26.1.2021 | 15:04
Er daður á netinu framhjáhald?
Ég ákvað að það væri full þörf á því að taka þennan gamla pistil minn fram núna þar sem við notum samfélagsmiðlana sem aldrei fyrr og hafi einhverntíman verið þörf fyrir þennan pistil þá er það líklega núna.
Þeir sem þekkja mig vita að Facebook er í miklu uppáhaldi hjá mér og sumum finnst nú nóg um samskipti mín á þeim miðli.
Þó að ég sé mikill aðdáandi þessarar síðu þá sé ég nú samt að hún getur haft hliðar sem eru ekki svo skemmtilegar né góðar.
Það eru að verða nokkuð mörg dæmin þar sem ég hef persónulega heyrt um framhjáhöld á Facebook eða hvaða nafni við viljum nefna það þegar makinn er farinn að daðra við persónu á netinu, persónu sem jafnvel er ekki með skráða tilvist þegar upp er staðið.
Hvort sem persónan er raunveruleg eða ekki, þá er þetta netheimadaður eitthvað sem er að setja mörg annars mjög góð sambönd í hættu.
Það er svo auðvelt í dag að koma sér í samskipti við fólk af báðum kynjum ef viljinn er fyrir hendi og hefur líklega aldrei verið jafn auðvelt að krækja sér í daður og dufl eins og það er í dag.
Í netdaðrinu fara af stað samskipti með spjalli sem fljótlega eru komin á mjög grá svæði og stundum farin út í erótísk samtöl sem veita kynferðislega örvun annars eða beggja aðila og geta hæglega orðið að einhverju meiru.
Í mínum huga er það kristaltært, daður og erótík á netinu hjá þeim sem í samböndum eru flokkast í mínum kolli undir framhjáhald og ekkert annað. Óræðar setningar, pot , tvíræð hrós og fleiri samskipti við hitt kynið sem ekki geta komið fyrir sjónir makans eru aldrei ásættanleg eða í lagi hvort sem þau eiga sér stað á milli bæjarhluta landshluta eða landa. Framhjáhald heitir það hvað sem við annars viljum kalla það.
Það eru of mörg sambönd í dag sem lituð eru af vantrausti og ójafnvægi vegna rafrænna samskipta makans við annan aðila en makann og skiljanlega fer traustið veg allrar veraldar þegar upp um svona samskipti kemst. Og auðvitað er þetta eitthvað sem alls ekki á að eiga sér stað.
Traustið er grunnurinn að góðu sambandi og er það mikilvægasta sem samband tveggja einstaklinga byggist á, þar er ekki rúm fyrir þriðja aðila. Ef traustið er einu sinni brotið er oft erfitt að vinna það að nýju og grunnurinn að sambandinu þar með farinn veg allrar veraldar.
En hvað veldur því að okkur finnast þessi samskipti í dag saklaus og í raun ekki vera neitt til að vera að gera veður útaf?
Ég held stundum að við séum farin að svæfa siðferðiskennd okkar all verulega og séum farin að vinna okkur sjálfum og lífi okkar tjón með því að líta á margt sem lífið í dag býður uppá sem saklaust og kannski bara normalt sem það er alls ekki þegar upp er staðið.
Í þessum efnum eins og svo mörgum öðrum getur sáning af þessum toga aldrei gefið þá uppskeru sem við óskum eftir að fá út úr samböndum okkar og í raun eyðileggja svona samskipti eingöngu uppskeruna og minnka þar með lífsgæði okkar og vellíðan.
Hjónabönd í rúst og fjölskyldur sundrast. Það sem búið var að byggja upp farið vegna einhvers sem kannski skipti engu máli eða var nánast ekki neitt nema tilfallandi spenna og kikk inn í hversdagslífið.
En hvað með þá einhleypu og netdaðrið ?
Þar virðist vera mjög algengt að spjallað sé við marga aðila í einu svona rétt til að vera on the safe side á meðan verið er að mynda nýtt samband við einn ákveðinn aðila og Það þarf að hafa nokkra aðra aðila til vara ef myndun á þessu nýja sambandi bregst. Það mun aldrei vera til góðs fyrir sambandið því get ég lofað.
Þarna að traustið er farið áður en að sambandið getur myndað þau bönd sem nauðsynleg eru til að tvær mannverur séu tilbúnar að gefa af sér og þiggja - sambandið getur því aldrei byggst upp á réttum forsendum að mínu mati.
Ég veit að margir munu ekki vera sammála mér í þessum efnum sem er í lagi eins og fyrri daginn. Og má vera að ég sé nokkuð dómhörð í þessum efnum en sú dómharka mín byggist á því að hafa fengið of oft að heyra af málum þessum og afleiðingum þeim sem þau hafa haft.
Klámið kemur reyndar jafn sterkt inn og daðrið þegar kemur að því að það hrikti í stoðum sambanda, og er í raun oft fylgifiskur þessa netdaðurs sem á sér auðvitað stað víðar en á Facebook.
Við höfum stefnumótasíður af ýmsum gerðum og þeir sem á annað borð vilja og nenna að standa í framhjáhöldum af þessum toga nota líklega flesta þessa miðla til jafns við facebook. Ef við googlum orðið sex koma upp 3.620.000.000 niðurstöður á 0,55 sekúndumþannig að netið er gósenland fyrir þá sem vilja finna sér klám erótískt spjall og allt það sem hugurinn girnist hverju sinni til að upplifa spennu af þessu tagi.
En framhjáhald er þetta allt saman og ekkert af því saklaust eða í lagi. Skemmandi og eyðandi eru þau ef upp um þau kemst, og jafnvel þó að ekki komist upp um þau þá eru þau skemmandi fyrir einstaklingana sem í þeim standa. Siðferðiskenndin slævist og samviskubit ásamt sjálfsfyrirlitningu eru afleiðingin fyrir þann sem þetta stundar og það er held ég eitthvað sem enginn vill í raun uppskera fyrir líf sitt.
Gróðinn eða uppskeran er semsagt léleg fyrir þá sem ætluðu sér spennu og vellíðan með Facebook framhjáhaldinu.
Svo vöndum okkur þegar við erum í traustu og góðu sambandi og þegar við erum að mynda nýtt samband. Skoðum vel hvað það er sem við viljum uppskera í lífi okkar og sáum i samræmi við það í þessum efnum sem öðrum.
Gömlu og góðu gildin eiga enn rétt á sér og lögmál eins og það að aðgát skuli hafa í nærveru sálar einnig.
Veljum að nota netmiðlana til uppbyggingar á heilbrigðum og fallegum samskiptum okkur sjálfum til góðs sem og öðrum, en sleppum að næra og vökva arfann sem fljótur er að yfirtaka það góða í garðinum okkar.
Þar til næst elskurnar.
Xoxo
Ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
Lífsmarkþjálfi og samskiptaráðgjafi
linda@manngildi.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.1.2021 | 12:35
Myrkrið er einnig dýrmæt gjöf
Aðili sem ég elskaði einu sinni gaf mér kassa fullan af myrkri. En það tók mig mörg ár að skilja að einnig myrkrið var gjöf til mín. Mary Oliver
Ég geri mér grein fyrir því að ástand það sem nú er mun hafa og hefur haft áhrif á mörg heimili landsins og við erum líklega aðeins að sjá byrjunina á því sem koma skal. Mikil sorg er hjá mörgum og áhyggjur af afkomu eru miklar hjá stórum hópum því miður.
Þó virðist annað umræðuefni hafa stærra pláss á öldum ljósvakans og miklar umræður farið þar fram um skaðsemi þá sem börnin okkar búa við vegna Covid.
Talað er um að Covid ástandið sé að eyðileggja sálarheill ungu kynslóðarinnar þar sem samfélagslegar tengingar hafa haft takmarkanir og ýmsar breytingar átt sér stað í þjóðfélaginu og þar af leiðandi haft áhrif á æsku og vellíðan barna okkar.
Ég verð þó að segja að ég er töluvert langt frá því að vera sammála þeirri umræðu sem ég hef orðið vitni að, og hef ekki miklar áhyggjur af því þó að bæði börnin okkar og við hin fullorðnu þurfum að vera svolítið með sjálfum okkur í friði og ró í eitt ár eða svo.
Þetta er tímabil þar sem ekki er hægt að fá og gera allt sem okkur langar til að gera eða erum vön að getað gert og lífið gengur ekki sinn vanagang sem gerir okkur óróleg og ósátt við þær takmarkanir sem þríeykið okkar hefur sett okkur. Ég held þó að við litlu ofdekruðu vestrænu frekjurnar höfum bara gott af því að fá að byggja upp þrautseigjugenið okkar og börnin okkar hafa einnig gott af því að kynnast því að lífið er bara allskonar og ekki alltaf samkvæmt okkar óskuðu heimsmynd og því þurfum því að beita aðlögunarhæfni okkar og þrautseigju á tímum sem þessum.
Það er stutt síðan ég var ung og ég man vel eftir tímum austur á landi þegar ófært var svo dögum ef ekki vikum skipti (jafnvel ekki hægt að fá mjólk og brauð af Héraði í lengri tíma) án þess að það væri eitthvað verið að hafa áhyggjur af því hvernig okkur liði með það að kafa skaflana til að komast í skóla og jafnvel að þurfa að þvælast með snjóbílum á milli húsa ef hægt var þá yfirhöfuð að fara út úr húsi. Ég man líka eftir jólum þar sem ættingjarnir gátu ekki verið saman vegna veðursins og rafmagnsleysið sá oft til þess að jólin gátu ekki verið á réttum tíma vegna þess að ekki var hægt að setja steikina inn í ofninn. Við þessar aðstæður þurftum við bara að aðlaga okkur að náttúrunni og sætta okkur við þær aðstæður sem þar voru (ég held stundum að fólk haldi að það geti stjórnað náttúruöflunum eins og öllu öðru - en því fer þó fjarri).
Á mínum æskuárum þurftum við einnig að læra að dunda okkur án þess að við værum mötuð allan sólarhringinn og það vakti svo sannarlega ímyndunaraflið. Við fengum kennslu í því að njóta þess einfalda og vorum afar þakklát þegar vetri loksins lauk og við komumst leiðar okkar án erfiðis.
Við höfðum ekki netið, samfélagsmiðla, Netflix og snjallsímann, og sjónvarpsgláp var mjög takmarkað og varla hægt að segja að það væri til. Það voru ekki einu sinni til útvarpsstöðvar aðrar en Rás eitt þar sem lög unga fólksins var líklega það sem við lögðum á okkur að hlusta á hálftíma í hverri viku.
Bókasafnið var vinsælt hjá mér og gaf mér heilu heimana sem urðu raunverulegir í huga ungrar stúlku sem drakk í sig hverja bókina á fætur annarri og þess á milli teiknaði myndir af því sem sagan og ímyndunaraflið hafði búið til.
Ég held að flest okkar sem bjuggum við þessi líklega skertu lífsgæði að mati sumra í dag hafi gefið okkur mjög margt sem við höfum haft með okkur í farteskinu og hafi gefið okkur styrk á leið okkar í gegnum óhjákvæmilega öldudali og breytingar lífsins.
Eiginleikar þeir sem við þroskuðum með okkur voru td þrautseigja, sköpunarkraftur, friðsæld og að dvelja hið innra einn með sjálfum sér. Að meta það smáa í lífinu og að eiga gæða stundir með fjölskyldunni var það sem gaf lífinu gleði sína en sem að mínu mati hefur skort mjög svo á í langan tíma.
Þær minningar sem sitja í mér og mér þykir vænst um eru td eru útvarpsleikritin á fimmtudögum með fjölskyldunni, bakstur á kleinum lummum og fleiru, spariföt á sunnudögum, mamma með dönsku blöðin sín sem hún lánaði mér svo að ég gæti teiknað eftir þeim myndum sem mér fannst svo flottar. Að búa til föt á dúkkulísurnar, fara í fallin spýta teygjutvist og yfir voru daglega á dagskrá á þessum tíma (þegar veður leyfði)svo var það uppáhaldið mitt kubbafolkaleikurinn sem ég og frændsystkin mín bjuggum til með ímyndunarafli okkar þar sem við byggðum heilu bæina úr ónýtum bókum sem við teiknuðum inn í allskonar innréttingar og herbergi og fólkið sem bjó þar voru Legokubbar. Stóru hvítu kubbarnir voru konur, þeir svörtu voru karlar og litlu kubbarnir voru börnin og unglingarnir. Húsgögnin samanstóðu af forláta glerkúlum úr hinum ýmsu áttum og allskonar litlum dollum og trébútum sem gerðu húsin okkar að höllum.
Dorgað var fyrir fiski á bryggjunni, skautað á lóninu eða fótboltavellinum,lækir stíflaðir og búnar til sundlaugar fyrir Barbie dúkkurnar og bílabrautir búnar til á moldarhaugunum. Þetta eru dýrmætar minningar sem hefðu líklega ekki orðið til ef dagskrá okkar hefði verið full af skipulögðum æfingum og félagsstarfi.
Dagskrá flestra í dag er svo stútfull af öllu öðru en samveru fjölskyldunnar eða friði og innri ró að ég lít á þennan Covid tíma sem við lifum nú á sem gjöf til æskunnar en ekki helsi, en það er ég og mín skoðun og þú þarft alls ekki að vera sammála mér þar.
Við höfum satt best að segja öll bara gott af því að þurfa að láta eitthvað á móti okkur svona stundum og eins höfum við gott af því að finna leiðir og lausnir til aðlögunar við hinar ýmsu aðstæður sem lífið býður okkur uppá og það er gott að læra að njóta þess einfalda.
Í dag finnst mér eins stundum að foreldrar haldi að það sé best að forða börnum sínum frá alvöru lífsins að reyna því að pakka þeim inn í bómull þar sem ekkert erfitt má gerast og þar sem allt er eins og í ævintýri og engin vond norn er til staðar.
Erum við hinsvegar að gera börnunum okkar gott með því að verja þau fyrir lífinu? Mitt mat er að svo sé ekki því að hlutverk okkar er fyrst og fremst það að búa þau undir lífið og áskoranir þess sem ekki alltaf eru auðveldar eins og nú má sjá.
Ég las ummæli eftir einn af þeim sem lifðu af seinni heimstyrjöldina þar sem hann sagði að við ættum ekki að hafa áhyggjur af því þó að börnin okkar væru ekki í skóla í einhvern tíma, hann hefði verið án þess í fjögur ár, tekist á við margar hremmingar stríðsins á þeim tíma en sagði að það hefði nú ræst úr honum þrátt fyrir það að hafa misst þessi 4 ár úr skóla.
Í dag er varla að börn fái að vinna fyrr en þau eru orðin fullorðin og kynnast því ekki heimi hinna fullorðnu fyrr en allt of seint að mínu mati.
Ég var tólf ára farin að vinna með fullorðnu fólki í frystihúsi þar sem þær gömlu sem kenndu mér og gáfu sko ekkert eftir. Það var bara ætlast til þess að maður stæði sig og ekkert annað var í boði - og af því lærði ég mest. Eins var ég löngu fyrir þann tíma farin að passa börn og sjá um að þrífa heima hjá mér og hafði skyldur sem ég sé í dag að gerðu mér ekkert annað en gott.
Leyfum börnunum okkar að kynnast lífinu í allri sinni mynd, öllum gerðum þess bjöguðum eða góðum, og hættum að ofvernda þau og fylla dagskrá þeirra af einhverju svo að þeim þurfi ekki að leiðast eða að nýta hugarafl sitt. það er gjöf sem mun vaxa að verðgildi með tímanum og mun gefa börnum okkar styrkinn sem þau þarfnast og jafnvel tilganginn sem þeim oft skortir í dag og líklega gæti meira að segja losað þau undan tilvistarkreppum af ýmsum toga.
En hvað veit ég svosem annað en það sem hefur gagnast mér best í lífinu og það sem ég sé útundan mér í dag ég vona þó að þessi orð mín veki upp hugsun um gagnsemi tíma þeirra sem nú eru en ekki einungis erfiðleikana sem þar er við að etja, því að eins og alltaf mun stytta upp og sólin skína að nýju og við reynslunni ríkari og reynslan er alltaf dýrmætasta gjöfin.
Og ef þú telur að ég geti aðstoðað þig á lífsins vegi er ég einungis einni tímapöntun í burtu eins og ætíð.
xoxo
ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
Lífsmarkþjálfi,Samskiptaráðgjafi og TRM áfallafræði 1 og 2.
linda@manngildi.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.12.2020 | 21:22
Breytingar á himni og nýtt tímabil hefst 2021-(Áramótaannáll)
Jæja hvað skal nú segja um árið 2020?
Mér finnst einhvernvegin eins og við séum stödd í miðjum fæðingahríðum nýrra tíma og allt það sem gengið hefur á í heiminum þetta árið(og lengur) sé að sýna okkur hvar skortir á þekkingu okkar á eðli lífsins og tilverunnar, og ég tel að okkur sé ætlað að leiðrétta stefnuna sem við höfum verið á.
Ef ég tæki mælikvarðann á venjulegum gangi fæðingar myndi ég segja að við værum komin með ca 7 til 8 í útvíkkun en værum þó engan vegin tilbúin í fæðinguna sjálfa þó að öll ummerki séu um að nýtt líf sé að brjóta sér leið inn i þennan heim.
Ég hef rekist á margar greinar að undanförnu þar sem skrifað er um breytingar á himni sem urðu þann 21 desember og hvað þær tákna fyrir okkar heim og það er eiginlega alveg í stíl við þá tilfinningu sem ég hef varðandi fæðinguna sem ég tel að nú standi yfir.
Mín tilfinning er sú að við séum búin að gleyma svo mörgu af því sem okkur var kennt bæði í gegnum gamlar og góðar bókmenntir, trúarbrögð, listir og menningu. Við höfum gleymt því að standa saman og erum ekki alveg að gera okkur grein fyrir því að við erum öll greinar á sama stofni eða laufblöð á greinum stofnsins og að líf okkar byggist allt á honum.
Við gerum góðlátlegt grín að því sem andlegt er og trúum einungis því sem skilningarvitin okkar ná utan um þó vitað sé að við sjáum ekki allt litrófið í kringum okkur og að við skynjum ekki allar þær bylgjur og þá orku sem er umlykjandi okkur. Merkilegt er að í dag eru vísindin að "uppgötva" margt af því sem löngu er vitað í andlegum efnum ef við bara skoðum forn heimspekirit og líklega er fátt nýtt hægt að uppgötva undir sólinni ef vel er að gáð.
En hversvegna þurfa Móðir Jörð og Alheimurinn allur að fæða fram ný viðhorf og nýja jörð? Er þetta ekki bara fínt eins og það er?
Svo að ég svari nú bara fyrir mig þá eru margar og þó nokkuð góðar ástæður fyrir því að því að ég tel.
Ef við byrjum bara á því að tala um hvernig við umgöngumst móður jörðu af vanvirðingu og viljum ekkert vita af því afli sem stýrir stjarnaher, höfum að ég tel hreykst upp í því að halda að við séum drottnarar alheimsins og að ekkert fær okkur sigrað, þar sem vísindin og æðri menntun (Hvað sem það svo er nú) eru okkar Guðir.
Okkur er sama þó að Móðir jörð berjist við að ná andanum vegna mengunar svo lengi sem við getum vaðið áfram á okkar nútíma hraða, og við horfum bara í hina áttina þó að helmingur jarðarinnar fái ekki að borða eða búi við hernaðaraðstæður og harðræði, og aðhöfumst fátt annað en að dæsa lítillega og borga mánaðargjöldin til UNICEF.
Flóttamannabúðir eru um allan heim þar sem sjúkdómar og ill meðferð fær að viðgangast án þess að við lyftum hendi og svona gæti ég talið upp endalaust líklega og flest erum við sek um andvaraleysi þegar að þessum aðstæðum kemur. Kærleikur okkar mannanna hefur kólnað og hin andlegu lögmál geta ekki lengur horft framhjá því og hafa sett okkur í skammarkrókinn.
Jarðskjálftar, eldgos, sprengingar, óveður, flóð og skriður eru algengar fréttir þetta árið og fellibyljir aldrei verið fleiri. En ekki vöknum við af dvalanum þannig að við fengum eins og eitt stykki alheimsfaraldur sem ætlað var það hlutverk að vekja okkur. En ég spyr - ætlum við að vakna eða halda áfram að sofa? Ætlum við að halda þeim venjum og viðhorfum sem við höfum skapað en eru ekki að virka, eða ætlum við að breyta gildunum okkar til hins betra og þar með viðhorfum sem vænlegri eru til velsældar framtíðarþegna okkar?
Árangur dagsins í dag er aðeins mældur í því hversu "langt" þú nærð á hinu veraldlega taflborði og því hversu vel þér gengur að fá aðra til að horfa upp til þín. Ekki er horft til þess hversu mikla inneign þú átt í samkennd og tilfinningagreind eða heilindum og sannleika. Það er nú samt svo einkennilegt þegar allt kemur til alls að þá eru það hin smáu umhyggjuverk sem við framkvæmum í lífinu sem skipta máli fyrir velgengni okkar (karma) en ekki hinir háu og miklu titlar.
Faðmlag til þess sem þess þarfnast, matur til þess sem hungrar, stuðningur til þeirra sem syrgja og bros til þess sem engan á að eru auðævi hvers manns sem þá mannkosti hefur í farteski sínu.
Mér þótti forvitnilegt að heyra í fréttum um daginn að kvíði skólabarna hefði minnkað í Covid ástandinu og að þau svæfu betur. Ég get nú ekki sagt að það hafi komið mér á óvart því að vinnudagur barna er ómannúðlegur í dag og í raun mikið áhyggjuefni að mínu mati.
Þessi litlu grey eru rifin upp eldsnemma morguns frá nokkurra mánaða aldri og sett í barnapössun og leikskóla (fullur vinnudagur). Við tekur síðan skólinn, heimanámið, íþróttir og aðrar tómstundir, keppnir af ýmsum toga, verslunarmiðstöðvaferðir og skemmtigarðar og því miður verður frekar lítill tími eftir til samveru og samskipta innan fjölskyldunnar. Konur eru útkeyrðar af álagi sem ekki má viðurkenna og ungir karlmenn eru í tilvistarkreppu. En uss uss þetta má ekki tala um. Heimilisofbeldi og neysla hefur sjaldan verið meiri og úrræði vantar fyrir þá sem deyfa sársauka sinn með þessum hætti. Sjálfsmorð hafa aldrei verið fleiri en í dag en uss uss, við tölum ekki heldur um það nema svona spari.
Þetta Covid ár hefur kannski átt að kenna okkur að við þyrftum að endurskoða þær leiðir sem við höfum farið í nokkra áratugi og er beiðni til okkar um að við tökum upp betri mannleg gildi þó ekki væri nema til annars en þess að bæta líðan barna okkar og að skapa framtíðarkynslóðum andleg gæði og vellíðan.
Mér til undrunar hef ég heyrt raddir sem tala fjálglega um hversu skelfilegt það hafi verið fyrir börnin okkar að hafa ekki getað gert allt eins og venjulega þetta árið en þar er ég algjörlega ósammála. Hvar eiga börnin okkar að læra þrautseigju ef engar eru takmarkanirnar og allt er hægt að fá og gera öllum stundum? Og hvernig hefði þetta verið ef engin snjalltæki eða internet væru til staðar heldur einungis bækur, sögur og spilastokkar til að stytta sér stundir við?
Ég held bara að við höfum haft gott af því öll sem eitt að fá að kynnast því að ekki er allt sjálfsagt í heimi hér og að stundum ráðum við ekki við aðstæður þær sem lífið skapar okkur, og svo höfðum við gott af því að dvelja í meiri ró en hefur verið í mörg ár ef ekki áratugi.
Það eru forréttindi en ekki sjálfsagt að geta faðmað og kysst, að geta hist og átt gæðastundir með þeim sem okkur eru kærir eða ferðast hvert um heim sem er. Við ættum að meta þær stundir sem slíkar en ekki sem sjálfsagðan hlut. Allt sem verðmætt er í huga okkar förum við vel með og gefum því sérstakan sess og þannig ætti það einnig að vera með þá sem okkur eru kærir.
Annað mikilvægt sem ég hef lært á þessu ári fæðingahríðanna er að í miðju breytinga heimsins er tilvera okkar sem einstaklinga einnig hrist og hreinsað er til, og í mínu tilfelli hafa síðustu tvö ár heldur betur hrist vel upp í mér og minni tilveru.
Það sem helst stendur uppúr í þeim breytingum er líklega það að fylgja til grafar tveimur kvenstólpum sem fylgdu mér í gegnum lífið, eða móður minni seint á síðasta ári eftir mikil veikindi og á þessu ári kvaddi sú vinkona sem hafði verið mér við samferða frá tíu ára aldri og varla leið sá dagur að við værum ekki saman með börnunum okkar hér áður fyrr. Það fylgir því söknuður og tregi að kveðja slíka stólpa.
Góðir vinir hafa einnig á þessu ári flutt sig á milli staða og nýir vinir bæst í hópinn þegar aðrir hafa farið sem er víst lífsins gangur, og allir hafa þeir víst hlutverki að gegna í lífssögu okkar sem okkur ber að þakka fyrir.
Heilsan hefur verið eitthvað að stríða mér þetta árið og þessi stelpa hefur átt frekar erfitt með að viðurkenna þá staðreynd. Það er nú eitthvað svo einkennilegt að enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur og er heilsan eitt af því sem ég hef upplifað virðið á í dag.
En allt verður þetta til góðs með einum eða öðrum hætti að lokum og þannig er það með öll þau verkefni sem við fáum í fangið á lífsleið okkar - alltaf eitthvað gott sem kemur út úr öllu að lokum þó að ekki sé það annað en aukinn þroski og skilningur á mannlegum aðstæðum sem við fáum að launum fyrir harðræðið.
Það sem gaf mér tilgang mitt í öllum þessum breytingum var að ég fékk áhugavert hlutverk sem veitti mér mikla ánægju á árinu. Gjöf þessa fékk ég frá ókunnugum manni sem deilir með mér veraldarsýn minni og trú á umhyggju og loksins fannst mér ég fá tækifæri á því að færa þau gildi til alls heimsins! Tækifærið fékk ég í gegnum alþjóðlegu samfélagsmiðlaherferðina KIND20 sem hefur haft það að leiðarljósi meðal annars að færa fjölskyldur saman og lina þjáningar heimsins með umhyggjuverkum af ýmsum toga.
Eitt af þeim verkefnum sem við stóðum fyrir fór af stað í Desember en það var að færa öllum félagsmiðstöðvum landsins tillögur að gæðastundum fjölskyldunnar allan mánuðinn og var það von okkar að með þeim verkefnum næðu fjölskyldur að skapa samverustundir og auðga ímyndunarafl fjölskyldunnar. Þetta verkefni var gert í samstarfi með Samfési og Tveimur Grímum sem eiga svo sannarlega þakkir skyldar fyrir.
Erlendis hefur KIND20 staðið sig vel í því að deila út þessu sama verkefni og eins með því að útdeila matargjöfum til þeirra sem ekkert hafa á borðum sínum og hafa hafa hin ýmsu góðgerðasamtök komið til liðs við okkur þar. Eins hefur KIND20 vakið athygli á því sem vel er gert í heiminum með því að útnefna hetjur góðverkanna í hverju landi og hverri borg fyrir sig og fá þeir borðum skreytta orðu fyrir það að aðstoða náungann með ýmsu móti.
Íslendingar tóku svo sannarlega þátt í þessu umhyggjustarfi og voru yfir 20 þúsund manns frá Íslandi farnir að fylgjast með því sem við gerum á samfélagsmiðlum síðast þegar ég vissi (af 260 þúsund fylgjendum sem þá voru) og vonast ég til að þeim fjölgi stórlega á næsta ári. Ósk mín er einnig sú að við gætum saman skapað flóðöldu góðverka hér á landi með samstöðu og þátttöku allrar þjóðarinnar. Þá vonast ég einnig til að opinberir aðilar sjái sér fært að koma að borðinu með okkur því að aldrei hefur verið meiri þörf á alþjóðlegu samstarfi og samstöðu í kærleika en nú á þessum vátímum í veraldarsögunni.
Íslenska deild KIND20 var með beint streymi til Bretlands í sumar þar sem við kynntum Ísland með ýmsum hætti og hinn íslenski Kórónukór sem stofnaður var í miðjum Covid faraldri hefur heldur betur komið við sögu í öllu því sem gert hefur verið hér á vegum KIND20. Lag þeirra og titillag sönglagakeppni sem kennd er við John Lennon heitinn sem við stöndum að í Liverpool, eða "Together as one" hefur nú þegar fengið yfir 18 þúsund áhorf á samfélagsmiðlum sem telst líklega nokkuð gott áhorf á íslensku myndbandi.
Já ég veit að ég er bullandi stolt af þeim árangri sem við höfum náð hér en betur má ef duga skal og mun næsta ár fara í að kynna nýja og spennandi þætti sem auðvitað snúa allir að því að bæta líðan heimsins.
Trú mín er sú að nú ættum við að líta á gömlu göturnar og finna aftur gömlu góðu gildin sem við höfum týnt í miðri glingurs fjársjóðskistunni og skoða hver hin raunverulegu gæði eru og hvað við getum lagt heiminum til í umhyggju og kærleika og styðja síðan við allt starf sem gerir heiðarlega tilraun til að dreifa þessum ómissandi þáttum mannlegrar tilvistar um heim allan.
Kind20 bar mig einnig erlendis til á árinu þrátt fyrir Covid og sóttkví, og hitti ég þar marga sem deila með mér áhuga á því að bæta heiminn með ýmsum hætti. Aukaafurðin af þessum ferðalögum mínum var sú að það opnuðust tækifæri fyrir stelpuna á því að fara í útrás með skrifin sín.
Ekki fór ég í sextugs afmælisferðina sem plönuð var með hluta fjölskyldunnar til Ítalíu í sumar því að Coronaveiran varð á undan mér þangað og ekkert varð heldur af stóru veislunni sem halda átti í haust. En afmælisdagurinn minn var yndislegur og kærleiksríkur frá upphafi til enda og nokkrar litlar afmælisveislur voru haldnar fyrir mig í vinahópunum. Ég fékk kveðjur úr öllum áttum og svo komu nokkrir góðir vinir sem glöddu mig með söng og kærleika sínum ásamt því að dóttir mín tók saman myndband sem gladdi hjarta mitt mikið.
Ég fór eins og aðrir landsmenn um landið okkar í sumar og gamli heimabærinn minn Seyðisfjörður var heimsóttur. Þegar ég nálgaðist Héraðið fann ég hvernig tárin trilluðu niður kinnar mér og ég varð meir vegna allra þeirra minninga sem komu upp í huga minn og ég fann hvernig rætur mínar eru bundnar við þennan landshluta.
Við eigum dásamlegt land og þjóð sem við kunnum stundum ekki að meta að verðleikum en ég held að við höfum þó öll séð hversu góða samstöðu og umhyggju við eigum til í hjörtum okkar nú fyrir jólin þegar gamli heimabærinn minn lenti í ótrúlegum hremmingum vegna skriðufalla. Það gladdi hjarta mitt mikið að sjá það hjartalag sem þjóðin og ráðamenn hennar sýndu við þær aðstæður.
Í raun þegar ég hugsa um það held ég að lífið, almættið eða móðir jörð sé að fara fram á það við okkur að við lifum alla daga með þeim hætti sem við sýnum þegar stóráföll dynja yfir okkar þjóð og hættum bara þessu rugli sem við stöndum stundum í. Óvild og hatur ætti að vera að baki okkar þegar og ef að augu okkar opnast fyrir því að við erum öll eitt. Þú ert ég, og ég er þú. Allt sem þú vilt að aðrir menn gjöri yður skuluð þér og þeim gjöra sagði meistarinn sjálfur Jesús Kristur sem ég get ekki túlkað með öðrum hætti en þeim að við séum öll eitt, ein hjörð á sama stofni alheimsins.
En nú ætla ég að hætta þessu rausi mínu að þessu sinni og segi bara:
Gleðilegt nýtt ár elskurnar,
Mætti árið 2021 færa okkur nýjar (gamlar) götur og gildi og frið í hjartað, og mættum við gefa kærleika okkar til alls heimsins og þiggja hann einnig.
Svo óska ég ykkur þess að þið verðið alltaf þið sjálf því að þið eruð bara yndisleg eins og þið eruð, og að lokum þætti mér æðislegt ef ykkur yrðu gefnar hellingur af glimmer og gleðistundum á því ári sem nú fer í hönd og enn meir ef þið fengjuð stóran skammt af knúsi, kossum og nánd á ári komandi.
Kærleikskveðja,
Linda
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.12.2020 | 21:49
Ertu í umgengni við andlega aðþrengdan aðila?
Sumir sem við hittum á lífsleiðinni virðist hafa fæðst með tvo eða fleiri persónuleika og þá meina ég að þú sérð varla neitt líkt með þeim karakterum sem þeir sýna í mismunandi aðstæðum, og ég viðurkenni fúslega að ég á svolítið erfitt með að umgangast einstaklinga sem hafa óstöðuga persónuleika eða þessa Jeckyll and Hyde eiginleika.
Myndin sem þessir blessuðu aðilar sýna í hinum félagstengda heimi er algjörlega á skjön við það sem þeir sýna þegar þeir eru komnir inn í örugga sónið sitt eins og í kringum fjölskyldu sína og vini og því halda svo margir að þeir séu bara æðislegir í alla staði og það verður víst að viðurkennast að oft eru þeir mjög svo sjarmerandi og eru snillingar í að vefja fólki um fingur sér í byrjun kynna a.m.k.
Hvað gerir það samt að verkum að þessar mismunandi hliðar eru á sama einstaklingnum? Finnst þeim sjálfum þeir ekki nægjanlega góðir eins og þeir eru eða eru þeir kannski hræddir við höfnun? Er verið að fela bresti og eða samskiptaleg mynstur sem ekki er hægt að sýna heiminum?
Örugglega eru til margar skýringar á þessu en ein af skýringunum getur tengst narssisma og eða öðrum persónuleikaröskunum.
Hafa ber í huga að einkenni þurfa að vera orðin mjög alvarleg til að flokkast undir persónuleikaraskanir en einkennin geta þó dansað línudans einhverstaðar á jaðrinum eða haft óvenju sterka fylgni við ákveðnar tegundir þeirra.
Ég hef í gegnum árin kynnt mér töluvert mikið birtingamyndir þessara mynstra og það má finna ýmislegt fróðlegt um þessi málefni á veraldavefnum ef þú leitar vel.( passa þó áreiðanleika heimildanna)
Ég ætla hér að nefna nokkur atriði sem oft er minnst á þegar talað er um narsisstana þar sem ég hef kynnt mér þá. Ég held reyndar að við höfum öll einverja smá fylgni við þessar lýsingar þannig að förum varlega í greiningar okkar og látum eingöngu fagmenn sjá um þær.
Það eru til mörg undirheiti yfir narsissta, en sagt er að þeir eigi það allir sameiginlegt að vera haldnir mikilli stjórnunarþörf og lítilli samkennd því að allt snýst um þá og þeirra stóra og mikla sjálf. Þeir einstaklingar sem eru í hirð þeirra (vináttu, fjölskyldu og svo fr.) eru í rauninni í þeirra augum einungis þjónar sem uppfylla eiga þarfir þeirra og eru þar með næringin sem þeir þurfa á að halda á hverju sviði fyrir sig.
Hinir sjálfhverfu eru oft frábærlega hæfir í félagslegum aðstæðum eins og áður er getið og þar vilja þeir sýna hversu grandios og flottir þeir eru. Í þeim aðstæðum kunna þeir svo sannarlega að sýna þær hliðar sem þeir vita að öðrum líkar við og heillast að.
Hinsvegar þegar þeir eru á heimavelli sýna þeir allt aðrar og verri hliðar sem reynast hjörtum þeirra sem þá elska miklir skaðvaldar.
Þar sem þeir þurfa ekki að passa sig eru þeir afar stjórnsamir og vita fátt skemmtilegra en að leika "Gotcha" leikinn (Náði þér). Þeir þrífast á rifrildum og því að gera lítið úr þeim sem eru í návist þeirra með ýmiskonar athugasemdum, hæðni, niðurrifi og fleiru. Þeir fylgjast gjarnan með hverju skrefi þeirra sem þeir eru í sambandi við og kveikja á skammartilfinningu og sektarkennd þeirra af og til. Þeir koma einnig hlutum þannig fyrir að þeir sem eru fórnarlömb þeirra taka á sig sök á því sem sagt var og eða gert og tipla á tánum í kringum þá til að halda þeim góðum.
Rifrildi þeirra geta oft orðið heiftug þar sem narsisstinn (líklega einnig aðrar raskanir orðnar tengdar sjálfslægninni) hlustar ekki á nein rök sem fram eru færð og hann er ekki tilbúinn til að leyfa þér undir nokkrum kringumstæðum að vinna "leikinn" sem hann er í. Hann heldur áfram að ýta á alla takka sem fyrirfinnast þar til að hann hefur náð leikfélaganum (þér)á staði reiðinnar eða þann stað þar sem sem Leikfélaginn (þú) verður ekki ánægður með þig né viðbrögð þín og þá hefur leikstjórnandinn náð þessu "Gotcha" augnabliki og er ánægður - sigurinn er unninn. (köttur og mús)
Narsisstarnir eru þrjóskir, ósveigjanlegir, fastir í farinu og stoppa ekki fyrr en þú skilur hvað það er sem þeir vilja ná fram. Þeir nota til þess fjölbreyttar aðferðir eins og reiði, þagnir eða niðurlæginu þar til þú skilur hvað það er sem þeir vilja.
þú mátt ekki hafa þínar þarfir eða setja þín mörk því að narsisstanum finnst einfaldlega ekki við hæfi að þú hafir mörk og langanir. Hann sér yfirleitt einungis sínar eigin þarfir og lætur þig vita af óánægju sinni þegar þú ferð fram á eitthvað og skilur ekkert í frekjunni í þér. Fyrir frekjuna refsar hann þér með fjölbreyttum aðferðum sem fá þig til að skilja að þú átt ekki eftir að fá þínum þörfum mætt enda átt þú ekki að hafa þarfir umfram þær sem hann vill að þú hafir eins og áður hefur komið fram.
Viðhorf þeirra er gjarnan "Ég er æðri öðrum og mjög sérstakur einstaklingur og það krefst þess að aðrir komi fram við mig af tilhlýðilegri virðingu". Og þeir sem ekki koma fram við þá með þeim hætti fá að kenna á því.
þeir vilja vera í stjórnunarstöðum á vinnustaðnum, vinahópnum og heima hjá sér því að þeir eru betur til þess fallnir en aðrir í eigin huga að stjórna og þeir setja þig reglulega á þann stað sem þeir vilja hafa þig á sem er yfirleitt langt fyrir neðan þá sjálfa.
Ef það sem þú segir hentar þeim ekki þá munu þeir ekki hlusta á neinar fortölur né rök hvort sem þær eru byggðar á staðreyndum eða ekki. (þeim er illa við annarra staðreyndir og sannanir)
Þeir undirförlu í narsisstahópnum vilja gjarnan hafa það þannig að allt líti vel út í frá þó að allt sé í kalda kolum. Undir þetta fellur að þeir vilja eiga flotta og fullkomna fjölskyldu, vini og störf og þeir gera allt til að hylja það sem aflaga fer í lífi þeirra.
Þeir leika einnig gjarnan fórnarlömb með tilheyrandi fýlu og þöggun, draga sig jafnvel kynferðislega í hlé ef þeir eru í hjónabandi og nota það sem refsingu ef þú ert ekki eins og þeir vilja hafa þig (bæði konur og menn). Þeir tala stundum um þig í vorkunnartóni við vini sína til að réttlæta sjálfa sig og fyrra sig ábyrgð og dreifa um þig sögum - sönnum og ósönnum.
Þegar stjórnlaus reiðin tekur svo völd taka við niðurlægjandi sóðalegar athugasemdir og rök þín og mörk hvergi virt.
Gjarnan vilja þeir láta þig bera ábyrgð á þessum ágreiningum og stöðugu rifrildum með því að segja að ef þú værir ekki með kröfur og þarfir yrðu engin rifrildi.
Narsisstinn hefur þörf fyrir að litið sé upp til hans eins og áður kom fram en hin hliðin á peningnum er þó sú að hann hefur mikla fyrirlitningu á sjálfum sér og setur sig fyrir neðan flesta þegar hann er á þeim stað og finnst hann einskis virði. Hann sveiflast á milli þessara tilfinningaöfga í báðar áttir og þeir sem eru í kringum hann á persónulegum grunni fá að uppfylla þörf hans fyrir upplifun á báðum þessara hliða.
Hann er mjög viðkvæmur fyrir sárum þeim sem myndast innra með honum ef hann fær ekki allt sem hann vill fá (Narsisstic injury)og ef þú stendur í vegi fyrir honum með mörkum þínum og neitar honum um eitthvað þá grípur hann svo sannarlega til sinna alþekktu varnarviðbragða og "Gotcha" leiks.
Við þær aðstæður kemur hans innsti kjarni vel í ljós ásamt öfgafullu viðbrögðum hans sem þú skilur líklega ekkert í hvaðan spruttu.
Þau eru tilkomin vegna þess að þið getið ekki átt eðlilegar samræður um ágreiningsefni ykkar og særindi hans verða að uppþoti í flestum tilfellum. Hann virðist ekki geta rætt hlutina eins og fólk venjulega gerir í góðum samskiptum þar sem lausnir eru fundnar sem gagnast báðum aðilum eða þar sem aðilarnir eru teymi en ekki tvær andstæðar fylkingar.
Alvarlegri og sem betur fer líklega mun sjaldgæfari persónugerð narsisstans er einstaklingur fullur haturs og innbyggðrar reiði sem þarfnast útrásar með ofbeldi og framkomu sem er afar niðurlægjandi virðingalaus og óvinsamleg, allt eftir alvarleika reiðinnar og sársaukastigsins sem viðkomandi upplifir.
Á þessum sáru stundum kalla þeir þig öllum illum nöfnum og það hefur líklega aldrei fæðst önnur eins óþverra manneskja og þú og það er þitt hlutverk að koma sársauka þeirra í lag. Orð eins og að þú sért vond manneskja, illgjörn/gjarn, ekki nóg af einhverju en of mikið að öðru eru algeng vopn þegar þeir eru í þessum ham. Síðan draga þeir sig fyrirlitlega í hlé í heilagri reiði sinni og eru þar jafnvel í marga daga og stundum jafnvel vikur eða mánuði. Líklega talar Narsisstinn ekki við þig fyrr en að ÞÚ biðst afsökunar til að beygja þig enn frekar undir vald sitt (sem var upphaflega markmiðið með framkomunni hvort sem var).
Þeir eru semsagt í litlu jafnvægi og mjög óþroskaðir tilfinningalega séð og geta ekki átt samræður um tilfinningar, nánd né þarfir annarra aðila en þeirra eigin.
En það sem þeir í raun eru að segja er að "ég get ekki lifað eins og venjulegt fólk gerir" vegna þess að ég þarf að hafa stjórn á allt og öllum til að öryggiskassinn minn virki.
Þeir lifa utan frá en ekki innanfrá og þess vegna verður til þessi falska sjálfsmynd sem þeir hafa síðan ekki persónuleika til að standa undir.
Mundu bara að ef þú ert í samskiptum við fólk sem sýnir þessi einkenni ert þú ekki brjálaða manneskjan í samskiptunum þó að þér líði stundum þannig. Láttu ekki draga þig inn í þessi rifrildi sem virðast veita þessum aðilum undarlega mikla næringu - þú munt alltaf tapa hvort sem er. Ein af uppáhalds aðferðum þeirra er nefnilega sú að láta þig efast um geðheilsu þína eins og með því að segja þér að þú sért að misskilja allt, heyra vitlaust og að þú sjáir ekki það sem þú sérð (Gaslightning).
Þessir aðilar draga það versta fram í þér og þú þarft að þekkja merkin til að geta forðast þá og kannski tekst þér það aldrei fullkomlega þar sem þeir eru yfirleitt afar góðir leikarar og lygarar. Taktu ekki heldur neinum af þessum árásum þeirra persónulega. Þú ert bara í hlutverkaleik andlega aðþrengds aðila og ert ekki raunveruleg manneskja í þeirra augum, ert ekki einstaklingur með þínar eigin þarfir heldur strengjabrúða í þeirra eigingjörnu sjálfhverfu veröld.
Hann er eins og lítið barn sem öskrar af frekju en getur þó verið svo ljúft þess á milli.
Munurinn á honum og börnunum er þó sá að félagslega tengjast börn öðrum börnum með tímanum og geta tekið tillit til þeirra. Það gera þessir aðilar ekki þar sem þeir trúa því enn að þetta snúist allt um þá og þeirra eigingjörnu tilvist að öllu leiti.
þeirra þarfir og þeirra langanir - ekki þínar.
Ég gæti líklega skrifað heila bók um allt það sem ég hef lesið og hlustað á um þessi mynstur í allri sinni brengluðu mynd en ætla að stoppa hér.
Ég veit hversu skaðleg þessi mynstur geta verið heill okkar og hamingju og ég veit að við eigum aldrei að láta bjóða okkur framkomu sem er ekki af virðingaverðum og velviljuðum toga, eigum semsagt einungis að vera þar sem okkur líður vel og með þeim sem auka við gæði lífs okkar.
Hér fyrir neðan er smá tékklisti þar sem þú getur skoðað örfáar af þeim aðferðum sem þessir aðilar beita og gefðu þér síðan stig frá 0 til 10 eftir tíðni og alvarleika atriðanna.
- Yfirdrifin stríðni (Gagnrýni sem yfirbreiðsla yfir útásetningar)____
- Beita samkennd einungis til að ná athygli þinni um stund ___
- Tala þig í kaf þannig að þú neyðist til að hækka röddina eða verða reiður___
- Einangrar þig frá öðrum (fjölskyldu,vinum og félagsstarfi)___
- Gera lítið úr styrkleikum þínum og leggja áherslu á veikleika þína ___
- Þríhyrningsleikur (Fær sér leynda bandamenn gegn þér) ___
- Passive-aggressive hegðun eða áberandi grimmd ___
- Hegðun af ýmsum toga sem er þó einungis beitt til að koma þér í uppnám____
- Ásakanir___
- Ótti, skylda og samviskubit (Tilfinningaleg mútun)___
- Ástarjátningar eða skyndileg yfirþyrmandi athygli, hrós eða aðrar ástarsprengju aðferðir þegar þú fjarlægir þig þeim, einungis til að vera síðan sett/ur út í horn stuttu á eftir. ___
- Hlusta ekki á þig eða gera lítið úr afrekum þínum ___
Ef þú kannast við mörg af þessum atriðum og varst nálægt tíunni oftar en ekki, þá er tími til kominn að gera eitthvað alvarlegt í málunum og það ekki seinna en í gær. Eins ef þú kannast við eitthvað af efni þessarar greinar þá skaltu leita þér aðstoðar fagaðila til að meta stöðu þína (hvort sem þú ert gerandinn eða fórnarlambið) og alls ekki bíða með það þar sem andleg heilsa þín og jafnvel sú líkamlega gæti verið í húfi.
Og eins og alltaf, þá er ég bara einni tímapöntun í burtu ef þú telur að ég geti aðstoðað þig við verkefni lífsins.
xoxo
Ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
Markþjálfi/samskiptaráðgjafi/TRM áfallafræði
linda@manngildi.is
9.11.2020 | 20:44
Hver heldurðu að vilji þig?
Ég veit ekki með þig en ég hef í gegnum tíðina oft verið minn versti óvinur og líklega talað sjálfa mig meira niður en ég gæti hugsað mér að gera gagnvart öðrum.
Ég er sú sem er yfirleitt alltaf góð í að byggja þá upp sem þess þarfnast. Verið til í að náða og gefa færi á mistökum af öllum toga, en öðru máli hefur svo gegnt um sjálfa mig oft á tíðum. Ég vona þó að ég hafi batnað með árunum en gæti þó trúað að ég detti stundum í þennan brunn enn þann dag í dag.
En hvað er svo niðurrífandi sjálfstal?
Í fyrsta lagi er niðurrífandi sjálfstal eitthvað á þessa leið:
1. "geturðu aldrei gert neitt rétt manneskja" sem ætti líklega að vera eitthvað líkt þessu hér:
"Ég geri alltaf mitt besta og það er nóg"
2. "þú munt klúðra þessu!
Hvað segir mér að ég sé að fara að klúðra þessu? og hvað segir mér að ég geti bara alveg gert þetta?
3. "Þú hefðir átt að"
Ég gerði það sem ég taldi réttast og hafði ekki aðrar lausnir eða þekkingu á þessum tíma.
4. "Ég er viss um að mér mistekst aftur"
Ég er alveg viss um að mér takist þetta þó að ég þurfi nokkrar tilraunir til að ná þessu.
5. "Þetta er of erfitt fyrir mig"
Ég mun leita eftir þeirri aðstoð sem ég þarf ef mér reynist þetta erfitt og ná árangri.
6. "Ég klára aldrei það sem ég byrja á"
Ég mun yfirstíga ótta minn og hætta að vera hrædd við þá dóma sem ég fæ kannski þegar ég hef lokið verkefnunum og ég treysti því að ég skili af mér góðu verki- og ætla að gera þetta strax.
7. "Þetta er allt mér að kenna"
Þarf ég að finna sökudólga eða þarf ég að leita lausna og lagfæringa á ástandi því skapaðist?
8. "Þú ert allt of feit, mjó eða ekki nógu falleg/ur"
Ég er dýrmæt manneskja og ég ætla að sættast við og elska mig nákvæmlega á þeim stað sem ég er og eins og ég er.
9. "Þú ert ekki nógu gáfuð"
Við erum öll gáfuð en kannski bara á misjöfnum sviðum, svo hvert er þitt gáfnasvið?
10. "Hver heldurðu að vilji þig"
Spurningin er frekar - Vilt þú þig? Segir þetta ekki töluvert mikið um álit þitt á þér frekar en eitthvað annað? Við getum varla ætlast til að aðrir vilji okkur ef við viljum okkur ekki. Þannig að verkefnið er að elska okkur sjálf og virða og senda þá orku síðan út í heiminn.
11. "Afhverju heldurðu að þú eigir gott skilið"
Breyttu þessu í að við eigum öll gott skilið og þurfum ekki að horfa á annað en veröldina sjálfa til að sjá að þar var allt skapað handa okkur öllum og Lífið sjálft þráir að dekra við okkur með öllum hætti um leið og við leyfum það og finnum okkur verðug.
12. "Nú gengur vel, nú hlýtur eitthvað slæmt að gerast"
Það virðist stundum vera þannig að við eigum frekar von á því slæma en því góða og þegar vel gengur erum við næstum því viss um að nú hljóti eitthvað að gerast til að skemma það í stað þess að njóta velgengninnar þegar hún birtist. Þú átt skilið það góða,fagra og dásamlega svo njóttu góðu stundanna og talaðu um hversu lukkan leikur við þig alla daga.
13. "Fólki líkar ekki vel við mig"
Ég þori næstum því að fullyrða að mörgum líkar vel við þig og þeir fáu sem kannski kunna ekki vel við þig eru bara alls ekki mikilvægir þínu lífi og þú ættir ekki að gefa þeim neinn gaum. Það getur ekki öllum líkað vel við okkur frekar en að okkur líki við alla sem á vegi okkar verða, svo hættu bara að hugsa um það. Sýndu heiminum bara þinn einstaka og flotta persónuleika og dreifðu sjálfstraustinu eins og glimmeri í kringum þig hvar sem þú stígur niður fæti þínum.
14. "Ég hef ekki nein úrræði"
Það er alltaf til ein lausn í viðbót þegar þú heldur að þú sért búinn með þær allar, ekki gleyma því, alltaf ein i viðbót.
15. "Ég hef engan stuðning til að framkvæma þetta"
Sá stuðningur sem þú sýnir sjálfum þér er alltaf sá mikilvægasti, og þeir sem hafa náð lengst í lífinu sama á hvaða sviði það er koma oft úr stuðningslausu umhverfi og erfiðum aðstæðum. Svo ekki gefast upp, hafðu samband við þá sem þú heldur að gætu aðstoðað þig á leiðinni. Það versta sem gæti gerst er að þú fengir "NEI" en það besta gæti verið að þú fengir "JÁ" svo hverju hefurðu að tapa?
Þetta eru örfá atriði sem ég hef heyrt frá umhverfinu og viðskiptavinum í gegnum árin og líklega hef ég sagt eitthvað af þessu við sjálfa mig og með því takmarkað verulega lífsgæði mín og framför - því að orðin okkar og hugsanir eru afar máttugar til sköpunar á lífinu.
Svo breyttu til og líttu bara í spegilinn á morgnana og segðu þér að þú sért falleg manneskja og eigir allt gott skilið. Segðu svo við þennan sama spegil að þú sért einstök og dýrmæt mannvera og að þú ætlir alltaf að vera besti vinur þinn. Bættu svo við að þú getir gert og lært allt sem þú vilt vegna þess að þú sért fullkomin nákvæmlega eins og þú ert (það þýðir ekki að þú viljir ekki gera breytingar)og segðu þér svo að þú ætlir að elska þig á þeim stað sem þú ert hverju sinni. Mundu svo að þakka fyrir lífið og lán þess og þakkaðu líkama þínum fyrir að bera þig alla daga þangað sem þú ferð. Og að endingu í guðs bænum fyrirgefðu þér eða náðaðu þig fyrir mistökin þín og gefðu þér þann sannleika að þú varst líklega að gera þitt besta á hverjum tíma fyrir sig en kunnir kannski ekki aðrar aðferðir eða hafðir ekki aðrar lausnir inn í aðstæðurnar.
Talaðu svo við þig á kærleiksríkan hátt og byggðu þig upp með öllu því fallegasta sem þú kannt og með þeim orðum sem þú gefur öðrum sem leita til þín á erfiðum stundum eða þegar þú talar við blómin þín.
Þar til næst elskurnar er ég bara einni tímapöntun í burtu,
xoxo ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
Lífsmarkþjálfi og samskiptaráðgjafi
linda@manngildi.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.10.2020 | 16:00
10 viskukorn innblásin af Dr. Wayne Dyer
Ég hef alltaf verið afar hrifin af þeirri speki sem Wayne heitinn Dyer boðaði og hef litið á hann sem eina af mínum aðal fyrirmyndum ásamt því að hjarta mitt finnur mikinn samhljóm með hans fræðum. Ég hef þó held ég aldrei skrifað pistil með viskukornunum hans fyrr.
Um daginn sat ég þó í flugvél og hlustaði á hann í rúma 2 klukkutíma á Youtube og ákvað þá að ég ætti að leyfa lesendum mínum að fá agnarlitla innsýn í fræði hans og því varð þessi pistill til.
Ég gæti líklega skrifað tugi pistla um viskukornin hans án þess að ná utan um helming þess sem hann gaf heiminum, en þessi pistill minn er máttlaus tilraun til að koma einhverjum af hans heimspekikornum á framfæri ásamt því að skrifa fyrir neðan mína eigin skýringu eða túlkun á þeim.
1. "ímyndunarafl þitt rétt eins og líkami þinn vex með æfingunni" -W.D
Við ættum að æfa huga okkar ekki síður en líkama okkar og velja þær hugsanir og hugarmyndir sem þjóna vellíðan okkar og stækka þannig heillaríka veröld okkar í stað þess að sjá allt það slæma sem í framtíðinni býr og dvelja í ómöguleikavíddum, samsæriskenningum og óvild vegna ímyndaðra óvina og árása á okkur.
2. "Þú ættir að setja ætlun þína og athygli á það sem þú vilt sjá umpólörast eða breytast" W.D
Allt sem við setjum fókusinn okkar á vex og dafnar. Ef við viljum ná árangri þá er stundum talað um að enginn verði meistari fyrr en eftir 10 þúsund æfingar og líklega er það ekki svo fjarri lagi. Við ættum að halda áfram og áfram að æfa okkur þar til við erum stödd þar sem við viljum vera í lífi okkar, og gefast aldrei upp - sigurinn er alltaf handan við hornið, við þurfum bara slatta af þolinmæði og þrautseigju í farteski okkar og treysta á að útkoman verði sú sem við viljum og eða okkur til heilla.
3. "Í raun, þegar þú loksins kynnist og skilur á náinn hátt heim anda þíns muntu glöggt sjá að öll vandamál eru blekkingar huga okkar vegna þess að við teljum okkur vera aðskilin frá uppruna okkar sem ég kalla Guð, en þú getur kallað hvaða nafni sem er" W.D
Við höldum oft að við séum aðallega þessi dauðlegi líkami í stað þess að sjá að við erum andlegar verur sem erum að upplifa veraldlega reynslu hér á jörðinni. Allar okkar upplifanir eru forritun á einn eða annan hátt frá heimskerfunum okkar. Þær geta verið samfélagslegar, trúarlegar, menningarlegar og svo framvegis og við efumst sjaldan um að okkar eigin skilgreiningar séu réttar. Þannig munum við einnig vera þar til við förum að skoða með nýrri og víðari sýn heiminn í allri sinni dýrð. Þá loksins þurfum við ekki að aðgreina okkur frá hvert öðru heldur förum að virða og elska hvort annað og annast um. Væri það ekki dásamleg veröld?
4. "Kraftur ætlunar er kraftur kærleikans og þess að taka á móti og þiggja. Það krefst einskis af einum né neinum, það dæmir engan, og það hvetur aðra til að gefa sér frelsi til að vera þeir sjálfir" W.D
Þegar við leyfum kærleikanum að ríkja í hjörtum okkar og tengjum okkur við hann ásamt því að treysta á að útkoman sé góð og gulltryggð þá segjum við bara já takk við lífið. Þá fyrst náum við líka slökum og höfum gaman af því að skoða hvað og hvert lífið mun fara með okkur. Þetta getur verið eins og nokkurskonar óvissuferð um ævintýralendur og það eina sem við þurfum að gera er að segja hvert við viljum stefna, og segja svo bara JÁ og verði svo eða amen á eftir efninu.
5. "Þú getur lært að fara langt útfyrir trúarkerfi þín og markmiðasetningu, á nýjan stað innra með þér: Stað þekkingarinnar. Það er þaðan sem kraftaverkin koma og verða til." W.D
Við höfum öll þessa dásamlegu rödd innra með okkur sem býr yfir allri þeirri þekkingu og visku sem við þörfnumst á leið okkar um lífið og þegar við förum að gefa henni gaum og hlusta náið á það sem hún hefur að segja okkur þá munum við rata réttu leiðirnar og taka réttar ákvarðanir fyrir okkar líf og hamingju. Þannig sköpum við kraftaverkin í lífi okkar og gerum það útfrá réttri þekkingu um okkur sjálf - og af heilu hjarta.
6. Ef þú ert hreinskilinn, munt þú uppgötva að öll reynslan í lífi þínu var bráðnauðsynleg til að þú kæmist á næsta stað og einnig þann næsta allt fram að þessu augnabliki sem nú er W.D.
Ég hef talað við fjöldann allan af fólki og spurt hvort að þau hefðu viljað vera án allrar þeirrar reynslu sem líf þeirra bauð uppá og hef alltaf fengið svipað svar: Nei vegna þess að reynslan hefur gert mig að þeirri manneskju sem ég er í dag. Og þannig er það hvort sem reynslan er átakanleg eða falleg þá er það hún sem gerir okkur að þeim persónum sem við erum í núinu. Reynslan hefur gefið okkur tækifæri á því að vaxa og þroskast okkur sjálfum og veröldinni til heilla (vonandi) í flestum tilfellum. Jafnvel hafa það verið sárustu staðirnir okkar sem hafa gefið okkur mestan skilning á mannlegri tilveru og losað okkur undan helsi dómhörkunnar. Svo þökkum fyrir reynsluna, bæðu þá góðu og slæmu og nýtum þroskann til að bæta heiminn í kringum okkur.
7."Það er sérstakt frelsi sem er í boði fyrir þig ef þú ert tilbúinn að taka áhættuna sem fylgir því að öðlast það: En það er frelsið til að reika þangað sem þú vilt um landsvæði lífsins, til að taka einungis allar þínar eigin ákvarðanir." W.D
Það er þetta dásamlega valfrelsi sem við mennirnir höfum sem er svo dýrmætt og ekkert sem í raun sem er gefandi fyrir það að láta það eftir. Að kanna veröldina með augum barnsins sem myndar sér enga skoðun heldur er einungis áhorfandi. Sem tekur sínar eigin ákvarðanir byggðar á því frelsi sem í því felst að hafa ekki fyrirfram gefna skoðun er sú fallegasta gjöf sem manninum hefur verið gefin, og er einnig sú gjöf sem flestir vilja taka frá þér með fyrirfram gefnum viðhorfum samfélagsins. Verðum bara eins og börnin og sjáum dásemdir landsvæða lífsins sem upplifanir án skilgreininga en ekki sem staðreyndir sem við þurfum að hafa alla skoðun heimsins á. Njótum ferðalagsins með okkar eigin augum en ekki annarra.
8. "Breyting er erfið. Ef þú ert eins og flest fólk er þá muntu streitast á móti því að vinna það erfiða verk að útrýma þeim hugsunum sem eru að styðja við sjálfsskaðandi tilfinningar og hegðun þína.". W.D
Þetta hef ég því miður allt of oft séð gerast. Við höldum í okkar tortímandi hugsun og hegðun frekar en að leggja á okkur þá vinnu sem felst í því að byggja okkur betri framtíð með því að eyða út öppum sem eru að eyðileggja fyrir okkur lífið á margan hátt. En vinnan sem felst í því að "forrita" sig í rétta átt til heilla er tímafrekt og krefst meðvitundar og þrautsegju, en verðlaunin eru einnig mjög góð og allrar vinnunnar virði. Betra líf, hugsanir sem eru styðjandi, uppbyggilegar og jákvæðar gefa okkur betri framkvæmdir og betri útkomur og er það ekki það sem við erum í raun öll að leita eftir? En því miður er engin drive through lausn til í þessum efnum, en hinsvegar er fullt af verkfærum til ef þú ert tilbúinn í þessa uppbyggingu.
9. "Frjálsasta fólkið í heiminum eru þeir sem finna hinn innri frið í sjálfum sér: Þeir neita einfaldlega að láta að duttlungum annarra og hljóðlega eru þeir við stjórnvölinn á eigin lífi" W.D.
Það er svo dásamlegt þegar við losnum við að láta aðrar mannverur hafa áhrif á framkvæmdir okkar og hugsun, á þeim stað liggur friðurinn okkar. Við þurfum bara alls ekki að elta hjörðina og höfum fullt leyfi til þess að lifa lífinu á þann hátt sem okkur þykir bestur, þetta er jú okkar leið, okkar líf og okkar uppskera sem í húfi er, og okkur var aldrei ætlað að taka uppskeru okkar úr garði náungans heldur okkar eigin. Svo vöndum okkur við að verða svolítið heyrnarlaus og fara bara okkar leið og tökum uppskeruna úr okkar eigin garði og sjáum bara til þess að hún hæfi því hver við erum innst inni - í okkar innsta kjarna og eðli.
10. " Þegar þú vaknar til þinnar uppljómaða eðlis þá muntu byrja að meta fegurð í öllu sem þú sérð, snertir og upplifir" W.D
Mér finnst við hæfi að þetta sé seinasta setningin hans Wayne Dyer að þessu sinni þar sem að það er einskonar vegvísir fyrir okkur að þegar við erum farin að sjá veröldina sem fallegan gefandi og ævintýraríkan stað. Stað þar sem við sjáum að allt er eitt með öllu og við öll sem byggjum þessa veröld erum samofin í keðju lífsins, það er staðurinn sem gefur okkur sýn á það sem gera þarf fyrir heiminn allan og við höldum af stað með kærleika okkar,von og umhyggju í vopnabúrinu okkar og vonumst svo til þess að sem flestir opni augu sín og verði með okkur á þeirri vegferð.
Þar til næst elskurnar verið góð við hvert annað og ég hvet ykkur eindregið til að kynna ykkur frekar speki Dr. Wayne Dyer sem gefið hefur út ógrynni af bókum og finna má á youtube allskonar fróðleik frá þessum stórkostlega manni sem heimurinn hefði þarfnast nú sem aldrei fyrr. Blessuð sé minning þessa mæta snillings.
Og eins og ætíð er ég einungis einni tímapöntun í burtu.
Ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
Lifecoach, Samskiptaráðgjafi og TRM 1 og 2.
linda@manngildi.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.10.2020 | 13:49
Hvernig karakter viltu vera?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.9.2020 | 19:51
Hin eina sanna ást, hvernig er hún?
Sambönd koma og fara og við verðum ástfangin en ástin endist ekki, en þegar við höfum fundið þá persónu sem er hin eina sanna ást þá trúðu mér - þú munt vita það í hjarta þínu og skynja það í sálu þinni.
Það verður til þessi sérstaka tenging eða eining á milli ykkar sem segir ykkur að þið séuð ætluð hvort öðru og þið vitið það eiginlega frá upphafi (Ekki samt rugla þessu samt saman við meðvirka tengingu).
Báðir aðilar í þannig sambandi munu vita og upplifa þessa einstöku tengingu og þeir munu gera sér grein fyrir að það sé fátt sem getur komið upp á milli ást þeirra.
Það eru þó nokkur atriði sem einkenna hina einu sönnu ást að mati þeirra sérfræðinga sem ég hef kynnt mér og ber flestum þeirra saman um að eftirfarand atriði séu merki sem mark er á takandi þannig að ég ætla að koma með nokkur þeirra hér í þessum pistli.
!. Upplifir þú frið, ró og innri hamingju þegar þú ert í nálægð við þína einu sönnu ást? Ef svo er þá eru það sterk merki um að þú hafir fundið hana.
2. Rannsókn sem var gerð í Háskólanum Stony Brook í New York sýnir að raunveruleg ást og einlæg tenging breyti boðefnastarfsemi heilans og að það verði meiri framleiðsla á uppbyggilegum vellíðunarboðefnum - ekki svo slæmar aukaverkanir af ástinni semsagt!
3. Það er einlægni og skuldbinding sem á sér stað í samböndum þar sem þið hafið fundið hina einu sönnu ást og í rannsókn frá Háskólanum í Austin í Texas virðist það vera þannig að meiri tilhneiging sé til þess að nota orðið "við" í stað "ég" í sambandinu við hinn eina sanna/sönnu. Aðilar sem telja sig hafa fundið hina einu sönnu ást eru einnig tilbúnir til að gera allt það sem gera þarf til að sambandið geti gengið vel og snurðulaust fyrir sig.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.8.2020 | 20:31
Hláturinn lengir lífið
Ég uppgötvaði um daginn að líklega hef ég aldrei skrifað pistil sem fjallar eingöngu um jákvæðni eða máttinn sem felst í því að halda hugarfari sínu sem mest þar ásamt því að hlæja dátt oft á dag.
Það er yndislegt að vera jákvæður og skemmtilegur alla daga, en ég held að það sé nánast ómögulegt nema að við séum með fulla meðvitund öllum stundum sem við einfaldlega erum ekki og því læðast að okkur neikvæðu púkarnir sem sitja á öxl okkar og pikka þar og pota. Við höfum nú samt sem betur fer þann möguleika að auka meðvitundarstig okkar um nokkrar gráður dag hvern í þágu heilsu okkar og lífsgleði ef við bara ákveðum það.
Svo hvað er hægt að gera til að bæta meðvitund okkar?
Ég held að það sé varla til mjög nákvæm uppskrift þar um, en sú uppskrift byggist líklega á dassi af hinu og þessu og allt eftir smekk hvers og eins og aðstæðum í lífinu.
Það er þó forvitnilegt að skoða hvað hinir ýmsu fræðimenn hafa að segja um hugtakið jákvæðni og nauðsyn þess að iðka hana.
Þessir fræðimenn virðast flestir vera sammála um að þeir sem eru hamingjusamir, lífsglaðir og jákvæðir verði síður veikir en þeir sem eru meira neikvæðir svona til að byrja með. Eins segja þeir að þegar jákvæðu einstaklingarnir verði veikir upplifa þeir einnig færri og mildari einkenni en hinir neikvæðu.
Og ef við byrjum á því að skoða hvað hægt er að gera til að halda sig sem mest á hinni jákvæðu hlið lífsins þá held ég að ég verði að byrja á því að tala um hláturinn og mátt hans. Þeir sem eru glaðir og hlæja reglulega lifa lengur og eru hraustari, þeir eiga betri samskipti við sjálfa sig og aðra og þeir taka betri ákvarðanir en þeir sem iðka sjaldan brosvöðvana.
Hláturinn er líklega einnig besta lækning heimsins þar sem hann er okkar náttúrulega prosak, hann linar kvalir okkar, lækkar blóðþrýsting, bætir svefn, virkjar ónæmiskerfið og framleiðir gleðiboðefnið endorfín. Þannig að það er nokkuð ljóst að heilinn okkar og líkami virkar betur þegar við hlæjum.
Við notum venjulega meira vinstra heilahvel okkar segja þeir en þegar við hlæjum notum við hægra heilahvel og við verðum svo miklu meira skapandi.
Hláturinn færir okkur einnig nær hvert öðru í samskiptum og hverjum finnst ekki yndislegt að fá bros frá náunganum og hláturinn er reyndar eina smitið sem ég er til í að smitast af þessa dagana. Hláturinn hefur einnig ómótstæðilegt aðdráttarafl og við sækjum meira í fólk sem fyllt er hlátri og gleðiorku.
Ynglingahormóna framleiðslan eykst 87% við hlátur segja þeir, ekki amalegt það. Einnig vilja þeir meina að við hlátur aukist framleiðsla á frumum sem eyða bakteríum, veirum og jafnvel krabbameinsfrumum og minnið okkar helst töluvert lengur. Ef allt þetta reynist satt þá ættum við að taka okkur tíma á hverjum degi bara til að hlæja okkur máttlaus ekki satt?
Það sem við getum síðan gert sjálf inn á harða diskinn okkar er að setja fókus okkar á þá hluti eða atburði í kringum okkur sem eru jákvæðir skemmtilegir og uppbyggilegir, ásamt því að þakka fyrir allt sem við höfum í lífi okkar nú þegar og veitir okkur gleði og hamingju.
Allt sem við veitum athygli vex og dafnar og ég veit að þegar ég hef td verið ófrísk þá sé ég allar ófrísku konurnar í kringum mig og eins þegar ég hef keypt mér nýjan bíl þá finnst mér hreinlega allir vera á þannig bílum í umhverfi mínu.
Heilinn finnur þannig fyrir mig í umhverfinu allt það sem ég beini athygli minni að - svo notum þann mátt okkur til heilla elskurnar.
Ég ákvað fyrir löngu síðan að horfa sjaldan á fréttir. Fyrir mig var það bara holl og góð ákvörðun því að í flestum tilfellum er þar fókusað á allt það sem miður fer í heiminum og fáar jákvæðar fréttir sem heyrast og sjást.
Ráðlegg reyndar flestum að prófa þetta og sjá hvort að jákvæðnin gagnvart lífinu og þjóðfélaginu eykst ekki eftir því sem lengra líður á milli áhorfs á fréttatímana.
Svona að lokum þá er það fátt sem gleður okkur meira eða gerir okkur jákvæðari en það að gefa af hjarta okkar til annarra svo verum dugleg við að gefa allt sem við getum til náunga okkar. Gefum þeim bros okkar og hlátur, hvatningu eða öxl til að gráta á. Hlustum á þá og veitum þeim aðstoð okkar umhyggju og kærleika, og dreifum þessu út um allt í kringum okkur, Guð einn veit að heimurinn þarfnast þess að við berum öll ábyrgð á náunga okkar.
En þar til næst elskurnar, glimmerkveðja, koss og faðmlag til ykkar allra - og ef þið þurfið á mér að halda við málefni lífs ykkar þá er ég einungis einni tímapöntun í burtu.
xoxo
Ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
Lifecoach, samskiptaráðgjafi, Trm áfallafræði
linda@manngildi.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.8.2020 | 22:21
Frelsandi að vera óháður útkomum
Eitt það dásamlegasta sem ég hef uppgötvað á minni göngu í lífinu er að læra að sleppa tökunum og vera óháð útkomum í lífinu, leyfa semsagt öllu að hafa sinn gang eða vera eins og því var ætlað að vera eða þróast hverju sinni.
Hér áður var ég mjög háð því að setja mér háleit markmið og fannst ég verða að ná þeim, en í dag hef ég fyrir löngu komist að því að lífið tekur mig á hina ýmsu staði sem ég ætlaði því svo sannarlega ekki að fara á meðan ég var að rembast við að ná þeim markmiðum sem ég hafði sett mér.
Það er einhvernvegin þannig eins og John Lennon sagði í einu laga sinna að lífið er það sem hendir þig þegar þú ert upptekinn við að gera önnur plön.
En þvílíkt dásemdarfrelsi sem það getur verið að sleppa tökum á útkomum.
Það frelsar með þeim hætti að við þorum að taka fleiri áhættur og að láta bara lífið rætast án þess að það þurfi að heppnast á allan hátt eða að hafa einhvern sérstakan endapunkt. Að hafa bara gaman að ferðalaginu á meðan á því stendur þess í stað. Hversu dásamlegt er það ekki?
Að framkvæma það sem hjarta okkar segir okkur að framkvæma án þess að vera háður útkomum gerir það að verkum að við höldum jafnvægi og förum ekki í reiptog við lífið þegar við sjáum að útkoman ætlar ekki að verða sú sem við vildum að hún væri, og þessi togstreita sem veldur okkur kvölum verður fjarri lífi okkar.
Við erum svo gjörn á að ætla okkur að þvinga lífið inn í okkar ramma eða í þær áttir sem við viljum að það fari og tökum þannig í leiðinni frelsið frá okkur sjálfum, öðru fólki og lífinu sjálfu. Hinn frjálsi vilji okkar mannanna og lífsins þannig að engu gerður.
Stundum viljum við einfaldlega fá eitthvað sem okkur var einfaldlega aldrei ætlað og við förum af stað í að finna alla mögulegar leiðir til að ná því fram með tilheyrandi vanlíðan, sorg og öðrum vondum tilfinningum fyrir okkur sjálf og sóum þannig þessu stutta lífi okkar í að berjast við vindmillur að hætti Don Quixote.
Að trúa því að það sem mér sé ætlað komi til mín og verði þar, að trúa því að lífið leiði mig á þær brautir sem mér eru ætlaðar og að allt samverki til góðs með einhverjum hætti sem ég sé kannski ekki núna er frelsandi,og ef eitthvað er mikilvægt að hafa í huga í þessu lífi þá er það að frelsið er einfaldlega yndislegt og nauðsynlegt hverjum manni að halda fast í.
Við verðum að gefa öðrum frelsi til að vera þeir sjálfir og framkvæma samkvæmt sjálfum sér og eins þurfum við að geta haldið í það að vera við sjálf og sleppa þannig tökum á aðstæðum og fólki sem við ráðum hvort eð ekkert við vegna áætlana þeirra sjálfra og lífsins fyrir þá.
Ég veit að fyrir suma er þetta óskiljanlegt með öllu, en ég vildi endilega deila þessu með ykkur hér þar sem að þetta ráð er það sem kemur mér í gegnum flestar ef ekki allar aðstæður lífsins í dag og kemur mér á fæturna í hvert sinn sem eitthvað hendir sem mér hugnast illa og ég hef litla eða enga stjórn á.
Enda þennan stutta pistil minn á tilvitnun í C.S. Lewis sem er full af visku að mínu mati og er þess verð að hugsa um.
"Hvers vegna gaf Guð þeim þá frjálsan vilja? Vegna þess að frjáls vilji, þó að hann geri hið illa mögulegt, er einnig það eina sem gerir alla þá ást umhyggju og gleði sem vert er að eignast mögulega" C.S. Lewis
Og eins og alltaf ef ykkur vantar aðstoð við lífsins málefni þá er ég einungis einni tímapöntun í burtu.
Þar til næst elskurnar
xoxo
Ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
Lifecoach, samskiptaráðgjafi, TRM áfallafræði 1 og 2.
Linda@manngildi.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Linda Baldvinsdóttir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (13.11.): 0
- Sl. sólarhring: 3
- Sl. viku: 23
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 20
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar