17.1.2019 | 11:54
Flott þessi stelpa hún Alda Karen
Nú er mikið fjaðrafok yfir ummælum Öldu Karenar sem óheppilega sagði sem svo að það að segja sjálfum sér að maður sé nóg sé vörn gegn sjálfsvígum.
Raddirnar sem fóru af stað við ummæli hennar leiddu hana inn í Kastljós Ríkissjónvarpsins og þar byrjaði nú ballið fyrst.
Spyrillinn hafði ekki mikið fyrir því að fela aldursfordóma sína eða álit á "kultfræðunum" sem hann telur líklega að árangursfræðin séu, og greinilegt var að hann hafði ekki mikið álit á stelpunni sem sat þarna og sagði einungis að við þyrftum bara að kenna fólki að það væri nægjanlegt eins og það er. Talaði fjálglega um þá sem kæmu sem söfnuð og hana þá að öllum líkindum sem trúarleiðtoga, lítið smart að mínu mati og lísti bæði vanþekkingu og fordómum.
Sálfræðingurinn kom aðeins meðvirknilega inn að mínu mati þegar hún sagði að það gætu verið einhverjir sem væru svo illa farnir að þeir gætu farið neðar við það eitt að heyra þetta - finnst mér það svolítið svipað og það að einhver megi ekki gera eitthvað því það gæti orðið öðrum að falli (án þess að ég sé að gera lítið úr ummælunum sem fjaðrafokinu olli frekar en Alda sem baðst afsökunar á þeim)
Gott og blessað að skamma Öldu fyrir að einfalda hlutina um of í tilliti til þess að það eru svo margir sem eiga um sárt að binda vegna sjálfsvíga sem því miður eru allt of mörg hér á landi, og skiljanlegt að fræðingar ýmiskonar skuli vilja láta tala um þau mál með flóknari hætti og taka til þær rannsóknir, verkfæri og kunnáttu sem þeir búa yfir.
Nú en þá kemur minn skilningur á því sem hún Alda Karen var að segja ef ég hef skilið hana rétt, en það er að mörg andleg mein séu til komin vegna þess að hugsun okkar er skökk og hindrandi fyrir líf okkar og getur þannig leitt okkur á staði þar sem okkur líður hörmulega - Kannski svo hörmulega að eina leiðin sem hægt er að sjá fram á fyrir suma er að losa lífið við þá og að vera ekki lengur fyrir, og þá erum við svo sannarlega búin að segja okkur sjálfum að við séum ekki nóg og að lífstilgangur okkar sé þar með farinn.
Ég geri mér fulla grein fyrir því að árangursfræðin hafa ekki öll svör við sjálfsvígum og í raun held ég að fáir ef nokkrir hafi öll svörin því miður.
Það sem mér finnst hinsvegar aðdáunarvert er að ung stúlka nái til unga fólksins okkar með þeim hætti sem Alda Karen nær og við sem eldri erum og höfum siglt um mörg höf ættum að koma upp að hlið hennar og aðstoða hana með því að leggja okkar lóð á vogarskálina og nýta þannig þetta platform sem hún hefur skapað með karisma sínum til að ná til sem flestra sem þurfa á aðstoð að halda við að vinna sig frá andlegum meinum.
Ég vil hvetja okkur til að láta af þessu eilífa íslenska fyrirbrigði "öfundinni" sem mér finnst ég svolítið finna lyktina af yfir velgengni Öldu sem er að gera ótrúlega góða hluti og er að kynna til sögunnar nýjustu tækni og upplýsingar sem við höfum varðandi starfsemi heilans okkar og hvernig má nýta þær til að aðstoða samborgara okkar.
Hættum að reyna að finna á henni höggstað, leggjumst þess í stað á eitt með að vinna gegn vanlíðan og öðrum andlegum meinum og koma bara sem flest saman með alla okkar dásamlegu þekkingu hvaðan sem hún er sprottin og bara hjálpa þeim sem á þurfa að halda.
Hvernig væri það að fylla Hörpuna af sálfræðingum, geðlæknum, Markþjálfum, árangursfræðingum og fleirum sem lausnirnar hafa og virkilega láta til okkar taka í þessum efnum?
Ég veit ekki með þig - en ég er til hvenær sem er!
xoxo
Ykkar Linda
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
7.1.2019 | 16:14
Gerum þetta að ári kærleikans
Jæja elskurnar nú erum við komin af stað inn í nýtt ár sem vonandi verður okkur öllum til heilla og hamingju hvar sem við búum og hvað sem við erum að fást við.
Svona tímamót eru okkur svo nauðsynleg vegna tækifæranna sem við fáum á því að skapa eitthvað nýtt og betra, taka til í okkar ranni og halda á beinu brautina í þeim skilningi orðsins sem hentar okkur.
Að ákveða hvað það er sem við ætlum að taka með okkur inn í nýtt ár og hvað það er sem við ætlum að skilja eftir í því gamla er einnig svo nauðsynlegt til að við getum nýtt þetta nýja tækifæri til fulls og sköpunargáfu okkar til hins ýtrasta.
Því miður er það allt of oft sem við söfnum í pokann okkar allskonar miserfiðum tilfinningum og atburðum á hverju ári og einhvernvegin er það þannig að okkur finnst við þurfa að taka sumt af því með okkur inn í nýtt ár. Ég segi hinsvegar og meina það að það er betra að staldra aðeins við og skoða hvað af þessu sem við losum okkur ekki við um áramótin er að þjóna okkar lífi. Hvað er það í pokanum okkar sem veitir okkur gleði,hamingju, velsæld og virðingu, tökum það með okkurinn í nýja árið, en tökum úr honum það sem veldur okkur vanlíðan, særindum, móðgun og öðrum vondum tilfinningum.
Ef ekki er hægt að taka þær vondu með góðu móti úr pokanum og gleyma þeim þá er kannski ráð að fá fagaðila til að vinna úr þeim með þér því að það er bara lítið smart að burðast með þennan dökka poka ár eftir ár á bakinu og fátt sem er eins þreytandi.
Nú og ef þú spyrðir mig hvað það væri sem ég teldi að heimurinn þarfnaðist mest að fá frá okkur inn í framtíðina og árið nýja þá væri svar mitt einfalt.
Svar mitt væri að ef við gætum dreift í kringum okkur velvild og kærleika, vinsemd, samkennd og öðrum mannlegum kærleikstilfinningum sem ég veit að við eigum nóg af í hjarta okkar, þá yrði lífið og heimurinn allur öðruvísi en hann er í dag. Og ef við hugsuðum aðeins meira um að aðstoða hvert annað í lífsins ólgusjó þá liði okkur betur í eigin skinni og það gæfi okkur líklega meira en margt annað sem við sækjumst svo gjarnan eftir.
Ég er einnig sammála söngkonunni GAGA um að Óvinur heimsins sé sundrungin og hatrið sem myndast vegna þess að allir litlu hóparnir (Þjóðfélög og þjóðarbrot) halda að þeir séu með stóra sannleikann og réttu menninguna, rétta húðlitinn, réttu starfstitlana og réttu umgjörðina í lífinu, en sem í raunveruleikanum er einungis mismunandi sjónarhorn okkar á heiminn.
Og þegar við kynnumst hinum hópunum sem við áttum að hata eða setja niður þá breytist gjarnan þetta sjónarhorn sem betur fer og við upplifum flest að við erum eins í grunninn og leitum að því sama hvar í veröldinni sem við búum, en það sem við leitum helst að er kærleikur, eining við aðra menn og hamingja í hjarta okkar vegna starfa okkar og framlags til lífsins og samferðamanna okkar.
Ég hvet okkur öll til þess á nýja árinu að horfa á okkur jarðarbúa sem eina heild, láta af óvild og hatri, sækjast í að aðstoða náungann við að eiga fallegt og gjöfult líf til anda sálar og líkama. Að það verði líf sem veitir manninum reisn, virðingu og samþykki á jafningjagrunni, og eins og einhver sagði: ef þú treystir þér ekki til þess að veita vinsemd og kærleika ákveddu þá að meiða náunga þinn að minnsta kosti ekki.
Ég hef þá trú að ef við gætum einungis breytt stefnu okkar aðeins meira í átt að því að sjá það góða í mönnum og samfélögum þeirra þá yrði viðsnúningur hjá okkur og við gætum jafnvel fundið fyrir þakklæti fyrir þessa mismunandi sýn mannkynsins á þessa veröld okkar og allt sem henni tilheyrir.
Og svo tala ég nú ekki um ef við gætum látið af fordómum okkar, leitað inn á við og fundið þar sátt við allt sem er, þá yrði lífið líklega dásemdardalur fyrir okkur sem heild trúi ég.
Svo gerum þetta ár að ári gleði, þakklætis, fyrirgefningar, kærleika og velvildar elskurnar og sjáum svo hverju það gæti skilað okkur til framtíðarinnar því að hvert sáðkorn sem sáð er núna mun skila sér í einhverju formi fyrr eða síðar og þau góðu bæta heiminn og líf okkar allra.
Og eins og ávallt er ég aðeins einni tímapöntun í burtu ef þú þarft á minni aðstoð að halda til að gera þetta ár að glimmerári!
Gleðilegt ár 2019!
Ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
TRM áfallafræði, LET samskiptafræði og Markþjálfun.
Linda@manngildi.is
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.12.2018 | 11:32
Jóla og áramótapistill 2018
Þetta er búið að vera skrýtið uppgjörsár hjá mér og margt sem hefur farið um kollinn á mér og breyst í hugsun minni þetta tímabil og þó kannski mest síðustu mánuði.
Það hafa komið yndislegar og gefandi stundir þetta árið og einnig nokkrar erfiðar, en þó stendur gleðin og samheldni þeirra sem eru í kringum mig uppúr þegar ég horfi um öxl.
Byrjum á því að tala um það sem ekki er svo skemmtilegt en þó svo nauðsynlegt að fá upp í hendurnar til að við tökum út þroska og breytumst, og ég rétt eins og plöntur náttúrunnar þroskast helst í myrkrinu og á köldum stundum og þar finn ég nýja farvegi,breytur og lausnir. Ég hef grátið og fundið til í hjarta mér, fyllst depurð, vonleysi, tilgangsleysi og öðrum tilfinningum sem setja mig á stað vanmáttar, en hef risið upp og tæklað lífið að nýju og þakka stöðuglega fyrir að eiga þau verkfæri sem allur lærdómurinn minn og gott fólk á leiðinni hefur fært mér upp í hendurnar til að nota við þessháttar aðstæður. Fátt sem ég næ ekki að tækla með þeim.
Gleðin hinsvegar yfirskyggir sorgir mínar og sút, og í byrjun ársins kom nú ein af aðal gjöfum mínum þetta árið þegar ég eignast lítinn yndislegan ömmustrák í mars og svo öllum að óvörum eru tveir aðrir ömmustrákar á leiðinni á nýju ári þannig að það verður komið hálft fótboltalið til mín á vori komandi ef Guð lofar. Mikil blessun sem ég upplifi með þessum afleggjurum mínum og ég er Guði svo þakklát fyrir þær bænheyrslur sem hann veitti mér og mínum þetta árið.
Það er ekki sjálfsagt mál að eignast barn, það þekkja þeir sem reynt hafa um langt skeið og þeir vita einnig hversu mikil blessun það er að fá tækifærið á því að sá draumur rætist og því finnst mér fjölskylda mín hafa verið afar blessuð og ég er himinlifandi glöð og djúpt þakklæti rennur um æðar mér.
En hugsanir mínar hafa fengið vængi síðustu mánuði eins og Konráð Adolphson kallar bók sína sem hann gaf út á árinu og ég mæli með að sem flestir eigi í bókasafni sínu, og þær hugsanir sem flogið hafa um minn koll hafa flogið hátt og í nýjar áttir.
Fyrstu vængjuðu hugsanir mínar sneru að því að ég tók ákvörðun um að ég verði bara þar sem mér líður vel í lífinu og hvergi annarstaðar. Lífið er of stutt til að eyða því í að láta sér líða illa. Ég tók einnig ákvörðun um að vera ekki lengur sú sem stend ekki með mér og ætla að mastera það fag betur á ári komandi.
Ég leyfi ekki fólki að meiða mig lengur og ég set mörk fyrir velferð mína eins og ég væri að hugsa um lítið barn sem mér bæri að vernda með öllum tiltækum ráðum og mér hefur tekist vel upp þar að mestu leiti, en eins og ég sagði -þá mastera ég það betur á næsta ári.
Ég sé því miður allt of mikið af einstaklingum sem vaða eld og brennistein fyrir aðra en gleyma að standa vörð um þá manneskju sem þeir áttu helst að standa vörð um eða þá sjálfa og ég ætla ekki lengur að vera ein af þeim.
Ég á helling af kærleika, vinsemd og virðingu til handa þeim sem sýna mér slíkt hið sama, en þá sem meiða get ég valið að eiga fyrirgefningu til í fjarlægðinni.
Traust mitt þarf að vera áunnið en ekki gefið, og þá sem ég umgengst þarf að velja vel. Þeir þurfa að vera velviljaðir, heilir í gegn og góðhjartaðir til að fá að tilheyra mínum hring í framtíðinni og ég vona svo sannarlega að þú lesandi góður sért sammála mér um að þú eigir slíkt hið sama skilið.
Ókurteisi, niðurtal,vanmat,stjórnun, mannvonska og aðrir meiðandi brestir mannkynsins eru það sem ég ætla að sneiða frá eins vel og mér framast er unnt á ári komandi sem þýðir örugglega að ég þarf að reita arfann enn betur en nú þegar er orðið. Ég ætla a.m.k að standa mig vel í því að velja einungis það fólk sem fallega kemur fram við mig og ég við það á móti.
Það verður semsagt settur einhverskonar Chanel - verðmiði á mig árið 2019, veit að sumt af því sem ég nefni hljómar hart og eins og að ég sé bitur, sem ég ákvað hinsvegar á árinu að verða ekki og hef valið að sjá það góða úr samskiptum mínum við alla þá sem hafa sýnt mér slæmar hliðar sínar (uppgötvaði mátt þess á árinu) og þannig hef ég frelsað mig. Það er þó ákveðin skynsemi í því að hleypa ekki fólki of nærri sér fyrr en það hefur sýnt að því sé treystandi og að það sé gegnumheilt.
En það er svosem ekki eins og mér hafi verið gerðir einhverjir stórkostlegir hlutir á árinu, megið ekki skilja það þannig, bara enn eitt uppljómunarárið.
Ég er afar þakklát fyrir að þessi sýn opnaðist mér og eins og ætíð þegar við fáum nýjar lexíur upp í hendurnar eða prófsteina þá ber að þakka þeim sem tóku á sig það hlutverk að kenna þær og það geri ég af heilum huga og veit að það er oft erfiðara að vera sá sem kennir lexíurnar en sá sem lærir þær.
Ég naut lífsins vel á árinu þrátt fyrir prófsteinana, eignaðist nýja og fallega íbúð í stað þeirrar gömlu og töluvert nálægt sjónum sem ég elska og fallega Gufunesinu mínu. Ég er alsæl með hversu vel tókst að taka þá íbúð í gegn og gera hana fallega með litlum tilkostnaði. Íbúðin var í mikilli niðurníðslu þegar ég fékk hana í hendurnar en með hjálp góðra vina tókst vel til að bæta úr því og er ég þeim sem hjálpuðu mér afar þakklát fyrir velvildina og kærleikann (Arnar þú ert perla).
Mér finnst eins og lífið sé rétt að byrja hér og mér líður eins og ég sé að flytja að heiman í fyrsta sinn með nánast ekkert af mínu fortíðardóti og ekkert er í geymslu sem þarf að henda, svolítið skrýtin tilfinning - en þó frelsandi og gefur fyrirheit um eitthvað ferskt og nýtt sem ég hlakka til að taka þátt í.
Mikið hefur verið um ferðalög á árinu hjá mér og hef ég ferðast til Bretlands, Spánar og Tenerife þetta árið og er það meira en ég hef gert lengi, og fleiri staðir bíða eftir mér fljótlega á nýju ári.
Vinir mínir (get ekki hætt að dásama þá) hafa leikið stórt, mikið og fallegt hlutverk hjá mér eins og venjulega og hafa staðið eins og klettadrangar upp úr sjó við hlið mér og auðveldað mér lífið með hjálpsemi, heimsóknum, aðstoð og helling af skemmtilegum uppákomum sem hafa gefið af sér hlátur og gleði og er ég afar þakklát þeim öllum með tölu og almættinu fyrir að senda mér þessar dásemdir allar!
Ég fór í nám í áfallafræðum sem gaf mér alveg ótrúlega mikið verð ég að segja, og ég skil svo miklu betur hvernig hægt er að vinna sig frá því sem taugalíkami okkar geymir og hversu mikilvægt það er að halda sig á fallegum og góðum stöðum í stað þess að dvelja lengi á stöðum sem valda okkur uppnámi og eða depurð og setja líkama okkar í hættu.
Þannig að þetta var ár kaflaskipta og nýrra uppgötvana hjá mér og samkvæmt stjörnuspekinni (og ekki lýgur hún) er nú hafinn nýr 12 ára kafli í mínu lífi og ég fagna upphafi hans og bíð spennt eftir öllu því skemmtilega og eins öllum þeim verkefnum sem sá kafli færir mér.
Og eins og venjulega geri ég upp árið mitt með ykkur elskurnar algjörlega berskjölduð og gef ykkur innsýn inn í líf og tilfinningar venjulegrar konu sem á sínar góðu og slæmu stundir eins og við eigum öll á einum tímapunkti eða öðrum og vonast til með því að aðstoða einhverja í leiðinni með þessu pári.
Ég þakka ætíð fyrir allan lærdóm sem ég get dregið af hverju ári fyrir sig og nú held ég af stað inn í þetta nýja 12 ára tímabil og er ákveðin í því að njóta þess með öllum þeim gleðistundum sem þau færa mér og eins tek ég við sorginni og þeim sáru tilfinningum sem það færir mér til úrlausnar, og veit að líklega að lokum hefði ég ekki viljað vera án nokkurrar stundar, hvorki þeirra góðu né hinna vondu - og ég veit að þær munu allar samverka mér til góðs um síðir þó ekki sé víst að það verði fyrr en ég tek strætó 101 til nýrra og grösugri staða himnanna.
Segi að lokum við ykkur Gleðilega hátíð og heillaríkt komandi ár elskurnar, og megi almættið eins og þú skilur það blessa þig, varðveita, gefa þér þroska og margfalda gæði lífs þíns. Mætti Það einnig gefa þér góða yfirsýn ásamt því að opna fyrir meðvitund, nýjar uppgötvanir,visku og ævintýri.
Takk fyrir samfylgdina á árinu.
p.s. eins og ávallt er ég bara einni tímapöntun í burtu ef þú þarfnast aðstoðar minnar á nýju ári.
Xoxo
Ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
TRM áfallafræði, LET samskiptafræði og Markþjálfun.
Linda@manngildi.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.12.2018 | 15:50
Tengslamyndun
Vissir þú að þegar við fyllumst ótta fara að minnsta kosti 1400 líkamleg einkenni í gang og að þessi eina tilfinning hefur áhrif á a.m.k 30 tegundir hormóna?
Þið getið rétt ímyndað ykkur áhrifin á líkamann og taugakerfið ef við erum að eiga við þessa tilfinningu á daglegum grunni og kunnum ekki eða getum ekki losað okkur við hana. Prófaðu að margfalda þessa tilfinningu 1400 x 365 eða 511.000 boðefni sem eru ekki í jafnvægi ef við finnum þessa óttatilfinningu á daglegum basis á ársgrundvelli (ef hægt er að reikna þetta þannig).
Það tekur heilann okkar einnig um 25 ár að þróast og mótast að fullu og sumir vilja meina að við séum í hálfgerðu dáleiðsluástandi fyrstu 8 ár okkar þar sem mesta forritunin frá umhverfinu fer fram. Af því getum við rétt ímyndað okkur hversu mikilvægt það er að nánd og tilfinningalegt jafnvægi sé ríkjandi þau ár að mínu mati a.m.k.
Heilinn okkar geymir upplýsingar á sínu eigin Google Drive sem veldur því að viðbrögð okkar og viðmót verða með ýmsu móti allt eftir forrituninni sem hefur átt sér stað og þeim trúarkerfum sem við höfum byggt okkur upp um lífið frá upphafi.
Nokkur af einkennum þess að líkaminn lætur okkur vita ef hann er ekki sáttur við tilfinningalega ástandið okkar er að við finnum spennu hér og þar og allstaðar, spennu sem byggist upp og finnur sér ekki leið eða farveg út, og við verðum stödd í hálfgerðum völundarhúsi vanlíðunar.
Finnar gerðu rannsókn á því hvar tilfinningar okkar hafa mest áhrif á okkur og niðurstöðurnar má sjá á myndinni hér fyrir neðan sem ég hvet ykkur til að skoða vel og athuga hvort að þið getið tengt við ykkar tilfinningaupplifanir.
En hvernig tengist svo þetta allt saman tengslum?
Jú sem betur fer eru vísindin að komast að því að heilbrigð nánd og tengsl eru nauðsynleg fyrir velferð okkar og vellíðan og það er nauðsynlegt fyrir heilbrigði andans að eiga einn eða fleiri aðila að sem við tengjumst öryggisböndum sem náttúran sjálf sér okkur svosem fyrir strax í upphafi lífs okkar, eða mömmu og pabba.
Ef þessi tengsl rofna í æsku þá er mjög líklegt að við munum eiga við tengslavanda að eiga á fullorðinsárum okkar og reyndar er einnig líklegra að við eigum við allskyns sjúkdóma að eiga eins og streitu og vanlíðan ýmiskonar.
Í bókinni Attachment eftir Avir Levine M.D og Rachel Heller M.A þar sem fjallað er um tengsl í samböndum er sagtað við tölum of mikið um meðvirkni í samböndum.
Í þeirri bók er sagt að heilbrigð sameining felist að sumu leiti í því að við tengjumst með þeim hætti að við verðum háð hvert öðru. Þar er einnig talað um að við hér á vesturhveli jarðar séum búin að búa til hálfgerða mýtu sem snýr að því að það sé eitthvað að okkur ef við finnum okkur sjálf ekki með einveru og því að vera óháð öðrum og þurfum því ekki á tengslum að halda við aðra en okkur sjálf.
Ég veit um fátt sem er ósannara en það að við þurfum ekki á öðrum að halda, því að hvar á tilfinningaleg greind okkar að mótast og verða til? Þurfum við ekki á speglun, hlustun, virðingu, samskiptum, kærleika, skilningi og fleiru að halda frá þeim sem við erum í umgengni við eða bindumst kærleiksböndum svo að tilfinningagreind okkar vaxi án skekkju?
Taugafrumur okkar þurfa á speglun frá annarri manneskju að halda til að geta þroskast og mótast á heilbrigðan hátt og við sem fullorðin leitum logandi ljósi að maka og vinum vegna þess að við höfum þá þrá að tengjast mannverum sem verða vitni að lífi okkar, og þetta ætla ég eiginlega að fullyrða þó að mér líki illa við fullyrðingar!
Við getum haldið því fram að við séum svo andlega tengd að við þurfum ekki neitt nema hugleiðslu og einveru, en þar er ég mjög ósammála.
Við þurfum ekki annað en að sjá hversu þrautseig við sem óbundin eru í leit okkar að maka. Við leitum á hinum ýmsu stöðum eftir aðila sem við gætum hugsað okkur að bindast og eiga líf með, og það verður að hálfgerðu verkefni eða missioni hjá okkur ár eftir ár að skoða "markaðinn" þar til við finnum viðeigandi viðhengi sem getur orðið vitni að okkar lífi og okkar upplifunum, og við að þeirra - og hvað er það annað en að við þurfum á þessari nánu samveru við annan einstakling að halda?
Er mögulegt að mannkynið þurfi kannski á hverju öðru að halda til að geta haldið normal geðheilsu og fengið að spegla andlega og líkamlega hlið tilveru sinnar?
Hvað veit ég svosem?
Það eina sem ég veit er að þegar ég fer inn á samfélagsmiðla sem tengjast þessari makaleit sé ég að við erum flest að leita að tengslum á einn eða annan hátt hvort sem okkur þykir það smart eða ekki, og hvort sem við viðurkennum það eða ekki.
Og er ekki bara kominn tími til að við horfumst í augu við það að "enginn er eyland" og að við þurfum á hvert öðru að halda til að líf okkar hafi tilgang og innihaldi hamingjustundir sem aðeins er hægt að fá í náinni samveru með annarri mannveru?
Eða ætlum við að láta okkur nægja í framtíðinni að hverfa inn í hugleiðsluástand, þrívíddarveruleika og forðun frá samskiptum við annað fólk?
Ég reyndar tel að taugafrumur okkar, sálin og andinn að ótöldum líkamanum muni alltaf þurfa á tengslum við aðrar mannverur að halda og muni alltaf gera uppreisn gegn tengslaleysi, og því þurfum kannski ekki að hafa svo miklar áhyggjur þó að oft sýnist manni stefna í óefni í þessum málum.
Og eins og alltaf áður er ég aðeins einni tímapöntun í burtu ef þú þarft á minni aðstoð að halda með þín lífsins verkefni.
xoxo
Ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
TRM áfallafræði, LET samskiptafræði og Markþjálfun.
Linda@manngildi.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.11.2018 | 10:44
Ég á engin orð!
Ég hef oft velt því fyrir mér á síðasta áratug hvers vegna karlmenn virðast margir hverjir vera haldnir ótrúlega andstyggilegri kvenfyrirlitningu og hatri.
Það er með ólíkindum hvernig menn, giftir jafnt sem ógiftir voga sér að skrifa, tala eða koma fram við konur eins og þær séu kynlífstæki til notkunar og án tilfinninga og siðferðis eða eins og nýjustu dæmin sýna af okkar háttvirta alþingi þessa dagana. Og ég bara spyr, hvernig hægt er að tala svona um konur sem þeir starfa við hliðina á og er þetta siðferðið sem þeir vilja boða þjóðinni?
En því miður þrátt fyrir hneykslunarraddir samfélagsins núna vegna þingmannanna þá er það þó þannig að ég persónulega get sagt fyrir mig að þetta er ekki nýtt fyrirbæri hvað varðar marga íslenska karlmenn í mínum augum.
Bara á síðastliðnum mánuðum er ég búin að fá bréf með grófu kynferðisáreiti frá vel virtum karlmanni á höfuðborgarsvæðinu (giftum by the way) annar ógiftur maður gaf mér tilboð um að koma í heimsókn þar sem nýbúið væri að skipta á rúmum (hef aldrei hitt eða spjallað við þann mann í síma) og svo þriðja atvikið þar sem boðið var ítrekað mjög smart uppá örhittinga heima hjá mér! Allt saman virtir og þjóðfélagslega flottir menn sem ég hefði ekki trúað að gætu komið svona fram við bláókunna manneskju.
Og þetta er ekkert nýtt fyrirbrigði, ég og mínar einhleypu vinkonur eru orðnar svo vanar svona áreiti að það er eiginlega orðið subbulegt hvað við erum orðnar dauðar fyrir þessari kvenfyrirlitningu og ljótu framkomu, svo dauðar að við tökum varla eftir henni.
Að nota orð um konur eins og háttvirtir þingmenn gerðu gagnvart kvenþingmanni er óásættanlegt að öllu leiti sama hvort menn voru undir áhrifum áfengis eða ekki. Ég hef reyndar aldrei séð að það sé hægt að afsaka ljóta framkomu eða hegðun með því að þefa af brennivínstappa en íslendingar eru yfirleitt mjög fljótir að afsaka og fyrirgefa hlutina ef alkahól eða önnur hugbreytandi efni hafa komið við sögu.
Ég á nokkra erlenda karlmannsvini sem ég spjalla stundum við og velti því fyrir mér hvers vegna þeir sýni mér kurteisi og fallega framkomu á meðan landar mínir virðast vera búnir að gleyma öllu því sem áður prýddi menn, og ég velti því fyrir mér hvort uppeldi þeirra sé að einhverju leiti annað hér en erlendis.
Ég geri mér auðvitað grein fyrir því að það er töluverð alhæfing um íslenska karlmenn í mínum skrifum núna og ég verð líklega kölluð karlahatari í kjölfarið en auðvitað veit ég að það eru til góðir og kurteisir menn hér heima, ég þekki meira að segja nokkra -en það ber bara meira á þessum ösnum sem voga sér að niðurlægja og hlutgera konur með þessum hætti alveg eins og hefur verið með vandræðaunglingana okkar í gegnum tíðina, þeir góðu gjalda fyrir þá óþekku og uppreisnagjörnu.
En ég bara spyr mig hvar fórum við svona herfilega út af sporinu hvað varðar virðingu karlmanna fyrir konum? Hvenær hættu karlmenn að líta á konur sem dýrmætar og virðingaverðar þeir eiga jú allir mömmu sem gaf þeim líf? og hvað er þetta með kvenhatrið sem býr í framkomu karla þegar um andlegt og líkamlegt ofbeldi er að ræða, hvaðan kemur það? Hvenær ætlum við að finna gömlu göturnar aftur þar sem karlmenn umgengust konur með ákveðinni virðingu og vernd?
Ég veit um ófá dæmi þess að karlmenn brjóta konur sínar niður með framkomu, ljótum eða meiðandi orðum, ástleysi, framhjáhöldum, klámfíkn, nándarleysi, stjórnun, drottnun, barsmíðum og listinn heldur bara áfram, en allt er þetta þó byggt á því sama, eða kvenhatri og kvenfyrirlitningu.
Jæja ég bara varð að fá að blása svolítið núna og bið þá góðu menn sem ekkert eiga af þessu afsökunar á alhæfingum mínum og konunum í lífum þeirra óska ég innilega til hamingju með þá, og jú ég hef kynnst nokkrum mönnum sem falla alls ekki undir þennan hatt minn og eiga vináttu mína og virðingu, en því miður eru þeir allt of margir sem nota orð um konur eins og húrrandi klikkuð kunta, hún er fokking tryllt, getur ekki neitt og kann ekki neitt - við þekkjum það flestar að hafa orðið fyrir einhverjum svipuðum ummælum og kynferðislegum tilburðum og í raun er þetta bara samfélagslega samþykkt framkoma gagnvart konum og það finnst mér skelfilegt þar sem ég á nú unglings ömmustelpur sem nú þegar hafa orðið fyrir barðinu á óskemmtilegum tilburðum eldri karlmanna.
Ætla að enda þennan blástur pistil minn á því að fara fram á það að þeir sem við borgum laun fyrir að vera til fyrirmyndar á okkar háa Alþingi valdi stöðu sinni, og nú ef þeir treysta sér ekki til þess þá vil ég biðja þá vinsamlega að víkja frá öllum opinberum störfum sem krefjast virðingar og fallegrar framkomu við alla menn - og konur.
xoxo
Ykkar Linda
Og ég er eins og venjulega bara einni tímapöntun í burtu frá þér ef þú þarft á aðstoð minni að halda við lífsins verkefni.
Linda Baldvinsdóttir
TRM áfallafræði, LET samskiptafræði, Markþjálfun
linda@manngildi.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.11.2018 | 21:38
Er þetta raunveruleg ást ?
Í einhverskonar framhaldi af pistli sem ég skrifaði um daginn langar mig að taka fyrir nokkur atriði úr bókinni The Secret of overcoming emotional abuse eftir PhD.Albert Ellis og Marcia Grad Powers þar sem fjallað er um muninn á heilbrigðum samböndum versus óheilbrigðum samböndum og ætla ég að vitna að hluta til í þá bók í þessum pistli mínum.
Munurinn á heilbrigðu sambandi versus óheilbrigðu sambandi er að sögn höfunda sá að í heilbrigðu sambandi sé reiði og óvinátta fjarverandi en vinátta og samstaða hinsvegar til staðar í ríkum mæli, en í óheilbrigðu sambandi er eilíf valdabarátta og næring fengin út úr ófriði en ekki friði og kærleika.
Sönn ást felur í sér frelsi og vöxt en ekki eignarhald og einangrun. Hún innifelur í sér frið en ekki ófrið, öryggi í stað ótta.
Sönn ást felur einnig í sér skilning,tryggð,uppörvun og hvatningu,skuldbindingu,nánd og konunglega virðingu, atlot og vináttu í ríkum mæli.
Þar sem virðinguna vantar þar býr sársauki hjartans og sársauki á ekki að vera viðvarandi þar sem ástin býr.
Í heilbrigðum samböndum er ágreiningur leystur með samræðum og viðurkenningu á því að það sé í lagi að vera ósammála, því að ástin snýst ekki um það hver vinnur og hún sýnir ekki grimmd eða hunsun-hvað þá árásagirni og ofbeldi.
Sönn ást gerir heimilið að kastala en ekki fangelsi.
Það er ekki nóg að segja "ég elska þig" ef hugsanir, orð og framkoma makans eru ekki ástrík og gjörðir sýna þér ekki að maki þinn elski þig.
Það þarf einnig að vera hægt að ræða þau málefni sem valda þér áhyggjum eða snerta samband þitt og líðan þína án þess að reynt sé að þagga það niður með hunsun eða árásum.
Þú getur spurt þig hversu auðvelt það sé fyrir þig að senda falleg orð í skilaboðum eða á korti til maka þíns því þetta litla próf getur sagt þér meira en margt annað um stað sambandsins þíns á hverjum tíma. Og eins getur það sagt þér helling hversu duglegur maki þinn er að senda þér falleg skilaboð og að vera í sambandi við þig þegar hann er í vinnunni þar sem það virðist vera mælikvarði á hamingju para samkvæmt einhverju sem ég las um daginn á netinu.
Er auðvelt og ánægjulegt fyrir þig að skrifa eitthvað fallegt til maka þíns eða finnur þú fátt fallegt til að segja? hmmmm - það er ekki góðs viti ef það er ekki hægt og þá ættir þú að skoða hjarta þitt og hlusta vel á hvað það hefur að segja þér varðandi sambandið í heild sinni.
Fallegt og gefandi samband er eitthvað sem við þráum flest og fátt er yndislegra en einmitt það sem tengist böndum kærleikans með einum eða öðrum hætti, en fátt er einnig jafn niðurbrjótandi og samband þar sem kærleikurinn er víðs fjarri en deilur og sársauki viðvarandi þess í stað.
Í þessari sömu bók og ég vitnaði í áðan eru nokkrar spurningar sem hægt er að nota til að ákvarða af hvaða toga samband þitt og maka þíns er og ég hvet þig til að svara þeim af einlægni hjarta þíns.
Er velferð þín andleg og líkamleg í forgangi hjá maka þínum?
Samþykkir hann þig eins og þú ert og líkar honum við þig og virðir?
Samþykkir þú hann eins og hann er og líkar þér við hann og virðir eins og hann er?
Samþykkir þú sjálfan þig og líkar þér vel við þig og sýnir þér virðingu þegar þú ert með maka þínum?
Dregur maki þinn fram þínar bestu hliðar eða þær verstu?
Sýnir maki þinn þér tilfinningalegan stuðning og hvatningu?
Finnst þér þú fá að vera einstaklingur með þínar eigin skoðanir, viðhorf og ákvarðanatöku í sambandinu?
Er maki þinn stoltur af því sem þú áorkar og stendur fyrir?
Finnst þér þú fá skilning, viðurkenningu, öryggi og frið í sambandinu?
Er maki þinn vinur þinn? Alltaf?
Undirstrikar maki þinn þá staðreynd að líf þitt sé hrífandi og gott?
Finnurðu fyrir hamingju þegar þú ert með maka þínum?
Allar þessar spurningar eru góðar og gefa okkur smá innsýn í stöðu okkar, og ef þú finnur til í hjarta þínu eða ef tárin trilla niður kinnar þínar við lesninguna þá er kannski kominn tími til að opna augun og kannski gera eitthvað í málunum í framhaldinu.
Ætla að enda þennan upplýsingapistil minn á orðum sem ég sá einhverstaðar á netinu um daginn og hljómuðu eitthvað á þennan veg;
Ef það lítur ekki út eins og ást - og ef það smakkast ekki eins og ást - og ef þér líður ekki eins og það sé ást - þá er það einfaldlega eitthvað allt annað en ást.
Og eins og alltaf, ef þig vantar aðstoð mína, þá er ég bara einni tímapöntun í burtu :)
Þar til næst elskurnar,
xoxo
Ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
TRM áfallafræði, LET samskiptaráðgjöf,Markþjálfun.
linda@manngildi.is
panta tíma hér:
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.11.2018 | 14:37
Er líf eftir dauðann
Rakst á gömul skrif sem ég hef skrifað fyrir einhverjum árum og mér finnst vert að birta þau að nýju- að vísu í aðeins breyttri mynd og vonandi þá betri vegna þess að ég held að við þurfum stöðuglega að minna okkur á mikilvægi þessa stutta lífs sem við fáum hér á okkar dásamlegu móður jörð.
En nú þykjast vísindamenn vera búnir að finna sannanir fyrir því að það sé til líf eftir dauðann (jafnvel mörg), og hafa stundað rannsóknir á því fyrirbæri í 4 ár á tæplega 1000 manns sem þeir hreinlega tóku af lífi og lífguðu svo við eftir 20 mínútur eða svo (allt þó gert með samþykki þeirra sem aflífaðir voru)
Þetta er nú allt saman gott og blessað og alltaf gaman að lesa svona fréttir fyrir forvitnis sakir - og hver veit kannski hafa þeir bara rétt fyrir sér.
(Ég reyndar þykist þess fullviss að ég verði spilandi á hörpu mína í himnaríki að þessari jarðvist lokinni blakandi englavængjum mínum í takt við tónana sem frá hörpunni berast)
En þegar ég las þessa frétt varð mér á að hugsa, skiptir það okkur öllu máli hvort það er líf eftir þetta líf? Og hvers vegna? Hvað með það líf sem við erum að lifa núna? skiptir ekki mestu máli að lifa því lífi á skemmtilegan og góðan hátt?
Ég hitti allt of mikið af fólki sem neitar sér um að lifa þessu á þann hátt sem því langar til og er sífellt að bíða eftir rétta tækifærinu á því að láta sér líða vel. Þetta yndislega fólk frestar því að framkvæma langanir sínar og drauma. og því miður er það algengast af öllu að það ætlar sér að framkvæma drauma sína og þrár þegar eftirlaunaaldrinum er náð, og öruggu lífeyrissjóðstekjurnar komnar í hús.
En því miður eru bara allt of margir sem einfaldlega ná ekki þessu eftirsóknaverða takmarki og eru farnir yfir í þetta nýja líf sem vísindamennirnir hafa jú sannað að sé til, eða það sem ekki óalgengt er að þeir hafa misst heilsuna og geta ekki framkvæmt allt þetta skemmtilega sem lífeyririnn átti að skaffa þeim.
Samkvæmt könnun sem var gerð af Bronnie Ware sem var hjúkrunarfræðingur á líknardeild nokkurri þá voru það helst þessi atriði hér fyrir neðan sem fólk sá mest eftir að hafa ekki gert meira af í lífinu.
1. Að hafa haft hugrekki til að vera sannara sér sjálfu ekki að lifa lífinu sem aðrir bjuggust við.
2. Að hafa unnið svona mikið.
3. Að hafa ekki haft hugrekki til að tjá tilfinningar sínar.
4. Að hafa ekki haldið sambandi við vini
5. Að hafa ekki leyft sér að vera hamingjusamari.
Og eftir þessi 5 atriði spyr ég aftur - hvað með lífið og núið? þetta líf sem okkur var af mikilli gæsku gefið?
Ætlum við að vera í þeim hópi sem sér eftir því að hafa ekki látið þessi atriði á listanum rætast á meðan við höfðum tækifærið til þess?
Við sem fengum svo frábærar vöggugjafir með okkur inn í þetta líf og sífellt bætist við þær með kunnáttu okkar, getu, þekkingu og færni. Ætlum við að bíða eftir næsta lífi eða kannski því þarnæsta áður en við tökum okkur til og skoðum drauma okkar langanir og þrár, og að láta þetta nú bara síðan verða að veruleika kannski einhverntíman seinna?
Við höfum verkfærin og við höfum daginn í dag - ekki eins víst með morgundaginn. Svo því ekki að taka skrefin í átt að því sem okkur hefur alltaf langað til að framkvæma?
Eftir hverju er að bíða?
Því ekki að efla nú kjark og þor ásamt því að stíga eitt pínulítið skref inn í óttann og sjá hvað þar gerist. -það er bara ekkert víst að þetta klikki hjá okkur.
Og ef þig vantar mína aðstoð við að stíga skrefin þín þá er ég eins og alltaf aðeins einni tímapöntun í burtu.
xoxo
Ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
Samskiptaráðgjafi/Markþjálfi
linda@manngildi.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
31.10.2018 | 18:37
Andlegt ofbeldi er lífshættulegt
Fyrr á árinu var ég í viðtali á rás 2 þar sem ég tjáði mig m.a. um upplifun mína af því að vera andlegu ofbeldissambandi um árabil. Í kjölfarið fannst mér tilvalið að skrifa smá pistil um þennan ljóta rússíbana sem andlegt ofbeldissamband er og er þessi pistill að miklu leiti skrifaður út frá minni eigin reynslu og upplifun og reyndar einnig byggður á námskeiði sem við Thoeodor Birgisson fjölskylduráðgjafi vorum með í Lausninni á sínum tíma.
Ég var allt of lengi inni í þessum rússíbana sem andlegt ofbeldissamband er og þurfti langan tíma til að vinna mig út úr sambandinu og frá þeim sárum sem til urðu á leiðinni(og kannski næ ég aldrei að vinna úr þeim til fulls). Hvert skref sem tekið var út úr sambandinu var skrefið sem færði mig nær frelsi mínu þó svo að ég sneri til baka í nokkur skipti þar sem ég var ekki orðin nægjanlega sterk til að fara frá því. Munið elskurnar að ef einhver í kringum ykkur fer mörgum sinnum inn og út úr sambandi af þessum toga þá er hvert skref sem tekið er út úr aðstæðunum skref sem færir þann aðila nær frelsinu. Svo ekki dæma vertu heldur til staðar - alltaf.
Mig langar að taka það fram að líklega beitum við öll einhvern tíman andlegu ofbeldi og líklega eru flestir sem slíku ofbeldi beita aðeins án kunnáttu í góðum samskiptum en ekki vondir menn og konur, Þeir einfaldlega hafa ekki góð áhrif á þá sem í nánasta umhverfi þeirra eru og þeir kunna ekki að lagfæra það með betri samskiptaleiðum.
En það eru einnig til menn og konur sem beita ofbeldi með markvissum hætti til að ná valdi á öðrum einstaklingum.
Oft eru þeir aðilar haldnir siðblindu,mikilli eigingirni og eiga erfitt með að finna fyrir samkennd með öðrum og hafa litla sem enga sektarkennd yfir því sem þeir gera. Þeir eru oft mjög sjarmerandi og eiga auðvelt með að ná öðrum á sitt band. Þeir eiga mjög erfitt með að setja sig í spor annarra og í þeirra huga eru þeir númer 1,2 og 3, allir aðrir skipta minna máli. Þeir ljúga og lofa öllu mögulegu en standa sjaldnast við það sem þeir lofa.
En hvort sem það var ætlun eða ekki ætlun sem átti við í mínu tilfelli þá urðu til sár sem erfitt var að vinna úr.
Líkamlegu afleiðingarnar voru ekki mar og brot en hinsvegar hefur andlegt ofbeldi áhrif á líkamlegt ástand og hjá mér voru þær t.d mikill kvíði, streita og svimi sem helltist yfir mig í tíma og ótíma, hjartsláttatruflanir og endurteknar sýkingar (flensur), öndunarörðugleikar, svefnleysi og fleira.
Fyrstu hegðunareinkenni mín í sambandinu voru auðvitað meðvirknitengd því að ég fór að tipla á tánum og hegða mér eftir skapi gerandans hverju sinni. Ég reyndi að lyfta andrúmsloftinu upp ef það var þungt nú eða lét mig hverfa hljóðlega í stað þess að krefjast þess að mér væri sýnd almennileg virðingaverð framkoma sem við eigum auðvita alltaf að ætlast til að fá!
En ég var bara góða,trygga og trúa stelpan sem hélt greinilega að ég gæti nú heldur betur verið bjargvættur mannsins ef ekki heimsins alls, og meðvirkni mín fékk þessa líka fínu vængi sem fóru á flug og flugu hátt ásamt því að ég trúði á að froskurinn gæti breyst í prins með öllum þeim kærleika sem ég hafði að gefa.
Ég kveið oft fyrir því að koma heim því að ég vissi ekki hvað biði mín þar. Var það gott skap og allt með eðlilegum hætti eða var það þögn, fýla og reiði sem beið mín eða eitthvað annað verra, það gat ég ekki vitað fyrr en ég opnaði hurðina og gekk inn.
Meðvirkni mín fékk eins og ég áður sagði vængi og ekkert þótti mér sjálfsagðara í því ástandi en að mér liði flesta daga eins og allt sem ég gerði eða gerði ekki væri ekki nóg og að ég einfaldlega gæti ekki nálgast þarfir og ósagðar óskir gerandans. Mér leið oft eins og krakka sem stöðugt væri verið að skamma fyrir eitthvað, og ég í meðvirkni minni reyndi að aðlaga mig að nýjum og nýjum kröfum aðeins til þess eins að þurfa að mæta enn öðrum.
Ég átti auðvitað einnig að geta lesið hugsanir hans og vitað hvers hann þarfnaðist hverju sinni - en ekki hvað. Ég veit hinsvegar í dag og vissi svo sem allan tímann innst inni að ef ég hefði þann hæfileika að geta lesið hugsanir fólks væri ég orðin forrík og þyrfti aldrei að vinna handtak það sem eftir væri ævinnar þar sem allir væru tilbúnir að borga mér fyrir að segja ekki frá því sem ég sæi í hugarfylgsnum þeirra :)
En að öllu gamni slepptu:
Í svona sambandi eruð þið ekki vinir eða teymi - þið eruð á orrustuvelli þar sem annar aðilinn mun alltaf vinna með einum eða örðum hætti, engar samræður, málamiðlanir eða lausnir eru til í stöðunni og sá sem tapar ert alltaf þú.
Það sem þú segir er oftast misskilið, því snúið á hvolf og ég tala nú ekki um þegar þú vilt ræða um að sambandið sé ekki á góðum stað, sú ósvífni er yfirleitt túlkuð sem persónuleg árás og þér talin trú um að þín upplifun sé kolröng og ekki þess verð að ræða hana frekar. Og ef þér dettur í hug að ræða hlutina aftur eða frekar þá er vinsælasta leiðin sem notuð er sú að taka þagnarbindindi á þig nú eða að hóta skilnaði og jafnvel framkvæma hann (í nokkra daga, vikur og jafnvel mánuði) og kippa þannig öryggistilfinningu þinni í burtu. Svo eftir það tímabil taka við einhverskonar samningaviðræður um að taka saman á ný vegna þess að lífið yrði auðvitað einskisvert án þín og sambandsins og allt yrði svo miklu betra og öllu fögru lofað hvað framtíðina varðaði.
Mín persónulega barátta tengdist helst óþoli hans á umgengni minni við börnin mín, vini og fjölskyldu, sem voru að hans mati ekki þess verð að vera í kringum og ég var stöðugt að semja um umgengnisrétt minn gagnvart þessum aðilum. En hvað sem öllum samningsviðræðum viðkom tók hann oftar en ekki á mig þagnarbindindi og sendi mér ill augnaráð til að halda mér nú á mottunni og sá til þess í leiðinni að þær stundir sem ég átti með mínum nánustu yrðu það erfiðar bæði fyrir mig og þau að þeim langaði einfaldlega bara ekki að koma til mín og smá saman drógu þau auðvita úr komum sínum. Að lokum lokum leiddi þetta til þess að ég stóð meira og minna uppi ein með sjálfri mér og honum.
Og Guð hjálpi mér ef ég upplifði gleðistundir í mínu lífi, hann sá alveg hjálparlaust um að eyðileggja þær með ýmsu móti og hafði afar fjörugt ímyndunarafl í þeim efnum eins og með því að fara í fýlu og hefna sín daginn eftir að hann sá að ég hafði haft það gaman eða taka upp á öðrum hefndaraðgerðum eins og þeirri að mæta undir annarlegum áhrifum við hin ýmsu virðulegu tilefni.
En einangrun frá vinum, fjölskyldu og stuðningsneti þínu ásamt stjórn á fjármunum eru einmitt oftast fyrstu skrefin sem gerandi í andlegu ofbeldi notar til að ná stjórn og þá ert þú ofkors orðin einkaeign hans/hennar og kemst illa í burtu þar sem fjármunir og tengslanet þitt er ekki lengur til staðar.
Það var fylgst með öllu sem ég og aðrir á heimilinu gerðu, og það var leitað að sönnunargögnum um að við værum að gera eitthvað á bak við hann því að margur heldur mig sig. Leitað var í skúffum og skápum og í raun voru engin persónuleg mörk okkar virt.
Flest sem þú segir í svona samböndum er mistúlkað og snúið á versta veg og þér er sagt að þú sjáir ekki það sem þú sérð og heyrir ekki það sem þú heyrir, sem að lokum verður til þess að þú ferð að efast um þinn eigin raunveruleika(sem við þó eigum aldrei að gera)
Þú ferð einnig að skoða hvort og hvaða þátt þú áttir í því að hlutirnir fóru eins og þeir fóru, hvað þú hefðir sagt eða gert sem hefði getað komið umræðunni á þetta plan. Þú finnur ekki í hjarta þér að það hafi verið þannig, en ert á svo veikum stað að það hlýtur að vera að hann hafi eitthvað fyrir sér í þessu efni þar sem þú færir aldrei að ásaka aðra manneskju með þeim hætti sem þú ert ásökuð um.
Rök gilda ekki í svona umhverfi - gleymdu því alveg.
Rökleysa, feluleikur, stjórnun og óvild er hinsvegar til staðar í ríkum mæli sem samt er svo erfitt að horfast í augu við því að það getur jú enginn verið að ætla sér að koma svona fram eða hvað?
Ofbeldishringur eða Controlhringur er ríkjandi í svona samböndum og er fyrsti hluti hringsins sá að það verður til spennuþrungið ástand sem fljótlega fer yfir í næsta hluta hringsins eða þegar ofbeldinu er beitt með einhverjum hætti - hætti sem setur þig mjög oft í þær stellingar að þú hugsar "nú fer ég út úr þessu"
Gerandinn skynjar í þeim tilfellum að þú ert búin að fá nóg og þá grípur hann til þess ráðs að veiða þig aftur í netið sitt með algjörlega frábæru tímabili sem er þriðji og síðasti hluti hringsins (kallast oft honeymoon tímabilið) þar sem þú ert sú fallegasta, besta og frábærasta manneskja sem gengið hefur á þessari jörðu! Þessu tímabili fylgir einnig svo frábært gleði og spennuástand sem jafnframt er í mörgum tilfellum fyllt af yfirdrifnum óheilbrigðum ástríðum og vegna þeirra hættir þú við að fara eða ferð aftur til ofbeldismannsins vegna þess að þetta tímabil er einfaldlega svo gott og einstakt á meðan það varir.
Sjálfstraustið og sjálfsvirðingin hverfur smásaman við þessar óeðlilegu aðstæður og kvíði, þunglyndi, örvænting og almenn vanlíðan verður hluti af þínu daglega lífi og þú bíður eftir því að stutta honeymoon tímabilið láti sjá sig á ný.
Það eru nokkur atriði sem eru til staðar í ríkum mæli í samböndum sem eru ekki af réttum toga og John Gottman kallar þá hestamennina fjóra. Þessir riddarar (eða ekki) eru eftirtaldir að hans sögn:
Hinir fjóru hestamenn.
- Útásetningar.Sumar aðferðir útásetninga geta verið uppbyggjandi en það sem átt er við hér er þegar neikvæður dómur og fullyrðingar eru bornar fram á yfirdrifinn máta. Það sem gæti bent þér á að þú sért að nota þennan hestamann er ef þú segir td aldrei eða alltaf þú hugsar aldrei um neitt nema sjálfan þig þú ert alltaf svo þrjósk/ur "það verður aldrei neitt úr neinu hjá þér"
- Fyrirlitning er alvarlegra form hinna fjögurra hestamanna þar sem útásetningarnar verða að hæðni og spotti eða þar sem þú kemur fram við maka þinn af virðingaleysi, hæðni, fyrirlitningu og fl. Það getur innifalið í sér andstyggilega fyndni á kostnað hins, það að ranghvolfa augunum, uppnefna og svo framvegis. Fyrirlitningin vex með tímanum þegar fókusað er á það sem ekki er gott við makann en þess í stað fundnir allir gallar hans.
- Vörn.Vörn kemur vegna þess að þér finnst vera ráðist á þig eða þú gagnrýndur of hart. Og oft er vörninni einnig beitt til að forðast að taka ábyrgð eða til að setja allt yfir á maka þinn. Ef þú heyrir þig segja Ég gerði ekkert rangt, eða þegar þú ferð að ásaka maka þinn eftir að hann kemur fram með umræðuefni eða umkvartanir sem þér líkar ekki, spurðu þig þá hvort þetta sé málið. Jafnvel þó að maki þinn geri mistök þýðir það ekki að þú sért frír frá ábyrgð eða hefðir ekki getað brugðist við á annan hátt.Vandamálið við vörnina er að hún segir maka þínum að þú sért ekki að hlusta hann eða takir ekki alvarlega þær umkvartanir sem hann hefur. Og þannig verða til ný ágreiningsefni sem valdið geta nýjum ágreiningi.
- Að byggja steinvegg.Að setja upp steinvegg á milli þín og maka þíns með því að draga þig í hlé, loka á og fjarlægja þig frá maka þínum þýðir að þú ert að byggja steinveggi. T.d þegar þagnarmeðferð er beitt eða þegar farið er út án þess að láta vita hvert verið er að fara. Steinveggirnir eru stundum settir upp þegar hinum þremur hestamönnunum hefur verið otað fram og ástandið er orðið yfirþyrmandi. Að byggja steinveggi er hættulegasta aðferðin af þeim öllum vegna þess að makinn upplifir sig yfirgefinn og að sér sé hafnað.
Meðvirkni er lífshættuleg en bara ekki mikið talað um þann part hennar og oft lítið gert úr því sjúklega ástandi sem meðvirknin getur skapað. Orðið sjálft er talið klisjukennt og jafnvel hlegið að því, en ég get lofað þér því að meðvirkt líf í andlegu ofbeldissambandi og víðar svo sem en bara þar er oft lífshættulegt fyrir þína andlegu og líkamlegu heilsu.
Þegar ég var í mínu ofbeldis sambandi greip ég hverja einustu pest sem gekk á landinu og jafnvel víðar, en eftir skilnaðinn fékk ég í tvígang símtal frá heimilislækni mínum á Reykjavíkursvæðinu sem fór að undra sig á því hvera vegna ég kæmi aldrei til hans - sem var einfaldlega vegna þess að ónæmiskerfi mitt tók stakkaskiptum við það eitt að ég var ekki undir þessu sífellda andlega álagi og leitaði mér aðstoðar varðandi mína meðvirkni og það sjúklega ástand og líf sem hún skapaði mér.
Ég geri mér grein fyrir því að við þurfum að vera meðvirk öðrum (virka með) á heilbrigðan máta, en sá máti sem skapar þetta veika ástand á bara ekkert skylt með því, svo gerum stóran greinamun á þessu tvennu, því að annað ástandið skapar falleg gefandi samskipti þar sem mörk okkar og persóna er virt á meðan hitt ástandið getur orðið okkur og þeim sem við elskum lífshættulegt.
Ég er á góðum og fallegum stað í dag og stend með sjálfri mér sama hvað það kann að kosta mig og veit að ég á bara allt gott skilið, hef þurft að læra mikið og í raun var allt sem ég lærði í mínu fagi fyrst og fremst gert til að bæta mig og mína líðan. Aukaafurðin af því námi er að ég tel að ég sé færari um að hjálpa öðrum að komast á fallega staði í sínu lífi og ekkert gefur mér meira en einmitt það að aðstoða mína samferðamenn til að skapa sér það góða og fagra í lífinu, og mætti mér auðnast sá heiður í ríkum mæli - þá er tilgangi mínum náð.
Nokkur ráð að lokum.
Það er fáránlegt þegar einhver reynir að segja þér hver þú ert, hvernig þér líður, hvað þú ert að hugsa, hvað þú ætlar þér eða hvað þú upplifir, svo ekki hlusta, lokaðu eyrunum fyrir því og hafðu áhyggjur af þeim sem slíkt gerir.
Jafningjasamræður sem hafa það að markmiði að ná fram sameiginlegri niðurstöðu ættu aldrei að fylla þig ótta, skömm, óreiðu eða halda þér í óvissu um virðingu og hlustun á það sem þú hefur að segja.
Og hvernig svo sem við svo svörum fyrir okkur þá munum að við eigum öll skilið fallega og virðingaverða framkomu alltaf- og við eigum skilið að hlustað sé á okkar sjónarmið og tilfinningar af kurteisi og án reiði og uppþota.
Að síðustu langar mig að skilja eftir setningu sem við ættum að hafa í huga á hverjum og einum stað í lífi okkar en það er setningin "Vertu einungis þar sem þér líður vel og hvergi annarstaðar".
Við skulum ekki gleyma þessu undir nokkrum kringumstæðum elskurnar - og ef ég get aðstoðað þig sem þetta lest við að auðga líf þitt eða takast á við verkefni þess þá endilega hafðu samband, ég er bara einni tímapöntun í burtu frá þér.
xoxo
Ykkar Linda
Linda Baldvinsdóttir
Samskiptaráðgjafi/markþjálfi
linda@manngildi.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.10.2018 | 15:12
þú ert númer eitt
Ég sá mynd á netinu um daginn sem gaf upp 10 atriði sem þú ættir að hafa í huga ef þú vilt hugsa vel um þig og líf þitt og ætla ég að fjalla um þessi atriði hér og hvers vegna þau eru ágæt til umhugsunar.
Fyrsta skrefið og kannski það mikilvægasta er "Ef þér finnst það rangt, ekki þá taka þátt í því"
Þetta er lykillinn að velgengni okkar á öllum sviðum. Hversu oft er það ekki þannig að við finnum einhvern ófrið innra með okkur en veljum að hunsa þá líðan en komumst síðan að því að við höfðum rétt fyrir okkur, varnarkerfi hjartna okkar hafði varað okkur við en við treystum ekki á það - treystum frekar því sem við upplifðum í hinu yrta. Svo þetta er það allra mikilvægasta, HLUSTAÐU Á ÞIG :)
Annað ráðið var að segja nákvæmlega það sem þú meinar og að já þitt sé já og nei þitt sé nei. Ég held að við vitum flest að þegar við segjum já við einhverju sem okkur langar að segja nei við þá förum við í mótþróa innra með okkur og við finnum að við erum ekki sjálfum okkur samkvæm heldur meðvirk með aðstæðum og beiðni annarra gegn vilja okkar. Það er ekki smart og í raun lækkar virði okkar hjá okkur sjálfum um einhver stig við hvert já sem hefði átt að vera nei og öfugt.
Þriðja ráðið var einmitt það að við ættum ekki að vera að geðjast fólki einungis til að því líki betur við okkur. Það heilbrigða er að hugsa með sér að það sé vita vonlaust að öllum geti líkað vel við okkur og því verði fólk að kynnast okkur eins og við erum með öllum okkar kostum og göllum og meta útfrá því löngun sína til að þekkja okkur og umgangast.
Fjórða ráðið ætla ég ekki að tala meira um en ég gerði í upphafinu því það er að við ættum að hlusta á innsæi okkar alltaf öllum stundum, því að öll rauðu flöggin eða ljósin sem við upplifum hið innra er innsæið okkar eins og ég sagði hér að framan, svo hlustum á það elskurnar, það mun færa okkur á réttar slóðir. ( það þýðir ekki að við lendum ekki í dölunum en við komumst fyrr á rétta slóð með því að hlusta og taka eftir því hvað innsæið segir okkur)
Aldrei tala illa um þig var fimmta ráðið og ég er svo sannarlega sammála því. Aldrei segja við sjálfan þig hluti sem þú gætir ekki hugsað þér að segja við aðra. Talaðu af virðingu um þig við þig sjálfan og aðra. Byggðu þig upp með þeim hætti að segja þér að þú getir allt og sért dýrmæt og segðu svo sjálfri þér að þú elskir þig nákvæmlega eins og þú ert og sjálfsvirði þitt mun óumdeilanlega hækka og rýmið fyrir "mistök og fleira" verður byggt á raunhæfu vingjarnlegu mati.
Sjötta, sjöunda og áttunda ráðið fjallaði í raun um það að gefast aldrei upp á því að sækja drauma þína. Sæktu þá og taktu skrefin út fyrir hefðbundna rammann þinn með því að segja já við hlutum sem gætu fært þig nær draumum þínum og segðu nei við úrtöluröddunum sem munu hljóma allt um kring. Það er næsta víst að þú þurfir að ýta þér frá þeim sem sjá allt ómögulegt við framkvæmdir þínar og munu ekki styðja þig á vegferð þinni þér til mikils sársauka, en þetta þekkja flestir sem fara út úr römmunum og það er ekkert við þessu að gera annað en að hugsa sér að þetta fólk vilji þrátt fyrir allt það besta fyrir þig en halda þig svo nærri þeim sem byggja þig upp.
Níunda ráðið var - dekraðu við þig og vertu góður við þig!
Ég er svo gjörsamlega sammála þessu ráði þar sem ég veit að það ráð mun alltaf gagnast þér vel í öllum kringumstæðum að huga vel að því að dekra þig, og kannski er það aldrei jafn mikilvægt og þegar eitthvað á bjátar í kringum þig. Þá sem aldrei fyrr skaltu hugsa vel um þig til anda sálar og líkama og sýna sjálfum þér vinsemd og kærleika á öllum sviðum.
Svo kemur rúsínan í pylsuendanum en það er einmitt síðasta ráðið sem gefið var upp en það er haltu þig frá drama og neikvæðni í öllum myndum þess. Þegar þú finnur þig í þannig aðstæðum forðaðu þér þá. Neikvæðni og neikvætt fólk dregur úr þér gleðina og lífsneistann á hraðari hátt en flest annað sem ég veit um og aldrei hef ég vitað að drama skapaði af sér eitthvað annað en meiri drama engum til heilla en fleirum til tjóns. Hinsvegar ef hjarta þitt er glatt og gleðiorkan streymir frá þér þá eru þér allir vegir færir og flestum líður afar vel í kringum þig, þannig að við skulum gera okkar besta hvern dag að búa til gleðistundir jafnvel mitt í erfiðum aðstæðum.
Og ef þú telur að ég geti orðið þér til aðstoðar við að ná í gleðina þína og halda í hana þá er ég bara einni tímapöntun í burtu.
xoxo
Ykkar Linda
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.10.2018 | 15:55
Hvernig getum við gert seinni sambönd okkar góð
Samkvæmt Gottman hjónunum sem starfrækja Gottman stofnunina (sem talin er ein sú virtasta þegar kemur að samböndum og rannsóknum á þeim), þá eru það nokkur atriði sem virðast skera úr um möguleikana á því að seinni sambönd geti orðið góð og jafnvel betri en þau fyrri, og ætla ég að skrifa aðeins um nokkur þeirra hér.
Við vitum að skilnaðartíðnin er hærri í seinni samböndum en þeim fyrri og munar allt að 10% á þeirri tíðni eða í stað 50% skilnaðartíðni fyrsta hjónabands fer hún í 60% í seinni samböndum, ekki neitt sérlega spennandi líkur þarna á ferð fyrir okkur sem erum enn í leitinni að hinum fullkomna maka.
En ef við gætum að okkur og förum eftir þeim ráðum sem rannsóknir Gottmans bjóða uppá getum við kannski breytt þessum hlutföllum og jafnvel lifað happily ever after með seinni mökum okkar og því er um að gera að skoða þessi ráð vel.
Og hér er uppskrift að 10 atriðum sem Gottman telur vænleg til að gera seinni sambönd lífvænlegri og endingabetri.
Ekki gagnrýna maka þinn: Í stað þess skaltu láta maka þinn vita af þörfum þínum á jákvæðan hátt og forðast að nota þú þú þú setningar. Að tala um sjálf málefnin er þannig betra en að vera að vera með persónulega gagnrýni og árásir á makann.
Að læra hvernig lagfæra má eftir átök:
Ekki geyma með þér pirring og vanþóknun. Ágreiningur er óumflýjanlgur í flestum tilfellum á milli hjóna og þar sem ágreiningur verður ekki er hætta á stöðnun í sambandinu. En það sem þarf að forðast er að fara í vörn, sýna fyrirlitningu með því að ranghvolfa augunum, hæðast að og kalla makann öllum illum nöfnum eða sýna honum fyrirlitningu með öðrum hætti.
Forðast að ráðast á persónuleika makans og reyna að halda sig við nútíðina:
Hafðu fókusinn á því umræðuefni sem byrjað var með og spurðu sjálfan þig "hverju er ég að reyna að ná fram". Munum að reiði er yfirleitt tengd særindum ótta og óöryggi svo haltu þig við að hafa hlutina í réttu samhengi í stað þess að fara í ádeilur á makann.
Auktu til muna líkamleg atlot og ástúð:
Ekki gleyma að kúra saman í sófanum eða koma makanum á óvart með óvæntum kossum eða öðrum hætti. Og þó að þú sért ekki týpan sem ert mikið fyrir þetta þá er það engu að síður staðreynd að þetta hjálpar við að halda sambandinu og þeim ástarböndum sem þar finnast á endingagóðum nótum.
Að byggja upp sameiginleg áhugamál með maka þínum:
Reynið að finna ykkur nokkur sameiginleg áhugamál sem veita ykkur ánægju og ekki gleyma að sýna áhugamáli makans áhuga þó svo að þau séu ekki þín áhugamál.
Nærðu væntumþykju og aðdáun:
Minntu þig á jákvæða eiginleika maka þíns jafnvel á sama tíma og þú átt í útistöðum við hann. Tjáðu þig reglulega upphátt og helst oft á dag um þessa jákvæðu eiginleika. Finndu og leitaðu að því sem sameinar ykkur en ekki því sem sundrar ykkur.
Vertu berskjaldaður og fullkomlega heiðarlegur um lykilatriði sambands ykkar:
Talaðu um þarfir þínar og áhyggjur. Tjáðu hugsanir þínar, tilfinningar og þarfir á virðingaverðan hátt, það kann aldrei góðri lukku að stýra þegar hlutunum er sópað undir teppið eða að grafa neikvæðar tilfinningar sem innra með þér búa.
Taktu ábyrgð á þínum þætti í ágreiningnum:
Það getur breytt andrúmsloftinu í sambandinu. Dr Julie og John Gottman skrifa: Viðbrögð annars aðilans breyta hreinlega heilabylgjum hins aðilans Biddu afsökunar þegar það á við því að það mun auðvelda fyrirgefningu og gefa hinum aðilanum fullvissu um að tilfinningar hans séu virtar.
Ekki leyfa sárunum að rótfestast:
Skoraðu flóttahugsanir þínar á hólm og hættu að halda í vondar tilfinningar. Hlustaðu á maka þinn og hans hlið og mundu að við höfum öll einhverjar hliðar sem við erum ekki svo ánægð með að hafa. Með því að gefa maka þínum leyfi til að hafa sína galla þurfum við ekki lengur að halda í fyrirlitningu okkar eða að reyna að stjórna þeim í þá átt sem við viljum að þeir fari.
Segðu fyrirgefðu og iðkaðu fyrirgefningu:
Segðu afsakið þegar þú hefur sært tilfinnignar maka þíns í þeim tilgangi að færa ykkur frá ágreiningi. Að vera fyrirmynd fyrir börnin okkar með þessum hætti auðveldar þeim að læra rétt viðbrögð í ágreiningi framtíðar þeirra. Reyndu svo að muna að þú og maki þinn eruð saman í liði og reyndu að vera eins skilningsríkur og þú treystir þér til hverju sinni. Það þýðir þó ekki að þú samþykkir særandi orð og framkvæmdir eða látir af eigin mörkum, en það gefur þér hugarró og yfirsýn sem færir vald þitt til þín.
Í seinni samböndum eru mörg flækjustig og stressþættir sem gera það að verkum að ástin og væntumþykjan getur tapast. En mundu næst þegar þú lendir í ágreiningi við maka þinn að virða hans viðbrögð og skoðanir þó að þær falli ekki að þínum og síðan er bara að vinna að því að yfirstíga vondar tilfinningar og líðan og halda áfram að vinna að jafnvægi og ást sambandsins.
Þannig að ég ætla að enda þennan pistil minn á því að minna okkur öll á það að grasið er sjaldan grænna hinu megin og við tökum alla okkar galla og viðbrögð með okkur inn í næstu sambönd þannig að það kannski borgar sig að hlusta á þessi ágætu hjón sem rannsakað hafa þá þætti sem gefa samböndum líf sitt, nú eða dauða þess.
Og eins og ávallt þá er ég einungis einni tímapöntun í burtu ef eitthvað af þessum atriðum þarfnast skoðunar í þínu tilviki.
Þar til næst elskurnar,
xoxo
Ykkar Linda
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Linda Baldvinsdóttir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (20.4.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar