Færsluflokkur: Bloggar
10.5.2017 | 15:28
Þær sorgir sem sjaldan er talað um.
Það er margt í lífinu sem getur valdið okkur sorg, en í raun skilyrðum við sorgina nánast einungis við það að missa í dauða þann sem við elskum og tengjumst fjölskylduböndum.
En sorgin býr víða og margt er mannanna bölið og langar mig að minnast á örfá atriði sem við hugsum kannski ekki oft um.
En-
Að standa frammi fyrir því að missa góðan vin er oft á tíðum mjög erfitt og í raun er eins og hluti af þér sé farinn með honum líkt og þegar náinn ættingi deyr. Allar minningarnar og lífsupplifanirnar sem þið deilduð saman fara með viðkomandi, og kannski enginn sem er lengur til að vitna þær minningar með þér. En það eru fáir sem sýna þér stuðning við fráfall vina þinna og þú glímir yfirleitt við þína sorg í einrúmi.
Þegar fíknatengdir sjúkdómar koma upp í fjölskyldum þá breytist lífið hjá öllum sem tengjast þeim aðilum sem í fíkninni eru og erfitt sorgarferli fer í gang. Sorgarferli sem kannski fáir taka eftir eða tala um (oft á tíðum einnig falið af ættingjum) Brostnar vonir og væntingar fylla sálina á sama tíma og reynt er að breyta ástandinu til betri vegar oft án árangurs.
Þegar heilabilun eða persónuleikabreyting verður á ástvini vegna sjúkdóms og lyfjagjafa og þeir sem við elskum hverfa inn í heim sem er okkur ekki kunnur veldur það mikilli sorg og kannski ákveðinni höfnunartilfinningu. Að eiga ástvin á lífi sem þó er horfinn í heim þar sem ekki er pláss fyrir okkur er erfiðari en margan grunar og sorgarferlið oft mjög langt.
Skilnaðir og sambandsslit eru vanmetin þegar við tölum um sorgir lífsins en í þeim tilfellum eru ýmist annar eða báðir aðilar að syrgja lífið sem þeir ætluðu sér að eiga og þar sem löng sambúð eða skilnaður á sér stað tekur lífið breytingum á svipaðan hátt og þegar um dauðsfall maka er að ræða. Fáir eru þó til að styðja við viðkomandi nema fyrstu skrefin og algengt að sagt sé við þann sem syrgir að alltaf megi finna annað skip og annað föruneyti og að ekki taki því að syrgja þar sem þetta hafi nú bara verið fyrir bestu. En sá sem syrgir er ekki að sjá skilnaðinn frá þessu sjónarhorni og dregur sig því of inn í skel sína og er þar einn með sorg sína.
Að geta ekki eignast barn er mjög erfitt að horfast í augu við fyrir all flesta og ekki er er síður erfitt að standa frammi fyrir fósturmissum. Hvorutveggja mjög vanmetið oft á tíðum sem sorgarferli og gleymist oft að hugsa út í þá kvöl sem þeir einstaklingar sem þetta upplifa ganga í gegnum.
Að lokum langar mig að minnast á sorgarferli sem við tölum heldur ekki mikið um, en það eru tímamótin sem verða stundum hjá okkur í lífinu. Tímamót sem verða gjarnan þegar gömul og dýrmæt hlutverk sem við höfum gegnt í lífinu eru ekki lengur til staðar. Hlutverk sem okkur þóttu svo sjálfgefin eins og vinnan okkar eða barnauppeldið. Breytingar af þessu tagi geta valdið mikilli sorg og í einhverjum tilfellum tilfinningu um tilgangsleysi lífsins og það sem einu sinni var er syrgt og kvíðatilfinning tengist framtíðinni.
En hvers vegna er ég að telja þetta allt saman upp hér?
Jú vegna þess að mig langar til að við séum öll meðvituð um að þeir sem standa í þessum sporum eins og svo mörgum öðrum stöðum sem ég hef ekki pláss til að minnast á í þessum litla pistli mínum þurfa á styrk okkar og stuðningi að halda.
Eins vona ég að þetta pár mitt verði til þess við gefum okkur meira að náunga okkar og látum okkur umhugað um það sem hann er að ganga í gegnum hverju sinni. Gefum okkur tíma í erli dagsins til að gefa klapp á öxl, smá spjall, bjóða í mat eða kaffi, ísrúnt og fl. Slíkt getur gefið svo miklu meira til þess sem syrgir en okkur gæti nokkru sinni grunað.
Gamla góða gullna reglan "komdu fram við náunga þinn eins og þú vilt að hann komi fram við þig" á hér sem annarsstaðar ágætlega við.
Þar til næst elskurnar
xoxo
Ykkar Linda
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.4.2017 | 09:14
Kynlífspóstar
Ég velti því stundum fyrir mér hvað hafi orðið um virðinguna og siðferði okkar þegar ég skoða algeng netsamskipti kynjanna í dag.
Þegar við gátum farið að fela okkur svona vel á bakvið tölvuskjái hefur ýmislegt farið úrskeiðis þar að mínu mati.
Ég hef t.d. sjálf oft orðið fyrir því að giftir menn vilji endilega spjalla við mig í netheimum en eru þó fljótir að láta sig hverfa þegar ég spyr hvort að konan þeirra fái ekki að sjá og fylgjast með því sem okkur fer þarna á milli. Ég hef einnig fengið oftar en mig langar að til að muna eftir tilboð um að verða kynlífsleikfang hjá mönnum sem þekkja mig ákkúrat ekki nokkurn skapaðan hlut. Og því miður er það ekki bara ég sem lendi í þessu, við vinkonurnar verðum allar fyrir þessu, giftar jafnt sem ógiftar.
Er þetta smart krakkar?
Hvað í ósköpunum er það sem fær gifta menn til að halda að þeir geti sent ókunnri konu beiðni um spjall á kynlífsnótum? Gera þeir sér enga grein fyrir þeirri óvirðingu sem felst í þessari beiðni bæði við þá konu sem haft er samband við og þá konu sem þeir eru giftir?
Og hvað fær menn til að bjóða uppá kynlíf í pósti án þess að þekkja eða vita nokkurn hlut um aðstæður eða siðferðismörk aðilans sem hann sendir póstana á? (Veit að þetta á við um bæði kynin svosem allt saman þó að ég tali útfrá sjónarhorni kvenna hér)
Eru þetta "markaðslögmálin" sem gilda í dag? Giftir menn og konur sem þurfa spennulosun og ógiftir menn sem þurfa varla að vita hvaða nafn kynlífsleikfangið ber?
Hvað sem þetta flokkast undir þá er víst að þarna vantar virðingu og bara gömlu góðu almennu kurteisina.
Þegar ég hef fengið þessi líka fínu tilboð bendi ég vinsamlega á að kynlífsleikföng eru seld í Adam og Evu (ókeypis auglýsing í mínu boði) en að ég væri a.m.k ekki leikfang fyrir ókunnuga eða gifta menn úti í bæ.
En hvers vegna er þetta svona í dag? Eða hefur þetta kannski alltaf verið svona hjá ákveðnum hópum? Fer bara meira fyrir þessu í dag vegna netheimanna og veraldanna sem dvalið er í þar?
Ég veit svo sem ekkert hvers vegna þetta er svona, held þó að klám og kynlífsvæðing undanfarinna áratuga eigi þarna hlut að máli. Held einnig að það sé allt of auðvelt að fela sig og láta eftir sér ýmislegt á netinu þar sem lögmál raunveruleikans gilda ekki.
Allt er þetta þó hluti af væðingu þar sem tilfinningar koma hvergi við sögu og kynin eru hlutgerð (sérstaklega konur). Við vitum flest að hlutir eru til að nota en manneskjur ekki, þannig að þessi hlutgerving veldur því að við sjáum líklega þá sem eru á netinu ekki sem manneskjur af holdi og blóði né með sál og tilfinningar og því þarf ekki að sýna þeim kurteisi né pæla í siðferði gagnvart þeim.
En hvað veit ég svo sem, þetta eru bara mínar pælingar varðandi þetta en ekki stóri sannleikurinn um málið.
Ég held samt að ég hafi rétt fyrir mér með það að við þurfum að skoða betur hvers vegna þetta virðingaleysi er. Kannski þurfum við að kenna börnunum okkar betur strax frá fyrsta degi að bera virðingu fyrir sjálfum sér og hvert öðru í framkomu og orðum á netinu jafnt sem annarstaðar.
Þurfum kannski að gera þeim og okkur sjálfum betri grein fyrir því að manneskjur eru ekki hlutir til notkunar heldur sálir sem þarfnast fagurrar framkomu og kærleika sama hvort sem er á netinu eða annarstaðar.
En núna skal siðapostulinn hætta þessu tuði í bili en bið okkur þó um að skoða betur hvort að svona framkoma hæfi okkur hverju og einu, og bið okkur bara öll um að koma fram við hvert annað af virðingu og kurteisi hvort sem við erum stödd í raunheimum eða netheimum - munum að aðgát skal alltaf hafa í nærveru sálar.
Gleðilegt sumar elskurnar og takk fyrir veturinn <3
xoxo
Ykkar Linda
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.3.2017 | 19:50
Ræktar þú garðinn þinn?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.2.2017 | 12:53
Svarti sauðurinn
Ég velti því stundum fyrir mér afhverju næstum hver einasta fjölskylda á sér svartan sauð sem aðrir í fjölskyldunni virðast hafa skotleyfi á í tíma og ótíma. Ég hef svo víða séð að þessir svörtu sauðir eiga ekki séns á því að rísa upp úr öskustónni eða þessu hlutverki. Þetta hefur fengið mig til að hugsa, afhverju vilja þeir sem ættu að elska þig halda þér í svona ljótu og niðurbrjótandi hlutverki?
Svartir sauðir þekkjast ekki bara í fjölskyldum heldur eru þeir einnig í raun allstaðar þar sem hópar manna koma saman og fólk kynnist vel.
En þessi mynd hér til vinstri segir í raun allt sem mig langar að segja um þetta mál.
Mín reynsla og skoðun er nefnilega einfaldlega sú að þeir sem þurfa mest að halda svörtu sauðunum á sínum stað eru þeir sem hafa einfaldlega litað sinn feld hvítan, en undir niðri leynist sá svarti.
Innan fjölskyldna og samfélaga sem þurfa að hafa allt í svarthvítum reglum eru það yfirleitt þeir sem eiga erfiðast með að hafa stjórn á sjálfum sér sem ströngustu reglurnar vilja hafa, og vilja yfirleitt láta sem þeir séu svo hvítþvegnir að það sé ekki hægt að blaka við þeim. Þeir njóta þess að stjórna öðrum í áttina að því sem þeir svo gjarnan vildu vera sjálfir, og hefja sig oft upp með þeim hætti. Eins eru sumir þeirra með svo brotna sjálfsmynd að þeir geta ekki elskað sjálfa sig, og þá er svo gott að láta öðrum líða illa með sinn persónuleika og gjörðir.
Ég hef oft séð fólk sem er að berja fólk með ráðum og reglum sem það ætti frekar að setja á sjálft sig en aðra, og hef séð þetta sama fólk útskúfa persónum sem eru ekki "nógu góðar". Þetta tvöfalda siðgæði er það sem rústar öllum eðlilegum samskiptum og einstaklingum sem brotna undan ágangi þessara ofbeldisseggja.
Já ég segi ofbeldisseggja, því að þeir sem gera lítið úr þér, lemja þig sífellt fyrir það að þú sért ekki "nóg" af einhverju eða "of" mikið af einhverju eru einfaldlega ofbeldismenn.
Kærleikurinn hefur ekki þá birtingamynd að gera lítið úr þér, láta þér líða illa með hver þú ert, hvað þú hefur gert, hverra manna þú ert, og kærleikurinn veit líka að allir menn eru svarblettóttir undir hvítri gærunni sem þeir setja upp. En þeir lituðu kunna að oft að fela sig, og verk þeirra eru síst skárri en þau sem svarti sauðurinn hefur uppi á borðum hjá sér, en þeir hvítlituðu halda haus á meðan enginn sér undir hvítan feldinn.
Kærleikurinn hins vegar byggir upp, bendir á sérstöðu og kosti einstaklingsins, lætur sig varða um afdrif hans og er tilbúinn til að styðja við allt það fallega sem hann langar að vera og gera við líf sitt. En sá sem ekki á þennan kærleika til sjálfs síns er ekki fær um að gefa hann af sér. Þess vegna er þetta oft svona erfitt.
Hringrásin hefur nefnilega verið sú að kynslóð eftir kynslóð hefur fólk verið barið niður og brennimerkt fyrir það sem það er eða ekki er. Stundum finnst mér að að þetta sé orðið að kúltúr hjá okkur sem enginn sér neitt athugavert við. Hinsvegar hefur þessi "kúltúr" skapað af sér ógrynni af manneskjum sem líta sig smáum augum eða upphefja sig með hroka í stað sjálfsvirðingar og heilbrigðs sjálfstrausts.
Lærum að elska okkur sjálf og sleppum því að upphefja og hvítþvo okkur í vanmætti okkar. Það er í lagi að gera mistök og vera ekki fullkominn.
Svo hættum að nota "svörtu sauðina" sem einfaldlega kunna ekki að fela sig sem boxpúða svo að okkur geti liðið betur með bullið í okkur sjálfum.
Make love- not war.
xoxo
Ykkar Linda
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.2.2017 | 00:55
Í tilefni Valentínusardagsins
Í dag er dagur elskenda eða kannski bara kærleikans svona yfirleitt.
Og af því tilefni langar mig að þýða texta sem mér finnst gott að gefa þeim sem eiga kærleika minn með einum eða öðrum hætti (já þið sem lesið párið mitt eigið stað þar)
Þýðing mín á þessum kærleiksríka spekitexta er afar lausleg og ekki hægt að þýða svo vel sé á okkar ylhýra. Ég vona þó að mér verði fyrirgefið það svona í tilefni dagsins og þeirrar fallegu hugsun sem á bak við liggur, en textinn er svona:
"Ég vona að þú hættir aldrei að undrast á tilverunni.
Ég vona að þú eigir alltaf nóg af öllu en seilist þó alltaf áfram í átt að draumum þínum.
Mættir þú aldrei telja einn einasta andadrátt sjálfgefinn.
Ég vona að Guð gefi að þú hafir alltaf ást í lífi þínu.
Ég vona að þú finnir þig enn smáan þegar þú horfir til hafs.
Og ég óska þér þess að alltaf opnist nýjar dyr þegar einar lokast.
Lofaðu mér því að gefa örlögunum alltaf tækifæri.
Og þegar þú getur valið á milli þess að sitja hjá eða dansa
Þá vona ég að þú dansir
Ég vona að þú hræðist ekki fjöllin sem í fjarska eru.
Veljir aldrei þá leið sem minnstu mótstöðu hefur.
Að lifa til fulls krefst þess að við tökum áhættur, en þær eru þess virði að taka.
Það geta reynst mistök að elska en ástin er alltaf þeirra virði.
Ekki láta forhert hjörtu skilja þig eftir í sárum.
Og hugsaðu þig vel um áður en þú selur sannfæringu þína.
Gefðu himninum meira en eitt smátt augnatillit.
Og þegar þú færð tækifæri á því að velja á milli þess að sitja hjá eða dansa,
Þá vona ég að þú dansir!"
-T.S, M.S
Óska ykkur kærleika og glimmerstunda í dag elskurnar og óska ykkur einnig þess að þið veljið alltaf að njóta lífsins og tilverunnar í eintómum kærleika til ykkar sjálfra og annarra (og þið sem fáið ekki blóm, kaupið þau bara sjálf til að sýna ykkur sjálfum kærleika)
xoxo
Ykkar Linda
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.1.2017 | 19:38
Er ástin hættuleg?
Hvað þýðir það í raun að vera ástfanginn og hvað er það sem kveikir þessa tilfinningu í brjósti okkar? Og hversu hættuleg er þessi tilfinning? Vísindi dagsins í dag segja að ástin kveiki á framleiðslu ákveðinna boðefna og sagnir fortíðar segja að við verðum hálf geðveik í því boðefnaástandi, þannig að kannski er hún meinholl en á sama tíma hættuleg geðheilsunni, eða hvað?
Ég held að það sé algengt að einstaklingar sem koma úr brotnum samböndum eigi erfitt með að leyfa sér að upplifa að fullu þessa sterku ástartilfinningu, að sleppa tökum á óttanum og fara inn í sakleysið sem var til staðar þegar þeir voru yngri og óbrenndir.
Eftir skipsbrot lífsins og ástarinnar erum við mörg á varðbergi, hleypum fólki ekki svo glatt að okkur. Erum hrædd við höfnunina, traustið, skuldbindinguna, hjartasárin og berum einnig fortíð á bakinu sem okkur finnst stundum ekki gott að bera inn í ný sambönd. Við skoðum hvert annað með gleraugum vantraustsins í upphafi sambanda og reiknum alveg eins með því að ástin bregðist okkur enn á ný.
Engu að síður tökum við flest sem betur fer áhættuna aftur og aftur á því að elska þó að allt gæti farið illa. Tökum sénsinn á því að enn eitt örið gæti bæst við safnið á litla hjartanu okkar.
En með styrknum sem leynist einhverstaðar í innstu skúmaskotum sálarinnar förum við af stað, stígum inn í óttann og vonum það besta 7, 9, 13 !
Þegar stigið er inn í óttann sem skapast á viðkvæmum fyrstu stigum ástarsambanda veldur ástin oft kvíða og streitu í stað ánægju og hamingju, en það er líklega vegna þess að sjaldan eða aldrei erum við viðkvæmari en akkúrat á þessum stað. Á þessum viðkvæma stað opnum við hjarta okkar og líf upp á gátt fyrir annarri mannveru sem við vonumst svo innilega til að vefji okkur í bómull væntumþykju, virðingar og ástar. Vonum semsagt að hún annist okkur og næri, en særi okkur ekki né græti.
Sorgin sem skapast hinsvegar þegar ekkert verður úr að sambandið fái að þróast og verða fullvaxta er annar kapítuli útaf fyrir sig. Sú sorg sem við það skapast veldur því hjá mörgum að þeir loka á möguleikana á næsta ástarsambandi og sumir velja að loka á allar slíkar ástartilfinningar, skella einfaldlega í lás og brynja hjartað - lok lok og læs.
Flest forn menningarsamfélög eiga í fórum sínum sagnir um afleiðingar ástarinnar og í gamalli Arabískri sögu var sagt að þegar þú verður ástfanginn stelur ástmögur þinn lifrinni þinni. Kínversk börn voru einnig hrædd með þeim orðum að ástin stæli úr þeim hjartanu. Rómantísk ást var víða talin dimm og hættuleg ásamt því að hún gat auðveldlega stolið frá þér vitinu og brotið þig niður. Sá ástfangni var talinn líklegur til að fremja allskonar órökrétt athæfi í ástarvímunni og ástin átti líka að skilja eftir sig tómarúm í lífsvefnum samkvæmt einni sögninni.
Ekki hljómar þetta nú vel allt saman.
Það er nú líklega svolítið þannig að við missum vitið lítillega þegar þessi tilfinning verður á vegi okkar, og við sjáum ekki nokkurn galla á ástarviðhenginu. Erum einfaldlega hugsandi um það viðhengi öllum stundum, erum tilbúin til að vaða eld og brennistein bara til þess að eiga saman sælustundir með því, og erum aldrei viðkvæmari fyrir sárum hjartans en akkúrat þarna.
Fegurð ástarinnar er hvergi samt eins sýnileg og á þessum fyrstu metrum sambandsins og fínir þræðir viðkvæmninnar þola lítið álag. En á sama tíma er auðmýktin og fegurð ástarorkunnar allsráðandi. Við viljum allt fyrir þennan elskaða aðila gera og fagur óskilyrtur kærleikurinn sprettur þarna fram í sinni fallegustu mynd og gefur frá sér einhvern himneskan ljóma sem erfitt er að leyna.
Við verðum gjafmild á veraldlega, andlega og líkamlega þætti lífs okkar og við berum velferð hins elskaða fyrir brjósti í einu og öllu. Við gleymum okkar eigin egói um stund, en ættum þó aldrei gleyma að hafa mörkin okkar á hreinu og ganga ekki yfir þau hversu erfitt sem það getur reynst þegar við erum undir þessum galdri.
Og hvað sem öllum ótta og hraksögnum líður þá er það nú samt einu sinni þannig að við viljum elska og vera elskuð, og fátt er það sem kemur í staðinn fyrir þá fallegu tilfinningu sem breiðist um í hjarta okkar þegar við sleppum tökunum og leyfum ástinni að taka völdin.
Svo hefur hún víst margar góðar aukaverkanir sem vísindi dagsins í dag hafa sannað með stórum og miklum rannsóknum og vitað er að boðefnaframleiðsla góðra ástarboðefna er betri en flestar aðrar vímur sem við getum upplifað.
Víma þessi getur enst allt að 2 árum segja þeir, en eftir það dvínar hún og þá er hin raunverulega tenging og ást á milli aðilanna orðin nægjanlega styrk og öflug til að taka sambandið áfram á ástar og vinanótum ef allt er eins og það á að vera.
Ein besta aukaverkun ástarinnar er þó líklega sú að við lifum jafnvel lengur vegna hennar, erum einnig mun heilbrigðari ef við erum í góðum og fallegum samböndum.
Það er semsagt einnig til mikils að vinna.
Og að mínu mati er yndislegt að hafa við hlið sér vitni að lífinu, í raun alveg ómetanlegt. Að hafa aðila við hlið sér sem tekur þátt í litlum sem stórum viðburðum í lífinu með manni og gerir það einungis vegna ástar sinnar er líklega ein stærsta gjöf sem lífið getur gefið nokkrum einstaklingi og ég vona svo sannarlega að ég eigi eftir að upplifa það aftur einn daginn
Svo látum það bara eftir okkur að elska af öllu hjarta og allri sálu ef við erum svo heppin að ástin banki uppá hjá okkur og bjóði okkur upp í darraðardansinn sem henni fylgir.
Öryggi lífsins og ástarinnar hefur svo sem aldrei verið til staðar og okkur hefur aldrei verið lofað dansi án feilspora, og því sé ég ekki eina einustu ástæðu fyrir því að við sleppum því að taka sénsinn á ástinni í allri sinni mynd aftur og aftur ef þess gerist þörf.
Stígum bara varlega út á dansgólfið með sterka von í brjósti um að nú takist þetta og höfum í farteskinu fullvissu þess sem veit að ástin í sinni tærustu mynd er alltaf þess virði að taka séns á - því að ástin læknar öll sár - ef hún bregst ekki
Þar til næst elskurnar
xoxo
Ykkar Linda
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.12.2016 | 14:40
Þetta verður allt í lagi- áramótaannáll
Uppgjör og breytingar af ýmsu tagi hafa átt sér stað í mínu lífi þetta ár sem nú er að hverfa í aldanna skaut og líklega hefur það einnig verið þannig hjá ykkur mörgum.
Sorg, áhyggjur, stöðnun og erfiðleikar af ýmsu tagi hafa bankað uppá hjá mér þetta blessaða ár, og allt þetta hefur kennt mér að nýta betur það sem ég kann og kenni öðrum, líklega betur en oft áður. Það hefur einnig kennt mér að meta betur það góða sem þó er til staðar í lífi mínu.
Ég hef þurft að hafa fyrir því að halda hugsunum mínum jákvæðum og að halda í ró mína. Hef einnig þurft að passa mig á því að gefast ekki upp en þess í stað einbeitt mér við að treysta Guði og efla von mína.
Ég hef skrifað mig inn í gleðina og hef búið til gæða og glimmerstundir sem hafa eflt hamingju mína þrátt fyrir aðstæður en ekki vegna þess að aðstæður hafi verið svo góðar oft.
Ég hef skoðað sjálfa mig betur og lært betur að meta það hver ég er og fyrir hverju ég stend.
Ég hef misst fólk sem skipti mig máli út úr lífi mínu á þessu ári og það hefur valdið mér sorg og vanlíðan en ég hef valið að meta minningarnar meira en sorgina og gleðja mig við þær.
Ég hef verið svikin og fólk hefur valdið mér vonbrigðum á árinu, en ég hef fyrir löngu lært að það fyrirgefa og bið því fólki einfaldlega blessunar (það er svo gott að leysa málið þannig finnst mér).
Ekki vegna þess að mér geti ekki liðið illa og verið sár, heldur vegna þess að ég veit að oft kann fólk ekki betur og kannski ætlaði það ekki að vera mér vont. Og svo er fyrirgefningin líka bara svo góð fyrir mitt sálartetur svo að ég leyfi nú eigingirninni aðeins að komast að.
Þetta þýðir ekki þó alls ekki að ég láti allt yfir mig ganga! Ég hef stundum valið að hafa ekki fólk inni í mínu lífi sem ég tel að geti verið mér skaðlegt með einhverjum hætti jafnvel þó að mér þyki vænt um það. Við ættum aldrei að láta bjóða okkur ljóta framkomu eða ofbeldi, hvorki í orði né á borði.
Ég hef lært að sýna þrautseigju og æðruleysi þetta ár sem aldrei fyrr og hef þurft að finna leiðir og lausnir þar sem þær hafa ekki verið svo auðsæjar oft.
Ég hef einnig lært betur en nokkru sinni fyrr að hlusta á innsæi mitt og efla það til muna. Því að það er einfaldlega þannig að við eigum þetta innbyggða GPS tæki sem sýnir okkur réttu leiðirnar og lausnirnar. Oft poppa upp litlar hugarmyndir eða jafnvel persónur í huga okkar sem verið er að benda okkur á. Hlustum á þessar hugarmyndir og rödd hjartna okkar, það reynist oft happadrjúgt.
Þannig að þegar ég set þetta svona niður á blað sé ég að líklega hefur þetta verið afar gott og lærdómsríkt ár eftir allt saman, líklega verið á við mastersklassa gráðu sem ég vona að ég hefi náð með sóma.
Og þegar allt kemur til alls eru það ekki fyrirhafnarlausu stundirnar sem skapa okkur sem þær dásamlegu persónur sem við erum, heldur þær erfiðu sem kenna okkur að meta hversu ljúft og gleðiríkt lífið er þegar vel gengur (eftir regnið skín sólin sem aldrei fyrr).
Ég óska ykkur elskurnar og bið að árið 2017 verið ykkur gott og glimmerríkt og munið -
þetta verður allt í lagi allt saman, lífið sér fyrir okkur með einum eða öðrum hætti eins og alltaf þó að lífsstormarnir geysi stundum!
Sjáumst á næsta ári
Ykkar
Linda
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.12.2016 | 11:25
Það er þetta með þennan árstíma!
Á öllum aðventum sem ég hafði upplifað eftir að ég varð laus og liðug á ný gekk ég í gegnum angurværan tilfinningaríkan rússíbana.
Þessi jólablús minn hófst alltaf þegar jólaljósin voru tendruð í miðbænum í lok nóvember. Og þegar þessi ljós kviknuðu þá dapraðist ljósið í mínu eigin hjarta og ég hugsaði enn ein jólin sem ég er að skrölta þetta ein og ég vorkenndi mér þessi líka ósköpin öll.
Ég gerði síðan allt sem ég gat til að gleyma þessu með því að halda upp á afmælið mitt með pomp og prakt og svo tóku við allskonar skemmtanir sem ég skipulagði út alla aðventuna til að fylla upp í tómarúmið sem í hjartanu leyndist. Ekki tókst það þó að fullu þrátt fyrir yndislega vini sem allt vildu fyrir mig gera.
Aldrei fann ég eins mikið fyrir því að vera ein eins og á þessum árstíma sem áður var svo gleðilegur og yndislegur. Ég upplifði mig meyra og stóð mig oft að því að finna tárin trilla niður kinnar mínar þegar ég sá eitthvað hjartnæmt eða fallegt. Kærleikurinn og angurværa tónlistin sem hljómaði um allan bæ hreyfðu við hverri taug hjá mér.
Allar auglýsingarnar sem sýndu hamingjusamar fjölskyldur sem sameinuðust um jólin, eða pör sem leiddust niður Laugaveginn ljósum skreyttan vöktu hjá mér söknuð eftir gömlum og góðum tímum og ég fann sem aldrei fyrr fyrir því að hafa ekki maka við hlið mér sem væri að upplifa allt þetta fallega með mér.Mér fannst ég svolítið Palli einn í heiminum.
Ég fór í hina fullkomnu nostalgíu og hugsaði til jólanna sem ég átti hér í denn þegar börnin voru lítil og allt var á fullu við að gera jólin eins falleg og góð fyrir þau eins og mér var mögulegt að gera. Allt skyldi vera hreint og fínt og allt húsið skreytt. Jólapakkarnir borðum lagðir og bökunarilminn lagði um allt hús megnið af aðventunni. Rauðkálið var soðið á Þorláksmessunni ásamt hangikjötinu og heimagerði ísinn gerður þann sama dag, allt eftir kúnstarinnar reglum. Öll herbergi skúruð skrúbbuð og bónuð út í hvert horn. Ný náttföt, nærföt og jólaföt á börnin voru líka algjört möst á hverjum jólum. Í minningu minni var líka alltaf snjókoma þegar kveikt var á jólatrénu á Austurvelli og langar biðraðir á kaffihúsinu þar sem við fengum okkur kakó og vöfflur að þeirri athöfn lokinni.
Góðar og gefandi minningar...
Núna á þessari aðventu sem er um það bil að enda var þessu ekkert öðruvísi farið en venjulega hjá mér til að byrja með og ég fann að ég ætlaði að fara að detta í minn venjulega jólablús og nostalgíu.
En þá tók ég ákvörðun!
Ég ákvað að þetta yrði frábær aðventa og notaleg jól. Ég ákvað að sætta mig við að tímarnir hefðu einfaldlega breyst og að ég væri bara ein og sjálfstæð og ákvað að njóta þessa tíma fyrir og með mér sjálfri alla leið í gleði en gleyma sorg og sút.
Ég ákvað að vera þakklát fyrir allt það góða sem hver dagur færir mér. - Semsagt tók ákvörðun og valdi að eymdin væri bara alls ekki smart fyrir mig en núvitundin væri það hinsvegar.
Það eru margir hér á landi sem hafa það erfitt vegna ýmissa atburða og aðstæðna í lífi sínu en ég gerði mér grein fyrir því að ég væri bara svo heppin að vera ekki ein af þeim og mætti þakka pent fyrir það hversu gott ég hefði það og hversu lánsöm ég væri á svo margan hátt.
Þannig að ég sneri blaðinu við og sagði mér bara að skammast mín og fara bara að njóta alls hins góða sem lífið hefur uppá að bjóða fyrir mig og sagði sjálfri mér einnig að meta það að verðleikum sem mér hefði verið úthlutað.
Í kjölfarið ákvað ég að fara ein á tónleika í fyrsta sinn á ævinni þegar einn vinur minn bauð mér miða á þá tónleika, og naut þess bara að sitja ein innan um ókunnugt fólk. Ég skemmti mér ótrúlega vel og hló að bröndurum Baggalútsmanna sem aldrei fyrr og fann ekki vitund fyrir því að vera ein þarna. Ég ákvað líka að gera aftur jólalegt hjá mér og Arnar sem er gamall og góður vinur minn kom og skreytti með mér jólatréð sem hefur ekki verið skreytt í einhver ár.(myndin er einmitt tekin að lokinni skreytingunni)
Ég hef leyft mér að njóta hverrar mínútu sem ég hef fengið tækifæri á því að vera innan um það fólk sem þykir vænt um mig og mér um það. Ég hef borðað með því, hlegið, notið samræðnanna og vináttunnar - finn fyrir bullandi þakklæti í hjarta mér fyrir þá gæfu að eiga þetta dásamlega fólk að.
Ég hef einnig fengið reglulega sting í hjartað síðustu vikurnar vegna ástar minnar á fullorðnu börnunum mínum og ég fyllist þakklæti fyrir það að þau eru öll með fallegt hjartalag og eru tilbúin að hafa mig inni í lífi sínu við hin ýmsu tækifæri. Það tel ég ekki sjálfgefið. Þau eiga einnig frábæra maka sem mér þykir afar vænt um og fyrir það get ég svo sannarlega verið þakklát líka.
Barnabörnin mín eru auðvitað klárustu og fallegustu börn heims og ég hef fengið að vera amma þeirra sem er mér mikill heiður. Núna á aðventunni hafa þau verið í kringum mig í nokkur skipti mér til mikillar ánægju og þakklætis og ég fékk líka jólagjöf sem eitt þeirra valdi handa mér sjálf og þá fann ég gleðistraum fara um mig við tilhugsunina um að hún hafi verið að hugsa til mín þegar hún valdi gjöfina.
Ég held að ég hafi einnig verið þessum afleggjurum mínum til ánægju um daginn þegar þau fóru með mér á skauta - Það var mikið hlegið að meistaratöktum ömmunnar og þau björguðu líklega lífi mínu með því að styðja mig og kenna mér réttu aðferðirnar þar sem ég staulaðist um ósjálfbjarga á skautunum. Þetta er aðventuminning sem ég veit að á eftir að ylja mér um ókomna tíð og hláturinn þeirra klingja í eyrum mér lengi. Ég tel mig heppið stelpuskott að eiga svona marga yndislega að, og fyrir það þakka ég mikið og vel.
Ég hef fundið frið og ánægju fyrir þessi jól eins og ég fann fyrir á árum áður við að velja í jólapakkana það sem ég held að gleðji hvern og einn, og fann í leiðinni gleðina sem fylgir því að gefa af sér fallegar hugsanir til þeirra allra í leiðinni
Og svei mér þá - ég held bara að jólablúsinn hafi næstum því horfið og að í hans stað hafi þakklætið og gleðin yfir öllu því góða sem lífið hefur fært mér tekið völdin.
Segi ekki að mér vökni ekki um augun í eitt og eitt skipti þegar ég sé par haldast í hendur og finn kærleikann sem þau hafa gagnvart hvort öðru, viðurkenni að það læðist inn löngun eftir því að fá að upplifa það sama.
Það er líka í lagi að vera meyr og tilfinningaríkur á þessum tíma - það má alveg svo lengi sem það rænir mig ekki daglegri gleði minni.
Ég má líka láta mig dreyma þann ljúfa draum að um næstu jól verði tímarnir breyttir, að þá verði það ég sem leiði ástina mína niður Laugaveginn með stjörnur í augunum og jólatónlistina ómandi allt um kring.
En þar til að sá draumur rætist ætla ég að segja bless við eymd og jólablús og njóta þess bara að það eru að koma gleðileg jól sem ég mun eiga með fólkinu sem ég elska.
Þetta er minn þakklætisóður til lífsins og aðventunnar þó að einhverjum kunni að þykja óðurinn væminn með endurtekningum þakklætisviðlagsins þá verður bara að hafa það. Þvi að það er einmitt þakklætið sem hefur gefið mér þá gleði sem ég finn að ég á þessa dagana og það er þakklætið sem tók frá mér þessar vondu tilfinningar sem höfðu fyllt aðventurnar síðustu árin líkt og þegar Trölli stal jólunum. Og fátt er betra en að finna hjarta sitt fyllast af ást,kærleika og þakklæti á þessum yndislega tíma ársins þegar við fögnum fæðingu frelsara mannkyns.
Gleðileg jól til ykkar elskurnar og mættu þau svo sannarlega verða ykkur glimmer og gleðistráð <3
Xoxo
Ykkar Linda
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.12.2016 | 15:17
Hugleiðingar Lindu: Orð eru álög
Eins og Sigga Kling vinkona mín sagði hér um árið og segir örugglega enn - orð eru álög.
Ég hef verið að hugleiða það undanfarna daga hversu táknræn orð eru fyrir mig a.m.k og hversu mikil áhrif þau hafa haft á líf mitt til góðs og ills. Hversu sárt það er þegar ekki er að marka það sem sagt hefur verið við mig og ég í raun verið afvegaleidd bæði með niðurbrjótandi orðum sem og þeim fallegu, semsagt orð hafa skapað líf mitt bæði til góðs og ills.
Ég er líklega ein af þeim einföldu sem trúi og treysti því að fólk meini vel það sem það segir við mig og tek við orðum þeirra í trausti á velferð mína og sannleiksgildi þeirra í hjarta mínu. Hinsvegar er það æði oft sem það hefur síðan sært mig að komast að því að tilfinningaleg merking orðanna var jafnvel sú að skaða mig eða stundum var einfaldlega engin merking á bak við þau. Og ég einfeldingurinn sjálfur sem sit uppi með sært hjarta og sviknar vonir um eitt og annað í vináttu og ástum. Og kannski er það bara ég, en einhvernvegin finnast mér orð fólks innihalda minni sannleika og virðingu í dag en þau innihéldu hér áður, en kannski er ég bara búin að gleyma því gamla.
"Orð hafa mikið vægi í hugum okkar og oft er tilfinningagildi þeirra mikilvægara en eiginleg merking þeirra". (Doktor.is- Gylfi Ásmundsson sálfræðingur)
Líf okkar tekur óhjákvæmilega á sig mynd vegna orða þeirra sem við erum að umgangangast og orðin þurfa að vera uppbyggjandi og sönn svo að birtingamyndin sem búin er til úr þeim verði sönn og falleg. Það fylgir orðum semsagt mikil ábyrgð og jafnvel meiri ábyrgð en við gerum okkur oft grein fyrir.
Það er sagt að líf og dauði séu á tungunnar valdi og svo sannarlega er það rétt.
Orð geta byggt upp en orð geta líka deytt og skaðað líf okkar, sjálfsmynd og virðingu. Þau geta semsagt niðurlægt, brotið, byggt upp og glatt - allt eftir því hvað sagt er og hvernig það er gert.
Ég hugsa að það væru færri sár í lífinu hjá flestum ef hægt væri að treysta því að innihald sagðra orða samræmdist og hefði góðviljað innihald. Falleg orð sem enga merkingu hafa særa okkur stundum jafnvel meira en ljót orð vegna þess að flest þráum við að fallegu orðin sem við fáum að heyra innihaldi sannleika þess sem setur þau fram.
Einlægni og velferð fyrir öðrum ættu að vera í öndvegi þegar kemur að því að við tjáum okkur. Það er nefnilega ekki nóg að orðin okkar séu ljóðræn og falleg, þau þurfa að segja sannleikann! Og ekki bara það, við þurfum að passa það að leiða fólk ekki í gildru eigin þarfa og langana með því að nota fagurgala og litlar litskrúðugar lygar til að ná okkar eigin tilgangi fram.
Vegna máttar eða álaga orðanna okkar þurfum við alltaf að passa okkur þegar við tölum og einnig þurfum við að nota visku okkar og kærleika.
Mér finnst það t.d afar táknrænt að Guð sjálfur skapaði heiminn í upphafi með því að nota orð til þess, semsagt orðin voru upphaf allrar sköpunar. Held að þetta segi okkur að við sköpum meira en við höldum með þeim orðum sem við mælum.
Hvað erum við að skapa inn í líf okkar og annarra í dag með orðum okkar?
Við ættum að sýna okkur og öðrum þá virðingu að skapa fallegan vel mótaðan vef kærleiksþráða sem ekkert fær slitið.
Eins og Gunnar Hersveinn segir í grein sinni um kærleikann á síðunni lífsgildin.is þá er það þannig að "Kærleikur og viska eiga samleið en andheiti þeirra beggja er tóm, tómleiki, eyðimörk og kuldi, það sem slitið er úr samhengi og einangrað".
Og þannig er það þegar fallegu orðin okkar eru innihaldslaus eða illa meinandi, þá skilja þau eftir sig tómleika, kulda, sár og jafnvel tilgangsleysi inn í líf þeirra sem spunnu lífsþráð sinn útfrá þeim í góðri trú á sannleiksgildi þeirra.
Leikum okkur ekki að orðum þó falleg geti þau verið, og pössum okkur á því að þau innihaldi fallega skapandi merkingu og eða sannleikann okkar.
Notum okkar ylhýra til uppbyggingar í kærleika, sannleika og góðvild til okkar sjálfra og samferðamanna okkar.
Þar til næst elskurnar
xoxo
Ykkar Linda
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.11.2016 | 10:24
Hugleiðingar Lindu: Innsæið
Ég sit hér á Sólon Bankastræti og horfi út í iðandi mannlífið því að fátt finnst mér skemmtilegra en fjölbreytileiki þess.
Ég skoða með sjálfri mér hvað það er sem sameinar okkur mannkynið og hvað það er sem aðskilur okkur.
Velti því fyrir mér hvort við séum ekki öll eitt þar sem við virðumst öll vera að leita að sömu hlutum sama hvaðan við komum og frá hvaða öld við erum.
Við virðumst alltaf leitast við að elta hamingjuna út um allt þó að við gerum okkur hinsvegar allt of sjaldan grein fyrir því hvar hana er að finna.
Eins reynum við flest að skapa okkur öryggi með einum eða öðrum hætti í heimi sem ekkert öryggi hefur uppá að bjóða.
Svona erum við bara sama hvaðan við komum.
En það sem aðskilur okkur hinsvegar er eins og vinur minn einn orðaði það svo snilldarlega um daginn þegar hann sagði við mig "öll menning er í eðli sínu fordómar" sem er bara svo satt.
Í stað þess að umfaðma ólík menningarsamfélög, trúarskoðanir, pólitískar skoðanir og viðhorf og læra af þeim það sem gott gæti verið, leyfum við þessum hlutum að aðskilja okkur og mynda fjandskap á milli okkar.
Ótrúlegt en satt.
Við þurfum ekki annað en að horfa á pólitíkina sem er búin að koma mikið við sögu í fréttum að undanförnu til að sjá þetta.
Og í stað þess að leyfa okkur að finna í hjarta okkar tenginguna og samkenndina við allt mannkyn þá látum við löngu forritaðan haus okkar ráða för í samskiptum okkar við mismunandi menningarhópa og lokum algjörlega á röddina sem hvíslar í brjósti okkar og segir "þið eruð öll eitt".
Mér þótti mjög forvitnilegt að sjá að það var komin mynd í bíó sem fjallaði einmitt um það sem ég er alltaf að reyna að segja með einum eða öðrum hætti í pistlum mínum um þá rödd og dreif mig því í að sjá myndina sem nefnist "Innsæi" Fannst mér hún ótrúlega áhugaverð fyrir margra hluta sakir en ekki síst vegna umfjöllunar um þá rödd sem við sleppum svo oft að hlusta á.
Mér þótti ótrúlega fróðlegt að sjá hversu mikilvægt okkar innra GPS tæki er, en því miður er það virkilega vannýtt hjá okkur flestum.
Ef við nýttum það til fulls gætum við breytt lífsgæðum okkar all verulega fullyrði ég, og kannski loksins náð í skottið á hamingjunni og örygginu sem felst í því að vita að ég hef minn innri leiðbeinanda.
Leiðbeinanda sem bregst mér aldrei þó að ég bregðist honum oft á tíðum og að hafa þá fullvissu að vita að bara ef ég hlusta á hann þá er mér óhætt í lífinu.
Að vita og finna að ég get hvílst í flæði og öryggi lífsins og vita að mér er leiðbeint alla leið er ótrúlega góð tilfinning sem krefst þess að ég sé tilbúin til að treysta og sleppa tökum vitandi að allt mun fara vel.
Að sleppa tökum reynist þó mörgum okkar hægara sagt en gert og er "yours truly" ein af þeim sem hefur oft átt erfitt með að sleppa tökum og treysta.
En þegar ég loksins sá tengingu mannkynsins ljóslifandi og gerði mér grein fyrir því að lífið streymir fram í flæði en ekki þegar við streitumst á móti (þá stöðvast það) ákvað ég hreinlega að þarna væri ég búin að finna sannleika sem gæti frelsað mig í hinum ýmsu aðstæðum sem höfðu reynst mér erfiðar.
Og ekki sé ég eftir því að hafa tekið þessa ákvörðun því að um leið og ég var búin að taka hana fór ég að sjá flæði lífsins með allt öðrum augum og frelsið sem ég fann fyrir var þá og er nú mér gjörsamlega ómetanlegt.
Ég þarf ekki að streða lengur, bara sleppa tökunum! Dásamleg tilfinning.
Ég æfi mig stöðugt í því að sleppa en það kemur þó fyrir að mér finnst ég þurfa að vera við stjórn og hafa áhrif á útkomu mála en þó gerist það æ sjaldnar sem betur fer.
Og ef ég hlusta á mína innri röddu segir hún mér að mér sé alveg óhætt að taka áhættu á því að kynna mér alla strauma, stefnur, menningu og hvað það nú er því að ég geti lært af þeim öllum eitthvað gott, þó ekki væri annað en að læra að virða alla menn og menningu þeirra.
Svo ég hvet ykkur sem þessar línur lesið til að prófa þessa aðferð mína og í leiðinni segið lífinu endilega hvað það er sem þið viljið (en ekki það sem þið viljið ekki) og sjáið bara til hvað gerist í framhaldinu ;)
Þar til næst elskurnar,
xoxo
Ykkar Linda
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Linda Baldvinsdóttir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.2.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 6
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar