðislegt og engin áföll eða vondar tilfinningar í boði, bara gloss, brjóstapúðar, ferðalög, flott hús, heilbrigð börn, allsnægtir og merkjavörur. 

Það reiknar held ég enginn með áföllum á borð við þær aðstæður sem við stöndum frammi fyrir í dag þar sem allt í einu skellur á plága sem okkur hefði líklega ekki órað fyrir að gæti orðið í okkar tíð, og við verðum hrædd um líf okkar og þeirra sem okkur þykir vænt um ásamt því að heimsmyndin okkar er orðin allt önnur en hún var - glamúrinn farinn og við erum óörugg. 

Það sem við getum nýtt okkur inni í svona ógnvekjandi aðstæðum er að beita aðferðum sem ætluð eru til að minnka áfallaviðbrögð okkar og koma okkur sem næst hlutlausri tilfinningu.

Kannski er byrjunin sú að skoða stöðuna í rökrænu ljósi og einbeita okkur svo að þeim atriðum sem við getum breytt og sleppt síðan tökunum og sætt okkur við þá hluti sem við fáum ekki breytt eins og segir í æðruleysisbæninni góðu.

Það sem gerist hjá okkur við áföll og breyttar aðstæður sem setja okkur út af laginu er að flóttaviðbrögð okkar kvikna (Streituviðbrögð)og við eigum erfiðara með að einbeita okkur að því sem við höfum og eigum en sjáum frekar aðsteðjandi ógnina sem okkur finnst á stundum algjörlega umlykja okkur.

Þeir sem hafa eflt þrautseigju sína eru þó betri í að fókusa á það góða í aðstæðunum og þeir hafa okkar alíslenska máltæki líklega að leiðarljósi í einni eða annarri mynd eða "þetta reddast" viðhorf sem oft er gert grín að en er kannski merki um þá þrautseigju sem við höfum byggt upp hér í okkar menningu. 

Að vera þakklátur og hjálpsamur á tímum þar sem okkur finnst við hafa fátt til að þakka fyrir hjálpar okkur að sjá það góða í aðstæðunum og fátt er það sem slekkur meira á streitunni okkar en það að hjálpa náunganum og hvetja hann.  

Það er einnig mjög gott að spyrja sig hvort að þær tilfinningar sem eru ríkjandi hjá okkur á hverri stund séu að hjálpa okkur eða skaða. Spurningar eins og "ætla ég að leyfa þessari veiru að taka það skemmtilega frá mér eins og samskipti við fjölskyldu og vini eða ætla ég að finna leiðir sem hægt er að fara í þeim málum þrátt fyrir aðstæðurnar?"

Leitum lausna við vanmætti okkar í stað þess að leyfa okkur að fara niður í kjallara þó að allar tilfinningar séu hinsvegar leyfilegar í smá stund a.m.k. 

Það tekur tíma að byggja upp þrautseigjuna og það er enginn fæddur með hana öðruvísi en að hafa fengið hana í arf í gegnum genin eins og ég sagði áðan en hef ekki hugmynd um hvort svo sé þannig að við þurfum að æfa okkur og læra að taka stjórn á tilfinningum okkar ásamt því að leita aðstoðar á göngunni hjá fagaðilum eða þeim sem þú treystir til að aðstoða þig þar.

Ef þú heldur að þú náir þér aldrei frá því áfalli sem þú hefur orðið fyrir þá get ég sagt þér að meirihluti okkar lærir þrautseigju við það að komast í gegnum hvern skaflinn á fætur öðrum og við förum í gegnum atburði sem okkur þótti óhugsandi að við gætum komist í gegnum með því að lifa einn dag í einu og taka eitt skref í einu. Oft skilur þessi leið í gegnum skaflana okkur meira að segja eftir á nýjum stað þar sem við erum bara nokkuð ánægð með okkur og hefðum ekki viljað hafa hlutina með neinum öðrum hætti þrátt fyrir erfiðleikana.

Það er þó mun erfiðara í framkvæmd en á blaði að efla þrautseigjuna þegar við förum í gegnum áföll og sorg en það er þó það sem gerir okkur mesta og besta gagnið að lokum. 

Hér fyrir neðan eru nokkrar aðferðir af mörgum sem þú getur nýtt þér til að ná stjórn inni í aðstæðunum og þau virka alveg ágætlega ef þú nærð að draga andann og einbeita þér vel.

1. Taktu eftir því hvernig þér líður í líkamanum og vertu meðvitaður um það hvar spennan er. Ekki gera neitt annað en að taka eftir því hvernig þér líður og reyna að slaka á þeim vöðvum sem þú finnur að eru spenntir. Gott er að byrja á því að finna fyrir fótum sínum á gólfinu og leiða svo meðvitundina upp eftir líkamanum og taka eftir líðan, hjartslætti, andadrætti og öðrum merkjum sem líkaminn gefur frá sér og leiðrétta jafn óðum spennuna.

2. Skoðaðu hvort tilfinningarnar eru óþægilegar, hlutlausar eða þægilegar (góðar)og skrifaðu niður upplifun þína af þessu ferðalagi um líkamann.

3. Venjulega er tilfinningaskalinn okkar þegar okkur líður vel að sveiflast frá ca 3-7 á skalanum 0-10 en í lægðum getur hann farið niður í 0 og í stressinu upp í 10. Metum hverju sinni hvernig okkur líður og reynum að halda tilfinningunum okkar í kringum fimmuna með því að veita andardrætti okkar athygli ásamt því að slaka á stífum vöðvum. Ef þú finnur fyrir óbærilegri spennu leiddu þá hugann að stað á líkamanum sem þú finnur enga spennu og einbeittu þér um stund að honum og færðu þig svo aftur til baka og endurtaktu eftir þörfum.

4.Eins geturðu leitt hugann frá streitunni og vanlíðaninni með því að t.d telja alla rauðu, gulu, grænu litina sem eru í umhverfinu þínu (allir litir duga)eða teldu afturábak frá 10 niður í 1. Vatnsglas getur líka náð tilfinningunum niður um stund eða brotið hugsanaferlið upp.

5.Leitaðu að þeim auðlindum sem þú býrð yfir í formi fjölskyldu, vina, áhugamála og þess sem hefur gefið þér næringu í gegnum lífið. Einnig skaltu skoða hvaða gildi og lífsskoðanir hafa gefið þér þá persónueiginleika sem fylla þig stolti og einbeittu huganum að þessum atriðum og sæktu í þau til að lyfta anda þínum - þetta er form af þakklæti nægjusemi/rósemi, en þakklætið er eitt sterkasta vopnið sem við eigum í fórum okkar þegar kemur að því að feta sig áfram veginn í átt til friðar og sáttar.

6.Leyfðu einnig ímyndunaraflinu að búa til fallegar myndir af framtíðinni því að ímyndunaraflið eigum við alein og engin framtíðarmynd er rétt eða röng þar. Þannig að skapaðu þar þína undraveröld og happy stað og dveldu þar (í smáatriðum!) og þakkaðu fyrir að þú munt sjá þetta rætast einn daginn.

7.Til að minna sig á allt það góða sem við höfum og viljum sjá í framtíð okkar er frábært að skrifa hvatningasetningar á spegilinn á baðinu með töflutússi eða setja gula miða út um allt og vera síðan dugleg að lesa það sem við skrifum. Finnum það góða sem við getum fókusað á.

8.Finndu síðan allt það sem gleður þig að gera og vera ásamt öllu því sem fær þig til að brosa og hlæja. Og já það má líka hlæja á erfiðum og sorglegum stundum. Gleðin er það afl sem gefur okkur kraftinn til verka og aðstoðar okkur við að færast áfram veginn þrátt fyrir aðstæður lífsins.

Allt er þetta gert til að setja tilfinningarnar okkar sem næst fimmunni á skalanum og dvelja í jákvæðni hvort sem er um að ræða gagnvart lífinu, okkur sjálfum og þeim sem við umgöngumst þegar við erum í aðstæðum sem við fáum ekki breytt.

Vona að þessi pistill verði til að hjálpa þér eitthvað á þessum tímum þegar streitan er við völd og þér finnst þú ekki ráða við tilfinningarnar þínar.

Þar til næst elskurnar

xoxo

Ykkar Linda

 

Linda Baldvinsdóttir

Markþjálfi/Samskiptaráðgjafi/TRM 1 og 2 áfallafræði

linda@manngildi.is

 

 

 

 

 


Þessir fordæmalausu tímar

Þessir tímar sem við lifum á hafa tekið okkur út úr asa þeim sem við höfum lifað við og þeir krefjast þess af okkur að við förum inn á við í sjálfsskoðun og hvernig við getum betur lifað lífinu. Þetta er tími til þess að slaka á og anda djúpt inn í aðstæðunum. Skoða innviðina og sjá hvað við finnum þar. Erum við að glata frá okkur einhverju sem skiptir okkur verulegu máli og þá á ég ekki við veraldlegu hlutina heldur tengingu okkar við okkur sjálf og þá sem í nærumhverfi okkar eru?

Höfum við látið frá okkur gildi sem þó gáfu okkur meiri ró og öryggi en þær aðstæður sem við búum við í dag? Þurfum við kannski að kollvarpa lífi okkar þegar við horfum á þessa breyttu heimsmynd sem ekkert okkar veit í dag hvernig verður?

Hvaða gildi viltu innleiða og hvað þarftu inn í þitt líf? Hvet þig til að skoða það á þessum tímum.

Að teygja sig til annarra á þessum tíma er einnig bráðhollt og gott – þetta eru tímar sem tengjast í tvær áttir, til kærleika og ótta. Reynum að hafa fókusinn okkar meira á kærleikann en óttann og finnum nýjar leiðir sem gagnast betur því innihaldi sem við viljum finna í lífinu. Óttinn þessi óvinur okkar allra er það afl sem leiðir okkur til tortímingar og jafnvel einangrunar. Við þorum ekki að teygja okkur til fólks og þorum ekki að stíga skrefin inn í óttann okkar, þorum ekki að sækja fram, höfnum okkar vegna skorts á sjálfstrausti og svo framvegis, þorum jafnvel ekki að rétta út hjálparhönd því að við erum hætt að kunna að tilheyra hjörðinni. 

En sem betur fer sé ég að þessir tímar munu leiða til góðs í þessum efnum þegar ég sé alla þá sem eru að gefa af sér til þjóðarinnar, þá sem víkja úr vegi bæði til að vernda sjálfa sig og eins náunga sinn og stjórnmálaöflin eru komin í sama lið til að bjarga landinu okkar – er það ekki dásamleg tilbreyting?

Ég held að á komandi tíma munum við sjá sambönd fara í sundur sem ekki eru að hafa góð áhrif á líf okkar, ég sé líka sambönd myndast og önnur sem munu læknast og verða nánari en fyrir Covid faraldurinn. Ég held einnig að vinátta og samkennd muni styrkjast eða fara í sundur ef ekki er pláss fyrir hana í nýrri gildismynd okkar. Og allt held ég að þetta muni verða vegna þess að við munum sjá lífið og tilveruna í skírara ljósi og vita hvaða orkusviði við viljum tilheyra og hvað er ekki að passa okkur þar.

Ég hlakka til þessara tíma sem krefja okkur til þess að vakna til okkar sjálfra og skoða okkur innan frá og út í stað utan frá og inn í allt of langan tíma. Við höfum öll fundið undanfarin ár að við leitum eftir ró, allskonar andleg iðkun hefur verið vinsæl sem aldrei fyrr vegna þess að við finnum að við höfum látið hana frá okkur fyrir hluti sem skipta minna máli og við mæðumst í of mörgu.

Sá myndband frá indverskri konu að nafni Vandana Shiva þar sem hún talaði um að loksins fengjum við að sjá að við getum ekki lifað í þeirri heimsku sem viðgengist hefur. Hún segir að við þurfum að öðlast þekkingu á því sem skiptir máli og að læra að lifa í sátt við móður jörðu, þurfum að læra að annast og elska og að deila með okkur. Hún segir einnig að það verði konurnar sem muni kenna okkur hvernig það er að vera human eða manneskja. Hún segir að fórnarkostnaðurinn við okkar glæsilíf hafi verið mikill og hafi kostað meðal annars dráp á ungum stúlkum í þrælaverksmiðjum í Bangladesh og víðar og að við þetta verði ekki unað lengur. Ráð hennar til yngri kynslóðarinnar er að við þurfum að læra að vinna með höndum okkar og sál í tengingu, það sé æðsta form þróunar mannsins. Einnig segir hún að lítið hafi verið gert úr mæðrum sem elduðu handa börnum sínum en það segir hún að ef ekki hefði verið fyrir eldamennsku móðurinnar þá værir þú einfaldlega ekki hér. Margt sem hún sagði í þessu myndbandi og ég gæti skrifað um hér, en að mínu viti er mikill sannleikur falinn í orðum hennar. 

Í dag sjáum við hvaða stéttir skipta raunverulega öllu máli og merkilegt nokk eru það störfin sem við höfum gert sem minnst úr en þurfum nú sem mest á að halda. Allir þeir sem starfa í umönnun eða við að aðstoða einstaklinga með einum eða öðrum hætti eru nú orðnir hetjurnar okkar sem er vel – ég vona bara að það skili sér í betri launum og framfærslu til þeirra sem þakkarvott okkar fyrir óeigingjarnt starf í þágu þjóðarinnar.

En eitt er víst að veröldin eins og við höfum þekkt hana mun breytast á komandi tímum og ég segi eins og Dröfn Vilhjálmsdóttir segir í pistli sínum á Vísi „ Mér líður dálítið eins og að jörðin hafi verið að senda okkur öll inn í herbergi og skellt hurðinni reiðilega á eftir okkur með orðunum; “verið hér í nokkra mánuði og hugsið nú um hvað þið hafið gert ... og skammist ykkar!”

Tek heilshugar undir þessi orð hennar og er ekki hissa á því að við séum rassskellt fyrir ofgnóttir, eigingirni og veraldavafstur og það sem einkennt hefur tímana síðustu tvo áratugina.

Við létum frá okkur fjölskyldumynstrið okkar, vöfflukaffið á sunnudögum, spariklæðnaðinn á helgideginum, kurteisi og umönnun, kennslu eldri kynslóðarinnar til hinnar yngri, börn hættu að annast og virða foreldra sína að miklu leiti og gáfu þeim ekki tíma sinn, kærleikur flestra  fór einnig niður um nokkrar gráður í átt að frosti - og ég held að við séum öll sek um eitthvað af þessu.

Þetta munum við þó allt þurfa að skoða og læra að meta það sem móðir jörð hefur fram að færa og lifa í þakklæti anda okkar til alls þess sem skapað er og dregur andann.

Okkur líður líklega mörgum ef ekki flestum svolítið skringilega inni í þessum aðstæðum sem við erum í núna, svolítið eins og við séum í skammarkróknum og eigum að finna út úr því hvernig okkur líður og finna betri leiðir. Læra að treysta lífinu og fara með æðruleysisbænina sem aldrei fyrr.

Því að þetta er tími núvitundar og andans. Þessi kynslóð hefur ekki þurft að gera sér grein fyrir því að við erum andi sál og líkami en nú er tíminn kominn.

Látum kærleikann verða leiðarljósið okkar á þessari leið, setjum fókusinn okkar á það og munum að allur heimurinn er eitt samfélag.

Nýtum þennan tíma til að  hætta að aðgreina og dæma þá hluta heimsins sem við þekkum ekki, umvefjum frekar þá hluta og reynum að skilja þá og sýnum virðingu – þannig búum við til fallegt og réttlátt heimskerfi og tækifærið til þess er núna og við getum öll lagt okkar af mörkum.

Þar til næst elskurnar 

Xoxo -stay safe

Ykkar Linda

Markþjálfi/Samskiptaráðgjafi/TRM áfallafræði 1 og 2.

linda@manngildi.is


Fyrr en varir birtir að nýju

Óttinn þessi skelfilegi óvinur okkar mannanna er við völd þessa dagana og við finnum öll fyrir áhrifum hans á líf okkar, störf og samskipti.

Mín hvatning til okkar er að láta þennan óvin ekki stela frá okkur þeim stundum sem við getum átt mitt í þessari óvissu til að gleðjast saman innan leyfilegra takmarkana og vera ekki hrædd við það. Það eru ýmsar leiðir til að hittast rafrænt og símleiðis og erum við mjög heppin að þetta skuli þó koma upp á tímum internetsins og þráðlausra samskipta um heim allan.

Ef eitthvað verður til að létta tímana sem nú eru er það að nýta gleðina eins og Ítalir gera núna, þeir syngja af lífs og sálarkröftum til að létta lund hvers annars frá svölum sínum. Þeir tóku einnig upp uppskriftina sem við höfum svo oft nýtt hér á Fróni eða "þetta reddast" sem er að mínu mati það stórkostlegasta sem við eigum í ótryggum heimi og fer nú sigurför um Ítalíu og vonandi fer það jafn víða og húið okkar fræga.

Ef við göngum út á það að við getum ekki stjórnað útkomunni út úr þessu þá er ekkert annað að gera en að leyfa ekki óttanum að ríkja og njóta þess að vera til. Kannski þurfum við að taka til okkar það sem ég sá á fésbókinni; "Njótum þess að fá loksins tækifæri á því að gera ekki neitt, horfa á TV og bjarga heiminum með því móti".

Samlandar mínir hafa svo sannarlega sýnt það að undanförnu að við eigum gott og hæfileikaríkt listafólk sem nú keppist við að gleðja okkur með ýmsum uppákomum og áður óþekktir einstaklingar stíga einnig fram á sviðið með ýmsu móti og ég er svo óskaplega þakklát öllum sem það gera. Þetta er það sem við getum gert - að nýta hæfileika okkar og kunnáttu samlöndum okkar til gleði og jafnvel gæfu ef því er að skipta, og það er svo fallegt og svo gott.

Mitt framlag er að gefa okkur leiðir sem við getum skoðað og nýtt okkur til að minnka ótta okkar og vonandi til að gefa honum heilbrigt vægi í þessum aðstæðum.

En hér koma svo mínar aðferðir til að minnka vægi óttans:

1. Ef þú finnur fyrir kvíða og óróleika stoppaðu þá allt sem þú ert að gera og spurðu sjálfan þig hvort að það séu réttmæt rök fyrir ótta þínum og ef ekki finndu þá rökin gegn óttanum.

Ef við tökum sem dæmi þá getum við notað sem rök lága prósentutölu þeirra sem veikjast af þessari veiru og enn færri sem veikjast illa en um 95% tilfella virðast vera með mjög væg einkenni. Við eigum einnig gott teymi heilbrigðisstarfsmanna sem er búið að undirbúa sig vel hvað varðar lyf og annað sem til þarf og hafa búið sig undir verstu hugsanlegu útkomu fyrir þá fáu sem munu veikjast alvarlega. Þessi rök ættu að geta tekið mesta óttann frá okkur og lesum ekki allt sem við sjáum á netinu eða öðrum miðlum, það eykur á óttann okkar og margt af því er hvort sem er tóm tjara.

2. Láttu ekkert taka frá þér gleðina og haltu fast í hana. Horfðu á eitthvað sem fær þig til að hlæja, hafðu samband við skemmtilegt fólk og hugaðu að fjölskyldu þinni það skiptir öllu. Sendu út falleg skilaboð sem gleðja þig og aðra ef þig langar að gefa öðrum góða tilfinningu og ef það er leyfilegt og innan marka farðu þá og hittu fólk sem þig langar til að hitta yfir góðri máltíð eða kaffisopa. Maður er manns gaman ef sprittbrúsinn og handsápan er með í för.

3. Mundu að tilfinningar þínar kvikna útfrá hugsunum þínum svo passaðu þig á því að hafa þær eins jákvæðar og fullar þakklætis og hægt er að hafa þær. Í einangrun eða sóttkví er Nelson Mandela frábær fyrirmynd en hann sagði að kannski væri hægt að loka hann inni í fangelsinu en að hann væri sá eini sem stjórnaði hugsunum sínum. Þessi orð eru ótrúlega sönn og við höfum svo miklu meira um tilfinningar okkar að segja en við höldum oft. Hugsanaferlið okkar fer þannig fram að við tökum við ytra áreiti og við áreitið kviknar samtal okkar við okkur sjálf og við það sjálfstal tengjum við tilfinningar og framkvæmum síðan útfrá þeim.  

4. Reyndu að búa til stóru framtíðarmyndina í huga þér og gerðu hana eins fallega og þú mögulega getur og settu hana svo niður á blað þar sem þú getur horft á hana og minnt þig á að allt verður gott um síðir - þetta er tímabundið ástand og ljósið sigrar alltaf myrkrið að lokum. 

5 Slepptu tökunum - og tökum einn dag í einu. Förum að ráði Víðis sem sagði okkur að taka einn klukkutíma á dag þar sem við værum ekki að tala um veiruna og ég ætla að bæta því við að við ættum að einsetja okkur að leyfa hugsuninni um það versta sem í koll okkar kemur að fá ekki lengra dvalarleyfi en í ca 5 mínútur. - tökum tímann og teljum svo 5.4.3.2.1 og svo stopp! Allar tilfinningar þarf svo sannarlega að viðurkenna en svo þurfum við að passa uppá að þær nái ekki yfirhöndinni og veiki okkur. 

Það sem ég geri þegar ég finn að ég verð óttaslegin og er í mínum vanmætti er að fara inn í daginn og biðja um vernd fyrir mig og mína og eins bið ég um blessun til handa löndum heimsins og íbúum hans og ákveð svo að treysta. Það er það sem ég get lagt af mörkum og bara vonað síðan að á mínar bænir sé hlustað í alheimi.

Þetta eru nokkur ráð frá mér til þín sem ég vona að gagnist ykkur á þessum fordómalausu Covid tímum og ég minni okkur öll á að við erum í þessu saman.

Við getum og ættum svo sannarlega að þakka þeim sem í framlínunni starfa í okkar þágu og ég hvet okkur öll til að gera allt sem við getum til að hlíta þeirra ráðum, biðja svo fyrir blessun og vernd og halda áfram á þeirri braut sem mér sýnist við vera komin inn á, eða að sýna allar okkar fallegustu hliðar. Svo sýnist mér við líka vera komin í þann gír að "pay it forward" sé að skjóta rótum hér og við ættum endilega að taka það upp öll sem eitt til frambúðar.

Þannig trúi ég að við komumst best frá þessum erfiða og myrka tíma í mannkynssögu okkar. En ljósið mun sigra að lokum, það gerir það alltaf krakkar mínir.

Heill og heilsa fylgi okkur öllum elskurnar,

xoxo

Ykkar Linda

Linda Baldvinsdóttir

Markþjálfi/Samskiptaráðgjafi/TRM áfallafræði 1 og 2

linda@manngildi.is  

 


Líður þér vel í samskiptum þínum við fólk eða er meðvirknin að ganga frá þér?

Enn og aftur langar mig að tala um meðvirkni þar sem þetta er landlægt og líklega útbreiddara en veiran sem við flest óttumst í dag.

Meðvirkni er sjúklegt ástand sem við þurfum svo sannarlega að huga að skoða og lagfæra ef það er fyrir hendi í lífi okkar og er að hafa áhrif til ills þar. 

Að virka vel með öðrum er nauðsynlegt í öllum almennum samskiptum og allt gott um það að segja að við séum góð og kærleiksrík við hvert annað og leitum lausna inn í samskiptum, en við þurfum að skoða hvort við erum að virka með fólki eða hvort við erum í meðvirkni með þeim og það er að ýmsu að hyggja þar.

Að virka með öðrum gefur okkur góða tilfinningar og vellíðan og er áreynslulaus tilfinning sem færir okkur yl, en meðvirknin gefur okkur togstreitu tilfinningu sem fær okkur til að tipla endalaust og botnlaust í og kringum aðra aðila,(stundum bara einn)og fær okkur á staði sem við erum ekki sátt við okkur á. 

Við þolum of mikið af slæmri eða illri framkomu, leyfum óréttmætar hafnanir og ummæli og stöndum ekki föst á okkar tilverurétti né okkar lífsgildum.

Hjá meðvirknisamtökum er talað um að meðvirknin skiptist í nokkra flokka og eru þeir td. Afneitun, lítið eða lélegt sjálfstraust, ákveðin fylgimynstur í lífinu, stjórnunarmynstur og forðunarmynstur.

  • Afneitunin getur meðal annars falist í því að meðvirkir eiga erfitt með að segja hvernig þeim líður og þeir gera lítið úr eða neita fyrir raunverulegar tilfinningar sínar. Þeir líta á sig sem kærleiksríkar verur sem eru helgaðar vellíðan annarra og þeir fela tilfinningar sínar á bak við leiðir eins og húmor, reiði, pirring eða með því að loka sig af. Gjarnan draga þeir að sér einstaklinga sem eru ekki tilfinningalega til staðar fyrir þá.

 

  • Lítið eða lélegt sjálfsöryggi getur birst í því að meðvirkir eiga erfitt með að taka ákvarðanir og dæma allt sem þeir segja og gera sem ekki nægjanlega gott. Eiga erfitt með að taka hrósi og telja að skoðanir og gildismat annarra sé rétthærra sínu eigin og eiga erfitt með að setja mörk. Þeir eiga það einnig til að leita að öryggi hjá öðrum og mynda með sér lært hjálparleysi.

 

  • Fylgimynstrin eru oft þau að þeir meðvirku eru sauðtryggir og hanga í skaðlegum aðstæðum allt of lengi og gera málamiðlanir gegn gildum sínum og líðan til að forðast höfnun og reiði. Þeir eru oft hræddir við að segja frá sínum skoðunum, trú og tilfinningum. Þeir gefa frá sér sannleikann sinn til að forðast breytingar á lífi sínu. Stundum geta þeir verið hvatvísir í ákvörðunum.

 

  • Stjórnunarmynstrin geta meðal annars birst í því að þeir verða ófærir um að bera ábyrgð á sér. Þeir verða pirraðir ef aðrir hugsa ekki eða líður á annan hátt en þeim þóknast að þeim líði. Þeir verða oft pirraðir þegar fólk hlýðir þeim ekki og þurfa að finna fyrir því að aðrir þarfnist þeirra til að geta verið í samskiptum við þá. Þeir nota ásökun og skömm til að ná sínum þörfum fram og refsa þeim sem mæta þeim ekki. Nota kærleiksríka frasa til að ná stjórn á öðrum og beita refsingum og reiði til að stjórna útkomum. Eins eiga þeir til að ausa gjöfum til þeirra sem þeir vilja hafa áhrif á og neita yfirleitt samvinnu, málamiðlunum og samningum.

 

  • Forðunarmynstrin birtast oft í því að hinir meðvirku forðast tilfinningalega, líkamlega og kynferðislega nánd til að halda fjarlægð og halda sig þar með frá nánd í samböndum. Þeir nota óbein samskipti til að rugga nú ekki bátnum og þeir bæla niður tilfinningar sínar til að forðast berskjöldun. Þeir halda að með því að sýna tilfinningar sínar séu þeir að sýna veikleika og leyfa gjarnan fíknum að fjarlægja sig frá nánd í samskiptum. 

Þetta eru nokkur af þeim mynstrum og atriðum sem meðvirkir upplifa og ég hvet þig til að skoða lesandi góður hvort að eitthvað af þessum atriðum eigi við þig og gera þá það sem þarf að gera til að leiðrétta þig og skapa heilbrigðara líf fyrir þig í framhaldinu, það svoleiðis marg borgar sig.

Og eins og ætíð er ég bara einni tímapöntun í burtu ef þú telur að ég geti aðstoðað þig við þín lífsins verkefni.

xoxo

Ykkar Linda

Linda Baldvinsdóttir

Markþjálfi/samskiptaráðgjafi/TRM áfallafræði

linda@manngildi.is


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Linda Baldvinsdóttir

Höfundur

Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ..._s4i6862_2
  • ...0eaf470d6_2
  • ...98009927331
  • pistill mynd
  • 15608665 10210640975833107 554134899 o

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband