9.4.2019 | 14:37
Roseto áhrifin
Um daginn las ég grein eftir Dr, John Day hjartalækni sem heldur úti síðunni https://drjohnday.com. Greinin fjallaði um það hvernig við gætum eignast skothelt hjarta og ég ætla að stelast til að taka aðalatriðin úr þeirri grein og færa þau atriði í minn stíl.
Greinin vakti athygli mína einkum fyrir það að vera sammála mínum skoðunum um hversu mikil áhrif okkar samfélagslega gerð hefur á heilsu okkar til anda sálar og líkama, og hverju við höfum verið að kasta frá okkur fyrir heimsins gæði eftir ca 1950.
Árið 1961 þegar hjartasjúkdómar komust í hæstu hæðir í Bandaríkjunum og einmannaleikinn fór vaxandi (Samkvæmt könnun sem ég rakst á um daginn) tók læknir einn í Roseto þorpinu eftir því að hjartasjúkdómar voru ekki þekktir í þessu litla þorpi og lét hann Dr Wolf sem starfaði í Háskólanum í Oklahoma vita af þessu og fékk hann ásamt fleiri rannsóknaraðilum áhuga á því að kanna málið frekar.
Allir þorpsbúar voru fengnir til að taka þátt í rannsókninni og allt á milli himins og jarðar var kannað. Blóðprufur, matarræði og hvernig þeir höguðu lífi sínu var athugað.
Og eftir nokkur ár eða árið 1964 birtust niðurstöðurnar úr þessari rannsókn í Tímariti the American Medical Association.
Í ljós kom að hinir Ítölsku íbúar Roseto borðuðu ekki rétt og voru í yfirvikt. Þeir reyktu, voru með hátt kólesteról, bjuggu við mikla mengun en samt voru þeir í helmingi minni áhættu á því að fá hjartasjúkdóma en aðrir íbúar landsins, eða virtust varðir fyrir þeim með einhverjum hætti.
Rannsakendur urðu furðu lostnir og fóru að leita að skýringum.
Í ljós kom að þessir Ítölsku innflytjendur höfðu haldið félagslegum grunni sínum óbreyttum frá því að þeir fluttu frá Ítalíu til fyrirheitna landsins eða allt frá árinu 1882.
Þorpið var frekar einangrað og þeir giftust ekki út fyrir þorpið, héldu sig út af fyrir sig eða frá þorpunum í kring, lofuðu Guð, versluðu í heimabyggð og þrjár kynslóðir bjuggu saman undir sama þaki. Þeir semsagt gengu gömlu göturnar þrátt fyrir allar þjóðfélagslegu breytingarnar sem urðu á árunum eftir stríð, götur sem við Íslendingar gerðum einnig lengi vel og gerum kannski vonandi að einhverju leiti enn.
Það voru einkum fjórir þættir sem virtust vera orsökin fyrir þessari vörn gegn hjartasjúkdómunum þorpsbúanna en þeir voru sem hér segir:
1. Fjölskyldulíf
Fyrir þessa Ítala var fjölskyldan allt. Kynslóðirnar bjuggu saman og þeir önnuðust hvern annan á allan hátt. Fjölmargar rannsóknir virðast vera sammála þessum niðurstöðum Roseta rannsóknarinnar því að gott hjónaband og sterk fjölskyldubönd virðast fækka hjartaáföllum samkvæmt þeim nýjustu og því ættum við að viðhalda og styrkja þessi bönd á allan hátt.
2. Andleg rækt og trú.
Ítalirnir voru kirkjuræknir og fóru í kirkju á hverjum sunnudegi og voru afar andlega sinnaðir með kristin gildi að leiðarljósi og önnuðust náunga sinn eins og sjálfan sig.
Í dag vitum við að það að hafa góð gildi í lífi okkar og að annast okkar innri mann er það sem gefur okkur frið og ró í erli daganna, þannig að þetta eru svosem ekki nýjar fréttir fyrir okkur. Samt er það eitthvað sem við mættum huga betur að og kannski leyfa trúnni að komast í tísku aftur þar sem hún hefur góð samfélagsleg gildi og sú andlega rækt sem fylgir hefur góð áhrif á heilsu okkar á margan hátt.
3. Sterkt samfélag
Þeir sem áttu meira en aðrir í Roseto voru ekkert að berast á og í raun höfðu þeir ekki hugmynd um það hver var ríkur eða fátækur þeirra á meðal og lífsgæðakapphlaupið þekktist ekki. það þótti meira að segja ekki fínt að láta á því bera ef þú áttir meira en aðrir. Samfélagið annaðist alla og samábyrgðin var algjör. Ef einhver var í neyð kom allt þorpið til aðstoðar og allir litu á sig sem systkyni hvers annars.
4. Lágt streituhlutfall
Að sleppa tökunum og láta áhyggjur og örlög sín í Guðs hendur var það sem lækkaði streitustuðul Ítalanna og þeir vissu að hvað sem gerðist í fjölskyldu þeirra eða samfélaginu yrði alltaf til staðar aðstoð við þá. Og áhugavert var að það þekktust ekki glæpir í þessu litla samfélagi.
Streita er eitthvað sem við þekkjum vel í dag og í raun er streitan að sliga okkur og gera okkur veik (og auka líkur á hjartaáföllum) Þannig að uppskrift Dr Johns sú að við ættum bara að vera ánægð með að hafa traust þak yfir höfuðið, nægan mat og ástrík samskipti. Hin fullkomna uppskrift að heilbrigðu nægjusömu lífi kannski fundin í þessu litla innflytjenda þorpi.
Er þetta ekki dásamlegt samfélag sem þeir byggðu sér þarna í Roseto? Það er mín skoðun að þeir hafi þarna fundið hina fullkomnu leið til að hámarka gæði lífsins og sú gamla gata sé eitthvað sem vert er að hafa í huga þegar við tökum ákvarðanir varðandi það hvernig samfélag við viljum byggja að mínu mati a.m.k.
En hvernig er Roseto í dag? Sagan endar því miður ekki eins og í ævintýrunum því að þeir fóru að giftast út fyrir þorpið og skilnaðir jukust. Trúariðkunin dalaði og varð ekki það lím sem hún áður var og lífsgæðakapphlaupið varð með svipuðum hætti og í öðrum bæjum og borgum Bandaríkjanna þannig að í kringum 1970 varð þetta skothelda hjarta sem þeir áttu áður í sama áhættuhópi og þekktist annarstaðar.
"Roseto áhrifin" standa þó enn sem lýsandi viti fyrir okkur til að fara eftir. Góð fjölskyldutengsl, andlega lifað líf, að annast náungann og minnka stressið er leiðin ef við viljum losna við fjölmarga sjúkdóma og eignast skothelt hjarta segir Dr John og ég segi bara Amen við því!
Þar til næst elskurnar,
xoxo
Ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
Markþjálfi/Samskiptaþjálfi/TRM áfallafræði
linda@manngildi.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.3.2019 | 12:47
Kulnun og átta átta átta aðferðin
Það er mjög vinsælt að tala um kulnun í dag og allskonar aðferðir sem eru nefndar sem leiðir út úr þessu ástandi og tel ég að leiðin út sé í sjálfu sér mjög einföld en ekki endilega auðveld. Þetta er eins og með megrunina, við vitum að við þurfum aðeins að passa fæðuna og hreyfa okkur til að ná árangri en það er ekkert endilega svo auðvelt samt.
Til að okkur líði sem best er afar mikilvægt að við sköpum okkur jafnvægi í lífinu og 8-8-8 reglan er bara regla sem virkar vel inn í þessar aðstæður þó að kannski þurfi fleiri þættir að koma inn og spila með, en þó að við gætum bara farið eftir þessari einu reglu erum við þó að minnka álagið töluvert og erum að ná töluverðum árangri.
En hver er svo þessi 8-8-8 regla?
Jú hún er sú að við skiptum sólarhringnum upp í 8 tíma vinnu - 8 tíma svefn og notum svo 8 tíma í að njóta lífsins fyrir okkur.
Að njóta er afar vanmetið fyrirbæri í dag og flestar lausnir sem við einblínum á þegar við erum útbrunnin og illa haldin er að auka við okkur í ræktinni, taka Keto kúr eða eitthvað sem snýr að líkamlegri líðan okkar en gleymum þeirri andlegu og sálarlegu sem þó skipta ekki minna máli.
Líkamlegu einkennin stafa oft af vannærðum anda okkar og við einfaldlega kunnum ekki að skoða andann með sama hætti og líkamann þó að alltaf séu sem betur fer að koma nýjar og nýjar vísbendingar frá áreiðanlegum heimildum sem tala um að stór hluti okkar líkamlegu sjúkdóma stafi af andlegum meinsemdum.
En hvað er svo vannærður andi?
Vannærður andi er andi sem gefur sér ekki andrými til þess að vera til og njóta augnablikanna í gleði og jafnvægi og gerir sér jafnvel alls ekki grein fyrir því að hann fái ekki rétta næringu, og ef ég ætti að setja það í eitthvert samhengi þá er það svipað og þegar við erum vannærð á líkama okkar (anorexía t.d)en tökum ekki eftir einkennunum fyrr en of seint og lítum okkur skökkum augum.
Gamlar meinsemdir eða pokarnir sem við berum á bakinu hafa einnig mikil áhrif á streitu okkar og geðslag þannig að það er einn hluti þess að hafa jafnvægið í lagi að losa sig við eins mikið og hægt er, og setja gamlar syndir drýgðar af okkur eða öðrum þar sem þær eiga heima - eða í fortíðinni en ekki núinu. Það eina sem gerist hjá okkur þegar við höldum í þessa gömlu fortíðardrauga er að við erum full gremju, vanmáttar, sjáum ekki að lífið geti fært okkur eitthvað annað en vonbrigði og sársauka, festumst í hugsunum sem vekja vonda líðan og stígum því ekki fram í framtíðina eins og barn sem er bara alveg visst um að þetta klikki ekki og að heimurinn hafi bara verið skapaður fyrir það.
Við þurfum semsagt að eignast barnslegt traust og trú á að allt sé og fari eins og því er ætlað og að okkur sé ætlað bara eitthvað betra á framtíðarvegi okkar.
Þetta hljómar örugglega eins og eitthvað hókus pókus ævintýri og ég sé hvernig sumir fussa og sveia yfir þessari einföldun á flóknu tilfinningalífi og áföllum, en þegar allt kemur til alls þá er það einmitt það sem gert er í bataferli einstaklings sem leitar sér aðstoðar eða það að losa sig við afleiðingar atburða og halda áfram.
Ég hef sjálf gengið í gegnum sársauka og borið hann á bakinu en þegar ég hef sleppt tökunum og óskað viðkomandi blessunar og þakka þeim sem gerðu mér mein að mínu mati fyrir lærdóminn sem ég tek með mér þá losnar um svo margt og lífið verður svo miklu ljúfara fyrir vikið og ég reynslunni ríkari.
Núna ætla ég þó að stoppa þrátt fyrir að ég gæti talað um jafnvægi í allan dag og leiðir til að dvelja þar Þá ætla ég að láta staðar numið hér en hvetja ykkur hinsvegar öll til að skoða hvað það væri sem gæfi ykkur raunverulega gleði ef þið leyfðuð ykkur að leita inn á við? hverskona hamingju? hvað gæfi ykkur ró? fegurð? visku? ástríðu o.s.f og sækið þangað í stað þess að grafa ykkur í vinnu og streitutengdum lífsmáta.
Og eins og alltaf er ég bara einni tímapöntun í burtu ef þú telur að ég geti aðstoðað þig við lífsins verkefni.
xoxo Ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
Markþjálfi,Let samskiptafræði, TRM áfallafræði.
linda@manngildi.is
Bloggar | Breytt 26.3.2019 kl. 00:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.3.2019 | 16:28
Ég er ekki góður feministi
Ég er ekki góður femínisti - En ekki misskilja mig, ég styð fullkomlega jafnréttisstefnu í launamálum, ráðningamálum, menntamálum og öðrum málum þar sem konur og karlar koma jafnt að hlutunum. Ég hafna líka ofbeldi gegn konum og í raun ofbeldi gegn allt og öllum og krefst virðingar fyrir persónu minni og annarra.
En ég er líklega ekki góður femínisti í fullum skilningi þess orðs eins og það er notað í dag amk.
Mér finnst við hafa gleymt að við konur höfum þá sérstöðu að við einar getum fætt af okkur börn sem er eitt mikilvægasta starf veraldar og það starf sem mótar mest framtíð heimsins alls. Í dag er ekki valkostur að velja það starf sem fullt starf á launum. Við hinsvegar getum valið að verða lögfræðingar,læknar,leikskólakennarar og hvað það nú er sem við veljum að starfa við og þiggjum laun fyrir það, en móðurhluverkið er enn að mestu ólaunað starf.
Ég er orðin nægjanlega gömul til að segja bara það sem mér finnst og þarf ekkert að hafa áhyggjur af því hvað verður sagt við því, en ég ætla að byrja á að tala um það sem mín kynslóð gleymdi að taka inn í dæmið.
Við hefðum kannski átt að krefjast þess að móðurhlutverkið yrði litið sem fullgilt starf launað á við störf forstjóra og bankastjóra og gefa því þann virðingastuðul sem það á svo sannarlega rétt á. Ef við hefðum farið fram á að virðing væri borin fyrir þessu mikilvæga starfi hefðum við getað valið það sem aðalstarf og menntað okkur í því að verða gott foreldri.
En við hreinlega gleymdum því í baráttu okkar að það skiptir afar miklu máli að ala börn upp í skjóli kærleika frá foreldrum og ættingjum og í raun tekur það heilt þorp að ala upp einstakling. Í leit okkar að jafnrétti og kvenréttindum gleymdum við þessari sérstöðu okkar kvenna -semsagt að það er okkar að fjölga mannkyninu og kenna því kærleiksrík og innihaldsrík samskipti. Hvers vegna kröfðumst við ekki að það væri metið til jafns við önnur mikilvæg störf, ég hreinlega skil það ekki og þykir það afar miður.
Var þetta stefnan í upphafi? Gleymdum við því að það er fullt starf en ekki hlutastarf að ala upp og annast framtíðarþegna þjóðfélagsins eða fannst okkur sjálfum það bara svo lítils virði að vera "bara" móðir og húsmóðir?
Við hömuðumst eins og enginn væri morgundagurinn við að sýna að við gætum skipt um dekk, neglt og borað í veggi og gætum svo sannarlega gert allt eins vel og karlmaður. En til hvers? Er ekki í lagi að við séum ólík og höfum ólíkum hlutverkum að gegna? Og er ekki í lagi að halda sérstöðunni sem enginn getur neitað að við höfum þar sem karlkyninu var ekki ætlað að ganga með börn og fæða þau og ég spyr mig hvers vegna förum við gegn náttúrunni í þessu, höldum við virkilega að það virki betur í þessum efnum en öðrum þar sem við höfum reynt að sigra hana?
Við ölum börnin okkar upp í því að allir séu eins en samt vitum við að kynin eru afar ólík að byggingu og ef ég nefni sem dæmi þá eru vöðvakerfi okkar og heilar mjög ólíkir.
Og hvað höfum við svo grætt á því að fara þessa leið?
Að mínu mati græddum við jú kosningarétt, menntunartækifæri, og virðingu fyrir ákveðnum þáttum, en við fengum líka erfið verkefni til að glíma við, og létum af mörgu sem var ekki til góðs að mínu mati.
Við erum með fullt af ungum mönnum í tilvistarkreppu, börn sem hafa ekki fengið það atlæti sem heimilið eitt getur gefið þeim að veganesti út í lífið, yfirkeyrða foreldra og jafnvel mæður sem þurfa að vera inni í ómögulegum samböndum vegna fjárhagsstöðu sinnar (þeirri breytingu höfum við ekki náð).
Mín einlæga trú er sú að margar þær greiningar sem börn fá í dag tengist lélegri tengslamyndun, löngum vinnudegi og streitu nútímaþjóðfélags sem gleymdi þörfum þeirra fyrir umönnun og kærleiksríkan aga þeirra sem elska þau. Með okkar kvennabaráttu græddum við líka þreytt fólk (Rannsóknir virðast benda til þess að vinnuálag á konur hafi einungis aukist miðað við vinnuálag karla)sem er að reyna að standa undir þeim kröfum að þurfa að vera ofurkonur og ofurmenn. Við erum með fullt af önnum köfnum foreldrum sem geta aldrei, hversu mikið sem þau vilja, gefið börnum sínum nægjanlega athygli né tíma, vegna anna utan heimilisins.
Börn eru allt of oft komin með fullan vinnudag á fyrsta eða öðru ári lífs síns. Þau þurfa síðan líklega oft að upplifa streituna sem fylgir því að þræða stórar verslunarmiðstöðvar eða fullar matvöruverslanir að loknum þeim vinnudegi. Síðan eru þau sett fyrir framan sjónvarp eða tölvur á meðan þreyttir foreldrarnir útbúa mat og gera það sem nauðsynlegast er hverju sinni á heimilinu, allir þreyttir og útkeyrðir. Fáar gæðastundir sem fjölskyldan fær. Rannsóknir sýna að foreldrar tala töluvert minna við börn sín í dag en þeir gerðu fyrir tíu árum síðan, sorgleg staðreynd og eins sú staðreynd að þrátt fyrir allt afþreyingaefni hefur einmannaleiki aukist svo um munar á undanförnum áratugum í okkar vestræna heimi.
Við konur höfum einnig viljað breyta mönnunum og hafa þá mjúka og fjölhæfa á heimili og í barnauppeldi, en erum við svo ánægðar með þá þannig? Viljum við í raun þessa mjúku menn? Ekki virðist svo vera miðað við týpurnar sem heilla okkur mest í bókmenntum og bíómyndum. Fimmtíu gráir skuggar heilluðu konur um allan heim og voru seldir bílfarmar af þeirri bók hvar sem hún var til sölu. Og flestar féllum við fyrir þessum lokaða dularfulla manni sem hafði ekkert að gefa annað en hunsun og ofbeldisfullan hroka. Ekki átti hann nánd og virðingu eða kærleika til að gefa a.m.k. Eins er það með rauðu ástarsögurnar sem seldust vel síðustu áratugina og gera enn. Og mér er spurn - erum við á villigötum? Getur verið að við höfum farið einhverjar leiðir sem eru svo ekki að virka þegar allt kemur til alls eða eru þetta fæðingahríðir nýrra tíma, ég spyr mig?
Hvað ef við hefðum bara farið fram á að vera metnar til jafns við karlmennina en hefðum fengið að halda sérstöðu okkar á sama tíma eins og öðrum titlum sem menntun og sérhæfing gefur af sér? Hvað ef karlmenn mættu ennþá negla í veggi fyrir okkur, skipta um ljósaperur og dekk, mála veggi og þrífa bílinn? Hvað ef við mættum ætlast til þess að þeir opnuðu fyrir okkur bílhurðina, og færu úr frakkanum til að okkur verði ekki kalt? Hvað ef við konur hefðum mátt vera mæður sem væru stoltar af því að vera að ala upp hæfa einstaklinga til að taka við þjóðfélaginu og hefðum mátt vera "bara húsmæður" á forstjóralaunum?
Það var fyrir nokkrum árum að ung stúlka sem skrifaði fyrir Fréttablaðið varð fyrir miklu aðkasti fyrir það eitt að skrifa grein um að hún hefði beðið á bensínstöð eftir því að karlmaður kæmi henni til aðstoðar við að pumpa lofti í dekkin á bílnum hennar. Þjóðfélagið fór á hvolf og stelpan flúði land ( veit reyndar ekki hvort að það var vegna þessa máls :)) Og um daginn varð ég fyrir því sjálf á bensínstöð að starfsmaðurinn fór að kvarta yfir því að ég kynni ekki að athuga með olíu og slíkt. Ég hef reyndar bara ekki nokkurn áhuga á því að læra þessa hluti og fer á bensínstöð til að láta menn sjá um þessa leiðindahluti fyrir mig. Ég hefði líklega átt að athuga hvort hann kynni ekki örugglega að bródera,hekla og baka!
Mér verður nú stundum á að hugsa hvort að við hefðum kannski farið offörum í femíniskri baráttu okkar? Sumt var gott og þarft, en annað hafði að mínu mati afar slæm áhrif á þjóðfélagsgerð okkar, sambönd og heimilislíf.
Að opna á stöðu kvenna var þarft, að opna á umræður um kynferðisofbeldi,heimilisofbeldi og launamismun var þarft og að konur hefðu tækifæri til menntunar og stöðuveitinga var þarft, en móðurhlutverkið var einnig mjög þarft að setja á réttan stall og meta það til jafns við önnur mikilvæg störf samfélagsins, en ég og þær konur sem vorum ungar í byrjun kvennabaráttunnar gleymdum þessum atriðum og ég tel að við séum að sjá uppskeruna af þeirri sáningu mjög víða í samfélaginu - kannski höfðu gömlu göturnar og gildin eitthvað gott að geyma eftir allt.
Þetta eru þó bara mínar hugleiðingar og skoðanir á því sem gleymdist eða glataðist og þú þarft ekki að vera sammála mér, en það vill svo til að ég veit að það eru margar konur þarna úti sem eru afar fegnar að einhver þori að segja þessa hluti á öðrum vettvangi en við skrifborðið sitt útkeyrðar ofhlaðnar og því miður oft í burnout ástandi.
Svo gerum eins og fyrirtækin telja yfirleitt sjálfsagt að gera eða það að endurskoða stefnuna reglulega og nota það sem hefur reynst vel, en finnum lausnir á þeim atriðum sem eru ekki að virka.
Danir eru að endurskipuleggja þessi mál hjá sér og eru að gera tilraunir sem virðast vekja lukku en það er t.d það að afar og ömmur búi í kringum börnin sín og sjái þannig einnig um barnabörnin (samt í sér íbúðum) og það held ég að sé einnig einn af þeim hlutum sem við létum frá okkur að nokkru ef ekki öllu leiti. Í dag eru ömmur og afar ennþá skvísur og gæjar sem eru að halda sér til fyrir bæði vinnumarkaðinn og markað hinna fráskildu og hafa kannski því miður ekki mikið af barnabörnum og börnum að segja. Ég þekki það sjálf að hafa alist upp með ömmum mínum og eru dýrmætustu æskuminningar mínar tengdar samverustundum með þeim og viska þeirra hefur reynst mér gott leiðarljós á vegi mínum. Þannig að:
Ég er ekki að skamma neinn með þessu pári mínu, ég veit að allir eru að gera sitt besta miðað við aðstæðurnar í þjóðfélaginu og ég er ekki heldur að segja að allir eigi að velja móðurhlutverkið umfram menntun og forstjórasætið, en ef þú vilt velja það - þá á það að vera metið að verðleikum í þjóðfélagi okkar.
Stingum ekki höfðinu í sandinn eins og strúturinn og látum eins og við sjáum þetta ekki, horfum á einmannaleikann í heiminum, horfum á aukinn kvíða hjá börnum okkar og tökum á þessum burnout málum allra. Það eru heilu kynslóðirnar sem eiga allt sitt undir þeim ákvörðunum og þjóðfélagsskipulagi sem við sköpum - svo sköpum fallegar og gefandi aðstæður fyrir þá sem skipta okkur máli.
Og ef þú telur að ég geti með einhverjum hætti aðstoðað þig á þinni leið þá er ég einungis einni tímapöntun í burtu.
xoxo
Ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
Samskipta
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.2.2019 | 13:53
Ég hugsa og þess vegna er ég.
Það er ekkert mikilvægara en það að læra að stjórna hugsunum sínum inni í aðstæðum og skapa þannig karakter okkar, vellíðan og lífið í leiðinni, og ég get ekki annað en sagt við ykkur ef þið viljið gefa ykkur eina gjöf gætið þá vel að hugsun ykkar og gætið þess að hugsunin skapi það sem gott er og fallegt fyrir líf ykkar. Munið líka að hugsunin kveikir á eða dregur úr boðefnaflæði í heilanum og þar með hefur hugsunin áhrif á líkamlega líðan okkar sem og þá andlegu.
Að sögn rannsakenda eru flestir þeir sjúkdómar sem við erum að fást við í dag eða um 75-80 prósent þeirra sem virðast stafa af röngum hugsanahætti okkar og tilfinningum sem valda skaða í líkama okkar. Það sem við hugsum um hefur semsagt áhrif á okkur bæði líkamlega og andlega, og í raun vekur tilfinning eins og ótti yfir 1400 þekkt líkamleg viðbrögð og boðefni í líkama okkar las ég um daginn og þar með einnig áhrif á meira en þrjátíu mismunandi tegundir hormóna. Sel þetta ekki dýrara en ég keypti þetta en skuggalegt er það ef satt reynist!
Samkvæmt tölum frá rannsóknastofu taugamyndunardeildar háskólans í Suður Californiu er talið að allt að 48.6 hugsanir fari um kollinn okkar á hverri mínútu sem þýðir að allt að 70,000 hugsanir fara í gegn um huga okkar daglega og þar af er talið að allt að 98 % þeirra hugsana séu neikvæðar eða ósjálfráðar og endurteknar. Ekkert smá magn hugsana sem fer um kollinn okkar alla daga!
Heilinn okkar þessi undrasmíði er okkar aðal hjálpartæki í lífinu og hlutverk hans er að verja okkur fyrir öllu því sem talist getur hættulegt lífi okkar og limum með einum eða öðrum hætti og halda okkur á öruggu vellíðanarleiðinni, og því er ekki undarlegt að megnið af okkar hugsunum verði af neikvæðum eða óttablöndnum toga svo að heilinn vinni nú sitt verk af kostgæfni og verji okkur sem best fyrir öllum þessum aðsteðjandi hættum, bæði þeim sem hættulegar eru andlegri heilsu okkar sem og þeirri líkamlegu.
Það tekur þó heilann u.þ.b 25 ár að þroskast að fullu og skýrir það kannski ýmislegt sem gekk á þegar við vorum yngri!
Þeir sem þjást af kvíða og þunglyndi t.d.gera sér oft ekki grein fyrir því hversu margar neikvæðar hugsanir fara um koll þeirra dag hvern og því síður gera þeir sér grein fyrir því að þeir geta haft áhrif á líðan sína með því að breyta hugsunum sínum með markvissum hætti sem er ekki nema von þar sem sjálfvirkar hugsanir eru líklega fyrirferðamestar og valda truflun.
Hugsanir eins og ég get ekki, kann ekki, þetta er ekki hægt og ég er ekki nóg fyrir þetta, hafa meiri áhrif en við gerum okkur stundum grein fyrir þar sem við trúum yfirleitt hugsunum okkar og lítum á þær sem sannleikann sjálfan í allri sinni mynd. Hugsanir hinsvegar hafa afar mismunandi merkingar hjá hverjum og einum, og einstaklingar geta upplifað sömu hugsanir og atburði með misjöfnum hætti allt eftir merkingu orðanna í reynslubanka þeirra, tilfinningalífi og lífssögu.
Það er talið að það taki okkur um 63 daga að skapa nýja venjubraut í heila okkar og er það gert með því að æfa sig á nýjum hugsunum sem leysa þær gömlu af hólmi og þannig verður smá saman til ný sýn og ný viðhorf, en þó að það taki 63 daga að mynda þessar nýju brautir þýðir það ekki að við séum bara komin með þetta elskurnar því að alveg eins og með líkamlegu ræktina þurfum við sífellt að vera að viðhalda þessum nýju brautum (vöðvum).
Nasa geimvísindastofnun Bandaríkjanna gerði áhugaverða tilraun á geimfaraefnum sínum hér um árið, en sú tilraun fólst í því að geimfaraefnin voru látin ganga með gleraugu sem sneru heiminum á hvolf í heila 30 sólarhringa dag og nótt. En það skemmtilega gerðist að eftir þessa 30 sólarhringa var heilinn búinn að snúa myndinni við og rétta heiminn af hjá þeim ef svo má að orði komast og ný sýn orðin til hjá þeim. Stórkostlegt tæki þessi heili okkar og hvernig hann lætur að stjórn eins og afar fullkomin tölva.
Þessi tilraun sýnir að heilinn okkar er fær um að breyta sýn okkar og fókusar á að búa til þá mynd sem við viljum sjá. Þetta er gott að hafa í huga þegar við erum að vinna úr gömlum rótgrónum mynstrum sem hamla okkur í lífinu ,- Við getum semsagt vanið okkur af því sem við gátum vanið okkur á En til þess að breyta hugsanamynstrum þurfum við þó markvisst að velja hugsanir okkar, taka þær föstum tökum og stýra þeim í ákveðnar uppbyggjandi og valdeflandi áttir.
Í NLP fræðunum er sagt að til að breyta hugsunum þurfi fyrst af öllu að koma til viðhorfsbreyting sem verður til vegna nýrrar reynslu og skynjunar,og síðan tekur við ákveðið lærdómsferli sem líkja má við það að læra að keyra bíl.
- Í upphafi erum við ómeðvituð um vankunnáttu okkar en höldum samt af stað.
- Næsta stig verður síðan til þegar við setjumst undir stýri og uppgötvum að við hreinlega kunnum ekkert á útbúnað bílsins.
- Þriðja stigið er síðan það að við lærum á útbúnaðinn og æfum okkur reglubundið.
- Fjórða og síðasta stigið er síðan þegar við erum farin að keyra bílinn án þess að þurfa að hugsa nokkuð um hvað við erum að gera, við bara keyrum. Við ferðumst semsagt frá ómeðvitaðri vankunnáttu yfir í meðvitaða vankunnáttu, og þaðan fórum við yfir í meðvitaða þekkingu og að lokum yfir í ómeðvitaða þekkingu.
Úfff eruð þið að skilja mig ?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.2.2019 | 13:39
Fæla sterkar konur karlmennina frá sér?
Nú nýverið las ég grein þar sem fram kom að karlar vilja ekki sterkar vel gefnar konur sem maka þrátt fyrir að þeir beri mikla virðingu fyrir þeim alla jafna.
Það sannast sem sagt það sem við vinkonurnar höfum stundum verið að gaspra um eða það að karlmenn séu almennt með svo brotið ego að þeir þurfi að vera aðeins yfir konuna í lífi sínu hafnir í stað þess að vera þar á jöfnum grunni(auðvitað ekki algilt frekar en annað).
Stephani Reeds hefur skrifað margar greinar um hinar mannlegu og sálarlegu hliðar mannsins og í grein þeirri sem ég las heldur hún því fram að karlmenn vilji heldur brothættar, mjúkar, kvenlegar konur í stað sterkrar alpha konu hvenær sem er.
En hvers vegna er þetta svona ef við gefum okkur að staðreyndir séu á bak við þessa fullyrðingu?
Í grein Stefanie segir hún að í könnunum sem gerðar hafi verið komi í ljós að möguleikarnir á því að menn muni fara á rómantískt stefnumót með gáfaðri valdamikilli konu séu jafnvel minni en við vinkonurnar héldum.
Ein af mörgum könnunum sem var gerð við Háskólann í Buffalo ásamt Háskólanum í Texas og Lútherska Háskólanum í Kaliforniu var framkvæmd þannig að karlar voru valdir og spurðir hvort þeim þætti þægilegt að fara á stefnumót með konum sem væru gáfaðri en þeir sjálfir. 90% sögðu að þeim þætti það í fínu lagi, en þegar öll stigin úr könnuninni voru talin saman kom í ljós að þeir höfðu í raun ekki áhuga á þeirri konu sem rómantísku viðhengi.
Niðurstaðan var semsagt sú að konur sem voru gáfaðri en þeir og voru hæfari til að framkvæma ákveðin verk vöktu áhuga eða virðingu mannanna en aðeins ef þær voru í ákveðinni fjarlægð frá þeim. Þegar að stefnumótum kom hinsvegar og nálægð við manneskjuna komin í spilið þá kom í ljós að þeir kjósa frekar konur sem eru þeim síðri að gáfum og getu í það hlutverk.
Önnur könnun af sama toga gaf svipaðar niðurstöður en útskýrði betur hvers vegna þetta er svona.
Í prófunum þessara aðila voru þátttakendur beðnir um að skilgreina og lýsa karlmennsku sinni í aðstæðum þar sem kona hafði haft yfirhöndina í samræðum fyrir framan konu sem þeir höfðu haft rómantískan áhuga á og það kom ekki vel út fyrir egoið þeirra.
Rannsakendur komust að svipaðri niðurstöðu og þeir sem fyrri könnunina gerðu og vitnað er í eða að í fjarlægð höfðu menn meiri áhuga á konum sem voru þeim fremri að gáfum, en á hinn bóginn þegar þessar konur voru komnar í raunveruleg samskipti við þá voru þær ekki eins spennandi ef þær báru höfuð og herðar yfir þá gáfnafarslega séð.
Það virðist því þannig vera þegar allt er tekið með að karlmönnum sé verulega ógnað af valdamiklum, vel gefnum og sjálfstæðum konum.
Og kona með snjallan húmor virðist einnig vera hættuleg þessu brothætta egói karlmannanna og þeir kjósa einnig að halda sig í góðri fjarlægð frá þeim konum.
En þrátt fyrir að karlmönnum í þessari könnun finnist gáfaðar konur ógnvekjandi þýðir það ekki að það sé eitthvað að þessum gáfuðu og flottu konum segir Stefanie og gæti ég ekki verið meira sammála henni hvað það varðar, og ég hef nú þá trú að það séu til menn hér á okkar ylhýra sem eru það sterkir karakterar að þeir hefðu orðið undantekningin í þessum Bandarísku könnunum og þoli það vel að konur skáki þeim að vitsmunum og ýmsu öðru leiti.
Ég hef einnig þá trú að við séum komin mun lengra í jafningjasamskiptum en það sem lesa má út úr þessum könnunum sem hún Stefanie týnir til.
Og ef sú trú mín bregst þá ætla ég enn að að trúa á að kraftaverkin gerist enn þann dag í dag og að þessir sterku fallegu og fjallmyndarlegu gáfuðu víkingar okkar munu ekki uppfylla orð okkar vinkvennanna um heigulshátt og brotna sjálfsmynd heldur sé þetta bara í nösum okkar kvenna jafnt hér á landi sem annarstaðar.
Kæru systur - verum bara jafn klárar,fyndnar,flottar,valdamiklar og okkur sýnist að vera, það er alltaf smartast að vera maður sjálfur eins og maður er án þess að reyna með nokkrum hætti að leitast við að breyta sér til að uppfylla þarfir eða væntingar annarara, að ég tali nú ekki um að fara að stíga meðvirknidansinn sem engum gerir gott.
Nú og ef enginn fallegur víkingur kann að meta okkur eins og við erum (ekki að það sé forsendan fyrir góðu lífi), þá skulum við bara skína skært á okkar eigin sjálfstæðu gáfnafarslegu húmorísku forsendum og njóta lífsins með þeim sem kunna að meta návist okkar og klárheit!
Eins og alltaf er ég svo bara einni tímapöntun í burtu :)
Xoxo
Ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
TRM áfallafræði, LET samskiptafræði og Markþjálfun.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
28.1.2019 | 13:02
Við setjum okkur í fangelsi vegna mistaka okkar
Við sjálf erum þau sem berjum okkur mest vegna mistaka okkar á lífsleiðinni og við berum sár okkar með þeim hætti að við erum sífellt að neita okkur um það besta hvað varðar framkomu gagnvart okkur, neitum okkur um verðmæti og velgengni, og setjum okkur jafnvel í ævilangt fangelsi fyrir það eitt að hafa ekki kunnað betur eða vitað betur í aðstæðum lífsins og brugðist þar af leiðandi rangt við.
Ég áttaði mig á því fyrir ekki svo löngu síðan að ég sjálf hef reynt að bæta fyrir mistök mín með meðvirkni og með því að finnast ég ekki eiga neinn rétt á að vera í forgangi eða að njóta velgengni á ýmsum sviðum lífsins.
En nú eru sko sem betur fer komnir aðrir tímar.
Ég áttaði mig loksins og fór að sjá að þetta gengi ekki svona, ég hefði bara ekki nokkurn rétt á því að berja mig stöðuglega fyrir mistök sem voru aldrei gerð hvort sem er af ásetningi heldur var það lífið sjálft sem gerðist eins og gengur og gerist með tilheyrandi reynsluleysi mínu og skort á þekkingu í aðstæðum - En þegar ég loksins vaknaði var ég búin að afplána lengri dóm frá sjálfri mér en þeir sem setið hafa í fangelsi fyrir morð og nauðgun hér á landi hafa gert!
Fangelsið sem ég setti mig í vegna dómhörku minnar í eigin garð varð mér dýrkeypt og jafnvel enn þann dag í dag stend ég sjálfa mig að því að draga mig í hlé vegna þess að ég á ekki rétt á einu eða neinu þar sem ég er líklega sú eina sem hef gert mistök í lífinu og á þar af leiðandi ekki skilið það besta!
En skoðum hversu miklum skaða þessar barsmíðar mínar, niðurtal og fangelsisdómur hefur haft á mig í gegnum tíðina.
Meðvirknin og samviskubitið nagaði mig og kvaldi og ég var alltaf hrædd um að gera ranga hluti og gerði þar af leiðandi fáar kröfur fyrir mig, dró ekki línu í sandinn fyrir mig en dró mig frekar í hlé í fórnarlambið. Svo stóð ég upp og fór að gera sjálfsagðar kröfur fyrir mig sem ég reyndi að standa við og setja niður hælana með tilheyrandi erfiðleikum sem flestir þeir þekkja sem byrja að setja mörk fyrir sitt eigið líf og tilvist.
Þegar við setjum okkur í fangelsi með þessum hætti fylgja því ýmsar aukaverkanir eins og t.d þær að ég talaði ekki til mín með fallegum hætti, sótti ekki það sem ég hefði viljað sækja vegna þess að ég var aldrei nægjanlega frambærileg og flott og ég leyfði framkomu við mig sem með engum hætti var mér samboðin - en það eru liðnir tímar og ég hef í dag náð langt frá þessum stað sem betur fer.
Í dag stend ég með mér þó að stundum sé enn of langt í þolinmæðisþræðinum hjá mér og í dag hugsa ég um mig með sama hætti og ef ég væri að gæta að afleggjurunum mínum sem skipta mig öllu máli.
Ég sýni sjálfri mér sama kærleika og ég vil að þessum dýrmætu einstaklingum mínum sé sýndur og veit að ég á skilið að fá fallega virðingaverða framkomu og svo sannarlega á ég rétt á því að sækja það sem ég hef áhuga á að sækja hverju sinni.
Ég vel einnig það fallega og góða inn í mitt líf, eiginleika eins og einlægni, góðmennsku, traust, kærleika og allt það sem prýða má falleg samskipti manna á milli.
Ég vel einnig að vanda mig í samskiptum við aðra og mun alltaf ganga frá samskiptum sem ætluð eru til þess að setja mig eða mína niður. Þetta er val mitt fyrir mitt líf og ég vona svo sannarlega að þú sem þetta pár lest takir þetta til þín því að þú átt bara það besta skilið í lífinu einfaldlega vegna þess að þú ert manneskja sem ert að gera þitt besta í þeim aðstæðum sem þú ert í núna.
En hvers vegna er ég að tjá mig um þetta og opna á viðkvæman stað í hjarta mér?
Jú líklega vegna þess að ég sé þennan óskilyrta fangelsisdóm nánast á hverjum degi hjá samferðamönnum mínum, eða það að þeir berja á sér fyrir mistökin sem þeir burðast með.
Ég sé flotta einstaklinga með skaðaða sjálfsmynd vegna þessara sömu mistaka og ég sé þá neita sér um almennilegt og gott líf vegna þeirra, og þeir keppa stöðuglega að því að reyna að uppfylla og bæta fyrir syndir sínar við allt og alla.
En heyrið mig til enda elskurnar því að það er svo ótrúlega dýrmætt að gera þessi mistök og öðlast þá reynslu sem við fáum við úrvinnsluna á þeim, því að þau eru í raun þessi x-factor sem hefur gert okkur að því sem við erum í dag, og ég á enn eftir að hitta manneskju sem segist vilja losna undan reynslunni sem hún hefur öðlast á leiðinni og verða aftur að þeim aðila sem hún var fyrir jafnvel mjög sárar og birtar reynslur en hver veit kannski á ég eftir að hitta þá persónu engu að síður.
Ég man eftir því að hafa spurt góðan vin hér í denn hvers vegna í ósköpunum svona ágætis manneskja eins og ég fengi öll þessi erfiðu málefni og verkefni inn í mitt líf í stað rósrauðra ævintýra að hætti rauðra og rómantískra bókmennta sem ég hélt svo sannarlega hér áður fyrr að væru eins og lífið sjálft (það ætti að banna þessar rauðu ástarseríur :) ) og hann vinur minn átti fá svör önnur en þau að þetta hlyti að nýtast öðrum á lífsleiðinni til góðs -sem reyndar hefur komið á daginn og ég segi gjarnan að ég hafi verið í háskóla lífsins sem hafi verið erfiðari en allt nám sem ég hef verið í á lífsleiðinni.
Ég uppgötvaði fyrst lærdóminn sem verkefnin og mistökin mín gáfu mér Í störfum með þeim einstaklingum sem til mín leituðu. Þar hef ég aldrei fundið fyrir fordómum eða hneykslun gagnvart þeim sem setið hafa á móti mér og hef getað mætt öllum á jöfnum grunni og stað skilnings, og reyndar aðeins fundið í hjarta mér að mig langi til að sjá þessa einstaklinga vaxa og dafna. Að sjá aðeins það besta í fólki (og okkur sjálfum) og finna löngun til að reisa fólk við á lífsgöngu þeirra er að mínu mati mjög gott að eiga í hjarta sér og kannski það dýrmætasta sem lífið hefur gefið mér fyrir utan börnin mín, barnabörn og góða vini.
Svo stöldrum aðeins við elskurnar, leitum inn á við og athugum hvort að það geti hugsanlega verið að við séum búin að setja okkur í fangelsi samviskubitsins og séum búin að dæma okkur til ævilangrar betrunar þar, og ef svo er finnum þá leið til að stytta þá vist eins og hægt er með öllum tiltækum ráðum.
Við erum líklega okkar verstu dómarar og dómur okkar stundum án vonar um náðun. Og afleiðing dómsins er einungis til þess fallinn að við munum eiga erfitt með að finna það góða fagra og fullkomna fyrir okkar líf og þeirra sem okkur þykir vænst um og svo missum við út svo stórt brot af ævintýri lífsins með því að leyfa okkur ekki að njóta þess besta í fullu frelsi.
Förum nú fram á náðun, opnum rimlana og göngum inn í lífið og frelsið elskurnar.
Og eins og ætíð er ég bara einni tímapöntun í burtu ef þú þarfnast aðstoðar minnar við þín lífsins verkefni.
Mér hefur ekki mistekist, ég fann bara 10.000 leiðir sem virkuðu ekki. -Thomas Edison
Stærstu mistök lífsins eru að hætta að gera tilraunir til sigurs. -Napoleon Hill
Xoxo
Ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
TRM áfallafræði, LET samskiptafræði og Markþjálfun.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.1.2019 | 11:54
Flott þessi stelpa hún Alda Karen
Nú er mikið fjaðrafok yfir ummælum Öldu Karenar sem óheppilega sagði sem svo að það að segja sjálfum sér að maður sé nóg sé vörn gegn sjálfsvígum.
Raddirnar sem fóru af stað við ummæli hennar leiddu hana inn í Kastljós Ríkissjónvarpsins og þar byrjaði nú ballið fyrst.
Spyrillinn hafði ekki mikið fyrir því að fela aldursfordóma sína eða álit á "kultfræðunum" sem hann telur líklega að árangursfræðin séu, og greinilegt var að hann hafði ekki mikið álit á stelpunni sem sat þarna og sagði einungis að við þyrftum bara að kenna fólki að það væri nægjanlegt eins og það er. Talaði fjálglega um þá sem kæmu sem söfnuð og hana þá að öllum líkindum sem trúarleiðtoga, lítið smart að mínu mati og lísti bæði vanþekkingu og fordómum.
Sálfræðingurinn kom aðeins meðvirknilega inn að mínu mati þegar hún sagði að það gætu verið einhverjir sem væru svo illa farnir að þeir gætu farið neðar við það eitt að heyra þetta - finnst mér það svolítið svipað og það að einhver megi ekki gera eitthvað því það gæti orðið öðrum að falli (án þess að ég sé að gera lítið úr ummælunum sem fjaðrafokinu olli frekar en Alda sem baðst afsökunar á þeim)
Gott og blessað að skamma Öldu fyrir að einfalda hlutina um of í tilliti til þess að það eru svo margir sem eiga um sárt að binda vegna sjálfsvíga sem því miður eru allt of mörg hér á landi, og skiljanlegt að fræðingar ýmiskonar skuli vilja láta tala um þau mál með flóknari hætti og taka til þær rannsóknir, verkfæri og kunnáttu sem þeir búa yfir.
Nú en þá kemur minn skilningur á því sem hún Alda Karen var að segja ef ég hef skilið hana rétt, en það er að mörg andleg mein séu til komin vegna þess að hugsun okkar er skökk og hindrandi fyrir líf okkar og getur þannig leitt okkur á staði þar sem okkur líður hörmulega - Kannski svo hörmulega að eina leiðin sem hægt er að sjá fram á fyrir suma er að losa lífið við þá og að vera ekki lengur fyrir, og þá erum við svo sannarlega búin að segja okkur sjálfum að við séum ekki nóg og að lífstilgangur okkar sé þar með farinn.
Ég geri mér fulla grein fyrir því að árangursfræðin hafa ekki öll svör við sjálfsvígum og í raun held ég að fáir ef nokkrir hafi öll svörin því miður.
Það sem mér finnst hinsvegar aðdáunarvert er að ung stúlka nái til unga fólksins okkar með þeim hætti sem Alda Karen nær og við sem eldri erum og höfum siglt um mörg höf ættum að koma upp að hlið hennar og aðstoða hana með því að leggja okkar lóð á vogarskálina og nýta þannig þetta platform sem hún hefur skapað með karisma sínum til að ná til sem flestra sem þurfa á aðstoð að halda við að vinna sig frá andlegum meinum.
Ég vil hvetja okkur til að láta af þessu eilífa íslenska fyrirbrigði "öfundinni" sem mér finnst ég svolítið finna lyktina af yfir velgengni Öldu sem er að gera ótrúlega góða hluti og er að kynna til sögunnar nýjustu tækni og upplýsingar sem við höfum varðandi starfsemi heilans okkar og hvernig má nýta þær til að aðstoða samborgara okkar.
Hættum að reyna að finna á henni höggstað, leggjumst þess í stað á eitt með að vinna gegn vanlíðan og öðrum andlegum meinum og koma bara sem flest saman með alla okkar dásamlegu þekkingu hvaðan sem hún er sprottin og bara hjálpa þeim sem á þurfa að halda.
Hvernig væri það að fylla Hörpuna af sálfræðingum, geðlæknum, Markþjálfum, árangursfræðingum og fleirum sem lausnirnar hafa og virkilega láta til okkar taka í þessum efnum?
Ég veit ekki með þig - en ég er til hvenær sem er!
xoxo
Ykkar Linda
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
7.1.2019 | 16:14
Gerum þetta að ári kærleikans
Jæja elskurnar nú erum við komin af stað inn í nýtt ár sem vonandi verður okkur öllum til heilla og hamingju hvar sem við búum og hvað sem við erum að fást við.
Svona tímamót eru okkur svo nauðsynleg vegna tækifæranna sem við fáum á því að skapa eitthvað nýtt og betra, taka til í okkar ranni og halda á beinu brautina í þeim skilningi orðsins sem hentar okkur.
Að ákveða hvað það er sem við ætlum að taka með okkur inn í nýtt ár og hvað það er sem við ætlum að skilja eftir í því gamla er einnig svo nauðsynlegt til að við getum nýtt þetta nýja tækifæri til fulls og sköpunargáfu okkar til hins ýtrasta.
Því miður er það allt of oft sem við söfnum í pokann okkar allskonar miserfiðum tilfinningum og atburðum á hverju ári og einhvernvegin er það þannig að okkur finnst við þurfa að taka sumt af því með okkur inn í nýtt ár. Ég segi hinsvegar og meina það að það er betra að staldra aðeins við og skoða hvað af þessu sem við losum okkur ekki við um áramótin er að þjóna okkar lífi. Hvað er það í pokanum okkar sem veitir okkur gleði,hamingju, velsæld og virðingu, tökum það með okkurinn í nýja árið, en tökum úr honum það sem veldur okkur vanlíðan, særindum, móðgun og öðrum vondum tilfinningum.
Ef ekki er hægt að taka þær vondu með góðu móti úr pokanum og gleyma þeim þá er kannski ráð að fá fagaðila til að vinna úr þeim með þér því að það er bara lítið smart að burðast með þennan dökka poka ár eftir ár á bakinu og fátt sem er eins þreytandi.
Nú og ef þú spyrðir mig hvað það væri sem ég teldi að heimurinn þarfnaðist mest að fá frá okkur inn í framtíðina og árið nýja þá væri svar mitt einfalt.
Svar mitt væri að ef við gætum dreift í kringum okkur velvild og kærleika, vinsemd, samkennd og öðrum mannlegum kærleikstilfinningum sem ég veit að við eigum nóg af í hjarta okkar, þá yrði lífið og heimurinn allur öðruvísi en hann er í dag. Og ef við hugsuðum aðeins meira um að aðstoða hvert annað í lífsins ólgusjó þá liði okkur betur í eigin skinni og það gæfi okkur líklega meira en margt annað sem við sækjumst svo gjarnan eftir.
Ég er einnig sammála söngkonunni GAGA um að Óvinur heimsins sé sundrungin og hatrið sem myndast vegna þess að allir litlu hóparnir (Þjóðfélög og þjóðarbrot) halda að þeir séu með stóra sannleikann og réttu menninguna, rétta húðlitinn, réttu starfstitlana og réttu umgjörðina í lífinu, en sem í raunveruleikanum er einungis mismunandi sjónarhorn okkar á heiminn.
Og þegar við kynnumst hinum hópunum sem við áttum að hata eða setja niður þá breytist gjarnan þetta sjónarhorn sem betur fer og við upplifum flest að við erum eins í grunninn og leitum að því sama hvar í veröldinni sem við búum, en það sem við leitum helst að er kærleikur, eining við aðra menn og hamingja í hjarta okkar vegna starfa okkar og framlags til lífsins og samferðamanna okkar.
Ég hvet okkur öll til þess á nýja árinu að horfa á okkur jarðarbúa sem eina heild, láta af óvild og hatri, sækjast í að aðstoða náungann við að eiga fallegt og gjöfult líf til anda sálar og líkama. Að það verði líf sem veitir manninum reisn, virðingu og samþykki á jafningjagrunni, og eins og einhver sagði: ef þú treystir þér ekki til þess að veita vinsemd og kærleika ákveddu þá að meiða náunga þinn að minnsta kosti ekki.
Ég hef þá trú að ef við gætum einungis breytt stefnu okkar aðeins meira í átt að því að sjá það góða í mönnum og samfélögum þeirra þá yrði viðsnúningur hjá okkur og við gætum jafnvel fundið fyrir þakklæti fyrir þessa mismunandi sýn mannkynsins á þessa veröld okkar og allt sem henni tilheyrir.
Og svo tala ég nú ekki um ef við gætum látið af fordómum okkar, leitað inn á við og fundið þar sátt við allt sem er, þá yrði lífið líklega dásemdardalur fyrir okkur sem heild trúi ég.
Svo gerum þetta ár að ári gleði, þakklætis, fyrirgefningar, kærleika og velvildar elskurnar og sjáum svo hverju það gæti skilað okkur til framtíðarinnar því að hvert sáðkorn sem sáð er núna mun skila sér í einhverju formi fyrr eða síðar og þau góðu bæta heiminn og líf okkar allra.
Og eins og ávallt er ég aðeins einni tímapöntun í burtu ef þú þarft á minni aðstoð að halda til að gera þetta ár að glimmerári!
Gleðilegt ár 2019!
Ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
TRM áfallafræði, LET samskiptafræði og Markþjálfun.
Linda@manngildi.is
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.12.2018 | 11:32
Jóla og áramótapistill 2018
Þetta er búið að vera skrýtið uppgjörsár hjá mér og margt sem hefur farið um kollinn á mér og breyst í hugsun minni þetta tímabil og þó kannski mest síðustu mánuði.
Það hafa komið yndislegar og gefandi stundir þetta árið og einnig nokkrar erfiðar, en þó stendur gleðin og samheldni þeirra sem eru í kringum mig uppúr þegar ég horfi um öxl.
Byrjum á því að tala um það sem ekki er svo skemmtilegt en þó svo nauðsynlegt að fá upp í hendurnar til að við tökum út þroska og breytumst, og ég rétt eins og plöntur náttúrunnar þroskast helst í myrkrinu og á köldum stundum og þar finn ég nýja farvegi,breytur og lausnir. Ég hef grátið og fundið til í hjarta mér, fyllst depurð, vonleysi, tilgangsleysi og öðrum tilfinningum sem setja mig á stað vanmáttar, en hef risið upp og tæklað lífið að nýju og þakka stöðuglega fyrir að eiga þau verkfæri sem allur lærdómurinn minn og gott fólk á leiðinni hefur fært mér upp í hendurnar til að nota við þessháttar aðstæður. Fátt sem ég næ ekki að tækla með þeim.
Gleðin hinsvegar yfirskyggir sorgir mínar og sút, og í byrjun ársins kom nú ein af aðal gjöfum mínum þetta árið þegar ég eignast lítinn yndislegan ömmustrák í mars og svo öllum að óvörum eru tveir aðrir ömmustrákar á leiðinni á nýju ári þannig að það verður komið hálft fótboltalið til mín á vori komandi ef Guð lofar. Mikil blessun sem ég upplifi með þessum afleggjurum mínum og ég er Guði svo þakklát fyrir þær bænheyrslur sem hann veitti mér og mínum þetta árið.
Það er ekki sjálfsagt mál að eignast barn, það þekkja þeir sem reynt hafa um langt skeið og þeir vita einnig hversu mikil blessun það er að fá tækifærið á því að sá draumur rætist og því finnst mér fjölskylda mín hafa verið afar blessuð og ég er himinlifandi glöð og djúpt þakklæti rennur um æðar mér.
En hugsanir mínar hafa fengið vængi síðustu mánuði eins og Konráð Adolphson kallar bók sína sem hann gaf út á árinu og ég mæli með að sem flestir eigi í bókasafni sínu, og þær hugsanir sem flogið hafa um minn koll hafa flogið hátt og í nýjar áttir.
Fyrstu vængjuðu hugsanir mínar sneru að því að ég tók ákvörðun um að ég verði bara þar sem mér líður vel í lífinu og hvergi annarstaðar. Lífið er of stutt til að eyða því í að láta sér líða illa. Ég tók einnig ákvörðun um að vera ekki lengur sú sem stend ekki með mér og ætla að mastera það fag betur á ári komandi.
Ég leyfi ekki fólki að meiða mig lengur og ég set mörk fyrir velferð mína eins og ég væri að hugsa um lítið barn sem mér bæri að vernda með öllum tiltækum ráðum og mér hefur tekist vel upp þar að mestu leiti, en eins og ég sagði -þá mastera ég það betur á næsta ári.
Ég sé því miður allt of mikið af einstaklingum sem vaða eld og brennistein fyrir aðra en gleyma að standa vörð um þá manneskju sem þeir áttu helst að standa vörð um eða þá sjálfa og ég ætla ekki lengur að vera ein af þeim.
Ég á helling af kærleika, vinsemd og virðingu til handa þeim sem sýna mér slíkt hið sama, en þá sem meiða get ég valið að eiga fyrirgefningu til í fjarlægðinni.
Traust mitt þarf að vera áunnið en ekki gefið, og þá sem ég umgengst þarf að velja vel. Þeir þurfa að vera velviljaðir, heilir í gegn og góðhjartaðir til að fá að tilheyra mínum hring í framtíðinni og ég vona svo sannarlega að þú lesandi góður sért sammála mér um að þú eigir slíkt hið sama skilið.
Ókurteisi, niðurtal,vanmat,stjórnun, mannvonska og aðrir meiðandi brestir mannkynsins eru það sem ég ætla að sneiða frá eins vel og mér framast er unnt á ári komandi sem þýðir örugglega að ég þarf að reita arfann enn betur en nú þegar er orðið. Ég ætla a.m.k að standa mig vel í því að velja einungis það fólk sem fallega kemur fram við mig og ég við það á móti.
Það verður semsagt settur einhverskonar Chanel - verðmiði á mig árið 2019, veit að sumt af því sem ég nefni hljómar hart og eins og að ég sé bitur, sem ég ákvað hinsvegar á árinu að verða ekki og hef valið að sjá það góða úr samskiptum mínum við alla þá sem hafa sýnt mér slæmar hliðar sínar (uppgötvaði mátt þess á árinu) og þannig hef ég frelsað mig. Það er þó ákveðin skynsemi í því að hleypa ekki fólki of nærri sér fyrr en það hefur sýnt að því sé treystandi og að það sé gegnumheilt.
En það er svosem ekki eins og mér hafi verið gerðir einhverjir stórkostlegir hlutir á árinu, megið ekki skilja það þannig, bara enn eitt uppljómunarárið.
Ég er afar þakklát fyrir að þessi sýn opnaðist mér og eins og ætíð þegar við fáum nýjar lexíur upp í hendurnar eða prófsteina þá ber að þakka þeim sem tóku á sig það hlutverk að kenna þær og það geri ég af heilum huga og veit að það er oft erfiðara að vera sá sem kennir lexíurnar en sá sem lærir þær.
Ég naut lífsins vel á árinu þrátt fyrir prófsteinana, eignaðist nýja og fallega íbúð í stað þeirrar gömlu og töluvert nálægt sjónum sem ég elska og fallega Gufunesinu mínu. Ég er alsæl með hversu vel tókst að taka þá íbúð í gegn og gera hana fallega með litlum tilkostnaði. Íbúðin var í mikilli niðurníðslu þegar ég fékk hana í hendurnar en með hjálp góðra vina tókst vel til að bæta úr því og er ég þeim sem hjálpuðu mér afar þakklát fyrir velvildina og kærleikann (Arnar þú ert perla).
Mér finnst eins og lífið sé rétt að byrja hér og mér líður eins og ég sé að flytja að heiman í fyrsta sinn með nánast ekkert af mínu fortíðardóti og ekkert er í geymslu sem þarf að henda, svolítið skrýtin tilfinning - en þó frelsandi og gefur fyrirheit um eitthvað ferskt og nýtt sem ég hlakka til að taka þátt í.
Mikið hefur verið um ferðalög á árinu hjá mér og hef ég ferðast til Bretlands, Spánar og Tenerife þetta árið og er það meira en ég hef gert lengi, og fleiri staðir bíða eftir mér fljótlega á nýju ári.
Vinir mínir (get ekki hætt að dásama þá) hafa leikið stórt, mikið og fallegt hlutverk hjá mér eins og venjulega og hafa staðið eins og klettadrangar upp úr sjó við hlið mér og auðveldað mér lífið með hjálpsemi, heimsóknum, aðstoð og helling af skemmtilegum uppákomum sem hafa gefið af sér hlátur og gleði og er ég afar þakklát þeim öllum með tölu og almættinu fyrir að senda mér þessar dásemdir allar!
Ég fór í nám í áfallafræðum sem gaf mér alveg ótrúlega mikið verð ég að segja, og ég skil svo miklu betur hvernig hægt er að vinna sig frá því sem taugalíkami okkar geymir og hversu mikilvægt það er að halda sig á fallegum og góðum stöðum í stað þess að dvelja lengi á stöðum sem valda okkur uppnámi og eða depurð og setja líkama okkar í hættu.
Þannig að þetta var ár kaflaskipta og nýrra uppgötvana hjá mér og samkvæmt stjörnuspekinni (og ekki lýgur hún) er nú hafinn nýr 12 ára kafli í mínu lífi og ég fagna upphafi hans og bíð spennt eftir öllu því skemmtilega og eins öllum þeim verkefnum sem sá kafli færir mér.
Og eins og venjulega geri ég upp árið mitt með ykkur elskurnar algjörlega berskjölduð og gef ykkur innsýn inn í líf og tilfinningar venjulegrar konu sem á sínar góðu og slæmu stundir eins og við eigum öll á einum tímapunkti eða öðrum og vonast til með því að aðstoða einhverja í leiðinni með þessu pári.
Ég þakka ætíð fyrir allan lærdóm sem ég get dregið af hverju ári fyrir sig og nú held ég af stað inn í þetta nýja 12 ára tímabil og er ákveðin í því að njóta þess með öllum þeim gleðistundum sem þau færa mér og eins tek ég við sorginni og þeim sáru tilfinningum sem það færir mér til úrlausnar, og veit að líklega að lokum hefði ég ekki viljað vera án nokkurrar stundar, hvorki þeirra góðu né hinna vondu - og ég veit að þær munu allar samverka mér til góðs um síðir þó ekki sé víst að það verði fyrr en ég tek strætó 101 til nýrra og grösugri staða himnanna.
Segi að lokum við ykkur Gleðilega hátíð og heillaríkt komandi ár elskurnar, og megi almættið eins og þú skilur það blessa þig, varðveita, gefa þér þroska og margfalda gæði lífs þíns. Mætti Það einnig gefa þér góða yfirsýn ásamt því að opna fyrir meðvitund, nýjar uppgötvanir,visku og ævintýri.
Takk fyrir samfylgdina á árinu.
p.s. eins og ávallt er ég bara einni tímapöntun í burtu ef þú þarfnast aðstoðar minnar á nýju ári.
Xoxo
Ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
TRM áfallafræði, LET samskiptafræði og Markþjálfun.
Linda@manngildi.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.12.2018 | 15:50
Tengslamyndun
Vissir þú að þegar við fyllumst ótta fara að minnsta kosti 1400 líkamleg einkenni í gang og að þessi eina tilfinning hefur áhrif á a.m.k 30 tegundir hormóna?
Þið getið rétt ímyndað ykkur áhrifin á líkamann og taugakerfið ef við erum að eiga við þessa tilfinningu á daglegum grunni og kunnum ekki eða getum ekki losað okkur við hana. Prófaðu að margfalda þessa tilfinningu 1400 x 365 eða 511.000 boðefni sem eru ekki í jafnvægi ef við finnum þessa óttatilfinningu á daglegum basis á ársgrundvelli (ef hægt er að reikna þetta þannig).
Það tekur heilann okkar einnig um 25 ár að þróast og mótast að fullu og sumir vilja meina að við séum í hálfgerðu dáleiðsluástandi fyrstu 8 ár okkar þar sem mesta forritunin frá umhverfinu fer fram. Af því getum við rétt ímyndað okkur hversu mikilvægt það er að nánd og tilfinningalegt jafnvægi sé ríkjandi þau ár að mínu mati a.m.k.
Heilinn okkar geymir upplýsingar á sínu eigin Google Drive sem veldur því að viðbrögð okkar og viðmót verða með ýmsu móti allt eftir forrituninni sem hefur átt sér stað og þeim trúarkerfum sem við höfum byggt okkur upp um lífið frá upphafi.
Nokkur af einkennum þess að líkaminn lætur okkur vita ef hann er ekki sáttur við tilfinningalega ástandið okkar er að við finnum spennu hér og þar og allstaðar, spennu sem byggist upp og finnur sér ekki leið eða farveg út, og við verðum stödd í hálfgerðum völundarhúsi vanlíðunar.
Finnar gerðu rannsókn á því hvar tilfinningar okkar hafa mest áhrif á okkur og niðurstöðurnar má sjá á myndinni hér fyrir neðan sem ég hvet ykkur til að skoða vel og athuga hvort að þið getið tengt við ykkar tilfinningaupplifanir.
En hvernig tengist svo þetta allt saman tengslum?
Jú sem betur fer eru vísindin að komast að því að heilbrigð nánd og tengsl eru nauðsynleg fyrir velferð okkar og vellíðan og það er nauðsynlegt fyrir heilbrigði andans að eiga einn eða fleiri aðila að sem við tengjumst öryggisböndum sem náttúran sjálf sér okkur svosem fyrir strax í upphafi lífs okkar, eða mömmu og pabba.
Ef þessi tengsl rofna í æsku þá er mjög líklegt að við munum eiga við tengslavanda að eiga á fullorðinsárum okkar og reyndar er einnig líklegra að við eigum við allskyns sjúkdóma að eiga eins og streitu og vanlíðan ýmiskonar.
Í bókinni Attachment eftir Avir Levine M.D og Rachel Heller M.A þar sem fjallað er um tengsl í samböndum er sagtað við tölum of mikið um meðvirkni í samböndum.
Í þeirri bók er sagt að heilbrigð sameining felist að sumu leiti í því að við tengjumst með þeim hætti að við verðum háð hvert öðru. Þar er einnig talað um að við hér á vesturhveli jarðar séum búin að búa til hálfgerða mýtu sem snýr að því að það sé eitthvað að okkur ef við finnum okkur sjálf ekki með einveru og því að vera óháð öðrum og þurfum því ekki á tengslum að halda við aðra en okkur sjálf.
Ég veit um fátt sem er ósannara en það að við þurfum ekki á öðrum að halda, því að hvar á tilfinningaleg greind okkar að mótast og verða til? Þurfum við ekki á speglun, hlustun, virðingu, samskiptum, kærleika, skilningi og fleiru að halda frá þeim sem við erum í umgengni við eða bindumst kærleiksböndum svo að tilfinningagreind okkar vaxi án skekkju?
Taugafrumur okkar þurfa á speglun frá annarri manneskju að halda til að geta þroskast og mótast á heilbrigðan hátt og við sem fullorðin leitum logandi ljósi að maka og vinum vegna þess að við höfum þá þrá að tengjast mannverum sem verða vitni að lífi okkar, og þetta ætla ég eiginlega að fullyrða þó að mér líki illa við fullyrðingar!
Við getum haldið því fram að við séum svo andlega tengd að við þurfum ekki neitt nema hugleiðslu og einveru, en þar er ég mjög ósammála.
Við þurfum ekki annað en að sjá hversu þrautseig við sem óbundin eru í leit okkar að maka. Við leitum á hinum ýmsu stöðum eftir aðila sem við gætum hugsað okkur að bindast og eiga líf með, og það verður að hálfgerðu verkefni eða missioni hjá okkur ár eftir ár að skoða "markaðinn" þar til við finnum viðeigandi viðhengi sem getur orðið vitni að okkar lífi og okkar upplifunum, og við að þeirra - og hvað er það annað en að við þurfum á þessari nánu samveru við annan einstakling að halda?
Er mögulegt að mannkynið þurfi kannski á hverju öðru að halda til að geta haldið normal geðheilsu og fengið að spegla andlega og líkamlega hlið tilveru sinnar?
Hvað veit ég svosem?
Það eina sem ég veit er að þegar ég fer inn á samfélagsmiðla sem tengjast þessari makaleit sé ég að við erum flest að leita að tengslum á einn eða annan hátt hvort sem okkur þykir það smart eða ekki, og hvort sem við viðurkennum það eða ekki.
Og er ekki bara kominn tími til að við horfumst í augu við það að "enginn er eyland" og að við þurfum á hvert öðru að halda til að líf okkar hafi tilgang og innihaldi hamingjustundir sem aðeins er hægt að fá í náinni samveru með annarri mannveru?
Eða ætlum við að láta okkur nægja í framtíðinni að hverfa inn í hugleiðsluástand, þrívíddarveruleika og forðun frá samskiptum við annað fólk?
Ég reyndar tel að taugafrumur okkar, sálin og andinn að ótöldum líkamanum muni alltaf þurfa á tengslum við aðrar mannverur að halda og muni alltaf gera uppreisn gegn tengslaleysi, og því þurfum kannski ekki að hafa svo miklar áhyggjur þó að oft sýnist manni stefna í óefni í þessum málum.
Og eins og alltaf áður er ég aðeins einni tímapöntun í burtu ef þú þarft á minni aðstoð að halda með þín lífsins verkefni.
xoxo
Ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
TRM áfallafræði, LET samskiptafræði og Markþjálfun.
Linda@manngildi.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Linda Baldvinsdóttir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar