3.12.2019 | 20:58
Við erum kynslóðin sem klúðraði
Í dag ætla ég að fá að tjá mig aðeins og líklega röfla svolítið eins og mín er von og vísa. Þú þarft ekki að vera sammála mér í þessum efnum en ég held að það væri hollt fyrir okkur að skoða það góða sem gömlu leiðirnar gáfu okkur þrátt fyrir allt.
Það er nú bara þannig að á mínum frábæra aldri hef ég uppgötvað margt varðandi lífið sem mig langar að deila með ykkur, og kannski er von mín sú að ég geti haft áhrif til góðs með skrifum mínum, og kannski er það sú löngun mín að breyta heiminum í átt til vellíðunar sem fær mig til að tjá mig.
En hér kemur þetta röfl:
Lífið hefur kennt mér að það sem skiptir mestu máli hér á jörðu er kærleikurinn, vonin í erfiðum aðstæðum og trúin á að allt sé okkur mögulegt. Að hafa velvild að leiðarljósi, að styðja samferðamenn okkar á leiðinni um lífið, að eiga samhenta fjölskyldu og það að vilja öðrum að ná velgengni og árangri ásamt góðum samskiptum. Þetta er það sem ég tel geta orðið okkur mannkyni sem heild til farsældar.
Því miður finnst mér ég oft upplifa að þessum þáttum sé gefinn allt of lítill gaumur í okkar annars þokkalega ágæta þjóðfélagi og aðrir forgengilegri hlutir látnir í fyrirrúm og jafnvel stundum gert góðlátlegt grín að þeim sem láta sig varða andlega líðan og kærleiksríka nálgun lífsins.
Ég ætla að halda því hér fram að það var mín kynslóð og sú sem á undan mér var sem sundraði fjölskyldueiningunni og bjó þar með til án vitundar vonandi einmannaleika barna, einhleypra, gamalmenna og útbrunninna foreldra. Við settum gömul og góð gildi út fyrir mengið þannig að sú kynslóð sem nú vex úr grasi fær takmarkaða lífssýn og reynslu þeirra sem eldri eru og fara á mis við svo margt sem fæst með því að umgangast þá sem eldri eru í leik og störfum.
Við konurnar sem fóru af stað í kvenréttindabaráttuna sem var svo sem löngu tímabær ef við horfum til menntunar og jafnlaunastefnu leit á það sem lítils virði að ganga með og fæða börn að ég tali nú ekki um að vera vera "bara"húsmóðir" og uppalandi (sem er erfiðasta starf sem ég hef tekið að mér),og slepptu því þar með að fara fram á að það yrði metið til launa og þeirrar virðingar sem það svo sannarlega átti skilið.
Hvað fengum við svo í staðinn? Börn með allskonar kvíðatengdar greiningar frá frumbernsku, foreldra í kulnun, afa og ömmur sem hafa ekki tilgang fyrri kynslóða og kvíða því að verða einir, veikir og umhugsunarlausir í ellinni. Semsagt allar kynslóðir meira og minna einmanna kúrandi ofan í símana sína til að finna sér einhver samskipti og fyrirmyndir og því miður allt of margir sem velja svo fjarveru frá raunveruleikanum með því að mynda með sér ýmiskonar fíknir sem draga úr vanlíðaninni og deyfa.
Hinir fullorðnu og hamingjusamlega skildu, þessir sömu og ætluðu sér að finna hamingjuna þar sem fullkomleikinn hlyti að bíða þeirra eru hræddir við ástina, skuldbindinguna, og kúldrast því einir og enginn hefur tíma til að líta inn til þeirra eftir að vinnudegi lýkur. Uppkomin börnin dottin meira eða minna úr sambandi við þá vegna annríkis og skemmtana.
Ég segi bara til hamingju við! Stórkostlegur árangur græðgiskynslóðarinnar sem telur allt í merkjavörum, peningalegri velgengni, titlum og veraldarvafstri.
Við erum líka kynslóðin sem gáfum börnum okkar tvenn eða fleiri heimili og í sumum tilfellum marga foreldra, afa og ömmur, og töldum börnunum okkar trú um að það sem skipti máli væri að klifra metorðastigann og huga einungis að tengslum sem við gátum nýtt okkur við framapotið.
Við tókum í burtu samstöðu og einingu fjölskyldunnar og til hvers?
Hefur staða konunnar batnað svo mikið? Er hún að fá sömu laun, sömu tækifæri, titla og stöður og karlmenn? Ekki hef ég orðið svo mikið vör við það ef ég á að vera hreinskilin. Hins vegar hef ég séð konur sem hafa lent illilega í kulnun vegna þess að vinna hefur aukist mjög mikið hjá þeim. Þær hika margar við að taka að sér háu stöðurnar í þau fáu skipti sem þeim bjóðast þær vegna álagsins sem þær búa við á heimilinu og í vinnu og geta hreinlega ekki meir.
Ég hitti því miður allt of oft ofkeyrðar mæður (ekki bara einstæðar)sem eru að reyna að standa sig á öllum vígstöðvum en geta bara hreinlega ekki staðið undir öllum þeim hlutverkum sem þeim er úthlutað í dag, en þora ekki fyrir sitt litla líf að viðurkenna að þær séu ekki að valda fullkomnunni, og ég held satt að segja að kvennabaráttan hafi því miður haft í för með sér aukna vinnu, fleiri hlutverk með tilheyrandi álagi fyrir konur sem leitt hafi af sér streitu, kvíða og aðra fylgikvilla.
Börn dagsins í dag kvarta yfir samskiptaleysi og áhugaleysi foreldra og allt glysið, glaumurinn og photoshoppaðu samfélagsmiðlarnir eru eðli málsins samkvæmt ekki að svala þörf þeirra fyrir það sem gefur lífinu gildi sitt nema síður sé.
Hvenær ætlum við að vakna og hætta að lifa í Hollýwoodgerðri fullkomnunarmynd? hvenær mun myndast tími fyrir það fallega sem lærist og fæst með nánu sambandi foreldris, barns og stórfjölskyldunnar? Hvar eru samskiptin, matarboðin, steikin á sunnudagsmorgnum og sunnudagskaffi stórfjölskyldunnar og svo margt sem áður kenndi okkur allt um einingu, öryggi, náin og gefandi samskipti? Og hvers vegna erum við á þessum stað? Hvað varð til þess að við konur afsöluðum okkur réttinum á því að vera með börnum okkar og kenna þeim á lífið? Hvers vegna báðum við ekki um að móðurstarfið yrði metið eins og hvert annað starf? Því báðum við bara um fleiri barnaheimili, lengri skóla, frístund að skóla loknum og lengri vinnudag fyrir börnin okkar?
Ég veit að þessi orð mín munu valda smá fjaðrafoki því að ég tel að mín kynslóð og sú feminiska barátta sem þar komst í hámæli hafi gert fátt til að tryggja það að foreldrar hefðu val um menntun og starf versus rétt á launum frá þjóðfélaginu til að tryggja öryggi og tíma fyrir uppeldi barna sinna innan veggja heimilisins.
Við gleymdum því að náttúran sjálf er vitur og vissi frá upphafi að það þarf einingu og heilbrigði fjölskyldunnar ásamt nánd og kærleika til að byggja upp öruggan hamingjusaman einstakling! Einstakling sem á skjól á heimili sínu þegar hann er að taka skrefin sín í samskiptum og er að kynnast hinni spennandi en stundum grimmu veröld. Eins og þetta er í dag þurfa börnin bara að læra að bjarga sér sjálf í frumskóginum og takast á við tilfinningar sínar innan um ókunnuga aðila sem auðvitað eru þó að gera sitt besta til að barninu líði vel og reyna að styðja það á allan þann hátt sem þau geta - en þau eru ekki mamma og pabbi eða afi og amma, stórfjölskyldan né þorpið.
Ekki heyra það sem ég er ekki að segja.
Margt gott gerðist með kvennabaráttunni á sínum tíma og við værum sennilega ekki með me too umræður og fleira ef hennar hefði ekki notið við, en það gerðist líka margt sem ekki var svo gott. Það versta sem gerðist að mínu mati var að við konur litum okkur svo smáum augum að við gleymdum því að valið okkar stóð um að verja þá sérstöðu sem það gefur okkur að ganga með og fæða barn og veita þeim menntun í samskiptum. Að gefa þeim öryggi og kærleika sem enginn annar er færari um að gefa, og gera þau þannig tilbúin fyrir það líf sem bíður þeirra á fullorðinsárunum ásamt því hlutverki að erfa jörðina og stýra farsæld hennar.
Við gleymdum því einnig að þegar barn er fætt inn í þennan heim á það rétt á foreldrum sínum - ekki bara þegar um forræðisdeilur er að ræða heldur einnig þegar það er í heiminn borið. Hvers vegna tölum við aldrei um það?
Og hvers vegna upplifi ég eins og að börnin okkar hafi bara engin réttindi ófædd eða fædd, skýtur það ekki skökku við barnasáttmála og verndun barna?
Og ég spyr, hvað hefur áunnist og hvað hefur tapast? Hverjir græða og hverjir tapa á þessu tiltölulega nýja fyrirkomulagi?
Svar mitt er einfalt - það er mín skoðun að við létum frá okkur mennskuna fyrir hlaup á iðnaðarhjóli mammons og fengum í staðinn glamúr, glaum og brotinn heim.
Þar til næst elskurnar
xoxo
Ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
Markþjálfi/Samskiptaráðgjafi/TRM áfallafræði
linda@manngildi.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.11.2019 | 16:29
Hefurðu heyrt um froskinn sem breyttist í prins?
Ég sá mynd sem Hugleikur Dagsson hafði teiknað af konu sem stóð yfir manni sem lá í götunni útúrdrukkinn með sprautunálar og flöskur allt í kring um sig, og yfir honum stóð kona í hvítum kirtli sem sagði, "Ég get bjargað honum"
Því miður er það þannig að bæði konur og menn eru oft að eiga við manneskjur sem vonlaust er að muni breytast og láti af sinni eyðileggjandi framkomu en einhverra hluta vegna erum við sum að gefa þeim séns eftir séns á því að breyta sér, líklega er þetta eitthvað skylt Stokkhólmsheilkenninu fræga þar sem við virðumst geta endalaust afsakað skaðandi framkomu og fundið það góða við manneskjur sem sýna af sér mannvonsku, lygar, ofbeldi og svo margt annað sem almennilegt fólk einfaldlega gerir bara ekki.
Í stað þess að standa vörð um okkur sjálf erum við að standa vörð um fullorðna einstaklinga sem svo sannarlega velja í flestum tilfellum að vera eins og þeir eru (nema þar sem alvarlegir geðbrestir valda þessu), því að það er nú svo merkilegt að við sem fullorðnir einstaklingar veljum framkomu okkar og framkvæmdir.
Við afsökum okkur þó með ýmsum hætti eins og með uppeldisaðstæðum til að fegra okkar framkomu en þó er það nú samt einu sinni þannig að við erum að velja öllum stundum - frá morgni til kvölds erum við að velja hugsanir okkar, framkomu og framkvæmdir og höfum í raun enga afsökun nema þá að við séum haldin einhverjum sjúkdómum eins og ég áður sagði sem ræna okkur valfrelsinu.
En nú ætla ég að tala aðeins um okkur konur (en líklega á þetta ekki síður við um menn).
Við konur virðumst ekkert hafa vitkast í gegnum aldirnar og engin furða að til séu ævintýri sem tala um froska sem breytast í prinsa, því að það er það sem við höldum oft að gerist, eða það að froskurinn sem kemur illa fram og sinnir okkur ekki geti breyst við það eitt að koma með fyrirgefningabeiðni númer? hmmm
Ekkert er þó fjarri lagi ef ég tala um fullorðna menn sem hafa haft nokkuð marga áratugi til að lagfæra sig og læra að koma vel fram, og það eru bara alls ekki miklar líkur á því að menn skipti um ham á fullorðinsárunum ef svo má segja. Þeir geta agað sig og breytt venjum, en þú breytir persónuleikanum sjálfum ekki svo glatt né gildunum sem liggja að baki honum.
Wayne Dyer orðar þetta svo skemmtilega þegar hann sagði "þegar þú kreistir appelsínu þá er appelsínusafinn það eina sem kemur frá henni og það er bara ekki nokkur leið að fá neitt annað vegna þess að það er sá safi sem býr innra með henni".
Eins er það með okkur mannfólkið þegar á okkur reynir eða þegar við stöndum frammi fyrir verkefnum lífsins (erum kreist) þá kemur í ljós hvað býr innra með okkur og því miður í flestum þeim tilfellum þar sem við konur erum að gefa froskunum sénsa á því að laga sig erum við búnar að sjá þeirra innri safa oft og mörgum sinnum - en trúum enn að við getum fengið eitthvað annað frá þeim.
Eins og ég sagði áðan þá minnir þetta helst á Stokkhólmsheilkennið fræga eða þar sem fórnarlambið fer að finna afsakanir fyrir gerandann (Eftir mannrán) og jafnvel bregst illa við þeim sem vilja þeim vel og segja sannleikann um hversu illa sé verið að koma fram við viðkomandi.
En kannski er þetta svona bullandi meðvirkni eða þjóðfélagslegt uppeldi kvenna, hver veit. Það eina sem ég veit er að fólk er eins og það er og við getum ekki breytt einum eða neinum nema okkur sjálfum í ÖLLUM tilfellum svo hættum í Guðsbænum að reyna það því það tekur frá okkur orku, styrk, sjálfsvirði, sjálfstraust og styttir líf okkar og lífsgæði.
Froskarnir breytast einfaldlega sjaldan í prinsa - við getum gleymt því! Það er aðeins í ævintýrunum sem það gerist, og mér þykir leitt að segja ykkur það - en prinsar í froskalíki,Súpermannslíki eða hvað það nú heitir allt saman eru bara til í ævintýrunum en ekki hinum raunverulega heimi og þeir munu bara verða eins og þeir voru skapaðir líkt og við hin - svo gleymdu því að þinn froskur eigi eftir að breytast í prinsinn á hvíta hestinum, það mun líklega bara alls ekki gerast! (Og svo eru ekki til hvítir hestar, bara gráir) Eini sénsinn á breytingu er sá að froskurinn sé búinn að koma auga á sína bresti fyrir alvöru, taki fullkomlega ábyrgð á þeim, fái sér síðan aðstoð við að lagfæra þá og það tekur sko langan tíma og æfingu!
Heilinn okkar er orðinn fullmótaður að mestu og við búin að aðskilja okkur frá uppeldisaðilum svona flest í kringum 25 ára aldurinn, og þá erum við einnig búin að velja okkur lífsveg okkar á svo margan hátt. Einnig erum við búin að byggja upp heimsmynd okkar á svo stóran hátt, mynd sem við framkvæmum svo útfrá (gildi og markmið). Vanlíðan okkar í lífinu er svo líklega að flestu leiti sprottin út frá brotum á þeirri heimsmynd því að við viljum halda í hana óbrotna með öllum þeim ráðum sem við kunnum. Þess vegna er svo erfitt fyrir einhvern að koma og segja okkur að okkar mynd sé kannski bjöguð og skökk þegar við reynum af fremsta megni að láta sem hún sé heil og flekklaus.
En hvað sem öllum heimsmyndum viðvíkur þá skulum við hafa í huga að eina heimsmyndin og eina hegðunarmynstrið sem við getum lagað og breytt er okkar eigið í öllum tilfellum.
Svo förum inn í samböndin okkar með þá fullvissu að það er aðeins í ævintýrunum sem froskarnir breytast í prinsa við koss frá okkur, og veljum bara vel þá sem við tökum með inn í líf okkar og heimsmynd.
þar til næst elskurnar.
xoxo Ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
einstaklings og parasamtöl
Markþjálfi, samskiptaráðgjafi, TRM áfallafræði 1 og 2.
linda@manngildi.is
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.11.2019 | 15:18
Þegar kvíðinn heltekur okkur
Um daginn fann ég aftur fyrir gamalli tilfinningu sem ég er nú kannski ekki allt of sátt við að finna fyrir, og hún hreinlega lamaði mig um tíma. Ef ég hefði ekki kunnað aðferðirnar sem hægt er að grípa til í þeim aðstæðum þá er hreinlega ekkert víst að ég væri komin á betri stað, og kannski bara verri ef eitthvað væri.
Þess vegna ákvað ég að deila með ykkur aðferðum þeim sem ég nota sjálf í þessum aðstæðum, því að ég veit að það eru svo margir sem finna fyrir þessari leiðindatilfinningu og vita ekki hvernig þeir geta losnað undan henni.
Það var orðið ansi langt síðan að þessi lamandi tilfinning hafði hertekið mig (ég er ekki að tala um þessa venjulegu kvíðahnúta eða streituhnúta sem við fáum við ákveðin tækifæri eins og við það að fara á svið eða út fyrir þægindarammann) þannig að ég þurfti smá tíma til að ná í skottið á sjálfri mér og nýta þær aðferðir sem ég þó kann, en það náðist.
En hér kemur aðferð ala Linda við að tækla kvíðann sinn.
Fyrst er mjög nauðsynlegt að athuga hvort að við erum í fight and flight stellingum þegar kvíðinn hellist yfir. Erum við td með kreppta hnefa, tær, hertan maga, axlir upp að haus og fleira sem sem segir okkur að við séum í flóttastellingum. Byrjum svo á því að losa um magavöðvann og réttum úr fingrum og tám, setjum axlir niður og drögum djúpt andann.
Næst er að samþykkja tilfinninguna (getur verið erfitt) því að hún er bara ein af öllum þeim tilfinningum sem við getum upplifað og er hvorki betri né verri en allar hinar þannig séð, fer allt eftir því hvaða merkingu við gefum henni. Ég hef hinsvegar valið að segja þegar ég finn fyrir henni "aha, þarna ertu greyið mitt- þú mátt alveg koma en ég ætla að láta þig fara og setja aðra skemmtilegri tilfinningu inn í staðinn" - því að ég trúi því að allt sem við förum í mótþróa gegn eða stöndum á móti hefur tilhneigingu til að vaxa og dafna jafnt og það góða sem við einbeitum okkur að.
Síðan eru aðferðir sem ég nota eins og þær að skoða tilfinninguna vel og leika mér aðeins með hana áður en ég hreinlega fer inn í hana og stroka hana út með ímynduðu stóru strokleðri (lol - veit að þetta hljómar kjánalega - en virkar þó)
Svo getum við tekið okkur niður í smá norm með því að taka athyglina frá tilfinningunni eins og með því að telja allt sem er í herberginu sem við erum stödd í og velja okkur liti sem við ætlum að telja, virkar oft til að ná stjórn í aðstæðunum.
Hugsun mína þarf ég einnig að taka í gegn þegar ég er á þessum stað og skoða hvað það er sem er að valda kvíðanum mínum ef ég þá næ því að gera það (þarna þarf stundum aðstoð fagaðila). Það geta verið ýmsar ástæður fyrir kvíðanum og stundum kemur hann vegna ofurálags eins og var í mínu tilfelli og þá er oft erfitt að hertaka hugsanir sínar, en þó er það hægt (það er allt hægt ef við viljum það).
Svo er gott að skoða hvað gengur vel í lífinu, hvað er ég þakklát fyrir, hvað er það versta sem gæti gerst og hvað er það besta sem gæti gerst. Hverju breyti ég með áhyggjum mínum eða þarf ég bara að sætta mig við að ég fái engu breytt, og svo er að hugsa í lausnum en ekki að dvelja í ómöguleikavíddunum.
Að einfalda lífið er einnig gott að gera þegar staðan er þessi og fækka skylduverkum og álagspunktum ef hægt er.
Hreyfing, svefn, hugleiðsla og holl fæða er einnig nauðsynlegur partur af því að ná sér á strik og gönguferðir eru möst að mínu mati. Eins þarf þarmaflóran að fá að vera í lagi og bætiefnainntaka góð. Svo er auðvitað nauðsynlegt að láta dekra sig með nuddi eða öðrum heilandi aðferðum með reglulegu millibili og helst sem oftast.
Að hitta fólk, og að vera í návist þeirra sem ég elska er einnig stór þáttur í vellíðan minni. Og fyrir mig er það algjörlega nauðsynlegt að gleðjast, hlæja og gera það sem er skemmtilegt því að það gefur mér orku.
Ég veit vel að þegar við erum á stað kvíðans er erfitt að hitta fólk og það er svo sannarlega ekki það sem við viljum helst þegar okkur líður sem verst af kvíðanum, því að okkur þykir best á þessum stundum að draga okkur frá og sitja sem fastast ein úti í horni með okkar vondu skaðandi hugsanir.
Það er hinsvegar alveg bannað!
Fjölskyldan og vinirnir skilja alveg ef ég þarf að fara út í horn vegna vanlíðunar og vilja bara vera til staðar fyrir mig, og fólk hefur meiri skilning á kvíða en við gerum okkur oft grein fyrir.
Kvíða sem við ráðum illa við ætti alltaf að meðhöndla, og það er til fullt af hjálparlyfjum sem geta hjálpað á meðan verið er að ná tökum á ástandinu eða þar til að stjórn á hugsununum, tilfinningunum og framkvæmdum næst.
Og þegar öllu er á botninn hvolft þá eru það hugsanir okkar sem helst viðhalda ástandinu þannig að það er mjög nauðsynlegt að komast frá þeim hugsunum sem skaða okkur og setja inn aðrar og betri eða þær sem þjóna vellíðan okkar í lífinu.
Ég vona að þetta pár mitt hjálpi einhverjum til að sjá að kvíða er hægt að hafa hemil á ef réttum aðferðum er beitt eins og með allar aðrar tilfinningar sem við upplifum. En það er engin drive through lausn til - þetta er ferli sem þarf sinn heilunartíma.
Ég bendi þó á að lokum að þú ættir ekki að hika við að leita þér aðstoðar hjá fagfólki ef þessi blessaða leiðindatilfinning hertekur líf þitt og talaðu endilega við lækninn þinn, hann er fyrsti aðilinn sem getur aðstoðað þig og bent þér á farsælar leiðir til endurreisnar og betri líðanar.
Og eins og ávallt er ég einungis einni tímapöntun í burtu ef þú telur að ég geti aðstoðað þig á þinni lífsins leið.
xoxo
Ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
Markjálfi/Samskiptaráðgjafi/TRM áfallafræði.
linda@manngildi.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.10.2019 | 17:43
Ég segi bara allskonar
Við sleppum víst fæst við það að fá áföll í lífinu þó misjafnt sé hver þau eru og hversu mörg, en eitt er þó víst að ekkert okkar sleppur alveg við þau.
Um daginn missti ég mömmu mína eftir nokkurra mánaða hetjubaráttu hennar við alvarleg veikindi. Það var eitt af nokkrum verkefnum sem ég hef fengið til að glíma við á skömmum tíma og líklega einnig það sárasta.
Sorgarferli mitt og fjölskyldu minnar hófst um leið og við fengum þær fréttir að mamma ætti einungis fáa mánuði eftir ólifaða og það sorgarferli mun líklega taka sinn eigin tíma til heilunar.
Að eiga vini og fjölskyldu sem koma í heimsókn, hringja, finna uppá einhverju skemmtilegu að gera og létta manni lífið á alla vegu er bráðhollt og í raun nauðsynlegt hverri manneskju að eiga sem stendur í tilfinningalegum stórræðum. Í erfiðleikunum kemst maður líka yfirleitt að því hverjir eru til staðar þrátt fyrir að gleðin gisti ekki hús manns og á þannig stundum er einnig yndislegt að finna allan þann samhug og hjálpsemi sem einkennir fjölskyldu og vini.
Það sem gerist í svona sorgarferli er svo ótal margt þannig að þegar ég hef verið spurð að því hvað ég segi þá svara ég gjarnan "ég segi bara allskonar", því að það er bara þannig sem ég upplifi þetta.
Fyrst eftir að við fengum þessi tíðindi varð þessi hugsun eitthvað svo óraunveruleg og erfitt að halda utan um hana, og líklega hugsaði ég þetta bara sem enn eitt verkefnið til að tækla. Ekki grunaði mig þó hversu margar hugsanir og allskonar tilfinningar færu að bærast um innra með mér.
Hugsunin um að gera þennan stutta tíma eins ánægjulegan og hægt væri væri varð allsráðandi þannig að lítill tími gafst til að skoða sínar tilfinningalegu hliðar þó svo að við værum sem betur fer öll óhrædd við að tala um það sem framundan var.
Ekki hefði ég heldur getað staðið af mér þetta erfiða verkefni án þess að fegurð fjölskyldubandanna og vináttunnar hefði verið til staðar, og merkilegt hvað sýndur kærleikur getur gefið manni mikinn styrk. Það voru svo margir sem komu til aðstoðar með margvíslegum hætti og sáu til þess að ég og börnin mín upplifiðum okkur langt frá því að vera ein. Fegurð kærleiksríkra hjartna verður að ljúfri og þakklátri minningu eftir svona upplifun.
Eftir jarðarförina sem var svo falleg og einlæg í söng og tali skall áfallið yfir mig og ég fór hreinlega alveg á hvolf tilfinningalega.
Það gerðist þegar mér fannst ekkert sjálfsagðara en að hringja til mömmu svona til að segja henni hversu gaman hefði verið að hitta ættingjana í erfidrykkjunni! þar uppgötvaði ég að mitt síðasta símtal við mömmu var orðinn blákaldur veruleiki og ég gerði mér grein fyrir því að ég átti aldrei eftir að heyra röddina hennar aftur.
Það var eins og steinn hefði verið settur á brjóst mér og raunveruleikinn helltist yfir mig.
Ég gerði mér einnig grein fyrir því á þeirri stundu að ákveðinn partur af mér og mínu lífi hafði horfið og verður aldrei endurvakinn.
Óraunveruleikinn, dofinn, söknuðurinn og raunveruleiki eigin dauðleika varð mér einhvernvegin svo ógnar ljós á þessari stundu og lífið tók á sig annan lit.
Það er eitthvað svo mikið tabú í okkar þjóðfélagi að tala um og viðurkenna staðreynd dauðans sem er þó það eina sem við vitum fyrir víst að við eigum fyrir höndum í þessu lífi. En þarna gerði ég mér skíra grein fyrir því að lífið er svo ógnar stutt og viðkvæmt og að í raun getum við ekki leyft okkur að sóa einni einustu mínútu í eitthvað sem skiptir okkur ekki máli og við eigum að tala oftar um dauðann og merkingu hans fyrir líf okkar.
Þessi viðkvæmi vefur lífsins er svo vanmetinn hjá okkur oft á tíðum og við höldum alltaf að við höfum nægan tíma til að sinna og umgangast þá sem okkur eru kærir. En þarna fann ég fyrir öllum mínútunum sem ég hefði getað varið með mömmu en gerði ekki - og ég fylltist eftirsjá.
Það sem mig langar helst að skilja eftir með þessu tilfinningapári mínu er þó aðallega sú staðreynd að sorgin tekur á sig allskonar myndir. Myndir eins og tómleika, eftirsjá, kvíða, reiði, vonbrigði, söknuð, minningar, breytt líf, þakklæti og svo margt og margt. Og það eina sem við getum gert er að horfast í augu við allar þær tilfinningar sem kvikna og skoða þær síðan með mildum augum kærleikans til okkar sjálfra og þeirra sem farnir eru - og takast svo á við lífið einn dag í einu.
Notum tímann vel sem okkur er gefinn elskurnar og sóum honum ekki í einskisverða hluti sem engu máli skipta þegar litið er á stóru myndina og lífið í heild sinni.
Ég hef a.m.k tekið þá ákvörðun fyrir mig að elska lífið sem aldrei fyrr og vera þakklát fyrir hvern dag sem ég fæ að njóta þeirra sem í mínum kærleikshring eru.
Og eins skrítið og það nú er þá er ég þakklát dauðanum á vissan hátt fyrir að gefa mér áminninguna og hvatninguna sem felst í því að vita hversu tíminn er stuttur og einnig er hann svo ógnarfljótur að líða - og svo þakka ég honum fyrir að gera mér ljósa grein fyrir verðmæti mínútnanna sem er ómetanlegt og verður ekki í krónum talið.
Þannig að nú stefni ég sem aldrei fyrr á það að gera lífið að ævintýri að svo miklu leiti sem mér er fært, og ég ætla að leyfa mér að elska þá sem mér eru kærir sem aldrei fyrr, og strá glimmeri og gleði í kringum mig eins og snjódrífu hvar sem ég kem.
Því að lífið er núna.
xoxo
Ykkar Linda
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.9.2019 | 20:37
Er skilnaður endilega lausnin?
Við sem höfum gengið í gegnum skilnað vitum mörg að lífið verður svo sem ekkert baðað rósum að skilnaði loknum, líklega í fáum tilvikum rómantísk og rauð ástarsaga sem bíður okkar flestra, en margra bíður hins vegar erfið leið þar sem rósirnar hafa svo sannarlega þyrna og því væri heillaráð að hugsa sig svolítið um áður en tiltölulega heillegum samböndum er kastað á glæ.
Ég er ekki að segja að skilnaðir geti ekki átt rétt á sér, því að svo sannarlega eiga þeir margir að eiga sér stað. Þar sem ofbeldi og aðrar mannskemmandi aðstæður er um að ræða er rétt að fara sem lengst í burtu og það hratt og vernda þannig okkur sjálf og þá sem við eigum að vernda þar að auki ef einhverjir eru.
Ég held að ég sé orðin nægjanlega fullorðin samt til að leyfa mér að segja að oft á tíðum eru þó skilnaðir byggðir á litlu tilefni og ég hef horft upp á mörg annars ágæt sambönd fara í vaskinn án nokkurrar ástæðu annarrar en þeirrar að leitin að nýjungum, rómantík og jafnvel gráa fiðringnum tekur völd í huga aðilanna, og í augnablikinu finnst þeim að þau hljóti að eiga eitthvað allt annað og betra skilið - og þau fara í sundur - skilja.
Þá fyrst byrjar nú ballið...
Þegar búið er að tilkynna börnum og fjölskyldu um ákvörðun parsins kemur oft í ljós að fjölskylda og vinir fara að skipta sér í fylkingar með eða á móti og það sem áður var svo gott verður nú að vígvelli og baráttu um hverjum á að taka afstöðu með.
Síðan kemur að praktísku atriðunum.
Hvað með húsið og bílinn? Bankabókina, skuldirnar? Hver fær að vera í húsinu og hver ætlar að kaupa hinn út, eða er kannski bara best að selja? Staðreyndin er að breyting verður á lífinu hjá öllum aðilum og misjafnt er hversu vel gengur að aðlagast.
Hvernig á að skipta börnunum á milli sín? Börnin verða því miður oft á milli í deilum foreldranna og þurfa oftar en ekki í dag að eiga tvenn jafnvel mjög svo ólík heimili með tilheyrandi streitu fyrir þau og dansi á milli ólíkra reglna og lífsgilda.
Hvernig er með umgengni barna á jólum og páskum? Fá báðir foreldrar börnin sín á þessum hátíðum eða er annað foreldrið með alla dagana?
Hvað verður þegar nýr maki kemur til sögunnar hjá öðru hvoru þeirra? Hafa börnin þá einhverjar skyldur gagnvart þeim aðila sem inn í líf þeirra kemur nú eða barna þess aðila?
Ferðalög? Eru börnin tekin með í ferðalögin og er samkomulag um það á milli skilnaðaraðilanna hvernig því skal háttað?
Og hvað með þegar farið er í aðrar sambúðir, hvernig er þessu þá háttað? Mátt þú taka þín börn með í ferðalag án þess að taka börn makans eða eiga allir að koma með?
Sumarfrí? Hvernig á að skipta sumarfríinu á milli foreldranna og eru aðilar tilbúnir til að mæta hvort öðru þar?
Hvað með meðlag? Er annar aðilinn með meira fé á milli handanna og er hann tilbúinn til að styrkja hitt foreldrið svo að barnið/börnin hafi svipaðan lifistandard og það hafði þegar mamma og pabbi voru saman?
Hvað með afmælin, ferminguna, útskriftirnar? Eru þær í sitthvoru lagi eða á barnið/börnin rétt á því að allir séu saman á þessum stundum og er það yfirhöfuð mögulegt?
Hvað með barnabörnin þegar þau svo koma? Gefum við saman árituðu Biblíuna í fermingunni eða gefum við sitthvora?
Og svo er það þetta með einmannaleikann á kvöldin og um helgar, vinskapinn, aðstoðina á erfiðum tímum, ferðafélagann, þann sem upplifði með þér lífið og veröldina og svo framvegis. Skipti það allt í einu minna máli en að byrja allt upp á nýtt með einhverjum öðrum aðila?
Þetta eru örfá af þeim atriðum sem margir standa frammi fyrir þegar að skilnaði og nýjum samböndum kemur, en gleymist stundum að horfa í þegar makinn er farinn að fara í taugarnar á þér.
En ég held að í mjög mörgum tilfellum sé hægt að snúa til baka og finna neistann sem áður var og kveikja þar bál að nýju í stað þess að setja svona marga aðila inn í breytingar sem eru öllum erfiðar. Það virðast einnig vera þannig að sirka 2 árum eftir skilnað hefðu mjög margir bara viljað hafa verið í gamla leiðinlega sambandinu sínu þar sem einhleypingslífið var ekkert svo spennandi eftir allt. Og svo er það einnig þannig að þú tekur alla gallana þína með þér inn í framtíðina og það gæti hreinlega klikkað að nýr aðili samþykki þá með brosi á vör og þá hefst sami hringurinn og endar í öðrum skilnaði!
Þetta eru mínar skoðanir og þú gætir átt allt öðruvísi skoðun á þessu og ég virði það fullkomlega, en fiðringurinn sem við leitum svo mörg að er oftast nær stundarfyrirbrigði og endist einungis jafn lengi og boðefnið sem kveikti hann, og þá tekur dapur raunveruleikinn við með öllum þeim verkefnum sem bíða þeirra sem í samband fara. Og þá er nú eins fallegt að vera búin að skoða vel hversu margt þið eigið sameiginlegt af lífsgildum og hvort að stefnan ykkar og ætlun í lífinu sé sú sama, þ.e. ef byggja á upp samband sem viðheldur neista og fiðringi til langs tíma.
Svo skoðum hvort hægt sé að laga til og breyta í gamla sambandinu þó að makinn sé eitthvað leiðinlegur og lítið smart, og hvernig væri amk að gefa því séns að það sé hægt að ná í gamlan og gleymdan fiðring áður en svona stór og afdrifarík ákvörðun er tekin elskurnar?
það borgar sig þegar til framtíðar er litið og verkefnanna sem bíða eftir skilnað - og trúðu mér ef þú leitar að einhverjum betri hinu megin við hæðina þá skal ég trúa þér fyrir leyndarmáli - það eru miklu fleiri froskar en prinsar og prinsessur þarna úti og neistinn til þeirra fljótur að slokkna hvort sem er þegar þér tekst ekki að breyta froskinum í prins/prinsessu. Home sweet home er stundum bara best (þó ekki alltaf)
Og ef þú ert í vafa með þitt líf og þín skref þá er ég einungis einni tímapöntun í burtu.
xoxo
Ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
Markþjálfi/Samskiptaráðgjafi/TRM áfallafræði
linda@manngildi.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.9.2019 | 12:20
Við eigum bara þetta eina líf
Það er staðreynd sem fæst okkar virðast þó stundum gera okkur grein fyrir ef við horfum á hvernig þessu eina lífi er varið í streitu og kapphlaup við eitthvað sem mun á dánarbeði okkar ekki skipta okkur neinu máli.
Dauðir hlutir, steinsteypa, yfirvinna og allt það sem við streðum sem mest við að eignast og hafa skipta okkur litlu þegar á stóru myndina er litið.
Ég hef með árunum komist að því að það sem skiptir mig máli á þessari göngu eða flugferð er að njóta lífsins í gleði og sátt þrátt fyrir aðstæður - en ekki vegna þess að aðstæðurnar séu svo góðar, og að dvelja sem oftast í hjarta mér í því þakklæti sem ég finn þar.
Einnig hef ég ákveðið að vera aðeins þar sem mér líður vel og gera aðeins það sem mér líður vel með að gera og vera, eða bara ég sjálf með öllum mínum kostum og göllum.
Það er ekkert annað í boði ef ég ætla að uppgötva að fullu hver ég er án skilgreininga annarra á tilvist minni og athöfnum. Hvað aðrir hugsa eða halda um mig er bara einfaldlega ekki mitt mál, því að í stóra samhenginu þá hefur það ekkert að segja um mína tilvist og lífsgöngu ef ég læt það ekki snerta mig eða komast undir skinnið á mér.
Eleanor Roosevelt sagði einu sinni að enginn gæti sett þig niður eða sært þig án samþykkis þíns, og ég hef komist að því að það er töluvert til í þessum orðum hennar.
Þetta eina líf sem við fáum úthlutað er einnig mjög stutt! Svo stutt að stundum finnst mér ég vera á þotuhraða eða hraðspólun í gegnum það.
Það var fyrir svo ógnarstuttu að ég eignaðist mitt fyrsta barn td - en það eru þó tæp 40 ár síðan, lengri tími en ég get gert mér vonir um að eiga eftir hér á hótel jörðu, og þegar við uppgötvum að það er minna eftir af þessu eina lífi en meira þá förum við virkilega að hugsa um hvað það er sem við viljum hafa inni í þeim tíma sem eftir er.
Að eiga bara eitt líf er töluvert stórt mál og þegar við náum utan um þá hugsun að fullu ætti það (og gerir það líklega)að færa okkur að því marki að vilja og velja aðeins það besta sem hægt er að fá inn í það.
Við stöndum frammi fyrir hlaðborði lífsins og ættum líklega alltaf að vera að velja af því það sem er okkur hollt og gott, en gerum það allt of sjaldan með tilheyrandi þjáningu og niðurbroti ásamt sorg og harmi.
En hvað er það sem gerir það að verkum að við veljum ekki það góða fyrir líf okkar?
Jú allt of oft held ég að okkur finnist við ekki eiga það góða nægjanlega mikið skilið og oft held ég að skilgreiningar okkar og annarra á okkur setji okkur á staði sem eru okkur óhollir. Við hlustum allt of oft á þá sem ekki vilja okkur vel, og við upplifum okkur sem ekki nóg eða of mikið af einhverju og finnum okkur vanmáttug gegn lífinu og samferðamönnum okkar.
Fíknir eru t.d að mínu mati flótti frá okkur sjálfum og aðstæðum í lífinu sem við eigum erfitt með að höndla, og flest finnum við okkur víst leið til að lifa af í óvinveittu óuppbyggjandi umhverfi og aðþrengdum aðstæðum.
En ef við gætum bara séð að drive -through leiðirnar eða þessar fljótförnu leiðir leiða okkur oftar á staði sem reynast til lengri tíma vera okkur hættulegar til anda, sálar og líkama þá værum við líklega að velja af hlaðborðinu betri og hollari rétti (leiðir)
Svo ég hvet okkur til að hafa í huga að gefa okkur virði okkar sjálf, velja aðeins það besta fyrir líf okkar hverju sinni, vera og dvelja aðeins þar sem okkur líður vel, koma okkur frá aðstæðum sem eru okkar skaðlegar með einum eða öðrum hætti, og skoða af alvöru sama á hvaða aldursskeiði við erum hvað það er sem við viljum hafa í minningabankanum okkar þegar þessu eina lífi sem við eigum garenterað líkur.
Set hér að lokum nokkur viskukorn sem ég hef birt á fésbókarsíðunni Manngildi í gegnum árin ef það gæti gagnast einhverjum:
Við eigum alltaf nýja byrjun í núinu og ættum svo sannarlega að nýta okkur það til að skapa okkur þá framtíð sem við þráum að sjá.
Ertu á þeim stað að þú vitir hvaða stefnu þú átt að marka þér, eða ertu á þeim stað þar sem þú lætur hverjum degi nægja sína þjáningu ? Ég hvet þig til að skoða hver þú vilt vera og markaðu þér stefnu samkvæmt því.
Stundum eigum við erfitt með að skilja lífið og þau verkefni sem það færir okkur, en samþykki okkar er samt eina svarið við því öllu. Ef við samþykkjum ekki lífið eins og það er hverju sinni finnum við fyrir togstreitu sem þreytir okkur og dregur úr okkur mátt Sleppum tökum og leyfum lífinu að hafa sinn gang.
Lífið er sífellt að koma með nýjar áskoranir til okkar í formi brotinna tilfinninga og særinda, en á þeim stað höfum við vald til að velja tilfinningar sem gera okkur að sterkari, betri og þroskaðri einstaklingum. Veljum kæru vinir að vaxa í andstreyminu.
Við erum stundum treg að skoða málin út frá mörgum sjónarhornum og það gefur okkur því skakka mynd af því sem er. Opnum hugann og víkkum út sýn okkar áður en við ákveðum skoðanir okkar og viðhorf til málanna.
Það eru ótrúlegustu dyr sem opnast þegar við förum að trúa á mátt okkar og getu, og líf okkar getur tekið ótrúlegum breytingum á stuttum tíma.
Það eru fólgnir galdrar í því að vænta góðra breytinga og hluta.
Ekki hlusta á þá sem segja þér að eitthvað sé ekki framkvæmanlegt, gerðu tilraunir á tilraunir ofan og sjáðu til, það mun skila sér í árangri að lokum ef trúin á það er til staðar hjá þér.
Við erum svo oft að leita að hamingjunni sem fylgir fullkomnuninni og þess vegna er svo erfitt að upplifa hana hamingjan er fólgin í því smáa og hversdagslega.
Við upplifum sorg, kvíða, depurð, höfnun og margs konar aðrar óþægilegar tilfinningar á einum eða öðrum tímapunktum í lífinu, en getum þó valið að njóta gleði lífsins þrátt fyrir þær aðstæður.
Þar til næst elskurnar
xoxo
ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
Markþjálfi/Samskiptaráðgjafi/TRM áfallafræði
Tímapantanir á linda@manngildi.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.8.2019 | 17:19
Menntun hugans og hjarta
Aristotle sagði að það væri til lítils að mennta hugann ef menntun hjartans fylgdi ekki með í kaupunum og það er það sem við þurfum að hafa í huga nú þegar skólastarf hefst að nýju.
Heilinn okkar er ótrúlegt verkfæri og getur geymt fáránlega mikið gagnamagn - margt sem hægt er að setja inn á þann harða disk. En ef við kennum börnunum okkar ekki að bera virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum og að sýna samhug eða góðvild þá er þessi gagnasöfnun kannski ekki mikils virði að mínu mati.
Það hefur verið sýnt fram á það í hinum ýmsu rannsóknum að þeir sem hafa stundað félagslífið og lifað lífinu samhliða námi reynast oft betri starfskraftar en þeir sem helgað hafa náminu allan tímann sinn þegar út í lífið sjálft er komið, og segja fræðimenn að það sé vegna þess að þessir aðilar hafi oft hærri félags og tilfinningagreind en hinir sem gáfu sér ekki tíma til að eiga samneyti við samnemendur sína.
Þetta finnast mér lógískar niðurstöður því að þau málefni sem við glímum helst við í dag tengjast samskiptum, ýmist skorti á þeim eða velvilja og ábyrgð.
Ég veit að það eru margir sem kvíða því að fara í skólann að hausti og því miður allt of margir sem fá að finna illilega fyrir þeim sem léleg samskipti kunna og stunda.
Við heyrum allt of margar sögur af einelti og ljótum leikjum sem særa og gera lífið leitt hjá þeim sem eru ekki nægjanlega sterkir til að standa upp og segja nei við slíkri framkomu og það eigum við ekki að þola í okkar upplýsta nútímasamfélagi.
En hvernig stendur á því að við menntum börnin okkar ekki í því að koma vel fram við aðra? Hvernig stendur á því að lítil börn geta verið svo grimm að það ógnar öðrum börnum og tilvist þeirra?
Hvar eru fögin sem kenna samkennd, kærleika og virðingu fyrir náunganum og sjálfum sér?
Ég verð a.m.k lítið vör við það á stundatöflu barnabarnanna minna að þessi fög séu kennd og fullyrði að ekki voru þau á dagskrá þegar börnin mín voru í skóla.
Og nú veit ég að margir segja að það sé foreldranna að kenna þessa framkomu og að skólinn eigi ekki að þurfa að standa í slíku, en ég segi hiklaust að það þarf heilt þorp til að ala barn upp svo að vel sé, og þar þarf skólakerfið svo sannarlega að koma að ásamt öllum þeim sem eru áhrifavaldar í lífi einstaklingsins sem ala á upp.
Ég reikna svo sannarlega með því að flestir foreldrar geri sitt besta til að kenna börnum sínum góða siði og framkomu og trúi því staðfastlega að það geri kennarar á öllum skólastigum einnig, en betur má ef duga skal þegar litið er á fjölda þeirra sem flosna upp úr skóla eða líður illa þar alla daga, ár eftir ár.
Við lifum á öld samskiptamiðla þar sem samskiptin eru oft ekki upp á marga fiska(þekki það sjálf frá fullorðnum aðilum)og mikil þörf er á að setja inn fög sem hafa það eitt að tilgangi að auka heilbrigð og góð samskipti, kenna samkennd (já það er hægt að kenna hana) og auka þekkingu á tilfinningum og stjórn á þeim.
Einnig er nauðsynlegt að kenna þeim að þekkja mismunandi blæbrigði raddar og andlits því að líkamstilburðir og röddin eru oft sterkari áhrifaþættir en orðin sjálf.
Að virða skoðanir annarra og viðurkenna þeirra menningu, trú og líf er einnig eitthvað sem mætti kenna í þeim tímum og það að allir hafa sinn hátt á. Enginn einn sannleikur er til, heldur höfum við öll brot af sannleika í höndum okkar - semsagt "Margar leiðir liggja til Rómar".
Að sinna þeim sem minna mega sín ætti að mínu mati einnig að vera kennt og sinna vel því að á því byggist þekking á samkennd og umönnun.
Í skóla einum í Bandaríkjunum er samkennd kennd með þeim hætti að morðið á Dr. Marteini Luther King er tekið fyrir og skoðað hvernig aðstendum hans og vinum hafi liðið þegar þeir fengu fréttirnar af láti hans. Spáð er í svipbrigði þeirra og börnin látin setja sig í spor allra sem að komu og þeim uppálagt að reyna að upplifa mismundandi tilfinningar þeirra.
Eins eru sumir skólar með það á stundatöflu sinni að börnin fari í reglulegar hjálparferðir til heimilislausra og barna sem liggja á spítulum m.a.
Og eins ogn ég nefndi í byrjun þá sagði Aristoteles að það væri til einskis að kenna þurrar staðreyndir og veraldlega hluti ef það gleymist að mennta hjartað.
Svo verum dugleg að hvetja þau börn sem í kringum okkur eru núna á nýbyrjuðu skólaári í því að taka ekki þátt í ljótum leikjum gegn öðrum börnum og hvetjum þau til að taka upp á arma sína þá sem höllum fæti standa í kringum þá.
Þar til næst elskurnar
xoxo
Ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
Markþjálfi/samskiptaráðgjafi/TRM áfallafræði 1 og 2
linda@manngildi.is
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.8.2019 | 14:31
12 lífsstílsráð til heilbrigðis
það eru nokkur persónueinkenni sem virðast fylgja þeim sem taldir eru afar heilbrigðir einstaklingar (ef þeir eru til á annað borð til)og það er sama hvar mig ber niður hvað þetta málefni varðar þá koma upp sömu atriði aftur og aftur hjá þeim sérfræðingum sem telja sig geta sagt okkur hvað heilbrigði er, og mig langar að deila nokkrum af þessum atriðum með ykkur ef það gæti orðið til gagns.
En hér koma þau atriði sem virðast helst einkenna þá en hugleiðingarnar fyrir neðan koma frá yours truly.
1. Þeir lifa samkvæmt heimsmynd sem þeir telja rétta fyrir líf sitt og lifa samkvæmt þeim gildum sem þeir hafa að leiðarljósi í lífinu. Í raun fara þeir yfirleitt eftir karma lögmálinu, þeir semsagt vilja uppskera gott og vanda sig því við að gera gott.
Eins og við vitum er þetta ekki alltaf auðvelt og öll dettum við í þann pitt að fara aðeins krókaleiðir út frá gildunum okkar, svo ekki skamma þig mikið þó að þessi atriði sem ég tel hér upp séu ekki upp á tíu hjá þér alla daga, það gerir þig ekki óheilbrigða/n, heldur svona smá villta/n - eða eins og börnin mín segja stundum við mig þegar mér finnst Robbie Williams vera á mínum aldri "mamma þú ert bara svolítið aldursvillt"
2. Þeir hafa heilbrigða sýna á sjálfa sig og geta metið styrkleika sína og veikleika ásamt því að þeir hafa stjórn á hegðun sinni og læra af mistökum sínum.
Að hafa rétta sýn á sjálfan sig er svo ótrúlega mikilvægt því að á þeirri sýn byggist tilvera okkar að mestu leiti. Enginn sækir meira frá lífinu en hann telur sig eiga skilið, og enginn sem upplifir sig sem ekki nóg eða of mikið af einhverju sækir fram. Þannig að góð sýn okkar á okkur sjálf skiptir máli - og þá á ég við að við sjáum bæði styrkleika okkar og eins að við viðurkennum annmarka okkar svo að við séum fær um að auka við styrkleikana og draga úr annmörkum okkar á heilbrigðan hátt.
3. Þeir eru opnir fyrir nýjum hugmyndum og eru yfirleitt með þroskaða dómgreind.
Hversu oft er það ekki þannig að við viljum halda okkur inni í boxinu okkar og í raun snúum baki við nýjungum, sjáum þeim í raun allt til foráttu. Ég sá ljósmyndir á fésbókinni þar sem nýji tíminn og sá gamli var borinn saman, og þá kom til dæmis í ljós að símanotkun úti á strætum er engin nýjung, að vísu var gamla myndin af röð manna á gangstétt að bíða eftir strætó þar sem allir voru með andlitið límt niður í dagblaðið en í dag hneykslumst við mörg á unga fólkinu sem stendur í biðröð eftir strætó með símann upp að andlitinu - sama hegðun, önnur öpp :) Stjórnendur þekkja þetta syndrom vel þegar að breytingastjórnun kemur, það eru alltaf þessir nokkru sem þola illa breytingar og fara í fýlu og mótþróa í stað þess að aðlagast eða fara eftir því nýja sem verið er að innleiða, við þekkjum öll einhvern sem er svona ekki satt?
4. Þeir hafa þroskaða tilfinningagreind og æfa sig í að hafa góða stjórn á tilfinningum sínum.
Í dag er það viðurkennd staðreynd að þeir sem hafa góða tilfinningagreind séu almennt betri starfsmenn, starfsfélagar, maki, foreldri og vinur og þeir eiga auðveldara með að hafa stjórn á tilfinningum í aðstæðum sem er ein af grunnstoðum þess að geta unnið með einstaklinga. Ég er ein af þeim sem tel að ríkisleiðin okkar sem er að enginn fái starf sem ekki sé með háskólapróf upp á vasann sé að takmarka frekar en að bæta þegar litið er til starfsráðninga og framtíðarinnar. Það er til allskonar annarskonar menntun og eins lífsreynsla og áunnin þekking sem nýtist oft ekki síður en sú sem hægt er að læra af bókum - meira að segja góðum bókum eins og Laxness hefði orðað það. Ég velti því fyrir mér hvers vegna þeir sem ætla að starfa með og innan um fólk séu ekki látnir taka og standast tilfinningagreindarpróf áður en þeir fá að útskrifast úr deildum sem lúta að störfum tengdum tilfinningalegri úrvinnslu einstaklinga með einhverjum hætti.
Ég vona svo sannarlega að ég sjái breytingu á þessu fyrirkomulagi sem fyrst því að þeir sem ekki hafa góða tilfinningagreind, góða stjórn á skapi sínu og reynslu af lífinu og aðstæðum þess ættu líklega ekki að vinna með einstaklinga sem hafa brotið hjarta og þurfa skilning á aðstæðum sínum að mínu mati.
5. Þeir hafa góða sjálfsvirðingu og telja sig vera mikilvægan hlekk í þjóðfélagskeðjunni henni til heilla.
Að hafa tilgang er ein af stærri þörfum okkar mannanna og þeir sem hafa hann ekki veslast upp og deyja andlega ef ekki bara bókstaflega fara í gröfina. Þeir einstaklingar hinsvegar sem telja sig vera að vinna heildinni gagn hafa yfirleitt góða sjálfsvirðingu og standa með sér og því sem þeir telja vera rétt gagnvart sjálfum sér og öðrum. Flest teljum við okkur sem betur fer hafa hlutverki að gegna í þessum heimi, hlutverki sem við sinnum síðan eins vel og við getum hverju sinni - þó að okkur bregðist stundum bogalistin þar eins og annarstaðar.
Eins og ég sagði hér að framan er fátt manninum erifðara en það að hafa ekki tilganginn sem felst í því að tilheyra samfélagi annarra. Það þekkja þeir sem eru atvinnulausir, veikir og af einhverjum ástæðum detta út úr samfélaginu. Félagsvísindarannsóknir hafa einnig sýnt að það að tilheyra, fá að reyna á sig andlega og líkamlega ásamt því að finna fyrir kærleika eru allt mikilvægir þættir, þannig að það er erfitt að halda uppi sjálfsvirðingunni þegar þessa þætti vantar inn í tilveruna. En ég get þó sagt við okkur öll að víkka út sjónarhornið okkar því að svo sannarlega er tilgangur fyrir öllu lífi svo skoðum vel í kringum okkur og finnum hvar við erum mikilvæg eða fyrir hvern við erum nauðsynlegur partur af tilverunni.
6. Þeir eiga auðvelt með félagsleg samskipti og eiga auðvelt með að gefa og þiggja.
Það fallegasta við mannlífið að mínu mati er hæfileiki okkar til að gleðjast saman og máltækið "maður er manns gaman" finnst mér eiga vel við þá sem elska félagsleg samskipti þar sem þegið er og gefið af örlátu glöðu hjarta af beggja hálfu. Það er ein fallegasta athöfn sem við getum nýtt til að gefa af kærleika okkar til mannlífsins og heildarinnar. Svo er líka fátt eins skemmtilegt og það að kynnast nýju fólki og menningu sem getur bætt við þekkingu okkar og sýn á mannlega tilveru og menningu.
7. Þeir nálgast málefnin með raunsæjum hætti og láta ekki ímyndaðar áhyggjur draga sig niður.
Að skoða hvort áhyggjur okkar stöðvi tímann eða breyti niðurstöðum með einhverjum hætti er okkur hollt og gott. Áhyggjur hafa aldrei að mínu viti orðið til þess að bæta stöðuna sem áhyggjurnar snúa að, en hinsvegar lama áhyggjurnar okkur stundum og verða til þess að við grípum ekki til aðgerða sem við þyrftum stundum að framkvæma í aðstæðum lífsins. Og svo ég tali bara fyrir mig þá hef ég aldrei vitað til þess að óþarfa áhyggjur mínar af fólki eða aðstæðum hafi breytt neinu nema minni eigin líðan. Notum rökin sem leynast þarna einhverstaðar og spyrjum okkur hvort áhyggjurnar muni breyta einhverju um niðurstöðu málefnisins sem við erum að eiga við hverju sinni og ef við finnum að þær gætu breytt aðstæðunum með einhverjum hætti breytum þeim þá - en ef ekki sleppum þeim þá bara.
8. Þeir hafa sjálfstæða hugsun og taka sjálfstæðar ákvarðanir og vita hvenær rétt er að fara inn í eða út úr aðstæðum.
Við erum held ég afar meðvirk þjóð og hugsum allt of mikið um það hvað náungi okkar segir eða heldur (kannski vegna þess að við erum svo fá) og við tökum oft "rangar" ákvarðanir fyrir líf okkar út frá því sem okkur er sagt að sé okkur fyrir bestu. Þeir sem heilbrigðastir teljast nota sjálfsgagnrýni til að bæta sig en stjórnast ekki af áliti annarra né gagnrýni því að þeir vita hvers vegna þeir eru að fara þá leið sem þeir velja og þeir bera ábyrgð á útkomunni sjálfir.
Að hlusta á hjarta sitt og höfuð og fylgja því sem við finnum þar er oftast heillavænlegast en því miður veit ég að allt of margir eru ekki að hlusta og haldast því inni í ómögulegum aðstæðum sem veikja þá og valda þeim einungis óhamingju. Eins veit ég að margir láta ekki reyna á hvort að draumar þeirra geti orðið að veruleika því að hvað gæti náunginn gæti haldið um þá! Þetta held ég svei mér þá stundum að sé gamall þjóðarsjúkdómur, því að það er auðvitað bara montið og athyglissjúkt fólk sem eltir drauma sína. Það var a.m.k það sem ég heyrði oft í kringum mig í mínum uppvexti. Þeir sem ríkir urðu voru ýmist heppnir, fæddust með gullskeiðina í munninum eða þá að þeir voru kræfustu þjófar. Sjaldan heyrði ég talað um að þeir hefðu komist áfram á eigin rammleika né var talað um hversu mörg högg og hafnanir þeir höfðu upplifað á leið sinni að árangri.
9. Þeir hegða sér á yfirvegaðan hátt og tjá tilfinningar sínar á fallegan hátt.
Það er fátt leiðinlegra en það að mæta einstaklingum sem hafa litla stjórn á hegðun sinni eða tilfinningum og nota rifrildi og ljót orð til að ná sínu fram, en samt er þetta allt of algeng aðferð okkar mannfólksins. En þeir sem telja sig þurfa að tjá sig með ljótu orðskrúði og látum hafa ekki grætt mikið á þannig framkomu hvorki fyrr né síðar - þeir gætu þó reyndar grætt óvildamenn og að þeim yrði haldið fyrir utan líf þeirra sem þeim líklega þykir þó vænst um (ef hægt er að kalla það gróða) - svo pössum okkur á ljótu orðunum - aðgát skal hafa í nærveru sálar.
10. Þeir sýna djörfung í aðstæðum og taka bakslögum af yfirvegun og sýna þrautsegju.
Aðal innihaldsefni árangurs og þess að láta drauma sína rætast að mínu viti er að gefast ekki upp þó á móti blási. Standa upp aftur og aftur þrátt fyrir hafnanir, peningaleysi, baknag og aðra erfiðleika. Og þrautsegja er nauðsynlegt verkfæri í þessu lífi okkar sem oft á tíðum reynist okkur alls ekki auðvelt og það er svo sjaldan sem við fáum svona drive through lausnir á málum okkar. Þannig að ekki gefast upp hvar sem þú ert stödd/staddur - það er alltaf ein lausn eftir - sýnum þrautsegju!
11. Þeir eru stundvísir og standa við loforð sín.
Jeddúdda mía hvað ég get orðið pirruð á óstundvísi og því þegar ekki er borin virðing fyrir tíma mínum. Eins á ég afar erfitt með svikin loforð og planleggingar sem standast ekki. Þannig held ég reyndar að við séum flest. Við viljum láta bera virðingu fyrir þessum þáttum þegar þeir snúa að okkur, þannig að sýnum öðrum bara það sem við viljum að okkur sé sýnt í þessum atriðum sem og öðrum.
12. Þeir hafa yfirleitt mörg áhugamál sem veita þeim gleði og ánægju í lífinu og jafnvægi á vinnu og hvíld er ríkjandi í lífum þeirra ásamt heilbrigðu matarræði og hreyfingu.
jafnvægi er okkur mjög mikilvægt og við sækjum í ýmsilegt sem veitir okkur það. Þeir sem stunda hugleiðslu, jóga, kirkjur og allskonar aðferðir til að ná hugarró ættu kannski stundum að huga að því að hafa jafnvægi á öllum þáttum lífs síns á sama tíma, því að ef ekki ríkir þetta jafnvægi eða 8-8-8 aðferðin (vinna, hvíld og tómstundir)fara flestir ef ekki allir að finna fyrir streitueinkennum fyrr eða síðar.
Týpískur dagur hjá fjölskyldum í dag er að vakna fyrir allar aldir, klæða börnin í skóla eða leikskóla, koma sér í vinnu sem tekur amk 8 tíma, ná í börnin og skutla þeim í tómstundir, versla, fara í ræktina, láta börnin læra, elda mat, koma börnunum í háttinn og svo detta foreldrarnir örþreyttir niður fyrir framan sjónvarp eða tölvu þegar þau sofna eða þá að þau fara og stunda þau sport sem ekki var tími fyrir fyrr að deginum. Um helgar er síðan farið í ærandi verslunarmiðstöðvar og skemmtigarða sem auka á streituna bæði hjá þeim yngri og hinum eldri. Það sér hver heilvita maður að svona getur lífið ekki gengið upp til lengdar. Svo jafnvægi á öllum þáttum lífsins er málið -8,8,8. og borða svo rétt krakkar!
Jæja elskurnar, þetta eru nokkrir af þeim þáttum sem hinir heilbrigðu virðast hafa til að bera, og ég held að okkur sé alveg óhætt að gera það að markmiði okkar að halda okkur nokkuð nálægt þessum atriðum til að líf okkar sé í jafnvægi og til að okkur geti liðið vel með okkur sjálf og umhverfi okkar.
Þar til næst
xoxo
Ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
Markþjálfi, samskiptaráðgjafi, TRM áfallafræði
Tímapantanir á linda@manngildi.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.7.2019 | 14:02
Nú er það sumarblús hinnar einhleypu konu
Sumarið er tíminn söng Bubbi svo fallega hér um árið, og svo sannarlega er þessi árstími yndislegur, bjartur, fagur og elskuverður.
Við hinsvegar erum nokkuð mörg sem erum ekki með maka við hlið okkar og finnum okkur sérlega ein oft á þessum árstíma. Það er ekki talað mikið um þetta og líklega eru það færri sem gera sér grein fyrir því hversu einmannalegt sumarið getur verið fyrir okkur, því að við eigum öll að vera svo glöð þegar sólin skín og grasið er grænt.
Svo að ég tali bara fyrir mig sjálfa þá er það mér erfitt að vera sífellt að biðja um að fá að fylgja með þeim pöruðu vinum sem eru að fara erlendis eða í ferðalög innanlands, grillandi og hafandi það huggulegt í heitum pottum í garðinum, og því fer ég sjaldan orðið eitthvað á sumrin. Ég sem var eins og landafjandi um allar trissur hér áður fyrr og naut sumarsins og gleðinnar sem fylgdi því að grilla um helgar og eiga rómantísk sumarkvöld með hvítvín á kantinum, ferðast og upplifa með öðrum aðila, leiðast í gönguferðum eftir sjávarlínunni, og fara í afslappaða ísrúnta er nú farin að kvíða að sumu leiti þessarar annars uppáhalds árstíðar minnar. Að ég tali nú ekki um Ágústkvöldin með allri þeirri undursamlegu fegurð sem getur verið þegar dimma tekur á ný með tilheyrandi kertaljósum og rómantík.
Ég vona að þetta hljómi ekki eins og einhver sjálfsvorkunnarpistill því að það á alls ekki að vera þannig, kannski örlítil oggu poggu angurværð sem greip mig þarna, en hinsvegar veit ég um svo marga sem hreinlega kvíða einmannaleikanum sem fylgir því að vera einn á þessum árstíma og ég er stundum ein af þeim.
Við vitum öll að það er hægt að eiga fullt af áhugamálum sem stunda má án partners. En gönguferðirnar, golfið,hjólatúrarnir, ræktin og hvað þetta heitir allt saman kemur þó ekki í stað þess sem ég taldi upp hér að ofan hvað sem spekúlantarnir segja annars um það.
Manninum hefur ekki um aldir verið áskapað að vera einn að þvælast á þessari jörðu og við leitum flest yfir holt og hæðir að einhverjum heillandi aðila sem er til í að deila á nánum grunni lífinu með okkur. Þetta sjáum við t.d á samskiptamiðlum af ýmsu tagi, á börum og útihátíðum svo eitthvað sé nefnt.
Ég sjálf er mjög heppin að eiga marga vini sem ég reyni að hóa reglulega í til að gera eitthvað skemmtilegt með, en yfir sumartímann eru þeir yfirleitt bara mjög uppteknir með sínum mökum og fjölskyldum eins og eðlilegt er, og því er minna um hittinga þá en yfir vetrartímann. Og þegar þau eru úti um allar trissur þá hugsa ég oft um það hvað það væri nú indælt að finna draumaprinsinn og gera eitthvað skemmtilegt með honum.
Ég veit að eymd er oft valkostur og þó að ég sé hjartanlega ósammála því að við ættum helst að njóta þess að vera í eigin félagsskap allar stundir eins og sumir vilja halda fram að gefi okkur hina fullkomnu hamingju, þá er ég einnig þannig að ég vel ég að njóta ákveðinna þátta með me -myself and I og finnst t.d frábært að vera ein í göngutúrunum með Spotify í eyrunum og dagdrauma í kollinum.
Eins er ég alltaf á leiðinni í golfið, veiðina og fleira sem ég veit að gæti gefið mér félagsskap og gleði, en þar sem ég er ekki á forstjóralaunum læt ég það sitja á hakanum!
Þeir sem eru ekki á bankastjóralaunum láta sér nægja að mæta í ræktina og fara í sund því að það er þó mannfólk þar, líf og fjör.
Sá punktur sem þessi pistill átti nú aðallega að innihalda í þetta sinn er sá að hversu mikið sem við teljum okkur trú um að við getum farið ein og óstudd í gegnum lífið og að við þurfum engan við hlið okkar til að gera lífið skemmtilegra þá er það einfaldlega bara alls ekki eins skemmtilegt og að hafa góðan partner við hlið sér að mínu mati - punktur!
Ef sá aðili er einnig almennilegur og heilbrigður þá hafa rannsóknir sýnt að fólk lifir mun lengur sem er í góðri sambúð og er almennt ánægðara þó munur sé á milli kynja þar skilst mér. Karlarnir lifa víst mun lengur en konurnar sem eru giftar þeim las ég um daginn samkvæmt einhverri rannsókn, og ég er alveg til í að fórna nokkrum árum fyrir rétta eintakið af prince charming!.
Til að ljúka nú þessum eymdar sumarblús mínum þá skrifaði ég hann til að opna aðeins á umræðuna sem helst má ekki tala um, eða þá umræðu að þessir einhleypu eru einfaldlega ekki alltaf í gleði og glaumi eða baðandi sig upp úr nýju grænu grasi, og sumir tímar eru þeim einfaldlega erfiðari en aðrir og jólin og sumarið eru þar verstir að ég tel.
Svo ef að þú ert heppinn með þinn maka þá máttu vita að þó að þú fáir hundleið á honum stundum þá er grasið ekkert grænna hinu megin og sumrin frekar döpur - svo vertu bara heima hjá þér og dekraðu við þann sem þú hefur!
Og ef ég get aðstoðað þig við lífsins verkefni þá er ég einungis einni tímapöntun í burtu. x
xoxo
Ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
Markþjálfi,Samskiptaþjálfi,TRM áfallafræði
linda@manngildi.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.7.2019 | 14:42
Hefur útlitið áhrif á lífsgæði okkar?
Við lifum á tímum þar sem útlit hefur mikið að segja um lífsgæði þín og möguleika jafnvel á vinnumarkaði ef við viljum vera heiðarleg, og við gerum ýmislegt til að lúkka vel og fixa það sem þarf að fixa. En sumt er það sem við tölum ógjarnan um varðandi það hvað við gerum til þess að halda okkur nú ungum og ferskum og þar eru fegrunarlækningar einna fremstar í flokki.
Fegrunarlækningar eða lýtalækningar þær sem við förum í eru eitthvað sem við hvíslum kannski að okkar nánustu vinum en engum öðrum, og það er sama hvort við erum að tala um það sem er frábært og lífsumbreytandi við þessar aðgerðir eða bara bjútífixin sem við freistumst til að prufa. Vegna þess hversu mikið tabú er að tala um þetta þá komast allskonar sögusagnir á kreik og sumar verða til þess að þeir sem virkilega þurfa aðstoð varðandi líkama sinn leita hennar ekki og leita sér jafnvel ekki upplýsinga frá þeim fagaðilum sem allt vita um málin.
Ég hef svosem tekið þátt í þessum fixeringum sjálf með því að láta lita hár mitt og skerða, hvítta tennur, farið í megranir, göngutúra, ræktina, neglur og nú síðast að varna þess að hrukkurnar fái að dýpka í friði með því að fylla bara í þær.
Ég hef nú ekki alltaf verið hrifin af öllu því sem okkur konum er selt í dag sem á að gera okkur svo gasalega lekkerar og yngja okkur um áratugi en í þessum efnum sem og öðrum tel ég vera til undantekningar og tel einnig að millivegurinn sé farsælastur alls hér sem annarstaðar.
Finnst jafn sjálfsagt fyrir mig í dag að huga að hrukkunum eins og að lita hárið og hvítta tennurnar, enda sé ég ekki ástæðu til að eldast neitt fyrr en þörf er á og ætla að gera mitt besta til að nýta mér þá þekkingu sem til er í dag til þess :)
Sjálfsagt flokkast þetta fikt mitt ekki til nauðsynlegra fegrunaraðgerða en sumar þeirra aðgerða sem gerðar eru af lýtalæknum falla þó undir nauðsyn að mínu mati og geta haft miklar breytingar í för með sér á sjálfstrausti og sjálfsmynd einstaklinganna sem í hlut eiga, og það hef ég séð gerast hjá nokkrum í gegnum tíðina en ætla að segja hér eina af þeim umbreytingasögum.
Fyrir nokkrum árum fékk ég að kynnast ungri konu og sögu hennar. Þessi unga kona hafði alveg frá því að hún var lítil stelpa verið allt of þung og fengið að kenna á stríðni, einelti og ákveðinni útskúfun alla sína æsku og unglingsár vegna þyngdar sinnar.
Þetta varð til þess að sjálfsmynd hennar laskaðist illa og félagslega hlið hennar var einnig í molum. Hún flosnaði uppúr námi og sótti ekki það sem hún vildi því að hún var auðvitað búin að telja sér trú um að hún ætti ekkert gott skilið vegna særandi orða og framkomu samfélagsins sem sagði henni að hún væri ekki nægjanleg eins og hún var.
Og til að ná sér nú í þjóðfélagslegan samþykktarstuðul tók hún sig til eftir barnsburð og náði að létta sig um marga tugi kílóa og hélt að allt yrði þá með öðrum og betri hætti, en sat uppi með annað og ekki síðra vandamál sem var að hún var með allt of mikla aukahúð sem ekki aðlagaði sig að líkama hennar. Þessi aukahúð gerði það að verkum að þessi unga kona leit enn á sig ekki fallegum augum, og var ekki nóg hvorki fyrir sjálfa sig né samfélagið.
Þessi sýn hennar á sig varð þess valdandi að hún sleppti því að fara í sund, leikfimi, klæddi sig aldrei eins og henni langaði til að klæða sig og til að kóróna allt þá gat hún ekki hugsað sér að kærastinn sæi líkama hennar.
Þetta er þó sem betur fer bara byrjun sögunnar því að hún ákvað eftir langa umhugsun að heimsækja Ágúst Birgisson lýtalækni til að athuga hvað hægt væri að gera í málunum þar sem hún vissi að hún þarfnaðist aðstoðar hans til að ná framgangi á uppbyggingu sjálfstraustsins.
Ég var síðan svo heppin að fá að fylgja henni á þessari vegferð hennar og sjá hvaða breytingar urðu í hennar lífi eftir að hún fór í stóra og mikla aðgerð þar sem tekinn var tæpur tugur kílóa af aukahúð af henni.
Aðgerðin sem fór fram á sjúkrahúsi fyrir Norðan gekk mjög fagmannlega og vel fyrir sig og bataferlið gekk einnig afar vel og hún var alsæl með þessa ákvörðun sína.
Og þar sem ég fékk að fylgjast með þessari ungu konu áfram þá sá ég hvað þetta gerði mikið fyrir sjálfsmynd hennar og hvernig hún smá saman var tilbúin til að stíga út úr sínum einfalda og einangrandi ramma og sækja það sem hún hafði kannski allan tímann haft löngun til en lét kílóin og síðan aukahúðina stöðva sig í að ná í. (og því miður er hún ekki eina dæmið sem ég hef séð af þessum toga)
Ég hef séð hana blómstra meir og meir eftir því sem lengra hefur liðið frá þessari örlaga-aðgerð hennar og hversu mikið hún nýtur þess að vera til (hún keypti sér meira að segja falleg nærföt). Það hefur fengið mig til að hugsa um hversu miklu meiri áhrif útlit okkar hefur á sjálfsmyndina en okkur gæti grunað og eins hefur það áhrif á það að við sækjum draumana okkar hvort sem okkur líkar betur eða verr að horfa á þá staðreynd.
Kannski hefur það mun meiri áhrif en ég nokkurn tíman gerði mér grein fyrir eða kærði mig um að viðurkenna..
Við lifum í heimi þar sem okkur er sagt daginn út og inn hvernig við eigum að vera til að vera samþykkt og gjaldgeng og afleiðingaranar eru þær að svo allt of margir upplifa sig langt frá því að geta nálgast það sem þeir vilja vegna þess að þeir fylla ekki upp í staðlana sem við búum til hverju sinni, og hvað sem okkur kann að finnast um það, þá er fullt af einstaklingum sem eru að þjást verulega vegna þessa.
Ég tek það þó skýrt fram að ekki er nægjanlegt að fara bara í eina aðgerð til að allt verði gott hvað varðar sjálfstraust og vellíðan, alls ekki.
Ég tel að alltaf þurfi að vinna með sjálfsmyndina og byggja hana upp innan frá og út á sama tíma eins og þessi unga kona reyndar gerði, því að hluti vandamálsins er alltaf hugsunin "ég er ekki nóg" og sú hugsun lagast ekki við það eitt að laga útlitið heldur með því að kikka á innihaldið líka í leiðinni og breyta þar hugsana og skilgreiningaforritinu sem keyrir í bakgrunninum sem segir okkur að við séum ekki nægjanleg.
En hvers vegna er ég að skrifa pistil um lýtaaðgerðir/fegrunaraðgerðir?
Jú vegna þess að ég heyri fordóma samfélagsins svo víða gagnvart þessum málum, sem er þó skrítið þar sem við erum útlitsdýrkandi samfélag, en þessir fordómar verða allt of oft til að stöðva fólk eins og þessa ungu konu í því að leita sér aðstoðar og það lokar sig þess í stað frekar af í vanlíðan sinni.
Og þó að þessi pistill yrði bara til þess að koma einni innlokaðri mannveru í að sækja sér aðstoð þá yrði ég ánægð með að hafa skrifað um þetta mjög svo viðkvæma málefni sem margir hafa haft svo sterkar skoðanir á og telja til feimnismála.
Verum óhrædd við að leita okkur aðstoðar í þessum málum eins og öðrum ef það er farið að hafa áhrif á líf okkar.
Og ef þú vilt taka til í innra útlitinu og skoða forritin sem leynast þar sem segja þér að þú sért ekki nóg, er ég eins og alltaf einungis einni tímapöntun í burtu.
xoxo
Ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
Markþjálfi/Samskiptaþjálfun/TRM áfallafræði
linda@manngildi.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Linda Baldvinsdóttir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (20.4.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar