Ég á engin orð!

Ég hef oft velt því fyrir mér á síðasta áratug hvers vegna karlmenn virðast margir hverjir vera haldnir ótrúlega andstyggilegri kvenfyrirlitningu og hatri.

Það er með ólíkindum hvernig menn, giftir jafnt sem ógiftir voga sér að skrifa, tala eða koma fram við konur eins og þær séu kynlífstæki til notkunar og án tilfinninga og siðferðis eða eins og nýjustu dæmin sýna af okkar háttvirta alþingi þessa dagana. Og ég bara spyr, hvernig hægt er að tala svona um konur sem þeir starfa við hliðina á og er þetta siðferðið sem þeir vilja boða þjóðinni? 

En því miður þrátt fyrir hneykslunarraddir samfélagsins núna vegna þingmannanna þá er það þó þannig að ég persónulega get sagt fyrir mig að þetta er ekki nýtt fyrirbæri hvað varðar marga íslenska karlmenn í mínum augum. 

Bara á síðastliðnum mánuðum er ég búin að fá bréf með grófu kynferðisáreiti frá vel virtum karlmanni á höfuðborgarsvæðinu (giftum by the way) annar ógiftur maður gaf mér tilboð um að koma í heimsókn þar sem nýbúið væri að skipta á rúmum (hef aldrei hitt eða spjallað við þann mann í síma) og svo þriðja atvikið þar sem boðið var ítrekað mjög smart uppá örhittinga heima hjá mér! Allt saman virtir og þjóðfélagslega flottir menn sem ég hefði ekki trúað að gætu komið svona fram við bláókunna manneskju.

Og þetta er ekkert nýtt fyrirbrigði, ég og mínar einhleypu vinkonur eru orðnar svo vanar svona áreiti að það er eiginlega orðið subbulegt hvað við erum orðnar dauðar fyrir þessari kvenfyrirlitningu og ljótu framkomu, svo dauðar að við tökum varla eftir henni. 

Að nota orð um konur eins og háttvirtir þingmenn gerðu gagnvart kvenþingmanni er óásættanlegt að öllu leiti sama hvort menn voru undir áhrifum áfengis eða ekki. Ég hef reyndar aldrei séð að það sé hægt að afsaka ljóta framkomu eða hegðun með því að þefa af brennivínstappa en íslendingar eru yfirleitt mjög fljótir að afsaka og fyrirgefa hlutina ef alkahól eða önnur hugbreytandi efni hafa komið við sögu.  

Ég á nokkra erlenda karlmannsvini sem ég spjalla stundum við og velti því fyrir mér hvers vegna þeir sýni mér kurteisi og fallega framkomu á meðan landar mínir virðast vera búnir að gleyma öllu því sem áður prýddi menn, og ég velti því fyrir mér hvort uppeldi þeirra sé að einhverju leiti annað hér en erlendis. 

Ég geri mér auðvitað grein fyrir því að það er töluverð alhæfing um íslenska karlmenn í mínum skrifum núna og ég verð líklega kölluð karlahatari í kjölfarið en auðvitað veit ég að það eru til góðir og kurteisir menn hér heima, ég þekki meira að segja nokkra -en það ber bara meira á þessum ösnum sem voga sér að niðurlægja  og hlutgera konur með þessum hætti alveg eins og hefur verið með vandræðaunglingana okkar í gegnum tíðina, þeir góðu gjalda fyrir þá óþekku og uppreisnagjörnu. 

En ég bara spyr mig hvar fórum við svona herfilega út af sporinu hvað varðar virðingu karlmanna fyrir konum? Hvenær hættu karlmenn að líta á konur sem dýrmætar og virðingaverðar þeir eiga jú allir mömmu sem gaf þeim líf? og hvað er þetta með kvenhatrið sem býr í framkomu karla þegar um andlegt og líkamlegt ofbeldi er að ræða, hvaðan kemur það? Hvenær ætlum við að finna gömlu göturnar aftur þar sem karlmenn umgengust konur með ákveðinni virðingu og vernd? 

Ég veit um ófá dæmi þess að karlmenn brjóta konur sínar niður með framkomu, ljótum eða meiðandi orðum, ástleysi, framhjáhöldum, klámfíkn, nándarleysi, stjórnun, drottnun, barsmíðum og listinn heldur bara áfram, en allt er þetta þó byggt á því sama, eða kvenhatri og kvenfyrirlitningu.

Jæja ég bara varð að fá að blása svolítið núna og bið þá góðu menn sem ekkert eiga af þessu afsökunar á alhæfingum mínum og konunum í lífum þeirra óska ég innilega til hamingju með þá, og jú ég hef kynnst nokkrum mönnum sem falla alls ekki undir þennan hatt minn og eiga vináttu mína og virðingu, en því miður eru þeir allt of margir sem nota orð um konur eins og húrrandi klikkuð kunta, hún er fokking tryllt, getur ekki neitt og kann ekki neitt - við þekkjum það flestar að hafa orðið fyrir einhverjum svipuðum ummælum og kynferðislegum tilburðum og í raun er þetta bara samfélagslega samþykkt framkoma gagnvart konum og það finnst mér skelfilegt þar sem ég á nú unglings ömmustelpur sem nú þegar hafa orðið fyrir barðinu á óskemmtilegum tilburðum eldri karlmanna.

Ætla að enda þennan blástur pistil minn á því að fara fram á það að þeir sem við borgum laun fyrir að vera til fyrirmyndar á okkar háa Alþingi valdi stöðu sinni, og nú ef þeir treysta sér ekki til þess þá vil ég biðja þá vinsamlega að víkja frá öllum opinberum störfum sem krefjast virðingar og fallegrar framkomu við alla menn - og konur.

xoxo

Ykkar Linda

Og ég er eins og venjulega bara einni tímapöntun í burtu frá þér ef þú þarft á aðstoð minni að halda við lífsins verkefni.

Linda Baldvinsdóttir

TRM áfallafræði, LET samskiptafræði, Markþjálfun

linda@manngildi.is

   

 


Er þetta raunveruleg ást ?

Í einhverskonar framhaldi af pistli sem ég skrifaði um daginn langar mig að taka fyrir nokkur atriði úr bókinni The Secret of overcoming emotional abuse eftir PhD.Albert Ellis og Marcia Grad Powers þar sem fjallað er um muninn á heilbrigðum samböndum versus óheilbrigðum samböndum og ætla ég að vitna að hluta til í þá bók í þessum pistli mínum.

Munurinn á heilbrigðu sambandi versus óheilbrigðu sambandi er að sögn höfunda sá að í heilbrigðu sambandi sé reiði og óvinátta fjarverandi en vinátta og samstaða hinsvegar til staðar í ríkum mæli, en í óheilbrigðu sambandi er eilíf valdabarátta og næring fengin út úr ófriði en ekki friði og kærleika. 

Sönn ást felur í sér frelsi og vöxt en ekki eignarhald og einangrun. Hún innifelur í sér frið en ekki ófrið, öryggi í stað ótta.

Sönn ást felur einnig í sér skilning,tryggð,uppörvun og hvatningu,skuldbindingu,nánd og konunglega virðingu, atlot og vináttu í ríkum mæli. 

Þar sem virðinguna vantar þar býr sársauki hjartans og sársauki á ekki að vera viðvarandi þar sem ástin býr.

Í heilbrigðum samböndum er ágreiningur leystur með samræðum og viðurkenningu á því að það sé í lagi að vera ósammála, því að ástin snýst ekki um það hver vinnur og hún sýnir ekki grimmd eða hunsun-hvað þá árásagirni og ofbeldi.

Sönn ást gerir heimilið að kastala en ekki fangelsi.

Það er ekki nóg að segja "ég elska þig" ef hugsanir, orð og framkoma makans eru ekki ástrík og gjörðir sýna þér ekki að maki þinn elski þig.

Það þarf einnig að vera hægt að ræða þau málefni sem valda þér áhyggjum eða snerta samband þitt og líðan þína án þess að reynt sé að þagga það niður með hunsun eða árásum.

Þú getur spurt þig hversu auðvelt það sé fyrir þig að senda falleg orð í skilaboðum eða á korti til maka þíns því þetta litla próf getur sagt þér meira en margt annað um stað sambandsins þíns á hverjum tíma. Og eins getur það sagt þér helling hversu duglegur maki þinn er að senda þér falleg skilaboð og að vera í sambandi við þig þegar hann er í vinnunni þar sem það virðist vera mælikvarði á hamingju para samkvæmt einhverju sem ég las um daginn á netinu.

Er auðvelt og ánægjulegt fyrir þig að skrifa eitthvað fallegt til maka þíns eða finnur þú fátt fallegt til að segja? hmmmm - það er ekki góðs viti ef það er ekki hægt og þá ættir þú að skoða hjarta þitt og hlusta vel á hvað það hefur að segja þér varðandi sambandið í heild sinni. 

Fallegt og gefandi samband er eitthvað sem við þráum flest og fátt er yndislegra en einmitt það sem tengist böndum kærleikans með einum eða öðrum hætti, en fátt er einnig jafn niðurbrjótandi og samband þar sem kærleikurinn er víðs fjarri en deilur og sársauki viðvarandi þess í stað.

Í þessari sömu bók og ég vitnaði í áðan eru nokkrar spurningar sem hægt er að nota til að ákvarða af hvaða toga samband þitt og maka þíns er og ég hvet þig til að svara þeim af einlægni hjarta þíns.

Er velferð þín andleg og líkamleg í forgangi hjá maka þínum?

Samþykkir hann þig eins og þú ert og líkar honum við þig og virðir?

Samþykkir þú hann eins og hann er og líkar þér við hann og virðir eins og hann er?

Samþykkir þú sjálfan þig og líkar þér vel við þig og sýnir þér virðingu þegar þú ert með maka þínum?

Dregur maki þinn fram þínar bestu hliðar eða þær verstu?

Sýnir maki þinn þér tilfinningalegan stuðning og hvatningu?

Finnst þér þú fá að vera einstaklingur með þínar eigin skoðanir, viðhorf og ákvarðanatöku í sambandinu?

Er maki þinn stoltur af því sem þú áorkar og stendur fyrir?

Finnst þér þú fá skilning, viðurkenningu, öryggi og frið í sambandinu?

Er maki þinn vinur þinn? Alltaf?

Undirstrikar maki þinn þá staðreynd að líf þitt sé hrífandi og gott?

Finnurðu fyrir hamingju þegar þú ert með maka þínum?

Allar þessar spurningar eru góðar og gefa okkur smá innsýn í stöðu okkar, og ef þú finnur til í hjarta þínu eða ef tárin trilla niður kinnar þínar við lesninguna þá er kannski kominn tími til að opna augun og kannski gera eitthvað í málunum í framhaldinu.

Ætla að enda þennan upplýsingapistil minn á orðum sem ég sá einhverstaðar á netinu um daginn og hljómuðu eitthvað á þennan veg;

Ef það lítur ekki út eins og ást - og ef það smakkast ekki eins og ást - og ef þér líður ekki eins og það sé ást - þá er það einfaldlega eitthvað allt annað en ást.

Og eins og alltaf, ef þig vantar aðstoð mína, þá er ég bara einni tímapöntun í burtu :)

Þar til næst elskurnar,

xoxo

Ykkar Linda

Linda Baldvinsdóttir

TRM áfallafræði, LET samskiptaráðgjöf,Markþjálfun.

linda@manngildi.is

panta tíma hér:

 

Er líf eftir dauðann

Rakst á gömul skrif sem ég hef skrifað fyrir einhverjum árum og mér finnst vert að birta þau að nýju- að vísu í aðeins breyttri mynd og vonandi þá betri vegna þess að ég held að við þurfum stöðuglega að minna okkur á mikilvægi þessa stutta lífs sem við fáum hér á okkar dásamlegu móður jörð.


En nú þykjast vísindamenn vera búnir að finna sannanir fyrir því að það sé til líf eftir dauðann (jafnvel mörg), og hafa stundað rannsóknir á því fyrirbæri í 4 ár á tæplega 1000 manns sem þeir hreinlega tóku af lífi og lífguðu svo við eftir 20 mínútur eða svo (allt þó gert með samþykki þeirra sem aflífaðir voru)


Þetta er nú allt saman gott og blessað og alltaf gaman að lesa svona fréttir fyrir forvitnis sakir - og hver veit kannski hafa þeir bara rétt fyrir sér.

(Ég reyndar þykist þess  fullviss að ég verði spilandi á hörpu mína í himnaríki að þessari jarðvist lokinni blakandi englavængjum mínum í takt við tónana sem frá hörpunni berast)

En þegar ég las þessa frétt varð mér á að hugsa, skiptir það okkur öllu máli hvort það er líf eftir þetta líf? Og hvers vegna? Hvað með það líf sem við erum að lifa núna? skiptir ekki mestu máli að lifa því lífi á skemmtilegan og góðan hátt?


Ég hitti allt of mikið af fólki sem neitar sér um að lifa þessu á þann hátt sem því langar til og er sífellt að bíða eftir rétta tækifærinu á því að láta sér líða vel. Þetta yndislega fólk frestar því að framkvæma langanir sínar og drauma. og því miður er það algengast af öllu að það ætlar sér að framkvæma drauma sína og þrár þegar eftirlaunaaldrinum er náð, og öruggu lífeyrissjóðstekjurnar komnar í hús.


En því miður eru bara allt of margir sem einfaldlega ná ekki þessu eftirsóknaverða takmarki og eru farnir yfir í þetta nýja líf sem vísindamennirnir hafa jú sannað að sé til, eða það sem ekki óalgengt er að þeir hafa misst heilsuna og geta ekki framkvæmt allt þetta skemmtilega sem lífeyririnn átti að skaffa þeim.


Samkvæmt könnun sem var gerð af Bronnie Ware sem var hjúkrunarfræðingur á líknardeild nokkurri þá voru það helst þessi atriði hér fyrir neðan sem fólk sá mest eftir að hafa ekki gert meira af í lífinu.

 
1. Að hafa haft hugrekki til að vera sannara sér sjálfu – ekki að lifa lífinu sem aðrir         bjuggust við.
2. Að hafa unnið svona mikið.
3. Að hafa ekki haft hugrekki til að tjá tilfinningar sínar.
4. Að hafa ekki haldið sambandi við vini
5. Að hafa ekki leyft sér að vera hamingjusamari.


Og eftir þessi 5 atriði spyr ég aftur - hvað með lífið og núið? þetta líf sem okkur var af mikilli gæsku gefið?

Ætlum við að vera í þeim hópi sem sér eftir því að hafa ekki látið þessi atriði á listanum rætast á meðan við höfðum tækifærið til þess?

Við sem fengum svo frábærar vöggugjafir með okkur inn í þetta líf og sífellt bætist við þær með kunnáttu okkar, getu, þekkingu og færni. Ætlum við að bíða eftir næsta lífi eða kannski því þarnæsta áður en við tökum okkur til og skoðum drauma okkar langanir og þrár, og að láta þetta nú bara síðan verða að veruleika kannski einhverntíman seinna?

Við höfum verkfærin og við höfum daginn í dag - ekki eins víst með morgundaginn. Svo því ekki að taka skrefin í átt að því sem okkur hefur alltaf langað til að framkvæma?

Eftir hverju er að bíða?


Því ekki að efla nú kjark og þor ásamt því að stíga eitt pínulítið skref inn í óttann og sjá hvað þar gerist. -það er bara ekkert víst að þetta klikki hjá okkur.

Og ef þig vantar mína aðstoð við að stíga skrefin þín þá er ég eins og alltaf aðeins einni tímapöntun í burtu.

xoxo

Ykkar Linda

 

Linda Baldvinsdóttir

Samskiptaráðgjafi/Markþjálfi

linda@manngildi.is


Um bloggið

Linda Baldvinsdóttir

Höfundur

Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Nóv. 2018
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30  

Nýjustu myndir

  • ..._s4i6862_2
  • ...0eaf470d6_2
  • ...98009927331
  • pistill mynd
  • 15608665 10210640975833107 554134899 o

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 20
  • Sl. sólarhring: 23
  • Sl. viku: 24
  • Frá upphafi: 9241

Annað

  • Innlit í dag: 20
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 20
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband