Færsluflokkur: Bloggar
24.10.2016 | 14:19
Hugleiðingar Lindu: Neikvæður nöldurpistill miðaldra konu
Við lifum á skrýtnum tímum þar sem kærleikur og nánd hefur minnkað stórlega að mínu mati og kuldi, doði og "mér er sama" hefur tekið við.
Mér finnst ég sjá þegar ég renni yfir tímalínuna á Facebook að flestir séu fullir af samkennd með erfiðleikum og sorgum þeirra sem þar opna hjörtu sín en velti því fyrir mér hvort það sé raunin, eða er þetta bara svona netsamhygð og kærleikur sem við þurfum ekkert að hafa fyrir nema að setja hjarta við stadusinn eða deila kannski sögunni sem verður svo gleymd innan sólarhrings á netinu, eða virkar þetta kannski með sama hætti í hinum raunverulega heimi, önnumst við þá sem þurfa þess með þar? Ég vona það svo innilega en eitthvað segir mér að þar vanti uppá.
Tímarnir hafa líklega sjaldan eða aldrei verið betri hvað varðar efnahagslega velmegun þrátt fyrir hrun, og margir virðast geta fengið nánast allt sem þeir vilja a.m.k hér á vesturhveli jarðar. En á sama tíma hefur andleg vanlíðan sjaldan eða aldrei verið meiri og fátækt þeirra sem fátækir eru sjaldan verið meira áberandi.
Gamla fólkið okkar er fyrir í samfélaginu og ekkert pláss er fyrir þau hvorki á stofnunum né heimilum afkomendanna. Þau búa oft ein og afskipt og fá ekki inn á hjúkrunarheimilum eða viðeigandi stofnunum þó svo að þau séu fársjúk og ófær um að vera heima við. Og jafnvel þó að þau séu nú svo heppin að fá inni á einhverri stofnuninni og borgi með sér hundruð þúsunda á mánuði fá þau ekki að sturta sig daglega, nei nei einu sinni í viku er skammturinn. Veit satt að segja ekki hvort þetta stenst mannréttindalöggjöfina allt saman.
Í dag búa foreldrarnir heldur ekki hjá önnum köfnum börnum sínum á síðustu æviárum sínum þar sem börnin eiga nóg með sig og sína í lífsgæðakapphlaupinu og streitu dagsins í dag. Þau eiga nóg með að sinna sínum eign börnum eftir vinnu og hvað þá að sinna öldruðum foreldrum, og ekki gera kjarasamningar ráð fyrir því að veikindadagar séu greiddir vegna veikinda aldraðra foreldra.
Barnabörnin okkar fara á mis við kærleika, visku og umönnun ömmu og afa sem eru að halda sér ungum og flottum langt fram eftir aldri til þess eins að vera gjaldgeng á markaðnum, og þá er sama hvort ég er að tala um maka-markaðinn eða vinnu-markaðinn. Á þessum mörkuðum er reyndar ekki svo auðvelt að ná árangri á þegar þú ert kominn yfir miðjan aldur hefur mér sýnst.
Gömlu góðu gildin eru á hröðu undanhaldi, upplausn fjölskyldunnar orðinn veruleiki og ungdómsdýrkunin í hæstu hæðum.
Einmannaleikinn er mikill meðal fullorðinna og barna líklega vegna þess að svo margir búa einir eða eru langtímunum saman einir, hjónaböndin eru einnota og skuldbindingin engin þrátt fyrir uns dauðinn aðskilur okkur sé játaður frammi fyrir altarinu.
Einstæðar mæður og feður þræla sér út og hafa litla orku eða tíma fyrir börnin sem þau samt elska svo innilega. Þau eru uppfull af samviskubiti yfir því að geta ekki sinnt þeim betur og láta því kannski eftir þeim hluti sem eiga að bæta þeim skaðann en auka í raun bara á hann.
Börnin okkar eru uppfull af kvíða sem virðist aldrei hafa verið meiri en í dag samkvæmt nýlegum rannsóknum. Hegðunarvandi og athyglistengdir brestir allt um kring en engum dettur í hug að það gæti verið vegna þess að við lifum í firrtu þjóðfélagsmynstri sem heimtar fullkomnun allra en lokar á samskipti og nánd.
Dagurinn í dag heimtar fallegt háskólamenntað keppnisfullt ungt grannt fólk í viðeigandi merkjafatnaði. Fólk sem drekkur kampavínið sitt úr kristalsglösum og tyllir sér á leðurklædda sófann sinn í stóra einbýlishúsinu. Í bílskúrnum stendur líklega líka nýi flotti jeppinn ásamt golfsettinu og snjósleðanum.
En í þessu fullkomna fyrirmyndarhúsi finnum við líka allar greiðslutilkynningarnar af húsnæðislánunum, bílalánunum, golfvallargjaldinu, Visareikningnum og námslánunum sem tekin voru til að hafa möguleika á góðu starfi.
Og til þess að hafa möguleika á vinnumarkaðnum í dag dugar ekkert minna en masters og eða doktorsgráður, semsagt a.m.k 6 til 8 ára framhaldsnám á námslánum hjá flestum.
Líklega verða þessi lán ekki að fullu greidd þegar gráðurnar ásamt eigendum þeirra fara niður á sex fetin sem við förum víst öll að lokum niður á.
Fjölskyldumynstrið gamla sem hélt landanum saman er að niðurlotum komið og sunnudagssteikin og vöfflukaffið hjá mömmu og pabba er ekki lengur til staðar nema hjá þeim sem neituðu að gefast upp fyrir þessu nýja streituvaldandi lífsmynstri sem marga er að drepa.
Þessir uppreisnarseggir héldu bara í hjónaböndin sín, fóru varlega í fjármálum, voru trygg sínum og unnu samviskusamlega að því að halda lífinu í lagi fyrir heildina.
En einnig þessir aðilar verða því miður varir við að samskiptin eru nánast engin við matarborðið því að allir eru í símanum að spjalla við einhverja aðra en gestgjafana og varla er litið á vöfflurnar eða gúmmelaðið sem er á boðstólnum á meðan það er borðað.
Margir eru uppfullir af höfnunartilfinningu og skammartilfinningu og þrátt fyrir að talað sé upphátt um eitt og annað í dag sem ekki var talað um hér áður fyrr eru margir faldir inni í sjálfum sér og treysta ekki öðrum fyrir sér.
Sambönd dagsins í dag eru mörg hver einnota og margir einstaklingar á mínum aldri og jafnvel yngri eru verulega hræddir við að fara í sambönd og þora ekki, eða treysta ekki á það að byggja upp sambönd vegna svika og leikaraskapar þeirra sem þeir lenda á úti á markaðnum.
Kynlífs/ástarfíkn og klámfíkn hefur aldrei verið meiri, ofdrykkja, dópneysla eða hverskonar fjarvera frá sjálfum sér líklega sjaldan verið meiri heldur.
Framhjáhöld og óheilindi á netinu eru algeng og aldrei verið auðveldara en nú að fela slóð þeirra. Þú getur farið inn á vafra þar sem ómögulegt er að finna netsöguna þína og gerviprófílar hér og þar auðveldir kostir þeirra sem vilja fela sig á samfélagsmiðlum.
Tveir símar eru líka í gangi hjá þeim sem færastir eru á þessum felumarkaði. Annar þeirra opinber en hinn falinn fyrir makanum sem situr sárasaklaus heima og trúir því að hann sé í fallegu traustu hjónabandi.
Þrátt fyrir þetta allt saman erum við þó alltaf í makaleit þó að við varla treystum okkur í langtímasambönd. Ég held að það sé einfaldlega vegna þess að manninum var bara alls ekki ætlað að vera einum þrátt fyrir allt.
Sem leiðir mig að því að tala aðeins meira um "markaðinn".
Til þess að vera nú gjaldgeng á markaðnum fram eftir öllum aldri rembumst við við að halda línunum í lagi með öllum mögulegum og ómögulegum ráðum og okkur er nokk sama hvort við myndum með okkur átraskanir á leiðinni eða gleypum í okkur stórhættulega stera, allt gert fyrir kjörþyngdina og sixpakkinn.
Og þegar fólk á mínum aldri er svo agalega heppið að finna eintak sem er ekki með skuldbindingar-fóbíu eða aðrar höfnunarraskanir byrjar fyrst ballið. Í þessum nýju samsettu fjölskyldum eru nokkrar mömmur og pabbar ásamt óteljandi ömmum og öfum sem safnast saman á tyllidögum ef ekki er ósamkomulag í gangi á milli þessara aðila það er að segja.
Börnin vita varla lengur hverjir eru þarna í kringum þau, hverjir eru blóðskyldir þeim og hverjir ekki.
Erfitt er einnig fyrir nýju makana að samlagast þessu öllu saman þannig að skilnaðartíðnin er jafnvel hærri hjá þeim sem eru að fara af stað í sambúð í annað eða þriðja sinn en hjá þeim sem eru í sínu fyrsta sambandi.
En ég spyr mig...
Hvar er hamingjan og gleðin sem leita átti að? gleðin yfir öllum nýju samböndunum, fínu kjörþyngdinni, dýru bílunum, sérhannaða golfsettinu, kristalnum og öllum fermetrunum?
Og ekki síður spyr ég mig að því hvað verður um þessa kynslóð sem þekkir ekki gömlu góðu gildin sem hafa haldið landanum og fjölskyldunni saman en í dag er reynt að fella þau sem flest?
Ég er að tala um kynslóðina (mína kynslóð og þá sem yngri eru) sem nú er á besta aldri og í fínu formi með nokkur hjónabönd að baki, nokkur einbýlishús, nokkrar barnsmæður/feður og fimm háskólagráður.
Hvað verður um það fólk þegar Newtonslögmálið tekur yfir og óhjákvæmilegi virðulegi efri aldurinn færist yfir (fyrir þá sem eru svo heppnir að fá að eldast, ef það er þá heppni í dag)?
Þegar þau komast á aldurinn þar sem fáir eða enginn nennir að heimsækja þau og eða annast um þau, þar sem starfskraftar þeirra eru ekki lengur nothæfir, þar sem reynsla þeirra þekking og viska er lítils metin og rándýrir merkimiðar geta engu bjargað?
Tek það fram að ég get tekið helling af þessu öllu saman beint til mín. Og þessar línur eiga heldur ekki að vera dómur á einstaklinga heldur frekar íhugun um þjóðfélagsgerðina sem við búum við í dag eins og ég sé hana, en kannski er ég bara pirruð heldri kona sem sé bara það sem glatast hefur á leiðinni en ekki það sem áunnist hefur og er gott. það er bara alls ekki útilokað
Líklega skrifaði ég þennan pistil vegna þess að hann á að vera hálfgert ákall til okkar allra um að við vöknum upp af værðarsvefni okkar og séum bara góð við hvert annað á meðan við erum hér og séum í samskiptum. Að við skoðum forgangsröð okkar og eins að skoða hvað það er sem gefur hina raunverulegu hamingju.
Og kannski á hann að vera ákall til okkar allra um að meta hvert annað meira en dauða hluti, og líklega er ég að biðja okkur um að virða reynslu og visku þeirra sem eldri eru og í raun að virða alla óháð stétt og stöðu.
Ákall um að við gefum af okkur andlega og veraldlega til þeirra sem þess þurfa með, og beiðni um að við hættum að meiða hvert annað, hunsa og hæða.
Mín einlæga trú er sú að með því að vera góð við hvert annað og að vera í nánum samskiptum hvert við annað mætti minnka vanlíðan og sjálfsskaðandi hegðun verulega og því hvet ég okkur öll til þess að leggja okkur fram við að gefa samfélagi okkar, fjölskyldu og vinum kærleika okkar,viðveru og athygli.
Í Bók bókanna má finna þetta vers um kærleikann:
Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður. Kærleikurinn öfundar ekki. Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp. Hann hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin, hann reiðist ekki, er ekki langrækinn. Hann gleðst ekki yfir óréttvísinni, en samgleðst sannleikanum. Hann breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt. Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi.
Allt það besta og fallegasta sem lífið hefur uppá að bjóða finnum við ekki í dauðum hlutum, stórum húsum eða flottum bílum.
Við finnum það fallega í gefandi hjörtum sem full eru af löngun til að bæta heiminn. Við finnum það í gleðinni og hlátrinum, samskiptunum og andlegum snertingum manna á milli. Við finnum það besta í hjörtum sem hafa kærleika og visku til að gefa inn í aðstæður og til huggunar er erfiðleikar lífsins banka uppá hjá samferðafólkinu. Segjum eins og Sævar Karl sagði hér um árið, "ég hef einfaldan smekk, ég vel aðeins það besta"
En núna skal sú gamla hætta þessu neikvæðnistuði og fara sjálf að gera það sem hún getur gert til að bæta heiminn og ég lofa ykkur því að sjá heiminn bjartari augum í næsta pistli(og hætta að tuða)
Þar til næst elskurnar
Xxx
Ykkar Linda
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.9.2016 | 00:06
Hugleiðingar Lindu: Happily ever after
Ég rakst á gamlan pistil sem ég skrifaði og fannst alveg tilvalið að birta hann hér en í smá breyttri útgáfu. Held að það sé gott að svona pistlar birtist aftur og aftur því að það eru einfaldlega svo margir sem standa með hjónaböndin sín eða sambönd á einhverjum krossgötum og vita í raun ekki hvaða lausnir eru til að bæta og laga það sem ekki er svo gott í sambandinu.
Í þessum pistli mínum var ég semsagt að velta því fyrir mér hvaða leyniuppskrift þurfi til að parasambönd nái að ganga vel ár eftir ár eða jafnvel áratug eftir áratug og ég held að ég sé búin að fatta það
En hvað er einhleyp 55 ára kona sem á tvenn sambönd að baki að fara að segja hinum hvernig á að láta sambönd ganga vel
Réttmætt vantraust
En kannski get ég það einfaldlega vegna þess að ég er búin að læra af reynslunni og veit hvað það er sem gerir sambönd vonlaus og þar af leiðandi hlýtur þá andstæðan við það sem gerir þau vonlaus að vera leyniuppskriftin.
Til dæmis ef að við breytum frá,
Framhjáhaldi og lygum yfir í Trúnað og sannleika
Þetta er grunnefnið sem við þurfum að hafa í miklu magni inní sambandinu því að það er bara algjört möst í uppskriftinni að happily ever after. Alveg bannað að daðra á netinu og skrá sig á Tinder. Ef þú treystir þér ekki til að vera trú og finnst þú þurfa að fara á bak við maka þinn, þá eru stoðir sambandsins brostnar og hvorugum aðilanum gerður greiði með því að vera inni í slíkum samböndum Við höfum ekki leyfi til að taka einhver ár af lífi annarrar manneskju og láta hana lifa í blekkingu. Svo ef þetta er grunnurinn þá farðu bara út úr sambandinu.
Vantrausti yfir í Traust
Ef vantraust er mikið og afbrýðisemi án ástæðu er mikil, þá er ekkert sem eyðileggur eins mikið gleðina sem ætti að vera til staðar í sambandi karls og konu. Sum okkar koma brennd úr fyrri samböndum og jafnvel uppeldi, og treystum öðrum ekki svo vel fyrir okkur. En treystum bara þar til annað kemur í ljós og leyfum ekki okkar öryggisleysi að rústa annars góðu sambandi. Svo pössum okkur á vantraustinu. Það þarf mikið af trausti til að halda uppskriftinni okkar í lagi.
Óvináttu yfir í Vináttu
Þriðja grunnefnið sem við ættum að hafa í miklu magni er vináttan. Ef stríðsástand er viðvarandi og rifrildi og pirringur hluti af daglegu samskiptamynstri, þá er hætt við að hamingjustuðull sambandsins verði fljótur að falla og allt það sem búið var að byggja upp í sambandinu verði að engu. Í góðu sambandi er maki þinn besti vinur þinn.
Þögn yfir í Samskipti
Þegar þögn er beitt sem stjórntæki eða þar sem fólk tjáir sig ekki um það sem að er í sambandinu verður til heill heimur í hugum makanna. Heimur sem er búinn til útfrá túlkunum heilans á svipbrigðum, tóntegundum og því sem þeir halda að hinn aðilinn vilji eða sé að meina, sem þó er ótrúlega oft ekki það sem hann vildi eða meinti. En bestu vinir tjá sig og geta talað um allt sama hvort það er þægilegt, særandi eða gleðilegt. Samskiptin eru alltaf best þegar allt er uppi á borðum og allir vita hvað eða hvort þeir hafa sagt eða gert eitthvað sem særir eða gleður. Svo notum tjáningu og virka hlustun í uppskriftina okkar alla daga.
Stjórnsemi yfir í Frelsi
Stjórnsemi í samböndum er töluvert algeng og andlegt ofbeldi því miður oft beitt til eyðileggingar á sambandinu og ekki síður á persónuleika þess sem fyrir því verður, og ef þér sem þetta lest finnst þú sífellt þurfa að halda friðinn og finnst eins og þú sért að ganga á eggjaskurn alla daga og reyna að brjóta hana ekki, þá er líklegt að þú búir við andlega stjórnsemi og ofbeldi. En í samböndum þar sem hamingjan býr er þessu ekki beitt. Þar fær hvor aðilinn um sig að vaxa og dafna í frjálsu umhverfi þar sem ýtt er undir hæfileika hans og hann metinn að verðleikum alltaf, öllum stundum og andlegt ofbeldi eða annað ofbeldi passar aldrei inn í hamingjuuppskriftina. Aldrei!
Niðurbroti yfir í Uppbyggingu
Í samböndum þar sem niðurbroti er beitt, upplifir makinn sig sem ómögulegan og varla færan um neitt, þar er ekki mikið um hrós og hvatningu, en útásetningar algengar og ekki tekið eftir styrkleikum makans. En í samböndum þar sem uppbygging á sér stað, þar eru hrós og viðurkenningar hluti af daglegu lífi makanna og hvatt til uppbyggingar á því sem makinn hefur áhuga á að upplifa og prófa. Þar er stuðningur vís í öllum aðstæðum lífsins í sorg og í gleði og makinn alltaf samþykktur skilyrðislaust. Gott hráefni í allar samskiptauppskriftir.
Togstreitu yfir í Samvinnu
Þar sem sem sífelld togstreita er um hlutina og ósamkomulag um flest það sem lýtur að starfshæfni heimilisins og sambandsins, þar getur hamingjan ekki þrifist svo einfalt er það. Hverjum líður vel í þannig umhverfi? En hinsvegar líður öllum vel þar sem samvinnan blómstrar og báðir aðilar ákveða í sameiningu það sem fram fer í sambandinu, gleðin við sköpunina á sameiginlegu lífi verður báðum aðilum til gleði og hamingju og styrkir stoðir sambandsins. Gott krydd í uppskriftina okkar.
Óreglu yfir í Reglu og ábyrgð
Þar sem óreglan ræður ríkjum er sambandinu hætt við skemmdum og dauða, þar verður til sorg, ofbeldi, meðvirkni, niðurbrot og öll hamingjan fýkur út um gluggann eins og hendi sé veifað. Þessi sambönd verða báðum aðilum til sorgar og ég tala ekki um ef að börn eru komin til sögunnar. þá verður sorgin og skemmdin margföld. Enginn ætti að bjóða sér uppá að vera í samböndum af þessu tagi, og ég hvet þá sem í slíkum samböndum eru til að leita sér tafarlaust hjálpar. Alanon og SÁÁ bjóða uppá aðstoð til þess og hafa hjálpað mörgum á þessum eyðandi vegi. Stígamót og Kvennaathvarf hjálpa einnig þar sem brotið er á börnum og konum með misnotkun og ofbeldi. Ekki bíða með að leita þér hjálpar ef staðan þín er þessi. Þetta er dauðadómur hamingjunnar og á hvergi heima í uppskriftinni að happily ever after. En reglusemi og ábyrgð í samböndum er það sem límir sambandið saman og gefur því heildaryfirbragð öryggisins sem við leitum öll að, og setur svona punktinn yfir I-ið Nauðsynlegt hráefni sem lyftir sambandinu á æðra plan
En til að fullkomna góðu uppskriftina að happily ever after þá þurfum við eftirtalin krydd til að fullkomna bragðið og áferðina: Töluvert dass af ástríðum og uppátækjasömu kynlífi og óvæntum rómantískum stundum, strokur, nánd og gjafir. Falleg orð og umhyggja eru síðan kryddin sem gera sambandið að því hamingjuríka ástandi sem gefur lífi okkar tilgang og lit.
Mætti þitt samband sem þetta lest svo sannarlega flokkast undir Happily ever after samband en ef eitthvað er ekki eins og það ætti að vera þá er þetta ágætis gátlisti sem þú getur farið yfir og kannski fundið eins og þrjár leiðir til að bæta uppskriftina að þínu sambandi. Ég er a.m.k.staðráðin í því að mitt næsta samband skal innihalda þessa góðu uppskrift sem ég bjó til hér að framan, og úr henni mun ég baka hamingjuhnallþóruna mína og glassúrskreyta hana með þakklæti fyrir að eiga slíkt samband.
Þar til næst elskurnar,
Ykkar Linda
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.9.2016 | 10:42
Hugleiðingar Lindu: Ertu góður vinur?
Ég hef verið að hugsa um vináttuna að undanförnu og þá kannski mest um það hvort að ég sé góður vinur vina minna og minn eigin besti vinur.
Ég veit að ég get svo sannarlega bætt mig á mörgum sviðum þar þó að ég sé miklu betri með það í dag en nokkru sinni áður.
En væri þér að líka vel við vináttu manneskju sem væri algjör eftirlíking af þér?
Ef að þessi klónun af þér væri í lífi þínu væri hún þá góður vinur? Væri hún góðhjörtuð, gjafmild og ástrík? Gæfi hún sér tíma og þolinmæði til að fjárfesta í vinskap ykkar? Liði þér vel í návist hennar? Kæmi hún þér til að hlæja? Hefðir þú áhuga á því að verja tíma með henni? Hefði hún góð áhrif á þig? Væri hún traust? Er hún til staðar á góðum tímum og slæmum?
Þetta eru atriði sem ég hef í huga þegar ég hugsa um það hvort að vinir mínir séu góðir vinir og eins hvort að ég sé nógu góður vinur fyrir þá. Ég er búin að gera mér grein fyrir því fyrir löngu síðan að það er fátt sem er dýrmætara en það að eiga góða og fallega innréttaða vini og það er töluverð vinna að halda þannig vinskap við ef hann á að endast um aldur og ævi.
En svo er kannski aðal spurningin þessi: Er ég minn eigin besti vinur, eða fell ég kannski illilega á því prófi?
Þegar að ég er minn besti vinur þá felur það í sér ýmislegt sem ég a.m.k. þyrfti að skoða betur hjá mér og ég reikna með því að þannig sé það með okkur mörg.
En til að byrja með er það alveg klárt að ef ég er minn besti vinur þá leyfi ekki ljóta og skaðandi framkomu við mig, ég leyfi ekki misnotkun á mér með nokkrum hætti og enginn fær að meiða mig.
Ég misbýð ekki gildum mínum og ég set mörk fyrir mig sjálfa og þá sem ég umgengst.
Ég geng fram í því að vera sem mest ég sjálf sama hvort að öðrum líki það eða ekki.
Ég nýt þess að vera til, og geri það sem gleður anda minn og sál. Í mínu tilviki væri það að annast fjölskylduna mína og gleðjast með henni, borða góðan mat og drekka góð vín í góðra vina hópi, fræða mig með lestri og áhorfi á fyrirlestra af ýmsum toga. Skrifa pistla eins og þennan og svo leyfi ég mér stundum að syngja undir stýri og dansa heima bara ef mig langar til þess.
Ég hugsa vel um mig andlega og líkamlega, ég hugleiði og bið, vel mér að dvelja í jákvæðni og vel vandlega þær hugsanir sem skapa mér vonarríka og bjarta framtíð. Ég á heima í nútíðinni en ekki í fortíð og framtíð og ég vel mér fæðu og hreyfingu sem nærir mig fallega. (þarf klárlega að bæta mig með þetta síðast talda)
Ég vel mér líka vini sem styrkja mig hvetja og standa mér við hlið í gleði og sorg.
Ég klappa mér á öxlina þegar vel gengur en strýk mér um vanga og segi að það gangi bara betur næst þegar mér gengur ekki svo vel eða þegar lífið bregst mér.
Ég leyfi mér að elska og að vera elskuð, leyfi mér að dvelja í viðkvæmni og stíg óstyrkum skrefum inn í óöryggið þar sem draumarnir mínir dvelja og sæki þá þangað.
Ég segi mér að ég eigi allt það góða skilið og að mér séu allir vegir færir.
Ég segi mér að ég sé nógu góð fyrir þennan heim á allan hátt, jafnvel líka fyrir Guð almáttugan og ég geri mitt besta til að sýna það kærleikseðli sem ég veit að býr innra með okkur öllum.
En þetta er ég og þær óskir sem ég hef varðandi vináttu mína við mig og aðra, en hverjar eru óskir þínar varðandi vináttusamböndin þín? Hvað værir þú að gera öðruvísi í dag ef þú tækir ákvörðun núna um að verða þinn besti vinur héðan í frá?
Ég hvet okkur öll til þess að dekra okkur svolítið, sjá að við eigum bara það góða skilið og dansa svo lífið á enda í besta félagsskap sem fáanlegur er, semsagt með okkur sjálfum og kannski örfáum öðrum sem uppfylla skilyrðin sem við setjum vináttunni.
Þar til næst elskurnar,
xoxo
Ykkar Linda
Samskiptaráðgjafi/lífsmarkþjálfi
linda@manngildi.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.8.2016 | 12:51
Hugleiðingar Lindu: Ég er eins og ég er!
Í tilefni af nýafstaðinni Gaypride hátíð þar sem fjölbreytileika mannlífsins og einstaklingsfrelsinu var fagnað og vegna hugsana sem kviknuðu hjá mér í gönguferðunum mínum í sumar þá ákvað ég að skrifa pistil um hversu mikilvægt það er að við séum bara það sem við erum og einfaldlega ekkert annað. "Hvað verður um mig ef það sem ég er er bölvað og bannað" eins og Palli okkar syngur um í laginu hér fyrir neðan.
Er það okkar svona yfir höfuð að setja merkimiða og leggja bölvanir (fyrirlitningu, dóma) á einstaklinga sem eru ekki eins og við teljum að þeir ættu að vera?
Við erum mörg okkar megnið af lífinu að leita eftir samþykki á persónu okkar og tilvist frá öðrum í kringum okkur og ef að við fáum það ekki hefur það í för með sér andlega vanlíðan fyrir mörg okkar, (been there, done that) Og hvernig líður einstaklingum sem eru ekki samþykktir eins og þeir eru?
Við þekkjum öll sögur af sjálfsvígstilraunum þeirra sem lenda í einelti og eru ekki samþykktir eins og þeir eru. Er það eitthvað sem við sem samfélag viljum sjá og hafa?
Mörg okkar miðum framkvæmdir okkar við álit og samþykki annarra og stígum þar af leiðandi sjaldan út fyrir samþykkta ramma samfélagsins og almenningsálitsins og erum lengur að verða það sem við raunverulega erum eða vorum sköpuð til að vera.
Í nokkrum af mínum göngutúrum í sumar skoðaði ég blómstrandi náttúruna og gerði það með öðrum hætti en oft áður. Ég horfði á tréin blómgast, sóleyjar spretta og fíflana breiða úr sér í kringum göngustígana og ég gerði merka uppgötvun að mínu mati a.m.k.
Ég tók semsagt eftir því að það eina sem allar þessar tegundir gerðu í raun var að njóta lífsins sem sumarið gaf þeim, teygja sig í átt til sólar og njóta þess að vera einfaldlega sú tegund sem hvert og eitt þeirra var. Sóleyjarnar horfðu ekki á tréið sem óx hærra í átt til sólarinnar (en þær hafa örugglega verið þakklátar fyrir skjólið sem það veitti þeim), og ég gat ekki betur séð en að tréin væru bara ánægð með að fá minni athygli en litskrúðug blómin. Öll náttúran lifði í samveru og samþykki hvers annars og ekkert þeirra reyndi að vera eitthvað annað en það sem það var og allir voru sáttir sýndist mér.
Við gætum líklega tekið náttúruna okkur til fyrirmyndar með þetta.
Verum bara það sem við erum og leyfum okkur að blómstra með öllum okkar yndislegu séreinkennum, skapgerð, útliti og hvað svo sem það er óháð því hvernig aðrir eru. Við verðum hvort sem er aldrei annað en léleg eftirlíking af þeim sem við erum að reyna að þóknast og líkjast, og hvað með það þó að einhver vilji ekki samþykkja okkur eins og við erum?
Eða kannski er betra að spyrja...skiptir það einhverju máli hvort að ég samþykki aðra eða að aðrir samþykki mig?
Ég held ekki...Þeir sem eiga að vera með okkur í lífinu taka okkur einfaldlega eins og við erum, og njóta þess að sjá okkur vaxa og blómstra en dæma ekki litatóna okkar né vöxt.
Við eigum öll okkar sögu og höfum okkar tilgang í lífinu. Hvernig við tökumst á við það gerum við öll eftir getu okkar og ástandi hverju sinni, og fáum líklega öll einkunn fyrir frammistöðuna á efsta degi, og því sé ég ekki tilgang fyrir mig a.m.k að vera að hafa áhyggjur af því hvort að merkimiðarnir þínir séu nógu góðir fyrir mig, og ég hef ekki áhyggjur af því hvort að mínir merkimiðar séu nógu góðir fyrir þig.
Á meðan að ég og þú sköðum ekki aðra með framkomu okkar og gjörðum heldur lifum í sátt við Guð og menn, þá ætla ég a.m.k.(og ég vona að þú gerir það líka sem þetta lest)að hafa það eins og gróðurinn í Gufunesinu mínu, einungis umfaðma það líf sem mér var gefið, vera ánægð með að vera ég nákvæmlega eins og ég er með öllu tilheyrandi, og segi eins og Palli, "hvernig á ég að vera eitthvað annað" en það sem ég er, eða þú eitthvað annað en það sem þú ert?
Látum ekki merkimiða og skoðanir fólks úti í bæ ákvarða hvort að við séum nógu góð og leitum ekki eftir samþykki þeirra sem hvort sem er eru ekkert meðetta frekar en við hin
Sýnum þess í stað hvort öðru kærleika, virðingu, skilning og samhygð.
Þar til næst elskurnar,
Xoxo
ykkar Linda
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.6.2016 | 20:45
Hugleiðingar Lindu: Ný kennitala óskast !
Í einhverja mánuði hef ég verið að skoða atvinnuauglýsingarnar í blöðum og á netinu þar sem ég er ein af þeim sem þarf alltaf að hafa öruggar tekjur með öllu hinu sem ég er að fást við. Og nú stend ég á tímamótum þar sem verkefnastjórastaða sú sem ég hef gegnt um langt bil leggst af. En viti menn, þegar ég skoða atvinnuauglýsingarnar sem ég hefði mestan áhuga á að sækja um og tel mig færa um að gegna eru þær fljótar að slá mig út af laginu með fyrstu setningunni sem ég rekst á í þeim hæfniskröfum sem gerðar eru þar, en það er þessi setning hér:
"háskólapróf sem nýtist í starfi"
Ég skil þessa setningu mjög illa sem skrifast líklega einungis á vöntun mína á þessu háskólaprófi sem talað er um þar, en ég taldi alltaf og tel enn að það hljóti að vera starfskrafturinn sjálfur sem þarf að nýtast í starfi en ekki prófin sem hann hefur tekið. Einnig þætti mér vænt um að sjá víðsýni í þessum auglýsingum eins og t.d. að sagt sé "menntun sem nýtist í starfi" því að svo sannarlega er urmull af fólki sem er vel menntað án þess þó að vera háskólamenntað.
Ég er afar hlynnt menntun og allskonar próftökum og tel alla menntun mikils virði hvort sem henni er skilað frá háskólum eða öðrum stofnunum, tel reyndar að við séum að læra allt okkar líf og tel einnig að við fáum sannarlega próftökur frá lífinu sjálfu af og til og það án aðkomu menntastofnana með nokkrum hætti. En gleymum okkur ekki í allri menntagleðinni og gefum gætur að því að það er margt annað sem sker úr um það hvort að einstaklingur sé hæfur í starfi eða ekki, og stundum er meiri reynslu að hafa hjá þeim sem aldrei hafa gert annað en bara það að "vinna" við þessi störf og hafa lært þau með þeim hætti án þess að geta sannað kunnáttu sína með vottun og stimpli fræðistofnana, hafa í besta falli meðmælabréf atvinnurekanda til að sanna þá þekkingu sína.
Og svona til að taka dæmi um að það er ekki alltaf prófskírteinið sem skiptir mestu máli þá get ég t.d. upplýst ykkur um það ef þið lofið að segja engum frá því að ég er sjálf með gamalt Navision bókhaldsnám (öll stigin) að baki sem ég skilaði alveg uppá einkunnina 10 og er ofkors sett á CV-ið mitt, en ég get svo sannrlega fullvissað ykkur um að ég væri gjörsamlega óhæf til að sinna störfum sem hafa með bókhald að gera þrátt fyrir þessa glæsilegu próftöku og skírteini sem staðfestir það!
Hinsvegar eru mjög mörg önnur störf sem ég treysti mér mjög vel til að starfa við án þess að hafa ákkúrat þetta blessaða háskólapróf uppá að bjóða sem allar atvinnuauglýsingar virðast hafa sett copy/paste á, og er með fína menntun á öðrum vettvangi en háskólans (reyndar er ég svosem með viðurkenningu frá endurmenntun HÍ uppá vasann) ásamt mikilli reynslu og þekkingu á hinum ýmsu sviðum.
Ég velti því alvarlega fyrir mér hversu margir frábærir starfskraftar fá ekki tækifæri á því að nýta þekkingu sína, menntun og kunnáttu sem þeir hafa öðlast þjóðfélaginu til heilla einungis vegna þessarar einu setningar ("háskólapróf sem nýtist í starfi") og flokkunarkerfunum a,b,c sem notuð eru í dag við val á starfsfólki víða, og svo vegna annars sem mig langar að tala um hér, semsé þessa handónýtu kennitölu sem við berum sem fæddumst um og eða rétt eftir miðja síðustu öld.
Það þykir víst fáum skrýtið að ég eða aðrir á mínum aldri séum ekki kölluð í atvinnuviðtöl þrátt fyrir að hafa sótt um urmul af störfum sem við teljum okkur fullfær um að gegna og það á tímum mikillar uppsveiflu á atvinnumarkaði, og við heyrum frá allt of mörgum eftirfarandi setningar,
"þú ert orðin of gömul/gamall til að fá vinnu í dag" og svo þessa hér "ungir stjórnendur vilja ekki hafa starfsmenn sem eru eldri og vitrari en þeir eru, því að það ógnar þeim og stöðu þeirra innan fyrirtækjanna"
Ég hreinlega neita að trúa að þetta sé svona þrátt fyrir það að ég viti svosem að við búum í þjóðfélagi æskuljómans, merkjavöru, allsnægta og annarra ytri gæða þar sem viska og reynsla lífsins er allt of lítils metin, en ég trúði því svo innilega og trúi enn að við sem erum rétt skriðin yfir fimmtugt séum enn gjaldgeng á vinnumarkaði og ekki dæmd úr leik.
En sorrý, þetta er víst veruleiki margra á mínum aldri í dag og mér þykir ótrúlega sárt að sjá þessa þróun verða á atvinnumarkaðnum og enn verra þykir mér að það þyki bara í lagi að afskrifa fólk frá lífinu á besta aldri, telst líklega til mannréttindabrota ef vel væri að gáð.
Ég get fullvissað alla þá sem um mannauðsmál fyrirtækja og stofnana sjá að fólk á mínum aldri er bara alls ekki svo slæmur kostur þegar að ráðningum kemur ef ekki bara sá allra besti sem völ er á, og það kæmi ykkur líklega á óvart hversu hæf mörg okkar erum í raun með og án háskólaprófa.
Við erum að mestu laus við dramað, baktalið, dómhörkuna og vitum hver við erum svona yfirleitt. Erum ekki á nálum um það hvað aðrir segja um okkur eða finnst um okkur. Við erum ekki með veik börn heima sem við getum ekki mætt í vinnu útaf og erum bara svo stútfull af reynslu, samviskusemi og þekkingu eftir allar próftökur lífsins að leitun er líklega að öðru eins og erum líklega líka orðin afar fær í samskiptum við annað fólk. Erum eftir próftökur lífsins hreinlega hokin af visku og þekkingu sem unga fólkið ætti að umfaðma og drekka í sig og læra af í stað þess að hafna alfarið og afskrifa.
En í ljósi þess að ég og mínir jafnaldrar erum líklega ekki gjaldgeng lengur á vinnumarkaði og vegna þess að "háksólapróf sem nýtist í starfi" er tekið fram yfir þekkingu okkar og reynslu ásamt annarri menntun sem ekki tilheyrir háskóla ætla ég a.m.k. að fá að sækja formlega um nýja og nothæfari kennitölu. Kennitölu sem hæfir mér kannski líka bara betur, því að þrátt fyrir árin 55 finnst mér ég vera töluvert yngri en börnin mín og orkan mín og jákvæðni, lausnarmiðaða viðhorfið ásamt óþrjótandi metnaði hefur sjaldan eða aldrei verið meiri og ég teldi hvern þann aðila sem fengi mig til starfa afar heppinn og lánsaman og ég veit að það sama á við um marga á mínum aldri.
En nú ætla ég að hætta þessu rausi í bili og segi bara:
Knús í ykkar hús elskurnar frá þeirri afskrifuðu sem hefur þó ekki sagt sitt síðasta :)
xoxo
Ykkar Linda
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.5.2016 | 21:15
Hugleiðingar Lindu: Systur stöndum saman!
Mér var boðið að tala á kvennaráðstefnu um daginn og ákvað í framhaldi af því að birta eitthvað af því sem ég talaði um þar í pistli hér. Reyndar er eitthvað af því sem er skrifað hér tekið úr pistli sem ég skrifaði í fyrra en hefur nú fengið framhald sitt hér.
Ég ætla að byrja á orðum sem ég sá á netinu.
Systur eru Þær:
sem fá fötin okkar lánuð,
stela makeupinu frá okkur,
geyma leyndarmálin okkar ,
eru stundum svarnir óvinir okkar en oftast samt okkar bestu vinir .
Blaðra endalaust um allt og ekkert tímunum saman,
Þær eru flottar, sætar, stjórnsamar, kjánalegar, pirraðar
rífast stundum yfir engu,
upplifa draumana saman og styðja hvor aðra í að ná þeim,
þær geta verið algjör hausverkur, óþolandi, prinsessur.
en,
ég elska þær, sakna þeirra, stríði þeim, knúsa þær, hugsa til þeirra því að þær eru fjölskylda mín og þær skipta mig afar miklu máli,
Hvar væri ég án þeirra?
Ég hef svo sannarlega fengið að kynnast því hversu dýrmætt það er að eiga sér systur en samt á ég engin blóðsystkini :)
Ég ólst upp úti á landi og þó að ég væri einkabarn var ég umkringd systradætrum mömmu og þær voru kannski fyrstu systurnar sem ég átti.
Ég tók við fötunum af þeim þegar þau voru orðin of lítil á þær, ég lærði að verða skvísa af þeim og ég lærði líka ýmsa ósiði af þeim. Að standa úti í sjoppu með einni þeirra á táningsárunum púandi síkarettur og alveg örugglega með augnskugga upp um allt var eitt af því sem ekki var svo smart að læra,en mér þótti ógnar vænt um þær og við áttum yndisleg samskipti og vináttu í hinum ýmsu aðstæðum.
En ég hef fengið að kynnast fleiri systrum á lífsleiðinni og tel það svo sannarlega vera mín forréttindi að hafa átt margar og góðar systur í vinkonum mínum og öðrum konum sem ég hef kynnst, því að það hafa verið þær sem hafa stutt mig, annast og lyft mér upp þegar ég hef legið í dalnum og lífið hefur verið ósanngjarnt og vont að mínu mati. Á þeim stundum hafa það verið systur mínar sem hafa lagt það á sig að gefa mér tíma, þær hafa myndað múra í kringum mig, stutt mig, beðið fyrir mér, annast mig og gefið mér orð til uppbyggingar þegar ég er á hnjánum og á ekki von á því að lífið hafi uppá neitt að bjóða. Þær hafa fært mér súpuna þegar ég hef legið veik, barist fyrir mig þegar óvinir hafa ásótt mig og þegar ég er einmanna er ekkert betra en símtal eða heimsókn frá einhverri af mínum systrum.
Engin okkar kemur með manual með sér hingað og allar gerum við mistök á þessari leið...En það veit Guð að þær systur sem ég hef fengið að kynnast eiga flestar svo fallegan og dýrmætan kærleikskjarna sem þær eru í flestum tilfellum óhræddar við að deila með öðrum og eru bara svo stórkostlegar og sterkar að mínu mati.
Ég hreinlega elska það að geta hjálpað systrum mínum að finna lífsfarveg sem þær vilja ganga, að breyta gömlum og úreltum gildum til að ná á draumastaðina sem þær svo sannarlega eiga skilið að fá að ná í gefur mér gleði og ánægju, og að hjálpa konum að rísa upp frá stað veikleikans til staðs styrkleika í lífum sínum veitir mér sérstaka ánægju verð ég að segja.
Ég hef sem betur fer fengið mörg tækifæri til þess að sjá systur mínar vakna til vitundar um virði sitt og séð þær fara frá skömm til sjálfsvirðingar. Ég hef líka séð systur mínar vaxa frá vondum samböndum og verða sterkari en nokkru sinni fyrr. Ég hef séð þær sömu systur verða öðrum til blessunar, hvatningar og stuðnings eftir það, og fátt gleður mitt markþjálfahjarta meira en það.
En í fyrra fékk ég svo upphringingu sem gaf orðinu systir allt aðra og dýpri þýðingu en ég hefði getað ímyndað mér að þetta orð gæti haft
Þessi upphringing var frá æskuvinkonu minni sem er búin að vera með mér á þessari vegferð í tæp 50 ár núna eða frá því að við byrjuðum í skóla. Þetta símtal hljómaði eitthvað á þessa leið...Hæ elskan, ætlaði bara að láta þig vita hvað kom út úr læknisrannsókninni sem ég fór í...þeir fundu æxli í nýranu´á mér og það á að fjarlægja það í næstu viku
Svo sannarlega ekki símtalið sem mig langaði að fá, og ekki þær fréttir sem þessi systir mín hefði átt að fá að mínu mati. Þessi yndislega vera sem var búin að fá svo mörg lífsverkefni upp í hendurnar átti bara skilið glimmer og gleði lífsins það sem eftir væri, og það átti svo sannarlega að vera löng ævi sem framundan væri.
Við áttum eftir að gera svo margt saman og það allt rann fram í huga minn á þessari stundu og mér fannst Guð ekki sanngjarn ákkúrat þarna.
En eins og alltaf hef ég séð að allt, ekki bara sumt samverkar okkur til góðs og einnig í þessum aðstæðum gerðist það.
Þetta varð wakeup call bæði fyrir hana og fyrir mig.
Og sem betur fer virðist hún ætla að sleppa vel eða ég krossa amk putta og vona að hún fái áframhaldandi fallegar fréttir úr rannsóknum þeim sem hún fer í ...en lærdómurinn sem þetta færði okkur er líklega ómetanlegur...Við lærðum hvað orðið systir táknaði
Við gátum í fyrsta sinn grátið saman og sagt hvorri annarri hversu heitt við elskuðum hvor aðra þó að við hefðum svosem grátið saman við hin ýmsu tækifæri þá grétum við þarna vegna þess að að við vissum hversu dýrmæta og fallega vináttu við áttum, og eins höfðum við ekki talað mikið um það hversu mikið við mátum hvor aðra og hversu mikla virðingu við bárum fyrir hvor annarri,hversu mikils virði öll þessi ár hefðu verið fyrir okkur báðar.
En þarna fundum við að við höfðum staðið vörð um hvor aðra öll þessi ár og verið til staðar.
Mér þótti svo vænt um þegar hún í eitt skiptið eftir að við höfðum opnað okkur svona djúpt sagði við mig orð sem fengu hjarta mitt til að falla saman af auðmýkt...en þá sagði hún. ég horfði á þig tala upp á sviði um daginn og ég fann hvað ég varð ofboðslega stolt af þér og hversu heitt ég elskaði þig þessum orðum mun ég seint gleyma vegna þess að þau glöddu mig svo afar mikið, þau voru svo einlæg að ég gat ekki annað en fundið fyrir auðmýkt þess sem veit að hann er umvafinn kærleika...Þannig kærleika geta líklega einungis systur sem farið hafa saman langa vegferð gefið hver annarri.
Við höfðum brallað margt saman þegar við vorum yngri, og við eigum óteljandi margar minningar frá misgáfuðum stundum. Vorum í skóla saman, unnum saman í fiskinum öll unglingsárin, hörkuduglegar báðar tvær. Fermdumst saman, hlógum þessi lifandis ósköp í þeirri athöfn og urðum foreldrum okkar líklega til skammar. Fórum saman í útilegurnar í Atlavík, Reykjavíkurferðirnar og vorum saman öllum stundum. Rifumst og töluðumst ekki við í einhverja daga, en alltaf fundum við lausn á þeim málum. Eignuðumst börn og mann á svipuðum tíma og vorum saman í saumaklúbb. Ekki hefur þetta breyst eftir að við fullorðnuðumst, við eigum ennþá þessa fallegu vináttu sem ekkert fær haggað.
Ég var viðstödd tvær fæðingar hjá henni, var skírnarvottur barna hennar, en fylgdi því miður elsta barni hennar til grafar, einnig þar vorum við saman og tókumst á við það í sameiningu.
Ég var einnig við hlið hennar þegar hún tók þá ákvörðun að fyrirgefa manni þeim sem varð valdur að dauða sonar hennar og þar kom best í ljós hvaða karakter þessi fallega og yndislega systir bjó yfir.
Ég gleymi ekki orðum hennar þegar hún sagði við mig eftir að hafa tekið utan um mann þennan Það var svo gott að finna hvað hann átti til blítt faðmlag voru þau orð. Orðið fyrirgefning fékk algjörlega nýja merkingu í mínum huga eftir þessa stund.
Við höfum einfaldlega gengið í gegnum þetta líf saman í einingu og kærleika og erum í dag eins og gömul hjón. Við getum setið saman heilu kvöldstundirnar án þess að segja orð, nærveran okkur einfaldlega nægjanleg. Hún veit mín leyndarmál og ég hennar, hún veit oft hvernig mér líður án þess að ég þurfi að segja orð, og ég veit líka ef eitthvað er ekki eins og það á að vera hjá henni. Hún veit hvað mér þykir gott að borða góðan mat og dekrar mig oft þar. Hún veit líka að vöðvabólgan er oft að drepa mig, og hún nuddar háls minn og herðar og þekkir öll mín aumustu svæði án þess að ég þurfi að segja henni hvar þau eru. Ég veit líka hvernig ég gleð hana mest og best og veit að fátt gleður hana meira en að fá að vita að hún sé mér afar kær og að ég muni aldrei yfirgefa vináttu okkar sama hvert lífið leiðir mig.
Hún hefur verið vitni að mínu lífi og ég að hennar. Vinátta sem mun aldrei slitna og verður til staðar í gleði okkar og sorg.
Sorgin sem ég fann fyrir þegar ég fékk þetta símtal var einmitt vegna þess að það er svo sárt að vera minntur á að þeir sem við höfum haft sem vitni að lífum okkar og við höfum elskað, verða kannski ekki alltaf til staðar til að vitna það. Dauðleiki okkar sjálfra verður einnig svo raunverulegur á þessum stundum.
Að gleðjast saman, gráta saman, vera saman, standa saman og mynda einingakeðju þegar stormurinn geisar og vefja með öllu þessu keðju minninga sem verður svo dýrmæt að ekkert fær hana rofið, ekki einu sinni dauðinn sjálfur er gjörsamlega ómetanlegt að mínu mati.
Ég hugsa að það séu margir sem eiga auðvelt með að skilja hvað ég er að tala um og finni jafnvel hryggð í hjarta sínu við orð mín.
En við getum svo sannarlega glaðst ef við eignumst þó ekki sé nema eina slíka systur á lífsveginum því að þetta er dýrmæt lífsgjöf sem ber að meta með gleðina að mælistiku.
Systrasamband er dýrmætara en flest annað. Og það er kærleikur ykkar til hverrar annarrar sem gefur lífinu svo sannarlega að miklum hluta gildi sitt og virði.
Ég óska ykkur elsku systur gleði, glimmers og brilliant stunda þar sem þið finnið lífstilgang ykkar og ykkar einstaka hlutverk, ykkur og öðrum til gagns og hamingju.
xoxo
Ykkar Linda
linda@manngildi.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.5.2016 | 15:21
Hugleiðingar Lindu: Afhverju var Jón Gnarr með varalitinn?
Í viðtalinu Hryðjuverkamaður í karlaveldinu sem birtist í tímaritinu "Byltíngur" tímariti heimspekinema við Háskóla Íslands, talar Jón Gnarr um upplifun sína af því að vera karlmaður með mjög kvenlægan heila, og á vissan hátt kelling í karlmannslíkama.
Mér fannst þetta viðtal afar áhugavert, hugleiddi það um stund og ákvað að það ætti kannski vel heima hér í pistlunum mínum, þó að þetta séu ekki mínar eigin hugleiðingar þá fékk ég í raun nýja sýn á Jón Gnarr verð ég að segja, þannig að ég fór af stað og fékk góðfúslegt leyfi til að taka valda kafla úr viðtalinu til að birta. Ekki er nóg með að Jón Gnarr sé í liði með okkur konum í okkar endalausu baráttu við karlaveldið og æskudýrkun þjóðfélagsins heldur telur hann einnig að góð samskipti séu það sem mestu máli skiptir í dag, og ein af hans uppáhaldsmanneskjum er sjálf Oprah Winfrey sem er einnig í miklum metum hjá mér.
En snúum okkur að viðtalsbrotunum (ekki kannski alltaf það orðaleg sem ég nota hér í mínu bloggi, en svona erum við misjöfn):)
Ég lít út eins og þeir, segir Jón. Ég er með typpi eins og þeir og ég labba frjálst á meðal þeirra. Ég get smeygt mér inn á milli þeirra, því ég er einn af þeim. Og þeir kinka kolli, eins og dyraverðirnir, skilurðu? Og afþví að ég hef karlmannsrödd, þá hlusta þeir þegar ég tala, sem þeir myndu ekki gera ef ég væri kona. Svo fer ég og kem mér fyrir einhvers staðar á stað sem þeim finnst merkilegur og ég afhelga hann. Ég nota sjálfan mig sem persónugerving karlmennsku, eða hins karllæga valds, sem mér finnst ofsalega gaman. Georg Bjarnfreðarson er persónugervingur karlægs valds og ég ridiculea það. Maður gerir það aldrei betur en með því að kvengera það, því að niðurlægingin getur ekki orðið meiri. Þú getur verið vitlaus og þú getur ekki vitað hluti og svona, sem mér finnst ógeðslega gaman. Ég sit sem borgarstjóri í Reykjavík og ef ég er spurður að einhverju og ég veit það ekki, viðurkenni ég það. Það er ekki bara ég, einstaklingurinn, sem er að viðurkenna það. Ég er fulltrúi karlaveldisins. Það fer ekki eins í taugarnar á konum. Konum finnst það bara sætt, eða flestum konum finnst þetta bara krúttlegt, að sjá menn viðurkenna að þeir skilji ekki allt og viti ekki allt. Þær eru bara vanari hinu. En þeir sem munu hrökkva við eru hinir, skilurðu? Hvernig getur þetta gerst? Hverju breytir þetta fyrir mig? Hættir fólk nú að taka mark á mér? og alls konar svona. En þegar þú tekur það síðan upp að klæða þig í kvenmannsföt og actually verða, líkamnast sem kona, þá fullkomnar þú niðurlæginguna. Þannig lýsir Jón ástæðum þess að hann mætti oft varalitaður á borgarstjórnarfundi, stundum naglalakkaður líka, þegar hann var borgarstjóri, en útskýrir síðan að persónulegri ástæður hafi einnig búið þar að baki.
Og þetta er líka svolítið tengt mér, svona persónulega, afþví að mamma mín dó bara rétt eftir að ég varð borgarstjóri, segir Jón. Hún dó bara á jólunum, fyrstu jólunum. Og það sem ég vildi fá eftir mömmu mína var öskubakkinn hennar og varaliturinn hennar. Þannig að ég hafði engan tíma til að, þú veist, einhvern veginn sygrja mömmu mína, nema bara on the side á meðan maður var að búa til fjárhagsáætlun eða mæta á einhverja leiðinlega fundi með einhverjum íþróttafélögum eða láta eitthvað fólk öskra á sig. Þannig að ég syrgði mömmu bara, eða tók bara mómentin mín inni á klósetti eða bara lítið breik heima áður en ég fór að sofa. Ég bara tók þetta út í smá skömmtum. Ég fann líka fyrir því að það voru ákveðin öfl sem vildu nota þetta gegn mér. Jón útskýrir að ákveðnir aðilar úr hópi andstæðinga hans hafi ætlað sér að nýta tækifærið til að brjóta hann niður kerfisbundið. Og á tímabili þá notaði ég varalitinn hennar mömmu, segir Jón. Ég mætti á fundi, sem sagt, með íþróttafélögum og svona. Líka til að mótmæla að þið eruð að taka frá mér að fá að syrgja mömmu mína. Þannig að ég var að reagera gegn því.
Jón segir samfélagið þjakað af karllægum hugsunarhætti. Konur og allt sem samfélagið tengir því kvenlæga er vanvirt. Þegar kona talar á fundi, segir Jón, dettur hlustun niður um 50-60%. Jón tekur tískuna sem dæmi. Afþví að hún er kvenlæg er tískan álitin ómerkileg, en í raun og veru er tískan merkileg og getur jafnvel bjargað mannslífum. Máli sínu til stuðnings vitnar Jón í sögu úr dagbók bresks hermanns frá því í seinni heimsstyrjöldinni. Það varð misskilningur og það kom flutningabíll með varaliti í staðinn fyrir mat, segir Jón. Þetta er úr dagbók hermanns, bresks hermanns, sem var þarna. Fyrstu viðbrögð voru vonbrigði hermannanna að sjá að það hefðu orðið einhver mistök. En viðbrögð fanganna, sérstaklega kvenfanganna, voru gleði, og þær hlupu til og náðu í varalit. Varalitur var ekki bara, sem sagt, eitthvað til að punta sig. Konurnar blóðguðu sig og báru á varirnar til að sýna að þær væru hraustar og gætu unnið og færu ekki í gasklefann. Skilurðu? Það gefur varalit allt í einu nýja, merkilega merkingu. Þær nudduðu blóði á varirnar, þannig að: Sko, ég er hraust, það þarf enginn að drepa mig. Hann lýsir þessu fallega, hvernig þær öðlast mennskuna sína aftur í gegnum þá.
Já tískan getur greinilega stundum bjargað mannslífum og svo sannarlega veit ég að við finnum oft mennskuna okkar í gegnum hana og speglum oft þá persónueiginleika með tískunni sem við viljum svo gjarnan að fólk sjái að við höfum til að bera. Mér leið eins og að við konur ættum kannski okkar dyggasta bandamann í Jóni Gnarr þegar ég las þessi orð hans hér á undan.
En aftur að viðtalinu og tali um tísku og Oprah Winfrey:
Jón segir samfélagið eiga í einkennilegu sambandi við tískuna: Við lítum niður á það sem er kvenlegt. Svo skömmust við okkur fyrir það. Þannig að við snobbum fyrir því í staðinn. Sérstaklega ef það hefur náð að establishera sig og það er líka ekki alveg alslæmt. Það er líka hluti af einhverju svona heilunarferli. Sjálfur segist Jón bera mikla virðingu fyrir tískunni og gengur svo langt að segja að tískan hafi breytt sér. Hann heldur mikið upp á fatahönnuðinum Vivienne Westwood sem honum finnst meiri pönkari heldur en John Lyndon og söngvararnir í Sex Pistols. Jóns Gnarr segir að draumakvöldverðurinn sinn væri með Vivienne Westwood og Oprah Winfrey, sem er sú manneskja sem hann langar mest að hitta af öllum. Ég held að ég myndi næstum því fara að grenja, ég yrði svo stoltur, segir Jón. Því að Oprah Winfrey er kona í landi sem er andsnúið konum, svört í landi sem er andsnúið svörtum, feit í landi sem fyrirlítur feitt fólk og hún er samt sú sem hún er. Hún fer í gegnum allt sitt. Hún fer í gegnum fátækt, ofbeldi og mismunun, en hún kemst heil í gegnum það. Mér finnst það bara stórkostlegt. Þannig að ég ber mikla virðingu fyrir henni og ég myndi til dæmis vilja að hún yrði forseti Bandaríkjanna, segir hann. Honum finnst það virðingarleysi sem Oprah Winfrey er stundum sýnt gott dæmi um kvenfyrirlitningu samfélagsins."
Að lokum ætla ég að enda þessi innihaldsríku viðtalsbrot með orðum Jóns Gnarr varðandi samskipti og mikilvægi þeirra:
"Að vera sterkur skiptir ekki eins miklu máli lengur. Nú skiptir meira máli að vera klár og það sem skiptir mestu er að vera klár í samskiptum. Það er það sem konur hafa svo gjarnan fram yfir menn.
Þarna get ég ekki verið meira sammála Jóni Gnarr, klárlega eru samskipti það sem mestu máli skipta í því alþjóðlega umhverfi og fjölmenningasamfélagi sem við búum við í dag. Við þurfum að kunna að mæta öllum á jafningjagrunni án fordóma og hverskonar fyrirdæminga. Náungakærleikurinn líklega sjaldan eins mikilvægur og einmitt í dag.
Knús í ykkar hús með von um að þið hafið haft gaman af því að kynnast Jóni Gnarr á örlítið annan hátt en áður, eða kannski er það bara ég sem var að því :)
xoxo
Ykkar Linda
(Viðtalið Hryðjuverkamaður í karlaveldinu í heild má lesa hér: https://issuu.com/byltingur
Ps.Myndinni hér að ofan nappaði ég af facebooksíðu Jóns.
Bloggar | Breytt 12.5.2016 kl. 13:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.5.2016 | 15:01
Hugleiðingar Lindu: Minningar
Það er með einhverjum hætti þannig að þegar maður eldist fara minningar og myndir að skipta meira máli en margt annað. (Tek það fram að ég er samt bara á miðjum aldri og finnst ég ekki vera deginum eldri en 25)
Fjölskylda mín og vinir eru dugleg að segja mér að ég sé myndaóð og setji allt of margar myndir inn á fésbókina og á fleiri staði, en ég brosi bara út í annað og segi fátt, held mínu striki og myndirnar hrannast upp.
Málið er að ég hef upplifað á erfiðum köflum í lífi mínu að gleyma hinum og þessum minningum sem mér þykir afar sárt að hafa misst af harða diskinum mínum en þá koma myndirnar sér svo sannarlega vel.
Um daginn var ég að leita að ákveðinni mynd á fésbókinni og varð hugsað til þess á meðan ég fletti niður myndasíðuna mína að á dauðastund hefur fólk talað um að líf þess renni framhjá á örskotsstundu og þarna fannst mér ég skilja hvað átt er við þar.
Þarna leiftruðu fyrir framan mig gamlar og góðar minningar frá misgáfuðum stundum lífsins. Þarna var einnig misjafnlega innrætt og fallegt fólk sem allt hafði þó á einum eða öðrum tímapunkti snert við lífi mínu og mótað það með mér.
Allir sem inn í mitt líf hafa komið hafa kennt mér lexíur sem ég hef þurft að læra og allt hefur á endanum samverkað mér til góðs, þannig að þegar ég horfi eftir stíg minninganna get þakkað þeim hverjum og einum fyrir að hafa ofið með mér manneskjuna mig.
Þegar ég get þakkað fyrir hvern og einn sem snert hefur við lífi mínu kemst ég frá því að festast í neti reiði, biturleika og óuppgerðra tilfinninga sem ekkert gott gera mér, Hinsvegar gerir það mér gott að hugsa til þess að allir séu settir í minn veg með góðan tilgang fyrir líf mitt þegar heildarmynd jarðvistar minnar verður skoðuð á efsta degi.
En aftur að þessum blessuðu minningum og myndum...
Ég gat semsagt ekki annað en hlegið þegar ég skoðaði þessar blessuðu myndir á fésbókinni. Þarna voru misgáfaðar minningar festar á filmu og jafnvel gamlir kærastar og allskonar vinir sem höfðu gegnt miklu hlutverki í mínu lífi á einum eða öðrum tímapunkti spruttu þarna fram og kveiktu á hinum ýmsu tilfinningum hjá mér. Sumar tilfinningarnar voru afar ánægjulegar á meðan aðrar voru tengdar söknuði eða jafnvel sorg. En allar höfðu þær haft tilgang í að móta mitt líf og mig sem karakter.
Ég uppgötvaði á þessari myndaflettinga stundu að líklega er ekkert dýrmætara til en gamlar myndir og minningarnar sem þeim tengjast. Er afar þakklátt stelpuskott fyrir það að vera haldin þessu myndaæði og ætla að halda ótrauð áfram við myndasmíðina.
Og hver veit nema að mínir afkomendur hafi bara gaman af því að skoða lífsveg minn í framtíðinni :)
Ég hvet okkur öll til að varðveita minningarnar okkar og þakka fyrir þær hverja og eina, og þökkum einnig fyrir það fólk sem tengdist okkur böndum á einum eða öðrum tímapunkti í lífum okkar.
Gleðjumst bara yfir þeim góðu og slæmu lexíum sem gerðu okkur svona gasalega frábær, einstök og full af visku og þekkingu, en biðjum þeim blessunar sem við getum ekki enn sætt okkur við að hafi sært okkur eða gefið okkur bitrar lexíur.
Við breytum víst ekki neinu í fortíðinni því miður, en við getum svo sannarlega skapað okkur framtíð þar sem fortíðin er skilin eftir alein, gleymd og eða í fullri sátt, þar sem hún skemmir ekki flottu drauma framtíðarbygginguna okkar og við getum lifað happily ever after svona næstum því kannski :)
Knús í ykkar hús elskurnar,
xoxo
Ykkar Linda
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.4.2016 | 15:33
Hugleiðingar Lindu: Þín innri rödd
Flest ef ekki öll höfum við upplifað það að við eigum rödd í brjósti okkar sem reynir eftir fremsta megni að segja okkur ef eitthvað er að, eða ef við ættum að gera eitthvað öðruvísi en við erum að gera, ekki satt?
En veljum við að hlusta á þessa rödd?
Ég held að við neitum í allt of mörgum tilfellum að hlusta, stingum puttum í eyrun og lokum á allar tilfinningar okkar til að þurfa ekki að heyra það sem þessi rödd hefur að segja okkur.
því miður segi ég því að hún gæti svo oft komið okkur frá vondum stöðum eða einfaldlega hjálpað okkur til að ná árangri þeim sem við leitum að og það jafnvel mjög skjótt.
Algengasta hunsunin á þessari röddu er líklega sú að þegar við vitum að við erum ekki að gera rétt þá förum við í innri samræður við okkur sjálf og finnum þar allar réttlætingar heimsins gegn því sem röddin ráðleggur okkur að gera eða segja. Og "röddin" tapar í allt of mörgum tilfellum þessu stríði rökræðnanna.
Önnur algeng hunsun er líklega sú að við neitum að stíga inn í óttann okkar á leiðinni að árangri og finnum allar hugsanlegar afsakanir fyrir því að vera bara á þeim stað sem við erum stödd á hverju sinni. Afsakanirnar yfirgnæfa auðveldlega þessa "rödd" og enn á ný tapar hún. (Frestunaráráttan)
Þriðja hunsunin er oft sú að við hlustum ekki á þessa djúpu óróleikatilfinningu sem er samt oft svo hljóðlát að við heyrum varla í henni, en verðum vör við hana með smá fiðringi í maganum. Þessi fiðringur varar okkur oft við því að ekki er allt sem sýnist eða virðist. Við slökkvum á þessari tilfinningu allt of oft vegna þess að við finnum ekki rökin og sannanirnar sem gætu stutt við hana, en þessi fiðringur eða hljóðláta rödd er samt yfirleitt að segja okkur eitthvað mjög mikilvægt fyrir líf okkar og hún hefur yfirleitt rétt fyrir sér.
Notkun okkar á upplýsingum frá þessari innri röddu er í dag talin tengjast því sem við nefnum tilfinningagreind en sú greind er talin mjög mikilvæg ef góð samskipti eiga að eiga sér stað á milli manna og í samskiptum við okkur sjálf.
Ég heyrði reyndar einhvern tímann þá sögu að frumbyggjar Ástralíu sendu hvert öðru skilaboð með huganum og næmu þau í gegnum þessa innri röddu sína, hvort sem að sú saga er nú rétt eða ekki.
En hvað sem hægt er að segja um þessa innri rödd okkar er þó eitt sem er víst, það borgar sig fyrir okkur að setja fókus okkar á hana og fylgja því sem hún segir okkur, hún er okkar innra GPS tæki í gegnum lífið.
Og virk hlustun á þetta GPS tæki okkar hefur einhvern undramátt satt að segja, og þeir sem duglegastir eru að fylgja fyrirmælum hennar finna leiðir sem öðrum virðist ekki takast svo auðveldlega að finna -Þannig að -
USS USS - hlustum vel og vandlega og léttum okkur lífið og tilveruna með því að beita virkri hlustun á okkar innri rödd :)
Knús í ykkar hús
Ykkar Linda
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.3.2016 | 13:45
Hugleiðingar Lindu: Saga af sjálfstrausti
Sá þessa sögu á netinu og ákvað að snúa henni yfir á okkar ágæta tungumál og tel að hún eigi erindi til okkar allra.
Hlustum minna á fólkið í kringum okkur og hvað það vill segja um okkur, látum aðeins álit og orð þeirra sem færa okkur súpuna þegar við erum veik hafa áhrif á okkur þegar og ef við finnum að þau eru sanngjörn og rétt.
En hér kemur sagan:
Einu sinni fór ungur maður að hitta vitran mann og sagði við hann;
Ég er kominn til að leita ráða hjá þér vitri maður því að mér finnst ég verðlaus og mislukkaður og hef ekki lengur áhuga á því að lifa. Allir segja að ég sé mislukkaður á allan hátt svo ég bið þig Meistari, hjálpaðu mér!
Meistarinn leit á unga manninn og svaraði í flýti: Fyrirgefðu en ég er mjög upptekinn núna og get ekki hjálpað þér. Ég þarf að sinna mikilvægum erindum núna síðan stoppaði hann leit hugsandi á unga manninn og bætti við- en ef þú ert til í að aðstoða mig mun ég með glöðu geði launa þér greiðann á móti.
Auðvitað skal ég aðstoða þig sagði ungi maðurinn, feginn að Meistarinn treysti honum og afskrifaði hann ekki með öllu. Gott sagði vitri maðurinn og tók af fingri sér lítinn hring með fallegum glitrandi steini.
Taktu hestinn minn og farðu á markaðstorgið! Ég þarf að selja þennan hring sem fyrst til að geta greitt upp skuldir mínar. Reyndu að fá sanngjarnt verð fyrir hann og ekki sætta þig við neitt minna en gullmynt. Farðu núna strax og komdu eins fljótt til baka og þú getur.
Ungi maðurinn tók hringinn og hélt af stað. Þegar hann kom á markaðstorgið sýndi hann öllum kaupmönnunum hringinn en þeir sýndu honum lítinn áhuga. Og þegar þeir heyrðu að hann vildi fá gullmynt fyrir hann fóru sumir þeirra að hlæja og misstu allan áhuga. Einn kaupmaðurinn var þó nægjanlega kurteis til að útskýra fyrir honum að verð í gulli væri allt of hátt fyrir svona hring, og að það væri mun líklegra að hann gæti selt hann ef hann sætti sig við að fá kopar eða í mesta lagi silfurmynt fyrir hann.
Þegar ungi maðurinn heyrði þessi orð, komst hann í mikið uppnám vegna þess að hann mundi vel hvað vitri maðurinn hefði sagt varðandi söluverðið, gullmynt vildi hann og ekkert annað. Og þegar ungi maðurinn hafði þrætt allan markaðinn og fann ekki einn einasta kaupanda að hringum fór hann á bak hestinum og hélt af stað heim til vitra mannsins. Honum fannst hann gjörsamlega mislukkaður og leið hreint ekki vel að hafa ekki getað framkvæmt söluna.
Þegar hann hitti vitra manninn aftur sagði hann: Meistari, mér tókst ekki að framkvæma það sem þú baðst mig um. Í mesta lagi hefði ég getað fengið silfurmynt fyrir hringinn þrátt fyrir að þú segðir mér að sætta mig ekki við neitt minna en gullmynt en allir kaupmennirnir sögðu mér að hringurinn væri alls ekki svo mikils virði. Svo að ég er kominn til baka með hringinn óseldan.
Þetta er góður punktur sagði vitri maðurinn við unga manninn, við ættum auðvitað að láta meta hringinn áður en við seljum hann. Farðu og hittu gullsmiðinn og láttu hann meta verðgildi hringsins. En ekki selja honum hringinn sama hvað hann býður þér fyrir hann, komdu svo strax til baka til mín.
Ungi maðurinn tók hestinn og lagði aftur af stað og nú til gullsmiðsins. Gullsmiðurinn rannsakaði hringinn mjög vel undir smásjá og setti hann síðan á vogarskálarnar. Loksins eftir að hafa velt hringnum fyrir sér í langan tíma sneri hann sér að unga manninum og sagði:
Segðu meistara þínum að ég geti aðeins gefið honum 58 gullpeninga fyrir hann ákkúrat núna, en ef hann getur gefið mér aðeins lengri frest get ég borgað honum 70 gullpeninga fyrir hringinn.
70 gullpeninga?! át ungi maðurinn upp eftir honum og hló, þakkaði síðan gullsmiðnum fyrir og hraðaði sér til vitra mannsins. Þegar hann heyrði sögu unga mannsins af verðlagningunni sagði hann:
Mundu vinur minn að þú ert eins og þessi hringur. Dýrmætur og einstakur! En aðeins sérfræðingar geta metið verðgildi þitt réttilega. Svo hví ertu að reika um markaðinn og hlusta á skoðanir þeirra sem ekkert vit hafa á því hversu dýrmætur þú ert?
Góða helgi elskurnar
Xoxo
Ykkar Linda
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Linda Baldvinsdóttir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.2.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 6
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar