24.9.2019 | 20:37
Er skilnaður endilega lausnin?
Við sem höfum gengið í gegnum skilnað vitum mörg að lífið verður svo sem ekkert baðað rósum að skilnaði loknum, líklega í fáum tilvikum rómantísk og rauð ástarsaga sem bíður okkar flestra, en margra bíður hins vegar erfið leið þar sem rósirnar hafa svo sannarlega þyrna og því væri heillaráð að hugsa sig svolítið um áður en tiltölulega heillegum samböndum er kastað á glæ.
Ég er ekki að segja að skilnaðir geti ekki átt rétt á sér, því að svo sannarlega eiga þeir margir að eiga sér stað. Þar sem ofbeldi og aðrar mannskemmandi aðstæður er um að ræða er rétt að fara sem lengst í burtu og það hratt og vernda þannig okkur sjálf og þá sem við eigum að vernda þar að auki ef einhverjir eru.
Ég held að ég sé orðin nægjanlega fullorðin samt til að leyfa mér að segja að oft á tíðum eru þó skilnaðir byggðir á litlu tilefni og ég hef horft upp á mörg annars ágæt sambönd fara í vaskinn án nokkurrar ástæðu annarrar en þeirrar að leitin að nýjungum, rómantík og jafnvel gráa fiðringnum tekur völd í huga aðilanna, og í augnablikinu finnst þeim að þau hljóti að eiga eitthvað allt annað og betra skilið - og þau fara í sundur - skilja.
Þá fyrst byrjar nú ballið...
Þegar búið er að tilkynna börnum og fjölskyldu um ákvörðun parsins kemur oft í ljós að fjölskylda og vinir fara að skipta sér í fylkingar með eða á móti og það sem áður var svo gott verður nú að vígvelli og baráttu um hverjum á að taka afstöðu með.
Síðan kemur að praktísku atriðunum.
Hvað með húsið og bílinn? Bankabókina, skuldirnar? Hver fær að vera í húsinu og hver ætlar að kaupa hinn út, eða er kannski bara best að selja? Staðreyndin er að breyting verður á lífinu hjá öllum aðilum og misjafnt er hversu vel gengur að aðlagast.
Hvernig á að skipta börnunum á milli sín? Börnin verða því miður oft á milli í deilum foreldranna og þurfa oftar en ekki í dag að eiga tvenn jafnvel mjög svo ólík heimili með tilheyrandi streitu fyrir þau og dansi á milli ólíkra reglna og lífsgilda.
Hvernig er með umgengni barna á jólum og páskum? Fá báðir foreldrar börnin sín á þessum hátíðum eða er annað foreldrið með alla dagana?
Hvað verður þegar nýr maki kemur til sögunnar hjá öðru hvoru þeirra? Hafa börnin þá einhverjar skyldur gagnvart þeim aðila sem inn í líf þeirra kemur nú eða barna þess aðila?
Ferðalög? Eru börnin tekin með í ferðalögin og er samkomulag um það á milli skilnaðaraðilanna hvernig því skal háttað?
Og hvað með þegar farið er í aðrar sambúðir, hvernig er þessu þá háttað? Mátt þú taka þín börn með í ferðalag án þess að taka börn makans eða eiga allir að koma með?
Sumarfrí? Hvernig á að skipta sumarfríinu á milli foreldranna og eru aðilar tilbúnir til að mæta hvort öðru þar?
Hvað með meðlag? Er annar aðilinn með meira fé á milli handanna og er hann tilbúinn til að styrkja hitt foreldrið svo að barnið/börnin hafi svipaðan lifistandard og það hafði þegar mamma og pabbi voru saman?
Hvað með afmælin, ferminguna, útskriftirnar? Eru þær í sitthvoru lagi eða á barnið/börnin rétt á því að allir séu saman á þessum stundum og er það yfirhöfuð mögulegt?
Hvað með barnabörnin þegar þau svo koma? Gefum við saman árituðu Biblíuna í fermingunni eða gefum við sitthvora?
Og svo er það þetta með einmannaleikann á kvöldin og um helgar, vinskapinn, aðstoðina á erfiðum tímum, ferðafélagann, þann sem upplifði með þér lífið og veröldina og svo framvegis. Skipti það allt í einu minna máli en að byrja allt upp á nýtt með einhverjum öðrum aðila?
Þetta eru örfá af þeim atriðum sem margir standa frammi fyrir þegar að skilnaði og nýjum samböndum kemur, en gleymist stundum að horfa í þegar makinn er farinn að fara í taugarnar á þér.
En ég held að í mjög mörgum tilfellum sé hægt að snúa til baka og finna neistann sem áður var og kveikja þar bál að nýju í stað þess að setja svona marga aðila inn í breytingar sem eru öllum erfiðar. Það virðast einnig vera þannig að sirka 2 árum eftir skilnað hefðu mjög margir bara viljað hafa verið í gamla leiðinlega sambandinu sínu þar sem einhleypingslífið var ekkert svo spennandi eftir allt. Og svo er það einnig þannig að þú tekur alla gallana þína með þér inn í framtíðina og það gæti hreinlega klikkað að nýr aðili samþykki þá með brosi á vör og þá hefst sami hringurinn og endar í öðrum skilnaði!
Þetta eru mínar skoðanir og þú gætir átt allt öðruvísi skoðun á þessu og ég virði það fullkomlega, en fiðringurinn sem við leitum svo mörg að er oftast nær stundarfyrirbrigði og endist einungis jafn lengi og boðefnið sem kveikti hann, og þá tekur dapur raunveruleikinn við með öllum þeim verkefnum sem bíða þeirra sem í samband fara. Og þá er nú eins fallegt að vera búin að skoða vel hversu margt þið eigið sameiginlegt af lífsgildum og hvort að stefnan ykkar og ætlun í lífinu sé sú sama, þ.e. ef byggja á upp samband sem viðheldur neista og fiðringi til langs tíma.
Svo skoðum hvort hægt sé að laga til og breyta í gamla sambandinu þó að makinn sé eitthvað leiðinlegur og lítið smart, og hvernig væri amk að gefa því séns að það sé hægt að ná í gamlan og gleymdan fiðring áður en svona stór og afdrifarík ákvörðun er tekin elskurnar?
það borgar sig þegar til framtíðar er litið og verkefnanna sem bíða eftir skilnað - og trúðu mér ef þú leitar að einhverjum betri hinu megin við hæðina þá skal ég trúa þér fyrir leyndarmáli - það eru miklu fleiri froskar en prinsar og prinsessur þarna úti og neistinn til þeirra fljótur að slokkna hvort sem er þegar þér tekst ekki að breyta froskinum í prins/prinsessu. Home sweet home er stundum bara best (þó ekki alltaf)
Og ef þú ert í vafa með þitt líf og þín skref þá er ég einungis einni tímapöntun í burtu.
xoxo
Ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
Markþjálfi/Samskiptaráðgjafi/TRM áfallafræði
linda@manngildi.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.9.2019 | 12:20
Við eigum bara þetta eina líf
Það er staðreynd sem fæst okkar virðast þó stundum gera okkur grein fyrir ef við horfum á hvernig þessu eina lífi er varið í streitu og kapphlaup við eitthvað sem mun á dánarbeði okkar ekki skipta okkur neinu máli.
Dauðir hlutir, steinsteypa, yfirvinna og allt það sem við streðum sem mest við að eignast og hafa skipta okkur litlu þegar á stóru myndina er litið.
Ég hef með árunum komist að því að það sem skiptir mig máli á þessari göngu eða flugferð er að njóta lífsins í gleði og sátt þrátt fyrir aðstæður - en ekki vegna þess að aðstæðurnar séu svo góðar, og að dvelja sem oftast í hjarta mér í því þakklæti sem ég finn þar.
Einnig hef ég ákveðið að vera aðeins þar sem mér líður vel og gera aðeins það sem mér líður vel með að gera og vera, eða bara ég sjálf með öllum mínum kostum og göllum.
Það er ekkert annað í boði ef ég ætla að uppgötva að fullu hver ég er án skilgreininga annarra á tilvist minni og athöfnum. Hvað aðrir hugsa eða halda um mig er bara einfaldlega ekki mitt mál, því að í stóra samhenginu þá hefur það ekkert að segja um mína tilvist og lífsgöngu ef ég læt það ekki snerta mig eða komast undir skinnið á mér.
Eleanor Roosevelt sagði einu sinni að enginn gæti sett þig niður eða sært þig án samþykkis þíns, og ég hef komist að því að það er töluvert til í þessum orðum hennar.
Þetta eina líf sem við fáum úthlutað er einnig mjög stutt! Svo stutt að stundum finnst mér ég vera á þotuhraða eða hraðspólun í gegnum það.
Það var fyrir svo ógnarstuttu að ég eignaðist mitt fyrsta barn td - en það eru þó tæp 40 ár síðan, lengri tími en ég get gert mér vonir um að eiga eftir hér á hótel jörðu, og þegar við uppgötvum að það er minna eftir af þessu eina lífi en meira þá förum við virkilega að hugsa um hvað það er sem við viljum hafa inni í þeim tíma sem eftir er.
Að eiga bara eitt líf er töluvert stórt mál og þegar við náum utan um þá hugsun að fullu ætti það (og gerir það líklega)að færa okkur að því marki að vilja og velja aðeins það besta sem hægt er að fá inn í það.
Við stöndum frammi fyrir hlaðborði lífsins og ættum líklega alltaf að vera að velja af því það sem er okkur hollt og gott, en gerum það allt of sjaldan með tilheyrandi þjáningu og niðurbroti ásamt sorg og harmi.
En hvað er það sem gerir það að verkum að við veljum ekki það góða fyrir líf okkar?
Jú allt of oft held ég að okkur finnist við ekki eiga það góða nægjanlega mikið skilið og oft held ég að skilgreiningar okkar og annarra á okkur setji okkur á staði sem eru okkur óhollir. Við hlustum allt of oft á þá sem ekki vilja okkur vel, og við upplifum okkur sem ekki nóg eða of mikið af einhverju og finnum okkur vanmáttug gegn lífinu og samferðamönnum okkar.
Fíknir eru t.d að mínu mati flótti frá okkur sjálfum og aðstæðum í lífinu sem við eigum erfitt með að höndla, og flest finnum við okkur víst leið til að lifa af í óvinveittu óuppbyggjandi umhverfi og aðþrengdum aðstæðum.
En ef við gætum bara séð að drive -through leiðirnar eða þessar fljótförnu leiðir leiða okkur oftar á staði sem reynast til lengri tíma vera okkur hættulegar til anda, sálar og líkama þá værum við líklega að velja af hlaðborðinu betri og hollari rétti (leiðir)
Svo ég hvet okkur til að hafa í huga að gefa okkur virði okkar sjálf, velja aðeins það besta fyrir líf okkar hverju sinni, vera og dvelja aðeins þar sem okkur líður vel, koma okkur frá aðstæðum sem eru okkar skaðlegar með einum eða öðrum hætti, og skoða af alvöru sama á hvaða aldursskeiði við erum hvað það er sem við viljum hafa í minningabankanum okkar þegar þessu eina lífi sem við eigum garenterað líkur.
Set hér að lokum nokkur viskukorn sem ég hef birt á fésbókarsíðunni Manngildi í gegnum árin ef það gæti gagnast einhverjum:
Við eigum alltaf nýja byrjun í núinu og ættum svo sannarlega að nýta okkur það til að skapa okkur þá framtíð sem við þráum að sjá.
Ertu á þeim stað að þú vitir hvaða stefnu þú átt að marka þér, eða ertu á þeim stað þar sem þú lætur hverjum degi nægja sína þjáningu ? Ég hvet þig til að skoða hver þú vilt vera og markaðu þér stefnu samkvæmt því.
Stundum eigum við erfitt með að skilja lífið og þau verkefni sem það færir okkur, en samþykki okkar er samt eina svarið við því öllu. Ef við samþykkjum ekki lífið eins og það er hverju sinni finnum við fyrir togstreitu sem þreytir okkur og dregur úr okkur mátt Sleppum tökum og leyfum lífinu að hafa sinn gang.
Lífið er sífellt að koma með nýjar áskoranir til okkar í formi brotinna tilfinninga og særinda, en á þeim stað höfum við vald til að velja tilfinningar sem gera okkur að sterkari, betri og þroskaðri einstaklingum. Veljum kæru vinir að vaxa í andstreyminu.
Við erum stundum treg að skoða málin út frá mörgum sjónarhornum og það gefur okkur því skakka mynd af því sem er. Opnum hugann og víkkum út sýn okkar áður en við ákveðum skoðanir okkar og viðhorf til málanna.
Það eru ótrúlegustu dyr sem opnast þegar við förum að trúa á mátt okkar og getu, og líf okkar getur tekið ótrúlegum breytingum á stuttum tíma.
Það eru fólgnir galdrar í því að vænta góðra breytinga og hluta.
Ekki hlusta á þá sem segja þér að eitthvað sé ekki framkvæmanlegt, gerðu tilraunir á tilraunir ofan og sjáðu til, það mun skila sér í árangri að lokum ef trúin á það er til staðar hjá þér.
Við erum svo oft að leita að hamingjunni sem fylgir fullkomnuninni og þess vegna er svo erfitt að upplifa hana hamingjan er fólgin í því smáa og hversdagslega.
Við upplifum sorg, kvíða, depurð, höfnun og margs konar aðrar óþægilegar tilfinningar á einum eða öðrum tímapunktum í lífinu, en getum þó valið að njóta gleði lífsins þrátt fyrir þær aðstæður.
Þar til næst elskurnar
xoxo
ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
Markþjálfi/Samskiptaráðgjafi/TRM áfallafræði
Tímapantanir á linda@manngildi.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.8.2019 | 17:19
Menntun hugans og hjarta
Aristotle sagði að það væri til lítils að mennta hugann ef menntun hjartans fylgdi ekki með í kaupunum og það er það sem við þurfum að hafa í huga nú þegar skólastarf hefst að nýju.
Heilinn okkar er ótrúlegt verkfæri og getur geymt fáránlega mikið gagnamagn - margt sem hægt er að setja inn á þann harða disk. En ef við kennum börnunum okkar ekki að bera virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum og að sýna samhug eða góðvild þá er þessi gagnasöfnun kannski ekki mikils virði að mínu mati.
Það hefur verið sýnt fram á það í hinum ýmsu rannsóknum að þeir sem hafa stundað félagslífið og lifað lífinu samhliða námi reynast oft betri starfskraftar en þeir sem helgað hafa náminu allan tímann sinn þegar út í lífið sjálft er komið, og segja fræðimenn að það sé vegna þess að þessir aðilar hafi oft hærri félags og tilfinningagreind en hinir sem gáfu sér ekki tíma til að eiga samneyti við samnemendur sína.
Þetta finnast mér lógískar niðurstöður því að þau málefni sem við glímum helst við í dag tengjast samskiptum, ýmist skorti á þeim eða velvilja og ábyrgð.
Ég veit að það eru margir sem kvíða því að fara í skólann að hausti og því miður allt of margir sem fá að finna illilega fyrir þeim sem léleg samskipti kunna og stunda.
Við heyrum allt of margar sögur af einelti og ljótum leikjum sem særa og gera lífið leitt hjá þeim sem eru ekki nægjanlega sterkir til að standa upp og segja nei við slíkri framkomu og það eigum við ekki að þola í okkar upplýsta nútímasamfélagi.
En hvernig stendur á því að við menntum börnin okkar ekki í því að koma vel fram við aðra? Hvernig stendur á því að lítil börn geta verið svo grimm að það ógnar öðrum börnum og tilvist þeirra?
Hvar eru fögin sem kenna samkennd, kærleika og virðingu fyrir náunganum og sjálfum sér?
Ég verð a.m.k lítið vör við það á stundatöflu barnabarnanna minna að þessi fög séu kennd og fullyrði að ekki voru þau á dagskrá þegar börnin mín voru í skóla.
Og nú veit ég að margir segja að það sé foreldranna að kenna þessa framkomu og að skólinn eigi ekki að þurfa að standa í slíku, en ég segi hiklaust að það þarf heilt þorp til að ala barn upp svo að vel sé, og þar þarf skólakerfið svo sannarlega að koma að ásamt öllum þeim sem eru áhrifavaldar í lífi einstaklingsins sem ala á upp.
Ég reikna svo sannarlega með því að flestir foreldrar geri sitt besta til að kenna börnum sínum góða siði og framkomu og trúi því staðfastlega að það geri kennarar á öllum skólastigum einnig, en betur má ef duga skal þegar litið er á fjölda þeirra sem flosna upp úr skóla eða líður illa þar alla daga, ár eftir ár.
Við lifum á öld samskiptamiðla þar sem samskiptin eru oft ekki upp á marga fiska(þekki það sjálf frá fullorðnum aðilum)og mikil þörf er á að setja inn fög sem hafa það eitt að tilgangi að auka heilbrigð og góð samskipti, kenna samkennd (já það er hægt að kenna hana) og auka þekkingu á tilfinningum og stjórn á þeim.
Einnig er nauðsynlegt að kenna þeim að þekkja mismunandi blæbrigði raddar og andlits því að líkamstilburðir og röddin eru oft sterkari áhrifaþættir en orðin sjálf.
Að virða skoðanir annarra og viðurkenna þeirra menningu, trú og líf er einnig eitthvað sem mætti kenna í þeim tímum og það að allir hafa sinn hátt á. Enginn einn sannleikur er til, heldur höfum við öll brot af sannleika í höndum okkar - semsagt "Margar leiðir liggja til Rómar".
Að sinna þeim sem minna mega sín ætti að mínu mati einnig að vera kennt og sinna vel því að á því byggist þekking á samkennd og umönnun.
Í skóla einum í Bandaríkjunum er samkennd kennd með þeim hætti að morðið á Dr. Marteini Luther King er tekið fyrir og skoðað hvernig aðstendum hans og vinum hafi liðið þegar þeir fengu fréttirnar af láti hans. Spáð er í svipbrigði þeirra og börnin látin setja sig í spor allra sem að komu og þeim uppálagt að reyna að upplifa mismundandi tilfinningar þeirra.
Eins eru sumir skólar með það á stundatöflu sinni að börnin fari í reglulegar hjálparferðir til heimilislausra og barna sem liggja á spítulum m.a.
Og eins ogn ég nefndi í byrjun þá sagði Aristoteles að það væri til einskis að kenna þurrar staðreyndir og veraldlega hluti ef það gleymist að mennta hjartað.
Svo verum dugleg að hvetja þau börn sem í kringum okkur eru núna á nýbyrjuðu skólaári í því að taka ekki þátt í ljótum leikjum gegn öðrum börnum og hvetjum þau til að taka upp á arma sína þá sem höllum fæti standa í kringum þá.
Þar til næst elskurnar
xoxo
Ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
Markþjálfi/samskiptaráðgjafi/TRM áfallafræði 1 og 2
linda@manngildi.is
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.8.2019 | 14:31
12 lífsstílsráð til heilbrigðis
það eru nokkur persónueinkenni sem virðast fylgja þeim sem taldir eru afar heilbrigðir einstaklingar (ef þeir eru til á annað borð til)og það er sama hvar mig ber niður hvað þetta málefni varðar þá koma upp sömu atriði aftur og aftur hjá þeim sérfræðingum sem telja sig geta sagt okkur hvað heilbrigði er, og mig langar að deila nokkrum af þessum atriðum með ykkur ef það gæti orðið til gagns.
En hér koma þau atriði sem virðast helst einkenna þá en hugleiðingarnar fyrir neðan koma frá yours truly.
1. Þeir lifa samkvæmt heimsmynd sem þeir telja rétta fyrir líf sitt og lifa samkvæmt þeim gildum sem þeir hafa að leiðarljósi í lífinu. Í raun fara þeir yfirleitt eftir karma lögmálinu, þeir semsagt vilja uppskera gott og vanda sig því við að gera gott.
Eins og við vitum er þetta ekki alltaf auðvelt og öll dettum við í þann pitt að fara aðeins krókaleiðir út frá gildunum okkar, svo ekki skamma þig mikið þó að þessi atriði sem ég tel hér upp séu ekki upp á tíu hjá þér alla daga, það gerir þig ekki óheilbrigða/n, heldur svona smá villta/n - eða eins og börnin mín segja stundum við mig þegar mér finnst Robbie Williams vera á mínum aldri "mamma þú ert bara svolítið aldursvillt"
2. Þeir hafa heilbrigða sýna á sjálfa sig og geta metið styrkleika sína og veikleika ásamt því að þeir hafa stjórn á hegðun sinni og læra af mistökum sínum.
Að hafa rétta sýn á sjálfan sig er svo ótrúlega mikilvægt því að á þeirri sýn byggist tilvera okkar að mestu leiti. Enginn sækir meira frá lífinu en hann telur sig eiga skilið, og enginn sem upplifir sig sem ekki nóg eða of mikið af einhverju sækir fram. Þannig að góð sýn okkar á okkur sjálf skiptir máli - og þá á ég við að við sjáum bæði styrkleika okkar og eins að við viðurkennum annmarka okkar svo að við séum fær um að auka við styrkleikana og draga úr annmörkum okkar á heilbrigðan hátt.
3. Þeir eru opnir fyrir nýjum hugmyndum og eru yfirleitt með þroskaða dómgreind.
Hversu oft er það ekki þannig að við viljum halda okkur inni í boxinu okkar og í raun snúum baki við nýjungum, sjáum þeim í raun allt til foráttu. Ég sá ljósmyndir á fésbókinni þar sem nýji tíminn og sá gamli var borinn saman, og þá kom til dæmis í ljós að símanotkun úti á strætum er engin nýjung, að vísu var gamla myndin af röð manna á gangstétt að bíða eftir strætó þar sem allir voru með andlitið límt niður í dagblaðið en í dag hneykslumst við mörg á unga fólkinu sem stendur í biðröð eftir strætó með símann upp að andlitinu - sama hegðun, önnur öpp :) Stjórnendur þekkja þetta syndrom vel þegar að breytingastjórnun kemur, það eru alltaf þessir nokkru sem þola illa breytingar og fara í fýlu og mótþróa í stað þess að aðlagast eða fara eftir því nýja sem verið er að innleiða, við þekkjum öll einhvern sem er svona ekki satt?
4. Þeir hafa þroskaða tilfinningagreind og æfa sig í að hafa góða stjórn á tilfinningum sínum.
Í dag er það viðurkennd staðreynd að þeir sem hafa góða tilfinningagreind séu almennt betri starfsmenn, starfsfélagar, maki, foreldri og vinur og þeir eiga auðveldara með að hafa stjórn á tilfinningum í aðstæðum sem er ein af grunnstoðum þess að geta unnið með einstaklinga. Ég er ein af þeim sem tel að ríkisleiðin okkar sem er að enginn fái starf sem ekki sé með háskólapróf upp á vasann sé að takmarka frekar en að bæta þegar litið er til starfsráðninga og framtíðarinnar. Það er til allskonar annarskonar menntun og eins lífsreynsla og áunnin þekking sem nýtist oft ekki síður en sú sem hægt er að læra af bókum - meira að segja góðum bókum eins og Laxness hefði orðað það. Ég velti því fyrir mér hvers vegna þeir sem ætla að starfa með og innan um fólk séu ekki látnir taka og standast tilfinningagreindarpróf áður en þeir fá að útskrifast úr deildum sem lúta að störfum tengdum tilfinningalegri úrvinnslu einstaklinga með einhverjum hætti.
Ég vona svo sannarlega að ég sjái breytingu á þessu fyrirkomulagi sem fyrst því að þeir sem ekki hafa góða tilfinningagreind, góða stjórn á skapi sínu og reynslu af lífinu og aðstæðum þess ættu líklega ekki að vinna með einstaklinga sem hafa brotið hjarta og þurfa skilning á aðstæðum sínum að mínu mati.
5. Þeir hafa góða sjálfsvirðingu og telja sig vera mikilvægan hlekk í þjóðfélagskeðjunni henni til heilla.
Að hafa tilgang er ein af stærri þörfum okkar mannanna og þeir sem hafa hann ekki veslast upp og deyja andlega ef ekki bara bókstaflega fara í gröfina. Þeir einstaklingar hinsvegar sem telja sig vera að vinna heildinni gagn hafa yfirleitt góða sjálfsvirðingu og standa með sér og því sem þeir telja vera rétt gagnvart sjálfum sér og öðrum. Flest teljum við okkur sem betur fer hafa hlutverki að gegna í þessum heimi, hlutverki sem við sinnum síðan eins vel og við getum hverju sinni - þó að okkur bregðist stundum bogalistin þar eins og annarstaðar.
Eins og ég sagði hér að framan er fátt manninum erifðara en það að hafa ekki tilganginn sem felst í því að tilheyra samfélagi annarra. Það þekkja þeir sem eru atvinnulausir, veikir og af einhverjum ástæðum detta út úr samfélaginu. Félagsvísindarannsóknir hafa einnig sýnt að það að tilheyra, fá að reyna á sig andlega og líkamlega ásamt því að finna fyrir kærleika eru allt mikilvægir þættir, þannig að það er erfitt að halda uppi sjálfsvirðingunni þegar þessa þætti vantar inn í tilveruna. En ég get þó sagt við okkur öll að víkka út sjónarhornið okkar því að svo sannarlega er tilgangur fyrir öllu lífi svo skoðum vel í kringum okkur og finnum hvar við erum mikilvæg eða fyrir hvern við erum nauðsynlegur partur af tilverunni.
6. Þeir eiga auðvelt með félagsleg samskipti og eiga auðvelt með að gefa og þiggja.
Það fallegasta við mannlífið að mínu mati er hæfileiki okkar til að gleðjast saman og máltækið "maður er manns gaman" finnst mér eiga vel við þá sem elska félagsleg samskipti þar sem þegið er og gefið af örlátu glöðu hjarta af beggja hálfu. Það er ein fallegasta athöfn sem við getum nýtt til að gefa af kærleika okkar til mannlífsins og heildarinnar. Svo er líka fátt eins skemmtilegt og það að kynnast nýju fólki og menningu sem getur bætt við þekkingu okkar og sýn á mannlega tilveru og menningu.
7. Þeir nálgast málefnin með raunsæjum hætti og láta ekki ímyndaðar áhyggjur draga sig niður.
Að skoða hvort áhyggjur okkar stöðvi tímann eða breyti niðurstöðum með einhverjum hætti er okkur hollt og gott. Áhyggjur hafa aldrei að mínu viti orðið til þess að bæta stöðuna sem áhyggjurnar snúa að, en hinsvegar lama áhyggjurnar okkur stundum og verða til þess að við grípum ekki til aðgerða sem við þyrftum stundum að framkvæma í aðstæðum lífsins. Og svo ég tali bara fyrir mig þá hef ég aldrei vitað til þess að óþarfa áhyggjur mínar af fólki eða aðstæðum hafi breytt neinu nema minni eigin líðan. Notum rökin sem leynast þarna einhverstaðar og spyrjum okkur hvort áhyggjurnar muni breyta einhverju um niðurstöðu málefnisins sem við erum að eiga við hverju sinni og ef við finnum að þær gætu breytt aðstæðunum með einhverjum hætti breytum þeim þá - en ef ekki sleppum þeim þá bara.
8. Þeir hafa sjálfstæða hugsun og taka sjálfstæðar ákvarðanir og vita hvenær rétt er að fara inn í eða út úr aðstæðum.
Við erum held ég afar meðvirk þjóð og hugsum allt of mikið um það hvað náungi okkar segir eða heldur (kannski vegna þess að við erum svo fá) og við tökum oft "rangar" ákvarðanir fyrir líf okkar út frá því sem okkur er sagt að sé okkur fyrir bestu. Þeir sem heilbrigðastir teljast nota sjálfsgagnrýni til að bæta sig en stjórnast ekki af áliti annarra né gagnrýni því að þeir vita hvers vegna þeir eru að fara þá leið sem þeir velja og þeir bera ábyrgð á útkomunni sjálfir.
Að hlusta á hjarta sitt og höfuð og fylgja því sem við finnum þar er oftast heillavænlegast en því miður veit ég að allt of margir eru ekki að hlusta og haldast því inni í ómögulegum aðstæðum sem veikja þá og valda þeim einungis óhamingju. Eins veit ég að margir láta ekki reyna á hvort að draumar þeirra geti orðið að veruleika því að hvað gæti náunginn gæti haldið um þá! Þetta held ég svei mér þá stundum að sé gamall þjóðarsjúkdómur, því að það er auðvitað bara montið og athyglissjúkt fólk sem eltir drauma sína. Það var a.m.k það sem ég heyrði oft í kringum mig í mínum uppvexti. Þeir sem ríkir urðu voru ýmist heppnir, fæddust með gullskeiðina í munninum eða þá að þeir voru kræfustu þjófar. Sjaldan heyrði ég talað um að þeir hefðu komist áfram á eigin rammleika né var talað um hversu mörg högg og hafnanir þeir höfðu upplifað á leið sinni að árangri.
9. Þeir hegða sér á yfirvegaðan hátt og tjá tilfinningar sínar á fallegan hátt.
Það er fátt leiðinlegra en það að mæta einstaklingum sem hafa litla stjórn á hegðun sinni eða tilfinningum og nota rifrildi og ljót orð til að ná sínu fram, en samt er þetta allt of algeng aðferð okkar mannfólksins. En þeir sem telja sig þurfa að tjá sig með ljótu orðskrúði og látum hafa ekki grætt mikið á þannig framkomu hvorki fyrr né síðar - þeir gætu þó reyndar grætt óvildamenn og að þeim yrði haldið fyrir utan líf þeirra sem þeim líklega þykir þó vænst um (ef hægt er að kalla það gróða) - svo pössum okkur á ljótu orðunum - aðgát skal hafa í nærveru sálar.
10. Þeir sýna djörfung í aðstæðum og taka bakslögum af yfirvegun og sýna þrautsegju.
Aðal innihaldsefni árangurs og þess að láta drauma sína rætast að mínu viti er að gefast ekki upp þó á móti blási. Standa upp aftur og aftur þrátt fyrir hafnanir, peningaleysi, baknag og aðra erfiðleika. Og þrautsegja er nauðsynlegt verkfæri í þessu lífi okkar sem oft á tíðum reynist okkur alls ekki auðvelt og það er svo sjaldan sem við fáum svona drive through lausnir á málum okkar. Þannig að ekki gefast upp hvar sem þú ert stödd/staddur - það er alltaf ein lausn eftir - sýnum þrautsegju!
11. Þeir eru stundvísir og standa við loforð sín.
Jeddúdda mía hvað ég get orðið pirruð á óstundvísi og því þegar ekki er borin virðing fyrir tíma mínum. Eins á ég afar erfitt með svikin loforð og planleggingar sem standast ekki. Þannig held ég reyndar að við séum flest. Við viljum láta bera virðingu fyrir þessum þáttum þegar þeir snúa að okkur, þannig að sýnum öðrum bara það sem við viljum að okkur sé sýnt í þessum atriðum sem og öðrum.
12. Þeir hafa yfirleitt mörg áhugamál sem veita þeim gleði og ánægju í lífinu og jafnvægi á vinnu og hvíld er ríkjandi í lífum þeirra ásamt heilbrigðu matarræði og hreyfingu.
jafnvægi er okkur mjög mikilvægt og við sækjum í ýmsilegt sem veitir okkur það. Þeir sem stunda hugleiðslu, jóga, kirkjur og allskonar aðferðir til að ná hugarró ættu kannski stundum að huga að því að hafa jafnvægi á öllum þáttum lífs síns á sama tíma, því að ef ekki ríkir þetta jafnvægi eða 8-8-8 aðferðin (vinna, hvíld og tómstundir)fara flestir ef ekki allir að finna fyrir streitueinkennum fyrr eða síðar.
Týpískur dagur hjá fjölskyldum í dag er að vakna fyrir allar aldir, klæða börnin í skóla eða leikskóla, koma sér í vinnu sem tekur amk 8 tíma, ná í börnin og skutla þeim í tómstundir, versla, fara í ræktina, láta börnin læra, elda mat, koma börnunum í háttinn og svo detta foreldrarnir örþreyttir niður fyrir framan sjónvarp eða tölvu þegar þau sofna eða þá að þau fara og stunda þau sport sem ekki var tími fyrir fyrr að deginum. Um helgar er síðan farið í ærandi verslunarmiðstöðvar og skemmtigarða sem auka á streituna bæði hjá þeim yngri og hinum eldri. Það sér hver heilvita maður að svona getur lífið ekki gengið upp til lengdar. Svo jafnvægi á öllum þáttum lífsins er málið -8,8,8. og borða svo rétt krakkar!
Jæja elskurnar, þetta eru nokkrir af þeim þáttum sem hinir heilbrigðu virðast hafa til að bera, og ég held að okkur sé alveg óhætt að gera það að markmiði okkar að halda okkur nokkuð nálægt þessum atriðum til að líf okkar sé í jafnvægi og til að okkur geti liðið vel með okkur sjálf og umhverfi okkar.
Þar til næst
xoxo
Ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
Markþjálfi, samskiptaráðgjafi, TRM áfallafræði
Tímapantanir á linda@manngildi.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.7.2019 | 14:02
Nú er það sumarblús hinnar einhleypu konu
Sumarið er tíminn söng Bubbi svo fallega hér um árið, og svo sannarlega er þessi árstími yndislegur, bjartur, fagur og elskuverður.
Við hinsvegar erum nokkuð mörg sem erum ekki með maka við hlið okkar og finnum okkur sérlega ein oft á þessum árstíma. Það er ekki talað mikið um þetta og líklega eru það færri sem gera sér grein fyrir því hversu einmannalegt sumarið getur verið fyrir okkur, því að við eigum öll að vera svo glöð þegar sólin skín og grasið er grænt.
Svo að ég tali bara fyrir mig sjálfa þá er það mér erfitt að vera sífellt að biðja um að fá að fylgja með þeim pöruðu vinum sem eru að fara erlendis eða í ferðalög innanlands, grillandi og hafandi það huggulegt í heitum pottum í garðinum, og því fer ég sjaldan orðið eitthvað á sumrin. Ég sem var eins og landafjandi um allar trissur hér áður fyrr og naut sumarsins og gleðinnar sem fylgdi því að grilla um helgar og eiga rómantísk sumarkvöld með hvítvín á kantinum, ferðast og upplifa með öðrum aðila, leiðast í gönguferðum eftir sjávarlínunni, og fara í afslappaða ísrúnta er nú farin að kvíða að sumu leiti þessarar annars uppáhalds árstíðar minnar. Að ég tali nú ekki um Ágústkvöldin með allri þeirri undursamlegu fegurð sem getur verið þegar dimma tekur á ný með tilheyrandi kertaljósum og rómantík.
Ég vona að þetta hljómi ekki eins og einhver sjálfsvorkunnarpistill því að það á alls ekki að vera þannig, kannski örlítil oggu poggu angurværð sem greip mig þarna, en hinsvegar veit ég um svo marga sem hreinlega kvíða einmannaleikanum sem fylgir því að vera einn á þessum árstíma og ég er stundum ein af þeim.
Við vitum öll að það er hægt að eiga fullt af áhugamálum sem stunda má án partners. En gönguferðirnar, golfið,hjólatúrarnir, ræktin og hvað þetta heitir allt saman kemur þó ekki í stað þess sem ég taldi upp hér að ofan hvað sem spekúlantarnir segja annars um það.
Manninum hefur ekki um aldir verið áskapað að vera einn að þvælast á þessari jörðu og við leitum flest yfir holt og hæðir að einhverjum heillandi aðila sem er til í að deila á nánum grunni lífinu með okkur. Þetta sjáum við t.d á samskiptamiðlum af ýmsu tagi, á börum og útihátíðum svo eitthvað sé nefnt.
Ég sjálf er mjög heppin að eiga marga vini sem ég reyni að hóa reglulega í til að gera eitthvað skemmtilegt með, en yfir sumartímann eru þeir yfirleitt bara mjög uppteknir með sínum mökum og fjölskyldum eins og eðlilegt er, og því er minna um hittinga þá en yfir vetrartímann. Og þegar þau eru úti um allar trissur þá hugsa ég oft um það hvað það væri nú indælt að finna draumaprinsinn og gera eitthvað skemmtilegt með honum.
Ég veit að eymd er oft valkostur og þó að ég sé hjartanlega ósammála því að við ættum helst að njóta þess að vera í eigin félagsskap allar stundir eins og sumir vilja halda fram að gefi okkur hina fullkomnu hamingju, þá er ég einnig þannig að ég vel ég að njóta ákveðinna þátta með me -myself and I og finnst t.d frábært að vera ein í göngutúrunum með Spotify í eyrunum og dagdrauma í kollinum.
Eins er ég alltaf á leiðinni í golfið, veiðina og fleira sem ég veit að gæti gefið mér félagsskap og gleði, en þar sem ég er ekki á forstjóralaunum læt ég það sitja á hakanum!
Þeir sem eru ekki á bankastjóralaunum láta sér nægja að mæta í ræktina og fara í sund því að það er þó mannfólk þar, líf og fjör.
Sá punktur sem þessi pistill átti nú aðallega að innihalda í þetta sinn er sá að hversu mikið sem við teljum okkur trú um að við getum farið ein og óstudd í gegnum lífið og að við þurfum engan við hlið okkar til að gera lífið skemmtilegra þá er það einfaldlega bara alls ekki eins skemmtilegt og að hafa góðan partner við hlið sér að mínu mati - punktur!
Ef sá aðili er einnig almennilegur og heilbrigður þá hafa rannsóknir sýnt að fólk lifir mun lengur sem er í góðri sambúð og er almennt ánægðara þó munur sé á milli kynja þar skilst mér. Karlarnir lifa víst mun lengur en konurnar sem eru giftar þeim las ég um daginn samkvæmt einhverri rannsókn, og ég er alveg til í að fórna nokkrum árum fyrir rétta eintakið af prince charming!.
Til að ljúka nú þessum eymdar sumarblús mínum þá skrifaði ég hann til að opna aðeins á umræðuna sem helst má ekki tala um, eða þá umræðu að þessir einhleypu eru einfaldlega ekki alltaf í gleði og glaumi eða baðandi sig upp úr nýju grænu grasi, og sumir tímar eru þeim einfaldlega erfiðari en aðrir og jólin og sumarið eru þar verstir að ég tel.
Svo ef að þú ert heppinn með þinn maka þá máttu vita að þó að þú fáir hundleið á honum stundum þá er grasið ekkert grænna hinu megin og sumrin frekar döpur - svo vertu bara heima hjá þér og dekraðu við þann sem þú hefur!
Og ef ég get aðstoðað þig við lífsins verkefni þá er ég einungis einni tímapöntun í burtu. x
xoxo
Ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
Markþjálfi,Samskiptaþjálfi,TRM áfallafræði
linda@manngildi.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.7.2019 | 14:42
Hefur útlitið áhrif á lífsgæði okkar?
Við lifum á tímum þar sem útlit hefur mikið að segja um lífsgæði þín og möguleika jafnvel á vinnumarkaði ef við viljum vera heiðarleg, og við gerum ýmislegt til að lúkka vel og fixa það sem þarf að fixa. En sumt er það sem við tölum ógjarnan um varðandi það hvað við gerum til þess að halda okkur nú ungum og ferskum og þar eru fegrunarlækningar einna fremstar í flokki.
Fegrunarlækningar eða lýtalækningar þær sem við förum í eru eitthvað sem við hvíslum kannski að okkar nánustu vinum en engum öðrum, og það er sama hvort við erum að tala um það sem er frábært og lífsumbreytandi við þessar aðgerðir eða bara bjútífixin sem við freistumst til að prufa. Vegna þess hversu mikið tabú er að tala um þetta þá komast allskonar sögusagnir á kreik og sumar verða til þess að þeir sem virkilega þurfa aðstoð varðandi líkama sinn leita hennar ekki og leita sér jafnvel ekki upplýsinga frá þeim fagaðilum sem allt vita um málin.
Ég hef svosem tekið þátt í þessum fixeringum sjálf með því að láta lita hár mitt og skerða, hvítta tennur, farið í megranir, göngutúra, ræktina, neglur og nú síðast að varna þess að hrukkurnar fái að dýpka í friði með því að fylla bara í þær.
Ég hef nú ekki alltaf verið hrifin af öllu því sem okkur konum er selt í dag sem á að gera okkur svo gasalega lekkerar og yngja okkur um áratugi en í þessum efnum sem og öðrum tel ég vera til undantekningar og tel einnig að millivegurinn sé farsælastur alls hér sem annarstaðar.
Finnst jafn sjálfsagt fyrir mig í dag að huga að hrukkunum eins og að lita hárið og hvítta tennurnar, enda sé ég ekki ástæðu til að eldast neitt fyrr en þörf er á og ætla að gera mitt besta til að nýta mér þá þekkingu sem til er í dag til þess :)
Sjálfsagt flokkast þetta fikt mitt ekki til nauðsynlegra fegrunaraðgerða en sumar þeirra aðgerða sem gerðar eru af lýtalæknum falla þó undir nauðsyn að mínu mati og geta haft miklar breytingar í för með sér á sjálfstrausti og sjálfsmynd einstaklinganna sem í hlut eiga, og það hef ég séð gerast hjá nokkrum í gegnum tíðina en ætla að segja hér eina af þeim umbreytingasögum.
Fyrir nokkrum árum fékk ég að kynnast ungri konu og sögu hennar. Þessi unga kona hafði alveg frá því að hún var lítil stelpa verið allt of þung og fengið að kenna á stríðni, einelti og ákveðinni útskúfun alla sína æsku og unglingsár vegna þyngdar sinnar.
Þetta varð til þess að sjálfsmynd hennar laskaðist illa og félagslega hlið hennar var einnig í molum. Hún flosnaði uppúr námi og sótti ekki það sem hún vildi því að hún var auðvitað búin að telja sér trú um að hún ætti ekkert gott skilið vegna særandi orða og framkomu samfélagsins sem sagði henni að hún væri ekki nægjanleg eins og hún var.
Og til að ná sér nú í þjóðfélagslegan samþykktarstuðul tók hún sig til eftir barnsburð og náði að létta sig um marga tugi kílóa og hélt að allt yrði þá með öðrum og betri hætti, en sat uppi með annað og ekki síðra vandamál sem var að hún var með allt of mikla aukahúð sem ekki aðlagaði sig að líkama hennar. Þessi aukahúð gerði það að verkum að þessi unga kona leit enn á sig ekki fallegum augum, og var ekki nóg hvorki fyrir sjálfa sig né samfélagið.
Þessi sýn hennar á sig varð þess valdandi að hún sleppti því að fara í sund, leikfimi, klæddi sig aldrei eins og henni langaði til að klæða sig og til að kóróna allt þá gat hún ekki hugsað sér að kærastinn sæi líkama hennar.
Þetta er þó sem betur fer bara byrjun sögunnar því að hún ákvað eftir langa umhugsun að heimsækja Ágúst Birgisson lýtalækni til að athuga hvað hægt væri að gera í málunum þar sem hún vissi að hún þarfnaðist aðstoðar hans til að ná framgangi á uppbyggingu sjálfstraustsins.
Ég var síðan svo heppin að fá að fylgja henni á þessari vegferð hennar og sjá hvaða breytingar urðu í hennar lífi eftir að hún fór í stóra og mikla aðgerð þar sem tekinn var tæpur tugur kílóa af aukahúð af henni.
Aðgerðin sem fór fram á sjúkrahúsi fyrir Norðan gekk mjög fagmannlega og vel fyrir sig og bataferlið gekk einnig afar vel og hún var alsæl með þessa ákvörðun sína.
Og þar sem ég fékk að fylgjast með þessari ungu konu áfram þá sá ég hvað þetta gerði mikið fyrir sjálfsmynd hennar og hvernig hún smá saman var tilbúin til að stíga út úr sínum einfalda og einangrandi ramma og sækja það sem hún hafði kannski allan tímann haft löngun til en lét kílóin og síðan aukahúðina stöðva sig í að ná í. (og því miður er hún ekki eina dæmið sem ég hef séð af þessum toga)
Ég hef séð hana blómstra meir og meir eftir því sem lengra hefur liðið frá þessari örlaga-aðgerð hennar og hversu mikið hún nýtur þess að vera til (hún keypti sér meira að segja falleg nærföt). Það hefur fengið mig til að hugsa um hversu miklu meiri áhrif útlit okkar hefur á sjálfsmyndina en okkur gæti grunað og eins hefur það áhrif á það að við sækjum draumana okkar hvort sem okkur líkar betur eða verr að horfa á þá staðreynd.
Kannski hefur það mun meiri áhrif en ég nokkurn tíman gerði mér grein fyrir eða kærði mig um að viðurkenna..
Við lifum í heimi þar sem okkur er sagt daginn út og inn hvernig við eigum að vera til að vera samþykkt og gjaldgeng og afleiðingaranar eru þær að svo allt of margir upplifa sig langt frá því að geta nálgast það sem þeir vilja vegna þess að þeir fylla ekki upp í staðlana sem við búum til hverju sinni, og hvað sem okkur kann að finnast um það, þá er fullt af einstaklingum sem eru að þjást verulega vegna þessa.
Ég tek það þó skýrt fram að ekki er nægjanlegt að fara bara í eina aðgerð til að allt verði gott hvað varðar sjálfstraust og vellíðan, alls ekki.
Ég tel að alltaf þurfi að vinna með sjálfsmyndina og byggja hana upp innan frá og út á sama tíma eins og þessi unga kona reyndar gerði, því að hluti vandamálsins er alltaf hugsunin "ég er ekki nóg" og sú hugsun lagast ekki við það eitt að laga útlitið heldur með því að kikka á innihaldið líka í leiðinni og breyta þar hugsana og skilgreiningaforritinu sem keyrir í bakgrunninum sem segir okkur að við séum ekki nægjanleg.
En hvers vegna er ég að skrifa pistil um lýtaaðgerðir/fegrunaraðgerðir?
Jú vegna þess að ég heyri fordóma samfélagsins svo víða gagnvart þessum málum, sem er þó skrítið þar sem við erum útlitsdýrkandi samfélag, en þessir fordómar verða allt of oft til að stöðva fólk eins og þessa ungu konu í því að leita sér aðstoðar og það lokar sig þess í stað frekar af í vanlíðan sinni.
Og þó að þessi pistill yrði bara til þess að koma einni innlokaðri mannveru í að sækja sér aðstoð þá yrði ég ánægð með að hafa skrifað um þetta mjög svo viðkvæma málefni sem margir hafa haft svo sterkar skoðanir á og telja til feimnismála.
Verum óhrædd við að leita okkur aðstoðar í þessum málum eins og öðrum ef það er farið að hafa áhrif á líf okkar.
Og ef þú vilt taka til í innra útlitinu og skoða forritin sem leynast þar sem segja þér að þú sért ekki nóg, er ég eins og alltaf einungis einni tímapöntun í burtu.
xoxo
Ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
Markþjálfi/Samskiptaþjálfun/TRM áfallafræði
linda@manngildi.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.6.2019 | 12:35
Hvað er að ná árangri?
Þessa dagana eru á samfélagsmiðlum allskonar auglýsingar frá hinum og þessum aðilum um það hvernig við förum að því að ná árangri í lífinu og hvað sé árangur, og ég verð að viðurkenna að mér finnst þetta allt komið út í svolitlar öfgar.
Samkvæmt þessum auglýsingum þá þarft þú að mennta þig endalaust og botnlaust því að þú þarft alltaf að bæta við nýrri og nýrri þekkingu og nýjar aðferðir verða til (líklega vegna þess að menntastofnanir þurfa að bera sig eins og önnur fyrirtæki) og svo er alveg á hreinu að ef þú vaknar ekki 2 tímum fyrr á morgnana og ferð í ræktina, borðar réttu fæðuna, lest síðan eina bók á viku að lágmarki þá bara einfaldlega nærð þú engum árangri í lífinu samkvæmt þessum auglýsingum. - Þetta varð til þess að ég staldraði við og hugsaði, hvað er það eiginlega að ná árangri? og við hvað miðum við árangur?
Eru það þeir sem hafa hæstu launin, forstjóratitlana, flottu húsin, dýru bílana og hæstu húsnæðislánin og frægustu vinina sem hafa náð árangri?
Eða eru það þeir sem hraða sér á hamsturhjólinu alla daga uppgefnir á því að reyna að halda sér ungum og ferskum og vinna frá sér allt vit til þess eins að ná hærra í árangursþrepinu? Eða eru það þeir sem eru með streitustuðullinn í hámarki og börnin í kvíðakasti yfir öllum hraðanum sem er í dag sem ná mestum árangri í lífinu?
Ekki geri ég mér alveg grein fyrir því hversu langt við eigum að ganga þegar kemur að því að ná veraldlegum árangri og stundum finnst mér að við séum jafnvel farin að gera óraunhæfar kröfur á yngstu kynslóðina hvað það varðar.
Börnin okkar virðast þurfa að ná árangri í því sem þau fást við í tómstundunum og oft fara helgarnar sem ætlaðar eru til hvíldar í allskonar keppnir og æfingar hjá þeim og því afar lítill tími er fyrir hvíld og leikgleðina sem ætti aldrei að vera árangurstengd heldur fólgin í samskiptum og því að kynnast fjölskyldu sinni og vinum aðeins betur á breiðum leikgleðigrunni.
Minnir svolítið á brandarann sem ég las um daginn sem hljómaði eitthvað á þennan veg: "Internetið lá niðri í kvöld svo að ég varð að eyða tímanum með fjölskyldunni - þau virtust vera ágætis fólk"
Er það orðinn mælikvarðinn á árangri að þú þurfir að eltast við stöðuga framsækni og veraldlegan árangur? svo mikið að allt það sem raunverulega virðist skipta okkur máli þegar litið er inn að hjartarótunum sé í raun farið að mæta svo miklum afgangi að fjölskyldur og einstaklingar eru að liðast í sundur vegna þessa álags?
Erum við sem samfélag að sætta okkur við að streitan verði svo mikil að það þurfi að finna leiðir til að minnka það með því að bæta við vinnudaginn og fara í hugleiðsluna og jógað til að ekki sé farið í kulnun eða lagst í veikindi?
Ég veit svo sem ekkert hvað öðrum finnst árangur vera og líklega er það afar misjafn mælikvarði á milli manna, en í mínum huga er árangurinn falinn í því að vakna á hverjum morgni og takast á við lífið alveg sama hverju það hendir í þig ásamt því að lifa lífinu í samræmi við gildin sem við hvert og eitt höfum og erum sátt við.
Það er töluvert gaman að spyrja fólk að því hvað það myndi gera ef það ætti aðeins ár eftir ólifað og ég geri töluvert af því að spyrja þeirrar spurningar.
Í flestum tilfellum fæ ég þau svör að gaman væri að ferðast um og skoða heiminn, selja allt dótið sitt og njóta bara þessa árs í gleði og hamingju ásamt þakklæti fyrir hvern dag sem vaknað er upp til, og ef ég bæti svo við spurningunni, hvað værirðu að gera ef þú ættir bara einn dag eftir ólifaðan verða svörin aðeins öðruvísi.
Merkilegt nokk þá hef ég aldrei fengið þau svör við þessum spurningum að fólk vildi nýta þetta ár í það að mennta sig meira, vinna meira, ná í stöðuhækkanir, verðlaun né neitt af því sem við teljum vera að ná árangri í lífinu. Frekar hið gagnstæða, að hætta að vinna, láta drauma sína eða ævintýri rætast og sækja allt það sem heimurinn hefur upp á að bjóða í upplifunum.
Hinsvegar er alveg merkilegt að ég fæ sama svarið við seinni spurningunni frá flestum sem ég hef spurt þeirrar spurningar og það svar er; Ég væri að verja þessum sólarhring í að gleðjast með þeim sem ég elska, umfaðma þá og segja þeim hversu mikils virði þeir eru mér og hversu mikið ég á eftir að sakna þeirra.
Undarlegt þegar tillit er tekið til þess að í dag eiga flestir erfitt með að finna tíma til þess að heimsækja og annast þá sem skipta þá mestu máli og velja gjarnan aðra skemmtun en þá að verja tímanum með þeim sem standa þeim hjarta næst.
Ég er algjörlega sek eins og hinir hvað þetta varðar, en þó hef ég endurskoðað líf mitt síðustu árin og fundið að einmitt það að eiga fjölskyldu, börn og barnabörn ásamt vinum er mér mikilvægara en allt heimsins prjál, og að veraldlegir hlutir skipta svo agnar litlu máli í stóru hamingjumyndinni.
Ég svíf þó ekki um á bleiku skýi þar sem við þurfum ekki gjaldmiðilinn okkar og vinnuna, og auðvitað veit ég að við þurfum víst öll að eiga einhvern samastað og mat til að borða.
Við þurfum samt ekki að keppast við að eiga allan heiminn, allar hönnunarvörurnar, merkjadótið og hvað þetta heitir nú allt saman sem við verðum svo að mikið að eiga.
Fyrir mér í dag er árangur minn í lífinu eitthvað allt annað en þetta veraldavafstur.
Árangur í mínum huga er td sá að eiga maka, börn og vini sem koma fallega fram við mig og þá sem mér eru kærir, og að hafa við hlið mér kærleiksríka aðila sem annast mig á erfiðum köflum lífsins og að eiga börn og barnabörn sem verða að góðum umhyggjusömum manneskjum. Það væri minn yfirfyllti verðlaunabikar.
Ég veit að þetta hljómar eins og klisja fyrir marga,en ég held að ég hafi kannski fundið sterkast fyrir þessu mikilvægi núna að undanförnu þegar ég horfi á eldri dóttur mína og hennar mann taka að sér að annast í kærleika veika móður mína inni á sínu heimili vegna skorts á úrræðum í heilbrigðiskerfi okkar,en þetta gera þau á sama tíma og þau eru að sinna rúmlega tveggja mánaða gömlu barni sínu og hefja sitt fjölskyldulíf.
Ég horfi á dóttur mína sinna ömmu sinni á alveg einstakan máta og dekra við hana með því að lita augabrúnirnar, blása hárið, sjá til þess að hún fái góðan mat, taki lyfin sín og svo nuddar hún síðan á henni fæturna á kvöldin fyrir svefninn upp úr dýrindis olíum og ég sé hvernig móðir mín dafnar í þessu umhverfi og atlæti þrátt fyrir vitneskjuna um að eiga ekki svo marga daga tryggða eftir hér á hótel jörð.
Þetta fyrir mér er að ná árangri í lífinu þó að líklega fái hún dóttir mín engar medalíur né forstjóralaun fyrir þetta kærleiksverk, og líklega ætlast hún heldur ekki til þess að fá neitt annað en ánægjuna sem að fæst við að gefa kærleika sinn og umhyggju.
Það er í mínum huga að hafa náð árangri í lífinu því að það að hafa tilfinningalega greind er að mínu mati mun líklegri til árangurs fyrir heiminn í dag en sú greindarvísitala sem venjulega er mæld og ég held að hún muni skila mannlífinu sem heild meiri árangri en þeim sem við keppum svo stórlega að í dag.
Þannig að ég er líklega að segja með þessu pári mínu að árangur ætti að vera mældur með öðrum hætti en við gerum í dag, hvernig við önnumst hvert annað og hversu mikla umhyggju, ástúð og samkennd við höfum að gefa. Lítum til móður jarðar þar sem allt snýst um að gefa og þiggja þar leggst allt á eitt, eða það að vinna saman að því að endurreisa og næra, græða og byggja upp heildinni til handa.
Árangurinn fæst nefnilega ekki endilega einungis með útbólgnum bankabókum, steinsteypu, titlum og frægð heldur með samstöðu og samkennd.
Metum fegurð lífsins elskurnar og lifum eins og við ættum bara einn dag eftir ólifaðan til viðbótar og segjum bara og gerum það sem við vildum gera á þeim degi - alla daga.
xoxo
Ykkar Linda
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.5.2019 | 09:35
Breytingaskeið kvenna
Við konur sem komnar erum á mjög svo virðulegan aldur þekkjum margar hversu margt breytist hjá okkur þegar við förum á þetta svokallað "breytingaskeið kvenna" og ég segi fyrir mig að þetta ferli reyndist mér alveg skelfilega erfitt en sem betur fer er það misjafnt á milli kvenna hversu mörg og erfið einkenni þær fá..
Oft finnst mér gert lítið úr þessu tímabili og því miður er almenn þekking á því frekar þunn ennþá þó svo að það hafi kannski lagast heilmikið á síðasta áratug eða svo.
Þetta skeið okkar kvenna var allt saman sveipað dulúð fram á okkar tíma og ekki mátti tala um það nema í hálfum hljóðum. Samt erum við konur að finna allskonar einkenni sem hafa oft mikil áhrif á daglegt líf okkar, heilsu og líðan að ég tali ekki um þær breytingar sem verða á högum okkar margra í lífinu einnig á þessu sama tímabili. Börnin fara að heiman og barnabörn fæðast, möguleikar okkar kvenna á vinnumarkaði fara mjög dvínandi og nánast er vonlaust fyrir konur yfir fimmtugt að fá vinnu í dag virðist vera.
Mér þykir það mjög miður fyrir atvinnulífið,landið og heiminn allan, því að kraftur unga fólksins og reynsla hinna fullorðnu þurfa að haldast í hendur svo hægt sé að byggja upp heilbrigða þjóð og jafnvægi, þjóð sem skapar með þeim hætti góð skilyrði fyrir komandi kynslóðir.
En aftur að breytingaskeiðinu og minni líðan á meðan á því versta stóð (Skilst reyndar að þetta taki allt í allt um 20 ár).
Fyrir það fyrsta þá fann ég hvernig orka mín minnkaði á þessu tímabili og hvernig svefn minn flaug vængjaður út í buskann eða ég veit allavega ekki hvað varð af þessari svefnpurku sem ég var vön að vera á árum áður! Og þegar ég svo loksins náði að sofna þá var það eins og við manninn mælt að ég bókstaflega flaut úr úr rúminu í svitabaði nótt eftir nótt í nokkur ár. Venjulega erum við nú nógu ósmart svona nývöknuð en þetta tók út yfir allt og hafi ég einhvern tímann litið út eins og fuglahræða þá var það á þessum árum, blaut og úfin alla morgna í heila eilífð að mér fannst.
Og ekki nóg með svitaböð og svefnleysi heldur fór taugakerfið einnig í rúst. Ég held að ég hafi aldrei upplifað svona miklar breytingar á geðheilsu minni og urðu á þessum tíma.
Það er nú stundum gert grín að því að konur hafi tíu persónuleika, og já á þessum tíma var því þannig háttað með mig! Ekki var það þó þannig að ég gæti bara valið hvern sem ég vildi af þessum tíu, því að þeir létu einfaldlega illa að stjórn og það var aldrei að vita hverjum þú mættir hverju sinni.
Ég hef t.d aldrei upplifað fyrr né síðar að finna hvernig tilfinning eins og kvíði er beintengdur líkamanum og utan við sálina, og það var rosalega skrítin tilfinning að finna að þetta hafði ekkert með mig og mínar tilfinningar að gera heldur líkama minn!
Blæðingar urðu óstabílar í töluvert langan tíma og fyrirtækin sem framleiddu þungunarpróf græddu helling á viðskiptum mínum á þessum tíma, því að ég var skíthrædd oft á tíðum um að nú væri ég hreinlega orðin ófrísk og það var ég ekki til í á þessum aldri.
Það sem mér fannst þó verst var að mæta skilningsleysinu sem ég upplifði þegar ég leitaði læknisaðstoðar vegna kvíðans og allra þessara ómögulegu einkenna. Það voru allar hugsanlegar ástæður taldar til nema breytingaskeiðið sjálft (Sem var þó orsökin).
Það eru afar mismunandi einkenni sem fylgja þessum breytingum og einnig mismunandi hvort eða hvaða einkenni konur finna, en ég ætla svona til fróðleiks að telja upp nokkur þeirra hér þó að ég kannist ekki við þau öll sjálf.
Einkennin sem oftast eru talin upp eru t.d þunglyndi, kvíði, höfuðverkur, minnistruflanir, pirringur og óþolinmæði, hárið getur orðið leiðinlegt og blæðingar frá tanngómum geta átt sér stað. Þurrkur í kynfærum og óþægindi við samfarir eru algeng,og sviði við kynfæri og þvagrás eru það einnig.
Hárvöxtur í andliti eykst til muna okkur konum til mikils ama og leiðinda, og líklega eru mörg önnur einkenni sem fylgja þessum hormónasveiflum þó að þau séu ekki talin upp hér.
Síðan eru sjúkdómar sem við þurfum að passa okkur á og vera á varðbergi gagnvart, sjúkdómar eins og beinþynning og ýmsir hjartasjúkdómar láta oft á sér kræla á þessu tímabili og því þarf að huga extra vel að heilsunni.
En aftur að minni upplifun á þessu blessaða breytingaskeiði.
Árin liðu og einkennin dvínuðu en mér til mikillar furðu varð einnig ávinningur af þessu öllu saman.
Nú þekki ég t.d mun fleiri hliðar á persónu minni (allar tíu), er sterkari og veit betur hvað ég vill.(ætli það séu karlhormónarnir sem valda því?) Ég þekki líkamleg og sálarleg viðbrögð mín betur og ég veit einnig að ég get farið nánast í gegnum hvaða dal sem ég þarf að ganga í gegnum fyrst ég komst upp úr þessum.
Sjálfstraust mitt óx einnig verulega með öllu því góða sem því fylgir að treysta sjálfum sér og svona get ég haldið áfram, semsagt ávextirnir af óþægindunum urðu góðir.
Sumar okkar eru reyndar afar heppnar og finna vart fyrir einkennum þessa skeiðs og fljúga í gegnum þetta steinhissa á vælinu í vinkonum sínum, en þær sem fá alvarleg einkenni hafa sem betur fer í dag möguleika á allskonar hormónameðferðum sem ég því miður gat ekki nýtt mér. En elskurnar mínar ég hvet ykkur svo sannarlega til að nota þau úrræði sem í boði eru ef það gæti gefið ykkur bætta líðan og betri heilsu.
Ég vona að þessi upptalning mín og örlitla reynslusaga geti orðið þeim sem lesa að gagni, og ég vona að hún auki skilning þeirra sem eru í kringum konur sem staddar eru á stað flókins líkamlegs og sálarlegs ferlis sem ekkert grín er að fara í gegnum - og ég vona að þær fái stuðning og kærleika sem aldrei fyrr frá þeim sem elska þær.
Ég þykist vita að sá stuðningur, ásamt dassi af kærleika og uppbyggingu séu meðölin sem gætu hugsanlega stytt þetta ferli eða a.m.k gert það mun bærilegra.
Xoxo
Ykkar Linda
linda@manngildi.is
Linda Baldvinsdóttir
Markþjálfi/samskiptaráðgjafi/TRM áfallafræði 1 og 2.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.5.2019 | 13:52
Mamma
Mamma
Í dag er Mæðradagurinn og af því tilefni langar mig að skrifa nokkrar línur eða óð um okkur sem berum þennan titil "Mamma".
Ég á móður sem gaf mér lífið og fyrir það er ég henni alveg afskaplega þakklát. Ég veit sjálf hversu erfitt móðurhlutverkið er og hversu vanþakklátt það getur einnig verið og skil í raun ekki hvers vegna við leggjum allt þetta erfiði á okkur en segi af öllu hjarta takk mamma fyrir að gefa mér þessa dýrmætu gjöf lífsins og fyrir að vera þú með öllum þínum kostum og öllum þínum göllum.
Þegar ég hugsa um hlutverk mömmu í mínu lífi þá koma upp skemmtileg minningabrot sem munu líklega ylja mér um hjartaræturnar svo lengi sem ég lifi.
Minningar eins og þær að hún varð áhyggjufull í hvert skipti sem ég kom of seint heim eða var ekki í sjónlínunni. Það var mér til mikils ama á þessum tíma og lítinn skilning hafði ég á þessu áður en ég sjálf varð móðir.
Mamma sem ég var afar háð þegar ég var barn og unglingur, semsagt óttaleg mömmustelpa sem kúrði með í sófanum fyrir framan sjónvarpið og svaf uppí rúmi hjá fram eftir öllum aldri.
Mamma sem kenndi mér mikilvægi gestrisninnar þar sem allir voru velkomnir og engum var vísað á bug sem átti bágt. Ömmur mínar hafði hún heima hjá okkur þar til ég var orðin nokkuð stálpuð og vinir mínir voru ávallt meira en velkomnir. Fyrir þessa ómetanlegu kennslu í samkennd og umhyggju er ég og verð ávallt auðmjúklega þakklát.
Mamma sem gat spjallað við mig um alla heima og geima og ég man eftir stundum eins og þeim þegar við settumst niður til að hlusta á gömlu 78 og 45 snúninga plöturnar sem hún átti í fórum sínum, og ég fékk að heyra sögur eða minningar sem tilheyrðu hverju laginu á fætur öðru. Lögin hennar Connie Francis eins og "Lipstick on your collar" og "Frankie",öll lögin hans Tom Jones sem ég hef lúmskan grun um að hún hafi verið smá skotin í, Elvis og "Blue Hawai", Barbara Streisant með lagið sitt "People", Simon og Garfunkel og þeirra "Bridge over troubled water" og hennar uppáhald sem var "the Boxer". Fleiri og fleiri góðir tónar ómuðu um heimilið og sköpuðu dásamlegar minningar og tónlistarsmekk sem mótaði mig og ég bý enn að.
Mamma eldaði alltaf í hádeginu á Sunnudögum og það var yndislegt að vakna við lyktina af steikinni í ofninum og heyra í messunni í útvarpinu þó að matarlystin og viljinn til að fara á fætur væri nú ekki beysinn oft á tíðum hjá mér á unglingsárunum og mamma líklega ekki alltaf sátt við það.
Samband mæðgna þó gefandi sé getur verið snúið oft á tíðum og líklega er hvergi meiri fjölbreytni að finna í tilfinningaskala og samskiptum.
Í sjálfstæðisbaráttu ungra stúlkna og leit þeirra að eigin stefnum í lífinu finna þær mæðrum sínum oft allt til foráttu en enga elska þær þó meira og engum treysta þær betur fyrir afkvæmum sínum og lífi en einmitt þeim. Skemmtilegir kontrastar sem þetta mamma/dóttir/(sonur) býður uppá.
Ég er sjálf fyrir löngu síðan orðin móðir þriggja barna sem ég er afar stolt af og hugsa oft um undrandi og hálf ringluð hvað gerði ég svona rétt? merkilegt hvað hefur orðið úr þeim miðað við hversu mörg axasköft ég gerði í uppeldi þeirra! (þau hljóta að vera svona afskaplega vel gefin).
Dætur mínar eru einnig báðar orðnar mæður þannig að þessar þrjár kynslóðir kvenna sem gáfu börnum líf, mamma, ég og dæturnar tvær eigum semsagt þessa dýrmætu reynslu og titil sameiginlegan eða það að vera "Móðir". Ég dáist í dag að því hversu góðar kærleiksríkar og umhyggjusamar mæður þær eru og hjarta mitt fyllist stolti þegar ég sé allt það fallega sem þær geyma í brjósti sér.
Lífið er að mínu mati ein dýrmætasta gjöf sem við getum gefið þrátt fyrir erfiðleika ferðalagsins sem sú gjöf býður stundum uppá og ekki hefði ég viljað sjálf verða af þeim verkefnum sem mótuðu mig og gerðu mig að þeirri sem ég er í dag og er sátt við, og ég veit að allir fá sín verkefni til mótunar og betrunar.
Við mæður erum líklega flestar tilbúnar að vaða eld og brennistein fyrir börnin okkar sem jú auðvitað eru stórkostlegustu mannverur sem hafa gist þessa jörð og við höfum stöðugar áhyggjur af velferð þeirra, heilsu og hamingju.
Stoltið sem við finnum við fyrsta bros, hjal og aðrar framfarir ungviðisins gera andvökunæturnar, fæðingahríðirnar og allt annað að hjómi einu og hjarta okkar brestur af kærleika í hvert sinn sem við lítum í saklaus augu þeirra og sjáum kraftaverk lífsins speglast þar.
Þegar þau svo óhjákvæmilega lenda í erfiðleikum á ferð sinni um lífið finnum við til í hjarta okkar og vildum svo mikið getað bjargað þeim frá öllu lífsins böli og finnum okkur svo vanmáttugar og litlar þegar þau ganga í gegnum dimmu dalina.
Gleðin hinsvegar sem flæðir um æðar okkar þegar vel gengur hjá þeim og alsælan sem við finnum þegar þau vaxa úr grasi og allt gengur vel hjá þeim eru þau verðlaun sem við vonumst líklega allar eftir að öðlast og fáum sem betur fer margar að upplifa.
Eitt get ég sagt með sanni sagt, ég er svo afar þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri á því að bera þennan titil "mamma" og er afar stolt af honum og ekki síður að þeim titli að fá síðan að verða "amma" sem eru aðal verðlaunin mín að mér finnst.
En að lokum. Ég elska mömmu mína og hefði ekki viljað eiga neina aðra mömmu, og segi enn og aftur - takk mamma fyrir allar fórnirnar, gleðina, kennsluna og allt hitt.
Móðurhlutverkið í mínum huga ber hinn sanna djúpa kærleika og einingu sem ekkert fær grandað, og við heiðrum það á þessum degi mæðra.
Innilega til hamingju með daginn þið dásamlegu mæður Íslands, heill sé ykkur sem lífið gefa.
Xoxo
Ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
Markþjálfi/Samskiptaráðgjafi/TRM áfallafræði.
linda@manngildi.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.4.2019 | 00:05
Sorgin og gleðin eru systur tvær
Ég eins og flestir upplifi sorgartímabil í mínu lífi. En það er misjafnt hver sorgarefni mín eða okkar allra eru, listinn er langur og missir maka, barns, foreldra, vina eða lífs sem við áttum, vinnu sem við misstum eða hlutverka sem við höfðum í lífinu og svo fr.
Á þessum tímabilum lífs okkar finnum við fyrir tilfinningum sem við oft á tíðum skiljum varla til fulls og finnst óraunverulegar.
það er svo merkilegt að um daginn upplifði ég ekki ósvipaðar tilfinningar þegar barnabörnin mín fæddust og þær tilfinningar sem fylgja þegar ég hef misst ættingja eða vini. Undarlegt - eða kannski fann ég bara þessa skrítnu tilfinningu sem fylgir því að horfa á náttúruna í öllu sínu veldi og vita að bæði lífið og dauðinn lýtur lögmálum hennar.
Eins og ég sagði hér að framan þá hef ég misst með margskonar hætti á minni lífsleið, foreldri, ömmur og afa, áhrifavalda, vini, líf sem ég hélt að ég ætti öruggt og fleira og fleira, en sorgarferlið í öllum þessum aðstæðum er líklega ekkert svo ósvipað þegar allt kemur til alls.
Við misreiknum okkur stundum og höldum að það sé hægt að flokka sorgina niður í mismunandi erfiða sorgarflokka og svo ég nefni eitthvert dæmi til að útskýra mál mitt þá er oft talið erfiðara að missa maka en að ganga í gegnum hjónaskilnað en því fer fjarri skilst mér á þeim sem gengið hafa í gegnum hvoru tveggja.
Annað ferlið er viðurkennt sorgarferli og stuðningur er veittur á ýmsan hátt en hitt er einungis viðurkennt sem millibilsástand á milli þess að finna annan maka og við ættum bara að hafa það gaman á meðan við erum að finna annan aðila.
Við íslendingar eigum nokkur ágætis orðatiltæki sem lýsa þessu viðhorfi vel eða máltæki á við "alltaf má fá annað skip og annað föruneyti" og "það er nóg af fiskum í sjónum" eru alþekkt, en þetta fáum við hin einhleypu oft að heyra og engum dettur í hug að það fylgi slitum á samböndum/hjónaböndum sorgarferli sem tekur sinn tíma að vinna úr og líf sem þarf að byggja upp að nýju.
Með þessum skrifum mínum ætla ég ekki að gera lítið úr makamissi eða segja að allir sem slíta samböndum séu á sama stað í sorg sinni og sá sem missir, en stundum er það þannig og breytingin á lífinu oft með svipuðum hætti.
En það er svo skrítið með sorgarferlið hvar sem ég ber niður hvað mig varðar a.m.k. þegar dauðann ber að garði að það eru yfirleitt þær kærleiksríku stundir sem uppúr standa þegar á allt er litið og þá er eins og hann mái út alla misklíð og særindi og eftir standa góðu og gefandi stundirnar sem ég átti með viðkomandi.
Þetta segir mér í raun að kærleikurinn sigri alltaf að lokum og að hann sé kannski það eina sem skiptir máli þegar öllu er á botninn hvolft. Það segir mér einnig að hann sé aflið sem sigrar heiminn en ekki hatrið eins og segir í Eurovision texta íslenska framlagsins í ár.
Mikið vildi ég að mér hefði auðnast að sýna kærleika minn í meiri mæli og efla þær stundir sem ég hefði getað átt með þeim sem skiptu mig máli þegar ég hafði tíma til þess, þennan dýrmæta tíma sem við vanmetum svo oft og höldum að við eigum óþrjótandi byrgðir af en reynast svo eftir allt vera afar fátæklegar mínútur í tímans hafi.
Hversu auðveldari væri aðskilnaður líklega af öllu tagi ef við værum viss um að við hefðum alltaf gert okkar besta til að sýna og gefa af okkur allt það sem best væri að finna innst í brjósti okkar og að okkur hefði verið svarað á sama hátt?
Af minni reynslu segi ég hiklaust að það hefur breytt öllu fyrir mig í aðskilnaði og missi að vita að ég gerði mitt til að reynast vel og að gefa það sem ég átti í hjarta mér.
En sorgin þessi eilífðar dans lífsins við gleðina heldur áfram og mun halda áfram að gefa okkur verkefnin og þá skiptir öllu að viðurkenna staðreynd dansins fyrir það fyrsta, njóta síðan gleðinnar þegar hún gefst. Takast síðan á við sorgina og vinna úr henni á eins fallegan og gefandi hátt og við erum fær um hverju sinni.
En þau ráð sem hafa gagnast mér best þegar gleðin hverfur á bak við skýin og sorgin bankar uppá eru eftirfarandi:
1 - Viðurkenndu staðreyndina og leyfðu þér að finna til allra tilfinninga,(það má), og tárin bera með sér lækningahormón sem linar og líknar.
2 - Leyfðu þér að finna allar litlu gleðistundirnar í lífinu þrátt fyrir sorgina og mundu að hláturinn og það að njóta er einnig læknandi afl.
3 - Styrktu böndin við þá sem þér þykir vænt um og þá sem lyfta þér upp.
4 - Ræddu um sorg þína við þá sem þú treystir fyrir tilfinningum þínum.
5 - Haltu í vonina um að einnig þetta samverki þér til góðs að lokum.
6 - Skapaðu ögrandi uppbyggjandi aðstæður inn í líf þitt,aðstæður sem þér hefði aldrei dottið í hug að þú gætir afrekað að framkvæma.
7 - Leitaðu að tengingu þinni við Guð eða þinn æðri mátt og lifðu innan frá og út, því að það má ekki gleyma andlegu hliðinni því að þar er kjarni okkar.
8 - Láttu aðra njóta góðs af lærdómnum sem reynslan gaf þér og styrktu þann sem þarfnast þín í glímunni við lífsins verkefni.
9 - Haltu áfram og stattu upp í hvert sinn sem þér finnst þú ekki getað staðið upp og lifðu einn dag í einu þar til þú lifnar á ný.
10- Mundu svo að þakka fyrir reynsluna, minningarnar og gleðina sem þú ert að gráta eða eins og segir í spámanninum eftir Kalihl Gibran -
"Þegar þú ert sorgmæddur, skoðaðu þá huga þinn og þú munt sjá, að þú grætur vegna þess, sem var gleði þín"
Þar til næst elskurnar munið að kærleikurinn og samstaðan er aflið sem sigrar allt,
xoxo
ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
Markþjálfi/Samskiptaþjálfi/TRM áfallafræði
linda@manngildi.is
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Linda Baldvinsdóttir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar