Er líf eftir dauðann

Rakst á gömul skrif sem ég hef skrifað fyrir einhverjum árum og mér finnst vert að birta þau að nýju- að vísu í aðeins breyttri mynd og vonandi þá betri vegna þess að ég held að við þurfum stöðuglega að minna okkur á mikilvægi þessa stutta lífs sem við fáum hér á okkar dásamlegu móður jörð.


En nú þykjast vísindamenn vera búnir að finna sannanir fyrir því að það sé til líf eftir dauðann (jafnvel mörg), og hafa stundað rannsóknir á því fyrirbæri í 4 ár á tæplega 1000 manns sem þeir hreinlega tóku af lífi og lífguðu svo við eftir 20 mínútur eða svo (allt þó gert með samþykki þeirra sem aflífaðir voru)


Þetta er nú allt saman gott og blessað og alltaf gaman að lesa svona fréttir fyrir forvitnis sakir - og hver veit kannski hafa þeir bara rétt fyrir sér.

(Ég reyndar þykist þess  fullviss að ég verði spilandi á hörpu mína í himnaríki að þessari jarðvist lokinni blakandi englavængjum mínum í takt við tónana sem frá hörpunni berast)

En þegar ég las þessa frétt varð mér á að hugsa, skiptir það okkur öllu máli hvort það er líf eftir þetta líf? Og hvers vegna? Hvað með það líf sem við erum að lifa núna? skiptir ekki mestu máli að lifa því lífi á skemmtilegan og góðan hátt?


Ég hitti allt of mikið af fólki sem neitar sér um að lifa þessu á þann hátt sem því langar til og er sífellt að bíða eftir rétta tækifærinu á því að láta sér líða vel. Þetta yndislega fólk frestar því að framkvæma langanir sínar og drauma. og því miður er það algengast af öllu að það ætlar sér að framkvæma drauma sína og þrár þegar eftirlaunaaldrinum er náð, og öruggu lífeyrissjóðstekjurnar komnar í hús.


En því miður eru bara allt of margir sem einfaldlega ná ekki þessu eftirsóknaverða takmarki og eru farnir yfir í þetta nýja líf sem vísindamennirnir hafa jú sannað að sé til, eða það sem ekki óalgengt er að þeir hafa misst heilsuna og geta ekki framkvæmt allt þetta skemmtilega sem lífeyririnn átti að skaffa þeim.


Samkvæmt könnun sem var gerð af Bronnie Ware sem var hjúkrunarfræðingur á líknardeild nokkurri þá voru það helst þessi atriði hér fyrir neðan sem fólk sá mest eftir að hafa ekki gert meira af í lífinu.

 
1. Að hafa haft hugrekki til að vera sannara sér sjálfu – ekki að lifa lífinu sem aðrir         bjuggust við.
2. Að hafa unnið svona mikið.
3. Að hafa ekki haft hugrekki til að tjá tilfinningar sínar.
4. Að hafa ekki haldið sambandi við vini
5. Að hafa ekki leyft sér að vera hamingjusamari.


Og eftir þessi 5 atriði spyr ég aftur - hvað með lífið og núið? þetta líf sem okkur var af mikilli gæsku gefið?

Ætlum við að vera í þeim hópi sem sér eftir því að hafa ekki látið þessi atriði á listanum rætast á meðan við höfðum tækifærið til þess?

Við sem fengum svo frábærar vöggugjafir með okkur inn í þetta líf og sífellt bætist við þær með kunnáttu okkar, getu, þekkingu og færni. Ætlum við að bíða eftir næsta lífi eða kannski því þarnæsta áður en við tökum okkur til og skoðum drauma okkar langanir og þrár, og að láta þetta nú bara síðan verða að veruleika kannski einhverntíman seinna?

Við höfum verkfærin og við höfum daginn í dag - ekki eins víst með morgundaginn. Svo því ekki að taka skrefin í átt að því sem okkur hefur alltaf langað til að framkvæma?

Eftir hverju er að bíða?


Því ekki að efla nú kjark og þor ásamt því að stíga eitt pínulítið skref inn í óttann og sjá hvað þar gerist. -það er bara ekkert víst að þetta klikki hjá okkur.

Og ef þig vantar mína aðstoð við að stíga skrefin þín þá er ég eins og alltaf aðeins einni tímapöntun í burtu.

xoxo

Ykkar Linda

 

Linda Baldvinsdóttir

Samskiptaráðgjafi/Markþjálfi

linda@manngildi.is


Andlegt ofbeldi er lífshættulegt

Fyrr á árinu var ég í viðtali á rás 2 þar sem ég tjáði mig m.a. um upplifun mína af því að vera andlegu ofbeldissambandi um árabil. Í kjölfarið fannst mér tilvalið að skrifa smá pistil um þennan ljóta rússíbana sem andlegt ofbeldissamband er og er þessi pistill að miklu leiti skrifaður út frá minni eigin reynslu og upplifun og reyndar einnig byggður á námskeiði sem við Thoeodor Birgisson fjölskylduráðgjafi vorum með í Lausninni á sínum tíma.

Ég var allt of lengi inni í þessum rússíbana sem andlegt ofbeldissamband er og þurfti langan tíma til að vinna mig út úr sambandinu og frá þeim sárum sem til urðu á leiðinni(og kannski næ ég aldrei að vinna úr þeim til fulls). Hvert skref sem tekið var út úr sambandinu var skrefið sem færði mig nær frelsi mínu þó svo að ég sneri til baka í nokkur skipti þar sem ég var ekki orðin nægjanlega sterk til að fara frá því. Munið elskurnar að ef einhver í kringum ykkur fer mörgum sinnum inn og út úr sambandi af þessum toga þá er hvert skref sem tekið er út úr aðstæðunum skref sem færir þann aðila nær frelsinu. Svo ekki dæma vertu heldur til staðar - alltaf.

Mig langar að taka það fram að líklega beitum við öll einhvern tíman andlegu ofbeldi og líklega eru flestir sem slíku ofbeldi beita aðeins án kunnáttu í góðum samskiptum en ekki vondir menn og konur, Þeir einfaldlega hafa ekki góð áhrif á þá sem í nánasta umhverfi þeirra eru og þeir kunna ekki að lagfæra það með betri samskiptaleiðum.

En það eru einnig til menn og konur sem beita ofbeldi með markvissum hætti til að ná valdi á öðrum einstaklingum. 

Oft eru þeir aðilar haldnir siðblindu,mikilli eigingirni og eiga erfitt með að finna fyrir samkennd með öðrum og hafa litla sem enga sektarkennd yfir því sem þeir gera. Þeir eru oft mjög sjarmerandi og eiga auðvelt með að ná öðrum á sitt band. Þeir eiga mjög erfitt með að setja sig í spor annarra og í þeirra huga eru þeir númer 1,2 og 3, allir aðrir skipta minna máli. Þeir ljúga og lofa öllu mögulegu en standa sjaldnast við það sem þeir lofa. 

En hvort sem það var ætlun eða ekki ætlun sem átti við í mínu tilfelli þá urðu til sár sem erfitt var að vinna úr.

Líkamlegu afleiðingarnar voru ekki mar og brot en hinsvegar hefur andlegt ofbeldi áhrif á líkamlegt ástand og hjá mér voru þær t.d mikill kvíði, streita og svimi sem helltist yfir mig í tíma og ótíma, hjartsláttatruflanir og endurteknar sýkingar (flensur), öndunarörðugleikar, svefnleysi og fleira.

Fyrstu hegðunareinkenni mín í sambandinu voru auðvitað meðvirknitengd því að ég fór að tipla á tánum og hegða mér eftir skapi gerandans hverju sinni. Ég reyndi að lyfta andrúmsloftinu upp ef það var þungt nú eða lét mig hverfa hljóðlega í stað þess að krefjast þess að mér væri sýnd almennileg virðingaverð framkoma sem við eigum auðvita alltaf að ætlast til að fá!

En ég var bara góða,trygga og trúa stelpan sem hélt greinilega að ég gæti nú heldur betur verið bjargvættur mannsins ef ekki heimsins alls, og meðvirkni mín fékk þessa líka fínu vængi sem fóru á flug og flugu hátt ásamt því að ég trúði á að froskurinn gæti breyst í prins með öllum þeim kærleika sem ég hafði að gefa. 

Ég kveið oft fyrir því að koma heim því að ég vissi ekki hvað biði mín þar. Var það gott skap og allt með eðlilegum hætti eða var það þögn, fýla og reiði sem beið mín eða eitthvað annað verra, það gat ég ekki vitað fyrr en ég opnaði hurðina og gekk inn.

Meðvirkni mín fékk eins og ég áður sagði vængi og ekkert þótti mér sjálfsagðara í því ástandi en að mér liði flesta daga eins og allt sem ég gerði eða gerði ekki væri ekki nóg og að ég einfaldlega gæti ekki nálgast þarfir og ósagðar óskir gerandans. Mér leið oft eins og krakka sem stöðugt væri verið að skamma fyrir eitthvað, og ég í meðvirkni minni reyndi að aðlaga mig að nýjum og nýjum kröfum aðeins til þess eins að þurfa að mæta enn öðrum.

Ég átti auðvitað einnig að geta lesið hugsanir hans og vitað hvers hann þarfnaðist hverju sinni - en ekki hvað. Ég veit hinsvegar í dag og vissi svo sem allan tímann innst inni að ef ég hefði þann hæfileika að geta lesið hugsanir fólks væri ég orðin forrík og þyrfti aldrei að vinna handtak það sem eftir væri ævinnar þar sem allir væru tilbúnir að borga mér fyrir að segja ekki frá því sem ég sæi í hugarfylgsnum þeirra :)

En að öllu gamni slepptu:

Í svona sambandi eruð þið ekki vinir eða teymi - þið eruð á orrustuvelli þar sem annar aðilinn mun alltaf vinna með einum eða örðum hætti, engar samræður, málamiðlanir eða lausnir eru til í stöðunni og sá sem tapar ert alltaf þú.

Það sem þú segir er oftast misskilið, því snúið á hvolf og ég tala nú ekki um þegar þú vilt ræða um að sambandið sé ekki á góðum stað, sú ósvífni er yfirleitt túlkuð sem persónuleg árás og þér talin trú um að þín upplifun sé kolröng og ekki þess verð að ræða hana frekar. Og ef þér dettur í hug að ræða hlutina aftur eða frekar þá er vinsælasta leiðin sem notuð er sú að taka þagnarbindindi á þig nú eða að hóta skilnaði og jafnvel framkvæma hann (í nokkra daga, vikur og jafnvel mánuði) og kippa þannig öryggistilfinningu þinni í burtu. Svo eftir það tímabil taka við einhverskonar samningaviðræður um að taka saman á ný vegna þess að lífið yrði auðvitað einskisvert án þín og sambandsins og allt yrði svo miklu betra og öllu fögru lofað hvað framtíðina varðaði. 

Mín persónulega barátta tengdist helst óþoli hans á umgengni minni við börnin mín, vini og fjölskyldu, sem voru að hans mati ekki þess verð að vera í kringum og ég var stöðugt að semja um umgengnisrétt minn gagnvart þessum aðilum. En hvað sem öllum samningsviðræðum viðkom tók hann oftar en ekki á mig þagnarbindindi og sendi mér ill augnaráð til að halda mér nú á mottunni og sá til þess í leiðinni að þær stundir sem ég átti með mínum nánustu yrðu það erfiðar bæði fyrir mig og þau að þeim langaði einfaldlega bara ekki að koma til mín og smá saman drógu þau auðvita úr komum sínum. Að lokum lokum leiddi þetta til þess að ég stóð meira og minna uppi ein með sjálfri mér og honum.

Og Guð hjálpi mér ef ég upplifði gleðistundir í mínu lífi, hann sá alveg hjálparlaust um að eyðileggja þær með ýmsu móti og hafði afar fjörugt ímyndunarafl í þeim efnum eins og með því að fara í fýlu og hefna sín daginn eftir að hann sá að ég hafði haft það gaman eða taka upp á öðrum hefndaraðgerðum eins og þeirri að mæta undir annarlegum áhrifum við hin ýmsu virðulegu tilefni.

En einangrun frá vinum, fjölskyldu og stuðningsneti þínu ásamt stjórn á fjármunum eru einmitt oftast fyrstu skrefin sem gerandi í andlegu ofbeldi notar til að ná stjórn og þá ert þú ofkors orðin einkaeign hans/hennar og kemst illa í burtu þar sem fjármunir og tengslanet þitt er ekki lengur til staðar.

Það var fylgst með öllu sem ég og aðrir á heimilinu gerðu, og það var leitað að sönnunargögnum um að við værum að gera eitthvað á bak við hann því að margur heldur mig sig. Leitað var í skúffum og skápum og í raun voru engin persónuleg mörk okkar virt.

Flest sem þú segir í svona samböndum er mistúlkað og snúið á versta veg og þér er sagt að þú sjáir ekki það sem þú sérð og heyrir ekki það sem þú heyrir, sem að lokum verður til þess að þú ferð að efast um þinn eigin raunveruleika(sem við þó eigum aldrei að gera)

Þú ferð einnig að skoða hvort og hvaða þátt þú áttir í því að hlutirnir fóru eins og þeir fóru, hvað þú hefðir sagt eða gert sem hefði getað komið umræðunni á þetta plan. Þú finnur ekki í hjarta þér að það hafi verið þannig, en ert á svo veikum stað að það hlýtur að vera að hann hafi eitthvað fyrir sér í þessu efni þar sem þú færir aldrei að ásaka aðra manneskju með þeim hætti sem þú ert ásökuð um.

Rök gilda ekki í svona umhverfi - gleymdu því alveg.

Rökleysa, feluleikur, stjórnun og óvild er hinsvegar til staðar í ríkum mæli sem samt er svo erfitt að horfast í augu við því að það getur jú enginn verið að ætla sér að koma svona fram eða hvað? 

Ofbeldishringur eða Controlhringur er ríkjandi í svona samböndum og er fyrsti hluti hringsins sá að það verður til spennuþrungið ástand sem fljótlega fer yfir í næsta hluta hringsins eða þegar ofbeldinu er beitt með einhverjum hætti - hætti sem setur þig mjög oft í þær stellingar að þú hugsar "nú fer ég út úr þessu"

Gerandinn skynjar í þeim tilfellum að þú ert búin að fá nóg og þá grípur hann til þess ráðs að veiða þig aftur í netið sitt með algjörlega frábæru tímabili sem er þriðji og síðasti hluti hringsins (kallast oft honeymoon tímabilið) þar sem þú ert sú fallegasta, besta og frábærasta manneskja sem gengið hefur á þessari jörðu! Þessu tímabili fylgir einnig svo frábært gleði og spennuástand sem jafnframt er í mörgum tilfellum fyllt af yfirdrifnum óheilbrigðum ástríðum og vegna þeirra hættir þú við að fara eða ferð aftur til ofbeldismannsins vegna þess að þetta tímabil er einfaldlega svo gott og einstakt á meðan það varir.

Sjálfstraustið og sjálfsvirðingin hverfur smásaman við þessar óeðlilegu aðstæður og kvíði, þunglyndi, örvænting og almenn vanlíðan verður hluti af þínu daglega lífi og þú bíður eftir því að stutta honeymoon tímabilið láti sjá sig á ný.

Það eru nokkur atriði sem eru til staðar í ríkum mæli í samböndum sem eru ekki af réttum toga og John Gottman kallar þá hestamennina fjóra. Þessir riddarar (eða ekki) eru eftirtaldir að hans sögn: 

Hinir fjóru hestamenn.

  1. Útásetningar.Sumar aðferðir útásetninga geta verið uppbyggjandi en það sem átt er við hér er þegar neikvæður dómur og fullyrðingar eru bornar fram á yfirdrifinn máta. Það sem gæti bent þér á að þú sért að nota þennan hestamann er ef þú segir td “aldrei” eða “alltaf” – “þú hugsar aldrei um neitt nema sjálfan þig” – “þú ert alltaf svo þrjósk/ur “ "það verður aldrei neitt úr neinu hjá þér"
  1. Fyrirlitning er alvarlegra form hinna fjögurra hestamanna þar sem útásetningarnar verða að hæðni og spotti eða þar sem þú kemur fram við maka þinn af virðingaleysi, hæðni, fyrirlitningu og fl. Það getur innifalið í sér andstyggilega fyndni á kostnað hins, það að ranghvolfa augunum, uppnefna og svo framvegis. Fyrirlitningin vex með tímanum þegar fókusað er á það sem ekki er gott við makann en þess í stað fundnir allir gallar hans.
  1. Vörn.Vörn kemur vegna þess að þér finnst vera ráðist á þig eða þú gagnrýndur of hart. Og oft er vörninni einnig beitt til að forðast að taka ábyrgð eða til að setja allt yfir á maka þinn. Ef þú heyrir þig segja Ég gerði ekkert rangt, eða þegar þú ferð að ásaka maka þinn eftir að hann kemur fram með umræðuefni eða umkvartanir sem þér líkar ekki, spurðu þig þá hvort þetta sé málið. Jafnvel þó að maki þinn geri mistök þýðir það ekki að þú sért frír frá ábyrgð eða hefðir ekki getað brugðist við á annan hátt.Vandamálið við vörnina er að hún segir maka þínum að þú sért ekki að hlusta hann eða takir ekki alvarlega þær umkvartanir sem hann hefur. Og þannig verða til ný ágreiningsefni sem valdið geta nýjum ágreiningi. 
  1. Að byggja steinvegg.Að setja upp steinvegg á milli þín og maka þíns með því að draga þig í hlé, loka á og fjarlægja þig frá maka þínum þýðir að þú ert að byggja steinveggi. T.d þegar þagnarmeðferð er beitt eða þegar farið er út án þess að láta vita hvert verið er að fara. Steinveggirnir eru stundum settir upp þegar hinum þremur hestamönnunum hefur verið otað fram og ástandið er orðið yfirþyrmandi. Að byggja steinveggi er hættulegasta aðferðin af þeim öllum vegna þess að makinn upplifir sig yfirgefinn og að sér sé hafnað.

Meðvirkni er lífshættuleg en bara ekki mikið talað um þann part hennar og oft lítið gert úr því sjúklega ástandi sem meðvirknin getur skapað. Orðið sjálft er talið klisjukennt og jafnvel hlegið að því, en ég get lofað þér því að meðvirkt líf í andlegu ofbeldissambandi og víðar svo sem en bara þar er oft lífshættulegt fyrir þína andlegu og líkamlegu heilsu.

Þegar ég var í mínu ofbeldis sambandi greip ég hverja einustu pest sem gekk á landinu og jafnvel víðar, en eftir skilnaðinn fékk ég í tvígang símtal frá heimilislækni mínum á Reykjavíkursvæðinu sem fór að undra sig á því hvera vegna ég kæmi aldrei til hans - sem var einfaldlega vegna þess að ónæmiskerfi mitt tók stakkaskiptum við það eitt að ég var ekki undir þessu sífellda andlega álagi og leitaði mér aðstoðar varðandi mína meðvirkni og það sjúklega ástand og líf sem hún skapaði mér.

Ég geri mér grein fyrir því að við þurfum að vera meðvirk öðrum (virka með) á heilbrigðan máta, en sá máti sem skapar þetta veika ástand á bara ekkert skylt með því, svo gerum stóran greinamun á þessu tvennu, því að annað ástandið skapar falleg gefandi samskipti þar sem mörk okkar og persóna er virt á meðan hitt ástandið getur orðið okkur og þeim sem við elskum lífshættulegt. 

Ég er á góðum og fallegum stað í dag og stend með sjálfri mér sama hvað það kann að kosta mig og veit að ég á bara allt gott skilið, hef þurft að læra mikið og í raun var allt sem ég lærði í mínu fagi fyrst og fremst gert til að bæta mig og mína líðan. Aukaafurðin af því námi er að ég tel að ég sé færari um að hjálpa öðrum að komast á fallega staði í sínu lífi og ekkert gefur mér meira en einmitt það að aðstoða mína samferðamenn til að skapa sér það góða og fagra í lífinu, og mætti mér auðnast sá heiður í ríkum mæli - þá er tilgangi mínum náð.

Nokkur ráð að lokum.

Það er fáránlegt þegar einhver reynir að segja þér hver þú ert, hvernig þér líður, hvað þú ert að hugsa, hvað þú ætlar þér eða hvað þú upplifir, svo ekki hlusta, lokaðu eyrunum fyrir því og hafðu áhyggjur af þeim sem slíkt gerir.

Jafningjasamræður sem hafa það að markmiði að ná fram sameiginlegri niðurstöðu ættu aldrei að fylla þig ótta, skömm, óreiðu eða halda þér í óvissu um virðingu og hlustun á það sem þú hefur að segja.

Og hvernig svo sem við svo svörum fyrir okkur þá munum að við eigum öll skilið fallega og virðingaverða framkomu alltaf- og við eigum skilið að hlustað sé á okkar sjónarmið og tilfinningar af kurteisi og án reiði og uppþota.

Að síðustu langar mig að skilja eftir setningu sem við ættum að hafa í huga á hverjum og einum stað í lífi okkar en það er setningin "Vertu einungis þar sem þér líður vel og hvergi annarstaðar".

Við skulum ekki gleyma þessu undir nokkrum kringumstæðum elskurnar - og ef ég get aðstoðað þig sem þetta lest við að auðga líf þitt eða takast á við verkefni þess þá endilega hafðu samband, ég er bara einni tímapöntun í burtu frá þér.

xoxo

Ykkar Linda

Linda Baldvinsdóttir

Samskiptaráðgjafi/markþjálfi

linda@manngildi.is

 

  

 

 

 

 


þú ert númer eitt

 

Ég sá mynd á netinu um daginn sem gaf upp 10 atriði sem þú ættir að hafa í huga ef þú vilt hugsa vel um þig og líf þitt og ætla ég að fjalla um þessi atriði hér og hvers vegna þau eru ágæt til umhugsunar.

Fyrsta skrefið og kannski það mikilvægasta er "Ef þér finnst það rangt, ekki þá taka þátt í því"

Þetta er lykillinn að velgengni okkar á öllum sviðum. Hversu oft er það ekki þannig að við finnum einhvern ófrið innra með okkur en veljum að hunsa þá líðan en komumst síðan að því að við höfðum rétt fyrir okkur, varnarkerfi hjartna okkar hafði varað okkur við en við treystum ekki á það - treystum frekar því sem við upplifðum í hinu yrta. Svo þetta er það allra mikilvægasta, HLUSTAÐU Á ÞIG :)

Annað ráðið var að segja nákvæmlega það sem þú meinar og að já þitt sé já og nei þitt sé nei. Ég held að við vitum flest að þegar við segjum já við einhverju sem okkur langar að segja nei við þá förum við í mótþróa innra með okkur og við finnum að við erum ekki sjálfum okkur samkvæm heldur meðvirk með aðstæðum og beiðni annarra gegn vilja okkar. Það er ekki smart og í raun lækkar virði okkar hjá okkur sjálfum um einhver stig við hvert já sem hefði átt að vera nei og öfugt.

Þriðja ráðið var einmitt það að við ættum ekki að vera að geðjast fólki einungis til að því líki betur við okkur. Það heilbrigða er að hugsa með sér að það sé vita vonlaust að öllum geti líkað vel við okkur og því verði fólk að kynnast okkur eins og við erum með öllum okkar kostum og göllum og meta útfrá því löngun sína til að þekkja okkur og umgangast.

Fjórða ráðið ætla ég ekki að tala meira um en ég gerði í upphafinu því það er að við ættum að hlusta á innsæi okkar alltaf öllum stundum, því að öll rauðu flöggin eða ljósin sem við upplifum hið innra er innsæið okkar eins og ég sagði hér að framan, svo hlustum á það elskurnar, það mun færa okkur á réttar slóðir. ( það þýðir ekki að við lendum ekki í dölunum en við komumst fyrr á rétta slóð með því að hlusta og taka eftir því hvað innsæið segir okkur)

Aldrei tala illa um þig var fimmta ráðið og ég er svo sannarlega sammála því. Aldrei segja við sjálfan þig hluti sem þú gætir ekki hugsað þér að segja við aðra. Talaðu af virðingu um þig við þig sjálfan og aðra. Byggðu þig upp með þeim hætti að segja þér að þú getir allt og sért dýrmæt og segðu svo sjálfri þér að þú elskir þig nákvæmlega eins og þú ert og sjálfsvirði þitt mun óumdeilanlega hækka og rýmið fyrir "mistök og fleira" verður byggt á raunhæfu vingjarnlegu mati.

Sjötta, sjöunda og áttunda ráðið fjallaði í raun um það að gefast aldrei upp á því að sækja drauma þína. Sæktu þá og taktu skrefin út fyrir hefðbundna rammann þinn með því að segja já við hlutum sem gætu fært þig nær draumum þínum og segðu nei við úrtöluröddunum sem munu hljóma allt um kring. Það er næsta víst að þú þurfir að ýta þér frá þeim sem sjá allt ómögulegt við framkvæmdir þínar og munu ekki styðja þig á vegferð þinni þér til mikils sársauka, en þetta þekkja flestir sem fara út úr römmunum og það er ekkert við þessu að gera annað en að hugsa sér að þetta fólk vilji þrátt fyrir allt það besta fyrir þig en halda þig svo nærri þeim sem byggja þig upp.

Níunda ráðið var - dekraðu við þig og vertu góður við þig!

Ég er svo gjörsamlega sammála þessu ráði þar sem ég veit að það ráð mun alltaf gagnast þér vel í öllum kringumstæðum að huga vel að því að dekra þig, og kannski er það aldrei jafn mikilvægt og þegar eitthvað á bjátar í kringum þig. Þá sem aldrei fyrr skaltu hugsa vel um þig til anda sálar og líkama og sýna sjálfum þér vinsemd og kærleika á öllum sviðum.

Svo kemur rúsínan í pylsuendanum en það er einmitt síðasta ráðið sem gefið var upp en það er haltu þig frá drama og neikvæðni í öllum myndum þess. Þegar þú finnur þig í þannig aðstæðum forðaðu þér þá. Neikvæðni og neikvætt fólk dregur úr þér gleðina og lífsneistann á hraðari hátt en flest annað sem ég veit um og aldrei hef ég vitað að drama skapaði af sér eitthvað annað en meiri drama engum til heilla en fleirum til tjóns. Hinsvegar ef hjarta þitt er glatt og gleðiorkan streymir frá þér þá eru þér allir vegir færir og flestum líður afar vel í kringum þig, þannig að við skulum gera okkar besta hvern dag að búa til gleðistundir jafnvel mitt í erfiðum aðstæðum.

Og ef þú telur að ég geti orðið þér til aðstoðar við að ná í gleðina þína og halda í hana þá er ég bara einni tímapöntun í burtu.

xoxo

Ykkar Linda

  


pistill mynd


Hvernig getum við gert seinni sambönd okkar góð

Samkvæmt Gottman hjónunum sem starfrækja Gottman stofnunina (sem talin er ein sú virtasta þegar kemur að samböndum og rannsóknum á þeim), þá eru það nokkur atriði sem virðast skera úr um möguleikana á því að seinni sambönd geti orðið góð og jafnvel betri en þau fyrri, og ætla ég að skrifa aðeins um nokkur þeirra hér.

Við vitum að skilnaðartíðnin er hærri í seinni samböndum en þeim fyrri og munar allt að 10% á þeirri tíðni eða í stað 50% skilnaðartíðni fyrsta hjónabands fer hún í 60% í seinni samböndum, ekki neitt sérlega spennandi líkur þarna á ferð fyrir okkur sem erum enn í leitinni að hinum fullkomna maka.

En ef við gætum að okkur og förum eftir þeim ráðum sem rannsóknir Gottmans bjóða uppá getum við kannski breytt þessum hlutföllum og jafnvel lifað happily ever after með seinni mökum okkar og því er um að gera að skoða þessi ráð vel.

 

Og hér er uppskrift að 10 atriðum sem Gottman telur vænleg til að gera seinni sambönd lífvænlegri og endingabetri.

 

 

Ekki gagnrýna maka þinn: Í stað þess skaltu láta maka þinn vita af þörfum þínum á jákvæðan hátt og forðast að nota þú þú þú setningar. Að tala um sjálf málefnin er þannig betra en að vera að vera með persónulega gagnrýni og árásir á makann.


Að læra hvernig lagfæra má eftir átök: 
Ekki geyma með þér pirring og vanþóknun. Ágreiningur er óumflýjanlgur í flestum tilfellum á milli hjóna og þar sem ágreiningur verður ekki er hætta á stöðnun í sambandinu. En það sem þarf að forðast er að fara í vörn, sýna fyrirlitningu með því að ranghvolfa augunum, hæðast að og kalla makann öllum illum nöfnum eða sýna honum fyrirlitningu með öðrum hætti.

 
Forðast að ráðast á persónuleika makans og reyna að halda sig við nútíðina:
Hafðu fókusinn á því umræðuefni sem byrjað var með og spurðu sjálfan þig "hverju er ég að reyna að ná fram". Munum að reiði er yfirleitt tengd særindum ótta og óöryggi svo haltu þig við að hafa hlutina í réttu samhengi í stað þess að fara í ádeilur á makann.

Auktu til muna líkamleg atlot og ástúð:
Ekki gleyma að kúra saman í sófanum eða koma makanum á óvart með óvæntum kossum eða öðrum hætti. Og þó að þú sért ekki týpan sem ert mikið fyrir þetta þá er það engu að síður staðreynd að þetta hjálpar við að halda sambandinu og þeim ástarböndum sem þar finnast á endingagóðum nótum.

 
Að byggja upp sameiginleg áhugamál með maka þínum:
Reynið að finna ykkur nokkur sameiginleg áhugamál sem veita ykkur ánægju og ekki gleyma að sýna áhugamáli makans áhuga þó svo að þau séu ekki þín áhugamál. 

Nærðu væntumþykju og aðdáun:
Minntu þig á jákvæða eiginleika maka þíns jafnvel á sama tíma og þú átt í útistöðum við hann. Tjáðu þig reglulega upphátt og helst oft á dag um þessa jákvæðu eiginleika. Finndu og leitaðu að því sem sameinar ykkur en ekki því sem sundrar ykkur. 

Vertu berskjaldaður og fullkomlega heiðarlegur um lykilatriði sambands ykkar:
Talaðu um þarfir þínar og áhyggjur. Tjáðu hugsanir þínar, tilfinningar og þarfir á virðingaverðan hátt, það kann aldrei góðri lukku að stýra þegar hlutunum er sópað undir teppið eða að grafa neikvæðar tilfinningar sem innra með þér búa.


Taktu ábyrgð á þínum þætti í ágreiningnum:
Það getur breytt andrúmsloftinu í sambandinu. Dr Julie og John Gottman skrifa: “Viðbrögð annars aðilans breyta hreinlega heilabylgjum hins aðilans”  Biddu afsökunar þegar það á við því að það mun auðvelda fyrirgefningu og gefa hinum aðilanum fullvissu um að tilfinningar hans séu virtar.


Ekki leyfa sárunum að rótfestast: 
Skoraðu flóttahugsanir þínar á hólm og hættu að halda í vondar tilfinningar. Hlustaðu á maka þinn og hans hlið og mundu að við höfum öll einhverjar hliðar sem við erum ekki svo ánægð með að hafa. Með því að gefa maka þínum leyfi til að hafa sína galla þurfum við ekki lengur að halda í fyrirlitningu okkar eða að reyna að stjórna þeim í þá átt sem við viljum að þeir fari.

 
Segðu fyrirgefðu og iðkaðu fyrirgefningu:
Segðu afsakið þegar þú hefur sært tilfinnignar maka þíns í þeim tilgangi að færa ykkur frá ágreiningi. Að vera fyrirmynd fyrir börnin okkar með þessum hætti auðveldar þeim að læra rétt viðbrögð í ágreiningi framtíðar þeirra. Reyndu svo að muna að þú og maki þinn eruð saman í liði og reyndu að vera eins skilningsríkur og þú treystir þér til hverju sinni. Það þýðir þó ekki að þú samþykkir særandi orð og framkvæmdir eða látir af eigin mörkum, en það gefur þér hugarró og yfirsýn sem færir vald þitt til þín. 

Í seinni samböndum eru mörg flækjustig og stressþættir sem gera það að verkum að ástin og væntumþykjan getur tapast. En mundu næst þegar þú lendir í ágreiningi við maka þinn að virða hans viðbrögð og skoðanir þó að þær falli ekki að þínum og síðan er bara að vinna að því að yfirstíga vondar tilfinningar og líðan og halda áfram að vinna að jafnvægi og ást sambandsins. 

Þannig að ég ætla að enda þennan pistil minn á því að minna okkur öll á það að grasið er sjaldan grænna hinu megin og við tökum alla okkar galla og viðbrögð með okkur inn í næstu sambönd þannig að það kannski borgar sig að hlusta á þessi ágætu hjón sem rannsakað hafa þá þætti sem gefa samböndum líf sitt, nú eða dauða þess.

Og eins og ávallt þá er ég einungis einni tímapöntun í burtu ef eitthvað af þessum atriðum þarfnast skoðunar í þínu tilviki.

Þar til næst elskurnar,

xoxo

Ykkar Linda


Viltu losna við streituna?

Ég eins og við flest leita annað slagið að sjálfri mér upp á nýtt þegar ég týnist í aðstæðum lífsins og ég hef komist að því að mér gengur það best ef ég næ að aðlaga mig aðstæðunum sem eru -  en ekki væntingum mínum og skilyrtum óskuðum kringumstæðum. 

Það er ekki eins og það sé það auðveldasta sem við gerum og oft er það einnig þannig að við erum með svo fastmótaðar hugmyndir um það hvernig allt á að vera að við eigum erfitt með að sleppa tökunum á því.

Sama hversu erfitt sem mér þykir þetta þó vera þarf ég að gæta að hjarta mínu, lífi, byrja næsta kafla og sleppa tökum á þeim aðstæðum sem eru og sætta mig við það sem er - og læra síðan að elska það og gera eins og sagt er - að búa til sætan sítrónudrykk þegar mér eru réttar sítrónurnar í lífinu.

En þegar ég segi sætta mig við, þá á ég ekki við að við eigum að sætta okkur við aðstæður sem eru okkur skaðlegar með einum eða öðrum hætti, né er ég að segja að þú eigir ekki að sækjast eftir því að fá þörfum þínum mætt. Það sem ég er hinsvegar að tala um er að sætta sig við þá atburði eða aðstæður í lífinu sem við fáum ekki breytt með neinum hætti.

Og í leit minni að því að aðlaga mig að mínum nýju aðstæðum í lífinu fór ég á áhugavert Qigong námskeið um daginn þar sem ég lærði að anda með tilgangi. Þessi aðferð er mörg þúsund ára gömul og er notuð víða um heim í dag til fyrirbyggingar og jafnvel lækninga í sumum tilfellum og því fannst mér rétt að draga vinkonu mína með mér á námskeið til að kynnast þessu að eigin raun.

Mér þótti mjög áhugavert að finna að það eitt að anda rétt gaf mér meiri meðvitund um líkama minn og hvar ég þarf að liðka hann og sveigja, merkilegt að okkur skuli ekki vera kenndar aðferðir sem þessar strax á barnsaldri svo að koma megi í veg fyrir að við festumst í stirðleika og bólgum þeim sem fylgja með því einu að anda og sveigja sig á einfaldan máta!

Á þessu sama námskeiði fannst mér einnig mjög athyglivert að læra að þar sem orkan flæðir ekki frjáls þá vilja menn meina að hugur okkar verði óstöðugur, dómgreindarleysi geti átt sér stað,jafnvel siðblinda,einræna,tilfinningaleysi,höfnun, sérhygli og ótti. Vanvirkni geti einnig fylgt, hjálparleysi og að lokum veikindi. Merkileg fræði sem vert er að hafa í huga þegar að við ætlum að breyta heilsunni okkar til hins betra.

Og í leit minni að einhverju gagnlegu og nýju fann ég einnig fyrirlestur sem gaf mér leiðsögn sem ég ætla að nýta mér og ég vona að þú getir einnig nýtt þér. 

Sá fyrirlestur var á TED (sem er í uppáhaldi hjá mér) en þar sem steig á stokk í þessu tilfelli rithöfundur bókarinnar "The Dolphin Way" (eða leið höfrunganna) Dr. Shimi Kang þar sem hún talar um hvaða upplýsingar náttúran gefur okkur hvað varðar aðlögun og streitulosun eða það sem við mennirnir getum nýtt okkur úr náttúrunni til að minnka streitu og kulnun og þótti mér þetta afar áhugavert svo ekki sé meira sagt.

Það sem gerist þegar við erum uppfull af streitu þá hættum við að sofa vel, við gleymum hlátrinum okkar og leikgleði og við hættum að lokum að vera félagslega tengd, en þetta eru einmitt þeir þættir sem við þurfum að passa uppá ef við ætlum að ná aðlögun að erfiðum eða nýjum aðstæðum nú eða koma okkur út úr kulnun ýmiskonar. Dr.Khan kallar þessa aðferð náttúrunnar P.O.D eða play, others, and downtime. 

Ef við skoðum þessa streitunálgun hennar Dr Shimi Kang þá byggir hún hana á rannsóknum sem hún gerði á náttúrunni og þeim lífverum sem jörðina byggja og fann út að þær tegundir sem aðlöguðu sig að aðstæðum lifðu af á meðan aðrar sem ekki gátu aðlagað sig gáfu eftir og dóu út.

En höfrungarnir urðu til þess að hún fór að skoða hvað það væri sem gæfi þeim lífsgleðina og jafnvægið sem virtist einkenna þá og fann út að það voru þættir sem þeir pössuðu uppá  að væru í jafnvægi og þeir þættir voru þeir að þeir léku sér á hverjum degi, hvíldu sig vel og voru síðan hluti af stóru félagsneti og þeir pössuðu upp á að jafnvægi væri á öllum þessum þáttum á daglegum basis.

Sjúkdómar þeir sem við eigum við að etja í dag eru margir streitutengdir og því fór ég að hugsa hvort að það gæti verið vegna þess að við erum ekki að sinna því að hafa jafnvægi í lífi okkar? Ég get svosem ekki fullyrt neitt um það en ég veit þó að þegar ég hef verið undir álagi þá er mér hættara við að fá flensur, gigtarköst,astma og fleira sem herjar frekar á mig á þeim stundum þar sem ég hugsa minnst um mig og jafnvægi mitt.

Og ég veit að til að ég geti aðlagað mig nýjum aðstæðum og haft jafnvægi á þessum þáttum höfrunganna þarf ég að skilja gömlu aðstæðurnar eftir og allt sem þeim tilheyrir, finna jafnvel nýjar og spennandi leiðir og afla mér nýrrar þekkingar sem gagnast mér á leið minni til jafnvægis og hamingju, ásamt því að nota þær gömlu sem ég á í farteskinu. Aðferðir eins  og þær að tala út jákvæðar aðstæður inn í líf mitt, fyrirgefa, næra mig vel til anda sálar og líkama og treysta lífinu fyrir mér og mínum aðstæðum og sleppa síðan tökunum.

Með allt þetta í farteskinu mun allt fara vel hjá okkur öllum elskurnar og streita,ótti og aðrar óuppbyggjandi tilfinningar munu víkja fyrir spennandi og óvæntum skemmtilegum uppákomum.

Njótum þess að hafa leik, samskipti og hvíld í jafnvægi alla daga og við erum í góðum málum :) 

Og ef þig vantar mína aðstoð við lífsins málefni þá er ég aðeins einni tímapöntun í burtu.

xoxo

Ykkar Linda

linda@manngildi.is


Brotnir draumar (sambandsslit)

Það er sagt að um 50% hjónabanda endi með skilnaði og að seinni hjónabönd endi oftar en þau fyrri eða í allt að 60 % tilfella þannig að það eru margir sem ganga í gegnum skilnaði og það jafnvel oftar en einu sinni og oftar en tvisvar á ævinni, og eru þá ekki sambandsslitin sem verða eftir 1-3 ár tekin með inn í þessa tölu.

Að fara í gegnum ferli af þessum toga getur tekið á og því getur fylgt mikil sorg, höfnun, brotnir draumar og margt annað ófyrirséð. 

Ég fór nú nýverið sjálf í gegnum þennan rússíbana sem sambandsslit eða sambúðarslit eru, og er enn að einhverju leiti þar og verð sjálfsagt í einhvern tíma enn.

Það er þannig að þegar þú ferð í gegnum slíkt þá finnst sumu fólki í kringum þig að þetta sé lítið mál, mátt bara vera fegin að þessu lauk, allir sáu nú að þetta hefði ekki gengið (nema þú) og alltaf má jú fá annað skip og annað föruneyti, og þér er bara sagt að fara á Tinder, fara á djammið og komast bara yfir þetta eins og ekkert sé! 

En er þetta svona einfalt?

Kannski í einhverjum tilfellum þar sem samband hefur staðið stutt og engin tenging farin að myndast, en ég held að þetta sé flestum erfitt a.m.k þar sem aðilarnir eru komnir í sambúð og farnir að kynnast fjölskyldu og vinum hins aðilans og sambandið komið á alvarlegt stig. Þetta er langt í frá auðvelt og það á yfirleitt við um báða aðilana sem að slitunum koma (á líka við um þá sem báðu um skilnaðinn).

Ég hef líklega ekki verið sú lánsamasta á þessu sambandssviði mínu og litlar líkur eru á því að ég fái að fagna silfur eða gullbrúðkaupi á minni ævi (Náði þó 20 árum) og að sumu leiti viðurkenni ég að mér finnst það sorgleg staðreynd. Þetta var nú svo sannarlega ekki það sem ég sá fyrir mér þegar ég var ung með hjartað fullt af draumum. Þá sá ég mig fyrir mér með einum manni ævina á enda, að við yrðum hamingjusöm með börnunum okkar og barnabörnum þar til dauðinn aðskildi okkur.

En það er ekki alltaf dauðinn sem aðskilur heldur svo margt annað sem hvarflaði ekki að mér þegar rauða ástarsagan dansaði í huga mér þar sem ég var með prinsinum eina og sanna. 

Og þegar raunin verður sú að sú rauða stenst ekki, verða eftir aum sár sem taka sinn tíma að gróa og við tekur ferli sem engum finnst gott að fara í gegnum.

Í því ferli koma fram svo margar tilfinningar sem þú hreinlega kannt lítið á svona oftast nær og þær geta verið mjög sárar og jafnvel mjög bitrar.

Sorgin sem þú upplifir ásamt vonbrigðunum yfir því að þetta hafi ekki gengið upp setur svip á líf þitt. Allir brotnu draumarnir sem aldrei fá að rætast draga úr þér mátt og þig langar mest að skríða inn í skel og dvelja þar í einhvern tíma til að sleikja sárin þín.

Í mínu tilfelli núna var engin skel til að skríða inn í um tíma en ég hafði þó ótrúlega góðan stuðning frá börnunum mínum og vinum sem héldu utan um mig á versta kaflanum eða þar til ég komst á minn eigin stað /skel. Vinanetið mitt var duglegt að veita mér stuðning á þeim tíma og ég er svo þakklát að eiga svona góða, yndislega trausta og gefandi vini. 

Ég grét mikið og oft (sem er mjög ólíkt mér) og græt stundum enn við ólíklegustu tækifæri. Er meyr með afbrigðum og ekkert má segja við mig þá finn ég hvernig tárin ætla að trilla niður kinnar mínar. Jafnvel fallegar stundir og orð verða til þess að ég græt fögrum tárum. 

Ég veit að þetta er eðlilegt þegar sorgin bankar uppá og líf okkar breytist, þannig að ég skoða þessar tilfinningar, leyfi tárunum að renna, samþykki líðan mína og gef sjálfri mér kærleika og leyfi til að upplifa þetta allt saman því að ég veit að það er eina leiðin til bata.

Núna er ég flutt í nýju skelina mína og búin að gera hana að notalegu heimili fyrir mig með hjálp góðra vina og þar get ég skriðið inn og leyft mér að líða bara eins og mér sýnist að líða í hvert og eitt sinn sem er svo gott og hreinlega nauðsynlegt að geta gert þegar þegar stormar geysa í tilfinningalífi okkar. 

En þegar skelin var nú loksins tilbúin og mér fór að líða eins og ég ætti þar heima fór einmannakenndin að gera vart við sig, og síðan fullvissan um að ég yrði bara ein það sem eftir væri. En líklega er það vegna þess að ég fann og finn að ég er bara alls ekki tilbúin til að fara að gefa af mér eitt eða neitt til neins nema sjálfrar mín og þeirra sem eru í mínum kærleikshring eins og börnunum mínum, barnabörnum og vinum, og líklega gæti ég ekki heldur þegið eitt né neitt heldur frá neinum öðrum en þessum sömu aðilum.

Ég geri þó máttlausar tilraunir til þess að "halda áfram göngunni" og fór t.d. inn á Tinder :) Þangað hef ég stöku sinnum farið inn til að skoða eins og maður gerir almennt við vörulista þegar manni leiðist, en finn þar þó fátt (en það er bara ég - þetta er örugglega æðislegt fyrir alla aðra)og enginn af þeim sem sett hefur upp skrautfjaðrir gagnvart mér hefur náð að opna skelina mína, ekki einu sinni smárifu þar sem mér finnst ég bara hreinlega vera dofin fyrir þessu öllu saman ákkúrat núna. Ég veit þó að þetta eru allt saman eðlileg viðbrögð við sorginni og ég þarf tíma til að leyfa henni að hafa sinn gang áður en ég er fær um að halda áfram. 

En á sama tíma og þessar miklu tilfinningar eru í gangi er ég að byggja undir stoðir mínar á öðrum sviðum og ná í gleði mína ásamt því að auka við félagsnetið mitt, því að ég veit að það er fátt sem er eins mikilvægt og það að búa til gleðistundir í erfiðum aðstæðum til að létta gönguna og ná í fyrri styrk.

Í þessari uppbyggingu er einnig ótrúlega nauðsynlegt að næra líkama og sál  og uppfylla þarfir þær sem við kunnum að hafa með kærleikann og umhyggjuna til "me myself and I" að leiðarljósi og það hef ég lagt mig fram við að gera eins of framast hefur verið kostur á.   

Eins er ég búin að vera í mikilli sjálfsskoðun sem fylgir yfirleitt kaflaskilum af þessu tagi og ég skoða mig og mínar tilfinningar reglulega með aðstoð míns fagaðila sem ég held að allir sem fara í gegnum skipsbrot af þessu tagi ættu að gera ef komast á frá þessu á eins góðan hátt og hægt er. 

Það er alltaf gott og hollt að endurskoða líf sitt þegar stór kaflaskipti eiga sér stað, og sjaldan er eins mikilvægt og þá að skoða hvað það er sem við viljum fá og hafa inni í lífi okkar í framtíðinni og hvernig eigi síðan að ná í það.

Við ættum að spyrja okkur spurninga eins og;

Hvað er það sem ég tel að gæti aukið við lífsgæði mín í framtíðinni? læra meira? skipta um starfsvettvang? íverustað? kynnast nýju fólki? taka upp ný áhugamál? fara að framkvæma drauma sem ég var búin að setja til hliðar? 

Allar þessar spurningar hafa a.m.k vaknað hjá mér að undanförnu og trúið mér, þegar ég fer af stað þá verða yfirleitt breytingar því að ég er vön að sækja drauma mína og taka skrefin í áttina að þeim. Ég trúi því staðfastlega að skrefin sem við tökum í átt að draumum okkar verði okkur til lækningar á leiðinni og flýti fyrir því að við náum upp gleðiorkunni og fyrri framkvæmdastyrk. 

En eins og ég sagði áðan þá á ég yndislegan stuðningshóp sem stendur þétt að baki mér, leyfir mér að tala, leyfir mér að vera í öllum tilfinningum mínum hvort sem það er reiðin, biturðin, gráturinn, hláturinn, ég fæ bara að vera ég í kringum þennan hóp, svo förum við út að borða eða út á lífið aðeins og opnum kannski eina rauðvínsflösku og hlæjum saman - þannig býr þessi hópur til gleðistundirnar fyrir mig og ég fyrir þau. Einn vinur hefur þó staðið uppúr á þessum tíma hvað framkvæmdir og aðstoð við að koma skelinni minni í lag og ég verð að fá að segja pent takk Arnar minn fyrir alla hjálpina, hún verður ekki metin til fjár!

En hvers vegna er ég að opinbera mig, líf mitt og mínar tifinningar hér? er það ekki alveg út í hött að manneskja sem er að aðstoða aðra við að ná lífi sínu á betri staði geri það? Þarf sá aðili ekki að vera með allt á hreinu og hafa líf sitt í fullkomnu standi og jafnvægi? 

Svar mitt við þessu er afskaplega einfalt.

Ég trúi því að við fáum öll okkar verkefni til úrlausnar og gerum okkar mistök sama hvaða stétt eða stöðu við tilheyrum, og það er í fínu lagi að dvelja í varnarleysi sínu eða berskjöldun og opinbera það ef það gæti orðið til aðstoðar einhverjum samferðamanni mínum.

Það er allt of sjaldan talað um hvernig það er að fara í gegnum svona ferli og hvaða tolla það tekur, og fáir sem sýna því samúð og tillit. Einmitt þess vegna er svo gott að segja þeim sem eru á þessum stað með tilfinningar sínar lokaðar inni að þau eru alls ekki ein.

Eins tel ég að þessi reynsla geri mig hæfari til að skilja og aðstoða þá sem standa í þessum sporum því að það jafnast fátt á við að tala við aðila sem hefur gengið í þínum sporum.

Og ég lofa að segja ekki að alltaf megi fá annað skip og annað föruneyti, gæti reyndar trúað að ég segði við þau að einnig þetta muni líða hjá, og eins að við verðum bara að lifa hvern dag þar til við lifnum á ný.

Og það munum við öll gera sem göngum í gegnum sorgarferli af einhverju tagi, við munum lifna og við munum dafna að nýju og við sem fórum í gegnum sambandsslit munum að öllum líkindum bara koma vitrari til leiks næst og munum því setja fókusinn á að finna aðila sem hentar lífi okkar, gildum og persónuleika.  

En munum bara elskurnar að þeir sem eru að fara í gegnum sambandsslit og sambúðarslit (skilnaði) eru að ganga í gegnum sorg rétt eins og þeir sem ganga í gegnum breytingar á öðrum sviðum lífsins eins og við dauðsföll, atvinnumissi,eftirlaunaaldur, þegar börnin fara að heiman og fleira og fleira sem við skiljum stundum ekki hversu erfitt getur verið fyrir viðkomandi að ganga í gegnum.

Þannig að verum svolítið dugleg að sinna og gleðja þessa einstaklinga sem standa á kaflaskiptum í lífinu og aðstoðum þá við að finna aftur líf og von um græna haga í brjósti sínu.

Og eins og ég sagði hér fyrr og oft áður, þá elska ég að aðstoða þig við lífsins verkefnin og er aðeins einni tímapöntun í burtu frá þér.

xoxo

Ykkar Linda

 

Linda Baldvinsdóttir

Samskiptaráðgjafi/markþjálfi

linda@manngildi.is


Látum hjartað ráða för

Ég var viðstödd einstaka stund um daginn þar sem ég sá tilvonandi barnabarn mitt sem er líklega ekki stærra en 2 cm hreyfa sig fyrir mig, tek það þó fram að líklega voru þetta taugaendar í sköpun sem urðu til þess að ég sá þetta kríli hreyfast en það sem mér fannst þó merkilegast var að ég sá hjarta þess taka óteljandi slög (minnir að þau hafi verið um 150 slög á mínútu) og ég fór að hugsa um hversu stórkostleg sköpun við erum og hve veigamiklu hlutverki hjarta okkar gegnir alla okkar ævi. Talið er að hjartað geti á einni mannsævi slegið um þremur milljörðum sinnum, þvílíkt stórkostleg afköst! 

Hjartað er einnig fyrsta líffærið sem verður til í þessu ferli sem fóstrið fer í gegnum áður en það kemur í heiminn okkar og er það merki sem við horfum á sem örugga sönnun um það að líf hafi orðið til og sé væntanlegt til okkar.

Vísindamenn dagsins í dag virðast vera að komast að því að því sem finna má í flestum sögnum og heimspekiritum eða það að hjartað geymi visku og tilfinningar ásamt leiðbeiningum fyrir líf okkar og í mörgum trúarritum er talað um visku hjartans, illsku hjartans, hugrenningar hjartans og fleira í þeim dúr.

Í grein á Vísindavefnum má lesa eftirfarandi um tilurð og tilgang hjartans: "Það er gömul trú að í hjartanu búi hugsun og tilfinningar. Forn-Egyptar lýstu meðal annars hlutverki hjartans á eftirfarandi hátt: „Öll list er hjartanu að þakka“ og „Hvað hendurnar gera, hvert fæturnir fara og hvernig allir hlutar líkamans hreyfa sig – gerist fyrir tilhlutan hjartans.“ Í þeirra augum var hjartað bústaður skynsemi, vilja samvisku og tilfinninga. Guð sköpunarinnar, Ptah, skipulagði alheiminn fyrst í hjarta sínu áður en hann gerði hann að veruleika.(tilvitnun lýkur)

Við könnumst flest við þau GPS tæki sem notuð eru í bílum í dag. Þar er þér sagt að fara ákveðnar leiðir og taka beygjur hér og þar, beygjur sem við förum stundum framhjá og stundum viljum við einfaldlega fara aðra leið en tækið segir.

Þegar við hunsum leiðbeiningar tækisins heyrist sagt vonsviknum rómi "recalculating" eða "endurreikna" og mér hefur fundist eins og tækið verði alltaf meira og meira pirrað á mér eftir því sem ég hunsa skipanir þess oftar, en það gæti verið ímyndun mín og samviska sem þar talar.

Samt þegar ég hugsa um það, þá hefur þessi rödd hjarta míns talað við mig alla mína ævi og aldrei hærra en þegar ég fer gegn því sem ég er að eðlisfari eða þegar ég ætti kannski að fara aðrar leiðir í lífinu en mér hugnast að fara. Það er þessi litla rödd hjartans sem gefur okkur merki með ýmsum hætti. Lítil rauð flögg, ónot í maga, draumar, orð annarra og fleira sem við stundum hunsum en þurfum þó að taka afleiðingunum af ef við veljum að hunsa þessar viðvaranir.

Ef við værum að hlusta betur og fara eftir því sem við heyrum þegar þetta innra GPS tæki okkar reynir að ná sambandi við okkur og bankar á hjarta okkar þá hugsa ég að líf okkar flestra væri öðruvísi en það er og gæti jafnvel trúað að það færi nokkuð nærri sæluríki himinsins því að himnaríkið býr jú víst innra með okkur segir meistarinn sjálfur.

Svo hvernig væri að við færum bara að leggja við hlustir (hér tala ég ekki síst til mín) og fara eftir því þegar röddin segir okkur hvaða beygjur við ættum að taka eða á hvaða vegum við ættum að vera á í stað þess að taka sífellt afleiðingum þess að hlusta ekki og þurfa að "endurreikna" stefnuna.

Eigið góðar stundir á beinu brautinni elskurnar, og ef þið þurfið mína aðstoð þá er ég bara einni tímapöntun í burtu :) 

Þar til næst,

xoxo 

Ykkar Linda

Linda Baldvinsdóttir

Samskiptaráðgjafi/markþjálfi

linda@manngildi.is

 

 

 


Hvenær er skilnaður skilnaður og hvenær ekki?

Las þessa líka flottu grein á Huffington post um ágæti þess að draga skírar línur þegar kemur að því að skilja við maka sinn og muna þá eftir því að skilnaðurinn er til kominn vegna þess að þið gátuð ekki verið saman en ætlið ykkur að byggja líf með öðrum aðilum og live there happily ever after ekki satt?

Hún Tiffany Beverlin sem grein þessa skrifaði er starfandi ráðgjafi í Bandaríkjunum og hefur víða komið fram í sjónvarpi þar í landi. Þar gefur hún áhorfendum uppskrift að skírum línum og gefur ráð varðandi umgengni við fyrri maka og hvernig þeim ætti að vera háttað eftir skilnað. Hún þykir ákveðin og hörð en ég verð þó að vera sammála henni í flestum aðalatriðum áðurnefndar greinar sem ég las.

Ég ætla að draga fram aðalatriði þessarar greinar hér en læt fylgja með link á greinina í heild sinni hér fyrir neðan.

Það sem hún Tiffany segir er að það þurfi að setja afar sterk mörk á milli aðilanna sem skilja þar sem það séu oft léleg mörk sem valda skilnaðinum (eins og lygar, framhjáhöld og margt fleira) Skír mörk mörk mörk!

Við viljum mörg að okkar fyrrum makar og okkar nýju makar geti orðið rosalega góðir vinir og að við gætum öll hist saman á Sunnudögum í grill með börnunum okkar (þar sem ung börn eru) En við erum fæst bara innréttuð á þann hátt. Flest erum við þannig að við viljum eignast lífið að sem mestu leiti með okkar núverandi maka án þess að fyrrum kærastar og kærustur (makar) séu þar að þvælast fyrir. Það þýðir þó ekki að það sé ekki hægt að bera virðingu fyrir fyrri mökum og umgangast þá við tilhlýðileg tilefni með virðingu og vinsemd sem ætti auðvitað alltaf að vera markmiðið þó ekki sé nema vegna barna ef þau eru til staðar.

Það sem hún Tiffany ráðleggur skilnaðaraðilum að gera til að hægt sé að koma til móts við þetta er að það séu sett afar sterk mörk strax eftir skilnað um umgengni og standa síðan við þau mörk og leyfa ekki að stigið sé yfir þá línu sem strikuð er í sandinn sama hvað. 

Kannski er þetta svolítið hörð nálgun að einhverra mati en eins og Tiffany segir þá verður að muna að þessir aðilar kusu að skilja og það hefur örugglega kostað skildinginn, ásamt því að skrifað var undir pappíra sem sögðu að aðilarnir væru skildir að skiptum og vildu þar með ekki vera partur af lífi hvors annars.

En stundum er það þannig að aðilarnir vilja halda í það sem var gott að hafa í hjónabandinu og halda fast í það, og umgengnin verður nánast eins og hún var fyrir skilnaðinn sem er ekki gott mál þegar búa á til nýtt líf og finna hamingju á nýjum stað.

Oft eru það peningar sem haldið er áfram að sækja í, en það býður uppá að samskiptin verða nánari en þau ættu að vera hjá fólki sem er skilið og eins býður það oft uppá stjórnun og kúgun frá fyrri maka. Það er ástæða fyrir því að barnameðlög eru ákveðin með lögum og eins segja lögin skírt hvaða skyldum foreldrar sem ekki búa með börnum sínum gegna í sambandi við fjárútlát. Það er allra hagur að halda sig sem mest við lagarammann og því fyrr sem aðilarnir verða fjárhagslega sjálfstæðir því betra.

Kynlíf segir Tiffany að sé algjörlega bannað eftir skilnað og telur hún að það sé notað sem kúgunaraðferð og geri það erfiðara fyrir aðilana að halda áfram lífinu og rækta sér nýtt land. Mörk innihalda virðingu og það að þið eruð skilin þýðir að þið hafið ekki rétt á hvort öðru á þennan hátt. 

Að mynda rými eða gefa space. Þetta er stórt og mikið mál á milli þeirra sem eru nýskildir og sérstaklega þegar annar aðilinn býr enn á gamla staðnum. En þó að búið sé á gamla staðnum gefur það hinum aðilanum engan rétt til að droppa við eða koma án fyrirvara eða fara inn án þess að vera boðið þangað sérstaklega. Það er partur af heilbrigðum skilnaði að það sé það gott rými á milli aðilanna að þeim líði eins og þeir séu einstaklingar á ný. Og það er í raun að sögn Tiffany afar sérstakt að fyrrum makinn hafi yfir höfuð áhuga á því að fara á gamla staðinn eftir skilnaðinn. Það sýnir að aðilinn hefur afar léleg mörk og ber ekki virðingu fyrir persónulegu rými einstaklingsins (fyrri maka). Þetta er reyndar afar algengt hjá þeim sem ekki er tilbúinn til að skilja og getur ekki sleppt tökunum eða er reiður, bitur og finnst hann ekki hafa stjórn á þessum atburði og reynir því að stjórna inni í aðstæðunum eins og hægt er. 

Ganga þarf frá öllum eigum sem fyrst og skilnaðarsáttmálinn gerir ágætis grein fyrir því hver á hvað. Þegar þessi sáttmáli er frágenginn er það klárt að hvorugur aðilinn á rétt á neinu frá hvort öðru, þú þarft bara að kaupa þér nýja kaffikönnu og þvottavél ef þú þarft hana.

En hvað með samskiptin?

Jú það þarf að virða allar persónulegar upplýsingar aðilanna og það er afar óheilbrigt að fara í gegnum gögn á netinu eða skoða e-mailin eða yfir höfuð að brjótast inn í aðgang þeirra á netinu eða fylgjast með þeim með einhverjum hætti. Þinn fyrrverandi maki er ekki lengur þinn og þú hefur ekki leyfi til að fylgjast með þeim og þú hefur heldur ekki leyfi til þess að fá hjálp við allt og ekkert.

Ef bíllinn bilar þá ferðu með hann á verkstæði eða ef buxurnar rifna þá ferðu með þær á saumastofu. Þinn fyrrverandi er að reyna að byggja upp nýtt líf og þarf ekkert á símtali að halda frá þér til að kippa þeim á gamla staðinn sinn(inn í hjónabandsmynstrið)

Þínir fyrrverandi makar geta skapað uppþot í þínu nýja lífi og ég tala nú ekki um í nýjum samböndum sem þú ert að rembast við að mynda og gera það stundum ómögulegt að hægt sé að styrkja þau og að gera þau góð. Það er mjög nauðsynlegt að setja sterk mörk á persónulegt rými og samskipti strax svo hægt sé að fara að byggja upp nýtt og gott líf eins og áður hefur verið lögð áhersla á.

Fyrrum maki á að gefa frið inn í uppbyggingu nýja lífinu án aðkomu og stjórnunar með nokkrum hætti. Að setja fyrrum maka föst mörk hvað þetta varðar með kurteisum hætti er nauðsynlegt og svo þarf að standa á þeim mörkum ef á þarf að halda. Ef engar fallegar aðferðir duga þá þarf einfaldlega að hætta öllum samskiptum við fyrrum makann þar til að þeir skilja þessi mörk.

Eftir því sem samskiptin við fyrrum maka eru á nánari nótum og viðhaldast lengur, lengist einungis í bataferli skilnaðarins og eins og áður sagði gerir það nánast ómögulegt fyrir ný sambönd aðilanna að dafna og vaxa.

Allir skilnaðir hafa það að markmiði að aðilarnir vilji finna hamingjuna í framtíðinni á öðrum stað án síns fyrrverandi og því þarf að huga að þessum atriðum sem nefnd hafa verið. Báðir aðilar þurfa að muna að skilnaðurinn er endanlegur hjá aðilum sem náðu ekki að finna og viðhalda hamingjunni hjá hvort öðru og því borgar sig að draga  ákveðna línu í sandinn og halda lífinu áfram í sitt hvoru lagi.

Ég geri mér grein fyrir því að það eru til undantekningar á þessu eins og öllu öðru en ef ekki er samkomulag um umgengni við fyrri maka í nýju sambandi ætti það alltaf að vera nýi makinn sem jú verið er að mynda samband með sem ætti að vera í fyrirrúmi og tillit tekið til hans óska um umgengni við fyrrum makann (samband við börn og vegna barna falla ekki undir þetta ákvæði) svo framarlega sem þær óskir eru innan skynsemismarka og án óvildar í garð fyrrum maka án góðra ástæðna.

Svo enn og aftur er ég að skrifa um mörk í samskiptum og ekki vanþörf á. Línur dagsins í dag hvað þessi málefni varðar eru afar óskýrar fyrir mörgum og allir vilja jú að öll dýrin í skóginum geti verið vinir en það gengur ekki alltaf upp og sérstaklega ekki þegar nýjum aðila líður eins og það séu of margir að stjórna í sambandinu. 

Og eins og alltaf er ég bara einni tímapöntun í burtu ef þú þarft á finna hvaða línur þú vilt setja inn í þitt líf og hvar vantar mörk í þín samskipti.

xoxo

Ykkar Linda 

 

https://www.huffingtonpost.com/entry/setting-boundaries-for-exes-after-divorce_us_58e0664de4b0ca889ba1a6c1


Lækning fyrir líf okkar?

Ég hef verið að hlusta á mann nokkurn að nafni Joe Dispensa

 sem er vísindamaður, kennari, fyrirlesari og rithöfundur og er einn af meðframleiðendum myndarinnar What the BLEEP do we know.  

Dispensa hefur skrifað margar metsölubækur um áhugaverðar leiðir til sjálfshjálpar og þekkingar á starfsemi heila okkar og langar mig að fjalla um nokkrar af þeim upplýsingum sem er að finna í verkum hans.

Það sem mér þótti tildæmis afar áhugavert var að heyra hvað þeir sem næðu bata frá erfiðum sjúkdómum ættu margir sameiginlegt en að hans sögn eru það aðallega fjórir þættir sem virðast vera þar að verki, en þeir eru:

Í fyrsta lagi trúa þeir því að það búi máttur innra með þeim sem vinni með þeim. Að vísu segir Dispenza að það búi innra með okkur öllum æðra kerfi sem stjórnist að öllu leiti án okkar aðkomu og það kerfi haldi okkur á lífi dag hvern. Þetta kerfi sér t.d um að hjarta okkar slái 100 þúsund sinnum á dag og slái líklega u.þ.b 3 billjón sinnum yfir eina mannsævi. Eins sér þetta kerfi um að brjóta niður fæðu okkar, vinna sigur á utanaðkomandi bakteríum og fleira og fleira. Þetta kerfi sér einnig um að framleiða 10 milljónir frumna á hverri mínútu í stað þeirra sem deyja á sama tíma. Ekkert af þessu innra starfi verðum við vör við en getum þó illa neitað tilvist þess. En þetta var semsagt það sem þessir einstaklingar áttu flestir sameiginlegt, að trúa á æðri mátt sem sæi um lækninguna.

Í öðru lagi var það augljóst að hugsanir voru mikilvægt tæki í bataferlinu, því það er þannig að hugsanir hafa afar mikil áhrif á tilfinningar okkar og það eru tilfinningar sem fá heilann til að bregðast við með ákveðnu boðefnaflæði sem viðhalda tilfinningunni sem hugsunin kveikir á. Jákvæðar hugsanir framleiða góð boðefni eða svona happy go lucky boðefni á meðan neikvæðar hugsanir framleiða boðefni sem draga úr gleði okkar og gera okkur þung og kvíðin.

Með tímanum samlagast líkamlega líðan okkar (sem verður til úr hugsunum) og verður heildræn, eða verður okkar daglega líðan og heilinn fer að búa til sínar venjubrautir sem verða síðan að okkar ómeðvitaða hugsana og hegðunarmynstri.

Í mínum huga er þetta svipað og nútíma app, við erum að forrita okkur og stundum þurfum við að henda út gömlum öppum og setja inn ný öpp sem þjóna okkur betur (breyta hugsun).

En semsagt þeir sem veikir voru og fengu bata að sögn Dispenza tóku að hugsa með þeim hætti að fyrst þeir töldu sig hafa skapað þetta ástand með hugsununum einum saman þá gætu þeir líklega breytt hugsunum sínum til hins betra og náð heilsunni þannig til baka.

Það þriðja sem þessir sjúklingar áttu sameiginlegt var að þeir uppgötvuðu að þeir þurftu að breyta sjálfum sér og verða þeir einstaklingar sem þeir fundu í hjarta sér að þeir vildu raunverulega vera. 

Ég tel reyndar að við vitum þetta öll en skortir oft kjark og þor til að vera við sjálf og eins hræðumst við stundum tilfinninguna að líða vel.

En til þess að auðvelda sér þessa breytingu sem þessir tilteknu sjúklingar voru að fást við þurftu þeir að spyrja sig spurninga á við,

Hvernig liði mér ef ég væri hamingjusöm manneskja?

Hvern þekki ég sem er hamingjusamur? Hvernig veit ég að hann er hamingjusamur?

Hverju þarf ég að breyta í persónuleika mínum til að ná því að verða hamingjusamur?

Hvern þekki ég sem hefur yfir þeim heilindum og persónueiginleikum að búa sem ég þrái að öðlast og get lært af? 

Við það að innleiða nýjar hugsanir og breyta sjálfum sér á ýmsan hátt fór heilinn að taka breytingum og gerði það auðveldara fyrir sjúklingana að breyta hugarfari sínu og þeir fóru að skoða aðra möguleika og tækifæri á því að verða að þeim manneskjum sem þeim langaði til að vera og gera. Semsagt það varð til ný opnun á tækifærum og lausnum.

Það fjórða sem sjúklingarnir áttu sameiginlegt var að þau vörðu löngum tíma í hugleiðslu þar sem þau einbeittu sér að því að hugsa um orð eins og þakklæti – fegurð – kærleiki og öðrum jákvæðum setningum og þeir beittu hugrænni sýn á bata sinn.

Fyrir mér er þetta uppskrift að lækningu fyrir öll svið lífs okkar og ég held að við höfum öll gott af því að skoða okkur sjálf stundum og skoða hverju við mættum breyta þar.

Erum við að eiga við tilfinningar eins og óöryggi, öfund, pirring, reiði, hatur eða aðrar tilfinningar sem eru að vinna okkur ógagn og gera okkur óhamingjusöm? Kunnum við að taka á móti því góða og umfaðma það eða er það okkur erfitt?

Ef svo er þá skulum við skoða spurningarnar hér að ofan og sjá hverju við þurfum að breyta og hver við viljum vera og bara fara þangað. Og eins og alltaf er ég bara einni tímapöntun í burtu ef þig vantar aðstoð við að finna þetta út.

xoxo 

Ykkar Linda

Linda Baldvinsdóttir

Samskiptaráðgjafi/Markþjálfi

linda@manngildi.is


Að setja mörk fyrir líf sitt

Ég hef lesið hinar ýmsu greinar sem fjalla um mikilvægi þess að setja mörk eða ákveðnar línur í samskiptum til að tryggja virðingu þína og annarra í leiðinni fyrir þér og því hver þú ert. 

Sumum reynist afar auðvelt að setja sjálfum sér og öðrum mörk en svo eru það hinir sem vilja halda friðinn við allt og alla en ganga á sjálfa sig þess í stað og líðan þeirra er oft slæm og þeir búa allt of oft við kvíðaröskun og vanlíðan vegna meðvirkniviðbragða sinna.

Og svona rétt til að minna aðeins á algengar birtingamyndir meðvirkninnar þá eru þær t.d. að það má ekki tala um vandamálin nema þú viljir hætta á það að vera partýpuberinn í fjölskyldunni eða vinahópnum, og þú átt á hættu að fá reiði eða hunsun frá þeim sem staðið getur yfir í mislangan tíma. Eins er ekki smart að tala um tilfinningar sínar, þær á að loka á og ekki sýna né tala opinskátt um. Samskipti eiga að vera óbein og gjarnan að fara fram í gegnum þriðja aðila. Best er að vera óaðfinnanlegur út í frá og hafa alltaf rétt fyrir sér, því að allt annað ber vott um veikleika. Ekki vera heldur of upptekinn af þér, sjálfselska er nefnilega leiðinleg og því hrósum við helst ekki, og við viljum ekki heldur að aðrir tali um kosti sína og afrek. Eins er afar algengt að það eigi að gera eins og ég segi, en alls ekki eins og ég geri, og við ruggum ekki bátnum undir neinum kringumstæðum því að allt þarf að lúkka svo vel út í frá.

En aftur að þeim mörkum sem við setjum fyrir líf okkar og hver eðlileg mörk samskipta eru samkvæmt skilgreiningu Johnson State Collage í Vermount. Samkvæmt þeirra skilgreiningu eru mörk tilfinningalegt og líkamlegt bil á milli þess hvar þú sem persóna endar og annar byrjar og öfugt. Þetta er lína sem við setjum og leyfum engum að fara yfir vegna þeirra neikvæðu áhrifa sem gætu myndast við að stigið sé yfir hana. Við þurfum nefnilega að fá að vera við sjálf.

Mörk eru semsagt óskrifaðar reglur sem þeir sem eru í samskiptum við okkur þurfa að bera virðingu fyrir, og þeir þurfa að gefa okkur það tilfinningalega og líkamlega bil sem við þurfum án þess að verða fyrir pressu um sveigju frá þeim reglum af þeirra hálfu. Tilfinningalegt, munnlegt, líkamlegt og kynferðislegt ofbeldi eru atriði sem eru skilyrðislaus brot á mörkum einstaklinga og ætti alltaf að taka föstum tökum. 

Heilbrigt tilfinningalegt og líkamlegt bil þarf að vera á milli aðila til að forðast að aðilarnir verði of tengd og háð. Heilbrigð tilfinningaleg og líkamleg nánd er þó nauðsynleg til að mynda sterk tengsl í góðum vina og ástarsamböndum en jafnvægi í samskiptum þarf að ríkja á milli aðilanna.

Skýr heilbrigð mörk gefa okkur frelsi til að vera við sjálf án þess að hömlur séu lagðar á okkur varðandi hugsanir okkar, tilfinningar, framkvæmdir og fleira. Heilbrigð mörk eru það sem gefa okkur og öðrum öryggi og vitneskju um hver við erum og eins skylda þau okkur til að hugsa vel um okkur og vernda.

Mörk gefa okkur leyfi til að vera meira af því sem við viljum vera en minna af því sem við viljum ekki vera.

Ef mörkin eiga að virka þá þurfa þau að vera sönn og rétt fyrir okkur fyrst og fremst og við þurfum að standa á þeim.

Það sem við græðum á því að setja mörk er fyrst og fremst að við stuðlum að eigin heilbrigði og þeirra sem í kringum okkur eru. Frelsi frá vondri hegðun annarra, ótta og sársauka.

Eins ber fólk virðingu fyrir þeim sem setja mörk fyrir líf sitt og okkar eigið virði eykst þegar við stöndum með okkur og þeim mörkum sem við setjum.

Þar sem mörk eru hinsvegar ekki virt má gjarnan sjá að allir verða að vera eins, enginn má skera sig úr og allir gera allt á sama hátt. Ekkert rými er fyrir sjálfstæðar hugsanir og tilfinningar og þær gjarnan litnar hornauga.

Þær aðstæður sem algengar eru að setja þurfi sterk mörk við eru þar sem reiðiviðbrögð eru algeng nálgun í stað umræðna, eða þar sem óviðeigandi orð eru notuð og þar sem gagnrýni á okkur sem persónur eða lítillækkun á annan hátt er notuð. þar sem það er talið sjálfsagt að ekki sé sagt nei í hinum ýmsu aðstæðum þarf að læra að segja nei - og standa síðan við það. Eins þarf stundum að setja mörk í sambandi við peningamál eða umönnun af ýmsu tagi og það eiga þeir sem meðvirkir eru oft afar erfitt með.  

Og ef við erum ekki alveg með þetta allt á hreinu og þurfum að læra að setja okkur sjálfum eða öðrum mörk þá skulum við lofa okkur því að standa við þau mörk sem við lærum að setja hversu erfitt það þó stundum reynist, en munum þegar freistingin til að slaka á þeim er mikil að þessi mörk voru sett til að vernda okkur með einhverjum hætti og aðra stundum í leiðinni. 

Að endingu elskurnar skulum við muna að það sem lítillækkar okkur, lætur okkur líða illa, þar sem við þurfum að læðast og passa okkur á því að halda öðrum en okkur góðum eru ekki góð samskipti, og undir öllum kringumstæðum þurfum við að setja mörk inn í þær aðstæður til að okkur geti liðið vel í eigin skinni.

Og ef þið þurfið aðstoð við að setja mörk inn í aðstæður lífs ykkar þá er ég eins og ætíð aðeins einni tímapöntun í burtu.

Þar til næst elskurnar,

xoxo

Ykkar Linda

linda@manngildi.is

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Linda Baldvinsdóttir

Höfundur

Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • ..._s4i6862_2
  • ...0eaf470d6_2
  • ...98009927331
  • pistill mynd
  • 15608665 10210640975833107 554134899 o

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.8.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 96
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 91
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband