Hvað er að ná árangri?

Þessa dagana eru á samfélagsmiðlum allskonar auglýsingar frá hinum og þessum aðilum um það hvernig við förum að því að ná árangri í lífinu og hvað sé árangur, og ég verð að viðurkenna að mér finnst þetta allt komið út í svolitlar öfgar.

Samkvæmt þessum auglýsingum þá þarft þú að mennta þig endalaust og botnlaust því að þú þarft alltaf að bæta við nýrri og nýrri þekkingu og nýjar aðferðir verða til (líklega vegna þess að menntastofnanir þurfa að bera sig eins og önnur fyrirtæki) og svo er alveg á hreinu að ef þú vaknar ekki 2 tímum fyrr á morgnana og ferð í ræktina, borðar réttu fæðuna, lest síðan eina bók á viku að lágmarki þá bara einfaldlega nærð þú engum árangri í lífinu samkvæmt þessum auglýsingum. - Þetta varð til þess að ég staldraði við og hugsaði, hvað er það eiginlega að ná árangri? og við hvað miðum við árangur?

Eru það þeir sem hafa hæstu launin, forstjóratitlana, flottu húsin, dýru bílana og hæstu húsnæðislánin og frægustu vinina sem hafa náð árangri?

Eða eru það þeir sem hraða sér á hamsturhjólinu alla daga uppgefnir á því að reyna að halda sér ungum og ferskum og vinna frá sér allt vit til þess eins að ná hærra í árangursþrepinu? Eða eru það þeir sem eru með streitustuðullinn í hámarki og börnin í kvíðakasti yfir öllum hraðanum sem er í dag sem ná mestum árangri í lífinu?

Ekki geri ég mér alveg grein fyrir því hversu langt við eigum að ganga þegar kemur að því að ná veraldlegum árangri og stundum finnst mér að við séum jafnvel farin að gera óraunhæfar kröfur á yngstu kynslóðina hvað það varðar.

Börnin okkar virðast þurfa að ná árangri í því sem þau fást við í tómstundunum og oft fara helgarnar sem ætlaðar eru til hvíldar í allskonar keppnir og æfingar hjá þeim og því afar lítill tími er fyrir hvíld og leikgleðina sem ætti aldrei að vera árangurstengd heldur fólgin í samskiptum og því að kynnast fjölskyldu sinni og vinum aðeins betur á breiðum leikgleðigrunni.

Minnir svolítið á brandarann sem ég las um daginn sem hljómaði eitthvað á þennan veg: "Internetið lá niðri í kvöld svo að ég varð að eyða tímanum með fjölskyldunni - þau virtust vera ágætis fólk"

Er það orðinn mælikvarðinn á árangri að þú þurfir að eltast við stöðuga framsækni og veraldlegan árangur? svo mikið að allt það sem raunverulega virðist skipta okkur máli þegar litið er inn að hjartarótunum sé í raun farið að mæta svo miklum afgangi að fjölskyldur og einstaklingar eru að liðast í sundur vegna þessa álags?

Erum við sem samfélag að sætta okkur við að streitan verði svo mikil að það þurfi að finna leiðir til að minnka það með því að bæta við vinnudaginn og fara í hugleiðsluna og jógað til að ekki sé farið í kulnun eða lagst í veikindi?

Ég veit svo sem ekkert hvað öðrum finnst árangur vera og líklega er það afar misjafn mælikvarði á milli manna, en í mínum huga er árangurinn falinn í því að vakna á hverjum morgni og takast á við lífið alveg sama hverju það hendir í þig ásamt því að lifa lífinu í samræmi við gildin sem við hvert og eitt höfum og erum sátt við.

Það er töluvert gaman að spyrja fólk að því hvað það myndi gera ef það ætti aðeins ár eftir ólifað og ég geri töluvert af því að spyrja þeirrar spurningar.

Í flestum tilfellum fæ ég þau svör að gaman væri að ferðast um og skoða heiminn, selja allt dótið sitt og njóta bara þessa árs í gleði og hamingju ásamt þakklæti fyrir hvern dag sem vaknað er upp til, og ef ég bæti svo við spurningunni, hvað værirðu að gera ef þú ættir bara einn dag eftir ólifaðan verða svörin aðeins öðruvísi.

Merkilegt nokk þá hef ég aldrei fengið þau svör við þessum spurningum að fólk vildi nýta þetta ár í það að mennta sig meira, vinna meira, ná í stöðuhækkanir, verðlaun né neitt af því sem við teljum vera að ná árangri í lífinu. Frekar hið gagnstæða, að hætta að vinna, láta drauma sína eða ævintýri rætast og sækja allt það sem heimurinn hefur upp á að bjóða í upplifunum.

Hinsvegar er alveg merkilegt að ég fæ sama svarið við seinni spurningunni frá flestum sem ég hef spurt þeirrar spurningar og það svar er; Ég væri að verja þessum sólarhring í að gleðjast með þeim sem ég elska, umfaðma þá og segja þeim hversu mikils virði þeir eru mér og hversu mikið ég á eftir að sakna þeirra.

Undarlegt þegar tillit er tekið til þess að í dag eiga flestir erfitt með að finna tíma til þess að heimsækja og annast þá sem skipta þá mestu máli og velja gjarnan aðra skemmtun en þá að verja tímanum með þeim sem standa þeim hjarta næst.

Ég er algjörlega sek eins og hinir hvað þetta varðar, en þó hef ég endurskoðað líf mitt síðustu árin og fundið að einmitt það að eiga fjölskyldu, börn og barnabörn ásamt vinum er mér mikilvægara en allt heimsins prjál, og að veraldlegir hlutir skipta svo agnar litlu máli í stóru hamingjumyndinni.

Ég svíf þó ekki um á bleiku skýi þar sem við þurfum ekki gjaldmiðilinn okkar og vinnuna, og auðvitað veit ég að við þurfum víst öll að eiga einhvern samastað og mat til að borða.

Við þurfum samt ekki að keppast við að eiga allan heiminn, allar hönnunarvörurnar, merkjadótið og hvað þetta heitir nú allt saman sem við verðum svo að mikið að eiga. 

Fyrir mér í dag er árangur minn í lífinu eitthvað allt annað en þetta veraldavafstur.

Árangur í mínum huga er td sá að eiga maka, börn og vini sem koma fallega fram við mig og þá sem mér eru kærir, og að hafa við hlið mér kærleiksríka aðila sem annast mig á erfiðum köflum lífsins og að eiga börn og barnabörn sem verða að góðum umhyggjusömum manneskjum. Það væri minn yfirfyllti verðlaunabikar.

Ég veit að þetta hljómar eins og klisja fyrir marga,en ég held að ég hafi kannski fundið sterkast fyrir þessu mikilvægi núna að undanförnu þegar ég horfi á eldri dóttur mína og hennar mann taka að sér að annast í kærleika veika móður mína inni á sínu heimili vegna skorts á úrræðum í heilbrigðiskerfi okkar,en þetta gera þau á sama tíma og þau eru að sinna rúmlega tveggja mánaða gömlu barni sínu og hefja sitt fjölskyldulíf. 

Ég horfi á dóttur mína sinna ömmu sinni á alveg einstakan máta og dekra við hana með því að  lita augabrúnirnar, blása hárið, sjá til þess að hún fái góðan mat, taki lyfin sín og svo nuddar hún síðan á henni fæturna á kvöldin fyrir svefninn upp úr dýrindis olíum og ég sé hvernig móðir mín dafnar í þessu umhverfi og atlæti þrátt fyrir vitneskjuna um að eiga ekki svo marga daga tryggða eftir hér á hótel jörð.

Þetta fyrir mér er að ná árangri í lífinu þó að líklega fái hún dóttir mín engar medalíur né forstjóralaun fyrir þetta kærleiksverk, og líklega ætlast hún heldur ekki til þess að fá neitt annað en ánægjuna sem að fæst við að gefa kærleika sinn og umhyggju.

Það er í mínum huga að hafa náð árangri í lífinu því að það að hafa tilfinningalega greind er að mínu mati mun líklegri til árangurs fyrir heiminn í dag en sú greindarvísitala sem venjulega er mæld og ég held að hún muni skila mannlífinu sem heild meiri árangri en þeim sem við keppum svo stórlega að í dag. 

Þannig að ég er líklega að segja með þessu pári mínu að árangur ætti að vera mældur með öðrum hætti en við gerum í dag, hvernig við önnumst hvert annað og hversu mikla umhyggju, ástúð og samkennd við höfum að gefa. Lítum til móður jarðar þar sem allt snýst um að gefa og þiggja þar leggst allt á eitt, eða það að vinna saman að því að endurreisa og næra, græða og byggja upp heildinni til handa.

Árangurinn fæst nefnilega ekki endilega einungis með útbólgnum bankabókum, steinsteypu, titlum og frægð heldur með samstöðu og samkennd.

Metum fegurð lífsins elskurnar og lifum eins og við ættum bara einn dag eftir ólifaðan til viðbótar og segjum bara og gerum það sem við vildum gera á þeim degi - alla daga.

xoxo

Ykkar Linda


Breytingaskeið kvenna

Við konur sem komnar erum á mjög svo virðulegan aldur þekkjum margar hversu margt breytist hjá okkur þegar við förum á þetta svokallað "breytingaskeið kvenna" og ég segi fyrir mig að þetta ferli reyndist mér alveg skelfilega erfitt en sem betur fer er það misjafnt á milli kvenna hversu mörg og erfið einkenni þær fá..

Oft finnst mér gert lítið úr þessu tímabili og því miður er almenn þekking á því frekar þunn ennþá þó svo að það hafi kannski lagast heilmikið á síðasta áratug eða svo.

Þetta skeið okkar kvenna var allt saman sveipað dulúð fram á okkar tíma og ekki mátti tala um það nema í hálfum hljóðum. Samt erum við konur að finna allskonar einkenni sem hafa oft mikil áhrif á daglegt líf okkar, heilsu og líðan að ég tali ekki um þær breytingar sem verða á högum okkar margra í lífinu einnig á þessu sama tímabili. Börnin fara að heiman og barnabörn fæðast, möguleikar okkar kvenna á vinnumarkaði fara mjög dvínandi og nánast er vonlaust fyrir konur yfir fimmtugt að fá vinnu í dag virðist vera.

Mér þykir það mjög miður fyrir atvinnulífið,landið og heiminn allan, því að kraftur unga fólksins og reynsla hinna fullorðnu þurfa að haldast í hendur svo hægt sé að byggja upp heilbrigða þjóð og jafnvægi, þjóð sem skapar með þeim hætti góð skilyrði fyrir komandi kynslóðir.

En aftur að breytingaskeiðinu og minni líðan á meðan á því versta stóð (Skilst reyndar að þetta taki allt í allt um 20 ár).

Fyrir það fyrsta þá fann ég hvernig orka mín minnkaði á þessu tímabili og hvernig svefn minn flaug vængjaður út í buskann eða ég veit allavega ekki hvað varð af þessari svefnpurku sem ég var vön að vera á árum áður! Og þegar ég svo loksins náði að sofna þá var það eins og við manninn mælt að ég bókstaflega flaut úr úr rúminu í svitabaði nótt eftir nótt í nokkur ár. Venjulega erum við nú nógu ósmart svona nývöknuð en þetta tók út yfir allt og hafi ég einhvern tímann litið út eins og fuglahræða þá var það á þessum árum, blaut og úfin alla morgna í heila eilífð að mér fannst.

Og ekki nóg með svitaböð og svefnleysi heldur fór taugakerfið einnig í rúst. Ég held að ég hafi aldrei upplifað svona miklar breytingar á geðheilsu minni og urðu á þessum tíma.

Það er nú stundum gert grín að því að konur hafi tíu persónuleika, og já á þessum tíma var því þannig háttað með mig! Ekki var það þó þannig að ég gæti bara valið hvern sem ég vildi af þessum tíu, því að þeir létu einfaldlega illa að stjórn og það var aldrei að vita hverjum þú mættir hverju sinni.  

Ég hef t.d aldrei upplifað fyrr né síðar að finna hvernig tilfinning eins og kvíði er beintengdur líkamanum og utan við sálina, og það var rosalega skrítin tilfinning að finna að þetta hafði ekkert með mig og mínar tilfinningar að gera heldur líkama minn!

Blæðingar urðu óstabílar í töluvert langan tíma og fyrirtækin sem framleiddu þungunarpróf græddu helling á viðskiptum mínum á þessum tíma, því að ég var skíthrædd oft á tíðum um að nú væri ég hreinlega orðin ófrísk og það var ég ekki til í á þessum aldri.

Það sem mér fannst þó verst var að mæta skilningsleysinu sem ég upplifði þegar ég leitaði læknisaðstoðar vegna kvíðans og allra þessara ómögulegu einkenna. Það voru allar hugsanlegar ástæður taldar til nema breytingaskeiðið sjálft (Sem var þó orsökin).

Það eru afar mismunandi einkenni sem fylgja þessum breytingum og einnig mismunandi hvort eða hvaða einkenni konur finna, en ég ætla svona til fróðleiks að telja upp nokkur þeirra hér þó að ég kannist ekki við þau öll sjálf. 

Einkennin sem oftast eru talin upp eru t.d þunglyndi, kvíði, höfuðverkur, minnistruflanir, pirringur og óþolinmæði, hárið getur orðið leiðinlegt og blæðingar frá tanngómum geta átt sér stað. Þurrkur í kynfærum og óþægindi við samfarir eru algeng,og sviði við kynfæri og þvagrás eru það einnig.

Hárvöxtur í andliti eykst til muna okkur konum til mikils ama og leiðinda, og líklega eru mörg önnur einkenni sem fylgja þessum hormónasveiflum þó að þau séu ekki talin upp hér.

Síðan eru sjúkdómar sem við þurfum að passa okkur á og vera á varðbergi gagnvart, sjúkdómar eins og beinþynning og ýmsir hjartasjúkdómar láta oft á sér kræla á þessu tímabili og því þarf að huga extra vel að heilsunni.

En aftur að minni upplifun á þessu blessaða breytingaskeiði.

Árin liðu og einkennin dvínuðu en mér til mikillar furðu varð einnig ávinningur af þessu öllu saman.

Nú þekki ég t.d mun fleiri hliðar á persónu minni (allar tíu), er sterkari og veit betur hvað ég vill.(ætli það séu karlhormónarnir sem valda því?) Ég þekki líkamleg og sálarleg viðbrögð mín betur og ég veit einnig að ég get farið nánast í gegnum hvaða dal sem ég þarf að ganga í gegnum fyrst ég komst upp úr þessum.

Sjálfstraust mitt óx einnig verulega með öllu því góða sem því fylgir að treysta sjálfum sér og svona get ég haldið áfram, semsagt ávextirnir af óþægindunum urðu góðir.

Sumar okkar eru reyndar afar heppnar og finna vart fyrir einkennum þessa skeiðs og fljúga í gegnum þetta steinhissa á vælinu í vinkonum sínum, en þær sem fá alvarleg einkenni hafa sem betur fer í dag möguleika á allskonar hormónameðferðum sem ég því miður gat ekki nýtt mér. En elskurnar mínar ég hvet ykkur svo sannarlega til að nota þau úrræði sem í boði eru ef það gæti gefið ykkur bætta líðan og betri heilsu.

Ég vona að þessi upptalning mín og örlitla reynslusaga geti orðið þeim sem lesa að gagni, og ég vona að hún auki skilning þeirra sem eru í kringum konur sem staddar eru á stað flókins líkamlegs og sálarlegs ferlis sem ekkert grín er að fara í gegnum - og ég vona að þær fái stuðning og kærleika sem aldrei fyrr frá þeim sem elska þær.

Ég þykist vita að sá stuðningur, ásamt dassi af kærleika og uppbyggingu séu meðölin sem gætu hugsanlega stytt þetta ferli eða a.m.k gert það mun bærilegra.

Xoxo

Ykkar Linda

linda@manngildi.is

Linda Baldvinsdóttir

Markþjálfi/samskiptaráðgjafi/TRM áfallafræði 1 og 2.

 


Mamma

Mamma

Í dag er Mæðradagurinn og af því tilefni langar mig að skrifa nokkrar línur eða óð um okkur sem berum þennan titil "Mamma".

Ég á móður sem gaf mér lífið og fyrir það er ég henni alveg afskaplega þakklát. Ég veit sjálf hversu erfitt móðurhlutverkið er og hversu vanþakklátt það getur einnig verið og skil í raun ekki hvers vegna við leggjum allt þetta erfiði á okkur – en segi af öllu hjarta takk mamma fyrir að gefa mér þessa dýrmætu gjöf lífsins og fyrir að vera þú með öllum þínum kostum og öllum þínum göllum.

 

Þegar ég hugsa um hlutverk mömmu í mínu lífi þá koma upp skemmtileg minningabrot sem munu líklega ylja mér um hjartaræturnar svo lengi sem ég lifi.

Minningar eins og þær að hún varð áhyggjufull í hvert skipti sem ég kom of seint heim eða var ekki í sjónlínunni. Það var mér til mikils ama á þessum tíma og lítinn skilning hafði ég á þessu áður en ég sjálf varð móðir.

Mamma sem ég var afar háð þegar ég var barn og unglingur, semsagt óttaleg mömmustelpa sem kúrði með í sófanum fyrir framan sjónvarpið og svaf uppí rúmi hjá fram eftir öllum aldri.

Mamma sem kenndi mér mikilvægi gestrisninnar þar sem allir voru velkomnir og engum var vísað á bug sem átti bágt. Ömmur mínar hafði hún heima hjá okkur þar til ég var orðin nokkuð stálpuð og vinir mínir voru ávallt meira en velkomnir. Fyrir þessa ómetanlegu kennslu í samkennd og umhyggju er ég og verð ávallt auðmjúklega þakklát.

Mamma sem gat spjallað við mig um alla heima og geima og ég man eftir stundum eins og þeim þegar við settumst niður til að hlusta á gömlu 78 og 45 snúninga plöturnar sem hún átti í fórum sínum, og ég fékk að heyra sögur eða minningar sem tilheyrðu hverju laginu á fætur öðru. Lögin hennar Connie Francis eins og "Lipstick on your collar" og "Frankie",öll lögin hans Tom Jones sem ég hef lúmskan grun um að hún hafi verið smá skotin í, Elvis og "Blue Hawai", Barbara Streisant með lagið sitt "People", Simon og Garfunkel og þeirra "Bridge over troubled water" og hennar uppáhald sem var "the Boxer". Fleiri og fleiri góðir tónar ómuðu um heimilið og sköpuðu dásamlegar minningar og tónlistarsmekk sem mótaði mig og ég bý enn að.

Mamma eldaði alltaf í hádeginu á Sunnudögum og það var yndislegt að vakna við lyktina af steikinni í ofninum og heyra í messunni í útvarpinu þó að matarlystin og viljinn til að fara á fætur væri nú ekki beysinn oft á tíðum hjá mér á unglingsárunum og mamma líklega ekki alltaf sátt við það.

Samband mæðgna þó gefandi sé getur verið snúið oft á tíðum og líklega er hvergi meiri fjölbreytni að finna í tilfinningaskala og samskiptum.

Í sjálfstæðisbaráttu ungra stúlkna og leit þeirra að eigin stefnum í lífinu finna þær mæðrum sínum oft allt til foráttu en enga elska þær þó meira og engum treysta þær betur fyrir afkvæmum sínum og lífi en einmitt þeim. Skemmtilegir kontrastar sem þetta mamma/dóttir/(sonur) býður uppá.   

Ég er sjálf fyrir löngu síðan orðin móðir þriggja barna sem ég er afar stolt af og hugsa oft um undrandi og hálf ringluð – hvað gerði ég svona rétt? – merkilegt hvað hefur orðið úr þeim miðað við hversu mörg axasköft ég gerði í uppeldi þeirra! (þau hljóta að vera svona afskaplega vel gefin).

Dætur mínar eru einnig báðar orðnar mæður þannig að þessar þrjár kynslóðir kvenna sem gáfu börnum líf, mamma, ég og dæturnar tvær eigum semsagt þessa dýrmætu reynslu og titil sameiginlegan eða það að vera "Móðir". Ég dáist í dag að því hversu góðar kærleiksríkar og umhyggjusamar mæður þær eru og hjarta mitt fyllist stolti þegar ég sé allt það fallega sem þær geyma í brjósti sér.

Lífið er að mínu mati ein dýrmætasta gjöf sem við getum gefið þrátt fyrir erfiðleika ferðalagsins sem sú gjöf býður stundum uppá og ekki hefði ég viljað sjálf verða af þeim verkefnum sem mótuðu mig og gerðu mig að þeirri sem ég er í dag og er sátt við, og ég veit að allir fá sín verkefni til mótunar og betrunar. 

Við mæður erum líklega flestar tilbúnar að vaða eld og brennistein fyrir börnin okkar sem jú auðvitað eru stórkostlegustu mannverur sem hafa gist þessa jörð og við höfum stöðugar áhyggjur af velferð þeirra, heilsu og hamingju.

Stoltið sem við finnum við fyrsta bros, hjal og aðrar framfarir ungviðisins gera andvökunæturnar, fæðingahríðirnar og allt annað að hjómi einu og hjarta okkar brestur af kærleika í hvert sinn sem við lítum í saklaus augu þeirra og sjáum kraftaverk lífsins speglast þar.

Þegar þau svo óhjákvæmilega lenda í erfiðleikum á ferð sinni um lífið finnum við til í hjarta okkar og vildum svo mikið getað bjargað þeim frá öllu lífsins böli og finnum okkur svo vanmáttugar og litlar þegar þau ganga í gegnum dimmu dalina.

Gleðin hinsvegar sem flæðir um æðar okkar þegar vel gengur hjá þeim og alsælan sem við finnum þegar þau vaxa úr grasi og allt gengur vel hjá þeim eru þau verðlaun sem við vonumst líklega allar eftir að öðlast og fáum sem betur fer margar að upplifa.

Eitt get ég sagt með sanni sagt, ég er svo afar þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri á því að bera þennan titil "mamma" og er afar stolt af honum og ekki síður að þeim titli að fá síðan að verða "amma" sem eru aðal verðlaunin mín að mér finnst.

En að lokum. Ég elska mömmu mína og hefði ekki viljað eiga neina aðra mömmu, og segi enn og aftur - takk mamma fyrir allar fórnirnar, gleðina, kennsluna og allt hitt.

Móðurhlutverkið í mínum huga ber hinn sanna djúpa kærleika og einingu sem ekkert fær grandað, og við heiðrum það á þessum degi mæðra.

Innilega til hamingju með daginn þið dásamlegu mæður Íslands, heill sé ykkur sem lífið gefa.

Xoxo

Ykkar Linda

Linda Baldvinsdóttir

Markþjálfi/Samskiptaráðgjafi/TRM áfallafræði.

linda@manngildi.is

 


Sorgin og gleðin eru systur tvær

Ég eins og flestir upplifi sorgartímabil í mínu lífi. En það er misjafnt hver sorgarefni mín eða okkar allra eru, listinn er langur og missir maka, barns, foreldra, vina eða lífs sem við áttum, vinnu sem við misstum eða hlutverka sem við höfðum í lífinu og svo fr.

Á þessum tímabilum lífs okkar finnum við fyrir tilfinningum sem við oft á tíðum skiljum varla til fulls og finnst óraunverulegar.

það er svo merkilegt að um daginn upplifði ég ekki ósvipaðar tilfinningar þegar barnabörnin mín fæddust og þær tilfinningar sem fylgja þegar ég hef misst ættingja eða vini. Undarlegt -  eða kannski fann ég bara þessa skrítnu tilfinningu sem fylgir því að horfa á náttúruna í öllu sínu veldi og vita að bæði lífið og dauðinn lýtur lögmálum hennar.

Eins og ég sagði hér að framan þá hef ég misst með margskonar hætti á minni lífsleið, foreldri, ömmur og afa, áhrifavalda, vini, líf sem ég hélt að ég ætti öruggt og fleira og fleira, en sorgarferlið í öllum þessum aðstæðum er líklega ekkert svo ósvipað þegar allt kemur til alls.

Við misreiknum okkur stundum og höldum að það sé hægt að flokka sorgina niður í mismunandi erfiða sorgarflokka og svo ég nefni eitthvert dæmi til að útskýra mál mitt þá er oft talið erfiðara að missa maka en að ganga í gegnum hjónaskilnað en því fer fjarri skilst mér á þeim sem gengið hafa í gegnum hvoru tveggja.

Annað ferlið er viðurkennt sorgarferli og stuðningur er veittur á ýmsan hátt en hitt er einungis viðurkennt sem millibilsástand á milli þess að finna annan maka og við ættum bara að hafa það gaman á meðan við erum að finna annan aðila.

Við íslendingar eigum nokkur ágætis orðatiltæki sem lýsa þessu viðhorfi vel eða máltæki á við "alltaf má fá annað skip og annað föruneyti" og "það er nóg af fiskum í sjónum" eru alþekkt, en þetta fáum við hin einhleypu oft að heyra og engum dettur í hug að það fylgi slitum á samböndum/hjónaböndum sorgarferli sem tekur sinn tíma að vinna úr og líf sem þarf að byggja upp að nýju.

Með þessum skrifum mínum ætla ég ekki að gera lítið úr makamissi eða segja að allir sem slíta samböndum séu á sama stað í sorg sinni og sá sem missir, en stundum er það þannig og breytingin á lífinu oft með svipuðum hætti. 

En það er svo skrítið með sorgarferlið hvar sem ég ber niður hvað mig varðar a.m.k. þegar dauðann ber að garði að það eru yfirleitt þær kærleiksríku stundir sem uppúr standa þegar á allt er litið og þá er eins og hann mái út alla misklíð og særindi og eftir standa góðu og gefandi stundirnar sem ég átti með viðkomandi.

Þetta segir mér í raun að kærleikurinn sigri alltaf að lokum og að hann sé kannski það eina sem skiptir máli þegar öllu er á botninn hvolft. Það segir mér einnig að hann sé aflið sem sigrar heiminn en ekki hatrið eins og segir í Eurovision texta íslenska framlagsins í ár.

Mikið vildi ég að mér hefði auðnast að sýna kærleika minn í meiri mæli og efla þær stundir sem ég hefði getað átt með þeim sem skiptu mig máli þegar ég hafði tíma til þess, þennan dýrmæta tíma sem við vanmetum svo oft og höldum að við eigum óþrjótandi byrgðir af en reynast svo eftir allt vera afar fátæklegar mínútur í tímans hafi.

Hversu auðveldari væri aðskilnaður líklega af öllu tagi ef við værum viss um að við hefðum alltaf gert okkar besta til að sýna og gefa af okkur allt það sem best væri að finna innst í brjósti okkar og að okkur hefði verið svarað á sama hátt? 

Af minni reynslu segi ég hiklaust að það hefur breytt öllu fyrir mig í aðskilnaði og missi að vita að ég gerði mitt til að reynast vel og að gefa það sem ég átti í hjarta mér.  

En sorgin þessi eilífðar dans lífsins við gleðina heldur áfram og mun halda áfram að gefa okkur verkefnin og þá skiptir öllu að viðurkenna staðreynd dansins fyrir það fyrsta, njóta síðan gleðinnar þegar hún gefst. Takast síðan á við sorgina og vinna úr henni á eins fallegan og gefandi hátt og við erum fær um hverju sinni.

En þau ráð sem hafa gagnast mér best þegar gleðin hverfur á bak við skýin og sorgin bankar uppá eru eftirfarandi:

1 - Viðurkenndu staðreyndina og leyfðu þér að finna til allra tilfinninga,(það má), og tárin bera með sér lækningahormón sem linar og líknar.

2 - Leyfðu þér að finna allar litlu gleðistundirnar í lífinu þrátt fyrir sorgina og mundu að hláturinn og það að njóta er einnig læknandi afl.

3 - Styrktu böndin við þá sem þér þykir vænt um og þá sem lyfta þér upp.

4 - Ræddu um sorg þína við þá sem þú treystir fyrir tilfinningum þínum.

5 - Haltu í vonina um að einnig þetta samverki þér til góðs að lokum.

6 - Skapaðu ögrandi uppbyggjandi aðstæður inn í líf þitt,aðstæður sem þér hefði aldrei dottið í hug að þú gætir afrekað að framkvæma.

7 - Leitaðu að tengingu þinni við Guð eða þinn æðri mátt og lifðu innan frá og út, því að það má ekki gleyma andlegu hliðinni því að þar er kjarni okkar.

8 - Láttu aðra njóta góðs af lærdómnum sem reynslan gaf þér og styrktu þann sem þarfnast þín í glímunni við lífsins verkefni.

9 - Haltu áfram og stattu upp í hvert sinn sem þér finnst þú ekki getað staðið upp og lifðu  einn dag í einu þar til þú lifnar á ný.

10- Mundu svo að þakka fyrir reynsluna, minningarnar og gleðina sem þú ert að gráta eða      eins og segir í spámanninum eftir Kalihl Gibran -  

   "Þegar þú ert sorgmæddur, skoðaðu þá huga þinn og þú munt sjá, að þú grætur vegna þess, sem var gleði þín"

Þar til næst elskurnar munið að kærleikurinn og samstaðan er aflið sem sigrar allt,

xoxo

ykkar Linda 

Linda Baldvinsdóttir

Markþjálfi/Samskiptaþjálfi/TRM áfallafræði

linda@manngildi.is    

 

 


Roseto áhrifin

Um daginn las ég grein eftir Dr, John Day hjartalækni sem heldur úti síðunni https://drjohnday.com. Greinin fjallaði um það hvernig við gætum eignast skothelt hjarta og ég ætla að stelast til að taka aðalatriðin úr þeirri grein og færa þau atriði í minn stíl.

Greinin vakti athygli mína einkum fyrir það að vera sammála mínum skoðunum um hversu mikil áhrif okkar samfélagslega gerð hefur á heilsu okkar til anda sálar og líkama, og hverju við höfum verið að kasta frá okkur fyrir heimsins gæði eftir ca 1950. 

Árið 1961 þegar hjartasjúkdómar komust í hæstu hæðir í Bandaríkjunum og einmannaleikinn fór vaxandi (Samkvæmt könnun sem ég rakst á um daginn) tók læknir einn í Roseto þorpinu eftir því að hjartasjúkdómar voru ekki þekktir í þessu litla þorpi og lét hann Dr Wolf sem starfaði í Háskólanum í Oklahoma vita af þessu og fékk hann ásamt fleiri rannsóknaraðilum áhuga á því að kanna málið frekar. 

Allir þorpsbúar voru fengnir til að taka þátt í rannsókninni og allt á milli himins og jarðar var kannað. Blóðprufur, matarræði og hvernig þeir höguðu lífi sínu var athugað.

Og eftir nokkur ár eða árið 1964 birtust niðurstöðurnar úr þessari rannsókn í Tímariti the American Medical Association.

Í ljós kom að hinir Ítölsku íbúar Roseto borðuðu ekki rétt og voru í yfirvikt. Þeir reyktu, voru með hátt kólesteról, bjuggu við mikla mengun en samt voru þeir í helmingi minni áhættu á því að fá hjartasjúkdóma en aðrir íbúar landsins, eða virtust varðir fyrir þeim með einhverjum hætti.

Rannsakendur urðu furðu lostnir og fóru að leita að skýringum.

Í ljós kom að þessir Ítölsku innflytjendur höfðu haldið félagslegum grunni sínum óbreyttum frá því að þeir fluttu frá Ítalíu til fyrirheitna landsins eða allt frá árinu 1882.

Þorpið var frekar einangrað og þeir giftust ekki út fyrir þorpið, héldu sig út af fyrir sig eða frá þorpunum í kring, lofuðu Guð, versluðu í heimabyggð og þrjár kynslóðir bjuggu saman undir sama þaki. Þeir semsagt gengu gömlu göturnar þrátt fyrir allar þjóðfélagslegu breytingarnar sem urðu á árunum eftir stríð, götur sem við Íslendingar gerðum einnig lengi vel og gerum kannski vonandi að einhverju leiti enn.

Það voru einkum fjórir þættir sem virtust vera orsökin fyrir þessari vörn gegn hjartasjúkdómunum þorpsbúanna en þeir voru sem hér segir:

1. Fjölskyldulíf

Fyrir þessa Ítala var fjölskyldan allt. Kynslóðirnar bjuggu saman og þeir önnuðust hvern annan á allan hátt. Fjölmargar rannsóknir virðast vera sammála þessum niðurstöðum Roseta rannsóknarinnar því að gott hjónaband og sterk fjölskyldubönd virðast fækka hjartaáföllum samkvæmt þeim nýjustu og því ættum við að viðhalda og styrkja þessi bönd á allan hátt.  

2. Andleg rækt og trú.

Ítalirnir voru kirkjuræknir og fóru í kirkju á hverjum sunnudegi og voru afar andlega sinnaðir með kristin gildi að leiðarljósi og önnuðust náunga sinn eins og sjálfan sig.

Í dag vitum við að það að hafa góð gildi í lífi okkar og að annast okkar innri mann er það sem gefur okkur frið og ró í erli daganna, þannig að þetta eru svosem ekki nýjar fréttir fyrir okkur. Samt er það eitthvað sem við mættum huga betur að og kannski leyfa trúnni að komast í tísku aftur þar sem hún hefur góð samfélagsleg gildi og sú andlega rækt sem fylgir hefur góð áhrif á heilsu okkar á margan hátt. 

3. Sterkt samfélag

Þeir sem áttu meira en aðrir í Roseto voru ekkert að berast á og í raun höfðu þeir ekki hugmynd um það hver var ríkur eða fátækur þeirra á meðal og lífsgæðakapphlaupið þekktist ekki. það þótti meira að segja ekki fínt að láta á því bera ef þú áttir meira en aðrir. Samfélagið annaðist alla og samábyrgðin var algjör. Ef einhver var í neyð kom allt þorpið til aðstoðar og allir litu á sig sem systkyni hvers annars.  

4. Lágt streituhlutfall

Að sleppa tökunum og láta áhyggjur og örlög sín í Guðs hendur var það sem lækkaði streitustuðul Ítalanna og þeir vissu að hvað sem gerðist í fjölskyldu þeirra eða samfélaginu yrði alltaf til staðar aðstoð við þá. Og áhugavert var að það þekktust ekki glæpir í þessu litla samfélagi. 

Streita er eitthvað sem við þekkjum vel í dag og í raun er streitan að sliga okkur og gera okkur veik (og auka líkur á hjartaáföllum) Þannig að uppskrift Dr Johns sú að við ættum bara að vera ánægð með að hafa traust þak yfir höfuðið, nægan mat og ástrík samskipti. Hin fullkomna uppskrift að heilbrigðu nægjusömu lífi kannski fundin í þessu litla innflytjenda þorpi.

Er þetta ekki dásamlegt samfélag sem þeir byggðu sér þarna í Roseto? Það er mín skoðun að þeir hafi þarna fundið hina fullkomnu leið til að hámarka gæði lífsins og sú gamla gata sé eitthvað sem vert er að hafa í huga þegar við tökum ákvarðanir varðandi það hvernig samfélag við viljum byggja að mínu mati a.m.k.

En hvernig er Roseto í dag? Sagan endar því miður ekki eins og í ævintýrunum því að þeir fóru að giftast út fyrir þorpið og skilnaðir jukust. Trúariðkunin dalaði og varð ekki það lím sem hún áður var og lífsgæðakapphlaupið varð með svipuðum hætti og í öðrum bæjum og borgum Bandaríkjanna þannig að í kringum 1970 varð þetta skothelda hjarta sem þeir áttu áður í sama áhættuhópi og þekktist annarstaðar. 

"Roseto áhrifin" standa þó enn sem lýsandi viti fyrir okkur til að fara eftir. Góð fjölskyldutengsl, andlega lifað líf, að annast náungann og minnka stressið er leiðin ef við viljum losna við fjölmarga sjúkdóma og eignast skothelt hjarta segir Dr John og ég segi bara Amen við því! 

Þar til næst elskurnar,

xoxo

Ykkar Linda

Linda Baldvinsdóttir

Markþjálfi/Samskiptaþjálfi/TRM áfallafræði

linda@manngildi.is


Kulnun og átta átta átta aðferðin

Það er mjög vinsælt að tala um kulnun í dag og allskonar aðferðir sem eru nefndar sem leiðir út úr þessu ástandi og tel ég að leiðin út sé í sjálfu sér mjög einföld en ekki endilega auðveld. Þetta er eins og með megrunina, við vitum að við þurfum aðeins að passa fæðuna og hreyfa okkur til að ná árangri en það er ekkert endilega svo auðvelt samt.

Til að okkur líði sem best er afar mikilvægt að við sköpum okkur jafnvægi í lífinu og 8-8-8 reglan er bara regla sem virkar vel inn í þessar aðstæður þó að kannski þurfi fleiri þættir að koma inn og spila með, en þó að við gætum bara farið eftir þessari einu reglu erum við þó að minnka álagið töluvert og erum að ná töluverðum árangri.

En hver er svo þessi 8-8-8 regla?

Jú hún er sú að við skiptum sólarhringnum upp í 8 tíma vinnu - 8 tíma svefn og notum svo 8 tíma í að njóta lífsins fyrir okkur.

Að njóta er afar vanmetið fyrirbæri í dag og flestar lausnir sem við einblínum á þegar við erum útbrunnin og illa haldin er að auka við okkur í ræktinni, taka Keto kúr eða eitthvað sem snýr að líkamlegri líðan okkar en gleymum þeirri andlegu og sálarlegu sem þó skipta ekki minna máli.

Líkamlegu einkennin stafa oft af vannærðum anda okkar og við einfaldlega kunnum ekki að skoða andann með sama hætti og líkamann þó að alltaf séu sem betur fer að koma nýjar og nýjar vísbendingar frá áreiðanlegum heimildum sem tala um að stór hluti okkar líkamlegu sjúkdóma stafi af andlegum meinsemdum.

En hvað er svo vannærður andi?

Vannærður andi er andi sem gefur sér ekki andrými til þess að vera til og njóta augnablikanna í gleði og jafnvægi og gerir sér jafnvel alls ekki grein fyrir því að hann fái ekki rétta næringu, og ef ég ætti að setja það í eitthvert samhengi þá er það svipað og þegar við erum vannærð á líkama okkar (anorexía t.d)en tökum ekki eftir einkennunum fyrr en of seint og lítum okkur skökkum augum.

Gamlar meinsemdir eða pokarnir sem við berum á bakinu hafa einnig mikil áhrif á streitu okkar og geðslag þannig að það er einn hluti þess að hafa jafnvægið í lagi að losa sig við eins mikið og hægt er, og setja gamlar syndir drýgðar af okkur eða öðrum þar sem þær eiga heima - eða í fortíðinni en ekki núinu. Það eina sem gerist hjá okkur þegar við höldum í þessa gömlu fortíðardrauga er að við erum full gremju, vanmáttar, sjáum ekki að lífið geti fært okkur eitthvað annað en vonbrigði og sársauka, festumst í hugsunum sem vekja vonda líðan og stígum því ekki fram í framtíðina eins og barn sem er bara alveg visst um að þetta klikki ekki og að heimurinn hafi bara verið skapaður fyrir það.

Við þurfum semsagt að eignast barnslegt traust og trú á að allt sé og fari eins og því er ætlað og að okkur sé ætlað bara eitthvað betra á framtíðarvegi okkar.

Þetta hljómar örugglega eins og eitthvað hókus pókus ævintýri og ég sé hvernig sumir fussa og sveia yfir þessari einföldun á flóknu tilfinningalífi og áföllum, en þegar allt kemur til alls þá er það einmitt það sem gert er í bataferli einstaklings sem leitar sér aðstoðar eða það að losa sig við afleiðingar atburða og halda áfram.

Ég hef sjálf gengið í gegnum sársauka og borið hann á bakinu en þegar ég hef sleppt tökunum og óskað viðkomandi blessunar og þakka þeim sem gerðu mér mein að mínu mati fyrir lærdóminn sem ég tek með mér þá losnar um svo margt og lífið verður svo miklu ljúfara fyrir vikið og ég reynslunni ríkari.

Núna ætla ég þó að stoppa þrátt fyrir að ég gæti talað um jafnvægi í allan dag og leiðir til að dvelja þar Þá ætla ég að láta staðar numið hér en hvetja ykkur hinsvegar öll til að skoða hvað það væri sem gæfi ykkur raunverulega gleði ef þið leyfðuð ykkur að leita inn á við? hverskona hamingju? hvað gæfi ykkur ró? fegurð? visku? ástríðu o.s.f og sækið þangað í stað þess að grafa ykkur í vinnu og streitutengdum lífsmáta.

Og eins og alltaf er ég bara einni tímapöntun í burtu ef þú telur að ég geti aðstoðað þig við lífsins verkefni.

xoxo Ykkar Linda

Linda Baldvinsdóttir

Markþjálfi,Let samskiptafræði, TRM áfallafræði.

linda@manngildi.is   

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Ég er ekki góður feministi

Ég er ekki góður femínisti - En ekki misskilja mig, ég styð fullkomlega jafnréttisstefnu í launamálum, ráðningamálum, menntamálum og öðrum málum þar sem konur og karlar koma jafnt að hlutunum. Ég hafna líka ofbeldi gegn konum og í raun ofbeldi gegn allt og öllum og krefst virðingar fyrir persónu minni og annarra.

En ég er líklega ekki góður femínisti í fullum skilningi þess orðs eins og það er notað í dag amk.

Mér finnst við hafa gleymt að við konur höfum þá sérstöðu að við einar getum fætt af okkur börn sem er eitt mikilvægasta starf veraldar og það starf sem mótar mest framtíð heimsins alls. Í dag er ekki valkostur að velja það starf sem fullt starf á launum. Við hinsvegar getum valið að verða lögfræðingar,læknar,leikskólakennarar og hvað það nú er sem við veljum að starfa við og þiggjum laun fyrir það, en móðurhluverkið er enn að mestu ólaunað starf.

Ég er orðin nægjanlega gömul til að segja bara það sem mér finnst og þarf ekkert að hafa áhyggjur af því hvað verður sagt við því, en ég ætla að byrja á að tala um það sem mín kynslóð gleymdi að taka inn í dæmið.

Við hefðum kannski átt að krefjast þess að móðurhlutverkið yrði litið sem fullgilt starf launað á við störf forstjóra og bankastjóra og gefa því þann virðingastuðul sem það á svo sannarlega rétt á. Ef við hefðum farið fram á að virðing væri borin fyrir þessu mikilvæga starfi hefðum við getað valið það sem aðalstarf og menntað okkur í því að verða gott foreldri.

En við hreinlega gleymdum því í baráttu okkar að það skiptir afar miklu máli að ala börn upp í skjóli kærleika frá foreldrum og ættingjum og í raun tekur það heilt þorp að ala upp einstakling. Í leit okkar að jafnrétti og kvenréttindum gleymdum við þessari sérstöðu okkar kvenna -semsagt að það er okkar að fjölga mannkyninu og kenna því kærleiksrík og innihaldsrík samskipti. Hvers vegna kröfðumst við ekki að það væri metið til jafns við önnur mikilvæg störf, ég hreinlega skil það ekki og þykir það afar miður.

Var þetta stefnan í upphafi? Gleymdum við því að það er fullt starf en ekki hlutastarf að ala upp og annast framtíðarþegna þjóðfélagsins eða fannst okkur sjálfum það bara svo lítils virði að vera "bara" móðir og húsmóðir? 

Við hömuðumst eins og enginn væri morgundagurinn við að sýna að við gætum skipt um dekk, neglt og borað í veggi og gætum svo sannarlega gert allt eins vel og karlmaður. En til hvers? Er ekki í lagi að við séum ólík og höfum ólíkum hlutverkum að gegna? Og er ekki í lagi að halda sérstöðunni sem enginn getur neitað að við höfum þar sem karlkyninu var ekki ætlað að ganga með börn og fæða þau og ég spyr mig hvers vegna förum við gegn náttúrunni í þessu, höldum við virkilega að það virki betur í þessum efnum en öðrum þar sem við höfum reynt að sigra hana?  

Við ölum börnin okkar upp í því að allir séu eins en samt vitum við að kynin eru afar ólík að byggingu og ef ég nefni sem dæmi þá eru vöðvakerfi okkar og heilar mjög ólíkir.

Og hvað höfum við svo grætt á því að fara þessa leið?

Að mínu mati græddum við jú kosningarétt, menntunartækifæri, og virðingu fyrir ákveðnum þáttum, en við fengum líka erfið verkefni til að glíma við, og létum af mörgu sem var ekki til góðs að mínu mati.

Við erum með fullt af ungum mönnum í tilvistarkreppu, börn sem hafa ekki fengið það atlæti sem heimilið eitt getur gefið þeim að veganesti út í lífið, yfirkeyrða foreldra og jafnvel mæður sem þurfa að vera inni í ómögulegum samböndum vegna fjárhagsstöðu sinnar (þeirri breytingu höfum við ekki náð).

Mín einlæga trú er sú að margar þær greiningar sem börn fá í dag tengist lélegri tengslamyndun, löngum vinnudegi og streitu nútímaþjóðfélags sem gleymdi þörfum þeirra fyrir umönnun og kærleiksríkan aga þeirra sem elska þau. Með okkar kvennabaráttu græddum við líka þreytt fólk (Rannsóknir virðast benda til þess að vinnuálag á konur hafi einungis aukist miðað við vinnuálag karla)sem er að reyna að standa undir þeim kröfum að þurfa að vera ofurkonur og ofurmenn. Við erum með fullt af önnum köfnum foreldrum sem geta aldrei, hversu mikið sem þau vilja, gefið börnum sínum nægjanlega athygli né tíma, vegna anna utan heimilisins. 

Börn eru allt of oft komin með fullan vinnudag á fyrsta eða öðru ári lífs síns. Þau þurfa síðan líklega oft að upplifa streituna sem fylgir því að þræða stórar verslunarmiðstöðvar eða fullar matvöruverslanir að loknum þeim vinnudegi. Síðan eru þau sett fyrir framan sjónvarp eða tölvur á meðan þreyttir foreldrarnir útbúa mat og gera það sem nauðsynlegast er hverju sinni á heimilinu, allir þreyttir og útkeyrðir. Fáar gæðastundir sem fjölskyldan fær. Rannsóknir sýna að foreldrar tala töluvert minna við börn sín í dag en þeir gerðu fyrir tíu árum síðan, sorgleg staðreynd og eins sú staðreynd að þrátt fyrir allt afþreyingaefni hefur  einmannaleiki aukist svo um munar á undanförnum áratugum í okkar vestræna heimi. 

Við konur höfum einnig viljað breyta mönnunum og hafa þá mjúka og fjölhæfa á heimili og í barnauppeldi, en erum við svo ánægðar með þá þannig? Viljum við í raun þessa mjúku menn? Ekki virðist svo vera miðað við týpurnar sem heilla okkur mest í bókmenntum og bíómyndum. Fimmtíu gráir skuggar heilluðu konur um allan heim og voru seldir bílfarmar af þeirri bók hvar sem hún var til sölu. Og flestar féllum við fyrir þessum lokaða dularfulla manni sem hafði ekkert að gefa annað en hunsun og ofbeldisfullan hroka. Ekki átti hann nánd og virðingu eða kærleika til að gefa a.m.k. Eins er það með rauðu ástarsögurnar sem seldust vel síðustu áratugina og gera enn. Og mér er spurn - erum við á villigötum? Getur verið að við höfum farið einhverjar leiðir sem eru svo ekki að virka þegar allt kemur til alls eða eru þetta fæðingahríðir nýrra tíma, ég spyr mig?

Hvað ef við hefðum bara farið fram á að vera metnar til jafns við karlmennina en hefðum fengið að halda sérstöðu okkar á sama tíma eins og öðrum titlum sem menntun og sérhæfing gefur af sér? Hvað ef karlmenn mættu ennþá negla í veggi fyrir okkur, skipta um ljósaperur og dekk, mála veggi og þrífa bílinn? Hvað ef við mættum ætlast til þess að þeir opnuðu fyrir okkur bílhurðina, og færu úr frakkanum til að okkur verði ekki kalt? Hvað ef við konur hefðum mátt vera mæður sem væru stoltar af því að vera að ala upp hæfa einstaklinga til að taka við þjóðfélaginu og hefðum mátt vera "bara húsmæður" á forstjóralaunum?

Það var fyrir nokkrum árum að ung stúlka sem skrifaði fyrir Fréttablaðið varð fyrir miklu aðkasti fyrir það eitt að skrifa grein um að hún hefði beðið á bensínstöð eftir því að karlmaður kæmi henni til aðstoðar við að pumpa lofti í dekkin á bílnum hennar. Þjóðfélagið fór á hvolf og stelpan flúði land ( veit reyndar ekki hvort að það var vegna þessa máls :)) Og um daginn varð ég fyrir því sjálf á bensínstöð að starfsmaðurinn fór að kvarta yfir því að ég kynni ekki að athuga með olíu og slíkt. Ég hef reyndar bara ekki nokkurn áhuga á því að læra þessa hluti og fer á bensínstöð til að láta menn sjá um þessa leiðindahluti fyrir mig. Ég hefði líklega átt að athuga hvort hann kynni ekki örugglega að bródera,hekla og baka!

Mér verður nú stundum á að hugsa hvort að við hefðum kannski farið offörum í femíniskri baráttu okkar? Sumt var gott og þarft, en annað hafði að mínu mati afar slæm áhrif á þjóðfélagsgerð okkar, sambönd og heimilislíf.

Að opna á stöðu kvenna var þarft, að opna á umræður um kynferðisofbeldi,heimilisofbeldi og launamismun var þarft og að konur hefðu tækifæri til menntunar og stöðuveitinga var þarft, en móðurhlutverkið var einnig mjög þarft að setja á réttan stall og meta það til jafns við önnur mikilvæg störf samfélagsins, en ég og þær konur sem vorum ungar í byrjun kvennabaráttunnar gleymdum þessum atriðum og ég tel að við séum að sjá uppskeruna af þeirri sáningu mjög víða í samfélaginu - kannski höfðu gömlu göturnar og gildin eitthvað gott að geyma eftir allt. 

Þetta eru þó bara mínar hugleiðingar og skoðanir á því sem gleymdist eða glataðist og þú þarft ekki að vera sammála mér, en það vill svo til að ég veit að það eru margar konur þarna úti sem eru afar fegnar að einhver þori að segja þessa hluti á öðrum vettvangi en við skrifborðið sitt útkeyrðar ofhlaðnar og því miður oft í burnout ástandi.

Svo gerum eins og fyrirtækin telja yfirleitt sjálfsagt að gera eða það að endurskoða stefnuna reglulega og nota það sem hefur reynst vel, en finnum lausnir á þeim atriðum sem eru ekki að virka.

Danir eru að endurskipuleggja þessi mál hjá sér og eru að gera tilraunir sem virðast vekja lukku en það er t.d það að afar og ömmur búi í kringum börnin sín og sjái þannig einnig um barnabörnin (samt í sér íbúðum) og það held ég að sé einnig einn af þeim hlutum sem við létum frá okkur að nokkru ef ekki öllu leiti. Í dag eru ömmur og afar ennþá skvísur og gæjar sem eru að halda sér til fyrir bæði vinnumarkaðinn og markað hinna fráskildu og hafa kannski því miður ekki mikið af barnabörnum og börnum að segja. Ég þekki það sjálf að hafa alist upp með ömmum mínum og eru dýrmætustu æskuminningar mínar tengdar samverustundum með þeim og viska þeirra hefur reynst mér gott leiðarljós á vegi mínum. Þannig að:

Ég er ekki að skamma neinn með þessu pári mínu, ég veit að allir eru að gera sitt besta miðað við aðstæðurnar í þjóðfélaginu og ég er ekki heldur að segja að allir eigi að velja móðurhlutverkið umfram menntun og forstjórasætið, en ef þú vilt velja það - þá á það að vera metið að verðleikum í þjóðfélagi okkar.

Stingum ekki höfðinu í sandinn eins og strúturinn og látum eins og við sjáum þetta ekki, horfum á einmannaleikann í heiminum, horfum á aukinn kvíða hjá börnum okkar og tökum á þessum burnout málum allra. Það eru heilu kynslóðirnar sem eiga allt sitt undir þeim ákvörðunum og þjóðfélagsskipulagi sem við sköpum - svo sköpum fallegar og gefandi aðstæður fyrir þá sem skipta okkur máli.

Og ef þú telur að ég geti með einhverjum hætti aðstoðað þig á þinni leið þá er ég einungis einni tímapöntun í burtu.

xoxo

Ykkar Linda

Linda Baldvinsdóttir

Samskipta

 


Ég hugsa og þess vegna er ég.

Hugurinn er allt segi ég; "Ég hugsa þess vegna er égsagði René Descartes hér forðum og ég er mjög svo sammála honum hvað það varðar og er sannfærð um að við höfum meira vald en við stundum höldum með hugsunum okkar(þó að sumum finnist nú nóg um þá framsetningu hefur mér stundum fundist).
 
Ekkert verður þó til án hugsunar eða hvað? Við verðum fyrir ytra áreiti og það kviknar hugsun sem tengir við tilfinningu í brjósti okkar og tilfinningin tengir okkur síðan viðbrögðum eða framkvæmdum.
 
Hugræn athyglismeðferð byggir á því að breyta hugsanamynstrum og nýta heilann til að búa til nýjar venjubrautir með því að breyta hugsun, rökhugsun og tilfinningum og fá þá aðra útkomu en verið hefur í lífi viðkomandi og þá aðferð nýtir NLP markþjálfunin sér einnig.

Það er ekkert mikilvægara en það að læra að stjórna hugsunum sínum inni  í aðstæðum og skapa þannig karakter okkar, vellíðan og lífið í leiðinni, og ég get ekki annað en sagt við ykkur – ef þið viljið gefa ykkur eina gjöf gætið þá vel að hugsun ykkar og gætið þess að hugsunin skapi það sem gott er og fallegt fyrir líf ykkar. Munið líka að hugsunin kveikir á eða dregur úr boðefnaflæði í heilanum og þar með hefur hugsunin áhrif á líkamlega líðan okkar sem og þá andlegu.

Að sögn rannsakenda eru flestir þeir sjúkdómar sem við erum að fást við í dag eða um 75-80 prósent þeirra sem virðast stafa af röngum hugsanahætti okkar og tilfinningum sem valda skaða í líkama okkar. Það sem við hugsum um hefur semsagt áhrif á okkur bæði líkamlega og andlega, og í raun vekur tilfinning eins og ótti yfir 1400 þekkt líkamleg viðbrögð og boðefni í líkama okkar las ég um daginn og þar með einnig áhrif á meira en þrjátíu mismunandi tegundir hormóna. Sel þetta ekki dýrara en ég keypti þetta en skuggalegt er það ef satt reynist!

Samkvæmt tölum frá rannsóknastofu taugamyndunardeildar háskólans í Suður  Californiu er talið að allt að 48.6 hugsanir fari um kollinn okkar á hverri mínútu sem þýðir að allt að 70,000 hugsanir fara í gegn um huga okkar daglega og þar af er talið að  allt að  98 % þeirra hugsana séu neikvæðar eða ósjálfráðar og endurteknar. Ekkert smá magn hugsana sem fer um kollinn okkar alla daga!

Heilinn okkar þessi undrasmíði er okkar aðal hjálpartæki í lífinu og hlutverk hans er að verja okkur fyrir öllu því sem talist getur hættulegt lífi okkar og limum með einum eða öðrum hætti og halda okkur á öruggu vellíðanarleiðinni, og því er ekki undarlegt að megnið af okkar hugsunum verði af neikvæðum eða óttablöndnum toga svo að heilinn vinni nú sitt verk af kostgæfni og verji okkur sem best fyrir öllum þessum aðsteðjandi hættum, bæði þeim sem hættulegar eru andlegri heilsu okkar sem og þeirri líkamlegu.

Það tekur þó heilann u.þ.b 25 ár að þroskast að fullu og skýrir það kannski ýmislegt sem gekk á þegar við vorum yngri!

Þeir sem þjást af kvíða og þunglyndi t.d.gera sér oft ekki grein fyrir því hversu margar neikvæðar hugsanir fara um koll þeirra dag hvern og því síður gera þeir sér grein fyrir því að þeir geta haft áhrif á líðan sína með því að breyta hugsunum sínum með markvissum hætti sem er ekki nema von þar sem sjálfvirkar hugsanir eru líklega fyrirferðamestar og valda truflun.

Hugsanir eins og ég get ekki, kann ekki, þetta er ekki hægt og ég er ekki nóg fyrir þetta, hafa meiri áhrif en við gerum okkur stundum grein fyrir þar sem við trúum yfirleitt hugsunum okkar og lítum á þær sem sannleikann sjálfan í allri sinni mynd. Hugsanir hinsvegar hafa afar mismunandi merkingar hjá hverjum og einum, og einstaklingar geta upplifað sömu hugsanir og atburði með misjöfnum hætti allt eftir merkingu orðanna í reynslubanka þeirra, tilfinningalífi og lífssögu.

Það er talið að það taki okkur um 63 daga að skapa nýja venjubraut í heila okkar og er það gert með því að æfa sig á nýjum hugsunum sem leysa þær gömlu af hólmi og þannig verður smá saman til ný sýn og ný viðhorf, en þó að það taki 63 daga að mynda þessar nýju brautir þýðir það ekki að við séum bara komin með þetta elskurnar því að alveg eins og með líkamlegu ræktina þurfum við sífellt að vera að viðhalda þessum nýju brautum (vöðvum).

Nasa geimvísindastofnun Bandaríkjanna gerði áhugaverða tilraun á geimfaraefnum sínum hér um árið, en sú tilraun fólst í því að geimfaraefnin voru látin ganga með gleraugu sem sneru heiminum á hvolf í heila 30 sólarhringa dag og nótt. En það skemmtilega gerðist að eftir þessa 30 sólarhringa var heilinn búinn að snúa myndinni við og rétta heiminn af hjá þeim ef svo má að orði komast og ný sýn orðin til hjá þeim. Stórkostlegt tæki þessi heili okkar og hvernig hann lætur að stjórn eins og afar fullkomin tölva.

Þessi tilraun sýnir að heilinn okkar er fær um að breyta sýn okkar og fókusar á að búa til þá mynd sem við viljum sjá. Þetta er gott að hafa í huga þegar við erum að vinna úr gömlum rótgrónum mynstrum sem hamla okkur í lífinu ,- Við getum semsagt vanið okkur af því sem við gátum vanið okkur á”  En til þess að breyta hugsanamynstrum þurfum við þó markvisst að velja hugsanir okkar, taka þær föstum tökum og stýra þeim í ákveðnar uppbyggjandi og valdeflandi áttir.

Í NLP fræðunum er sagt að til að breyta hugsunum þurfi fyrst af öllu að koma til viðhorfsbreyting sem verður til vegna nýrrar reynslu og skynjunar,og síðan tekur við ákveðið lærdómsferli sem líkja má við það að læra að keyra bíl.

  1. Í upphafi erum við ómeðvituð um vankunnáttu okkar en höldum samt af stað.
  2. Næsta stig verður síðan til þegar við setjumst undir stýri og uppgötvum að við hreinlega kunnum ekkert á útbúnað bílsins.
  3. Þriðja stigið er síðan það að  við lærum á útbúnaðinn og æfum okkur reglubundið.
  4. Fjórða og síðasta stigið er síðan þegar við erum farin að keyra bílinn án þess að þurfa að hugsa nokkuð um hvað við erum að gera, við bara keyrum. Við ferðumst semsagt frá ómeðvitaðri vankunnáttu yfir í meðvitaða vankunnáttu, og þaðan fórum við yfir í meðvitaða þekkingu og að lokum yfir í ómeðvitaða þekkingu.

Úfff eruð þið að skilja mig ?

Heilinn okkar er einfaldlega svo dásamlegur að hann bregst við hugsun okkar og lærðri þekkingu og hann er einnig mjög sveigjanlegur í því að innleiða ný hugsana og hegðunarmynstur ef við æfum okkur í þeim yfir ákveðinn tíma eða frá 3 vikum segja sumir og allt upp í 63 daga áður en æfingin er orðin að venjumynstri.
 
Að læra að hafa stjórn á tilfinningalegum viðbrögðum getum við einnig gert með því að þjálfa og beita röksemdahluta heilans við framkvæmdina eða það að nota rökhugsun.
 
Að læra að stjórna tilfinningum sínum er að mínu mati það sem hefur komið sér best fyrir mig a.m.k og marga þá sem ég hef unnið með í gegnum árin, og reyndist mér það best þegar ég ætlaði að fara inn í gamlar meðvirknitilfinningar og gömul viðbrögð við þeim, en ég lærði að bregðast öðruvísi og rökfastar við og að hertaka þær hugsanir sem voru mér ekki til gagns og héldu mér frá því sem var best fyrir mig og það er dásamlegt að geta það í flestum tilfellum (gleymi mér stundum ennþá).
 
Ætla ekki að hafa þetta lengra að þessu sinni elskurnar mínar, en vona að þið hafið haft eitthvað gagn af því að lesa þetta og vonandi lært eitthvað nýtt um ykkur og hversu mögnuð þið eruð í raun.
 
Eins og ávallt er ég bara einni tímapöntun í burtu ef þú þarft aðstoð mína við lífsins verkefni.
 
xoxo Ykkar Linda
 
Linda Baldvinsdóttir
NLP Markþjálfi - Let samskiptatækni - TRM áfallatækni
linda@manngildi.is 

Fæla sterkar konur karlmennina frá sér?

Nú nýverið las ég grein þar sem fram kom að karlar vilja ekki sterkar vel gefnar konur sem maka þrátt fyrir að þeir beri mikla virðingu fyrir þeim alla jafna.

Það sannast sem sagt það sem við vinkonurnar höfum stundum verið að gaspra um eða það að karlmenn séu almennt með svo brotið ego að þeir þurfi að vera aðeins yfir konuna í lífi sínu hafnir í stað þess að vera þar á jöfnum grunni(auðvitað ekki algilt frekar en annað).

Stephani Reeds hefur skrifað margar greinar um hinar mannlegu og sálarlegu hliðar mannsins og í grein þeirri sem ég las heldur hún því fram að karlmenn vilji heldur brothættar, mjúkar, kvenlegar konur í stað sterkrar alpha konu hvenær sem er.

En hvers vegna er þetta svona ef við gefum okkur að staðreyndir séu á bak við þessa fullyrðingu?

Í grein Stefanie segir hún að í könnunum sem gerðar hafi verið komi í ljós að möguleikarnir á því að menn muni fara á rómantískt stefnumót með gáfaðri valdamikilli konu séu jafnvel minni en við vinkonurnar héldum.

 

Ein af mörgum könnunum sem var gerð við Háskólann í Buffalo ásamt Háskólanum í Texas og Lútherska Háskólanum í Kaliforniu var framkvæmd þannig að karlar voru valdir og spurðir hvort þeim þætti þægilegt að fara á stefnumót með konum sem væru gáfaðri en þeir sjálfir. 90% sögðu að þeim þætti það í fínu lagi, en þegar öll stigin úr könnuninni voru talin saman kom í ljós að þeir höfðu í raun ekki áhuga á þeirri konu sem rómantísku viðhengi.

Niðurstaðan var semsagt sú að konur sem voru gáfaðri en þeir og voru hæfari til að framkvæma ákveðin verk vöktu áhuga eða virðingu mannanna en aðeins ef þær voru í ákveðinni fjarlægð frá þeim. Þegar að stefnumótum kom hinsvegar og nálægð við manneskjuna komin í spilið þá kom í ljós að þeir kjósa frekar konur sem eru þeim síðri að gáfum og getu í það hlutverk.

Önnur könnun af sama toga gaf svipaðar niðurstöður en útskýrði betur hvers vegna þetta er svona.

Í prófunum þessara aðila voru þátttakendur beðnir um að skilgreina og lýsa karlmennsku sinni í aðstæðum þar sem kona hafði haft yfirhöndina í samræðum fyrir framan konu sem þeir höfðu haft rómantískan áhuga á og það kom ekki vel út fyrir egoið þeirra.

Rannsakendur komust að svipaðri  niðurstöðu og þeir sem fyrri könnunina gerðu og vitnað er í eða að í fjarlægð höfðu menn meiri áhuga á konum sem voru þeim fremri að gáfum, en á hinn bóginn þegar þessar konur voru komnar í raunveruleg samskipti við þá voru þær ekki eins spennandi ef þær báru höfuð og herðar yfir þá gáfnafarslega séð.

Það virðist því þannig vera þegar allt er tekið með að karlmönnum sé verulega ógnað af valdamiklum, vel gefnum og sjálfstæðum konum.

Og kona með snjallan húmor virðist einnig vera hættuleg þessu brothætta egói karlmannanna og þeir kjósa einnig að halda sig í góðri fjarlægð frá þeim konum.

En þrátt fyrir að karlmönnum í þessari könnun finnist gáfaðar konur ógnvekjandi þýðir það ekki að það sé eitthvað að þessum gáfuðu og flottu konum segir Stefanie og gæti ég ekki verið meira sammála henni hvað það varðar, og ég hef nú þá trú að það séu til menn hér á okkar ylhýra sem eru það sterkir karakterar að þeir hefðu orðið undantekningin í þessum Bandarísku könnunum og þoli það vel að konur skáki þeim að vitsmunum og ýmsu öðru leiti.

Ég hef  einnig þá trú að við séum komin mun lengra í jafningjasamskiptum en það sem lesa má út úr þessum könnunum sem hún Stefanie týnir til.

Og ef sú trú mín  bregst þá ætla ég enn að að trúa á að kraftaverkin gerist enn þann dag í dag og að þessir sterku fallegu og fjallmyndarlegu gáfuðu víkingar okkar munu ekki uppfylla orð okkar vinkvennanna um heigulshátt og brotna sjálfsmynd heldur sé þetta bara í nösum okkar kvenna jafnt hér á landi sem annarstaðar.

Kæru systur - verum bara jafn klárar,fyndnar,flottar,valdamiklar og okkur sýnist að vera, það er alltaf smartast að vera maður sjálfur eins og maður er án þess að reyna með nokkrum hætti að leitast við að breyta sér til að uppfylla þarfir eða væntingar annarara, að ég tali nú ekki um að fara að stíga meðvirknidansinn sem engum gerir gott.

Nú og ef enginn fallegur víkingur kann að meta okkur eins og við erum (ekki að það sé forsendan fyrir góðu lífi), þá skulum við bara skína skært á okkar eigin sjálfstæðu gáfnafarslegu húmorísku forsendum og njóta lífsins með þeim sem kunna að meta návist okkar og klárheit!

Eins og alltaf er ég svo bara einni tímapöntun í burtu :)

Xoxo

Ykkar Linda

 

Linda Baldvinsdóttir

TRM áfallafræði, LET samskiptafræði og Markþjálfun.

Linda@manngildi.is

 


Við setjum okkur í fangelsi vegna mistaka okkar

Við sjálf erum þau sem berjum okkur mest vegna mistaka okkar á lífsleiðinni og við berum sár okkar með þeim hætti að við erum sífellt að neita okkur um það besta hvað varðar framkomu gagnvart okkur, neitum okkur um verðmæti og velgengni, og setjum okkur jafnvel í ævilangt fangelsi fyrir það eitt að hafa ekki kunnað betur eða vitað betur í aðstæðum lífsins og brugðist þar af leiðandi rangt við.

Ég áttaði mig á því fyrir ekki svo löngu síðan að ég sjálf hef reynt að bæta fyrir mistök mín með meðvirkni og með því að finnast ég ekki eiga neinn rétt á að vera í forgangi eða að njóta velgengni á ýmsum sviðum lífsins.

En nú eru sko sem betur fer komnir aðrir tímar.

Ég áttaði mig loksins og fór að sjá að þetta gengi ekki svona, ég hefði bara ekki nokkurn rétt á því að berja mig stöðuglega fyrir mistök sem voru aldrei gerð hvort sem er af ásetningi heldur var það lífið sjálft sem gerðist eins og gengur og gerist með tilheyrandi reynsluleysi mínu og skort á þekkingu í aðstæðum - En þegar ég loksins vaknaði var ég búin að afplána lengri dóm frá sjálfri mér en þeir sem setið hafa í fangelsi fyrir morð og nauðgun hér á landi hafa gert!  

Fangelsið sem ég setti mig í vegna dómhörku minnar í eigin garð varð mér dýrkeypt og jafnvel enn þann dag í dag stend ég sjálfa mig að því að draga mig í hlé vegna þess að ég á ekki rétt á einu eða neinu þar sem ég er líklega sú eina sem hef gert mistök í lífinu og á þar af leiðandi ekki skilið það besta!  

En skoðum hversu miklum skaða þessar barsmíðar mínar, niðurtal og fangelsisdómur hefur haft á mig í gegnum tíðina.

Meðvirknin og samviskubitið nagaði mig og kvaldi og ég var alltaf hrædd um að gera ranga hluti og gerði þar af leiðandi fáar kröfur fyrir mig, dró ekki línu í sandinn fyrir mig en dró mig frekar í hlé í fórnarlambið. Svo stóð ég upp og fór að gera sjálfsagðar kröfur fyrir mig sem ég reyndi að standa við og setja niður hælana með tilheyrandi erfiðleikum sem flestir þeir þekkja sem byrja að setja mörk fyrir sitt eigið líf og tilvist.

Þegar við setjum okkur í fangelsi með þessum hætti fylgja því ýmsar aukaverkanir eins og t.d þær að ég talaði ekki til mín með fallegum hætti, sótti ekki það sem ég hefði viljað sækja vegna þess að ég var aldrei nægjanlega frambærileg og flott og ég leyfði framkomu við mig sem með engum hætti var mér samboðin -  en það eru liðnir tímar og ég hef í dag náð langt frá þessum stað sem betur fer.

 

Í dag stend ég með mér þó að stundum sé enn of langt í þolinmæðisþræðinum hjá mér og í dag hugsa ég um mig með sama hætti og ef ég væri að gæta að afleggjurunum mínum sem skipta mig öllu máli.

Ég sýni sjálfri mér sama kærleika og ég vil að þessum dýrmætu einstaklingum mínum sé sýndur og veit að ég á skilið að fá fallega virðingaverða framkomu og svo sannarlega á ég rétt á því að sækja það sem ég hef áhuga á að sækja hverju sinni.

Ég vel einnig það fallega og góða inn í mitt líf, eiginleika eins og einlægni, góðmennsku, traust, kærleika og allt það sem prýða má falleg samskipti manna á milli.

Ég vel einnig að vanda mig í samskiptum við aðra og mun alltaf ganga frá samskiptum sem ætluð eru til þess að setja mig eða mína niður. Þetta er val mitt fyrir mitt líf og ég vona svo sannarlega að þú sem þetta pár lest takir þetta til þín því að þú átt bara það besta skilið í lífinu einfaldlega vegna þess að þú ert manneskja sem ert að gera þitt besta í þeim aðstæðum sem þú ert í núna.

En hvers vegna er ég að tjá mig um þetta og opna á viðkvæman stað í hjarta mér?

Jú líklega vegna þess að ég sé þennan óskilyrta fangelsisdóm nánast á hverjum degi hjá samferðamönnum mínum, eða það að þeir berja á sér fyrir “mistökin” sem þeir burðast með.

Ég sé flotta einstaklinga með skaðaða sjálfsmynd vegna þessara sömu mistaka og ég sé þá neita sér um almennilegt og gott líf vegna þeirra, og þeir keppa stöðuglega að því að reyna að uppfylla og bæta fyrir syndir sínar við allt og alla.

En heyrið mig til enda elskurnar því að það er svo ótrúlega dýrmætt að gera þessi “mistök” og öðlast þá reynslu sem við fáum við úrvinnsluna á þeim, því að þau eru í raun þessi x-factor sem hefur gert okkur að því sem við erum í dag, og ég á enn eftir að hitta manneskju sem segist vilja losna undan reynslunni sem hún hefur öðlast á leiðinni og verða aftur að þeim aðila sem hún var fyrir jafnvel mjög sárar og birtar reynslur en hver veit – kannski á ég eftir að hitta þá persónu engu að síður.

Ég man eftir því að hafa spurt góðan vin hér í denn hvers vegna í ósköpunum svona ágætis manneskja eins og ég fengi öll þessi erfiðu málefni og verkefni inn í mitt líf í stað rósrauðra ævintýra að hætti rauðra og rómantískra bókmennta sem ég hélt svo sannarlega hér áður fyrr að væru eins og lífið sjálft (það ætti að banna þessar rauðu ástarseríur :) ) og hann vinur minn átti fá svör önnur en þau að þetta hlyti að nýtast öðrum á lífsleiðinni til góðs -sem reyndar hefur komið á daginn og ég segi gjarnan að ég hafi verið í háskóla lífsins sem hafi verið erfiðari en allt nám sem ég hef verið í á lífsleiðinni.

Ég uppgötvaði fyrst lærdóminn sem verkefnin og mistökin mín gáfu mér Í störfum með þeim einstaklingum sem til mín leituðu. Þar hef ég aldrei fundið fyrir fordómum eða hneykslun gagnvart þeim sem setið hafa á móti mér og hef getað mætt öllum á jöfnum grunni og stað skilnings, og  reyndar aðeins fundið í hjarta mér að mig langi til að sjá þessa einstaklinga vaxa og dafna. Að sjá aðeins það besta í fólki (og okkur sjálfum) og finna löngun til að reisa fólk við á lífsgöngu þeirra er að mínu mati mjög gott að eiga í hjarta sér og kannski það dýrmætasta sem lífið hefur gefið mér fyrir utan börnin mín, barnabörn og góða vini.

Svo stöldrum aðeins við elskurnar, leitum inn á við og athugum hvort að það geti hugsanlega verið að við séum búin að setja okkur í fangelsi samviskubitsins og séum búin að dæma okkur til ævilangrar betrunar þar, og ef svo er finnum þá leið til að stytta þá vist eins og hægt er með öllum tiltækum ráðum.

Við erum líklega okkar verstu dómarar og dómur okkar stundum án vonar um náðun. Og afleiðing dómsins er einungis til þess fallinn að við munum eiga erfitt með að finna það góða fagra og fullkomna fyrir okkar líf og þeirra sem okkur þykir vænst um og svo missum við út svo stórt brot af ævintýri lífsins með því að leyfa okkur ekki að njóta þess besta í fullu frelsi.

Förum nú fram á náðun, opnum rimlana og göngum inn í lífið og frelsið elskurnar.

Og eins og ætíð er ég bara einni tímapöntun í burtu ef þú þarfnast aðstoðar minnar við þín lífsins verkefni.

 

„Mér hefur ekki mistekist, ég fann bara 10.000 leiðir sem virkuðu ekki.“ -Thomas Edison

„Stærstu mistök lífsins eru að hætta að gera tilraunir til sigurs.“ -Napoleon Hill

Xoxo

Ykkar Linda

 

Linda Baldvinsdóttir

TRM áfallafræði, LET samskiptafræði og Markþjálfun.

Linda@manngildi.is

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Linda Baldvinsdóttir

Höfundur

Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • ..._s4i6862_2
  • ...0eaf470d6_2
  • ...98009927331
  • pistill mynd
  • 15608665 10210640975833107 554134899 o

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband